Print

Mál nr. 51/2005

Lykilorð
  • Sveitarfélög
  • Grunnskóli
  • Börn
  • Gjafsókn

Fimmtudaginn 22

 

Fimmtudaginn 22. september 2005.

Nr. 51/2005.

Ólöf Adda Sveinsdóttir

(Ástráður Haraldsson hrl.

 Eva Bryndís Helgadóttir hdl.)

gegn

Áshreppi og

(Viðar Lúðvíksson hrl.

 Jón Ármann Guðjónsson hdl.)

Byggðasamlagi Húnavallaskóla

(Þorsteinn Einarsson hrl.)

 Óskar Sigurðsson hdl.)

 

Sveitarfélög. Grunnskólar. Börn. Gjafsókn.

Ó krafði hreppinn Á og byggðasamlagið B um greiðslu ýmiss konar kostnaðar sem hlaust af því að hún þurfti að halda annað heimili vegna skólagöngu dóttur sinnar í sérskóla í Reykjavík. Ekki var á það fallist að 1. gr. og 37. gr. laga nr. 66/1995 um grunnskóla eða reglugerð nr. 389/1996 leiddi til skyldu Á eða B til að greiða umræddan kostnað, þar sem hann taldist vera framfærslukostnaður en ekki kostnaður af skólagöngu. Á og B voru því sýknaðir af kröfu Ó.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Garðar Gíslason, Gunnlaugur Claessen, Ingibjörg Benediktsdóttir og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 9. febrúar 2005 og krefst þess að stefndu greiði sér in solidum 1.373.582 krónur með dráttarvöxtum af nánar tilgreindum frá 1. janúar 2002 til greiðsludags og málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti, án tillits til gjafsóknar sem henni hefur verið veitt á báðum dómstigum.

Stefndi Áshreppur krefst þess aðallega að héraðsdómur verði staðfestur en til vara að krafa áfrýjanda verði lækkuð. Hann krefst og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Stefndi Byggðasamlag Húnavallaskóla krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Svo sem nánar greinir í héraðsdómi krefur áfrýjandi stefndu um greiðslu kostnaðar vegna húsaleigu, hita, rafmagns og húsfélagsgjalds, sem hún kveður tengjast göngu dóttur sinnar í sérskóla í Reykjavík, sem sé svo langt frá heimabyggð að hún hafi þurft að halda þar annað heimili vegna skólagöngunnar.

Í 1. gr. laga nr. 66/1995 um grunnskóla segir að sveitarfélögum sé skylt að halda skóla fyrir öll börn og unglinga á aldrinum 6 til 16 ára eftir því sem nánar segi í lögunum. Einnig segir að öllum börnum og unglingum á framangreindum aldri sé skylt að sækja skóla, en frá því megi þó veita undanþágu, sbr. 5., 7. og 8. gr. laganna, sem ekki varða mál þetta. Í 1. mgr. 37. gr. laganna er mælt fyrir um sérstakan stuðning í námi við börn eða unglinga, sem eiga erfitt með nám vegna fötlunar og í 3. mgr. 37. gr. er veitt heimild til að sækja um skólavist í sérskóla sé þess talin þörf. Í 3. mgr. 11. gr. laganna er sveitarfélagi heimilað að fela byggðasamlagi um rekstur grunnskóla þau réttindi og skyldur sem á því hvíla samkvæmt lögunum. Það hefur stefndi Áshreppur gert með samningi um stefnda Byggðasamlag Húnavallaskóla. Fram er komið í málinu að stefndu hafa samþykkt beiðni áfrýjanda um að dóttir hennar, sem er heyrnarskert, hefði námsdvöl í sérskóla í Reykjavík og greitt námsvistargjöld til skólans.

Áfrýjandi vísar til jafnræðisreglu 65. gr. stjórnarskrárinnar, 11. gr. stjórnsýslulaga nr.  37/1993 og 14. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, svo og a. liðar 1. mgr. 28. gr. sáttmála Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, sem birtur er í C. deild Stjórnartíðinda nr. 18/1992, þar sem kveðið er á um rétt barns til menntunar og skyldu aðildarríkja til þess að koma á grunnmenntun sem allir geti notið ókeypis, sbr. og  3. mgr. 23. gr. sáttmálans, sem kveður á um að tryggja skuli að fatlað barn hafi raunverulegan aðgang að menntun. Hún vísar og til 1. gr. laga nr. 59/1992 um málefni fatlaðra, þar sem fram komi að markmið laganna sé að fötluðum sé tryggt jafnrétti og sambærileg lífskjör við aðra þjóðfélagsþegna. Hún byggir á því að hafa þurfi þessi ákvæði til hliðsjónar við skýringu á ákvæðum laga um grunnskóla. Hún vísar og til þess að í 3. gr. reglugerðar nr. 389/1996 um sérkennslu, sem sett hafi verið með heimild í 37. gr. laganna, skuli sérkennsla skipulögð til lengri eða skemmri tíma eftir þörfum nemandans, jafnvel alla skólagöngu hans og fara fram innan eða utan almennra bekkjardeilda, í sérdeildum, sérskólum eða annars staðar.

Enda þótt fallist sé á með áfrýjanda að með framangreindum ákvæðum séu sett þau markmið sem hún heldur fram er ljóst að hvorki af orðum 1. gr. og 37. gr. laga um grunnskóla né reglugerðar nr. 389/1996, verður leidd skylda stefndu til að greiða kostnað þann sem áfrýjandi krefst, þar sem hann telst framfærslukostnaður en ekki kostnaður af skólagöngu. Ber því að staðfesta niðurstöðu héraðsdóms um annað en málskostnað, sem rétt er að aðilar beri hver fyrir sig í héraði og fyrir Hæstarétti.

Gjafsóknarkostnaður áfrýjanda fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður um annað en málskostnað.

Málskostnaður fellur niður í héraði og fyrir Hæstarétti.

