Print

Mál nr. 267/2011

Lykilorð
  • Kynferðisleg áreitni
  • Laun
  • Miskabætur

Fimmtudaginn 16. febrúar 2012.

Nr. 267/2011.

B

(Eva B. Helgadóttir hrl.)

gegn

A

(Hulda Rós Rúriksdóttir)

Kynferðisleg áreitni. Laun. Miskabætur.

A höfðaði mál á hendur félaginu B til heimtu vangoldinna launa auk miskabóta vegna kynferðislegrar áreitni sem hún kvaðst hafa orðið fyrir af hálfu yfirmanns síns E sem var starfsmaður B. Byggði A á því að viðbrögð B hefðu ekki verið í samræmi við alvarleika málsins og breytingar verið gerðar á starfi hennar svo að henni hafi verið gert ókleift að sinna því. Hæstiréttur hafnaði því að háttsemi E félli undir skilgreiningu hugtaksins kynferðisleg áreitni í lögum nr. 10/2008 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla. Þá taldi rétturinn með engu móti hafa verið í ljós leitt að A hafi verið beitt óréttlæti í starfi með tilliti til starfsöryggis og starfskjara. A hefði ekki sýnt fram á að hún ætti rétt til greiðslu launa fyrir það tímabil sem hún kaus að mæta ekki til vinnu eða að framkoma B í hennar garð hafi á einhvern hátt falið í sér ólögmæta meingerð. Var B því sýknað af kröfum A.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma Greta Baldursdóttir hæstaréttardómari og Benedikt Bogason og Helgi I. Jónsson settir hæstaréttardómarar.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 4. maí 2011. Hann krefst sýknu af kröfum stefndu og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefnda krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

I

Málavextir eru þeir að miðvikudaginn 4. mars 2009 fór stefnda ásamt samstarfsmanni sínum, F, og yfirmanni þeirra beggja, E, í vinnuferð í sumarbústað í [...] í þeim tilgangi að fara yfir og uppfæra [...] áfrýjanda og veita stefndu betri innsýn í [...] með það fyrir augum að bæta við hana verkefnum. Komu þau í bústaðinn að morgni og unnu fram á kvöld. Þegar líða tók á kvöldið fóru þeir E og F í heitan pott sem var við bústaðinn. Fyrir liggur í málinu að E spurði stefndu hvort hún ætlaði ekki að koma í pottinn en hún neitaði því. Hún hins vegar settist á stól úti við pottinn og spjallaði við þá. Eftir nokkra stund var stefndu litið ofan í pottinn og sá þá að E sat þar nakinn. Stefndu varð mikið um þetta og kveðst hafa farið inn og hringt í eiginmann sinn. Hún hafi síðan ákveðið að fara út aftur, þakka fyrir daginn og bjóða góða nótt. Hún fór síðan í svefnherbergi sitt og þar sem ekki var hægt að læsa því kveðst hún hafa sett tösku sem hún var með fyrir hurðina og ákveðið að sofa í fötunum.

Innan við klukkustund síðar, eftir að F var genginn til náða, bankaði E, þá klæddur, á hurðina hjá stefndu og opnaði dyrnar. Stefnda spurði hvað hann vantaði og kvaðst hann vilja ræða aðeins við hana. Varð úr að þau fóru fram í stofu til að ræða saman og ber stefnda að E hafi þar oftar en einu sinni leitað eftir að hún kæmi við hendur hans til að finna hversu kalt honum væri eftir pottferðina. Er hún ein til frásagnar um það en E bar fyrir dómi að hann hefði tekið í hönd stefndu þegar þau stóðu upp og hann bauð henni góða nótt. Daginn eftir borðuðu þau þrjú morgunmat, héldu áfram vinnu sinni til hádegis og lögðu síðan af stað heim á leið. Voru þau á einni bifreið og var stefndu ekið heim fyrst.

II

Aðila greinir á um hvort sú háttsemi E að fara nakinn í pottinn og framganga hans í kjölfarið þetta kvöld falli undir skilgreiningu laga nr. 10/2008 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla um kynferðislega áreitni. Í 4. tölulið 2. gr. laganna segir að kynferðisleg áreitni sé hvers kyns ósanngjörn og/eða móðgandi kynferðisleg hegðun sem sé í óþökk og hafi áhrif á sjálfsvirðingu þess sem fyrir henni verði og sé haldið áfram þrátt fyrir að gefið sé skýrt í skyn að hegðunin sé óvelkomin. Áreitnin getur verið líkamleg, orðbundin eða táknræn. Eitt tilvik getur talist kynferðisleg áreitni ef það er alvarlegt. Óumdeilt er að sú háttsemi sem hér um ræðir átti sér stað einu sinni og að stefnda gaf á engan hátt í skyn að hegðunin væri óvelkomin. Kvaddi hún vinnufélaga sína með þökkum fyrir daginn og bauð góða nótt án þess að nefna að hún hefði tekið eftir að E væri nakinn í pottinum. Þá bera gögn málsins með sér að daginn eftir héldu þau öll áfram vinnufundinum, óku heim og kvöddust eins og ekkert hefði í skorist.

Það hátterni E að fara án sundfata í pott í fyrrgreindri vinnuferð var með öllu óviðeigandi. Á hinn bóginn verður ekki fallist á með stefndu að það háttalag eitt og sér teljist kynferðisleg áreitni í skilningi framangreinds ákvæðis laga nr. 10/2008. Þá var einnig ótilhlýðilegt af E að opna dyr að svefnherbergi stefndu sem hafði nokkru áður boðið góða nótt og farið inn til að sofa. Hins vegar telst sú háttsemi ekki kynferðisleg áreitni, án þess að annað og meira komi til. Þá er lýsing stefndu á því hvernig E hafi beðið sig að koma við hendur hans heldur ekki þess eðlis að hún falli undir skilgreiningu fyrrgreindra laga á kynferðislegri áreitni.

III

Nokkrum dögum eftir vinnuferðina kvartaði stefnda undan framferði E við starfsmannastjóra áfrýjanda og lýsti því að hún hefði með þessu verið áreitt kynferðislega á alvarlegan hátt af hálfu yfirmanns síns. Kvaðst hún ekki treysta sér til að vera nálægt honum og vinna undir hans stjórn. Varð að samkomulagi milli aðila að stefnda yrði færð undir stjórn starfsmannastjórans en héldi áfram þeim verkefnum sem hún hefði sinnt á [...]sviði. Einnig kveður stefnda að fallist hafi verið á beiðni hennar um að hún þyrfti ekki að hafa samskipti við E en hann hafi ítrekað brotið gegn því, haft samband við hana og haft afskipti af störfum hennar. Þá hafi verkefni verið tekin af henni. Kveðst hún ítrekað hafa kvartað við starfsmannastjórann og síðar forstjóra áfrýjanda, en án árangurs. Þar sem kröfum stefndu hafi ekki verið mætt hafi hún ekki lengur talið sér fært að mæta til vinnu og af þeim sökum hafi hún verið fjarverandi frá 5. október 2009. Áfrýjandi greiddi stefndu laun í veikindaforföllum frá þeim degi til 19. janúar 2010 þegar réttur hennar til veikindalauna rann út. Taldi áfrýjandi sér ekki skylt að greiða stefndu frekari laun þar sem hún hafi ekki mætt til vinnu. Leit áfrýjandi svo á að stefnda væri í launalausu leyfi og hafði ítrekað látið það í ljós við hana að hann óskaði eftir að hún kæmi aftur til starfa.

Í málinu krefur stefnda áfrýjanda um greiðslur launa frá 5. október 2009 til þingfestingardags héraðsdómsmálsins 26. maí 2010 auk miskabóta, allt í samræmi við niðurstöðu hins áfrýjaða dóms. Verður ráðið af málatilbúnaði stefndu að hún reisi kröfur sínar á því að viðbrögð áfrýjanda við kvörtun hennar hafi ekki verið í samræmi við alvarleika málsins og að hún hafi verið beitt óréttlæti í starfi með því að breytingar hafi verið gerðar á því eftir áðurnefnda kvörtun hennar. Af þeim sökum hafi henni verið gert ókleift að mæta til vinnu og á því beri áfrýjandi ábyrgð. Um miskabótakröfu vísar stefnda til 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993.

IV

Gögn málsins um framgöngu áfrýjanda í kjölfar þess að stefnda kvartaði undan hinni ætluðu kynferðislegu áreitni bera þess skýr merki að áfrýjandi hafi tekið kvörtun stefndu alvarlega. Leitaði áfrýjandi álits tveggja lögmanna um hvort háttsemi starfsmannsins gagnvart stefndu væri kynferðisleg áreitni og hvort hún varðaði fyrirvaralausri uppsögn hans. Var það álit þeirra að hvorugu væri til að dreifa. Þrátt fyrir þetta ákvað áfrýjandi að áminna E fyrir þessa hegðun. Var tekið sérstaklega fram í áminningunni að ætlast væri til þess af starfsmanninum að hann tæki áminninguna alvarlega og tryggði að slíkt endurtæki sig ekki. Þá var stefndu boðin ráðgjöf sálfræðings á kostnað áfrýjanda auk þess sem E var gert að sækja viðtöl vinnustaðasálfræðings.

