Print

Mál nr. 278/2006

Lykilorð
  • Ærumeiðingar
  • Ómerking ummæla
  • Tjáningarfrelsi
  • Friðhelgi einkalífs
  • Stjórnarskrá
  • Miskabætur
  • Prentréttur

Fimmtudaginn 1

 

Fimmtudaginn 1. mars 2007.

Nr. 278/2006.

Garðar Örn Úlfarsson

(Gestur Jónsson hrl.

 Gísli Guðni Hall hdl.)

gegn

Ásbirni K. Morthens

(Ragnar Aðalsteinsson hrl.

 Sigríður Rut Júlíusdóttir hdl.)

og

Ásbjörn K. Morthens

gegn

Garðari Erni Úlfarssyni og

365 prentmiðlum ehf.

(Gestur Jónsson hrl.)

 

Ærumeiðingar. Ómerking ummæla. Tjáningarfrelsi. Friðhelgi einkalífs. Stjórnarskrá. Miskabætur. Prentréttur.

 

Á krafðist þess að forsíðufyrirsögnin ,,Bubbi fallinn í vikublaðinu H og samhljóða fyrirsögn á blaðsíðu 16 til 17 í sama tölublaði yrði dæmd dauð og ómerk. Þá krafðist hann þess að G, ritstjóri vikublaðsins, og P, útgefandi þess, yrðu dæmdir óskipt eða hvor um sig til að greiða honum 20.000.000 króna í miskabætur. Í dómi Hæstaréttar var tekið fram að samkvæmt 3. mgr. 15. gr. laga nr. 57/1956 um prentrétt yrði ábyrgð á efni sem birtist í riti ekki lögð bæði á útgefanda þess og ritstjóra að höfundi frágengnum heldur aðeins annan hvorn þeirra. Samkvæmt því og þar sem G hafði verið talinn bera bótaábyrgð í héraði og Á ekki krafist þess að P yrði dæmdur í stað hans var staðfest niðurstaða héraðsdóms um sýknu útgefandans. Ekki var talið unnt að skilja forsíðufyrirsögnina öðruvísi en svo að fullyrt væri að Á væri byrjaður að neyta vímuefna, enda væri þorra þjóðarinnar kunnugt um vímuefnaneyslu hans fyrr á árum. Eins og fullyrðingin var fram sett var hún talin fela í sér ærumeiðandi aðdróttun og voru ummælin dæmd dauð og ómerk. Hins vegar var ekki talið að samhljóða fyrirsögn á blaðsíðu 16 til 17 í tölublaðinu fæli í sér fullyrðingu um vímuefnanotkun Á eða aðdróttun í skilningi hegningarlaga, enda væri hún í samhengi við texta þar sem greint var frá því að Á hefði hafið reykingar á ný. Fallist var á að Á ætti rétt á miskabótum úr hendi G vegna þeirra ummæla sem birtust á forsíðu tölublaðsins. Miskabótakrafa Á var einnig reist á því að friðhelgi einkalífs hans hefði verið rofin með óheimilli birtingu mynda og umfjöllun um einkamálefni hans í umræddu tölublaði. Vísað var til þess að umræddar myndir hefðu verið teknar án samþykkis eða vitundar Á og að friðhelgi einkalífs nyti verndar samkvæmt 71. gr. stjórnarskrárinnar. Þegar metnar væru þær skorður sem friðhelgi einkalífs setti tjáningarfrelsinu var talið skipta grundvallarmáli hvort hið birta efni, myndir eða texti, gæti talist þáttur í almennri þjóðfélagsumræðu og ætti þannig erindi til almennings. Ekki var talið að þær myndir sem til umfjöllunar væru tengdust á nokkurn hátt slíkri umræðu. Vísað var til þess að Á hefði verið á ferð um Reykjavík á bifreið sinni þegar umræddar myndir voru teknar og var talið að hann hefði við þær aðstæður með réttu mátt vænta þess að friðhelgi einkalífs síns yrði virt. Hefði sú friðhelgi verið brotin með birtingu umræddra mynda og verið framin meingerð gegn friði og persónu Á sem G bæri miskabótaábyrgð á. Þar sem Á hafði oftar en einu sinni gert baráttu sína við tóbaksfíkn að umræðuefni í viðtölum við fjölmiðla var ekki talið að ummæli á 17. síðu tölublaðsins um reykingar hans gætu talist brot á friðhelgi einkalífs hans. Samkvæmt framansögðu var talið að Á ætti rétt til miskabóta úr hendi G bæði vegna ærumeiðandi aðdróttana og brota á friðhelgi einkalífs og þótti fjárhæð þeirra hæfilega ákveðin 700.000 krónur.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Árni Kolbeinsson, Garðar Gíslason, Hrafn Bragason og Markús Sigurbjörnsson.

Aðaláfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 23. maí 2006. Hann krefst aðallega sýknu af kröfum gagnáfrýjanda, en til vara að fjárkrafa hans verði lækkuð. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Gagnáfrýjandi áfrýjaði héraðsdómi fyrir sitt leyti 28. júlí 2006 gagnvart aðaláfrýjanda og stefnda 365 prentmiðlum ehf. Hann krefst þess að forsíðufyrirsögnin ,,Bubbi fallinn“ í vikublaðinu Hér & nú, 4. tölublaði 1. árgangs, og samhljóða fyrirsögn á blaðsíðu 16 til 17 í sama tölublaði verði dæmd dauð og ómerk. Þá krefst hann þess að aðaláfrýjandi og stefndi verði dæmdir óskipt eða hvor um sig til að greiða honum 20.000.000 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 2. nóvember 2005 til greiðsludags. Loks krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst aðallega staðfestingar héraðsdóms en til vara að fjárkrafa gagnáfrýjanda verði lækkuð. Þá krefst hann málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

I.

Í máli þessu hefur gagnáfrýjandi uppi kröfur vegna umfjöllunar og myndbirtinga í  4. tölublaði 1. árgangs vikublaðsins Hér & nú, sem út kom 16. júní 2005, en málavöxtum er nánar lýst í hinum áfrýjaða dómi. Kröfum sínum beinir gagnáfrýjandi að aðaláfrýjanda, sem var ritstjóri blaðsins á þeim tíma, og stefnda, sem var útgefandi þess. Um ábyrgð á efni, sem birtist í ritum á borð við vikublaðið Hér & nú, fer eftir 15. gr. laga nr. 57/1956 um prentrétt. Samkvæmt 2. mgr. greinarinnar ber höfundur efnis refsi- og fébótaábyrgð á því ef hann hefur nafngreint sig og er auk þess annað hvort heimilisfastur hér á landi þegar ritið kemur út eða undir íslenskri lögsögu þegar mál er höfðað. Ef enginn slíkur höfundur hefur nafngreint sig ber útgefandi rits eða ritstjóri ábyrgðina, því næst sá sem hefur ritið til sölu eða dreifingar og loks sá sem annast hefur prentun þess eða letrun, sbr. 3. mgr. greinarinnar. Höfundar texta og ljósmynda eru ekki nafngreindir í blaðinu. Fer því um ábyrgð eftir 3. mgr. 15. gr. og eru „útgefandi rits eða ritstjóri“ næstir í ábyrgðarröðinni. Það leiðir beint af orðalagi ákvæðisins að ábyrgð verður, að höfundi frágengnum, ekki lögð á þessa báða heldur aðeins annan hvorn þeirra. Þá sýnir ákvæði 17. gr. laganna, þar sem rætt er um greiðsluábyrgð útgefanda rits á fjárkröfum á hendur ritstjóra þess vegna efnis ritsins, að samhliða frumábyrgð þeirra er ekki meginregla laganna. Er það einnig í samræmi við þá grunnreglu ábyrgðarkerfis þess sem byggt er á í lögum nr. 57/1956 að einungis einn aðili verði gerður ábyrgur að lögum á efni rits. Samkvæmt þessu og með því að gagnáfrýjandi hefur ekki krafist þess að stefndi 365 prentmiðlar ehf. verði dæmdur í stað aðaláfrýjanda verður staðfest niðurstaða héraðsdóms um sýknu stefnda af kröfum gagnáfrýjanda.

II.

Með vísan til forsendna hin áfrýjaða dóms verður staðfest niðurstaða hans um ómerkingu ummæla á forsíðu blaðsins sem og niðurstaða héraðsdóms um að hafna kröfu gagnáfrýjanda um ómerkingu ummæla sem birtust á blaðsíðu 16 til 17 í ritinu.

III.

Gagnáfrýjandi reisir miskabótakröfu sína öðrum þræði á því að í þeim ummælum sem hann krefst ómerkingar á hafi falist meingerð gegn persónu sinni og æru. Hér að framan var staðfest sú niðurstaða héraðsdóms að ummælin „Bubbi fallinn“ á forsíðu blaðsins hafi verið ærumeiðandi aðdróttun í garð gagnáfrýjanda. Felst í henni ólögmæt meingerð gegn persónu hans og æru sem aðaláfrýjandi ber miskabótaábyrgð á samkvæmt b. lið 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, sbr. 13. gr. laga nr. 37/1999.