Gjafsóknarkostnaður áfrýjanda, Ólafar Öddu Sveinsdóttur, fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hennar, 400.000 krónur.

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 16. nóvember 2004.

Mál þetta, sem dómtekið var 29. október 2004, er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af Ólöfu Öddu Sveinsdóttur, [...], Stuðlaseli 18, Reykjavík, gegn Áshreppi, [...], Ási, Blönduósi, og Byggðasamlagi Húnavallaskóla [...], Húnavöllum, Blönduósi.

Dómkröfur stefnanda eru að stefndu verði dæmdir til greiðslu in solidum samtals að fjárhæð 1.373.582 kr. ásamt dráttarvöxtum skv. III. kafla vaxtalaga nr. 38/2001, af 76.953 kr. frá 1. janúar 2002 til 1. febrúar 2002, þá af 153.906 kr. frá þeim degi til 1. mars 2002, þá af 320.703 kr. frá þeim degi til 1. apríl 2002, þá af 310.312 kr. frá þeim degi til 1. maí 2002, þá af 389.867 kr. frá þeim degi til 1. júní 2002, þá af 469.476 kr. frá þeim degi til 1. júlí 2002, þá af 549.529 kr. frá þeim degi til 1. ágúst 2002, þá af 629.636 kr. frá þeim degi til 1. september 2002, þá af 709.542 kr. frá þeim degi til 1. október 2002, þá af 803.174 kr. frá þeim degi til 1. nóvember 2002, þá af 884.148 kr. frá þeim degi til 1. desember 2002, þá af 965.029 kr. frá þeim degi til 1. janúar 2003, þá af 1.046.169 kr. frá þeim degi til 1. febrúar 2003, þá af 1.127.309 kr. frá þeim degi til 1. mars 2003, þá af 1.208.182 kr. frá þeim degi til 1. apríl 2003, þá af 1.290.882 kr. frá þeim degi til 1. maí 2003 og loks af 1.373.582 kr. frá þeim degi til greiðsludags.  Þá er þess krafist að dráttarvextir leggist við höfuðstól á tólf mánaða fresti, í fyrsta sinn 1. janúar 2003 með vísan til 12. gr. laga nr. 38/2001.  Málskostnaðar er krafist samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi eins og málið væri ekki gjafsóknarmál.

Dómkröfur stefnda, Áshrepps, eru aðallega að hann verði sýknaður af kröfum stefnanda og honum dæmdur málskostnaður úr hendi stefnanda samkvæmt framlögðum máls­kostnaðarreikningi.  Til vara krefst stefndi þess að kröfur stefnanda verði lækkaðar veru­lega og honum dæmdur málskostnaður úr hendi stefnanda samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi.

Dómkröfur stefnda, Byggðasamlags Húnavallaskóla, eru að byggðasamlagið verði sýknað  af kröfum stefnanda.  Þá er krafist málskostnaðar að mati dómsins.

Í greinargerð krafðist Byggðasamlag Húnavallaskóla aðallega að kröfu stefnanda yrði vísað frá dómi.  Með úrskurði 13. apríl 2004 var fallist á að kröfu stefnanda á hendur byggða­samlaginu yrði vísað frá dómi.  Með dómi Hæstaréttar 8. júní 2004 var frá­vís­un­ar­úr­skurður felldur úr gildi.  Í lýsingu dómsins á málsástæðum sóknaraðila segir  m.a.:

Sóknaraðili heldur því fram að varnaraðilar beri óskipta ábyrgð á kostnaði þeim, sem hún hafi orðið fyrir vegna skólagöngu dóttur sinnar í Reykjavík.  Þar sem deilt sé um skyldur samkvæmt lögum nr. 66/1995 um grunnskóla en ekki skyldur sveitarfélaga samkvæmt lögum nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga sé aðild beggja varnaraðila nauðsynleg ...

 

Í forsendum dómsins segir:

Í máli þessu er eins og áður greinir deilt um greiðslu kostnaðar, sem sóknaraðili telur sig hafa orðið fyrir vegna skólagöngu fatlaðrar dóttur sinnar í Reykjavík.  Hefur sóknar­aðili stefnt báðum varnaraðilum til greiðslu óskipt og um aðild vísað til 1. mgr. 18. gr. laga nr. 91/1991.  Samkvæmt 2. mgr. greinarinnar verður máli frávísað ef brugðið er út af skyldu til samaðildar.  Af því sem fram er komið í málinu verður að telja að kröfur sóknar­aðila á hendur varnaraðilum tengist með þeim hætti að sóknaraðila hefði verið rétt að miða við að um samlagsaðild væri að ræða varnarmegin, sbr. 1. mgr. 19. gr. laga nr. 91/1991.  Báðir varnaraðilar hafa krafist sýknu á grundvelli aðildarskorts.  Umfjöllun í hinum kærða úrskurði um að hvorki verði séð af lögum né af tilgreindum samningi að varnar­aðilinn Byggðasamlag Húnavallaskóla beri óskipta ábyrgð með hverju sveitarfélagi fyrir sig, sem aðili er að samlaginu, er atriði er kemur til álita við efnisniðurstöðu málsins samkvæmt 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991.  Yfirlýsing sóknaraðila í máli þessu um að hann telji samaðild vera til varnar leiðir ekki ein og sér til þess að máli eigi að vísa frá dómi, hvað þá einungis hvað varðar annan málsaðilann, líkt og gert var með hinum kærða úr­skurði.  Verður ekki talið að málatilbúnaður sóknaraðila sé svo vanreifaður eða óljós vegna aðildar að ekki verði lagður á málið efnisdómur ...

 

Helstu málavextir eru að dóttir stefnanda, Andrea Björk Pétursdóttir, kt. 190795-3229, er með verulega skerta heyrn.  Heyrnarrannsóknir hjá Heyrnar- og talmeinastöð Íslands vet­ur­inn 1997/1998 staðfestu að svo væri.  Jafnframt var þá lýst yfir af lækni heyrna- og tal­meina­stöðvarinnar að heyrnartækjameðferð hefði verið hafin og væri það þýðingarmikið fyrir barnið að komast sem fyrst inn á leikskóla til þess að fá sem mesta málörvun.

