Print

Mál nr. 69/2015

Lykilorð
  • Bifreið
  • Líkamstjón
  • Örorka
  • Annað fjártjón
  • Miskabætur

                                     

Fimmtudaginn 22. október 2015.

Nr. 69/2015.

A

(Oddgeir Einarsson hrl.)

gegn

Vátryggingafélagi Íslands hf. og

B

(Einar Baldvin Axelsson hrl.)

Bifreiðar. Líkamstjón. Örorka. Annað fjártjón. Miskabætur.

A varð fyrir alvarlegu líkamstjóni árið 2007 þegar hann var farþegi í bifreið sem valt á Hellisheiði eystri. Bifreiðin var í eigu B og var hún tryggð hjá V hf. Óumdeilt var að V hf. og B báru fulla fébótaábyrgð á tjóni A af völdum slyssins. Fyrir lá að V hf. hafði greitt A skaðabætur, annars vegar fyrir tímabundið tjón og hins vegar fyrir varanlegt tjón. Við uppgjör hins síðarnefnda var miðað við að varanleg örorka A væri 100%, en við uppgjör miskabóta að varanlegur miski hans væri 90 stig að viðbættu 10% álagi. Þá hafði V hf. greitt A bætur vegna áætlaðs kostnaðar hans við kaup á lyfjum, sjúkraþjálfun og breytingar á húsnæði. Laut deila aðila einkum að því hvort V hf. og B bæru bótaábyrgð vegna áætlaðs kostnaðar A við aðstoðarmenn og kaup á fjórhjóli, vegna ferðalaga og iðkunar áhugamála sinna í frítíma, auk kröfu A um hærra álag á bætur sökum varanlegs miska. Í dómi Hæstaréttar kom fram að samkvæmt 1. mgr. 1. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 skuli sá sem ber ábyrgð á líkamstjóni greiða skaðabætur fyrir atvinnutjón, sjúkrakostnað og annað fjártjón. Með vísan til þeirrar meginreglu skaðabótaréttar að tjónþoli eigi að fá tjón sitt að fullu bætt úr hendi þess, sem ábyrgð ber á tjóninu, yrði lagt til grundvallar að bótaskylda V hf. og B tæki til áætlaðs framtíðartjóns A af völdum slyssins, að teknu tilliti til útgjalda sem greiddust af öðrum. Hins vegar yrði að setja rétti A til bóta mörk sem tækju mið af því sem eðlilegt mætti telja að bæta honum umfram þær bætur er hann hafði þegar þegið af hendi V hf. og B. Talið var að krafa A um bætur vegna ætlaðs kostnaðar við aðstoðarmenn og kaupa á fjórhjóli væri utan þeirra marka sem gildandi reglur settu skaðabótaábyrgð V hf. og B. Af þeim sökum voru þeir sýknaðir af þessari kröfu. Hins vegar var fallist á með A að sú mikla skerðing á líkamlegri og andlegri heilsu hans, sem rakin yrði til slyssins, hefði svo margvísleg áhrif á líf hans, eins og ráða mætti af þeim matsgerðum sem lagðar höfðu verið fram í málinu, að bætur samkvæmt 2. mgr. 4. gr. skaðabótalaga fælu ekki í sér fullar miskabætur honum til handa. Af þeim sökum og með tilliti til hins fjölþætta líkamstjóns A var talið hæfilegt að V hf. og B greiddu honum 30% álag á bæturnar samkvæmt 3. mgr. sömu greinar.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Viðar Már Matthíasson, Benedikt Bogason og Eiríkur Tómasson.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 23. janúar 2015. Hann krefst þess aðallega að stefndu verði sameiginlega gert að greiða sér 11.248.764 krónur með 4,5% ársvöxtum af 3.090.600 krónum frá 27. september 2007 til 30. apríl 2010 og dráttarvöxtum samkvæmt 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af þeirri fjárhæð frá 30. apríl 2010 til 26. nóvember 2012, með vöxtum samkvæmt 8. gr. sömu laga af 7.442.624 krónum frá 16. maí 2009 til 26. nóvember 2012 og loks dráttarvöxtum samkvæmt 6. gr. laganna af 11.248.764 krónum frá þeim degi til greiðsludags. Til vara krefst hann þess að stefndu verði sameiginlega gert að greiða sér skaðabætur að álitum. Í báðum tilvikum krefst áfrýjandi málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti án tillits til gjafsóknar sem honum hefur verið veitt.

Stefndi krefst aðallega staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti, en til vara að krafa áfrýjanda verði lækkuð og málskostnaður felldur niður.

I

Eins og greinir í hinum áfrýjaða dómi slasaðist áfrýjandi alvarlega 27. september 2007 þegar hann var farþegi í bifreið sem valt á Hellisheiði eystri. Bifreiðin var í eigu stefnda B og var hún tryggð hjá stefnda Vátryggingafélagi Íslands hf. Óumdeilt er að stefndu bera fulla fébótaábyrgð á tjóni áfrýjanda af völdum slyssins.

Strax eftir slysið var áfrýjandi fluttur á Landspítalann í Reykjavík og gekkst þar undir bráðaaðgerð án nokkurs undirbúnings sem bjargaði lífi hans. Við slysið hlaut hann fjölmarga varanlega líkamsáverka, auk þess sem það olli honum margþættum miska. Í matsgerð tveggja lækna 8. desember 2009 var ástandi áfrýjanda af völdum slyssins lýst svo: „1. Nánast algjör lömun í ganglimum með mikilli skyntruflun vegna mænuskaða L2 heilkenni með slakalömun af útlægri gerð. 2. Áhrif á rödd. Hæsi var mikil, nánast raddleysi í fyrstu. Hefur jafnað sig að mestu en hann finnur þó fyrir því þegar hann er þreyttur. 3. Áhrif á öndunarfæri, mæði og andþyngsli ásamt slímmyndun með skertri öndunargetu til frambúðar þar sem að neðra blað hægra lungans hefur verið fjarlægt. 4. Mjúkpartabeinnýmyndun sem varð í vinstri olnboga og yfir hægri lærhnútu. 5. Verkir og hreyfiskerðing í hægri öxl. 6. Taugaverkir í ganglimum. 7. Neurogen blöðrulömun, þrálátar þvagfærasýkingar. 8. Upphafin stjórnun hægðalosunar. 9. Kynlífsgeta upphafin eða verulega skert. 10. Andleg vanlíðan og væg vitræn skerðing.“ Vegna slyssins töldu matsmenn varanlega örorku áfrýjanda vera 75% og varanlegan miska 90 stig. Við mat á varanlegum miska áfrýjanda litu þeir „til líkamlegrar og andlegrar færnisskerðingar sem slys getur hafa valdið“ og „þess hvort sú færnisskerðing geti valdið viðkomandi sérstökum erfiðleikum í lífi sínu ... umfram það sem felst í því mati sem fram fer út frá læknisfræðilegu sjónarmiði.“ Einnig voru afleiðingar slyssins taldar geta valdið áfrýjanda „sérstökum erfiðleikum í lífi hans í skilningi 4. gr. skaðabótalaga.“

Áfrýjandi undi niðurstöðu matsgerðarinnar um varanlegan miska, en sætti sig ekki við að varanleg örorka vegna slyssins hefði verið metin 75%. Í yfirmatsgerð þriggja dómkvaddra manna, tveggja lækna og lögmanns, 30. ágúst 2011 þar sem lagt var mat á síðargreinda atriðið var gerð ítarleg grein fyrir líðan og högum áfrýjanda. Þar sagði meðal annars: „Eftir slysið hefur hann ekki getað sinnt áhugamálum sínum sem var útivist, veiði, ferðalög, trommuleikur og lestur. Hann getur eldað mat en þarf aðstoð við þrif á heimili sínu en hann býr einn. Hann þarf mikla aðstoð frá sínum nánustu ættingjum við athafnir daglegs lífs.“ Einnig var ástandi áfrýjanda lýst þannig: „Eftir þetta slys er ljóst að hann býr við mjög alvarlega skerðingu á starfsemi líkamans og mikla hreyfiskerðingu. Ljóst er að hann mun aldrei ná sér að fullu. Fræðilega er til staðar möguleiki á myndun ósæðargúla fyrir ofan eða neðan gerviæð á meginæð (ósæð) sérstaklega þegar haft er í huga við hvaða aðstæður bráðaaðgerðin var gerð. Ljóst er einnig að lungnastarfsemi verður aldrei jafn góð og áður þar sem búið er að fjarlægja eitt lungnablað af þremur hægra megin en einnig er ljóst að hann getur átt við varanlega verki að stríða frá rifbrotum og skerta hreyfigetu í brjóstholi eftir umfangsmikla áverka. Áverki á raddbönd hefur gengið að miklu leyti til baka en ljóst er að hann verður bundinn við hjólastól til framtíðar og um er að ræða mikla truflun á starfsemi þvagblöðru og endaþarms sem veldur því að hann þarf að tappa af sér þvagi með reglubundnum hætti og einnig býr hann við brátt hægðatap og þarf að tæma endaþarm og ristil með hönskum. Þar að auki býr hann við mikinn og varanlegan kynlífsvanda. Vegna eftirstöðva slyssins býr hann einnig við mikla og þráláta verki í ganglimum og skyntruflanir. Hann þarf stöðugt á lyfjagjöf að halda ... og hann býr við miklar svefntruflanir og kvíða. Hann er aldrei útsofinn eða úthvíldur og hann er stöðugt þreyttur og illa sofinn. Þetta veldur almennri þreytu, hugarangri og kvíða fyrir utan einbeitingarörðugleika, sljóleika og minnistap.“ Yfirmatsmenn töldu varanlega örorku áfrýjanda vegna slyssins vera 100%.

