Print

Mál nr. 23/2017

Gunnar Hilmar Sigurðsson og Kristín Hálfdánardóttir (Björgvin Þorsteinsson lögmaður)
gegn
Landsbankanum hf. (Ólafur Örn Svansson lögmaður)
Lykilorð
  • Kæra
  • Veðréttur
  • Ábyrgð
  • Fyrning
  • Tilkynning
  • Stjórnarskrá
  • Eignarréttur
  • Lánssamningur
  • Ógilding samnings
Reifun

G og K gáfu út tryggingarbréf til S hf. á árinu 2007 fyrir öllum skuldum L ehf. og veittu með bréfinu veðrétt í fasteign sinni. Bú L ehf. var tekið til gjaldþrotaskipta árið 2012, en nafni félagsins hafði þá verið breytt í LP ehf. Lauk skiptum án þess að nokkuð fengist greitt upp í lýstar kröfur, þ. á m. kröfur sem féllu undir tryggingarbréfið. Við sölu fasteignar G og K féllst L hf., sem þá hafði tekið við öllum réttindum og skyldum S hf., á að aflýsa tryggingarbréfinu af fasteign þeirra gegn tiltekinni greiðslu af þeirra hálfu. Var greiðslan innt af hendi með fyrirvara um réttmæti kröfunnar. Að því er varðaði kröfu G og K um endurgreiðslu fjárhæðarinnar vísaði Hæstiréttur til þess að veðréttur í eign fyrnist ekki og hefðu þær fjárkröfur sem féllu undir tryggingarbréfið verið ófyrndar þegar greiðslan var innt af hendi. Fallist var á með G og K að að L hf. hefði vanrækt tilkynningaskyldu sína samkvæmt 1. mgr. 7. gr. laga nr. 32/2009 um ábyrgðarmenn. Á hinn bóginn var ekki talið að L hf. hefði sýnt af sér verulega vanrækslu í skilningi 2. mgr. 7. gr. laganna þannig að ábyrgð G og K teldist fallin niður. Loks var staðfest niðurstaða héraðsdóms um að ekki væru efni til að ógilda eða víkja til hliðar skuldbindingu G og K eftir reglum samningaréttar sem þau báru fyrir sig. Var því staðfest niðurstaða héraðsdóms um sýknu L hf. af kröfu G og K.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma Benedikt Bogason hæstaréttardómari, Ása Ólafsdóttir lögmaður og Ingibjörg Benediktsdóttir fyrrverandi hæstaréttardómari.

Áfrýjendur skutu málinu til Hæstaréttar 13. janúar 2017. Þau krefjast þess aðallega að stefnda verði gert að greiða þeim 15.054.200 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af 14.000.000 krónum frá 6. mars 2014 til 2. október sama ár, en af 15.040.000 krónum frá þeim degi til greiðsludags. Til vara gera þau þá kröfu að stefnda verði gert að greiða þeim aðra lægri fjárhæð. Í báðum tilvikum krefjast þau málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

I

Hinn 27. mars 2007 gáfu áfrýjendur út tryggingarbréf til SP-Fjármögnunar hf. fyrir öllum skuldum Leturprents ehf. Með bréfinu veittu þau veðrétt í fasteign sinni að Krossalind 24 í Kópavogi. Hámarksfjárhæð bréfsins nam 10.000.000 krónum og var fjárhæðin bundin vísitölu neysluverðs, sem var þann dag 268 stig.

Þær skuldbindingar Leturprents ehf. sem féllu undir tryggingarbréfið voru sjö fjármögnunarleigusamningar og einn kaupleigusamningur sem félagið gerði við SP-Fjármögnun hf. til að fjármagna kaup á vélum og öðrum rekstrartækjum. Fjármögnunarleigusamningarnir voru gerðir á tímabilinu 13. mars 2003 til 20. desember 2007. Allir voru þeir verðtryggðir miðað við gengi erlendra gjaldmiðla, en tveir þeirra voru að hálfu leyti bundnir vísitölu neysluverðs. Samningar þessir voru í vanskilum frá síðari hluta árs 2008 eða upphafi árs 2009. Kaupleigusamningurinn var gerður 19. ágúst 2009 og mun hann hafa verið bundinn vísitölu neysluverðs. Hann fór í vanskil 1. október sama ár. Öllum þessum samningum var rift með bréfi SP-Fjármögnunar hf. 1. desember 2009. Í kjölfarið fékk félagið þau tæki og tól sem samningarnir tóku til afhent með beinni aðför.

Með samþykki Fjármálaeftirlitsins 8. júní 2011 var SP-Fjármögnun hf. sameinað stefnda og tók hann við öllum réttindum og skyldum félagsins frá 1. janúar það ár.

Bú Leturprents ehf. var tekið til gjaldþrotaskipta 3. október 2012, en nafni félagsins hafði þá verið breytt í LP 2007 ehf. Lýstar kröfur í búið námu samtals 187.083.861 krónu, en þar af námu kröfur stefnda samtals 169.268.225 krónum. Af þeirri fjárhæð voru kröfur vegna fyrrgreindra fjármögnunarleigusamninga og kaupleigusamningsins samtals 142.659.305 krónur. Skiptum búsins lauk 14. desember 2012 án þess að nokkuð fengist greitt upp í lýstar kröfur.

Með kaupsamningi 24. september 2013 seldu áfrýjendur fyrrgreinda fasteign sína að Krossalind 24. Af því tilefni fóru þau þess á leit við stefnda að tryggingarbréfinu 27. mars 2007 til SP-Fjármögnunar hf. yrði létt af eigninni. Eftir nokkur samskipti milli aðila var bréfinu aflýst gegn því að áfrýjendur greiddu 14.000.000 krónur til stefnda. Fór greiðslan fram 6. mars 2014, en hún var innt af hendi með fyrirvara um réttmæti kröfunnar, auk þess sem því var lýst yfir að endurkröfu yrði beint að stefnda. Þegar áfrýjendur stóðu skil á þessari greiðslu nam uppreiknuð hámarksfjárhæð tryggingarbréfsins 15.518.656 krónum.

