Print

Mál nr. 689/2016

Eignarhaldsfélagið Áfangar ehf. (Unnar Steinn Bjarndal hrl.)
gegn
íslenska ríkinu (Guðrún Sesselja Arnardóttir hrl.)
Lykilorð
  • Tollur
  • Aðflutningsgjald
  • Endurgreiðslukrafa
Reifun

Með tveimur úrskurðum tollstjóra voru aðflutningsgjöld vegna innflutnings E ehf. á tilteknum hönskum endurákvörðuð með vísan til þess að hanskarnir hefðu verið ranglega tollflokkaðir við innflutninginn. Í málinu krafðist E ehf. endurgreiðslu þess fjár sem hann hafði greitt á grundvelli úrskurða tollstjóra sem og endurgreiðslu vegna þegar greiddra aðflutningsgjalda vegna sex sendinga sem ekki hafði verið fjallað um í úrskurðunum. Byggði E ehf. á því að hanskana bæri að flokka undir tollskrárnúmer 4015.1901 sem „öryggishanskar, viðurkenndir af Vinnueftirliti ríkisins samkvæmt reglum nr. 501 31. ágúst 1994“, en í úrskurðum tollstjóra höfðu hanskarnir verið felldir undir tollskrárnúmer 4015.1909 sem nefndur var „annars“. Fallist var á með Í að nokkuð skorti á tengsl milli vörunnar og þeirra vottorða sem fyrir lágu í málinu og voru þau því ekki lögð til grundvallar sem sönnun þess að hún ætti að flokkast undir tollskrárnúmer 4015.1901. Á hinn bóginn þóttu upplýsingar á umbúðum hanskanna fremur benda til þess að um væri að ræða einfaldar persónuhlífar í flokki 1, sem féllu undir tollskrárnúmer 4015.1909. Þá var ekki fallist á með E ehf. að þau viðbótarskilyrði sem sett væru fyrir vottun vara og merkingu umbúða samkvæmt reglum nr. 501/1994 væru svo flókin og ströng að í bága færi við 40. og 77. gr. stjórnarskrárinnar. Var Í því sýknað af kröfu E ehf.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson, Greta Baldursdóttir, og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Áfrýjandi skaut málinu upphaflega til Hæstaréttar 15. ágúst 2016. Ekki varð af fyrirhugaðri þingfestingu þess 28. september 2016 og áfrýjaði hann öðru sinni 10. október sama ár samkvæmt heimild í 4. mgr. 153. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Hann krefst þess að stefnda verði gert að greiða sér 8.747.202,63 krónur með vöxtum samkvæmt 2. mgr. 125. gr. tollalaga nr. 88/2005, sbr. 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, af nánar tilgreindum fjárhæðum frá 4. febrúar 2011 til 22. september 2014, en af framangreindri fjárhæð frá þeim degi til 13. janúar 2015, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst hann aðallega málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti, en til vara að málskostnaður verði felldur niður á báðum dómstigum.

Stefndi krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.

Áfrýjandi verður dæmdur til að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Áfrýjandi, Eignarhaldsfélagið Áfangar ehf., greiði stefnda, íslenska ríkinu, 600.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 26. maí 2016.

Mál þetta, sem dómtekið var að loknum munnlegum málflutningi 10. maí sl., er höfðað með stefnu sem árituð var um birtingu 13. janúar 2015.

Stefnandi er Eignarhaldsfélagið Áfangar ehf., Hafnargötu 90, Reykjanesbæ, en stefndi er íslenska ríkið vegna Tollstjórans í Reykjavík, og var fjármálaráðherra stefnt fyrir þess hönd.

Endanlegar dómkröfur stefnanda eru þær að stefndi verði dæmdur til að greiða honum 8.747.202,63 krónur, auk almennra vaxta samkvæmt 2. mgr. 125. gr. tollalaga nr. 88/2005, sbr. 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, af 634.600 krónum frá 4. febrúar 2011 til 11. apríl 2011, frá þeim degi af 1.292.216 krónum til 21. júní 2011, frá þeim degi af 3.181.208,63 krónum til 5. júlí 2011, frá þeim degi af 3.763.476,63 krónum til 19. september 2011, frá þeim degi af 4.457.324,63 krónum til 17. janúar 2012, frá þeim degi af 5.302.285,63 krónum til 10. janúar 2014, frá þeim degi af 6.157.491,63 til 22. september 2014, frá þeim degi af 8.747.202,63 krónum til þess dags er stefna var birt stefnda, en frá þeim degi með dráttarvöxtum samkvæmt 6. gr. laga nr. 38/2001 til greiðsludags. Þá krefst stefnandi málskostnaðar úr hendi stefnda að mati dómsins.