Hinn 2. apríl 2009 gerðu aðilar með sér samning um ákveðnar breytingar á starfi stefndu og starfsaðstöðu samhliða því að verkefni hennar myndu framvegis falla undir starfsmannaþjónustu félagsins. Með þeim breytingum var E ekki lengur yfirmaður stefndu heldur starfsmannastjórinn og faglegur yfirmaður var fyrrgreindur F, yfireftirlitsmaður [...]. Þá kveður stefnda að sér hafi verið lofað að hún þyrfti ekki að hafa samskipti við E. Svo sem áður greinir telur stefnda að E hafi ítrekað brotið gegn þessu samkomulagi auk þess sem breytingar hafi verið gerðar á starfi hennar í kjölfar kvörtunar. Kom stefnda þessum sjónarmiðum sínum á framfæri við áfrýjanda 2. september 2009 og taldi að þær breytingar hefðu verið gerðar á starfi hennar að henni væri nú bannað að yfirfara umsóknir um aðgangsheimildir starfsmanna og aðgangsheimildir fyrir bifreiðar. Þá hafi aðgangur verið takmarkaður á [...]útgáfu í tölvu og breytingar gerðar á svonefndum aðgangsgrúppum án samráðs við hana. Kom fram í bréfinu að hún teldi greinilegt að E væri að grafa undan starfi hennar og færa verkefni aftur til sín.

Til stuðnings því að E hafi ítrekað brotið samkomulag sem hún hafi gert við áfrýjanda um að hún þyrfti ekki að hafa samskipti við þann fyrrnefnda hefur stefnda annars vegar bent á að E hafi sest við sama borð og hún í kaffistofu og ávarpað hana og fleiri sem þar sátu og hins vegar er hann fylgdi bílstjóra [...] til hennar sem þurfti aðgangs[...] og bað hana að afgreiða hann. E kannaðist við þessi atvik. Skýrði hann ástæðu þess að hann settist við borðið á kaffistofunni þar sem stefnda sat þannig að honum hafi verið ráðlagt af vinnustaðasálfræðingi að hann skyldi reyna að laga andrúmsloftið. Í kjölfarið hafi starfsmannastjóri sagt sér að stefndu hafi liðið illa eftir þetta og beðið hann að endurtaka þetta ekki. Varðandi hitt atvikið þá hafi verið stutt í lokun og hann farið með bílstjórann bakdyramegin, beðið stefndu um að liðsinna honum og farið við svo búið.

Ekki verður fallist á með stefndu að framangreind tilvik séu þess eðlis að þau teljist brot á samkomulagi aðila en af gögnum málsins er ljóst að áfrýjandi brást þegar í stað við kvörtunum hennar en ekki var algerlega hægt að útiloka samskipti af öllu tagi milli samstarfsmanna.

Áfrýjandi heldur því fram að framangreindar breytingar á starfi stefndu séu ótengdar því að hún kvartaði undan E og hafi hann ekkert haft með þessar breytingar að gera. Hafi stefnda haft allan þann aðgang að kerfinu sem nauðsynlegt var til að hún gæti sinnt starfi sínu. Kveður áfrýjandi að F, yfireftirlitsmanni [...], sem beri alla ábyrgð á stýringu aðgangs fólks og farartækja um viðkvæmasta [...] [...], hafi verið falið að tryggja að verklag varðandi aðgangsheimildir af þessu tagi stæðist skoðanir og eftirlit þar sem áfrýjandi geti án fyrirvara átt von á innlendum og erlendum eftirlitsaðilum. Lúti eftirlitið meðal annars að verklagi við yfirferð umsókna um aðgangsheimildir starfsmanna og aðgangi að tölvukerfi [...]útgáfu. Þannig hafi F ákveðið að hann sjálfur tæki yfir þann hluta þessarar starfsemi sem lýtur að samþykktum umsókna en stefnda hafi áfram haft það verkefni að sjá um útgáfuna. Kom fram í vitnisburði F fyrir dómi að sáralítill tími færi í þessi störf sem hann tók að sér. Þá sagði hann að stefnda hafi, þegar hún var nýtekin við starfinu, haft rýmri aðgang að svonefndum grúppuaðgangi til að hún gæti kynnt sér uppbyggingu „grúppanna“ en sú heimild hafi átt að vera tímabundin. Hafi E ekkert haft með þessar breytingar að gera og hafi þær ekki verið skerðing á starfi stefndu eða tengst henni sem persónu eða kvörtunum hennar.

Að öllu því virtu sem nú hefur verið rakið hefur stefnda ekki fært fram haldbær rök fyrir því að áfrýjandi hafi brotið rétt á henni í kjölfar kvörtunar hennar. Þvert á móti benda gögn málsins ótvírætt til þess að áfrýjandi hafi lagt sig allan fram um að gera það sem í hans valdi stóð til að stefnda gæti sinnt starfi sínu eins og best var á kosið. Því er með engu móti í ljós leitt að hún hafi verið beitt óréttlæti í starfi með tilliti til starfsöryggis og starfskjara, sbr. 2. mgr. 27. gr. laga nr. 10/2008. Hefur stefnda því ekki sýnt fram á að hún eigi rétt til greiðslu launa fyrir það tímabil sem hún kaus að mæta ekki til vinnu og enn síður að framkoma áfrýjanda í hennar garð hafi á einhvern hátt falið í sér ólögmæta meingerð. Verður áfrýjandi því sýknaður af kröfum stefndu í máli þessu.

Eftir atvikum þykir rétt að hvor aðila beri sinn kostnað af málinu í héraði og fyrir Hæstarétti.

Dómsorð:

Áfrýjandi, B skal vera sýkn af kröfum stefndu, A.

Málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti fellur niður.

Dómur Héraðsdóms Reykjaness 9. febrúar 2011.

Mál þetta, sem dómtekið var 13. janúar sl., var höfðað með stefnu birtri 19. maí 2010.  Stefnandi er A, kt. [...], [...], [...], en stefndi er B., kt. [...], [...], [...]. Fyrirsvarsmaður er C, kt. [...], [...], [...]. Aðalmeðferð málsins fór fram þann 13. janúar sl. og var málið dómtekið að málflutningi loknum.

Dómkröfur stefnanda eru:

Að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda vangreidd laun kr. 965.803,00, ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. III. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verðbætur, af kr. 96.511,00 frá 31.01.2010 til 28.02.2010, af kr. 386.275,00 frá 28.02.2010 til 31.03.2010, af kr. 676.039,00 frá 31.03.2010 til 30.04.2010, af kr. 965.803,00 frá 30.04.2010 til greiðsludags.  

Að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda kr. 76.300 í skaðabætur.

Að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda kr. 2.000.000 í miskabætur.

Þá er krafist málskostnaðar úr hendi stefnda samkvæmt síðar framlögðum málskostnaðarreikningi og að við ákvörðun málskostnaðar verði tekið tillit til þess að stefnanda ber að greiða 25,5% virðisaukaskatt á lögmannsþóknun.

Dómkröfur stefnda eru:

Stefndi krefst þess að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda.

Þá krefst stefndi þess að stefnandi verði dæmdur til greiðslu málskostnaðar skv. mati dómsins eða samkvæmt málskostnaðaryfirliti sem lagt verður fram við aðalmeðferð máls þessa komi til hennar, að viðbættum virðisaukaskatti.

Málavextir:

Samkvæmt gögnum málsins hóf stefnandi störf hjá [...] árið 2007 sem [...] en þann 1. janúar 2009 færðist starf hennar yfir til B í kjölfar [...]. Í mars 2009 hafi staðið til að breyta starfi stefnanda en hún hafi átt að taka við [...] og starfa í nánara samstarfi við yfirmann sinn, E, framkvæmdastjóra [...]sviðs, og F, yfireftirlitsmann [...].

Samkvæmt lýsingu stefnanda fólst starf hennar í því að taka á móti aðgangsbeiðnum frá fólki sem þurfti aðgang að [...] og senda [...] og samþykkja síðan aðgang viðkomandi. Þá hafi hún tekið á móti umsóknum um bíla[...] um [...] og samþykkti auk þess að taka myndir af viðkomandi. Þá hafi hún séð um svokallaðan „válista“ og séð um að setja upplýsingar inn á hann ef svo bar undir. Stefnandi kvað fjóra starfsmenn vera í deildinni sem hún starfaði við og E væri yfir henni. Fram til mars 2009 hafi starf hennar verið óbreytt frá því hún hóf starf í deildinni. 

Í marsmánuði 2009 fór því stefnandi að beiðni yfirmanns hennar, E, í vinnuferð ásamt honum og F, yfireftirlitsmanni [...]. Vinnuferðin var farin 4.-5. mars 2009 í sumarbústað í [...] og var tilgangur ferðarinnar m.a. að fara yfir breytingar í starfi hennar sem áttu að fela í sér aukna ábyrgð og umfangsmeiri verkefni á [...]sviði. Óumdeilt er að þeir E og F hafi farið í heitan pott sem var við bústaðinn eftir að þau höfðu snætt og að loknum vinnudegi í sumarbústaðnum. Samkvæmt stefnanda reyndi E ítrekað að fá stefnanda með þeim í heita pottinn en stefnandi kvaðst ekki hafa haft sundföt og því ítrekað neitað því. E hefði bent henni á að hún þyrfti ekki nein sundföt eða hann gæti lánað henni föt af sér. Hún hefði þó fyrir áeggjan þeirra beggja sest á stól við heita pottinn og þá tekið eftir því að E var nakinn. Stefnandi kvaðst hafa farið inn og liðið verulega illa yfir stöðu sinni. Hún hefði því farið aftur út til þeirra og boðið þeim góða nótt og farið inn í svefnherbergi sitt og lokað sig af. Hún hefði sett ferðatösku sína fyrir dyrnar til að heyra ef einhver reyndi að komast inn. Þá hefði hún ekki getað hugsað sér að hátta. Um klukkustund síðar hefði verið bankað á svefnherbergishurðina en hún ekki svarað. Aftur hefði verið bankað en hún ekki svarað en þá hefði E kallað á hana og ruðst inn í herbergið. Hún hefði sprottið upp og farið fram þar sem hún gat ekki hugsað sér að hafa hann inni í herbergi hennar. Þau hefðu sest í sófa frammi og E ítrekað sagt henni að honum væri kalt og beðið hana um að taka um höndina á honum. Stefnandi kvaðst hafa verið ráðvillt og liðið mjög illa. Hún hefði síðan farið aftur inn í herbergið sitt og sett töskuna fyrir þar sem hún vissi ekki hvort „þetta mál“ væri búið eða ekki. Hún hefði hringt í eiginmann sinn tvívegis og sagt honum frá aðstæðum sínum. Stefnandi kvaðst ekki hafa þorað á salerni um nóttina og ekki fyrr en hún hefði heyrt að F var vaknaður um morguninn.