Er svo var komið, segir af hálfu stefnanda, hafi hún neyðst til að fara með dóttur sinni til Reykjavíkur til að barnið kæmist sem fyrst á leikskólann Sólborg, þar sem sýnt var að þar fengi hún mesta málörvun, en leikskólinn er sérstaklega sérhæfður fyrir heyrnar­skert börn og sá eini sinnar tegundar á landinu.  Og þegar stúlkan náði grunn­skóla­aldri hafi hún sótt nám í Vesturhlíðarskóla sem er eini grunnskólinn á landinu sem sér­hæfi sig í menntun heyrnarskertra nemenda.  Af þessum sökum hafi stefnandi þurft að halda annað heimili í Reykjavík með tilheyrandi kostnaði.

Stefnandi sótti um fjárstuðning til félagsþjónustu Austur-Húnavatnssýslu.  Félags­mála­ráð samþykkti þann 2. september 1998 að veita 30.000 króna styrk á mánuði í níu mánuði til greiðslu á húsaleigu í Reykjavík „þar sem ljóst er að telpan getur ekki fengið nauð­synlega þjálfun og greiningu í sinni heimabyggð“.  Þá var samþykkt á fundi félags­mála­ráðs þann 30. júní 1999 að greiða áfram húsaleigustyrk næstu tólf mánuði „en varð­andi annan kostnað skal tekið mið af reglum um fjárhagsaðstoð sveitarfélags“.  Á  fundi félags­málaráðs 27. október 1999 var samþykkt að veita stefnanda fjárstuðning vegna fötl­unar dóttur hennar og nauðsyn þess að halda tvö heimili vegna skólagöngu hennar, fjár­stuðning, er fólst í því að greiða rafmagn, hita og fastagjald af síma fjóra síðustu mánuði ársins 1999.  Og á fundi félagsmálaráðs 14. mars 2000 var samþykktur fjárstuðningur til stefnanda til greiðslu rafmagns, hita og fastagjalds af síma sex fyrstu mánuði ársins 2000.  Upp­lýst er að hálfu stefnanda að félagsmálaráð greiddi stefnanda styrk með sam­bæri­legum hætti til loka desember 2001.

Þar sem stefnandi taldi að raunverulegu kostnaður vegna búsetu hennar í Reykjavík væri mun meiri en sá styrkur, sem hafði verið samþykktur af félagsmálaráði Austur-Húnavatnssýslu 27. október 1999 og stefnanda hafði verið tilkynnt um með bréfi 8. nóvember 1999, skaut hún málinu til úrskurðarnefndar félagsþjónustu með bréfi 29. nóvember 1999.  Þann 19. júlí 2000 kvað nefndin upp úrskurð þar sem segir m.a.:

Í úrskurði varnaraðila frá 27. október 1999 var ósk kæranda um fjárhagsaðstoð vegna fötlunar dóttur kæranda og nauðsynjar þess að halda tvö heimili vegna skólagöngu hennar tekin til umfjöllunar.  Varnaraðili féllst á að greiða rafmagn, hita og fastagjald af síma fyrir september til desember 1999.  En félagsmálaráð hafði auk þess á fundi sínum hinn 30. júní 1999 fallist á að greiða kæranda húsaleigustyrk til 12 mánaða.

Samkvæmt 1. mgr. 21. gr. laga nr. 40/1991 var gert ráð fyrir því að fjárhagsaðstoð á vegum sveitarfélaga skyldi vera svo mikil sem nauðsyn krefði.  Ákvæði þessu var breytt með 7. gr. laga nr. 34/1997.  Er nú tekið fram að sveitarstjórn skuli setja reglur um fram­kvæmd fjárhagsaðstoðar að fengnum tillögum félagsmálanefndar og eftir atvikum fél­ags­mála­ráðs þar sem slík skipan er á.  Lög nr. 40/1991 veita sveitarfélögum ákveðið svigrúm til að meta sjálf miðað við aðstæður á hverjum stað hvers konar þjónustu þau vilja veita.  Í sam­ræmi við þetta og ákvæði stjórnarskrárinnar um sjálfstjórn sveitarfélaga er mat á þeirri nauðsyn að meginstefnu til lagt í hendur þeirrar sveitarstjórnar er þjónustuna veitir.  Verður ekki við því mati hróflað af hálfu úrskurðarnefndar félagsþjónustu, enda byggist það á lögmætum sjónarmiðum og sé í samræmi við lög að öðru leyti.

Úrskurðarvald nefndarinnar nær eingöngu til þess hvort formlega hafi verið farið eftir réttum reglum við meðferð félagsmálaráðs en ekki til endurskoðunar á frjálsu mati sveitar­félags.

Í greinargerð varnaraðila er gerð grein fyrir þeirri fjárhagsaðstoð sem varnaraðili hefur veitt kæranda vegna fötlunar dóttur kæranda og sambýlismanns hennar.  Fjárstuðningur þessi er veittur vegna nauðsynjar þess að halda einnig heimili í Reykjavík vegna skóla­göngu dóttur þeirra í leikskólanum Sólborg sem ætlaður er heyrnarskertum börnum. Fram hefur komið hjá kæranda að hér sé einungis um hluta af raunverulegum kostnaði við slíkt heim­ilishald.  Í máli þessu verður ekki séð að mat varnaraðila á aðstæðum kæranda og fjöl­skyldu hennar hafi verið reist á ólögmætum sjónarmiðum eða andstætt reglum varnar­aðila um fjárhagsaðstoð og lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga nr. 40/1991.

Ákvörðun varnaraðila hinn 27. október 1999 um að greiða rafmagn, hita og fastagjald af síma fyrir september til desember 1999 vegna fötlunar dóttur kæranda og nauðsyn þess að halda tvö heimili vegna skólagöngu hennar er staðfest.

