Print

Mál nr. 604/2008

Lykilorð
  • Stjórnarskrá
  • Mannréttindasáttmáli Evrópu
  • Réttaráhrif dóms
  • Réttlát málsmeðferð
  • Skaðabætur
  • Orsakatengsl
  • Sönnun
  • Sératkvæði

Fimmtudaginn 18

 

Fimmtudaginn 18. júní 2009.

Nr. 604/2008.

Pétur Þór Sigurðsson

(Andri Árnason hrl.)

gegn

íslenska ríkinu

(Einar Karl Hallvarðsson hrl.)

 

Stjórnarskrá. Mannréttindasáttmáli Evrópu. Réttaráhrif dóms. Réttlát málsmeðferð. Skaðabætur. Orsakatengsl. Sönnun. Sératkvæði.

 

P krafðist skaðabóta úr hendi íslenska ríkisins þar sem brotinn hafi verið á honum réttur með dómi Hæstaréttar 25. apríl 1997 í máli hans gegn L. Málið gegn L hafði hann höfðað til heimtu skaðabóta vegna tjóns sem hann taldi sig hafa orðið fyrir vegna ólögmætra athafna L. Úrslit málsins urðu þau að þrír dómarar vildu sýkna L en tveir dómarar skiluðu sératkvæði og vildu taka kröfu P til greina. Árið 2003 komst mannréttindadómstóll Evrópu að þeirri niðurstöðu að einn þriggja dómara sem skipuðu meirihluta Hæstaréttar hafi verið vanhæfur til setu í dóminum vegna fjárhagslegra tengsla við L og með því hafi verið brotið gegn 70. gr. stjórnarskrárinnar og 1. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Taldi P íslenska ríkið bera fébótaábyrgð gagnvart sér annars vegar vegna þess að hann hafi ekki notið réttlátrar málsmeðferðar og hins vegar þar sem það hafi ekki rétt hlut hans nægjanlega í kjölfar niðurstöðu mannréttindadómstólsins. Talið var að leggja yrði til grundvallar að hæstaréttardómaranum hafi borið að víkja sæti við meðferð málsins. Þátttaka vanhæfs dómara hafi falið í sér brot á mikilvægum grundvallarréttindum gagnvart P. Væri íslenska ríkið því ábyrgt fyrir fjártjóni sem af þessu kunni að hafa hlotist. Talið var að ógerlegt væri að geta sér til um á hvern veg atkvæði hefðu fallið í Hæstarétti ef annar dómari hefði skipað dóminn í stað þess sem með réttu átti að víkja sæti við meðferð málsins. Ætti það sama við ef lögum um meðferð einkamála hefði verið breytt og mál hans endurupptekið og dæmt á nýjan leik. Sé þar um getgátur að ræða en ekki fullnægjandi sönnun fyrir orsakatengslum milli ætlaðs tjóns og þess að ekki hafi verið fylgt reglum um réttláta málsmeðferð, en slík sönnun sé forsenda þess að P verði dæmdar bætur á þessum grundvelli. Talið var að íslenska ríkið hafi fullnægt skuldbindingu sinni samkvæmt 1. mgr. 46. gr. mannréttindasáttmála Evrópu með því að greiða P þær miskabætur sem mannréttindadómstólinn hafi ákvarðað honum. Hafi ríkið því ekki látið hjá líða að bregðast við dómnum. Ekki var fallist á að það fyrirkomulag um endurupptöku dæmdra mála sem íslenski löggjafinn hafi valið og byggt sé á 169. gr. laga nr. 91/1991 sé andstætt 70. gr. stjórnarskrárinnar og var því hafnað að dæma skaðabætur á þeim grundvelli. P byggði einnig á því að niðurstaða málsins hafi verið lögfræðilega röng og valdið sér fjártjóni. Talið var að sakarefnið hafi verið endanlega til lykta leitt með dómi Hæstaréttar frá 1997. Formlegt gildi dómsins standi óhaggað, sbr. 1. mgr. 116. gr. laga nr. 91/1991. Sé ekki heimild til þess að lögum að dómsúrlausn geti nú að efni til sætt endurskoðun Hæstaréttar á þeim grundvelli sem P byggi mál sitt á. Þá voru ákvæði íslenskra laga ekki talin standa því í vegi að P yrðu dæmdar miskabætur þótt mannréttindadómstóllinn hafi áður dæmt honum slíkar bætur. Þegar á hinn bóginn væru virt framangreind rök um bótagrundvöllinn yrði ekki fallist á að skilyrði væru til að dæma P miskabætur samkvæmt 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga. Var íslenska ríkið því sýknað af kröfu P.        

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson og Hjördís Hákonardóttir, dómstjórarnir Helgi I. Jónsson og Þorgeir Ingi Njálsson og Þorgeir Örlygsson prófessor.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 7. nóvember 2008. Hann krefst þess, að  stefndi verði dæmdur til að greiða sér 42.500.823 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 10. apríl 2003 til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst aðallega staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti. Til vara krefst hann þess, að dómkröfur áfrýjanda verði stórlega lækkaðar og málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti verði látinn falla niður.

Nokkur ný skjöl hafa verið lögð fyrir Hæstarétt.

I

Áfrýjandi höfðar mál þetta til heimtu skaðabóta úr hendi stefnda á þeim grundvelli, að brotinn hafi verið á honum réttur er Hæstiréttur lauk 25. apríl 1997 dómi á mál hans gegn Landsbanka Íslands, en dómurinn er birtur í dómasafni Hæstaréttar það ár á blaðsíðu 1323 í máli nr. 210/1996. Málið á hendur bankanum höfðaði áfrýjandi til heimtu skaðabóta vegna tjóns sem hann taldi sig hafa orðið fyrir vegna ólögmætra athafna bankans er leitt hafi til þess, að hann hafi glatað tryggingarréttindum fyrir fjárkröfu á hendur þriðja manni og krafan fyrir vikið orðið honum einskis virði. Úrslit hæstaréttarmálsins urðu þau, að þrír dómarar sýknuðu bankann af kröfu áfrýjanda, en tveir dómarar skiluðu sératkvæði og vildu taka kröfu áfrýjanda til greina.

Málsókn sína á hendur stefnda í máli þessu byggir áfrýjandi á því, að mannréttindadómstóll Evrópu hafi með dómi 10. apríl 2003 komist að þeirri niðurstöðu, að einn þriggja dómara sem mynduðu meirihluta Hæstaréttar í máli nr. 210/1996 hafi verið vanhæfur til setu í dóminum vegna fjárhagslegra tengsla við Landsbanka Íslands og með því hafi verið brotið gegn 70. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 og 1. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög 62/1994 um mannréttindasáttmála Evrópu. Telur áfrýjandi stefnda bera fébótaábyrgð gagnvart sér í fyrsta lagi vegna þess, að hann hafi ekki notið réttlátrar málsmeðferðar við meðferð hæstaréttarmáls nr. 210/1996, og í öðru lagi vegna þess að stefndi hafi ekki rétt hlut áfrýjanda nægjanlega í kjölfar staðfestingar dóms mannréttindadómstóls Evrópu á mannréttindabroti gagnvart honum.

