Print

Mál nr. 458/2006

Lykilorð
  • Náttúruvernd
  • Skipulag
  • Refsiheimild

Fimmtudaginn 18

 

Fimmtudaginn 18. janúar 2007.

Nr. 458/2006.

Ákæruvaldið

(Bogi Nilsson ríkissaksóknari)

gegn

Jóni Guðmundssyni

(Steingrímur Þormóðsson hrl.)

 

Náttúruvernd. Skipulagslög. Refsiheimild.

J var ákærður fyrir brot gegn lögum nr. 44/1999 um náttúruvernd og skipulags- og byggingarlögum nr. 73/1997 með því að hafa ekið jarðýtu og rutt slóða í þeim tilgangi að gera reiðveg eftir leið sem X ákvarðaði. J viðurkenndi að hafa ekið jarðýtu með þeim hætti sem í ákæru greindi og að honum hefði láðst að spyrja hvort tilskilin leyfi væru til verksins. Varð í ljósi aðstæðna allra að virða honum það til gáleysis, sérstaklega þegar litið var til þess viðkvæma landsvæðis sem raskað var víða á langri leið, reynslu hans og til þess hversu losaraleg framkvæmd og skipulag verksins var. Í ákæru var brot J meðal annars heimfært undir 2. mgr. 12. gr. laga nr. 44/1999, en orðalag ákvæðisins var ekki talið uppfylla þær kröfur sem gera verður til skýrleika refsiheimilda og hann því ekki sakfelldur fyrir brot gegn því. Hins vegar þótti verknaður J réttilega heimfærður undir 1. mgr. 17. gr., sbr. 76. gr. laga nr. 44/1999 og 1. mgr. 27. gr., sbr. 60. gr. skipulags- og byggingarlaga með áorðnum breytingum. Þótti refsing hans hæfilega ákveðin 200.000 króna sekt í ríkissjóð.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Árni Kolbeinson og Ingibjörg Benediktsdóttir.

Ríkissaksóknari skaut máli þessu til Hæstaréttar 27. júlí 2006 af hálfu ákæruvalds, sem krefst þess að ákærði verði sakfelldur samkvæmt ákæru og honum ákveðin refsing.

Ákærði krefst þess aðallega að héraðsdómur verði staðfestur, en til vara að sér verði ákveðin vægasta refsing sem lög leyfa.

Í ákæru 5. desember 2005 er ákærða gefið að sök að hafa að kvöldi miðvikudagsins 1. september 2004 rutt slóða í þeim tilgangi að gera reiðveg eftir leið sem X ákvarðaði með því að ganga á undan jarðýtu sem ákærði stýrði ,,frá Reykjakoti í Gufudal, ofan Hveragerðis, utan vega, til norðurs í átt að Hrómundartindum, um 3,95 km leið og að hafa þar á köflum tekið úr fláa í blautum jarðvegi með tönn ýtunnar, einkum á tveimur stöðum rétt ofan Sauðár og við Sauðártinda, og á svokölluðum Klóarmelum rutt slóð þvert í gegnum stórgrýttan mel...“ án þess að hafa aflað framkvæmdaleyfis sveitarstjórnar, án samþykkis landeiganda og án umsagnar og leyfis Umhverfisstofnunar. Í ákærunni er þessi háttsemi talin varða við 2. mgr. 12. gr., 1. mgr. 17. gr., 2. mgr. 37. gr. og 1. mgr. 38. gr., sbr. 76. gr. laga nr. 44/1999 um náttúruvernd og 1. mgr. 27. gr., sbr. 60. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997. Við munnlegan flutning málsins fyrir Hæstarétti féll ríkissaksóknari frá því að heimfæra brot ákærða undir 2. mgr. 37. gr. og 1. mgr. 38. gr. laga nr. 44/1999.