Með aðilum er ágreiningslaust að fjármögnunarleigusamningarnir milli Leturprents ehf. og SP-Fjármögnunar hf., sem tryggingarbréf áfrýjenda tók til, voru lánssamningar en ekki leigusamningar. Í samræmi við það endurreiknaði stefndi undir rekstri málsins í héraði kröfur eftir samningunum að því leyti sem þeir fólu í sér lán í íslenskum krónum bundið við gengi erlendra gjaldmiðla í andstöðu við 13. og 14. gr. laga nr. 38/2001. Tók sá útreikningur mið af því að greiddir vextir hefðu falið í sér fullnaðargreiðslu og yrðu ekki hækkaðir fyrir liðna tíð. Þá voru ekki reiknaðir vextir frá því samningunum var rift 1. desember 2009 þar til kröfur voru endurútreiknaðar miðað við 30. júní 2015. Að þessu gættu og að teknu tilliti til andvirði eigna sem stefndi tók til sín í kjölfar riftunar námu eftirstöðvar samninganna 38.323.636 krónum. Þá námu eftirstöðvar kaupleigusamningsins, sem féll undir tryggingarbréfið, 12.044.271 krónu miðað við 18. nóvember 2013.

II

Áfrýjendur gera í fyrsta lagi kröfu um að fá endurgreiddar þær 14.000.000 krónur sem þau greiddu til stefnda 6. mars 2014 gegn því að tryggingarbréfinu 27. mars 2007 yrði létt af fasteign þeirra. Í öðru lagi gera þau kröfu um að fá greiddar 1.054.200 krónur sem svarar til kostnaðar við aðstoð lögmanns til að gæta hagsmuna þeirra gagnvart stefnda vegna þessara lögskipta. Með hinum áfrýjaða dómi var síðari kröfuliðnum vísað frá dómi. Áfrýjendur kærðu ekki til Hæstaréttar frávísunarþátt héraðsdóms og sætir sá hluti dómsins ekki endurskoðun Hæstaréttar, sbr. til hliðsjónar meðal annars dóm Hæstaréttar 3. júní 2010 í máli nr. 489/2009. Kemur því aðeins til úrlausnar krafa áfrýjenda um að fá endurgreitt það sem þau inntu af hendi til að tryggingarbréfinu yrði aflýst af eign þeirra.

Með tryggingarbréfinu stofnuðu áfrýjendur ekki til fjárkröfu gegn sér heldur veittu þau veðrétt í eign sinni til tryggingar kröfum á hendur þriðja manni. Var því ekki um að ræða að þau gengjust í ábyrgð með persónulegri skuldbindingu sinni. Veðréttur í eign fyrnist ekki og þær fjárkröfur sem féllu undir tryggingarbréfið voru ófyrndar þegar áfrýjendur inntu greiðslu sína af hendi. Samkvæmt þessu verður hafnað málsástæðum áfrýjenda sem reistar eru á fyrningu.

Samkvæmt 2. mgr. 2. gr. laga nr. 32/2009 um ábyrgðarmenn nær hugtakið ábyrgðarmaður í skilningi laganna til einstaklings sem hefur veðsett tiltekna eign sína til tryggingar efndum lántaka. Af 1. mgr. 7. gr. laganna leiðir að lánveitanda ber að senda slíkum veðþola skriflega tilkynningu, svo fljótt sem kostur er, meðal annars um vanefndir lántaka, ef bú hans hefur verið tekið til gjaldþrotaskipta og eftir hver áramót með upplýsingum um stöðu láns sem fellur undir veðið. Þessar skyldur sem hvíla á lánveitanda eftir lögunum tóku til skuldbindinga sem stofnað var til fyrir gildistöku þeirra, sbr. 12. gr. laganna. Þær hvíldu því á stefnda gagnvart áfrýjendum, en fyrir liggur í málinu að þeim var ekki sinnt allt þar til áfrýjendur báru sig sjálf upp við stefnda í því skyni að fá umræddu tryggingarbréfi aflýst af eign þeirra, eins og fyrr er rakið.

Í 2. mgr. 7. gr. laga nr. 32/2009 segir að ábyrgðarmaður skuli vera skaðlaus af vanrækslu lánveitanda á tilkynningarskyldu samkvæmt 1. mgr. sömu greinar og ef vanrækslan er veruleg skuli ábyrgðin falla niður. Áfrýjendur byggja málatilbúnað sinn á því að vanræksla stefnda á tilkynningarskyldu sinni gagnvart þeim hafi verið veruleg. Af þeim sökum hafi skuldbinding þeirra samkvæmt tryggingarbréfinu fallið niður.

Þegar áfrýjendur inntu af hendi greiðslu sína 6. mars 2014 að fjárhæð 14.000.000 krónur nam uppreiknuð hámarksfjárhæð tryggingarbréfsins 15.518.656 krónum. Einnig voru þær fjárkröfur sem bréfið tók til mun hærri en þessu nam, svo sem áður er komið fram. Samkvæmt þessu hélt stefndi ekki fram sínum ítrasta rétti við uppgjörið gagnvart áfrýjendum.

Með tryggingarbréfi áfrýjenda stofnaðist veðréttur í eign þeirra og er þar um að ræða eignarréttindi sem varin eru af 1. mgr. 72. gr. stjórnarskrárinnar. Að því gættu og með hliðsjón af orðalagi 2. mgr. 7. gr. laga nr. 32/2009 er ljóst að þau eignarréttindi stefnda geta ekki á grunni þess lagaboðs fallið niður að hluta til eða öllu leyti nema áfrýjendur leiði í ljós að stefndi hafi við beitingu réttinda sinna valdið þeim öðrum og meiri skaða en tekið hefur verið tillit til í uppgjörinu gagnvart þeim, sbr. til hliðsjónar dóm Hæstaréttar 5. nóvember 2015 í máli nr. 229/2015. Það hafa þau ekki gert og verður því staðfest sú niðurstaða héraðsdóms að stefndi hafi ekki sýnt af sér verulega vanrækslu í skilningi 2. mgr. 7. gr. laga nr. 32/2009.

Loks verður með skírskotun til forsendna héraðsdóms staðfest sú niðurstaða að ekki séu efni til að ógilda eða víkja til hliðar skuldbindingu áfrýjenda eftir þeim reglum samningaréttar sem þau vísa til.

Af öllu framangreindu leiðir að hinn áfrýjaði dómur verður staðfestur.

Áfrýjendum verður gert að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir.    

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Áfrýjendur, Gunnar Hilmar Sigurðsson og Kristín Hálfdánardóttir, greiði óskipt stefnda, Landsbankanum hf., 600.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 17. október 2016.

Mál þetta var höfðað hinn 24. júní 2015 og dómtekið 22. september 2016.

