Print

Mál nr. 340/1999

Lykilorð
  • Lífeyrissjóður
  • Örorka
  • Stjórnarskrá
  • Eignarréttur
  • Gjafsókn

Fimmtudaginn 23

 

Fimmtudaginn 23. mars 2000.

Nr. 340/1999.

Lífeyrissjóður sjómanna

(Sigurður G. Guðjónsson hrl.)

gegn

Herði Magnússyni

(Garðar Briem hrl.)

og gagnsök

 

Lífeyrissjóður. Örorka. Stjórnarskrá. Eignarréttur. Gjafsókn.

Sjómaðurinn H fékk heilablóðfall í nóvember 1994, en þá höfðu tekið gildi lög nr. 94/1994 um Lífeyrissjóð sjómanna, sem afnámu lög nr. 49/1974 um sama efni, og ný reglugerð um Lífeyrissjóð sjómanna, þar sem greiðslur voru skertar frá því sem áður hafði verið. H taldi að óheimilt hefði verið að skerða réttindi sín með reglugerðinni og krafði lífeyrissjóðinn um greiðslur samkvæmt lögum nr. 49/1974. Talið var, að ekki yrði komist hjá því að líta til þess að lífeyrisréttindi H hefðu ekki verið orðin virk þegar þau voru skert með heimild í lögum nr. 94/1994, en heimild löggjafans væri mun þrengri til að skerða virk lífeyrisréttindi en þau, sem einungis væru væntanleg þegar skerðingin öðlaðist gildi. Ekki lægi annað fyrir en skerðing allra óvirkra lífeyrisréttinda sjóðfélaga, svo sem hún birtist í reglugerðinni, hefði verið reist á almennum grundvelli og jafnræðis milli sjóðfélaga hefði nægjanlega verið gætt. Þótti skerðingin hafa verið heimil án þess að bætur kæmu fyrir. Var lífeyrissjóðurinn sýknaður af kröfum H.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Gunnlaugur Claessen og Markús Sigurbjörnsson.

Aðaláfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 26. ágúst 1999. Hann krefst sýknu af kröfum gagnáfrýjanda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Gagnáfrýjandi áfrýjaði héraðsdómi 16. nóvember 1999. Hann krefst þess að niðurstaða héraðsdóms verði staðfest að öðru leyti en því að viðurkenndur verði réttur sinn til óskerts örorkulífeyris hjá aðaláfrýjanda eftir 1. júlí 1999 í samræmi við ákvæði laga nr. 49/1974 um Lífeyrissjóð sjómanna með síðari breytingum. Hann krefst einnig málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti án tillits til gjafsóknar, sem honum hefur verið veitt á báðum dómstigum.

I.

Í máli þessu krefst gagnáfrýjandi örorkulífeyris úr hendi aðaláfrýjanda á grundvelli laga nr. 49/1974 með síðari breytingum. Vísar hann um það einkum til 13. gr. laganna, sem hafi haft að geyma þær reglur um rétt til örorkulífeyris, sem krafan sé reist á. Þessi lög voru leyst af hólmi með lögum nr. 94/1994 um Lífeyrissjóð sjómanna, en í 6. gr. þeirra laga sagði að þau tækju gildi 1. september það ár og eldri lögin féllu þá jafnframt úr gildi, „enda hafi reglugerð um sjóðinn, sbr. 5. gr. laga þessara, verið staðfest með gildistöku frá sama tíma.“ Yngri lögin voru ólík hinum eldri meðal annars að því leyti að í hinum fyrrnefndu var ekki kveðið nánar á um rétt til lífeyris, heldur vísað að mestu um það til reglugerðar, sem stjórn sjóðsins skyldi semja og staðfest yrði af sex nafngreindum samtökum launafólks og vinnuveitenda auk fjármálaráðherra. Meðal málskjala er reglugerð um Lífeyrissjóð sjómanna, en í 1. mgr. 20. gr. segir að hún taki gildi 1. september 1994 og að fram til þess dags gildi lög nr. 49/1974 með síðari breytingum. Er óumdeilt í málinu að reglugerðin hafi verið staðfest af þar til bærum samtökum og fjármálaráherra fyrir þann dag. Lög nr. 94/1994 voru síðan felld niður með lögum nr. 45/1999 um Lífeyrissjóð sjómanna, sem tóku gildi 1. júlí það ár. Er þar aftur horfið til þess að hafa ítarlegar efnisreglur í lögum um sjóðinn.

Gagnáfrýjandi fékk heilablóðfall í nóvember 1994, er leiddi til mikillar örorku hans. Telur hann aðaláfrýjanda skylt að greiða sér örorkulífeyri til samræmis við reglur, sem giltu mestallan þann tíma, er hann ávann sér réttindi í sjóðnum með greiðslu iðgjalda til hans. Aðaláfrýjandi telur hins vegar að heimilt hafi verið að skerða lífeyri frá því, sem orðið hefði eftir ákvæðum laga nr. 49/1974, svo sem gert hafi verið með áðurnefndri reglugerð. Eru málsástæður aðila nánar raktar í hinum áfrýjaða dómi.

II.

Svo sem áður er getið varð gagnáfrýjandi fyrir heilsubresti í nóvember 1994. Fékk hann eftir það laun frá vinnuveitanda sínum í nokkra mánuði, en hóf töku lífeyris hjá aðaláfrýjanda í mars 1995. Við upphaf veikinda gagnáfrýjanda höfðu lög nr. 49/1974, sem hann reisir kröfur sínar á, verið felld úr gildi. Hafði gagnáfrýjandi samkvæmt því hvorki hafið töku lífeyris né átt rétt til að hefja töku lífeyris við gildistöku nýju reglnanna 1. september 1994.

