Print

Mál nr. 613/2013

Lykilorð
  • Sveitarfélög
  • Gjaldtaka
  • Þjónustugjald

                                     

Fimmtudaginn 6. febrúar 2014.

Nr. 613/2013.

Orkuveita Reykjavíkur

(Arnar Þór Stefánsson hrl.)

gegn

I.Á. hönnun ehf.

Lýsingu hf. og

Grenjum ehf.

(Árni Ármann Árnason hrl.)

Sveitarfélög. Gjaldtaka. Þjónustugjald.

O höfðaði mál gegn I ehf., L hf. og G ehf. vegna álagningar fráveitugjalds á tiltekna fasteign. Hluti fasteignarinnar var tengdur fráveitukerfi O en aðrir hlutar hennar voru tengdir öðru fráveitukerfi. Greindi aðila á um hvort O hefði verið heimilt að leggja fráveitugjald á alla fasteignina miðað við heildarfermetrafjölda hennar eða einungis fermetrafjölda þess hluta sem sannanlega var tengdur fráveitukerfi O. Að virtu orðalagi 1. mgr. 14. gr. laga nr. 9/2009, um uppbyggingu og rekstur fráveitna, eins og það yrði skýrt í ljósi lögskýringargagna, var talið að um fráveitugjald samkvæmt lögunum færi eftir reglum sem um þjónustugjöld giltu. Af þessu eðli gjaldsins var talið leiða að það yrði ekki lagt á nema gjaldandi fengi þá þjónustu sem svaraði til gjaldtökunnar. Samkvæmt þessu þótti óheimilt að heimta fráveitugjaldið vegna hluta fasteignarinnar er málið laut að sem ekki voru tengdir fráveitukerfi O. Voru I ehf., L hf. og G ehf. því sýknað af kröfu O. 

Dómur Hæstaréttar

Mál þetta dæma Þorgeir Örlygsson hæstaréttardómari, Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari og Eggert Óskarsson fyrrverandi héraðsdómari.  

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 18. september 2013 að fengnu áfrýjunarleyfi. Hann krefst þess að ógiltur verði úrskurður úrskurðarnefndar samkvæmt lögum nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir frá 14. nóvember 2011 í málinu nr. 13/2011. Þá krefst áfrýjandi þess að staðfest verði sú álagning fráveitugjalda sem hann lagði á fasteignina Krókatún 22-24 á Akranesi með fastanúmerið 210-1212 fyrir árið 2011. Loks krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndu krefjast staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

I

Á vestanverðu Akranesi gengur í sjó út tangi einn sem á hafa verið reist nokkur mannvirki. Þeirra á meðal er fasteignin Krókatún 22-24 sem eins og nánar greinir í hinum áfrýjaða dómi er atvinnuhúsnæði með eitt fastanúmer, 210-1212. Skiptist hún í fjóra matshluta sem hver um sig voru reistir á mismunandi tímum. Heildarflatarmál byggingarinnar er samkvæmt fasteignaskrá 2.438,2 fermetrar og var elsti matshlutinn reistur árið 1943 en hinir á árunum 1954, 1960 og 1997. Fasteignir á tanganum munu frá upphafi ekki hafa verið tengdar fráveitukerfi sveitarfélagsins Akraness heldur sérstöku fráveitukerfi. Hið sameiginlega fráveitukerfi fasteigna á tanganum liggur í sjó út í svokallað Krókalón og voru þar samkvæmt gögnum málsins reistir tveir brunnar sem hreinsa skólp sem úr kerfinu fer út í lónið. Brunnarnir munu hreinsaðir reglulega af fyrirtækjum sem veita slíka þjónustu og bera fasteignaeigendur á tanganum kostnað af þeirri þjónustu.

Yngsta viðbyggingin við Krókatún 22-24 var sem fyrr segir reist 1997 og er hún 751.5 fermetrar að stærð eða sem nemur rúmlega 30% af heildarflatamáli byggingarinnar. Einungis þessi matshluti fasteignarinnar er tengdur fráveitukerfi áfrýjanda og að auki salerni í eldri hluta byggingarinnar en aðrir hlutar hennar eru tengdir hinu sameiginlega fráveitukerfi fasteigna á tanganum.

II

Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 9/2009 um uppbyggingu og rekstur fráveitna er sveitarfélagi skylt að koma á fót og starfrækja sameiginlega fráveitu í þéttbýli og af 9. mgr. sömu lagagreinar leiðir að sveitarfélag hefur þar einkarétt til reksturs slíkrar veitu. Á grundvelli 8. mgr. 4. gr., sbr. 6. gr. laga nr. 9/2009, hefur sveitarfélagið Akranes falið áfrýjanda skyldur sínar og réttindi hvað varðar uppbyggingu, rekstur og eignarhald fráveitna í sveitarfélaginu. Áfrýjandi starfar samkvæmt lögum nr. 136/2013 um Orkuveitu Reykjavíkur en samkvæmt 1. mgr. 2. gr. þeirra laga stundar áfrýjandi rekstur fráveitu. Áður giltu um starfsemi áfrýjanda lög nr. 139/2001 um stofnun sameignarfyrirtækis um Orkuveitu Reykjavíkur.

