Mál nr. 812/2013

Lykilorð
  • Nauðungarsala
  • Ráðgefandi álit
  • Veðskuldabréf
  • Kærumál

                                     

Miðvikudaginn 29. janúar 2014.

Nr. 812/2013.

 

Sigurður Sigurðsson og

Guðríður Einarsdóttir

(Ingvi Hrafn Óskarsson hdl.)

gegn

Arion banka hf.

(Karl Óttar Pétursson hrl.)

 

Kærumál. Nauðungarsala. Veðskuldabréf. Ráðgefandi álit.

Staðfestur var úrskurður héraðsdóms þar sem leyst var úr ágreiningi um gildi nauðungarsölu. Hafnað var kröfu S og G um að ógilt yrði nauðungarsala á fasteign þeirra, sem fram fór að beiðni A hf. á grundvelli veðskuldabréfs sem gjaldfallið var og í vanskilum. Samhliða kæru til Hæstaréttar höfðu S og G uppi beiðni um að leitað yrði ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins á nánar tilgreindum atriðum um skýringu á tilskipun ráðsins 93/13/EB um óréttmæta skilmála í neytendasamningum og tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2008/48/EB um lánasamninga fyrir neytendur og um niðurfellingu tilskipunar ráðsins 807/102/EB, en þeirri beiðni var hafnað undir meðferð málsins fyrir réttinum.

 

Dómur Hæstaréttar

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Benedikt Bogason og Þorgeir Örlygsson.

Sóknaraðilar skutu málinu til Hæstaréttar með kæru 16. desember 2013 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 20. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 3. desember 2013 þar sem leyst var úr ágreiningi um gildi nauðungarsölu. Kæruheimild er í 1. mgr. 85. gr. laga nr. 90/1991 um nauðungarsölu. Sóknaraðilar krefjast þess að ógilt verði nauðungarsala á fasteign þeirra Hegranesi 15 í Garðabæ sem seld var á uppboði 2. nóvember 2012. Þá krefjast þau kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

Samhliða kæru í máli þessu kröfðust sóknaraðilar þess að leitað yrði ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins um nánar tiltekin atriði er lúta að skýringu á tilskipun ráðsins 93/13/EBE 5. apríl 1993 um óréttmæta skilmála í neytendasamningum og tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2008/48/EB frá 23. apríl 2008 um lánasamninga fyrir neytendur og um niðurfellingu tilskipunar ráðsins 87/102/EBE. Varnaraðili andmælti þessari kröfu sóknaraðila. Með bréfi Hæstaréttar 17. janúar 2014 var sóknaraðilum tilkynnt að framangreindri kröfu þeirra um öflun ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins hefði verið hafnað.

Með skírskotun til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Eftir þessum málsúrslitum verða sóknaraðilar dæmd til að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Sóknaraðilar, Sigurður Sigurðsson og Guðríður Einarsdóttir, greiði óskipt varnaraðila, Arion banka hf., 350.000 krónur í kærumálskostnað.

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 3. desember 2013.

                Með tilkynningu samkvæmt 81. gr. laga um nauðungarsölu nr. 90/1991, sem barst Héraðsdómi Reykjaness 29. nóvember 2012, leituðu sóknaraðilar úrlausnar dómsins á grundvelli XIV. kafla laga nr. 90/1991 um gildi nauðungarsölu á fasteign sóknaraðila að Hegranesi 15, Garðabæ, sem fram fór 2. nóvember 2012.

Krefjast sóknaraðilar þess að framangreind nauðungarsala verði ógilt og að þeim verði ekki vikið af eigninni áður en niðurstaða er fengin í máli þessu, sbr. 3. mgr. 55. gr. laga nr. 90/1991. Þá krefjast sóknaraðilar málskostnaðar.

Af hálfu varnaraðila er þess krafist að kröfum sóknaraðila verði hafnað og að nauðungarsalan verði staðfest. Þá er krafist málskostnaðar úr hendi sóknaraðila.

                Við fyrirtöku málsins í þinghaldi 4. apríl 2013 var þess krafist af hálfu sóknaraðila að leitað yrði ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins með heimild í lögum nr. 21/1994 um öflun álits EFTA-dómstólsins um skýringu samnings um Evrópska efnahagssvæðið. Með úrskurði 19. júní 2013 var þeirri málaleitan hafnað.

I

                Helstu atvik málsins eru að þann 7. desember 2004 gáfu sóknaraðilar út veðskuldabréf, sem er grundvöllur nauðungarsölunnar, til Kaupþings Búnaðarbanka hf. að fjárhæð 36.000.000 króna. Lánið var til 40 ára, verðtryggt með föstum vöxtum, tryggt með veði í fasteign sóknaraðila að Hegranesi 15, Garðabæ. Í gögnum málsins kemur fram að með útgáfu veðskuldabréfsins voru sóknaraðilar að endurfjármagna skuldir sínar, þ. á m. skuldir sóknaraðila við aðra kröfuhafa en varnaraðila. Í bréfinu eru ákvæði um að verði vanskil á greiðslu afborgana sé heimilt að fella skuldina í gjalddaga fyrirvaralaust og án uppsagnar og setja eignina í nauðungarsölu til fullnustu kröfunni án undangengins dóms, sáttar eða fjárnáms. Þann 30. júní 2009 var gerð breyting á greiðsluskilmálum veðskuldabréfsins með þeim hætti að vanskil, sem staðið höfðu yfir frá 1. janúar 2009, voru lögð við höfuðstól skuldarinnar. Fyrsti gjalddagi eftir skilmálabreytinguna var 1. janúar 2010 en sú greiðsla féll í gjalddaga án þess að greiðsla bærist. Sóknaraðilar hafa því ekki innt af hendi neina greiðslu af bréfinu frá 1. desember 2008.

                Sóknaraðilar byggja kröfu sína um ógildingu nauðungarsölunnar á nokkrum málsástæðum. Telja sóknaraðilar annmarka á sölunni er tengjast aðild varnaraðila að kröfunni og umboði varnaraðila til að innheimta kröfuna. Þá hafi ekki öll skuldin samkvæmt veðskuldabréfinu verið fallin í gjalddaga og annmarkar verið á greiðsluáskorun til sóknaraðila og innheimtuferlinu að öðru leyti. Dráttarvextir séu ofreiknaðir í kröfulýsingu og ólögmætum kostnaði bætt við. Sóknaraðilar byggja á að miklir annmarkar hafi verið við upplýsingagjöf af hálfu varnaraðila í tengslum við gerð skilmálabreytinga skuldabréfsins. Engar upplýsingar hafi verið lagðar fram um vexti, verðtryggingu og vanskil, sem sé brot á lögum nr. 12/1994 um neytendalán. Sóknaraðilar halda því fram að upphaflegur kröfuhafi hafi beitt sóknaraðila óeðlilegum þrýstingi þegar ýmsar skuldir sóknaraðila voru felldar undir skuldabréfið, þ. á m. skuldir sem stöfuðu frá atvinnurekstri sóknaraðila. Byggja sóknaraðilar þessa málsástæðu á 29. gr., 33. gr. og 36. gr. laga nr. 7/1936. Loks byggja sóknaraðilar á því að nauðungarsölubeiðni varnaraðila fullnægi ekki skilyrðum nauðungarsölulaga til þess að nauðungarsala geti náð fram að ganga.

                Varnaraðili mótmælir málsatvikalýsingu sóknaraðila og öllum málsástæðum þeirra sem röngum, ósönnuðum og vanreifuðum.

II

                Sóknaraðili segir að sú skuld sem veðskuldabréfinu sé ætlað að tryggja eigi sér þrenns konar rætur. Í fyrsta lagi sé um að ræða hin eiginlegu íbúðalán sem hvíldu á fasteigninni að Hegranesi 15 árið 2004 sem námu þá samanlagt tæplega 14.000.000 króna. Í öðru lagi sé um að ræða skuld sem eigi rætur sínar að rekja til uppgjörs forvera varnaraðila á eftirstöðvum skuldar fyrirtækis sóknaraðila árið 2004. Í þriðja lagi sé um að ræða víxilskuld þriðja aðila sem forvera varnaraðila hafi fellt á sóknaraðila sem ábyrgðarmenn. Í lok árs 2004 hafi allar ofangreindar kröfur bankans verið felldar saman í veðskuldabréfið, samtals að upphæð 36.000.000 króna. Sóknaraðilar hafi lengi haldið uppi athugasemdum varðandi tilkomu og réttmæti tveggja síðarnefndu þáttanna og margítrekað leitað samninga um eðlilega og sanngjarna niðurstöðu. Sóknaraðilar telja að forveri varnaraðila, Kaupþing banki hf., hafi á sínum tíma þvingað fram útgáfu veðskuldabréfsins í krafti yfirburðastöðu þvert á gefin fyrirheit.