Við úrlausn málsins verður ekki komist hjá að líta til þess að lífeyrisréttindi gagnáfrýjanda voru ekki orðin virk þegar þau voru skert með heimild í lögum nr. 94/1994. Að því leyti er aðstaða gagnáfrýjanda önnur en þeirra sjóðfélaga í aðaláfrýjanda, sem áður hafa lagt ágreining sinn við hann undir dómstóla vegna skerðingar á lífeyri þeirra, sbr. dóma Hæstaréttar í dómasafni 1998, bls. 2140, og 9. desember 1999 í máli nr. 195/1999. Skiptir þá máli að heimild löggjafans er mun þrengri til að skerða virk lífeyrisréttindi en þau, sem einungis eru væntanleg þegar skerðingin öðlast gildi. Þá verður heldur ekki horft framhjá því að fjárhagur aðaláfrýjanda var afar bágborinn, er lögum um hann var breytt 1994 og að greiðsluþrot hans var óumflýjanlegt að öllu óbreyttu. Var stjórn sjóðsins skylt að gera ráðstafanir til að rétta fjárhag hans af. Liggur ekki annað fyrir en að skerðing allra óvirkra lífeyrisréttinda sjóðfélaga, svo sem hún birtist í áðurnefndri reglugerð er tók gildi 1. september 1994, hafi verið reist á almennum grundvelli og að jafnræðis milli sjóðfélaga hafi nægjanlega verið gætt. Þá voru hinar nýju reglur samþykktar af samtökum sjómanna og vinnuveitenda þeirra. Að virtu öllu því, sem að framan er rakið, verður fallist á með aðaláfrýjanda að skerðing lífeyrisréttinda gagnáfrýjanda hafi verið innan þeirra marka, sem 67. gr. stjórnarskrárinnar, nú 72. gr. hennar, setur því að unnt sé að skerða eignarréttindi manna án þess að bætur komi fyrir. Verður aðaláfrýjandi samkvæmt því sýknaður af greiðslukröfu gagnáfrýjanda, enda haggar það ekki gildi reglugerðarinnar í skiptum aðaláfrýjanda við sjóðfélaga sína að hún var ekki birt í B-deild Stjórnartíðinda.

Með lögum nr. 45/1999 voru settar nýjar reglur um lífeyrisrétt sjóðfélaga aðaláfrýjanda. Fer um lífeyrisrétt gagnáfrýjanda samkvæmt þeim eftir 1. júlí 1999, en engum haldbærum rökum hefur verið skotið undir þá kröfu að réttur hans skuli ráðast frá þeim tíma af lögum nr. 49/1974. Verður aðaláfrýjandi því einnig sýknaður af þeirri kröfu.

Rétt þykir að hvor aðili beri sinn kostnað af málinu í héraði og fyrir Hæstarétti. Ákvæði héraðsdóms um gjafsóknarkostnað gagnáfrýjanda verður staðfest, en um gjafsóknarkostnað hans fyrir Hæstarétti fer svo sem nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Aðaláfrýjandi, Lífeyrissjóður sjómanna, er sýkn af kröfum gagnáfrýjanda, Harðar Magnússonar.

Málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti fellur niður.

Ákvæði héraðsdóms um gjafsóknarkostnað gagnáfrýjanda skal vera óraskað.

Gjafsóknarkostnaður gagnáfrýjanda fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns hans, 300.000 krónur.

 

 

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 30. júní 1999.

I.

Mál þetta, sem dómtekið var hinn 24. júní sl., að loknum munnlegum málflutningi, er höfðað fyrir dómþinginu af Herði Magnússyni, kt. 231159-4369, Birkihlíð 6, Hafnarfirði, á hendur Lífeyrissjóði sjómanna, kt. 460673-0119, Þverholti 14, Reykjavík, með stefnu þingfestri 5. nóvember 1998.

Dómkröfur stefnanda eru þær, að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda 2.090.293 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 með síðari breytingum af 45.961 krónu frá 1. mars 1995 til 3. apríl 1995, en af 91.841 krónu frá þeim degi til 2. maí 1995, en af 137.667 krónum frá þeim degi til 1. júní 1995, en af 183.574 krónum frá þeim degi til 3. júlí 1995, en af 229.535 krónum frá þeim degi til 1. ágúst 1995, en af 275.631 krónu frá þeim degi til 1. september 1995, en af 321.917 krónum frá þeim degi til 2. október 1995, en af 368.364 krónum frá þeim degi til 1. nóvember 1995, en af 415.014 krónum frá þeim degi til 1. desember 1995, en af 461.515 krónum frá þeim degi til 2. janúar 1996, en af 507.990 krónum frá þeim degi til 1. febrúar 1996, en af 554.640 krónum frá þeim degi til 1. mars 1996, en af 601.371 krónu frá þeim degi til 1. apríl 1996, en af 648.183 krónum frá þeim degi til 2. maí 1996, en af 695.076 krónum frá þeim degi til 3. júní 1996, en af 742.267 krónum frá þeim degi til 1. júlí 1996, en af 789.404 krónum frá þeim degi til 1. ágúst 1996, en af 836.595 krónum frá þeim degi til 2. september 1996, en af 884.083 krónum frá þeim degi til 1. október 1996, en af 931.679 krónum frá þeim degi til 1. nóvember 1996, en af 979.288 krónum frá þeim degi til 2. desember 1996, en af 1.026.924 krónum frá þeim degi til 3. janúar 1997, en af 1.074.358 krónum frá þeim degi til 3. febrúar 1997, en af 1.121.953 krónum frá þeim degi til 3. mars 1997, en af 1.169.576 krónum frá þeim degi til 1. apríl 1997, en af 1.217.171 krónu frá þeim degi til 2. maí 1997, en af 1.265.113 krónum frá þeim degi til 2. júní 1997, en af 1.312.975 krónum frá þeim degi til 1. júlí 1997, en af 1.360.944 krónum frá þeim degi til 1. ágúst 1997, en af 1.408.992 krónum frá þeim degi til 1. september 1997, en af 1.457.174 krónum frá þeim degi til 1. október 1997, en af 1.505.543 krónum frá þeim degi til 3. nóvember 1997, en af 1.554.072 krónum frá þeim degi til 1. desember 1997, en af 1.602.548 krónum frá þeim degi til 5. janúar 1998, en af 1.650.944 krónum frá þeim degi til 2. febrúar 1998, en af 1.699.606 krónum frá þeim degi til 2. mars 1998, en af 1.748.162 krónum frá þeim degi til 1. apríl 1998, en af 1.796.905 krónum frá þeim degi til 4. maí 1998, en af 1.845.755 krónum frá þeim degi til 1. júní 1998, en af 1.894.757 krónum frá þeim degi til 1. júlí 1998, en af 1.943.846 krónum frá þeim degi til 4. ágúst 1998, en af 1.992.829 krónum frá þeim degi til 1. september 1998, en af 2.041.534 krónum frá þeim degi til 1. október 1998, en af 2.090.293 krónum frá þeim degi til greiðsludags.  Stefnandi krefst þess að áfallnir dráttarvextir leggist við höfuðstól skuldarinnar á 12 mánaða fresti í samræmi við 12. gr. vaxtalaga nr. 25/1987.

