Print

Mál nr. 215/2017

Andrea Íris Þorsteinsdóttir (Jónas Jóhannsson lögmaður)
gegn
Tryggingamiðstöðinni hf. og Ísfélagi Vestmannaeyja hf. (Hjörleifur B. Kvaran lögmaður)
Lykilorð
  • Líkamstjón
  • Vinnuslys
  • Aðild
  • Viðurkenningarkrafa
  • Slysatrygging
  • Ábyrgðartrygging
  • Stórkostlegt gáleysi
  • Skaðabætur
  • Gjafsókn
Reifun

A krafðist þess að viðurkenndur yrði réttur hennar til fullra bóta úr ábyrgðartryggingu og slysatryggingu Í hf., sem félagið hafði tekið hjá T hf., vegna líkamstjóns sem hún varð fyrir við vinnu sína hjá Í hf. er hún reyndi að losa fisk sem sat fastur í færibandi með hendinni. Við það festist ermi á kuldagalla hennar í færibandinu og dróst hún með því nokkurn spöl með þeim afleiðingum að hún hlaut opið beinbrot á framhandlegg og úlnlið og snúning á öxl. Óumdeilt var að A átti rétt til bóta úr tryggingunum en ágreiningur var um hvort A skyldi sjálf bera hluta tjónsins vegna eigin sakar. Hæstiréttur féllst á með héraðsdómi að A hefði sýnt af sér stórkostlegt gáleysi með því að setja hönd sína inn í færiband á hreyfingu. Væri því fullnægt skilyrðum til að skerða bætur til hennar úr tryggingunum. Með vísan til þess sem lá fyrir um sök Í hf. þar sem hlífðarbúnað og annan öryggisbúnað hafði vantað á færibandið gaf stórkostlegt gáleysi A þó einungis tilefni til að skerða bætur hennar um fjórðung. Var því viðurkenndur réttur hennar til bóta úr framangreindum tryggingum sem næmi ¾ af fullum bótum.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma Þorgeir Örlygsson hæstaréttardómari, Guðrún Erlendsdóttir settur hæstaréttardómari og Ásmundur Helgason landsréttardómari.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 5. apríl 2017. Hún krefst viðurkenningar á rétti sínum til fullra bóta úr frjálsri ábyrgðartryggingu og slysatryggingu launþega, sem stefndi Ísfélag Vestmannaeyja hf. hafði hjá stefnda Tryggingamiðstöðinni hf., vegna tjóns sem áfrýjandi varð fyrir í vinnuslysi 2. febrúar 2013. Þá krefst hún málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti án tillits til gjafsóknar sem henni hefur verið veitt. 

Stefndu krefjast aðallega staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti. Til vara krefjast þeir þess að bætur áfrýjanda verði lækkaðar þannig að hún beri tjón sitt að einum fjórða hluta sjálf og að bæturnar beri 4,5% vexti til dómsuppsögu í Hæstarétti en dráttarvexti samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefjast þeir í varakröfu að málskostnaður verði felldur niður.

Í málinu krefst áfrýjandi viðurkenningar á rétti sínum til óskertra bóta úr tveimur vátryggingum, sem stefndi Tryggingamiðstöðin hf. hafði veitt stefnda Ísfélagi Vestmannaeyja hf. vegna líkamstjóns sem áfrýjandi varð fyrir 2. febrúar 2013. Lúta kröfurnar annars vegar að rétti hennar til bóta úr slysatryggingu launþega og hins vegar úr frjálsri ábyrgðartryggingu.

Áfrýjandi er vátryggð á grundvelli samnings milli stefndu um slysatryggingu launþega. Stefndi Ísfélag Vestmannaeyja hf. sem vátryggingartaki ber ekki greiðsluskyldu gagnvart áfrýjanda úr slysatryggingunni, heldur á áfrýjandi kröfu um greiðslu úr tryggingunni á hendur vátryggingarfélaginu án aðildar vátryggingartaka. Með vísan til 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála ber því að sýkna stefnda Ísfélag Vestmannaeyja hf. af þeim hluta kröfugerðar áfrýjanda sem lýtur að slysatryggingunni.

Með ábyrgðartryggingunni sem stefndi Ísfélag Vestmannaeyja hf. tók hjá stefnda Tryggingamiðstöðinni hf. skuldbatt vátryggingarfélagið sig til þess að greiða hinum fyrrnefnda bætur fyrir fjártjón sem sá stefndi yrði fyrir vegna skaðabótaábyrgðar sem hann bæri gagnvart þriðja aðila. Stefndi Ísfélag Vestmannaeyja hf. er því vátryggður, sbr. c. lið 2. gr. laga nr. 30/2004 um vátryggingarsamninga, og nýtur vátryggingarverndar vegna skaðabótaskyldrar háttsemi á grundvelli samnings stefndu um ábyrgðartrygginguna. Þó að áfrýjanda sé heimilt að beina kröfu um fullar bætur úr ábyrgðartryggingunni að stefnda Tryggingamiðstöðinni hf. samkvæmt sérreglu 1. mgr. 44. gr. laga nr. 30/2004 hefur hún ekki gert það, heldur kosið að höfða viðurkenningarmál þetta bæði gegn hinum vátryggða og vátryggingarfélaginu, eins og henni er heimilt. Að þessu gættu er ekki fallist á að sýkna beri stefnda Ísfélag Vestmannaeyja hf. á grundvelli aðildarskorts af þeim hluta kröfu áfrýjanda er lýtur að viðurkenningu á óskertum rétti hennar til bóta úr ábyrgðartryggingunni.

Með vísan til forsendna héraðsdóms er á það fallist að áfrýjandi hafi með verklagi sínu umrætt sinn sýnt af sér stórkostlegt gáleysi þegar hún setti vinstri höndina inn í færiband á hreyfingu í því skyni að losa fisk úr bandinu. Er því fullnægt skilyrðum til að skerða bætur til hennar úr fyrrgreindum tryggingum á grundvelli 1. mgr. 90. gr. laga nr. 30/2004 að því er varðar slysatrygginguna en 1. mgr. 23. gr. a. skaðabótalaga nr. 50/1993 varðandi ábyrgðartrygginguna. Þegar litið er til þess sem fyrir liggur um sök stefnda Ísfélags Vestmannaeyja hf. vegna þess að hlífðarbúnað og annan öryggisbúnað skorti á færibandið, gefur stórkostlegt gáleysi áfrýjanda þó aðeins tilefni til þess að skerða bætur til hennar um fjórðung. Því er viðurkenndur réttur hennar til bóta úr umræddum tryggingum sem nemur ¾ af fullum bótum. Með hliðsjón af því að áfrýjandi hefur í málinu uppi viðurkenningarkröfu á grundvelli 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991 eru ekki efni til að leysa úr vaxtaútreikningi sem kann að leiða af fjárkröfu áfrýjanda af því tilefni.