Gagnáfrýjandi reisir miskabótakröfu sína einnig á því að friðhelgi einkalífs hans hafi verið rofin með óheimilli birtingu mynda og umfjöllun um einkamálefni hans í umræddu tölublaði. Gagnáfrýjandi er þjóðþekktur tónlistarmaður og hefur um langt árabil verið mjög áberandi í þjóðlífinu og átt fjölda viðtala við fjölmiðla jafnt um list sína, baráttu sína við fíkn og ýmsa þætti einkalífs síns. Í skýrslu Haraldar Haraldssonar fyrir héraðsdómi kom fram að hann hafi tekið umræddar myndir af gagnáfrýjanda þegar hann á leið sinni um Reykjavík stöðvaði bifreið sína á rauðu ljósi. Þær voru teknar án samþykkis hans eða vitundar. Friðhelgi einkalífs nýtur verndar samkvæmt 71. gr. stjórnarskrárinnar. Þegar metnar eru þær skorður sem friðhelgi einkalífs setur tjáningarfrelsinu, sbr. 3. mgr. 73. gr. stjórnarskrárinnar, skiptir grundvallarmáli hvort hið birta efni, myndir eða texti, geti talist þáttur í almennri þjóðfélagsumræðu og eigi þannig erindi til almennings. Þær myndir sem hér eru til umfjöllunar tengjast á engan hátt slíkri umræðu. Tilgangur birtingar þeirra sýnist hafa verið sá einn að svara ætluðum áhuga almennings á einkamálefnum gagnáfrýjanda og framsetningin á forsíðu blaðsins miðuð við að auka sölu þess. Þegar umræddar myndir voru teknar var gagnáfrýjandi eins og áður sagði á ferð um Reykjavík í bifreið sinni. Mátti hann við þær aðstæður með réttu vænta þess að friðhelgi einkalífs síns yrði virt. Sú friðhelgi var brotin með birtingu fyrrgreindra mynda, bæði myndarinnar á forsíðu blaðsins og myndanna af gagnáfrýjanda á blaðsíðum 16 til 17 í blaðinu. Með því hefur verið framin meingerð gegn friði og persónu gagnáfrýjanda sem aðaláfrýjandi ber miskabótaábyrgð á samkvæmt b. lið 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga.

Af gögnum málsins sést að gagnáfrýjandi hefur oftar en einu sinni gert baráttu sína við tóbaksfíkn að umræðuefni í viðtölum við fjölmiðla. Af þeim sökum er fallist á það með héraðsdómi að ummæli á 17. síðu blaðsins um reykingar hans geti ekki talist brot á friðhelgi einkalífs hans.

Samkvæmt framansögðu á gagnáfrýjandi rétt til miskabóta úr hendi aðaláfrýjanda bæði vegna ærumeiðandi aðdróttana og brota á friðhelgi einkalífs. Við ákvörðum bótafjárhæðar verður að líta til þess að umræddu vikublaði var dreift til áskrifenda DV og einnig selt í lausasölu. Brot gegn gagnáfrýjanda eru meðal annars fólgin í ummælum og myndbirtingu á forsíðu blaðsins. Er slíkum blöðum gjarnan stillt upp á áberandi stöðum í blaðsöluhillum á sölustöðum. Þá birtist umrædd forsíða einnig í auglýsingu í Fréttablaðinu 16. júní 2005, en það blað er borið ókeypis í hús víða um land. Umfjöllunin um gagnáfrýjanda fékk þannig mjög mikla útbreiðslu og kom fyrir sjónir mun fleiri manna en þeirra er vikuritið keyptu. Þá verður til þess að líta að framsetning umfjöllunar um gagnáfrýjanda á forsíðu blaðsins er til þess fallin að auka sölu þess og þannig að ætla verður í ágóðaskyni. Þegar allt þetta er virt er fjárhæð miskabóta hæfilega ákveðin í hinum áfrýjaða dómi.

Ákvæði héraðsdóms um málskostnað verða staðfest.

Málskostnaður milli gagnáfrýjanda og stefnda fyrir Hæstarétti fellur niður.

Aðaláfrýjandi greiði gagnáfrýjanda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir.   

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.

Aðaláfrýjandi, Garðar Örn Úlfarsson, greiði gagnáfrýjanda, Ásbirni K. Morthens, 500.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

Málskostnaður milli gagnáfrýjanda og stefnda, 365 prentmiðla ehf., fyrir Hæstarétti fellur niður.

                                                                                                                 

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 28. mars 2006.

             Mál þetta höfðaði Ásbjörn Morthens, kt. 060656-2239, Fannahvarfi 1, Kópavogi, með stefnu birtri 2. nóvember 2005 á hendur Garðari Erni Úlfarssyni, kt. 281062-4849, Kúrlandi 18, Reykjavík og 365 prentmiðlum ehf., kt. 480702-2390, Skaftahlíð 24, 105 Reykjavík.  Málið var dómtekið 10. mars sl.