Stefndi krefst sýknu af kröfum stefnanda, auk málskostnaðar sér til handa.

Auk fjárkröfu sinnar krafðist stefnandi þess upphaflega að úrskurðir Tollstjóra nr. 1/2014 END frá 20. janúar 2014 og nr. 7/2011 frá 5. maí 2001 yrðu felldir úr gildi, svo og að viðurkennt yrði að hanskar sem stefnandi flutti inn til landsins skyldu flokkast undir tiltekið tollskrárnúmer. Með úrskurði dómsins 28. janúar sl. var þeim kröfum vísað frá dómi. Því er aðeins fjárkrafa stefnanda hér til úrlausnar.

Málsatvik

Stefnandi flutti inn til landsins tiltekna gerð af hönskum úr latex og nitrile fyrir milligöngu hollenska fyrirtækisins Cemex Trescon.

Með úrskurði Tollstjóra í máli nr. 7/2011 END 5. maí 2011 voru aðflutningsgjöld vegna sjö vörusendinga til stefnanda endurákvörðuð, en stefnandi hafði fengið þær vörur tollafgreiddar á tímabilinu frá 19. maí 2009 til 8. júní 2010. Taldi Tollstjóri að stefnandi hefði ranglega tollflokkað hanskana sem hanska til skurðlækninga undir tollskrárnúmer 4015.1100, í stað hanskar, annars, undir tollskrárnúmer 4015.1909, en hanskar undir því tollskrárnúmeri bera 15% toll. Þrátt fyrir úrskurð Tollstjóra hélt stefnandi áfram að tollflokka vörusendingar sínar undir tollskrárnúmerinu 4015.1100. Með úrskurði Tollstjóra nr. 1/2014 20. janúar 2014 voru því aðflutningsgjöld af sendingum hans á tímabilinu frá 21. maí 2012 til 4. desember sama ár einnig endurákvörðuð. Við meðferð þess máls fór stefnandi þess á leit að hanskarnir yrðu flokkaðir undir tollskrárnúmer 4015.1901, sem öryggishanskar, viðurkenndir af Vinnueftirliti ríkisins samkvæmt reglum nr. 501 31. ágúst 1994. Því hafnaði Tollstjóri og taldi að sendingarnar ættu að falla undir tollskrárnúmer 4015.1909, sem hanskar, annars. Stefnandi kærði þann úrskurð til Ríkistollanefndar, sem staðfesti úrskurð Tollstjóra með úrskurði nr. 4/2014 8. september 2014.

Stefnandi byggir á því að tollflokka beri umræddar vörusendingar undir tollskrárnúmer 4015.1901 og krefst því endurgreiðslu þess fjár sem hann hefur þegar greitt á grundvelli endurákvarðana Tollstjóra. Jafnframt krefst hann endurgreiðslu af þegar greiddum aðflutningsgjöldum vegna sex sendinga af sömu vörum, sem allar voru tollflokkaðar undir tollskrárnúmeri 4015.1909, en ekki var fjallað um í áðurnefndum úrskurðum Tollstjóra.

Málsástæður og lagarök stefnanda

Stefnandi byggir á því að umþrættar vörusendingar hans eigi að tollflokka undir tollskrárnúmer 4015.1901, en ekki tollskrárnúmer 4015.1909 líkt og tollayfirvöld hafi talið rétt, enda sé um að ræða öryggishanska sem uppfylli Evrópustaðla nr. NEN-EN 374 1-2-3, EN 455 1-2-3, EN 420 og AQL 1,5 og falli þar með í flokk 3 (Cat III) sem flóknar persónuhlífar. Upplýsingar sem staðfesti þetta komi skýrlega fram á pakkningum vörunnar og í vottorðum frá viðurkenndri skoðunarstofu. Er það mat stefnanda að sú tollafgreiðsla sem sendingarnar hlutu sé af þessum sökum bæði í andstöðu við ákvæði tollskrár og túlkunarreglur hennar, sem og 40. gr. og 1. mgr. 77. gr. stjórnarskrárinnar nr. 33/1944.

