Print

Mál nr. 235/2007

Lykilorð
  • Þjófnaður
  • Ölvunarakstur
  • Fyrning
  • Dráttur á máli
  • Sératkvæði

                  

Fimmtudaginn 22. nóvember 2007.

Nr. 235/2007.

Ákæruvaldið

(Bogi Nilsson ríkissaksóknari)

gegn

Viðari Jónssyni

(Hilmar Ingimundarson hrl.)

 

Þjófnaður. Ölvunarakstur. Fyrning. Dráttur á máli. Sératkvæði.

 

V var ákærður fyrir brot á umferðarlögum auk fjögurra brota á almennum hegningarlögum. Voru brotin framin á fyrri hluta árs 2004. Ákæra var gefin út 19. september 2005 og birt V með fyrirkalli 9. júní 2006. Ákærði kom fyrir dóm 15. júní 2006 og játaði sök og var málið þá dómtekið sem játningarmál. Dómur var kveðinn upp 6. mars 2007. V var í Hæstarétti sýknaður af tveimur brotanna vegna fyrningar, en  sakfelldur vegna þriggja brota. Þar sem seinagangur í meðferð málsins þótti í andstöðu við grundvallarreglur 70. gr. stjórnarskrárinnar, 1. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu og 133. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála um málshraða var V ekki gerð refsing.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Hjördís Hákonardóttir og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 18. apríl 2007. Af hálfu ákæruvalds er þess krafist að ákærði verði sakfelldur samkvæmt ákæru og honum ákveðin refsing og ökuréttarsvipting.

Ákærði krefst staðfestingar héraðsdóms.

I.

Ákæra 19. september 2005 er í fimm liðum og er henni nánar lýst í hinum áfrýjaða dómi.

Samkvæmt I. lið er ákærða gefið að sök að hafa hinn 1. febrúar 2004 ekið undir áhrifum áfengis á Patreksfirði. Hann var stöðvaður við aksturinn og játaði brotið. Tekið var blóðsýni og mældist áfengismagn í blóði ákærða 3.1‰. Ákærði var ekki yfirheyrður á ný vegna þessa brots. Ákæra var birt honum með fyrirkalli 9. júní 2006. Þá voru liðin rúm tvö ár frá brotinu og því að rannsókn lögreglu lauk. Sakarferill ákærða kemur ekki til álita við mat á refsingu. Samkvæmt 1. tölulið 1. mgr. 81. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, var brot þetta því fyrnt þegar ákæra var birt.

Í II. og III. lið var ákært fyrir innbrot í veitingahús framin 2. febrúar og 11. mars 2004. Rannsókn lauk 4. febrúar og 15. mars 2004 eða fáeinum dögum eftir að brotin voru framin. Í fyrra tilvikinu var ákært fyrir þjófnað á fjórum flöskum af sterku áfengi og í því síðara þremur flöskum. Ákæra var birt ákærða með fyrirkalli 9. júní 2006. Hvort brotið um sig varðar við 244. gr. almennra hegningarlaga. Þegar til þess er litið að í bæði skiptin var um innbrot að ræða verður, jafnvel þó að ekki hafi verið mikil verðmæti, hvorugt þessara brota heimfært til 256. gr. sömu laga. Af því leiðir að fyrningarfrestur vegna þessara brota er tíu ár og höfðu brotin ekki fyrnst þegar ákæra var birt.

Með IV. ákærulið var ákærða gefin að sök tilraun til þjófnaðar á einni flösku af sterku áfengi úr verslun. Ákærði var yfirheyrður sama dag og hann var handtekinn 23. júní 2004, en málið ekki rannsakað frekar. Brotið varðar við 244. gr., sbr. 20. gr. almennra hegningarlaga. Verðmætis þýfisins var lítið og má við mat á refsingu taka mið af 256. gr. sömu laga. Brotið fyrnist því á tveimur árum, sbr. 1. tölulið 1. mgr. 81. gr. sömu laga. Tæp tvö ár voru liðin þegar fyrirkall var birt ákærða. Þar sem málinu var ekki lokið þrátt fyrir birtingu ákæru og þingfestingu málsins, sem skilyrði voru til að ljúka samkvæmt 125. gr. laga nr. 19/1991 og enn liðu tæpir níu mánuðir áður en dómur var kveðinn upp, verður að líta svo á að ákvæði 5. mgr. 82. gr. almennra hegningarlaga eigi hér við eftir grunnrökum að baki því. Fyrning sakar telst því í þessu tilviki ekki hafa rofnað við birtingu ákæru og var brotið fyrnt þegar dómur var kveðinn upp.