Árið 1996 hafi sóknaraðilar stofnað Skipholts Apótek og hafið lyfsölurekstur þá um haustið. Af ástæðum sem óþarft sé að rekja nánar hér hafi félagið ratað í fjárhagsvandræði og í lok árs 2003 hafi reksturinn verið seldur. Í framhaldi hafi farið fram uppgjör á eftirstöðvum skulda félagsins og hluti skulda félagsins felldur undir fyrrgreint veðskuldabréf. Umrætt uppgjör hafi haft einkenni einhvers konar nauðasamnings en það hafi verið unnið undur stjórn Kaupþings banka hf. sem viðskiptabanka sóknaraðila og Skipholts Apóteks. Hafi verið afráðið að sóknaraðilar skyldu ganga á milli hvers og eins kröfuhafa fyrirtækisins með yfirlýsingu, sem Kaupþing banki hf. hafi útbúið, þar sem í raun hafi verið farið þess á leit að söluverðinu yrði dreift á milli kröfuhafa sem fullnaðaruppgjöri skulda félagsins, þannig að eftirstöðvar krafna yrðu felldar niður. Í samræmi við það hafi verið í yfirlýsingunum að finna eftirfarandi fyrirvara kröfuhafanna: „Við gerum þetta samkomulag í trausti þess að aðrir kröfuhafar falli frá það stórum hluta af kröfum sínum að unnt sé að gera eftirstöðvar upp tafarlaust hjá Skipholtsapóteki-Bergfell ehf. og að ekki verði frekari eftirmáli á skuldum fyrirtækisins.“ Af fyrirvaranum að dæma megi ætla að það hafi verið skilningur allra, þ. á m. sóknaraðila, að allir kröfuhafar fengju einhverjar greiðslur og að allir felldu í kjölfarið niður það sem eftir stæði. Kaupþing banki hf., sem hafi haft umsjón með uppgjörinu, hafi hins vegar hagað hlutunum þannig að þegar sóknaraðilum hafi tekist að afla yfirlýsingar frá öllum öðrum kröfuhöfum, og uppgjör gagnvart þeim hafði farið fram, þá hafi verið gengið frá málinu með þeim hætti að kröfur Kaupþings banka hf. héldust óbreyttar, þ.e. að þar skyldi ekki gefið eftir. Þess í stað hafi þær verið gerðar upp í heild sinni með þeim hætti að fella þær undir nýtt veðskuldabréf. Sóknaraðilar segja að þau hafi á þessum tíma ekki talið sig í neinni stöðu til að eiga við þá niðurstöðu vegna yfirburðastöðu bankans en hafi lengi síðar gert athugasemd við hana og telji bankann í raun hafa rangt við í uppgjörinu.

Þann hluta veðskuldabréfsins sem megi rekja til hins svokallaða víxilmáls telja sóknaraðilar jafnframt að beri að fella niður vegna vanrækslu Kaupþings banka hf. Forsaga þess sé sú að Elísabet, dóttir sóknaraðila, hafi verið í sambúð með Bjarka Ágústssyni og þau verið jafnir eigendur að félaginu Kaldabergi ehf. sem hafi haldið utan um rekstur tannlæknastofu Bjarka. Við fyrirhugaða sölu félagsins árið 2002 hafi komið í ljós að forsenda sölunnar var að staðin yrðu skil á tilteknum kröfum áður en söluferlið gæti hafist. Í því skyni hafi Búnaðarbankanum þann 6. maí 2002 verið seldur víxill að fjárhæð 3.000.000 króna sem hafi verið gefinn út af Sigurði, ábektur af Elísabetu og samþykktur til greiðslu af Kaldabergi. Fyrirhuguð sala félagsins hafi hins vegar ekki gengið eftir og víxillinn farið í vanskil. Eftir að sambúð Elísabetar og Bjarka slitnaði, og til stóð að Bjarki eignaðist Kaldaberg ehf. að fullu, hafi sóknaraðili Sigurður viljað losna undan ábyrgð sinni á skuldinni. Í því skyni hafi verið leitað eftir því við Bjarka að hann losaði þau undan ábyrgðinni. Bjarki hafi gefið út skaðleysisyfirlýsingar þar að lútandi. Á grundvelli þessarar skaðleysisyfirlýsingu samþykkti sóknaraðili Sigurður að framlengja víxilinn óbreyttan. Efndir hafi hins vegar ekki orðið samkvæmt yfirlýsingunni og víxillinn ekki verið greiddur. Kaldaberg ehf. hafi þó starfað um tíma áfram án nokkurrar raunverulegrar tilraunar bankans til innheimtuaðgerðar til að fá víxilinn greiddan. Í framhaldinu hafi Kaldaberg ehf. orðið gjaldþrota og bankinn gengið að sóknaraðila Sigurði vegna ábyrgðarinnar á víxilkröfunni og sú krafa síðan felld undir veðskuldabréfið sem sé grundvöllur hinnar umdeildu nauðungarsölu. Helstu athugasemdir sóknaraðila gagnvart bankanum hvað þetta varðar séu þær að bankinn hafði látið hjá líða að innheimta skuldina hjá Kaldabergi ehf. á meðan félagið bjó yfir eignum sem eftir atvikum hefðu getað mætt kröfunni. Þá hefði bankinn fylgst með því og verið kunnugt um þegar eignir voru færðar úr Kaldabergi yfir á nýtt félag án þess að reyna að tryggja hagsmuni sína gagnvart félaginu. Þannig hafi bankinn í raun valið að ganga að ábyrgðarmanninum Sigurði fremur en að ganga að Kaldabergi. Það framferði bankans telja sóknaraðilar að hafi verið afar ósanngjarnt í þeirra garð, svo ekki sé sterkara til orða tekið, sérstaklega í því ljósi að bankanum hafi verið kunnugt um stöðu mála og ástæðurnar sem lágu að baki því að Sigurður framlengdi ábyrgð sína, enda hafi það framferði bankans valdið sóknaraðilum miklum búsifjum.

Í kjölfar þeirra áfalla sem riðu yfir íslenskt efnahagslíf haustið 2008 hafi sóknaraðilar ratað í umtalsverðan fjárhagslegan vanda eins og margir aðrir Íslendingar. Sóknaraðili Sigurður hafi misst vinnuna og verið metinn öryrki. Um tíma hafi sóknaraðilum reynst ókleift að standa undir greiðslum af umræddu veðskuldabréfi og þau nýtt sér úrræði sem buðust einstaklingum í fjárhagsvanda. Hafi þá verið undirrituð skilmálabreyting á veðskuldabréfinu þar sem greiðsluskilmálum og fleiru hafi verið breytt. Á árinu 2010 hafi sóknaraðilar reynt ítrekað að ná samningum um skuldina við varnaraðila en án árangurs. Sóknaraðilum hafi verið birt greiðsluáskorun 27. október 2010. Á árinu 2010 hafi farið fram viðræður um skuldamál sóknaraðila milli þeirra og varnaraðila en sóknaraðilar hafi sett fram margvíslegar athugasemdir og kröfur um leiðréttingu sinna mála vegna framgöngu varnaraðila. Í október 2010 hafi þessar viðræður leitt til þess að bankinn og sóknaraðilar undirrituðu samkomulag þar sem ábyrgðarskuldbinding sóknaraðila vegna tiltekins skuldabréfs, ótengt þessu máli,  var felld niður gegn því að sóknaraðilar myndu ekki höfða skaðabótamál á hendur bankanum vegna atvika sem tengdust umræddu skuldabréfi. Á meðan á þessum viðræðum stóð hafi sóknaraðilar verið í góðri trú um að afborgunum af veðskuldabréfinu yrði frestað þar til varanlegt samkomulag næðist um skuldamál sóknaraðila, enda hafi ekki átt sér stað neinar innheimtutilraunir af hálfu varnaraðila fyrr en greiðsluáskorun var skyndilega birt fyrir þeim í lok október 2010. Í kjölfar þessa hafi sóknaraðilar leitað á náðir umboðsmanns skuldara 31. janúar 2011. Sóknaraðilar hafi þó á endanum komist að þeirri niðurstöðu að eina leiðin til þess að ná sanngjarnri og réttmætri niðurstöðu í skuldamálum sínum væri að gera lokaatlögu að samningum við varnaraðila en leita réttar síns ella fyrir dómstólum. Þau hafi því afturkallað umsókn sína hjá umboðsmanni skuldara í febrúar sl. Sóknaraðilar hafi gert ítrekaðar tilraunir eins og áður segir til þess að ná niðurstöðu í samningum við varnaraðila og m.a. boðið varnaraðila að ljúka málinu með eingreiðslu að fjárhæð 55.000.000 króna. Gagntilboð varnaraðila hafi hljóðað upp á eingreiðslu að fjárhæð 65.000.000 króna sem sóknaraðilum sé ókleift að reiða fram eins og varnaraðila hafi mátti vera ljóst.

Með vísan til atvika málsins telja sóknaraðilar að ekki hafi verið fyrir hendi skilyrði til þess að láta fara fram nauðungarsölu á eign þeirra og því beri að fella gerðina úr gildi.

Annmarkar sem tengjast aðild og umboði innheimtuaðila

Sóknaraðilar halda því fram að upphaflegur gerðarbeiðandi nauðungarsölunnar sé fagfjárfestasjóður í umsjá Stefnis hf. sem sé dótturfélag varnaraðila. Kaupþing banki hf. hafi framselt sjóðnum, sem þá hafi heitið Kaupthing mortgages institutional investor fund, skuldabréfið með framsali 29. mars 2006. Stefnir hf. sé sjálfstætt fjármálafyrirtæki og starfi sem rekstrarfélag verðbréfasjóða samkvæmt lögum nr. 161/2002. Framangreindur sjóður sé því ekki hluti af lögpersónunni Arion banki hf. Óljóst sé hvort og hvernig Stefnir hf. hafi veitt varnaraðila heimild til þess að innheimta og semja um skilmála veðskuldabréfsins. Virðist varnaraðili hafa innheimt kröfuna sem innheimtuaðili í skilningi laga um innheimtu nr. 95/2008. Samkvæmt 7. gr. laganna beri innheimtuaðila að senda innheimtuviðvörun til skuldara áður en frekari aðgerðir séu hafnar og verði slík viðvörun jafnframt að teljast til góðra innheimtuhátta, sbr. 6. gr. laganna, nema ríkir hagsmunir kalli á skjótari aðgerðir. Slík viðvörun hafi ekki verið send til sóknaraðila áður en greiðsluáskorun, dags. 13. október 2010, var birt sóknaraðilum. Innheimtulög gildi ekki um löginnheimtu. Samkvæmt 24. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn sé með löginnheimtu átt við innheimtumeðferð á grundvelli réttarfarslaga og markist upphaf hennar við aðgerðir sem byggðar séu á lögum um nauðungarsölu eða tilkynningum sem samrýmast góðum lögmannsháttum. Framangreind greiðsluáskorun teljist ótvírætt falla undir löginnheimtu í framangreindum skilningi. Löginnheimta sé falin lögmönnum samkvæmt tilvitnuðum lögum um innheimtu annars vegar og lögum um lögmenn hins vegar. Verði ekki séð að lögmönnum varnaraðila, sem starfi með undanþágu samkvæmt 2. mgr. 12. gr. laga nr. 77/1998, sé heimilt að stunda löginnheimtu fyrir annan lögaðila en varnaraðila. Stefnir hf. sé sjálfstætt fjármálafyrirtæki sem starfi með rekstrarleyfi frá Fjármálaeftirlitinu sem sé ekki hluti af starfsleyfi varnaraðila.