Áfrýjandi telur, að tvenn úrræði hafi verið stefnda fær til að rétta hlut hans í kjölfar dóms mannréttindadómstólsins. Annars vegar hafi það mátt gera með því að heimila endurupptöku máls nr. 210/1996 og tryggja áfrýjanda þannig aðgang að sjálfstæðum og óvilhöllum dómstóli. Hins vegar með því að greiða áfrýjanda skaðabætur vegna þess tjóns, sem hann kynni að hafa orðið fyrir vegna meðferðar umrædds hæstaréttarmáls og vegna þess að málið hafi ekki fengist endurupptekið. Hvorug þessara leiða hafi verið farin og telur áfrýjandi sig ekki þurfa að sæta því, að mannréttindabrot stefnda valdi sér fjártjóni og eigi áfrýjandi rétt á að fá hvers konar fjártjón bætt sem telja megi að brot stefnda hafi valdið honum. Áfrýjandi áréttaði í málflutningi sínum fyrir Hæstarétti, að hann hefði aldrei farið fram á að mál nr. 210/1996 yrði endurupptekið á grundvelli 169. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, heldur að dómur í því máli yrði felldur úr gildi og málið tekið til meðferðar að nýju með vísan til grunnreglna stjórnskipunar og réttarfars og meginreglna réttarskipunarinnar og eðli máls.

Kröfum sínum til stuðnings vísar áfrýjandi til þess, að eftir uppkvaðningu dóms mannréttindadómstóls Evrópu hafi legið fyrir, að á honum hafi verið brotinn réttur og að hann kynni að hafa orðið fyrir verulegu fjártjóni vegna meðferðar hæstaréttarmáls nr. 210/1996. Telur áfrýjandi ljóst, að niðurstaða þess máls hefði getað orðið önnur ef hinn vanhæfi dómari hefði ekki tekið þátt í meðferð þess. Atkvæði hans hafi haft úrslitaþýðingu í málinu í þeim skilningi, að hinn vanhæfi dómari hafi verið einn þeirra þriggja sem stóðu að atkvæði meirihlutans. Hefði hinn vanhæfi dómari ekki tekið þátt í meðferð hæstaréttarmálsins megi leiða verulegar líkur að því, að niðurstaða málsins hefði orðið áfrýjanda, en ekki Landsbanka Íslands, í hag og áfrýjandi því fengið dæmdar skaðabætur úr hendi bankans. Þegar af þessari ástæðu sé raunhæft að ætla, að brot stefnda hafi valdið áfrýjanda fjártjóni og þurfi ekki frekari sönnunar við í þeim efnum.

Stefndi mótmælir þeim grundvelli sem málatilbúnaður áfrýjanda hvílir á. Dómur Hæstaréttar í máli nr. 210/1996 feli í sér endanlega úrlausn þess ágreinings sem þar var leyst úr, sbr. 1. mgr. 116. gr. laga nr. 91/1991, og standi dómurinn því óhaggaður að formi til og efni. Ógerlegt sé að leiða getur að öðrum úrslitum hæstaréttarmálsins þótt allra reglna 1. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu hefði verið gætt. Ætlað fjártjón áfrýjanda verði því ekki rakið til þess hvernig Hæstiréttur var skipaður í umræddu máli eða hvort reglum 1. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmálans var fullnægt og engin heimild sé að lögum til að víkja frá almennum reglum um sönnunarbyrði hvað varðar orsakasamband milli brots og ætlaðs fjártjóns.

Stefndi byggir og á því, að íslenska ríkið hafi fullnægt dómi mannréttindadómstólsins í máli áfrýjanda og þeim skyldum sem á því hvíla samkvæmt mannréttindasáttmálanum og stjórnarskrá. Því verði bótaskylda stefnda gagnvart áfrýjanda ekki reist á þeim grundvelli, að stefndi hafi vanrækt skyldur sínar í þeim efnum. Stefndi mótmælir einnig að krafa áfrýjanda geti átt stoð í því að niðurstaða Hæstaréttar í máli nr. 210/1996 hafi verið lögfræðilega röng. Óraunhæft sé að ætla, að dæmt verði öðru sinni um kröfu áfrýjanda á hendur Landsbanka Íslands þar sem lagaheimild standi ekki til þess. Loks mótmælir stefndi því, að krafa áfrýjanda um miskabætur eigi sér lagastoð þar sem ólögmætri meingerð sé ekki til að dreifa af hálfu stefnda og því sé ekki fullnægt áskilnaði 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993.

II

Eins og fyrr greinir var það niðurstaða mannréttindadómstóls Evrópu, að einn þriggja dómara sem stóðu að atkvæði meirihluta Hæstaréttar í máli nr. 210/1996 hafi verið vanhæfur til setu í dóminum. Þótt engin ástæða væri til að ætla, að annað hvort umræddur dómari sjálfur eða maki hans hafi átt beina hagsmuni af úrslitum málsins, taldi mannréttindadómstóllinn að þáttur dómarans í skuldaskilum makans og það hagræði sem hann naut og tengsl hans við Landsbankann hafi verið þannig að eðli og umfangi og það nálægt athugun Hæstaréttar á máli áfrýjanda í tíma, að áfrýjandi hafi með réttu getað óttast að Hæstarétt skorti þá óhlutdrægni sem krafist er. Með því hafi verið brotið gegn 1. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu og voru áfrýjanda dæmdar miskabætur vegna þeirra þjáninga sem mannréttindadómstóllinn taldi, að áfrýjandi hefði liðið af völdum þess sem talið var fela í sér brot gegn mannréttindasáttmálanum.

Í máli þessu liggja fyrir gögn, sem ekki hafa verið bornar brigður á, um fjárhagsstöðu maka hæstaréttardómarans vorið 1996. Af þeim má ráða, að snemma í maí það ár var hann í ábyrgð fyrir kröfum á hendur þriðja manni er námu um 50 milljónum króna. Meðal kröfuhafa var Landsbanki Íslands með um 16 milljóna króna kröfu. Af þessu tilefni leitaði makinn samninga við lánardrottna aðalskuldara með það í huga að greiða hluta þeirra skulda sem hann var í ábyrgð fyrir, gegn því að eftirstöðvar skuldarinnar yrðu felldar niður. Í beiðni makans til Landsbanka Íslands um skuldaskil 15. apríl 1996 kemur fram, að hann telji sig eignalausan, en eiginkona hans eigi tvær fasteignir sem séu séreign hennar samkvæmt kaupmála og hafi hún samþykkt að ráðstafa með veðsetningum eða sölu nettó andvirði eigna sinna til greiðslu skuldanna að því tilskildu, að eiginmaður hennar yrði leystur undan ábyrgðunum. Var síðan í beiðninni farið fram á við Landsbankann, að bankinn samþykkti sem fullnaðargreiðslu 25% af heildarkröfu sinni er félli á eiginmanninn sem ábyrgðarmann.

Gögn máls þessa bera það einnig með sér, að maki dómarans gaf 30. maí 1996 út fjögur skuldabréf til Landsbréfa hf., Verðbréfamarkaðar Landsbankans, sem var fjármálastofnun í eigu Landsbankans, og nam fjárhæð þeirra um 13,6 milljónum króna, tryggð með veði í fyrrgreindum fasteignum sem voru séreign hæstaréttardómarans. Makinn greiddi 4. júní 1996 í samræmi við skuldaskilasamning við Landsbanka Íslands tæpar 4,4 milljónir króna, en þar af gengu um 3,7 milljónir króna upp í skuld hans við bankann. Í samræmi við ákvæði skuldaskilasamningsins voru makanum gefnar eftir 75% af þeim skuldum sem til voru komnar vegna ábyrgða hans á framangreindum skuldum, eða um 11 milljónir króna. Loks bera gögn málsins það með sér, að heildarskuldir maka dómarans við Landsbanka Íslands hafi 4. júní 1996 verið um 17,3 milljónir króna, en 25. apríl 1997, er Hæstiréttur lauk dómi á mál nr. 210/1996, hafi heildarskuldir hans við bankann verið um 2,4 milljónir króna.