 

Með bréfi lögmanns stefnanda til oddvita Áshrepps í Vatnsdal 11. desember 2001, þar sem vísað er m.a. til þess að félagsmálaráð Austur-Húnavatnssýslu hafi ákveðið 28. nóvember 2001 að stöðva allan frekari fjárstuðning til foreldra Andreu Bjarkar Péturs­dóttur, var farið fram á að sveitarfélagið lýsti því með hvaða hætti það ætlaði að útvega og uppfylla þau námsskilyrði fyrir barnið sem farið er fram á í lögum um grunnskóla og aðal­námskrá er varðar skólagöngu heyrnarlausra barna.

Oddviti Áshrepps svaraði með bréfi 15. nóvember 2002.  Þar segir m.a.:

Af hálfu sveitarfélagsins er því fyrst til að svara að Andrea Björk býr í Reykjavík ásamt móður sinni, Ólöfu Öddu Sveinsdóttur, og stundar þar nám við Vesturhlíðaskóla, sem sér­staklega er ætlaður heyrnarskertum börnum.  Hefur sveitarfélagið ekki upplýsingar um annað en að þar séu uppfyllt þau námsskilyrði fyrir Andreu Björk sem farið er fram á í lögum um grunnskóla og aðalnámsskrá er varðar skólagöngu heyrnarlausra barna.  Þá hefur sveitarfélagið borið kostnað af skólagöngu Andreu Bjarkar við skólann.

Þrátt fyrir að ekki sé sérstaklega eftir því leitað í bréfi yðar skal tekið fram að sveitar­félagið hefur til skoðunar að setja sér reglur um framkvæmd fjárhagsaðstoðar.  Þeirri vinnu er hins vegar ekki lokið.  Að því er varðar mál umjóðenda yðar sérstaklega skal tekið fram að sveitarfélagið hefur að svo stöddu metið mál þeirra svo, að ekki séu efni til að veita þeim fjárstuðning vegna húsaleigu, notkunar á síma og tengdum kostnaði.  Við matið hefur einkum verið litið til þess að Ólöf Adda hefur flutt búferlum til Reykjavíkur, hvar hún starfar og Andrea sækir skóla.  Þá mun tekjuöflun Péturs einungis vera háð bú­setu hans í sveitarfélaginu í litlum mæli.  Af þeim sökum verður ekki séð að knýjandi þörf sé fyrir fjárhagsaðstoð af hálfu sveitarfélagsins vegna búsetu Ólafar Öddu og Andreu Bjarkar í Reykjavík.  Þá kemur óhjákvæmilega til skoðunar að sökum smæðar sveit­ar­félagsins hafa því miður ekki verið efni til að verða við óskum umbjóðenda yðar um frekari fjárhagsaðstoð af þessum toga.

 

Í bréfi 3. janúar 2003 til Byggðasamlags Húnavallaskóla var af hálfu lögmanns stefn­anda óskað svara um það hvort líta mætti á afstöðu hreppsins sem efnislega niður­stöðu byggðarsamlagsins vegna grunnskólagöngu Andreu Bjarkar, en hreppurinn hafi falið byggðasamlaginu rekstur grunnskóla skv. 3. mgr. 11. gr. laga um grunnskóla nr. 66/1995.  Af hálfu Byggðasamlags Húnavallaskóla var með bréfi 20. sama mánaðar svarað fyrirspurn lögmannsins.  Þar segir m.a.:

Byggðasamlag Húnavallaskóla telur að námsskilyrði Andreu Bjarkar hafi verið uppfyllt með því að greiddur hefur verið kostnaður við námsdvöl hennar í sérskóla í Reykjavík eins og ákvæði laga um grunnskóla og ákvæði reglugerðar um sérkennslu gera ráð fyrir.  Er þar átt við beinan kostnað af námsdvöl skv. reikningi frá viðkomandi skóla.

Byggðasamlag Húnavallaskóla lítur svo á að ákvarðanir um frekari fjárhagsaðstoð til handa Andreu Björk, eða foreldra hennar, falli undir ákvörðunarvald lögheimilis  sveitar­félags Andreu og varði ekki rekstur Byggðasamlagsins.

 

Stefnandi byggir á því að sveitarfélögum sé skylt að halda skóla fyrir öll börn og unglinga á aldrinum 6 til 16 ára, sbr. 1. gr. laga nr. 66/1995 um grunnskóla.  Þar sem dóttir stefn­anda sé heyrnarskert geti hún ekki í grunnskóla stefndu öðlast þá menntun sem henni sé skylt að afla sér.  Aðeins einn grunnskóli á landinu bjóði upp á aðstöðu til að mennta heyrn­arskerta, Vesturhlíðarskóli í Reykjavík.  Um tvo kosti hafi því verið að ræða.  Annars vegar að dóttir stefnanda yrði vistuð utan fjölskyldunnar og hins vegar að annað foreldrið fylgdi barninu til Reykjavíkur þannig að barnið gæti dvalist hjá því á meðan skóla­sókn stæði yfir.  Báðir kostirnir hefðu haft í för með sér töluverð fjárútlát sem stefndu beri fjárhagslega ábyrgð á.  Stefnandi hafi ekki viljað vista barn sitt hjá fóstur­foreldrum og hafi því ákveðið í samráði við stefndu að dveljast ásamt dóttur sinni á skóla­tíma í Reykjavík og leigja til þess íbúðarhúsnæði.  Þar sem stefndu hafi ekki verið í stakk búin til þess að sinna menntun dóttur stefnanda í skóla í sveitarfélaginu - eins og þeim sé skylt að lögum – beri þeir ábyrgð á þeim umframkostnaði sem óhjákvæmilega leiði af grunn­skólamenntun barnsins í Reykjavík.

