Print

Mál nr. 364/2014

Lykilorð
  • Jafnrétti
  • Ríkisstarfsmenn
  • Stöðuveiting
  • Stjórnsýsla

                               

Fimmtudaginn 15. janúar 2015.

Nr. 364/2014.

Landspítali

(Daníel Isebarn Ágústsson hrl.

Páll Rúnar M. Kristjánsson hdl.)

gegn

Stefáni Einari Matthíassyni

(Ragnar Halldór Hall hrl.

Jafnrétti. Ríkisstarfsmenn. Stöðuveiting. Stjórnsýsla.

L höfðaði mál á hendur S og krafðist þess að felldur yrði úr gildi úrskurður kærunefndar jafnréttismála, þar sem komist var að niðurstöðu um að brotið hefði verið gegn ákvæðum laga nr. 10/2008 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla við ráðningu í starf yfirlæknis æðaskurðlækninga með því að S, sem var á meðal umsækjenda um stöðuna, var talinn hæfari til að gegna starfinu en sá umsækjenda sem ráðinn var. S var sýknaður af kröfu L með skírskotun til þess að kærunefnd jafnréttismála hefði beitt lögmætum aðferðum í úrlausn sinni og ekki farið út fyrir valdsvið sitt eða verksvið.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Eiríkur Tómasson, Ólafur Börkur Þorvaldsson og Þorgeir Örlygsson og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 27. maí 2014 að fengnu áfrýjunarleyfi. Hann krefst þess að felldur verði úr gildi úrskurður kærunefndar jafnréttismála 27. september 2013 í máli nr. 4/2013. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti, sem greiddur verði úr ríkissjóði.

I

Svo sem nánar greinir í hinum áfrýjaða dómi á mál þetta rætur að rekja til þess að áfrýjandi auglýsti 25. júní 2012 lausa til umsóknar stöðu yfirlæknis æðaskurðlækninga, sem veita átti frá 1. september sama ár. Í auglýsingunni kom fram að áskilin væri sérfræðiviðurkenning í æðaskurðlækningum, sértæk reynsla og þekking á því sviði, góðir samskiptahæfileikar og ákveðni, frumkvæði og metnaður til að ná árangri, en stjórnunarreynsla og leiðtogahæfileikar væru æskilegir, svo og reynsla af kennslu og vísindastörfum. Þá var tekið fram að umsóknir yrðu sendar til „stöðunefndar lækna hjá Landlæknisembættinu“ og tekin yrðu viðtöl við umsækjendur, en ákvörðun um ráðningu yrði reist á viðtölunum og mati stöðunefndar. Þrír sóttu um stöðuna, Helgi H. Sigurðsson, Lilja Þyri Björnsdóttir og stefndi.

Stöðunefnd lækna, sem starfar samkvæmt 35. gr. laga nr. 40/2007 um heilbrigðisþjónustu, gaf 21. ágúst 2012 umsögn um umsækjendurna, þar sem annars vegar var fjallað sérstaklega um hvern þeirra og hins vegar gerður stuttur samanburður á þeim, sem hljóðaði svo: „Umsækjendur eru á aldrinum 41-54 ára. Þeir hafa allir sérfræðileyfi í almennum skurðlækningum og æðaskurðlækningum. Sérfræðireynsla Stefáns og Helga nær því hámarki sem stöðunefnd metur, en sérfræðireynsla Lilju er ívið styttri. Í auglýsingu er krafist sérstakrar reynslu og þekkingar innan æðaskurðlækninga. Helgi og Lilja leggja fram vottorð þar að lútandi. Stefán hefur ekki verið í föstu starfi á sjúkrahúsi undanfarin 6 ár. Allir umsækjendur hafa nokkra stjórnunarreynslu en stjórnunarreynsla Stefáns er mest og hann hefur einn umsækjenda gegnt föstu stjórnunarstarfi og hefur að auki nokkurt stjórnunarnám á háskólastigi að baki. Stefán hefur mesta vísindareynslu umsækjenda og hefur lokið doktorsprófi. Hann hefur einn umsækjenda gegnt föstu kennarastarfi sem dósent … Umsækjendur eru allir hæfir til að gegna hinu auglýsta starfi. Stöðunefnd telur ekki ástæðu til innbyrðis röðunar umsækjenda, en vísar til ofangreindrar umfjöllunar.“

Að fenginni þessari umsögn áttu fimm starfsmenn áfrýjanda viðtöl 5. og 19. september 2012 við hvern umsækjanda fyrir sig. Áfrýjandi tilkynnti síðan stefnda 28. sama mánaðar að ákveðið hafi verið að ráða Lilju Þyri Björnsdóttur í starfið. Stefndi krafðist rökstuðnings fyrir þeirri ákvörðun, sem áfrýjandi veitti með bréfi 12. október 2012. Þar sagði meðal annars: „Mat á hæfni umsækjenda og ákvörðun um ráðningu byggðist á innsendum gögnum, umsögn stöðunefndar og viðtölum við umsækjendur. Að loknu ferli við mat á hæfi umsækjenda var samdóma álit þeirra sem að ráðningunni komu að ráða Lilju Þyri í starfið … Þau sjónarmið sem voru ráðandi við matið lutu að persónulegum eiginleikum hennar, s.s. stjórnunar- og leiðtogahæfileikum, samskiptahæfni, nákvæmni, samstarfsvilja, metnaði, framtíðarsýn og árangurs- og lausnamiðuðu viðhorfi. Í starfsviðtali setti Lilja Þyri fram skýra og raunhæfa sýn fyrir starfsemi deildarinnar með áherslu á innæðaaðgerðir, göngudeildarþjónustu og mikilvægi samvinnu þvert á sérgreinar. Stjórnunarhættir hennar einkennast af marksækni, nákvæmni og skipulagi. Sem yfirlæknir hefur Lilja Þyri haft forgöngu um áherslubreytingar og úrbætur í starfi sérgreinarinnar og haft frumkvæði að því að efla og styðja göngudeildarþjónustu sem samræmist stefnu spítalans. Þekking hennar og þjálfun í nútíma innæðaaðgerðum er umtalsverð … Við ákvörðun um ráðningu Lilju var jafnframt litið til skyldna Landspítala samkvæmt 1. mgr. 18. gr. laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla nr. 10/2008 … Ákvæði jafnréttislaga hafa verið skýrð á þann hátt að einstaklingi, þess kyns sem er í minnihluta í starfi, skuli veitt starf ef hann er að minnsta kosti jafnt að því kominn og einstaklingur af hinu kyninu sem keppir við hann að því er varðar menntun og annað sem máli skiptir. Jafnréttissjónarmið voru því jafnframt veigamikill þáttur við töku ákvörðunar um ráðningu.“

Stefndi leitaði 11. apríl 2013 atbeina kærunefndar jafnréttismála vegna þessarar ráðningar. Með úrskurði 27. september 2013 komst nefndin að þeirri niðurstöðu að áfrýjandi hafi brotið gegn ákvæðum laga nr. 10/2008 við ráðninguna í starf yfirlæknis. Í hinum áfrýjaða dómi er lýst forsendum nefndarinnar fyrir þeirri niðurstöðu, en áfrýjandi höfðaði þetta mál 20. nóvember 2013 til að fá úrskurð hennar felldan úr gildi.

II

Samkvæmt 2. mgr. 5. gr. laga nr. 10/2008 tekur kærunefnd jafnréttismála til meðferðar erindi og kveður upp úrskurð um hvort brotið hafi verið gegn ákvæðum laganna. Einstaklingar, fyrirtæki, stofnanir og félagasamtök í eigin nafni eða fyrir hönd félagsmanna, sem telja að slíku broti hafi verið beint gegn sér, geta leitað atbeina nefndarinnar, sbr. 1. mgr. 6. gr. sömu laga, og ber henni samkvæmt 1. mgr. 7. gr. laganna að tryggja að aðili máls eigi kost á að tjá sig um efni þess áður en úrskurður verður upp kveðinn. Stefndi, sem taldi áfrýjanda hafa brotið gegn ákvæðum laga nr. 10/2008 við ráðningu í starf yfirlæknis æðaskurðlækninga í september 2012, bar sem áður segir upp kæru af því tilefni við nefndina. Nefndin hafði ekki vald til að hnekkja þeirri ráðningu, sem áfrýjandi hafði tekið ákvörðun um og hrundið í framkvæmd. Það getur því ekki haft áhrif á gildi úrskurðar kærunefndarinnar 27. september 2013 að hún hafi ekki gefið Lilju Þyri Björnsdóttur kost á að láta málið til sín taka.

Við meðferð málsins fyrir kærunefnd jafnréttismála lögðu aðilarnir fram þau gögn, sem áfrýjandi hafði undir höndum þegar ákvörðun var tekin um ráðningu í starfið og þeir töldu einhverju skipta fyrir úrlausn nefndarinnar. Áfrýjandi heldur því fram að nefndin hafi ekki gætt rannsóknarskyldu samkvæmt 3. mgr. 7. gr. laga nr. 10/2008, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, en hann hefur þó ekki bent á hverra frekari gagna hefði átt að afla við meðferð málsins fyrir nefndinni að öðru leyti en því að henni hefði verið rétt að gefa honum kost á að láta gera skriflega samantekt þeirra, sem tóku ákvörðun um ráðningu í starfið, um mat sitt á umsækjendunum á grundvelli viðtala við þau. Áfrýjanda hefði verið í lófa lagið að afla slíkra gagna að eigin frumkvæði, en ekki verður það talið til annmarka á málsmeðferð kærunefndarinnar að hún hafi ekki hlutast til um að áfrýjandi gerði samantekt sem þessa löngu eftir að lokið var ráðningu í starfið og fram var komin kæra vegna hennar.

Í rökstuðningi áfrýjanda til stefnda 12. október 2012 fyrir ráðningunni vísaði hann sem áður segir sérstaklega til skyldna sinna samkvæmt 1. mgr. 18. gr. laga nr. 10/2008 til að ráða umsækjanda af því kyni, sem var í minni hluta í hliðsettum störfum hjá sér, hafi sá umsækjandi að minnsta kosti verið jafnt að starfinu kominn og annar af gagnstæðu kyni, sem við hann keppti, að því er varðaði menntun og annað sem máli skipti. Var tekið fram að jafnréttissjónarmið hafi því verið veigamikill þáttur við ákvörðun um ráðninguna. Skilja verður þessa afstöðu áfrýjanda á þann veg að hann hafi talið Lilju Þyri Björnsdóttur að minnsta kosti jafn hæfa stefnda til að gegna starfinu og hafi því kynferði hennar eftir atvikum ráðið niðurstöðu. Að þessu virtu var stefnda, sem taldi þennan grundvöll ráðningarinnar rangan, heimilt að beina kæru vegna hennar til kærunefndar jafnréttismála.