             Stefnandi krefst þess að eftirfarandi ummæli verði dæmd dauð og ómerk: 

             Forsíðufyrirsögn í vikublaðinu Hér & nú, 4. tbl., 1. árg., „Bubbi fallinn!”, og samhljóða fyrirsögn á bls. 16-17 í sama tölublaði. 

             Þá krefst stefnandi þess að stefndu verði óskipt dæmdir til að greiða miska­bætur að fjárhæð 20.000.000 króna með dráttarvöxtum frá 2. nóvember 2005 til greiðsludags.

             Loks krefst stefnandi málskostnaðar. 

             Stefndu krefjast báðir sýknu og málskostnaðar. 

             Stefndi 365-prentmiðlar ehf. gefur út vikublaðið Hér & nú. Stefndi Garðar Örn Úlfarsson var ritstjóri blaðsins í júní 2005.  Þann 16. þess mánaðar kom út 4. tölublað 1. árgangs.  Á forsíðunni er stór mynd af stefnanda þar sem hann situr í bifreið sinni.  Er hann að tala í farsíma og með ótendraða sígarettu í munninum.  Yfir myndina og miðja forsíðuna er síðan fyrirsögnin „Bubbi fallinn!”.  Í opnu á blaðsíðum 16-17 er að finna sömu fyrirsögn, en myndin þekur alla opnuna.  Þá er fjórum minni myndum af stefnanda raðað neðst á síðurnar, auk einnar af bifreið hans.  Enn fremur er á opnunni gul stjarna með orðinu "Hætta!" og texti á rauðum fleti þar sem rætt er um stefnanda.  Þar segir m.a. að hann gefist ekki upp, „nema fyrir tóbakinu”. 

             Með bréfi 20. júní 2005 krafðist umboðsmaður stefnanda þess að ritstjórn blaðsins bæðist afsökunar og leiðrétti ummælin.  Með bréfi 21. júní svaraði stefndi Garðar Örn bréfinu og óskaði nánari skýringa.  Enn svaraði stefnandi með bréfi sama dag.  Ekki var fjallað frekar um málefni þetta í blaðinu. 

             Málsástæður og lagarök stefnanda. 

             Stefnandi segir að umræddar myndir hafi verið teknar án hans vitundar og samþykkis.  Stefnandi byggir annars vegar á því að í vali á fyrirsögn og framsetningu efnis, einkum á forsíðu, hafi falist ærumeiðandi aðdróttun í sinn garð, til þess eins ætluð að vekja athygli á blaðinu og auka sölu þess.  Ekkert launungarmál sé að hann hafi um árabil neytt fíkniefna.  Hafi hann ótal sinnum við margvíslegustu tækifæri fjallað tæpitungulaust um þá reynslu.  Hann hafi gengist undir áfengis- og fíkniefnameðferðir með þeim árangri að hann hafi á endanum unnið bug á fíkninni og hætt að misnota fíkniefni.  Hann hafi lengi verið ötull baráttumaður gegn fíkniefnavandanum og tekið þátt í margvíslegu forvarnarstarfi gegn fíkniefnum.  Ímynd sín sé orðin mjög samofin forvarnarboðskap gegn fikniefnum.  Honum sé það mjög mikilvægt að almenningi sé ljóst að hann haldi sig frá slíkri neyslu. 

             Auk þess að vera tónlistarmaður kveðst stefnandi hafa viðurværi sitt af ímynd sinni.  Hann heimili notkun hennar og komi fram í auglýsingum.  Þá starfi hann talsvert í sjónvarpi, m.a. í þáttum sem höfði mjög til barna, unglinga og ungs fólks.  Því sé sér nauðsynlegt að ímynd sín bíði ekki hnekki. 

             Stefnandi segir að forsíða blaðsins hafi verið til þess fallin að blekkja lesendur, fá þá til að draga þá ályktun að stefnandi væri byrjaður aftur að neyta fíkniefna.  Sögnin að falla og mynd hennar „fallinn” sé í almennri málvenju fyrst og fremst notað um það að hefja aftur neyslu áfengis eða annarra vímuefna eftir bindindi.  Bendir hann sérstaklega á að engan annan texta eða tilvísun sé að finna á forsíðunni.  Því sé nánast útilokað annað en að lesendur dragi ranga ályktun.  Tóbaksnotkun sín hafi ekki verið til almennrar umræðu.  Því sé haldlaus sú röksemd að þar sem hann sé með ótendraða sígarettu eigi lesandi að setja fyrirsögnina í samband við tóbak og tóbaksbindindi. 

             Stefnandi bendir á að ritið sé talsvert útbreitt.  Það sé selt í lausasölu, en einnig dreift ókeypis til áskrifenda dagblaðsins DV.  Þá nái forsíða þess sérstakri útbreiðslu með því að birtast ein sér í auglýsingaskyni í öðrum fjölmiðlum.  Vegna þessarar miklu dreifingar, einkum forsíðunnar, séu brot stefndu enn alvarlegri.  Stefndu hafi verið ljóst eða mátt vera ljóst að framsetning textans hafi verið blekkjandi. 

