Print

Mál nr. 718/2017

Lögreglustjórinn á Suðurnesjum (Alda Hrönn Jóhannsdóttir saksóknarfulltrúi)
gegn
X (Dóris Ósk Guðjónsdóttir hdl.)
Lykilorð
  • Kærumál
  • Símahlerun
  • Fjarskipti
Reifun

Staðfestur var úrskurður héraðsdóms þar sem hafnað var kröfu L um heimild til að hlusta á og hljóðrita símtöl við síma X á nánar tilgreindu tímabili, svo og heimild til að nema SMS sendingar, þar með taldar slíkar sendingar í lesanlegu formi, sem sendar væru eða mótteknar með númerinu og hlusta og hljóðrita samtöl við talhólf þess á sama tíma.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Helgi I. Jónsson, Benedikt Bogason og Greta Baldursdóttir.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 14. nóvember 2017, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum degi síðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 14. nóvember 2017, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um heimild til að hlusta á og hljóðrita símtöl úr og í símtæki í umráðum varnaraðila með símanúmerið [...], frá og með uppkvaðningu úrskurðar til og með 28. nóvember 2017, og til að nema SMS sendingar, þar með taldar slíkar sendingar í lesanlegu formi, sem sendar eru eða mótteknar með númerinu og hlusta og hljóðrita samtöl við talhólf þess á sama tíma. Kæruheimild er í i. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Sóknaraðili krefst þess að framangreind krafa verði tekin til greina.

Af hálfu varnaraðila hefur lögmaður, sem skipaður var til að gæta hagsmuna hans, ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti.

Í dómi Hæstaréttar 4. febrúar 2016 í máli nr. 842/2014 er rakið að meðal málsgagna séu upptökur af símtölum og öðrum samskiptum ákærðu við aðra skömmu eftir að þeir höfðu gefið skýrslu hjá lögreglu þar sem þeir hafi haft réttarstöðu sakborninga og því verið óskylt að svara spurningum um refsiverða hegðun, sem þeim var gefin að sök, sbr. 2. mgr. 64. gr. laga nr. 88/2008. Var komist að þeirri niðurstöðu að með því að hlusta á símtöl ákærðu við þessar aðstæður, þótt það væri gert á grundvelli dómsúrskurða, hafi verið brotið gegn rétti þeirra til réttlátrar málsmeðferðar samkvæmt 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar og 1. mgr. 6. gr. samnings um verndun mannréttinda og mannfrelsis, sbr. lög nr. 62/1994 um mannréttindasáttmála Evrópu.

Til rannsóknar er hjá lögreglu ætlað brot varnaraðila vegna innflutnings á ólöglegu fíkniefni og sætir hann nú gæsluvarðhaldi. Í máli þessu eru aðstæður sambærilegar þeim, sem lýst er í framangreindum dómi Hæstarettar. Samkvæmt því verður niðurstaða hins kærða úrskurðar staðfest.   

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.  

                                                                 

 

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 14. nóvember 2017.

Héraðsdómi Reykjaness barst í dag krafa lögreglustjórans á Suðurnesjum um að heimilt verði að hlusta og hljóðrita símtöl úr og í símanúmer kærða, [...], frá og með uppkvaðningu úrskurðar til og með 28. nóvember 2017, klukkan 16:00, en jafnframt sé heimilt að nema SMS-sendingar, þar með talið SMS-sendingar í lesanlegu formi, sem sendar eru eða mótteknar með númerinu á sama tíma og hlusta og hljóðrita samtöl við talhólf framangreinds númers á sama tíma.

I

Í greinargerð lögreglustjórans á Suðurnesjum kemur fram að borist hafi tilkynning frá Tollgæslunni í Flugstöð Leifs Eiríkssonar (FLE), þann 31. október 2017, um að kærði hefði verið stöðvaður á tollhliði vegna gruns um að hann hefði fíkniefni falin innvortis. Hafi kærði verið að koma frá [...] með flugi númer [...]. Í viðræðum við tollverði og lögreglu hafi hann viðurkennt að hafa fíkniefni falin innvortis og hafi einnig viðurkennt það við lögreglu við handtöku.