Ákærði hefur áratuga reynslu af stjórn stórvirkra vinnuvéla. Hann viðurkennir að hafa ekið 24 tonna jarðýtu þá leið og með þeim hætti er í ákæru greinir. Bar svæðið þess enn veruleg merki tæpum tveimur árum eftir verknaðinn eins og vettvangsganga í upphafi aðalmeðferðar í héraði leiddi í ljós. Er því ljóst að akstur ýtunnar hefur haft í för með sér varanleg spjöll á umhverfinu. Á þessum tíma vann verktakafyrirtækið Girðir ehf. að lagningu girðingar frá Grafningi að Drottningarholu við Hveragerði samkvæmt samningi við Vegagerðina. Hafði ákærði verið fenginn til að jafna undir girðingarstæðið með jarðýtu. C var fyrirsvarsmaður verktakans. Enda þótt C hafi haft milligöngu um að biðja ákærða um að vinna það verk, sem hann er ákærður fyrir, er ljóst af skýrslu ákærða hjá lögreglu og framburði hans fyrir dómi að hann gerði sér grein fyrir því að hann væri að útbúa reiðveg og að verkið væri unnið eftir beiðni X, sem sakfelldur var fyrir það í héraði. Hefur ákærði ekki með neinum haldbærum rökum skýrt með hvaða hætti gerð umrædds reiðvegar gæti talist hluti af fyrrgreindu verki við lagningu girðingarinnar. Reiðgatan var rudd að kvöldlagi með þeim hætti að X ákvarðaði reiðleiðina með því að ganga á undan ýtunni og verður ekki séð að til grundvallar verkinu hafi legið neins konar teikningar eða mælingar eins og tíðkanlegt er. Liggur gatan að miklu leyti um gróið land sem ósnortið var fyrir og að hluta til í allmiklum halla og því viðkvæmt fyrir úrrennsli. Var stór og öflug jarðýta notuð til verksins. Ákærði viðurkenndi fyrir dómi að honum hefði láðst að spyrja hvort tilskilin leyfi væru til verksins. Verður í ljósi aðstæðna allra að virða honum það til gáleysis, sérstaklega þegar litið er til þess viðkvæma landssvæðis sem raskað var víða á langri leið, reynslu hans og til þess hversu losaraleg framkvæmd og skipulag verksins var.

Í ákæru er brot ákærða meðal annars heimfært undir 2. mgr. 12. gr. laga nr. 44/1999 en samkvæmt þeirri grein er öllum skylt að ganga vel um náttúru  landsins og sýna ýtrustu varúð þannig að henni verði ekki spillt. Orðalag þessa ákvæðis er almennt og uppfyllir ekki kröfur sem gera verður til skýrleika refsiheimilda. Verður ákærði ekki sakfelldur fyrir brot gegn þessu ákvæði. Verknaður ákærða er hins vegar réttilega heimfærður í ákæru undir 1. mgr. 17. gr., sbr. 76. gr. laga nr. 44/1999.

Í ákæru er brot ákærða einnig heimfært undir 1. mgr. 27. gr., sbr. 60. gr. skipulags- og byggingarlaga Þegar brotið var framið hafði fyrrnefnda ákvæðinu verið breytt með 4. gr. laga nr. 135/1997. Þeirri málsgrein hefur enn verið breytt með 22. gr. laga nr. 74/2005. Er samkvæmt ákvæðinu, bæði fyrir og eftir síðastnefndu breytinguna, óheimilt að hefja meiri háttar framkvæmdir, sem ekki eru háðar byggingarleyfi, og áhrif hafa á umhverfið og breyta ásýnd þess án þess að afla framkvæmdaleyfis sveitarstjórnar. Samkvæmt framansögðu hefur verknaður ákærða haft í för með sér varanleg og nokkuð umfangsmikil náttúruspjöll. Framkvæmdin er því meiri háttar og er brot ákærða réttilega heimfært til framangreindra ákvæða skipulags- og byggingarlaga með áorðnum breytingum. 

Refsing ákærða er hæfilega ákveðin 200.000 króna sekt, sem greiðist í ríkissjóð, og ber honum að greiða hana innan fjögurra vikna frá uppsögu dómsins að telja, en sæti ella fangelsi í 14 daga.

Ákærði verður dæmdur til að greiða helming annars sakarkostnaðar málsins í héraði en málsvarnarlauna og allan slíkan sakarkostnað fyrir Hæstarétti samkvæmt yfirliti ríkissaksóknara. Þá verður hann dæmdur til að greiða málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns á báðum dómstigum, sem ákveðin eru að meðtöldum virðisaukaskatti eins og nánar greinir í dómsorði.

Rannsókn lögreglu lauk 20. desember 2004 en ákæra var gefin út 5. desember 2005 eða tæpu ári síðar. Hefur þessi óeðlilegi dráttur ekki verið skýrður.

Dómsorð:

Ákærði, Jón Guðmundsson, greiði 200.000 krónur í sekt í ríkissjóð innan fjögurra vikna frá uppsögu dóms þessa, en sæti ella fangelsi í 14 daga.