Stefnandi krefst þess enn fremur að viðurkenndur verði áframhaldandi réttur hans til óskerts örorkulífeyris, sem hann hafi öðlast samkvæmt ákvæðum laga nr. 49/1974, eftir 1. október 1998.

Þá krefst stefnandi málskostnaðar að skaðlausu úr hendi stefnda, samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi, auk virðisaukaskatts, þar sem stefnandi sé ekki virðisaukaskattskyldur.

Dómkröfur stefnda eru þær, að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda og að stefnandi verði dæmdur til að greiða honum málskostnað að mati dómsins auk lögmælts virðisaukaskatts, eins og málið væri eigi gjafsóknarmál..

Mál þetta var dómtekið hinn 27. apríl sl. að loknum munnlegum málflutningi, en var endurupptekið og flutt að nýju hinn 25. júní sl., í samræmi við 115. gr. laga nr. 91/1991.  Málið var dómtekið þann dag.

Með bréfi dóms- og kirkjumálaráðuneytisins dagsettu 21. apríl 1999 var stefnanda veitt gjafsókn í máli þessu.

II.

Stefnandi hóf sjómennsku á árinu 1978 og hóf á sama tíma að greiða iðgjald til stefnda.  Stefnandi starfaði óslitið á sjó allt til þess er hann fékk heilablæðingu um borð í togaranum Húnanöst í nóvember 1994.  Afleiðingar þeirrar heilablæðingar voru m.a. lömun í vinstri líkamshelmingi.  Stefnandi hefur verið úrskurðaður 75% öryrki vegna þessa.  Kveðst stefnandi hafa verið algjörlega óvinnufær frá því að hann fékk heilablæðinguna. 

Fyrstu mánuði fékk stefnandi greidd veikindalaun frá útgerð togarans Húnarastar, en frá og með marsmánuði 1995 hefur hann fengið greiddan örorkulífeyri frá stefnda.

Hinn 24. maí 1994 voru sett ný lög um Lífeyrissjóð sjómanna nr. 94/1994.  Í lögunum er ekki sérstaklega fjallað um lífeyrisréttindi sjóðsfélaga heldur er kveðið svo á í 5. gr. laganna, að nánari ákvæði um skipulag sjóðsins og starfsemi hans skuli setja í reglugerð, sem stjórn félagsins semji og staðfest sé af Alþýðusambandi Íslands, Farmanna- og fiskimannasambandi Íslands, Félagi íslenskra botnvörpuskipaeigenda, Landssambandi íslenskra útvegsmanna, Sjómannasambandi Íslands, Vinnuveitenda-samband Íslands og fjármálaráðherra.  Á grundvelli hinna nýju laga var sett reglugerð um starfsemi sjóðsins og tók hún gildi 1. september 1994.

Stefnandi fór fram á það við stefnda, með bréfi dagsettu 1. júlí 1998, að reiknaðar yrðu út örorkulífeyrisgreiðslur stefnanda miðað við þær forsendur sem gefnar séu í 13. gr. laga nr. 49/1974, allt frá því er hann hóf töku lífeyris.  Giltu fyrrgreind lög meðan stefnandi ávann sér lífeyrisréttindi sín hjá stefnda, að undanskildum tveimur síðustu mánuðunum, er núgildandi reglugerð hafði tekið gildi.

Stefndi hafnaði þeirri beiðni með bréfi dagsettu 3. september sl.  Í bréfi þessu er viðurkennt af hálfu stefnda, að réttur sjóðsfélaga til örorkulífeyris hafi verið skertur, frá því sem verið hafi í eldri lögum, með núgildandi reglugerð, enda hafi það m.a. verið tilgangur með nýjum reglum sjóðsins um lífeyrisréttindi, að draga úr útgjöldum sjóðsins.

Stefnandi ítrekaði beiðni sína um útreikning miðað við lög nr. 49/1974 í bréfi dagsettu 9. september 1998.  Stefndi ítrekði neitun sína í bréfi dagsettu 17. september sl.

Stefnandi fór þá fram á það við tryggingafræðing, að hann reiknaði út hversu miklu hærri örorkulífeyrir stefnanda væri ef stefndi hefði greitt honum á grundvelli laga nr. 49/1974.  Niðurstaða þess útreiknings var sú að lífeyrir stefnanda hefði orðið 30,29% hærri.

III.

