Print

Mál nr. 326/2013

Lykilorð
  • Opinberir starfsmenn
  • Þagnarskylda
  • Skilorð
  • Sekt

Dómsatkvæði

                                     

Fimmtudaginn 8. maí 2014.

Nr. 326/2013.

Ákæruvaldið

(Helgi Magnús Gunnarsson vararíkissaksóknari)

gegn

Gunnari Þorvaldi Andersen og

(Kjartan Ragnars hrl.)

Þórarni Má Þorbjörnssyni

(Hilmar Magnússon hrl.)

Opinberir starfsmenn. Þagnarskylda. Skilorð. Sekt.

G og Þ voru ákærðir fyrir brot gegn þagnarskyldu með því að G, sem þá var forstjóri Fjármálaeftirlitsins, fékk Þ, sem þá var starfsmaður Landsbankans hf. til að afla gagna úr bókhaldi bankans sem síðan var komið til fjölmiðilsins DV. Gerði G þetta til að skapa umræðu um tiltekin viðskipti sem A hafði tekið þátt í. Háttsemi G var talin varða við 1. mgr. 13. gr. sbr. 20. gr. laga nr. 87/1998 um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi og 136. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 en talið var að G hefði framið brotið til að afla sér óréttmæts ávinnings. Háttsemi Þ var talin varða við 1. mgr. 58. gr. sbr. 22. tölulið 1. mgr. 112. gr. b. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki.  Var G dæmdur í 12 mánaða skilorðsbundið fangelsi en Þ dæmdur til að greiða 1.000.000 krónur í sekt í ríkissjóð.

Dómur Hæstaréttar

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Viðar Már Matthíasson og Helgi I. Jónsson og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 13. og 28. maí 2013 í samræmi við yfirlýsingar ákærðu um áfrýjun. Af hálfu ákæruvalds er þess krafist að refsing ákærðu verði þyngd.

Ákærði Gunnar krefst aðallega frávísunar málsins, en til vara sýknu. Að því frágengnu krefst hann þess að refsing verði milduð. 

Ákærði Þórarinn krefst þess aðallega að hinn áfrýjaði dómur verði ómerktur og málinu vísað heim í hérað, en til vara sýknu. Að þessu frágengnu krefst hann þess að refsing verði milduð.

I

Við munnlegan málflutning fyrir Hæstarétti krafðist ákærði Gunnar þess að málinu yrði vísað frá héraðsdómi, en þá kröfu hafði hann hvorki uppi í héraði né  greinargerð fyrir Hæstarétti. Þar sem leysa verður úr formhlið málsins, áður en kemur til efnislegrar umfjöllunar, verður að líta á þessa kröfu ákærða sem aðalkröfu þótt hann hafi í kröfugerð sinni fyrir Hæstarétti kosið að gera aðallega kröfu um sýknu.

Samkvæmt málflutningi verjanda ákærða fyrir Hæstarétti voru ummæli í greinargerð ákæruvaldsins fyrir Hæstarétti tilefni frávísunarkröfunnar. Þau voru þess efnis að sú vörn ákærða væri fráleit að þær upplýsingar, sem hann er ákærður fyrir að hafa komið á framfæri við fjölmiðilinn DV, hafi ekki verið háðar leynd, þar sem maður sá er upplýsingarnar vörðuðu, A [...], hafi sagt í viðtali við fjölmiðilinn að þær væru ekkert leyndarmál. Hefði enda A látið þessi orð falla eftir að ákærði hafi komið af stað fjölmiðlaumfjöllun um fjármál hans með þeim hætti sem lýst væri í ákæru. Þessi ummæli í greinargerð ákæruvaldsins geta ekki varðað frávísun málsins frá héraðsdómi. Þá eru engin efni til að vísa málinu frá héraðsdómi án kröfu og er fallist á forsendur hins áfrýjaða dóms þar að lútandi.

Ákærði Þórarinn reisir kröfu sína um ómerkingu og heimvísun málsins á því að héraðsdómari hafi ekki farið að grundvallarreglum sakamálaréttarfars um sönnunarbyrði ákæruvaldsins og telur hann að byggt hafi verið á röngum sjónarmiðum við skýringu og beitingu 58. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki. Þá hafi héraðsdómari ekki rökstutt þá niðurstöðu sína að sá framburður ákærða að gagnaöflunin hafi verið liður í rannsókn Fjármálaeftirlitsins væri ótrúverðugur þegar horft væri til skýrslna ákærðu hjá lögreglu. Jafnframt hafi héraðsdómari metið framburð meðákærða ranglega og ekki gætt að atriðum sem leitt gætu til sýknu ákærða.

Þau rök ákærða að ekki hafi verið farið að grundvallarreglum sakamálaréttarfars um sönnunarbyrði ákæruvaldsins lúta að efnishlið málsins um sekt eða sýknu ákærða. Hinu sama gegnir um röksemdir hans um ranga túlkun fyrrgreinds lagaákvæðis. Þá verður ekki talið að efni séu til að líta svo að sönnunargildi munnlegs framburðar ákærðu fyrir dómi hafi verið ranglega metið af héraðsdómara þannig að leiði til þess að héraðsdómur verði ómerktur og málinu vísað heim í hérað, sbr. 3. mgr. 208. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Að þessu virtu verður kröfu ákærða um ómerkingu héraðsdóms og heimvísun málsins hafnað.