Þá byggir stefnandi á því að stefndu hafi brotið 65. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands og 14. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sem var lögfestur með lögum nr. 62/1994, með því að greiða ekki umframkostnað stefnanda vegna grunnskólagöngu dóttur hennar.  Þá hafi stefndu með þessu framferði sínu gengið á snið við 11. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Þá telur stefnandi að á stefndu hvíli skylda til þess að tryggja að menntun sé aðgengi­leg öllum óháð fötlun eða búsetu og vísar í því sambandi til 2. gr. 1. viðauka mann­réttindasáttmála Evrópu, sbr. 14. gr. laga nr. 62/1994.  En í því felist að stefndu beri að greiða umframkostnað af skólagöngu dóttur stefnanda.

Þá er byggt á því að samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins kveði á um rétt barns til menntunar og skyldu til þess að koma á skyldu til grunnmenntunar sem allir geti notið ókeypis, sbr. 28. gr. laga nr. 18/1992.  Sérstaklega er þó vísað til ákvæða samn­ingsins sem kveða á um að tryggja skuli að fatlað barn hafi raunverulegan aðgang að menntun, sbr. 3. mgr. 23. gr. laga nr. 18/1992.

Að lokum er vísað til laga nr. 59/1992 um málefni fatlaðra, en kveðið sé á um í 1. gr. laganna að markmið laganna sé að fötluðum sé tryggt jafnrétti og sambærileg lífskjör við aðra þjóðfélagsþegna.

Stefnandi skilgreinir kröfu sína að um húsaleigu sem og kostnað stefnanda vegna hita, raf­magns og húsfélagsgjalda frá og með janúar 2002 til og með maí 2003 sé að ræða, er tölu­lega hafi á hverjum tíma verið þannig:

Tími

Húsaleiga

Hiti/húsf.

Rafmagn

Samtals

janúar 2002

70.562 kr.

4.570 kr.

1.821 kr.

76.953 kr.

feb 2002

70.562 kr.

4.570 kr.

1.821 kr.

76.953 kr.

mars 2002

70.562

kr.4.570 kr.

1.665 kr.

76.797 kr.

apríl 2002

73.218 kr.

4.570 kr.

1.821 kr.

79.609 kr.

maí 2002

73.218 kr.

4.570 kr.

1.767 kr.

79.555 kr.

júní 2002

73.218 kr.

4.570 kr.

1.821 kr.

79.609 kr.

júlí 2002

73.716 kr.

4.570 kr.

1.767 kr.

80.053 kr.

ágúst 2002

73.716 kr.

4.570 kr.

1.821 kr.

80.107 kr.

sept. 2002

73.716 kr.

4.570 kr.

1.620 kr.

79.906 kr.

okt. 2002

73.633 kr.

4.570 kr.

15.429 kr.

93.632 kr.

nóv. 2002

73.633 kr.

4.570 kr.

2.771 kr.

80.974 kr.

des. 2002

73.633 kr.

4.570 kr.

2.678 kr.

80.881 kr.

jan. 2003

73.799 kr.

4.570 kr.

2.771 kr.

81.140 kr.

feb. 2003

73.799 kr.

4.570 kr.

2.771 kr.

81.140 kr.

mars. 2003

73.799 kr.

4.570 kr.

2.504 kr.

80.873 kr.

apríl 2003

75.626 kr.

4.570 kr.

2.504 kr.

82.700 kr.

maí. 2003

75.626 kr.

4.570 kr.

2.504 kr.

82.700 kr.

Samtals

1.246.036 kr.

77.690 kr.

49.856 kr.

1.373.582 kr.

 

Stefndi, Áshreppur, byggir á því að allar ákvarðanir félagsmálaráðs, félagsþjónustu Austur-Húnavatnssýslu og stefnda er varða greiðslur viðkomandi aðila vegna skólagöngu Andreu Bjarkar Pétursdóttur í Reykjavík og greiðslur styrkja til foreldra Andreu í tengslum við þá skólagöngu, hafi byggst á lögmætum og málefnalegum sjónarmiðum, þar sem gætt hafi verið jafnræðis og hlutlægni.  Lagastoð skorti fyrir fjárkröfu stefnanda, eins og hún er fram sett á hendur stefnda; en greiðsluskylda verði ekki felld á hreppinn nema samkvæmt skýru lagaákvæði bæði um  skylduna og fjárhæð greiðslunnar.

Staðhæft er að stefnandi hafi horfið á brott úr sveitarfélaginu án þess að staðreynt væri hvort þar mætti fá nauðsynlega þjónustu fyrir barnið, en Andrea Björk sé heyrn­ar­skert en ekki heyrnarlaus.  Í öndverðu hefði þó ekki verið skorast undan að greiða fyrir skóla­vist barnsins í Reykjavík.  Réttur til viðbótargreiðslu hafi hins vegar verið um­deildur.  Stefnandi hafi heldur ekki sýnt tölulega fram á hvaða kostnað hún hafi aukalega borið af heimilishaldi í Reykjavík.  Þá hafi stefnandi ekki hnekkt því mati forsvarsmanna stefnda að ekki sé efnislega knýjandi þörf fyrir frekari fjárstyrk úr hendi stefnda vegna menntunar Andreu Bjarkar.

Stefndi vísar til þess að stefnandi fari raunar fram á með kröfum sínum að dóm­stóll meti efnislega allar aðstæður fjölskyldu stefnanda, mögulega fjárþörf hennar, að­stæður í sveitarfélaginu og önnur atvik sem komi til skoðunar við slíkt mat.  Það sé hins vegar ekki á færi dómstóla og raunar sé dóminum einungis heimilt að skera úr um hvort gætt hafi verið lögmætra sjónarmiða og aðferða er stjórn stefnda tók þá ákvörðun að hafna umdeildum kröfum stefnanda.