Til að taka afstöðu til kæru stefnda var kærunefnd jafnréttismála óhjákvæmilegt að komast að niðurstöðu um hvort ákvörðun áfrýjanda hafi að framangreindu leyti verið reist á réttum forsendum. Í því skyni varð nefndin ekki aðeins að líta til krafna um hæfni, sem getið var í auglýsingu áfrýjanda um starfið, heldur einnig til annarra atriða, sem hann kvaðst hafa byggt ákvörðun sína á, og taka afstöðu til þess hvort þær kröfur og þau atriði, svo og beiting þeirra, hafi verið málefnaleg. Í úrskurði nefndarinnar 27. september 2013 var réttilega byggt á því að ljóst væri af umsögn stöðunefndar lækna 21. ágúst 2012 að stefndi hafi staðið framar umsækjandanum, sem fékk starfið, að því er varðar sérfræðireynslu á sviði æðaskurðlækninga og reynslu af stjórnun og vísindastörfum. Sagði í úrskurðinum að áfrýjandi hafi á hinn bóginn rökstutt ákvörðun sína um ráðninguna með vísan til persónulegra eiginleika umsækjendanna og þá einkum aðferða og hæfni til stjórnunar, framtíðarsýnar í starfi, samskiptahæfileika, ákveðni, frumkvæðis og metnaðar til árangurs. Ekki yrði þó séð að áfrýjandi hafi borið umsækjendurna saman með tilliti til þessara þátta. Að þessu gættu dró nefndin saman niðurstöðu sína með eftirfarandi orðum, þar sem stefndi var nefndur kærandi og áfrýjandi kærði: „Þar sem kærandi stendur þeirri er ráðin var ótvírætt framar varðandi þá hlutlægu þætti er raktir eru að framan verður að gera ríkar kröfur til þess að gögn beri það með sér að raunverulegt mat og samanburður hafi farið fram á þeim þáttum sem kærði lagði áherslu á í rökstuðningi sínum fyrir ráðningunni. Þar sem gögn um samanburð og mat á persónulegum eiginleikum umsækjenda eru eins og fyrr greinir afar takmörkuð verður ráðningin ekki byggð á þessum þáttum … Samkvæmt framangreindu er það mat nefndarinnar að kærandi hafi verið hæfari til að gegna starfinu en sú sem ráðin var og því verður ráðningin ekki byggð á sjónarmiðum er fram koma í 1. mgr. 18. gr. laga nr. 10/2008 … Telur kærunefnd jafnréttismála að kærði hafi við ráðninguna brotið gegn 1. mgr. 26. gr. laganna.“ Með þessu miðaði nefndin hvorki við aðrar hæfniskröfur en áfrýjandi kvaðst sjálfur hafa lagt til grundvallar þegar hún tók afstöðu til kæru stefnda né endurskoðaði hún mat áfrýjanda á umsækjendunum með tilliti til þessara krafna, heldur byggði nefndin eingöngu á þeim skjalfestu gögnum, sem lágu fyrir um forsendur ráðningarinnar þegar áfrýjandi tók ákvörðun um hana. Í þessum efnum beitti nefndin lögmætum aðferðum við úrlausn sína, sbr. 5. mgr. 26. gr. laga nr. 10/2008, og fór ekki út fyrir valdsvið sitt eða verksvið, svo sem áfrýjandi heldur fram. Verður niðurstaða hins áfrýjaða dóms um kröfu áfrýjanda um ógildingu úrskurðar kærunefndarinnar því staðfest á þann hátt, sem í dómsorði greinir.

Í 6. mgr. 5. gr. laga nr. 10/2008 er mælt fyrir um það að höfði gagnaðili kæranda máls fyrir kærunefnd jafnréttismála dómsmál til að fá ógiltan úrskurð hennar, sem fallið hefur kæranda í vil, skuli kærandinn fá dæmdan málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti úr ríkissjóði. Lagaákvæði þetta verður ekki skilið á þann veg að það geymi sérstaka heimild til gjafsóknar, sem almennar reglur XX. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála gætu að öðru leyti gilt um. Fyrir héraðsdómi krafðist stefndi og fékk dæmdan málskostnað úr ríkissjóði á grundvelli 6. mgr. 5. gr. laga nr. 10/2008. Verður niðurstaða héraðsdóms um þetta atriði staðfest og stefnda jafnframt dæmdur málskostnaður úr ríkissjóði eins og segir í dómsorði. Með héraðsdómi var áfrýjanda jafnframt gert að greiða málskostnað í ríkissjóð eins og stefndi nyti gjafsóknar í málinu, en fyrir því er ekki lagastoð samkvæmt áðursögðu. Áfrýjandi hefur á hinn bóginn ekki krafist þess sérstaklega að ákvæði héraðsdóms um þessa skyldu sína verði endurskoðuð og verður það því látið standa óraskað.

Dómsorð:

Stefndi, Stefán Einar Matthíasson, er sýkn af kröfu áfrýjanda, Landspítala.

Ákvæði héraðsdóms um málskostnað skulu vera óröskuð.

Málskostnaður stefnda fyrir Hæstarétti, 850.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 18. mars 2014.

                Þetta mál, sem var tekið til dóms 21. janúar 2014, er höfðað af Landspítala, kt. [...], Eiríksgötu 5, Reykjavík, á hendur Stefáni Einari Matthíassyni, kt. [...], Smáragötu 13, Reykjavík, til ógildingar á úrskurði kærunefndar jafn­réttis­mála.

                Stefnandi krefst þess úrskurður kærunefndar jafnréttismála, í máli nr. 4/2013 frá 27. september 2013, verði felldur úr gildi.

                Þá krefst stefnandi málskostnaðar úr hendi stefnda.

                Stefndi krefst þess að dómkröfum stefnanda verði hafnað.

                Hann krefst málskostnaðar, að skaðlausu, eins og málið væri ekki gjafsóknar­mál. Stefnandi krefst einnig málskostnaðar úr ríkissjóði, að skaðlausu.

Málsatvik

                Með auglýsingu sem birtist meðal annars í Fréttablaðinu, laugardaginn 23. júní 2012, var auglýst laus til umsóknar staða yfirlæknis æðaskurðlækninga á Land­spít­ala háskóla­sjúkrahúsi. Í þeirri auglýsingu sem birtist í Fréttablaðinu kemur þetta fram:

Yfirlæknir æðaskurðlækninga

Starf yfirlæknis í æðaskurðlækningum er laust til umsóknar. Um fullt starf er að ræða sem veitist frá 1. september 2012 eða eftir samkomulagi, til 5 ára, sbr. 2. ml., 5. mgr., 9. gr. laga um heilbrigðisþjónustu nr. 40/2007.

Helstu verkefni og ábyrgð

» Fagleg ábyrgð

» Fjárhagsleg ábyrgð

» Starfsmannaábyrgð

Hæfnikröfur

» Sérfræðiviðurkenning í æðaskurðlækningum

» Sértæk reynsla og þekking í æðaskurðlækningum

» Stjórnunarreynsla og leiðtogahæfileikar æskilegir

» Reynsla af kennslu og vísindastörfum æskileg

» Góðir samskiptahæfileikar

» Ákveðni, frumkvæði og metnaður til að ná árangri

Nánari upplýsingar

» Umsóknarfrestur er til og með 07. júlí 2012.

» Starfshlutfall er 100% og veitist starfið frá 1. september 2012 eða eftir sam­komu­lagi.

» Upplýsingar veitir....

» Umsókn fylgi vottfestar upplýsingar um nám, fyrri störf, reynslu af kennslu-, vísinda- og stjórnunarstörfum, ásamt afriti af helstu ritsmíðum sem umsækjandi hefur ritað eða átt þátt í.

» Umsóknargögn, sem ekki er hægt að senda rafrænt, skulu berast í tvíriti á skrifstofu skurð­lækningasviðs, Hringbraut,13A.

» Starfið er bundið við sjúkrahúsið eingöngu sbr. yfirlýsingu LSH vegna kjara­samn­ings sjúkrahúslækna dags. 2 maí 2002, sbr. breytingu 5. mars 2006.

» Allar umsóknir eru sendar til stöðunefndar lækna hjá Landlæknisembættinu.

» Viðtöl verða höfð við umsækjendur og byggist ákvörðun um ráðningu í starfið einnig á þeim auk mats stöðunefndar á innsendum umsóknargögnum.

                Þrír læknar sóttu um starfið, ein kona, Lilja Þyri Björnsdóttir, og tveir karlar, Helgi H. Sigurðsson og stefndi Stefán Einar Matthíasson. Umsókn­irnar voru sendar stöðu­nefnd lækna, sem starfar á grundvelli 35. gr. laga nr. 40/2007 um heilbrigðis­þjón­ustu. Með bréfi, 21. ágúst 2012, sendi stöðunefndin Land­spít­alanum umsögn sína. Í henni gerir nefndin fyrst grein fyrir menntun og reynslu hvers umsækj­anda um sig, þar á meðal sér­fræðireynslu af æðaskurðlækningum, svo og kennslu, stjórnun og félags­störfum og til­greinir ritstörf. Samantekt er gerð fyrir hvern og einn umsækj­anda. Saman­tektir eru svofelldar:

                Umsækjandinn, Helgi H. Sigurðsson, er 51 árs gamall sérfræðingur í almennum skurð­lækn­ingum og æðaskurðlækningum. Hann hefur náð þeim hámarks­sér­fræði­tíma sem stöðu­nefnd metur. Virkni við vís­inda­störf er nokkur og hann hefur verið metinn sem klín­ískur lektor við Háskóla Íslands, en formleg kennslureynsla er tak­mörkuð. Verið settur yfir­læknir æðaskurð­læknar á annað ár og nokkur stjórnunar­reynsla þess utan.

                Umsækjandinn, Lilja Þyri Björnsdóttir, er 41 árs gömul, sérfræðingur í almennum skurð­lækn­ingum og æðaskurðlækningum. Sérfræðitími í æða­skurð­lækn­ingum er tæp 5 ár. Vísinda- og kennslu­reynsla er fremur lítil. Hún hefur verið settur yfir­læknir æða­skurð­deildar undan­farin tæp tvö ár.

                Umsækjandinn, Stefán E. Matthíasson, er 54 ára gamall. Hann er sérfræðingur í almennum skurð­lækn­ingum og æðaskurðlækningum og hefur rúmlega tveggja ára­tuga sérfræðireynslu. Síðustu 6 árin hefur hann starfað sjálfstætt við sérgreinar sínar á stofu og hjá Íslenskum lyfjarannsóknum. Hann hefur lokið doktorsprófi í grein sinni og verið virkur í rannsóknarstörfum og birtingum, síðustu árin með stórum hópi vís­inda­manna tengdum Íslenskri erfðagreiningu. Hann hefur gegnt fastri dósentstöðu við lækna­deild og komið talsvert að kennslu og leiðbeinendastörfum þar fyrir utan. Stjórn­un­ar­reynsla er talsverð og hann hefur lokið 15 eininga stjórnunarnámi á háskólastigi.

                Nefndin dregur afstöðu sína til umsækjendanna í heild saman í svo­fellda

Umsögn:

Umsækjendur eru á aldrinum 41-54 ára. Þeir hafa allir sérfræðileyfi í almennum skurðlækningum og æðaskurðlækningum. Sérfræðireynsla Stefáns og Helga nær því hámarki sem stöðunefnd metur, en sérfræði­reynsla Lilju er ívið styttri. Í auglýsingu er krafist sérstakrar reynslu og þekkingar innan æða­skurð­lækn­inga. Helgi og Lilja leggja fram vottorð þar að lútandi. Stefán hefur ekki verið í föstu starfi á sjúkrahúsi undanfarin 6 ár. Allir umsækjendur hafa nokkra stjórn­unar­reynslu en stjórnunarreynsla Stefáns er mest og hann hefur einn umsækj­enda gegnt föstu stjórnunarstarfi og hefur að auki nokkurt stjórn­un­ar­nám á háskóla­stigi. Stefán hefur mesta vísindareynslu umsækjenda og hefur lokið doktor­sprófi. Hann hefur einn umsækjenda gegnt föstu kennslu­starfi sem dósent.

Niðurstaða:

Umsækjendur eru allir hæfir til að gegna hinu auglýsta starfi. Stöðunefnd telur ekki ástæðu til innbyrðis röðunar umsækjenda, en vísar til ofangreindrar umfjöll­unar.

                Stefnandi, Landspítalinn, kallaði umsækjendur til viðtals dagana 5. og 19. sept­em­ber 2012. Stefnandi tilkynnti stefnda með bréfi, 28. september, að ákveðið hefði verið að ráða Lilju Þyri í starfið. Samdægurs óskaði stefndi eftir skrif­legum rök­stuðn­ingi fyrir þessari ákvörðun. Í rökstuðningi Landspítala, dagsettum 12. október 2012, segir:

                Lilja Þyri er starfandi yfirlæknir æðaskurðlækninga og hefur starfað á æða­skurð­lækn­inga­deild á Landspítala frá árinu 2007. Hún er með sérfræðileyfi í skurð­lækn­ingum og æðaskurðlækningum á Íslandi og í Bandaríkjunum og hefur jafn­framt lokið BOARD-prófi bæði í skurðlækningum og æðaskurðlækningum. Hún hefur verið starf­andi yfirlæknir æðaskurðlækninga um tveggja ára skeið og hefur sinnt kennslu­störfum á deild og verið prófdómari í verklegu námi læknanema í skurð­lækn­ingum.

