Print

Mál nr. 453/2014

Lykilorð
  • Skuldabréf
  • Gengistrygging
  • Gjalddagi
  • Vextir
  • Fyrning

                                     

Þriðjudaginn 31. mars 2015.

Nr. 453/2014.

Skeifan ehf.

(Sigurður Sigurjónsson hrl.)

gegn

Íslandsbanka hf.

(Jón Auðunn Jónsson hrl.)

Skuldabréf. Gengistrygging. Gjalddagi. Vextir. Fyrning.

Í hf. höfðaði mál á hendur S ehf. til heimtu skuldar samkvæmt skuldabréfi sem S ehf. hafði gefið út til SH, sem síðar sameinaðist Í hf. Fyrir Hæstarétti laut ágreiningur aðilanna að því hvort líta ætti svo á að öll skuld S ehf. hefði gjaldfallið vegna vanskila á gjalddaga 1. október 2008, svo og hvaða vexti hún bæri eftir að vanskil urðu. Í dómi Hæstaréttar var rakið að S ehf. hefði að engu leyti greitt afborgun af höfuðstól skuldarinnar á gjalddaga hennar 1. október 2008 og aðeins staðið skil á tæpum helmingi vaxta, en vanskilin hefði S ehf. gert upp 23. mars 2009. Ekkert lægi fyrir um að kröfuhafinn hefði þegar hann tók við greiðslunum látið uppi við S ehf. að allt að einu væri litið svo á að allar eftirstöðvar skuldarinnar væru gjaldfallnar vegna vanskilanna. Hæstiréttur taldi að þótt leitt hefði af ákvæðum skuldabréfsins að kröfuhafinn hefði mátt halda fram slíkri gjaldfellingu, gæti það ekki samrýmst þeirri tillitsskyldu sem hann hefði borið í gagnkvæmu samningssambandi við S ehf. að greina ekki frá þessari afstöðu sinni, enda hefði S ehf. mátt líta svo á að skuldabréfið væri í skilum eftir greiðsluna 23. mars 2009 og að kröfuhafinn hefði verið því samþykkur. Var Í hf. talinn bundinn af því að skuldin hefði verið gjaldfelld 30. mars 2010, en kröfuhafinn hafði við það miðað í tölvubréfi til S ehf., þrátt fyrir að gjaldfelling skuldabréfsins hefði verið heimil tveimur vikum eftir gjalddaga afborgunar og vaxta samkvæmt fyrirmælum bréfsins. Var S ehf. gert að greiða skuld samkvæmt skuldabréfinu með vöxtum samkvæmt 1. málslið 4. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu fram að gjaldfellingu, en dráttarvexti frá þeim tíma. Þá var talið að hluti vaxtakröfu Í hf. væri fallinn niður fyrir fyrningu.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson og Guðrún Erlendsdóttir settur hæstaréttardómari.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 30. júní 2014. Hann krefst þess að héraðsdómi verði breytt á þann veg að sér verði gert að greiða stefnda 90.218.360 krónur með vöxtum aðallega samkvæmt 1. málslið 4. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu og til vara „að álitum réttarins“ frá 2. maí 2009 til 2. maí 2013, en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

I

Mál þetta á rætur að rekja til þess að áfrýjandi gaf út skuldabréf 19. desember 2003 til Sparisjóðs Hafnarfjarðar, sem í mars 2007 fékk heitið Byr sparisjóður en sameinaðist síðan stefnda í nóvember 2011. Fjárhæð skuldar samkvæmt bréfinu var 2.200.000 svissneskir frankar og átti áfrýjandi að greiða 1/20 hluta hennar á tólf mánaða fresti, í fyrsta sinn 1. október 2004. Greiða átti á sömu gjalddögum „LIBOR/EURIBOR“ vexti af skuldinni með 2,8% álagi, en sparisjóðnum var heimilt að breyta því á fimm ára fresti, í fyrsta sinn 1. október 2008. Til tryggingar skuldinni setti áfrýjandi að veði nánar tilgreinda eignarhluta í fasteignunum Brautarholti 22 og 24 í Reykjavík að baki tilteknum veðskuldum á 1. veðrétti, en ekki voru ákvæði í skuldabréfinu um beina heimild til nauðungarsölu á veðinu eða fjárnáms fyrir skuldinni. Í skuldabréfinu voru á hinn bóginn fyrirmæli um afleiðingar vanefnda áfrýjanda, þar á meðal ef hann stæði ekki í skilum með greiðslu afborgana og vaxta af skuldinni „innan hálfs mánaðar frá gjalddaga“, en þá yrði „lánið allt, ásamt áföllnum vöxtum og kostnaði, í gjalddaga fallið án uppsagnar eða tilkynningar.“

Óumdeilt er að áfrýjandi stóð í skilum með greiðslu afborgana og vaxta af framangreindri skuld á árlegum gjalddögum frá 2004 til 2007. Þegar leið að gjalddaga 1. október 2008 sendi Byr sparisjóður áfrýjanda greiðsluseðil, þar sem fram kom án frekari sundurliðunar að „til innheimtu“ væru 213.617,25 svissneskir frankar og væri gengi þeirra 82,47 krónur, en að viðbættum innheimtukostnaði að fjárhæð 695 krónur kæmu þannig til greiðslu á þessum gjalddaga 17.617.710 krónur. Fyrir liggur að áfrýjandi greiddi sparisjóðnum 5.000.000 krónur 1. október 2008 og síðan 6.200.475 krónur 3. desember sama ár, en samanlagt svöruðu þessar greiðslur til 103.617,25 svissneskra franka, sem aðilana greinir ekki á um að hafi verið fjárhæð samningsbundinna vaxta af skuldabréfinu, sem voru á gjalddaga 1. október 2008. Þá greiddi áfrýjandi sparisjóðnum 9.000.000 krónur 21. janúar 2009 og 3.622.840 krónur 23. mars sama ár. Af þessum fjárhæðum runnu 3.250 krónur til greiðslu vanskilagjalds, 610 krónur töldust vera tilkynningar- og greiðslugjald, 608.989 krónur fóru til greiðslu dráttarvaxta og 12.009.991 krónu var varið til að greiða afborgun af höfuðstól skuldabréfsins, 110.000 svissneska franka.