Ágreiningur aðila lýtur að álagningu fráveitugjalds á fasteignina að Krókatúni 22-24 fyrir árið 2011. Nánar tiltekið greinir aðila á um hvort áfrýjanda sé heimilt að leggja fráveitugjald samkvæmt 1. mgr. 14. gr. laga nr. 9/2009 á alla fasteignina miðað við heildarfermetrafjölda hennar eða einungis þann fermetrafjölda sem sannanlega er tengdur fráveitukerfi áfrýjanda. Í upphafi árs 2011 var stefndi I.Á. hönnun ehf. umráðamaður fasteignarinnar samkvæmt fjármögnunarleigusamningi við stefnda Lýsingu hf. en samkvæmt samningnum greiddi stefndi I.Á. hönnun ehf. lögbundin gjöld vegna eignarinnar. Stefndi Lýsing hf. afsalaði eigninni til stefnda Grenja ehf.  13. október 2011. Álagning áfrýjanda vegna fráveitu miðast við fermetrafjölda þeirra fasteigna sem fráveitan þjónar. Á álagningarseðli áfrýjanda vegna fráveitugjalds fyrir Krókatún 22-24 fyrir árið 2011 kemur fram að miðað sé við 2.434,3 fermetra. Stefndi I.Á. hönnun ehf. kærði ákvörðun áfrýjanda um álagninguna til úrskurðarnefndar samkvæmt 31. gr. laga nr. 7/1998 og 14. nóvember 2011 kvað nefndin upp úrskurð um að málinu skyldi heimvísað til nýrrar álagningar og að hún skyldi miðast við hve stór hluti húseigna á lóðinni Krókatúni 22-24 væri tengdur fráveitu áfrýjanda. Hefur áfrýjandi höfðað mál þetta á hendur stefndu til að fá hnekkt úrskurði úrskurðarnefndarinnar.

III

Samkvæmt 1. mgr. 14. gr. laga nr. 9/2009 er heimilt að innheimta fráveitugjald „af öllum fasteignum sem tengdar eru eða munu tengjast fráveitu sveitarfélags“. Í 2. mgr. 15. gr. segir að miða skuli við að fráveitugjald ásamt öðrum tekjum fráveitu standi undir rekstri hennar. Sérstaklega er tekið fram að til reksturs teljist fjármögnunarkostnaður, viðtakarannsóknir, vöktun og fyrirhugaður stofnkostnaður samkvæmt langtímaáætlun veitunnar. Þá segir að heimilt sé að miða fráveitugjaldið við fast gjald auk álags vegna stærðar eða notkunar fasteignar. Áfrýjandi reisir málatilbúnað sinn á því að 1. mgr. 14. gr. laga nr. 9/2009 feli í sér fullnægjandi lagastoð fyrir álagningu fráveitugjalds á umrædda fasteign í heild en ekki aðeins hluta hennar. Áfrýjandi hafi fullnægt þeim skyldum sem á honum hvíli, enda sé lóð fasteignarinnar tengd fráveitukerfi en lagning heimæða og annarra lagna innan lóðar sé á ábyrgð eiganda eignarinnar, sbr. 1. mgr. 11. gr. og 2. mgr. 12. gr. laga nr. 9/2009. Af 9. mgr. 4. gr. laganna leiði að stefndu sé óheimilt að nota aðrar fráveitur en fráveitu áfrýjanda.

Í frumvarpi því sem varð að lögum nr. 9/2009 var gert ráð fyrir að heimilt yrði að innheimta fráveitugjald „af öllum fasteignum sem tengdar eru eða geta tengst fráveitu sveitarfélags“. Við meðferð frumvarpsins á Alþingi var ákvæðinu breytt og það samþykkt þannig að í stað orðanna „geta tengst“ komu orðin „munu tengjast“. Í nefndaráliti vegna breytingarinnar kom fram að nefndin teldi orðalag frumvarpsins of víðtækt og að hún legði áherslu á að gjaldtaka samkvæmt ákvæðinu væri „í samræmi við magn og þar með notkun á fráveitukerfinu.“ Þá kom fram í athugasemdum við 15. gr. frumvarpsins, sem fjallaði um gjaldskrár fyrir fráveitur, að regla þeirrar frumvarpsgreinar  byggðist „á almennum sjónarmiðum um álagningu þjónustugjalda, þ.e. að ekki skuli ákveða í gjaldskrá hærra gjald en sem nemur kostnaði af að veita þjónustuna“.

Þegar virt er orðalag 1. mgr. 14. gr. laga nr. 9/2009, eins og það verður skýrt í ljósi lögskýringargagna, fer um fráveitugjald samkvæmt þeim lögum eftir reglum sem  um þjónustugjöld gilda. Af þessu eðli gjaldsins leiðir að það verður ekki lagt á nema gjaldandi fái þá þjónustu sem svarar til gjaldtökunnar, sbr. til hliðsjónar dóma Hæstaréttar 28. nóvember 2013 í málum nr. 396/2013 og nr. 397/2013. Samkvæmt þessu var óheimilt að heimta fráveitugjald vegna þeirra hluta húsa á fasteigninni Krókatúni 22-24 sem ekki voru tengd fráveitukerfi áfrýjanda. Samkvæmt þessu verður niðurstaða hins áfrýjaða dóms staðfest.

Áfrýjandi greiði stefndu málkostnað samkvæmt því sem greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.

Áfrýjandi, Orkuveita Reykjavíkur, greiði óskipt stefndu, I.Á. hönnun ehf., Lýsingu hf. og Grenjum ehf., 400.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 24. maí 2013.

                Mál þetta, sem dómtekið var 4. apríl sl., er höfðað af Orkuveitu Reykjavíkur, Bæjarhálsi 1, Reykjavík, á hendur I.Á. Hönnun ehf., Sóleyjargötu 14, Akranesi, Lýsingu hf., Ármúla 3, Reykjavík, og Grenjum ehf., Bakkatúni 26, Akranesi.

Stefnandi gerir þá dómkröfu að ógiltur verði með dómi úrskurður úrskurðarnefndar samkvæmt lögum nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir frá 14. nóvember 2011, í máli nr. 13/2011, með svofellt úrskurðarorð: „Málinu er heimvísað til nýrrar álagningar fráveitugjalds og skal álagningin miðast við hve stór hluti húseigna á lóðinni Krókatúni 22-24, Akranesi, sé tengdur fráveitu Orkuveitu Reykjavíkur“.