Samkvæmt beiðni áfrýjanda 18. apríl 2012 voru dómkvaddir sérfróðir menn, tryggingastærðfræðingur og lagaprófessor, til að láta í ljós álit á nánar greindum atriðum. Meðal þess, sem meta skyldi, var hver væri þörf áfrýjanda á aðstoðarmanni og hvert væri núvirði þeirra útgjalda, sem hann þyrfti að greiða í framtíðinni vegna aðstoðarmanna við iðkun áhugamála í frítíma, svo sem vegna ferðalaga og útivistar, svo og hvert væri núvirði annars konar kostnaðar sem áfrýjandi þyrfti að greiða í framtíðinni, að frádregnum þeim styrkjum sem hann ætti rétt á frá hinu opinbera.

Í matsgerð hinna dómkvöddu manna 25. október 2012 var gerð grein fyrir persónuhögum áfrýjanda þar sem meðal annars kom fram að hann hafi að eigin sögn „ætíð ... verið mikill áhugamaður um skotveiði og stangveiði og stundað það sport í allmiklum mæli í gegn um árin.“ Hafi hann tekið fram „að hann stundi ennþá þessar veiðigreinar eftir slys sitt en þurfi nú allmikla aðstoð til þess að geta sinnt veiðinni. Hann kveðst þurfa einn aðstoðarmann í stangveiðina og tvo fyrir skotveiðina. Hann kveðst hingað til hafa notað fjórhjól í veiðimennskuna, sem er í eigu föður hans.“ Í svari matsmanna við því hver væri þörf áfrýjanda á aðstoðarmönnum sagði: „Matsbeiðandi hefur getu til að bjarga sér í daglegu lífi og á einnig að geta ferðast einn á milli staða í hefðbundnum ferðalögum með þeirri aðstoð sem ferðaþjónustuaðilar bjóða fötluðum.“ Einnig að hann þyrfti „í daglegu lífi hjálp vegna heimilisstarfa og létts viðhalds“ og væri það mat hinna dómkvöddu manna „að hið opinbera ásamt fjölskyldu og vinum sinni þessu hlutverki þannig að matsbeiðandi beri ekki neinn aukakostnað vegna þessa.“ Þótt færa mætti „rök fyrir því að hið sama gilti um ferðalög og útivist“ þætti „ekki sanngjarnt að ætlast til þess að þeir sinni þessu matsbeiðanda að kostnaðarlausu.“ Að þessu sögðu var ályktun hinna dómkvöddu manna þessi: „Matsmenn sjá ekki þörf á að greiða aðstoðarmanni laun, heldur felist kostnaður matsbeiðanda í því að greiða kostnað vegna ferða- og útivistarfélaga. Þar þykir matsmönnum hæfilegt að miða samtals við 32 daga samfellt frí á ári ... og að matsbeiðandi fari í skipulagðar ferðir fjórðung þess tíma og að matsbeiðandi greiði sérstakan ferðakostnað eins ferðafélaga í þessum ferðum. Rétt þykir að miða við utanlandsferð annað hvert ár og þá innanlandsferð hitt árið.“ Núvirði þessa kostnaðar var reiknað 4.588.988 krónur miðað við 16. maí 2009. Í svari hinna dómkvöddu manna við því hvert væri núvirði annars konar kostnaðar, sem áfrýjandi þyrfti að greiða í framtíðinni, var í upphafi tekið fram að þar kæmi meðal annars til álita kaup á fjórhjóli vegna áhugamála hans. Töldu matsmenn ljóst að hefði áfrýjandi ekki lent í slysinu „hefði hann getað stundað framangreind áhugamál sín sem venjulegur áhugamaður án þess að þurfa á fjórhjóli að halda.“ Hins vegar væri honum „nauðsyn á slíkum búnaði til að geta stundað þessi áhugamál sín.“ Hinir dómkvöddu menn töldu að verðmæti fjórhjóls, að teknu tilliti til þess að það yrði endurnýjað tvisvar sinnum á 10 til 15 ára fresti, væri að núvirði 2.854.294 krónur miðað við 16. maí 2009.

Stefndi Vátryggingafélag Íslands hf. hefur greitt áfrýjanda skaðabætur, annars vegar fyrir tímabundið tjón og hins vegar fyrir varanlegt tjón. Við uppgjör hins síðarnefnda var á grundvelli yfirmatsgerðarinnar 30. ágúst 2011 miðað við að varanleg örorka áfrýjanda væri af völdum slyssins 100%, en við uppgjör miskabóta að varanlegur miski hans samkvæmt matsgerðinni 8. desember 2009 væri 90 stig og var bætt við 10% álagi. Þar að auki hefur stefndi greitt áfrýjanda bætur á grundvelli matsgerðarinnar 25. október 2012 vegna áætlaðs kostnaðar hans við kaup á lyfjum, sjúkraþjálfun og breytingar á húsnæði. Á hinn bóginn hafa stefndu hafnað bótakröfu áfrýjanda vegna áætlaðs kostnaðar við aðstoðarmenn og kaup á fjórhjóli, auk kröfu hans um hærra álag á bætur sökum varanlegs miska af völdum slyssins.

II

 Hér fyrir dómi krefst áfrýjandi þess í fyrsta lagi að stefndu verði gert að greiða sér bætur vegna áætlaðs kostnaðar við aðstoðarmenn og kaup á fjórhjóli í samræmi við matsgerð hinna dómkvöddu manna 25. október 2012. Í héraðsdómsstefnu vísaði áfrýjandi til 1. mgr. 1. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 þar sem segir að sá sem bótaábyrgð ber á líkamstjóni skuli greiða skaðabætur fyrir atvinnutjón, sjúkrakostnað og annað fjártjón sem af því hlýst. Í stefnunni var jafnframt í kafla um helstu lagaákvæði og réttarreglur vísað til meginreglna skaðabótaréttar. Að þessu virtu er ljóst af málatilbúnaði áfrýjanda að hann reisir umrædda kröfu sína á þeim málsástæðum að hann þurfi samkvæmt matsgerð sérfróðra manna á að halda aðstoðarmönnum í ferðalögum og fjórhjóli til að geta stundað áhugamál sín, þrátt fyrir slysið sem hann varð fyrir, og um sé að ræða fjártjón sem af því hafi hlotist og stefndu beri að greiða. Í ljósi þessa er fallist á með áfrýjanda að tilvísun hans til meginreglna skaðabótaréttar sé ekki málsástæða fyrir kröfu hans, heldur lagarök sem líta beri til við úrlausn málsins.

Eins og áður greinir er kveðið á um í 1. mgr. 1. gr. skaðabótalaga að sá sem ber ábyrgð á líkamstjóni skuli greiða skaðabætur fyrir atvinnutjón, sjúkrakostnað og annað fjártjón. Með vísan til þeirrar meginreglu skaðabótaréttar að tjónþoli eigi að fá tjón sitt að fullu bætt úr hendi þess, sem ábyrgð ber á tjóninu, verður lagt til grundvallar að bótaskylda stefndu taki til framtíðartjóns áfrýjanda af völdum slyssins, sbr. dóm Hæstaréttar 12. maí 2010 í máli nr. 449/2009. Ummæli í lögskýringargögnum, að því er varðar annað fjártjón, geta ekki takmarkað þann rétt áfrýjanda til bóta, en hins vegar leiðir af eðli máls að áætluð útgjöld hans til frambúðar af völdum slyssins, hvort sem þau verða felld undir sjúkrakostnað eða annað fjártjón, fást því aðeins bætt að þau teljist nauðsynleg og eðlileg. Þá verður að vera um að ræða útgjöld sem ekki greiðast af öðrum.