Ákærði greiði í sakarkostnað málsins í héraði og fyrir Hæstarétti samtals 457.375 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns á báðum dómstigum, Steingríms Þormóðssonar hæstaréttarlögmanns, samtals 410.850 krónur.

                                                                                                                 

 

Dómur Héraðsdóms Suðurlands 2. júní 2006.

Mál þetta, sem dómtekið var 21. apríl s.l., er höfðað með ákæru lögreglustjórans á Selfossi, dagsettri 5. desember 2005, á hendur X, kt. [...], Hveragerði og Jóni Guðmundssyni, kt. 221151-3649, Steinagerði 8, Reykjavík, fyrir brot gegn náttúruverndarlögum og skipulags- og byggingarlögum með því að hafa, að kvöldi miðvikudagsins 1. september 2004, rutt slóða, í þeim tilgangi að gera reiðveg eftir leið sem ákærði X ákvarðaði með  því að ganga á undan jarðýtu sem ákærði Jón stýrði, frá Reykjakoti í Gufudal, ofan Hveragerðis, utan vega, til norðurs í átt að Hrómundartindum, um 3,95 km leið og að hafa þar á köflum tekið úr fláa í blautum jarðvegi með tönn ýtunnar, einkum á tveimur stöðum rétt ofan Sauðár og við Sauðártinda, og á svokölluðum Klóarmelum rutt slóð þvert í gegnum stórgrýttan mel, án þess að hafa aflað framkvæmdaleyfis sveitarstjórnar, eins og skylt er skv. 27. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, sbr. 34. gr. náttúruverndarlaga nr. 44/1999, án samþykkis landeiganda og án umsagnar og leyfis Umhverfisstofnunar eins og skylt er skv. 1. mgr. 38. gr. og 2. mgr. 37. gr. náttúruverndarlaga, þar sem stór hluti leiðarinnar er í jaðri Hengilssvæðisins, svæðis á náttúruminjaskrá, og í jaðri svonefndrar Klóarmýrar, votlendis sem fellur undir vernd c-liðar 1. mgr. 37. gr. náttúruverndalaga.  Með háttsemi sinni breyttu ákærðu ásýnd umhverfisins og ollu jarðvegsrofi og jarðsili, sem opnar gróðurþekjuna og hleypir að auknu vatnsrofi.

 Ákæruvaldið telur þessa háttsemi ákærðu varða við 2. mgr. 12. gr., 1. mgr. 17. gr., 2. mgr. 37. gr. og 1. mgr. 38. gr., sbr. 76. gr. laga nr. 44/1999 um náttúruvernd og 1. mgr. 27. gr., sbr. 60. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.

Ákærðu krefjast sýknu af kröfum ákæruvalds og að allur sakarkostnaður ásamt málsvarnarlaunum verði greiddur úr ríkissjóði. Til vara krefjast þeir vægustu refsingar sem lög leyfa og að sakarkostnaður verði greiddur úr ríkissjóði.   

Málavextir.

Með símbréfi, sem barst sýslumanninum á Selfossi 20. september 2004, fóru Náttúruverndarsamtök Íslands fram á að embættið hæfi þegar í stað rannsókn á því hver rutt hefði veg í Gufudal ofan Hveragerðis við bæinn Reykjakot.  Var talið ljóst að þessi ruðningur hefði verið gerður með stórri jarðýtu án tilskilinna leyfa.

Með bréfi Landbúnaðarráðuneytisins dagsettu 22. september sama ár til sýslumannsins á Selfossi var vísað til upplýsinga sem borist hefðu um landspjöll á eignarlandi ríkisins í Gufudal, en ráðuneytið hefði ekki samþykkt neinar framkvæmdir á landi þar.  Var talið um að ræða brot gegn náttúruverndarlögum og skipulagslögum.