Þegar virt er það sem að framan greinir um fjárhagsleg samskipti maka hæstaréttardómarans og Landsbanka Íslands í aðdraganda þess að Hæstiréttur lauk 25. apríl 1997 dómi á mál nr. 210/1996 og höfð er í huga aðkoma dómarans að því að greiða fyrir framangreindum skuldaskilum við Landsbankann, verður að leggja til grundvallar að hæstaréttardómaranum hafi samkvæmt 9. lið 6. gr. þágildandi laga um Hæstarétt Íslands nr. 75/1973 borið að víkja sæti við meðferð þess máls, sbr. og g. lið 5. gr. laga nr. 91/1991.

Við úrlausn þess álitaefnis hvort áfrýjandi geti að íslenskum lögum átt rétt til bóta vegna fjártjóns sem hann sannanlega kann að hafa beðið og rekja má til þess, að vanhæfur dómari tók þátt í meðferð máls hans fyrir Hæstarétti, er fyrst til þess að líta, að rétturinn til að fá úrlausn um réttindi sín og skyldur fyrir óháðum og óhlutdrægum dómstóli er meðal þeirra hornsteina sem lýðfrjáls ríki byggja réttarskipan sína á, sbr. 70. gr. stjórnarskrár, sbr. 8. gr. stjórnarskipunarlaga nr. 97/1995, og 1. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Þátttaka vanhæfs dómara í meðferð hæstaréttarmáls nr. 210/1996 fól því í sér gagnvart áfrýjanda brot á mikilvægum grundvallarréttindum. Er stefndi því ábyrgur fyrir fjártjóni áfrýjanda sem af þessu kann að hafa hlotist.

Við meðferð hæstaréttarmáls nr. 210/1996 var Hæstiréttur Íslands skipaður fimm dómurum. Ef frá er talið atkvæði hins vanhæfa dómara við meðferð málsins féllu atkvæði jafnt þar sem tveir dómarar sýknuðu Landsbanka Íslands af kröfu áfrýjanda, en tveir vildu taka kröfu hans á hendur bankanum til greina. Á það verður fallist með héraðsdómi, að ógerlegt er eins og mál þetta er vaxið að geta sér til um það á hvern veg atkvæði hefðu fallið í Hæstarétti ef annar dómari hefði frá öndverðu skipað dóminn í stað þess sem með réttu átti að víkja sæti við meðferð málsins. Sama myndi eiga við ef lögum um meðferð einkamála hefði verið breytt á þann veg sem áfrýjandi mæltist til um og mál hans endurupptekið og dæmt í Hæstarétti á nýjan leik í skjóli slíkrar lagaheimildar. Er í því tilviki einnig útilokað að leiða að því líkur, hvernig atkvæði hefðu fallið í endurskipuðum Hæstarétti. Er því ekki fullnægjandi af hálfu áfrýjanda að vísa til þess, fjárkröfu sinni til stuðnings, að Hæstiréttur kynni að hafa komist að annarri niðurstöðu hefði hann verið skipaður öðrum dómendum við meðferð málsins. Er þar aðeins um getgátur að ræða, en ekki fullnægjandi sönnun fyrir orsakatengslum milli ætlaðs tjóns áfrýjanda og þess að ekki var fylgt reglum 70. gr. stjórnarskrárinnar og 1. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmálans, en slík sönnun er forsenda þess að áfrýjanda verði dæmdar bætur á þessum grundvelli úr hendi stefnda. Málsástæðu áfrýjanda sem byggir á þessum grunni er því hafnað.

III

Eins og fram kemur í héraðsdómi hefur áfrýjandi þrívegis leitað eftir því við Hæstarétt, að mál nr. 210/1996 verði tekið þar til meðferðar og dómsuppsögu á ný, en ávallt verið synjað þar sem lagaskilyrði til endurupptöku hefur þótt skorta, síðast með ákvörðun Hæstaréttar 23. október 2006. Þá er í héraðsdómi gerð grein fyrir tilmælum áfrýjanda til forseta Alþingis um að handhafar löggjafarvalds hlutuðust til um að breytingar yrðu gerðar á lögum nr. 91/1991 í þá veru, að það hamli ekki endurupptöku máls og rétti til aðgangs að óhlutdrægum og óvilhöllum dómstóli, þótt endurupptökubeiðni hafi áður verið hafnað, þegar atvik máls og aðstæður eru með þeim hætti sem í tilviki áfrýjanda.

Í framangreindri ákvörðun Hæstaréttar 23. október 2006 er tekið fram, að í lögum nr. 91/1991 sé ekki að finna sérstaka heimild til endurupptöku máls, sem dæmt hefur verið í Hæstarétti, í kjölfar dóms mannréttindadómstóls Evrópu um að brotið hafi verið gegn mannréttindasáttmálanum við meðferð málsins. Jafnframt liggur fyrir að lögum um meðferð einkamála hefur ekki verið breytt í þá veru sem áfrýjandi fór fram á við handhafa löggjafarvalds. Telur áfrýjandi, að með því að hlutast ekki til um slíka lagabreytingu hafi stefndi sýnt af sér háttsemi sem sé saknæm í skilningi almennra skaðabótareglna. Auk þess sé stefndi bótaskyldur gagnvart honum á hlutlægum grundvelli þar sem um skerðingu stjórnarskrárvarinna réttinda áfrýjanda sé að ræða.

Þegar metið er hvort stefndi hafi bakað sér bótaábyrgð gagnvart áfrýjanda með því að hlutast ekki til um lagabreytingu með þeim hætti sem áfrýjandi fór fram á og áður er lýst, er til þess að líta að samkvæmt 1. mgr. 46. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, heita samningsaðilar því að hlíta endanlegum dómi mannréttindadómstóls Evrópu í hverju máli sem þeir eru aðilar að. Af sáttmálanum verður ekki leidd sú regla, að aðildarríki hans séu skuldbundin til að rétta hlut kærenda á annan hátt en með greiðslu þeirra bóta sem mannréttindadómstóllinn kann að ákvarða kæranda í hverju tilviki. Verður því ekki séð, að íslenska ríkið hafi með aðild sinni að mannréttindasáttmála Evrópu undirgengist þá þjóðréttarlegu skuldbindingu að tryggja þeim sem mannréttindadómstóllinn telur brotið gegn rétt til að fá dómsmál fyrir íslenskum dómstólum endurupptekið. Tilmæli ráðherranefndar Evrópuráðsins 19. janúar 2000 til aðildarríkja nr. R (2000) 2 um endurskoðun eða endurupptöku vissra mála fyrir innlendum dómstólum í framhaldi af dómum mannréttindadómstóls Evrópu fela ekki í sér slíka skuldbindingu fyrir íslenska ríkið að þjóðarétti.