II

Í framburði ákærða Gunnars fyrir dómi kom fram að hann hafi í upphaflegu símtali við meðákærða um miðjan febrúar 2012 útskýrt fyrir hinum síðarnefnda að ákærði væri undir miklu álagi og sætti aðför eins og meðákærði hefði sjálfur séð í fjölmiðlum undangengnar vikur. Væri það í því samhengi sem ákærði væri að biðja meðákærða að gera sér þann greiða að kanna hvort eitthvað fyndist í Landsbankanum um viðskipti bankans og einkahlutafélagsins B. Aðdragandinn að þessu hafi verið umfjöllun í þættinum Kastljósi í ríkissjónvarpinu 17. nóvember 2011, þar sem sviðsett hafi verið viðtal við tiltekinn lögmann og reynt að gera ákærða tortryggilegan á margan hátt. Hafi ákærða verið sagt síðar „af þeim sem ég trúi og treysti að þingmaðurinn sem hér um ræðir hefði sjálfur komið þessum gögnum til Kastljóssins og prómóterað þennan þátt og átt þátt í sviðssetningunni.“ Hafi ákærði sett þetta í samhengi við þessi viðskipti sem átt hafi sér stað 2003 og ákærði talið vera umboðssvik. Ákærði hafi viljað fá einhver gögn um þessi mál til að koma af stað einhverri umræðu um málið til þess að upplýsa það vegna langvarandi og óvæginnar aðfarar að sér. Meðákærði hafi verið undirmaður sinn í Landsbankanum frá 1996 til 1998 og hafi ákærði þekkt hann sem „bóngóðan mann og úrræðagóðan“. Ákærði hafi aldrei haft samband við meðákærða út af neinu sem tengdist starfi sínu sem forstjóri Fjármálaeftirlitsins áður en þau samskipti sem mál þetta varða áttu sér stað, utan einu sinni í samtali vegna upplýsingaöflunar fyrir Alþingi. Í fyrrnefndu símtali milli ákærðu um miðjan febrúar 2012 hafi ákærði spurt meðákærða hvort hinn síðarnefndi gæti fundið einhver gögn um viðskipti B ehf. og Landsbankans sem tengdust „Swisslife“ á sínum tíma. Meðákærði hafi svo hringt í ákærða 23. sama mánaðar og sagt að hann hafi fundið innleggsnótu eða greiðslukvittun „upp á 32,7 milljónir“ og ákærði beðið hann að koma „þessu“ til C. Ákærði hafi ekki verið að kalla eftir upplýsingunum sem forstjóri Fjármálaeftirlitsins, heldur hafi hann verið að tala þarna við gamlan vin og biðja um greiða.

Í skýrslu sinni fyrir dómi kvað ákærði Þórarinn að meðákærði hafi í símtali milli þeirra um miðjan febrúar 2012 sagt að Landsbankinn hefði keypt B ehf. á árinu 2003 og það væri að hefjast rannsókn á því máli hjá Fjármálaeftirlitinu. Hafi ákærði „ósköp vel skilið“ að meðákærði vildi fara leynt með slíka rannsókn. Þá hafi meðákærði nefnt að hann teldi að „viðkomandi“ væri jafnvel sekur um umboðssvik. Hafi ákærða ekki fundist neitt óeðlilegt við að verið væri að biðja um að farið yrði leynilega með þetta erindi þar sem ákærði hafi verið búinn að heyra áður af fréttaflutningi að meðákærði hefði orðið fyrir miklu aðkasti „og lekið þá annað hvort frá stofnuninni áður og annars staðar frá þannig að ég gat vel skilið að hann vildi fara með þetta mjög leynt.“ Þá kvað ákærði að meðákærði hafi rætt ávirðingar gagnvart sér við sig og hann þá hafa vitað að þingmaður ætti í hlut.

Af framansögðu er ljóst að ákærði Gunnar hafði frumkvæði að samskiptum við meðákærða vegna kunningsskapar þeirra frá því þeir voru samstarfsmenn í Landsbanka Íslands hf. Þá liggur fyrir í málinu að samskipti þeirra voru að öllu leyti óformleg og mátti þeim báðum, stöðu sinnar vegna og þegar litið er til þeirra viðkvæmu upplýsinga sem um ræddi og bundnar voru þagnarskyldu, vera ljóst að sá samskiptaháttur var ekki eðlilegur. Enda þótt ekki verði beinlínis ráðið af framburði ákærða Þórarins að meðákærði hafi greint honum frá því að umrædd upplýsingaöflun tengdist fjölmiðlaumfjöllun er ljóst af framburði ákærða að hann gerði sér grein fyrir að sú var raunin. Þá verður engan veginn litið svo á að þau ummæli, sem höfð voru eftir A í umfjöllun DV um málið 29. febrúar 2012, þess efnis að þær upplýsingar sem þar komu fram væru ekkert leyndarmál, verði virt sem samþykki hans fyrir því að þeim yrði komið á framfæri við blaðið.

Að þessu gættu, en að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur um sakfellingu ákærðu samkvæmt ákæru að öðru leyti en því að brot ákærða Gunnars verður ekki heimfært undir 138. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 þar sem er kveðið sérstaklega á um refsingu við brotinu í 136. gr. laganna.