Stefnandi bendir á að hugtakið öryggishanskar sé hvergi skilgreint í reglum nr. 501/1994, um gerð persónuhlífa, en þar sem um sé að ræða reglur um persónuhlífar sé eðlilegt að líta svo á að allir hanskar sem falli þar undir séu öryggishanskar, óháð því hvort um sé að ræða einfaldar persónuhlífar, flóknar persónuhlífar eða hvorki einfaldar né flóknar, enda nái reglur nr. 501/1994 yfir persónuhlífar án nánari skilgreiningar. Þröng túlkun stefnda á hugtakinu öryggishanskar sé því ótæk og sérlega íþyngjandi.

Hvað varðar tollflokkun hanskanna undir tollskrárnúmer 4015.1901 telur stefnandi þann áskilnað stefnda að hanskarnir hafi hlotið vottun viðurkenndrar skoðunarstofu í samræmi við 2. mgr. 8. gr. reglna nr. 501/1994 óhóflega, auk þess áskilnaðar að umbúðir slíkra hanska þurfi að uppfylla ákveðin viðbótarskilyrði. Slík túlkun sé til þess fallin að strangari og flóknari skilyrði séu sett um tollflokkun. Brjóti slíkt í bága við áðurnefnd ákvæði stjórnarskrárinnar. Um sé að ræða íþyngjandi ákvörðun sem eigi sér enga lagastoð. Og jafnvel þótt fallist yrði á hina ströngu  túlkun stefnda á hugtakinu öryggishanskar, féllu þeir engu að síður undir þá túlkun, enda uppfylli hanskarnir skilyrði þess að teljast til flókinna persónuhlífa og hafi vottun viðurkenndrar skoðunarstofu þess efnis. Telur stefnandi að framkvæmd og túlkun stefnda hafi verið óljós og staðfesti að lýsing tollflokksins sé ófullnægjandi.

Máli sínu til frekari stuðnings vísar stefnandi til fyrirliggjandi skoðunarvottorða, sem gefin eru út af SATRA, viðurkenndri skoðunarstofu í samræmi við reglur nr. 501/1994, sem votti að framleiðsluferli hanskanna sé í samræmi við þá Evrópustaðla sem bæði eru ritaðir á vottorðin og umbúðir umræddra hanska. Stefnandi hafi auk þess lagt fram yfirlýsingu frá seljanda hanskanna, þess efnis að skoðunarvottorðin eigi við um umrædda hanska. Loks liggi fyrir tölvupóstsamskipti milli seljanda og framleiðanda sem sýni svo ekki verði um villst að framlögð skoðunarvottorð séu komin frá framleiðanda hanskanna.

Með vísan til ofangreinds telur stefnandi ljóst að verulegir annmarkar hafi verið á tollmeðferð stefnda á vörum stefnanda og að með réttu hefði átt að flokka títtnefnda hanska undir tollskrárnúmer 4015.1901. Krafa hans sundurliðast þannig:

Samkvæmt úrskurði Tollstjóra nr. 7/2011 kr. 1.888.992,63

Samkvæmt úrskurði Ríkistollanefndar nr. 4/2014 kr. 2.589.711,-

Samkvæmt tollafgreiðslu sendingar nr. E DET 07 01 4 NL RTM V987 10. janúar   2014 kr. 855.206,-

Samkvæmt tollafgreiðslu sendingar nr. E GOD 17 01 2 NL RTM W051 17. janúar 2012 kr. 844.961,-

Samkvæmt tollafgreiðslu sendingar nr. L EAH 18 09 1 NL RTM G004 19. september 2011 kr. 693.848,-

Samkvæmt tollafgreiðslu sendingar nr. L FCA 03 07 1 NL RTM G004 5. júlí 2011                            kr. 582.268,-

Samkvæmt tollafgreiðslu sendingar nr. L WCO 10 04 1 NL RTM G004 11. apríl 2011 kr. 657.616,-

Samkvæmt tollafgreiðslu sendingar nr. L WCO 31 01 1 NL RTM G008 þann 4. febrúar 2011 kr. 634.600,-

Samanlagt nemur því krafa stefnanda 8.747.202,63 krónum.  

