Print

Mál nr. 644/2007

Lykilorð
  • Ítrekun
  • Afturvirkni laga
  • Ökuréttarsvipting
  • Frestur
  • Mannréttindasáttmáli Evrópu

         

Fimmtudaginn 8. maí 2008.

Nr. 644/2007.

Ákæruvaldið

(Kolbrún Sævarsdóttir, saksóknari)

gegn

Hafþóri Höskuldssyni

(Lilja Jónasdóttir hrl.)

 

Ítrekun. Afturvirkni laga. Ökuréttarsvipting. Frestur. Mannréttindasáttmáli Evrópu.

H var sakfelldur fyrir að aka bifreið undir áhrifum ávana- og fíkniefna. Með 18. gr. laga nr. 66/2006 sem tók gildi 23. júní 2006 var ákvæðum 102. gr. umferðarlaga breytt. Kveður 6. mgr. ákvæðisins nú á um að stjórnandi vélknúins ökutækis sem brotið hefur gegn 45. eða 45. gr. a, skuli sviptur ökurétti eigi skemur en tvö ár brjóti hann á ný gegn þessum ákvæðum. Talið var að skilyrði og áhrif ítrekunar samkvæmt ákvæðinu væru skýr og að efni þess hefði verið bæði aðgengilegt og fyrirsjáanlegt. Í ljósi þess að umrætt brot var framið eftir gildistöku framangreindra laga var ekki talið að ákvæðinu hefði verið beitt með afturvirkum hætti og því ekki fallist á að beiting ákvæðisins um brot ákærða færi í bága við 7. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Við ákvörðun refsingar var litið til þess hversu lítið magn mældist af tetrahýdrókannabínóli í blóði H og þótti refsing hans hæfilega ákveðin 100.000 króna sekt. Þar sem H hafði árið 2006 gengist undir sektargerð vegna ölvunaraksturs var hann sviptur ökurétti í 2 ár frá uppkvaðningu dómsins að telja. Til frádráttar kom þriggja mánaða svipting ökuréttar sem H hafði þegar sætt samkvæmt héraðsdómi.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Gunnlaugur Claessen, Hjördís Hákonardóttir, Jón Steinar Gunnlaugsson og Páll Hreinsson.

Ríkissaksóknari skaut máli þessu til Hæstaréttar 24. október 2007 að fengnu áfrýjunarleyfi og krefst þess að refsing ákærða verði þyngd og tími ökuleyfissviptingar hans verði lengdur.

Ákærði krefst þess aðallega að málið verði fellt niður en til vara að héraðsdómur verði staðfestur.

I

Áfrýjunarstefna málsins var gefin út 24. október 2007 að frumkvæði ákæruvalds. Skrifstofa Hæstaréttar veitti ákæruvaldinu frest til 13. febrúar 2008 til að leggja fram greinargerð í málinu en hún barst ekki innan þess tíma. Hinn 14. febrúar 2008 krafðist skipaður verjandi ákærða að litið yrði svo á að málið væri niður fallið fyrir Hæstarétti á grundvelli 1. mgr. 157 gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 163. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Sama dag óskaði ákæruvaldið eftir framlengingu frestsins til miðvikudagsins 20. febrúar 2008 til að skila greinargerð í málinu. Hinn 15. febrúar 2008 varð skrifstofa Hæstaréttar við ósk ákæruvaldsins um framlengingu á fresti til að leggja fram greinargerð og hafnaði fyrrnefndri ósk ákærða.

          Aðalkrafa ákærða, um að málið verði fellt niður, er reist á því að ekki hafi verið lagaskilyrði til þess að leyfa ákæruvaldinu að leggja fram greinargerð eftir að frestur til þess var liðinn heldur hafi borið að fella málið niður á grundvelli 157. gr. laga nr. 91/1991, sbr. 163. gr. laga nr. 19/1991.