Í málinu liggur ekkert fyrir um hvort Byr sparisjóður hafi beint greiðsluseðli til áfrýjanda vegna gjalddaga afborgunar og vaxta af skuld hans 1. október 2009, en hvorki þá né síðar hefur hann greitt frekar af henni. Lagt hefur verið fram yfirlit frá sparisjóðnum um stöðu skuldarinnar 31. desember 2009, þar sem sagði að eftirstöðvar höfuðstóls hennar væru 1.650.000 svissneskir frankar, en þar af væru gjaldfallnir 110.000 svissneskir frankar auk umsaminna vaxta, 119.748,75 svissneskra franka, og dráttarvaxta, 4.181,43 svissneskur franki. Í yfirlitinu kom fram að „elsti gjalddagi í vanskilum“ væri 1. október 2009 og „lokagjalddagi“ væri sami mánaðardagur 2024. Þá hefur einnig verið lagt fram tölvubréf Byrs sparisjóðs til áfrýjanda 12. maí 2010, sem yfirlit um stöðu skuldar hans virðist hafa fylgt, en í bréfinu sagði meðal annars: „Þann 30.03.2010 var lánið gjaldfellt og fært í ISK þá voru gjaldfallnar eftirstöðvar af október CHF 238.019,71“.

Nokkur bréfaskipti urðu milli áfrýjanda og Byrs sparisjóðs í júní og september 2010, sem tengdust dómum Hæstaréttar sem þá höfðu gengið um álitaefni um lögmæti gengistryggingar skulda samkvæmt lánssamningum. Af þessum bréfum verður ráðið að sparisjóðurinn hafi talið sig þurfa ráðrúm til að komast að niðurstöðu um hvort slík fordæmi kynnu að hafa áhrif á skuld áfrýjanda, sem hreyfði fyrir sitt leyti hugmyndum um tilhögun greiðslna til bráðabirgða. Af slíkum ráðagerðum virðist ekkert frekar hafa orðið, en með bréfi 2. mars 2011 beindi sparisjóðurinn greiðsluáskorun til áfrýjanda. Í sundurliðun skuldar hans, sem þar kom fram, var höfuðstóll sagður nema 161.039.305 krónum, en skuldin í heild 245.391.592 krónum. Þá sagði eftirfarandi í bréfinu: „Vegna óvissu um lögmæti lánsins í erlendri mynt hefur lánið verið reiknað út m.v. höfuðstólinn í íslenskum krónum frá og með útborgunardegi. Almennir vextir Seðlabanka Íslands af óverðtryggðum lánum fram til fyrsta gjalddaga í vanskilum hinn 1. október 2008. Frá þeim tíma er krafist dráttarvaxta í samræmi við ákvæði vaxtalaga … Innheimtubréf, sem yður var sent þann 09.06.2010, með áskilnaði um gjaldfellingu skuldarinnar, hefur ekki verið sinnt. Því er hér með skorað á yður að greiða skuldina eða semja um greiðslu hennar innan 15 daga“. Í málinu liggur fyrir innheimtubréf sparisjóðsins 9. júní 2010 til áfrýjanda, sem vitnað var til í greiðsluáskoruninni, og var þar enginn áskilnaður um gjaldfellingu eftirstöðva skuldar hans, en á hinn bóginn var skuldin tilgreind eins og hún hafi þá öll verið komin í gjalddaga.

Að undangengnum frekari bréfaskiptum aðilanna höfðaði stefndi mál þetta 2. maí 2013 og krafðist þess að áfrýjanda yrði gert að greiða sér á grundvelli skuldabréfsins 102.841.200 krónur með dráttarvöxtum frá 1. október 2008, en að frádregnum innborgunum 21. janúar og 23. mars 2009 að fjárhæð samtals 12.622.840 krónur. Þá krafðist stefndi jafnframt staðfestingar á veðrétti, sem kveðið var á um í skuldabréfinu. Samkvæmt héraðsdómsstefnu var höfuðstóll skuldarinnar fundinn þannig að upphafleg fjárhæð hennar var ákveðin í krónum og voru síðan dregnar frá afborganir í sama gjaldmiðli, sem inntar voru af hendi á árunum 2004 til og með 2007. Ekki var gerð krafa um frekari greiðslu vaxta vegna tímabilsins til og með gjalddaga 1. október 2008. Fyrir Hæstarétti viðurkennir áfrýjandi að eftirstöðvar höfuðstóls skuldar sinnar hafi numið 102.841.200 krónum 1. október 2008, en hann telur á hinn bóginn að innborganirnar í janúar og mars 2009 eigi að koma til lækkunar á höfuðstólnum, sem verði þannig 90.218.360 krónur. Ágreiningur aðilanna hér fyrir dómi lýtur að því hvort líta eigi svo á að öll skuld áfrýjanda hafi gjaldfallið vegna vanskila á gjalddaga 1. október 2008, svo og hvaða vexti hún beri eftir að vanskil urðu.

