Print

Mál nr. 625/2014

Lykilorð
  • Lánssamningur
  • Fjármálafyrirtæki
  • Gengistrygging
  • Viðbótarkrafa
  • Fullnaðarkvittun
  • Endurgreiðsla ofgreidds fjár

                                     

Fimmtudaginn 5. mars 2015.

Nr. 625/2014.

Lýsing hf.

(Jóhannes Sigurðsson hrl.)

gegn

Eyjólfi Hannessyni

(Ólafur Örn Svansson hrl.

Jóhannes Stefán Ólafsson hdl.)

Lánssamningur. Fjármálafyrirtæki. Gengistrygging. Viðbótarkrafa. Fullnaðarkvittun. Endurgreiðsla ofgreidds fjár.

Árið 2007 gerði E lánssamning við L hf. og var 66% lánsfjárhæðarinnar tengd gengi erlendra gjaldmiðla. L hf. endurútreiknaði í október 2010 gengistryggða hluta lánsins miðað við stöðu þess í júní það ár, sem var síðasti gjalddagi sem E greiddi af láninu fyrir endurútreikning þess. Ágreiningur aðila laut að endurkröfu E vegna ætlaðra ofgreiðslna í gengistryggða hluta lánssamningsins. Deildu aðilar um forsendur útreikninga en ekki fjárhæðir, en með endurútreikningi sínum reiknaði L hf. sér viðbótarvexti fyrir liðna tíð frá stofndegi lánssamningsins til júní 2010. Með hliðsjón af því hvernig greiðsla afborgana og samningsvaxta var háttuð milli aðila var talið að miða yrði við það að komin hefði verið á nægileg festa við framkvæmd samningsins. Þá var talið að sú fjárhæð sem L hf. hefði endurútreiknað væri um það bil 24% af upphaflegri fjárhæð gengistryggða hluta lánssamningsins og 153% ef miðað væri við hlutfall af greiddum vöxtum. Lægi samkvæmt þessu í hlutarins eðli að viðbótargreiðslan væri umtalsverð og fæli í sér röskun á fjárhagslegum högum E. Samkvæmt þessu var fallist á með héraðsdómi að E hefði hvorki glatað rétti sínum til að bera fyrir sig fullnaðarkvittanir með fyrirvaralausum afborgunum sínum né vegna tómlætis við að hafa uppi kröfu sína um endurgreiðslu. Það stæði L hf. nær en E að bera þann vaxtamun sem deilt væri um í málinu og gæti L hf. því ekki krafið hann um viðbótargreiðslur vegna þegar greiddra vaxta aftur í tímann. Var L hf. gert að greiða E 338.041 krónur.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Helgi I. Jónsson, Ólafur Börkur Þorvaldsson og Þorgeir Örlygsson og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 22. september 2014 að fengnu áfrýjunarleyfi. Hann krefst sýknu af kröfum stefnda.

Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Stefndi gerði 29. mars 2007 lánssaming við áfrýjanda að fjárhæð 1.251.245 krónur og var lánið veitt til kaupa á bifreið. Samningurinn, sem var í formi kaupleigusamnings, var nefndur „Bílasamningur Lýsingar“ og er efni hans nánar rakið í hinum áfrýjaða dómi. Eins og þar greinir skyldi leigutími vera frá 29. mars 2007 til 5. apríl 2013, fjöldi leigugreiðslna 72 og fyrsti gjalddagi 5. maí 2007. Samningurinn var gengistryggður með þeim hætti að 66% lánsfjárhæðarinnar var tengd gengi tveggja erlendra gjaldmiðla en 34% fól í sér lán í íslenskum krónum. Áfrýjandi endurútreiknaði 21. október 2010 gengisstryggða hluta lánssamningsins á grundvelli dóma Hæstaréttar 16. júní 2010 í máli nr. 153/2010 og 16. september 2010 í máli nr. 471/2010 miðað við stöðu lánsins 5. júní það ár.  