Ákærði Gunnar er í máli þessu sakfelldur fyrir brot gegn 1. mgr. 13. gr. laga nr. 87/1998 um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi og 1. mgr. 136. gr. almennra hegningarlaga. Fyrir brot gegn lögum nr. 87/1998 skal eftir 20. gr. þeirra refsað með sektum eða fangelsi allt að einu ári liggi ekki þyngri refsing við broti samkvæmt öðrum lögum. Samkvæmt fyrri málslið 1. mgr. 136. gr. almennra hegningarlaga varðar brot gegn lagagreininni fangelsi allt að einu ári, en í síðari málslið málsgreinarinnar segir að hafi opinber starfsmaður framið brotið til þess að afla sér eða öðrum óréttmæts ávinnings megi beita fangelsi allt að þremur árum. Í athugasemdum um síðari málsliðinn í frumvarpi til almennra hegningarlaga kemur fram að hinn óréttmæti ávinningur þurfi ekki að vera fjárhagslegs eðlis. Eins og rakið hefur verið var tilgangur ákærða með öflun gagna úr bókhaldi Landsbanka Íslands hf. um viðskipti bankans og B ehf., sem ákærði vissi að áðurnefndur A var annar tveggja eigenda að, að koma af stað umræðu um viðskiptin sem ákærði taldi vera umboðssvik. Jafnframt verður ráðið af framburði ákærða að hann taldi A lengi hafa unnið gegn sér og staðið að baki fyrrnefndri umfjöllun í ríkissjónvarpinu 17. nóvember 2011 um ákærða og Fjármálaeftirlitið. Af þessu verður sú ályktun dregin að ákærði hafi séð sér ávinning af því að koma upplýsingum um fyrrgreind viðskipti A opinberlega á framfæri, skapa umræðu um þau og jafnframt rétta sinn hlut í henni. Verður því að telja að í broti ákærða hafi falist óréttmætur ávinningur fyrir hann í skilningi síðari málsliðar áðurnefnds ákvæðis almennra hegningarlaga, en refsirammi þess er fangelsi allt að þremur árum eins og áður segir.

Við ákvörðun refsingar ákærða Gunnars verður litið til þess að hann hafði styrkan og einbeittan vilja til brotsins og að tilgangur hans með því var að koma höggi á fyrrnefndan mann sem hann taldi sig eiga sökótt við. Að þessu virtu og með vísan til 6. og 7. töluliðar 1. mgr. 70. gr. almennra hegningarlaga, svo og refsiforsendna héraðsdóms að öðru leyti er refsing ákærða ákveðin fangelsi í 12 mánuði, sem eftir atvikum er rétt að binda skilorði á þann hátt sem í dómsorði greinir.

Refsing ákærða Þórarins verður staðfest með vísan til forsendna héraðsdóms.

Ákvæði héraðsdóms um málsvarnarlaun verða staðfest.

Ákærðu verða dæmdir til að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun verjenda sinna fyrir Hæstarétti, sem ákveðin verða að meðtöldum virðisaukaskatti, en annan áfrýjunarkostnað greiði þeir óskipt, hvort tveggja eins og segir í dómsorði.

Dómsorð:

Ákærði, Gunnar Þorvaldur Andersen, sæti fangelsi í 12 mánuði, en fullnustu refsingarinnar er frestað og skal hún niður falla að liðnum tveimur árum frá uppkvaðningu dóms þessa, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Ákvæði hins áfrýjaða dóms um refsingu ákærða, Þórarins Más Þorbjörnssonar, er staðfest, svo og ákvæði hans um sakarkostnað.

Ákærðu greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, samtals 1.541.413 krónur, þannig að hvor um sig greiði 753.000 krónur í málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, hæstaréttarlögmannanna Kjartans Ragnars og Hilmars Magnússonar, en annan áfrýjunarkostnað, 35.413 krónur, greiði þeir óskipt.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 11. apríl 2013.

Mál þetta, sem dómtekið var fimmtudaginn 21. mars 2013, er höfðað með ákæru ríkissaksóknara,  dagsettri 19. júlí 2012, á hendur Gunnari Þorvaldi Andersen, kt. [...],og Þórarni Má Þorbjörnssyni, kt. [...], fyrir brot gegn þagnarskyldu, framin í Reykjavík 23. febrúar 2012, er ákærði Gunnar Þorvaldur, sem þá var forstjóri Fjármálaeftirlitsins fékk meðákærða Þórarin Má, sem þá var starfsmaður Landsbankans hf. (svo), til að afla gagna úr bókhaldi bankans um viðskipti B ehf. sem hann afhenti C, að beiðni meðákærða, en um var að ræða skjal sem sýndi að Landsbanki Íslands hf. greiddi 32.700.000 krónur inn á bankareikning B ehf. 13. júní 2003. Umræddum upplýsingum, sem bundnar voru þagnarskyldu, kom C síðan, að beiðni ákærða Gunnars Þorvaldar, til fréttastjóra DV sem nýtti upplýsingarnar við ritun fréttar um viðskiptin sem birtist í DV 29. febrúar 2012. Ákærði Gunnar Þorvaldur framkvæmdi það sem að framan er lýst í því skyni að skapa umræðu um viðskipti félagsins og eiganda þess, A, við Landsbanka Íslands hf., sem hann taldi óeðlileg, og vegna þess að hann taldi A hafa í opinberri umræðu reynt að gera hann sem forstjóra Fjármáleftirlitsins tortryggilegan, sem og stofnunina.