Eignarhald upphaflegs gerðarbeiðanda og réttur til að krefjast nauðungarsölu stangast á við eignarskráningu í þinglýsingabókum. Framsal á veðskuldabréfinu til varnaraðila sé áritað árið 2006. Engu að síður sé Nýi Kaupþing banki hf. (nú Arion banki hf.) skráður sem eigandi veðréttarins í þinglýsingabókum vegna ákvörðunar Fjármálaeftirlitsins frá 9. október 2009. Samkvæmt þinglýsingabókum hafi Arion bank mortgage institute því ekki verið þinglýstur eigandi veðréttarins þegar lögð var fram beiðni um nauðungarsölu. Veðskuldabréfið sé áritað um framsal til varnaraðila frá Arion bank mortgage institute þann 4. maí 2012. Engin gögn hafi verið lögð fram af hálfu varnaraðila í tengslum við nauðungarsöluna sem staðfesti heimild þess sem undirritar en þess sé að sjálfsögðu þörf því að engin opinber skrá gildi um umboð eða undirritunarheimildir fyrir sjóði af þessum toga. Þá liggi fyrir að Arion bank mortgage institute hafi verið formlegur gerðarbeiðandi að umdeildri nauðungarsölu og engar breytingar hafi verið gerðar á aðild að nauðungarsölunni af hálfu sýslumanns. Engin ákvæði í lögum nr. 90/1991 fjalli um þá stöðu ef réttindi, sem tengjast nauðungarsölubeiðni, eru framseld á meðan beiðni er til meðferðar hjá sýslumanni. Í reynd sé staðan þá sú að gerðarbeiðandi njóti ekki þeirra réttinda sem voru grundvöllur nauðungarsölubeiðni og kveði lögin ekki á um heimild til aðilaskipta við þessar aðstæður. Í þessu ljósi virðist eðlilegasta niðurstaðan að málið falli niður og nýr kröfuhafi leggi fram nýja nauðungarsölubeiðni.

Annmarkar sem tengjast gjaldfellingu og innheimtu

Sóknaraðilar halda því fram að varnaraðila sé aðeins heimilt að fara fram á nauðungarsölu samkvæmt ákvæðum skuldabréfsins ef öll skuldin samkvæmt skuldabréfinu sé í gjalddaga fallin. Nauðungarsölu verði auk þess aðeins krafist vegna skulda sem fallnar séu í gjalddaga, sbr. 9. laga nr. 90/1991. Þegar greiðsluáskorun varnaraðila var birt fyrir sóknaraðilum hafi aðeins fáeinar afborganir af skuldabréfinu verið fallnar í gjalddaga og varnaraðili hafi ekki fyrir þann tíma nýtt heimild til þess að gjaldfella alla skuldina. Greiðsluáskorun, dags. þann 13. október 2010, ásamt yfirlýsingu um fyrirhugaðar innheimtuaðgerðir, hafi falið í sér harkalega aðgerð gagnvart sóknaraðilum. Telja verði að varnaraðili hafi ekki veitt sóknaraðilum hæfilegt svigrúm til þess bregðast við áskorun þessari og ekki staðið rétt að greiðsluáskoruninni þar sem fram hafi verið settur rangur útreikningur á skuldum sóknaraðila. Þá verði að hafa í huga að samningaviðræður stóðu yfir milli sóknaraðila og forvera varnaraðila. Í veðskuldabréfinu sé kveðið á um að heimilt sé að gjaldfella skuldina fyrirvaralaust og án uppsagnar. Af langri dómaframkvæmd Hæstaréttar megi ráða að orðalag þetta verði ekki túlkað bókstaflega. Þá vísa sóknaraðilar einnig til 1. mgr. og 2. mgr. 9. gr. laga um samningsveð nr. 75/1997 en þar sé gert ráð fyrir að veðhafi krefjist eindögunar kröfu sinnar vegna verulegra vanefnda í kjölfar hæfilegs frests.

Þann 30. júní 2009 hafi verið undirrituð skilmálabreyting sem feli í sér breytingu á skilmálum skuldabréfsins. Þar segi eftirfarandi: Lán fryst í 1 ár lengt sem því nemur“ Gjaldfelling skuldarinnar geti ekki átt sér stað á meðan greiðslum var frestað, lánið lengt og fryst samkvæmt skilmálum sínum, þ.e. fram til 30. júní 2010. Að hvatningu varnaraðila hafi sóknaraðilar leitað til umboðsmanns skuldara. Samkvæmt 11. gr. laga nr. 101/2010 um greiðsluaðlögun einstaklinga, sbr. og bráðabirgðaákvæði þeirra laga nr. II, sé greiðslum skulda einstaklings, sem hefur sótt um greiðsluaðlögun samkvæmt lögunum, frestað tímabundið. Frá því að umsókn sóknaraðila var lögð fram og þar til hún var felld niður hafi því verið óheimilt að gjaldfella skuld sóknaraðila samkvæmt skuldabréfinu. Varnaraðili hafi því ekki getað gjaldfellt skuldir sóknaraðila eftir að sú umsókn var sett fram samkvæmt b lið 1. mgr. 11. gr. laga nr. 101/2010, sbr. bráðabirgðaákvæði laganna nr. II. Teljist greiðsluáskorun þann 13. október 2010 gild yfirlýsing um gjaldfellingu og eindögun veðkröfunnar sé á því byggt að hún hafi á grundvelli 11. gr. laga nr. 101/2010 fallið úr gildi. Réttaráhrif umræddrar greiðsluáskorunar hafi með öðrum orðum fallið úr gildi þegar sóknaraðilar lögðu fram umsókn um greiðsluaðlögun. Þegar greiðsluaðlögun lauk, án þess að samningur væri kominn á, hafi varnaraðila fyrst verið heimilt að hefja innheimtu á nýjan leik með nýrri greiðsluáskorun. Ný greiðsluáskorun hafi ekki verið lögð fram.

Ofreiknaðir dráttarvextir

Varnaraðili hafi farið fram á sölu fasteignar sóknaraðila meðal annars til fullnustu dráttarvaxtakröfu að fjárhæð 16.443.626 króna. Samkvæmt beiðni um nauðungarsölu hafi dráttarvextir verið reiknaðir frá 1. janúar 2010. Sé því miðað við að öll skuldin hafi sjálfkrafa fallið í gjalddaga á nýársdegi 2010. Engin innheimtuviðvörun, greiðsluáskorun eða yfirlýsing um gjaldfellingu hafi verið send sóknaraðilum á þessum tímapunkti sem sé í andstöðu við ákvæði um eindögun veðkröfu samkvæmt lögum um samningsveð. Eins og rakið hafi verið hafi skuldabréfið verið framlengt og fryst um eitt ár með skilmálabreytingu sem gerð hafi verið þann 30. júní 2009. Varnaraðila sé því ekki heimilt að reikna sér dráttarvexti á því tímabili. Engin greiðsluáskorun eða gjaldfellingaryfirlýsing hafi verið birt eða send sóknaraðilum fyrr en með greiðsluáskorun dagsettri 13. október 2010. Samkvæmt birtingarvottorði hafi þessi áskorun verið birt sóknaraðilum þann 27. október 2010. Varnaraðila hafi ekki verið heimilt að reikna dráttarvexti af eftirstöðvum skuldarinnar, sem ekki voru gjaldfallnir samkvæmt samningi, fyrr en mánuði eftir að sóknaraðilar höfðu sannanlega verið krafðir um greiðslu, sbr. 3. mgr. 5. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Jafnframt sé áskilið í 3. mgr. 5. gr. vaxtalaganna að skuldari sé með réttu krafinn um greiðslu. Að hvatningu varnaraðila hafi sóknaraðilar leitað til umboðsmanns skuldara og lagt fram umsókn um greiðsluaðlögun einstaklinga þann 31. janúar 2011 sem hafi verið samþykkt 2. desember 2011. Sóknaraðilar hafi afturkallað umsóknina í febrúar 2012. Samkvæmt 11. gr. laga nr. 101/2010 um greiðsluaðlögun einstaklinga, sbr. og bráðabirgðaákvæði þeirra laga nr. II, sé greiðslum skulda viðkomandi einstaklings frestað tímabundið. Í því hljóti að felast að kröfuhöfum sé óheimilt að krefjast dráttarvaxta fyrir þann tíma sem frestun greiðslna stendur yfir, enda haldi þá skuldari eftir greiðslu af lögmætum ástæðum, sbr. 2. málsl. 7. gr. vaxtalaga nr. 38/2001.

Ólögmætur kostnaður

Varnaraðili setji fram kröfu um þóknun vegna innheimtu. Kröfu þessari er mótmælt sem óeðlilega hárri. Þá sé henni mótmælt þar sem kröfuhafi hafi ekki staðið réttilega að innheimtu kröfunnar. Vísa sóknaraðilar í því sambandi til þess vafa sem sé um aðild og umboð til innheimtu, þá óréttmætu dráttarvaxtakröfu sem sett sé fram í málinu og misvísandi upplýsingagjöf af hálfu varnaraðila. Samkvæmt lögum um neytendalán nr. 121/1994 og 4. gr. reglugerðar nr. 377/1993, með síðari breytingum, beri lánveitanda að kynna lántaka upplýsingar um lántökukostnað og kostnað vegna vanskila í lánssamningnum eða á sérstöku blaði. Ekki hafi verið upplýst um þann kostnað sem nú sé krafist og sé varnaraðila óheimilt að krefjast greiðslu hans. Þá er einnig bent á að samkvæmt orðalagi veðskuldabréfsins sé varnaraðila einungis skylt að greiða kostnað „skv. gjaldskrá Kaupþings Búnaðarbanka hf.“, en ekkert liggi fyrir um efni umræddrar gjaldskrár.