Þá krefst stefnandi þess að staðfest verði sú álagning fráveitugjalda sem stefnandi lagði á fasteignina Krókatúni 22-24, Akranesi, fastanúmer 210-1212, fyrir árið 2011.

Loks krefst stefnandi málskostnaðar að skaðlausu óskipt úr hendi stefndu.

Stefndu gera þá kröfu að þeir verði sýknaðir af kröfum stefnanda og hann verði dæmdur til að greiða þeim málskostnað samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi.

Málavextir

Stefnandi fer samkvæmt ákvæðum 8. mgr. 4. gr., sbr. 6. gr. laga nr. 9/2009 um uppbyggingu og rekstur fráveitna, með réttindi og skyldur sveitarfélagsins Akraness sem hefur samkvæmt lögunum einkarétt til að koma á fót og reka fráveitu í sveitarfélaginu. Stefndi Lýsing hf. var eigandi fasteignarinnar að Krókatúni 22-24 til 13. október 2011, en þann dag var eigninni afsalað til stefnda Grenja ehf. Stefndi I.Á. Hönnun ehf. var umráðamaður fasteignarinnar samkvæmt fjármögnunarleigusamningi við stefnda Lýsingu hf., og greiðandi lögbundinna gjalda vegna eignarinnar samkvæmt þeim samningi.

Fasteignin Krókatún 22-24 er atvinnuhúsnæði og er með eitt fastanúmer en skiptist í fjóra matshluta, þ.e. fjögur hús sem öll voru byggð á mismunandi tíma, samtals 2.434 m² að stærð. Þeir eru matshluti nr. 01 0101, iðnaðarhús, 1018,4 m² að stærð, byggt 1960, matshluti 02 0101, renniverkstæði, 233,1 m² að stærð, byggt 1954, matshluti 03 0101 rafmagnsverkstæði/lager, 435,3 m² að stærð, byggt 1943 og matshluti 04 0101, iðnaður, 751,4 m² að stærð, byggt 1997.

Samkvæmt því sem fram kemur í greinargerð stefndu var, þegar uppbygging hófst á þeim tanga þar sem húsin eru staðsett, útbúið sérstakt fráveitukerfi fyrir þessar fasteignir. Fráveitukerfið flytur frárennsli frá húsunum, án þess að tengjast inn á önnur fráveitukerfi í eigu Akraneskaupstaðar, nú stefnanda. Virðist sem að við byggingu húshlutanna hafi sumir þeirra verið tengdir hinu sameiginlega fráveitukerfi fasteignanna á tanganum, en aðrir tengdir fráveitukerfi stefnanda.

Þann 12. janúar 2011 sendi stefnandi út álagningu fráveitugjalds vegna fasteignarinnar fyrir árið 2011, og nam álagningin 488.918 krónum. Með bréfi dagsettu 14. mars 2011 sendi lögmaður stefnda I.Á. Hönnunar ehf. bréf til stefnanda þar sem álagningunni var mótmælt. Var farið fram á að fráveitugjöld yrðu lækkuð eða felld niður. Með bréfi, dagsettu 29. mars 2011, lýsti stefnandi því yfir að hann teldi að álagning gjaldanna væri í samræmi við lög um fráveitur nr. 9/2009. Var kröfum stefnda I.Á. Hönnunar ehf. hafnað hvað varðaði fasteignina að Krókatúni 22-24 en álagning fráveitugjalda á fasteignir við Bakkatún 30 og 32, sem stefndi I.Á. Hönnun ehf. var einnig umráðamaður yfir og hafði einnig mótmælt, var hins vegar felld niður.

Stefndi I.Á. Hönnun ehf. kærði ákvörðun stefnanda um álagningu fráveitugjalda til úrskurðarnefndar um hollustuhætti og mengunarvarnir sem kvað upp úrskurð sinn vegna málsins 14. nóvember 2011, sbr. mál nr. 13/2011. Niðurstaða nefndarinnar varð sú að málinu var heimvísað til nýrrar álagningar fráveitugjalds og skyldi álagningin miðast við hve stór hluti húseigna á lóðinni Krókatúni 22-24, Akranesi, væri tengdur fráveitu stefnanda. Segir m.a. í forsendum fyrir niðurstöðu nefndarinnar:

„Snýst ágreiningur máls þessa þess í stað um það hvort frárennsli frá hluta húseigna á viðkomandi lóð sé tengt eða muni tengjast fráveitu viðkomandi sveitarfélags, þ.e. fráveitu kærða og þar með hvort heimilt sé að innheimta fráveitugjald vegna þeirra samkvæmt 1. mgr. 14. gr. laga um uppbyggingu og rekstur fráveitna.

Úrskurðarnefndin telur að í tilviki því sem hér er til úrlausnar, þar sem fyrir liggur að húseign er a.m.k. að hluta tengd annarri fráveitu en fráveitu sveitarfélags, megi ljóst vera að sá hluti húseignarinnar sé hvorki tengdur fráveitu sveitarfélagsins né fyrirsjáanlegt að hann muni tengjast því fráveitukerfi og þ.a.l. verði ekki lagt á þann hluta húseignarinnar fráveitugjald.“

Í kjölfar úrskurðarins felldi stefnandi niður álagningu fráveitugjalds á matshluta 01 0101, 02 0101 og 03 0101 vegna ársins 2011 og í samræmi við þetta fékk stefndi I.Á. Hönnun ehf. endurgreiddan hluta af greiddum fráveitugjöldum vegna ársins 2011.

Við aðalmeðferð málsins gaf skýrslu Sigurður Ingi Skarphéðinsson, tæknistjóri við fráveitu stefnanda.