Er háttsemi ákærða Gunnars Þorvaldar talin varða við 1. mgr. 13. gr., sbr. 20. gr. laga um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi nr. 87/1998, sbr. 138. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og 136. gr. almennra hegningarlaga.

Er háttsemi ákærða Þórarins Más talin varða við 1. mgr. 58. gr., sbr. 22. tölulið 1. mgr. 112. gr. b laga um fjármálafyrirtæki nr. 161/2002.

Er þess krafist að ákærðu verði dæmdir til refsingar og greiðslu alls sakarkostnaðar.

Verjandi ákærða Gunnars Þorvaldar gerir aðallega þá kröfu að ákærði verði sýknaður af kröfum ákæruvalds, til vara að ákvörðun refsingar ákærða verði frestað skilorðsbundið, en til þrautavara að ákærði verði dæmdur til vægustu refsingar er lög leyfa og að hún fari ekki fram úr sektum. Komi til þess að ákærða verði ákveðin fangelsisrefsing er þess krafist að hún verði skilorðsbundin að öllu leyti. Þá krefst verjandi hæfilegra málsvarnarlauna sér til handa, sem greiðist úr ríkissjóði.

Verjandi ákærða Þórarins Más gerir aðallega þá kröfu að ákærði verði sýknaður af kröfum ákæruvalds, en til vara að honum verði dæmd vægasta refsing er lög leyfa. Þá krefst hann hæfilegra málsvarnarlauna sér til handa, sem greiðist úr ríkissjóði.

Málsatvik

Með bréfi, dagsettu 1. mars 2012, beindi stjórn Fjármálaeftirlitsins til lögreglu kæru á hendur ákærða Gunnari Þorvaldi Andersen, þáverandi forstjóra Fjármálaeftirlitsins, vegna brots á þagnarskyldu í opinberu starfi. Í bréfinu er rakið að regluvörður Landsbankans hf. hafi haft samband við stjórnarformann Fjármálaeftirlitsins hinn 29. febrúar og greint frá því að komið hafi í ljós að gögn um viðskipti einkahlutafélagsins B við Landsbanka Íslands hf., gamla Landsbankann, hafi verið afhent með óeðlilegum hætti út úr bankanum. Í greinargerð regluvarðarins, sem fylgir kærubréfinu, kemur fram að A alþingismaður hafi óskað eftir skýringum á því að upplýsingar um viðskipti framangreinds félags, sem sé í hans eigu, og Landsbanka Íslands hf., birtust í dagblaðinu DV þann 29. febrúar. Við athugun hafi komið í ljós að 23. sama mánaðar hafi starfsmaður bankans skoðað og prentað út reikningsyfirlit félagsins. Í yfirlýsingu ákærða Þórarins Más Þorbjörnssonar, sem einnig fylgir kærubréfinu, kemur fram að meðákærði Gunnar hafi hringt til hans, fyrst í byrjun febrúar 2012 og aftur 23. sama mánaðar, og óskað eftir gögnum um félagið úr bókhaldi Landsbanka Íslands hf. Hafi hann afhent meðákærða gögnin á heimili hans. Kemur fram að ákærði Þórarinn hafi ekki haft aðgang að umræddum gögnum í bankanum og hafi hann því leitað til samstarfsfólks síns um aðstoð við að afla þeirra. Með bréfi, dagsettu 17. júlí 2012, barst ríkissaksóknara kæra Fjármálaeftirlitsins á hendur ákærða Þórarni Má Þorbjörnssyni vegna meints brots á þagnarskyldu samkvæmt lögum um fjármálafyrirtæki.

Ákærði Gunnar var yfirheyrður af lögreglu 2. mars 2012 og greindi hann frá því að hafa beðið meðákærða um að afla umræddra gagna hjá bankanum og afhenda C. Kvaðst ákærði hafa beðið C um að koma gögnunum til fréttastjóra DV. Ákærði Þórarinn var yfirheyrður 7. sama mánaðar og greindi hann frá atvikum á sama veg og fram kemur í framangreindri yfirlýsingu hans um málið, að öðru leyti en því að hann kvaðst hafa afhent C skjalið sem um ræðir. Um hefði verið að ræða yfirlit með upplýsingum um nýstofnaðan bankareikning og innlegg frá Landsbankanum að fjárhæð 32.700.000 krónur.

Meðal gagna málsins er reikningsyfirlit frá Landsbanka Íslands hf., þar sem kemur fram að 13. júní 2003 hafi framangreind fjárhæð verið greidd inn á debetreikning B ehf. Hefur ákærði Þórarinn staðfest að skjalið sé sams konar því sem hann afhenti C. Þá liggja fyrir í málinu ljósrit úr DV frá 29. febrúar 2012, þar sem er að finna umfjöllun um viðskipti félagsins við gamla Landsbankann og er þar m.a. fjallað um millifærsluna.