Stefnandi byggir kröfur sínar á því, að með lögum nr. 49/1974, um Lífeyrissjóð sjómanna, svo og lögum nr. 48/1981 og lögum nr. 78/1985, um breytingu á lögum nr. 49/1974, hafi m.a. verið stofnað til réttinda til handa sjómönnum til töku örorkulífeyris.  Réttindi til örorkulífeyris hafi verið veitt án fyrirvara.  Telur stefnandi að réttindin, sem hann hafi áunnið sér með fjárframlögum til stefnda í tíð laga nr. 49/1994, séu lögbundin.  Stefnandi telur ótvírætt að lífeyrisréttindi þessi njóti verndar 72. gr. stjórnarskrárinnar og séu eign sem ekki megi skerða, enda hafi Hæstiréttur staðfest það með dómi sínum í málinu nr. 368/1997, að slík réttindi verði ekki af tekin nema með skýlausri lagaheimild.  Í ljósi tilvísaðs stjórnarskrárákvæðis hljóti sviptingarþoli, sem stefnandi kallar sig, að eiga rétt á fullum skaðabótum.

Auðsýnt sé að skýlaus lagaheimild til sviptingar þessara réttinda hafi ekki falist í lögum nr. 94/1994, sem ekki hafi að geyma efnisleg ákvæði um lífeyrisréttindi sjóðsfélaga.  Sú verulega skerðing, sem framkvæmd hafi verið með reglugerðarákvæði, og staðreynd sé með útreikningi tryggingafræðings að stefnandi hafi orðið fyrir, sé því ólögmæt á grundvelli þeirrar reglugerðar sem stefndi hafi sett á árinu 1994 og tekið hafi gildi 1. september 1994.  Til þess að svipta menn réttindum, sem fengin séu með lögum, þurfi lagaboð og reglugerðarsetning algjörlega ófullnægjandi.

Ein af meginreglum íslensks réttar um afturvirkni laga, þegar breytt sé reglum varðandi atvinnuréttindi og lífeyrisréttindi, sé að yngri lög haggi ekki við þeim réttindum sem menn hafi þegar áunnið sér.  Ýmsar breytingar, sem gerðar hafi verið á lögum um lífeyrisréttindi staðfesti þá meginreglu, að virða beri áunnin lífeyrisréttindi.  Þá telur stefnandi það vera rótgróna lögskýringarreglu hér á landi að lögum verði ekki beitt með afturvirkum hætti nema þau mæli sjálf svo fyrir, enda sé um ákvæði að ræða sem sé þegnunum óhagstæð.  Hafi stefndi ætlað að skerða réttindi stefnanda hefði þurft að gera það með breytingu á lögum.  Um slíkt hafi ekki verið að ræða í þessu tilviki.

Núgildandi reglugerð um Lífeyrissjóð sjómanna feli í sér að þeir sjóðsfélagar, sem þegar hafi áunnið sér réttindi hjá stefnda, skuli halda þeim rétti þrátt fyrir að lögum sjóðsins hafi verið breytt.  Í 20. gr. reglugerðarinnar segi svo í grein 20.2: að sjóðsfélagar sem njóti lífeyris samkvæmt eldri lögum um Lífeyrissjóð sjómanna eða réttur til lífeyris frá sjóðnum hefur stofnast fyrir gildistöku reglugerðarinnar skuli halda þeim rétti.  Þetta skýra orðalag reglugerðarinnar feli í sér, að þau réttindi sem sjóðsfélagar hafi áunnið sér í tíð laga nr. 49/1979 skuli haldast.  Markmið reglugerðarinnar hafi ekki verið að breyta þeim réttindum sem áunnist hefðu, heldur hafi reglugerðin eingöngu áhrif til skerðingar að því er varði framtíðina.  Þetta komi og fram í lið 20.1 í 20 gr. reglugerðarinnar, en þar segi að fram til 1. september 1994 gildi lög nr. 49/1974, með síðari breytingum.

Stefnandi byggir á því að menn eigi að geta treyst því þegar þeir inni af hendi fjárframlög í lífeyrissjóð eins og stefnda, að þær forsendur og lög sem í gildi séu á þeim tíma, standist þegar til greiðslu komi úr sjóðnum.  Stefnandi hafi ekki verið í aðstöðu til að lækka iðgjöldin einhliða.  Samningssamband hafi verið milli aðila máls þessa og þegar til útborgunar komi úr sjóðnum hljóti að gilda þau lög, sem í gildi hafi verið þegar iðgjöld voru innt af hendi.

Í 13. grein laga nr. 49/1979 séu talin upp skilyrði sem fullnægja þurfi til þess að menn eigi rétt á örorkulífeyri.  Þar segi, að sjóðsfélagi sem greitt hafi iðgjöld til sjóðsins undanfarin þrjú almanaksár og a.m.k. sex mánuði á undanförnum tólf mánuðum, eigi rétt á örorkulífeyri ef hann verði fyrir orkutapi, sem tryggingayfirlæknir meti 35% eða meira.  Stefnandi hafi fullnægt þessum skilyrðum er hann veiktist í nóvember 1994 og þar með hafi hann áunnið sér rétt til örorkulífeyris á grundvelli framangreindra laga.

Stefnandi byggir á því, að með því að greiða í lífeyrissjóð séu menn að kaupa sér ákveðin réttindi, sem verði til staðar ef ákveðnar aðstæður skapist.  Miða beri við þau lög, sem í gildi hafi verið þegar iðgjöldin séu innt af hendi.  Stefndi hafi móttekið iðgjöld stefnanda.  Stefndi hafi því ekki rétt til að breyta reglum einhliða og með afturvirkum hætti.  Ekki sé eðlilegt að annar aðili viðskiptasambands geti einhliða takmarkað skyldu sína án þess að hinn aðilinn geti nokkuð haft um það að segja.  Stefnandi telur, að horfa verði á lífeyrisréttindi í tryggingalegu og viðskiptalegu samhengi.  Þó að menn séu skyldugir til að greiða í lífeyrissjóði verði um réttindi og skyldur að fara eftir því sem næst venjulegum reglum sem gilda um réttindi og skyldur í viðskiptum og því ekki hægt síðar að setja reglugerð þar sem skert séu réttindi með svo afdrifaríkum hætti.  Slíkt stríði gegn grundvallarreglu um afturvirkni laga.  Einungis sé hægt að skerða réttindin til framtíðar.