Þegar til þess er litið sem að framan er rakið, aðstæður í máli áfrýjanda virtar og það haft í huga, að stefndi greiddi áfrýjanda í ágúst 2003 þær miskabætur sem mannréttindadómstóll Evrópu ákvarðaði honum ásamt tildæmdum kostnaði, verður að leggja til grundvallar, að íslenska ríkið hafi fullnægt þeirri skuldbindingu sem það hefur undirgengist samkvæmt 1. mgr. 46. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Af þessu leiðir, að hafna ber þeirri málsástæðu áfrýjanda, að hann eigi rétt til bóta úr hendi stefnda þar sem stefndi hafi látið hjá líða að bregðast við dómi mannréttindadómstólsins 10. apríl 2003 með þeim hætti sem lögskylt var.

Þá verður heldur ekki fallist á með áfrýjanda, að það fyrirkomulag um endurupptöku dæmdra mála sem íslenski löggjafinn hefur valið og byggt er á í 169. gr. laga nr. 91/1991 sé andstætt 70. gr. stjórnarskrárinnar eða öðrum þeim réttarheimildum sem áfrýjandi vísar til. Ber því einnig að hafna þeirri málsástæðu áfrýjanda, að skaðabætur honum til handa vegna ætlaðs fjártjóns hans verði dæmdar á þeim grundvelli, að áfrýjandi hafi ekki fengið mál sitt endurupptekið í Hæstarétti og dæmt á nýjan leik.

IV

Loks byggir áfrýjandi kröfur sínar á hendur stefnda í máli þessu á því, að niðurstaða hæstaréttarmáls nr. 210/1996 hafi verið lögfræðilega röng og valdið sér fjártjóni sem stefndi beri ábyrgð á. Vísar áfrýjandi í því sambandi til sératkvæðis tveggja dómara í málinu og gerir rökstuðning sem þar kemur fram að sínum.

Í dómi meirihlutans í hæstaréttarmáli nr. 210/1996 er á því byggt, að til þess að áfrýjandi þess máls geti komið fram bótaábyrgð á hendur stefnda í því máli, þurfi hann fyrst að færa sönnur á eignaraðild sína að kröfu þeirri sem var grundvöllur málshöfðunar hans á hendur bankanum og sýna jafnframt fram á, að hann hafi orðið fyrir raunverulegu tjóni er bankinn eigi sök á og ekki hann sjálfur. Var síðan lagt til grundvallar af hálfu meirihlutans, að áfrýjanda málsins hefði ekki tekist að færa sönnur fyrir því, að hann hafi orðið eigandi kröfunnar og var bankinn sýknaður af kröfu áfrýjandans. Niðurstaða minnihlutans var hins vegar sú, að áfrýjandinn hefði í málinu sýnt nægilega fram á rétt sinn yfir kröfunni til að geta beint bótakröfu að Landsbankanum. Var í sératkvæðinu á það fallist með áfrýjandanum, að starfsmaður bankans hefði sýnt af sér háttsemi sem bankinn bæri ábyrgð á og voru áfrýjanda dæmdar bætur úr hendi bankans.

Samkvæmt 1. mgr. 116. gr. laga nr. 91/1991 er dómur bindandi um úrslit sakarefnis milli aðila og þeirra, sem að lögum koma í þeirra stað, um þær kröfur sem þar eru dæmdar að efni til. Samkvæmt 2. mgr. 116. gr. laganna verður krafa, sem dæmd hefur verið að efni til, ekki borin aftur undir sama eða hliðsettan dómstól framar en í þeim lögum segir og skal vísa nýju máli um slíka kröfu frá dómi. Af ákvæði þessu leiðir, að aðilar einkamáls hafa að íslenskum rétti takmörkuð úrræði til að leita endurskoðunar máls að gengnum dómi Hæstaréttar ef frá er talin endurupptaka eftir reglum 169. gr. tilvitnaðra laga. Eins og áður greinir hefur áfrýjandi þrívegis leitað endurupptöku hæstaréttarmáls nr. 210/1996, en beiðni hans ávallt verið synjað. Með dómi Hæstaréttar í málinu var sakarefni þess endanlega til lykta leitt og stendur formlegt gildi dómsins því óhaggað, sbr. 1. mgr. 116. gr. laga nr. 91/1991. Er ekki heimild til þess að lögum, að sú dómsúrlausn geti nú að efni til sætt endurskoðun Hæstaréttar á þeim grundvelli, sem áfrýjandi byggir mál sitt á. Ber því að hafna þeirri málsástæðu áfrýjanda, að hann geti átt rétt til skaðabóta úr hendi stefnda vegna ætlaðs fjártjóns á þeim grundvelli, að niðurstaða meirihluta Hæstaréttar í máli nr. 210/1996 hafi verið röng.

V

Eins og fram kemur í héraðsdómi dæmdi mannréttindadómstóll Evrópu 10. apríl 2003 áfrýjanda miskabætur að fjárhæð 25.000 evrur. Áfrýjandi telur að verði ekki á það fallist að hann eigi rétt til skaðabóta úr hendi stefnda í formi fjártjóns eigi hann, til viðbótar þeim miskabótum sem mannréttindadómstóllinn ákvarðaði honum, rétt til miskabóta úr hendi stefnda samkvæmt 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga vegna þeirrar ólögmætu meingerðar sem felist í því að fá ekki skorið úr sakarefni hæstaréttarmáls nr. 210/1996 fyrir óháðum og óhlutdrægum dómstóli. Telur áfrýjandi, að fjárhæð miskabóta eigi að svara til fjárhæðar aðalkröfu hans í málinu.

Ákvæði íslenskra laga standa því ekki í vegi, að áfrýjanda verði í máli þessu dæmdar miskabætur úr hendi stefnda, þótt mannréttindadómstóll Evrópu hafi áður dæmt honum slíkar bætur vegna þeirra atvika er hann reisir dómkröfur sínar í máli þessu á, sbr. 2. gr. laga nr. 62/1994. Þegar á hinn bóginn eru virt þau rök sem liggja að baki niðurstöðu um bótagrundvöll í II. kafla dómsins hér að framan, verður ekki fallist á með áfrýjanda að skilyrði séu til að dæma honum miskabætur úr hendi stefnda samkvæmt 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga.

VI

Samkvæmt framansögðu ber að staðfesta þá niðurstöðu héraðsdóms að sýkna skuli stefnda af kröfum áfrýjanda í máli þessu. Ákvæði héraðsdóms um málskostnað verður staðfest.

Með vísan til 3. mgr. 130. gr., sbr. 166. gr., laga nr. 91/1991 er rétt að hvor aðila beri sinn kostnað af málinu fyrir Hæstarétti.

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.

Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.

 

                                      Sératkvæði

Ólafs Barkar Þorvaldssonar

hæstaréttardómara

Ég er samþykkur niðurstöðu meirihluta dómenda um að við meðferð hæstaréttarmáls nr. 210/1996 hafi verið brotið gegn ákvæðum 70. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. einnig 6. gr samnings um verndun mannréttinda og mannfrelsis, sbr. lög nr. 62/1994 um mannréttindasáttmála Evrópu, en úrlausn mannréttindadómstóls Evrópu hefur ekki sjálfstæða þýðingu þegar komist er að þessari niðurstöðu þar sem hún er ekki bindandi að íslenskum landsrétti samkvæmt 2. gr. laga nr. 62/1994. Ég er einnig sammála meirihlutanum um að stefndi sé ábyrgur fyrir því fjártjóni sem af því kann að hafa hlotist að brotið var gegn þeim réttindum áfrýjanda sem njóta verndar í 70. gr. stjórnarskrárinnar.