II

Svo sem áður greinir voru ákvæði í skuldabréfinu, sem áfrýjandi gaf út 19. desember 2003, um að allar eftirstöðvar skuldar hans gjaldféllu án uppsagnar eða tilkynningar ef vanskil yrðu á greiðslu afborgunar eða vaxta í lengri tíma en tvær vikur frá umsömdum gjalddaga. Eftir gögnum málsins greiddi áfrýjandi að engu leyti afborgun af höfuðstól skuldarinnar og aðeins tæpan helming vaxta, sem voru á gjalddaga 1. október 2008, innan tveggja vikna frá þeim degi. Á hinn bóginn lauk hann 23. mars 2009 fullri greiðslu afborgunar og vaxta, sem voru á gjalddaga áðurgreindan dag, og stóð um leið skil á dráttarvöxtum og kostnaði vegna vanskila sinna. Ekkert liggur fyrir um að Byr sparisjóður hafi þegar hann tók við þessum greiðslum látið uppi við áfrýjanda að allt að einu væri litið svo á að allar eftirstöðvar skuldarinnar væru gjaldfallnar vegna þessara vanskila. Þótt það hafi leitt af ákvæðum skuldabréfsins að sparisjóðurinn hefði mátt halda fram slíkri gjaldfellingu gæti það engan veginn hafa samrýmst þeirri tillitsskyldu, sem hann bar í gagnkvæmu samningssambandi við áfrýjanda, að hann greindi ekki frá því að hann teldi allar eftirstöðvar höfuðstóls skuldarinnar standa í vanskilum og bera af þeim sökum dráttarvexti, enda mátti áfrýjandi líta svo á að hann hafi 23. mars 2009 komið skuldabréfinu í skil og að sparisjóðurinn hafi verið því samþykkur. Áfrýjandi hefur sem fyrr segir að engu leyti greitt afborganir af höfuðstól skuldarinnar eða vexti af henni, sem voru á gjalddaga 1. október 2009 eða síðar. Um afleiðingar þeirra vanskila verður á hinn bóginn ekki horft fram hjá því að í áðurnefndu tölvubréfi Byrs sparisjóðs til áfrýjanda 12. maí 2010 sagði að skuld hans hefði verið gjaldfelld 30. mars sama ár. Af þessu verður stefndi að vera bundinn, þótt sparisjóðnum hefði verið heimilt eftir ákvæðum skuldabréfsins að telja alla skuldina fallna í gjalddaga 15. október 2009.

Eins og stefndi hefur lagt málið fyrir verður ekki ráðið hvaða fjárhæð áfrýjandi hefði átt að greiða vegna afborgunar af höfuðstól skuldabréfsins og vaxta á gjalddaga 1. október 2009. Að því virtu er óhjákvæmilegt að leysa þannig úr málinu að höfuðstóll skuldarinnar teljist hafa borið vexti samkvæmt 1. málslið 4. gr. laga nr. 38/2001 eftir gjalddaga 1. október 2008 fram til 30. mars 2010, þegar skuldin í heild telst hafa verið gjaldfelld, en dráttarvexti frá þeim tíma. Höfuðstóll skuldarinnar eftir gjalddagann 1. október 2008 var ekki 90.218.360 krónur, svo sem áfrýjandi miðar við í kröfugerð sinni fyrir Hæstarétti, heldur 90.831.209 krónur að teknu tilliti til þess að 612.849 krónur af áðurnefndum greiðslum hans 21. janúar og 23. mars 2009 voru nýttar til uppgjörs á vanskilagjaldi, tilkynningar- og greiðslugjaldi og dráttarvöxtum, en 12.009.991 króna rann á hinn bóginn inn á höfuðstólinn. Mál þetta var sem áður segir höfðað 2. maí 2013 og verður tekin til greina vörn áfrýjanda um að krafa stefnda um vexti, sem féllu á skuldina fyrir 2. maí 2009, sé fallin niður fyrir fyrningu, sbr. 3. gr. laga nr. 150/2007 um fyrningu kröfuréttinda. Þessu öllu til samræmis verður áfrýjandi dæmdur til greiðslu eins og nánar greinir í dómsorði.

Ákvæði héraðsdóms um staðfestingu veðréttar fyrir skuld áfrýjanda verður látið standa óraskað. Rétt er að aðilarnir beri hvor sinn kostnað af málinu í héraði og fyrir Hæstarétti.

Dómsorð:

Áfrýjandi, Skeifan ehf., greiði stefnda, Íslandsbanka hf., 90.831.209 krónur með vöxtum samkvæmt 1. málslið 4. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 2. maí 2009 til 30. mars 2010, en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.

Ákvæði héraðsdóms um staðfestingu veðréttar skal vera óraskað.

Málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti fellur niður.

Dómur Héraðsdóms Reykjaness 31. mars 2014.

I.

Mál þetta, sem tekið var til dóms 18. mars sl., er höfðað með birtingu stefnu 2. maí 2013.

Stefnandi er Íslandsbanki hf., kt. [...], Kirkjusandi 2, Reykjavík.

Stefndi er Skeifan ehf., kt. [...], Boðagranda 7, Reykjavík.

Dómkröfur stefnanda eru þær að stefndi verði dæmdur til að greiða honum 102.841.200 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 1. október 2008 til greiðsludags, allt að frádregnum innborgunum að fjárhæð 9.000.000 króna hinn 21. janúar 2009 og 3.622.840 krónur hinn 23. mars 2009.

Þá krefst stefnandi þess að heimilað verði að færa dráttarvexti upp á höfuðstól skuldarinnar á 12 mánaða fresti, í fyrsta skipti 1. október 2009.

Einnig krefst stefnandi þess að staðfestur verði veðréttur hans samkvæmt veðskuldabréfi, sem gefið var út 19. desember 2003, tryggðu upphaflega með 2. veðrétti í Brautarholti 22, Reykjavík, fnr. 201-2286, 224-4101 og 201-2290 og Brautarholti 24, Reykjavík, fnr. 201-2297 og uppfærslurétti, að höfuðstól CHF 2.200.000.

Þá er krafist málskostnaðar ásamt virðisaukaskatti á málflutningsþóknun.