Í hinum áfrýjaða dómi er gerð grein fyrir forsendum endurútreikningsins 21. október 2010 og niðurstöðum hans. Ágreiningur í máli þessu lýtur einvörðungu að endurkröfu stefnda vegna ætlaðra ofgreiðslna í gengistryggða hluta samningsins og er þar deilt um forsendur útreikninga en ekki fjárhæðir. Eins og greinir í héraðsdómi verður af gögnum málsins ráðið og er óumdeilt að áfrýjandi hefur með endurútreikningi sínum 21. október 2010 í reynd reiknað sér viðbótarvexti fyrir liðna tíð frá stofndegi lánssamningsins til 5. júní 2010 að fjárhæð 199.765 krónur. Sú fjárhæð er um það bil 24% af upphaflegri fjárhæð gengistryggða hluta lánssamningsins og 153% ef miðað er við hlutfall af greiddum vöxtum. Liggur samkvæmt þessu í hlutarins eðli að viðbótargreiðsla eins og sú, sem stefndi er í reynd krafinn um með endurútreikningi áfrýjanda, er umtalsverð og felur í sér röskun á fjárhagslegum högum hans. Áfrýjandi heldur því fram að sú aðferð sem stefndi beitti við endurútreikning skuldbindingar sinnar leiði til þess að lánið greiðist upp hraðar en samningur þeirra kvað á um. Í því sambandi er þess að gæta að í 18. gr. lánssamningsins sagði að leigutaki gæti hvenær sem er greitt samninginn upp í einu lagi. Þegar af þeirri ástæðu var stefnda heimilt að greiða lánið hraðar upp en upphaflegir skilmálar þess gerðu ráð fyrir. Samkvæmt þessu en að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.

Eftir framangreindum úrslitum verður áfrýjanda gert að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur skal vera órsakaður.

Áfrýjandi, Lýsing hf., greiði stefnda, Eyjólfi Hannessyni, 1.000.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 1. júlí 2014.

Mál þetta er höfðað með stefnu birtri 5. nóvember sl., og dómtekið 27. júní sl. Stefnandi er Eyjólfur Hannesson, Móhellu 9, Selfossi. Stefndi er Lýsing hf., Ármúla 3, Reykjavík.

                Stefnandi krefst þess aðallega að stefndi verði dæmdur til greiðslu 338.041 krónu með vöxtum samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, frá 5. apríl 2013 til 21. nóvember 2013, en frá þeim degi með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 af þeirri fjárhæð til greiðsludags. Til vara er þess krafist að viðurkennt verði með dómi að lánasamningur aðila 29. mars 2007 sé bundinn ólögmætri gengistryggingu í skilningi 13. og 14. gr. laga nr. 38/2001 og við endurútreikning samningsins frá lántökudegi til 5. júní 2010 sé stefnda óheimilt að krefja stefnanda um vexti umfram þá vexti er stefnandi greiddi á umræddu tímabili. Stefnandi krefst einnig málskostnaðar.

                Stefndi krefst sýknu auk málskostnaðar.

                Málið var upphaflega dómtekið að lokinni aðalmeðferð 7. maí sl. Með ákvörðun dómara var málið flutt að nýju 27. júní sl. og aðilum þá m.a. gefinn kostur á athugasemdum um dóm Hæstaréttar 3. júní 2014 í máli nr. 352/2014.

Við meðferð málsins hefur verið tekið tillit til fyrirmæla laga nr. 80/2013 um breytingu á lögum nr. 91/1991 um meðferð einkamála, með síðari breytingum, á þá leið að hraða skuli meðferð dómsmála sem lúta að lögmæti þess að binda fjárskuldbindingu við gengi erlendra gjaldmiðla eða vísitölu eða að uppgjöri slíkra skuldbindinga.

Málsatvik

                Atvik málsins er ágreiningslaus.

Stefnandi undirritaði 29. mars 2007 lánssamning við stefnda, en lánið var veitt til kaupa á bifreiðinni RT-378 af gerðinni Subaru Impreza. Samningurinn var auðkenndur með númerinu 70047653-70047655 og bar yfirskriftina „Bílasamningur Lýsingar“. Samningsfjárhæð var 1.251.245 krónur, leigutími frá útgáfudegi til 5. apríl 2013, fjöldi gjalddaga 72 og fyrsti gjalddagi 5. maí 2007. Fram kom að samningurinn væri gengistryggður. Er í málinu ágreiningslaust að 66% lánsfjárhæðar var bundin við gengi erlenda gjaldmiðla (JPY 33%, CHF 33%)  en 34% fól í sér lán í íslenskum krónum sem ekki er deilt um í málinu. Ágreiningur aðila lýtur einvörðungu að endurkröfu stefnanda vegna ætlaðra ofgreiðslna vegna hins gengistryggða hluta samningsins.