Málsástæður og lagarök stefnanda

Stefnandi byggir á því að fella beri umræddan úrskurð úr gildi þar sem ákvæði 1. mgr. 14. gr. laga nr. 9/2009 um uppbyggingu og rekstur fráveitna feli í sér fullnægjandi lagastoð fyrir álagningu fráveitugjalds á umrædda fasteign, þ.m.t. til álagningar fráveitugjalds á alla hluta fasteignarinnar, og að skilyrði ákvæðisins til álagningar fráveitugjalds séu uppfyllt. Við úrlausn málsins verði í fyrsta lagi að hafa í huga það lykilatriði að það leiði af 9. mgr. 4. gr. laga nr. 9/2009 að stefnandi hafi einkarétt til starfrækslu fráveitu á Akranesi. Af því leiði að sú skólplosun sem komið hafi verið upp að Krókatúni 22-24 af hálfu stefndu sé ólögmæt. Stefnandi hafi uppfyllt lagaskyldu sína samkvæmt 1. mgr. 11. gr. laga nr. 9/2009 með því að tengja lóðina að Krókatúni 22-24, landnúmer 131701, við fráveitukerfi stefnanda. Lagning heimæða innan lóðar sé síðan á ábyrgð eiganda eignarinnar, sbr. 2. mgr. 12. gr. laganna.

Þá vísar stefnandi til þess að samkvæmt 1. mgr. 14. gr. laga nr. 9/2009 sé heimilt að heimta fráveitugjald af öllum fasteignum sem tengdar eru eða muni tengjast fráveitu sveitarfélags og skuli nánar kveða á um fjárhæð gjaldsins í gjaldskrá, sbr. 4. mgr. 14. gr. laganna. Í 1. mgr. 10. gr. reglugerðar nr. 982/2010 um fráveitur sveitarfélaga er tekið fram að heimilt sé að innheimta fráveitugjald af öllum fasteignum, þ.m.t. óbyggðum lóðum sem munu tengjast fráveitu sveitarfélags. Með vísan til þessa telur stefnandi að ekki sé lagastoð fyrir þeirri niðurstöðu úrskurðarnefndar að telja að þar sem umrædd fasteign sé að hluta til tengd annarri fráveitu en stefnanda geti hún af þeim sökum ekki tengst fráveitu stefnanda. Þá telur stefnandi rangt sem segir í úrskurðinum að ekki sé „fyrirsjáanlegt“ að hluti eignarinnar muni tengjast fráveitukerfi þar sem það fyrirkomulag sem nú gildir sé ólögmætt vegna einkaréttar stefnanda til starfrækslu fráveitu á Akranesi. Jafnframt telur stefnandi að annar skilningur verði ekki lagður í orðalag 1. mgr. 14. gr. en sá að álagning fráveitugjalds sé heimil um leið og húseigandi nýtur raunhæfs möguleika til nota á fráveitu sveitarfélags en það sé þegar unnt sé að tengja fasteign við fráveitu, sbr. 1. mgr. 11. gr. laga nr. 9/2009.

Stefnandi mótmælir sem röngum og ósönnuðum þeim fullyrðingum stefnda, I.Á. Hönnunar ehf., að einungis 751,5 m² hluti fasteignarinnar sé tengdur fráveitu stefnanda. Aðeins frárennsli frá þvottahúsi er veitt út í sjó en ekkert sé því til fyrirstöðu að því verði einnig veitt í fráveitu stefnanda. Stefnandi vísar til þess að stefndu beri alfarið ábyrgð og áhættu af því, t.d. gagnvart heilbrigðiseftirliti, hvort þeir velja að tengja einstaka hluta fasteignarinnar við fráveitu sveitarfélags eða ekki, enda lagning heimæða innan lóðar alfarið á ábyrgð fasteignareiganda. Breyti það engu um greiðsluskyldu fráveitugjalda þar sem skylda stefnanda varði einungis lagningu fráveitu að lóðarmörkum, enda ljóst að fasteignin í heild sé tengd fráveitu stefnanda í skilningi 1. mgr. 14. gr. laga nr. 9/2009. Telur stefnandi að orðalag 1. mgr. 14. gr., og þar með gjaldskylda fráveitugjalds, miðist við það tímamark þegar fasteignareigandi geti tengst fráveitu en ekki við það tímamark þegar hann velji að tengja einstaka hluta fasteignar sinnar við fráveitu sveitarfélags.

Þá bendir stefnandi jafnframt á að við úrlausn máls þessa skipti máli sá áskilnaður sem kemur fram í 2. mgr. 15. gr. laga nr. 9/2009 um tilgang fráveitugjalds. Gjaldið sé reiknað út frá fermetrafjölda fasteignar enda væri ógerningur með öllu að ákvarða fráveitugjald þannig að langtímaáætlanir stæðust ef fráveitugjald væri mismunandi í tilviki hverrar fasteignar um sig eftir því hversu stóran hluta fasteignar eigandi veldi að tengja við fráveitu sveitarfélags. Hér verði ennfremur að hafa í huga að í fæstum tilvikum séu öll rými fasteigna tengd fráveitu.

Stefnandi telur auk þess að 4. málsl. 3. mgr. 9. gr. reglugerðar nr. 982/2010 um fráveitur sveitarfélaga eigi ekki við um umrædda fasteign þar sem ákvæði greinarinnar eigi við um fasteignir sem ekki séu tengdar fráveitukerfi en njóti samt sem áður þjónustu fráveitu sveitarfélags, s.s. við hreinsun rotþróa. Óumdeilt sé að umrædd fasteign að Krókatúni 22-24, sé tengd fráveitukerfi stefnanda og geti ákvæðið þannig ekki tekið til hennar.