Áfrýjandi hefur þrisvar sinnum óskað eftir því við Hæstarétt að mál nr. 210/1996 yrði endurupptekið vegna upplýsinga um fjárhagsleg samskipti maka eins dómenda Hæstaréttar í því máli við Landsbanka Íslands sem ekki hafi legið fyrir við meðferð málsins. Fram er komið hjá áfrýjanda að hann hafi aldrei farið fram á að málið yrði endurupptekið á grundvelli 169. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, heldur með vísan til grunnreglna stjórnskipunar og réttarfars, meginreglna réttarskipunar og eðlis máls. Hins vegar taldi Hæstiréttur allt að einu að um beiðnir hans færi að ákvæðum 169. gr. laga nr. 91/1991. Í síðasta svari réttarins til áfrýjanda 23. október 2006 var sérstaklega tekið fram að í fyrri málslið 2. mgr. 169. gr. laga nr. 91/1991 væri fortakslaust kveðið á um að aðili gæti ekki nema einu sinni sótt um endurupptöku í máli samkvæmt 1. mgr. greinarinnar og ekki hefðu verið færð fram haldbær rök fyrir því að þetta væri í ósamræmi við 70. gr. stjórnarskrárinnar. Samkvæmt þessu liggur fyrir að hæstaréttarmálið nr. 210/1996 hvorki hefur verið né verður tekið fyrir á ný til endurskoðunar í Hæstarétti. Áfrýjanda verður ekki um það kennt. Fyrir liggur samkvæmt framansögðu að áfrýjandi hefur ekki notið þeirrar málsmeðferðar sem 70. gr. stjórnarskrárinnar er ætlað að tryggja honum. Leggja verður til grundvallar að stefndi beri ábyrgð á því að tryggja mönnum slíka meðferð. Áfrýjanda er ógerlegt að sýna fram á að hann hafi orðið fyrir tjóni vegna þeirrar röngu málsmeðferðar er hann sannarlega sætti. Eins og á stendur um þetta tel ég að stefndi verði að bera hallann af ómöguleika við sönnun á því hvort brotið hafi leitt til fjártjóns fyrir áfrýjanda og þá hve mikils. Vegna niðurstöðu meirihluta dómenda um sýknu stefnda er ekki þörf á að fjalla sérstaklega um varakröfu stefnda um lækkun á fjárhæð bóta til handa áfrýjanda en þess skal getið að ég tel að dæma beri stefnda til að greiða áfrýjanda málskostnað, bæði í héraði og fyrir Hæstarétti.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 26. september 2008.

Mál þetta var höfðað 24. apríl 2007 og dómtekið 2. þ.m.

Stefnandi er Pétur Þór Sigurðsson, Klyfjaseli 18, Reykjavík.

Stefndi er íslenska ríkið.

Stefnandi krefst þess að stefndi verði dæmdur til að greiða sér 42.500.823 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 10. apríl 2003 til greiðsludags auk málskostnaðar.

Af hálfu stefnda er aðallega krafist sýknu af kröfum stefnanda og máls­kostnaðar úr hendi hans en til vara að kröfur stefnanda verði stórlega lækkaðar og málskostnaður felldur niður.

Með úrskurði þessa dóms 30. janúar 2008 var málinu vísað frá dómi og með því fallist á upphaflega aðalkröfu stefnda.  Úrskurðurinn var kærður til Hæstaréttar sem felldi hann úr gildi með dómi sínum 4. mars 2008 (mál nr. 104/2008) og lagði fyrir héraðsdómara að taka málið til efnismeðferðar.

1

Með dómi Hæstaréttar Íslands 25. apríl 1997 í máli nr. 210/1996 var Lands­banki Íslands sýknaður af kröfu stefnanda um skaðabætur að fjárhæð 8.746.319 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 15. október 1992 til greiðsludags auk málskostnaðar vegna tjóns sem hann taldi sig hafa orðið fyrir vegna saknæmrar háttsemi starfsmanns bankans.  Einnig var stefnandi dæmdur til að greiða Landsbanka Íslands 200.000 krónur í málskostnað.  Með dóminum var stað­festur dómur Héraðsdóms Reykjavíkur frá 30. maí 2006.  Tveir dómarar af fimm skiluðu sératkvæði.  Þeir töldu að taka bæri kröfu áfrýjanda til greina en þó þannig að krafan bæri dráttarvexti frá 30. ágúst 1993 er mánuður hefði verið liðinn frá því áfrýjandi beindi rökstuddri kröfu að stefnda um greiðslu bótafjárhæðarinnar.  Þá töldu þeir að dæma bæri stefnda í málinu til að greiða áfrýjanda málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.

Hinn 9. júní 1997 óskaði stefnandi eftir því við Hæstarétt að dómur í framan­greindu máli yrði felldur úr gildi vegna vanhæfis eins dómarans, sem skipað hafði meirihlutann í málinu, byggðu á fjárhagslegum tengslum hans við Landsbanka Íslands.  Í niðurstöðu réttarins töldust þau tengsl ekki upplýst.  Lægi því ekki fyrir að um­­­ræddur dómari hefði verið vanhæfur; lagaskilyrði væru því ekki til að verða við beiðni um endurupptöku málsins og var henni hafnað. 

Hinn 23. október 1997 leitaði stefnandi á ný eftir endurupptöku málsins.  Taldi hann að veruleg fjárhagsleg tengsl milli maka dómarans og Lands­banka Íslands renndu stoðum undir vanhæfi hans.  Þessari beiðni stefnanda var hafnað 19. nóvember 1997 með vísun til þess að samkvæmt 2. mgr. 169. gr. laga nr. 91/1991 gæti aðili ekki sótt nema einu sinni um endurupptöku máls samkvæmt 1. mgr. sömu lagagreinar.

Hinn 23. október 1997 lagði stefnandi fram kæru fyrir mannréttindanefnd Evrópu þar sem hann taldi skipan dómsins í framangreindu máli hafa falið í sér brot á 1. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu.  Með ákvörðun 14. júní 2001 var því slegið föstu að kæran væri tæk til meðferðar. 