          Með ákæru er markaður grundvöllur opinbers máls um þá háttsemi ákærða og kröfur ákæruvalds á hendur honum sem dæmt skal um, sbr. 1. mgr. 117. gr. laga nr. 19/1991. Ákæruvaldið getur síðar dregið úr og fallið frá kröfum sínum við málskot í áfrýjunarstefnu og greinargerð. Að öðru leyti gildir málsforræðisreglan almennt ekki um meðferð opinberra mála, sbr. 2. mgr. 117. gr. sömu laga. Sá munur, sem af þessu leiðir á meðferð einkamála og opinberra mála, kemur meðal annars fram í ólíkum reglum um áhrif útivistar málshefjanda. Mæti stefnandi eða áfrýjandi í einkamáli ekki til þinghalds leiðir af 1. mgr. 105. gr. og 2. mgr. 157. gr. laga nr. 91/1991 að málið fellur niður. Öðru máli gegnir um opinber mál þar sem dómara í héraði ber að ákveða nýtt þinghald þegar svo stendur á, sbr. 1. mgr. 123. gr. laga nr. 19/1991. Þegar litið er til réttaráhrifa útivistar í opinberum málum verður ekki talið að það leiði til niðurfellingar máls að hætti einkamála skili ákæruvaldið ekki greinargerð til Hæstaréttar innan tilsettra tímamarka í opinberu máli, heldur beri þá að ákveða að nýju frest fyrir ákæruvaldið til að skila greinargerð á grundvelli 1. mgr. 155. gr. laga 19/1991. Hins vegar gæti ítrekuð eða óréttlætt vanræksla ákæruvaldsins á að skila greinargerð í verki verið metin sem afturköllun á ákæru í skilningi b. liðar 132. gr. laga nr. 19/1991 þannig að lýsa bæri málið niður fallið.

          Þar sem greinargerð ákæruvaldsins barst innan þeirra tímamarka sem því voru að endingu sett verður málið tekið til efnismeðferðar.

II

Varakrafa ákærða, um að héraðsdómur verði staðfestur, er reist á því að sektargerð, sem hann gekkst undir 26. júní 2002 vegna ölvunaraksturs, geti ekki haft ítrekunaráhrif í máli þessu þar sem ekki hafi þá verið að finna í lögum nein ákvæði um að sátt vegna ölvunarakstur hefði ítrekunaráhrif gagnvart akstri undir áhrifum fíkniefna.

          Ákvæðum umferðarlaga var breytt með lögum nr. 66/2006. Með 5. gr. þeirra laga var bætt við nýrri 45. gr. a við umferðarlögin þar sem mælt var svo fyrir að enginn mætti stjórna eða reyna að stjórna vélknúnu ökutæki væri hann undir áhrifum ávana- og fíkniefna sem bönnuð væru á íslensku yfirráðasvæði samkvæmt lögum um ávana- og fíkniefni og reglugerðum settum samkvæmt þeim. Með 18. gr. laga nr. 66/2006 var ákvæðum 102. gr. umferðarlaga breytt og meðal annars tekið upp nýtt ákvæði um ítrekun í 6. mgr. greinarinnar. Þar segir að hafi stjórnandi vélknúins ökutækis áður brotið gegn 45. gr. eða 45. gr. a og hann gerist sekur um eitthvert þessara brota, skuli svipting ökuréttar eigi vara skemur en tvö ár. Framangreindar breytingar á umferðarlögum tóku gildi 23. júní 2006.

Svipting ökuréttar til að stjórna vélknúnu ökutæki sem ökuskírteini þarf til samkvæmt 101. gr. og 102. gr. umferðarlaga telst til refsikenndra viðurlaga en ekki refsinga í skilningi V. kafla almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Með setningu 18. gr. laga nr. 66/2006, þar sem ákvæðum 6. mgr. 102. gr. umferðarlaga var breytt, herti löggjafinn viðurlög við brotum á 45. gr. og 45. gr. a umferðarlaga. Þar var sett sú fortakslausa regla að stjórnandi vélknúins ökutækis, sem brotið hefði gegn 45. eða 45. gr. a, skyldi sviptur ökurétti eigi skemur en tvö ár bryti hann á ný af sér gegn þessum ákvæðum. Ekki eru settar sérstakar skorður í stjórnarskrá við því að löggjafinn þyngi refsikennd viðurlög með því að ljá ítrekun aukið vægi, en í 3. gr. almennra hegningarlaga er gert ráð fyrir slíkum breytingum á ítrekunar­heimildum.