Þegar tekin er afstaða til kröfu áfrýjanda um bætur vegna kostnaðar við aðstoðarmenn á ferðalögum og kaup á fjórhjóli verður að líta til þess að samkvæmt 24. gr. laga nr. 59/1992 um málefni fatlaðs fólks skulu sveitarfélög eftir föngum gefa fötluðu fólki kost á liðveislu, en með henni er átt við persónulegan stuðning og aðstoð sem einkum miðar að því að rjúfa félagslega einangrun, til dæmis aðstoð til að njóta menningar og félagslífs. Þá segir í 25. gr. sömu laga að í sérstökum tilvikum skuli veita fötluðum frekari liðveislu sem felur í sér margháttaða aðstoð við ýmsar athafnir daglegs lífs, enda sé hún nauðsynleg til að koma í veg fyrir dvöl á stofnun.

Án tillits til þess verður sem áður segir að setja rétti áfrýjanda til bóta mörk sem taki mið af því sem eðlilegt má telja að bæta honum umfram þær bætur er hann hefur þegar þegið af hendi stefndu. Með vísan til þess sem áður greinir verður talið að krafa áfrýjanda um bætur vegna ætlaðs kostnaðar við aðstoðarmenn á ferðalögum og kaupa á fjórhjóli til þess að geta stundað áfram veiðar sem áhugamál sé utan þeirra marka sem gildandi reglur setja skaðabótaábyrgð stefndu. Af þeim sökum verða þeir sýknaðir af þessari kröfu hans.

III

Í öðru lagi gerir áfrýjandi þá kröfu að stefndu verði gert að greiða sér hærri miskabætur en hann hefur þegið af hendi þeirra, en þær miðuðust sem fyrr segir við að varanlegur miski hans vegna slyssins væri 90 stig að viðbættu 10% álagi samkvæmt síðari málslið 3. mgr. 4. gr. skaðabótalaga. Eftir því ákvæði er heimilt þegar sérstaklega stendur á að ákveða hærri bætur fyrir varanlegan miska, allt að 50%, en samkvæmt 1. og 2. mgr. lagagreinarinnar.

Á áfrýjanda sem tjónþola hvílir sú skylda að færa sönnur á ófjárhagslegt tjón sitt af völdum slyssins. Eins og áður greinir unir hann þeirri niðurstöðu matsgerðarinnar 8. desember 2009 að varanlegur miski hans vegna slyssins væri 90 stig samkvæmt 1. mgr. 4. gr. skaðabótalaga, en við matið var bæði horft til þess hversu miklar afleiðingar slyssins væru frá læknisfræðilegu sjónarmiði og erfiðleika sem tjónið ylli í lífi hans. Er áfrýjandi bundinn af þeirri afstöðu sinni. Kröfuna um 50% álag á miskabætur styður áfrýjandi meðal annars þeim rökum að stöðu hans og högum hafi verið raskað umfram það, sem venjulegt megi telja, vegna þess alvarlega og fjölþætta líkamstjóns er hann hafi orðið fyrir. Ef tekið er mið af miskatöflu örorkunefndar er fallist á með áfrýjanda að sú mikla skerðing á líkamlegri og andlegri heilsu hans, sem rakin verður til slyssins, hafi svo margvísleg áhrif á líf hans, eins og ráða má af þeim matsgerðum er lagðar hafa verið fram í málinu, að bætur samkvæmt töflunni í 2. mgr. 4. gr. skaðabótalaga feli ekki í sér fullar miskabætur honum til handa. Af þeim sökum og með tilliti til hins fjölþætta líkamstjóns áfrýjanda er hæfilegt að stefndu verði gert að greiða honum 30% álag á bæturnar samkvæmt 3. mgr. sömu lagagreinar. Að teknu tilliti til þess álags, sem þegar hefur verið greitt, verða þeir því dæmdir til að greiða áfrýjanda 20% álag á miskabætur eins og þær eru reiknaðar í héraðsdómsstefnu miðað við 90 stiga miska eða 1.545.480 krónur með vöxtum eins og í dómsorði greinir.

Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms er staðfest sú niðurstaða að kostnaður við öflun matsgerðarinnar 25. október 2012 teljist til málskostnaðar.

Eftir þessum málsúrslitum verður stefndu gert að greiða hluta málskostnaðar áfrýjanda í héraði og fyrir Hæstarétti, sbr. 3. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 166. gr. þeirra, og rennur hann í ríkissjóð, svo sem nánar segir í dómsorði.

Ákvæði héraðsdóms um gjafsóknarkostnað áfrýjanda er staðfest, en um gjafsóknarkostnað hans fyrir Hæstarétti fer eftir því sem greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Stefndu, Vátryggingafélag Íslands hf. og B, greiði sameiginlega áfrýjanda, A, 1.545.480 krónur með 4,5% ársvöxtum frá 27. september 2007 til 30. apríl 2010 og dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 30. apríl 2010 til greiðsludags.

Stefndu greiði sameiginlega 1.200.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti sem renni í ríkissjóð.

Ákvæði héraðsdóms um gjafsóknarkostnað áfrýjanda er staðfest. Allur gjafsóknarkostnaður áfrýjanda fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hans, 700.000 krónur.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 31. október 2014.

                Mál þetta, sem var dómtekið 8. október sl., er höfðað 20. desember 2013.

                Stefnandi er A, [...] í [...].

Stefndu eru Vátryggingafélag Íslands hf., Ármúla 3 í Reykjavík og B, [...] á [...].

                Stefnandi krefst þess aðallega að stefndu verði gert að greiða honum óskipt 11.946.893 krónur ásamt 4,5% vöxtum skv. 16. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 af 3.090.600 krónum frá 27. september 2007 til 30. apríl 2010, auk vaxta af 8.140.753 krónum skv. 8. gr., sbr. 4. gr., laga nr. 38/2001 um  vexti og verðtryggingu frá 16. maí 2009 til 26. nóvember 2012, auk dráttarvaxta skv. 9. gr., sbr. 6. gr., laga nr. 38/2001 af 3.090.600 krónum frá 30. apríl 2010 til 26. nóvember 2012, en af 11.946.893 krónum frá þeim degi til greiðsludags. Til vara er þess krafist að stefndu verði dæmdir til að greiða stefnanda óskipt skaðabætur að álitum. Stefnandi krefst jafnframt málskostnaðar úr hendi stefndu eins og mál þetta væri eigi gjafsóknarmál. Þá er krafist virðisaukaskatts á málskostnað.

                Stefndu krefjast aðallega sýknu af öllum kröfum stefnanda og til vara að stefnukröfur verði lækkaðar verulega. Í báðum tilvikum gera stefndu kröfu um málskostnað úr hendi stefnanda.

                                                                                              I

                Stefnandi slasaðist alvarlega þann 27. september 2007 þegar hann var farþegi í aftursæti bifreiðarinnar [...]. Bifreiðin var í eigu stefnda, B, og var hann ökumaður í umrætt sinn, en bifreiðin var með skyldubundna ábyrgðartryggingu hjá stefnda, Vátryggingafélagi Íslands hf. Bifreiðin valt á Hellisheiði eystri í Vopnafjarðarhreppi og hlaut stefnandi mjög alvarlega fjöláverka. Stefnandi var fluttur með sjúkrabifreið á sjúkrahúsið á Egilsstöðum og þaðan með sjúkraflugi á bráðadeild Landspítalans í Fossvogi. Eftir að hafa legið á gjörgæsludeild í 23 daga og síðar almennri deild var stefnandi fluttur á endurhæfingardeildina á Grensási.

                Stefnandi hlaut varanlegar líkamlegar afleiðingar af slysinu. Í matsgerð læknanna C og D frá 8. desember 2009 kemur fram að þær helstu séu lömun í ganglimum vegna mænuskaða, áhrif á rödd, áhrif á öndunarfæri, mjúkparta-beinnýmyndun í vinstri olnboga og hægri lærhnútu, verkir og hreyfiskerðing í hægri öxl, taugaverkir í ganglimum, neurogen blöðrulömun og þrálátar þvagfærasýkingar, upphafin stjórnun hægðarlosunar, engin kynlífsgeta, andleg vanlíðan og vitræn skerðing. Var það niðurstaða matsmannanna að varanlegur miski stefnanda væri 90 stig og varanleg örorka 75%.