                Þau sjónarmið sem voru ráðandi við matið lutu að persónulegum eiginleikum hennar, s.s. stjórnunar- og leiðtogahæfileikum, samskiptahæfni, nákvæmni, samstarfs­vilja, metnaði, framtíðarsýn og árangurs- og lausnamiðuðu viðhorfi. Í starfsviðtali setti Lilja Þyri fram skýra og raunhæfa sýn fyrir starfsemi deildarinnar með áherslu á inn­æða­aðgerðir, göngudeildarþjónustu og mikilvægi samvinnu þvert á sérgreinar. Stjórn­un­ar­hættir hennar einkennast af marksækni, nákvæmni og skipulagi. Sem yfir­læknir hefur Lilja Þyri haft forgöngu um áherslubreytingar og úrbætur í starfi sér­grein­ar­innar og haft frum­kvæði að því að efla og styðja göngudeildarþjónustu sem sam­ræmist stefnu spítal­ans. Þekking hennar og þjálfun í nútíma innæðaaðgerðum er umtals­verð. Sam­kvæmt aðgerðarskrám sem fylgdu starfsumsókn hefur hún fram­kvæmt margar og mis­mun­andi innæðaaðgerðir bæði við æðaþrengslum og æðagúlum. Með­mæli stað­festa að færni hennar er góð á þessu sviði. Lilja Þyri hefur ráðgert að nýta tengsl við háskóla­sjúkra­hús í Bandaríkjunum til að viðhalda þekkingu sinni og nema nýjungar í inn­æða­aðgerðum á hybríð skurðstofum sem er mikilvægt fyrir sér­grein­ina í ljósi þess hve hröð þróunin er í þessum geira.

                Við ákvörðun um ráðningu Lilju var jafnframt litið til skyldna Landspítala sam­kvæmt 1. mgr. 18. gr. laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla nr. 10/2008. Í til­vitn­uðu ákvæði er lögð sú skylda á atvinnurekendur að vinna mark­visst að því að jafna stöðu kynjanna á vinnumarkaði og innan fyrirtækis eða stofnunar og stuðla að því að störf flokkist ekki í sérstök karla- eða kvenna­störf.  Þá skal sér­stök áhersla vera lögð á að jafna hlut kynjanna í stjórnunar- og áhrifastöðum. Yfir­gnæf­andi hluti yfir­lækna á Landspítala eru karlar, eða 70 en konur eru 13. Þá eru yfir­læknar á skurð­lækn­inga­sviði einnig í miklum meirihluta karlar eða 19 karlar á móti 1 konu.

                Ákvæði jafnréttislaga hafa verið skýrð á þann hátt að einstaklingi, þess kyns sem er í minnihluta í starfi, skuli veitt starf ef hann er að minnsta kosti jafnt að því kom­inn og einstaklingur af hinu kyninu sem keppir við hann að því er varðar menntun og annað sem máli skiptir. Jafnréttissjónarmið voru því jafnframt veigamikill þáttur við töku ákvörðunar um ráðningu.

                Stefnandi sendi Umboðsmanni Alþingis erindi, 14. mars 2013, og kvartaði yfir þeirri ákvörðun Landspítalans að ráða Lilju Þyri. Umboðsmaður benti honum á að beina erindi sínu til kærunefndar jafnréttismála.

                Stefnandi kærði ákvörðun Landspítalans um ráðningu í starf yfirlæknis æða­skurð­lækninga til kærunefndar jafnréttismála, 11. apríl 2013. Í úrskurði, 27. september 2013, í máli nr. 4/2013, komst kærunefnd jafnréttis­mála að þeirri niður­stöðu að stefndi hefði verið hæfari til að gegna starfinu en Lilja Þyri. Yrði ráðn­ingin þar af leiðandi ekki byggð á þeim sjónarmiðum sem komi fram í 1. mgr. 18. gr. laga nr. 10/2008. Taldi kæru­nefnd jafnréttismála stefnanda hafa, með ráðn­ingu Lilju Þyri, brotið gegn 1. mgr. 26. laganna.

                Í úrskurði kærunefndar jafnréttismála segir meðal annars:

Óumdeilt er að kærandi hafði meira en 18 ára starfsreynslu í sérgreininni en sú er starfið hlaut hafði tæplega fimm ára starfsreynslu. Stóð kærandi því framar að þessu leyti en slík þekking og reynsla var áskilin. Þátttaka kæranda í kennslu- og vísinda­störfum var jafnframt meiri en þeirrar er ráðin var. Kærði hefur á hinn bóginn rökstutt ráðn­ing­una með vísun til persónulegra eiginleika þeirrar er starfið hlaut, einkum hvað varðar stjórnunaraðferðir, og með vísun til 1. mgr. 18. gr. laga nr. 10/2008.

Kærandi hafði gegnt starfi yfirlæknis æðaskurðlækningadeildar kærða í nærfellt þrjú ár áður en honum var vikið úr því starfi árið 2006. Hann hefur einnig lokið 15 eininga námi í rekstri og stjórnun í heilbrigðisþjónustu frá Endurmenntun Háskóla Íslands. Sú er starfið hlaut hafði verið sett yfirlæknir æðaskurðlækningadeildar kærða í eitt ár og níu mánuði er hún var ráðin í starfið. Á grundvelli þessa var það mat stöðunefndar að kær­andi hefði lengsta stjórnunarreynslu umsækjendanna þriggja. Kærði taldi stjórn­unar­reynslu kæranda vissulega meiri en reynslu þeirrar er ráðin var en að persónu­bundnir eiginleikar, þ.e. frammistaða hennar, hugmyndir og stjórnunarleiðir, væru á þann veg að umsækjendur stæðu jafnt hvað þennan þátt varðaði. Ekki verður þó séð að kærði hafi framkvæmt heildstæðan samanburð á stjórnunarhæfni kæranda og þeirrar er ráðin var og engin gögn liggja fyrir um úrvinnslu á þeim atriðum sem komu fram í viðtölum og lúta að stjórnunarhæfni eða framtíðarsýn.

Í auglýsingu er sérstaklega áskilið að umsækjendur skuli hafa góða sam­skipta­hæfi­leika, ákveðni, frumkvæði og metnað til árangurs. Verður ekki séð að umsækjendur hafi verið bornir saman með tilliti til þessara þátta. Þar sem kærandi stendur þeirri er ráðin var ótvírætt framar varðandi þá hlutlægu þætti sem raktir eru að framan verður að gera ríkar kröfur til þess að gögn beri það með sér að raunverulegt mat og saman­burður hafi farið fram á þeim þáttum sem kærði lagði áherslu á í rökstuðningi sínum fyrir ráðningunni. Þar sem gögn um samanburð og mat á persónulegum eiginleikum umsækj­enda eru eins og fyrr greinir afar takmörkuð verður ráðningin ekki byggð á þessum þáttum.

Samkvæmt framansögðu er það mat nefndarinnar að kærandi hafi verið hæfari til að gegna starfinu en sú sem ráðin var og því verður ráðningin ekki byggð á sjónarmiðum er fram koma í 1. mgr. 18. gr. laga nr. 10/2008 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla. Telur kærunefnd jafnréttismála að kærði hafi við ráðninguna brotið gegn 1. mgr. 26. gr. laganna.

                Stefnandi reyndi að fá kærunefnd jafnréttismála til þess að taka málið upp að nýju, með beiðni, 21. október 2013. Kærunefndin hafnaði þeirri beiðni, 29. október 2013, þar sem hún taldi skilyrði endurupptöku samkvæmt 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslu­laga nr. 37/1993 ekki uppfyllt. Stefnandi telur sig því knúinn til þess að höfða þetta ógild­ing­ar­mál.

Málsástæður og lagarök stefnanda

                Stefnandi telur úrskurð kærunefndar jafnréttismála rangan og ólögmætan. Nefndin hafi brotið gegn ákvæðum laga nr. 10/2008, um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, ólögfestum meginreglum stjórnsýsluréttar og ákvæðum stjórnsýslu­laga nr. 37/1993. Stefnandi telur niðurstöðu kærunefndarinnar í máli nr. 4/2013 byggða á röngum lagaskilningi og að nefndin hafi meðal annars farið út fyrir vald- og verk­svið sitt samkvæmt lögum nr. 10/2008. Af þessum sökum sé úrskurður nefnd­ar­innar í máli nr. 4/2013 háður verulegum annmörkum og því beri að fella hann úr gildi.

                Stefnandi kveðst byggja aðild stefnda að málinu á dómvenju Hæstaréttar í málum þar sem krafist er ógildingar á úrskurði sjálfstæðrar kærunefndar innan stjórn­sýsl­unnar. Þessu til stuðnings vísar hann til dóma Hæstaréttar í málum nr. 431/2001, nr. 378/2001 og nr. 306/2001. Samkvæmt dómvenjunni teljist kærunefnd jafn­réttis­mála ekki hafa lög­varða hagsmuni af úrlausn dómsmálsins þótt krafist sé ógildingar á úrskurði nefndar­innar. Nefndinni sé því ekki stefnt í þessu máli heldur eingöngu þeim sem var aðili málsins hjá nefndinni og hóf það með kæru.

Brot gegn andmælarétti aðila

                Stefnandi vísar til þess að samkvæmt 1. mgr. 7. gr. laga nr. 10/2008 skuli kæru­nefnd jafnréttismála tryggja að aðili máls eigi þess kost að tjá sig um efni máls áður en nefndin kveði upp úrskurð sinn, enda telji nefndin að hvorki afstaða hans né rök fyrir henni liggi fyrir í gögnum málsins. Þá sé jafnframt ljóst að samkvæmt 6. mgr. 6. gr. laga nr. 10/2008 skuli málsmeðferð fyrir kærunefnd jafnréttismála fara eftir ákvæðum laga nr. 37/1993.

                Í 13. gr. laga nr. 37/1993 sé ákvæði sambærilegt 1. mgr. 7. gr. laga nr. 10/2008, en þar segi að aðili máls skuli eiga þess kost að tjá sig um efni máls áður en stjórn­vald taki ákvörðun í því, enda liggi ekki fyrir í gögnum málsins afstaða hans og rök fyrir henni eða slíkt sé augljóslega óþarft.

                Hagsmunaaðilar eigi rétt á að tjá sig um efni máls áður en stjórnvald taki þýð­ing­ar­mikla ákvörðun, hvort sem slík ákvörðun sé studd 1. mgr. 7. gr. laga nr. 10/2008, 13. gr. laga nr. 37/1993 eða meginreglum stjórnsýsluréttar. Sá sem sé ráð­inn í það starf, sem sé grundvöllur kærunnar, eigi því rétt til að fá að tjá sig um efni máls­ins fyrir nefndinni.

                Ljóst sé að afstaða Lilju Þyri til kæruefnisins hafi ekki legið fyrir í gögnum máls­ins við með­ferð og úrlausn kærunefndar jafnréttismála. Nefndinni hafi borið að veita henni and­mæla­rétt áður en nefndin komst að niðurstöðu í máli nr. 4/2013. Kæru­nefnd jafn­rétt­is­mála hafi hins vegar ekki sinnt þeirri skyldu sinni og hafi þannig brotið gegn ákvæðum 1. mgr. 7. gr. laga nr. 10/2008, 13. gr. laga nr. 37/1993 og meginreglu stjórn­sýslu­réttar um andmælarétt.

Brot gegn rannsóknarreglunni

                Stefnandi áréttar að í rannsóknarreglu 10. gr. laga nr. 37/1993 felist að stjórn­vald skuli sjá til þess að mál sé nægjanlega upplýst áður en það taki ákvörðun. Þá sé sér­stak­lega kveðið á um það í 3. mgr. 7. gr. laga nr. 10/2008 að kærunefnd jafn­réttis­mála geti kraf­ist frekari gagna frá málsaðilum telji hún mál ekki nægjanlega upp­lýst. Að öllu fram­an­greindu virtu sé ekki neinum vafa undirorpið að kærunefnd jafn­réttis­mála sé skylt að rann­saka mál á fullnægjandi hátt áður en hún kveði upp úrskurð. Í því felist meðal annars að nefndinni hafi borið að kalla eftir þeim upplýsingum og sjón­ar­miðum sem varpað gætu ljósi á þau atriði sem nefndin hafi ekki talið nægilega rök­studd eða upp­lýst.

                Í niðurstöðu úrskurðar kærunefndar jafnréttismála í máli nr. 4/2013, vísi nefndin til þess að gera verði ríka kröfu til þess að gögn beri það með sér að raun­veru­legt mat og samanburður hafi farið fram á þeim þáttum sem kærði lagði áherslu á í rök­stuðn­ingi sínum fyrir ráðningunni.

                Nefndin hafi talið gögn um samanburð og mat á persónueiginleikum stefnda og Lilju Þyri afar takmörkuð og komist því að þeirri niðurstöðu að ráðningin yrði ekki byggð á þeim þáttum. Kærunefnd jafnréttismála hafi því talið gögn og upp­lýs­ingar skorta. Engu að síður hafi hún látið hjá líða að kalla eftir þeim upplýsingum og sjónar­miðum frá stefnanda sem hún taldi vanta upp á til þess að málið væri upplýst á full­nægj­andi hátt. Máls­meðferð nefndarinnar hafi því hvorki verið í samræmi við hina óskráðu rann­sókn­ar­reglu, rannsóknarreglu 10. gr. laga nr. 37/1993 né 3. mgr. 7. laga nr. 10/2008. Þannig geti ekki talist forsvaranlegt að kærunefnd jafnréttismála hafi úrskurðað í málinu, án þess að kalla eftir frekari upplýsingum frá stefnanda.