Á það er bent að krafa stefnanda lúti að fjárstyrk frá stefnda er nemi ákveðinni fjár­hæð.  Enginn geti hins vegar fengið fjárstyrk frá sveitarfélagi á þeim grundvelli er stefn­andi heldur fram.  Metið sé af hálfu sveitarfélagsins hverrar fjárhæðar sé þörf.  Fjár­framlög samkvæmt lögum nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga sé t.a.m. byggð á mati stjórnsýslunnar.

Því er hafnað að lagaákvæði og réttarreglur sem stefnandi vísar til leggi beinlínis skyldu á herðar stefnda til að greiða stefnufjárhæðina.  Þarna sé um að ræða mann-rétt­inda­ákvæði og réttarreglur sem marka eigi viðhorf og stefnu, er leggja eigi almennt til grund­vallar, en ekki lagaákvæði, er mæli ákveðið fyrir um skyldu sveitarfélaga til fjár­útláta svo sem krafist er.

Þá er byggt á því að stefnandi hafi ekki haft þau tengsl við Áshrepp, hvorki að því er varðar búsetu né framfærslu frá og með árinu 2001, er réttlæti kröfur hennar.  Fram komi í stefnu að stefnandi hafi slitið sambúð við eiginmann sinn og að hún hafi hug á því að „flytja til Reykjavíkur“.  Stefnandi hafi fyrir löngu flutt til Reykjavíkur og enginn breyt­ing hafi orðið á búsetu stefnanda að því leyti í það minnsta frá árinu 2001.  Eigi stefn­andi kröfu um greiðslur af félagslegum toga verði slíkum kröfum ekki beint að stefnda.  Beri því að sýkna stefnda á grundvelli aðildarskorts.

Á því er einnig byggt að ósannað sé að Andrea Björg búi eða hafi búið við annan og lakari rétt til grunnskólamenntunar en ófötluð börn vegna athafna eða athafnaleysis stefnda eða að stefndi hafi brotið jafnræðisreglur gagnvart barninu eða stefnanda.

Varakröfu sína byggir stefndi, Áshreppur, á því að kröfur stefnanda séu allt of háar og óeðlilegar.  Stefnandi hafi ekki lagt fram gögn er sýni með óyggjandi hætti fjár­þörf stefnanda.  Ekkert liggi fyrir um að fjárskortur hafi hamlað á einhvern hátt að Andrea Björg fengi notið grunnskólamenntunar.  Með hliðsjón af meginreglum stjórnsýsluréttar um frjálst mat stjórnvalda í málum sem þessum sé það ekki á valdsviði dómstóla að kveða upp úr um fjárhæð fjárstyrks til stefnanda.  En taki dómurinn slíka ákvörðun verði fjár­hæðin að álitum lág.

Þá er byggt á því með rökstuddum hætti að stefnda sé ekki skylt að greiða að fullu og öllu leyti húsaleigu, hita, húsfélagskostnað og rafmagnskostnað fyrir stefnanda.

Af hálfu stefnda, Byggðasamlags Húnavallaskóla, er byggt á því að lagaheimild bresti til að skylda hann til greiðslu svo sem stefnandi geri kröfu til.  Stefnandi vísi til ákvæðis 1. gr. laga um grunnskóla nr. 66/1985 til stuðnings kröfu sinni á hendur stefnda.  Stefndi dragi ekki í efa að sveitarfélagi sé skylt að halda skóla fyrir öll börn á aldrinum 6 til 16 ára.  Í VII. kafla laganna sé mælt fyrir um réttindi og skyldur nemenda við skóla.  Í 37. gr. lag­anna sé sérstaklega mælt fyrir um réttindi barna sem eigi erfitt með nám t.d. vegna fötl­unar í skilningi 2. gr. laga nr. 59/1992 um málefni fatlaðra.  Samkvæmt skilgreiningu falli þeir sem eru heyrnaskertir undir þennan hóp nemenda, en réttindi nemanda sem eigi örðugt um nám vegna fötlunar felist öðrum þræði í því að fá sérstakan stuðning í námi.  Mælt sé fyrir að kennslan fari fram í heimaskóla, en telji foreldrar barns eða forráðamenn, kennarar eða aðrir sérfræðingar að barnið fái ekki notið kennslu við sitt hæfi í heimaskóla geti forráðamenn sótt um skólavist fyrir það í sérskóla.  Um nám í sérskóla (sérkennslu) fari svo sem segir í reglugerð nr. 389/1996 um sérkennslu.

Vísað er til þess að sveitarstjórn hvers sveitarfélags beri ábyrgð á að börn á grunn­skóla­aldri, sem þurfa á sérkennslu að halda, fái kennslu við sitt hæfi.  Í þessu tilviki hafi skyldan fallið á stefnda, Byggðasamlag Húnavallaskóla, en samlagið hafi með samningi tekið yfir slíkar skyldur sveitarfélaganna sem að því standa.  Þetta feli þó ekki í sér for­taks­lausa skyldu fyrir samlagið að hafa í heimahéraði aðstöðu til hvers kyns sérkennslu þó að meginstefnu til skuli að því stefnt, sbr. 3. mgr. 37. gr. laga um grunnskóla.  Mælt sé fyrir um  framkvæmd þess að barn þurfi að leita út fyrir heimaskóla í VII. kafla áður­greindra reglugerðar um sérkennslu.  Í 21. gr. reglugerðarinnar segi að sveitarstjórn, sem annist rekstur sérdeildar/sérskóla þar sem nemendur með lögheimili í öðru sveitarfélagi stundi nám, geti krafið lögheimilissveitarfélagið um námsvistargjöld vegna nemandans, enda hafi sveitarstjórn lögheimilissveitarfélagsins samþykkt námsdvölina.

Með því að stefndi, Byggðasamlag Húnavallaskóla, hafi samþykkt námsdvöl Andreu Bjarkar í öðru sveitarfélagi í sérskóla fyrir heyrnarskerta nemendur hafi byggða­sam­lagið að sínu leyti séð um að barnið fengi þau námsskilyrði sem farið sé fram á í lögum grunnskóla og aðalnámskrá er varðar skólagöngu heyrnarlausra barna.