Stefnendur eru Gunnar Hilmar Sigurðsson og Kristín Hálfdánardóttir, bæði til heimilis að Laxatungu 57, Mosfellsbæ.

   Stefndi er Landsbankinn hf., Austurstræti 11, Reykjavík.

   Stefnendur krefjast þess aðallega að stefndi verði dæmdur til að greiða þeim 15.054.200 krónur með hæstu lögleyfðu dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr., sbr. 9. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, af 14.000.000 kr. frá 6. apríl 2014 til 2. október 2014, en af 15.054.200 kr. frá þeim degi til greiðsludags. Til vara krefst stefnandi lægri fjárhæðar að mati dómsins. Þá krefjast stefnendur málskostnaðar.

Stefndi krefst sýknu af öllum kröfum stefnanda. Þá krefst hann málskostnaðar.

I.

Málavextir

Þann 27. mars 2007 undirrituðu stefnendur tryggingarbréf nr. 0149-63-000005 þar sem SP-Fjármögnun hf. var veitt veð í fasteign og venjulegu fylgifé fasteignar stefnenda að Krossalind 24, 201 Kópavogi, fastanr. 222-8761. Hámarksfjárhæð samkvæmt tryggingarbréfinu var 10.000.000 kr. og var sú fjárhæð vísitölutryggð miðað við vísitölu neysluverðs til verðtryggingar miðað við grunnvísitöluna 268,0 stig. Með tryggingarbréfinu veðsettu stefnendur framangreinda eign fyrir skaðlausri greiðslu á öllum núverandi og tilvonandi skuldum og fjárskuldbindingum Leturprents ehf. (síðar LP 2007 ehf.), við SP-Fjármögnun hf., hvort sem þær væru samkvæmt víxlum, skuldabréfum, fjármögnunarleigusamningum, kaupleigusamningum, rekstrarleigusamningum, eða hvers konar ábyrgðum, í hvaða formi sem þær væru í og í hvaða gjaldmiðli sem var og hvenær sem er og hvort sem um væri að ræða höfuðstól, vísitölubætur, dráttarvexti, innheimtukostnað, vátryggingargjöld, lögfræðikostnað eða annað sem veðþola bæri að greiða veðhafa. Hinar undirliggjandi skuldbindingar að baki tryggingarbréfinu voru sjö fjármögnunarleigusamningar, kaupleigusamningur og tékkareikningur.

Fjármögnunarleigusamningarnir eru tilkomnir vegna leigu á vinnuvélum og bifreið vegna reksturs Leturprents ehf. Allir samningarnir kváðu á um gengistryggingu leigugjalds við samsetta gjaldmiðla gagnvart íslensku krónunni. Tveir samninganna voru gengistryggðir við samsetta gjaldmiðla gagnvart íslensku krónunni í 50% hlutfalli, en hinn hluti þeirra tveggja samninga var að öðru leyti gengistryggður miðað við vísitölu neysluverðs. Samningarnir fóru allir í vanskil á árunum 2008-2009.

Kaupleigusamningur nr. SKL-020061, dagsettur 19. ágúst 2009, snerist um kaupleigu nokkurra véla sem áttu að vera í rekstri Leturprents ehf. Samningurinn fór í vanskil 1. október 2009.

Einnig lá að baki tryggingarbréfinu tékkareikningur sem Leturprent ehf. stofnaði 26. mars 2007 við útibú stefnda að Laugavegi 77. Innstæðulausar færslur á reikningnum námu 19.094.060 krónum hinn 21. janúar 2010 en þann dag var reikningnum lokað.

Landsbankinn hf. eignaðist SP-Fjármögnun hf. að öllu leyti árið 2009, en frá árinu 2002-2009 hafði bankinn átt 51% hlutafjár í félaginu. Þann 6. október 2011 var SP-Fjármögnun hf. sameinuð Landsbankanum hf. sem tók við öllum réttindum og skyldum þess félags.

Hinn 25. september 2013 undirrituðu stefnendur kaupsamning vegna sölu fasteignar sinnar að Krossalind 24 og var í samningnum gert ráð fyrir að stefnendur afléttu tryggingarbréfinu sem þá hvíldi á 4 veðrétti eignarinnar. Fram kemur í stefnu að stefnendur hafi upphaflega óskað eftir því að tryggingarbréfinu yrði aflétt af eigninni. Illa hafi gengið að fá svör við beiðni þeirra þrátt fyrir að hún hafi verið ítrekuð. Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum buðu stefnendur stefnda veðflutning af eign sinni að Krossalind 24, yfir á Laxatungu 57. Þeim umleitunum var svarað með bréfi bankans hinn 18. nóvember 2013. Í kjölfarið áttu sér stað talsverð samskipti milli lögmanns stefnenda og stefnda þar sem leitað var lausna á málinu. Fór svo að lokum að stefnendur buðu stefnda 14.000.0000 kr. gegn afléttingu tryggingarbréfsins. Greiðslan var innt af hendi 6. mars 2014 með fyrirvara um réttmæti kröfu stefnda og áskildu stefnendur sér rétt til endurkröfu á hendur stefnda.

Mál þetta höfðuðu stefnendur í samræmi við framangreint til endurgreiðslu 14.000.000 kr. auk vaxta og skaðabóta.

II.

Málsástæður og lagarök stefnanda

Stefnendur byggja aðalkröfu sína á því að stefndi hafi vanrækt að verulegu leyti tilkynningarskyldu sína til stefnanda, skv. 1. mgr. 7. gr. laga um ábyrgðarmenn nr. 32/2009 og að af þeim sökum hafi ábyrgð stefnenda á skuldbindingum Leturprents ehf., fallið niður, sbr. 2. mgr. 7. gr. laga nr. 32/2009. Sökum þessa annmarka telji stefnendur sig eiga rétt á endurgreiðslu stefnufjárhæðarinnar auk dráttarvaxta og skaðabóta.

Stefnendur vísa til þess að ákvæði a-d liðar 1. mgr. 7. gr. laga um ábyrgðarmenn nr. 32/2009 kveði á um skyldu lánveitanda til að tilkynna ábyrgðarmanni skriflega svo fljótt sem unnt er um vanefndir lántaka, svo sem vegna vanskila og brottfalls annarra trygginga. Auk þess sé áskilið að tilkynna ábyrgðarmanni um hver áramót um stöðu lána sem hann er í ábyrgð fyrir, þ.m.t. vanskil og hversu mikil þau séu. Loks sé áskilið að tilkynna ábyrgðarmanni um gjaldþrot skuldara beri svo undir. Vísað er til þess að meginsjónarmið tilkynningarskyldu lánveitanda til ábyrgðarmanna sé að tilkynnt sé um öll þau atvik sem áhrif geti haft á forsendur ábyrgðar ábyrgðarmanni í óhag.