Annmarkar á upplýsingagjöf

Breyting á skilmálum skuldabréfsins sé lánssamningur í skilningi laga um neytendalán nr. 121/1994. Með hliðsjón af framangreindum lögum sé ljóst að upplýsingagjöf varnaraðila í tengslum við gerð skilmálabreytingarinnar hafi verið verulegum annmörkum háð. Samkvæmt ákvæðum laganna og reglugerðar nr. 377/1993 beri lánveitanda að leggja fram upplýsingar um allan kostnað sem tengist lánveitingunni, þar á meðal vexti, verðtryggingu og vanskil. Engar slíkar upplýsingar hafi verið lagðar fram þrátt fyrir að varnaraðila hafi mátt vera ljóst að sóknaraðilar höfðu á þessum tíma ratað í verulegan fjárhagsvanda eins og margir aðrir Íslendingar. Brýn þörf hafi verið á viðeigandi upplýsingagjöf til þess að sóknaraðilar gætu lagt mat á stöðu sína. Ákvæði framangreindrar skilmálabreytingar, sem heimili lánveitanda að veita ekki tilteknar upplýsingar, hafi ekki áhrif á lögbundnar skyldur lánveitanda í þessum efnum. Ákvæði laga nr. 121/1994 séu ekki frávíkjanleg með samningi.

Rúmlega ári eftir að framangreind skilmálabreyting var undirrituð hafi varnaraðili lagt fram greiðsluáskorun sem áður hafi verið fjallað um. Höfuðstóll skuldarinnar hafi verið 49.817.997 krónur samkvæmt skilmálabreytingunni á miðju ári 2009. Þann 13. október 2010 hafi skuld sóknaraðila samkvæmt útreikningi varnaraðila verið 62.502.476 krónur. Skuldin hafi sem sagt hækkað um rúmlega 25% samkvæmt útreikningi varnaraðila. Telja verði að lánveitandi hljóti á grundvelli upplýsingaskyldu, sem kveðið sé á um í lögum nr. 121/1994, að vera skylt að upplýsa lántakanda með skilmerkilegum hætti um að hugsanlegar breytingar á lánskostnaði og kostnaði vegna vanskila. Af 14. gr. laga nr. 121/1994 leiði að ekki sé hægt að krefja lántaka um greiðslu kostnaðar, þar með talið vexti, verðtryggingu og vanskilakostnað, sem lántaki hafi ekki verið upplýstur um í samræmi við skyldur lánveitanda samkvæmt lögunum. Samkvæmt lögunum, sbr. 6. gr. og 7. gr., beri lánveitanda að reikna heildarlántökukostnað, og árlega hlutfallstölu kostnaðar, sem endurspegli allan heildarlántökukostnað. Í 8. gr. sé kveðið á um að gera þurfi sérstaka grein fyrir kostnaði sem ekki sé hægt meta í framangreindum útreikningum. Á framangreindum grundvelli telja sóknaraðilar að lánveitanda sé óheimilt að krefja sig um greiðslu lánskostnaðar í skilningi laganna umfram skilgreinda hlutfallstölu kostnaðar, sbr. 1. mgr. og 2. mgr. laga nr. 121/1994, þar sem varnaraðili hafi vanrækt upplýsingaskyldu sína. Samkvæmt upphaflegum samningi aðila hafi árleg hlutfallstala kostnaðar verið 4,43%.

Sóknaraðilar telja að upplýsingagjöf forvera varnaraðila, Kaupþings banka hf., við upphaflega útgáfu veðskuldabréfsins árið 2004, hafi ekki heldur fullnægt skyldum bankans samkvæmt lögum nr. 121/1994. Samkvæmt 12. gr. laganna sé verðtrygging undanskilin í útreikningi á árlegri hlutfallstölu kostnaðar og heildarlántökukostnaði. Samkvæmt 8. gr. beri hins vegar, ef kostnaður er óþekktur, að veita neytanda upplýsingar um hvernig hann sé reiknaður út og áætla hver hann sé. Í samantekt lántökukostnaðar, dags. 13. desember 2004, sem lögð hafi verið fram við útgáfu skuldabréfsins og teljist „hluti af viðfestri skuldaviðurkenningu“ sé kostnaðar af verðtryggingu í engu getið. Enga áætlun um kostnað af verðtryggingu sé þar heldur að finna. Fyrir vikið hafi upplýsingagjöf Kaupþings banka hf. verið misvísandi sem skapi bankanum bótaábyrgð samkvæmt 15. gr. laganna, auk þess sem ætla megi að 14. gr. laganna leiði til þess að ekki sé hægt að innheimta kostnað, í þessu tilviki verðtryggingu, sem ekki hafi verið upplýst um í samræmi við lögin.

Kröfur sóknaraðila vegna lögskipta að baki skuldabréfinu

Sóknaraðilar hafi sent varnaraðila kröfu um endurskoðun á stöðu íbúðaláns og frestun nauðungarsölu. Málsatvikum hefur verið gert skil hér að framan. Sóknaraðilar telja að tilgreining á upphaflegri skuld þeirra sé röng í veðskuldabréfinu og undirritun þeirra eigi rætur að rekja til ólögmæts þrýstings af hálfu upphaflegs kröfuhafa. Sóknaraðilar telja að  réttmætar kröfur varnaraðila hafi í reynd verið hið minnsta fjórðungi lægri en tilgreindur upphaflegur höfuðstóll skuldarinnar í veðskuldabréfinu. Er sérstaklega vísað til skjals sem lagt er fram með tilkynningu þessari sem útbúið var af forvera varnaraðila og bar yfirskriftina „Uppgreiðslur fyrir Sigurð Sigurðsson kt. 150345-4469 – Hegranes 15“. Þar komi fram að verulegur hluti þeirra skulda sem gerðar séu upp með veðskuldabréfinu hafi verið skuldir Skipholts Apóteks, nú Bergfell ehf., sem hafi átt að fella niður í uppgjöri samkvæmt samkomulagi við kröfuhafa eins og rakið hafi verið. Við þetta bætist síðan skuld vegna víxilmálsins, alls að fjárhæð 3.943.082 krónur, sem eigi rætur að rekja til ólögmætrar vanrækslu bankans.

Réttur sóknaraðila til leiðréttingar á rangri tilgreiningu á veðskuldinni eigi rætur að rekja til þess ójafnræðis sem fyrir hendi hafi verið í samningagerð milli einstaklinga í fjárhagsvanda annars vegar og viðskiptabanka hins vegar. Gera verði ríkar kröfur til þess að lánaskjöl, sem útbúin séu af viðskiptabanka, endurspegli efnislegan rétt bankans og byggist á eðlilegum og sanngjörnum viðskiptaháttum. Atvik málsins séu með þeim hætti að skilyrði fyrir leiðréttingu eða ógildingu á veðskuldabréfinu að hluta á grundvelli III. kafla laga nr. 7/1936 eigi bersýnilega við, þ. á m. á grundvelli 29. gr., 33. gr. og 36 gr. tilvitnaðra laga.

Sóknaraðilar telja að sjónarmið um tómlæti af hálfu sóknaraðila vegna framangreindra krafna um leiðréttingu á ranglega tilgreindri skuld eigi ekki við þar sem útgáfa veðskuldabréfsins hafi verið þvinguð fram í krafti yfirburðastöðu viðskiptabankans.

Nauðungarsölubeiðni varnaraðila styðjist við heimild í 2. tl. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 90/1991. Samkvæmt ákvæðinu þurfi veðkrafan að styðjast við þinglýstan samning um veðrétt í eigninni fyrir tiltekinni peningakröfu. Ákvæði þetta byggist á þeirri forsendu að efnislegur réttur gerðarbeiðandans við þessar aðstæður sé að jafnaði ljós og ótvíræður og ekki þurfi aðra staðfestingu á tilvist og efni réttinda gerðarbeiðandans en skýr ákvæði veðskjalsins. Komi fram efnislegir annmarkar, sem snúa að fjárkröfum þeim sem settar eru fram af hálfu gerðarbeiðandans, sem hafa þá þýðingu að fjárkrafa er að verulegu leyti annars efnis en leiða myndi af skilmálum veðskjalsins, sé ljóst að hin beina nauðungarsöluheimild eigi ekki við. Slíkir annmarkar séu fyrir hendi í máli þessu.   

Kröfu sína um ógildingu byggja sóknaraðilar á ákvæði 80. gr. laga um nauðungarsölu, nr. 90/1991. Jafnframt vísa sóknaraðilar til annarra ákvæða laganna, einkum 6., 11., 13. og 55. gr. laganna. Þá vísa sóknaraðilar til ákvæða laga nr. 121/1991 um neytendalán og reglugerðar nr. 377/1993. Þá er vísað til III. kafla laga nr. 7/1936, sérstaklega 29. gr., 33. gr. og 36 gr. laganna. Vísað er til 24. gr. og 2. mgr. 12. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn, laga um innheimtu nr. 95/2008 og 11 gr. laga nr. 101/2010 um greiðsluaðlögun einstaklinga, sbr. og bráðabirgðaákvæði þeirra laga nr. II. Vísað er til laga um samningsveð nr. 75/1997, laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001, einkum 2. málsl. 7. gr. laganna, og almennra reglna samninga- og kröfuréttar. Málskostnaðarkröfu sinni til stuðnings vísa sóknaraðilar til XXI. kafla laga um meðferð einkamála nr. 91/1991, einkum 129. og 130. gr. laganna, sbr. 4. mgr. 84. gr. laga um nauðungarsölu nr. 90/1991. Krafa um virðisaukaskatt á málflutningsþóknun byggist á ákvæðum laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt en sóknaraðilar séu ekki virðisaukaskattsskyldir aðilar.