                Kærunefnd jafnréttismála sé stjórnsýslunefnd sem beri að fara eftir megin­reglum stjórnsýsluréttar. Nefndin geti ekki beitt sönnunarreglum til þess að koma sér hjá því að rannsaka mál á fullnægjandi hátt.

Lögmætisreglan

                Stefnandi vísar til þess að lögmætisreglan sé ein af meginreglum íslensks stjórn­skip­unar- og stjórnsýsluréttar. Í henni felist að ákvarðanir stjórnvalda skuli almennt eiga sér stoð í lögum. Þá megi stjórnvöld ekki ganga í berhögg við önnur lög með ákvörðunum sínum. Brjóti ákvörðun í bága við lög sé hún ólögmæt að efni til og ógildanleg.

                Í lögum nr. 10/2008 sé kærunefnd jafnréttismála ekki falið að leggja mat á hvaða hæfnisþættir skuli lagðir til grundvallar ákvörðun um ráðningu í stöðu. Þá sé ekki í lögunum skilgreint hver sé almennur hlutlægur mælikvarði við mat á hæfni umsækj­enda um starf. Þrátt fyrir það hafi kærunefnd jafnréttismála lagt sjálfstætt mat á hæfi Lilju Þyri og stefnda í úrskurði sínum í máli nr. 4/2013 og komist að þeirri niður­stöðu að stefndi væri hæfari. Sú niðurstaða hafi byggst á samanburði á lengd starfs­reynslu í sér­grein­inni, þátttöku í kennslu- og vísindastörfum og tímalengd stjórn­unar­reynslu. Kæru­nefnd jafnréttismála hafi þannig sjálf ákveðið hvaða sjónarmið, mæli­kvarðar og hæfn­is­þættir skyldu lagðir til grundvallar ákvörðun stefnanda um ráðn­ingu í stöðu yfir­læknis í æðaskurðlækningum.

                Kærunefnd jafnréttismála hafi því tekið upp hjá sjálfri sér að skilgreina hvaða sjón­ar­mið og mælikvarða bæri nota við mat á umsækjendum. Þetta hafi hún gert þrátt fyrir að lög nr. 10/2008 feli hvorki í sér slíkar reglur né feli kærunefnd jafnréttismála slíkt vald.

                Að öllu framangreindu virtu sé ljóst að þá ákvörðun kærunefndar jafnréttis­mála, að skilgreina hvaða almennu hlutlægu mælikvarða bæri að styðjast við, við mat á hæfi stefnda og Lilju Þyri, sem og að leggja sjálfstætt mat á hæfi þeirra, hafi alfarið skort laga­stoð og brotið gegn meginreglum stjórnsýsluréttar um val á forsendum við ráðn­ingar og ákvæðum laga nr. 10/2008.

Velja skal hæfasta einstaklinginn

                Í íslenskum rétti gildi sú óskráða meginregla að ávallt skuli velja þann umsækj­anda sem sé hæfastur til að gegna viðkomandi starfi. Þegar fleiri en einn umsækj­andi uppfylli lágmarkskröfur sé óhjákvæmilegt að bera umsækjendur saman á grund­velli þeirra sjónarmiða sem stjórnvaldið ákveði að byggja á til að meta hver þeirra sé hæfastur.

                Með tilliti til hæfniskrafna auglýsingarinnar, hafi stöðunefnd lækna metið alla umsækj­endur hæfa til að gegna hinu auglýsta starfi á grundvelli þeirra gagna sem umsækj­endur höfðu lagt fram. Sérstaklega hafi verið tekið fram í áliti stöðunefndar að nefndin mæti ekki ákvæði í auglýsingu varðandi samskiptahæfni, ákveðni, frumkvæði og metnað.

                Stöðunefndin hafi ekki talið ástæðu til innbyrðis röðunar umsækjenda. Það hafi því komið í hlut stefnanda að meta hver umsækjendanna þriggja væri hæfastur til að gegna starfinu. Við slíkt mat hafi stefnanda borið að hafa hliðsjón af þeirri megin­reglu stjórn­sýslu­réttarins að velja á grundvelli málefnalegra sjónarmiða.

Málefnaleg sjónarmið (réttmætisreglan)

                Í hinni ólögfestu réttmætisreglu stjórnsýsluréttar felist að málefnaleg sjónarmið verði að búa að baki matskenndri ákvörðun stjórnvalda. Veitingarvaldshafi sé þannig bund­inn af því að byggja ákvörðun um veitingu starfs hjá hinu opinbera á mál­efna­legum sjónarmiðum. Í framkvæmd hafi veitingarvaldshafa verið veitt svigrúm til þess að ákveða hvaða kröfur séu gerðar til umsækjenda til starfs, að því gefnu að þær séu mál­efnalegar, og einnig hvaða sjónarmið hann leggi áherslu á umfram önnur.

                Stjórnvald ákveði þannig á hvaða sjónarmið áhersla verði lögð, sé ekki sér­stak­lega mælt fyrir um það í lögum eða stjórnvaldsfyrirmælum. Því verði næst vikið að þeim sjónarmiðum sem stefnandi hafi kosið að leggja áherslu á við ákvörðun um hver umsækj­end­anna teldist hæfastur til þess að gegna umræddu starfi og hvort þau teljist mál­efna­leg.

                Til þess að komast að niðurstöðu um það hver umsækjendanna þriggja væri hæf­astur, hafi stefnandi meðal annars valið að byggja á framtíðarsýn, en með henni væri meðal annars átt við hvaða hugmyndir viðkomandi umsækjandi hefði um þróun sér­grein­ar­innar hjá stefnanda á næstu árum.

                Þótt þess hafi ekki verið getið sérstaklega í auglýsingunni um starfið sé „fram­tíð­ar­sýn“ málefnalegt sjónarmið við ákvörðun um ráðningu yfirmanns. Stefnanda hafi verið heimilt að ljá því sjónarmiði vægi við ákvörðunina. Sjónarmiðið um fram­tíðar­sýn hafi einungis verið eitt af mörgum atriðum sem stefnandi leit til og hafi allir umsækj­endur fengið sömu tækifæri í starfsviðtali til að tjá sig persónulega og koma sjónar­miðum sínum á framfæri. Umsækjendum hafi því ekki verið mismunað á neinn hátt og ljóst sé að sjónarmiðið um framtíðarsýn hafi verið málefnalegt sjónarmið.

                Stefnandi hafi einnig byggt ákvörðun sína á persónubundnum eiginleikum umsækj­enda en það sé málefnalegt sjónarmið við ráðningu í starf sem þetta. Stefn­andi hafi þannig valið að ljá samskiptahæfni, metnaði, frumkvæði og viðhorfi umsækjenda veru­legt vægi til viðbótar við framangreint sjónarmið um framtíðarsýn. Framan­greindum þáttum hafi þannig verið veitt meira vægi en starfsreynsla eða stjórnunar­reynsla, sem einungis hafi verið taldir upp sem æskilegir þættir í starfsauglýsingu en ekki nauðsynlegir.

                Eðli málsins samkvæmt hafi ráðningarviðtöl því haft mikið vægi við ákvörðun um ráðningu í umrætt starf og mat á þeim persónubundnu þáttum sem gerð var krafa um farið fram á þeim vettvangi. Ekki hafi verið þörf á að geta þess sérstaklega í aug­lýs­ingu um umrætt starf að starfsviðtöl kæmu til með að hafa verulegt vægi við mat á hæfni umsækjenda.

                Samskiptahæfni, metnaður og framtíðarsýn Lilju Þyri hafi komið skýrt fram í starfs­við­tali hennar. Hún hafi lagt áherslu á samvinnu þvert á sérgreinar en aðrir umsækj­endur hafi ekki haft þá sýn að sama marki. Hugmyndir hennar um starf­sem­ina og fjölgun inn­æða­aðgerða hafi einnig verið í takt við þróun æða­skurð­lækn­inga í heim­inum, en sé litið til fram­tíðar muni sá þáttur sérgreinarinnar aukast veru­lega. Þá hafi Lilja Þyri sem starf­andi yfirlæknir æðaskurðlækninga haft frumkvæði að áherslu­breyt­ingum og úrbótum í sér­grein­inni. Hún hafi einnig haft frumkvæði að því að efla og styðja göngu­deildar­þjón­ustu stefnanda sem samræmist stefnu hans.

                Þá einkennist viðhorf Lilju Þyri í samskiptum hennar við undirmenn, sem og aðra starfs­menn í stjórnunarstöðum, af lipurð og vilja til samvinnu og sam­starfs. Hún eigi auð­velt með að fá annað starfsfólk stefnanda að baki sér og til þess að vinna að sam­eigin­legum markmiðum stefnanda í hag.

                Viðhorf stefnda í samskiptum hans við undirmenn, sem og aðra starfsmenn í stjórn­un­ar­stöðum, einkennist hins vegar af erfiðleikum og gömlum viðhorfum, eins og þeim að beita húsbóndavaldi.

                Vægi persónubundinna eiginleika hafi stóraukist á undanförnum árum við ráðn­ingar og sé orðið almennt viðurkennt hversu miklu máli slíkir eiginleikar skipti við val á stjórnendum. Stjórnendahæfni verði þannig aldrei metin eingöngu út frá menntun eða starfsreynslu. Jafnframt verði að líta til viðhorfs, framtíðarsýnar og sam­skipta­hæfni auk fleiri persónubundinna þátta við slíkt mat.

                Með tilliti til alls framangreinds hafi stefnandi beitt málefnalegum sjónar­miðum þegar hann hafi valið að veita framtíðarsýn, samskiptahæfni, metnaði, frum­kvæði og við­horfi umsækjenda þyngst vægi þegar hann ákvað hvern umsækjendanna hann teldi hæfastan.

                Jafnframt beri að geta þess að þar sem stefnandi ætlaði sér frá upphafi að leggja upplýsingar úr starfsviðtölum til grundvallar hæfismati og veita þeim verulegt vægi, hafi stefnandi gætt þess að skrá niður öll starfsviðtölin svo honum væri unnt að meta þær upplýsingar sem þar komu fram og bera umsækjendur saman í ljósi þeirra, sem hann hafi gert.

Forgangsregla 1. mgr. 18. gr. laga nr. 10/2008

                Eftir heildstætt mat á umsækjendum hafi það verið niðurstaða stefnanda að Lilja Þyri og stefndi væru að minnsta kosti jafnhæf til að gegna starfinu og Lilja Þyri raunar hæfari. Á þeim grundvelli hafi verið litið til skyldna stefnanda sam­kvæmt 1. mgr. 18. gr. laga nr. 10/2008, en í ákvæðinu felist að atvinnurekanda sé skylt að vinna mark­visst að því að jafna stöðu kynjanna á vinnumarkaði og innan fyrirtækis eða stofn­unar og stuðla að því að störf flokkist ekki sem karla- eða kvennastörf.

                Þá beri að leggja sérstaka áherslu á að jafna stöðu kynjanna í stjórnunar- og áhrifa­stöðum. Yfirgnæfandi hluti yfirlækna hjá stefnanda séu karlar, eða alls 70 en aðeins 13 konur. Á skurðlækningarsviði stefnanda, sem æðaskurð­lækningar tilheyri, séu 19 karlar í starfi yfirlæknis en einungis ein kona.

                Í ákvæðum laga nr. 10/2008 felist að einstaklingi, þess kyns sem sé í minni­hluta í starfi, skuli veitt starf sé hann að minnsta kosti jafnt að því kominn og ein­stakl­ingur af hinu kyninu sem keppi við hann að því er varðar þær hæfniskröfur og önnur atriði er máli skipta. Jafnréttissjónarmið hafi því jafnframt verið veigamikill þáttur við töku ákvörðunar stefnanda um ráðningu Lilju Þyri í umrætt starf og teljist þau sjón­ar­mið jafn­framt málefnaleg sjónarmið.

                Í 26. gr. laga nr. 10/2008 sé fjallað um bann við mismunun á grundvelli kyns og bann við slíkri mismunun í starfi og við ráðningar. Samkvæmt 1. mgr. sömu greinar sé atvinnurekendum meðal annars óheimilt að mismuna umsækjendum um starf á grundvelli kyns. Þá sé í 4. og 5. mgr. ákvæðisins lögfest eftirfarandi sönnunar- og matsregla:

                Ef leiddar eru líkur að því að við ráðningu, setningu eða skipun í starf, stöðu­hækkun, stöðubreytingu, endurmenntun, starfsþjálfun, símenntun, náms­leyfi, upp­sögn, vinnuaðstæður eða vinnuskilyrði hafi einstaklingum verið mis­munað á grundvelli kyns, töku fæðingar- og foreldraorlofs eða annarra aðstæðna í tengslum við meðgöngu og barnsburð skal atvinnurekandi sýna fram á að aðrar ástæður en kyn, fæðingar- og foreldraorlof eða aðrar aðstæður tengdar meðgöngu og barnsburði hafi legið til grundvallar ákvörðun hans.

                Við mat á því hvort ákvæði 4. mgr. hafi verið brotið skal taka mið af menntun, starfsreynslu, sérþekkingu eða öðrum sér­stökum hæfi­leikum sem krafa er gerð um í viðkomandi starfi samkvæmt lögum eða reglu­gerðum eða telja verður annars að komi að gagni í starfinu.

                Texti 4. mgr. 26. gr. laga nr. 10/2008, sýni að ákvæðið geri ráð fyrir tvískiptri sönn­un­ar­reglu sem kærunefnd jafnréttismála verði að leggja til grund­vallar mati sínu á því hvort ráðning í starf hafi brotið í bága við lögin. Þannig verði sá sem telji á sér brotið að leiða líkur að því að við ráðningu hafi honum verið mismunað á grund­velli kyns.

                Við ráðningu í starf feli framangreind sönnunarregla það í sér að þau gögn, upp­lýs­ingar eða sjónarmið, sem atvinnurekandi hafi byggt á við ráðn­inguna veiti a.m.k. lágmarks vísbendingar um það að bein eða óbein mismunun á grund­velli kyns í merk­ingu 1. og 2. töluliðar 2. gr. laganna hafi átt sér stað. Í þeim tilvikum þar sem kær­anda takist að leiða líkur að slíkri mismunun færist sönnunarbyrðin yfir á atvinnu­rek­andann. Þá verði atvinnu­rekandi að sýna fram á að aðrar ástæður en kyn hafi legið til grund­vallar ákvörð­un hans.

Kærunefnd jafnréttismála fór út fyrir vald- og verksvið sitt

                Hlutverk kærunefndar jafnréttismála sé að úrskurða um hvort brotið hafi verið gegn ákvæðum laga nr. 10/2008, sbr. 2. mgr. 5. gr. laganna. Valdsvið nefndarinnar nái til allra atvinnurekenda, einkaaðila sem og hins opinbera, sbr. 1. mgr. 6. gr. lag­anna. Við beitingu framangreindrar sönnunarreglu 4. mgr. 26. gr. laganna og mats­við­miða 5. mgr. sömu greinar, verði kærunefndin að hafa í huga þær lagareglur sem gildi um þann aðila sem ráði í starf hverju sinni. Beiting framangreindrar sönn­un­ar­reglu verði þannig að taka mið af því að í tilviki opinberra veitingarvaldshafa sé þeim jafn­framt skylt að gæta að skráðum og óskráðum reglum stjórnsýsluréttarins, þar á meðal lögum nr. 37/1993 og réttmætisreglunni.

                Einnig beri að gæta að framangreindri óskráðri meginreglu stjórn­sýslu­réttar um að ráða beri hæfasta umsækjandann í starfið miðað við þau málefnalegu sjónar­mið sem séu lögð til grundvallar. Af framansögðu virtu sé því ekki sjálfgefið að forsendur við beitingu sönnunarreglu 4. mgr. 26. gr. og þeirra matsviðmiða sem fram komi í 5. mgr. sömu greinar séu alfarið þær sömu við ráðningu á einkamarkaði annars vegar og hjá hinu opinbera hins vegar.

                Í íslenskum rétti hafi ekki verið lögfestar almennar reglur um það á hvaða sjónar­miðum stjórnvöld eigi að byggja ákvörðun um veitingu opinbers starfs þegar svo­köll­uðum almennum hæfisskilyrðum sleppi. Meginreglan sé því sú að viðkomandi stjórn­vald ákveði á hvaða sjónarmiðum það byggi slíka ákvörðun sé ekki sér­stak­lega mælt fyrir um það í lögum eða stjórnvaldsfyrirmælum. Í samræmi við réttmætis­reglu stjórn­sýslu­réttar þurfi þau sjónarmið að vera málefnaleg eins og að framan greini, svo sem sjónarmið um menntun, starfsreynslu, hæfni og eftir atvikum aðra persónu­lega eigin­leika sem viðkomandi stjórnvald telji skipta máli.

                Þegar sjónarmið, sem stjórnvaldið hafi ákveðið að byggja ákvörðun sína á, leiði ekki öll til sömu niðurstöðu þurfi að meta þau innbyrðis. Þá gildi einnig sú megin­regla að stjórnvaldið ákveði á hvaða sjónarmið það leggi áherslu, sé ekki mælt fyrir um það sérstaklega í lögum eða stjórnvaldsfyrirmælum.

                Í lögum sé ekki vikið að því á hvaða sjónarmiðum beri að byggja þegar velja þurfi á milli hæfra umsækjenda um starf. Stefnandi hafi því haft svigrúm til að velja þau sjónarmið sem hann hafi talið þörf á að leggja til grundvallar við ráðninguna og vægi þeirra.

                Ef þau sjónarmið leiddu ekki öll til sömu niðurstöðu hafi það í meginatriðum verið á valdi stefnanda að ákveða á hvaða sjónarmið skyldi lögð sérstök áhersla.

                Í máli kærunefndar jafnréttismála nr. 4/2013 hafi verkefni nefndarinnar sam­kvæmt framansögðu ekki verið að endurmeta hvern hefði átt að ráða í umrætt starf heldur að taka afstöðu til þess hvort stefnandi hefði brotið í bága við 1. mgr. 26. gr. laga nr. 10/2008, þ.e. hvort stefndi hafi fengið óhagstæðari meðferð en Lilja Þyri á grund­velli kyns, sbr. 1. og 2. tölulið 2. gr. laga nr. 10/2008.

                Með hliðsjón af eðli þess mats hafi kærunefndin orðið að játa stefnanda svig­rúm við mat á þeim framangreindu málefnalegu sjónarmiðum sem stefnandi hafði lagt til grund­vallar og þá hvernig stefndi og Lilja Þyri féllu að þeim sjónarmiðum. Það hafi ekki fallið undir starfssvið kærunefndar jafnréttismála samkvæmt lögum nr. 10/2008 að end­ur­skoða mat stefnanda á því hvaða umsækjandi félli best að þeim sjón­ar­miðum er réðu úrslitum við ráðningu í starfið.

                Að öllu framansögðu virtu veiti lög nr. 10/2008 kærunefnd jafnréttismála ekki heimild til að taka afstöðu til þess hvaða aðili hafi verið hæfastur til að gegna starfi yfir­læknis æðaskurðlækninga, á grundvelli sjálfstæðs mats nefndarinnar, óháð þeim mats­grund­velli sem lagður var að viðkomandi starfi eða til þess að taka afstöðu, út frá því mati, til þess hvort stefnandi hafi brotið lög nr. 10/2008. Matsgrundvöllurinn sé þannig ekki hvort kærunefndin sé sammála mati stefnanda heldur það hvort stefnandi hafi við ráðningu í starf mismunað á grundvelli kyns.

                Stjórnvald verði ekki talið hafa brotið lögin á þeim grundvelli einum að kæru­nefndin sé ósammála mati þess á því hver hafi verið hæfastur miðað við fyrir­liggj­andi gögn og málsatvik.

                Þegar ráðið sé í opinbert starf sé verkefni nefndarinnar bundið við það að ganga úr skugga um að veitingarvaldshafinn hafi við val á milli umsækjenda ekki byggt niðurstöðu sína á kynbundnum sjónarmiðum.

                Að öllu framangreindu virtu sé ljóst að kærunefnd jafnréttismála hafi farið út fyrir vald- og verksvið sitt samkvæmt lögum nr. 10/2008, er hún skilgreindi sjálf hvaða almennu hlutlægu mælikvarða bæri að styðjast við við mat á hæfi stefnda og Lilju Þyri og lagði sjálfstætt mat á hæfi þeirra og mat stefnda hæfari. Niðurstaða úrskurð­arins hafi þannig verið ólögmæt.

                Með vísun til alls framangreinds telur stefnandi úrskurð kærunefndar í máli nr. 4/2013 háðan verulegum annmörkum og beri af þeim sökum að fella hann úr gildi.

Aðrar málsástæður og lagarök

                Stefnandi kveðst auk framangreinds byggja á því að kærunefnd jafnréttismála hafi brotið málshraðareglu 9. gr. stjórnsýslulaga, sbr. 6. mgr. 6. gr. laga nr. 10/2008. Þá vísar stefnandi til meginreglu stjórnsýsluréttar um skyldubundið mat. Fyrirsvar eigi stoð í 5. mgr. 17. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála. Um varnarþing stefnda er vísað til 1. mgr. 32. gr. sömu laga. Krafa stefnanda um málskostnað eigi sér stoð í 1. mgr. 129. gr. og 1. og 3. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

Málsástæður og lagarök stefnda

                Stefndi telur kærunefnd jafnréttismála hafa í einu og öllu staðið rétt að með­ferð málsins, hún hafi við meðferð þess aðeins sinnt lög­boðnu hlutverki sínu og ekki farið út fyrir þann lagaramma sem henni sé settur í jafn­réttis­lögum. Hér á eftir fara svör stefnda við málsástæðum stefnanda:

Ætlað brot gegn andmælarétti aðila

                Stefnandi telji þá konu sem var ráðin í starfið eiga að njóta andmælaréttar við með­ferð málsins fyrir kærunefndinni, samkvæmt 6. mgr. 6. gr. jafnréttislaga nr. 10/2008, sbr. 13. gr. stjórn­sýslu­laga nr. 37/1993. Nefndin hafi ekki gætt þessa and­mæla­réttar og þannig brotið gegn 7. gr. jafnréttislaganna.

                Stefndi telur þessa málsástæðu annaðhvort byggjast á misskilningi eða rangri laga­túlkun. Kvörtun stefnda til kærunefndar jafnréttismála hafi ekki beinst að þeirri sem ráðin var í starfið, heldur þeim sem réð hana í starfið. Á þessu tvennu sé veru­legur munur. Stefndi hafi aldrei haldið því fram að annar umsækjandi hafi brotið gegn ákvæðum jafnréttislaga í þessu ferli – hann telji stefnanda hafa gert það. Aðrir umsækj­endur eiga enga aðild að ágreiningi um það atriði.

                Um þetta atriði megi vísa til dóma sem gengið hafa í samkynja málum, t. d. dóma Hæstaréttar í málum nr. 686/2008 og 25/2009.

Ætlað brot gegn rannsóknarreglunni

                Hér vísi stefnandi til 10. gr. rannsóknarreglu stjórnsýslulaga nr. 37/1993 um skyldu stjórnvalds til að sjá um að mál sé nægjanlega upplýst og 3. mgr. 7. gr. jafn­réttis­laga um að kærunefndin geti krafist frekari gagna frá málsaðilum telji hún málið ekki nægilega upplýst. Stefnandi vísi til þess að nefndin hafi talið gögn um saman­burð og mat á persónueiginleikum stefnda og Lilju Þyri afar takmörkuð og að ráðn­ingin yrði ekki byggð á þeim þáttum. Þannig hafi nefndin sjálf talið gögn og upp­lýs­ingar skorta en samt látið hjá líða að kalla eftir þeim upplýsingum og sjónarmiðum sem hún taldi vanta til að málið væri upplýst á fullnægjandi hátt.

                Stefndi mótmælir þessum röksemdum og telur að þær fái ekki staðist. Vissu­lega beri kærunefndinni að sjá til þess að mál sé nægilega upplýst. Nefndin hafi í hví­vetna fylgt þessari skyldu. Stefnandi hafi fengið frest til að skila athugasemdum sínum til nefndarinnar og nýtt sér það. Stefnandi hafi fengið öll gögn málsins frá nefndinni og bætt inn í málið því sem hann taldi nauðsynlegt, jafnframt því að skýra rækilega sjón­ar­mið sín.