Upphafsdagur töku lífeyrisréttinda geti ekki verið viðmiðunarmark við mat á því við hvaða lög eða reglugerð eigi að miða lífeyrisgreiðslurnar.  Það sem skipti máli sé hvaða  skilmálar og hvaða lög hafi gilt á því tímamarki, sem greiðsla iðgjalda fór fram.  Með greiðslu iðgjalda ávinni menn sér réttindi í sjóðnum, uppfylli menn skilyrði sjóðsins að öðru leyti.

Stefnandi kveðst hafa áunnið sér réttindi á grundvelli laga nr. 49/1974, um Lífeyrissjóð sjómanna, að undanskildum tveimur síðustu starfsmánuðunum og eftir þeim lögum og þeim grundvallarforsendum, sem lögfestar hafi verið með lögum nr. 49/1974, og beri stefnda að greiða stefnanda lífeyri samkvæmt því.  Sú skerðing á réttindum sem stefnandi hafi orðið fyrir sé því ólögmæt og beri stefndi bótaábyrgð gagnvart stefnanda í samræmi við stefnukröfur málsins.

Um lagarök vísar stefnandi til laga nr. 49/1974, um Lífeyrissjóð sjómanna, laga nr. 94/1994 og 72. gr. stjórnarskrárinnar. 

Um varnarþing vísar stefnandi til 32. gr. laga um meðferð einkamála.

Kröfu um málskostnað byggir stefnandi á 130. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.

Kröfu um vexti og vaxtavexti byggir stefnandi á III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 með síðari breytingum.

IV.

Í greinargerð gerir stefndi eftirfarandi grein fyrir tilurð, uppbyggingu, eðli og breytingum á reglum um örorkulífeyri Lífeyrissjóðs sjómanna.

Stefnandi kveður grunn að Lífeyrissjóði sjómanna hafa verið lagðan með lögum nr. 49/1958, um Lífeyrissjóð togarasjómanna.  Á þeim lögum hafi verið gerðar ýmsar breytingar svo sem með lögum nr. 78/1962, er heiti sjóðsins hafi verið breytt í Lífeyrissjóð togarasjómanna og undirmanna á farskipum.  Núverandi heiti hafi sjóðurinn hlotið með lögum nr. 78/1970, en þeim lögum hafi verið breytt með lögum nr. 49/1974, lögum nr. 48/1981, nr. 78/1985 og nr. 44/1992, sem felld hafi verið úr gildi með lögum nr. 94/1994.  Síðastgreindu lögin gildi nú um sjóðinn ásamt reglugerð staðfestri af fjármálaráðherra frá 1. september 1994.  Ný lög um sjóðinn hafi tekið gildi í mars 1999.

Með lögum nr. 49/1958, um Lífeyrissjóð togarasjómanna, hafi verið komið á lögbundnum lífeyrissjóði fyrir togarasjómenn.  Á þeim tíma hafi verið fyrir í landinu lögboðnir lífeyrissjóðir ríkisstarfsmanna, en starfsmenn á almennum vinnumarkaði hafi samið í kjarasamningum við atvinnurekendur um stofnun lífeyrissjóða.  Ríkisvaldið hafi þó ekki tekist á hendur almenna ábyrgð á greiðslu lífeyris til sjóðsfélaga, heldur hafi hann verið byggður upp með iðgjöldum sjóðsfélaga og mótframlagi vinnuveitenda, eins og aðrir starfsgreinalífeyrissjóðir.

Lög nr. 49/1958, um Lífeyrissjóð togarasjómanna og síðari heildarlög nr. 49/1974, hafi í öllum aðalatriðum verið sambærileg lögum  um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins.  Í lögum þessum hafi m.a. verið kveðið á um hvert skipulag sjóðsins skyldi vera, sbr. 1. gr., iðgjöld sjóðsfélaga og mótframlag vinnuveitenda, sbr. 9. gr., réttindi sjóðsfélaga til elli-, örorku-, maka- og barnalífeyris, sbr. 10. til 15. gr.  Lögin hafi jafnframt lagt þá skyldu á herðar sjóðsstjórninni, að láta tryggingafræðing rannsaka fjárhag sjóðsins eigi sjaldnar en fimmta hvert ár og gera tillögur til úrbóta varðandi fjárhag hans væri hann ótraustur, sbr. 8. gr.  Sjóðurinn hafi því verið eign sjómanna og á þeirra ábyrgð og vinnuveitenda þeirra.

Stefndi kveður að í gegnum tíðina hafi réttindi sjóðsfélaga á ýmsan hátt verið rýmkuð þegar það hafi verið unnt, að mati tryggingafræðings og sjóðstjórnar.  Lög nr. 49/1974 hafi t.d. rýmkað rétt sjóðsfélaga til töku ellilífeyris.  Þá hafi ríkisvaldið upp á sitt eindæmi veitt sjóðsfélögum aukin réttindi í sjóðnum, án þess að láta gera úttekt á fjárhagslegri þýðingu slíks fyrir sjóðinn, sbr. lög nr. 48/1981, sem falið hafi í sér verulega rýmkun á ellilífeyrisrétti sjóðsfélaga.

Í árslok 1986 og 1989 hafi stjórn sjóðsins óskað eftir því við Alþingi, að gerðar yrðu nokkrar breytingar á lögum um sjóðinn í því skyni að sporna við sífellt auknum hallarekstri.  Stefndi kveður, að við árslok 1989 hafi vantað 36.165 milljónir króna á að höfuðstóll sjóðsins ásamt verðmæti væntanlegra iðgjalda nægði fyrir skuldbindingum sjóðsins, ef reiknað væri með 2% ársávöxtun, en 20.410.958 milljónir króna, ef miðað væri við 3% ársávöxtun.  Tryggingafræðingur hafi talið rétt að miða við 3% ársávöxtun.  Hann hafi talið orsakir halla á rekstri sjóðsins vera tvær, annars vegar rýrnun eigna á undanförnum áratugum og hins vegar misvægi milli bótaákvæða og fjárhagsgrundvallar.  Hins vegar hafi hann talið vægi fyrrnefnda þáttarins vera  minnkandi og niðurstaða uppgjörs árið 1989 bendi til að hann hefði ekki verulega hlutfallslega þýðingu fyrir stöðu sjóðsins.