Með bréfi Umhverfisstofnunar til sýslumannsins á Selfossi dagsettu 1. október sama ár kærði stofnunin brot gegn náttúruverndarlögum sem talið var framið 11. september sama ár (svo) með því að ýtu var ekið upp eftir Gufudal fyrir ofan Hveragerði í átt að Grændal og hafi skóflu ýtunnar verið stungið víða niður í jarðveg á löngum köflum með það fyrir augum að mynda slóða í landið.  Taldi stofnunin landi hafa verið spillt verulega og að brotið hafi verið gegn 2. mgr. 12. gr. náttúruverndarlaga.  Þá var talið að akstur ýtunnar væri ekki hluti af vegagerð og væri því um akstur utan vega að ræða sem væri brot á 1. mgr. 17. gr. náttúruverndarlaga.  Í bréfinu er lýst jarðraski sem hafi haft þær afleiðingar í för með sér að landið á þessum stað hafi breytt varanlega um svip.  Hafi vesturhlíðum Gufudals verið raskað á áberandi stað og gróðurhula í hlíðum dalsins verið rofin.  Þá hafi ýtan skorið sig inn í hlíðar þar sem slóðin liggi í hliðarhalla á leiðinni, allt inn að Klóarfjalli.  Hafi gróðurhulan verið rofin á allnokkrum stöðum og ljóst að verksummerki muni aukast enn frekar vegna vatns- og vindrofs, sérstaklega í hliðarhalla  þar sem úrrennsli muni verða vandamál verði ekkert að gert.  Þar sem hliðarhalli sé mestur sé jafnframt aukin hætta á jarðsigi eða aurskriðum.

 Lögreglan á Selfossi hóf þegar rannsókn málsins og í samtali við A, formann Golfklúbbs Hveragerðis, kom fram að kúbburinn væri með land Gufudals á leigu til 35 ára, en Landbúnaðarráðuneytið væri eigandi landsins.  Hann kvaðst hafa heyrt að maður að nafni X, annar ákærðu í máli þessu,  hefði haft samband við B til að vara hann við því að girðingar á hrossbeitarhólfinu kynnu að rofna þar sem til stæði að koma jarðýtu í gegnum svæðið vegna lagfæringar á reiðvegi.  A kvaðst hafa haft samband við Hestamannafélagið í Hveragerði en þar hafi enginn kannast við að hafa beðið neinn um lagningu reiðvegar.  Hann kvaðst hafa haft samband við ákærða X sem hafi sagt að hann ætlaði að hlutast til um að gamall reiðvegur yrði lagaður og þyrfti hann engin leyfi til þess.  Þá hafði lögreglan samband við B, en hann kvaðst vera með beitarhólf í landi Gufudals á leigu frá Landbúnaðarráðuneytinu.  Hann kvað ákærða X hafa haft samband við sig í lok ágúst og beðið sig að taka hross sín úr beitarhólfinu því hann hafi ætlað að láta jarðýtu fara um hólfið og síðan áfram til norðurs vegna lagningar reiðvegar.  Hann kvaðst hafa bent manninum á að hann þyrfti leyfi frá landeigendum og skipulagsyfirvöldum.  Ákærði hafi gefið lítið fyrir það og sagt að ýtan kæmi daginn eftir.  Kvaðst B hafa séð 1. september að jarðýta var að ryðja sér leið upp fjallið fyrir ofan gamla fjárhúsið.  Hann kvaðst hafa beðið starfsmann golfskálans um að hringja á lögreglu og þá kvaðst hann hafa tekið myndir á vettvangi.  Lögreglan ræddi einnig við C en hann kvaðst hafa tekið að sér að leggja girðingu frá Álftavatni niður í Grændal.  Hann hafi fengið ákærða Jón til verksins, en hann hafi verið á 23 tonna ýtu.  Hann kvað ákærða X og annan mann hafa komið að máli við sig í lok ágúst og spurt hvort  hann gæti útvegað ýtu til að leggja reiðveg upp í Gufudal.  Hann kvaðst hafa bent þeim á að tala við ákærða Jón.  Lögreglan hafði samband við ákærða Jón og kannaðist hann við að hafa ekið ýtunni umrædda leið samkvæmt beiðni ákærða X, sem bæri ábyrgð á verkinu.  Þá ræddi lögreglan við D, bæjarstjóra Ölfuss, en hann kvað girðingarvinnuna frá Álftavatni til Grændals hafa verið með samþykki sveitarstjórnarinnar og hefði C verið fenginn til verksins.  Hann kvað umrætt ferðalag ýtunnar algerlega óheimilt og hefði engin umsókn verið lögð fram vegna fyrirhugaðs reiðvegar og hafi fulltrúar sveitarfélagsins ekkert vitað af þessum framkvæmdum fyrr en eftir á.