Loks bendir stefnandi á að stefndu njóti góðs af fráveitukerfi stefnanda í nágrenni fasteignar sinnar. Hann tekur jafnframt fram að við hönnun og lagningu fráveitna sé miðist við það magn sem áætla megi að fráveita þurfi að geta staðið undir og miðast það við heildarstærð fasteigna á viðkomandi svæði enda stefnanda skylt að tengja húseign fráveitu, sbr. 1. mgr. 11. gr. laga nr. 9/2009. Í 1. mgr. 1. gr. laga nr. 9/2009 sé tekið fram að markmið laganna sé að tryggja uppbyggingu og starfrækslu fráveitna þannig að frárennsli valdi sem minnstum óæskilegum áhrifum á umhverfið, skýra réttindi og skyldur eigenda og notenda fráveitna og stuðla að hagkvæmni í uppbygginu og starfrækslu fráveitna. Sú niðurstaða að fasteignareigandi sem hefur öll tækifæri til að tengjast fráveitu, og hefur lagt heimæð sem tengir hluta fasteignar hans við fráveitu sveitarfélags, geti valið að tengja ekki tiltekna hluta hennar við fráveitu sveitarfélags heldur annað frárennsli, og jafnframt notið góðs að fráveitu, og sloppið þannig við greiðslu á hluta fráveitugjalds, fer að mati stefnanda gegn markmiðum laganna.

Um lagarök vísar stefnandi einkum til laga nr. 9/2009 um uppbyggingu og rekstur fráveitna, laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir og reglugerðar nr. 982/2010 um fráveitur sveitarfélaga. Málskostnaðarkrafa er reist á til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

Stefnandi byggir aðild stefnda I.Á. Hönnunar ehf. á því að það félag hafi verið aðili að stjórnsýslumáli úrskurðarnefndar samkvæmt lögum nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir nr. 13/2011, sem krafist er ógildingar á. Ennfremur byggir hann á því að þessi aðili hafi verið, og sé hugsanlega enn, umráðamaður margnefndrar fasteignar sem stjórnsýslumálið snerist um. Aðild stefnda Lýsingar hf. byggir stefnandi á því að félagið hafi verið eigandi umræddrar fasteignar til 13. október 2011, og aðild stefnda Grenja ehf. sé byggð á því að það félag hafi verið eigandi fasteignarinnar frá 13. október 2011, og sé það enn.

Málsástæður og lagarök stefndu

Stefndu byggja einkum á því að áðurnefndur úrskurður úrskurðarnefndar um hollustuhætti og mengunarvarnir sé réttur. Lagaheimild sé ekki fyrir gjaldtöku af matseiningu sem ekki sé tengd eða muni tengjast fráveitu stefnanda. Ekki sé heimilt að taka mið af stærð slíkra húshluta við ákvörðun fráveitugjalds á fasteignina. Álagning stefnanda byggi á 1. mgr. 14. gr. laga nr. 9/2009 en stefndu byggi á því að ákvæðinu hafi verið breytt í meðförum þingsins, þar sem orðalag þess hafi verið talið of víðtækt, úr því að vera á þann veg að gjaldið yrði lagt á allar fasteignir sem væru tengdar eða gætu tengst í það að vera lagt á fasteignir sem væru tengdar eða myndu tengjast fráveitu sveitarfélags. Í nefndaráliti vegna frumvarps sem varð að lögum nr. 9/2009 segi jafnframt að ákvæðum frumvarpsins sé ætlað að tryggja að gjaldheimta sé í samræmi við þá þjónustu sem veitt sé.

Þá benda stefndu á að í stefnu vísi stefnandi til frumvarps sem varð að lögum nr. 9/2009 og þess að í athugasemdum við frumvarpið komi fram að 14. gr. laganna feli í sér að heimilt sé að innheimta fráveitugjald af öllum húseignum sem tengist fráveitukerfi sveitarfélags eða geti tengst því. Stefndu mótmæla þeirri túlkun stefnanda að úrskurðarnefndin hafi komist að þeirri niðurstöðu að þar sem fasteignin sé að hluta tengd annarri fráveitu geti hún ekki tengst fráveitu stefnanda enda hafi 14. gr. verið breytt eftir að upphaflegt frumvarp var lagt fram á Alþingi. Ákveðið hafi verið að heimila ekki innheimtu fráveitugjalda af húseignum sem gætu tengst fráveitu sveitarfélags, þar sem það væri ekki í samræmi við sjónarmið um þjónustugjöld. Byggi niðurstaða úrskurðarnefndarinnar heldur ekki á þeirri forsendu að húseignin geti ekki tengst fráveitu stefnanda, heldur á því að ákveðinn hluti húseignarinnar sé ekki tengdur og ekki sé fyrirsjáanlegt að hann muni tengjast fráveitukerfi stefnanda. Þar af leiðandi verði fráveitugjald ekki lagt á þann hluta húseignarinnar.

Stefndu mótmæla því að sá skilningur verði lagður í orðalag 1. mgr. 14. gr. laga nr. 9/2009 að álagning fráveitugjalds sé heimil við það tímamark er húseigandi nýtur raunhæfs möguleika til nota á fráveitu sveitarfélags, en það sé þegar unnt sé að tengja fasteign við fráveitu, sbr. 1. mgr. 11. gr. laga 9/2009. Telur stefnandi að þar sem hann hafi uppfyllt þær skyldur sem hvíli á honum samkvæmt ákvæðum laga nr. 9/2009, einkum 11. gr. laganna, skuli fasteignareigandinn greiða fráveitugjald. Löggjafinn hafi ákveðið sérstaklega að gjaldtaka á þeim grundvelli að fasteign gæti tengst fráveitu væri of víðtæk, enda myndi slík gjaldtaka brjóta gegn þeim meginreglum sem gildi um innheimtu þjónustugjalda.