Daginn eftir pottaferðina hafi yfirmaður stefnanda látið eins og ekkert hefði í skorist. Stefnanda hafi hins vegar liðið mjög illa og fundist hún hafa verið bæði lítillækkuð og misboðið af E. Stefnandi kvaðst ekki hafa farið í vinnu daginn eftir og ekki fyrr en á mánudeginum. E hefði þá verið erlendis.

Ekki er ágreiningur um að skömmu eftir ferðina hafi fyrirsvarsmenn stefnda frétt af vinnuferðinni og að stefnandi hafi kvartað við G í starfsmannaþjónustu stefnda á þriðjudeginum. Hafi G vísað málinu áfram til starfsmannastjóra stefnda, H, sem hafi kallað bæði stefnanda og aðra sem voru í ferðinni á sinn fund til þess að fara yfir málið. Stefndi hafi strax litið málið mjög alvarlegum augum, enda mjög alvarlegar ásakanir af hálfu stefnanda, og taldi mikilvægt að bregðast rétt við bæði gagnvart stefnanda sem og öðrum starfsmönnum. Við áframhaldandi meðferð málsins hafi verið stuðst við viðbragðs- og vinnureglur B vegna mála er snerta einelti eða kynferðislega áreitni á vinnustað. Stefndi leit hins vegar ekki á atvikið sem kynferðislega áreitni.

Þar sem stefnandi treysti sér ekki til þess að vera nálægt E og vinna undir hans stjórn áfram hafi verið ákveðið að H starfsmannastjóri yrði gerður að yfirmanni hennar en verkefnin héldust óbreytt á [...]sviði. Þá hafi verið fallist á beiðni hennar um að hún þyrfti ekki að hafa samskipti við E. E hafi hins vegar ítrekað  brotið gegn því og haft samband við stefnanda á vinnustað og afskipti af störfum hennar. Stefnandi kveðst hafa kvartað ítrekað við H yfir E og þeim afskiptum sem E hafði stöðugt af stefnanda. Þrátt fyrir þær kvartanir hafi ekkert verið gert í málinu. Á því tímamarki hafi stefnandi einnig kvartað yfir því við H að verkefni hefðu verið tekin af stefnanda eftir að kvörtun hennar vegna framferðis E í sumarbústaðarferðinni voru sett fram. Sigurður hafi hins vegar ekkert gert með kvartanir stefnanda. Stefnandi hafi þá sent formlegt erindi til C, forstjóra, í byrjun september sl. þar sem hún hafi kvartað yfir því að starfi hennar hafi verið breytt af E þannig að það væri ekki lengur í samræmi við upphaflega starfslýsingu hennar. Stefnandi hafi þá fengið þau svör að ekki væri litið svo á að stefnandi hafi orðið fyrir kynferðislegri áreitni í fyrrgreindri vinnuferð, en þrátt fyrir það hafi fyrirtækið ákveðið að koma til móts við stefnanda með því að breyta vinnuaðstöðu, verkefnum og yfirmanni þannig að stefnanda liði sem best í vinnunni. Þá hafi hann vísað til þess að síðar til komnar breytingar í starfi stefnanda væru ótengdar kvörtun um kynferðislega áreitni, heldur væri um almennar breytingar innan fyrirtækisins að ræða. Að lokum hafi C vísað til þess að hann teldi fyrirtækið hafa gert allt sem í þess valdi stæði til þess að stefnanda liði vel í starfi.

Samkvæmt gögnum málsins var E veitt áminning þann 2. apríl 2009 þar sem fram kemur að áminningin sé veitt vegna atvika sem komu upp í vinnuferð þriggja starfsmanna [...]sviðs 3.-4. mars 2009. Kemur þar einnig fram að hegðun E í ferðinni hafi ekki verið í samræmi við hegðun starfsmanna á vinnustað.

Samkvæmt stefnanda var samkomulag um að hún færi yfir í starfsmannahald, hún héldi sínum verkefnum áfram óbreyttum en undir stjórn H. Fljótlega hefði ábyrgð verið tekin af henni, hún hefði ekki mátt fara yfir aðgangsheimildir lengur sem hún hafði áður gert, minnkuð heimild hefði verið gerð í tölvunni og breytingar orðið smátt og smátt á starfi hennar. Hún hefði aldrei fengið viðhlítandi skýringar á því hvers vegna ábyrgð væri tekin af henni. Takmörkun á starfi hennar hefði byrjað í lok apríl 2009. Í september hefði hún fengið tölvupóst um að framvegis færu beiðnir um yfirferð á bíla[...] í gegnum F en ekki hana auk þess sem starfsmenn í [...] fengju heimildir til að fara yfir þá [...]. Þrátt fyrir samkomulag stefnanda við stefnda um að hún þyrfti ekki að eiga nein samskipti við E, hefði hann í þrígang komið og haft samskipti við hana í hennar óþökk.

Þann 2. september 2009 sendi stefnandi bréf með tölvupósti til C þar sem hún lýsti því að hún teldi að samkomulag þeirra frá því í lok mars væri ekki virt af E. Pósturinn var einnig sendur á I, lögmann [...]. Í bréfinu kemur fram að aðilar hafi gert samkomulag í lok mars um að stefnandi færi að vinna undir starfsmannahaldi við sama starf og áður án þess að E hefði afskipti af því. Nú þegar hafi margoft verið brotið á stefnanda frá því að samkomulagið hafi verið gert og síðasta breyting hafi fyllt mælinn. Telur stefnandi upp að henni hafi verið bannað að yfirfara umsóknir um aðgangsheimildir starfsmanna, aðgangur hennar á [...]útgáfu í tölvunni hafi verið minnkaður, breytingar hafi verið gerðar á aðgangsgrúppum án samráðs við hana og henni bannað að yfirfara umsóknir fyrir aðgangsheimildir bifreiða. Þá kemur fram í bréfinu að stefnandi telji E vera að grafa undan starfi hennar og færa það aftur yfir til hans. Kveðst stefnandi ekki geta sætt sig við þetta stöðuga áreiti og hafi margoft kvartað við H vegna þessa en ekkert hafi gerst. Daginn eftir áréttaði I með tölvupósti bréf stefnanda og kvað það vera rétt mat stefnanda að stefndi hafi lítið sem ekkert gert til að standa við það samkomulag sem gert hafi verið við stefnanda vegna kynferðislegrar áreitni E. Þá var tekið fram í tölvupóstinum að I teldi breytt verksvið stefnanda hjá stefnda vera brot gegn henni.

Í tölvupósti sendum 24. september 2009 frá stefnanda til I, lögfræðings [...], og J kvartaði stefnandi undan því að líða ekki vel á vinnustaðnum vegna þessa máls og kveður sig fá að vita það í hvert skipti sem H hitti stefnanda í sambandi við þetta mál að stefnandi sé ekki réttum megin við línuna. Þá kemur fram að E hafi leitað til hennar með aðgangs[...] en í samkomulagi sem gert hafi verið við stefnanda í apríl 2009 hafi verið tekið fram að stefnandi þyrfti ekki að hafa nein samskipti við E. Þrátt fyrir það komi hann samt á skrifstofu hennar. Þá liggur fyrir í málinu ódagsett drög að starfslýsingu stefnanda sem sé útgáfa aðgangsheimilda. Kemur þar fram að verkið sé unnið í umboði [...]sviðs en dagleg störf undir stjórn starfsmannastjóra. Kemur þar fram að verksviðið nái til útgáfu aðgangskorta starfsmanna sem erindi eigi  inn á [...] [...], útgáfu leyfirskírteina fyrir ökutæki, sjá um skráningar og utanumhald í aðgangskerfi [...], sjá um tölulegt yfirlit vegna útgáfu aðgangsheimilda og önnur tilfallandi verkefni sem yfirmaður ákveði hverju sinni, svo sem skýrslugerð, vinnu í mannauðskerfi og önnur verkefni á starfsmannasviði. Þá kemur fram að næsti yfirmaður sé starfsmannastjóri og dagleg stjórnun sé í höndum fulltrúa starfsþróunar og fræðslu.