Meðal þeirra réttinda, sem lagt hafi verið til í fumvarpinu að skert yrðu, hafi verið örorku- og barnalífeyrir, samkvæmt 1. mgr. 13. gr. og 3. mgr. 15. gr. laga nr. 49/1974.  Í almennum athugasemdum með frumvarpinu segi svo um þetta atriði :„Þær breytingar, sem í þessu frumvarpi eru lagðar til á bótarétti sjóðsfélaga, miða aðallega að því að draga úr útgjöldum sjóðsins.  Þetta á við um breytingu á ákvæði um örorkulífeyri, en á honum hefur orðið gífurleg aukning á síðustu árum, svo og barnalífeyri til örorkulífeyrisþega”

Með breytingunum á reglum um lífeyri hafi fyrst og fremst verið stefnt að því að draga úr hallarekstri sjóðsins.  Að mati sjóðsstjórnar hafi verið eðlilegast að byrja á örorkulífeyri og sníða reglur sjóðsins með skýrum og ótvíræðum hætti að skaðabótaeðli örorkulífeyris, þannig að hann ætti aðeins að koma til, ef sjóðsfélagi yrði fyrir raunverulegum tekjumissi 5 árum eftir orkuskerðingu.  Réttur til lífeyris lyti með öðrum orðum almennum skaðabótasjónarmiðum, svo sem þeirri grundvallarreglu skaðabótaréttar, að tjónþoli eigi að fá fullar bætur, en ekki meira.  Komið hefði í ljós, að nokkur fjöldi fyrrum sjómanna, sem greitt hefðu iðgjöld í sjóðinn og töldust ekki lengur geta stundað sjómennsku vegna örorku, hafi notið örorkubóta úr sjóðnum þrátt fyrir að þeir væru í fullu starfi í landi.

Frumvarp þetta hafi orðið að lögum nr. 44/1992 og hafi 5. gr. þess, sem falið hafi í sér breytingar á 1. mgr. 13. gr. laga nr. 49/1974, hljóðað svo: „Hver sjóðsfélagi, sem greitt hefur iðgjöld til sjóðsins undanfarin þrjú almanaksár og a.m.k. sex mánuði á undanfarandi tólf mánuðum, á rétt á örorkulífeyri ef hann verður fyrir orkutapi, er tryggingayfirlæknir metur 35% eða meira.  Örorkumat þetta skal miðað við vanhæfi sjóðsfélaga til almennra starfa.  Fyrstu fimm árin eftir orkutapið skal þó miða við vanhæfi sjóðsfélaga til að gegna starfi því, er hann gefur gengt og aðild hans að sjóðnum er tengd...”

Stefndi kveður, að þegar unnið hafi verið að framangreindri lagabreytingu hafi komið fram sú skoðun innan stjórnar sjóðsins, að óeðlilegt væri að sérstök lög giltu um Lífeyrissjóð sjómanna.  Eðlilegra væri að hann starfaði á grundvelli reglugerðar eins og flestir lífeyrissjóðir gerðu.  Það hafi leitt til þess að lagt hafi verið fram frumvarp á Alþingi um Lífeyrissjóð sjómanna, og sú skipan verið tekin upp að í lögunum væri aðeins að finna ákvæði um heiti sjóðsins, aðild, iðgjöld, lögveð, bann við framsali réttinda, en nánar kveðið á um skipulag sjóðsins og starfsemi í reglugerð.  Frumvarp þetta hafi orðið að lögum nr. 94/1994, sem tekið hafi gildi 1. september 1994.  Hefði sjóðnum þá verið sett reglugerð á grundvelli laganna.  Í 11. gr. reglugerðarinnar sé kveðið á um örorkuréttindi og hafi réttur til örorkulífeyris verið  þrengdur nokkuð frá því sem verið hefði, m.a. með því að örorka, sem veitti rétt til örorkulífeyris hafi verið hækkuð úr 35% í 40%.  Breyting þessi sem og aðrar breytingar, sem gerðar hafi verið samhliða og skertu réttindi sjóðsfélaga, hafi verið gerðar til að bæta fjárhagsstöðu sjóðsins, sem um þetta leyti hafi verið rekinn með liðlega 13 milljarða halla, sbr. úttekt tryggingafræðings frá 28. apríl 1994.

Stefndi byggir sýknukröfu sína á því, að öll lífeyrisréttindi sjóðsfélaga í Lífeyrissjóði sjómanna séu og hafi ávallt verið háð því að sjóðurinn ætti fyrir skuldbindingum sínum, sbr. t.d. 8. gr. laga nr. 49/1974.  Það sé því rangt hjá stefnanda, að örorkulífeyrisréttindi hans hjá stefnda hafi verið veitt án fyrirvara.

Fyrirvari um skerðingu lífeyrisréttinda sjóðsfélaga leiði beint af eðli sameignar og samtryggingar lífeyrissjóða.  Réttindi sjóðsfélaga í slíkum sjóðum séu háð þeirri forsendu eða því skilyrði, að sjóðirnir eigi fyrir öllum skuldbindingum er á þeim hvíli, bæði virkum og væntanlegum.  Lífeyrissjóðir verði ekki á grundvelli stjórnarskrárákvæða skyldaðir til að standa undir skuldbindingum, sem þeir eigi ekki fyrir.  Stjórnum lífeyrissjóða sé bæði rétt og skylt, ef viðurkennt sé með úttekt tryggingafræðings að sjóðurinn eigi ekki fyrir skuldbindingum, að skerða lífeyrisréttindi sjóðsfélaga.  Þessi sjónarmið endurspeglist í 21. til 24. gr., sbr. 39. gr. laga nr. 129/1997, um skyldutryggingu og starfsemi lífeyrissjóða.