III

                Varnaraðili kveðst í upphafi vilja taka fram að að veðskuldabréfið mæli fyrir um tiltekna skuld sóknaraðila við varnaraðila sem tryggð sé með veði í eign sóknaraðila en tryggi ekki einhverjar aðrar skuldir sóknaraðila við varnaraðila. Ágreiningur sem sóknaraðilar hafi nú uppi um tilurð veðskuldabréfsins varði tvær kröfur sem gerðar hafi veið upp við útgáfu þess. Þær kröfur varði aðra lögaðila en varnaraðila. Því sé örðugt fyrir varnaraðila að lýsa atvikum málsins með tæmandi hætti. Þá haldi sóknaraðilar því fram að forveri varnaraðila hafi á sínum tíma þvingað þau til að undirrita veðskuldabréfið. Varnaraðili mótmælir þessari fullyrðingu sóknaraðila sem ósannaðri. Varnar­aðili heldur því fram að það séu sóknaraðilar sem beri sönnunar­byrði fyrir þeim fullyrðingum sem þau byggja málatilbúnað sinn á og mótmælir að slík sönnunarbyrði falli á varnaraðila eins og sóknaraðilar virðast byggja á í málatilbúnaði sínum.

                Atvik málsins, eins og þau horfi við varnaraðila, séu þau að þann 7. desember 2004 hafi sóknaraðilar gefið út verðtryggt veðskuldabréf til Kaupþings Búnaðarbanka hf. að höfuðstólsfjárhæð 36.000.000 króna, tryggt með veði í fasteigninni Hegranesi 15, Garðabæ. Í 4. lið bréfsins segi að verði vanskil á greiðslu afborgana eða vaxta/vísitöluálags af skuldabréfinu sé heimilt að fella skuldina í gjalddaga fyrirvaralaust og án uppsagnar. Beri þá að greiða dráttarvexti sem Seðlabanki Íslands ákveði, sbr. 1. mgr. 6. gr. vaxtalaga nr. 38/2001 af gjaldfallinni eða gjaldfelldri fjárhæð. Í 7. lið bréfsins segi að þegar skuldin sé fallin í gjalddaga geti veðhafi látið selja hina veðsettu eign nauðungarsölu til fullnustu kröfunni án undangengins dóms, sáttar eða fjárnáms samkvæmt 2. tl. 1. mgr. 6. gr. l. nr. 90/1991. Auk þess að ná til höfuðstóls skuldarinnar nái nauðungarsölu- og aðfararheimildin til vísitöluálags, vaxta, dráttarvaxta, málskostnaðar eða innheimtukostnaðar, kostnaðar af gerðinni sjálfri og væntanlegs kostnaðar af frekari fullnustuaðgerðum. Til staðfestu alls þess hafi sóknaraðilar undirritað veðskuldabréfið í votta viðurvist.

                Við útgáfu veðskuldabréfsins hafi skuldir sóknaraðila verið endurfjármagnaðar og hafi það verið gert í samræmi við beiðni þeirra þar um. Á 1.-8. veðrétti fasteignarinnar hafi hvílt skuldir frá öðrum kröfuhöfum en varnaraðila en þær skuldir hafi numið 17.680.779 krónum á þeim tíma sem endurfjármögnun fór fram. Á 9. veðrétti hafi hvílt tryggingarbréf, útgefið þann 19. október 2000 að höfuðstólsfjárhæð 5.000.000 króna, en tryggingarbréf þetta hafi staðið til tryggingar skuldum Bergfells ehf., sem sé í eigu sóknaraðila, við Búnaðarbanka Íslands. Staða tryggingarbréfsins á tíma endurfjármögnunar hafi verið 5.513.459 krónur en bréfið hafi verið tengt vísitölu neysluverðs. Á 10. veðrétti hafi hvílt veðskuldabréf, upphaflega útgefið þann 24. október 2003 til Kaupþings Búnaðarbanka hf. af sóknaraðila Sigurði Sigurðssyni, að höfuðstólsfjárhæð 4.790.000 krónur, en staða þess við endurfjármögnun hafi verið 3.943.082 krónur. Við útgáfu hins umdeilda veðskuldabréfs hafi einnig verið greiddar upp aðrar skuldir sóknaraðila við hina ýmsu aðila en þær hafi numið 8.067.062 krónum.

                Forveri varnaraðila, Kaupþing banki hf., hafi framselt veðskuldabréfið þann 29. mars 2006 til Kaupthing mortages institutional investor fund (KMIIF), sbr. áritun þess efnis á bréfinu sjálfu. Sama dag hafi Kaupþing banki hf. og KMIIF gert með sér þjónustusamning þar sem KMIIF veitti Kaupþing banka hf. fullt umboð til að koma fram fyrir hönd sjóðsins, að þjónusta lán hans og innheimta þau þegar þess gerðist þörf, þ. á m. lán sóknaraðila. Með ákvörðun 9. október 2008 hafi Fjármálaeftirlitið tekið yfir vald hluthafa­fund­ar Kaup­­þings banka hf. og með ákvörðun, dags. 21. október 2008, hafi Fjármálaeftirlitið tekið ákvörð­­­un um hvaða eignum, réttindum og skuldum yrði ráðstafað til stefnda.

                Þann 30. júní 2009 hafi verið gerð skilmálabreyting á greiðsluskilmálum veðskuldabréfs á þann veg að næstu greiðslu bréfsins var frestað til 1. janúar 2010 auk þess sem vanskil bréfsins, sem höfðu staðið frá 1. janúar 2009, skyldi leggja við höfuðstól bréfsins. Þann 1. janúar 2010, á fyrsta gjalddaga eftir skilmálabreytingu, hafi sóknaraðilar ekki sinnt því að greiða af veðskuldabréfinu og hafi því ekki innt af hendi neina greiðslu af bréfinu frá 1. desember 2008. Veðskuldabréfið hafi því fallið í vanskil 1. janúar 2010. Sóknaraðilum hafi verið send milliinnheimtubréf þann 8. febrúar 2010, 2. mars 2010 og 18. mars 2010 þar sem skorað hafi verið á þau að greiða kröfuna til að koma í veg fyrir frekari kostnað og innheimtuaðgerðir. Þá hafi ennfremur verið tekið fram að krafan færi í löginnheimtu ef áskorunum yrði ekki sinnt. Sóknaraðilar hafi í engu sinnt áskorunum varnaraðila um að greiða kröfuna. Þann 13. október 2010 hafi sóknaraðilum verið sendar greiðsluáskoranir. Greiðsluáskoranir hafi verið birtar sóknaraðila Sigurði Sigurðssyni á heimili sóknaraðila með stefnuvotti 27. október 2010 og þann 1. febrúar 2011 hafi verið staðfest umsókn sóknaraðila hjá umboðsmanni skuldara. Þann 17. febrúar 2012 hafi þau afturkallað umsókn sína hjá umboðsmanni skuldara. Þann 24. febrúar 2012 hafi varnaraðili sent nauðungarsölubeiðni til sýslumanns í Hafnarfirði. Þann 18. október 2011 hafi Stefnir hf., rekstrarfélag KMIIF, tilkynnt til fyrirtækjaskrár um breytingu á nafni KMIIF í Arion bank mortages institutional investor fund. Sá sjóður hafi framselt veðskuldabréfið til varnaraðila þann 4. maí 2012, sbr. áritun þess efnis á bréfið sjálft.          

                Varnaraðili mótmælir lýsingu sóknaraðila á málsatvikum að svo miklu leyti sem hún gangi gegn málavaxtalýsingu varnaraðila. Jafnframt mótmælir varnaraðili sérstaklega fjölda ályktana sóknaraðila, sem fram koma í tilkynningu til héraðsdóms og greinargerð, enda eigi þær ekki við nein rök að styðjast og gangi sumar hverjar gegn framlögðum gögnum málsins, s.s. fullyrðingar um að veðskuldabréfið hafi verið gjaldfellt á sama tíma og það var „fryst“, að sóknaraðilar hafi ekki fengið sendar innheimtuviðvaranir og áskoranir um greiðslu, að meirihluti skulda, sem gerðar voru upp við útgáfu veðskuldabréfsins, hafi tengst Bergfelli hf., svo nokkur dæmi séu nefnd.          

                Sóknaraðilar haldi því fram í fyrsta lagi að varnaraðili hafi ekki haft heimild til að skilmálabreyta veðskuldabréfi því sem hér um ræðir. Líkt og að framan greini í lýsingu málavaxta þá hafi nefnt veðskuldabréf verið framselt til KMIIF þann 29. mars 2006. Sama dag hafi Kaupþing banki hf. og KMIIF gert með sér þjónustusamning. Í samningnum komi fram að KMIIF veiti Kaupþingi banka hf. fulla heimild til að koma fram sem löglegur umboðsmaður þeirra bréfa sem séu í eigu KMIIF. Í ákvæðinu sé það ítarlega útlistað að Kaupþing banki hf. hafi heimild til að framkvæma allar þær aðgerðir fyrir hönd KMIIF sem nauðsynlegar teljast en þar undir verði að telja að falli m.a. heimild til að framkvæma skilmálabreytingar, senda út greiðslukvittanir og innheimta bréfin. Fjármálaeftirlitið hafi 9. október 2008 nýtt heimild í 100. gr. a. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, sbr. 5. gr. laga nr. 125/2008, til að taka yfir vald hluthafafundar í Kaupþingi banka hf., víkja stjórn félagsins frá og setja yfir það skilanefnd. Í framhaldi af því hafi verið stofnaður Nýi Kaupþing banki hf., sem nú beri heitið Arion banki hf. Varnaraðili hafi tekið við ýmsum réttindum og skyldum Kaupþings banka hf. samkvæmt ákvörðun Fjármálaeftirlitsins, dags. 21. október 2008, þ. á m. réttindi og skyldur samkvæmt umræddum samningi Kaupþings banka hf. og KMIIF. Eftir framsalið hafi varnaraðili komið fram fyrir hönd sjóðsins sem umboðsmaður vegna einstakra lána í eigu sjóðsins, sbr. 2. tl. samningsins. Nafni sjóðsins hafi síðar verið breytt í Arion bank mortgages institutional investor fund. Þann 20. janúar 2012 hafi þjónustusamningurinn verið endurnýjaður og annar liður samningsins haldist óbreyttur. Starfsmenn varnaraðila hafi þessu til samræmis framkvæmt skilmálabreytingu þá sem gerð var þann 30. júní 2009. Málsástæður sóknaraðila, hvað fyrrgreint varðar, fái því ekki staðist. Jafnvel þótt annmarkar yrðu taldir hafa verið á framkvæmdinni að þessu leyti geti þeir ekki að lögum leitt til þess að nauðungarsalan sem slík sé ógild. Sóknaraðilar beri það enda ekki fyrir sig að meintir annmarkar séu þess eðlis að sóknaraðilar hefðu getað varnað nauðungaruppboði. Þá tekur varnaraðili það fram að sóknaraðilar óskuðu að eigin frumkvæði eftir umræddri skilmálabreytingu við varnaraðila sem í framhaldinu samþykkti beiðnina, f.h. sjóðsins, sem viðleitni í að aðstoða þau í tímabundnum greiðsluerfiðleikum. Þá bendir varnaraðili á að sóknaraðilar undirrituðu skilmála­breytinguna án þess að gera nokkrar athugasemdir við það að varnaraðili sæi um framkvæmd hennar.