Samkvæmt bréfi þann 22. september 2009 undirrituðu af C, forstjóra stefnda, til stefnanda kemur fram að stefndi hafði leitað álits tveggja óháðra sérfræðinga sem báðir hafi talið að ekki hafi verið um kynferðislega áreitni að ræða af hálfu starfsmanns stefnda. Þrátt fyrir það hafi verið ákveðið að koma til móts við stefnanda með því að breyta verkefnum hennar, vinnuaðstöðu og yfirmanni þannig að henni liði sem best í vinnunni auk margvíslegs annars stuðnings. Taldi stefndi að málinu væri þar með lokið. Þá segir m.a. að allar síðari breytingar sem hafi orðið á starfi stefnanda séu ótengdar ofangreindu máli en allnokkrar breytingar hafi reynst nauðsynlegar að mati F, yfireftirlitsmanns [...], sem beri alla ábyrgð á stýringu aðgangs fólks og farartækja um [...]. Um leið og ofangreind tilfærsla á starfi stefnanda hafi átt sér stað hafi F verið falið að tryggja það að verklagið stæðist skoðanir og eftirlit, til að mynda frá [...], [...]og D og lúti meðal annars að verklagi við yfirferð umsókna um aðgangsheimildir starfsmanna og aðgangi að tölvukerfi [...]. Fyrir eftirlitsferðina í maí 2009 hafi sérstaklega verið farið yfir aðgangsstýringar innan kerfisins. Í ljós hafi komið að opið hafi verið fyrir þjónustuaðila, svo sem tölvudeild B, tæknimenn [...] og fleiri. Það hafi verið metið að takmarka þyrfti aðgang eins og mögulegt væri en um leið veittur tímabundinn aukinn aðgangur fyrir aðila sem hefðu þurft að vinna í kerfinu. Þá segir að stefnandi hafi allan þann aðgang að kerfinu sem sé nauðsynlegur til þess að hún geti sinnt starfi sínu. Þá segir enn fremur að breytingar í starfsumhverfi [...] og þeirra aðila sem þurfi aðgang að [...] séu óumflýjanlegar og beri að endurmeta reglulega. Í því felist að hópar sem hafi ákveðinn aðgang sæti sífelldri endurskoðun og endurskipulagningu og aðgangsflokkum að hurðum og svæðum sé breytt. Ein slík breyting hafi verið gerð í framhaldi af reglulegu samráði við [...] og miði að því að aðgreina aðgang reyndra og nýrra starfsmanna, þ.e. [...]. Þá sé það rétt að við yfirferð yfir umsóknir fyrir ökutæki, hafi því verklagi verið breytt skyndilega og án fyrirvara og átt sér stað þegar stefnandi hafi verið fjarverandi vegna veikinda. Það hafi verið óheppilegt, en það hafi gerst þegar eftirlitsheimsókn [...] hafi staðið yfir og gerð í kjölfar þess að [...] hafi spurt sérstaklega um það hver veitti þær heimildir. Hefði stefnandi verið á staðnum í umrætt sinn, hefði hún verið meðvituð um ástæður þessara breytinga. Í lok bréfsins segir að stefndi telji að hann hafi sýnt í verki að hann vilji njóta starfskrafta stefnanda og sé tilbúinn til að gera sitt til þess að stefnanda líði vel í starfi sínu.

Þann 5. október 2009 svaraði lögmaður [...] bréfi stefnda og fór yfir málið með hliðsjón af því regluverki sem stefnda bæri að vinna eftir. Þá segir að stefndi hafi ekki svarað nema einum lið í fyrirspurn stefnanda, þ.e. breytingum á aðgangsheimild fyrir bifreiðar. Þá kemur einnig fram að breytingar á starfi stefnanda hafi reynst nauðsynlegar að mati F, yfireftirlitsmanns [...]. Hins vegar hafi verið haldinn fundur í júní 2009 með stefnanda, H og F vegna tveggja breytinga í starfi hennar sem höfðu átt sér stað í sama mánuði og á fundinum hafi F greint frá því að þær breytingar á störfum stefnanda hafi verið að fyrirskipan E.

Þann 28. október sendi stefndi bréf til [...], þar sem tekið var fram að samkvæmt áliti tveggja utanaðkomandi lögmanna hafi ekki verið um kynferðislegt áreiti að ræða í umrætt sinn í skilningi jafnréttislaga, þ.m.t. 4. tl. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 10/2008. Sé því ljóst að félagið hafi ekki haft neinar forsendur til að áminna starfsmann á þeim grunni sem haldið sé fram í bréfi [...] frá 5. október. Starfsmaðurinn hafi verið áminntur á þeim grunni að framganga hans hefði ekki verið með þeim hætti að samræmdist hegðun á vinnustað. Þá mótmælti stefndi fullyrðingum stefnanda í bréfi frá 5. október um að stefndi hafi staðið á einhvern hátt ólöglega að breytingum á starfi stefnanda. Með bréfi stefnda fylgdi staðfesting á úttekt eftirlitsstofnunar [...] á [...] hjá stefnda dagana 31. ágúst til 3. september 2009. Kemur fram að úttektin hafi lotið að því hvernig staðið var að útgáfu aðgangsheimilda á B, skilyrði fyrir útgáfu aðgangsheimilda og eftirlit og utanumhald með aðgangsheimildum. Þá segir að engin alvarleg frávik hafi verið gerð á starfsemi skrifstofu [...] á B, frávik hafi þó verið gerð vegna utanumhalds á týndum og/eða stolnum aðgangsheimildum og B gert að setja sér skýrara verklag um hvernig [...] tryggi að ekki sé hægt að misnota slíkar heimildir til að komast inn á [...]. Þá fylgdi einnig með bréfinu afrit af minnisblaði frá fundi 26. febrúar 2009. Kom fram á þeim fundi að lagðar voru til breytingar á vinnutíma stefnanda. Undir rekstri málsins kom fram að stefnandi hafði samþykkt það.

Stefnandi kvaðst hafa átt fund með stefnda í nóvember 2009 en engar tillögur hafi komið fram af hálfu stefnda til lausnar á málinu, ekki heldur ef stefnandi kæmi aftur til starfa. Stefnda hafi þá verið fullljóst að stefnandi hafi ekki getað unnið við óbreytt ástand. Þá hafi verið fundur í janúar 2010 en engin lausn legið fyrir af hálfu stefnda.

Læknisvottorð liggur fyrir í málinu fyrir stefnanda en hún er sögð óvinnufær með öllu frá 5. október 2009 vegna sjúkdóms.

Í tölvupósti frá 11. desember 2009 sendum frá H til stefnanda kemur fram að þau harmi að stefnandi kjósi að hætta störfum hjá stefnda og kveðst hafa móttekið beiðni stefnanda um starfslok. Stefndi vilji hins vegar bíða eftir niðurstöðum frá Vinnueftirlitinu. Í tölvupósti frá stefnanda til stefnda 16. desember  s.á. kvað stefnandi tilgangslaust að bíða eftir niðurstöðum frá Vinnueftirlitinu og óskaði eftir því að ganga frá starfslokasamningi strax. Í tölvupósti frá stefnda til stefnanda 17. desember s.á. kveðst stefndi ekki geta gengið að óskum stefnanda um starfslokasamning sem kvæði á um a.m.k. tólf mánaða laun. Þá óskaði stefndi eftir því að haldinn yrði fundur með stefnanda ásamt fulltrúa stéttarfélags hennar þann 21. desember. Af þeim fundi varð ekki. Með tölvupósti þann 8. janúar 2010 frá stefnda til stefnanda var lagt til að fundur yrði haldinn 11. janúar sl. til að fara yfir málið.  Þann 20. janúar 2010 fór stefnandi í launalaust leyfi. Fyrir liggur í málinu að stefndi hefur ekki sagt stefnanda upp störfum og hefur lýst því yfir að hann vilji fá hana aftur til starfa.

Undir rekstri málsins kom fram að stefnandi leitaði til sálfræðings á árinu 2009 að tillögu stefnda í Reykjavík. Þurfti stefnandi því að aka fram og til baka frá [...] til [...] en stefndi greiddi á árinu 2009 þann ferðakostnað. Með bréfi lögmanns stefnanda til stefnda, dagsettu 16. apríl 2010, krafðist stefnandi að stefndi greiddi henni ferðakostnað vegna sálfræðiviðtala á árinu 2010, samtals 117.976 krónur. Var þeirri kröfu hafnað með bréfi, dagsettu 3. maí 2010.