Um lagarök vísar stefnandi til 2. mgr. 125. gr. tollalaga nr. 88/2005, sbr. 1. gr. laga nr. 29/1995, um endurgreiðslu oftekinna skatta og gjalda, og 40. gr. og 1. mgr. 77. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944. Krafa um vexti og dráttarvexti styðst við 2. og 4. mgr. 125. gr. tollalaga nr. 88/2005, sbr. og lög um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001. Málskostnaðarkrafan er reist á 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.

 

Málsástæður og lagarök stefnda

Stefndi mótmælir því að tollflokkun umdeildra vörusendinga sé í andstöðu við ákvæði tollskrár og túlkunarreglur hennar, sem og 40. gr. og 1. mgr. 77. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944. Jafnframt mótmælir hann fullyrðingu stefnanda þess efnis að tollflokkun vöru feli í sér íþyngjandi ákvörðun, enda sé við tollflokkun ekki horft til gjalda við hvert tollskrárnúmer, heldur fari hún fram eftir orðalagi vöruliða, athugasemdum og almennum túlkunarreglum tollskrár. Gjöld, sem sett séu á hina ýmsu tollflokka, séu síðan ákveðin af Alþingi og því sé uppfyllt skilyrði um lagastoð fyrir gjaldtöku á grundvelli tollskrár.  

Stefndi vísar til 5. gr. tollalaga nr. 88/2005, þar sem kveðið sé á um tollskyldar vörur og tollskrá, en samkvæmt 1. málslið 1. mgr. 5. gr. skuli greiða toll af vörum sem fluttar séu inn á tollsvæði ríkisins, eins og mælt sé fyrir í tollskrá í viðauka I með téðum lögum. Tollskrá í viðauka I við tollalög nr. 88/2005 hafi verið birt í A-deild Stjórnartíðinda 18. maí 2005. Þau tollskrárnúmer sem deila aðila snúist um komi fram í VII. flokki tollskrár. Í vörulið 4015 segi orðrétt:

4015 Fatnaður og hlutar hans (þar með taldir hanskar, belgvettlingar og vettlingar), til hvers konar nota, úr vúlkaníseruðu gúmmíi, þó ekki harðgúmmíi:

- Hanskar, belgvettlingar og vettlingar:

4015.1100

-- Til skurðlækninga

-- Aðrir:

4015.1901

--- Öryggishanskar, viðurkenndir af Vinnueftirliti ríkisins samkvæmt reglum nr. 501 31. ágúst 1994

4015.1909

--- Annars

Samkvæmt 1. og 6. túlkunarreglu tollskrár komi fram að fyrirsagnir á flokkum, köflum og undirköflum séu einungis til leiðbeiningar og að flokkun vara í undirliði einstakra vöruliða skuli í lagalegu tilliti byggð á orðalagi undirliðanna og sérhverri tilheyrandi athugasemd við undirliði, og að breyttu breytanda öðrum túlkunarreglum tollskrár, en með því fororði að aðeins jafnsettir undirliðir verði bornir saman. Þá segi í 1. málslið a-liðar 3. túlkunarreglu að vöruliður sem feli í sér nákvæmustu vörulýsingu skuli tekinn fram fyrir vörulið með almennri vörulýsingu. Af þessu megi ráða að fatnaður eða hlutar fatnaðar sem falli ekki undir tollskrárnúmerin 4015.1100 eða 4015.1901 skuli flokkaður undir tollskrárnúmerið 4015.1909. Byggir stefndi á því að umdeildar vörusendingar eigi að tollflokka undir tollskrárnúmerið 4015.1909.