Stefnendur telja stefnda hafa brotið gegn framangreindum ákvæðum 1. mgr. 7. gr. laga nr. 32/2009 enda hafi hvorki fyrr né síðar verið uppfyllt tilkynningarskylda samkvæmt ákvæðunum gagnvart þeim. Lög nr. 32/2009 gildi um lögskipti aðila óháð því að til ábyrgðar hafi verið stofnað fyrir gildistöku þeirra, sbr. 12. gr. laganna.

Gefið var út tryggingarbréf af hálfu stefnenda hinn 27. mars 2007 þar sem veitt var veð í fasteigninni Krossalind 24, Kópavogi. Veðsetningunni hafi verið ætlað að tryggja skilvísa og skaðlausa greiðslu á öllum núverandi og tilvonandi fjárskuldbindingum Leturprents ehf., við SP-Fjármögnun. Annar ábyrgðarmaður hafi sama dag veitt veð í fasteign sinni að Sogavogi 126, Reykjavík til tryggingar sömu skuldbindingum og var bréfi hans aflétt af eigninni án þess að hann hefði tilkynnt stefnendum um það eins og honum hafi borið skylda til, sbr. b-lið 1. mgr. 7. gr. laga nr. 32/2009. Þessa vanrækslu á tilkynningarskyldu brjóti í bága við 2. mgr. 7. gr. laganna.

Stefnendur vísa til þess að þær skuldir sem tryggingarbréfi þeirra var ætlað að tryggja hafi byggst á gengistryggðum lánasamningum. Aldrei hafi þeim verið tilkynnt um stöðu lánasamninganna eða endurútreikning þeirra. Hafi SP-Fjármögnun raunar aldrei sýnt fram á að réttmætar kröfur á hendur Leturprenti ehf.,væru til staðar, sem stefnendur bæru ábyrgð á.

Óumdeilt sé að skuldbindingar félagsins Leturprents ehf. hafi gjaldfallið þegar úrskurður um gjaldþrotaskipti á búi þess var kveðinn upp 3. október 2012. Stefnendur hafi hvorki fengið tilkynningu um töku búsins til gjaldþrotaskipta þrátt fyrir lögboðna skyldu þess efnis, né hafi þeim verið tilkynnt um að gengið yrði að veðinu til lúkningar gjaldfelldum skuldbindingum Leturprents ehf. Stefnendum hafi heldur ekki verið tilkynnt um framsal réttinda sem reist séu á meintri ábyrgð þeirra þegar SP-Fjármögnun hf. var sameinuð stefnda 6. október 2011, sem brjóti í bága við 1. mgr. 3. gr. laga um ábyrgðarmenn.

Erfitt hafi reynst að fá upplýsingar um undirliggjandi kröfur að baki tryggingarbréfi stefnenda þegar leitað hafi verið eftir því af hálfu stefnenda að tryggingarbréfinu yrði aflétt vegna framkomins tilboðs í fasteign þeirra. Þrátt fyrir að stefnda væri fullkunnugt um stöðu og vanskil undirliggjandi skuldbindinga varðandi téð tryggingarbréf og tilkynningarskyldu um stöðu og vanskil, var stefndi ófáanlegur til að aflétta bréfinu. Það hafi ekki verið gert fyrr en tæpum 6 mánuðum síðar þegar stefnendur lögðu 14.000.000 kr. inn á reikning stefnda, en á þeim tímapunkti hafi blasað við að kaupandi eignarinnar hugðist rifta kaupum vegna vandkvæða við afléttingu tryggingarbréfsins. Stefnendur vísa til þess að þeir hafi greitt umrædda fjárhæð með þeim fyrirvara að þeir teldu ábyrgðina niður fallna af þeim ástæðum sem byggt er á í málinu. Í ljósi fyrirvara sem gerður var við greiðslu fjármuna til stefnda, teljist stefnendur einsýnt að fallast beri á kröfur þeirra, sbr. 1. og 2. mgr. 7. gr. laga um ábyrgðarmenn, og með vísan til 33. gr. og 36. gr. laga nr. 7/1936.

Stefnendur telja jafnframt aðstöðumun aðila skipta sköpum við mat á 36. gr. laga nr. 7/1936. Ósanngjarnt væri og andstætt góðri viðskiptavenju af hálfu stefnda að reisa rétt sinn á tryggingarbréfinu og krefjast greiðslu á grundvelli þess í ljósi þessa aðstöðumunar. Þá hafi stefndi hagnýtt sér þá aðstöðu sem upp var komin varðandi fasteignaviðskipti stefnenda og gengið svo langt að fara fram á innheimtuþóknun þó svo að kröfur að baki tryggingarbréfinu hafi aldrei verið í innheimtuferli gagnvart stefnendum.

Stefnendur hafi sjálfir aflað upplýsinga sem sýndu fram á að skuldari hafi greitt síðast af skuldbindingum sínum við SP-fjármögnun hf., á árinu 2009. Með vísan til þessa hafi virst sem skuld gagnvart stefnendum sem ábyrgðarmönnum væru fyrndar, sbr. 4. tl. 3. gr. laga nr. 14/1905, um fyrningu skulda og annarra kröfuréttinda, en engu að síður hafi stefndi hafnað að aflétta tryggingarbréfinu. Stefnendur skoruðu á stefnda að leggja fram gögn sem sýndu fram á hvenær síðasta greiðsla var innt af hendi af hálfu lántaka inn á þær skuldbindingar sem bréfinu var ætlað að tryggja. Stefnendur hafi bent á að slíkar upplýsingar ættu að liggja fyrir í ljósi tilkynningarskyldu stefnda samkvæmt lögum 32/2009 og það að slík gögn væru ekki nú þegar til staðar og þeim til reiðu, samræmdist ekki eðlilegum og heilbrigðum viðskiptaháttum og venjum á fjármálamarkaði, sbr. 1. mgr. 19. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki. Stefnendur telja aðstæður málsins og skort á viðhlítandi gögnum enn fremur ýta undir að víkja beri ábyrgð á hendur stefnendum á skuldbindingum Leturprents ehf. í heild til hliðar á grundvelli 33. gr. og 36. gr. laga nr. 7/1936.