Dómur Mannréttindadómstóls Evrópu í málinu féll 10. apríl 2003.  Í áliti dómsins segir m.a.:  „ Dómstóllin telur að það sé fyrst og fremst óhlutdrægnikrafan sem til umfjöllunar er í þessu máli...Spurningunni um hvort óhlutdrægni samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sáttmálans sé fyrir hendi ber bæði að svara á huglægum grundvelli, þ.e. á grundvelli persónulegrar sannfæringar dómara í tilteknu máli, og á hlutlægum grund­velli, þ.e. með athugun á hvort aðstæður hafi verið þannig að útiloka megi að óhlutdrægni dómarans verði með réttu dregin í efa...Samkvæmt hinu hlutlæga viðmiði verður að ákvarða, án nokkurs tillits til gerða dómarans, hvort fyrir hendi séu atvik sem kunna að vekja vafa um óhlutdrægni hans.  Í þessu efni kann ásýndin ein jafnvel að öðlast nokkuð mikilvægi.  Það, sem hér er í húfi, er það traust sem dómstólar í lýðræðisþjóðfélagi verða að vekja meðal almennings.  Þess vegna verður hver sá dómari, sem með réttu er unnt að óttast að ekki sé óhlutdrægur, að víkja sæti... leit að minnsta kosti svo út að tengsl væru milli ráðstafana Guðrúnar Erlendsdóttur hæsta­réttardómara í þágu eiginmanns síns og þess hagræðis sem Landsbankinn veitti honum.  Dómstóllinn mun ekki hafa uppi getgátur um hvort hún naut af þessu einhvers persónulegs hags, og telur enga ástæðu til að ætla að annað hvort hún sjálf eða eiginmaður hennar hafi átt einhverja beina hagsmuni af úrslitum máls kæranda og Landsbankans.  Aftur á móti voru þáttur dómarans í skuldaskilunum, það hagræði sem eiginmaður hennar naut og tengsl hans við Landsbankann þannig að eðli og umfangi, og það nálægt athugun Hæstaréttar á máli kæranda í tíma, að kærandi gat með réttu óttast að Hæstarétt skorti þá óhlutdrægni sem krafist er.“  Í forsendum dómsins varðandi tjón segir:  „Kærandi krafðist skaðabóta fyrir fjárhagslegt tjón er hann hefði orðið fyrir vegna þess að hann tapaði máli sínu fyrir Hæstarétti hinn 25. apríl 1997, þar sem dæmt var bankanum í vil með þremur atkvæðum gegn tveimur, og þar sem eitt meirihlutaatkvæðanna var atkvæði Guðrúnar Erlendsdóttur hæstaréttardómara.  Krafðist kærandi kr. 41.010.259, og myndaði aðalkrafa hans í því máli, kr. 8.746.319, þá fjárhæð ásamt áföllnum dráttarvöxtum.  Hann lagði áherslu á að orsakasamhengi væri milli þess að Hæstiréttur hefði ekki sinnt máli hans sem sjálfstæður og óhlut­drægur dómstóll og þess að rétturinn hefði hafnað kröfu hans.  Kærandi fór einnig fram á að dómstóllinn ákvarðaði honum miskabætur vegna vonbrigða, þjáninga og mannorðsspjalla sem hann hefði orðið fyrir af brotinu.  Krafðist hann bóta að mati dómstólsins sem ekki væru lægri en 40 milljónir króna... Dómstóllinn telur að sanngjarnar bætur verði aðeins ákvarðaðar á þeirri forsendu að kærandi naut ekki allra reglna 1. mgr. 6. gr. sáttmálans.  Dómstólnum er ókleift að leiða getum að úrslitum máls kæranda ef svo hefði verið.  Dómstóllinn telur þó að kærandi hafi liðið þjáningar af völdum þess sem talið er fela í sér brot gegn sáttmálanum og verði það ekki nægilega bætt með þeirri ákvörðun að brot hafi átt sér stað...“  Í dómsorðum var kröfu  stefnanda (kæranda) um bætur fyrir fjártjón vísað frá dómi en jafnframt var kveðið á um að íslenska ríkinu bæri að greiða stefnanda miskabætur að fjárhæð 25.000 evrur auk 15. 000 evra í kostnað og útgjöld.  Einnig var kveðið á um að ríkið skyldi greiða stefnanda þann skatt sem kynni að vera lagður á ofangreindar greiðslur.

Dómarar Mannréttindadómstóls Evrópu, sjö að tölu, voru einhuga um framan­greindar dómsniðurstöður að því undanskildu að einn dómarinn skilaði sératkvæði með eftirfarandi meginrökum:  „Ég hef greitt atkvæði gegn því að veita kæranda miskabætur að fjárhæð 25.000 evrur þar sem ég álít þá fjárhæð augljóslega fram úr hófi með hliðsjón af fordæmum dómstólsins.“  Þá gerðu tveir dómenda sérstaka grein fyrir samþykktaratkvæðum sínum.  Í séráliti annars þeirra, sem hinn lýsti sig sammála með nokkrum viðbótarskýringum, segir:  „Svo kann að virðast að miskabætur þær, sem dæmdar eru í máli þessu, séu fremur háar.  Ég hef engu að síður greitt atkvæði mitt með meirihlutanum fyrir greiðslu þeirra bóta af ástæðum sem rétt er að séu skýrðar.  Þegar hagar til eins og í þessu máli, þegar dómstóll heimalandsins sker úr ágreiningi með meiri hluta þriggja gegn tveimur og brot virðist hafa verið framið gegn 1. mgr. 6. gr. vegna þess að einn dómara hefur skort óhlutdrægni – eða svo lítur a.m.k. út fyrir -, virðist endurupptaka innan lands vera eðlileg eða jafnvel sjálfsögð í kjölfar slíks dóms.  Ráðherranefndin hefur hvatt öll aðildarríki til að fella inn í landslög sín ákvæði um möguleika á endurupptöku mála ef Mannréttindadómstóll Evrópu hefur álitið að brotið hafi verið gegn 1. mgr. 6. gr., sérstaklega þegar „brotið byggist á réttarfarslegum mistökum eða ágöllum sem eru svo alvarlegs eðlis að verulegur vafi er fyrir hendi um úrslit þeirra málaferla í heimalandinu sem kvartað er um“ (sjá Tilmæli ráherranefndar til aðildarríkja nr. R(2000)2 um endurskoðun eða endurupptöku dómsmála heima fyrir í kjölfar dóma Mannréttindadómstóls Evrópu, samþykkt 19. janúar 2000).  Ég tel að þessu máli sé þannig farið.  Kærandi hefur þegar, án árangurs, beðið um endurupptöku málsins og íslensk lög gera að því er virðist ekki ráð fyrir neinum frekari möguleikum á endurupptöku...Ef nýjar ástæður til endurupptöku koma til í kjölfar dóms Mannréttindadómstólsins ætti viðeigandi endurupptökutilhögun alltaf að vera fyrir hendi.  Þar sem þessi leið er, að því er virðist, lokuð samkvæmt íslenskum lögum og langt kann að vera þangað til Ísland breytir landslögum sínum, verður hér ekki einungis að taka tillit til þess langa tíma sem líða kann heldur einnig til þess að kærandi fær ef til vill aldrei mál sitt endurupptekið...“  

Stefnandi tók við umræddum miskabótum, ásamt dæmdum kostnaði vegna reksturs málsins fyrir Mannréttindadómstólnum, úr hendi íslenska ríkisins í ágúst­mánuði 2003.  Í bréfi sínu til ríkislögmanns 20. ágúst 2003 gerði hann þann fyrirvara að þrátt fyrir móttöku greiðslunnar gerði hann „eftir sem áður þá kröfu á hendur íslenska ríkinu að gripið (yrði) til sértækra ráðstafana til að bæta úr brotinu gagnvart (sér) og rétta hlut (sinn) “.