                Stefndi bendir í þessu sambandi á, að stefnandi sé opinber stofnun og stjórn­endum hennar beri að fara eftir stjórnsýslulögum við meðferð umsókna um lausar stöður. Við þá meðferð sé stefnanda skylt að upplýsa mál á fullnægjandi hátt. Öll gögn um ráðningarferlið hafi legið fyrir kærunefndinni þegar hún tók sína ákvörðun – mun fyllri gögn en lágu fyrir þegar stefnandi tók ákvörðun um stöðu­veit­inguna.

                Kærunefnd jafnréttismála verði hér að meta þær röksemdir sem lágu fyrir þegar staðan var veitt og byggja álit sitt á mati á þeim gögnum. Seinni tíma „útskýr­ingar“ stefnanda um slík atriði geti aldrei orðið til að breyta þeirri reglu. Máls­aðilar fái ræki­legt færi á að tjá sig um málið, og í þessu tilviki hafi þeir báðir gert það. Hér skorti ekkert á að kærunefndin hafi virt rannsóknarregluna, enda bendi stefnandi ekki á neitt tiltekið atriði sem nefndin hefði þurft að rann­saka betur.

Um lögmætisregluna

                Stefnandi telji kærunefnd jafnréttismála hafa, við meðferð þessa máls, farið út fyrir verksvið sitt með því að meta hæfni umsækjendanna á þann hátt sem hún gerði. Kæru­nefndin hafi sjálf ákveðið hvaða sjónarmið, mælikvarða og hæfnisþætti hefði átt að leggja til grundvallar ákvörðun stefnanda um ráðningu í stöðu yfirlæknis æða­skurð­lækn­inga. Nefndinni sé hvorki í jafnréttislögum né öðrum lögum falið þetta verk­efni. Nefndin hafi með öðrum orðum farið út fyrir verksvið sitt og því skorti alfarið laga­stoð fyrir því að meta hæfi umsækjendanna á þann hátt sem nefndin gerði.

                Stefndi telur þessa lagatúlkun stefnanda ranga. Til þess að nefndin geti sinnt lög­boðnu hlutverki sínu verði hún að meta alla þá þætti sem aðilar beri fyrir sig í máli þar sem niðurstaðan ráðist af ákvæðum jafnréttislaganna. Sú þrönga túlkun á verk­sviði nefnd­ar­innar hafi ekki stoð í jafnréttislögunum. Væri fallist á þessi sjónarmið stefn­anda væri því um leið slegið föstu að nefndin mætti ekki líta til neinna annarra atriða en þeirra sem séu beint tiltekin í lögunum. Segi vinnuveitandinn að hann meti umsækj­endur jafnhæfa og ráða beri tiltekinn umsækjanda þar sem fleiri hliðstæðir einstakl­ingar af gagnstæðu kyni vinni hjá honum, geti nefndin aðeins kannað hvort sú full­yrðing sé rétt. Þá mætti aðeins telja karla og konur í slíkum störfum hjá þessum vinnu­veitanda og ekki líta til þess hvort rétt sé að báðir séu jafnhæfir. Stefndi telur að túlkun stefnanda um þetta atriði fái ekki staðist, enda væru jafnréttislögin þá gagns­laus.

Velja skal hæfasta einstaklinginn

                Það sé ágreiningslaust að ráða skuli hæfasta umsækjandann um starf hjá stofnun eins og stefnanda. Stefnandi tiltaki í þessu sambandi að stöðunefnd, sem sé umsagn­ar­aðili um þá stöðu sem þetta mál snýst um, hafi ekki talið ástæðu til inn­byrðis röðunar umsækjenda. Hér velji stefnandi það sem honum þykir sér henta innan úr niður­stöðukafla umsagnarinnar sem er þó aðeins tvær línur. Þessar línur hljóði svo:

Umsækjendur eru allir hæfir til að gegna hinu auglýsta starfi. Stöðunefnd telur ekki ástæðu til innbyrðis röðunar umsækjenda, en vísar til ofan­greindrar umfjöllunar.

                Í lýsingu málavaxta sé umsögnin tekin upp orðrétt, sem sé næstsíðasti hluti hennar. Þótt ekki væri tekinn nema sá kafli einn mætti hverjum lesanda vera ljóst að stefndi standi hinum umsækjendunum mun framar. Þetta verði enn skýrara þegar litið sé til umsagnarinnar í heild sinni.

Um málefnaleg sjónarmið og réttmætisreglu

                Ekki sé ágreiningur um að málefnaleg sjónarmið verði að búa að baki mats-kenndri ákvörðun stjórnvalds. Stefnandi haldi því fram að veitingarvaldshafa hafi í fram­kvæmd verið veitt svigrúm til þess að ákveða hvaða kröfur beri að gera til umsækj­enda til starfs, að því gefnu að þær séu málefnalegar, og einnig á hvaða sjón­ar­mið hann leggi áherslu umfram önnur. Þannig ákveði stjórnvald hvaða sjónar­mið áhersla verði lögð á sé ekki sérstaklega mælt fyrir um það í lögum eða stjórn­valds­fyrir­mælum.

                Stefndi telur stefnanda hér kominn út á hæpnar brautir í réttlætingu sinni fyrir vali þess umsækjanda sem var ráðinn í þá yfirlæknisstöðu sem þetta mál snúist um, en í framhaldi af þessum almennu athugasemdum snúi hann sér að þeim þáttum sem hann telji umsækjandann sem var ráðinn hafa haft umfram aðra umsækjendur. Þetta séu allt þættir sem enginn efnislegur mælikvarði verði lagður á, eins og „fram­tíð­ar­sýn“, „persónu­bundnir eiginleikar“, „samskiptahæfni“, „metnaður“, „vilji til sam­vinnu og samstarfs“ og þar fram eftir götunum.

                Það sé tekið fram í málsútlistun stefnanda, að samskiptahæfni, metnaður, frum­kvæði og  „viðhorf umsækjenda“ ásamt framtíðarsýn og persónubundnum eigin­leikum hafi verið veitt meira vægi við ráðninguna en starfsreynslu eða stjórnunar­reynslu. Stefndi bendir á í þessu sambandi að hæfniskröfur séu tilgreindar í auglýsing­unni um starfið þannig:

·         Sérfræðiviðurkenning í æðaskurðlækningum

·         Sértæk reynsla og þekking í æðaskurðlækningum

·         Stjórnunarreynsla og leiðtogahæfileikar æskilegir

·         Reynsla af kennslu og vísindastörfum æskileg

·         Góðir samskiptahæfileikar

·         Ákveðni, frumkvæði og metnaður til að ná árangri.

                Í auglýsingunni sé einnig tekið fram að viðtöl verði höfð við umsækjendur og að ákvörðun um ráðningu í starfið muni byggjast á þeim ásamt mati stöðunefndar á inn­sendum gögnum.

                Stefndi telur augljóst að ómálefnalegar röksemdir hafi legið til grundvallar vali stefn­anda þegar ráðið var í stöðuna. Það endurspeglist í málsútlistun stefnanda að þættir sem enginn geti lagt mælikvarða á séu sagðir hafa ráðið úrslitum um ráðn­ing­una á sama tíma og það blasi við að mat á öllum þeim þáttum sem hægt sé að leggja mat á út frá almennum mælikvarða séu stefnda í hag langt umfram aðra umsækjendur. Þá sé sama hvort litið sé til menntunar, þar sem stefnandi hafi einn umsækjenda doktors­próf, starfs­reynslu við æðaskurðlækningar og aðrar skurðaðgerðir, stjórnunar­reynslu og reynslu af kennslu og vísindastörfum.

                Stefnandi segist hafa frá upphafi ætlað að leggja upplýsingar úr starfs­viðtölum til grundvallar hæfismati og veita þeim verulegt vægi. Þar segi einnig að hann hafi valið að veita framtíðarsýn, samskiptahæfni, metnaði, frumkvæði og við­horfi umsækj­end­anna þyngst vægi við ákvörðun um hvern umsækjendanna hann teldi hæf­astan. Í þessu birtist blákalt það viðhorf stefnanda að umsögn stöðunefndar sé auka­atriði við matið á umsækjendum. Það hafi með öðrum orðum verið ákveðið frá upp­hafi að leggja til grundvallar ákvörðuninni mat á eiginleikum sem séu allir háðir hug­lægu mati. Stefndi telji augljóst að þessar „röksemdir“ geti ekki talist málefna­legar og rétt­mætar. Þótt tekið sé fram í auglýsingu um starfið að höfð verði viðtöl við umsækj­endur telji stefndi óheimilt að nýta þau til að undirbyggja ólögmætar ákvarð­anir eins og þá sem þarna hafi verið tekin.

                Stefnandi leyfi sér að fullyrða í stefnunni að viðhorf stefnda í samskiptum hans við undirmenn sem og aðra starfsmenn í stjórnunarstöðum einkennist af erfið­leikum og gömlum viðhorfum, líkt og að beita húsbóndavaldi! Stefndi mótmælir þessum stað­hæf­ingum sem staðlausu bulli og vísi þeim til föðurhúsa.

                Stefndi hafi starfað um nokkurra ára skeið hjá stefnanda, sem yfirlæknir æða­skurð­lækn­inga, og hafi á sínum tíma verið bolað úr starfi á ólögmætan hátt vegna við­horfa yfir­manna hans á þeim tíma sem framangreind lýsing eigi betur við! Íslenska ríkið hafi verið dæmt bóta­skylt vegna framgöngu yfirmannanna í því ferli. Stefndi hafi aldrei sætt neins konar aðfinnslum af hálfu starfsmanna eða yfirboðara sinna vegna fram­göngu sinnar í starfi, og sjúklingar hans hafi aldrei kvartað undan honum við spít­al­ann. Ágrein­ingur sem yfir­menn spítal­ans gerðu við hann hafi snúist um allt aðra hluti sem leiddu til hinnar ólög­mætu upp­sagnar.

Um forgangsreglu 1. mgr. 18. gr. laga nr. 10/2008

                Stefnandi byggi mál sitt á því að eftir heildstætt mat á umsækjendum hafi niður­staða hans verið sú að Lilja Þyri og stefndi væru að minnsta kosti jafn­hæf til að gegna starf­inu og „Lilja Þyri raunar hæfari“ eins og segi í stefnunni. Sam­kvæmt 1. mgr. 18. gr. lag­anna hafi stefnanda því borið að ráða hana til starfsins þar sem karlar séu mun fleiri í yfir­læknis­stöðum en konur.

                Stefndi sé sammála því, að rétt hefði verið að ráða Lilju Þyri í umrædda yfir­læknis­stöðu hefði hún verið jafnhæf stefnda til að gegna starfinu. Stefndi telji hins vegar að hann sé og hafi verið hæfari en hún til að gegna starfinu, og um það snúist þetta mál. Þar sem stefndi hafi verið hæfari hafi stefnanda verið skylt að ráða hann í starfið og 1. mgr. 18. gr. laga nr. 10/2008 hafi því ekki átt við í þessu tilviki.

Fór kærunefnd jafnréttismála út fyrir valdsvið sitt?

                Stefnandi reki skilmerkilega í stefnunni ákvæði 26. gr. jafnréttislaga um bann við mismunun á grundvelli kyns og bann við slíkri mismunun í starfi og við ráðningar. Sam­hengis vegna sé rétt að tilfæra orðrétt ákvæði 4. og 5. mgr. þessarar laga­greinar:

                Ef leiddar eru líkur að því að við ráðningu, setningu eða skipun í starf, stöðu­hækkun, stöðubreytingu, endurmenntun, starfsþjálfun, símenntun, náms­leyfi, upp­sögn, vinnuaðstæður eða vinnuskilyrði hafi einstaklingum verið mis­munað á grundvelli kyns, töku fæðingar- og foreldraorlofs eða annarra aðstæðna í tengslum við meðgöngu og barnsburð skal atvinnurekandi sýna fram á að aðrar ástæður en kyn, fæðingar- og foreldraorlof eða aðrar aðstæður tengdar með­göngu og barnsburði hafi legið til grundvallar ákvörðun hans.

                Við mat á því hvort ákvæði 4. mgr. hafi verið brotið skal taka mið af menntun, starfs­reynslu, sérþekkingu eða öðrum sérstökum hæfileikum sem krafa er gerð um í viðkomandi starfi samkvæmt lögum eða reglugerðum eða telja verður annars að komi að gagni í starfinu.