Ákærði Jón skýrði svo frá hjá lögreglu 12. október 2004 að hann hafi unnið við að reisa girðingu frá Álftavatni til Grændals á vegum verktakans, C.  Hann kvað C hafa haft samband við sig og óskað eftir því að hann æki jarðýtunni frá Gufudal að Klóarfjalli í þeim tilgangi að búa til reiðveg.  Hann kvaðst hafa hitt ákærða X að kvöldi 1. september og taldi hann að lagning vegarins væri í þágu Hestamannafélagsins í Hveragerði og væri ákærði X á vegum þess.  Hann kvað ákærða hafa verið með sér þegar verkið var unnið og hefði hann gengið með ýtunni og leiðbeint ákærða.  Hann kvaðst ekki hafa vitað fyrir víst hvort leyfi til verksins hefði verið fyrir hendi frá skipulagsyfirvöldum og landeiganda, en taldi að ákærði X hefði þessi leyfi á hreinu.  Þetta hefði þó ekki komið til tals hjá þeim, en ákærði kvaðst hafa starfað við jarðvinnuframkvæmdir í 30 ár og slíkt aldrei komið fyrir áður, þeir sem hann hefði unnið fyrir hefðu undantekningalaust verið með leyfi á hreinu.

Ákærði X skýrði svo frá hjá lögreglu 5. nóvember 2004 að hann hefði snemma í ágúst sama ár verið á hestbaki á Klóarvegi og hefði hann lent í vandræðum sökum þess að girt hefði verið þvert yfir veginn.  Hafi umdæmisstjóri Vegagerðarinnar bent honum á að hafa samband við C, sem reist hefði girðinguna og kvaðst ákærði hafa haft tal af honum.  Kvaðst ákærði hafa merkt á girðinguna hvar setja ætti hlið á hana og hafi C þá stungið upp á þeim möguleika að jarðýtan, sem hann væri með í vinnu, færi Klóarveginn til þess að auðvelda aðgengið, enda þyrfti C að koma tækjum að til að setja niður hliðið.  Kvaðst ákærði hafa rætt þessa hugmynd við hestamenn í Hveragerði og hefðu þeir verið sammála um að þetta væri hið besta mál.  Hann kvaðst þá hafa rætt við mann sem væri með beitarhólf ofan við gamla fjárhúsið í Gufudal og hefði sá tekið því afar illa að farið yrði með tækið um Klóarveginn í gegnum hólfið sem hann hefði til ráðstöfunar.  Hafi þá verið ákveðið í samráði við hestamenn þá sem hann ræddi við að ýtan færi upp fyrir beitarhólfið og þaðan áfram Klóarveginn.  Hann kvaðst síðan hafa vísað ákærða Jóni leiðina og gengið á undan ýtunni og kvaðst hann hafa haldið sig við Klóarveginn, en hann hafi verið greinilegur, markaður af kinda- og hestagötum.  Hafi ýtan rekið tönnina niður þar sem þess þurfti til að slétta undir en þurft hafi að marka nýja slóð ofan við fjárhúsið í Gufudal þar sem sá sem var með beitarhólfið þar vildi ekki hleypa þeim þar í gegn.  Þeir hafi síðan lagt girðinguna niður og haldið áfram Klóarveginn og upp í Klóarfjallið til að bæta reiðleiðina en snúið síðan við í hlíðum Klóarfjalls þar sem mikil bleyta hafi verið í jarðveginum og ekki hægt að aka ýtunni lengra með góðu móti.  Ýtunni hafi síðan verið ekið sömu leið til baka.  Ákærði kvaðst ekki hafa leitað eftir leyfi landeiganda eða skipulagsyfirvalda þar sem hann og hinir hestamennirnir hafi talið að þess þyrfti ekki.  Þetta væri framkvæmd sem væri öllum til góðs sem þar væru ríðandi á ferð.  Ákærði vissi ekki hver greiddi fyrir verkið.