Með bréfi dómsmálaráðuneytisins, dags. 15. september 2005, til fastanefndar Íslands hjá Evrópuráðinu fylgdi yfirlit yfir þær aðgerðir sem íslensk stjórnvöld hefðu gripið til í því skyni að fullnægja dómi Mannrétttindadómstóls Evrópu í máli stefnanda þessa máls.  Dómurinn hafi verið þýddur og birtur á heimasíðu ráðu­neytisins.  Ekki væri ljóst hver afstaða Hæstaréttar yrði til beiðni stefnanda um endur­upptöku málsins, þrátt fyrir ákvæði 2. mgr. 169. greinar laga nr. 91/1991, þar sem ekki hefði áður reynt á endurupptöku máls fyrir Hæstarétti í kjölfar þess að Mann­réttindadómstóll Evrópu hefði slegið föstu broti gegn mannréttindasáttmálanum.  Þá var vísað til þess að dómsmálaráðuneytið hefði með bréfi, dags. 18. júlí 2005, farið þess á leit við réttarfarsnefnd að hún léti í té álit sitt á því hvort ákvæði XXV. kafla laga nr. 91/1991, að því er varðar heimildir til endurupptöku mála, ættu að sæta endurskoðun, meðal annars að teknu tilliti til dóms mannréttindadómstólsins í máli stefnanda og tilmæla ráðherranefndar Evrópuráðsins nr. R(2000)2 um endurupptöku mála að landsrétti í kjölfar dómsuppkvaðninga mannréttindadómstólsins.  Í því bréfi, sem hér var getið, er vísað til þess að með bréfi, dags. 18. október 2004, hefði fastanefnd Íslands hjá Evrópuráðinu greint frá því að ráðherranefnd Evrópuráðsins hefði ekki lokað máli stefnanda.  Bréfinu hefði fylgt fyrirspurn frá mannréttinda­skrifstofu Evrópuráðsins, dags. 12. ágúst 2004, þar sem fram kæmi sú afstaða að málinu yrði best lokið með endurupptöku þess fyrir Hæstarétti.

Hinn 7. júlí 2006 fór stefnandi þess á leit að dómur í framangreindu máli yrði felldur úr gildi og það tekið til meðferðar að nýju fyrir Hæstarétti.  Samkvæmt endur­riti úr gerðabók Hæstaréttar 23. október 2006 var umsókn stefnanda um endur­upptöku hafnað þegar af þeirri ástæðu  að skilyrði 2. mgr. 169. gr. laga nr. 91/1991 væru ekki uppfyllt til að Hæstiréttur tæki hana til efnislegrar umfjöllunar að nýju.

Stefnandi sendi forseta Alþingis bréf 23. febrúar 2007.  Þar segir að því sé beint til íslenska ríkisins að það hlutist til um að lögum um meðferð einkamála verði breytt í þá veru að það að endurupptökubeiðni hafi áður verið hafnað hamli ekki endurupptöku máls og rétti til aðgangs að óhlutdrægum og óvilhöllum dómstóli.  Að mati stefnanda sé ljóst, verði ekki hlutast til um viðeigandi laga­breytingar, að íslenska ríkið hafi þá synjað honum aðgangs að óhlutdrægum og óvilhöllum dómstóli og að honum sé þá nauðugur sá kostur að leita réttar síns eftir öðrum leiðum en beinast virðist þá liggja við að höfða skaðabótamál á hendur íslenska ríkinu.  Í svarbréfi 5. mars 2007 kveðst forsetinn telja eðlilegast að dómsmálaráðherra og allsherjarnefnd meti hvort tilefni sé til að standa að þeirri lagabreytingu sem lögð sé til í bréfi stefnanda.  Hann hafi því óskað eftir því við formann allsherjarnefndar að nefndin taki erindið til athugunar.  Hins vegar sé ekki venja að forseti eigi frumkvæði að lagasetningu af þessu tagi í krafti síns embættis.

Í stefnu segir að með vísun til framanritaðs og þar sem frekari viðræður hafi ekki borið árangur, að teknu tilliti til fyrningarreglna og þess langa tíma sem liðið hafi frá uppkvaðningu dóms Mannréttindadómstólsins án þess að stefndi gerði neinn sérstakan reka að því að bregðast við honum, sé málshöfðun óhjákvæmileg.

2

Stefnandi kveður stefnda hafa brotið gegn þeim grund­vallarréttindum sínum að fá notið réttlátrar málsmeðferðar fyrir óvilhöllum dómstóli við meðferð einkamáls hans gegn Landsbanka Íslands, sbr. 70. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. einnig 1. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, og dóm Mannréttindadómstóls Evrópu frá 10. apríl 2003.  Einnig hafi stefndi vanrækt, í kjölfar dóms Mannréttinda­dómstóls Evrópu, að bregðast við dóminum með því að heimila stefnanda endurupptöku málsins og tryggja um leið aðgang hans að óvilhöllum dómstóli.  Með því hafi stefnandi m.a. brotið gegn 46. gr. sáttmálans, sem kveði á um að samnings­aðilar heiti því að hlíta endanlegum dómum dómstólsins í þeim málum sem þeir eigi aðild að, og þeirri meginreglu réttarins að sérhver sá, sem sæti broti á mannréttindum sínum af hálfu hins opinbera, skuli eiga raunhæf úrræði að landsrétti til að leita réttar síns, sbr. einnig undirstöðurök 13. gr. mannréttindasáttmálans.  Af hálfu stefnanda er á því byggt að vegna framangreindra brota beri stefnda að bæta stefnanda allt það fjárhagslega tjón sem raunhæft megi telja að af þeim hafi hlotist.  Brot á ákvæðum stjórnarskrár og mannréttindasáttmála Evrópu, þ.m.t. þjóðréttarlegum skuldbindingum íslenska ríkisins, teljist að meginreglu saknæm af hálfu ríkisins en auk þess sé á því byggt að ríkið beri hlutlæga ábyrgð á slíkum brotum.

Af hálfu stefnanda er á því byggt að í umræddu hæstaréttarmáli hafi atkvæði hins vanhæfa dómara haft úrslitaþýðingu  og hann hafi því verið sviptur raunhæfum kosti þess að tryggja fjárhagslegan rétt sinn, sbr. til hliðsjónar 72. gr. stjórnar­skrár­innar.  Af þessu sé jafnframt ljóst að hefði stefndi heimilað endurupptöku málsins og um leið tryggt aðgang stefnanda að óvilhöllum dómstóli séu líkur til þess að hann hefði fengið stefnufjárhæð máls þessa ásamt dráttarvöxtum frá 30. ágúst 1993 dæmdar úr hendi Landsbankans.  Vegna aðgerðarleysis stefnda að tryggja stefnanda réttláta og hlutlausa málsmeðferð og þar með mannréttindi hans beri stefndi allan halla af því hver niðurstaða endurupptekins máls hefði orðið.  Verði skaðabótaréttur stefnanda talinn háður því að hann hafi orðið fyrir óyggjandi fjártjóni verði stefndi að bera allan halla af óvissu í því tilliti enda sé hún til komin vegna réttarbrots hans og aðgerðarleysis við að rétta hlut stefnanda. 

Stefnandi byggir jafnframt á því að verði skaðabótaréttur hans, þrátt fyrir allt framangreint, talinn vera háður því að hann hafi orðið fyrir óyggjandi fjártjóni sem stefnanda beri að sanna, séu verulega miklar líkur fyrir því að fallist hefði verið á fjárkröfur hans við endurupptöku málsins.  Á því er þannig byggt að niðurstaða meiri­hluta Hæstaréttar í máli nr. 210/1996 hafi verið lögfræðilega röng og að ráðgera verði, hefði málið verið endurupptekið, að niðurstaðan hefði orðið önnur og þá í samræmi við atkvæði þeirra dómara sem skipuðu minnihlutann í málinu.

