Print

Mál nr. 688/2015

Lykilorð
  • Kærumál
  • Verjandi
  • Réttlát málsmeðferð

                                     

Miðvikudaginn 14. október 2015.

Nr. 688/2015.

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu

(Jón H.B. Snorrason saksóknari )

gegn

Hólmgeiri Elíasi Flosasyni

(sjálfur)

Kærumál. Verjandi. Réttlát málsmeðferð.

Staðfestur var úrskurður héraðsdóms þar sem hafnað var kröfu L um að H yrði leystur frá störfum sem verjandi X.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Greta Baldursdóttir og Benedikt Bogason og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 12. október 2015, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum sama dag. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 12. október 2015 þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að varnaraðili yrði leystur frá störfum sem verjandi X í nánar tilgreindu sakamáli og annar skipaður í hans stað. Kæruheimild er í d. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Sóknaraðili krefst þess að fyrrgreind krafa hans verði tekin til greina. 

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

Svo sem greinir í hinum kærða úrskurði er til rannsóknar hjá lögreglu stórfellt fíkniefnalagabrot. Í þágu rannsóknar málsins hafa fjórir menn setið í gæsluvarðhaldi og verið í einangrun, en varnaraðili var skipaður verjandi eins þeirra. Fjallað hefur verið um rannsókn málsins í fjölmiðlum og í Fréttablaðinu 6. október 2015 var eftirfarandi haft eftir varnaraðila: „Skjólstæðingur minn lýsir yfir sakleysi sínu. Hann hefur aldrei komist í kast við lögin og veit ekkert hverjir hinir einstaklingarnir eru“. Vegna þessara ummæla krafðist sóknaraðili þess að varnaraðili yrði leystur frá verjandastörfum en þeirri kröfu var hafnað með hinum kærða úrskurði.

Samkvæmt 3. mgr. 33. gr. laga nr. 88/2008 skal áður en verjandi er skipaður eða tilnefndur gefa sakborningi kost á að benda á lögmann til að fara með þann starfa. Skal að jafnaði fara eftir ósk sakbornings við skipun eða tilnefningu verjanda. Þessi réttur sakbornings er varinn af c. lið 3. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, en þar segir að hver sá sem borinn er sökum um refsiverða háttsemi skuli fá að halda uppi vörnum „með aðstoð verjanda að eigin vali.“ Réttur sakbornings til að fá verjanda skipaðan eða tilnefndan að eigin vali sætir þó þeirri takmörkun að heimilt er með atbeina dómara að leysa verjanda frá störfum og skipa annan í hans stað, ef ætla má að verjandi muni hindra eða hafi hindrað rannsókn máls með ólögmætum hætti eða hafi brotið gegn starfsskyldum sínum á annan hátt, sbr. 2. mgr. 34. gr. laga nr. 88/2008.

Þegar metið er hvort verjanda verði vikið frá störfum á þessum grundvelli er þess að gæta að sú ráðstöfun felur í sér takmörkun á mikilvægum rétti sakaðs manns, sem er liður í því að tryggja honum réttláta málsmeðferð, sbr. 1. mgr. 70. gr. stjórnarskráinnar. Að því gættu verður þessari heimild ekki beitt nema verjandi hafi hindrað eða tiltekin líkindi standi til að hann muni hindra rannsókn svo einhverju máli skipti fyrir hana. Að sama skapi verður brot gegn starfsskyldum að öðru leyti að vera þess eðlis að það geti að einhverju marki haft áhrif á málsmeðferðina.

Á verjanda sakbornings hvílir meðal annars þagnarskylda samkvæmt 3. mgr. 35. gr. laga nr. 88/2008. Tekur sú skylda ekki aðeins til þess sem sakborningur hefur trúað honum fyrir um afstöðu sína til þess brots sem um er að tefla heldur einnig annarra atriða sem verjandi hefur komist að í starfa sínum og ekki eru almenningi þegar kunn. Nær þagnarskyldan til allra þeirra atriða sem leynt eiga að fara samkvæmt lögum, venju eða eðli máls.

Varnaraðili hefur staðfest að fyrrgreind ummæli hans í Fréttablaðinu hafi réttilega verið eftir honum höfð. Með þeim upplýsti hann almenning um afstöðu skjólstæðings síns til sakargifta og annarra sakborninga. Þetta voru upplýsingar sem ekki höfðu komið fram opinberlega og var ekki hægt að útiloka að þær gætu haft áhrif á aðra sem rannsóknin gat tekið til. Tók sú þagnarskylda sem hvílir á varnaraðila því til þessara atriða. Á hinn bóginn hefur sóknaraðili ekki leitt nægar líkur að því að þær upplýsingar sem varnaraðili veitti geti í þessu tilviki að virtu efni þeirra haft þau áhrif fyrir rannsóknina að næg efni séu til að takmarka rétt sakbornings til að ráða verjanda sínum og víkja honum frá störfum. Samkvæmt þessu verður hinn kærði úrskurður staðfestur.

