Print

Mál nr. 236/2004

Lykilorð
  • Vinnuvélar
  • Refsiheimild
  • Stjórnarskrá

Fimmtudaginn 18

 

Fimmtudaginn 18. nóvember 2004.

Nr. 236/2004.

Ákæruvaldið

(Bogi Nilsson ríkissaksóknari)

gegn

X

(Axel Kristjánsson hrl.)

 

Vinnuvélar. Refsiheimild. Stjórnarskrá.

X var ákærður fyrir brot gegn 1. mgr. 2. gr., sbr. 1. tölulið A-liðar 3. gr. og 1. mgr. 11. gr. reglna nr. 198/1983 um réttindi til að stjórna vinnuvélum, sbr. 1. gr. reglna nr. 24/1999 og 1. gr. reglna nr. 816/2000, sbr. 1. mgr. 99. gr. laga nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, með því að hafa stjórnað lyftara án tilskilinna réttinda. Í 1. mgr. 2. gr. reglna nr. 198/1983, eins og þeim var breytt með 1. gr. reglna nr. 816/2000, var kveðið á um að þeir einir mættu stjórna vinnuvélum sem til þess hefðu réttindi. Voru reglurnar settar af stjórn Vinnueftirlits ríkisins og staðfestar af félagsmálaráðherra. Brot gegn 1. mgr. 2. gr. reglnanna gat þá orðið refsivert samkvæmt 1. mgr. 11. gr. þeirra. Voru reglurnar settar með heimild í 3. mgr. 49. gr. laga nr. 46/1980, þar sem upphaflega var kveðið á um að stjórn Vinnueftirlits ríkisins skyldi setja reglur um kennslu, þjálfun og próf er gæfu til kynna næga þekkingu þeirra, sem óskuðu eftir leyfi til að mega stjórna eða fara með tilteknar vélar. Með 15. gr. laga nr. 68/2003, sem tóku gildi áður en meint brot X átti sér stað, var ákvæðinu breytt þannig að félagsmálaráðherra skyldi að fenginni umsögn stjórnar Vinnueftirlits ríkisins setja umræddar reglur. Talið var að löggjafanum hafi ekki verið heimilt að framselja Vinnueftirliti ríkisins vald til að ákveða hvaða háttsemi skyldi varða refsingu samkvæmt lögum nr. 46/1980. Var X því sýknaður af kröfu ákæruvaldsins.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Jón Steinar Gunnlaugsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 26. maí 2004 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun, en einnig af hálfu ákæruvalds, sem krefst þess nú að héraðsdómur verði staðfestur.

Ákærði krefst aðallega sýknu af kröfu ákæruvalds, en til vara að ákvörðun refsingar verði frestað.

Ákærða er í máli þessu gefið að sök að hafa brotið gegn ákvæðum 1. mgr. 2. gr., sbr. 1. tölulið A-liðar 3. gr. og 1. mgr. 11. gr. reglna nr. 198/1983 um réttindi til að stjórna vinnuvélum, sbr. 1. gr. reglna nr. 24/1999 og 1. gr. reglna nr. 816/2000, sbr. 1. mgr. 99. gr. laga nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, með því að hafa 14. maí 2003 við vinnu sína á lager Húsasmiðjunnar hf., Skútuvogi 16 í Reykjavík, stjórnað án tilskilinna réttinda lyftaranum JL 4880.