Kærði hafi síðan verið færður á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja þar sem framkvæmd var sneiðmyndataka. Reyndist kærði hafa aðskotahluti innvortis í maga og í endaþarmi og þurfti hann að gangast undir aðgerð á Landspítala Háskóla sjúkrahúsi til að fjarlægja hin meintu fíkniefni.

Lögreglustjóri kveður rannsókn þessa máls enn í fullum gangi. Samkvæmt niðurstöðum tæknideildar lögreglustjórans á Höfuðborgarsvæðinu hafi kærði verið með 299,94 grömm af kókaíni og 61,21 gramm af Ecstasy í kviðarholi sínu við komuna til landsins. Í framhaldi af rannsókn tæknideildar hafi sýni úr ofangreindum efnum verið send til rannsóknarstofu í lyfja- og eiturefnafræði við Háskóla Íslands til frekari rannsókna og sé beðið niðurstöðu þeirrar rannsóknar.

Kærði hafi haft meðferðis símtæki með símanúmerinu [...] en í símtækinu  hans hafi verið samskipti við erlenda númerið [...] í gegnum samskipaforritið Telegram. Ljóst sé af samskiptunum að aðilinn með erlenda númerið sé íslenskur og sá sem hafi sent kærða með fíkniefnin til Íslands en sá aðili sé jafnframt bróðir barnsmóður kærða. Ekki sé ljóst hver sé aðild kærða að innflutningum en rannsókn málsins hafi teygt anga sína utan og hafi lögreglu borist upplýsingar frá Hollandi um fjölda peningasendinga milli kærða og hins aðilans á árinu 2015 sem hafi vakið athygli yfirvalda þar í landi. Peningafærslur kærða séu til rannsóknar. Ekki hafi hins vegar tekist að hafa uppi á bróður barnsmóður kærða þrátt fyrir leit en líklegt þyki að hann kunni að dvelja í Evrópu.

Kærði hefur setið í gæsluvarðhaldi frá 1. nóvember sl. og gildir sá úrskurður til 15. nóvember nk. Að mati lögreglu sé afar mikilvægt að rannsaka málið betur og einkum er varði aðdraganda ferðar kærða utan og aftur til landsins svo og tengsl ætlaðra samverkamanna. Ekki sé heldur ljóst á þessari stundu hvort kærði og ætlaður samverkamaður hans tengist öðrum innflutningsmálum hingað til lands á undanförnum misserum. Í málinu sé verið að rannsaka innflutning á töluverðu magni af hættulegum ávana- og fíkniefnum sem að mati lögreglu hafi verið flutt hingað til lands í þeim tilgangi að selja þau til ótiltekins fjölda fólks hér á landi.

Ætluð brot kærða eru talin varða við ákvæði laga um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974 og 173. gr. a. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og megi ætla að ef þau sönnuðust, þá myndu þau geta varðað fangelsisrefsingu allt að 12 árum. Af þessum sökum skipti miklu fyrir áframhaldandi rannsókn málsins að fengin sé heimild til rannsóknaraðgerðar í samræmi við hina framlögðu kröfu svo unnt sé að rannsaka málið nánar og upplýsa um meinta samverkamenn kærða. Þá telji lögreglustjóri jafnframt að ríkir almanna- og einkahagsmunir krefjist þess að mál þetta upplýsist. 

Með vísa til framangreinds, framlagðra gagna, 81. sbr. 83. gr. laga nr. 88/2008 sé þess krafist að fallist verði á hina umbeðnu kröfu og að krafan sæti meðferð fyrir dómi án þess að þolandi eða símafyrirtæki þau sem krafan beinist að verði kvödd á dómþing, sbr. 1. mgr. 103. gr., sbr. 1. mgr. 104. gr. laga nr. 88/2008.