Í ljósi niðurstöðu málsins er rétt að málskostnaður milli stefnda Ísfélags Vestmannaeyja hf. og áfrýjanda falli niður á báðum dómstigum. Stefnda Tryggingamiðstöðinni hf. verður gert að greiða málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti sem rennur í ríkissjóð og fer um hann samkvæmt því sem í dómsorði greinir. Ákvæði héraðsdóms um gjafsóknarkostnað áfrýjanda skal vera óraskað en um gjafsóknarkostnað hennar hér fyrir dómi fer eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Viðurkenndur er réttur áfrýjanda, Andreu Írisar Þorsteinsdóttur, til bóta sem nema ¾ af fullum bótum úr frjálsri ábyrgðartryggingu og slysatryggingu launþega, sem stefndi Ísfélag Vestmannaeyja hf. hafði hjá stefnda Tryggingamiðstöðinni hf. vegna tjóns sem áfrýjandi varð fyrir í vinnuslysi 2. febrúar 2013.

Málskostnaður milli stefnda Ísfélags Vestmannaeyja hf. og áfrýjanda á báðum dómstigum fellur niður.

Stefndi Tryggingamiðstöðin hf. greiði 850.000 krónur málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti sem renni í ríkissjóð.

Ákvæði héraðsdóms um gjafsóknarkostnað áfrýjanda skal vera óraskað.

Allur gjafsóknarkostnaður áfrýjanda fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hennar, Jónasar Jóhannssonar, 700.000 krónur.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 5. janúar 2017.

I

Mál þetta, sem var dómtekið 14. nóvember sl., er höfðað af Andreu Írisi Þorsteinsdóttur, Hásteinsvegi 22, Vestmannaeyjum, með stefnu áritaðri um birtingu 11. desember 2015 á hendur Tryggingamiðstöðinni hf., Síðumúla 24, Reykjavík, og Ísfélagi Vestmannaeyja hf., Strandvegi 28, Vestmannaeyjum. 

Stefnandi krefst þess að viðurkenndur verði réttur hennar til fullra bóta úr frjálsri ábyrgðartryggingu og slysatryggingu launþega, sem stefndi, Ísfélag Vestmannaeyja hf., hafði í gildi hjá stefnda, Tryggingamiðstöðinni hf., vegna líkamstjóns stefnanda eftir vinnuslys hinn 2. febrúar 2013.

Stefnandi krefst þess að stefndu verði dæmdir sameiginlega til greiðslu málskostnaðar stefnanda að skaðlausu ásamt virðisaukaskatti.

Af hálfu stefndu er þess aðallega krafist að þeir verði sýknaðir af öllum kröfum stefnanda og að stefnandi verði dæmd til að greiða stefndu málskostnað samkvæmt mati dómsins.

Stefndu krefjast þess til vara að bætur verði lækkaðar þannig að stefnandi beri sjálf tjón sitt að ¼ hluta (fjórðungi) og að bætur beri 4,5% ársvexti til endanlegs dómsuppsögudags en beri dráttarvexti samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefjast stefndu þess að málskostnaður verði felldur niður.

Með bréfi innanríkisráðuneytisins, dagsettu 25. janúar 2016, var stefnanda veitt gjafsókn vegna málshöfðunar þessarar. Gjafsóknin var takmörkuð við rekstur málsins fyrir héraðsdómi, sbr. þó 4. og 5. mgr. 127. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.

II

Helstu málavextir eru óumdeildir. Stefnandi slasaðist í vinnuslysi við vinnu sína hjá stefnda, Ísfélagi Vestmannaeyja hf., hinn 2. febrúar 2013. Stefnandi vann við þrif í fiskvinnslusal með því að smúla gólf og færibönd með vatnsslöngu. Þegar hún náði ekki að losa loðnu, sem sat föst í færibandi, með vatnsþrýstingi reyndi hún að losa loðnuna með hendinni. Við það festist stefnandi í færibandinu og dróst með því nokkurn spöl. Stefnandi mun hafa losað ermi sína úr færibandinu en ermin hafi flækst í færibandinu á nýjan leik með þeim afleiðingum að höndin fór fyrir endahjól færibandsins og hlaut stefnandi opið beinbrot á framhandlegg og úlnlið og snúning á öxl.

Lögreglu var tilkynnt um slysið og kom á vettvang í kjölfarið. Í lögregluskýrslu um málið er rakin sú lýsing Hildar H. Zoëga Stefánsdóttur verkstjóra á aðdraganda slyssins að stefnandi hafi verið að þrífa færibönd og síló þegar verið var að vinna loðnu og hafi færibandið, sem stefnandi var að þrífa þegar slysið varð, verið í gangi á meðan. Hildur hafi verið inni á verkstjóraskrifstofu þegar hún hafi heyrt öskur og þá farið fram í vinnslusal og séð stefnanda við færibandið þar sem stefnandi var föst. Hildur hefði þá farið að rafmagnstöflu og slökkt á færibandinu en rafmagnstaflan sé í um það bil átta metra fjarlægð frá færibandinu. Loks segir í lögregluskýrslunni að ekki hafi náðst að ræða við stefnanda á vettvangi.

Stefnandi gaf skýrslu hjá lögreglu 26. febrúar 2013 og lýsti atvikum þannig að hún hefði verið að vinna við að smúla undir færibandi sem hefði verið í gangi á meðan. Loðna hefði hangið föst í færibandinu og hefði stefnandi ítrekað reynt að ná henni í burtu með því að sprauta vatni á hana en án árangurs. Stefnandi hefði því ákveðið að reyna að losa loðnuna með því að grípa í hana en við það hefði færibandið náð að krækja í ermina á vinstri handlegg hennar. Hún hefði náð að losa sig en síðan hefði færibandið einhvern veginn náð að grípa aftur í ermina þannig að hún náði ekki að losa sig. Hún hefði dregist með færibandinu einhvern spöl og hefði tekið um það bil 10 mínútur að losa hana úr færibandinu.

Í málinu liggur frammi ódagsett tilkynning stefnda, Ísfélags Vestmannaeyja hf., um slysið til Vinnueftirlitsins sem er stimpluð með dagsetningunni 17. júlí 2013. Þar er því lýst að stefnandi hafi verið að vinna við þrif í vigtarsal uppsjávarvinnslu á meðan vinnsla var í gangi. Stefnandi hafi teygt vinstri hendi inn í færiband til þess að fjarlægja loðnu sem hún hafi séð þar. Færibandið hafi verið í gangi og gripið í kuldagallann, sem stefnandi klæddist, og dregið höndina inn undir öxulinn. Sömu lýsingu er að finna í tilkynningu Ísfélags Vestmannaeyja hf. um slysið til Sjúkratrygginga Íslands, dagsettri 21. október 2013.

Lögmaður stefnanda tilkynnti stefnda, Tryggingamiðstöðinni hf., um slys stefnanda með bréfi, dagsettu 19. júlí 2013, og upplýsti jafnframt að bótakrafa yrði gerð á síðari stigum. Með bréfi lögmanns stefnanda, dagsettu 13. ágúst 2013, var m.a. óskað eftir skýrslu Vinnueftirlitsins um slysið og afrit af tilkynningu.