Samkvæmt 3. mgr. 49. gr. laga nr. 46/1980, svo sem ákvæðið hljóðaði áður en því var breytt með 15. gr. laga nr. 68/2003, skyldi stjórn Vinnueftirlits ríkisins setja reglur um kennslu, þjálfun og próf er gæfu til kynna næga hæfni og þekkingu þeirra, sem óskuðu eftir leyfi til að mega stjórna eða fara með tilteknar vélar, enda væri ekki kveðið á um slík leyfi í öðrum lögum. Reglur nr. 198/1983 voru settar með stoð í þessu lagaákvæði. Í 2. gr. þeirra kom fram að sá einn gæti öðlast rétttindi til að stjórna vinnuvélum samkvæmt reglunum sem uppfyllti nánar tilgreind skilyrði. Var í 1. tölulið A-lið 3. gr. reglnanna mælt svo fyrir að stjórnendur gaffallyftara með 1,2-10 tonna lyftigetu skyldu sækja svokallað frumnámskeið. Varðaði brot á reglunum nánar tilgreindri refsingu samkvæmt 1. mgr. 11. gr. þeirra. Fram kom í 3. mgr. sömu greinar að reglurnar væru settar samkvæmt áðurnefndu lagaákvæði en þær voru allt að einu undirritaðar af félagsmálaráðuneytinu. Með reglum nr. 24/1999 var 3. gr. áðurnefndra regla breytt. Sagði þar í 4. gr. að reglurnar væru settar af stjórn Vinnueftirlits ríkisins samkvæmt heimild í 49. gr. laga nr. 46/1980 og „staðfestast hér með til að öðlast þegar gildi.“ Voru þær undirritaðar af félagsmálaráðherra. Var hvorki í lögum nr. 46/1980, ákvæðum fyrrnefndra reglna nr. 198/1983 né breytingarreglunum nr. 24/1999 lagt bann við því að maður, sem ekki hefði hlotið sértök réttindi, stjórni gaffallyftara, þeirrar gerðar sem fjallað er um í þessu máli, sbr. dóm Hæstaréttar 5. október 2000, sem birtur er í dómasafni réttarins það ár á bls. 2957. Vegna skorts á viðhlítandi lagastoð var ákærði í því máli sýknaður af akstri gaffallyftara án réttinda. Í kjölfar dómsins var gerð breyting á reglum nr. 198/1983 með síðari breytingum með 1. gr. reglna nr. 816/2000. Var þar bætt við nýrri málsgrein á undan 1. mgr. 2. gr. sem kveður á um að þeir einir megi stjórna vinnuvélum, sem til þess hafi öðlast réttindi samkvæmt 2. mgr. greinarinnar. Í 2. gr. breytingarreglnanna kemur fram að þær séu settar af stjórn Vinnueftirlits ríkisins samkvæmt heimild í 49. gr. laga nr. 46/1980. Reglurnar voru samt sem fyrr undirritaðar af félagsmálaráðherra. Með reglum nr. 883/2002 var reglum nr. 198/1983 enn breytt. Segir í 2. gr. þeirra að reglurnar séu settar samkvæmt heimild í 3. mgr. 49. gr. laga nr. 46/1980 að fengnum tillögum frá stjórn Vinnueftirlits ríkisins. Umræddri 3. mgr. 49. gr. laganna var svo breytt með 15. gr. laga nr. 68/2003, sem tóku gildi 7. apríl 2003, á þann veg að í stað stjórnar Vinnueftirlits ríkisins skuli félagsmálaráðherra, að fenginni umsögn stjórnarinnar, setja reglur um þau atriði sem kveðið er á um í ákvæðinu.

Í ákæru er vísað til refsiákvæðis 1. mgr. 99. gr. laga nr. 46/1980. Sú grein hefur að geyma refsireglu sem vísar til verknaðarlýsingar í öðrum ákvæðum laganna eða reglugerðum samkvæmt þeim. Í lögunum er hvergi að finna efnisreglur sem fjalla um verknaðarlýsingu á því broti, sem ákærði er sakaður um í málinu. Hafa þau því ekki að geyma sérstaka heimild til að refsa ákærða fyrir brotið. Reglur nr. 198/1983 með breytingum samkvæmt reglum nr. 24/1999, voru sem fyrr segir settar með heimild í 3. mgr. 49. gr. laganna eins og hún hljóðaði áður en henni var breytt með lögum nr. 68/2003. Í reglum þessum var heldur ekki að finna lýsingu á slíkri refsiverðri háttsemi. Gátu þær því ekki heldur orðið víðhlítandi refsiheimild fyrir ætluðu broti ákærða. Það var fyrst með 1. gr. reglna nr. 816/2000, sem kveðið var á um að þeir einir mættu stjórna vinnuvélum sem til þess hefðu réttindi. Líta verður svo á að þær reglur hafi, svo sem lagaheimildin stóð til, verið settar af stjórn vinnueftirlitsins og staðfestar af félagsmálaráðherra. Brot gegn því ákvæði gat þá orðið refsivert samkvæmt 1. mgr. 11. gr. reglnanna.

Vinnueftirliti ríkisins var með 3. mgr. 49. gr. laga nr. 46/1980 veitt víðtæk heimild til að setja reglur um kennslu, þjálfun og próf þeirra, sem mega stjórna tilteknum vinnuvélum. Löggjafinn gat hins vegar ekki framselt stofnuninni það vald að ákveða hvaða háttsemi skyldi varða refsingu. Staðfestingu ráðherra á reglum vinnueftirlits varð heldur ekki jafnað til þess að hann setti þær sjálfur. Samkvæmt framansögðu skortir viðhlítandi lagastoð fyrir því að ákærði hafi unnið til refsingar fyrir þá háttsemi, sem honum er að sök gefin í ákæru, sbr. 69. gr. stjórnarskrárinnar, eins og henni var breytt með 7. gr. stjórnarskipunarlaga nr. 97/1995. Verður ákærði því sýknaður af kröfu ákæruvalds í málinu.

Allur sakarkostnaður í héraði og áfrýjunarkostnaður greiðist úr ríkissjóði, eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Ákærði, X, er sýkn af kröfu ákæruvaldsins.

Allur sakarkostnaður í héraði og áfrýjunarkostnaður greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda hans í héraði og fyrir Hæstarétti, Axels Kristjánssonar hæstaréttarlögmanns, samtals 250.000 krónur.

 


Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 12. janúar 2004.

Mál þetta var höfðað með ákæru Lögreglustjórans í Reykjavík, dagsettri 14. október 2003 „fyrir brot á reglum um réttindi til að stjórna vinnuvélum með því að hafa, miðvikudaginn 14. maí 2003, við vinnu sína á lager Húsasmiðjunnar hf. að Skútuvogi 16 í Reykjavík, stjórnað lyftaranum JL-4880 án tilskilinna réttinda.

