Print

Mál nr. 419/2011

Lykilorð
  • Ómerking héraðsdóms
  • Heimvísun
  • Verjandi
  • Gagn
  • Stjórnarskrá
  • Mannréttindasáttmáli Evrópu

                                     

Fimmtudaginn 15. desember 2011

Nr. 419/2011.

Ákæruvaldið

(Daði Kristjánsson saksóknari)

gegn

X

(Kristján Stefánsson hrl.)

Ómerking héraðsdóms. Heimvísun. Verjandi. Gögn. Stjórnarskrá. Mannréttindasáttmáli Evrópu.

X var sakfelldur í héraði fyrir brot gegn ákvæðum laga um ávana- og fíkniefni og brot gegn áfengis- og umferðarlögum. Í dómi Hæstaréttar kom m.a. fram að ekki hefði verið gætt ákvæða 4. mgr. 156. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála við birtingu ákæru. Þá hefði hvorki verið bókað í þingbók að X hefði verið gefinn kostur á að fá skipaðan verjanda við meðferð málsins í héraði né verið kynnt gögn þess. Þessi atriði vörðuðu grundvallarréttindi sakaðs manns og væru forsenda þess að hann fengi notið réttlátrar málsmeðferðar fyrir dómi, sbr. 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar og b. og c. lið 3. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu sbr. lög nr. 62/1994. Af þessum sökum ómerkti Hæstiréttur hinn áfrýjaða dóm og vísaði málinu heim í hérað til löglegrar meðferðar.

Dómur Hæstiréttur.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Eiríkur Tómasson og Þorgeir Örlygsson.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 30. júní 2011 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun. Ákæruvaldið krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms.

Ákærði krefst þess aðallega að hinn áfrýjaði dómur verði ómerktur og málinu vísað heim í hérað til nýrrar meðferðar. Til vara krefst hann sýknu af 1. lið ákæru, sýknu af því að hafa framleitt 106,5 lítra af gambra, sbr. 2. lið ákæru og að hafa ekið bifreið án lögboðinnar vátryggingar, sbr. 3. lið ákæru. Jafnframt krefst hann mildunar refsingar.

Krafa ákærða um ómerkingu héraðsdóms er meðal annars reist á því að honum hafi hvorki verið gefinn kostur á að fá skipaðan verjanda né verið kynnt gögn málsins við meðferð þess í héraði.

Mál þetta var þingfest 25. mars 2011, en ákærði mætti ekki til þess þinghalds. Málinu var þá frestað ótiltekið en dómari fól ákæruvaldinu að færa ákærða fyrir dóm. Málið var næst tekið fyrir 9. júní 2011. Þá var bókað í þingbók að sækjandi hafi gert grein fyrir ákærunni og að gætt hafi verið ákvæða 1. mgr. 114. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Einnig var bókað að ákærði segði ákæru rétta í öllum atriðum og að málið hafi verið reifað stuttlega um lagaatriði og ákvörðun viðurlaga. Því næst var málið tekið til dóms. Samkvæmt endurriti úr þingbók stóð þinghaldið yfir í 11 mínútur.

Samkvæmt 4. mgr. 156. gr. laga nr. 88/2008 skal ákærði við birtingu ákæru spurður hvort hann óski eftir verjanda og þá hverjum ef því er að skipta. Skal afstöðu ákærða getið í vottorði um birtinguna. Ákærði getur þó frestað að taka ákvörðun um verjanda þar til mál er þingfest. Ekki var getið um framangreind atriði við birtingu fyrirkalls en hún fór fram fyrir föður ákærða.

Í 1. mgr. 31. gr. laga nr. 88/2008 er kveðið á um að dómara sé skylt að verða við ósk sakbornings um skipun verjanda ef mál hefur verið höfðað gegn honum, en samkvæmt 1. mgr. 33. gr. laganna ber dómara að vekja athygli hans á þeim rétti. Þá skal ákærði samkvæmt 1. mgr. 163. gr. laganna við þingfestingu máls spurður hvort hann játi efni ákæru rétt og honum kynnt efni framlagðra skjala, ef hann er viðstaddur. Ella skuli það gert í þinghaldi þegar ákærði kemur fyrst fyrir dóm eftir þingfestingu.

Eins og áður greinir kveður ákærði að sér hafi ekki verið kynntur réttur til að fá skipaðan verjanda. Þá hafi honum heldur ekki verið kynnt gögn málsins við meðferð þess í héraði. Ekkert var bókað um þessi atriði í þingbók en samkvæmt 2. mgr. 13. gr. laga nr. 88/2008 skal rita skýrslu í þingbók um það sem þar fer fram. 

Atriði þau sem að framan eru rakin varða grundvallarréttindi sakaðs manns og eru forsenda þess að hann fái notið réttlátrar málsmeðferðar fyrir dómi, sbr. 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar og b. og c. lið 3. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Samkvæmt framansögðu verður ekki séð að ákærði hafi notið þessara réttinda við meðferð málsins í héraði. Af þeim sökum verður hinn áfrýjaði dómur ómerktur og málinu vísað heim í hérað til löglegrar meðferðar.

Rétt er að ákvörðun sakarkostnaðar í héraði bíði þess að efnisdómur gangi þar á ný, en allur áfrýjunarkostnaður málsins skal greiðast úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða fyrir Hæstarétti sem ákveðin verða að meðtöldum virðisaukaskatti eins og greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur er ómerktur og málinu vísað heim í hérað til löglegrar meðferðar.

Allur áfrýjunarkostnaður málsins greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða fyrir Hæstarétti, Kristjáns Stefánssonar hæstaréttarlögmanns, 251.000 krónur.