Einnig mótmæla stefndu þeirri mynd sem stefnandi leggur fram og telur sýna að hluti frárennslis, þ.e. frá þvottahúsi, virðist vera leiddur út í sjó. Þannig séu fleiri matshlutar fasteignarinnar tengdir við fráveitu stefnanda en matshluti 04 0101, sem var byggður árið 1997. Í þessu sambandi vilja stefndu vilja benda á þrennt sem verði að teljast villandi á umræddri mynd. Í fyrsta lagi virðast örvar á myndinni gefa til kynna að úr Bakkatúni 32, Bakkatúni 30 og Krókatúni 22-24 liggi alls þrjú fráveiturör, eitt úr hverju húsi, beint út í sjó. Það sé ekki rétt. Í raun samanstandi kerfið af einu stóru röri, með mörgum brunnum, sem húsin tengi sig inn á. Rörið endi svo í þró út við sjó. Í öðru lagi komi fram á myndinni að þvottahús virðist tengt út í sjó. Er það jafnframt ítrekað í stefnu að svo virðist sem aðeins þvottahús fasteignarinnar við Krókatún 22-24 sé tengt fráveitukerfinu frá Bakkatúni 30 og 32. Hið rétta sé að bæði þvottahús og salerni á þessum stað í Krókatúni 22-24 tengist fráveitukerfi tangans samkvæmt mynd stefnanda. Í þriðja lagi vilja stefndu taka fram að rýmið þar sem salernið sé, sem stefnandi telur að sé leitt út í fráveitukerfi sitt, hafi verið byggt ásamt viðbyggingunni árið 1997. Hefði því e.t.v. verið eðlilegra að sá reitur væri hvítur á myndinni eins og viðbyggingin, enda byggt þar á sama tíma. Þá benda stefndu á að stefnandi virðist sjálfur vera óviss um það að hve miklu leyti fasteignin sé tengd fráveitu hans og að sú skoðun sem stefnandi gerði á frárennsli fasteignarinnar, átti sér stað áður en úrskurðurinn var kveðinn upp. Þrátt fyrir það hafi stefnandi fellt niður álagningu á þrjá af fjórum matshlutum fasteignar stefndu í kjölfar úrskurðarins. Einungis hafi verið staðið við álagningu á matshluta 04 0101. Stefndu eigi erfitt með að skilja þá aðgerð hafi niðurstaða skoðunarmanna verið sú að nánast allir matshlutar hússins væru tengdir við fráveitu stefnanda.

Stefndu vilja loks benda á að ekki komi fram í áðurnefndum úrskurði að álagning stefnanda skuli ákvörðuð út frá þeirri forsendu að einungis matshluti 04 0101 sé tengdur við fráveitukerfi stefnanda heldur sé málinu heimvísað til nýrrar álagningar fráveitugjalds og að álagningin skuli miðast við hve stór hluti húseigna á lóðinni sé tengdur fráveitu stefnanda. Með hliðsjón af því og þar sem stefnandi hafi ekki haft uppi dómkröfur í máli þessu sem lúti að því hvaða húshlutar Krókatúns 22-24 séu í raun tengdir fráveitukerfi hans, er vafi um það hvaða hlutar fasteignarinnar séu tengdir fráveitukerfi stefnanda dómsmáli þessu óviðkomandi.

Stefndu telja að hvorki sé rétt né eðlilegt þegar ákvarðað sé hversu hátt fráveitugjaldið eigi að vera að þá sé tekið mið af matshlutum sem séu tengdir annarri fráveitu, en í stefnunni komi fram að stefnandi telji að stefndu beri sjálfir ábyrgð á því, t.d. gagnvart heilbrigðiseftirlitinu, hvort þeir tengist að hluta annarri fráveitu eða fráveitu sveitarfélagsins.

Stefndu benda einnig á að stefnandi byggi á því að álagning hans sé í samræmi við tilgang fráveitugjalda og markmið laga nr. 9/2009 og að við lagningu fráveitukerfis sé miðað við að ákveðið frárennsli komi frá eignum og miðað sé við ákveðna gjaldtöku vegna kerfisins. Þá telur stefnandi að stefndu njóti góðs af fráveitukerfi stefnanda í nágrenni sínu. Stefndu telja að niðurstaða úrskurðarnefndarinnar gangi hvorki gegn tilgangi gjaldanna né markmiði laga nr. 9/2009. Uppbygging og starfræksla fráveitu byggi á greiðslu þjónustugjalda, bæði fráveitugjalda og tengigjalda. Þannig sé ætlunin að þeir sem nýti sér þjónustu stefnanda greiði gjöld með hliðsjón af þeirri notkun. Löggjafinn hafi sérstaklega ítrekað það eðli gjaldtökunnar með þeim breytingum sem gerðar voru á 14. gr. við meðferð málsins á Alþingi. Það að þeir sem ekki nýti sér þjónustuna greiði ekki þjónustugjöld, geti vart talist vinna gegn tilgangi eða markmiðum laganna. Álagning, eins og sú sem stefnandi hafi lagt upp með, verði hins vegar ekki réttlætt með vísan til þess að hún t.d. leiði til aukinnar hagkvæmni í rekstri, sbr. 1. mgr. 1. gr. l. 9/2009. Þá telja stefndu órökstutt hvernig þeir njóti góðs af því að fráveitukerfi stefnanda sé í nágrenni fasteignarinnar við Krókatún 22-24, eða að slíkt leiði til þess að þeim beri að greiða fráveitugjöld.