Kærumálskostnaður verður ekki dæmdur, sbr. 3. mgr. 220. gr. laga nr. 88/2008.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 12. október 2015.

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu, krafðist þess með beiðni dags. 6. október 2015, að Hólmgeir Elías Flosason hdl., yrði leystur frá störfum sem verjandi X, kt. [...] og annar skipaður í hans stað, með vísan til 2. mgr. 34. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.

Í greinargerð varnaraðila dags. 6. október 2015, mótmælir hann framkominni beiðni og krefst þess að dómari úrskurði um kröfuna.

Málið var tekið til úrskurðar þann 9. október sl. eftir að sóknar- og varnaraðila hafði gefist kostur á því að fjalla stuttlega um framkomna kröfu.

I

Í beiðni sóknaraðila kemur fram að lögreglan hafi til rannsóknar mál er varði stórfellt fíkniefnalagabrot sem varðað geti allt að 12 ára fangelsi. Fjórir sitji nú í gæsluvarðhaldi, þar á meðal skjólstæðingur varnaraðila (kærði). Gæsluvarðhaldið sé með þeim hætti að kærði sæti öllum takmörkunum sem tilgreind séu í 1. mgr. 99. gr. l. nr. 88/2008, um meðferð sakamála, þ.e., b., c., d. og e. lið ákvæðisins.

Ástæða framkominnar beiðni sé sú að varnaraðili hafi tjáð sig í Fréttablaðinu þann 6. október 2015, um framburð skjólstæðings síns en þar komi eftirfarandi fram: „Skjólstæðingur minn lýsir yfir sakleysi sínu. Hann hefur aldrei komist í kast við lögin og veit ekkert hverjir hinir einstaklingarnir eru“.

Sóknaraðili telur að með þessari háttsemi varnaraðila megi ætla að hann hafi eða geti hindrað rannsókn málsins með ólögmætum hætti og hafi brotið gegn starfskyldum sínum. Kærði sæti einangrun og hætta sé á því að ofangreind ummæli geti haft eða hafi haft áhrif á framburð annarra sem ekki sæta gæsluvarðhaldi vegna málsins.

II

Í greinargerð varnaraðila kemur fram að kröfu sóknaraðila sé harðlega mótmælt. Af tilvitnuðum orðum verði ekki annað ráðið en að kærði telji sig saklausan af sakargiftum. Með þessari afstöðu kærða felist engin hindrun á rannsókn málsins eða hún til þess fallin að hafa áhrif á samseka eða möguleg vitni. Upplýsingarnar séu á engan hátt persónurekjanlegar né veiti þær nánari upplýsingar um málið. Hins vegar hafi opinber umræða hafist degi áður eða 5. október 2015, með því að yfirmaður í lögreglunni hafi upplýst í blöðum ýmislegt varðandi þetta mál.

Varnaraðili lagði áherslu á, að val kærðra til þess að velja sér verjanda eða réttargæslumann í rekstri sakamála, teljist til grundvallarréttinda og að jafnaði skuli fara eftir ósk sakbornings, sbr. 3. mgr. 33. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Þessi sjálfsögðu réttindi verði ekki skert nema virkilega sönn og málefnaleg ástæða sé til þess. 

III

Sóknaraðili ítrekaði framkomna kröfu við munnlega yfirferð. Í máli sóknaraðila kom fram að ekki skipti máli hver hafi átt frumkvæði að fjölmiðlaumræðunni. Engu breytti hvort varnaraðili hafi sagt lítið um málið í fjölmiðlum. Framburður sem þessi ætti ekkert erindi í fjölmiðla og væri til þess fallið að hindra rannsókn máls. Kærða sé ekki heimilt að hafa samband við fjölmiðla eða að fá upplýsingar úr fjölmiðlum. Ekki væri hægt að fullyrða á þessu stigi máls hvort ummæli varnaraðila hafi hindrað rannsókn málsins eða muni gera það í framtíðinni, en ætla megi að varnaraðili muni gera að í ljósi þessa atviks. Það eigi ekki að vera mat verjanda hvort mál eigi heima í fjölmiðlum og verjendum beri að virða skilyrðislaust þær takmarkanir sem lögregla hafi í þessum efnum.