                Í yfirmatsgerð, dags. 30. ágúst 2011, mátu læknarnir E og F og lögmaðurinn G varanlega örorku stefnanda 100%. Yfirmatsmenn töldu stefnanda geta unnið ýmsa vinnu á vernduðum vinnustað en ekki hafa neina vinnugetu sem skipti máli.

                Stefnandi krafðist skaðabóta úr höndum stefndu með bréfi dags. 15. mars 2010. Í kjölfarið voru skaðabætur gerðar upp á milli aðila málsins. Stefnandi gerði þó fyrirvara við uppgjörið sem snerist meðal annars um kröfu hans um hækkun miskabóta skv. 2. ml. 3. mgr. 4. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 og kröfu um bætur vegna annars fjártjóns og sjúkrakostnaðar stefnanda í framtíðinni, sbr. 1. gr. sömu laga. Þar sem stefnandi var ósáttur við að aðeins væri greitt 10% álag á miskabætur og kröfum um bætur vegna annars fjártjóns og sjúkrakostnaðar væri hafnað óskaði hann dómkvaðningar matsmanna til að meta núvirði þeirra útgjalda sem hann þyrfti að greiða fyrir í framtíðinni, að frádregnum styrkjum sem hann ætti rétt á frá hinu opinbera. Í matsgerð H lagaprófessors og I tryggingastærðfræðings, dags. 25. október 2012, kemur fram að núvirði framtíðargjalda vegna sjúkrakostnaðar sé 284.357 krónur, núvirði útgjalda vegna aðstoðarmanna við iðkun áhugamála sé 4.588.988 krónur, núvirði útgjalda vegna breytinga á framtíðarhúsnæði sé 2.094.386 krónur og núvirði annars kostnaðar sé 3.757.018 krónur. Að niðurstöðu matsmanna fenginni krafði stefnandi stefndu um bætur að fjárhæð 10.724.091 króna ásamt vöxtum. Stefndi, Vátryggingafélag Íslands hf., féllst á að greiða stefnanda framtíðarkostnað vegna sjúkraþjálfunar, kostnað vegna breytinga á húsnæði og kostnað vegna lyfjakaupa, samtals 2.583.338 krónur ásamt vöxtum. Að öðru leyti var kröfu stefnanda hafnað.

                Fyrir dómi gáfu skýrslu vitnin I tryggingastærðfræðingur, H lagaprófessor og læknarnir J og F.

                                                                                              II

                Stefnandi byggir kröfu sína um frekari bætur fyrir annað fjártjón á mati dómkvaddra matsmanna, I tryggingastærðfræðings og H lagaprófessors. Þeir hafi metið sjúkrakostnað og annað fjártjón stefnanda vegna afleiðinga slyssins til samtals 10.724.091 krónu miðað við 16. maí 2009. Stefndi, Vátryggingafélag Íslands hf., hafi fallist á að greiða hluta þess fjártjóns sem metið hafði verið í matsgerðinni. Hann hafi hins vegar hafnað því að greiða framtíðarkostnað vegna aðstoðarmanna, breytingar á húsnæði í samræmi við þarfir stefnanda og kostnað vegna kaupa á fjórhjóli til að gera stefnanda kleift að stunda áhugamál sín. Stefndi hafi meðal annars rökstutt ákvörðun sína með því að hann teldi hvorki lagagrundvöll né dómafordæmi fyrir greiðslu á slíkum kostnaði.

                Stefnandi telji að hann eigi rétt á skaðabótum vegna þessara matsliða. Hann vísi í því sambandi til 1. mgr. 1. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, þar sem segi að sá sem beri bótaábyrgð á líkamstjóni skuli greiða skaðabætur fyrir atvinnutjón, sjúkrakostnað og annað fjártjón sem af því hljótist og enn fremur þjáningabætur. Í athugasemdum við frumvarp til skaðabótalaganna segir eftirfarandi um annað fjártjón: „Með orðunum „annað fjártjón” í 1. mgr. er átt við útgjöld sem falla á tjónþola strax eða fljótlega eftir að tjónsatvik bar að höndum en erfitt er að færa sönnur á, t.d. með því að leggja fram reikninga.“ Þá segir einnig: „Ákvæðið um bætur fyrir „annað fjártjón” er einnig sett til þess að veita svigrúm til þess að ákvarða bætur fyrir tjón sem ekki telst til sjúkrakostnaðar í þröngri merkingu þess orðs.“

                Stefnandi hafi farið þess á leit við J, sérfræðing í taugasjúkdómum og meðhöndlandi lækni stefnanda, að hann gæfi út vottorð þar sem fram kæmi læknisfræðilegt mat á framtíðarþörf stefnanda fyrir hvers konar aðstoð, endurhæfingu, sjúkragögn o.s.frv. Í vottorði J, dags. 4. nóvember 2011, fjalli hann ítarlega um margþætta framtíðarþörf stefnanda fyrir ýmiss konar aðstoð vegna afleiðinga slyssins. Í vottorðinu komi meðal annars eftirfarandi fram:

Meirihluti venjulegra hjálpartækja er greiddur af hjálpartækjamiðstöð S.Í., en nokkrum umsóknum um sértæk hjálpartæki hefur verið hafnað, og enn önnur „hjálpartæki” (t.d. fjórhjól, sem er eina leið einstaklings með mænuskaða til þess að komast áfram utan vegar) eru allverulegur aukakostnaður og bein afleiðing fötlunarinnar. Annar stór aukakostnaðarliður, sem einnig er „utan dagskrár” – þ.e. ekki innan ramma hefðbundinnar heimilishjálpar, eða heimahjúkrunar sem A að vísu ekki þarf að nýta sér þar sem hann er orðin það sjálfbjarga – er stöðug þörf fyrir aðkeyptri aðstoð við allar aðkeyptar viðgerðir og iðnaðarvinnu, og enn meiri kostnaður fyrir ferðafylgd fyrir allar ferðir sem ekki eru algerlega í alfaraveg – ferðalög, frítímaferðir o.fl. Þetta, ásamt þörf fyrir breytingarkostnaði til þess að aðlaga húsnæði A að fötlun hans, og þeim hjálpartækjum sem hann þarfnast til þess að komast leiða sinna, mun verða viðloðandi mesti aukakostnaðurinn, ævilangt.

                Líkt og sjá megi af gögnum málsins muni stefnandi bera þungar byrðar vegna slyssins um alla framtíð. Þær bætur sem stefnandi hafi fengið frá stefnda bæti honum ekki það tjón sem hann verði fyrir í framtíðinni, meðal annars vegna greiðslna til aðstoðarmanna til að geta lifað lífi eins og hann hafi gert fyrir slysið. Stefnandi muni þannig þurfa að greiða fyrir þjónustu umfram það sem hið opinbera greiði í framtíðinni. Þörf á slíkri þjónustu kunni að myndast í daglegu lífi hans, auk þess sem þörfin kunni að aukast þegar hann sé á ferðalögum, stundi nám o.s.frv. Áhugamál stefnanda séu ferðalög, útivist og hvers konar veiðimennska. Ljóst sé að stefnandi muni þurfa mikla aðstoð til þess að geta stundað þessi áhugamál sín áfram eftir slysið. Fyrirséð sé að kostnaður vegna þessa verði allverulegur.

                Stefnandi telji ljóst að framangreindur kostnaður falli undir annað fjártjón samkvæmt 1. gr. skaðabótalaga, að því marki sem hann falli utan þess sem greiðsluskylt sé samkvæmt lögum um almannatryggingar. Samkvæmt framangreindu telji stefnandi sig eiga rétt til greiðslu skaðabóta vegna þeirra útgjalda sem miði að því að hann haldi sjálfstæði sínu og verði óháðari öðrum þannig að vellíðan hans geti haldist í daglegu lífi.

                Eins og fram komi í matsgerð hafi tjón stefnanda vegna annars fjártjóns og sjúkrakostnaðar numið alls 10.724.091 krónu. Stefndi hafi greitt stefnanda 2.583.338 krónur upp í kröfuna 10. desember 2012. Því standi eftir óbættar 8.140.753 krónur (10.724.091 - 2.583.338). Stefnandi krefjist vaxta samkvæmt 8. gr., sbr. 4. gr., laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af fjárhæðinni frá 16. maí 2009 til 26. nóvember 2012, en þann dag hafi mánuður verið liðinn frá því krafan hafi verið sett fram. Frá þeim degi krefjist stefnandi dráttarvaxta til greiðsludags, en samkvæmt 9. gr. laga nr. 38/2001 skuli skaðabótakrafa bera dráttarvexti samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laganna að liðnum mánuði frá þeim degi er kröfuhafi sannanlega lagði fram þær upplýsingar sem þörf var á til að meta tjónsatvik og fjárhæð bóta.