Samkvæmt verknaðalýsingu V. ákæruliðar braust ákærði inn í iðnaðarhúsnæði 28. júní 2004 og stal sex flöskum af rauðspritti. Hann var yfirheyrður vegna atviksins 22. mars 2005. Kvaðst hann þá ekki muna eftir verknaðinum, en rengdi ekki að hann hefði átt sér stað og féllst á að aðstæður bentu til þess. Frekari rannsókn fór ekki fram. Brot þetta verður heimfært undir 244. gr. almennra hegningarlaga og á það sama við varðandi fyrningu og reifað er vegna ákæruliða II og III. Telst brotið ekki hafa verið fyrnt þegar fyrirkall var birt.

Samkvæmt því sem hér hefur verið rakið er ákærði sýknaður vegna fyrningar af kröfum ákæruvalds samkvæmt I. og IV. ákærulið, en sakfelldur fyrir þau brot sem lýst er í ákæruliðum II, III og V.

II.

Rannsókn brota samkvæmt ákæruliðum I til IV fór að fullu fram á fyrri hluta árs 2004 hjá lögreglunni á Patreksfirði og var lokið á brotadegi eða fáeinum dögum síðar. Að því er varðar brot samkvæmt V. ákærulið í lok júní 2004 féll strax grunur á ákærða og fannst þýfi á heimili hans. Hann varð ekki yfirheyrður vegna ástands síns. Kæra kom fyrst fram sjö mánuðum síðar, 15. janúar 2005, og ákærði var yfirheyrður af lögreglunni í Reykjavík 22. mars sama ár. Lauk rannsókn þar með. Sýslumaðurinn á Patreksfirði gaf út ákæru 19. september 2005. Fyrirkall var birt 9. júní 2006. Málið var þingfest og dómtekið 15. sama mánaðar. Ákærði kom fyrir dóminn við þingfestingu málsins. Bókað er að hann hafi ekki óskað eftir verjanda, gætt hafi verið ákvæða 3. mgr. 32. gr. laga nr. 19/1991, honum hafi verið kynnt ákæran og hann hafi játað sök. Dómur var ekki kveðinn upp fyrr en tæpum níu mánuðum síðar, 6. mars 2007.

Málinu var áfrýjað af hálfu ákæruvalds og má ráða af greinargerð að tilgangur áfrýjunar hafi fyrst og fremst verið sá að hnekkja þeirri niðurstöðu héraðsdómara að öll brotin væru fyrnd. Verjandi gerir athugasemd við málsmeðferðina á þann veg að hún sé öll í andstöðu við 70. gr. stjórnarskrárinnar, 133. gr. laga nr. 19/1991 og 1. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Samkvæmt framangreindu er að hluta fallist á sjónarmið ákæruvalds að því er varðar fyrningu. Brotin voru öll upplýst og játaði ákærði þau bæði hjá lögreglu og fyrir dómi. Kom hann þá fyrir annan dómara en þann sem kvað upp dóminn, en samkvæmt endurriti af því þinghaldi tjáði hann sig ekki frekar um málavexti. Um er að ræða mál sem heimilt var að fara með samkvæmt 125. gr. laga nr. 19/1991. Ekki hafa komið fram neinar skýringar á þeim langa tíma sem leið frá því að rannsókn brotanna lauk og þar til málið var tekið fyrir í dómi. Meðferð málsins var í ósamræmi við 133. gr. laga nr. 19/1991 og átti ákærði enga sök á þeim drætti sem orðið hefur á málinu. Eins og hér háttar til leiða þeir gallar sem eru á málsmeðferðinni ekki til ómerkingar dóms og heimvísunar málsins, enda þjónar það ekki öðrum tilgangi en að tefja málslok enn frekar. Hins vegar hefur ákærði, af framangreindum ástæðum, ekki sætt réttlátri málsmeðferð í skilningi þeirra grundvallarreglna sem áður er vísar til. Verður ákærða því ekki gerð refsing fyrir þau brot sem hann er sakfelldur fyrir.

Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað verður staðfest. Samkvæmt 2. mgr. 169. gr. laga nr. 19/1991 verður allur áfrýjunarkostnaður lagður á ríkissjóð, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða fyrir Hæstarétti, sem ákveðin verða að meðtöldum virðisaukaskatti eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Ákærða, Viðari Jónssyni, er ekki gerð refsing.

Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað skal vera óraskað.