Stefndi krefst þess aðallega að krafa stefnanda verði lækkuð í 80.240.779 krónur miðað við 23. mars 2009 og dæmt verði að hún beri 4,72% samningsvexti frá 2. maí 2009 til 22. maí 2013, en dráttarvexti samkvæmt 6. gr. laga nr. 38/2001 frá þeim tíma til greiðsludags.

Til vara krefst stefndi þess að krafa stefnanda verði lækkuð í 85.655.560 krónur miðað við 23. mars 2009 og dæmt verði að hún beri 4,72% samningsvexti frá 2. maí 2009 til 22. maí 2013, en dráttarvexti samkvæmt 6. gr. laga nr. 38/2001 frá þeim tíma til greiðsludags.

Til þrautavara krefst stefndi þess, verði ekki fallist á vaxtakröfu í aðal- og varakröfu, að vextir frá 2. maí 2009 til 22. maí 2013 verði samkvæmt 1. mgr. 4. gr. laga nr. 38/2001 frá þeim tíma til greiðsludags.

Loks krefst stefndi málskostnaðar úr hendi stefnanda að skaðlausu að mati dómsins.

II.

Að því er varðar aðild stefnanda kemur fram í gögnum málsins að 8. desember 2006 hafi Sparisjóður Hafnarfjarðar og Sparisjóður vélstjóra sameinast, samanber auglýsingu þar um, sem birst hafi í Lögbirtingablaðinu 5. janúar 2007. Heiti hins nýja félags hafi verið Sparisjóður vélstjóra, síðar Byr sparisjóður. Með ákvörðun Fjármálaeftirlitsins 22. apríl 2010 hafi Byr hf. tekið við öllum eignum, þ.m.t. öllum skuldabréfum, Byrs sparisjóðs, samanber auglýsingu þar um, sem birst hafi í Lögbirtingablaðinu 30. apríl 2010. Með samruna 29. nóvember 2011 hafi Íslandsbanki hf. yfirtekið allar skyldur og réttindi Byrs hf., samanber samrunatilkynningu, sem birst hafi í Lögbirtingablaði 5. desember 2011.

Stefnandi kveður skuld þessa vera samkvæmt veðskuldabréfi, útgefnu 19. desember 2003 til Sparisjóðsins í Hafnarfirði, upphaflega að fjárhæð CHF 2.200.000.00, að jafnvirði 126.302.000 íslenskar krónur á kaupdegi bréfsins hinn 15. janúar 2004. Samkvæmt ákvæðum skuldabréfsins skyldi greiða lánið með 20 jöfnum afborgunum á 12 mánaða fresti, í fyrsta sinn 1. október 2004. Eftirstöðvar skuldarinnar að greiddum gjalddaga 1. október 2008, þ.e. 15/20 hlutar upphaflegs höfuðstóls, gjaldféllu þann dag nema skuldari óskaði eftir að framlengja lánið.

Samkvæmt ákvæðum skuldabréfsins skyldi greiða af höfuðstól lánsins vexti, sem tækju mið af LIBOR/EURIBOR-vöxtum eins og þeir væru á alþjóðlegum fjármagnsmarkaði á hverjum gjalddaga, að viðbættu 2,8% vaxtaálagi. Vexti skyldi greiða eftir á á sömu gjalddögum og afborganir, í fyrsta skipti hinn 1. október 2004.

Stefnandi kveður að vegna óvissu um lögmæti ákvæða veðskuldabréfsins um tengingu lánsfjárhæðarinnar við þróun gengis erlendra mynta hafi krafan verið reiknuð í íslenskum krónum allt frá stofndegi lánssamningsins. Vextir hafi verið greiddir af láninu í samræmi við ákvæði veðskuldabréfsins til og með 1. október 2008. Eftir það hafi skuldari greitt í tvígang inn á skuldina, fyrst hinn 21. janúar 2009, 9.000.000 króna, og síðan hinn 23. mars 2009, 3.622.840 krónur.

Í greinargerð stefnda kemur fram að hann hafi 2. október 2008 greitt 11.200.475 krónur, sem hann hafi talið að væri greiðsla afborgunar og vaxta á gjalddaga 1. sama mánaðar. Þá hafi stefnandi tilkynnt um hækkun á vaxtaálagi úr 2,8% í 4%, en LIBOR-vextir muni hafa lækkað á þessum tíma. Hafi vextir af lánsfjárhæðinni því verið 4,72%, frá 1. október 2008 til 1. október 2009, sbr. dskj. nr. 25.

Stefndi vekur athygli á því í greinargerð sinni að í skuldabréfinu sé engin tilvísun til laga og falli krafan því ekki undir ákvæði XVII. kafla l. nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Þá sé í skuldabréfinu engin samningsbundin heimild til að krefjast aðfarar eða nauðungarsölu á veðinu við vanskil.

Stefndi kveðst hafa reynt að ná samkomulagi við kröfuhafa um greiðslu lánsins, en við búi Byrs sparisjóðs hafi fyrst tekið Byr hf., en síðar Íslandsbanki hf. Í gögnum málsins liggi fyrir fjölmörg erindi fulltrúa stefnda til stefnanda og fyrirrennara hans og meðal annars skilyrðislaus greiðsluboð frá stefnda til stefnanda. Á meðan á þessum samningaumleitunum hafi staðið hafi afstaða kröfuhafa aldrei fengist til málsins, hvorki til þess að greina lánið, þ.e. hvort um lán í íslenskum krónum væri að ræða eða ekki, né heldur til að ganga til samninga um fjárkröfu á hendur stefnda, en stefnandi hafi jafnan borið við óvissu um ástand á fjármálamarkaði. Viðræður aðila hafi hins vegar farið fram á vinsamlegum grundvelli.