Stefndi kveður allar skerðingar á réttindum sjóðsfélaga í Lífeyrissjóði sjómanna hafa byggst á málefnalegum sjónarmiðum.  Tryggingafræðingur hafi staðreynt halla á sjóðnum, sbr. úttektir í árslok 1989, 1992, 1995, 1996 og 1997.  Gripið hafi verið til skerðinga í þeim tilgangi að rétta sjóðinn af og til að tryggja öllum sjóðsfélögum lífeyri.  Samkvæmt úttekt 1997 hafi halli á sjóðnum verið liðlega 8 miljarðar eða um 13,3%.  Þessi halli á sjóðnum sé yfir þeim mörkum sem 2. mgr. 24. gr. laga nr. 129/1997 leyfi.  Stjórn sjóðsins verði því enn á ný að grípa til skerðinga á réttindum, sem að mati tryggingafræðings þurfi að vera um 13,4% á öllum réttindum sjóðsfélaga.

Stefndi hafnar því, að stefnandi geti byggt rétt í máli þessu á eignarréttarákvæði 72. gr. stjórnarskrárinnar, enda verði að gera ráð fyrir því að einstakir lífeyrissjóðir verði ekki á grundvelli mannréttindaákvæða stjórnarskrárinnar skyldaðir til að standa við skuldbindingar, sem þeir eigi ekki fyrir.  Með því móti væru dómstólar að ganga á rétt annarra sjóðfélaga.

Stefndi telur stefnanda ekki geta stutt kröfur sínar við dóm Hæstaréttar í málinu nr. 368/1997, Lífeyrissjóður sjómanna og íslenska ríkið gegn Svavari Benediktssyni, sem kveðinn var upp 28. maí 1998.  Aðstæður stefnanda og Svavars séu ekki sambærilegar.  Ellilífeyrisréttindi Svarars hafi verið skert, en þau réttindi hafi ríkisvaldið að hluta veitt sjóðsfélögum með sérstöku lagaboði án afskipta stjórnar Lífeyrissjóðs sjómanna.  Til grundvallar þeim hafi ekki legið nein aukin útgjöld sjóðsfélaga eða vinnuveitenda.  Svavar hafi jafnframt notið lífeyris þegar skerðingin hafi verið gerð.  Örorkuréttindi stefnanda eigi ekkert sammerkt með þessu.  Stefnandi hafi ekki hafið töku lífeyris þegar nýjar reglur um sjóðinn hafi tekið gildi.  Stjórn Lífeyrissjóðs sjómanna hafi aldrei lofað sjóðsfélögum öðrum og meiri örorkulífeyri en sjóðurinn geti staðið undir á hverjum tíma.  Sú málsástæða stefnanda, að samningssamband sé milli aðila um að örorkulífeyrir yrði greiddur samkvæmt þeim lögum sem í gildi hafi verið þegar iðgjöld voru innt af hendi og þau sjónarmið stefnanda, að líkja megi greiðslum í lífeyrissjóð við kaup og því geti annar aðili samnings ekki breytt eða takmarkað skyldu sína, fari þvert á eðli samtryggingarlífeyrissjóða með skylduaðild.  Stjórnir slíkra sjóða hafi heimild til takmörkunar og breytinga á réttindum sjóðsfélaga, sé gætt málefnalegra sjónarmiða.  Að öðrum kosti gangi samtryggingarlífeyriskerfið ekki upp efnahagslega.

Stefndi telur málshöfðun stefnanda miða að því að tryggja honum sérréttindi, sem hann kjósi að láta sjóðsfélaga sína í Lífeyrissjóði sjómanna að mestu standa undir.

Kröfu um málskostnað byggir stefndi á XXI. kafla laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.

V.

Eins og fram hefur komið er stefnandi 75% öryrki af völdum heilablæðingar er hann fékk í nóvember 1994.  Hóf hann töku örorkulífeyris hjá stefnda, Lífeyrissjóði sjómanna, í marsmánuði 1995.

Stefnandi byggir lífeyrisréttindi sín á 13. gr. laga nr. 49/1974, en stefnandi hefur fengið greiddan örorkulífeyri frá stefnda á grundvelli reglugerðar um Lífeyrissjóð sjómanna, sem gildi tók í september 1994.

Ágreiningslaust er að stefnandi hóf að greiða iðgjöld til stefnda á árinu 1978.  Á þeim tíma voru í gildi lög nr. 49/1974, um Lífeyrissjóð sjómanna.  Með lögum nr. 94/1994, er tóku gildi 1. september 1994, voru lög nr. 49/1974 felld úr gildi.  Stefnandi ávann sér því réttindi til töku örorkulífeyris í tíð laga nr. 49/1974, að undanskildum tveimur mánuðum.  Í hinum nýju lögum var ekki vikið að því hvernig fara skyldi um áunnin réttindi samkvæmt eldri lögum og höfðu þau ekki að geyma efnisleg ákvæði um lífeyrisréttindi sjóðsfélaga heldur vísuðu til fyrrgreindrar reglugerðar um þau atriði.

Réttindi stefnanda til lífeyris, sem hann ávann sér samkvæmt lögum nr. 49/1974, njóta verndar 72. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. 10. gr. stjórnskipunarlaga nr. 97/1995.  Skiptir þá ekki máli hvenær stefnandi tók að fá greitt samkvæmt þeim áunnu réttindum.

Með því að lífeyrisréttindi stefnanda teljast njóta eignarréttarverndar stjórnarskrárinnar verða þau ekki skert nema með skýlausri lagaheimild.  Þar sem lög nr. 94/1994 höfðu ekki að geyma heimild til skerðingar réttinda stefnanda telst skerðing réttindanna með framangreindri reglugerð því ólögmæt. 

Samkvæmt því ber að taka til greina dómkröfur stefnanda vegna vangreiddra lífeyrisgreiðslna, sem hann varð fyrir frá 1. mars 1995 til 1. október 1998, en ekki er tölulegur ágreiningur milli aðila um þá fjárhæð.