Samkvæmt gögnum málsins greiddi stefnandi afborganir samkvæmt samningnum frá útgáfudegi til 7. júní 2010, en þá munu greiðslur hafa verið látnar falla niður tímabundið með samkomulagi aðila. Hinn gengistryggði hluti samningsins var endurreiknaður 21. október 2010 og segir í yfirskrift útreikningsins að um sé að ræða útreikning á grundvelli „dóma Hæstaréttar nr. 153/2010 og 471/2010“. Liggur fyrir að um var að ræða útreikning sem byggðist á vöxtum samkvæmt 1. málslið 4. gr. laga nr. 38/2001, sbr. 18. gr. þeirra laga eins og greininni var breytt með 1. gr. laga nr. 151/2010.

Samkvæmt endurútreikningnum hafði stefnandi, til og með greiðslu 7. júní 2010 vegna gjalddaga 5. sama mánaðar, í reynd greitt 253.989 krónur í vexti og 956.304 krónur í afborganir eða alls 1.210.293 krónur. Samkvæmt endurútreikningi hefðu vaxtagreiðslur þennan dag átt að nema 453.754 krónum. Samkvæmt þessu nam munur á greiddum vöxtum og endurreiknuðum vöxtum 199.765 krónum eftir greiðsluna 7. júní 2010. Samkvæmt endurútreikningi stefnda, sem einnig tók tillit til afborgana sem hefðu átt að fara fram í júlí, ágúst, september og október 2010 (samtals að fjárhæð 100.984 krónur), stóð stefndi í skuld við stefnda að fjárhæð 77.877 krónur eftir endurútreikning. Af hálfu stefnda var sú fjárhæð dregin frá höfuðstóli skuldarinnar. Lækkuðu heildareftirstöðvar skuldar stefnanda úr 1.308.266 krónum í 640.038 krónur samkvæmt því sem fram kemur í greinargerð stefnda.

Stefnandi hafði ekki uppi mótmæli eða fyrirvara í beinu framhaldi af endurútreikningi stefnda en hélt áfram greiðslu samkvæmt útsendum greiðsluseðlum. Með bréfi 21. október 2013 setti stefnandi fram þá kröfu sem efnislega er höfð uppi í máli þessu. Skömmu áður hafði stefnandi gert athugasemdir við verðbætur og breytilega vexti þess hluta lánsins sem var í íslenskum krónum. Er það atriði samningsins ekki til umfjöllunar í málinu, svo sem áður greinir. Af hálfu stefnda var kröfu stefnanda hafnað með bréfi 30. sama mánaðar. Er ekki ástæða til að rekja sérstaklega efni þessara og annarra bréfskipta aðila.

                Ekki var um að ræða munnlegar skýrslur við aðalmeðferð málsins.

Málsástæður og lagarök stefnanda

                Stefnandi byggir málatilbúnað sinn á dómum Hæstaréttar þar talið hefur verið að ekki sé heimilt að krefja skuldara láns sem bundið er gengi erlendra gjaldmiðla með ólögmætum hætti um vexti samkvæmt 1. málslið 4. gr. laga nr. 38/2001 aftur í tímann. Ekki er um það deilt að eftir endurútreikning 21. október 2010 hafði stefnandi ekki í höndum fullnaðarkvittanir um greiðslu samningsvaxta. Er þannig ágreiningslaust að eftir þennan dag var stefnda heimilt að krefja stefnanda um vexti samkvæmt umræddri 4. gr. laga nr. 38/2001. Hins vegar telur stefnandi að öllum skilyrðum sé fullnægt svo hann geti borið fyrir sig fullnaðarkvittanir fyrir greiðslu samningsvaxta fram að síðasta greidda gjalddaga fyrir endurútreikning, þ.e. til 7. júní 2010. Vísar stefnandi einkum til þess að hann hafi verið í góðri trú um að greiðsla samningsvaxta fæli í sér fullnaðargreiðslu og fjárhæð viðbótarkröfu stefnda vegna vaxta sé veruleg með hliðsjón af heildargreiðslu vaxta og/eða höfuðstól lánsins.

                Stefnandi mótmælir framkomnum sjónarmiðum stefnda um að honum sé einungis heimilt að byggja á fullnaðarkvittunum til skuldajafnaðar í því skyni að verjast viðbótarkröfu stefnda, en sé ekki heimilt að hafa uppi sjálfstæða kröfu til endurgreiðslu.