Varnaraðili ítrekaði framkomin mótmæli við munnlega yfirferð og krafðist þess að framkominni kröfu lögreglustjóra yrði hafnað. Ekki væri hægt að leggja dýpri skilning í þau orð sem varnaraðili hafi látið hafa eftir sér í fjölmiðlum en að ónafngreindur skjólstæðingur hans hafi lýst sig saklausan. Ekki væri um að ræða hindrun eða tilraun til hindrunar málsins. Þann 5. október sl. hafi lögreglan upplýst um ýmislegt varðandi málið sem ætla verði viðkvæmari upplýsingar en þær sem hann hafi gefið. Einhver önnur sjónarmið hljóti að ráða kröfu sóknaraðila, enda hafi ýmislegt gengið á milli varnaraðila og lögreglu vegna rannsóknar málsins. Þá hafi sóknaraðila á engan hátt rökstutt á hvern hátt „ætla megi“ að verjandi hafi hindrað rannsókn málsins. Einhliða fullyrðingar sóknaraðila um að orð varnaraðila hafi hugsanlega eða kannski haft einhver áhrif á hugsanlega aðila, væru ekki nægjanlegar í þessum efnum.

Varnaraðili sagði málið alvarlegt og fannst að sér vegið. Ekki eigi að draga mál sem þetta inn á borð dómstóla nema að raunveruleg og málefnaleg sjónarmið séu að baki. Kærði þessa máls hafi óskað sérstaklega eftir varnaraðila sem verjanda. Meginreglan væri sú að virða bæri ósk sakborninga í þessum efnum sbr. 3. mgr. 33. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Þessi meginregla kæmi m.a. fram í dómi Hæstaréttar í máli nr. 288/2013. Varnaraðili uppfylli öll skilyrði þess að vera áfram verjandi kærða og alvarlegt sé ef lögregla geti hent út verjendum sem ekki falli að þeirra vinnubrögðum.

IV

Í 2. mgr. 34. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála í héraði segir: „Ef ætla má að verjandi muni hindra eða hafi hindrað rannsókn máls með ólögmætum hætti eða hafi brotið gegn starfskyldum sínum á annan hátt, getur ákærandi eða lögregla leitað atbeina dómara og krafist þess að hann verði leystur frá störfum og annar skipaður í hans stað“.

Ekki er ágreiningur um að varnaraðili viðhafði þau orð í fjölmiðlum sem að framan greinir. Hins vegar greinir málsaðila á um hvort afleiðingar þeirra séu með þeim hætti að leysa beri varnaraðila frá störfum sínum, sbr. nefnda lagagrein. 

Ein af meginreglum sakamálaréttarfarsins er sú, að við skipun verjanda skuli fara eftir ósk sakbornings, sbr. 3. mgr. 33. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Fram kom í málinu að kærði hafi óskað sérstaklega eftir varnaraðila sem verjanda. Til þess að fallast á kröfu um að leysa verjanda kærðs manns frá störfum, þurfa að vera ríkar ástæður, sbr. 3. mgr. 33. gr. og 2. mgr. 34. gr. sömu laga.

Upplýsingar úr sakamálum sem eru á viðkvæmu rannsóknarstigi eiga ekkert erindi í fjölmiðla. Verjendur sem tjá sig opinberlega um málefnið, meðan á slíkum rannsóknum stendur, kunna að hafi brotið gegn ákvæðum 2. mgr. 34. gr. sakamálalaga.

Með vísan til þess sem upplýst hefur verið í málinu, þykja ekki vera næg efni til þess að víkja varnaraðila frá sem verjanda kærða, enda ekki sýnt fram á með óyggjandi hætti, að varnaraðili hafi með ólögmætum hætti hindrað rannsókn málsins eins og greinir í 2. mgr. 34. gr. laga nr. 88/2008, eða að hætta sé á því að hann muni gera það eða að hann hafi brotið starfskyldur sínar á annan hátt.

Með vísan til framangreinds er kröfu sóknaraðila hafnað, eins og nánar greinir í úrskurðarorði.

Úrskurð þennan kveður upp Bogi Hjálmtýsson héraðsdómari.

ÚRSKURÐARORÐ:

Kröfu lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu, um að Hólmgeir Elías Flosason  héraðsdómslögmaður verði leystur frá störfum sem verjandi X í sakamáli nr. 007-2015-[...], og annar skipaður í hans stað, er hafnað.