                Stefnandi krefjist einnig álags á miskabætur samkvæmt 2. málslið 3. mgr. 4. gr. skaðabótalaga. Hann hafi gert fyrirvara við uppgjör á skaðabótum vegna slyssins sem meðal annars hafi lotið að kröfu hans um hækkun miskabóta á grundvelli þessa ákvæðis. Í ákvæðinu komi fram að þar sem sérstaklega standi á sé heimilt að ákveða hærri bætur, allt að 50% hærri en samkvæmt töflu 2. mgr. sömu greinar. Matsmenn hafi í matsgerð sinni talið afleiðingar slyssins geta valdið stefnanda sérstökum erfiðleikum í lífi hans í skilningi ákvæðisins. Stefndi hafi aðeins fallist á að greiða stefnanda 10% álag. Stefnandi telji það allt of lágt álag og ekki í samræmi við lög og dómaframkvæmd. Ekki komi fram í athugasemdum við frumvarp til skaðabótalaga eða breytingum á þeim, hvenær telja beri „sérstaklega standa á“ í skilningi 4. gr., þannig að beita megi heimildum til hækkunar, en í riti Viðars Más Matthíassonar, Skaðabótaréttur, segi:

Í dönskum rétti hefur verið talið, að beita megi sambærilegri heimild, þegar bætur samkvæmt töflunni teldust ekki fela í sér fullar bætur, en slíkt ætti einkum við, þegar um alvarlegt fjölþætt líkamstjón væri að ræða, t.d. þegar líkamstjón leiðir til algers missis sjónar, auk lömunar eða útlimamissis. Einnig er kostur að nýta heimildina, þegar tjónþoli er öðrum háður um daglegar þarfir sínar...

                Hæstiréttur hafi fjallað um framangreint álitaefni í nokkrum dómum sínum. Til dæmis hafi verið talið að tjónþoli, í dómi Hæstaréttar frá 2001, bls. 1169, sem hafi verið metinn til 100% örorku og 90 stiga miska, líkt og stefnandi, ætti rétt á hækkun miskabóta um 35%. Þá hafi í Hæstaréttardómi frá 2003, bls. 2198, verið talið að tjónþoli ætti rétt á hækkun bóta um 35%, en miski hans hafi einnig verið metinn til 90 stiga.

                Stefnandi telji að miskamat feli fyrst og fremst í sér mat á afleiðingum tjóns frá læknisfræðilegu sjónarmiði. Slíkt mat sé gert eftir töflum um miskastig. Hækkunarheimildin eigi að þjóna þeim tilgangi að gefa svigrúm til hækkunar þegar fyrir hendi séu atvik, sem bendi til þess að meiri miski hafi orðið en mældur sé með læknisfræðilegu örorkumati. Stefnandi telji að um miska hans gildi sérstök sjónarmið. Hann hafi verið leiðsögumaður fyrir slysið, með menntun í matreiðslu og meirapróf. Stöðu stefnanda og högum hafi því verið raskað svo um muni. Stefnandi verði bundinn við hjólastól það sem eftir er ævinnar og þurfi hjálp við fjölmargar athafnir dagslegs lífs, auk þess sem möguleikum hans til að njóta frístunda hafi verið spillt.

                Stefnandi geri kröfu um 50% álag á miskabætur. Þann 30. mars 2010 hafi stefndi, Vátryggingafélag Íslands hf., greitt stefnanda 8.500.500 krónur í miskabætur, þar af hafi verið um að ræða 10% álag. Stefnandi hafi verið metinn með 90 miskastig. Á slysdegi hafi stefnandi verið 32 ára gamall. Bætur fyrir 100 stiga miska séu þannig 4.000.000 króna samkvæmt 2. mgr. 4. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Með verðlagsbreytingu, sbr. 15. gr. laganna, sé því um að ræða 8.586.000 krónur fyrir 100 stiga miska. Þar sem stefnandi hafi verið metinn með 90 stiga miska hafi hann átt rétt á 7.727.400 krónum (0,9 x 8.586.000). Þar að auki telji stefnandi sig eiga rétt á 50% álagi. Það geri 11.591.100 krónur (7.727.400 x 1,5). Stefndi hafi greitt stefnanda 8.500.500 krónur. Eftir standi því óbætt tjón, 3.090.600 krónur (11.591.100-8.500.500). Krafist sé 4,5% vaxta frá 27. september 2007, þeim degi sem tjónið hafi orðið, til 30. apríl 2010, en þann dag hafi mánuður verið liðin frá því að bætur vegna miska hafi verið gerðar upp. Frá þeim degi sé krafist dráttarvaxta til greiðsludags, en samkvæmt 9. gr. laga nr. 38/2001 skuli skaðabótakrafa bera dráttarvexti samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laganna að liðnum mánuði frá þeim degi er kröfuhafi sannanlega lagði fram þær upplýsingar sem þörf var á til að meta tjónsatvik og fjárhæð bóta.

                Stefnandi hafi greitt 941.500 krónur vegna kostnaðar við öflun matsgerðar. Af einhverjum ástæðum hafi stefndi, Vátryggingafélag Íslands hf., aðeins endurgreitt stefnanda 225.960 krónur. Því eigi stefndu enn eftir að greiða stefnanda 715.540 krónur vegna þess tjóns sem hann hafi orðið fyrir við öflun matsgerðarinnar. Krafan beri dráttarvexti frá 26. nóvember 2012 samkvæmt 9. gr., sbr. 6. gr., laga nr. 38/2001.

                Stefnandi krefjist þess til vara að stefndu verði dæmdir óskipt (in solidum) til að greiða honum skaðabætur að álitum. Stefnandi telji augljóst að hann hafi orðið fyrir tjóni og muni verða fyrir frekara tjóni í framtíðinni sem hann hafi ekki fengið að fullu greitt úr höndum stefnda, Vátryggingafélags Íslands hf. Þess vegna telji hann rétt, ef dómurinn telur aðalkröfu ekki koma til greina, að honum verði dæmdar skaðabætur að álitum eins og heimilt sé að gera samkvæmt meginreglum skaðabótaréttar og dómafordæmum Hæstaréttar.

                Stefnandi beini kröfum sínum að stefnda, Vátryggingafélagi Íslands hf., þar sem bifreiðin [...] hafi á slysdegi verið með lögbundna ábyrgðartryggingu hjá stefnda í samræmi við ákvæði 91. gr. umferðarlaga nr. 50/1987. Kröfum stefnanda sé því réttilega beint að stefnda, Vátryggingafélagi Íslands hf., sem vátryggjanda bifreiðarinnar á slysdegi. Stefnda beri skylda til að greiða stefnanda bætur samkvæmt 1. mgr. 88. gr., 89. gr. og 1. mgr. 95. gr., sbr. 1. mgr. 91. gr., laganna. Stefnda, B, sé stefnt sem skráningarskyldum eiganda bifreiðarinnar á slysdegi, sbr. 90. gr. og 97. gr. umferðarlaga.

                Stefnandi vísi til meginreglna skaðabótaréttarins og skaðabótalaga nr. 50/1993. Þá vísi hann til laga nr. 30/2004 um vátryggingasamninga og ákvæða umferðarlaga nr. 50/1987, einkum XIII. kafla. Varðandi kröfu um málskostnað vísi hann til 129. og 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, en krafa um virðisaukaskatt styðjist við lög nr. 50/1988 um virðisaukaskatt. Um varnarþing vísist til 33. gr. laga nr. 91/1991.

                                                                                              III

                Stefndu byggja sýknukröfu sína á því að með þegar greiddum skaðabótum hafi stefnandi að fullu fengið þær skaðabætur vegna umferðarslyssins þann 27. september 2007 sem hann eigi rétt á samkvæmt skaðabótalögum. Ósannað sé með öllu að hann eigi frekari bótarétt. Að auki byggi stefndu sýknukröfu sína á því að hluti þeirra krafna sem stefnandi geri í málinu falli utan við bótarétt hans samkvæmt skaðabótalögum.