Umsögn Vinnueftirlitsins um vinnuslys stefnanda er dagsett 30. september 2013. Þar kemur m.a. fram það mat Vinnueftirlitsins að rekja megi orsök slyssins til þess að engar hlífar hafi verið við enda eða hliðar færibandsins eða annar öryggisbúnaður sem hindraði að hönd kæmist í klemmihættu. Meðvirkandi þáttur væri að vinnuveitandi hefði ekki gert skriflegt áhættumat og áætlun um forvarnir er varða umrædda vinnu. Umsögnin var send lögmanni stefnanda með bréfi, dagsettu 2. október sama ár.

Með bréfi stefnda, Tryggingamiðstöðvarinnar hf., til lögmanns stefnanda, dagsettu 11. febrúar 2014, var sök vátryggingartaka viðurkennd með vísan til þess að ekki hefði verið hlíf á færibandinu. Hins vegar var talið að sú sök væri lítilvæg miðað við sök stefnanda sem sýnt hefði af sér stórkostlegt gáleysi umrætt sinn. Því myndi tryggingafélagið skerða bætur stefnanda um helming, sbr. 1. mgr. 23. gr. a. í skaðabótalögum nr. 50/1993.

Stefnandi skaut niðurstöðu stefnda, Tryggingamiðstöðvarinnar hf., til úrskurðarnefndar í vátryggingamálum 5. apríl 2014. Í áliti sínu, dagsettu 15. apríl sama ár, komst úrskurðarnefndin að þeirri niðurstöðu að stefnandi ætti rétt á bótum úr ábyrgðartryggingu stefnda, Ísfélags Vestmannaeyja hf., hjá stefnda, Tryggingamiðstöðinni hf., en skyldi bera þriðjung tjóns síns sjálf vegna meðábyrgðar. 

Í málinu liggur frammi matsgerð Ragnars Jónssonar, sérfræðings í bæklunarskurðlækningum, dagsett 30. mars 2015. Þar kemur fram að stefnandi hafi í slysinu hlotið áverka á vinstri efri útlim, þ.e. brot á báðum pípum á framhandlegg og fjærenda sveifar við úlnlið með opnum áverka þar yfir og töluverðum húðskemmdum. Miski var metin til 40 stiga og varanleg örorka 35%.

Stefndi, Tryggingamiðstöðin hf., greiddi stefnanda bætur á grundvelli niðurstöðu úrskurðarnefndar í vátryggingamálum þannig að bætur voru skertar um þriðjung. Af hálfu stefnanda var tryggingafélaginu gerð grein fyrir því í bréfi lögmanns stefnanda til tryggingafélagsins 18. júní 2015, að undirritanir stefnanda vegna uppgjörsins væru með þeim fyrirvara að hún mótmælti þriðjungsskerðingu bótanna vegna ætlaðrar eigin sakar og upplýst að hún hygðist bera ágreining aðila að þessu leyti undir dómstóla. Mál þetta var höfðað 11. desember 2015.

III

Stefnandi byggir viðurkenningarkröfu sína á því að hún eigi rétt á bótum úr bæði ábyrgðartryggingu og slysatryggingu launþega sem vinnuveitandi stefnanda hafði í gildi hjá hinu stefnda tryggingafélagi á slysdegi. Stefnandi hafnar því að hún hafi sýnt af sér stórkostlegt gáleysi sem réttlæti skerðingu á bótarétti hennar samkvæmt ákvæðum 2. mgr. 27. gr. laga nr. 30/2004, um vátryggingarsamninga, að því er slysatryggingu varðar en samkvæmt 1. mgr. 23. gr. a. í skaðabótalögum nr. 50/1993 að því er ábyrgðartryggingu varðar. Stefnandi byggir á því að á stefndu hvíli sönnunarbyrðin fyrir því að stefnandi hafi valdið tjóni sínu með stórkostlegu gáleysi.

Stefnandi vísar til þess að íslensk löggjöf miði við að vinnuveitandi beri ábyrgð á því að ákvæði laga og stjórnvaldsreglna, sem lúti að vinnustaðnum og vinnuumhverfi í víðasta skilningi þar með taldar reglur um öryggi starfsmanna, séu í heiðri höfð. Þá feli lög og reglur á sviði vinnuréttar í sér að það sé vinnuveitandinn sem ráði skipulagi og framkvæmd starfa innan fyrirtækis hans. Um það hafi starfsmaður lítið að segja, enda sé hann undir boðvaldi vinnuveitanda síns og óhlýðni við boð og bönn vinnuveitanda, m.a. fyrirmæli um framkvæmd starfans, geti talist vanefnd á ráðningarsamningi af hálfu starfsmannsins og heimilað vinnuveitanda hans að grípa til úrræða gegn starfsmanni. Samkvæmt framansögðu hvíli meginábyrgð á öruggu vinnuumhverfi á vinnuveitanda og beri að skoða og virða háttsemi stefnanda í því ljósi.

Stefnandi byggir á því að hún hafi gert það, sem henni hafi verið falið að gera, við þær aðstæður og með þau áhöld og tæki sem vinnuveitandi hafi útvegað. Hún hafi ekki getað losað loðnuna með því að smúla á hana en ekki hafi verið um lokaþrif að ræða og því hafi færibönd verið í gangi í samræmi við fyrirmæli vinnuveitanda. Færibönd hafi einungis verið stöðvuð og tekin í sundur þegar um lokaþrif var að ræða. Telji vinnuveitandi að stefnandi hefði átt að taka straum af tækjum og færiböndum þótt ekki væri um lokaþrif að ræða, hafi vinnuveitandanum borið að upplýsa hana um slíkt verklag sem ekki hefði áður tíðkast á vinnustaðnum. Stefnandi hafi þrifið færibandið eins og venja var, án þess að um lokaþrif og stöðvun hafi verið að ræða. Stefnandi hafi ekki haft ástæðu til að ætla annað en að umrætt færiband væri útbúið öllum tilskildum hlífum og öryggisbúnaði þannig að hún væri ekki sett í hættu við þau störf sem henni voru falin.

Við þessar aðstæður hvíli sönnunarbyrði á stefndu um það, hvort og þá hvernig stefnandi hefði átt að hegða sér öðruvísi við þessar aðstæður. Stefnandi hafi eingöngu haft vatn til þess að vinna það verkefni sem henni hefði verið falið. Þegar notkun vatns hafi ekki borið árangur, hafi stefnandi reynt að slá í loðnuna. Hún hafi engin önnur fyrirmæli haft frá vinnuveitanda um það, hvernig bregðast ætti við þegar vatn þrífi vél ekki með fullnægjandi hætti og því hafi hún engan annan kost átt en að losa um fiskinn með hendinni eða sinna ekki verkefninu, sem þá hefði verið brot á starfsskyldum hennar með þeim afleiðingum sem það kynni að hafa í för með sér.

Stefnandi hafi valið fyrri kostinn í trausti þess að aðstæður, útbúnaður og vinnuskilyrði við framkvæmd verkefnisins gerðu henni kleift að ljúka verkefninu, án þess að festast í færibandinu og það hafi henni tekist. Stefnandi hafi náð að losa fiskinn og hún hafi lýst því að hún hafi einnig losað ermi sem krækst hefði í færibandið. Vegna vanbúnaðar vélarinnar og þar sem vinnugalli, sem vinnuveitandi hefði úthlutað stefnanda, hafi verið of stór á hana, hafi færibandið krækt í ermi stefnanda á nýjan leik með þeim þekktu og alvarlegu afleiðingum sem bótakrafa hennar sé byggð á.

Vinnuveitandinn hafi brotið gróflega gegn reglum um öryggi og aðbúnað á vinnustað. Ef reglum hefði verið fylgt eins og til sé ætlast, hefði mátt koma í veg fyrir slysið og verði að meta sök vinnuveitanda svo yfirgnæfandi í samanburði við hugsanlega áhættu stefnanda að ekki sé ástæða til að leggja hluta sakar á hana.

Stefnandi kveður sök vinnuveitanda á slysinu fyrst og fremst byggða á því að vélin hafi ekki verið CE-merkt, nauðsynlegar hlífar hafi ekki verið á vélinni, vinnugalli stefnanda hafi verið of stór á hana, neyðarrofi hafi ekki verið staðsettur við vélina, starfsmenn hafi ekki haft vitneskju um staðsetningu neyðarrofa og loks hafi ekki legið fyrir skriflegt áhættumat og áætlun um forvarnir vegna þeirrar vinnu sem stefnandi sinnti. Ljóst sé að vinnuveitanda beri að haga og framkvæma vinnu þannig að gætt sé fyllsta öryggis og góðs aðbúnaðar og hollustuhátta, sbr. 37. gr. laga nr. 46/1980. Í þessu felist m.a. að vinnuveitanda beri að sjá til þess að þau tæki, sem starfsmenn séu látnir vinna við, séu CE-merkt þannig að þau séu vottuð um ákveðið öryggi og gæði. Færibandið sé talið nýlegt og ekki hafi verið ástæða til að ætla annað en að það væri búið öllum tilskildum hlífum. Mögulega hefði vinnuveitandi mátt ætla að svo væri, ef um CE-vottað færiband hefði verið að ræða en svo hafi ekki verið. Vinnuveitandi hafi brugðist lögmæltri skyldu sinni og teljist það hluti af orsök slyssins.

Með sama hætti hafi vinnuveitandi brugðist framangreindum skyldum sínum með því að hafa ekki hlífar á færibandinu. Þegar vinnuveitandi hafi tekið ákvörðun um að kaupa færiband til vinnslu í rými starfsmanna sinna, sem ekki sé CE-vottað, hvíli rík ábyrgð á honum að tryggja að þrátt fyrir skort á vottuninni muni öryggis og heilbrigðis starfsmanna samt sem áður vera gætt í hvívetna, t.d. með því að tryggja að færibandið sé búið öllum hlífum sem mögulega gætu komið í veg fyrir klemmihættu og að útvega starfsfólki föt við hæfi. Þetta hafi vinnuveitandi ekki gert sem valdi því að enn ríkari sök hvíli á honum, haldi hann starfsmönnum til vinnu við tæki sem ekki sé CE-vottað. Vinnuveitandi hafi vanrækt skyldur sínar samkvæmt grein 2.8. í viðauka I. í reglugerð nr. 367/2006, um notkun tækja. 

Stefnandi kveður upplýsingar í lögregluskýrslu um að neyðarrofi vegna færibandsins hafi verið staðsettur í rafmagnstöflu í um 8 metra fjarlægð frá færibandinu tengist því að tækið sé ekki CE-vottað. Stefnandi hafi verið ein í salnum þegar henni hafi verið fengið það verk að þrífa færibandið og því hafi hún sjálf ekki átt þess kost að stöðva færibandið ef eitthvað færi úrskeiðis. Hún hafi þurft að hrópa á hjálp og þegar hún hafi loks borist, hafi viðkomandi starfsmaður ekki vitað hvað hann ætti að gera eða hvar hann ætti að slökkva á færibandinu. Verkstjórinn hafi setið í verkstjórakompu en farið til stefnanda þegar hún hafi heyrt hana hrópa og þá séð að stefnandi var föst. Verkstjórinn hafði þá farið aftur að rafmagnstöflu, sem hafi verið staðsett á vegg nærri dyrum að verkstjórakompu, til þess að stöðva færibandið. Hafi þetta tekið um 20 sekúndur. Stefnandi telur að vinnuveitandi hefði mátt hafa fleiri neyðarrofa á eða við færibandið til þess að starfsfólki væri unnt að bjarga eða koma í veg fyrir frekari skaða þess, sem klemmst hafi í óhlífðum og óvottuðum færiböndum. Þar sem einungis hafi verið einn neyðarrofi í mikilli fjarlægð frá færibandinu og enginn starfsmaður nálægt rofanum, sem hafi fylgst með störfum stefnanda, hafi vinnuveitandi ekki gætt fyllsta öryggis og góðs aðbúnaðar fyrir starfsmenn sína og hafi með háttsemi sinni valdið enn frekara tjóni.

Stefnandi vísar til þess að í umsögn Vinnueftirlitsins komi fram að skrifleg áætlun og áhættumat liggi fyrir hjá vinnuveitanda en ekki um þann verkþátt sem stefnandi vann að. Í bréfi, dagsettu 11. febrúar 2014, komi fram að slysið hafi átt sér stað í vigtarsal sem sé hluti móttöku. Í niðurstöðu áhættumats, sem fylgdi bréfi tryggingafélagsins, komi fram að kuldinn sé mesta hættan í móttöku, fólk þurfi að vera vel klætt og nauðsynlegt sé að loka dyrum þegar ekki sé verið að taka á móti fiski. Í áhættumatinu sé hvergi minnst á þrif á færiböndum og tækjum né heldur leiðbeiningar um framkvæmd þeirra starfa. Stefnandi hafi ekki unnið við eftirlitsstörf í vigtunarsalnum þegar slysið átti sér stað, heldur hafi það orðið við sjálfvirkt færiband sem ekki hafi verið unnið við, og þá hafi ekki verið um stíflu að ræða. Stefnanda hafi ekki verið kynnt framangreint áhættumat og hún hafi ekki verið að vinna þau störf sem áhættumatið hafi tekið til. Þrif á tækjum hafi ekki verið áhættumetin hjá vinnuveitanda og sé það brot á 4. gr. reglugerðar nr. 367/2006.

Stefnandi bendir á að vinnuveitandi hafi ekki sinnt forvarnar- og kynningarhlutverki sínu gagnvart starfsmönnum. Í niðurstöðu áhættumats vinnuveitanda komi fram undir liðnum Hausun, flokkun og flökun fyrir bolfisk að kenna þurfi fólki á vélarnar og sýna því hvar neyðarrofa sé að finna. Áhættumatið sé frá því í september 2007 og gefi gögn málsins til kynna að vinnuveitandi hafi ekki fylgt eigin áhættumati.

Að öllu framangreindu virtu verði meginorsök tjóns stefnanda og hve alvarlegt tjónið var með tilliti til þess tíma, sem hún hafi verið föst í vélinni á meðan hún var í gangi, rakin til vinnuveitanda, eins og eftirlitsmaður Vinnueftirlitsins hafi staðfest. Að teknu tilliti til þess hversu mikið tjónið hafi orðið, eðlis bótaábyrgðar, aðstæðna á vettvangi, hagsmuna stefnanda, vátrygginga og annarra atvika séu skilyrði fyrir hendi til þess að líta fram hjá því ef stefnandi verður talin meðvaldur að tjóni sínu. Stefnandi hafi ekki sýnt af sér gáleysi við störf sín en verði hún með einhverjum hætti talin eiga sök á slysinu, verði það einungis talið einfalt gáleysi og séu því ekki uppfyllt skilyrði til þess að skerða bætur til hennar úr ábyrgðartryggingu og slysatryggingu launþega.

Stefnandi byggir á ákvæðum laga um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum nr. 46/1980, reglugerðar um notkun tækja nr. 367/2006, reglna um öryggis- og heilbrigðismerki á vinnustöðum nr. 707/1995, reglugerðar um skipulag og framkvæmd vinnuverndarstarfs á vinnustöðum nr. 920/2006, reglugerðar um vélar og tæknilegan búnað nr. 1005/2009, reglna og leiðbeininga Vinnueftirlits ríkisins um öryggisbúnað véla nr. 492/1987 og á meginreglum vinnuréttar. Þá er byggt á ákvæðum skaðabótalaga nr. 50/1993, einkum 23. gr. a og 2. mgr. 24. gr., og lögum um vátryggingarsamninga nr. 30/2004, einkum 3. mgr. 27. gr. Málskostnaðarkrafa stefnanda styðst við 1. mgr. 130. gr. laga 91/1991, um meðferð einkamála, og krafa um virðisaukaskatt af málflutningsþóknun er reist á lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt. Um varnarþing vísar stefnandi til 33. og. 42. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála. 

IV

Stefndi, Ísfélag Vestmannaeyja, krefst sýknu af öllum kröfum stefnanda vegna aðildarskorts, sbr. 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, enda sé kröfu stefnanda ranglega beint gegn honum.

Dómkrafa stefnanda sé sett fram með þeim hætti að viðurkenndur verði réttur hennar til fullra bóta úr frjálsri ábyrgðartryggingu og slysatryggingu launþega sem stefndi, Ísfélag Vestmannaeyja hf., hafði í gildi hjá stefnda, Tryggingamiðstöðinni hf. Kröfu um rétt stefnanda til bóta úr tiltekinni vátryggingu verði ekki beint að stefnda, Ísfélagi Vestmannaeyja hf., enda verði máli ekki með réttu beint að öðrum en þeim sem geti látið hagsmunina af hendi eða verði að þola þá. Stefndi, Ísfélag Vestmannaeyja hf., hafi keypt vátryggingar á slysdegi, sem taki til tjóns stefnanda, en kröfu um viðurkenningu réttar til bóta úr umræddum vátryggingum verði ekki beint að félaginu sem ekki sé réttur aðili til að bera þær skyldur sem stefnandi krefst viðurkenningar á. Af þeim sökum beri að sýkna stefnda, Ísfélag Vestmannaeyja hf., af öllum kröfum stefnanda vegna aðildarskorts.

V

Stefndi, Tryggingamiðstöðin hf., bendir á að á slysdegi hafi verið í gildi tvær vátryggingar hjá stefnda, Tryggingamiðstöðinni hf., sem taki til afleiðinga slyss stefnanda. Annars vegar hafi verið í gildi slysatrygging launþega, sem sé kjarasamningsbundin vátrygging sem vátryggir launþega vegna slysa sem verða við vinnu, og hins vegar hafi verið í gildi ábyrgðartrygging sem taki til skaðabótaábyrgðar stefnda, Ísfélags Vestmannaeyja hf., þ. á m. vegna vinnuslysa sem verði vegna atvika eða aðstæðna sem virt verði félaginu með einhverjum hætti til sakar.

Stefndi, Tryggingamiðstöðin hf., bendir á að ábyrgð félagsins vegna slyssins ákvarðist á ólíkum grundvelli eftir því hvor vátryggingin eigi í hlut. Bætur úr slysatryggingu launþega ákvarðist fyrst og fremst af kjarasamningi, skilmálum slysatryggingar launþega og lögum um vátryggingarsamninga, en réttur til bóta úr ábyrgðartryggingu ákvarðist af ólögfestum reglum skaðabótaréttarins og 1. mgr. 23. gr. a.  í skaðabótalögum nr. 50/1993. Fjárhæðir bóta séu reiknaðar samkvæmt reglum sömu laga. Þrátt fyrir framangreindan mun á þessum tveimur vátryggingum, liggi í báðum tilfellum til grundvallar sömu sjónarmið að því er varðar skerðingu bóta til stefnanda vegna stórkostlegs gáleysis.

Í skilmálum slysatryggingar launþega nr. 380 hjá stefnda, Tryggingamiðstöðinni hf., komi fram í grein 5.2 að valdi vátryggður vátryggingaratburði af ásetningi eða stórkostlegu gáleysi fari um ábyrgð félagsins eftir því sem segi í 89. og 90. gr. laga um vátryggingarsamninga nr. 30/2004. Í 90. gr. laganna sé fjallað um þær aðstæður þegar vátryggingaratburði er valdið af gáleysi og tilgreint að hafi vátryggður valdið því af stórkostlegu gáleysi að vátryggingaratburður varð, megi lækka eða fella niður ábyrgð félagsins. Í 1. mgr. 23. gr. a. í skaðabótalögum nr. 50/1993 sé kveðið á um að verði starfsmaður fyrir líkamstjóni í starfi sínu skerðist ekki réttur hans til skaðabóta vegna meðábyrgðar nema hann hafi af stórkostlegu gáleysi eða ásetningi átt þátt í að tjónsatburður varð. Skilyrði skerðingar bóta í umræddum vátryggingum séu þannig að öllu leyti hliðstæðar og réttaráhrif þess að vátryggður sýnir af sér stórkostlegt gáleysi séu þau sömu. Álitaefni þessa máls lúti eingöngu að því, hvort stefnandi hafi sýnt af sér stórkostlegt gáleysi þannig að stefndi, Tryggingamiðstöðin hf., hafi með réttu skert bætur til hennar.

Stefndi, Tryggingamiðstöðin hf., hafi fallist á bótaskyldu úr báðum vátryggingum og hafi afstaða til skaðabótaábyrgðar stefnda, Ísfélags Vestmannaeyja hf., einkum byggst á þeirri niðurstöðu Vinnueftirlitsins að hlífar hefðu átt að vera við enda eða hliðar færibandsins eða annar öryggisbúnaður, sem hindraði að hönd kæmist inn í færibandið. Hins vegar telur stefndi, Tryggingamiðstöðin hf., ljóst að mjög ráðandi orsök slyssins hafi verið stórfellt gáleysi stefnanda sjálfrar og í samræmi við það hafi bætur verið lækkaðar um helming.

Stefndi bendir á að þegar stefnandi slasaðist, hafi hún unnið við þrif í vigtarsal uppsjávarvinnslu og hafi þrifin falist í því að smúla gólf og færiband. Vinnsla hafi verið í fullum gangi og vélar og færibönd þess vegna á hreyfingu. Þegar stefnanda hafi ekki tekist að losa loðnu, sem hafi verið föst í færibandinu, hafi hún tekið þá ákvörðun að stinga hönd sinni inn í færibandið með þeim afleiðingum að fatnaður hennar hafi fest í bandinu og hún slasast. Þá ákvörðun stefnanda að stinga hendinni inn í færiband á hreyfingu telja stefndu vera stórkostlegt gáleysi af hennar hálfu, enda hafi henni verið fyllilega ljóst að slíkt væri bæði stórhættulegt og stranglega bannað.

Á slysdegi hafði stefnandi unnið hjá stefnda, Ísfélagi Vestmannaeyja hf., í u.þ.b. fimm ár. Hún hafi því verið alvön þrifum og hefði unnið við slík verkefni allan sinn starfstíma. Stefnandi hefði farið í gegnum hefðbundna nýliðaþjálfun og setið námskeið þar sem brýnt hafi verið fyrir starfsmönnum að brjóta ekki reglur um umgengni við vélar. Í kennslunni sé farið sérstaklega yfir að það sé stranglega bannað að setja hendur inn í vélar og færibönd sem eru í gangi. Stefnandi hafi enn fremur fengið kennslu í öryggismálum á svokölluðu fóstranámskeiði en meðal verkefna fóstra sé að leiðbeina nýliðum, þ. á m. um öryggismál. Öll gögn málsins beri með sér að stefnandi hafi verið vanur starfsmaður og því vel kunnug reglum um umgengni við færibönd og vélar.

Til að taka af allan vafa bendir stefndi á, að stefndi, Ísfélag Vestmannaeyja hf., hafi aldrei ætlast til þess að starfsmenn settu hendur inn í vélar við þrif, heldur sé allt kapp lagt á að koma í veg fyrir slíka hegðun eins og aðra þá sem sé til þess fallin að skapa hættu eða auka líkur á slysum.

Stefndi gerir sérstakar athugasemdir við nokkur atriði í málatilbúnaði stefnanda þar sem nokkuð frjálslega þyki farið með ýmis atriði sem lúti að orsökum slyssins. Þar virðist reynt að gera sem mest úr sök stefnda, Ísfélags Vestmannaeyja hf., í því augnamiði að gera ábyrgð stefnanda léttvæga í samanburði. Í stefnu séu sjónarmið um sök stefnda, ÍsfélagsVestmannaeyja hf., dregin saman með eftirfarandi hætti á bls. 4: „Sök vinnuveitanda á slysinu er fyrst og fremst byggð á því að vélin var ekki CE-merkt, nauðsynlegar hlífar voru ekki á vélinni, galli stefnanda var of stór, neyðarrofi var ekki staðsettur við vélina, starfsmenn höfðu ekki vitneskju um neyðarrofa og ekki lá fyrir skriflegt áhættumat og áætlun um forvarnir er varða þá vinnu sem stefnandi sinnti.“

Stefndu árétti að skaðabótaábyrgð stefnda, Ísfélags Vestmannaeyja hf., á slysinu byggist á þeirri forsendu að tilteknar öryggishlífar hefðu getað komið í veg fyrir að stefnanda tækist að stinga hendi sinni inn í færibandið. Ekkert liggi fyrir um að sú staðreynd að vélin hafi ekki verið CE-merkt sé orsök slyssins eða að vélin hefði ekki uppfyllt skilyrði fyrir CE-merkingu án umræddra hlífa. Því sé mótmælt sem ósönnuðu að vinnufatnaður stefnanda hafi verið með einhverjum hætti ófullnægjandi eða óhentugur sem og staðsetning neyðarrofa en ekkert komi fram í málinu um að starfsmenn hefðu átt erfitt með að ganga að rofanum vísum. Varðandi staðsetningu neyðarrofa, benda stefndu á að á umræddu vinnusvæði séu engir starfsmenn að störfum við færibandið nema við þrif. Orsök slyssins sé þess vegna með engu móti sú að neyðarrofa hafi vantað við vélina né verði það virt stefnda, Ísfélagi Vestmannaeyja hf., til sérstakrar sakar. Stefndu árétta að niðurstaða Vinnueftirlitsins um meginorsök slyssins sé sú, að engar hlífar hafi verið við enda eða hliðar bandsins eða annar öryggisbúnaður sem hindraði að hönd kæmist í klemmihættu. Á þeim forsendum sé bótaábyrgð stefndu fyrir hendi. Sjónarmiðum í málatilbúnaði stefnanda um yfirgnæfandi sök stefnda, Ísfélags Vestmannaeyja hf., í samanburði við sök stefnanda sé því sérstaklega mótmælt.

Með vísan til alls framangreinds krefst stefndi, Tryggingamiðstöðin hf., sýknu af öllum kröfum stefnanda og af hálfu stefnda, Ísfélags Vestmannaeyja hf., er jafnframt vísað til framangreindra málsástæðna telji dómurinn ekki forsendur til að sýkna þann stefnda vegna aðildarskorts.

Varakrafa stefndu um lækkun bóta með þeim hætti að stefnanda verði gert að bera tjón sitt að ¼ hluta byggist á því að skerðing bóta um fjórðung sé lægsta hlutfall sem tjónþoli sé í dómaframkvæmd í seinni tíð látinn bera vegna stórkostlegs gáleysis. Með vísan til þeirra sjónarmiða, sem byggt sé á í aðalkröfu, telja stefndu sýnt að gáleysi stefnanda í þessu máli sé slíkt að skerðing bóta um fjórðung sé lágmarksskerðing.

Um lagarök vísa stefndu til almennra skaðabótareglna, laga um vátryggingarsamninga nr. 30/2004, skaðabótalaga nr. 50/1993 og laga um meðferð einkamála nr. 91/1991, einkum III. kafla. Um málskostnaðarkröfu er vísað til XXI. kafla laga nr. 91/1991.

VI

Helstu atvik málsins eru óumdeild. Bæði í stefnu og greinargerð stefndu er því lýst að stefnandi hafi 2. febrúar 2013 orðið fyrir slysi við vinnu sína hjá stefnda, Ísfélagi Vestmannaeyja hf., við þrif á gólfum og færiböndum í vinnslusal félagsins. Af framlagðri matsgerð verður ráðið að við skoðun á heilsugæslunni í Vestmannaeyjum í kjölfar slyssins hafi komið í ljós að stefnandi hafi hlotið opið beinbrot á vinstri framhandlegg og hendi, þ.e. þverbrot um miðju beggja framhandleggsbeina með töluverðri tilfærslu, ásamt skábroti á fjærhluta sveifarbeins.