Stefndi hafnar þeirri staðhæfingu stefnanda að framkvæmd og túlkun stefnda hafi verið óljós og að lýsing tollflokksins sé ófullnægjandi. Í því sambandi bendir stefndi á að lýsing tollskrárnúmersins 4015.1901 sé eftirfarandi: Öryggishanskar, viðurkenndir af Vinnueftirliti ríkisins samkvæmt reglum nr. 501 31. ágúst 1994. Við skýringu þess hvort umræddir hanskar falli undir orðalag tollskrárnúmersins verði því að taka afstöðu til þess hvort hanskarnir geti talist öryggishanskar, viðurkenndir af Vinnueftirliti ríkisins samkvæmt framangreindum reglum. Í þessu skyni vísar stefndi til þess að í reglum nr. 501/1994, um gerð persónuhlífa, sem sæki stoð sína í 38. og 47. gr. laga nr. 46/1980, um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, sé að finna skilgreiningu á hugtakinu persónuhlíf. Það hugtak sé síðan flokkað í þrjá undirflokka samkvæmt tilskipun nr. 89/686/EBE, sem liggi m.a. að baki gildandi reglum nr. 501/1994, þ.e. í einfaldar persónuhlífar (flokkur 1), hvorki einfaldar né flóknar persónuhlífar (flokkur 2) og flóknar persónuhlífar (flokkur 3). Tekur stefndi fram að samkvæmt áðurnefndri tilskipun séu einfaldar persónuhlífar (flokkur 1) skilgreindar á þann hátt að notandinn geti metið þá vernd sem hlífin veitir gegn minni háttar hættum (e. minimal risk) og geri sér örugglega grein fyrir því tímanlega.

Stefndi byggir á því að einungis þeir hanskar sem falli í flokk 3 (flóknar persónuhlífar) teljist öryggishanskar. Í þann flokk falli þær hlífar sem vísað sé til í 9. gr. reglna nr. 501/1994. Þær séu gerðarprófaðar og skuli það koma fram á prófunarvottorði, sbr. 14. gr. reglnanna. Til viðbótar skuli framleiðandi persónuhlífa í flokki 3 sjá til þess að sérstakt eftirlit sé haft með framleiðslu þeirra í samræmi við viðauka VII við reglurnar, sbr. 9. gr. Persónuhlífarnar beri CE-merki, auk tilvísunar í viðeigandi staðal. Þá sé áskilið í 1. tölulið 11. gr. reglnanna að þegar samþykktur aðili taki þátt í eftirliti með framleiðslukerfinu samkvæmt VII. viðauka, beri að bæta kenninúmeri hins samþykkta aðila við CE-merkinguna. Í flokk 1 (einfaldar persónuhlífar) falli á hinn bóginn þær hlífar sem vísað sé til í 2. tölulið 8. gr. reglnanna, t.d. uppþvottahanskar og regnfatnaður. Búnaður í þessum flokki beri CE-merki sem framleiðanda sjálfum sé heimilt að setja á vöruna á sína ábyrgð, ásamt tilvísun í viðeigandi staðal. Hins vegar séu þessar vörur undanþegnar þeirri EB-gerðarprófun sem vísað sé til í viðauka VI við reglur nr. 501/1994. Samkvæmt þessu telur stefndi ljóst að búnað í flokki 3 skuli, auk CE-merkis, merkja með kenninúmeri samþykkts aðila (prófunarstofu), sem hafi með höndum sérstakt eftirlit, sbr. VI. kafla reglna nr. 501/1994, auk táknmynda til merkis um hve mikla vernd búnaðurinn veiti.

Stefndi bendir á að skoðunarvottorðin frá SATRA, sem stefnandi hafi lagt fram í málinu, beri það með sér að varan sem skoðuð var, sé EB-gerðarprófuð í samræmi við 10. gr. tilskipunar 89/686/EBE og að hún hafi uppfyllt kröfur sem gerðar séu til flókinna persónuhlífa. Á umbúðum vörunnar sem um sé fjallað í þessu máli, komi fram nafn seljanda vörunnar í Hollandi „CMT“ og að varan sé framleidd í Malasíu, en ekkert komi hins vegar fram um nafn framleiðandans í Malasíu. Þá sé CE-merkið tilgreint á umbúðunum, en ekki getið um kenninúmer vottunaraðila eins og áskilið sé í 11. gr. reglna nr. 501/1994, hvorki á vörunni sjálfri né á umbúðum hennar. Ekki komi heldur fram á umbúðum hanskanna að þeir séu flókin persónuhlíf í flokki 3. Hins vegar séu umbúðirnar merktar „Minimal risk only“, sem gefi til kynna að hanskana eigi fremur að telja til persónuhlífa í flokki 1. Þá beri umbúðirnar það einnig með sér að hanskarnir séu „non sterile“ eða ósótthreinsaðir. Telur stefndi augljóst að hanskar sem ætlaðir séu fyrir „Minimal risk only“ og séu jafnframt ósótthreinsaðir, geti ekki á sama tíma verið ætlaðir til þess að vernda gegn lífshættu eða alvarlegu, varanlegu heilsutjóni. Loks vísar stefndi til upplýsinga frá skoðunarstofunni SATRA um að þegar svo standi á að varan sé ekki merkt upprunalegum framleiðanda, heldur seljanda innan ESB, beri að gefa út sérstakan viðauka við vottorð („Extension certificates“). Þetta hafi stefnandi ekki gert.