                Í endanlegum málatilbúnaði stefnanda er á því byggt að fullnaðarkvittanatímabil hafi staðið yfir frá fyrstu gjalddögum til gjalddagans 5. júní 2010 þegar síðasta greiðsla var innt af hendi fyrir fyrri endurútreikning. Samkvæmt þessu hafi heildareftirstöðvar lánsins miðað við gjalddagann 5. júní 2010 numið 105.6104.550 krónum. Stefnandi framreiknar þessa fjárhæð með vöxtum samkvæmt 1. málslið 4. gr. laga nr. 38/2001 til 5. apríl 2013 þegar samningstíma lauk. Nema framreiknaðar eftirstöðvar lánsins þann dag 123.501 krónu. Þá eru mánaðarlegar greiðslur stefnanda 5. nóvember 2010 til 5. apríl 2013 lagðar saman, framreiknaðar með sama hætti. Mismunur þessara fjárhæða nemur 338.041 krónu sem er endanleg krafa stefnanda. Við munnlegan flutning málsins vísaði stefnandi til þess að honum væri heimilt að ráðstafa ofgreiðslum sínum beint til lækkunar höfuðstóls, þannig að lán væri í reynd greitt upp hraðar en ákvæði samnings kvæðu á um, með vísan til 1. mgr. 16. gr. laga nr. 121/1994 um neytendalán, sbr. nú 18. gr. laga nr. 33/2013 um sama efni.

                Í endanlegum málatilbúnaði stefnanda hefur verið fallið frá vöxtum á grundvelli 4. gr. laga nr. 38/2011 frá 5. apríl 2013 til þess dags er stefnandi hafði uppi kröfu sína um endurgreiðslu. Þess í stað er krafist vaxta á grundvelli 8. gr. laganna frá þeim degi til þess dags er mánuður var liðinn frá kröfubréfi eða frá 21. nóvember 2013.

                Varakrafa stefnanda byggist efnislega á sömu málsástæðum og lagarökum og áður greinir um aðalkröfu hans.

Málsástæður og lagarök stefnda

                Stefndi byggir sýknukröfu sína í fyrsta lagi á því að fyrrgreindur endurútreikningur stefnda 21. október 2010 hafi verið í samræmi við lög nr. 38/2001 eins og þeim var breytt með lögum nr. 151/2010 sem og fordæmi Hæstaréttar. Með endurútreikningnum hafi eftirstöðvar samningsins lækkað verulega, inneign vegna ofgreiðslu verið skuldajafnað við ógreidda gjalddaga og til lækkunar höfuðstól. Með þessu hafi lögskiptum aðila verið komið í rétt horf.

Stefndi mótmælir því að stefnandi geti gert kröfur á grundvelli undantekningarreglu kröfuréttar um svonefnda fullnaðarkvittun. Slík kröfugerð stangist á við kröfuréttarlegt eðli fullnaðarkvittunar. Stefndi bendir á að endurreikningur hafi ekki leitt til kröfu um viðbótargreiðslu á hendur stefnanda og því geti stefnandi ekki haldið fram fullnaðarkvittun gagnvart honum. Stefnandi geti ekki byggt greiðslukröfu á undantekningarreglunni um réttaráhrif fullnaðarkvittunar heldur aðeins varist kröfu lánveitanda um frekari greiðslu.

Ef ekki er fallist á framangreind sjónarmið er á því byggt að skilyrði undantekningarreglunnar um fullnaðarkvittun sé ekki fullnægt. Stefnandi var ekki krafinn um greiðslu viðbótarkröfu í kjölfar endurreiknings stefnda og þar af leiðandi hafi ekki verið um að ræða fjárhagsleg röskun á hagsmunum hans. Þegar lögskipti aðila séu virt heilstætt sé ljóst að stefnandi hafi ekki ofgreitt af skuld sinni á fullnaðarkvittanatímabili.

Stefndi rökstyður einnig að sjónarmið um fullnaðarkvittanir geti aldrei komið til skoðunar þar sem þær kröfur sem stefnandi setti fram vegna þess hluta lánsins sem var í íslenskum krónum samrýmist ekki sjónarmiðum um fullnaðarkvittanir. Ef stefnandi telji sig hafa fullnaðarkvittun fyrir greiðslu afborgana og vaxta þá hljóti sú fullnaðarkvittun að gilda um þá heildargreiðslu. Stefnandi geti ekki „slitið fullnaðarkvittunina í sundur“ og borið hana eingöngu fyrir sig vegna þess hluta greiðslu sem er tilkomin vegna gengistryggðs hluta lánsins.