                Þá vekur varnaraðili athygli á því, vegna tilvísunar sóknaraðila til laga nr. 77/1998 um lögmenn, í tengslum við svonefnda löginnheimtu, að varnaraðili hafi komið fram sem umboðsmaður sjóðsins vegna lána sem voru í eign sjóðsins. Lögmenn varnaraðila hafi þessu til samræmis sinnt löginnheimtu fyrir varnaraðila sem hafi í krafti áðurgreinds umboðs annast innheimtu fyrir hönd sjóðsins. Málsástæður sóknaraðila fái því ekki staðist. Þá tekur varnaraðili það einnig fram að jafnvel þótt annmarkar yrðu taldir hafa verið á framkvæmdinni að þessu leyti geti þeir ekki að lögum leitt til þess að nauðungarsalan sem slík sé ógild. Sóknaraðilar beri það enda ekki fyrir sig að meintir annmarkar séu þess eðlis að sóknaraðilar hefðu getað varnað nauðungaruppboði eins og fyrr greinir.

                Sóknaraðilar haldi því fram að þeim hafi ekki verið send innheimtuviðvörun, sbr. 7. gr. laga nr. 95/2008, og að þeim hafi ekki verið send nein áskorun um greiðslu fyrr en þeim barst greiðsluáskorun þann 27. október 2010. Varnaraðili mótmælir þeim fullyrðingum sóknaraðila sem röngum. Sóknaraðilum hafi ávallt verið send innheimtuviðvörun 10 dögum eftir vanskil hvers gjalddaga en samkvæmt framlögðu skjali megi sjá að þar sem tiltekin séu vanskilagjöld, 650 krónur, hafi bréf um slíkt verið sent út. Þá hafi sóknaraðilum verið send milliinnheimtubréf þann 8. febrúar, 2. mars og 18. mars 2010. Varnaraðili hafi lagt fram dómskjöl sem séu afrit af þeim milliinnheimtubréfum sem sóknaraðilum var send. Varnaraðili geymi ekki afrit af hverju og einu innheimtuviðvörunarbréfi né milliinnheimtubréfum, enda séu send þúsundir innheimtu- og milliinnheimtubréfa í mánuði hverjum. Þá bendir varnaraðili á að honum beri ekki skylda til að geyma afrit af þeim bréfum. Í bréfum þeim sem sóknaraðilar fengu send komi fram að viðvarandi vanskil geti leitt til lögfræðilegrar innheimtu og stóraukins kostnaðar. Bréfin hafi verið send á lögheimili sóknaraðila.

                Varnaraðili mótmælir þeim skilningi sóknaraðila að skráning í þinglýsingabók hafi einhver áhrif á umrædda nauðungarsölu, enda beri varnaraðili ekki ábyrgð á þeirri skráningu og engin lagaskylda hvíli á eiganda veðskuldabréfs að tilkynna um framsal og breyta skráningu í þinglýsingabók í samræmi við framsal. Það sé veðskuldabréfið sjálft sem mæli fyrir um eiganda bréfsins á hverjum tíma og sé það í samræmi við meginreglur kröfuréttar. Með sama hætti fáist sú röksemd sóknar­aðila ekki staðist að aðilaskipti geti ekki orðið undir rekstri máls hjá sýslumanni, auk þess sem hún sé í mótsögn við málatilbúnað sóknaraðila að öðru leyti.

                Í öðru lagi haldi sóknaraðilar því fram að varnaraðili hafi ekki verið búinn að gjaldfella veðskuldabréfið í heild sinni þegar greiðsluáskorun var send þann 13. október 2010. Varnaraðili mótmælir því og vísar m.a. til greiðslu­áskorunar þess efnis þar sem fram komi að skuldin öll sé fallin í gjalddaga. Í nauðungarsölubeiðni til sýslumanns, dags. 24. febrúar 2012, komi slíkt hið sama fram. Varnaraðili hafi haft heimild til að gjaldfella veðskuldabréfið í heild sinni samkvæmt ákvæðum bréfsins sjálfs en þar komi fram að heimilt sé að gjaldfella skuldina fyrirvaralaust og án uppsagnar verði vanskil á greiðslu afborgana eða vaxta/vísitöluálags af veðskuldabréfinu. Varnaraðili hafi þannig verið í fullum rétti til að gjaldfella veðskuldabréfið í heild sinni án tilkynningar til sóknaraðila.

                Varnaraðili mótmælir því að sóknaraðilar hafi ekki haft nægan tíma til að bregðast við áskorunum hans um greiðslu vanskila á veðskuldabréfinu en eins og að framan greinir hafi þeim verið send þó nokkur innheimtubréf áður en þeim var birt greiðsluáskorun þann 27. október 2010. Þá bendir varnaraðili á að í lögum um nauðungarsölu nr. 90/1991 sé kveðið á um í 9. gr. að áður en nauðungarsölu verði krafist til fullnustu peningakröfu á grundvelli heimildar samkvæmt 2.-6. tl. 1. mgr. 6. gr. og eftir að krafan er komin í gjalddaga, skuli gerðarbeiðandi beina greiðsluáskorun til gerðarþola með minnst fimmtán daga fyrirvara. Greiðsluáskorun varnaraðila hafi eins og fram sé komið verið birt sóknaraðilum þann 27. október 2010 en nauðungarsölubeiðni ekki send sýslumanni fyrr en 24. febrúar 2012. Líkt og að framan greini hafi sóknaraðilar verið í greiðsluskjóli hjá umboðsmanni skuldara frá 1. febrúar 2011 til 21. febrúar 2012. Mótbárur sóknaraðila um að þau hafi ekki haft góðan tíma til að bregðast við greiðsluáskorun varnaraðila eigi þannig við engin rök að styðjast. Varnaraðili vill af þeim sökum einnig benda á að sóknaraðilar hafi á engum tímapunkti sýnt nokkurn greiðsluvilja frá því að veðskuldabréfið féll í vanskil þann 1. janúar 2010. Þá fullyrði sóknaraðilar í greinargerð sinni að á þeim tíma, sem greiðslu­áskorun var send og birt þeim, hafi þau staðið í samningaviðræðum við varnaraðila. Varnaraðili mótmælir þeirri fullyrðingu sóknaraðila. Engar samningaviðræður hafi staðið á milli aðila máls þessa á þeim tímapunkti.

                Þá vill varnaraðili leiðrétta þann misskilning sóknaraðila að lán þeirra hafi verið „fryst“ á þeim tíma sem veðskuldabréfið var gjaldfellt. Sóknaraðilar vísi þar til skilmálabreytingar 30. júní 2009 þar sem segi: „Lán fryst í 1 ár lengt sem því nemur“. Þegar skilmálabreyting fór fram hafði lánið verið í vanskilum frá 1. janúar 2009. Í skilmálabreytingunni hafi falist öll vanskil, þ.e. frá 1. janúar 2009 til dagsetningar skilmálabreytingar. Bætt hafi verið við höfuðstól skuldarinnar og greiðslum veðskuldabréfsins frestað til 1. janúar 2010. Með áðurnefndum texta í skilmálabreytingunni hafi varnaraðili verið að vekja athygli sóknaraðila á því að engar greiðslur væru inntar af hendi í eitt ár, þ.e. frá 1. janúar 2009 til 1. janúar 2010, og þannig yrði lánið lengt sem því næmi. Gjaldfelling skuldarinnar hafi því ekki farið fram á meðan greiðslum var frestað, heldur eftir þann tíma. Fullyrðingar sóknaraðila um annað séu þannig rangar og í raun í ósamræmi við skjalleg gögn málsins.

                Þá mótmælir varnaraðili því sem ósönnuðu að það hafi verið að hvatningu hans sem sóknaraðilar leituðu til umboðsmanns skuldara. Varnaraðili geri sé ekki grein fyrir hvaða þýðingu slík fullyrðing sóknaraðila eigi að hafa í málinu en hvað sem því líði sé hún röng. Varnaraðili mótmælir einnig þeirri staðhæfingu sóknaraðila að greiðsluáskorun sú sem þeim var send hafi fallið úr gildi þegar sóknaraðilar lögðu fram umsókn sína um greiðsluaðlögun, enda eigi slíkt enga stoð í lögum. Veðskuldabréfið hafi verið gjaldfellt í heild sinni áður en sóknaraðilar fóru í greiðsluskjól hjá umboðsmanni skuldara þann 1. febrúar 2011. Hvers kyns mótbárur sóknaraðila með vísan til laga nr. 101/2010 um greiðsluaðlögun einstaklinga séu því haldlausar í þessu samhengi.              