Stefndi kveður að það hafi fyrst verið með birtingu stefnu í máli þessu að stefnandi hafi tekið af skarið um það að lánið væri í íslenskum krónum og upplýst með framsetningu kröfugerðar sinnar að hann hafi reiknað kröfuna í íslenskum krónum allt frá stofndegi lánasamningsins. Fram komi í málatilbúnaði stefnanda að afborgun 1. október 2007 hafi verið greidd að fullu, en á gjalddaga 1. október 2008 hafi einungis verið greiddir vextir af láninu í samræmi við ákvæði skuldabréfsins til þess dags. Þann dag hafi orðið greiðslufall á afborgun af láninu og við það hafi lánið allt fallið í gjalddaga.

Stefndi kveður þetta ekki rétt, en stefndi kveðst hafa þann dag greitt 11.200.475 krónur í afborgun af höfuðstól og vexti, sbr. dskj. nr. 24 og 27. Einnig sé rangt að lánið hafi allt verið gjaldfellt, en engri tilkynningu um slíkt sé til að dreifa í málinu.

III.

Stefnandi kveður greiðslufall hafa orðið á afborgun af láninu 1. október 2008, en þann dag hafi einungis vextir verið greiddir, en við það hafi allt lánið fallið í gjalddaga í samræmi við ákvæði veðskuldabréfsins. Þann dag hafi krafa stefnanda numið 102.841.200 krónum, sem sé stefnufjárhæð málsins, en frá þeim degi sé krafist dráttarvaxta.

Stefnandi kveðst sundurliða stefnukröfu sína með eftirfarandi hætti:

Höfuðstóll                                                                                       126.302.000 krónur

Greiddar afborganir                                                                        -23.460.800 krónur

Samtals                                                                                            102.841.200 krónur

Stefnandi krefst þess að staðfestur verði veðréttur hans samkvæmt veðskuldabréfinu, en lánið, að höfuðstól CHF 2.200.000, hafi upphaflega verið tryggð með 2. veðrétti og uppfærslurétti í fasteignunum að Brautarholti 22, Reykjavík, fastanúmer 201-2286, 224-4101 og 201-2290, og fasteigninni að Brautarholti 24, Reykjavík, fastanúmer 201-2297.

Þar sem stefndi hafi ekki greitt kröfuna þrátt fyrir ítrekaðar innheimtutilraunir sé málssókn þessi nauðsynleg.

Stefnandi kveðst byggja stefnukröfur sínar á almennum reglum kröfuréttar um skyldu til greiðslu fjárskuldbindinga. Vaxtakröfu sína kveðst stefnandi styðja við III. kafla vaxtalaga nr. 38/2001, sbr. 10. og 12. gr. þeirra. Þá kveðst stefnandi styðja kröfu sína um málskostnað við 130. gr., sbr. 129. gr., laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Um réttarfar vísar stefnandi til 17. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála og um varnarþing til 35. gr. sömu laga.

Stefnandi kveður kröfu um virðisaukaskatt á málflutningsþóknun reista á lögum nr. 50/1988, þar sem lögmönnum sé gert að innheimta virðisaukaskatt af þjónustu sinni. Stefnandi kveðst ekki vera virðisaukaskattskyldur og því beri honum nauðsyn til að fá dóm fyrir skatti þessum.

IV.

Stefndi kveðst fallast á þá tilhögun og aðferð stefnanda að reikna lánið í íslenskum krónum allt frá stofndegi lánssamningsins. Í stefnu sé hins vegar gengið út frá því að lánið hafi verið að höfuðstól að jafnvirði 126.302.000 krónur. Með vísan til útreiknings á dskj. nr. 9 sé ljóst að lánsfjárhæðin hafi verið að jafnvirði 122.848.000 krónur, en skjal þetta hafi stefndi fengið afhent frá Byr ásamt ljósriti af þinglýstu skuldabréfi. Af fjárhæð stimpilgjalds á dskj. nr. 9 og stimplum á veðskuldabréfinu sjálfu á dskj. nr. 3, megi sjá að höfuðstóll lánsins hafi verið 122.848.000 krónur, en stimpilgjaldið sé 0,75% af höfuðstóli lánsins. Lánið hafi upphaflega verið til 20 ára með árlegum afborgunum, sem séu þá 20 eða 6.142.400 krónur í hvert sinn. Kveðst stefndi mótmæla dskj. nr. 4 sem röngu og gerðu af stefnanda eftir á, en af efni þess sé ljóst að ekki sé um að ræða kaupnótu vegna skuldabréfsins. Ágreiningslaust sé að gjalddagar til og með 1. október 2007 hafi verið í skilum, samanber greiðslukvittun á dskj. nr. 23, en eftirstöðvar lánsins hafi hinn 3. október 2007 verið að fjárhæð 98.278.400 krónur. Vextir af þeirri fjárhæð frá 1. október 2007 til 1. október 2008 hafi verið 5.887% eða 5.785.694 krónur.

Stefndi kveðst hafa hinn 1. október 2008 greitt 11.200.475 krónur inn á lánið, en afborgun og vextir hafi þá verið 11.928.094 krónur og hafi því einungis vantað 727.619 krónur upp á að sá gjalddagi væri í skilum. Það sé því rangt, sem haldið sé fram í stefnu, að einungis vextir hafi verið greiddir vegna þess gjalddaga en ekki afborgun. Einnig sé rangt að veðskuldabréfið hafi verið gjaldfellt vegna vanskila þennan sama dag.