II

Fyrir þingfestingu málsins féllst dómari á kröfu lögreglustjóra þess efnis að krafa hans hlyti meðferð fyrir dómi, án þess að varnaraðili eða síma- og fjarskiptafyrirtæki þau sem krafan beinist að yrðu kvödd á dómþing, sbr. ákvæði 1. mgr. 103. gr. og 1. mgr. 104. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.

Með þeim skilyrðum sem greind eru í 83. gr. og 1. mgr. 84. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála er heimilt í þágu rannsóknar að leggja fyrir fjarskiptafyrirtæki að leyfa að hlustað sé á eða tekin séu upp símtöl eða önnur fjarskipti við tiltekinn síma, tölvu eða annars konar fjarskiptatæki ellegar við síma, tölvu eða annars konar fjarskiptatæki í eigu eða umráðum tilgreinds manns, sbr. 1. mgr. 81. gr. sömu laga. Skilyrði fyrir aðgerðum samkvæmt 81. gr. er að ástæða sé til að ætla að upplýsingar, sem skipt geta miklu fyrir rannsókn máls, fáist með þeim hætti, sbr. 1. mgr. 83. gr. laga nr. 88/2008. Þá eru framangreindum heimildum settar þröngar skorður vegna friðhelgi einkalífs manna sbr. 70. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands, sbr. lög nr. 33/1944.

 Samkvæmt 2. mgr. 64. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála er sakborningi óskylt að svara spurningum varðandi refsiverða hegðun sem honum er gefin að sök, sbr. einnig 2. mgr. 113. gr. sömu laga. Þessi réttur sakaðs manns nýtur einnig verndar samkvæmt 1. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Varnaraðili sætir nú gæsluvarðhaldi að kröfu lögreglustjóra. Með því að heimila umrædda rannsóknaraðgerð yrði lögreglu að mati dómsins gert kleift að hlíða á möguleg samtöl sakbornings í þessu máli sem nýtur fyrrgreinds réttar, án þess að hafa vitneskju um að á hann sé hlýtt en kærði hefur í skýrslutökum hjá lögreglu neitað að tjá sig um þau atriði vegna ótta við aðra aðila. Ljóst er einnig að umbeðin rannsóknaraðgerð er víðtæk og mun að öllum líkindum snerta fleiri en þann sem krafan beinist nú að.

Mögulega mun umbeðin rannsóknaraðgerð skila árangri en það er alls óvíst. Að því gættu þykir ekki uppfyllt fyrrgreint skilyrði 81. gr. laga nr. 88/2008 um að ástæða verði að vera til að ætla að upplýsingar, sem skipt geti miklu fyrir rannsókn máls, fáist með hinni umbeðnu rannsóknaraðgerð. Enn fremur þykir hlustun á samtöl sakbornings og upptaka þeirra við fyrrgreindar aðstæður, ef til kæmi, fara gegn áðurlýstum rétti hans samkvæmt lögum nr. 88/2008, 70. gr. stjórnarskrárinnar og 1. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, og verði með vísan til þess að hafna kröfu lögreglustjóra. 

Þóknun Dórisar Óskar Guðjónsdóttur hdl., sem skipuð var til þess að gæta hagsmuna varnaraðila, sbr. 2. mgr. 84. gr. laga nr. 88/2008, þykir hæfilega ákveðin svo sem í úrskurðarorði greinir.

Úrskurð þennan kveður upp Bogi Hjálmtýsson, héraðsdómari.

ÚRSKURÐARORÐ

Hafnað er kröfu lögreglustjórans á Suðurnesjum um heimild til að hlusta og hljóðrita símtöl úr og í símanúmerið [...], í umráðum varnaraðila, X, frá og með uppkvaðningu úrskurðar til og með 28. nóvember 2017, og til að nema SMS-sendingar, þar með talið SMS-sendingar í lesanlegu formi sem sendar eru eða mótteknar með númerinu á sama tíma og hlusta og hljóðrita samtöl við talhólf framangreinds númers á sama tíma.

Þóknun skipaðs talsmanns varnaraðila, Dórisar Óskar Guðjónsdóttur hdl., er ákveðin 73.780 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti.