Print

Mál nr. 613/2008

Lykilorð
  • Kærumál
  • Upplýsingaskylda
  • Fjarskipti
  • Friðhelgi einkalífs
  • Stjórnarskrá
  • Lögskýring

                                     

Mánudaginn 17. nóvember 2008.

Nr. 613/2008.

Sýslumaðurinn á Selfossi

(Gunnar Örn Jónsson, fulltrúi)

gegn

Símanum hf.

(Andri Árnason hrl.)

 

Kærumál. Upplýsingaskylda. Fjarskipti. Friðhelgi einkalífs. Stjórnarskrá. Lögskýring.

L krafðist þess að S hf. yrði gert skylt að afhenda upplýsingar um öll þau gsm-símtæki sem í notkun höfðu verið á Eyrarbakkavegi, vestan Óseyrarbrúar í Ölfusi, á nánar tilgreindu tímabili. Í dómi Hæstaréttar kemur fram að samkvæmt 1. mgr. 71. gr. stjórnarskrárinnar skuli allir njóta friðhelgi einkalífs, heimilis og fjölskyldu. Ákvæði b. liðar 86. gr. og 1. mgr. 87. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála feli í sér undantekningu frá 1. mgr. 71. gr. stjórnarskrárinnar, samkvæmt heimild 2. og 3. mgr. sama ákvæðis, og hafa að geyma ákvæði um íþyngjandi rannsóknarúrræði. Af þeim sökum yrðu þau ekki skýrð rýmra en leiðir af texta þeirra. Talið var að krafa L gengi lengra en rúmaðist innan ákvæða 86. gr. og 87. gr. laga nr. 19/1991 og var henni því hafnað.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Hjördís Hákonardóttir og Páll Hreinsson.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 10. nóvember 2008, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 13. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 7. nóvember 2008, þar sem varnaraðila var gert að afhenda lögreglunni á Selfossi upplýsingar „um þau gsm-símtæki sem voru í notkun á Eyrarbakkavegi vestan Óseyrarbrúar í Ölfusi, á tímabilinu frá kl. 16:00  miðvikudaginn 5. nóvember til kl. 16:30 þann sama dag.“ Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og honum dæmdur kærumálskostnaður.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar ásamt því að kröfu  varnaraðila um kærumálskostnað verði hafnað.

I

Svo sem greinir í hinum kærða úrskurði rannsakar lögreglan á Selfossi umferðarlagabrot tveggja ökumanna 5. nóvember 2008 en báðir voru þeir mældir á ofsahraða á Eyrarbakkavegi vestan Óseyrarbrúar. Annar þeirra stöðvaði fyrir lögreglu, en hinn sinnti ekki stöðvunarmerkjum lögreglu og komst undan. Sóknaraðili kveður að báðir lögreglumennirnir, sem að mælingu stóðu, staðhæfi að í umrætt sinn hafi sá ökumaður, sem undan komst, að auki verið í símanum þegar lögreglubifreiðin mætti honum. Krafa sóknaraðila er byggð á b. lið 1. mgr. 86. gr., sbr. 1. mgr. 87. gr. laga nr. 19/1991.

Varnaraðili telur að skilyrði þess að ákvæði b. liðar 86. gr., sbr. 1. mgr. 87. gr. laga nr. 19/1991 verði beitt sé að rökstuddur grunur sé fyrir hendi um að tiltekinn sími eða fjarskiptatæki hafi verið notað í tengslum við refsivert brot. Sú aðstaða sé hins vegar ekki fyrir hendi í því tilviki sem hér um ræðir.

II

Samkvæmt b. lið 86. gr., sbr. 87. gr. laga nr. 19/1991 getur lögregla krafist upplýsinga hjá síma- eða fjarskiptafyrirtækjum um símtöl eða fjarskipti við tiltekinn síma eða fjarskiptatæki að fengnum dómsúrskurði um skyldu þeirra til að veita slíkar upplýsingar, enda sé fullnægt skilyrðum 2. mgr. 87. gr. laganna.

Samkvæmt 1. mgr. 71. gr. stjórnarskrárinnar skulu allir njóta friðhelgi einkalífs, heimilis og fjölskyldu. Ákvæði b. liðar 86. gr. og 1. mgr. 87. gr. laga nr. 19/1991 fela í sér undantekningu frá 1. mgr. 71. gr. stjórnarskrárinnar samkvæmt heimild 2. og 3. mgr. sama ákvæðis og hafa að geyma ákvæði um íþyngjandi rannsóknarúrræði. Af þeim sökum verða þau ekki skýrð rýmra en leiðir af texta þeirra.

Skilyrði þess að greindum lagaákvæðum verði beitt samkvæmt texta þeirra er að rökstuddur grunur sé fyrir hendi um að tiltekinn sími eða fjarskiptatæki hafi verið notað í tengslum við refsivert brot, sbr. dóma í dómasafni réttarins árin 2001, bls. 1339 og 2006, bls. 5758. Í málinu er sú aðstaða ekki fyrir hendi að krafan beinist að tilteknum síma eða fjarskiptatæki heldur beinist hún að því að veittar verði upplýsingar um öll þau „gsm-símtæki“ sem notuðu voru á Eyrabakkavegi vestan Óseyrarbrúar í Ölfusi  á tilgreindum tíma. Þar sem krafa sóknaraðila gengur lengra en rúmast innan ótvíræðs orðalags b. liðar 86. gr. og 1. mgr. 87. gr. laga nr. 19/1991 verður henni hafnað. Varnaraðila verður dæmdur kærumálskostnaður úr ríkissjóði eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Hafnað er kröfu sóknaraðila, sýslumannsins á Selfossi, um að varnaraðili, Síminn hf., skuli afhenda lögreglunni á Selfossi, upplýsingar um þau gsm-símtæki sem voru í notkun á Eyrarbakkavegi vestan Óseyrarbrúar í Ölfusi, á tímabilinu frá kl. 16 miðvikudaginn 5. nóvember til kl. 16.30 þann sama dag.

Kærumálskostnaður varnaraðila, 150.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði.    

 

Úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 7. nóvember 2008.

Lögreglustjórinn á Selfossi  hefur gert þá kröfu að Héraðsdómur Suðurlands úrskurði að fjarskiptafyrirtækjum verði með úrskurði gert skylt að afhenda lögreglunni á Selfossi upplýsingar yfir öll þau gsm símtæki sem voru notuð á tímabilinu frá kl. 16:00, miðvikudaginn 5. nóvember sl.,  til kl. 22:00 þann sama dag á Eyrarbakkavegi, vestan Óseyrarbrúar, Ölfusi.

Í greinargerð með kröfunni segir að um kl. 16:20, miðvikudaginn 5. nóvember sl., hafi lögreglumenn á eftirlitsferð á Eyrarbakkavegi, mætt tveimur ökutækjum á ofsahraða.  Mældist hraði fyrra ökutækisins 212 km á klst og þess seinna 192 km á klst.  Lögreglubifreiðinni hafi þegar þegar verið snúið við og hún þegar hafið eftirför. Skömmu síðar hafi ökumaður seinna ökutækisins stöðvað og hafi  lögreglumenn náð skráningarmerki bifreiðarinnar, en ökumaður fyrri bifreiðarinnar hafi sloppið frá lögreglu á ofsahraða. Vitni hafi haft samband við lögreglu og greint frá því að það telji að umræddri bifreið hafi verið ekið inn í Þorlákshöfn.  Ennfremur segir að lögreglumenn beri að umrætt sinn hafi ökumaður fyrri bifreiðarinnar verið í símanum. Lögregla telji að hinn óþekkti ökumaður hafi umrætt sinn valdið stórhættu í umferðinni, en þó nokkur umferð hafi verið á Eyrarbakkavegi er atburðirnir gerðust. Lögreglu sé því nauðsyn að afla ofangreindra upplýsinga til að upplýsa málið, en hér sé um að ræða einhvern mesta hraða sem mældur hefur verið hjá lögreglunni í Árnessýslu. Lögregla rannsaki nú brot hins óþekkta aðila á 2. mgr. 37. gr. umferðarlaga, nr. 50, 1987.  Ljóst sé að um sérlega alvarlegt brot sé að ræða, sem að lögum getur varðað allt að 2 ára fangelsi og séu mjög mikilvægir almannahagsmunir fyrir því að upplýsa málið. Lögreglustjóranum á Selfossi sé því nauðsyn á að fá nefndan úrskurð sbr. tilvitnuð lagaákvæði, enda sé full ástæða til þess að ætla að upplýsingar, sem geti skipt miklu fyrir rannsókn málsins, fáist með þessum hætti.

Með vísan til þess og með því að fullnægt er skilyrðum 87. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála þykir rétt að heimila þær rannsóknaraðgerðir, sem krafist er skv. heimild í b lið 86. gr. sömu laga svo sem greinir í úrskurðarorði.

Ástríður Grímsdóttir héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.

Úrskurðarorð:

Fjarskiptafyrirtæki skulu afhenda lögreglunni á Selfossi, upplýsingar um þau gsm-símtæki sem voru í notkun á Eyrarbakkavegi vestan Óseyrarbrú í Ölfusi,  á tímabilinu frá kl. 16:00 miðvikudaginn 5. nóvember til kl. 16:30 þann sama dag.