Þar sem lög nr. 66/2006, sem breyttu ákvæðum 102. gr. umferðarlaga, voru birt 23. júní 2006, voru þau í gildi þegar ákærði ók undir áhrifum bannaðra ávana- og fíkniefna 22. apríl 2007. Telja verður að skilyrði og áhrif ítrekunar samkvæmt 6. mgr. 102. gr. umferðarlaga séu skýr og að efni ákvæðisins hafi verið bæði aðgengilegt og fyrirsjáanlegt þannig að varnaraðili hafi átt að geta séð fyrir hverjar afleiðingar fyrrnefnt umferðarlagabrot hans hefði að lögum. Í ljósi þess að ákvæðum 102. gr. umferðarlaga, sbr. 18. gr. laga nr. 66/2006, var beitt um brot sem framið var eftir gildistöku þess verður ekki talið að því hafi verið beitt með afturvirkum hætti.

Af framansögðu athuguðu verður ekki fallist á að beiting ákvæðisins um brot ákærða fari í bága við 7. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994.

III

Með vísan til forsendna héraðsdóms er staðfest niðurstaða hans um sakfellingu og heimfærslu brots til refsiákvæðis. Þegar litið er til þess hversu lítið magn mældist af tetrahýdrókannabínóli í blóði ákærða þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin 100.000 króna sekt sem greiðist í ríkissjóð.

Eins og áður segir gekkst ákærði undir sektargerð 26. júní 2002 vegna brots gegn 1. mgr., sbr. 2. mgr. 45. gr., sbr. 100. gr. umferðarlaga, með greiðslu 75.000 króna sektar til ríkissjóðs og sviptingu ökuréttar í 8 mánuði fyrir ölvun við akstur en áfengismagn mældist 1.07‰ í blóði hans. Þar sem ákærði er nú sakfelldur fyrir brot gegn 45. gr. a hefur eldra brot hans gegn 45. gr. umferðarlaga ítrekunaráhrif samkvæmt 6. mgr. 102. gr. umferðarlaga, sbr. 71. gr. almennra hegningarlaga. Verður ákærði því sviptur ökurétti í 2 ár frá uppkvaðningu dóms þessa. Til frádráttar kemur þriggja mánaða svipting sem ákærði hefur þegar sætt samkvæmt héraðsdómi.

Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað verður staðfest.

Með þessari dómsniðurstöðu er leiðrétt viðurlagaákvörðun hins áfrýjaða dóms í samræmi við 6. mgr. 102. gr. umferðarlaga og er því rétt að áfrýjunarkostnaður málsins greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða fyrir Hæstarétti, sem ákveðin verða að meðtöldum virðisaukaskatti eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Ákærði, Hafþór Höskuldsson, greiði 100.000 króna sekt til ríkissjóðs og komi átta daga fangelsi í stað sektarinnar verði hún ekki greidd innan fjögurra vikna frá uppkvaðningu dómsins.

Ákærði er sviptur ökurétti í tvö ár frá uppkvaðningu dóms þessa að telja. Til frádráttar kemur þriggja mánaða svipting ökuréttar sem ákærði hefur þegar sætt.

Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað skal vera óraskað.

Allur áfrýjunarkostnaður málsins greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða fyrir Hæstarétti, Lilju Jónasdóttur hæstaréttarlögmanns, 249.000 krónur. 

 

Dómur Héraðsdóms Vesturlands 11. september 2007.