Umkrafin fjárhæð er þannig fundin að miðað er við höfuðstól kröfu stefnanda á hendur Landsbanka Íslands í hæstaréttarmálinu hr. 210/1996, 8.746.319 krónur, en á hann reiknist dráttarvextir samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 30. ágúst 1993, í samræmi við sératkvæði í málinu, til 1. júlí 2001, en samkvæmt III. kafla laga nr. 38/2001 frá þeim degi til 10. apríl 2003 er dómur Mannréttindadómstóls Evrópu var kveðinn upp.  Líta verði svo á að við uppkvaðningu dómsins hafi brot stefnda verið staðfest og honum hafi þá í síðasta lagi borið að rétta hlut stefnanda.  Áfallnir dráttarvextir á tilgreindu tímabili nemi 33.754.504 krónum sem að viðbættri höfuð­stólsfjárhæð nemi samtals stefnufjárhæð málsins.  Krafist er dráttarvaxta af þeirri kröfu á hendur stefnda frá 10. apríl 2003 þar sem stefnandi hafi gert ítarlega grein fyrir fjárkröfu sinni í erindi til Mannréttindadómstóls Evrópu 5. apríl 2002 og þeirri kröfu verið beint gegn stefnda.

Höfnun dóms á framangreindum málsástæðum stefnanda feli í sér þá niður­stöðu að hann verði að hlíta því að hafa hvorki fengið aðgang að óvilhöllum dómstóli né að réttur hans vegna þessa hafi í neinu verið bættur.  Yrði þetta niðurstaðan telur stefnandi sig eiga rétt á miskabótum úr hendi stefnda vegna þeirrar ólögmætu meingerðar sem slík niðurstaða fæli í sér, sbr. 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993.  Telur stefnandi hæfilegar miskabætur svara sömu fjárhæð og hann telji fjár­hagslegt tjón sitt vera.

3

Af hálfu stefnda er byggt á því að með dómi Hæstaréttar Íslands frá 25. apríl 1997 í máli nr. 210/1996 hafi verið felldur dómur á bótakröfu stefnanda gegn Landsbanka Íslands og bankinn verið sýknaður en krafan hafi á engan hátt byggst á réttarsambandi við stefnda.  Dómur Hæstaréttar sé endanlegur samkvæmt grundvallar­reglum réttarfars og íslenskrar stjórnskipunar og engin heimild sé til endurskoðunar hans, á þann hátt sem krafist sé í málinu, í formi skaðabótakröfu gegn stefnda.  Þessu til stuðnings vísar stefndi til V. kafla stjórnarskrár lýðveldisins Íslands, sbr. og 1. gr. dómstólalaga nr. 15/1998 og lög nr. 91/1991 um meðferð einkamála, einkum 24. gr., 25. gr. og 116. gr., svo og meginreglna einkamálaréttarfars.  Að virtum forsendum dóms Hæstaréttar í máli nr. 210/1996, sem stefnandi hafi ekki reynt að hrekja nema á þeim grundvelli að einn dómenda hafi verið vanhæfur og að brotið hafi verið gegn 1. mgr. 6. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu samkvæmt niðurstöðu Mannréttindadómstóls Evrópu, sé ósannað að niðurstaðan hefði orðið önnur en um það hljóti stefnandi að bera sönnunarbyrði.

Á því er einnig byggt af hálfu stefnda að hann hafi fullnægt skyldum sínum samkvæmt 46. gr. mannréttindasáttmálans, sem á hann hafi verið lagðar með dómsorði Mannréttindadómstólsins, og greitt stefnanda tildæmdar bætur.  Þá stangist þær skorður, sem settar séu við endurupptöku dæmdra mála fyrir Hæstarétti, í engu á við sáttmálann og bótakrafa stefnanda fái ekki stoð í því að stefnda hafi borið að tryggja frekari leið til endurupptöku með lagabreytingu eða hlutast til um aðra dómsmeðferð í máli hans gegn Landsbanka Íslands.

Varakrafa stefnda er rökstudd með því að verði fallist á að stefndi beri bótaskyldu í málinu og leitt verði getum að annarri niðurstöðu Hæstaréttar sé engan vegin víst að kröfur stefnanda hefðu verið teknar til greina að öllu leyti eða að dráttarvextir hefðu verið ákvarðaðir eins og hann ráðgeri nú, auk þess sem telja verði þá áföllnu dráttarvexti fyrnda eftir ákvæðum 2. tl. 3. gr. laga nr. 14/1905.  Stefndi vísar til tómlætis stefnanda varðandi málskot hans til Mannréttindadómstólsins svo og höfðun þessa máls.  Stefndi mótmælir einnig almennt dráttarvaxtakröfu stefnanda og vísar til heimildar dómara að færa til upphafstíma dráttarvaxta samkvæmt III. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu.

4

Auk greinds dóms Mannréttindadómstóls Evrópu er megingagn stefnanda endurrit dóms Hæstaréttar Íslands í máli nr. 210/1996 en gögn þess liggja ekki frammi.  Dómur Hæstaréttar felur í sér endanlega úrlausn þess ágreiningsefnis stefn­anda og Landsbanka Íslands sem þar var til umfjöllunar.  Samkvæmt réttarskipan landsins er það fráleitt á valdsviði héraðsdómara að kveða á um hvort dómur Hæstaréttar Íslands í tilteknu máli hafi verið réttur eða rangur.

Það er grundvallarregla í skaðabótarétti að sá, sem krefst skaðabóta, verður í fyrsta lagi að sanna að hann hafi orðið fyrir tjóni og umfang þess.  Síðan þarf hann að sanna bótagrundvöll og orsakatengsl.  Sá, sem krefst skaðabóta, ber sönnunarbyrði um ætlað tjón sitt og er ekki fallist á að í þessu máli séu rök til að víkja frá þeirri almennu grundvallarreglu.

Mannréttindadómstóll Evrópu mat einn af fimm dómurum framangreinds máls vanhæfan á grundvelli hlutlægra sjónarmiða.  Að atkvæði hans undanskildu féllu atkvæði jafnt.  Ógerlegt er að ætla á um það á hvern veg atkvæði dómara, sem komið hefði í stað þess sem með réttu hefði átt að víkja sæti, hefði fallið.  Hefðu stjórnvöld lagt fram lagafrumvarp eða hlutast til um framlagningu þess, sem til þess væri fallið að greiða stefnanda leið að endurupptöku máls hans fyrir Hæstarétti, er alls óvíst hver afdrif þess hefðu orðið í meðförum handhafa löggjafarvalds.  Hinu sama gegnir um niðurstöðu hugsanlegs, nýs dóms.  Þegar af þeirri ástæðu að stefnandi hefur ekki sýnt fram á tjón sitt verður eigi fallist á kröfu hans um bætur vegna ætlaðs fjártjóns.

Af hálfu stefnanda er ekki sett fram ákveðin, sérgreind miskabótakrafa.  Dóm­krafa hans er sett fram á grundvelli útreiknaðs, fjárhagslegs tjóns.  Á engan hátt er sýnt fram á að fullnægt sé áskilnaði 1. mgr. 26. skaðabótalaga um miskabætur og er kröfu stefnanda, að því er lýtur að þeirri málsástæðu, hafnað.

Samkvæmt framangreindu er niðurstaða málsins sú að sýkna beri stefnda af kröfum stefnanda.  Ákveðið er að málskostnaður skuli falla niður.

Mál þetta dæmir Sigurður H. Stefánsson héraðsdómari.

Dómsorð:

Stefndi, íslenska ríkið, er sýkn af kröfum stefnanda, Péturs Þórs Sigurðssonar.

Málskostnaður fellur niður.