Loks mótmæla stefndu þeirri fullyrðingu í stefnu að stefnanda sé heimil gjaldtaka þar sem fráveita hússins við Krókatún 22-24 skuli tengjast fráveitukerfi stefnanda og ,,það háttalag sem þeir hafi komið upp í fasteigninni“ sé ólögmætt og hafi engin áhrif á greiðsluskyldu stefndu. Hinu sama gegni um þær fullyrðingar að ef fasteignareigandi ,,geti valið“ að tengja hluta fasteignar við aðra fráveitu og ,,sloppið þannig við greiðslu hluta fráveitugjalds“ fari það gegn markmiðum laga nr. 9/2009 og að stefndu geti ,,ekki upp á sitt eindæmi valið að tengja ekki einstaka hluta fasteignarinnar við fráveitu stefnanda og sloppið þannig við álagningu fráveitugjalds“. Það sé ekki svo að eigandi eignarinnar hafi ákveðið að haga fráveitumálum fasteignarinnar sérstaklega með þessum hætti í þeim tilgangi að komast hjá gjaldtöku og sniðganga ákvæði laga nr. 9/2009 en umræddir húshlutar hafi að meginstefnu til verið byggðir u.þ.b. 30-60 árum fyrir gildistöku þeirra laga.

Verði ekki fallist á ofangreint byggja stefndu á því að þau fráveitugjöld sem stefnandi lagði á Krókatún 22-24 séu í raun skattur en ekki þjónustugjald. Gjaldtakan hafi ekki verið reist á fullnægjandi skattlagningarheimild samkvæmt 40. og 77. gr. stjórnarskrárinnar og sé því ólögmæt. Þar sem þjónustugjöld séu í eðli sínu endurgjald fyrir veitta þjónustu telja stefndu ljóst að slík gjöld verði almennt ekki innheimt nema sérgreind þjónusta sé látin í té og svo sé ekki. Sama eigi við þar sem álagningin ráðist af stærð fasteignar. Ákvæði umræddra laga uppfylli hins vegar ekki skilyrði 40., 77. og 2. mgr. 78. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 og sé skattheimtan því ólögmæt.

Um lagarök vísa stefndu til laga nr. 9/2009, einkum 14. gr. og til 40., 77. og 78. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944. Varðandi kröfu um málskostnað vísa stefndu til 129. og 130. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, og ákvæða 21. kafla sömu laga.

Niðurstaða

Í máli þessu krefst stefnandi ógildingar á úrskurði nefndar samkvæmt lögum nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir frá 14. nóvember 2011. Nefndin byggði niðurstöðu sína á því að álagning fráveitugjalds skyldi miðast við það hve stór hluti húseigna á lóðinni Krókatúni 22-24 á Akranesi væri tengdur fráveitu stefnanda. Telur stefnandi að fullnægjandi lagastoð fyrir álagningu gjaldsins sé að finna í 1. mgr. 14. gr. laga nr. 9/2009. Samkvæmt 9., sbr. 1. og 2. mgr. 4. gr. laga nr. 9/2009, ber viðkomandi sveitarfélag ábyrgð á því að koma á fót, starfrækja og byggja upp fráveitu á Akranesi, og hefur til þess einkarétt. Þá byggir stefnandi á því að af einkarétti hans til reksturs fráveitu leiði að skolplosun frá Krókatúni 22-24, annað en í fráveitukerfi stefnanda, sé ólögmæt.

Óumdeilt er að hluti fasteignarinnar að Krókatúni 22-24 er tengdur fráveitu stefnanda en að hluta af skolpi frá henni er veitt annað og eru aðilar ekki sammála um það hversu stór hluti það er. Þar sem niðurstaða nefndarinnar var sú að einungis beri að greiða gjald í hlutfalli við það hve stór hluti húsanna er tengdur fráveitu stefnanda án þess að þau hlutföll væri tilgreind hefur það ekki áhrif á niðurstöðu þessa máls þó að ekki liggi fyrir hvaða hlutar fasteignarinnar séu tengdir fráveitu stefnanda.

Ágreiningur aðila snýst um það hvernig túlka beri 1. mgr. 14. gr. laga nr. 9/2009 en samkvæmt ákvæðinu er heimilt að innheimta fráveitugjald af öllum fasteignum sem tengdar eru eða munu tengjast fráveitu sveitarfélags, í þessu tilviki stefnanda. Þá byggir stefnandi á því að ekki sé heimilt að undanþiggja einstaka hluta fasteignar greiðslu gjaldsins og að rangt sé, sem fram komi í úrskurðinum, að fyrirsjáanlegt sé að hlutar fasteignarinnar muni ekki tengjast fráveitu stefnanda þar sem það fyrirkomulag sem nú er við lýði sé ólögmætt vegna einkaréttar stefnanda á fráveitu. Í frumvarpi sem varð að lögum nr. 9/2009 var lagt til að í ákvæðinu yrði heimiluð innheimta fráveitugjalds af öllum fasteignum sem tengdar væru eða gætu tengst fráveitu sveitarfélags. Í nefndaráliti umhverfisnefndar um frumvarpið segir að fram hafi komið ábending um að orðalag ákvæðisins væri of víðtækt þegar það heimilaði innheimtu fráveitugjalds af fasteignum sem gætu tengst fráveitu. Tók nefndin undir ábendinguna og lagði til þá orðalagsbreytingu að heimildin næði til fasteigna sem væru tengdar eða myndu tengjast fráveitu sveitarfélags. Í framangreindu nefndaráliti segir jafnframt að ákvæðum frumvarpsins sé ætlað að tryggja að gjaldheimta sé í samræmi við þá þjónustu sem veitt sé. Með þeirri breytingu sem gerð var á orðalagi ákvæðisins í meðförum þingsins var ótvírætt verið að fækka þeim fasteignum sem því var ætlað að taka til. Orðalag ákvæðisins „tengdar eða muni tengjast“ bendir til þess að gert sé ráð fyrir því að sú staða geti verið uppi að fasteignir sem geti tengst fráveitu muni ekki gera það. Ekki er fallist á að með þessu sé stefnda fengið val um að tengjast eða tengjast ekki fráveitu stefnanda og að slíkt val fari gegn markmiðum laganna. Fasteignin Krókatún 22-24 samanstendur af fjórum húsum sem byggð voru á mismunandi tíma, það nýjasta 1997 sem er fyrir gildistöku laga nr. 7/1998. Áður hafði ekki verið kveðið á um skyldu til uppbyggingar og reksturs á fráveitum í lögum. Ákvæði laganna leggja ekki þá skyldu á eigendur eldri fasteigna að aðlaga fráveitu sína að þeirri skipan sem komið var á með lögunum. Með vísan til framangreinds verður ekki talið að á grundvelli ákvæðisins verði lögð víðtækari greiðsluskylda á stefndu en kveðið er á um í úrskurðinum. Eftir þessu er einnig hafnað þeim skilningi stefnanda að álagning gjaldsins sé heimil við það tímamark er húseigandi nýtur raunhæfs möguleika á að nota fráveitu sem sé þegar unnt er að tengja fasteign fráveitu.