 

Mál þetta höfðaði sýslumaðurinn á Akranesi með ákæru 18. júlí 2007 á hendur ákærða, Hafþór Höskuldssyni, kt. 230284-3269, Stillholti 17 á Akranesi. Málið var dómtekið 29. ágúst sama ár.

             Í ákæruskjali segir að málið sé höfðað gegn ákærða fyrir umferðarlagabrot á Akranesi, en ákærða er gefið að sök „að hafa, sunnudaginn 22. apríl 2007 um kl. 18:01, ekið bifreiðinni ZX-626, undir áhrifum bannaðra ávana- og fíkniefna, austur Garðagrund uns lögreglan stöðvaði aksturinn á Garðagrund á móts við afleggjara að Steinstöðum.

             Í blóðsýni sem tekið var úr ákærða í framhaldi af handtöku mældist 0,6 ng/ml af tetrahýdrókannabínól sem er virkt efni í kannabis. Tetrahýdrókannabínól og kannabis eru í flokki ávana- og fíkniefna sem bönnuð eru á íslensku forráðasvæði samkvæmt lögum um ávana- og fíkniefni og reglugerðum settum samkvæmt þeim.

Brot ákærða þykir varða við 1. mgr. sbr. 2. mgr. 45. gr. a. sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 sbr. 186. gr. laga nr. 82/1998 og 5. gr. laga nr. 66/2006.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til sviptingar ökuréttar samkvæmt 101. gr. og 102. gr. nefndra umferðarlaga sbr. 25. gr. laga nr. 44/1993 og 18. gr. laga nr. 66/2006.“

Í matsgerð Rannsóknarstofu í lyfja- og eiturefnafræði kemur fram að tetrahýdrókannabínól í blóði ákærða hafi verið 0,6 ng/ml. Fram kemur að tetrahýdrókannabínól sé hið virka efni í kannabis. Það sé í flokki ávana- og fíkniefna sem óheimil séu á íslensku forráðasvæði. Ökumaður teljist því hafa verið óhæfur til þess að stjórna ökutæki örugglega þegar blóðsýni hafi verið tekið, sbr. 45. gr. a. umferðarlaga.

Ákærði hefur fyrir dómi skýlaust játað að hafa framið það brot sem honum er gefið að sök í ákæru og er játning hans studd sakargögnum. Eru því efni til að leggja dóm á málið samkvæmt 125. gr. laga um meðferð opinberra mála nr. 19/1991. Samkvæmt þessu verður ákærði sakfelldur fyrir brotið, sem réttilega er fært til refsiákvæða í ákæru.

Samkvæmt sakavottorði ákærða hefur hann tvívegis gengist undir viðurlög með lögreglustjórasátt fyrir umferðarlagabrot.

Refsing ákærða þykir að broti hans virtu hæfilega ákveðin 70.000 króna sekt til ríkissjóðs og komi sex daga fangelsi í stað sektarinnar verði hún eigi greidd innan fjögurra vikna frá birtingu dómsins.

Þá þykir rétt, svo sem krafist er í ákæru og með vísan til 101. gr. og 102. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, að svipta ákærða ökurétti í þrjá mánuði frá birtingu dóms þessa að telja.

Samkvæmt 1. mgr. 165. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála skal dæma ákærða til greiðslu alls sakarkostnaðar. Með vísan til yfirlits lögreglu um sakarkostnað dæmist ákærði til að greiða 15.000 krónur vegna töku blóðsýnis og 63.096 krónur vegna öflunar matsgerðar, eða samtals 78.096 krónur.

Benedikt Bogason, héraðsdómari, kveður upp dóm þennan.

 

DÓMSORÐ:

Ákærði, Hafþór Höskuldsson, greiði 70.000 króna sekt til ríkissjóðs og komi sex daga fangelsi í stað sektarinnar verði hún ekki greidd innan fjögurra vikna frá birtingu dómsins.

Ákærði er svipur ökurétti í þrjá mánuði frá birtingu dóms þessa að telja.

Ákærði greiði 78.096 krónur í sakarkostnað.