             Stefnandi fullyrðir að forsvarsmenn blaðsins hafi reynst ófáanlegir til að leiðrétta umfjöllun sína.

             Stefnandi segir að umfjöllun stefndu og vinnubrögð séu í andstöðu við þau ákvæði laga nr. 77/2000 um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga.  Í framsetningu og efnistökum hafi falist gróf og alröng ærumeiðandi aðdróttun að stefnanda.  Því krefjist hann þess að ummælin verði ómerkt og að stefndu verði dæmdir til greiðslu miskabóta.  Vísar hann til þess að ummælin séu ólögmæt mein­gerð gegn persónu og æru sinni og krefst miskabóta samkvæmt 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993.  Við mat á kröfunni beri að líta til 234., 235. og 236. gr. almennra hegningarlaga, en samkvæmt þeim ákvæðum sé það til refsiþyngingar að bera út aðdróttun gegn betri vitund eða án réttmætrar ástæðu til að telja hana rétta. 

             Þá vísar stefnandi til meginreglna laga um friðarbrot, sbr. m.a. 71. gr. stjórnar­skrárinnar og 229. gr. almennra hegningarlaga.  Stefndi beri sönnunarbyrði um sannleiksgildi ummælanna.  Þó ummælin teldust sönnuð væru ummælin samt sem áður tilefnislaus brigsl og fælu í sér brot gegn 237. gr. almennra hegningarlaga. 

             Þá telur stefnandi að stefndu hafi brotið gegn friðhelgi einkalífs síns.  Í fyrsta lagi hafi myndbirtingin verið óheimil.  Þá hafi umfjöllunin í heild verið um einkamál sín. 

             Stefnandi telur að hver maður eigi rétt til eigin myndar.  Það sé einn þáttur í friðhelgi einkalífs.  Meginregla sé að myndbirting af manni án samþykkis hans sé brot gegn friðhelgi einkalífs.  Þetta gildi jafnt um þekktar sem óþekktar persónur.  Frá þessu séu undantekningar sem eigi ekki við hér.  Telur stefnandi að bifreið manns sé einn þeirra staða þar sem hann njóti óskoraðrar friðhelgi einkalífs síns. 

             Þá bendir stefnandi á að jafnvel þó myndir séu teknar af fólki á almannafæri geti birting þeirra talist brot gegn friðhelgi einkalífs.  Vísar hann til fordæmis í dómi Mannréttindadómstóls Evrópu 24. júní 2004 í málinu von Hannover gegn Þýskalandi.  Samkvæmt dóminum eigi allir réttmætar væntingar til þess að einkalíf þeirra sé ekki gert opinbert undir vissum kringumstæðum. 

             Stefnandi bendir á að þótt þekkt fólk þurfi að þola meiri umfjöllun um einkalíf sitt en aðrir, séu ákveðin takmörk fyrir því hversu langt megi ganga.  Þessi rýmkun heimildar til umfjöllunar takmarkist við þann þátt einkalífs viðkomandi sem snýr að því sem hann er þekktur fyrir.  Þá sé gerð sú krafa að umfjöllun sé málefnaleg og að hún eigi erindi við almenning, hafi almenna þýðingu.  Það eigi ekki við í þessu tilfelli.  Engum komi við hvort stefnandi reyki. 

             Varðandi tjáningarfrelsi stefndu vísar stefnandi til 2. og 3. mgr. 73. gr. stjórnarskrárinnar.  Tjáningarfrelsi sé ekki verndað þegar brotið sé gegn mannorði annars manns. 

             Stefnandi kveðst byggja á almennu skaðabótareglunni.  Stefndu hafi með sak­næmum og ólögmætum hætti valdið sér tjóni.  Þá vísar hann til b-liðar 26. gr. skaða­bótalaga.  Um aðild stefndu vísar hann til V. kafla laga nr. 57/1956, einkum 15. gr. 

             Um fjárhæð miskabótakröfu er fjallað ítarlega í stefnu.  Staðreyndir málsins og viðtekin sjónarmið í skaðabótarétti hafi ótvírætt áhrif til hækkunar.  Brot stefndu sé afar alvarlegt.  Stefndu hafi gerst sekir um mörg og margþætt brot gegn friðhelgi einkalífs, auk grófra ærumeiðinga.  Þeir hafi ekki leiðrétt umfjöllun sína þrátt fyrir áskoranir.  Bendir stefnandi á VI. kafla prentlaga.  Stefnandi segir að stefndu hafi vanrækt skyldu sína til leiðréttingar og haldið áfram að vega að sér og fjölskyldu sinni.  Vísar stefnandi til hæstaréttardóms 1995, bls. 408 til stuðnings því að þetta leiði til hækkunar miskabóta. 