Stefndi byggir kröfu sínu um sýknu einnig á meginreglum kröfuréttar um tómlæti og vísar til þess að tæp þrjú ár hafi liðið frá því að stefnandi hafi verið upplýstur um niðurstöður endurreiknings stefnda þar til hann setti fram kröfur sínar.

                Stefnandi telur að sýkna eigi að kröfu stefnanda þar sem ekki sé byggt á útreikningsaðferð í samræmi við gildandi rétt. Stefndi telur að rétt sé að nota svonefnda „veltureikningsaðferð“ við endurreikning á gengistryggðum lánum til að finna of- eða vangreiðslur og höfuðstól. Þannig sé rétt að uppreikna samning frá stofndegi með vöxtum samkvæmt 4. gr. laga nr. 38/2001 en að því loknu séu raungreiðslur dregnar frá endurreiknuðum heildargreiðslum. Mismunur, hvort heldur vangreiðsla eða ofgreiðsla, sé færð á veltureikning sem beri vexti samkvæmt 4. gr. til loka þess tíma sem mögulega er hægt að halda fram fullnaðarkvittun. Stefndi byggir kröfu sínu um sýknu einnig á því að útreikningsaðferð stefnanda að baki kröfu hans sé ekki í samræmi við ákvæði samnings aðila. Kröfugerðin miði þannig við að stefnanda hafi verið heimilt að greiða lánið upp hraðar en samningur aðila kvað á um en slíkt sé í andstöðu við ákvæði samningsins sem gerir ráð fyrir því að leigugreiðslur séu inntar af hendi á umsömdum gjalddögum, sbr. 3. og 6. gr. samningsins.

                Stefndi vísar til þess að endurútreikningur hans hafi verið umfram skyldu og þ.a.l. geti honum aldrei borið skylda til þess að endurgreiða stefnanda ennþá frekari fjármuni en endurútreikningur hans leiddi til. Stefndi byggir einnig á því að ákvæði 13. og 14. gr. laga nr. 38/2001 brjóti gegn 40. gr. EES-samningsins, sbr. lög nr. 2/1993 og telur að þetta leiði til þess að honum geti aldrei borið skylda til þess að endurgreiða stefnanda frekari fjármuni en þegar framkvæmdur endurútreikningur leiddi til.

Stefndi áréttar að ekki sé hægt að leggja aðalkröfu stefnanda til grundvallar þar sem útreikningar að baki henni séu ekki réttir. Grundvallast það á því að í útreikningunum sé enn gert ráð fyrir að krafan beri vexti samkvæmt 4. gr. laga nr. 38/2001 til 11. maí 2011.  Ekki sé heimild til að reikna slíka vexti samkvæmt fordæmum Hæstaréttar. Stefndi telur að útreikningar að baki aðalkröfu stefnanda séu ekki hefðbundnir lánaútreikningar þar sem afborgunum sé ekki ráðstafað til greiðslu vaxta mánaðarlega heldur einu sinni á ári.

                Mótmæli stefnda við varakröfu stefnanda byggja að meginstefnu á sömu málsástæðum og rakin hafa verið í tengslum við aðalkröfu stefnanda. Stefndi telur þó einnig að stefnandi hafi ekki sýnt fram á sjálfstæða lögvarða hagsmuni af fyrri hluta viðurkenningarkröfunnar og telur auk þess að síðari hluti kröfunnar verði ekki skýrlega aðgreindur frá þeim fyrri. Auk þess telur stefndi að síðari hluti viðurkenningarkröfu stefnda sé ekki í samræmi við gildandi rétt.

                Stefndi telur að sýkna eigi af kröfu stefnanda um vexti samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001, einkum með vísan til þess að hvorki venja né lög leiði til greiðslu vaxta af kröfu um endurgreiðslu ofgreidds fjár. Stefndi krefst einnig sýknu af dráttarvaxtakröfu stefnanda og byggir það á því að stefnandi eigi ekki að geta krafist dráttarvaxta frá því kröfubréf hafi verið ritað enda sé endanleg dómkrafa stefnanda ekki hin sama og sett sé fram í kröfubréfinu.