Varðandi bætur eða styrk vegna þess kostnaðar sem stefnandi hafði sérstaklega vegna dvalar barnsins í Reykjavík verði að líta til laga um félagsþjónustu sveitarfélaga nr. 40/1991 með síðari breytingum.  Verði ekki séð að það varði rekstur grunnskólans beinlínis hvaða ákvörðun sé tekin um slíka fjárhagsaðstoð af hálfu sveitarfélagsins, sbr. 4. gr. laganna.  Kröfum um félagslega fjárhagsaðstoð verði ekki beint að byggðasamlagi um rekstur grunnskóla.  Sýkna beri því byggðasamlagið á grundvelli aðildarskorts.

Stefnandi gaf skýrslu fyrir rétti.  Hún sagði m.a. að dóttir hennar hefði orðið fyrir súr­efnis­skorti við fæðingu og við tveggja ára aldur hafi málþroskinn ekki virst nægilega góður og er hún var tveggja og hálfs árs hafi hún farið með hana á Heyrnar- og tal­meina­stöðina til að láta athuga þetta.  Niðurstaðan hafi verið sú að hún væri alvarlega heyrn­ar­skert.

Stefnandi sagði að dóttir hennar hefði þá fengið heyrnartæki og hafi stefnanda verið tjáð að barnið þyrfti strax að komast þar sem hún fengi þjálfun og leikskólavist.  Hafi hún eftir það farið í leikskólann Sólborg sem þá hafi verið nýstofnaður.  Stefnandi sagði að Vesturhlíð hafi alltaf verið með skóla fyrir heyrnarlausa og heyrnarskerta en stofnuð hafi verið deild innan Sólborgar, þ.e. leikskólinn í Vesturhlíð hafi verið fluttur yfir í Sólborg.  Hafi dóttir hennar farið þangað á fyrsta starfsári Sólborgar. 

Stefnandi sagði að hreppnum hafi verið kunnugt um niðurstöðu sérfræðinga [varðandi dóttur hennar].  Hafi hún haft samráð við Jófríði félagsmálafulltrúa um að barnið færi í þennan leikskóla.  Kvaðst hún hafa fylgt barninu til Reykjavíkur.  Nauð­syn­legt hefði verið fyrir hana að gera það eftir að hafa kynnt sér hvað heyrnarskert börn þörfnuðust til að geta þrifist.

Stefnandi sagði að á meðan Andrea, dóttir hennar, sótti skólann hafi þau dvalið í leigu­húsnæði í Reykjavík.  Leigugreiðslur hafi verið borgaðar af félagsmálaráði Vestur-Húna­vallasýslu.  Hafi hún verið á þessum tíma svo heppin að fá vinnu hjá skóla Ísaks Jónssonar og því getað komist heim í jólafríi, páskafríi og sumarfríi skólans.

Þegar dóttir hennar komst á grunnskólaaldur, sagði stefnandi, hafi hún farið í nýtt mat sérfræðinga á sérhæfðum skóla.  Kvað hún það hafa verið samþykkt af hálfu skóla­yfirvalda og hreppsins að barnið færi í Vesturhlíðarskóla í stað Húnavallaskóla.

Stefnandi sagði að Áshreppur hefði greitt húsaleigu, hita og rafmagn og fastagjald fyrir síma fram til áramóta 2001/2002 en hafi hætt þeim greiðslum og borið við fjárskorti.  Hafi einnig óformlega verið borið við að hún væri flutt [úr hreppnum] án þess að færa lög­heimili sitt.  Kvaðst hún hafa verið í sambúð með [föður barnsins] Pétri Guðmundssyni og hafi hann stundum komið til þeirra til Reykjavíkur.  Hafi sambúð verið slitið í september 2003 og hafi hún í kjölfarið fært lögheimili sitt.

Stefnanda kvaðst vera kunnugt um að Áshreppur hefði fengið framlög úr jöfn­un­ar­sjóði sveitarfélaga vegna dóttur hennar Andreu.

Eftir að stefnandi fylgdi dóttur sinni til Reykjavíkur haustið 1998 kvaðst hún hafa dvalið meiri hluta ársins hjá barninu í Reykjavík.  Kvaðst hún á þessum tíma hafa verið skráð með síma, annars vegar að Grýtubakka í Reykjavík og hins vegar að Ásbrekku. 

Stefnandi sagði að erindi hefði verið sent til félagsmálaráðs, hvernig staðið skyldi að framtíðarskipan skólamála Andreu.  Gengið hafi verið frá samningi við Vesturhlíðar-skóla og félagsmálaráð varðandi þetta.  Félagsmálaráð hefði samþykkt að greiða allan kostnað við skólavistun Andreu í Vesturhlíðarskóla.

Pétur Björn Guðmundsson gaf skýrslu fyrir rétti.  Hann sagði m.a. að hann stundaði hrossa­búskap að Ásbrekku í Vatnsdal, en hafi verið með sauðfjárbúskap til haustsins 2000 og nautakjötsframleiðslu þar til í mars sl.  Kvaðst hann hafa komið inn í bú foreldra sinna 1989 og keypt jörðina með öllum rekstri 1994.  Kvaðst hann vera fjórði ættliður bú­settur í sveitinni en þriðji ættliður á jörðinni Ásbrekku.

Frá ármótum 2001/2002 þar til í maí 2003 kvaðst hann einungis hafa stundað vinnu er var tengdur rekstri búskapar að Ásbrekku.

Eftir að stefnandi og Andrea fóru til dvalar í Reykjavík haustið 1998 hafi hann ekki haft möguleika á að dveljast þar hjá þeim meðan hann var með sauðfjárbúskapinn en eftir það hafi hann reynt það eins og færi gafst.  Kvaðst hann alltaf hafa verið meiri hluta árs fyrir norðan, nema ef til vill á þessu ári.