Þá liggur fyrir í gögnum málsins vottorð K sálfræðings, þar sem staðfest er að stefnandi hafi verið í viðtölum hjá henni frá 5. ágúst til 15. desember 2009 vegna kynferðislegrar áreitni sem stefnandi taldi sig hafa orðið fyrir af hálfu yfirmanns hennar í starfi. K kom ekki fyrir dóminn en aðilar gera ekki með sér ágreining um efni skjalsins. Í vottorði K segir m.a: „A leitaði til undirritaðrar í kjölfar áfalls sem hún varð fyrir í vinnuferð með yfirmanni og vinnufélaga. Yfirmaður áreitti hana kynferðislega- og hafði það, og svo aðstæðurnar, þ.e. að hún var ein með tveimur karlmönnum, þar að auki bíllaus og komst hvergi- alvarleg sálræn áhrif á hana. Henni fannst hún bæði niðurlægð og svo varð hún óttaslegin og fannst erfitt að upplifa varnarleysið í aðstæðunum. Ekki bætti úr skák að um yfirmann hennar var að ræða svo henni fannst fokið í flest skjól. Hún ákvað þó að kvarta yfir þessari áreitni og þá tók ekki betra við. A greip í tómt á vinnustaðnum og í raun má segja að áreitnin héldi áfram. Þessa mánuði fann A engan bandamann í valdastöðu í vinnustaðnum sem aðstoðaði hana í hennar erfiðu stöðu. Henni var sýnd áframhaldandi niðurlægjandi framkoma, m.a. var henni sagt að ekki hefði verið um kynferðislega áreitni að ræða, því lögfræðingur vinnustaðarins hefði úrskurðað um það. Henni var gert að mæta á fund og ræða þessi mál. Hún upplifði að í raun missa vinnuna sína- hún var færð til á vinnustaðnum, missti helstu verkefnin og fannst hún vera algjörlega í lausu lofti varðandi framtíð sína á vinnustaðnum. A var að vonum mjög [...], var að kljást við [...] og [...] í kjölfar þessa atburða og svo áframhaldandi niðurlægjandi framkomu yfirmanna í hennar garð. Eftir tvo mánuði gat A ekki lengur afborið að mæta á vinnustaðinn enda fékk hún greinilega skilaboð hvað eftir annað um það að hún væri með leiðindi og vesen, en stuðningur var enginn. Að upplifa kynferðislega áreitni á vinnustað getur haft langvarandi áhrif á fórnarlambið, sérstaklega ef brugðist er við kvörtunum á þann hátt sem A upplifði…… Líðan A þessa mánuði er að mörgu leyti dæmigerð fyrir líðan manneskju sem lendir í slíkum óþolandi aðstæðum á vinnustað- [...]. Öll þessi einkenni hrjáðu A og svo [...] og [...].“

Þá liggur fyrir staðfesting L læknis um að stefnandi hafi leitað til hans á [...] þann 11. desember 2009. L kom ekki fyrir dóminn en aðilar gerðu ekki ágreining um vottorð hans. Þar segir: „Það staðfestist hér að ofanskráð leitaði til undirritaðs á [...] þann 11. desember 2009. Hún rakti þá fyrir mér atburði, sem hún taldi valda henni mikilli vanlíðan og verri geðheilsu. Þar voru henni efst í huga atburðir, sem áttu sér stað eftir vinnufundi með tveimur háttsettum samstarfsmönnum í sumarbústað í [...] í byrjun mars 2009…. Hún lýsti aðstæðum sem ógnandi með algjöru hjálparleysi á stað utan mannabyggða, óvissri staðsetningu í myrkri og án útgönguleiða. Eftir mörg viðtöl við stefnanda tel ég það augljóst að atburðir þessa dags hafi haft mikil áhrif á andlega líðan viðkomandi. Þessi líðan hefur gert hana óvinnufæra á þessum vettvangi auk þess að kalla fram íþyngjandi atferli daglegs lífs og gæti varðað [...]. Árangurslitlar samningatilraunir við vinnuveitanda hafa aukið á þennan vanda. A er í reglulegri [...] hjá undirrituðum en sækir einnig sálfræðiaðstoð hjá M sálfræðingi á [...].“  Við áframhaldandi meðferð málsins var stuðst við viðbragðs- og vinnureglur B vegna mála er snerta einelti eða kynferðislega áreitni á vinnustað. Að lokum liggur fyrir að áður en farið var í umrædda sumarbústaðaferð, var búið að gera ráðstafanir um að stefnandi bætti á sig starfi í [...] og hæfi störf klukkan sex á morgnana áður en hún mætti í sitt aðalstarf.

Málsástæður og lagarök stefnanda.

Stefnandi byggir á því að hún hafi gert árangurslausar tilraunir til þess að fá bætt úr starfsumhverfi sínu og vinnuaðstöðu til þess að öðlast betri líðan í starfi og njóta þess réttar sem hún telur sig eiga samkvæmt bæði starfssamningum og lögum. Þar sem kröfum hennar hafi ekki verið mætt taldi hún sér ekki lengur fært að mæta til vinnu undir þeim kringumstæðum og hefur haldið sig heima við frá 5. október 2009. Í byrjun desember 2009 hafi hún óskað eftir því að gerður yrði starfslokasamningur við hana en því hafi verið  hafnað þar sem stefndi sagði markmið sitt vera að fá hana sem fyrst til starfa. Stefndi hafi hins vegar ekki gert neitt til að bæta úr vinnuaðstöðu stefnanda sem geri henni ókleift að mæta aftur til starfa. Stefnandi hafi orðið fyrir gríðarlegu áfalli þegar hún varð fyrir kynferðislegri áreitni af hálfu yfirmanns síns í byrjun marsmánaðar 2009. Stefnandi hafi leitað aðstoðar sálfræðings til að vinna úr áfalli sínu. Stefndi hafi greitt allan kostnað stefnanda vegna þess allt til ársloka 2009 en stefndi hafi nú hætt slíkum greiðslum. Þá hafi stefnandi engin laun fengið greidd frá stefnda frá 19. janúar 2010. Stefndi hafi hafnað því að ganga frá launagreiðslum og greiðslum vegna geðhjálpar sem stefnandi hafi þurft að leita sér á árinu 2010. Stefnanda hafi ekki borist nein greiðsla frá stefnda og því telji hún sér ekki annað fært en að stefna málinu fyrir dóm til þess að sækja rétt sinn. Stefnandi kveðst enn vera í vinnusambandi við stefnda þar sem hvorki hún né stefndi hafi slitið ráðningarsamningi þeirra.

Stefnandi byggir kröfur sínar á því að hún hafi orðið fyrir alvarlegri kynferðislegri áreitni af hálfu yfirmanns síns og er hún kvartaði undan því hafi stefndi tekið þá afstöðu að líta fram hjá kvörtunum hennar og halda því m.a. fram að atvikið hafi verið svo lítils háttar að ekki geti talist hafa verið um kynferðislega áreitni að ræða. Stefndi hafi ákveðið í krafti stjórnunarréttar síns að haga aðstæðum stefnanda þannig á vinnustaðnum að henni sé með öllu ókleift að mæta til vinnu sinnar. Á því ber stefndi ábyrgð. Á grundvelli þess sé gerð krafa um að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda vangreidd laun hennar frá 19. janúar 2010 til þingfestingardags. Þessi liður kröfu stefnanda sundurliðast með eftirgreindum hætti:

                Vangreidd laun vegna tímabilsins frá 20. janúar – 31. janúar 2010:

33% fullra mánaðarlauna (230.040 * 33,333%)

kr. 76.603,-

33% fastra yfirvinnulauna (59.724*33,333%)

kr. 19.908,-

Samtals                                                            

kr. 96.511,-

                Vangreidd laun vegna febrúarmánaðar 2010:

full mánaðarlaun                                           

kr. 230.040,-

Föst yfirvinna

kr. 59.724,-

Samtals                                                            

kr. 289.764,-

                Vangreidd laun vegna marsmánaðar 2010:

full mánaðarlaun                                           

kr. 230.040,-

Föst yfirvinna                                                 

kr. 59.724,-

Samtals                                                            

kr. 289.764,-

Vangreidd laun vegna aprílmánaðar 2010:

full mánaðarlaun

kr. 230.040,-

Föst yfirvinna

kr. 59.724,-

Samtals                                                            

kr. 289.764,-

                Heildarkrafa vegna vinnulauna á tímabilinu

frá 20. janúar – 30. apríl 2010,

kr. 965.803,-

Stefnandi byggir kröfuna á föstum mánaðarlaunum sem stefnandi hafi fengið greidd frá stefnda seinni hluta árs 2009 og í byrjun 2010 samkvæmt launaseðlum. Ofangreind krafa um greiðslu fastra yfirvinnulauna byggir á sömu launaseðlum en samkvæmt þeim hafi stefnandi fengið greidda fasta yfirvinnu óháð öðru. Stefnandi lítur því svo á að í raun hafi greiðslur vegna „fastrar yfirvinnu“ verið hluti fastra launa. Laun stefnanda hafi verið greidd eftir á samkvæmt launaseðlum.

Kröfu stefnanda um greiðslu skaðabóta byggir stefnandi á því að hún hafi orðið fyrir fjárhagslegu tjóni vegna kynferðislegrar áreitni yfirmanns hennar, starfsmanns stefnda, sem stefndi ber ábyrgð á, á grundvelli skaðabótalaga nr. 50/1993 og vinnuveitendaábyrgðar. Stefnandi hafi þurft að leita sér aðstoðar vegna sálgæslu og hafi verið í viðtölum hjá sálfræðingi og geðlækni allt til dagsins í dag. Stefnandi hafi þurft að fara frá heimabæ sínum, Keflavík, til Reykjavíkur vegna þessa. Hún hafi þurft að aka þessa leið og geri kröfu um greiðslu aksturskostnaðar eins og hann sé metinn af skattyfirvöldum, þ.e. gerð sé krafa um greiðslu fyrir akstur 110 km, fyrir kr. 92 fyrir hvern ekinn kílómetra, í hvert sinn sem stefnandi þurfti að leita sér ráðgjafar. Krafan sundurliðast með eftirgreindum hætti:

Tími á Landspítalanum þann 18. janúar 2010 kr. 1.836 + kostnaður vegna aksturs kr. 10.120

Tími á Landspítalanum þann 29. janúar 2010 kr. 1.836 + kostnaður vegna aksturs kr. 10.120

Tími á Landspítalanum þann 19. febrúar  2010 kr. 4.408 + kostnaður vegna aksturs kr. 10.120

Tími á Landspítalanum þann 1. mars  2010 kr. 2.500 + kostnaður vegna aksturs kr. 10.120

Tími á Landspítalanum þann 11. apríl  2010 kr. 2.500 + kostnaður vegna aksturs kr. 10.120

Tími á Landspítalanum þann 25. apríl 2010 kr. 2.500 + kostnaður vegna aksturs kr. 10.120

Heildarkrafa kr. 76.300

Stefnandi byggir kröfu sína um greiðslu miskabóta á 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993.   Stefndi, sem vinnuveitandi stefnanda, beri ábyrgð á því tjóni sem hún hafi orðið fyrir vegna kynferðislegrar áreitni yfirmanns hennar sem einnig sé starfsmaður stefnda. Stefndi hafi ákveðið að gera engar breytingar á vinnustaðnum þannig að stefnanda sé kleift að mæta aftur til vinnu sinnar. Stefndi hafi lýst vilja sínum fyrir því að stefnandi mæti aftur til vinnu sinnar í orði en ekki á borði. Því sé það val stefnda að haga aðstæðum svo að stefnandi geti ekki sinnt starfi sínu samkvæmt ráðningarsamningi milli þeirra.