Með vísan til framangreinds telur stefndi að þrátt fyrir að á umbúðum umræddra hanska sé tilvísun í viðeigandi staðla, skorti töluvert á að hanskarnir og umbúðir þeirra beri með sér svo óyggjandi sé að um sé að ræða flókna persónuhlíf í skilningi reglna nr. 501/1994. Upplýsingar um hanskana og framsetning þeirra á umbúðum sé ekki í samræmi við reglurnar og bendi frekar til þess að um einfaldar persónuhlífar sé að ræða. Þá hafi eftirlitsaðilinn SATRA lýst því yfir að framlögð skírteini vegna hanskanna séu ekki gefin út í samræmi við reglur, þar sem gefa þurfi út sérstök viðaukaskírteini þegar seljandi sé ekki framleiðandi vörunnar. Tekur stefndi því undir það mat í fyrirliggjandi úrskurðum Tollstjóra nr. 7/2011 og 1/2014, svo og úrskurði Ríkistollanefndar nr. 4/2014, að það skorti á tengsl á milli hinnar innfluttu vöru og þeirra vottorða sem liggi fyrir í málinu. Verði vottorðin því ekki lögð til grundvallar því að umrædd vara teljist flókin persónuhlíf, sem flokka beri undir tollskrárnúmer 4015.1901. Þvert á móti beri að flokka hanskana undir tollskrárnúmer 4015.1909, líkt og gert hafi verið í áðurnefndum úrskurðum. Hinu sama gegni um þær sex sendingar sem tollafgreiddar voru á tímabilinu frá 4. febrúar 2011 til 10. janúar 2014, enda hafi þar verið um sams konar hanska að ræða.

Með vísan til ofanritaðs krefst stefndi sýknu af kröfum stefnanda.

Niðurstaða

Í máli þessu deila aðilar um hvernig tollflokka skuli tiltekna gerð af hönskum úr latex og nitrile sem stefnandi flutti inn til landsins fyrir milligöngu fyrirtækisins Cemex Trescon í Hollandi, en hanskar þessir voru framleiddir af fyrirtækinu Top Glove í Malasíu. Stefnandi byggir á því að hanskana beri að tollflokka undir tollskrárnúmer 4015.1901, sem Öryggishanskar, viðurkenndir af Vinnueftirliti ríkisins samkvæmt reglum nr. 501 31. ágúst 1994, en stefndi byggir á því að hanskana eigi að flokka undir tollskrárnúmer 4015.1909, sem Annars. Af vörum sem falla undir fyrra tollskránúmerið er ekki greiddur A-tollur, en vörur sem flokkast undir það síðara bera 15% A-toll.

Í greinargerð sinni vekur stefndi athygli á því að stefnandi hafi ekki upplýst um hverjir hafi keypt hanskana hér á landi, né til hverra nota þeir voru ætlaðir. Undir rekstri málsins lagði stefnandi fram fjóra vörureikninga vegna sölu á hönskum til þriggja fyrirtækja, en af þeim verður þó ekki ráðið til hlítar til hverra nota hanskarnir voru ætlaðir.