Hinn 1. október 2008 hafi staða lánsins eftir greiðslu verið 92.136.000 krónur auk ógreiddra vaxta að fjárhæð 727.619 krónur eða samtals 92.863.619 krónur. Hinn 21. janúar 2009 hafi 9.000.000 króna verið greiddar inn á lánið og að þeirri greiðslu frádreginni hafi krafa stefnanda numið þann dag 83.863.619 krónum. Hinn 23. mars 2009 hafi stefndi enn greitt  inn á lánið og nú 3.622.840 krónur. Að teknu tilliti til þeirrar innborgunar hafi krafan numið þann dag 80.240.779 krónum. Sé sú krafa viðurkennd af hálfu stefnda og í samræmi við aðalkröfu stefnda. Að teknu tilliti til eftirstæðra ógreiddra vaxta á gjalddaga 1. október 2008 að fjárhæð 727.619 krónur hafi innborgun stefnda inn á höfuðstól lánsins með greiðslum 21. janúar og 23. mars 2009 því samtals numið 11.895.221 krónu.

Áður hafi verið vísað til þess að árleg jöfn afborgun höfuðstóls hafi numið 6.142.000 krónum. Með innborgunum stefnda inn á höfuðstól lánsins 21. janúar og 23. mars 2009 hafi fullnaðargreiðslur verið inntar af hendi vegna næstu afborgunar af láninu hinn 1. október 2009 ásamt því að stefndi hafi greitt inn á afborgun, sem annars hefði átt að greiða 1. október 2010, eða 5.752.821 króna. Af afborgun af höfuðstól þann dag hafi því staðið eftir 389.579 krónur. Það sé því einfaldlega rangt hjá stefnanda að vanskil hafi verið á láninu frá og með gjalddaga 1. október 2008. Þvert á móti hafi engin vanskil verið á afborgun af höfuðstól á gjalddaga 1. október 2009 og vanskil vegna afborgunar af höfuðstól á gjalddaga 1. október 2010 hafi numið 389.579 krónum eins og áður sé rakið.

Af framangreindu sé ljóst að framsetning dómkröfu stefnanda sé ekki rétt, en enginn útreikningur fylgi kröfunni. Virðist svo vera að í stefnu sé ekki tekið tillit til greiðslu að fjárhæð 11.200.475 krónur hinn 1. október 2008 þar sem höfuðstóllinn hafi verið 6.142.400 krónur, en vextir hafi í samræmi við ákvæði skuldabréfsins verið 5,887%, þ.e. LIBOR-vextir með 2,8% álagi.

Stefndi kveðst mótmæla vaxtakröfu stefnanda sem rangri og tilhæfulausri. Kröfur um vexti fyrnist á fjórum árum og séu vextir fram til 2. maí 2009 fyrndir, en birting stefnu í máli þessu hafi farið fram 2. maí 2013. Eins og að framan sé rakið hafi engin vanskil verið á láninu fyrr en á gjalddaga 1. október 2009. Eins og fram komi á dskj. nr. 10 hafi vaxtaálagi verið breytt með samkomulagi eftir 1. október 2008. Sé því rétt að reikna samningsvexti af láninu frá 2. maí 2009. Það sé staðreynd að stefndi hafi margítrekað boð um innborganir inn á lánið án þess að vera virtur viðlits, samanber bréf stefnda frá 30. júní 2010 og bréf frá 22. september 2010, sem séu á meðal gagna málsins. Það sé og staðreynd að stefndi hafi greitt inn á lánið á árinu 2009 löngu fyrir gjalddaga og ítrekað boðið fram greiðslu á árunum 2010-2013 án þess að á slíkt væri hlustað. Þegar af þeim ástæðum sé ljóst að ekki sé rétt að taka til greina kröfur stefnanda um dráttarvexti.

Stefndi kveður að réttaróvissa, sem stefnandi hafi löngum borið fyrir sig, eigi ekki að leiða til þess að stefndi tapi en stefnandi hagnist á því að halda stefnda í gíslingu. Krafa þessi hafi hlotið þau örlög að vera framseld á milli lánastofnana eins og áður sé rakið. Af þeim ástæðum hafi kröfuhafi sýnt af sér tómlæti, m.a. varðandi vexti sem rangt sé að stefndi beri hallann af. Sé við kröfuhafa sjálfan að sakast að krafan hafi ekki verið fyrir löngu umsamin eða jafnvel uppgreidd. Staðreyndin sé sú að lánið hafi aldrei verið gjaldfellt og verði krafa stefnanda um dráttarvexti því ekki dæmd. Þetta fái stoð í gögnum málsins en málinu hafi verið haldið í biðstöðu vegna aðstæðna stefnanda en alls ekki vegna getuleysis eða viljaskorts stefnda til að greiða eða semja um lyktir málsins. Stefndi kveðst vilja virða samningsákvæði lánssamnings aðila um vexti og kveðst því krefjast þess að skuldin beri þá vexti, sem gert sé ráð fyrir í dómkröfum stefnda.

Verði ekki fallist á aðalkröfu stefnda sé sú krafa gerð til vara að miðað verði við að vextir af gjalddaga 1. október 2008 hafi verið greiddir, en að afborgun sé ógreidd. Afborgunin hafi numið 6.142.400 krónum og sundurliðist krafan því þannig:

Eftirstöðvar 1. október 2008 eftir afborgun                                            92.136.000 krónur

Afborgun pr. 1.10.2008                                                                                 6.142.400 krónur

Innborgun 21.1.2009                                                                                     9.000.000 krónur

Innborgun 23.3.2009                                                                                     3.622.840 krónur

Samtals                                                                                                           85.655.560 krónur

Í stefnu er krafist staðfestingar á veðrétti, sem feli í sér tryggingu á skuldbindingu í erlendri mynt. Fái slíkt ekki staðist þar sem ekki sé um slíka skuldbindingu að tefla. Verði að hafna þeirri kröfu stefnanda, eins og hún sé framsett í stefnu, en hún sé andstæð lögum nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu.