Niðurstaða

                Í máli þessu er óumdeilt að áðurlýstur samningur 29. mars 2007 fól í sér lán í íslenskum krónum sem bundið var ólögmætri gengistryggingu. Megin ágreiningur aðila lýtur að því hvort stefnandi geti borið fyrir sig fullnaðarkvittanir vegna greiðslu vaxta af láninu fram til gjalddaga afborgunar 5. júní 2010, en aðila greinir þó einnig um fjárhæðir ef fallist er á rétt stefnanda á þeim grundvelli.

Óumdeilt er að þær fjárhæðir, sem stefnandi greiddi stefnda í vexti af höfuðstól á þeim gjalddögum sem áður er lýst, voru í samræmi við greiðslutilkynningar útgefnar af stefnda.  Er og ekki um það deilt að stefndi tók við greiðslum stefnanda vegna vaxta og gaf út fyrirvaralausar kvittanir vegna þeirra. Eins og málið liggur fyrir verður því að leggja til grundvallar að stefnandi hafi greitt þá vexti sem tilgreindir voru á greiðsluskjölum stefnda í góðri trú um lögmæti lánsins.

Að mati dómsins er ljóst að aðstöðumunur var með aðilum þar sem stefndi er fjármálafyrirtæki sem starfar á lánamarkaði og hafði þar boðið viðskiptavinum upp á lán með ólögmætri gengistryggingu en ekkert er fram komið í málinu um að stefnandi, sem taldist neytandi í skilningi  laga nr. 121/1994 um neytendalán, hafi búið yfir sérstakri þekkingu á gjaldeyrisviðskiptum. Stóð það því stefnda almennt nær að gæta að því að lánssamningurinn væri í samræmi við lög og bera áhættuna af því ef svo væri ekki. Eins og áður greinir innti stefnandi skilvíslega af hendi afborganir í 38 skipti og hafði hann þannig greitt upp verulegan hluta lánsins þegar greiðslur voru látnar falla niður með samkomulagi við stefnda á árinu 2010. Var því um að ræða nægilega festu við framkvæmd samningsins.

Af gögnum málsins verður ráðið að stefndi hafi með endurútreikningi sínum 21. október 2010 í reynd reiknað sér viðbótarvexti að fjárhæð 199.765 krónur. Er sú fjárhæð umtalsverð ef litið er til þess hluta lánsins sem bundinn var gengi erlendra gjaldmiðla og greiðslu samningsvaxta af honum. Liggur einnig í hlutarins eðli að viðbótargreiðsla, eins og sú sem stefnandi var í raun krafin um með umræddum endurútreikningi, felur í sér röskun á fjárhagslegum hagsmunum skuldara. Ekki verður á það fallist að það hafi þýðingu um réttarstöðu stefnanda að þessu leyti að honum kunni að hafa verið heimilt að  krefjast endurgreiðslu úr hendi stefnda vegna ofgreiddra verðbóta og vaxta af þeim hluta sem var í íslenskum krónum. Er sá þáttur samningsins ekki til úrlausnar í málinu.

Í málinu liggur fyrir að stefnandi greiddi stefnanda af láninu eftir að endurútreikningur lá fyrir án fyrirvara um endurgreiðslu. Að mati dómsins verður að horfa til þess að á þessum tíma var enn deilt um ýmis nánari atriði við endurútreikning lána sem bundin höfðu verið gengi erlendra gjaldmiðla með ólögmætum hætti. Stefndi, sem hafði á að skipa sérhæfðu starfsliði og hafði veitt fjölda slíkra lána, var í yfirburðastöðu gagnvart stefnanda við  skoðun og mat á þessum atriðum, meðal annars því hvort reglur um fullnaðarkvittanir gætu við ákveðnar aðstæður verið því til fyrirstöðu að fjármálafyrirtæki krefðist með afturvirkum hætti vaxta samkvæmt 1. málslið 4. gr. laga nr. 38/2001 á grundvelli 18. gr. laga nr. 38/2001, sbr. 1. gr. laga nr. 151/2010. Með vísan til grunnraka 1. mgr. 36. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga, verður hvorki á það fallist að stefnandi hafi glatað rétti til að bera fyrir sig fullnaðarkvittanir með fyrirvaralausum afborgunum sínum né vegna tómlætis við að hafa uppi kröfu sína um endurgreiðslu.