Jafnframt liggja fyrir verklagsreglur Landsbankans hf., samþykktar í febrúar 2010, um samskipti við eftirlitsaðila og viðbrögð við húsleit. Þar kemur m.a. fram að öll samskipti við yfirvöld, þ.m.t. Fjármálaeftirlitið, sem ekki varða regluleg skýrsluskil, skuli fara fram fyrir milligöngu regluvarðar, lögfræðiráðgjafar eða eftir atvikum innri endurskoðunar bankans.

Verður nú gerð grein fyrir framburði ákærðu og vitna við aðalmeðferð málsins.

Ákærði, Gunnar Þorvaldur Andersen, kvaðst hafa leitað til meðákærða Þórarins og spurt hann hvort hann gæti aflað gagna um viðskipti B ehf. og Landsbanka Íslands hf. á árinu 2003. Þeir Þórarinn væru gamlir samstarfsmenn og kvaðst ákærði hafa þekkt hann fyrir að vera bóngóðan og úrræðagóðan. Hann hefði beðið Þórarin um þennan vinargreiða. Ákærði kvaðst hafa verið undir miklu álagi í kjölfar umfjöllunar um störf hans í fréttaskýringaþættinum Kastljósi 17. nóvember 2011. Kvaðst ákærði telja umfjöllunina byggða á gögnum sem hefði verið lekið úr Landsbankanum og teldi hann A hafa komið þeim gögnum til stjórnenda þáttarins. Í kjölfar umfjöllunar Kastljóssins hefði stjórn Fjármálaeftirlitsins aflað tveggja lögfræðiálita um hæfi hans til að gegna forstjórastarfinu. Niðurstaða síðari álitsgerðarinnar hefði verið sú að það gæti verið óheppilegt að hann gegndi starfinu áfram. Við þessar aðstæður hefði hann leitað til Þórarins og beðið hann um að afla framangreindra upplýsinga. Hann hefði hringt til Þórarins um miðjan febrúar og beðið hann um þetta og aftur síðar til að spyrjast fyrir um hvort hann hefði fundið einhver gögn. Hinn 23. febrúar hefði Þórarinn síðan hringt til hans og sagt honum að hann hefði fundið innleggsnótu eða greiðslukvittun sem sýndi að 32.700.000 krónur hefðu verið greiddar inn á reikning B ehf. Ákærði kvaðst hafa verið önnum kafinn við fundarhöld og hefði hann því beðið Þórarin um að kom þessu skjali til C. Ákærði kvaðst hafa viljað koma af stað umræðu um þetta mál og hefði hann því beðið C um að koma skjalinu til DV.

Ákærði kvaðst hafa greint Þórarni frá því í fyrsta símtalinu sem hann átti við hann að hann teldi refsiverða háttsemi hafa átt sér stað í viðskiptum Landsbanka Íslands hf. og B ehf. Hann hefði hins vegar ekki nefnt það við Þórarin að Fjármálaeftirlitið væri að hefja rannsókn á því máli. Þá kvaðst hann ekki hafa nefnt það við Þórarin að til stæði að koma þessum upplýsingum til fjölmiðla.

Spurður um ummæli í lögregluskýrslu þar sem kom fram hjá honum að hann teldi ekki ólögmætt af forstjóra Fjármálaeftirlitsins að afla sér gagna um mann sem reyndi að sverta stofnunina og gera hana ótrúverðuga kvaðst ákærði vera þeirrar skoðunar, en tók fram að hann hefði aðhafst sem einstaklingur í þessu máli.

Ákærði, Þórarinn Már Þorbjörnsson, kvaðst hafa starfað sem sérfræðingur í reikningshaldi Landsbankans hf. Hann kvað meðákærða Gunnar hafa hringt til sín á miðjum vinnudegi um miðjan febrúar 2012 og beðið hann um að afla gagna um viðskipti gamla Landsbankans við B ehf. Hann hefði skilið Gunnar svo að Fjármálaeftirlitið væri að hefja rannsókn á málinu. Hann hefði fengið D, samstarfsmann sinn, til að aðstoða sig við að kanna þetta og þremur dögum síðar hefði D afhent honum yfirlit um greiðslu sem hann hefði fundið. Ákærði kvaðst hafa hringt til Gunnars og sagt honum þetta, en þegar ekkert hefði heyrst í Gunnari frekar hefði hann fargað skjalinu. Hinn 23. febrúar hefði Gunnar hringt aftur og sagst verða að fá þetta skjal í hendur. Hann hefði þá látið prenta út nýtt reikningsyfirlit. Gunnar hefði sagt honum að hann væri upptekinn og jafnframt að hann vildi ekki fá skjalið sent með tölvupósti. Hann hefði beðið ákærða um að koma skjalinu til C, sem ákærði kannaðist við. Ákærði kvað sér ekki hafa fundist óeðlilegt að farið væri leynilega með skjalið miðað við hverjir áttu þarna í hlut. Hann hefði látið það í umslag og afhent C á heimili hans, með þeim orðum að þetta væri fyrir Gunnar. Það hefði aldrei komið til tals að það ætti að koma þessu skjali til fjölmiðla. 