Aðspurður kvaðst hann vita að Áshreppur hafi fengið framlög úr jöfnunarsjóði sveit­arfélaga vegna Andreu dóttur hans.

 

Ályktunarorð:  Í dómi Hæstaréttar frá 8. júní 2004 varðandi frávísunarkröfu stefnda, Byggða­samlags Húnavallaskóla, er sérstaklega tekið fram að sóknaraðili, þ.e. stefnandi í máli þessu, byggir á því að deilt sé um skyldur samkvæmt lögum nr. 66/1995 um grunn­skóla en ekki á því að deilt sé um skyldur sveitarfélags samkvæmt lögum nr. 40/1991 um fél­agsþjónustu sveitarfélaga.  Ber nú að taka mið af því við úrlausn þessa máls.

Stefnandi reisir kröfu sína um óskipta skyldu stefndu til að greiða tiltekinn kostnað stefnanda vegna húsaleigu sem og kostnað hennar vegna hita, rafmagns og hús­fél­agsgjalda á tímabilinu janúar 2002 til og með maí 2003 á því, að sveitarfélögum sé skylt að halda skóla fyrir öll börn og unglinga á aldrinum 6 til 16 ára samkvæmt 1. gr. laga nr. 66/1995 um grunnskóla; en um sé að ræða aukalegan kostnað, sem stefnandi hafi orðið fyrir sökum þess, að stefndu hafi ekki heima í héraði getað uppfyllt framangreinda skyldu við heyrnarskert barn stefnanda.

Með samningi, 29. júlí 1996, var stofnað byggðasamlag um rekstur og upp­byggingu grunnskóla að Húnavöllum með vísun til IX. kafla laga nr. 8/1986, en skólanum er ætlað að sjá börnum í sveitarfélögum Austur-Húnavallasýslu, þ.m.t. Áshreppi, fyrir grunn­skólanámi, sbr. lög nr. 66/1995.  Myndrit af þessum samningi var lagt fram af stefn­anda, er málið var þingfest 25. nóvember 2003.  Enginn vafi gat þá leikið á því að Áshreppur hafði falið byggðasamlaginu þau réttindi og skyldur er á sveitarfélaginu hvíla samkvæmt lögum nr. 66/1995, sbr. 3. mgr. 11. gr. laganna og 2. gr. laga nr. 77/1996, enda þótt öðru sé haldið fram af hálfu stefnanda.

Af hálfu stefnda, Byggðasamlags Húnavallaskóla, er játað að sveitarfélög, hvert í sínu byggðarlagi, beri ábyrgð á að börn á grunnskólaaldri, er þar eru búsett og þurfa á sér­kennslu að halda, fái kennslu við sitt hæfi.  Í þessu tilviki hafi þessi skylda fallið á byggða­samlagið svo sem samningurinn frá 29. júlí 1996 gerir ráð fyrir.  Byggðasamlagið hafi uppfyllt þessa skyldu, eins og rakið hefur verið, með því að tryggja að dóttir stefn­anda fengi menntun við þau skilyrði sem nauðsynleg eru vegna fötlunar hennar.  Þá hafi beinn kostnaður af námsdvöl barnsins í sérskóla í Reykjavík samkvæmt reikningi frá við­kom­andi skóla verið greiddur, svo sem ákvæði laga um grunnskóla og ákvæði reglugerðar um sérkennslu gera ráð fyrir.  Aftur á móti skorti lagastoð fyrir því að byggðasamlaginu sé skylt að greiða umkrafða fjárhæð, sem stefnandi telur aukalegan kostnað stefnanda vegna námsdvalar barnsins utan Austur-Húnavallasýslu.

Fallist er á með stefnda, Byggðasamlagi Húnavallaskóla, að lagaheimildir, sem stefn­andi vísar til, leggi ekki ótvíræða skyldu á byggðasamlagið að greiða umkrafinn kostnað stefnanda vegna búsetu stefnanda í Reykjavík, á tímabilinu janúar 2002 til og með maí 2003.  Telja verður það kröfu um fjárhagsaðstoð af félagslegum toga, sbr. lög um félagsþjónustu sveitarfélag nr. 40/1991, en á ákvæðum þeirra laga er ekki byggt eins og áður sagði.  Verður byggðasamlagið því sýknað af kröfum stefnanda.

Við svo búið kemur til skoðunar hvort stefnda, Áshreppi, sé skylt að greiða kröfu stefnanda.  Eins og áður sagði fól stefndi, Áshreppur, með samningi 29. júlí 1996, Byggða­samlagi Húnavallaskóla þau réttindi og skyldur er á sveitarfélaginu hvíla með þeim hætti sem lög um grunnskóla nr. 66/1995 heimila.

Þar sem byggðasamlagið vanrækti ekki skyldur, sem Áshreppur framseldi byggða­sam­laginu, um að framfylgja því að dóttir stefnanda fengi aðstæður til menntunar við þau skil­yrði, sem nauðsynleg voru vegna fötlunar hennar, allt í samráði við hreppinn, þá verður að telja að sýkna beri hreppinn af kröfum stefnanda á grundvelli sömu laga­sjónar­miða og lögð er til grundvallar sýknu byggðasamlagsins.

Rétt er að stefnandi greiði málskostað eins og í dómsorði greinir.

Gjafsóknarkostnaður stefnanda greiðist úr ríkissjóði þar með talin mál­flutn­ings­þóknun lögmanns stefnanda sem hæfileg þykir 500.000 krónur.

Páll Þorsteinsson héraðsdómari kveður upp dóminn.

 

DÓMSORÐ:

 

Stefndu, Áshreppur og Byggðasamlag Húnavallaskóla, skulu vera sýkn af kröfum stefnanda, Ólafar Öddu Sveinsdóttur.

Stefnandi greiði stefndu hvoru fyrir sig 400.000 krónur í málskostnað.

Gjafsóknarkostnaður stefnanda greiðist úr ríkissjóði þar með talin málflutningsþóknun lögmanns stefnanda, 500.000 krónur.