Stefnendur byggja jafnframt á 30. gr. laga nr. 7/1936. Háttsemi stefnda hafi verið sviksamleg, þá einkum síðar tilkomnar athafnir hans og háttsemi við undanfara að afléttingu tryggingarbréfsins og greiðslu fjármuna stefnenda til stefnda. Stefndi hafi haft allar forsendur og upplýsingar um undirliggjandi skuldbindingar, ólíkt stefnendum, auk þess að vera upplýstur um aðstöðu stefnenda til óréttmætra aðgerða stefnda. Þrátt fyrir það hafi stefndi hafnað því að aflétta tryggingarbréfinu eða yfirfæra það á aðra eign og óskað í staðinn eftir því að meintar kröfur yrðu gerðar upp.

Stefnendur krefjast endurgreiðslu 14.000.000 kr. sem lagðir voru inn á reikning í eigu stefnda hinn 6. mars 2014 og dráttarvaxta skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 6. apríl 2014, sbr. 9. gr. sömu laga, þ.e. mánuði eftir að yfirlýsing stefnenda var móttekin af hálfu stefnda.

Stefnendur fara fram á að stefndi bæti þeim tjón sem hlaust af kostnaði við afléttingu tryggingarbréfsins en til þess réðu stefnendur sér lögmann. Kostnaður sökum þessa var 1.054.200 kr. Orsakatengsl séu skýr milli saknæmrar og ólögmætrar háttsemi stefnda hvað varðar skort á lögboðinni upplýsingaskyldu gagnvart stefnendum í aðdraganda afléttingu tryggingarbréfsins.

Varakröfu um greiðslu lægri fjárhæðar að mati dómsins byggja stefnendur á sömu rökum og aðalkröfu.

III.

Málsástæður og lagarök stefnda

Stefndi mótmælir öllum málsástæðum og lagarökum stefnenda. Kröfu sína um sýknu byggir stefndi á því að skuldbinding stefnenda samkvæmt tryggingarbréfi nr. 0149-63-000005 hafi falið í sér bindandi loforð og skilyrðum 2. mgr. 7. gr. laga nr. 32/2009, um ábyrgðarmenn, og ákvæðum laga nr. 7/1936 sé ekki fullnægt.

Stefndi hafi átt lögmæta kröfu á hendur stefnendum samkvæmt tryggingarbréfinu sem stofnast hafi fyrir gildistöku laga nr. 32/2009, um ábyrgðarmenn, og þau kröfuréttindi verði ekki skert með afturvirkri og íþyngjandi löggjöf. Þannig verði 2. mgr. 7. gr. laga nr. 32/2009 ekki beitt með afturvirkum hætti, sbr. 72. gr. stjórnarskrárinnar.

Mótmælt sé verulegri vanrækslu á tilkynningarskyldu skv. a-d liðum 1. mgr. 7. gr. laga nr. 32/2009. Stefndi telji að við mat á því hvort skuldbinding stefnenda hafi verið fallin niður þurfi að fara fram heildstætt mat á atvikum málsins. Í því skyni beri að líta til þess að lög nr. 32/2009 um ábyrgðarmenn hafi tekið gildi 4. apríl 2009, en fjármögnunarleigusamningar þeir er Leturprent ehf. gerði hafi allir farið í vanskil fyrir gildistöku laganna.

Stefndi mótmælir því að vanræksla á að tilkynna stefnendum um aflýsingu tryggingarbréfs sem útgefið var af öðrum ábyrgðarmanni og einnig stóð til tryggingar á skuldbindingum Leturprents ehf. við stefnda hafi verið veruleg. Gera verði greinarmun á annars vegar þeirri aðstöðu þegar aðili er í persónulegri óskiptri ábyrgð með öðrum aðila sem losnar úr ábyrgð sinni af tilteknum ástæðum og hins vegar þeirri að tveir aðilar séu í ótengdum sjálfstæðum ábyrgðum á skuldum sama aðila og annar losnar undan ábyrgð sinni. Í tilviki aðila séu ábyrgðirnar með öllu ótengdar þótt til þeirra hafi verið stofnað sama dag. Stefndi telur að vanræksla á tilkynningu um niðurfellingu þeirrar ábyrgðar hafi engin áhrif haft á réttarstöðu stefnenda og því hafi sú vanræksla á tilkynningu hvað það varðar ekki verið veruleg í skilningi 2. mgr. 7. gr. laga nr. 32/2009.

Stefndi vísar til þess að tilkynningar til stefnenda skv. a-d liðum 1. mgr. 7. gr. laga nr. 32/2009 hafi ekki gefið rétta mynd af stöðu skulda Leturprent ehf., vegna þess að síðar kom í ljós að fjármögnunarleigusamningar félagsins fólu í reynd í sér lánasamninga þar sem tenging lánsfjárhæðar við gengi erlendra gjaldmiðla var óheimil. Vanræksla á tilkynningum hafi því ekki haft áhrif á réttarstöðu þeirra.

Stefndi vísar til þess að það hafi enga þýðingu í málinu að stefndi hafi ekki reynt að krefja stefnendur um greiðslu eða tilkynnt þeim að gengið yrði að veði til lúkningar skuldbindingum Leturprents ehf., í kjölfar gjaldþrots félagsins. Óvissa um þá lánasamninga sem að baki kröfunni voru, hafi verið slík, að óvíst var hvort skuldbindingar félagsins myndu falla undir dómafordæmi Hæstaréttar Íslands samkvæmt dómi réttarins frá 12. desember 2013, í máli nr. 430/2013 sem beðið hafi verið eftir á þessum tíma.

Þá hafi stefnendur vitað af bágri stöðu Leturprents ehf., og ekki orðið fyrir fjárhagslegu tjóni vegna vanrækslu stefnda á tilkynningarskyldu skv. 1. mgr. 7. gr. laga nr. 32/2009.

Stefndi vísar til þess að skuldir Leturprents ehf. hafi verið langt umfram virði tryggingarbréfsins. Þannig hafi útreikningar á skuldum samkvæmt fjármögnunarleigusamningum verið hærri en uppreiknuð staða tryggingarbréfsins og því augljóst að nægar skuldir hefðu verið á bak við tryggingarbréfið.