Ákærði greindi frá því að reikningsyfirlitið sem um ræðir hafi verið prentað út úr rafrænum grunni sem geymdi gögn gamla og nýja Landsbankans og hefðu starfsmenn mismunandi aðgang að kerfinu. Hann kvað dæmi vera þess að starfsmenn Fjármálaeftirlitsins hefðu hringt beint til starfsmanna bankans til að afla upplýsinga um tiltekin mál og að formlegt erindi hefði síðan fylgt í kjölfarið. Honum hefði ekki verið kunnugt um innri reglur bankans um samskipti við eftirlitsaðila. Hann kvað öll símtöl þeirra Gunnars hafa átt sér stað á vinnutíma. Það hefði verið Gunnar sem hringdi til hans 23. febrúar og hefði hann óskað eftir því að fá þetta skjal til sín. Það hefði ekki komið fram hjá honum að hann liti á það sem vinargreiða, heldur hefði hann rætt um árásir sem hann sætti og nefnt A í því sambandi. Ákærði kvaðst hafa treyst því að C myndi koma skjalinu til Gunnars.

Vitnið, C, kvað ákærða Þórarin hafa bankað upp á hjá sér kvöld eitt og afhent umslag, sem hann hefði beðið vitnið um að koma til ákærða Gunnars. Vitnið kvaðst hafa hringt til Gunnars og spurt hvað hann ætti að gera við umslagið. Hefði Gunnar beðið hann um að fara með það til DV. Vitnið kvaðst hafa sett skjalið í nýtt umslag þar sem hann hefði ekki viljað afhenda það í umslagi sem merkt var honum. Hann hefði síðan látið umslagið í póstkassa við skrifstofu DV og hefði það verið stílað á ritstjóra. Vitnið kvað Gunnar ekkert hafa verið búinn að ræða um þetta við hann áður en Þórarinn kom. Hann kvaðst hafa skilið Þórarin þannig að hann ætti að koma umslaginu til Gunnars.

Vitnið, E, [...] DV, staðfesti fyrir dóminum að hafa fengið í hendur umslag, sem geymdi greiðslukvittun um millifærslu fjárhæðar sem nam rúmlega 32.000.000 króna og að hafa í kjölfarið ritað frétt í blaðið um upplýsingar sem skjalið hafði að geyma.

                Vitnið, F, regluvörður Landsbankans hf., kvaðst hafa fengið tölvupóst frá G, starfsmanni bankans, að morgni 29. febrúar, þar sem vísað var til fréttar sem birst hafði í DV. Kom fram að G vissi til þess að starfsmaður bankans hefði verið að leita eftir þessum gögnum. G hefði síðan upplýst að það hefði verið ákærði Þórarinn. Við skoðun á rafrænum gagnagrunni hefði verið staðreynt að tvö skjöl hefðu verið prentuð út og var annað þeirra yfirlit um reikning B ehf. frá árinu 2003.

                Vitnið kvað Landsbankann hf. vera, samkvæmt úrskurði Fjármálaeftirlitsins,  eigandi allra gagna sem áður höfðu tilheyrt Landsbanka Íslands hf. Landsbankinn hf. hefði tekið yfir tölvukerfi gamla bankans og hefði gagnanna verið aflað úr því. Ótvírætt sé að þagnarskylda starfsmanna Landsbankans hf. nái til gagna sem áður tilheyrðu gamla bankanum.

                Vitnið gerði grein fyrir innri reglum bankans um samskipti við eftirlitsaðila. Rannsóknarbeiðni eigi að berast regluverði, lögfræðiráðgjöf eða innri endurskoðun, sem annist síðan samskipti við eftirlitsaðila. Það sé ekki á hendi annarra starfsmanna bankans. Starfsmenn bankans eigi að þekkja innri reglur bankans, sem séu aðgengilegar á innri vef hans. Hann kvað reglurnar hafa verið settar að kröfu Fjármálaeftirlitsins.

                Vitnið, D, kvaðst hafa starfað með ákærða Þórarni sem sérfræðingur í reikningshaldi bankans. Þórarinn hefði beðið hann um að aðstoða sig við að finna færslur í bókhaldi gamla bankans, en hann væri vanur að leita upplýsinga í tölvukerfinu. Hefði ákærði sagt honum að hann væri að leita þessara gagna fyrir ákærða Gunnar og kvaðst vitnið því hafa talið að Fjármálaeftirlitið væri að biðja um gögnin. Vitnið kvað Þórarin hafa sagt sér að hann ætlaði að afhenda Gunnari skjalið.

                Vitnið, H, fyrrum forstöðumaður lögfræðideildar þess sviðs Landsbankans hf. sem annaðist endurskipulagningu eigna, kvaðst hafa verið í samskiptum við ákærða Þórarin vegna tímabundinnar starfsemi og hliðarstarfsemi og lýsti hann samskiptum við Fjármáleftirlitið vegna þeirra verkefna. Vitnið, G, forstöðumaður hagdeildar Landsbankans hf., lýsti samskiptum sínum við D að morgni 29. febrúar, sem áður hafa verið rakin. Þá gaf H, sem áður starfaði á lögfræðisviði bankans, skýrslu fyrir dóminum. Ekki eru efni til að rekja framburð vitnanna nánar