Stefnandi vísar til 4. tl. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 10/2008 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla þar sem skilgreint er hvað teljist vera kynferðisleg áreitni. Auk framangreinds er vísað til a-liðar 1. gr. laga nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum og reglugerðar um einelti á vinnustað nr. 1000/2004. Þá vísar stefnandi til 1. mgr. 22. gr. og 2. og 3. mgr. 27. gr. jafnréttislaga nr. 10/2008. Um dráttarvexti vísar stefnandi til 1. mgr. 5. gr., sbr. 6. gr., III. kafla laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001. Krafan um málskostnað styðst við 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 en krafa um virðisaukaskatt af málskostnaði styðst við lög nr. 50/1988 en stefnandi er ekki virðisaukaskattsskyldur og ber honum því nauðsyn til að fá dóm fyrir skatti þessum úr hendi stefnda. Um varnarþing vísast til 33. gr. laga nr. 91/1991.

Málsástæður og lagarök stefnda.

Stefndi telur að sýkna beri félagið af öllum kröfum stefnanda þar sem stefnandi hafi ekki orðið fyrir kynferðislegri áreitni af hálfu starfsmanns sem stefndi beri ábyrgð á. Kröfugerð stefnanda eigi sér því enga stoð. Hugtaksskilyrðum laga nr. 10/2008 um jafnan rétt kvenna og karla sé ekki fullnægt. Jafnvel þótt starfsmanninum hafi gengið kynferðislegt til með hegðun sinni hafi stefnandi engan reka gert að því að upplýsa hann um að framkoma hans væri henni á móti skapi og gengi nærri persónu hennar.

Stefnandi byggi málatilbúnað sinn á því að hún hafi orðið fyrir kynferðislegri áreitni á vinnustað og þær breytingar sem hafi átt sér stað á starfi hennar séu í kjölfar kynferðislegrar áreitni sem stefndi ákveði að líta fram hjá. Þessum málatilbúnaði mótmælir stefndi harðlega sem og öllum kröfum stefnanda. Stefndi hafi gert allt sem í hans valdi stóð sem atvinnurekandi að gæta þess að standa rétt að málum gagnvart öllum hlutaðeigandi. Eftir að stefnda hafi borist  kvörtun stefnanda í kjölfar vinnuferðarinnar hafi þegar í stað verið unnið eftir því verklagi sem reglur félagsins vegna eineltis og kynferðislegrar áreitni segja til um. Í kjölfarið hafi stefndi ekki aðeins aflað eins lögfræðilegs álits á málsatvikum heldur tveggja. Álitin hafi verið samhljóða um að ekki hafi verið um áreitni að ræða og enn síður að hún væri kynferðisleg. Stefnandi telur hins vegar að hún hafi orðið fyrir alvarlegri kynferðislegri áreitni. Stefnda sé ekki kunnugt um að stefnandi hafi kært tilvikið til lögreglu heldur beini einungis kröfum sínum að stefnda sem atvinnurekanda og vísi til laga nr. 10/2008 um jafnan rétt kvenna og karla. Þessum skilningi mótmæli hins vegar stefndi. Stefndi taki undir þau álit sem hafi verið aflað um málsatvikin og það að atvik máls falli utan skilgreiningu á lögum nr. 10/2008 um kynferðislega áreitni. Um sé að ræða eitt afmarkað tilvik sem átti sér stað að lokinni vinnu í vinnuferð þriggja starfsmanna þar sem áfengi hafi verið haft um hönd. Hin meinta áreitni felist annars vegar í því að starfsmaður hafi verið nakinn ofan í heitum potti þar sem stefnandi hafi komið að og hins vegar að taka í hönd stefnanda þegar starfsmaðurinn var kominn í föt. Er því ekki um að ræða ítrekaða hegðun eins og áskilið er í lögum né heldur sé henni haldið áfram þrátt fyrir að skýrt sé gefið í skyn að hegðunin sé óvelkomin. Þá hafi engir kynferðislegir tilburðir verið viðhafðir. Í viðtölum stefnda við alla hlutaðeigandi hafi starfsmaðurinn kannast við háttsemina en neitað því að hún hafi verið kynferðisleg. Nekt ein og sér nægi til að mynda ekki til þess að það teljist vera kynferðislegt athæfi. Þá hafi það, að snerta hönd einhvers, hingað til ekki talist til kynferðislegs athæfis. Jafnvel þótt starfsmaðurinn hafi borið einhverjar kynferðislegar hvatir til stefnanda og kjósi að neita þeim nú geti stefndi sem atvinnurekandi aldrei komið í veg fyrir að starfsmenn sínir komi á eða reyni að koma á nánara sambandi en vinnusambandi. Slíkar skyldur væri mjög óeðlilegt að leggja á atvinnurekendur, enda nánast útilokað að uppfylla slíkar skyldur. Af öllum málsatvikum sé ljóst að stefndi hafði engar forsendur til þess að bregðast við ásökunum stefnanda á þeim forsendum að um kynferðislega áreitni væri að ræða og þurfti því að glíma við málið á öðrum grunni.

Þá mótmælir stefndi því að hann hafi ekki komið til móts við stefnanda um breytingar á starfi, eins og fullyrt er af stefnanda. Þá mótmælir stefndi því að hann hafi á einhvern hátt sýnt stefnanda óréttlæti í starfi og þannig brotið gegn 2. mgr. 27. gr. laga nr. 10/2008. Stefndi hafi þvert á móti frá upphafi þessa máls reynt að gera allt sem í hans valdi stendur til þess að stuðla að sátt á vinnustaðnum og hafi reynt að haga umhverfi stefnanda í vinnu sinni þannig að líðan hennar yrði eins og besti yrði á kosið. Þess vegna hafi verið gerðar breytingar á vinnu stefnanda að ósk hennar og í samráði við hana. Stefnandi telji sér eigi að síður ekki fært að mæta til vinnu við þessar kringumstæður og telji að stefndi eigi að bæta henni vinnutekjutap sem hún hefur orðið fyrir. Óljóst sé hvað átt sé við með þessum málatilbúnaði. Stefnandi hafi lítið sem ekkert látið á það reyna hvernig henni líði í starfi og þær afleiðingar sem stefnandi telji sig búa við vegna vinnuferðarinnar séu bæði ósennilegar og í engu samræmi við þá atburði sem eru næsta óumdeildir. Frá því vinnuferðin hafi átt sér stað hafi stefnandi verið meira og minna fjarverandi og segist ekki treysta sér til að mæta til vinnu. Telji stefndi því fráleitt að stefnandi eigi nokkra kröfu á hendur stefnda vegna vangoldinna launa. Stefnandi hafi enda ekki efnt sínar skyldur samkvæmt ráðningarsamningi. Þá hafi stefnandi næsta lítið látið reyna á það hvernig hún geti með einhverjum hætti takmarkað tjónið með því að reyna að koma til starfa heldur fullyrðir stefnandi það að henni sé það ómögulegt við þessar kringumstæður. Stefnanda hafi aldrei verið sagt upp störfum hjá stefnda, heldur sé litið svo á að stefnandi sé í launalausu leyfi frá störfum, eftir að veikindaréttur hennar hjá stefnda var á þrotum, en stefnandi hafi ekki mætt til vinnu síðan 5. október 2009. Stefndi hafi, á meðan á ótímabundnu leyfi stefnanda standi, hætt greiðslum sem áður féllu til þegar stefnandi leitaði sér sálgæslu á [...]. Telur stefndi að hann hafi greitt umfram skyldu vegna þessarar sálgæslu stefnanda. Skaðabótakröfu vegna þessa kostnaðar stefnanda sé því alfarið mótmælt.

Stefndi telur rétt að gera alvarlegar athugasemdir við miskabótakröfu stefnanda. Jafnvel þótt fallist yrði á að um kynferðislega áreitni hafi verið að ræða geti stefndi aldrei borið ábyrgð á miskabótakröfu stefnanda sem rísi af þeim sökum. Stefndi telur allar breytingar sem gerðar hafi verið á starfi stefnanda sumarið 2009 hafa verið málefnalegar og réttmætar. Þannig sé fullyrðingum stefnanda um að brotið hafi verið gegn 2. mgr. og 3. mgr. 27. gr. laga nr. 10/2008 algerlega hafnað.

Kröfur sínar um sýknu byggir stefndi á almennum reglum vinnuréttar um efndir ráðningarsamninga, meginreglum samningaréttar um skyldu til efnda samninga. Krafa um málskostnað styðst við 130. gr. eml. nr. 91/1991.