Allur áfrýjunarkostnaður málsins greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, Hilmars Ingimundarsonar hæstaréttarlögmanns, 186.750 krónur.

Sératkvæði

Ólafs Barkar Þorvaldssonar

Eins og fram kemur í atkvæði meirihluta dómenda krefst ákærði sýknu af kröfu ákæruvaldsins og telur hann málsmeðferðinni hafa verið áfátt í verulegum atriðum.

Mál þetta var þingfest 15. júní 2006, eftir að ákærða hafði verið birt fyrirkall þar sem hann var að viðlagðri handtöku „kvaddur til að koma fyrir dóm, hlýða á ákæru, halda uppi vörnum og sæta dómi.“ Ákærði sótti þing, en einungis var bókað eftirfarandi: „Ákærði óskar ekki eftir að sér verði skipaður verjandi í málinu. Ákæran er lesin í réttinum. Gætt er ákvæða 3. mgr. 32. gr. laga nr. 19/1991. Ákærði játar sök. Málið er dómtekið.“ Héraðsdómari sem þá fór með málið lauk hins vegar ekki dómi á það. Hinn áfrýjaði dómur var kveðinn upp tæpum átta mánuðum síðar, eða 6. mars 2007. Hafði sá dómari er málið dæmdi þó ekki áður tekið það fyrir á ný og kvatt ákærða fyrir dóm.

Það er meginregla sem kemur fram í lögum nr. 19/1991 að meðferð opinbers máls skuli vera milliliðalaus. Því aðeins er unnt að dæma mál að manni fjarstöddum að uppfyllt séu skilyrði 120. gr., sbr. 126. gr. laganna. Um það er ekki að ræða í þessu máli. Í þessu felst að ekki er að lögum heimilt í öðrum tilvikum að fella dóm á mál án þess að ákærði hafi komið fyrir þann dómara sem dæmir í málinu, sbr. dóm réttarins frá 8. nóvember 2007 í máli nr. 206/2007. Samkvæmt því verður ekki hjá því komist að ómerkja hinn áfrýjaða dóm og leggja fyrir héraðsdómara að taka málið til löglegrar meðferðar og dómsálagningar á ný.

Af þessu leiðir að ég tel rétt að allur sakarkostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti skuli felldur á ríkissjóð, þar með talinn málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða fyrir Hæstarétti og er ég sammála meirihluta dómenda um fjárhæð þeirra málsvarnarlauna sem verjanda eru ætluð.

 

 

Dómur Héraðsdóms Vestfjarða 6. mars 2007.

Mál þetta, sem dómtekið var 15. júní 2006, höfðaði lögreglustjórinn á Patreksfirði með ákæru 19. september 2005 á hendur ákærða, Viðari Jónssyni, kt. 150460-5499, til heimilis að Hátúni 10 í Reykjavík;

fyrir eftirgreind brot framin á árinu 2004 svo sem hér er rakið:

I.

Umferðarlagabrot, með því að hafa sunnudaginn 1. febrúar 2004 ekið bifreiðinni NG 265 undir áhrifum áfengis (vínandamagn í blóði yfir 3,1 %o) frá veitingastaðnum Þorpinu, Aðalstræti 73, Patreksfirði, eftir Aðalstræti til austurs  að heimili sínu að Aðalstræti 74, 450 Patreksfirði, þar sem lögreglan hafði afskipti af honum.

II.

Innbrotsþjófnað, með því að hafa aðfaranótt mánudagsins 2. febrúar 2004 brotist inn í veitingastaðinn Þorpið, Aðalstræti 73, Patreksfirði, og stolið þaðan einni 750 ml. flösku Ballentine, einni 750 ml. flösku King Robert II, einni 750 ml. flösku Gordons gin, og einni 750 ml. flösku Bacardi.

III.

Innbrotsþjófnað, með því að hafa aðfaranótt fimmtudagsins 11. mars 2004 brotist inn í veitingastaðinn Þorpið, Aðalstræti 73, Patreksfirði, og stolið þaðan þremur 750 ml. áfengisflöskum. 

IV.

Tilraun til þjófnaðar með því að hafa miðvikudaginn 23. júní 2004 inni í verslun ÁTVR., Þórsgötu 10, 450 Patreksfirði, tekið eina 500 ml. Eldur ís vodka, en hann var stöðvaður af starfsfólki við útgöngudyr verslunarinnar með flöskuna innan klæða.

V.

Innbrotsþjófnað, með því að hafa aðfaranótt mánudagsins 28. júní 2004 brotist inn í Vöruafgreiðsluna við höfnina, 450 Patreksfirði, og stolið þaðan 6 stk. eins lítra flöskum af rauðspritti.