 Fyrir liggur að verulegur hallarekstur var á Lífeyrissjóði sjómanna og samkvæmt fyrirligjandi úttektum á stöðu sjóðsins, sem gerð var á grundvelli laga nr. 49/1974, er nauðsynlegt að takmarka lífeyrisréttindi sjóðsfélaga til að rétta við fjárhag sjóðsins og tryggja áframhaldandi greiðslugetu hans til sjóðsfélaga.  Hinn 22. mars sl. voru sett lög nr. 45/1999, um Lífeyrissjóð sjómanna.  Hafa þau lög að geyma efnisleg ákvæði um lífeyrisréttindi sjóðsfélaga.  Samkvæmt 15. gr.  laganna gilda ákvæði þeirra laga og samþykkta sjóðsins, sem settar verða á grundvelli laga um lífeyrisréttindi og lífeyrisgreiðslur sjóðsfélaga frá 1. júlí 1999.     Með vísan til þess að stefnandi telst hafa áunnið sér rétt til greiðslu örorkulífeyris samkvæmt lögum nr. 49/1974 verður fallist á kröfu stefnanda um rétt til lífeyris, sem hann öðlast samkvæmt ákvæðum laga nr. 49/1974, eftir 1. október 1998 fram til 1. júlí 1999, er fyrrgreind lög öðlast gildi, enda hefur stefnandi ekki sýnt fram á að með þeim lögum verði lífeyrisréttindi hans skert með ólögmætum hætti frá þeim tíma.

Samkvæmt þessari niðurstöðu ber að dæma stefnda til að greiða málskostnað, sem rennur í ríkissjóð, 349.910 krónur.

Gjafsóknarkostnaður stefnanda, þar með talin málsvarnarlaun stefnanda, 300.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði.  Við ákvörðun málskostnaðar hefur verið tekið tillit til virðisaukaskattskyldu lögmannsþóknunar.

Dóminn kvað upp Hervör Þorvaldsdóttir héraðsdómari.

D Ó M S O R Ð :

Stefndi, Lífeyrissjóður sjómanna, greiði stefnanda, Herði Magnússyni, 2.090.293 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 með síðari breytingum af 45.961 krónu frá 1. mars 1995 til 3. apríl 1995, en af 91.841 krónu frá þeim degi til 2. maí 1995, en af 137.667 krónum frá þeim degi til 1. júní 1995, en af 183.574 krónum frá þeim degi til 3. júlí 1995, en af 229.535 krónum frá þeim degi til 1. ágúst 1995, en af 275.631 krónu frá þeim degi til 1. september 1995, en af 321.917 krónum frá þeim degi til 2. október 1995, en af 368.364 krónum frá þeim degi til 1. nóvember 1995, en af 415.014 krónum frá þeim degi til 1. desember 1995, en af 461.515 krónum frá þeim degi til 2. janúar 1996, en af 507.990 krónum frá þeim degi til 1. febrúar 1996, en af 554.640 krónum frá þeim degi til 1. mars 1996, en  en af 601.371 krónu frá þeim degi til 1. apríl 1996, en af 648.183 krónum frá þeim degi til 2. maí 1996, en af 695.076 krónum frá þeim degi til 3. júní 1996, en af 742.267 krónum frá þeim degi til 1. júlí 1996, en af 789.404 krónum frá þeim degi til 1. ágúst 1996, en af 836.595 krónum frá þeim degi til 2. september 1996, en af 884.083 krónum frá þeim degi til 1. október 1996, en af 931.679 krónum frá þeim degi til 1. nóvember 1996, en af 979.288 krónum frá þeim degi til 2. desember 1996, en af 1.026.924 krónum frá þeim degi til 3. janúar 1997, en af 1.074.358 krónum frá þeim degi til 3. febrúar 1997, en af 1.121.953 krónum frá þeim degi til 3. mars 1997, en af 1.169.576 krónum frá þeim degi til 1. apríl 1997, en af 1.217.171 krónu frá þeim degi til 2. maí 1997, en af 1.265.113 krónum frá þeim degi til 2. júní 1997, en af 1.312.975 krónum frá þeim degi til 1. júlí 1997, en af 1.360.944 krónum frá þeim degi til 1. ágúst 1997, en af 1.408.992 krónum frá þeim degi til 1. september 1997, en af 1.457.174 krónum frá þeim degi til 1. október 1997, en af 1.505.543 krónum frá þeim degi til 3. nóvember 1997, en af 1.554.072 krónum frá þeim degi til 1. desember 1997, en af 1.602.548 krónum frá þeim degi til 5. janúar 1998, en af 1.650.944 krónum frá þeim degi til 2. febrúar 1998, en af 1.699.606 krónum frá þeim degi til 2. mars 1998, en af 1.748.162 krónum frá þeim degi til 1. apríl 1998, en af 1.796.905 krónum frá þeim degi til 4. maí 1998, en af 1.845.755 krónum frá þeim degi til 1. júní 1998, en af 1.894.757 krónum frá þeim degi til 1. júlí 1998, en af 1.943.846 krónum frá þeim degi til 4. ágúst 1998, en af 1.992.829 krónum frá þeim degi til 1. september 1998, en af 2.041.534 krónum frá þeim degi til 1. október 1998, en af 2.090.293 krónum frá þeim degi til greiðsludags.

Viðurkenndur er réttur stefnanda til óskerts lífeyris hjá stefnda, Lífeyrissjóði sjómanna, eftir 1.október 1998 í samræmi við ákvæði laga nr. 49/1974 með síðari breytingum fram til 1. júlí 1999.

Stefndi greiði stefnanda 349.910 krónur í málskostnað, sem rennur í ríkissjóð.

Gjafsóknarkostnaður stefnanda 349.910 krónur greiðist úr síkissjóði, þar af lögmannsþóknun stefnanda, 300.000 krónur.