Af hálfu stefnda, Ísfélags Vestmannaeyja hf., er sýknukrafa byggð á aðildarskorti samkvæmt ákvæðum 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála. Kröfu um rétt stefnanda til bóta úr tiltekinni vátryggingu verði ekki beint að þessu félagi, enda sé það ekki réttur aðili til að bera þær skyldur sem stefnandi krefjist. Þótt kröfugerð stefnanda í málinu sé sett fram með þeim hætti að krefjast viðurkenningar á rétti stefnanda til fullra bóta úr tilteknum tryggingum Ísfélags Vestmannaeyja hf. hjá Tryggingamiðstöðinni hf. er ljóst af málatilbúnaði hennar að málið lýtur að bótaskyldu sem byggist á ætlaðri sök Ísfélags Vestmannaeyja hf. sem vinnuveitanda á tjóni stefnanda vegna umrædds vinnuslyss. Að því virtu verður ekki fallist á sýknukröfu stefnda, Ísfélags Vestmannaeyja hf., á grundvelli 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.

Óumdeilt er í málinu að stefnandi átti rétt á bótum bæði úr frjálsri ábyrgðartryggingu og slysatryggingu launþega sem stefndi, Ísfélag Vestmannaeyja hf., hafði í gildi hjá stefnda, Tryggingamiðstöðinni hf., þegar slys stefnanda varð. Af hálfu stefnda, Tryggingamiðstöðvarinnar hf., hefur verið fallist á skaðabótaábyrgð á tjóni stefnanda að hluta. Fyrir liggur að bótakrafa stefnanda var gerð upp í samræmi við þá niðurstöðu úrskurðarnefndar í vátryggingamálum frá 15. apríl 2014 að stefnandi skyldi bera þriðjung (⅓) tjóns síns sjálf á grundvelli meðábyrgðar vegna stórkostlegs gáleysis hennar. Ágreiningur máls þessa lýtur hins vegar að því, hvort stefnandi eigi rétt á fullum bótum úr framangreindum tryggingum eða hvort tjón hennar er að fullu uppgreitt á grundvelli eigin sakar vegna stórkostlegs gáleysis hennar, svo sem stefndi, Tryggingamiðstöðin ehf., byggir sýknukröfu sína á.

Af hálfu stefnanda er á því byggt, að vinnuveitandi hennar hafi brotið svo gróflega gegn reglum um öryggi og aðbúnað á vinnustað að sök hans yfirgnæfi þá háttsemi stefnanda umrætt sinn sem hugsanlega geti talist hafa falið í sér áhættu. Því sé ekki unnt að leggja hluta sakar á stefnanda og beri henni því fullar bætur úr hendi stefndu. Sök vinnuveitanda felist í því að færibandið hafi ekki verið CE-merkt, nauðsynlegar hlífar hafi ekki verið á því, vinnugalli stefnanda hafi verið of stór, neyðarrofi hafi ekki verið staðsettur við færibandið, auk þess sem starfsmenn hafi ekki haft vitneskju um staðsetningu neyðarrofa, og þá hafi ekki legið fyrir skriflegt áhættumat og áætlun um forvarnir vegna vinnu stefnanda.

Í umsögn Vinnueftirlitsins um slysið er því lýst að umrætt færiband hafi ekki verið CE-merkt og að ekki hafi legið fyrir hver smíðaði það. Færibandinu hafi verið stjórnað af búnaði sem gangsetti það eða stöðvaði sjálfkrafa. Einn neyðarstöðvunarrofi væri fyrir færibandið á vegg nærri dyrum verkstjórakompu. Loks er því lýst að engar hlífar hafi verið við enda eða hlið færibandsins. Hlífaleysið var í umsögninni talin vera meginorsök slyss stefnanda og hefur stefndi, Tryggingamiðstöðin hf., viðurkennt bótaskyldu sína vegna þess, svo sem áður er rakið.

Vinnueftirlitið telur það hafa verið meðvirkandi þátt slyssins að ekki hafi legið fyrir skriflegt áhættumat og áætlun um forvarnir sem varða umrædda vinnu. Í skýrslu sinni við aðalmeðferð málsins tók Hannes Snorrason, eftirlitsmaður hjá Vinnueftirlitinu og höfundur umsagnarinnar, fram að umrætt færiband hefði verið hættulegt tæki og ekki útbúið þannig að það útilokaði hættuna af því, t.d. með því að hafa hlífabúnað á færibandinu eða annan öryggisbúnað sem stöðvaði tækið þegar komið væri inn á hættusvæði. Óumdeilt er að hlífar vantaði á færibandið en ekki verður séð að þess hafi verið getið í framlagðri niðurstöðu áhættumats Ísfélags Vestmannaeyja hf., sem unnið var af Gunnari Geir Gústafssyni öryggisverði og Hildi Stefánsdóttur öryggistrúnaðarmanni dagana 15.-30. september 2007, og verður að virða það fyrirtækinu til sakar að á þessi atriði skorti.

Að því er varðar CE-merkingu á færibandinu, kvað Hannes Snorrason CE-merkingar stafa frá framleiðendum tækja og því væri það á ábyrgð framleiðenda að sjá um að skilyrði merkinganna væru uppfyllt. Þá kvað hann engar upplýsingar hafa fengist um aldur umrædds færibands og því gæti hann ekkert fullyrt um það, hvort skylt hefði verið að hafa það CE-merkt. Í þessu ljósi og þar sem ekkert liggur fyrir í málinu um það, hvernig CE-merking færibandsins hefði getað komið í veg fyrir umrætt slys eða haft með einhverjum hætti áhrif á atburði, er það mat dómsins að ekki verði byggt á því að skortur á CE-merkingu færibandsins hafi verið meðvirkandi þáttur í umræddu slysi stefnanda.

Samkvæmt ákvæði 2.3. í I. viðauka reglugerðar nr. 367/2006, um notkun tækja, skal með öllum tækjum fylgja stjórnbúnaður til að stöðva þau að fullu og tryggilega, auk þess sem á hverjum vinnustað á að vera stjórnbúnaður til að stöðva öll tæki eða sum þeirra, eftir því hver hættan er, svo ástand tækjanna sé þannig að engin hætta stafi af þeim. Í grein 2.4. í sama viðauka segir að sé þess þörf skuli tæki búin neyðarbúnaði til stöðvunar sem miðast við hættuna sem af þeim stafar og þann tíma sem venjulega taki að stöðva þau. Í málinu liggur fyrir að til staðar var neyðarrofi, sem tengdist færibandinu, og að hann var staðsettur á vegg fyrir utan verkstjóraskrifstofu við hlið vinnslusalarins í um það bil átta metra fjarlægð frá slysstað. Þá er óumdeilt að verkstjóri heyrði hróp stefnanda umrætt sinn og slökkti á færibandinu með því að ýta á neyðarrofann. Í umsögn Vinnueftirlitsins er hvorki staðsetning neyðarrofa né skortur á fleiri rofum talin upp sem orsök slyss stefnanda. Að þessu virtu og þar sem ekkert er leitt í ljós sem leiðir líkur að því að önnur tilhögun neyðarrofa hefði ráðið úrslitum, eins og atvikum málsins var háttað, er það mat dómsins að staðsetning neyðarrofa verði ekki virt vinnuveitanda stefnanda til aukinnar sakar.