Stefnandi byggir á því að framlögð skoðunarvottorð frá vottunaraðilanum SATRA í Bretlandi staðfesti að umræddir hanskar falli í flokk flókinna persónuhlífa (flokk 3) og eigi því að flokkast undir tollskrárnúmerið 4015.1901, sem öryggishanskar, viðurkenndir af Vinnueftirliti ríkisins samkvæmt reglum nr. 501/1994, um gerð persónuhlífa. Eins og áður greinir eru reglur þessar settar samkvæmt heimild í 38. og 47. gr. laga nr. 46/1980, um aðbúnað og hollustuhætti á vinnustöðum, og fela í sér innleiðingu á tilskipun 89/686/EBE, um samræmingu laga aðildarríkjanna um persónuhlífar. Í V. kafla reglnanna, sbr. og VI. viðauka við þær, er fjallað um EB-gerðarprófun. Þar segir m.a. að Vinnueftirlit ríkisins viðurkenni þá aðila sem taki að sér gerðarprófanir samkvæmt ákvæðum reglnanna og eru á skrá hjá stjórnvöldum aðildarríkjanna innan EES, sbr. 13. gr. reglna nr. 501/1994. Ekki er um það deilt að vottunaraðilinn SATRA hefur slíka viðurkenningu hér a landi.

Samkvæmt reglum nr. 501/1994 og tilskipun 89/686/EBE er persónuhlífum skipt í þrjá flokka eftir þeim kröfum sem gerðar eru til þeirra. Þar sem ágreiningur aðila lýtur aðeins að því hvort flokka eigi umræddar vörur í flokk 1, sem einfaldar persónuhlífar, eða í flokk 3, sem flóknar persónuhlífar, verður hér aðeins fjallað um hvað skilur þá flokka að samkvæmt téðum reglum.

Í 2. tölulið 8. gr. reglna nr. 501/1994, sbr. og 3. tölulið 8. gr. tilskipunar 89/686/ EBE er fjallað um einfaldar persónuhlífar. Er þar gengið út frá því að notandinn geti metið þá vernd sem hlífin veitir gegn minni háttar hættum („minimal risk“) og geri sér örugglega grein fyrir því tímanlega, t.d. uppþvottahanskar og regnfatnaður. Búnaður í þessum flokki ber CE-merki sem framleiðanda sjálfum er heimilt að setja á vöruna á sína ábyrgð ásamt tilvísun í viðeigandi staðal. Vörur þessar eru undanþegnar þeirri EB-gerðarprófun sem vísað er til í viðauka VI við reglur nr. 501/1994.

Um flóknar persónuhlífar er hins vegar fjallað í 9. gr. áðurnefndra reglna og 4. tölulið 8. gr. tilskipunar 89/686/EBE. Þar kemur fram að hlífar þessar séu ætlaðar sem vernd gegn lífshættu eða alvarlegri, varanlegri hættu, þar sem notandinn geti ekki gert sér grein fyrir hættunni í tíma. Í dæmaskyni eru nefndar öndunarfærahlífar með síu, fallvarnarbúnaður og persónuhlífar, m.a. hlífðarhanskar fyrir rafmagnsvinnu og til að verjast miklum hita (yfir 100°). Þessar persónuhlífar eru gerðarprófaðar og skal það koma fram á prófunarvottorði, sbr. 14. gr. reglnanna. Til viðbótar skal framleiðandi sjá til þess að sérstakt eftirlit sé haft með framleiðslu þeirra í samræmi við viðauka VII við reglurnar. Þá skulu persónuhlífarnar bera CE-merki, auk tilvísunar í viðeigandi staðal. Jafnframt er áskilið í 1. tölulið 11. gr. reglna nr. 501/1994 að þegar samþykktur aðili tekur þátt í eftirliti með framleiðsluferlinu samkvæmt VII. viðauka, beri að bæta kenninúmeri hins samþykkta aðila við CE-merkinguna.

Áðurnefnd skoðunarvottorð frá SATRA bera með sér að þau eru gefin út til framleiðandans Top Glove í Malasíu, en ekki er getið um nafn seljandans í Hollandi, Cemex Trescon. Í vörulýsingu á vottorðunum eru hanskarnir annars vegar nefndir „Nitrile Examination Gloves“ og hins vegar „Latex Examination Gloves“. Þá segir þar að varan hafi verið EB-gerðarprófuð í samræmi við 10. gr. tilskipunar 89/686/EBE, um persónuhlífar, og að varan uppfylli kröfur sem gerðar séu til flókinna persónuhlífa.