Forsendur og niðurstaða:

Aðila greinir í máli þessu ekki á um háttsemi yfirmanns stefnanda í umræddri vinnuferð, þ.e. að hann hafi verið nakinn í heitum potti og ítrekað reynt að fá stefnanda með þeim í pottinn. Þá lýsti stefnandi því svo fyrir dóminum að hún hafi boðið góða nótt og farið inn í herbergi sitt til að sofa. Hún hafi verið í sumarbústað úti í sveit, ekki haft bifreið til umráða og komin nótt. Hún hafi ekki getað læst herbergi sínu og því sett tösku sína fyrir svo hún myndi heyra ef reynt yrði að komast inn í herbergi hennar. Yfirmaður hennar hafi síðar um nóttina ítrekað bankað á svefnherbergishurð hennar og þegar hún svaraði ekki, opnað hurðina og farið inn í herbergið, þrátt fyrir að hann hafi fundið fyrir fyrirstöðu, sem ferðataska stefnanda hlaut að hafa verið. Stefnandi, sem hafi verið vakandi og í öllum fötum, hafi sprottið upp og farið út úr herberginu þar sem hún vildi ekki hafa yfirmann sinn þar inni. Þá hafi yfirmaður hennar ítrekar beðið hana um að snerta hönd sína frammi í stofu. E gaf ekki skýrslu fyrir dóminum. Þessi háttsemi hans, sem stefnandi lýsti fyrir dóminum, hefur því ekki verið rengd.

Stefndi hafnar því að ofangreind háttsemi sé af kynferðislegum toga og byggir m.a. á áliti tveggja sérfræðinga sem hann aflaði sér. Var annað álitið frá lögmanni stefnda en hitt sagt vera munnlegt. Kvað stefndi að áminning, sem E var veitt í kjölfarið, hafi stafað af háttsemi sem ekki væri viðeigandi á vinnustað, en ekki hafa grundvallast á því að um kynferðislega háttsemi hafi verið að ræða.

Í 4. tl. 2. gr. laga nr. 10/2008 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla er kynferðisleg áreitni skilgreind sem hvers kyns ósanngjörn og/eða móðgandi kynferðisleg hegðun sem sé í óþökk og hafi áhrif á sjálfsvirðingu þess sem fyrir henni verði og sé haldið áfram þrátt fyrir að gefið sé skýrt í skyn að hegðunin sé óvelkomin. Áreitnin geti verið líkamleg, orðbundin eða táknræn. Eitt tilvik geti talist kynferðisleg áreitni ef það er alvarlegt.

Fyrir liggur að yfirmaður stefnanda, E, lagði til að þau stefnandi, auk F, færu í vinnuferð í sumarbústað til að ræða starf þeirra. Kom fram fyrir dóminum að slíkar ferðir höfðu ekki verið farnar af starfsmönnum áður og eftir þessa ferð voru slíkar ferðir bannaðar. Þá er óumdeilt að E var í umræddri ferð, nakinn í heitum potti og var öll framkoma stefnanda í framhaldi, frá því hún varð þess áskynja, í þá veru að henni hafi verið mjög misboðið, en hún bauð þá strax góða nótt og fór inn í svefnherbergi sitt. Þá er því ómótmælt að hún hafi lokað sig inni í herbergi og E komið þangað inn óboðinn, þrátt fyrir að honum mátti vera ljóst að einhver fyrirstaða væri við hurðina. Telur dómarinn að upplifun stefnanda af þessari háttsemi hafi tvímælalaust verið sú að um kynferðislega áreitni hafi verið að ræða. Hvað E gekk til er ósannað en hann gaf ekki skýrslu fyrir dóminum eins og áður segir. Ber stefndi hallann af því. Þrátt fyrir það að nekt ein og sér teljist almennt ekki til kynferðislegrar áreitni telur dómurinn sannað að ofangreind háttsemi hafi verið kynferðisleg áreitni í skilningi 4. tl. 2. mgr. laga nr. 10/2008. Engu breytir þar um að stefnandi kærði ekki til lögreglu atburðinn eins og stefndi taldi að hefði verið eðlilegt framhald. Auk þess studdi stefndi stefnanda í því að ganga til sálfræðings í kjölfarið og greiddi allan kostnað vegna þess fram að áramótum 2009/2010 svo og að E fór í viðtöl hjá vinnusálfræðingi félagsins.

Þá liggur fyrir að skilgreina hvort áframhaldandi háttsemi á vinnustað stefnanda í kjölfar þess að stefnandi tilkynnir um atburðinn, sé skilgreind sem einelti á vinnustað.

Í 22. gr. laga nr. 10/2008 segir m.a. að atvinnurekendur og yfirmenn stofnana skuli gera sérstakar ráðstafanir til að koma í veg fyrir að starfsfólk verði fyrir kynbundinni eða kynferðislegri áreitni á vinnustað. Í 2. mgr. 27. gr. laganna segir m.a. að atvinnurekandi skuli jafnframt gæta þess að starfsmaður verði ekki beittur óréttlæti í starfi, svo sem með tilliti til starfsöryggis, starfskjara eða mats á árangri, á grundvelli þess að hafa kært eða veitt upplýsingar um kynferðislega áreitni og í 3. mgr. segir enn fremur að séu leiddar líkur að því að gengið hafi verið gegn 27. gr. laganna, skuli atvinnurekandi sýna fram á að uppsögn eða ætlað óréttlæti grundvallist ekki á leiðréttingarkröfu starfsmanns, kæru eða veitingu upplýsinga um kynferðislega áreitni.

E var veitt áminning þann 2. apríl 2009 og kemur fram í áminningunni að hún sé veitt í beinum tengslum við samtal hans við forstjóra stefnda, og að hún sé vegna atviks sem kom upp í vinnuferð þriggja starfsmanna [...]sviðs 3.-4. mars 2009. Hjá stefnda er viðbragðsáætlun um það hvernig bregðast skuli við einelti og/eða kynferðislegri áreitni. Telur stefndi að hann hafi farið eftir henni í einu og öllu og frekari skyldur verði ekki lagðar á hann. Þrátt fyrir þessa áminningu telur stefndi hana ekki hafa verið viðurkenningu á því að hún hafi verið veitt vegna kynferðislegrar áreitni heldur vegna hegðunar starfsmanns sem þeir töldu ósæmilega.

Fullyrðingu stefnanda um að umrædd vinnuferð hafi verið farin til að ræða aukin verkefni og aukna ábyrgð í starfi hennar sem [...] hefur ekki verið hnekkt. Hún fór á fundinn í þeirri trú að auka ætti við ábyrgð hennar. Þá er óumdeilt að stefnandi kvartaði yfir háttsemi E strax og hún kom aftur í vinnu og að atvinnurekandi hennar tók kvörtunina alvarlega, enda var E veitt áminning í kjölfarið vegna óviðeigandi háttsemi á fundinum. Þá er óumdeilt að stefnandi gat ekki hugsað sér að hafa E sem sinn yfirmann eftir atvikið og í samráði við hana var hún flutt til með starfsstöð sína í starfsmannahald þar sem H varð hennar næsti yfirmaður. Átti starfssvið hennar þrátt fyrir það ekki að breytast. E var áfram yfirmaður á flugverndarsviði og heyrði beint undir forstjóra félagsins. Stefnandi hefur haldið því fram að frá því hún kvartaði yfir atvikinu og þar til hún fór í veikindaleyfi, hafi félagið sífellt verið að skerða starfssvið hennar. Bæði í gögnum málsins og fyrir dóminum skýrði H ástæður þess að breyta þyrfti aðgangsheimild stefnanda og að þær breytingar hafi ekki tengst kvörtunum hennar. Stefnandi kvartaði þann 2. september 2009 við forstjóra stefnanda, yfir því að henni væri bannað að yfirfara umsóknir um aðgangsheimildir starfsmanna, að aðgangur hennar á [...]útgáfu í tölvunni hafi verið minnkaður, að breytingar hafi verið gerðar á aðgangsgrúppum án samráðs við hana og að henni hafi verið bannað að yfirfara umsóknir fyrir aðgangsheimildir bifreiða. Þá kvaðst hún margoft hafa kvartað við H yfir yfirgangi E en engin viðbrögð fengið. Krafðist stefnandi að C, forstjóri stefnda, ræddi við E og útskýrði fyrir honum að hann hefði ekki heimild til að gera ofangreindar breytingar á starfi hennar. Fyrir dóminum skýrði stefnandi starfssvið sitt og voru ofangreindar heimildir áður innan hennar starfssviðs. Í bréfi stefnda til stefnanda, dagsettu 22. september 2009, skýrir hann að um leið og tilfærsla stefnanda átti sér stað, hafi F verið falið að tryggja það að verklag stæðist skoðanir og eftirlit, sem stefndi átti fyrirvaralaust von á, til að mynda frá Eftirlitsstofnun [...], [...], og D og lúti meðal annars að verklagi við yfirferð umsókna um aðgangsheimildir starfsmanna og aðgangi að tölvukerfi [...]. Í ljós hafi komið að opið hafi verið fyrir þjónustuaðila, svo sem tölvudeild B, tæknimenn [...] og fleiri. Það hafi verið metið svo að takmarka þyrfti aðgang eins og mögulegt væri en um leið veita tímabundinn aukinn aðgang fyrir aðila sem hafi þurft að vinna í kerfinu. Þá segir í bréfinu: „Í dag hefur þú allan þann aðgang að kerfinu sem er nauðsynlegur til þess að þú getir sinnt starfi þínu.“ Þá kemur enn fremur fram í bréfinu að rétt sé að yfirferð yfir umsóknir aðgangsheimilda fyrir ökutæki hafi verið breytt skyndilega og án fyrirvara og hafi átt sér stað þegar stefnandi var fjarverandi vegna veikinda. Það hafi verið óheppilegt en það hafi verið gert þegar eftirlitsheimsókn [...] hafi staðið yfir og vegna fyrirspurna þeirra og þá sérstaklega um það hver veitti þessar heimildir. Þá segir enn fremur í bréfinu: „Ég er sannfærður um að ef þú hefðir verið hér á meðan [...] fór yfir þessi mál með F og þeim sem leysti þig af þennan umræddan dag þá hefðir þú verið meðvituð um ástæður þessara breytinga og að þær væru í rót runnar frá [...] og kæmu þér þar af leiðandi ekki á óvart og eins hefði þér verið ljóst að breytingarnar beindust ekki að þér.“