Lögð hefur verið fram í málinu greinargerð Umhverfisstofnunar um áhrif ýtuslóðarinnar á náttúruminjar og ummerki á landi frá því í nóvember 2004, en greinargerðin barst lögreglunni á Selfossi með bréfi dagsettu 1. desember sama ár.  Í greinargerðinni kemur fram að ummerki eftir jarðrask séu veruleg á fjórum stöðum.  Í mynni grófarinnar, fyrir ofan fjárhúsin, séu ummerki mjög áberandi á tveimur stöðum í hlíðinni rétt ofan Sauðár.  Sé vatn nú þegar farið að leita eftir þessum skeringum og mikil hætt sé á auknu jarðvegsrofi og jarðvegssili, sem muni opna gróðurþekjuna enn frekar í hallanum ofan við skeringuna og hleypa að auknu vatnsrofi.  Jafnframt sé aukin hætta á framskriði eða jarðvegssili neðan við skeringuna á einstaka stað þegar vatn safnast í auknum mæli í jarðveginn neðan við skeringuna.  Megi færa rök fyrir því að í leysingum muni þessi slóði grafast enn frekar niður og verða að farvegi fyrir leysingavatn.  Verði jarðvegur í skeringunni auðveldlega vatnssósa og því afar viðkvæmur fyrir vatnsrofi.  Þá kemur fram í skýrslunni að við Sauðártinda hafi ýtan rofið jarðveg á sama hátt og neðar á svæðinu.  Þar séu hins vegar minni líkur á vatnsrofi vegna minni halla og minna svæðis sem vatn safnist af niður í skeringuna.  Þá kemur fram að á svokölluðum Klóarmelum hafi slóðin verið rudd þvert í gegnum stórgrýttan og fremur sérstakan mel.  Muni ummerki eftir slóðina ekki hverfa nema með sérstökum aðgerðum þar sem stórgrýti hafi verið fært til hliðanna.  Enn fremur sé jarðvegur á þessu svæði afar viðkvæmur.  Hann sé moldarkenndur, rofgjarn og engin gróðurhula sé til staðar til að hindra rofmátt vatns og vinda.  Ofar á melnum munu ummerkin hverfa en þar sem ýtan hafi rutt sig í gegnum stórgrýttan melinn sé halli lands meiri og þar sem grjót hafi verið fjarlægt muni að öllum líkindum myndast þar rás, jafnvel farvegur á leysingatímum.  Þá segir í skýrslunni að auk þessara fjögurra staða séu ummerki eftir ýtuna á landi þar sem enginn slóði eða vegur hafi verið til staðar.  Munu þessi ummerki hverfa á 1-2 árum þar sem ýtan hefur farið yfir slétta mela en á áratugum þar sem ýtan hefur farið í gegnum votlendi eða deiglendi.  Einnig kemur fram í skýrslunni að ýtan hafi farið um jaðar svokallaðrar Klóarmýrar, en það sé svæði sem njóti sérstakrar verndar skv. 37. gr. náttúruverndarlaga.  Sé jarðvegsrof þar á einstaka stað en ekki í þeim mæli að vatnsbúskap mýrarinnar sé ógnað.  Þá segir að ýtan hafi farið um jaðar Hengilssvæðisins, en það sé á náttúruminjaskrá.  Hafi  hún verið innan vatnasviðs Grændals yfir Klóarmela í átt að Kló.

Framburður ákærða og vitna fyrir dómi.

Ákærði X skýrði svo frá fyrir dómi að hann hefði í lok ágúst 2004 riðið að girðingu sem sett hafði verið upp á umræddu svæði án þess að gert hefði verið hlið á hana.  Hann kvaðst hafa haft samband við umdæmisstjóra Vegagerðarinnar en hann hafi bent honum á að hafa samband við C sem reist hefði girðinguna og benda honum á hvar hliðið ætti að vera.  Hann kvað umdæmisstjórann hins vegar ekki hafa beðið sig um að hefjast handa um að setja hlið á girðinguna.   Ákærði kvaðst hafa sýnt C reiðleiðina og hefði hann beðið sig um að merkja á girðinguna hvar hliðið á henni ætti að vera.  Hafi C í framhaldi af því sagt að hann þyrfti að koma beltagröfu á svæðið til að grafa fyrir staurum að væntanlegu hliði og þá hafi hann spurt ákærða hvort hann gæti ekki sýnt gröfumanninum hvar best væri að fara upp.  Ákærði taldi málið ekki koma sér við að öðru leyti og taldi C hafa haft leyfi til þessara framkvæmda.  Ákærði kvað vera reiðgötu að hluta á svæði því sem ýtan fór um og hann taldi sig hafa verið í fullum rétti að laga reiðgötuna til.  Aðspurður hvort hann teldi eðlilegt að nota um 20 tonna jarðýtu til þess að laga reiðgötu svaraði ákærði því til að hann varðaði ekkert um það hvernig tæki væri notað og hann kvaðst ekki hafa leitt hugann að því og hann kvað það ekki hafa hvarflað að sér að leita eftir leyfum til verksins.  Ákærði taldi sig hafa ástæðu til að ætla að hann væri að vinna verk þetta í þágu annarra hestamanna á svæðinu og taldi hann sig hafa umboð frá þeim, enda væri það þjóðþrifamál að halda reiðleiðum opnum.  Ákærði kvaðst ekki hafa greitt meðákærða fyrir störf hans.