Niðurstaða

                Ákærði Gunnar hefur í framlagðri greinargerð sinni gert fjölmargar athugasemdir við ákæru í málinu og „lagt það í mat dómsins hvort rétt sé að vísa málinu frá dómi ex officio“ af þeim sökum. Við flutning málsins fyrir dómi leiðrétti sækjandi ákæru þar sem heiti einkahlutafélagsins B hafði misritast og ákærði Þórarinn Már var sagður starfsmaður Landsbanka Íslands hf., en ekki Landsbankans hf., sem raunin var. Varðar það ekki frávísun málsins þótt þessi atriði hafi ekki verið rétt greind í ákæru, enda varð vörnum ákærðu ekki áfátt þess vegna. Þá verður ekki fallist á það með ákærða að ákæra fullnægi ekki skilyrðum c-liðar 1. mgr. 152. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008 um glögga skilgreiningu á sakarefni. Breytir það engu um þá niðurstöðu að broti ákærða hafi ekki verið lýst sem broti gegn þagnarskyldu „í opinberu starfi“, enda er háttsemi ákærða heimfærð sem slík til refsiákvæða í ákæru. Ekki verður heldur talið að málið sé flókið eða umfangsmikið svo að þörf sé á sérstakri röksemdafærslu í ákæru samkvæmt d-lið 1. mgr. 152. gr. laganna. Samkvæmt framansögðu eru ekki efni til að vísa málinu frá dómi.

                Með framburði ákærðu, sem er í samræmi við gögn málsins, liggur fyrir að ákærði Þórarinn, sem var starfsmaður Landsbankans hf., aflaði að beiðni ákærða Gunnars reikningsyfirlits úr gagnagrunni Landsbanka Íslands hf., sem hafði að geyma upplýsingar um viðskipti bankans og einkahlutafélagsins B. Jafnframt að Þórarinn afhenti skjalið þriðja manni, sem kom því til fjölmiðla, að beiðni Gunnars. Um var að ræða upplýsingar sem leynt eiga að fara samkvæmt þeim lagaákvæðum sem í ákæru greinir. 

Ákærðu bera því við að eins og málinu sé háttað varði háttsemi þeirra ekki við framangreind refsiákvæði og beri að sýkna þá af þeim sökum. Ákærði Gunnar ber að hann hafi ekki aðhafst í málinu sem forstjóri Fjármálaeftirlitsins, heldur leitað til meðákærða af persónulegum ástæðum, þar sem hann hafi talið vegið að sér í starfi. Því varði háttsemi hans ekki refsingu samkvæmt ákvæðum laga um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi og almennra hegningarlaga um brot í opinberu starfi. Í athugasemdum við 136. gr. almennra hegningarlaga kemur fram að þagnarskylda sem hvílir á opinberum starfsmanni tekur til allra leyndarmála, er varða embætti hans eða sýslan, án tillits til þess, hvort starfsmaðurinn hefur fengið vitneskju um þau í starfi sínu eða ekki. Skal starfsmaður gæta leyndarmála í sambandi við starfið, hvernig sem hann hefur komist að þeim. Ákærði var forstjóri Fjármálaeftirlitsins er hann aflaði þeirra upplýsinga sem um ræðir frá eftirlitsskyldum aðila og hlutaðist til um að þeim yrði komið til fjölmiðla. Verður ekki fallist á það með ákærða að hann hafi ekki verið bundinn þagnarskyldu um upplýsingarnar samkvæmt þeim lagaákvæðum sem í ákæru greinir. Þá verður ekki fallist á það með ákærða Þórarni, að hann hafi, sem starfsmaður Landsbankans hf., ekki verið bundinn þagnarskyldu um atvik sem vörðuðu starfsemi Landsbanka Íslands hf., enda liggur fyrir að nýi bankinn hefur tekið við eignum gamla bankans, þ.m.t. þeim gagnagrunni sem upplýsinga var aflað úr. Samkvæmt framansögðu var um að ræða upplýsingar sem ákærðu voru, stöðu sinnar vegna, bundnir þagnarskyldu um.

                Ákærði Gunnar hefur jafnframt krafist sýknu á þeim grunni að almannahagsmunir hafi réttlætt að þagnarskyldu hans yrði vikið til hliðar, en hann hafi grunað að refsiverð háttsemi hefði átt sér stað með þeim viðskiptum sem vísað er til í ákæru og talið að upplýsingar um þau ættu erindi við almenning. Svo sem rakið er í dómi Hæstaréttar Íslands frá 25. febrúar 2013, í máli nr. 118/2013, voru eðlileg viðbrögð af ákærða hálfu að beina kæru til viðeigandi stjórnvalds ef hann taldi viðskiptin sem um ræðir hafa falið í sér refsiverða háttsemi. Slíkur grunur gat hins vegar ekki réttlætt að ákærði kæmi trúnaðarupplýsingum um viðskiptin á framfæri við fjölmiðil, svo að leiða eigi til sýknu í málinu. Með háttsemi sinni braut ákærði gegn þagnarskyldu sem á honum hvíldi samkvæmt 1. mgr. 13. gr., sbr. 20. gr. laga um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi, sbr. 138. gr. almennra hegningarlaga og 136. gr. almennra hegningarlaga. Ekki verður fallist á það með ákærða, sem kemur fram í greinargerð hans, að refsiákvæði laga um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi samrýmist ekki grundvallarreglu refsiréttar um skýrleika refsiheimilda. Verður ákærði sakfelldur samkvæmt ákæru.