Samkvæmt því sem að ofan er rakið hefur starf stefnanda verið rýrt að henni forspurðri ítrekað eftir að hún kvartaði yfir kynferðislegri áreitni E í mars 2009. Ekki liggur fyrir hver stjórnaði því en yfirmaður [...]sviðs, sem stefnandi heyrði undir faglega, var E. Samkvæmt framburði H starfsmannastjóra voru breytingar á starfi stefnanda gerðar samkvæmt fyrirmælum F og hafi þær ekki verið að undirlagi E en F hafi verið falið það verkefni að samþykkja beiðnir, sem stefnandi hafði áður gert að hluta. Hvorki F né E komu fyrir dóminn til að staðfesta þetta. Hefur að þessu leyti framburður stefnanda um að starfi hennar hafi ítrekað verið breytt og aðgangsheimildir teknar af henni, án þess að gera henni viðvart eða ræða það við hana hafi hún verið í fríi, ekki verið hrakinn. Var stefnda í lófa lagið að gera stefnanda viðvart eða gera umræddar breytingar í samstarfi við hana, sérstaklega í ljósi þess að mikil óánægja hafði verið hjá stefnanda um afskipti E af starfi hennar og henni sjálfri. Óumdeilt er að umræddur vinnufundur í sumarbústaðnum var farinn í þeim tilgangi að ræða [...] og auknar ábyrgðir stefnanda. Frá þeim tíma hafa aðgangsheimildir hennar og starfsumhverfi allt verið í þá átt að skerða starfsánægju stefnanda og væntingar til þess starfs sem hún var í fyrir vinnuferðina. Þá hefur fullyrðingum stefnanda um að E hafi ítrekað nálgast hana á vinnustað, þrátt fyrir samkomulag um að svo yrði ekki, ekki verið hnekkt. Stefnda var fullkunnugt um vanlíðan stefnanda eftir atburðinn í sumarbústaðnum en hann m.a. greiddi sálfræðiaðstoð fyrir stefnanda út árið 2009. Stefndi hefur ítrekað það að hann vilji fá stefnanda til starfa aftur en mótmælt því að hann hafi ekki gert allt sem í hans valdi stóð til uppfylla skyldur sínar. Telur dómurinn sannað að með aðgerðum eða aðgerðarleysi hafi stefndi brotið á stefnanda og brotið gegn skyldum sínum sem vinnuveitandi, sbr. 2. og 3. mgr. 27. gr. laga nr. 10/2008 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, með þeim afleiðingum að stefnanda var gert ókleift að halda starfi sínu áfram óbreyttu. Stefndi hefur því valið þann kost að halda stefnanda frá starfi sínu, þrátt fyrir að í gildi sé ráðningarsamningur milli aðila.

Stefnandi krefur stefnda um vangreidd laun vegna tímabilsins frá 20. janúar – 31. janúar 2010. Fyrir liggur að stefnandi fékk greidd laun til og með 19. janúar 2010. Sundurliðast krafa stefnanda fyrir janúarmánuð þannig: 33% full mánaðarlaun (230.040 * 33,333%) 76.603 krónur. 33% föst yfirvinna (59.724*33,333%) 19.908 krónur. Samtals fyrir janúar 96.511 krónur. Vangreidd laun vegna febrúarmánaðar 2010 sem sundurliðast þannig: Full mánaðarlaun 230.040 krónur.  Föst yfirvinna 59.724 krónur eða samtals 289.764 krónur. Vangreidd laun vegna marsmánaðar 2010 sem sundurliðast þannig: Full mánaðarlaun 230.040 krónur. Föst yfirvinna 59.724 krónur eða samtals 289.764 krónur. Vangreidd laun vegna aprílmánaðar 2010, sem sundurliðast þannig: Full mánaðarlaun 230.040 krónur. Föst yfirvinna 59.724 krónur eða samtals 289.764 krónur. Heildarkrafa vegna vinnulauna á tímabilinu frá 20. janúar – 30. apríl 2010 eru því samtals 965.803 krónur. Ofangreindar fjárhæðir byggja á launaseðlum og kemur þar fram að hluti af föstum launum stefnanda er föst yfirvinna. Stefndi hefur ekki sýnt fram á að umkrafðar fjárhæðir hafi breyst og verður þessi krafa stefnanda því tekin til greina ásamt dráttarvöxtum eins og segir í dómsorði.

Stefnandi gerir kröfu um að stefndi greiði henni aksturskostnað vegna ferða hennar frá [...] á [...] vegna sálfræðiaðstoðar sem hún sótti þangað að ósk stefnda. Stefndi mótmælir þessari kröfu og kveðst hafa greitt fyrir sálfræðiaðstoð út árið 2009. Stefnandi sé kominn í launalaust leyfi og að stefndi beri ekki ábyrgð á þeim kostnaði sem stefnandi efnir til vegna sálfræðiþjónustu eftir það. Krafa stefnanda sundurliðast þannig: Tími á Landspítalanum þann 18. janúar 2010 kr. 1.836 + kostnaður vegna aksturs kr. 10.120. Tími á Landspítalanum þann 29. janúar 2010 kr. 1.836 + kostnaður vegna aksturs kr. 10.120. Tími á Landspítalanum þann 19. febrúar  2010 kr. 4.408 + kostnaður vegna aksturs kr. 10.120. Tími á Landspítalanum þann 1. mars  2010 kr. 2.500 + kostnaður vegna aksturs kr. 10.120. Tími á Landspítalanum þann 11. apríl  2010 kr. 2.500 + kostnaður vegna aksturs kr. 10.120. Tími á Landspítalanum þann 25. apríl 2010 kr. 2.500 + kostnaður vegna aksturs kr. 10.120. Heildarkrafa kr. 76.300.

Í vottorði K kemur fram að stefnandi hafi verið í viðtölum á tímabilinu 5. ágúst til 15. desember 2009. Í vottorði L læknis kemur fram að stefnandi hafi leitað til hans þann 11. desember 2009 og að hún sé í reglulegri [...]  hjá honum en sæki einnig sálfræðiaðstoð hjá M, sálfræðingi á [...]. Engin gögn styðja þessa kröfugerð frekar. Verður því að sýkna stefnda af henni.

Stefnandi byggir kröfu sína um greiðslu miskabóta á 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Stefndi, sem vinnuveitandi stefnanda, beri ábyrgð á því tjóni sem hún hafi orðið fyrir vegna kynferðislegrar áreitni yfirmanns hennar sem einnig sé starfsmaður stefnda. Stefndi hafi ákveðið að gera engar breytingar á vinnustaðnum þannig að stefnanda sé kleift að mæta aftur til vinnu sinnar. Með vísan til þeirra vottorða sem liggja fyrir í málinu og hafa ekki verið véfengd af stefnda, er ljóst að stefnandi hefur orðið fyrir miska vegna þeirrar kynferðislegu áreitni sem hún varð fyrir í vinnutíma og eineltis í kjölfar kvörtunar hennar. Það athafnaleysi stefnda að búa ekki svo um hnútana að stefnanda væri fært að sinna starfi sínu áfram, sem hún var í áður en kynferðisleg áreitni átti sér stað, hefur verið til þess fallið að valda stefnanda vanlíðan. Fól þetta athafnaleysi yfirmanns stefnanda í sér meingerð gegn persónu hennar, sem stefndi ber ábyrgð á. Verður stefndi því dæmdur til greiðslu miskabóta með vísan til b-liðar 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, sbr. og 31. gr. laga nr. 10/2008 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla vegna þeirrar meingerðar til handa stefnanda og eru hæfilega taldar vera 800.000 krónur ásamt dráttarvöxtum frá dómsuppsögudegi til greiðsludags.

Með vísan til 3. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála verður stefndi dæmdur til að greiða stefnanda málskostnað samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi, samtals 865.636 krónur. Hefur þá verið tekið tillit til virðisaukaskatts.

Ástríður Grímsdóttir héraðsdómari kveður upp dóm þennan.

D Ó M S O R Ð

Stefndi, B., kt. [...], greiði stefnanda, A, kt. [...], 1.765.803 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af 96.511 krónum frá 31. janúar 2010 til 1. mars s.á. en af 386.275 krónum frá þeim tíma til 1. apríl s.á. en af 676.039 krónum frá þeim tíma til 1. maí 2010, en af 965.803 krónum frá þeim tíma til 9. febrúar 2011, en af 1.765.803 krónum frá þeim degi til greiðsludags.

Stefndi greiði stefnanda 865.636 krónur í málskostnað.