Ákærði Jón skýrði svo frá fyrir dómi að hann hefði umrætt sinn unnið fyrir C á umræddu svæði vegna uppsetningar girðingar.  Hann taldi að ákærði og C hefðu verið búnir að ræða um lagningu hins umdeilda reiðvegar og  kvaðst hann ekki hafa séð ástæðu til að spyrja þá hvort þeir hefðu leyfi til verksins, en þeir hefðu fengið hann til starfans.  Hann kvaðst hafa notað 24 tonna gröfu með breiðum beltum við verkið og hefði það tekið um 3-4 klukkutíma.  Hann kvað C hafa greitt sér fyrir verkið.   

Vitnið C skýrði svo frá fyrir dómi að hann hafi unnið að girðingavinnu á umræddu svæði samkvæmt samningi við Vegagerðina og hefði ákærði Jón verið undirverktaki hjá honum.  Hann kvað ákærða Jón hafa verið að jafna undir girðingu fyrir sig og hefði ákærði X þá komið að máli við sig og spurt hvort hann gæti ekki útvegað ýtu Jóns til þess að laga hestaveg.  Hann kvaðst hafa spurt ákærða Jón hvort hann gæti sinnt þessu og hafi orðið úr að hann tók þetta að sér.  Hann kvaðst hafa haft milligöngu um að ákærði X greiddi ákærða Jóni fyrir verkið.  Hann kvaðst ekki hafa komið að þessu máli að öðru leyti.

Vitnið E, skýrði svo frá í símaskýrslu fyrir dómi að komið hafi í ljós að láðst hefði að setja hlið á girðingu á umræddu svæði.  Hann kvaðst hafa verið í sambandi við ákærða X vegna málsins en ekki staðið fyrir umræddum framkvæmdum.  Hann kvaðst hafa staðið í þeirri trú að einungis ætti að setja hlið á girðinguna.  Hann kvað hafa staðið til að hann og aðrir hestamenn skytu saman í greiðslu fyrir vinnu við að ýta til stórgrýti á mel á svæðinu, en ekki hafi staðið til að ryðja veg eins og gert var.

Vitnið Sigurrós Friðriksdóttir, fagsviðsstjóri hjá Umhverfisstofnun, kom fyrir dóm og staðfesti áðurgreinda greinargerð stofnunarinnar.  Hún kvað ekki þörf á leyfi stofnunarinnar til slíkra framkvæmda sem hér um ræðir, en skylt væri að leita umsagnar hennar.  Hún kvað slíkrar umsagnar ekki hafa verið leitað í umræddu máli.  Yfirleitt væru það sveitarfélög sem leituðu umsagnar en í því tilviki sem framkvæmdaaðilar leituðu umsagnar væri afrit sent til sveitarstjórna.  Hún tók fram að hún hefði ekki farið á vettvang og þá væri starfsmaður sá sem samdi greinargerðina hættur störfum, en sá hefði farið á vettvang. 

Vitnið Helgi Jensson, forstöðumaður Umhverfisstofnunar, kom fyrir dóm og staðfesti ofangreinda greinargerð stofnunarinnar.  Hann kvað starfsmann, sem nú væri hættur störfum, hafa ritað greinargerðina.  Sá hefði farið á vettvang, en vitnið kvaðst ekki hafa gert það.  Vitnið kvað umsagnar stofnunarinnar ekki hafa verið leitað vegna umræddra framkvæmda.    

Niðurstaða.