                Um mál þetta fari eftir almennum sönnunarreglum skaðabótaréttar utan samninga en samkvæmt þeim hvíli sönnunarbyrðin óskipt á þeim sem krefjist skaðabóta. Það hvíli því á stefnanda að færa sönnur á að hann eigi að lögum rétt til þeirra viðbótarskaðabóta sem hann geri kröfu um í málinu. Takist slík sönnun ekki komi ekki til frekari greiðslu skaðabóta honum til handa úr ábyrgðartryggingu bifreiðar stefnda, B, hjá stefnda, Vátryggingafélagi Íslands hf.

                Um bótarétt stefnanda vegna umferðarslyssins fari eftir 88. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 og þeirri ábyrgðartryggingu sem skylt sé að kaupa vegna krafna sem falli á eiganda ökutækis, sbr. 91. gr. Um þá ábyrgðartryggingu gildi vátryggingarskilmálar stefnda, Vátryggingafélags Íslands hf., nr. BA10 og fari um bætur fyrir líkamstjón eftir ákvæðum skaðabótalaga. Fyrir liggi að stefnandi hafi fengið greiddar slíkar skaðabætur úr ábyrgðartryggingu ökutækisins [...].

                Krafa stefnanda um bætur vegna annars fjártjóns samkvæmt 1. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 sé í stefnu sögð vera 8.140.753 krónur og byggjast á matsgerð dómkvaddra matsmanna. Ekki sé nánar gerð grein fyrir því í stefnu hvernig þessi kröfuliður sé samansettur, en af matsgerðinni megi ráða að hér sé um að ræða kostnað vegna aðstoðarmanns á ferðalögum að fjárhæð 4.588.988 krónur, kostnað vegna kaupa á fjórhjóli að fjárhæð 2.854.294 krónur og kostnað vegna hugsanlegra breytinga á húsnæði 698.129 krónur. Samtala þessara liða sé reyndar 8.141.411 krónur og muni því 658 krónum miðað við stefnufjárhæð.

                Stefndu hafni alfarið kröfu stefnanda um bætur vegna annars fjártjóns, enda sé hvorki lagastoð fyrir henni né byggi slík krafa á dómvenju. Stefnandi hafi sönnunarbyrðina fyrir því að hann eigi að lögum rétt á þeim bótum sem hann geri kröfu um undir þessum kröfulið. Stefndu telji stefnanda engan veginn hafa sannað slíkt.

                Eins og lýst hafi verið fari um skaðabætur til stefnanda eftir skaðabótalögum. Stefnandi byggi þennan kröfulið á því að um „annað fjártjón“ sé að ræða sem falli undir 1. gr. laganna. Þessu hafni stefndu alfarið. Krafan sé um framtíðarkostnað sem stefnandi telji sig kunna að verða fyrir. Stefndu byggi á því að með öðru fjártjóni í 1. gr. skaðabótalaga sé ekki átt við fjártjón til framtíðar eins og krafa stefnanda hljóði um. Annað fjártjón í þessum skilningi nái eingöngu yfir útgjöld sem falli á tjónþola strax eða fljótlega eftir tjónsatvik eins og skýrt segi í athugasemdum við 1. gr. í greinargerð með frumvarpi því sem orðið hafi að skaðabótalögum. Hér sé því ekki verið að horfa til framtíðar um bætur og geti 1. gr. því ekki verið lagagrundvöllur undir slíkan framtíðarkostnað. Ljóst sé að krafa stefnanda samkvæmt þessum kröfulið sé ekki um bætur vegna fjártjóns sem hafi fallið til strax eða fljótlega eftir slysið heldur sé hér verið að gera kröfu um bætur á hugsanlegu fjártjóni til framtíðar. Þar sem 1. gr. skaðabótalaga geti ekki verið lagagrundvöllur undir slíka kröfu, og ekki sé fyrir að fara dómafordæmum sem felli slíkan kostnað þar undir, beri að sýkna stefndu af þessum kröfulið stefnanda.

                Til viðbótar við framangreint byggi stefndu á því að þær skaðabætur sem stefnandi hafi þegar fengið greiddar bæti honum að fullu það tjón sem hann hafi orðið fyrir við að geta ekki sinnt áhugamálum sínum eða öðrum persónulegum málum vegna líkamstjónsins eins og fyrir slysið. Það tjón hafi verið metið til fjár samkvæmt 4. gr. skaðabótalaga og bætt í samræmi við það, auk 10% hækkunar. Stefnandi eigi ekki að lögum rétt til að fá að auki bætur til að koma því þannig fyrir að hann geti áfram sinnt slíku eftir slysið, enda væri þá verið að tvígreiða bætur.

                Þá hafi stefnandi fengið bætur vegna varanlegrar örorku og þar með vegna tapaðra launatekna í framtíðinni. Stefnandi hafi því þegar fengið greiddar bætur sem hann geti notað meðal annars til frístundaiðkunar, enda megi ætla að stefnandi hefði, eins og fólk almennt, nýtt launatekjur sínar til að standa straum af kostnaði við áhugamál og annað slíkt, hefði slysið ekki komið til. Þetta eigi bæði við um kröfulið stefnanda vegna fjórhjóls og kröfu vegna aðstoðarmanns á ferðalögum. Stefndu telji að fullu tekið tillit til slíks kostnaðar í þegar greiddum bótum til stefnanda, annað sé með öllu ósannað.

                Stefndu hafni sérstaklega kröfuliðnum um hugsanlegar breytingar á húsnæði sem e.t.v. verði byggt í framtíðinni. Kröfuliður þessi sé óljós og órökstuddur með öllu enda liggi ekkert fyrir um hvort af slíkri byggingu verði og þá hvenær. Stefndu veki í því sambandi athygli á að allt eins kunni að vera að ekki verði byggt. Megi þá velta fyrir sér hvort stefnandi ætli þá að skila bótunum, verði fallist á að hann eigi rétt á þeim, og þá hvenær þau skil eigi að fara fram. Hér verði að auki að hafa í huga meginregluna um að eingöngu sannað fjártjón skuli bætt. Af öllu framansögðu leiði að ekki komi annað til álita en sýkna stefndu af þessum kröfulið stefnukröfunnar.

                Stefndu hafni alfarið kröfu stefnanda um 50% álag á miskabætur, samkvæmt 3. mgr. 4. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, enda væri slíkt í ósamræmi við dómvenju. Þá hafni stefndu því sem röngu og ósönnuðu, sem megi skilja af málatilbúnaði í stefnu, að við mat á varanlegum miska sé ekki tekið mið af þeirri röskun á högum stefnanda sem slysið hafi valdið. Sönnunarbyrðin um að svo hafi ekki verið hvíli óskipt á stefnanda og byggi stefndu á að slíkt sé ósannað. Þá hvíli á stefnanda að sanna að hann eigi að lögum og/eða dómvenju rétt á hærra álagi en hann hafi þegar fengið.

                Bætur fyrir varanlegan miska séu til þess að bæta tjónþola það ófjárhagslega tjón sem hann verði fyrir til frambúðar vegna áverka og sé lagaheimild fyrir þeim í 4. gr. skaðabótalaga. Í 1. mgr. 4. gr. segi að við mat á miska skuli bæði horft til þess að sambærilegir áverkar sæti sams konar mati og einnig þeirra sérstöku einstaklingsbundnu áhrifa sem áverkar hafi á líf tjónþolans. Hið síðarnefnda sé til þess fallið að hækka miskastig frá því sem miskatöflur segi til um og leiði þannig til hækkunar á miskastigi vegna sérstakra erfiðleika sem áverkar valdi í lífi einstakra tjónþola.

                Við mat á varanlegum miska stefnanda hafi verið tekið mið af alvarleika þeirra áverka sem hann hafi hlotið og þeim erfiðleikum sem þeir séu til fallnir að valda honum í daglegu lífi, svo sem við ástundum ýmiss konar áhugamála í frístundum. Matsmenn taki enda fram í umfjöllun um varanlegan miska að við matið leggi þeir til grundvallar áverka stefnanda og að afleiðingar slyssins geti valdið honum sérstökum erfiðleikum í lífinu í skilningi 4. gr. skaðabótalaga. Ljóst megi því vera að matsmenn hafi tekið mið af þeim takmörkunum og erfiðleikum sem slysið hafi valdið stefnanda almennt í lífinu og þar með ástundun ýmiss konar áhugamála í frístundum.

                Í 3. mgr. 4. gr. skaðabótalaga sé kveðið á um heimild til hækkunar á miskabótum, þegar sérstaklega standi á, um allt að 50%. Af dómaframkvæmd sé ljóst að heimild þessari sé beitt þegar um alvarlegt fjölþætt líkamstjón er að ræða og tjónþoli er að mestu leyti háður aðstoð annarra um daglegar þarfir eins og að matast og við hreinlæti.