Stefndi bendir á að ekki hafi verið um að ræða brot við 1. mgr. 3. gr. laga nr. 32/2009 þegar tryggingarbréfið og skuldir Leturprents ehf. voru framseldar frá SP-Fjármögnun hf. til stefnda, heldur hafi verið um að ræða samruna án skuldaskila og þetta þannig algerlega sameinað stefnda með yfirtöku eigna og skulda, og SP-Fjármögnun um leið slitið.

Stefndi vísar til þess að af hálfu stefnenda sé vanreifuð vísun til 33. gr. laga nr. 7/1936 enda ekki nánar tiltekið hvað það hafi verið sem þótti óheiðarlegt af stefnda, auk þess sem ósannað sé að ákvæðið eigi við. Þá sé mótmælt þeim fullyrðingum stefnenda að það hafi verið ósanngjarnt eða andstætt góðri viðskiptavenju af hálfu stefnda að reisa rétt sinn á umræddu tryggingarbréfi í skilningi 36. gr. laga nr. 7/1936. Sérstaklega sé mótmælt þeirri staðhæfingu stefnenda að stefndi hafi krafist innheimtukostnaðar enda hafi 14.000.000 kr. sem reiddar voru af hendi, verið langt undir uppreiknaðri hámarksfjárhæð tryggingarbréfsins, hvort heldur sem litið væri til uppreiknaðrar fjárhæðar bréfsins í september 2013 eða mars 2014.

Stefndi mótmælir því að kröfur á hendur stefnendum sem ábyrgðaraðilum séu fyrndar skv. 4. tl. 3. gr. þágildandi laga nr. 14/1905, um fyrningu skulda og annarra kröfuréttinda, sbr. 28. gr. laga nr. 150/2007, um fyrningu kröfuréttinda. Stefndi bendir á að hann hafi átt veð í umræddri fasteign stefnenda og í þeim rétti hafi falist forgangsréttur til að leita fullnustu á kröfum Leturprents ehf., í hinni veðsettu eign, sbr. 1. tl. 1. gr. laga nr. 75/1997, um samningsveð. Ekki hafi verið um að ræða persónulegar ábyrgðir vegna skulda Leturprents ehf. heldur veð í fasteign til tryggingar á efndum skuldbindinga aðalskuldara. Veðsetningu fasteignar sé ekki jafnað við ábyrgðarskuldbindingu. Því eigi 4. tl. 3. gr. laga nr. 14/1905 ekki við. Stefndi vísar til þess að skv. 3. mgr. 1. gr. laga nr. 14/1905 fyrnist veðkröfur ekki ólíkt kröfum með persónulegri ábyrgð. Lög um ábyrgðamenn nr. 32/2009 feli ekki í sér lagareglu sem tilgreini að leggja beri að jöfnu að öllu leyti réttarstöðu þessara aðila. Þá sé bent á að fjármögnunarleigusamningar þeir er standi að baki kröfunni sem tryggingarbréfið stóð til tryggingar á, hafi verið lánasamningar en ekki leigusamningar. Um lán fari eftir 2. tl. 4. gr. laga nr. 14/1905, sbr. 28. gr. laga nr. 150/2007, að því leyti sem til skuldbindinganna var stofnað fyrir 1. janúar 2008, en eftir 2. mgr. 5. gr. laga nr. 150/2007 að því leyti sem stofnað var til skuldbindinganna eftir gildistöku laganna. Fjármögnunarleigusamningnum og kaupleigusamningunum var rift þann 1. desember 2009 og því séu kröfurnar ófyrndar. Um fyrningu á yfirdrætti á tékkareikningi fari eftir sömu lagaákvæðum. Þá hafi reikningurinn verið gjaldfelldur 21. janúar 2010 og því ljóst að krafan sé ófyrnd.

Stefndi telur að almennar tilvísanir til sérfræðiþekkingar og lögbundinnar skyldu um vönduð vinnubrögð hafi enga þýðingu fyrir úrlausn málsins. Sönnunarbyrði fyrir því að ógilda beri ábyrgðarskuldbindingu hvíli á stefnendum og þeir hafi ekki sýnt fram á að ósanngjarnt hafi verið af hálfu stefnda að bera fyrir sig ábyrgð þeirra samkvæmt tryggingarbréfinu. Hið sama gildi um önnur skilyrði 36. gr. laga nr. 7/1936.

Mótmælt sé staðhæfingum stefnenda um svik sbr. 30. gr. laga nr. 7/1936, enda hafi stefnendur ekki fært sönnur á svik í skilningi ákvæðisins. Þá sé því sérstaklega hafnað af hálfu stefnda að hann hafi veitt rangar upplýsingar og beitt annars konar óréttmætum aðgerðum.

Stefndi telur að tjón stefnenda sé ósannað auk þess sem skilyrðum skaðabóta sé ekki fullnægt. Stefnendur hafi ekki sýnt fram á hver hin saknæma háttsemi stefnda sé sem hafi valdið þeim tjóni. Þá hafi stefnendur ekki lagt fram viðhlítandi gögn kröfu sinni til stuðnings. Þá sé ekkert orsakasamband milli ætlaðs tjóns og ætlaðrar saknæmrar háttsemi.

Dráttarvöxtum sé mótmælt hvað varðar upphafstíma vaxtanna og framsetningu kröfunnar.

Stefndi byggir varakröfu sína á sömu lagarökum og málsástæðum og aðalkrafan byggir á.

Niðurstaða

Ágreiningur málsins lýtur að því hvort stefnendur hafi losnað undan ábyrgð sökum meintrar vanrækslu stefnda á tilkynningarskyldu skv. 1. mgr., sbr. 2. mgr., 7. gr. laga um ábyrgðarmenn, nr. 32/2009. Einnig deila aðilar um hvort 33. og 36. gr. laga nr. 7/1936 eigi við um háttsemi stefnda og losi þar með stefnendur undan ábyrgð. Þá deila aðilar um hvort ábyrgðarskuld hafi verið fyrnd og þannig fallin úr gildi gagnvart stefndu. Jafnframt er uppi deila milli aðila um það hvort 30. gr. laga nr. 7/1936 eigi við þar sem stefndi hafi beitt svikum í aðdraganda uppgjörs á tryggingarbréfinu.

Stefnendur byggja á því að óvíst sé um kröfurétt stefndu og vísa m.a. til yfirlýsingar sinnar dagsettrar 6. mars 2014. Á þessa málsástæðu er ekki fallist enda sýna framlögð gögn að stefndi eigi lögmæta kröfu á hendur stefnendum á grundvelli tryggingarbréfsins. Um allsherjarveð var að ræða sem náði til allra undirliggjandi skuldbindinga lántakanda eins og áður er lýst.