Stefndi kveðst mótmæla málskostnaðarkröfu stefnanda. Málarekstur stefnanda sé tilhæfulaus og óþarfur þar sem stefndi hafi ávallt verið reiðubúinn til að greiða skuld sína, en ekki náð eyrum stefnanda, sem ekki hafi haft á höndum skýra og rökstudda afstöðu gagnvart lánssamningnum. Verði því að telja rétt að láta málskostnað falla niður. Þá skorti kröfu um virðisaukaskatt af málflutningsþóknun lagastoð, en aðilar málsins séu báðir virðisaukaskattskyldir.

Stefndi kveðst mótmæla því að tilvísun stefnanda til 17. kafla l. nr. 91/1991 um meðferð einkamála eigi við í málinu. Engin tilvísun sé í þau ákvæði í skuldabréfi eða lánssamningi aðila. Þá sé einnig auðsætt að engri beinni aðfararheimild eða nauðungarsöluheimild sé til að dreifa, enda séu engin ákvæði þar að lútandi að finna í ákvæðum skuldabréfsins.

Að því er varðar lagarök vísar stefndi til 3. gr. laga um fyrningu kröfuréttinda nr. 150/2007 og um vexti til laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Varðandi málskostnað vísar stefndi til 130. gr., sbr. 129. gr., laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Þá vísar stefndi til meginreglna samningaréttarins og kröfuréttarins, sem og til laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, einkum 19. gr. þeirra laga.

V.

Eins og að framan greinir gaf stefndi út veðskuldabréf til Sparisjóðs Hafnarfjarðar hinn 19. desember 2005 þar sem hann viðurkenndi að skulda sparisjóðnum 2.200.000 svissneska franka eða jafnvirði þeirra í íslenskum krónum eða öðrum erlendum myntum eða mynteiningum miðað við sölugengi í íslenskum sparisjóðum á gjalddaga eða greiðsludegi. Ber framangreint veðskuldabréfi yfirskriftina „Veðskuldabréf í erlendum myntum/mynteiningum“. Óumdeilt er að lánið var greitt út í íslenskum krónum.

Fram hefur komið að vegna óvissu um lögmæti ákvæða veðskuldabréfsins, er lotið hafi að tengingu lánsfjárhæðarinnar við gengi erlendra mynta, hafi stefnandi ákveðið að reikna kröfuna í íslenskum krónum frá stofndegi, þ.e. að líta svo á að um óverðtryggt lán í íslenskum krónum hafi verið að ræða frá upphafi. Þá hafi verið litið svo á að stefndi hefði fengið í hendur fullnaðarkvittanir fyrir greiðslu vaxta samkvæmt ákvæðum skuldabréfsins til og með 1. október 2008 og því væri ekki gerð krafa um viðbótarvexti fyrir liðna tíð. Á þessa tilhögun og aðferð stefnanda við útreikning á kröfunni hefur stefndi fallist.

Í stefnu er vísað til ákvæða XVII. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Í texta umstefnds veðskuldabréfs er ekki tekið fram að mál samkvæmt því verði rekið eftir ákvæðum 17. kafla laga nr. 19/1991 um meðferð einkamála og eiga ákvæði kaflans því ekki við í máli þessu.

Málsaðilar deila um það í fyrsta lagi hver upphafleg fjárhæð lánsins var í íslenskum krónum, í öðru lagi hvenær vanskil urðu á láninu og í þriðja lagi hvenær lánið gjaldféll eða var gjaldfellt. Þá deila málsaðilar um fyrningu vaxta.

Samkvæmt yfirliti, dags. 15. janúar 2004, sem stefnandi hefur lagt fram á dskj. nr. 4, var lánsfjárhæðin, 2.200.000 svissneskir frankar, að jafnvirði 126.302.000 íslenskar krónur miðað við svokallaðan „value“-dag lánsins 18. desember 2003 og kaupgengið 57,41. Samkvæmt sama yfirliti var 1,25% lántökugjald að fjárhæð 1.578.775 krónur. Er þetta í samræmi við framlagða viðskiptakvittun Sparisjóðs Hafnarfjarðar, dags. 4. febrúar 2004, á dskj. nr. 28, sbr. og dskj. nr. 29 og 30, en þar kemur fram að þann sama dag voru 126.302.000 krónur millifærðar af reikningi sparisjóðsins og 124.723.2225 krónur lagðar inn á reikning stefnda hjá sparisjóðnum, en mismunurinn, 1.578.302 krónur, gekk til greiðslu lántökugjaldsins. Skýring greiðslunnar til stefnda er tilgreind á kvittuninni sem „Erlend lán“.

Með vísan til framangreinds þykir ljóst að 126.302.000 íslenskar krónur voru greiddar út vegna lánsins til stefnda, en þar af fóru 1.578.302 krónur til greiðslu lántökugjalds og þá ber veðskuldabréfið sjálft með sér að greiddar hafi verið 921.360 krónur í stimpilgjald. Samkvæmt áritun á bréfið var það móttekið til þinglýsingar 27. janúar 2004.

Óumdeilt er að stefndi greiddi að fullu vexti og afborganir af láninu á árunum 2004 til og með 2007, þ.e. 1. október ár hvert. Samkvæmt yfirliti yfir greiðslur af láninu á dskj. nr. 11 greiddi stefndi samtals 11.200.475 krónur vegna gjalddagans 1. október 2008 og rann sú fjárhæð öll til greiðslu vaxta. Greiðsla vaxtanna fór fram í tvennu lagi, þ.e. fyrst voru greiddar 5.000.000 króna hinn 1. október 2008 og síðar 6.200.475 krónur hinn 3. desember sama ár, en gengi svissnesks franka hafði á þeim tíma ríflega tvöfaldast frá því sem það var lægst á fyrri gjalddögum lánsins. Ekkert var greitt upp í afborgun af höfuðstól lánsins á umræddum gjalddaga.