                Varanlegur miski stefnanda hafi verið metinn 90 stig og bætur til hans greiddar í samræmi við það. Stefndi, Vátryggingafélag Íslands, hafi að auki fallist á að greiða 10% álag á miskabætur og hafi við það verið horft til dómvenju. Stefndu telji hins vegar engin efni til að fallast á kröfu stefnanda um meiri hækkun, hvað þá 50% hámarkið eins og krafa hans hljóði um. Þeir dómar sem stefnandi vísi til í stefnu sýni enda glögglega að sú krafa stefnanda eigi ekki við rök að styðjast. Skýrt komi fram í gögnum málsins að stefnandi sé sjálfbjarga í daglegu lífi og þurfi ekki aðstoð við venjulegar almennar athafnir eins og að klæðast, matast eða við hreinlæti. Hann geti ferðast einn á milli staða í eigin bifreið. Þá liggi fyrir að stefnandi hafi annast rekstur ferðaskrifstofu. Staða hans sé því allt önnur en tjónþola í þeim dómum sem vísað sé til í stefnu. Dómarnir séu því frekar til þess fallnir að rökstyðja að stefnandi eigi ekki rétt á hærra álagi en þeim 10% sem hann hafi þegar fengið. Stefndu telji að í tilviki stefnanda séu engin efni til að fallast á kröfu um 50% álag á miska, eða annað lægra álag, heldur hafi stefnandi að fullu fengið varanlegan miska bættan í samræmi við ákvæði skaðabótalaga. Beri af þeim sökum að sýkna stefndu af þessum kröfulið stefnanda.

                Þá hafna stefndu því að stefnandi eigi rétt til frekari greiðslu úr þeirra hendi vegna matsgerðar. Um sé að ræða matsgerð sem stefnandi hafi aflað einhliða í því skyni að fá lagt mat á ýmsan framtíðarkostnað. Eftir að sú matsgerð hafi legið fyrir hafi stefndi, Vátryggingafélag Íslands, fallist á að greiða viðbótarbætur vegna sjúkrakostnaðar og annars fjártjóns sem sannarlega hafi verið talið falla undir 1. gr. skaðabótalaga, auk kostnaðar við breytingar á íbúð stefnanda. Þar sem greitt hafi verið í samræmi við niðurstöður matsgerðar hafi verið fallist á að greiða hluta matskostnaðar og þá í samræmi við hlutfall greiddra bóta, eða 24%. Stefndu telji engin efni til að þeim verði gert að greiða matskostnað að fullu enda aðrir matsliðir þar ekki um atriði sem beri að bæta samkvæmt skaðabótalögum. Beri því að sýkna stefndu af þessum kröfulið stefnanda.

                Hvað varakröfu stefnanda varði hafni stefndu því alfarið að bætur verði metnar að álitum. Engin lagaheimild standi til slíks. Kröfugerð og málatilbúnaður stefnanda byggist á skaðabótalögum, annars vegar 1. gr. og hins vegar 3. mgr. 4. gr. Ljóst megi vera að álag á varanlegan miska samkvæmt 3. mgr. 4. gr. geti aldrei verið metið að álitum heldur sé um ákveðna hlutfallslega (%) hækkun að ræða. Það sama eigi við um kröfu stefnanda um bætur vegna annars fjártjóns samkvæmt 1. gr. skaðabótalaga. Eins og gerð hafi verið grein fyrir þá taki það til útgjalda sem hafi fallið til strax eða fljótlega eftir tjónsatvik. Hér sé því augljóslega um að ræða kostnað sem hafi þegar fallið til sem ætlunin sé að bæta. Eðli málsins samkvæmt geti slíkur kostnaður ekki verið metinn að álitum.

                Stefndu krefjist þess til vara, verði litið svo á að stefnandi eigi rétt til frekari bóta, að bætur verði verulega lækkaðar. Það eigi jafnt við hvort sem fallist sé á alla kröfuliði stefnanda eða eingöngu hluta þeirra. Lækkunarkrafan taki þannig bæði til þess að eingöngu sé fallist á suma af kröfuliðunum og einnig að lækka beri fjárhæð hvers þeirra verulega. Um sjónarmið hvað varði einstaka kröfuliði vísist til umfjöllunar um aðalkröfu, eftir því sem við eigi. Stefndu telji niðurstöður matsmanna um einstaka liði allt of háar og í engu samræmi við mögulegan framtíðarkostnað stefnanda.

                Krafa stefnda um að stefnandi greiði honum málskostnað byggist á 129. og 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

                                                                                              IV

                Stefnandi slasaðist alvarlega í umferðarslysi 27. september 2007. Ekki er ágreiningur um bótaskyldu stefndu í málinu og hafa bætur þegar verið greiddar. Stefnandi telur sig hins vegar eiga rétt til frekari bóta, en því hafa stefndu hafnað. Ágreiningur málsins lýtur að kröfu stefanda um hærra álag á bætur vegna varanlegs miska auk bóta vegna annars fjártjóns og kostnaðar við öflun matsgerðar.

                Krafa stefnanda um bætur vegna annars fjártjóns byggist á 1. mgr. 1. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Við aðalmeðferð málsins vísað lögmaður stefnanda til þess að einnig væri gerð krafa um að tjónið væri bætt samkvæmt meginreglum skaðabótaréttar. Lögmaður stefnda andmælti þessari málsástæðu sem of seint fram kominni. Í stefnu málsins kemur skýrt fram að krafa um bætur fyrir annað fjártjón sé byggð á 1. gr. skaðabótalaga og er ekki vikið að meginreglum skaðabótaréttar í því samhengi. Samkvæmt 5. mgr. 101. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991 skulu málsástæður og mótmæli koma fram jafnskjótt og tilefni verður til. Að öðrum kosti má ekki taka slíkar yfirlýsingar til greina nema gagnaðili samþykki eða ef aðili hefur þarfnast leiðbeininga dómara en ekki fengið þær. Kemur sú málsástæða að stefnandi gæti átt rétt til bóta samkvæmt meginreglum skaðabótaréttar því ekki til álita í málinu.

                Krafa stefnanda um bætur fyrir annað fjártjón er þríþætt. Er þar um að ræða kröfu vegna kostnaðar við aðstoðarmann á ferðalögum, vegna kostnaðar við kaup á fjórhjóli og kröfu um kostnað vegna breytinga á framtíðarhúsnæði. Krafan byggist á matsgerð dómkvaddra matsmanna, I tryggingastærðfræðings og H lagaprófessors frá 25. október 2012. Það er niðurstaða matsmanna að stefnandi hafi getu til að bjarga sér í daglegu lífi og geti ferðast milli staða. Hins vegar muni hann þurfa á aðstoð að halda við ferðalög og útivist. Við mat á útgjöldum stefnanda litu matsmenn til ferðakostnaðar aðstoðarmanns en gerðu ekki ráð fyrir launum honum til handa. Ekki kemur fram í matsgerðinni til hve langs tíma matið hafi náð, en við skýrslutöku kom fram að þetta hefði verið reiknað að minnsta kosti til 70 ára aldurs, en líklega ævilangt, en síðasti hlutinn vegi lítið í fjárhæðinni, sem sé 4.588.988 krónur. Um kostnað við fjórhjól kemur fram að ef stefnandi hefði ekki lent í slysinu hefði hann getað stundað áhugamál sín, skotveiði og stangveiði, sem venjulegur áhugamaður án þess að þurfa á fjórhjóli að halda. Honum sé því nauðsyn á slíkum búnaði til að gera stundað áhugamál sín. Gera matsmenn því ráð fyrir kaupum á fjórhjóli sem yrði endurnýjað tvisvar sinnum, en kostnað við það mátu þeir 2.854.294 krónur. Þá mátu matsmenn kostnað við breytingar á framtíðarhúsnæði fyrir stefnanda að fjárhæð 698.129 krónur, en fram kemur í matsgerðinni að stefnandi hafi í huga að reisa sér í framtíðinni hús í [...], á jörð foreldra sinna, sem yrði sérhannað með þarfir hans í huga.