Stefnendur vísa til þess að kröfur stefnda séu fyrndar skv. 4. tl. 3. gr. þágildandi laga nr. 14/1905, um fyrningu skulda og annarra kröfuréttinda, sbr. 28. gr. laga nr. 150/2007, um fyrningu kröfuréttinda. Ljóst er að krafa stefnda takmarkaðist við veðandlagið og var því í þeim skilningi ekki um persónulegar ábyrgðir að ræða, heldur veð til tryggingar á efndum skuldbindinga lántakanda. Slíkri veðsetningu er ekki unnt að jafna við ábyrgðarskuldbindingu skv. 2. mgr. 2. gr. laga nr. 32/2009 enda um að ræða veðrétt, sbr. 1. tl. 1. gr. laga nr. 75/1997. Um slíkar kröfur gilti 3. mgr. 1. gr. laga nr. 14/1905 í tíð eldri laga, en samkvæmt ákvæðinu fyrnast veðkröfur ekki. Er því ekki fallist á að kröfur stefnda séu fyrndar.

Lög um ábyrgðarmenn tóku gildi 4. apríl 2009 en óumdeilt er að til allra undirliggjandi skuldbindinga lántaka var stofnað fyrir gildistöku þeirra. Í 2. gr. laganna er fjallað um gildissvið þeirra og segir í 2. mgr. ákvæðisins að með ábyrgðarmanni sé átt við einstakling sem gengst persónulega í ábyrgð eða veðsetur tiltekna eign sína til tryggingar efndum lántaka enda sé ábyrgðin ekki í þágu atvinnurekstrar ábyrgðarmanns eða í þágu fjárhagslegs ávinnings hans. Í 12. gr. laga nr. 32/2009 segir að lögin taki til ábyrgða sem stofnað var til fyrir gildistöku þeirra að frátöldum 4. gr., 5. gr., 1. mgr. 6. gr. og 8. gr. Þar sem ekki reynir á ákvæði þessi er ljóst að ákvæði 7. gr. um tilkynningarskyldu gildir um lögskipti aðila.

Samkvæmt 1. mgr. 7. gr. laga nr. 32/2009 skal lánveitandi, skv. a-lið ákvæðisins, senda ábyrgðarmanni skriflega tilkynningu svo fljótt sem kostur er um stöðu viðkomandi láns. Þá skal lánveitandi samkvæmt c-lið senda eftir hver áramót upplýsingar um stöðu láns sem ábyrgð stendur fyrir og yfirlit yfir ábyrgðir. Í 2. mgr. 7. gr. er síðan kveðið á um að ábyrgðarmaður skuli vera „skaðlaus af vanrækslu“ lánveitanda á tilkynningarskyldu skv. 1 mgr. og ef vanræksla er veruleg  „skal ábyrgð falla niður“. 

Aðilar eru sammála um að átt hafi sér stað vanræksla á tilkynningarskyldu stefnda í skilningi 1. mgr. 7. gr. laga nr. 32/2009 en greinir hins vegar á um hvort sú vanræksla hafi verið veruleg.

   Óumdeilt er að fjármögnunarsamningar sem lántakandi undirgekkst voru allir komnir í vanskil fyrir gildistöku laga nr. 32/2009. Bar því stefnda að senda stefnendum skriflega tilkynningu um vanefndir, skv. a-lið 1. mgr. 7. gr. laganna, eins fljótt og kostur var eftir gildistöku þeirra í apríl 2009. Það gerði hann ekki. Kaupleigusamningur sem var í íslenskum krónum var kominn í vanskil 1. október 2009 en engin tilkynning var send af því tilefni.

Tékkareikningi aðalskuldara var lokað 21. janúar 2010 en hann var þá í 19.094.60 króna skuld og bar stefnda að tilkynna stefnendum um þá stöðu. Stefnda bar sömuleiðis um þau áramót að senda stefnendum upplýsingar um stöðu lána og yfirlit yfir ábyrgðir samkvæmt d-lið 1. mgr. 7. gr. laganna. Þessa upplýsingaskyldu sína vanrækti stefndi sem og einnig þá síðarnefndu eftir áramótin 2011, 2012 og 2013.

Bú aðalskuldara var tekið til gjaldþrotaskipta þann 3. október 2012. Við það gjaldféllu allar skuldbindingar félagsins. Samkvæmt c-lið 1. mgr. 7. greinar laga nr. 32/2009 bar stefnda að tilkynna stefnendum það sérstaklega, sem ekki var gert.

Stefndi heldur því fram að lögmæt kröfuréttindi verði ekki skert með afturvirkri og íþyngjandi löggjöf, sbr. 72. gr. stjórnarskrár Íslands nr. 33/1944, um vernd eignarréttinda. Við gildistöku laga nr. 32/2009 átti stefndi vissulega kröfuréttindi á hendur stefnendum sem nutu verndar 72. gr. stjórnarskrárinnar. Sú skylda sem stefnendur höfðu tekist á hendur með ábyrgð sinni samkvæmt tryggingarbréfinu hvíldi því enn á þeim. Eins og rakið hefur verið voru með lögunum hins vegar lagðar auknar skyldur á herðar stefnda, m.a. um upplýsingar til stefnenda sem ábyrgðarmanna enda var tilgangur laganna m.a. að tryggja vönduð vinnubrögð fjármálafyrirtækja þegar ábyrgðarmenn ættu í hlut. Eins og fram hefur komið sinnti stefndi þessum skyldum sínum ekki og höfðu stefnendur frumkvæði að þeim samskiptum sem leiddu að lokum til þess að þau inntu af hendi þá greiðslu sem þau endurkrefja stefnda nú um.

Um afleiðingar slíkrar vanrækslu á tilkynningarskyldu er fjallað í 2., 3. og 4. mgr. 7. gr. laga nr. 32/2009. Í þeim tilvikum sem um verulega vanrækslu er að ræða ganga afleiðingarnar lengst og skal þá ábyrgð falla niður, sbr. 2. mgr. Samkvæmt 3. mgr. ákvæðisins verður ábyrgðarmaður ekki krafinn um greiðslur á dráttarvöxtum eða öðrum innheimtukostnaði lántaka sem fellur til eftir gjalddaga nema liðnar séu tvær vikur frá því að ábyrgðarmanni var sannanlega gefinn kostur á að greiða gjaldfallna afborgun. Þá getur lánveitandi samkvæmt 4. mgr. ákvæðisins ekki, þannig að gildi hafi gagnvart ábyrgðarmanni, gjaldfellt lán í heild sinni nema ábyrgðarmanni hafi verið gefinn kostur á að greiða gjaldfallnar afborganir lánsins.