Í umstefndu veðskuldabréfi er m.a. tekið fram að standi skuldari ekki í skilum með greiðslu afborgana, gengisálags og vaxta skuldarinnar innan hálfs mánaðar frá gjalddaga þá sé lánið allt, ásamt áföllnum vöxtum og kostnaði, í gjalddaga fallið án uppsagnar eða tilkynningar. Er því mælt fortakslaust fyrir um það í veðskuldabréfinu að lánið sé allt gjaldfallið án uppsagnar eða tilkynningar séu ekki staðin skil á greiðslu afborgana á réttum tíma. Samkvæmt hljóðan veðskuldabréfsins féllu þannig allar eftirstöðvar skuldar stefnda sjálfkrafa í gjalddaga í framhaldi af vanskilum 1. október 2008. Í veðskuldabréfinu er tekið fram að við vanefndir sé kröfuhafa heimilt að umreikna kröfuna í íslenskar krónur og beri þá að greiða dráttarvexti af gjaldfallinni eða gjaldfelldri skuld samkvæmt III. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu.

Stefndi heldur því fram að áfallnir dráttarvextir á kröfu stefnanda frá 1. október 2008 til 2. maí 2009 séu fyrndir, þ.e. vextir sem eru eldri en fjögurra ára miðað við birtingardag stefnu í máli þessu 2. maí 2013. Vísar stefndi til 3. gr. laga um fyrningu kröfuréttinda nr. 150/2007 í þessu sambandi. Um kröfu stefnanda gilda hins vegar ákvæði 2. töluliðar 3. gr. eldri laga nr. 14/1905 um fyrningu skulda og annarra kröfuréttinda, sbr. 28. gr. laga nr. 150/2007. Stefnandi heldur því hins vegar fram að með greiðslum stefnda inn á lánið 21. janúar og 23. mars 2009, samtals að fjárhæð 12.622.840 krónur, sem hafi verið ráðstafað inn á áfallna vexti, hafi fyrning áfallinna dráttarvaxta á þeim tíma verið rofin.

Af gögnum málsins verður ekki ráðið að stefndi hafi tilgreint sérstaklega er greiðslur þessar voru inntar af hendi til hvers þær skyldu ganga. Verður að telja að stefnanda hafi við þær aðstæður verið rétt að ráðstafa framangreindum greiðslum fyrst til greiðslu áfallinna dráttarvaxta, sbr. yfirlit á dskj. nr. 11, sem tilgreinir dráttarvexti af svissneskum frönkum, en því sem þá kann að hafa staðið eftir til lækkunar á höfuðstól kröfunnar, sbr. dóm Hæstaréttar 17. október 2002 í máli nr. 230/2002 og 23. september 2004 í máli nr. 59/2004. Verður að skilja málatilbúnað stefnanda með þeim hætti að umræddar greiðslur hafi nægt til að greiða að fullu áfallna dráttarvexti í íslenskum krónum til og með 23. mars 2009 og hefur stefndi ekki hreyft sérstökum mótmælum við því að svo kunni að hafa verið. Áðurnefndan dag hófst nýr fyrningarfrestur vaxta, sem fyrst var rofinn með birtingu stefnu í máli þessu hinn 2. maí 2013. Samkvæmt framangreindu teljast því dráttarvextir frá 23. mars 2009 til 2. maí 2009 fyrndir, sbr. 2. tölulið 3. gr. laga nr. 14/1905 um fyrningu skulda og annarra kröfuréttinda. Ber því að sýkna stefnda af greiðslu dráttarvaxta á þessu tímabili.

Í samræmi við hljóðan veðsamnings aðila í umstefndu skuldabréfi er staðfestur veðréttur stefnanda samkvæmt umstefndu veðskuldabréfi, útgefnu 19. desember 2003, að höfuðstól 2.200.000 svissneskir frankar, tryggðu upphaflega með 2. veðrétti og uppfærslurétti í fasteignunum að Brautarholti 22, Reykjavík, fastanúmer 201-2286, 224-4101 og 201-2290 og fasteigninni að Brautarholti 24, Reykjavík, fastanúmer 201-2297. Ekki er fallist á með stefnda að umræddur veðsamningur, sem tekur mið af fjárhæð í erlendum gjaldmiðli, fari í bága við ákvæði laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu.

Með hliðsjón af öllu framangreindu eru dómkröfur stefnanda teknar til greina að því undanskildu að stefndi er sýknaður af vaxtakröfu stefnanda á tímabilinu 23. mars 2009 til 2. maí 2009. Dráttarvextir reiknist eins og nánar greinir í dómsorði.

Með hliðsjón af málsúrslitum er stefnda gert að greiða stefnanda 502.000 krónur í málskostnað og hefur þá verið tekið tillit til greiðslu virðisaukaskatts af málflutningsþóknun.

Ragnheiður Bragadóttir héraðsdómari kveður upp dóminn.

Dómsorð:

Stefndi, Skeifan ehf., greiði stefnanda, Íslandsbanka hf., 102.841.200 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 1. október 2008 til 23. mars 2009, allt að frádregnum innborgunum, annars vegar 21. janúar 2009 að fjárhæð 9.000.000 króna og hins vegar 23. mars 2009 að fjárhæð 3.622.840 krónur, en síðan með sömu dráttarvöxtum frá 2. maí 2009 til greiðsludags. Heimilt er að leggja dráttarvexti við höfuðstól skuldarinnar á 12 mánaða fresti, í fyrsta skipti 1. október 2009.

Staðfestur er veðréttur stefnanda samkvæmt veðskuldabréfi, útgefnu 19. desember 2003, að höfuðstól 2.200.000 svissneskir frankar, tryggðu upphaflega með 2. veðrétti og uppfærslurétti í fasteignunum að Brautarholti 22, Reykjavík, fastanúmer 201-2286, 224-4101 og 201-2290 og fasteigninni að Brautarholti 24, Reykjavík, fastanúmer 201-2297.

Stefndi greiði stefnanda 502.000 krónur í málskostnað.