                Sóknaraðilar haldi því fram í þriðja lagi að varnaraðili hafi ofreiknað dráttarvexti. Í því samhengi vill varnaraðili byrja á því að ítreka það sem áður hefur komið fram um rétt hans til að gjaldfella veðskuldabréfið samkvæmt ákvæðum bréfsins sjálfs í heild sinni án tilkynninga til sóknaraðila. Þá ítrekar varnaraðili einnig mótmæli sín við því að sóknaraðilar hafi ekki verið inntir eftir greiðslu fyrr en með greiðsluáskorun birtri fyrir sóknaraðilum þann 27. október 2010. Þegar kom að afborgun veðskuldabréfsins þann 1. janúar 2010 hafi sóknaraðilar fengið sendan greiðsluseðil líkt og aðrir viðskiptavinir varnaraðila þar sem þau hafi verið krafin um greiðslu. Í greiðsluseðli komi fram að heimilt sé að krefjast dráttarvaxta frá gjalddaga. Málsástæðum sóknaraðila um ofreiknaða dráttarvexti er mótmælt og jafnvel þótt fallist yrði á sjónarmið sóknaraðila þar að lútandi geti það ekki orðið þess valdandi að nauðungarsalan sem slík sé ógilt í heild sinni, líkt og sóknaraðilar krefjist, heldur kæmi þetta til skoðunar við úthlutun söluverðs eftir ákvæðum VIII. kafla nauðungarsölulaga. Með sama hætti sé ljóst að yrðu réttaráhrif gjaldfellingar ekki talin geta miðast við 1. janúar 2010, þ.e. þegar vanskil urðu af hálfu sóknaraðila, blasi við að gjaldfelling hafi verið heimil þegar greiðsluáskorun var send 13. október 2010 en sú greiðsluáskorun beri með sér að skuldin hafi verið gjaldfelld. Engar afborganir hafi verið greiddar, sbr. og ákvæði 4. tl. skuldabréfsins, en þar segi að séu vanskil fyrir hendi sé heimilt að „fella skuldina í gjalddaga fyrirvaralaust og án uppsagnar“. Rétt sé þó að geta þess að sóknaraðilar beri ekki fyrir sig að vanskil hafi ekki orðið. Réttaráhrif þessa yrðu þá ekki önnur en þau að gjaldfellingardagur myndi færast aftur, eða í síðasta lagi til 13. október 2010, og myndu dráttarvextir þá reiknast frá því tímamarki. Þá mótmælir varnaraðili því að honum sé óheimilt að krefjast dráttarvaxta á meðan sóknaraðilar voru í greiðsluskjóli, enda sé hvergi kveðið á um að slíkt sé óheimilt í lögum nr. 101/2010 um greiðsluaðlögun, hvorki í lögunum sjálfum né í greinargerð. Þá segi að auki í 2. mgr. 11. gr. laganna að vextir falli á skuldir meðan á frestun greiðslna standi.

                Í fjórða lagi haldi sóknaraðilar því fram að varnaraðili sé að innheimta ólögmætan kostnað án þess að það sé rökstutt frekar. Málsástæðum og lagatúlkunum sóknaraðila um ólögmætan kostnað sé mótmælt. Eins og sóknaraðilar tiltaki sjálfir í tilkynningu sinni til héraðsdóms komi fram í veðskuldabréfinu að sóknaraðilar skuldbindi sig til að greiða kostnað af innheimtu hverrar greiðslu samkvæmt gjaldskrá Kaupþings Búnaðarbanka hf. á greiðsludegi. Gjaldskrá varnaraðila, sem er í gildi á hverjum tíma, sé birt almenningi á vefsíðu bankans. Þá bendir varnaraðili á að verði svo talið að varnaraðili hafi ekki gætt að öllu leyti þeirra upplýsinga sem geta beri samkvæmt lögum nr. 121/1994 um neytendalán og reglugerð nr. 377/1993 valdi það ekki ógildi nauðungarsölunnar. Brot á áðurnefndum lögum og reglugerð geti valdið skaðabótaskyldu, sbr. 27. gr. laganna og 6. gr. reglugerðarinnar, en ekki ógildi lánssamnings eins og sóknaraðilar virðast álykta.

                 Varnaraðili telur sig hafa að fullu gætt að þeirri upplýsingaskyldu sem lög um neytendalán áskilji, bæði við útgáfu veðskuldabréfsins og við skilmálabreytingu þess. Umrædd skilmálabreyting hafi verið gerð að beiðni sóknaraðila og að frumkvæði þeirra en sóknaraðili Sigurður hafi óskað eftir frestun á greiðslum á veðskuldabréfinu þar sem hann hafi verið atvinnulaus og talið að staða sín yrði betri í byrjun árs 2010. Varnaraðili vill taka það fram að verði litið svo á að skilmálabreyting láns teljist vera lánssamningur samkvæmt skilningi laga nr. 121/1994 um neytendalán geti það aldrei haft áhrif á gildi nauðungarsölu eignarinnar Hegranes 15, Garðabæ.

                Þá virðist sóknaraðilum yfirsjást í tengslum við umfjöllun þeirra um útgáfu veðskuldabréfsins sérákvæði 1. mgr. 12. gr. laganna þar sem segir að ef lánssamningur heimilar verðtryggingu eða breytingu á vöxtum eða öðrum gjöldum, sem teljast hluti árlegrar hlutfallstölu kostnaðar, en ekki sé unnt að meta hverju nemi á þeim tíma sem útreikningur er gerður, skuli reikna út árlega hlutfallstölu kostnaðar miðað við þá forsendu að verðlag, vextir og önnur gjöld verði óbreytt til loka lánstímans. Í lögunum sé þannig skýrt tiltekið að miða skuli við að verðlag verði óbreytt til loka lánstímans ef lánssamningur er verðtryggður. Neytendalánsútreikningur varnaraðila hafi þannig að fullu verið í samræmi við ákvæði laga um neytendalán. Varnaraðili mótmælir því jafnframt sem ósönnuðu að hann hafi lofað, ábyrgst eða samið um að afborganir veðskuldabréfsins yrðu í samræmi við framlagðar áætlanir um greiðslu á hverjum gjalddaga þeirra, enda komi skýrt fram í neytenda­láns­útreiknings­skjali að um áætlun sé að ræða.

                Sóknaraðilar haldi því fram í sjötta lagi í að varnaraðili hafi beitt þau þrýstingi til að gefa út veðskuldabréfið og á sama tíma að fella aðrar skuldir undir skuldabréfið. Varnaraðili mótmælir þessari fullyrðingu sóknaraðila harðlega, enda sé hún með öllu ósönnuð, órökstudd og vanreifuð. Þá bendir varnaraðili á að sóknaraðilar hafi fyrst komið fram með athugasemdir við umrædda lánveitingu 24. apríl 2012, þ.e. 8 árum eftir að lánveiting fór fram og eftir að veðskuldabréfið var komið í veruleg vanskil og lögfræðilega innheimtu.

                Varnaraðili ítrekar mótmæli sín við þeirri fullyrðingu að sóknaraðilar hafi verið beittir ólögmætum þrýstingi við útgáfu veðskuldabréfsins. Ekkert liggi fyrir í gögnum málsins sem bendi til þess að svo hafi verið. Þá sé einnig vert að benda á að sóknaraðilar greiddu af veðskuldabréfinu athugasemdalaust til 1. janúar 2009. Það hafi ekki verið fyrr en að beiðni um nauðungarsölu var send sýslumanninum í Hafnarfirði þann 24. febrúar 2012 sem sóknaraðilar hafi fyrst gert athugasemdir við tilurð veðskuldabréfsins. Slíkt verði að teljast tómlæti af þeirra hálfu.

                Varnaraðili byggir kröfu sína í málinu á því að öll skilyrði nauðungarsölulaga hafi verið uppfyllt og hafnar um leið sjöundu málsástæðu sóknaraðila. Varnaraðili byggir á því að sýslumanni hafi ekki verið annað fært en að halda gerðinni áfram og selja fasteign sóknaraðila á nauðungaruppboði. Skuldabréf varnaraðila uppfylli skilyrði 2. tl. 6. gr. nauðungarsölulaga og 11. gr. sömu laga.

                Varnaraðili mótmælir kröfu sóknaraðila sem of seint fram kominni að skilyrði séu fyrir leiðréttingu eða ógildingu á veðskuldabréfinu að hluta á grundvelli III. kafla laga nr. 7/1936, þ. á m. á grundvelli 29. gr., 33. gr. og 36. gr. tilvitnaðra laga, enda sé ekki gerð slík krafa í tilkynningu til héraðsdóms. Þá telur varnaraðili að kröfu um ógildingu veðskuldabréfs á grundvelli ofangreindra laga ekki samrýmast ákvæðum nauðungarsölulaga nr. 90/1991, sbr. 75. og 77. gr. þeirra laga.

                Um lagarök vísar varnaraðili til laga nr. 90/1991 um nauðungarsölu, laga nr. 121/1994 um neytendalán og reglugerðar nr. 377/1993. Jafnframt er vísað til laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála og almennra regna einkamálaréttarfars. Jafnframt er vísað til reglna viðskiptabréfaréttarins og almennra reglna kröfu­réttar og megin­reglna samningaréttar um skuld­bind­ingar­gildi lof­orða og skyldu til að efna samn­­inga en reglur þessar fái m.a. stoð í lögum nr. 7/1936 um samnings­gerð, umboð og ógilda löggerninga. Varnaraðili vísar jafnframt til reglna samn­inga­réttar um skýringu og túlkun samninga og jafnframt reglna um skuld­bind­ingargildi samninga og að gilda löggerninga skuldi halda. Varnaraðili vísar til reglna einka­málaréttarfars um sönnun og sönn­un­ar­­byrði. Vísað er til al­mennra reglna kröfuréttar um að aðilar haldi réttindum sínum til haga með for­svaran­leg­um hætti og innan tilskilins tíma en eigi ella á hættu að tapa þeim réttindum.