 Telst þetta varða við 1. mgr. 2. gr., sbr. 1. tl. A-liðar 3. gr. og 1. mgr. 11. gr. reglna um réttindi til að stjórna vinnuvélum nr. 198/1983, sbr. 1. gr. reglna nr. 24/1999 og 1. gr. reglna nr. 816/2000, sbr. 1. mgr. 99. gr. laga um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum nr. 46/1980.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar.”

Af hálfu ákærða er krafist sýknu af öllum kröfum ákæruvaldsins. Þá krefst hann hæfilegra málsvarnarlauna að mati dómsins.

Samkvæmt lögregluskýrslu dagsettri 19. maí 2003 var lögreglunni í Reykjavík hinn 14. maí tilkynnt um vinnuslys sem varð á lager Húsasmiðjunnar. Þá var starfsmaður vinnueftirlitsins kallaður á staðinn. Tildrög slyssins voru þau að ákærði ók rafmagnslyftara afturábak en við það lenti afturhjól lyftarans á vinstri fót starfsmanns Húsasmiðjunnar. Fram kemur í lögregluskýrslunni að ákærði hafði ekki tilskilin réttindi til að aka lyftara. Aðspurður kvaðst ákærði hafa verið að sækja vörubretti í stæðu á lager Húsasmiðjunnar og ekki tekið eftir manninum.

Niðurstaða.

Ákærði hefur játað að hafa ekið lyftaranum JL-4880 eins og lýst er í ákæru en telur háttsemina ekki refsiverða enda skorti þar refsiheimild.

Samkvæmt 1. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 skal eigi refsa manni nema hann hafi gerst sekur um háttsemi, sem refsing er lögð við í lögum, eða má öldungis jafna til hegðunar, sem þar er afbrot talin. Í lögum nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum segir í 3. mgr. 49. gr. að félagsmálaráðherra setji reglur að fenginni umsögn stjórnar Vinnueftirlits ríkisins um kennslu, þjálfun og próf, er gefi til kynna næga hæfni og þekkingu þeirra aðila, sem óska eftir leyfi til að mega stjórna eða fara með tilteknar vélar, enda sé ekki kveðið á um slík leyfi í öðrum lögum. Þótt ekki sé í framangreindri lagagrein lagt bann við því að óheimilt sé að aka tilteknum vélum án tilskilinna réttinda, kemur skýrt fram að félagsmálaráðherra muni setja reglur um hvaða skilyrði þarf að uppfylla til að mega aka slíkum vélum. Í 3. mgr. 49. gr. laganna felst bann við akstri annarra á tilteknum vélum en þeirra sem fengið hafa til þess sérstakt leyfi. Í 2. gr. reglna nr. 198/1983 um réttindi til að stjórna vinnuvélum segir síðan að þeir einir megi stjórna vinnuvélum sem hafi til þess öðlast réttindi sem nánar eru tilgreind í 2. mgr. sömu greinar en sá einn geti öðlast réttindi til að stjórna vinnuvélum sem uppfylli þau skilyrði sem þar koma fram.

Af 99. gr. laga nr. 46/1980 má sjá að löggjafinn ætlaðist til þess að refsing lægi við brotum gegn þeim, enda er þar að finna refsiákvæði þar sem segir að brot gegn lögum eða reglugerðum samkvæmt þeim varði sektum nema þyngri refsing liggi við að öðrum lögum.      

Ekki er fallist á það með ákærða að framangreindar reglur um réttindi til að stjórna vinnuvélum hafi verið settar af Vinnueftirliti ríkisins þótt svo sé tekið til orða í 2. mgr. 11. gr. þeirra enda eru þær gefnar út í félagsmálaráðuneytinu og undirritaðar af starfsmanni ráðuneytisins fyrir hönd félagsmálaráðherra.

Að öllu þessu virtu verður ekki fallist á það með ákærða að skort hafi refsiheimild í máli þessu, sbr. einnig dóm Hæstaréttar Íslands nr. 432/2000. Er ákærði því sakfelldur eins og krafist er.

Ákærði hefur ekki áður sætt refsingu svo vitað sé. Þykir hæfileg refsing ákærða ákveðin 10.000 króna sekt í ríkissjóð en vararefsing skal vera 4 dagar.

Ákærði greiði allan sakarkostnað þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns Axels Kristjánssonar hrl. 60.000 krónur.

Þorsteinn Skúlason fulltrúi lögreglustjóra flutti málið fyrir ákæruvaldið.

Arnfríður Einarsdóttir, settur héraðsdómari, kveður upp dóminn.

DÓMSORÐ:

Ákærði, X, greiði 10.000 króna sekt til ríkissjóðs innan 4 vikna frá birtingu dómsins að telja en sæti ella fangelsi í 4 daga.

Ákærði greiði allan sakarkostnað þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns Axels Kristjánssonar hrl. 60.000 krónur.