Brotið í lið I telst varða við 1. mgr. sbr. 3. mgr. 45. gr., sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, sbr. 1. gr. laga nr. 48/1997 og 186. gr. laga nr. 82/1998, brotið í lið II-III og V varðar við 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og brotið í lið IV varðar við 244. gr., sbr. 20. gr., almennra hegningarlaga nr. 19/1940

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til sviptingar ökuréttar samkvæmt 101. og 102. gr. umferðarlaga, sbr. 25. gr. laga nr. 44/1993, 4. gr. laga nr. 57/1997 og 2. gr. laga nr. 23/1998.

I.

Ákærði kom fyrir dóm 15. júní 2006 og viðurkenndi brot sín eins og þeim er lýst í ákæru. Játning ákærða er í samræmi við gögn málsins. Brot hans teljast því sönnuð og varða þau við tilgreind lagaákvæði í ákæru. Samkvæmt þessu þykja vera efni til að leggja dóm á málið á grundvelli 125. gr. laga nr. 19/1991.

II.

Brot ákærða voru framin á tímabilinu frá 1. febrúar til 28. júní 2004. Samkvæmt rannsóknargögnum lögreglu var rannsókn vegna brota þeirra er í ákæruliðum I-III greinir lokið 15. mars 2004 og þá lauk rannsókn á broti samkvæmt IV. lið ákæru 23. júní sama ár.

Rannsókn á því broti sem ákæruliður V tekur til hófst 28. júní 2004. Var síðan ekkert aðhafst af hálfu lögreglu fyrr en 15. janúar 2005 er tekin var kæruskýrsla af fyrirsvarsmanni Vöruafgreiðslunnar. Því næst var tekin skýrsla af ákærða 21. mars sama ár og markaði sú skýrslutaka endalok rannsóknar lögreglu.

Eins og áður segir var ákæra í máli þessu gefin út 15. september 2005 og barst hún dóminum 21. sama mánaðar. Málið var síðan þingfest og dómtekið 15. júní 2006.

III.

Fram kemur á sakavottorði ákærða að hann hafi árið 1983 verið dæmdur til greiðslu 9.000 króna sektar fyrir ölvunarakstur og verið sviptur ökurétti ævilangt. Þá hafi hann árið 1992 verið dæmdur í 30 daga varðhald, skilorðsbundið í tvö ár, og til greiðslu 50.000 króna sektar, fyrir nytjastuld og umferðarlagabrot, meðal annars ölvunarakstur.

Samkvæmt 1. tölulið 1. mgr. 81. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 fyrnist sök á tveimur árum ef refsing sem unnið er til fer ekki fram úr sektum. Að þeim brotum virtum sem ákærða eru gefin að sök í ákæru er ljóst að refsing sú sem honum hefði verið ákveðin, vegna hvers brots um sig, hefði ekki farið fram úr sektum, sbr. heimild í 1. mgr. 256. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 hvað þau brot varðar er í ákæruliðum II-V greinir.

Svo sem rakið hefur verið voru brot ákærða framin á tímabilinu frá 1. febrúar til 28. júní 2004. Mál þetta var síðan höfðað með ákæru lögreglustjórans á Patreksfirði 19. september 2005 og þingfest og dómtekið 15. júní 2006. Nú, rúmlega átta mánuðum síðar, hefur enn ekki verið kveðinn upp dómur í málinu.

Ákærða verður ekki kennt um þann drátt sem varð á meðferð málsins fram að útgáfu ákæru og eftir að ákæran barst dóminum. Í báðum tilvikum þykir rannsókn hafa stöðvast um óákveðinn tíma í skilningi 5. mgr. 82. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Liðið er vel á þriðja ár frá því að öll brot ákærða voru framin. Samkvæmt þessu og öðru framangreindu telst sök ákærða fyrnd. Skal því sýkna hann af öllum kröfum ákæruvalds.

Samkvæmt úrslitum málsins, sbr. 1. mgr. 166. gr. laga nr. 19/1991, greiðist allur kostnaður sakarinnar úr ríkissjóði.

Dóm þennan kveður upp Kristinn Halldórsson, settur héraðsdómari, en dómarinn fékk málið til meðferðar 27. nóvember 2006.

DÓMSORÐ:

Ákærði, Viðar Jónsson, skal sýkn af öllum kröfum ákæruvalds í málinu.

Allur kostnaður sakarinnar greiðist úr ríkissjóði.