             Þá skírskotar stefnandi til hinnar miklu útbreiðslu blaðsins.  Auk þess sé forsíðan birt sem auglýsing í öðum dagblöðum. 

             Stefnandi telur nauðsynlegt með hliðsjón af almennum og sérstökum varnaðar­sjónarmiðum að miskabætur verði ákveðnar háar.  Tímaritið sé gefið út í hagnaðar­skyni. 

             Loks vísar stefnandi til þess að hvatir að baki umfjöllun um sig séu aðeins hagnaðarvon.  Útgefandinn sé stöndugt fyrirtæki og að baki því standi enn öflugra fyrirtæki, Dagsbrún hf. 

             Málsástæður og lagarök stefndu.  

             Stefndu segja að tímaritið Hér & nú hafi markað sér ákveðinn stað í íslenskri blaðaútgáfu.  Tímaritið flytji fréttir af einstaklingum í daglega lífínu, ekki af mála­flokkum á borð við stjórnmál og efnahagsmál nema að því leyti sem þær tengist beint nafngreindum einstaklingum. 

             Stefnandi hafi verið þekktasti tónlistarmaður Íslands í meira en tuttugu ár, þekktur undir gælunafninu Bubbi.  Hann sé „almannapersóna”. Þá stöðu hafi hann skapað sér sjálfur.  Fjallað hafi verið um hann opinberlega, bæði tónlist hans, neyslu­venjur, fjölskyldu hans, lífstíl og margt annað.  Hann hafi á öllum ferli sínum nýtt sér fjölmiðla til að kynna sig og listsköpun sína.  Þá hafi hann ítrekað tjáð sig opinberlega um baráttu sína við fíkn, fíkn í eiturlyf, áfengi og tóbak. 

             Það hafi þótt fréttnæmt þegar ljósmyndari hafi náð myndum af stefnanda á förnum vegi.  Myndirnar hafi sýnt það sem starfsmenn á ritstjórninni hafi fregnað að stefnandi væri aftur byrjaður að reykja.  Hann hafi lýst því yfir í blöðum að hann væri hættur að reykja.  Textinn á forsíðu, Bubbi fallinn, hafi þótt hæfa fréttinni vel.  Af myndinni hafi verið ljóst að stefnandi væri fallinn á tóbaksbindindi sínu. 

             Stefndu mótmæla því að bréfi stefnanda 20. júní 2005 hafi verið svarað með útúrsnúningum.  Spurningin sem sett hafi verið fram í bréfinu daginn eftir hafi verið eðileg og í samræmi við starfsvenjur blaðamanns.  Stefndu mótmæla því að fyrir­sögnin hafi verið villandi og birting myndarinnar óheimil.  Það sé rangtúlkun þegar stefnandi staðhæfi að vísað sé til fíkniefnaneyslu.  Því hafi ekki verið hægt að birta leiðréttingu.  Þá kveðast stefndu telja að stefnandi hafi verið á almannafæri þegar myndirnar voru teknar.  Því njóti hann ekki verndar ákvæðis stjórnarskrárinnar um friðhelgi einkalífs í þessu tilviki. 

             Stefndu telja að löggjafinn hafi veitt fjölmiðlum verulegt svigrúm til almennrar umfjöllunar um menn og málefni.  Þessi réttur sé sérstaklega rúmur þegar um sé að ræða almnnapersónur og málefni er varði almenning.  Þá sé þetta tjáningar­frelsi fjölmiðla enn rýmra þegar um sé að ræða „sjálfskapaðar” almannapersónur eins og stefnanda.  Reyndar komi fram í stefnu að stefnandi sé slík persóna og kunni að þurfa að þola frekari umfjöllun um einkalíf sitt en aðrir.  Það sé rétt og telja stefndu að þeir hafi ekki farið út fyrir leyfileg mörk í þessu tilviki.  Þá mótmæla þeir því að þessar rýmkuðu heimildir til umfjöllunar eigi að takmarkast við það sem geri viðkomandi að almannapersónu.  Auk þess sé stefnandi þekktur fyrir margt annað en tónlist sína. 

             Stefndu halda því fram að sú staðreynd að stefnandi hafi tjáð sig opinberlega um tóbaksfíkn sína leiði til þess að fjölmiðlum sé frjálst að fjalla um hana. 

             Stefndu segja að sögnin að falla merki m.a. að rjúfa bindindi.  Í íslenskri orða­bók komi ekki fram tilvísun til merkingarinnar að hefja eiturlyfjaneyslu á nýjan leik.  Myndin í blaðinu sýni stefnanda með sígarettu og taki því af öll tvímæli um að átt sé við tóbaksbindindi stefnanda. 

             Stefndu byggja á því að myndatakan og birting myndarinnar hafi verið heimil.  Það sé rangt sem staðhæft sé í stefnu að til sé sú meginregla í íslenskum rétti að myndbirting sé óheimil án samþykkis þess sem er á myndinni.  Myndin hafi ekki verið tekin úr launsátri og stefnandi hafi ekki notið réttar til friðhelgi einkalífs á þessum stað.  Þá hafi myndatakan verið heimil vegna augljóss fréttagildis um mál, sem stefnandi hafi oft tjáð sig um.  Slíkar myndbirtingar séu alvanalegar.  Ekkert í lögum banni þær. 

             Stefndu gera nokkrar athugsemdir vegna tilvísunar stefnanda í dóm Mannréttindadómstóls Evrópu í máli von Hannover gegn Þýskalandi.  Stefndu telja að stefnandi geti ekki átt „réttmætar væntingar” til þess að honum sé hlíft við umfjöllun um að hann sé byrjaður að reykja aftur.  Í þessu efni sé meginmunur á stöðu stefnanda og málsaðilans í greindum dómi.  Stefnandi sé sjálfsköpuð almannapersóna, en ekki barnfæddur sem slíkur.  Þá hafi myndbirtingin sem fjallað var um í dómi Mannréttindadómstólsins ekki þjónað hlutverki í opinberri umræðu, ólíkt umræddri umfjöllun stefndu. 

             Stefndu telja að skírskotun stefnanda til laga um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga eigi ekki við.  Byggja þeir á 1. gr. og orðskýringum 2. gr. laganna. 

             Stefndu mótmæla því að þeir hafi gerst sekir um ólögmæta meingerð gegn stefnanda.  Skilyrði b-liðar 26. gr. skaðabótalaga séu ekki uppfyllt.  Fréttin hafi ekki verið ólögmæt og ekki birt í þeim tilgangi að skaða stefnanda.  Miskabætur verði ekki dæmdar nema samkvæmt sérstakri lagaheimild.  Þá hafi stefnandi sjálfur rætt tóbaks­fíkn sína opinberlega.  

             Stefndu telja að ekki séu skilyrði til að dæma ummælin dauð og ómerk.  Fréttin eigi sér stoð í raunveruleikanum og sé rétt.  Hún sé ekki röng frásögn, feli ekki í sér gildisdóm eða ærumeiðingu.  Þá hafi stefnanda ekki verið brigslað um neitt.  Því geti 234.-237. gr. almennra hegningarlaga ekki átt við.  Þá vísa stefndu til þeirrar dómvenju að sannindi ummæla leiði til sýknu. 

             Stefndu segja að engin skilyrði séu til að dæma miskabætur í málinu.  Þá sé krafa stefnanda alltof há samkvæmt íslenskum rétti.  Þá hafi tímaritið ekki óvenju mikla útbreiðslu á íslenskum markaði. 

             Sýknukrafa stefnda 365 – prentmiðla er enn fremur studd því að ábyrgð samkvæmt 3. mgr. 15. gr. laga nr. 57/1956 hvíli annað hvort á útgefanda eða ritstjóra, ekki á báðum.  Því beri í samræmi við dómafordæmi að sýkna útgefandann. 

             Forsendur og niðurstaða. 

             Stefnandi krefst annars vegar ómerkingar ummæla, hins vegar greiðslu miskabóta.  Ómerkingarkrafan byggir á 241. gr. almennra hegningarlaga.  Kröfu um miskabætur byggir stefnandi annars vegar á því að brotið hafi verið gegn friðhelgi einkalífs síns, hins vegar á því að birtar hafi verið ærumeiðingar um sig. 

             Orðin Bubbi fallinn standa á forsíðu blaðsins ásamt mynd af stefnanda.  Hann er með sígarettu í munninum.  Stefnandi er þjóðþekktur maður, allflestir Íslendingar þekkja listamannsnafn stefnanda og þekkja hann á myndum.  Þorra þjóðarinnar er það kunnugt að hann neytti ólöglegra vímuefna fyrr á árum og að hann er hættur þeirri neyslu.  Ekki er í þessu sambandi unnt að skilja fyrirsögnina öðru vísi en svo að fullyrt sé að stefnandi sé byrjaður að neyta vímuefna.  Tóbaksnotkun hans hefur aldrei verið mikið til umfjöllunar, þó hann hafi rætt stuttlega um reykingar í viðtölum endrum og sinnum.  Ekki er unnt að fallast á þá fullyrðingu stefnda að augljóslega sé vísað til þess að stefnandi sé byrjaður að reykja aftur.  Eins og fullyrðingin er fram sett er hún röng og felur í sér aðdróttun samkvæmt 235. gr. almennra hegningarlaga.  Þá er augljóst að aðdróttunin var höfð uppi gegn betri vitund og var dreift opinberlega, sbr. 1. og 2. mgr. 236. gr. laganna. 