                Stefnandi lýsi þeirri skoðun að ekki sé víst að sömu viðmiðanir gildi við túlkun þessara ákvæða þegar ráðið sé í starf hjá opinberum aðilum og öðrum. Stefndi telur augljóst að svigrúm opinberra aðila sé mun þrengra en ann­arra við túlkun og beitingu þessara reglna vegna þess að opinberir aðilar séu í máls­með­ferð sinni bundnir af ákvæðum stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og eftir atvikum fleiri laga, t. d. laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins nr. 70/1996.

                Það felist í 4. mgr. 26. gr. að séu líkur leiddar að því að einstaklingi sé mis­munað við ráðningu í starf á grundvelli kyns hafi atvinnurekandinn sönnunar­byrðina fyrir því að aðrar ástæður en kyn hafi legið til grundvallar ákvörðun hans. Aug­ljóst sé að ákvæðið taki til starfsmanna hjá ríkinu og stofnunum þess, sbr. orða­lagið „setn­ingu eða skipun í starf“.

                Stefnandi byggi mál sitt augljóslega á því að hann hafi haft frjálst val um það hvaða sjónarmið hann legði til grundvallar ákvörðun sinni um ráðninguna. Stefndi telji að þær röksemdir fái ekki staðist, sbr. það sem rakið er hér að framan.

                Stefnandi haldi því fram að kærunefndin hafi ekki haft heimild til að taka afstöðu til þess hver umsækjendanna hafi verið hæfastur til að gegna starfinu sem málið snýst um. Þetta sé að mati stefnda öldungis fráleitt. Stefnandi hafi í rök­stuðn­ingi sínum til stefnda lýst því yfir að ákvörðun um ráðninguna hafi byggst á ákvæði jafn­rétt­is­laga. Stefndi hafi talið að það gæti ekki staðist og hafi leitað til kæru­nefndar­innar, sem hafi það lög­bundna verkefni að taka afstöðu til slíkrar kæru. Það hafi nefndin ekki getað gert án þess að meta hvort rökstuðningur fyrir beitingu umrædds ákvæðis lag­anna væri hald­bær. Nefndin hafi því tekið allan rökstuðninginn til skoð­unar og komist að niður­stöðu um að stefn­andi hefði mismunað stefnda á grundvelli kyns. Í þeirri niður­stöðu felist það mat nefndarinnar að beiting ákvæðisins hafi ekki verið réttmæt eins og á stóð – vegna þess að röksemdir fyrir því að telja umsækj­end­urna jafnhæfa hafi ekki staðist.

                Stefndi vísar til rökstuðnings kærunefndarinnar varðandi öll þessi atriði og geri þau að sínum. Hann mótmæli því harðlega að úrskurður kærunefndarinnar í máli nr. 4/2013 sé haldinn nokkrum þeim annmörkum sem leitt geti til ógildingar hans.

Málskostnaðarkrafa

                Stefndi vísar til þess að samkvæmt 6. mgr. 5. gr. laga nr. 10/2008 eigi hann að fá greiddan málskostnað úr ríkissjóði. Í ákvæðinu felist lögbundin gjafsókn handa honum í þessu máli þar sem úrskurður kærunefndar jafnréttismála hafi verið honum í hag og gagn­aðil­inn höfði mál til að hnekkja þeim úrskurði. Stefndi krefjist þess að stefn­andi verði dæmdur til greiðslu málskostnaðar eins og málið væri ekki gjafsóknar­mál. Máls­kostnað­ar­kröf­una styðji hann að öðru leyti við 130. gr. laga nr. 91/1991.

Niðurstaða

                Í þessu máli er sú spurning lögð fyrir dóminn hvort kærunefnd jafnréttismála hafi brotið gegn lögum við meðferð máls nr. 4/2013.

                Landspítalinn auglýsti, 23. júní 2012, laust til umsóknar starf yfirlæknis æða­skurð­lækninga. Þrír sóttu um stöðuna, ein kona, Lilja Þyri Björnsdóttir, og tveir karlar, Helgi H. Sigurðsson og stefndi Stefán Einar Matthíasson. Umsókn­irnar voru sendar stöðu­nefnd lækna sem veitti veitingarvaldshafa, Land­spít­ala, umsögn um umsækj­endur. Stöðunefndin mat þá alla hæfa. Hún raðaði þeim ekki eftir hæfni en vísaði, þess í stað, til umsagnar sinnar í heild. Í þeirri umsögn kom fram all­mikill munur á umsækj­endum á mælanlegum hæfnisþáttum svo sem menntun, starfs­reynslu, þar á meðal við æðaskurðlækningar, kennslu- og stjórnunarreynslu, félags­störf og rit­störf. Stöðu­nefndin tók fram að hún legði ekki mat á samskiptahæfni, ákveðni, frum­kvæði og metnað, en þau atriði voru einnig tilgreind í auglýsingunni um starfið.

                Landspítali tók alla um sækjendur í viðtal og ákvað, á grundvelli þess sem þar kom fram, að ráða Lilju Þyri. Stefndi óskaði eftir rökstuðningi fyrir þeirri ákvörðun. Í rök­stuðningi sínum tók stefnandi, Landspítali, fram að þau sjónarmið sem hafi verið ráð­andi við matið hafi varðað persónulega eiginleika Lilju Þyri, s.s. stjórnunar- og leið­toga­hæfi­leika, sam­skipta­hæfni, nákvæmni, samstarfs­vilja, metnað, framtíðarsýn og árang­urs- og lausna­miðað viðhorf. Jafnframt hafi spítalinn horft til skyldu sinnar, sam­kvæmt 1. mgr. 18. gr. laga nr. 10/2008, að vinna markvisst að því að jafna stöðu kynj­anna á vinnu­staðnum en þar væru ríflega fimmfalt fleiri karlar yfirlæknar en konur. Á skurð­lækn­inga­sviði, sem æðaskurðlækningar tilheyri, væru 19 karlar yfir­læknar en ein­ungis ein kona.

                Stefndi kærði ákvörðunina til kærunefndar jafnréttismála. Hann taldi sig hæfari þeirri sem ráðin var og því hafi ekki verið unnt að byggja ráðningu hennar á 1. mgr. 18. gr. laga nr. 10/ 2008.

                Í úrskurði sínum taldi kæru­nefndin að kærandi hefði staðið framar þegar mat væri lagt á hlutlæga þætti sem til­greindir voru í auglýsingu um starfið. Kærði, Land­spít­ali, hafi hins vegar lagt megin­áherslu á persónu­lega eiginleika umsækj­enda og hafi þeir eiginleikar ráðið ákvörðun hans. Þar sem kærandi stæði þeirri, sem ráðin hefði verið, ótvírætt framar varð­andi hlut­lægu þættina yrði að gera ríkar kröfur til þess að gögn bæru það með sér að raunverulegt mat og samanburður hefði farið fram á þeim þáttum sem kærði lagði áherslu á í rökstuðningi sínum fyrir ráðn­ing­unni. Þar sem gögn um saman­burð og mat kærða á per­sónu­legum eiginleikum umsækj­enda væru afar takmörkuð taldi kæru­nefndin að ekki væri unnt að byggja ráðn­ing­una á þeim þáttum. Því hefði kærða ekki verið unnt að styðja ráðninguna við 1. mgr. 18. gr. laga nr. 10/2008. Af þessum sökum taldi nefndin að kærði hefði við ráðn­ing­una brotið gegn 1. mgr. 26. gr. laga nr. 10/2008 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla.

                Stefnandi, Landspítalinn, telur allmarga annmarka á málsmeðferð kæru­nefnd­ar­innar og hefur af þeim sökum höfðað þetta mál til ógildingar á úrskurði hennar. Hann telur hvern annmarkanna um sig leiða til ógildingar úrskurðarins.

                Stefnandi nefnir fyrst að kærunefndinni hafi borið að veita Lilju Þyri, sem fékk starfið, aðila­stöðu og gefa henni kost á að koma að sjónarmiðum sínum. Afstaða hennar til kæru­efnis­ins hafi ekki legið fyrir í gögnum málsins við með­ferð og úrlausn kæru­nefndar jafn­réttis­mála. Nefndinni hafi borið að veita Lilju Þyri and­mæla­rétt áður en nefndin hafi kom­ist að niðurstöðu í máli nr. 4/2013 þar sem hún hafi haft ein­stak­legra, beinna, veru­legra og lögvarinna hagsmuna að gæta af úrlausn kæru­máls­ins. Þar sem nefndin hafi ekki veitt Lilju Þyri aðilastöðu sé slíkur annmarki á málsmeðferðinni að varði ógildi úrskurð­ar­ins.

                Samkvæmt 4. mgr. 5. gr. laga nr. 10/2008 eru úrskurðir kærunefndar jafn­réttis­mála bindandi gagnvart málsaðilum. Í máli nr. 4/2013 reyndi á það fyrir kæru­nefnd­inni hvort veit­ingarvaldshafi, Land­spítal­inn, hefði við ráðningu í starf brotið gegn 1. mgr. 26. gr. lag­anna. Svarið við þeirri spurningu er annaðhvort að brotið hafi verið gegn ákvæðinu eða ekki. Hafi verið brotið gegn ákvæðinu veitir það þeim sem brotið var gegn hugs­an­lega rétt til bóta úr hendi veiting­ar­valdshafans. Þessi niðurstaða getur því haft réttar­áhrif fyrir þá tvo. Ekki verður séð að slík niðurstaða geti haft réttaráhrif fyrir aðra, þar á meðal þann sem hlaut starfið. Sé niður­staða nefnd­ar­innar að veit­ing­ar­valds­haf­inn hafi ekki brotið gegn ákvæðinu veitir sú niður­staða þeim sem hlaut starfið ekki heldur neinn rétt.

                Lögvarðir eru þeir hagsmunir sem eru í húfi þegar réttarskapandi ákvörðun er tekin, svo sem ákvörðun stjórn­valds, úrlausn dóm­stóls, setning laga eða gerð samn­ings. Það þýðir að ákvörðunin, dómurinn, lögin eða samningurinn geta haggað rétt­ar­stöðu eig­anda hagsmunanna. Þar sem það var hvorki á valdi kærunefndar jafn­rétt­is­mála að veita Lilju Þyri, sem fékk starfið, einhver rétt­indi né svipta hana rétti, þegar nefndin svar­aði þeirri spurningu sem kærandi lagði fyrir hana, verður ekki séð að Lilja Þyri hafi lög­var­inna hags­muna að gæta af niðurstöðu nefnd­ar­innar. Hún á því ekki aðild að málinu.

                Málsmeðferð kærunefndar var því ekki áfátt af þeim sökum að Lilju Þyri hafi ekki verið veitt aðild að málinu fyrir kærunefndinni og nefndin hafi með því komið í veg fyrir að hún gæti komið afstöðu sinni til kæruefnisins á framfæri. Verður úrskurður nefnd­ar­innar ekki ógiltur af þeim sökum.

                Stefnandi byggir næst á því að kærunefndin hafi brotið gegn rannsóknar­reglu stjórnsýsluréttarins. Stefnandi, veitingarvaldshafinn, kvaðst í rökstuðningi til kæranda hafa byggt mat sitt á hæfni umsækjenda á þeim gögnum sem fylgdu umsóknum þeirra, umsögn stöðu­nefndar og viðtölum við umsækjendur. Það sem þarna kom fram lá því niður­stöðu veitingarvaldshafans til grundvallar. Ekki verður annað séð en öll þessi gögn hafi legið fyrir hjá kærunefndinni.

                Að mati kærunefndarinnar sýndi Landspítalinn ekki fram á, með þeim gögnum sem hann lagði fram og lágu til grundvallar ráðningunni, að hin efnislega niðurstaða hans hefði verið rétt. Nefndin taldi rökstuðning hans ekki hafa verið nægjanlega grund­vall­aðan þar sem stefnandi hefði ekki borið umsækjendur saman með tilliti til þeirra huglægu þátta sem réðu úrslitum.

                Kærunefndinni ber ekki að beita rannsóknarreglunni þannig að hún veiti máls­aðilum, hér veitingar­valds­haf­anum, tækifæri til að færa styrkari stoðir undir þá ákvörðun sem hann hefur þegar tekið, heldur ber nefndinni að nýta regluna til þess að tryggja að hún hafi í það minnsta öll þau gögn sem veit­ingar­valdshafinn lagði til grund­vallar ákvörðun sinni, svo og til þess að meta hvort hann hafi aflað sér nægilegra gagna áður en hann tók ákvörðun.