Við mat á því hvort um verulega vanrækslu hafi verið að ræða í tilviki stefnenda verður að líta til dóma Hæstaréttar þar sem fjallað hefur verið um sambærileg álitaefni. Má í þessu sambandi nefnda dóma í málum 196/2015 og 229/2015. Í þeim málum háttaði svo til að ábyrgðarmönnum hafði verið send tilkynning á einhverju stigi máls. Þá var lagt mat á það hvort ábyrgðarmönnum hefði verið gefinn kostur á að koma hinum undirliggjandi skuldbindingum í skil skv. 4. mgr. 7. gr. laga nr. 32/2009. Draga má þá ályktun af fyrrgreindum dómum að hafi það verið gert sé litið svo á að á ábyrgðarmönnum hvíli sú skylda að bregðast við með boði um greiðslu ella hafi þeir firrt sig rétti til að bera fyrir sig 2. mgr. 7. gr. laga nr. 32/2009.

Stefnendur veðsettu fasteign sína með tryggingarbréfi fyrir greiðslum lántakanda og gat því ekki dulist tilvist ábyrgðarinnar. Stóð ábyrgð þeirra til tryggingar öllum skuldbindingum lántaka. Óumdeilt er að stefnendur óskuðu eftir því í september 2013 að tryggingarbréfinu yrði aflétt í tengslum við sölu hinnar veðsettu eignar. Af samskiptum stefnenda við bankann verður hins vegar hvergi séð að eftir að ljóst var að við kröfu þeirra um afléttingu yrði ekki orðið hafi þau boðist til þess að standa skil á greiðslum sem komnar voru í vanskil að því marki sem ábyrgð þeirra svaraði til. Í síðasta lagi með bréfi stefnda 18. nóvember 2013 máttu þau vita að lántaki hafði verið úrskurðaður gjaldþrota og allar kröfur fallnar í gjalddaga. 

Í fyrrnefndum dómi Hæstaréttar í máli nr. 229/2015 var á það bent að kröfuréttindi til handa stefnda í því máli væru eignarréttindi sem varin væru af 1. mgr. 72. gr. stjórnarskrárinnar. Í því ljósi, og með hliðsjón af orðalagi 2. mgr. 7. gr. laga nr. 32/2009, sé ljóst að þau eignarréttindi geti ekki fallið niður á grundvelli umrædds lagaboðs nema sýnt sé fram á að stefndi hafi við beitingu réttinda sinna valdið ábyrgðarmönnum meiri skaða en bættur verður með úrræðum 3. og 4. mgr. 7. gr. laganna. Var í því tilviki ekki talið að um verulega vanrækslu stefnda í skilningi 2. mgr. 7. gr. laga nr. 32/2009 væri að ræða.

Ágreiningslaust er að stefndi reiknaði hvorki dráttarvexti á kröfuna né krafði stefnendur um innheimtukostnað, sbr. 3. mgr. 7. gr. laga nr. 32/2009. Urðu stefnendur því ekki fyrir slíku fjártjóni. Þá hafa þau ekki sýnt fram á annað tjón sem rekja má beint til vanrækslu á tilkynningarskyldu stefnda samkvæmt 1. mgr. 7. gr. laganna.

Að ofangreindu virtu, og að öðru leyti með vísan til túlkunar Hæstaréttar á ákvæði 2. mgr. 7. gr. laga nr. 32/2009, er ekki unnt að fallast á þá málsástæðu stefnenda að vanræksla stefnda hafi verið veruleg þannig að skuldbinding hans samkvæmt umræddu tryggingarbréfi falli niður af þeim sökum.

Stefnendur byggja málatilbúnað sinn einnig á 36. gr., 33. gr. og 30 .gr. laga nr. 7/1936. Við málflutning var af hálfu stefnda mótmælt málsástæðum er lutu að 33. gr. laganna. Ekki er fallist á að málsástæður byggðar á 33. gr. hafi komið of seint fram enda beinlínis byggt á ákvæðinu í stefnu. Gögn málsins benda hins vegar ekki til þess að sannað sé af hálfu stefnenda, að ógilda beri ábyrgðarskuldbindingu þá er hvíli á stefnendum því ósanngjarnt eða andstætt góðri viðskiptavenju hafi verið af hálfu stefnda að bera fyrir sig ábyrgðina samkvæmt tryggingarbréfinu. Hið sama á við um meinta sviksamlega háttsemi stefnda skv. 30. gr. laga nr. 7/1936. Er því ekki fallist á málsástæður stefnenda er byggja á fyrrgreindum ákvæðum laga nr. 7/1936.

Stefnendur leituðu lögfræðiaðstoðar eftir að þau óskuðu afléttingar veðsins af fasteign sinni. Krefja þau stefnda um kostnað vegna þess að fjárhæð 1.054.200 kr. en ósundurliðaður reikningur þeirrar fjárhæðar var lagður fram í málinu. Krafan er lítt rökstudd og er til að mynda ekki rakið hvernig hinn umkrafði lögfræðikostnaður tengist skorti á tilkynningarskyldu stefndu. Þá skoraði stefndi á stefnendur í greinargerð sinni að leggja fram sundurliðaða tímaskýrslu en því var ekki sinnt. Krafa þessi er því vanreifuð og er henni vísað frá dómi.

Með vísan til þess sem rakið hefur verið í tengslum við aðalkröfu stefnenda verður ekki fallist á varakörfu þeirra um lækkun á umkröfðum fjárhæðum að álitum. Samkvæmt því sem rakið hefur verið verður stefndi sýknaður af öllum kröfum stefnanda í málinu.

Rétt þykir að málskostnaður á milli aðila falli niður.

Sigríður Hjaltested héraðsdómari kveður upp dóm þennan.

D Ó M S O R Ð:

Stefndi, Landsbankinn hf., skal vera sýkn af öllum kröfum stefnenda, Gunnars Hilmars Sigurðssonar og Kristínar Hálfdánardóttur.

Kröfu stefnanda um kostnað vegna lögfræðiaðstoðar 1.054.200 kr. er vísað frá dómi.

Málskostnaður fellur niður.