                Ákærði Þórarinn krefst sýknu með vísan til þess að hann hafi aflað upplýsinganna og miðlað þeim þar sem hann hafi talið að rannsókn væri að hefjast innan Fjármálaeftirlitsins á viðskiptunum sem þær vörðuðu. Hafi ásetningur hans því ekki staðið til þess að brjóta gegn þagnarskyldu samkvæmt lögum um fjármálafyrirtæki. Ákærði fór ekki að innri reglum Landsbankans um samskipti við yfirvöld er hann aflaði upplýsinganna að beiðni meðákærða Gunnars, en þær reglur áttu að vera honum kunnar. Þá tengdist upplýsingaöflunin ekki starfi hans í bankanum. Fram kom hjá ákærðu að Gunnar hefði greint Þórarni frá því að upplýsingaöflunin tengdist fjölmiðlaumfjöllun um störf Gunnars. Þá afhenti Þórarinn upplýsingarnar þriðja manni, sem hann vissi að hafði engin starfstengsl við Fjármálaeftirlitið. Með vísan til alls þessa er það niðurstaða dómsins að frásögn ákærða Þórarins um að hann hafi talið að gagnaöflunin væri liður í rannsókn Fjármálaeftirlitsins sé ótrúverðug og verður henni hafnað. Með því að afhenda C skjal með trúnaðarupplýsingum úr bankanum braut hann gegn þagnarskyldu sem á honum hvíldi samkvæmt 1. mgr. 58. gr., sbr. 22. tölulið 1. mgr. 112. gr. b laga um fjármálafyrirtæki. Verður ákærði sakfelldur samkvæmt ákæru.

                Ákærði Gunnar er fæddur árið 1948. Hann hefur ekki áður sætt refsingu. Ákærði er í máli þessu sakfelldur fyrir alvarlegt trúnaðarbrot. Hann gegndi stöðu forstjóra Fjármálaeftirlitsins er brotið var framið, en hlutverk stofnunarinnar er að fylgjast með því að fjármálastarfsemi í landinu sé í samræmi við lög og reglur og að öðru leyti í samræmi við heilbrigða og eðlilega viðskiptahætti. Þrátt fyrir þetta fékk ákærði meðákærða til að rjúfa þagnarskyldu sem á honum hvíldi og hlutaðist til um að trúnaðarupplýsingar um viðskipti tiltekins félags bærust til fjölmiðils. Ákærði hafði ákveðinn ásetning til verksins, sem átti sér nokkurn aðdraganda, sem rakið hefur verið. Samkvæmt öllu framansögðu þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin 2.000.000 króna sekt til ríkissjóðs, sem ákærða ber að greiða innan fjögurra vikna frá birtingu dóms þessa að telja, að viðlagðri vararefsingu sem í dómsorði greinir.

       Ákærði Þórarinn er fæddur árið 1956. Hann hefur ekki áður sætt refsingu. Ákærði framdi brot sitt í starfi hjá fjármálafyrirtæki og miðlaði trúnaðarupplýsingum sem þar voru varðveittar. Til þess er að líta að ákærði framdi brotið fyrir tilstilli meðákærða og er ekki komið fram í málinu að honum hafi verið kunnugt um að upplýsingunum yrði komið til fjölmiðils. Þá var ákærða sagt upp störfum hjá Landsbankanum, er uppvíst varð um trúnaðarbrot hans, en fram kom við aðalmeðferð málsins að hann hefði starfað hjá bankanum í 39 ár. Þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin 1.000.000 króna sekt til ríkissjóðs, sem ákærða ber að greiða innan fjögurra vikna frá birtingu dómsins, að viðlagðri vararefsingu sem í dómsorði greinir.

                Ákærði Gunnar greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Guðjóns Ólafs Jónssonar hrl., 2.346.850 krónur, og þóknun verjanda síns á rannsóknarstigi málsins, Þorbjargar Ingu Jónsdóttur hrl., 62.750 krónur. Ákærði Þórarinn greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Hilmars Magnússonar hrl., 589.850 krónur. Við ákvörðun þóknunar lögmanna hefur verið tekið tillit til virðisaukaskatts.  

Af hálfu ákæruvaldsins flutti málið Helgi Magnús Gunnarsson vararíkissaksóknari.

       Ragnheiður Harðardóttir héraðsdómari kveður upp dóminn.

D ó m s o r ð :

                Ákærði, Gunnar Þorvaldur Andersen, greiði 2.000.000 króna sekt til ríkissjóðs innan fjögurra vikna frá birtingu dómsins, en sæti ella fangelsi í 44 daga.

                Ákærði, Þórarinn Már Þorbjörnsson, greiði 1.000.000 króna sekt til ríkissjóðs innan fjögurra vikna frá birtingu dómsins, en sæti ella fangelsi í 40 daga.

                Ákærði Gunnar greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Guðjóns Ólafs Jónssonar hrl., 2.346.850 krónur, og þóknun verjanda síns á rannsóknarstigi málsins, Þorbjargar Ingu Jónsdóttur hrl., 62.750 krónur.

Ákærði Þórarinn greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Hilmars Magnússonar hrl., 589.850 krónur.