Stefnandi byggir jafnframt á því að sök stefnda, Ísfélags Vestmannaeyja hf., hafi falist í því að stefnanda hafi verið látinn í té of stór vinnugalli til að íklæðast við störf sín og lýsti stefnandi því í skýrslu sinni fyrir dóminum að ekki hefðu verið til í fyrirtækinu gallar af þeirri stærð sem hæfðu henni. Sérstaklega aðspurður kvaðst vitnið, Hannes Snorrason, ekki telja að klæðnaður stefnanda gæti skipt hér máli, enda ættu starfsmenn ekki að komast í hættu við vinnu sína. Óumdeilt er að á færibandinu voru hvorki tilskildar hlífar né annar öryggisbúnaður og að það var aðalorsök slyssins. Að því virtu og þegar litið er til þess að stefnandi teygði hönd sína inn í færibandið til að losa loðnu verður að telja ósannað að of stór vinnuklæðnaður stefnanda teljist hafa verið meðvirkandi orsök slyssins.

Ljóst er og ágreiningslaust að skilyrði til skerðingar bóta samkvæmt bæði slysatryggingu launþega og ábyrgðartryggingu stefnda, Ísfélags Vestmannaeyja hf., hjá stefnda, Tryggingamiðstöðinni hf., eru hliðstæð og byggjast á því að starfsmaður hafi átt þátt í eða valdið tjónsatburði af ásetningi eða stórkostlegu gáleysi.

Svo sem framlögð gögn málsins bera með sér voru engin vitni að umræddu slysi stefnanda. Ljóst er þó að lögregla kom á vettvang í kjölfar þess og ritaði skýrslu um atvikið, auk þess sem lögregluskýrsla var tekin af stefnanda skömmu síðar. Samkvæmt framburði stefnanda hjá lögreglu var hún að vinna við að smúla undir færibandi á meðan það var í gangi og þá hafi loðna verið föst í færibandinu. Stefnandi kvaðst ítrekað hafa reynt að ná loðnunni úr færibandinu með því að sprauta vatni á hana en þegar það gekk ekki, kvaðst hún hafa ákveðið að reyna að losa loðnuna með því að grípa í hana. Við það hefði færibandið náð að krækja í ermina á vinstri handlegg hennar og þótt hún hefði í upphafi náð að losa sig, hefði færibandið náð að grípa aftur í ermina þannig að stefnandi hefði dregist með færibandinu einhvern spöl. Atvikinu er í aðalatriðum lýst á sama veg í tilkynningum til Vinnueftirlitsins og Sjúkratrygginga Íslands þannig að stefnandi hafi verið að vinna við þrif í vigtarsal uppsjávarvinnslu á meðan vinnsla var í gangi. Hún hafi teygt vinstri hönd inn í færibandið til þess að fjarlægja loðnu á meðan vélin var í gangi. Færibandið hafi gripið í kuldagalla stefnanda og dregið hönd hennar inn undir öxulinn.

Samkvæmt framburði stefnanda hjá lögreglu hafði hún unnið hjá stefnda, Ísfélagi Vestmannaeyja hf., í fimm ár þegar slysið varð. Þá ber framlögð þjálfunarskrá með sér að stefnanda voru á árinu 2010 kenndir vinnsluþættir sem m.a. lutu að þrifum í móttöku og flökunarsal. Stefnandi kannaðist jafnframt við það í skýrslu sinni fyrir dóminum, að hún hefði farið á öryggisnámskeið hjá fyrirtækinu og útilokaði ekki að hún hefði á slíku námskeiði séð myndband sem er meðal gagna í málinu. Í myndbandinu er fjallað um öryggismál hjá félaginu og þar er m.a. tekið sérstaklega fram að stranglega sé bannað að setja hendur inn í vélar eða færibönd sem eru í gangi. Kom enda fram í vætti vitnsins Guðjóns Viðars Helgasonar, starfsmanns Ísfélags Vestmannaeyja hf., að það ætti að slökkva á færiböndum áður en reynt væri að losa eitthvað úr þeim og væri það yfirleitt gert. Það er mat dómsins að líta verði svo á að starfsmanni, sem hefur nokkurra ára reynslu af þrifum á vélum eða í návígi við þær, eigi að vera ljós hættan sem af þeim stafar og eigi jafnframt að gera sér grein fyrir því, að slík tæki beri að umgangast af varúð og fullri aðgát. Í ljósi alls framangreinds er það því mat dómsins að sú háttsemi stefnanda að reyna að losa fisk úr færibandi með höndunum, án þess að slökkva á því áður, verði að virða henni til sakar vegna stórkostlegs gáleysis. Eru því uppfyllt skilyrði fyrir skerðingu bóta tjónþola, bæði samkvæmt 2. mgr. 27. gr. laga nr. 30/2004, um vátryggingarsamninga, að því er slysatryggingu varðar og samkvæmt 1. mgr. 23. gr. a. í skaðabótalögum nr. 50/1993 að því er varðar ábyrgðartryggingu. Að virtum atvikum öllum, sem hér hafa verið rakin, og háttsemi annars vegar stefnanda og hins vegar vinnuveitanda hennar metin í ljósi alls framangreinds, er það mat dómsins að leggja verði ábyrgð á tjóninu á stefnanda að hluta til. Dómurinn telur hæfilegt að stefnandi beri ⅓ hluta tjóns síns. Eins og áður er rakið liggur fyrir að stefnanda hefur verið bætt tjón hennar samkvæmt þeirri niðurstöðu og því ber að sýkna báða stefndu af öllum kröfum stefnanda í málinu.

Þrátt fyrir framangreinda niðurstöðu, þykir eftir atvikum rétt að málskostnaður milli aðila falli niður.

Eins og áður er rakið, nýtur stefnandi gjafsóknar í málinu og greiðist allur gjafsóknarkostnaður stefnanda því úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns hennar, Steins S. Finnbogasonar hdl., sem þykir hæfilega ákveðin 970.000 krónur. Hefur þá verið tekið tillit til greiðslu virðisaukaskatts af málflutningsþóknun.

Arnfríður Einarsdóttir héraðsdómari kveður upp dóm þennan.

Dómsuppsaga hefur dregist vegna embættisanna dómarans.

D ó m s o r ð

Stefndu, Ísfélag Vestmannaeyja hf. og Tryggingamiðstöðin hf., eru sýkn af öllum kröfum stefnanda í málinu.

   Allur gjafsóknarkostnaður stefnanda greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns hennar, Steins S. Finnbogasonar hdl., 970.000 krónur, að meðtöldum virðisaukaskatti.