Að öllu virtu og með vísan til þeirra viðmiða sem ítrekað hafa verið lögð til grundvallar í fordæmum Hæstaréttar er það álit dómsins að það standi stefnda nær en stefnanda að bera þann vaxtamun sem hlaust af ólögmætri gengistryggingu á framangreindum vaxtagjalddögum lánsins. Samkvæmt þessu er á það fallist að stefnda sé óheimilt að krefja stefnanda um viðbótargreiðslur vegna greiddra og gjaldfallinna vaxta vegna gjalddaga lánsins til og með 5. júní 2010. Með vísan til dóma Hæstaréttar 31. maí 2013 í málum nr. 327 og 328/2013 verður ekki talið að EES-reglur, sbr. lög nr. 2/1993 um Evrópska efnahagssvæðið, geti haggað þessari niðurstöðu, svo sem hreyft hefur verið af stefnda.

Með vísan til meginreglu 1. mgr. 16. gr. laga nr. 121/1994 um neytendalán, sbr. nú 1. mgr. 18. gr. samnefndra laga nr. 33/2013, verður stefnanda talið heimilt að haga kröfugerð sinni með þeim hætti að greiðslum eftir 5. júní 2010 sé ráðstafað til lækkunar á höfuðstól skuldarinnar þannig að lánið teljist hafa greiðst upp hraðar en skilmálar þess kváðu á um. Verður dómur Hæstaréttar 3. júní 2014 í máli nr. 352/2014 ekki túlkaður á þá leið að hann sé slíkri kröfugerð til fyrirstöðu. Við þetta bætist að stefndi ráðstafaði sjálfur inneign stefnanda samkvæmt endurútreikningnum 21. október 2010 til lækkunar á höfuðstól skuldarinnar og viðurkenndi þannig í reynd slíka heimild lántakans.

Í þeim útreikningum sem liggja til grundvallar kröfugerð stefnanda eru eftirstöðvar lánsins eftir gjalddaga 5. júní 2010 að fjárhæð 104.550 krónur vaxtareiknaðar samkvæmt 1. málslið 4. gr. laga nr. 38/2001 þar til síðasta afborgun fór fram 5. apríl 2013. Afborganir stefnanda til og með 5. apríl 2013 eru einnig vaxtareiknaðar samkvæmt 1. málslið 4. gr. laga nr. 38/2001. Samkvæmt þessum forsendum svara greiðslur stefnanda umfram skyldu hinn 5. apríl 2013 til fjárhæðar sem svarar til endanlegrar kröfugerðar stefnanda.

Á það verður fallist með stefnda að með framangreindum útreikningi stefnda njóti hann ákveðins vaxtahagræðis umfram það sem raunin yrði ef einstökum greiðslum eftir 7. júní 2010 væri ráðstafað inn á rétt reiknaðan höfuðstól lánsins á hlutaðeigandi gjalddögum og höfuðstóll þannig færður niður í áföngum. Á hitt er að líta að stefndi hefur á engu stigi málsins lagt fram slíka útreikninga eða gert nánari grein fyrir slíkum tölulegum forsendum með rökstuddum andmælum. Eins og málið liggur fyrir að þessu leyti þykir því rétt að leggja kröfugerð stefnanda til grundvallar.

Ekki verður á það fallist með stefnanda að krafa hans sé í eðli sínu skaðabótakrafa, eða verði fyllilega jafnað til slíkrar kröfu, þannig að heimilt sé að dæma honum vexti samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 eða samkvæmt lögjöfnun frá þeirri grein. Er því ekki fyrir hendi heimild að lögum til að fallast á kröfu stefnanda um vexti frá 5. apríl 2013 til 21. nóvember 2013. Hins vegar verða dráttarvextir dæmdir frá þeim tíma þegar mánuður var liðinn frá kröfubréfi stefnanda 21. október 2013 með vísan til 4. mgr. 5. gr. laga nr. 38/2001.

Eftir úrslitum málsins verður stefndi dæmdur til að greiða stefnanda málskostnað sem þykir hæfilega ákveðinn 400.000 krónur og hefur þá verið tekið tillit til virðisaukaskatts.

Af hálfu stefnanda flutti málið Jóhannes S. Ólafsson hdl.

Af hálfu stefnda flutti málið Ólafur Hvanndal Ólafsson hdl.

Skúli Magnússon héraðsdómari kveður upp dóm þennan.

D Ó M S O R Ð

Stefndi, Lýsing hf., greiði stefnanda, Eyjólfi Hannessyni, 338.041 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 21. nóvember 2013 til greiðsludags.

                Stefndi greiði stefnanda 400.000 krónur í málskostnað.