                Samkvæmt 1. mgr. 1. gr. skaðabótalaga skal sá sem bótaábyrgð ber á líkamstjóni greiða skaðabætur fyrir atvinnutjón, sjúkrakostnað og annað fjártjón sem af því hlýst og enn fremur þjáningabætur. Í athugasemdum með frumvarpi því er varð að skaðabótalögum segir að með orðunum „annað fjártjón“ í greininni sé átt við útgjöld sem falli á tjónþola strax eða fljótlega eftir að tjónsatvik bar að höndum en erfitt sé að færa sönnur á, t.d. með því að leggja fram reikninga. Þá segir að ákvæðið um bætur fyrir „annað fjártjón“ sé einnig sett til þess að veita svigrúm til þess að ákvarða bætur fyrir tjón sem ekki teljist til sjúkrakostnaðar í þröngri merkingu þess orðs.

                Stefndi, Vátryggingafélag Íslands hf., hefur fallist á að kostnaður vegna breytinga á húsnæði falli undir 1. mgr. 1. gr. skaðabótalaga og hefur þegar greitt kostnað stefnanda við að breyta núverandi húsnæði sínu. Stefnandi keypti sér á árinu 2011 íbúð sem samkvæmt matsgerð dómkvaddra matsmanna er vönduð og rúmgóð og er haft eftir stefnanda í matsgerðinni að hún henti honum mjög vel. Hann hafi hins vegar í hyggju að byggja sér hús í [...] eftir nokkur ár. Engin staðfesting liggur fyrir um hvort eða hvenær af byggingu húsnæðis þessa verði. Er því ekki sannað að stefnandi verði fyrir tjóni vegna húsbyggingar í framtíðinni og verður því að sýkna af þessum lið bótakröfu stefnanda.

                Krafa stefnanda vegna kostnaðar við aðstoðarmann á ferðalögum og vegna kostnaðar við kaup á fjórhjóli er byggð á því að þær bætur sem hann hafi þegar fengið bæti honum ekki tjón hans að fullu. Hann þurfi aðstoð við að stunda áhugamál sín og kostnaður við það muni verða verulegur. Þessi kostnaður falli undir annað fjártjón samkvæmt 1. gr. skaðabótalaga, að því marki sem hann falli utan þess sem greiðsluskylt sé samkvæmt lögum um almannatryggingar. Stefnandi var metinn til 100% varanlegrar örorku og 90 stiga varanlegs miska, auk þess sem hann hefur fengið greitt 10% álag á miskann. Við ákvörðun miskastigs er ekki einungis litið til þess hversu miklar afleiðingar tjóns eru frá læknisfræðilegu sjónarmiði, heldur einnig til þeirra erfiðleika sem það veldur í lífi tjónþola. Síðari þátturinn heimilar að litið sé til einstaklingsbundinna áhrifa líkamstjóns á viðkomandi einstakling. Þessi áhrif geta verið mismunandi eftir aldri, áhugamálum o.fl. Í matsgerð matsmannanna C og D, frá 8. desember 2009, sem mátu varanlegan miska stefnanda, er sérstaklega tekið fram að þeir líti til þess að afleiðingar slyssins séu til þess fallnar að valda stefnanda sérstökum erfiðleikum í lífi hans í skilningi 4. gr. skaðabótalaga. Með hliðsjón af framangreindu verður að telja að stefnandi hafi þegar fengið tjón vegna framangreindra þátta bætt, en hann þykir ekki hafa fært rök fyrir því að krafan falli undir annað fjártjón samkvæmt 1. mgr. 1. gr. skaðabótalaga. Ber því að sýkna stefndu af þessum kröfuliðum.

                Krafa stefnanda um álag á miskabætur byggist á 2. málslið 3. mgr. 4. gr. skaðabótalaga, en þar greinir að heimilt sé að hækka miskabætur um allt að 50% þegar sérstaklega standi á. Krafa stefnanda að fjárhæð 3.090.600 krónur miðar við 50% hækkun bóta fyrir varanlegan miska, sem metinn hefur verið 90 stig. Stefndi, Vátryggingafélag Íslands hf., féllst á að stefnandi ætti rétt á hækkun bóta á grundvelli framangreinds ákvæðis og greiddi honum sem nemur 10% hækkun miskabóta. Við uppgjörið gerði stefnandi fyrirvara vegna hækkunar bóta samkvæmt ákvæðinu.

                Heimild framangreinds lagaákvæðis til hækkunar miskabóta nær til tilvika þegar sérstaklega stendur á. Hefur verið litið svo á að það eigi einkum við þegar ákvörðun miska á grundvelli læknisfræðilegra sjónarmiða nær ekki að bæta að fullu þann miska sem tjónþoli hefur orðið fyrir, t.d. sökum þess að hann er öðrum háður um aðstoð við helstu athafnir daglegs lífs. Í framangreindri matsgerð C og D, sem mátu varanlegan miska stefnanda, er helstu afleiðingum slyss hans lýst svo að um sé að ræða nánast algera lömun í ganglimum með mikilli skyntruflun vegna mænuskaða, áhrif á rödd sem hafi jafnað sig að mestu, en stefnandi finni þó fyrir þegar hann sé þreyttur, áhrif á öndunarfæri, mæði og andþyngsli ásamt slímmyndun með skertri öndunargetu til frambúðar, mjúkparta-beinnýmyndun í vinstri olnboga og yfir hægri lærhnútu, verki og hreyfiskerðingu í hægri öxl, taugaverki í ganglimum, neurogen blöðrulömun og þrálátar þvagfærasýkingar, upphafna stjórnun hægðarlosunar, upphafna eða verulega skerta kynlífsgetu, andlega vanlíðan og væga vitræna skerðingu. Samkvæmt þessu er ljóst að áverkar stefnanda eru margþættir og alvarlegir og hann er bundinn við hjólastól. Stefnandi gaf ekki skýrslu fyrir dóminum, en samkvæmt gögnum málsins er hann sjálfbjarga um allar athafnir daglegs lífs. Hann býr einn í eigin húsnæði og getur farið ferða sinna sjálfur á eigin bifreið. Stefnandi hefur komið á fót eigin fyrirtæki, þótt ekki sé ljóst hvort hann hafi getað starfað við það að einhverju leyti. Þá kemur fram að stefnandi stundi enn áhugamál sín, skot- og stangveiðar, en þurfi sérstakan búnað og aðstoð til þess. Með hliðsjón af framangreindu og dómaframkvæmd þykir stefnandi ekki hafa sýnt fram á að rétt sé að hækka miskabætur umfram þau 10% sem hann hefur þegar fengið greitt. Verður því sýknað af framangreindri kröfu stefnanda um aukið álag á miskabætur.

                Stefnandi krefur stefndu um greiðslu kostnaðar við öflun matsgerðar H lagaprófessors og I tryggingastærðfræðings. Stefnandi greiddi 941.500 krónur vegna matsgerðarinnar, en stefndi, Vátryggingafélag Íslands hf., féllst á að greiða stefnanda 225.960 krónur af því, í samræmi við það hlutfall fjárhæðar í niðurstöðu matsgerðarinnar sem hann féllst á. Eftir standa því 715.540 krónur. Samkvæmt e-lið 1. mgr. 129. gr. laga nr. 91/1991 telst kostnaður vegna matsgerða til málskostnaðar.

                Með hliðsjón af atvikum málsins og með vísan til 3. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 þykir rétt að málskostnaður milli aðila falli niður.

                Stefnandi fékk gjafsóknarleyfi vegna málsins 2. júlí 2013. Gjafsóknarkostnaður stefnanda greiðist úr ríkissjóði, þ.m.t. þóknun lögmanns hans, Gríms Sigurðarsonar hæstaréttarlögmanns, 684.450 krónur. Við ákvörðun þóknunarinnar hefur ekki verið tekið tillit til virðisaukaskatts. Annar útlagður kostnaður stefnanda er 715.540 krónur sem, eins og fyrr greinir, telst hluti málskostnaðar. Samkvæmt 2. mgr. 127. gr. laga nr. 91/1991 kemur aðeins í hlut dómstóla að ákveða þóknun handa lögmönnum gjafsóknarhafa og á því ekki að réttu lagi að taka afstöðu til útlagðs kostnaðar hans í dómi eða úrskurði, sbr. dóm Hæstaréttar Íslands í málinu nr. 470/2011.

                Barbara Björnsdóttir héraðsdómari kveður upp þennan dóm.

                                                                              D Ó M S O R Ð:

                Stefndu, Vátryggingafélag Íslands hf. og B, eru sýkn af kröfum stefnanda, A.

                Málskostnaður fellur niður.

                Allur gjafsóknarkostnaður stefnanda, þar með talin þóknun lögmanns hans, Gríms Sigurðarsonar hæstaréttarlögmanns, 684.450 krónur, greiðist úr ríkissjóði.