Stefnandi byggir á því að ógerningur sé að ákvarða gjald öðruvísi en á grundvelli stærðar fasteignar þannig að langtímaáætlanir standist. Samkvæmt 2. mgr. 15. gr. laganna skal fráveitugjald ásamt öðrum tekjum fráveitu standa undir rekstri hennar. Segir í ákvæðinu að heimilt sé að ákveða lágmark og hámark fráveitugjalds miðað við rúmmál húseigna og ennfremur sé heimilt að miða gjaldið við fast gjald auk álags vegna stærðar eða notkunar fasteigna. Nánari reglur um þetta eru í 9. og 10. gr. reglugerðar nr. 982/2010, auk þess sem í niðurlagi 3. mgr. 9. gr. reglugerðarinnar kemur fram að gjald skuli miða við raunkostnað við þjónustuna. Einnig kemur fram í áðurnefndu nefndaráliti, eins og rakið hefur verið, að gjaldtökuákvæði laganna sé ætlað að tryggja að gjaldheimta sé í samræmi við veitta þjónustu. Þá segir í greinargerð sem fylgdi lagafrumvarpinu að ekki væri gert ráð fyrir að hús þar sem engu vatni er veitt inn og ekkert frárennsli er frá, svo sem hjallar sem svo um háttar, greiði fráveitugjald. Þrátt fyrir að ætlunin sé sú samkvæmt 2. mgr. 15. gr. laganna að gjöldin standi undir rekstri fráveitu má af framangreindu ráða að lögin gera ráð fyrir frávikum frá álagningu sem miðar við fermetrafjölda og að grundvöllur greiðsluskyldu sé raunveruleg notkun þjónustu. Verður því ekki talið að heimilt sé að leggja gjaldið á fasteignir á grundvelli fermetrafjölda þeirra burt séð frá fyrirmælum 1. mgr. 14. gr. og því sem áður hefur verið rakið um túlkun ákvæðisins og ákvæði 2. mgr. 15. gr. að öðru leyti í því skyni að tryggja rekstur fráveitu. Með vísan til framangreinds er því þessari málsástæðu stefnanda hafnað. Þá er með sömu rökum hafnað þeirri málsástæðu stefnanda að lagning heimæðar sé á ábyrgð stefndu og engu breyti um greiðsluskyldu hvort stefndu leggi heimæðina, fasteignin teljist í heild tengd fráveitu í skilningi 1. mgr. 14. gr. laga nr. 9/2009.

Þá byggir stefnandi einnig á því að samkvæmt 1. mgr. 10. gr. reglugerðar nr. 982/2010 um fráveitur sveitarfélaga sé heimilt að innheimta fráveitugjald af öllum fasteignum, þ.m.t. óbyggðum lóðum sem munu tengjast fráveitu sveitarfélags. Reglugerðin sækir stoð sína í 21. gr. laga nr. 9/2009. Ákvæði hennar um greiðsluskyldu geta ekki gengið lengra en heimild er fyrir í lögum og hér að ofan hefur verið rakið. Er því þessari málsástæðu stefnanda hafnað.

Af hálfu stefnanda hafa ekki verið færð fram fullnægjandi rök til stuðnings þeirri málsástæðu að þó að fasteignin sé ekki tengd fráveitu njóti hún samt þjónustu við hreinsun rotþróa og njóti hagræðis af fráveitunni og geti því ekki komið sér undan greiðslu. Í 1. mgr. 14. gr. er heimild til gjaldtöku bundin tengingu við fráveitukerfi og verður gjaldtaka því ekki byggð á annarri þjónustu sem stefnandi kann að veita stefndu vegna umræddrar fasteignar.

Með hliðsjón af því sem rakið hefur verið er ekki fallist á það með stefnanda að rök séu til að ógilda með dómi úrskurð úrskurðarnefndar samkvæmt lögum nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir frá 14. nóvember 2011 í máli nr. 13/2011. Eru því heldur ekki efni til að taka til greina kröfu stefnanda um að staðfest verði álagning stefnanda vegna fráveitugjalda á fasteignina Krókatúni 22-24, Akranesi, fyrir árið 2011.

Eftir þessari niðurstöðu og með vísan til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 19/1991 ber stefnanda að greiða stefndu óskipt málskostnað sem telst hæfilega ákveðinn 700.000 krónur.

Vegna anna dómara hefur dómsuppkvaðning dregist fram yfir frest samkvæmt 1. mgr. 115. gr. laga nr. 91/1991. Aðilar og dómari töldu hins vegar ekki þörf á því að málið yrði flutt að nýju.

Af hálfu stefnenda flutti málið Birgir Már Björnsson hdl. og af hálfu stefndu flutti málið Eybjörg Helga Hauksdóttir hdl.

Sigríður Elsa Kjartansdóttir, settur héraðsdómari, kvað upp dóminn.

D Ó M S O R Ð

Stefndu, I.Á. Hönnun ehf., Lýsing hf. og Grenjar ehf., eru sýkn af kröfum stefnanda, Orkuveitu Reykjavíkur.

Stefnandi greiði stefndu óskipt 700.000 krónur í málskostnað.