                Þar sem ekki verður annað séð en að öll þau gögn, sem ákvörðun veitingar­valds­hafans byggði á og höfðu þýðingu fyrir ákvörðun hans, hafi verið afhent kæru­nefnd­inni var henni ekki skylt að afla neinna frekari gagna.

                Að mati dómsins var mál nr. 4/2013 hjá kærunefnd jafnréttismála nægjanlega upp­lýst áður en kærunefndin komst að efnislegri niðurstöðu og kvað upp úrskurð í því. Úrskurður nefndarinnar verður því ekki ógiltur fyrir þá sök að nefndin hafi brotið gegn rannsóknarreglu stjórnsýsluréttar.

                Stefnandi styður kröfu sína um ógildingu úrskurðar kærunefndar jafnréttismála jafn­framt við það að úrskurðinn skorti lagastoð, að hann brjóti gegn lögmætisreglunni. Sú málsástæða er náskyld þeirri málsástæðu að kærunefndin hafi farið út fyrir vald­svið sitt en stefnandi telur þann annmarka einnig vera á málsmeðferð kæru­nefnd­ar­innar.

                Stefnandi telur þá ákvörðun kærunefndarinnar, að skilgreina hvaða almennu hlut­lægu mælikvarða bæri að styðjast við við mat á hæfi stefnda og Lilju Þyri sem og að leggja sjálfstætt mat á hæfi þeirra, hafi alfarið skort laga­stoð og brotið gegn megin­reglum stjórnsýsluréttar um val á forsendum við ráðn­ingar og ákvæðum laga nr. 10/2008.

                Atvinnurekendum er óheimilt að mismuna umsækjendum um starf á grund­velli kyns. Þetta grundvallarviðmið er lögboðið í 1. málslið 1. mgr. 26. gr. laga nr. 10/2008 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla.

                Þegar einhver heldur því fram, að hann hafi leitt líkur að því að við ráðningu í starf hafi honum verið mismunað á grundvelli kyns, verður kærunefndin að staðreyna að fótur sé fyrir þeirri fullyrðingu. Samkvæmt 5. mgr. 26. gr. ber henni að gera það með því að bera saman menntun, starfsreynslu, sérþekkingu eða aðra sér­staka hæfi­leika sem krafa er gerð um í viðkomandi starfi samkvæmt lögum eða reglu­gerðum eða telja verður annars að komi að gagni í starfinu.

                Lagaákvæðið tilgreinir hreint og beint að þeim sem sé falið að leggja mat á það hvort brotið hafi verið gegn fyrirmælum 4. mgr. sé skylt að horfa til hlutlægu þáttanna sem og sérstakra hæfileika sem koma að gagni í starfinu.

                Nefndin lagði mat á þá hlutlægu þætti sem eru tilgreindir í auglýsingunni og sam­rýmast þeim þáttum sem tilgreindir eru í ákvæðinu: menntun, starfs­reynsla og sér­þekk­ing, enda höfðu fullnægjandi gögn verið lögð fram um þá þar sem þau gögn fylgdu umsóknum um starfið. Á grundvelli fram lagðra gagna bar nefndin umsækj­endur saman, með tilliti til þessara þátta.

                Nefndin taldi hins vegar ónógar upplýsingar liggja fyrir um þá huglægu þætti sem ákvörðun stefnanda byggðist á og falla undir það orðalag ákvæðisins að vera sér­stakir hæfileikar sem telja verði að komi að gagni í starfi. Gagna um þá þætti var aflað með viðtölum við umsækjendur. Nefndin taldi stefnanda ekki hafa unnið úr þeim gögnum heildstætt mat sem sýndi hvaða umsækjandi félli best að þeim sjónarmiðum sem réðu úrslitum við ráðningu í starfið.

                Skilja verður röksemdafærslu nefndarinnar þannig að þar sem stefnanda hefði verið ómögulegt að leggja forsvaranlegt mat á þessa sérstöku hæfileika umsækjenda á grund­velli ónógra upp­lýs­inga hafi nefndinni enn frekar verið það ómögulegt.

                Stefnandi byggir jafnframt á því að nefndin hafi farið úr fyrir vald- og verksvið sitt á marg­vís­legan hátt. Þessa ályktun dregur hann af þeirri röksemdafærslu nefndar­innar að aðeins liggi fyrir fullnægjandi gögn til þess að leggja mat á hlutlægu þættina en ekki sé fullnægjandi grundvöllur fyrir mati á persónulegu, huglægu þáttunum.

                Stefnandi kveðst, á grundvelli þess svigrúms sem veitingar­valds­haf­anum sé veitt til þess að ákveða hvaða málefnalegu hæfniskröfur hann geri til umsækj­enda, hafa valið að byggja á framtíðarsýn umsækjenda. Það hugtak vísi til þess hvaða hug­myndir viðkomandi hefði um þróun sér­grein­ar­innar hjá stefn­anda á næstu árum.

                Stefn­andi byggir á því að hann hafi beitt málefnalegum sjónar­miðum þegar hann valdi að veita framtíðarsýn, samskiptahæfni, metnaði, frum­kvæði og við­horfi umsækj­enda þyngst vægi þegar hann ákvað hvern umsækjendanna hann teldi hæf­astan.

                Stefnandi vísar til þess að í dómaframkvæmd sé viðurkennt að ekki þurfi að til­greina í auglýsingu að starfs­við­töl myndu hafa verulegt vægi við mat á hæfni umsækj­enda, jafnvel þótt stefn­andi hafi frá upphafi ætlað sér að leggja upplýsingar úr starfs­viðtölum til grund­vallar hæfis­mati og veita þeim verulegt vægi.

                Stefnandi telur kærunefndina hafa höggvið að því svigrúmi sem honum, veit­ingar­valds­hafa, sé veitt til þess að ákveða hvaða málefnalegu hæfniskröfur hann geri til umsækjenda starfs og ákveða vægi hvers um sig í heildarmatinu. Jafn­framt telur hann kærunefndina hafa tekið afstöðu til þess hvort þau sjónarmið sem stefn­andi lagði áherslu á væru málefnaleg eða ekki, svo og þess hvort stefnanda hafi verið heim­ilt að láta þessi sjónarmið vega þyngst við valið. Hann telur kærunefndina enn fremur hafa endur­skoðað hvaða umsækjandi félli best að þeim sjónarmiðum sem réðu úrslitum.

                Dómurinn getur ekki fallist á að kærunefndin hafi í orði eða verki gert neitt af því sem stefnandi tilgreinir og með því farið út fyrir valdsvið sitt.

                Í úrskurðinum sagði kærunefndin einvörðungu að hefði stefnandi ætlað að láta hin persónulegu, huglægu sjónarmið ríða baggamuninn hafi honum borið að byggja þá ákvörðun á fullnægjandi gögnum og vinna úr þeim heildstætt mat sem sýndi ótvírætt að sú sem ráðin var kæmi betur út úr samanburði á umsækjendum og stæði stefnda framar þegar þessir persónu­bundnu, huglægu þættir væru metnir. Þar sem stefn­andi hafi ekki getað teflt fram gögnum um slíkt heildstætt mat hafi honum ekki verið stætt á því að leggja þessi sjón­ar­mið til grund­vallar ákvörðun sinni.

                Í sem stystu máli segir nefndin að veitingarvaldshafinn verði að sýna fram á að ákvörðun hans, þar sem huglægir, persónubundnir þættir vega þyngst, hafi ekki byggst á hrifnæmi einu saman.

                Það var ekki ákvörðun kærunefndar jafnréttis­mála, að skilgreina hvaða almennu hlut­lægu mælikvarða bæri að styðjast við, við mat á því hvort brotið hefði verið gegn 4. mgr. heldur fylgdi nefndin fyrirmælum 5. mgr. 26. gr. Því verður ekki fall­ist á að mat hennar á umsækjendum á grundvelli hlutlægu þáttanna hafi verið and­stætt því ákvæði og skorti því lagastoð.

                Að mati dómsins er mat nefndarinnar á hæfi umsækjenda óhjákvæmilegt skref til þess að geta tekið afstöðu til þess hvort stefnandi hafi með ráðningu Lilju Þyri mis­munað stefnda á grundvelli kyns, sbr. 4. mgr. 26. gr. Fyrsta spurningin sem þarf að svara er hvort sá sem hlaut starfið, með stoð í 1. mgr. 18. gr. laga nr. 10/2008, hafi verið að minnsta kosti jafnt að því kominn og umsækjandi af gagnstæðu kyni, með til­liti til menntunar og ann­arra þátta, sem hafa þýðingu fyrir starfið. Að öllu eðlilegu ber nefnd­inni að leggja mat á alla þá þætti sem veitingarvaldshafinn lagði til grundvallar og veita þeim það vægi sem veitingarvaldshafinn gerði, svo framarlega sem hvort tveggja var mál­efna­legt. Hér stendur þó svo á að nefndin taldi ekki liggja fyrir nægj­an­leg gögn til þess að unnt væri að leggja forsvaranlegt mat á þá huglægu, persónu­bundnu þætti sem vógu þyngst við ákvörðun stefnanda. Stefnandi hefur ekki hrakið þetta og sýnt fram á að hann hafi byggt mat sitt á fullnægjandi gögnum.

                Enda þótt stöðunefnd lækna hafi ekki raðað umsækjendum verður ekki litið svo á að hún hafi talið þá alla jafnhæfa enda vísaði hún, í stað þess að raða þeim, til umfjöll­unar sinnar um hæfi þeirra í heild sinni.

                Kærunefndin taldi, þegar vegnir væru þeir þættir sem tilgreindir eru í 5. mgr. 26. gr. og nægjanleg gögn lægju fyrir um, þætti sýnt að með ráðningu Lilju Þyri hefði stefnda verið mis­munað á grundvelli kyns, sbr. 4. mgr. 26. gr., þar sem hann væri hæf­ari henni á öllum þeim sviðum sem unnt væri að leggja mat á.

                Að mati dómsins byggir þessi niðurstaða kærunefndarinnar á fullnægjandi laga­stoð og brýtur ekki gegn megin­reglum stjórnsýsluréttar um val á forsendum við ráðn­ingar og ákvæðum laga nr. 10/2008, þar sem svo stóð á að gögn skorti til þess að meta huglægu, persónu­bundnu þættina. Jafnframt telur dómurinn að með þessu hafi nefndin ekki farið út fyrir vald- og verksvið sitt.

                Dómurinn hefur því hafnað því að kærunefnd jafnréttismála hafi borið að veita þeim umsækjanda sem fékk starfið aðild að máli kæranda gegn stefnanda fyrir nefnd­inni, jafnframt því að kærunefndin hafi brotið gegn rannsóknarreglunni og lög­mætis­regl­unni svo og því að kærunefndin hafi farið út fyrir valdsvið sitt þegar hún komst að niðurstöðu í máli nr. 4/2013.

                Með vísan til þessarar niðurstöðu svo og 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 þykir rétt að stefnandi greiði stefnda málskostnað sem þykir hæfilega ákveðinn, að teknu tilliti til virðisaukaskatts, 891.050 krónur. Þar sem málskostnaður stefnda greið­ist úr ríkissjóði, samkvæmt 6. mgr. 5. gr. laga nr. 10/2008, ber stefnanda að greiða þann málskostnað, sem stefnda er dæmdur úr hendi hans, í ríkissjóð.

                Samkvæmt 6. mgr. 5. gr. laga nr. 10/2008 skal kærandi fá greiddan máls­kostnað bæði í héraði og fyrir Hæstarétti úr ríkissjóði þegar svo háttar til að úrskurður kæru­nefndar jafnréttismála er kæranda í hag en gagnaðili vill ekki una úrskurði kæru­nefndar og höfðar mál til ógildingar honum fyrir dómstólum. Ber því að greiða máls­kostnað stefnda úr ríkissjóði. Hann þykir hæfilega ákveðinn, að með­töldum virðis­auka­skatti 891.050 krónur.

                Ingiríður Lúðvíksdóttir, settur héraðsdómari, kveður upp þennan dóm.

D Ó M s o r ð

                Hafnað er þeirri kröfu stefnanda, Landspítala, að úrskurður kærunefndar jafn­rétt­is­mála í máli nr. 4/2013 frá 27. september 2013, verði felldur úr gildi.

                Stefnandi greiði 891.050 krónur í málskostnað, sem renni í ríkissjóð.

                Málskostnaður stefnda, Stefáns Einars Matthíassonar, 891.050 krónur, sem er mál­flutn­ings­þóknun lög­manns hans, Ragnars Halldórs Hall hrl., greiðist úr ríkissjóði.