Í 2. mgr. 12. gr. laga nr. 44/1999 um náttúruvernd er svo kveðið á að öllum sé skylt að ganga vel um náttúru landsins og sýna ýtrustu varúð þannig að henni verði ekki spillt.  Þá er svo fyrir mælt í 27. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 að afla skuli framkvæmdaleyfis sveitarstjórnar vegna meiri háttar framkvæmda sem áhrif hafa á umhverfið og breyta ásýnd þess, svo sem breytingar lands með jarðvegi eða efnistöku og annarra framkvæmda sem falla undir lög um mat á umhverfisáhrifum.  Þá þarf leyfi Umhverfisstofnunar til framkvæmda þar sem hætta er á að spillt verði friðlýstum náttúruminjum og leita skal umsagnar og tilkynna Umhverfisstofnun um framkvæmdir þar sem hætta er á að spillt verði öðrum náttúruminjum á náttúruminjaskrá, sbr. 1. mgr. 38. gr. náttúruverndarlaga, en samkvæmt gögnum málsins er hluti umrædds vegarslóða í jaðri Hengilssvæðisins sem mun vera á náttúruminjaskrá.   Þá eru í 37. gr. sömu laga ákvæði um sérstaka vernd jarðmyndana og vistkerfa og skal forðast röskun þeirra eins og kostur er og samkvæmt c-lið falla þar undir mýrar og flóar, 3 hektarar að stærð eða stærri.  Samkvæmt greinargerð Umhverfisstofnunar hefur ýtan farið um jaðar svokallaðrar Klóarmýrar, en talið er að jarðvegsrof þar á einstaka stað sé ekki í þeim mæli að vatnsbúskap mýrarinnar sé ógnað.  Það liggur fyrir og er viðurkennt af hálfu ákærða X að hann gerði hvorki reka að því að afla leyfa í samræmi við ofangreind lagaákvæði né að afla leyfis landeiganda til framkvæmdanna.  Ákærði X hefur borið því við að nauðsyn hafi borið til að setja hlið á girðingu sem sett hafði verið upp þvert á reiðleið hestamanna, en ljóst er að umrædd framkvæmd, lagning vegarslóða, sem var tæplega fjögurra kílómetra langur, var langt umfram það sem eðlilegt gæti talist af því tilefni.  Er því sannað að ákærði X hefur með þessari háttsemi sinni brotið þau lagaákvæði sem í ákæru greinir að því undanskildu að hann telst ekki sekur um brot gegn 1. mgr. 17. gr. náttúruverndarlaga sem fjallar um bann við akstri utan vega, enda ljóst að hann ók ekki ýtunni sjálfur og hefur ekki verið ákærður fyrir hlutdeild í því broti.

Ákærði Jón byggir vörn sína á því að hann hafi talið að ákærði X hefði aflað leyfa til framkvæmdanna og þá byggir hann á því að hann hafi unnið á vegum C að girðingarvinnu á svæðinu og hafi jarðrask af þeim sökum verið meira en vegna umrædds vegarslóða.  Ekki er unnt að hafna þeirri staðhæfingu ákærða um að hann hafi staðið í þeirri trú að aflað hefði verið tilskilinna leyfa til umræddrar framkvæmdar.  Verður ákærði Jón því sýknaður af öllum kröfum ákæruvaldsins í máli þessu.  

Dómarinn hefur farið á vettvang ásamt ákærðu, sækjanda og verjanda og kynnt sér aðstæður.  Er ljóst að veruleg náttúruspjöll hafa verið unnin á svæðinu og ber það enn þess merki, tæpum tveimur árum eftir verknaðinn.  Þykir refsing ákærða X því hæfilega ákveðin 200.000 króna sekt til ríkissjóðs, sem greiðist innan fjögurra vikna frá birtingu dómsins, en ella sæti ákærði fangelsi í 14 daga.   

Þar sem ákærði Jón hefur verið sýknaður af öllum kröfum ákæruvaldsins í máli þessu verður allur kostnaður sakarinnar að því er hann varðar lagður á ríkissjóð, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, Steingríms Þormóðssonar, hrl., 186.750 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti og 14.000 krónur vegna aksturs.

Ekki er að sjá að annan kostnað hafi leitt af máli þessu en þóknun Björns Pálssonar vegna leiðsagnar á vettvangsgöngu 9. nóvember 2004, undirbúning og upplýsingagjöf um örnefni og fleira, 23.904 krónur.  Þykir rétt að ákærði X greiði þennan kostnað að hálfu, en hinn helmingurinn greiðist úr ríkissjóði.

Hjörtur O. Aðalsteinsson, dómstjóri, kveður upp dóminn.  Dómsuppkvaðning hefur dregist fram yfir lögbundinn frest vegna mikilla embættisanna dómarans.

D Ó M S O R Ð:

Ákærði X, greiði 200.000 króna sekt til ríkissjóðs, innan fjögurra vikna frá birtingu dómsins, en sæti ella fangelsi í 14 daga.   

Ákærði, Jón Guðmundsson, skal vera sýkn af öllum kröfum ákæruvaldsins í máli þessu.

Allur sakarkostnaður vegna ákærða Jóns greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda hans, Steingríms Þormóðssonar, hrl., 186.750 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti og 14.000 krónur vegna aksturs.  Annan sakarkostnað, 23.904 krónur, greiði ákærði X að hálfu, en ríkissjóður hinn helminginn.