             Þessi ummæli á forsíðu blaðsins verða því dæmd dauð og ómerk samkvæmt 1. mgr. 241. gr. almennra hegningarlaga. 

             Sömu orð birtast á bls. 16 og 17.  Þar eru einnig birtar myndir af stefnanda, sama mynd og birtist á forsíðunni og fleiri myndir mjög líkar, en þær eru bersýnilega allar teknar í sömu andrá.  Þá er þar stutt klausa með minna letri þar sem rætt er um það að stefnandi sé byrjaður að reykja aftur, sé fallinn á reykbindindi sínu.  Í samhengi við þennan texta felur fyrirsögnin ekki eins og sama fyrirsögn á forsíðu fullyrðingu um vímuefnanotkun, þó vissulega leiki höfundur sér að tvíræðri merkingu orðanna.  Því er hér ekki á ferð aðdróttun í skilningi almennra hegningarlaga.  Verður að hafna kröfu um ómerkingu ummælanna í þessum búningi. 

             Telja verður að myndataka af manni sem situr í bifreið sé óheimil á sama hátt og myndataka á heimili hans, þótt við sérstakar aðstæður kunni hún að vera heimil.  Myndir voru hér teknar af stefnanda þar sem hann sat í bifreið sinni á götuhorni í Reykjavík.  Ökuferðin eða dvöl stefnanda í Reykjavík þá stundina var ekki sérstaklega fréttnæm og hafði ekki þýðingu í almennri þjóðfélagsumræðu á þeim tíma.  Sama verður að segja um þær staðreyndir að hann var að tala í farsíma og var með sígarettu í munninum.  Myndatakan og birting myndanna var því tilefnislaus.  Með myndunum fann ritstjórn blaðsins tilefni til stuttrar umfjöllunar um bindindi stefnanda. 

             Umfjöllun um það hvort stefnandi reyki sígarettur er ekki óheimil.  Með því er ekki fjallað um einkamálefni hans svo ólögmætt geti talist.  Myndatakan og birting myndanna var hins vegar óheimil.  Hefur því verið brotið gegn friðhelgi einkalífs stefnanda.

             Samkvæmt framansögðu hefur stefnandi orðið að þola ólögmæta meingerð gegn friði sínum og æru.  Verður að ákveða stefnanda miskabætur samkvæmt b-lið 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, sbr. 13. gr. laga nr. 37/1999.  Ekki er krafist refsingar.  Með hliðsjón af atvikum og dómvenju um ákvörðun miskabóta, einkum því að myndirnar og meiðyrðin náðu mikilli útbreiðslu, verða þær ákveðnar 700.000 krónur.  Skal fjárhæðin bera dráttarvexti frá því að málið var höfðað, 2. nóvember 2005. 

             Höfundur og ljósmyndari eru ekki nafngreindir í blaðinu.  Um ábyrgð fer því samkvæmt 3. mgr. 15. gr. laga nr. 57/1956.  Stefndi Garðar Örn mótmælir ekki ábyrgð sinni samkvæmt prentlögum.  Stefndi 365 – prentmiðlar byggir á því að einungis ritstjórinn, meðstefndi Garðar Örn, skuli sæta ábyrgð.  Byggt hefur verið á því í dómaframkvæmd að ritstjóri beri ábyrgð en ekki útgefandi í tilviki eins og þessu, þegar höfundar er ekki getið.  Er til þessa vísað í héraðsdómi í dómasafni Hæstaréttar, 1989, bls. 1586.  Verður í þessum dómi áfram stuðst við þessa viðteknu venju við skýringu nefnds ákvæðis prentlaganna.  Því ber að sýkna stefnda 365 - prentmiðla af kröfum stefnanda, en stefndi Garðar Örn Úlfarsson verður dæmdur til greiðslu framangreindra miskabóta. 

             Stefndi Garðar Örn verður jafnframt dæmdur til að greiða stefnanda 500.000 krónur í málskostnað.  Er þar tekið tillit til virðisaukaskatts.  Að öðru leyti fellur málskostnaður niður. 

             Jón Finnbjörnsson héraðsdómari kveður upp dóm þennan. 

D ó m s o r ð

             Framangreind ummæli á forsíðu eru dauð og ómerk.

             Stefndi, 365 - prentmiðlar ehf., er sýknaður af kröfum stefnanda, Ásbjörns Morthens.  Málskostnaður milli þeirra fellur niður. 

             Stefndi, Garðar Örn Úlfarsson, greiði stefnanda 700.000 krónur með dráttarvöxtum frá 2. nóvember 2005 til greiðsludags og 500.000 krónur í málskostnað.