IV

Varnaraðili beindi beiðni til sýslumannsins í Hafnarfirði 24. febrúar 2012 um að fasteign sóknaraðila, Hegranes 15, Garðabæ, yrði seld nauðungarsölu til fullnustu skuldar að fjárhæð 72.637.236 krónur að meðtöldum vöxtum og kostnaði. Heimildarskjal fyrir þessari kröfu var veðskuldabréf sem deilt er um í málinu. Það var útgefið 7. desember 2004 af sóknaraðilum til forvera varnaraðila, Kaupþings Búnaðarbanka hf., upphaflega að fjárhæð 36.000.000 króna, með veði í Hegranesi 15, Garðabæ, vísitölutryggt með föstum vöxtum. Í skilmálum bréfsins segir að höfuðstóll skuldarinnar breytist í hlutfalli við breytingu á vísitölu neysluverðs og verði vanskil á greiðslu afborgana sé heimild til þess að fella skuldina í gjalddaga fyrirvaralaust og án uppsagnar. Þá voru í skuldabréfinu tíðkanleg ákvæði um heimildir varnaraðila til þess að leita nauðungarsölu til fullnustu skuldarinnar án undangengins dóms, sáttar eða fjárnáms. Þann 30. júní 2009 var að beiðni sóknaraðila gerð skilmálabreyting á greiðsluskilmálum skuldabréfsins á þann veg að næstu greiðslu bréfsins var frestað til 1. janúar 2010 auk þess sem vanskil, sem höfðu staðið frá 1. janúar 2009, voru lögð við höfuðstól skuldabréfsins. Fyrsti gjalddagi eftir skilmálabreytinguna var 1. janúar 2010. Engin greiðsla barst varnaraðila þá eða síðar og hafa því vanskil staðið yfir samfleytt frá 1. desember 2008 eða í tæp fimm ár án þess að nokkur greiðsla hafi borist. Sóknaraðilum voru send milliinnheimtubréf 8. febrúar, 2. mars og 18. mars 2010. Þann 13. október 2010 var sóknaraðilum send greiðsluáskorun sem var birt með stefnuvotti 27. október 2010. Þann 1. febrúar 2011 var staðfest umsókn sóknaraðila hjá umboðsmanni skuldara en sóknaraðilar afturkölluðu umsóknina 17. febrúar 2012. Nauðungarsölubeiðni varnaraðila var fyrst tekin fyrir hjá sýslumanni 15. júní 2012 og þá gerðu sóknaraðilar kröfu um að synjað yrði um framgang gerðarinnar. Henni var frestað til 18. júní 2012 og byrjun uppboðs fór fram 2. nóvember 2012. Framhaldsuppboð fór fram 2. nóvember 2012 og var varnaraðili hæstbjóðandi. Við framhaldsuppboð komu fram mótmæli af hálfu sóknaraðila en sýslumaður féllst ekki á að stöðva uppboðið.

Fram hefur komið í málinu að nafni Kaupþings Búnaðarbanka hf. var breytt í Kaupþing banka hf. og þann 9. október 2008 tók Fjármálaeftirlitið yfir vald hluthafafundar Kaupþings banka hf., vék stjórn frá og skipaði skilanefnd. Í framhaldi af því var stofnaður Nýi Kaupþing banki hf. sem nú heitir Arion banki hf.

Kaupþing banki hf. framseldi veðskuldabréfið 29. mars 2006 til Kaupthing mortages institutional investor fund og sama dag gerðu þessir aðilar með sér samning um að Kaupþing banki hf. hefði fullt umboð til þess að koma fram fyrir hönd sjóðsins og innheimta lán hans. Nafni þessa sjóðs var breytt með tilkynningu til fyrirtækjaskrár 18. október 2011 í Arionbank mortages institutional investor fund og þann 4. maí 2012 framseldi síðastnefndi sjóður veðskuldabréfið til varnaraðila. Samkvæmt framansögðum framsölum og þjónustusamningi hafði forveri sóknaraðila fulla heimild til þess að standa að skilmálabreytingu á veðskuldabréfinu, senda úr innheimtubréf og greiðslukvittanir. Þá hefur varnaraðili nægilega sýnt fram á að innheimtuviðvörun var send varnaraðila. Skráning veðskuldabréfsins í þinglýsingabók skiptir ekki máli varðandi gildi nauðungarsölu en á því er byggt af hálfu sóknaraðila.

Sóknaraðilar byggja ennfremur á því að ekki hafi verið staðið rétt að gjaldfellingu bréfsins. Varnaraðili hafði heimild til þess að gjaldfella skuldabréfið í heild sinni samkvæmt ákvæðum bréfsins sjálfs en í skilmálum þess kemur fram að heimilt sé að gjaldfella skuldina fyrirvaralaust og án uppsagnar verði vanskil á greiðslu afborgana. Varnaraðila var því rétt við vanskil að gjaldfella veðskuldabréfið í heild sinni án sérstakar tilkynningar til sóknaraðila. Auk þess var tekið fram í greiðsluáskorun, sem birt var sóknaraðilum 27. október 2010, að öll skuldin væri fallin í gjalddaga en þá voru tæp tvö ár liðin frá því að vanskil hófust.

Með birtingu greiðsluáskorunar voru skilyrði 9. gr. nauðungarsölulaga nr. 90/1991 uppfyllt. Sóknaraðilar voru í greiðsluskjóli hjá umboðsmanni skuldara frá 1. febrúar 2011 til 1. febrúar 2012 og var því greiðsluáskorunin birt fyrir þann tíma. Ekki verður fallist á með sóknaraðilum að gjaldfelling hafi farið fram á meðan lánið var „fryst“, heldur fór hún fram eftir að umsaminn frestur á greiðslum rann út.

                Í þessu máli, vegna ágreinings um gildi nauðungarsölu samkvæmt XIV. kafla nauðungarsölulaga nr. 90/1991, reynir ekki á þá mótbáru sóknaraðila að dráttarvextir séu ofreiknaðir og innheimtukostnaður sé ólögmætur. Reynir á slíkar mótbárur við úthlutun söluverðs.

                Á því er byggt af hálfu sóknaraðila að breyting á skilmálum skuldabréfsins 29. júní 2009 sé lánssamningur í skilningi laga nr. 121/1994 um neytendalán og að upplýsingagjöf varnaraðila í tengslum við skilmálabreytinguna hafi ekki verið fullnægjandi. Skilmálabreytingin var gerð að beiðni sóknaraðila en þá höfðu vanskil staðið yfir í um sex mánuði og var vanskilaskuldinni bætt við höfuðstól skuldarinnar. Brot á lögum nr. 121/1994 getur valdið skaðabótaskyldu, sbr. 27. gr. laganna, sbr. og 6. gr. reglugerðar nr. 377/1993, en ekki ógildi lánssamnings eða ógildi nauðungarsölu. Að auki verður ekki fallist á með sóknaraðilum að lögin krefjist sömu upplýsingaskyldu úr hendi lánveitanda við gerð lánssamnings og þegar verið er að breyta skilmálum lánssamnings sem þegar hefur verið gerður.

                Í málavaxtalýsingu hér að framan er það rakið að með útgáfu umþrætts veðskuldabréfs voru skuldir sóknaraðila endurfjármagnaðar en þau höfðu stundað atvinnurekstur sem ekki gekk sem skyldi. Á 1.-8. veðrétti fasteignarinnar að Hegranesi 15, Garðabæ, hvíldu skuldir við aðra kröfuhafa en varnaraðila, þá að fjárhæð samtals 17.680.779 krónur. Þessar skuldir voru felldar undir skuldabréfið og ennfremur ýmsar aðrar skulir, einnig við aðra en varnaraðila, samtals þá að fjárhæð 8.067.062 krónur. Sóknaraðilar halda því fram að þau hafi verið beitt ólögmætum þrýstingi við þessa endurfjármögnun og að varnaraðili hafi ekki tekið nægilegt tillit til lögskipa að baki veðskuldabréfinu því ýmsar skuldir hefði með réttu átt að lækka eða fella niður ef sanngirni hefði verið gætt. Í þessu sambandi verður að taka tillit til þess að sóknaraðilar, sem höfðu reynslu af viðskiptum og rekstri fyrirtækis, óskuðu sjálf eftir endurfjármögnun skulda sinna og að varnaraðili tæki einnig yfir skuldir þeirra við aðra kröfuhafa í formi nýs láns. Þau greiddu af veðskuldabréfinu í um fimm ár án þess að gera athugasemdir við tilurð þess. Þegar framangreint er virt þykja sóknaraðilar ekki hafa sýnt fram á að þau hafi verið beitt ólögmætum þrýstingi af forvera varnaraðila við útgáfu veðskuldabréfsins.

                Með sömu rökum verður ekki fallist á með sóknaraðilum að skilyrði séu til þess í málinu að beita ákvæðum III. kafla laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga.

                Samkvæmt framansögðu er ekki efni til að fallast á með sóknaraðilum að annmarkar hafi verið á málatilbúnaði varnaraðila við nauðungarsöluna. Skal því nauðungarsölugerð sýslumannsins í Hafnarfirið í máli nr. 036-2012-000126, dags. 2. nóvember 2012, standa óbreytt.

Eftir þessum úrslitum verða sóknaraðilar dæmdir til þess að greiða varnaraðila 600.000 krónur í málskostnað að meðtöldum virðisaukaskatti.

Gunnar Aðalsteinsson héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.

Úrskurðarorð

Nauðungarsala á fasteigninni Hegranes 15, Garðabæ, sem lokið var 2. nóvember 2012 hjá sýslumanninum í Hafnarfirði, skal standa óbreytt.

Varnaraðilar, Sigurður Sigurðsson og Guðríður Einarsdóttir, greiði sóknaraðila, Arion banka hf., 600.000 krónur í málskostnað.