Meðal gagna málsins er einnig ljósrit af umbúðum umræddra hanska. Þar kemur fram að umbúðirnar innihaldi 100 ósótthreinsaða latex hanska. Einnig er þar áletrun um nafn seljanda vörunnar í Hollandi, „CMT“, og að varan sé framleidd í Malasíu, en án þess að getið sé um nafn framleiðandans þar í landi. CE-merkið er tilgreint á umbúðunum, en ekki er getið um númer vottunaraðila eins og áskilið er samkvæmt 1. tölulið 11. gr. reglna nr. 501/1994. Þá kemur þar hvergi fram að varan sé flókin persónuhlíf í flokki 3. Hins vegar bera umbúðirnar áletrunina „Minimal risk only“ og „Class 1“. Af þessu má ráða að upplýsingar á umbúðum hanskanna og framsetning þeirra er ekki í samræmi við títtnefndar reglur nr. 501/1994. Þá liggja fyrir í málinu tölvupóstar frá vottunaraðilanum SATRA, þar sem fram kemur að þegar seljandi sé ekki framleiðandi vörunnar beri að gefa út sérstakan viðauka við vottorð. Hefur stefnandi ekki framvísað slíku vottorði.

Með vísan til ofanritaðs er fallist á það með stefnda að nokkuð skorti á tengsl milli þeirrar vöru sem hér er um fjallað og þeirra vottorða sem liggja fyrir. Verða vottorðin því ekki lögð til grundvallar sem sönnun þess að vörurnar eigi að flokkast undir tollskrárnúmer 4015.1901. Upplýsingar á umbúðum hanskanna þykja á hinn bóginn fremur benda til þess að um sé að ræða einfaldar persónuhlífar í flokki 1, sem falli undir tollskrárnúmer 4015.1909. 

Stefnandi byggir einnig á því að þau viðbótarskilyrði sem sett eru fyrir vottun vara og merkingu umbúða í samræmi við reglur nr. 501/1994 séu svo flókin og ströng að í því felist brot gegn 40. og 77. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944.

Hér að framan hefur verið gerð grein fyrir þeim tollskrárnúmerum og orðalagi þeirra vöruliða sem deila aðila snýst um. Umrædd tollskrárnúmer er að finna í flokki VII í tollskrá, en samkvæmt 1. mgr. 5. gr. tollalaga nr. 88/2005 skal greiða toll af vörum sem fluttar eru inn á tollsvæði ríkisins, eins og mælt er fyrir í tollskrá í viðauka I með þeim lögum. Tollskráin var birt í A-deild Stjórnartíðinda 18. maí 2005, en hefur sætt nokkrum breytingum frá þeim tíma. Ljóst er því að gjöld sem hinir ýmsu tollflokkar bera eru ákveðin með lögum, og því uppfyllt skilyrði um lagastoð fyrir gjaldtöku á grundvelli tollskrár. Þá telur dómurinn að þær reglur sem hér hefur verið fjallað um, og liggja til grundvallar tollflokkun umræddra vara, séu skýrar og afdráttarlausar um hvaða eiginleikum vörurnar þurfi að vera búnar og hvernig háttað skuli merkingum þeirra. Ber því að hafna þeirri málsástæðu stefnanda að tollflokkun varanna brjóti í bága við 40. og 77. gr. stjórnarskrár.

Samkvæmt öllu framanrituðu er það niðurstaða dómsins að rétt hafi verið af stefnda að tollflokka umræddar vörusendingar undir tollskrárnúmerið 4015.1909. Ber því að sýkna stefnda af öllum kröfum stefnanda í máli þessu. Eftir þeim málsúrslitum og með vísan til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, verður stefnandi dæmdur til að greiða stefnda málskostnað. Þykir hann hæfilega ákveðinn 800.000 krónur.

Ingimundur Einarsson dómstjóri kvað upp dóm þennan.

D Ó M S O R Ð:

Stefndi, íslenska ríkið, er sýkn af kröfum stefnanda, Eignarhaldsfélagsins Áfanga ehf.

Stefnandi greiði stefnda 800.000 krónur í málskostnað.