Print

Mál nr. 37/2007

Lykilorð
  • Friðhelgi einkalífs
  • Tjáningarfrelsi
  • Stjórnarskrá

         

Fimmtudaginn 4. október 2007.

Nr. 37/2007.

Jónas Kristjánsson og

Mikael Torfason

(Jón Magnússon hrl.)

gegn

A

(Hróbjartur Jónatansson hrl.)

og gagnsök

 

Friðhelgi einkalífs. Tjáningarfrelsi. Stjórnarskrá.

Í september 2005 hóf dagblaðið F að birta án samþykkis gagnáfrýjanda A upp úr tölvupóstsamskiptum hennar við ýmsa nafnkunna einstaklinga á árunum 2001-2003, þar á meðal B. Fékk A lagt lögbann við frekari birtingu úr tölvupóstunum en áður hafði birst umfjöllun í dagblaðinu D um ætlað ástarsamband A og B. Aðaláfrýjendurnir JK og M, ritstjórar blaðsins D, byggðu á því að birting efnisins hefði verið vítalaus í skjóli tjáningarfrelsis þeirra samkvæmt 2. mgr. 73. gr. stjórnarskrárinnar, þar sem hið birta efni hefði staðið í beinum tengslum við opinbera umræðu, sem mikið hefði farið fyrir á þessum tíma og upplýsingarnar í blaðagreininni hefðu því átt erindi til almennings. Með vísan til þeirrar ríku verndar sem 1. mgr. 71. gr. stjórnarskrárinnar veitir einkalífi manna, taldi Hæstiréttur að ekki yrði séð hvaða erindi þessar viðbótarupplýsingar hefðu átt til almennings, enda var hvorki leitast við í fréttaflutningi D að skýra gildi þeirra fyrir málefnið, sem til umræðu var í þjóðfélaginu, né hefðu aðaláfrýjendur fært fyrir því haldbærar skýringar. Var því fallist á niðurstöðu héraðsdóms um að JK og M hefðu brotið gegn 229. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með birtingu efnisins auk þess sem A voru dæmdar miskabætur.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Ingibjörg Benediktsdóttir og Markús Sigurbjörnsson.

Aðaláfrýjendur skutu málinu til Hæstaréttar 16. janúar 2007. Þeir krefjast sýknu af kröfum gagnáfrýjanda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Gagnáfrýjandi áfrýjaði héraðsdómi fyrir sitt leyti 26. mars 2007. Hún krefst þess að áfrýjendur „verði látnir sæta ýtrustu refsingu sem lög leyfa fyrir brot á 229. gr. almennra hegningarlaga“ nr. 19/1940, svo og að þeim verði sameiginlega gert að greiða henni 5.000.000 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 3. mars 2006 til greiðsludags. Hún krefst þess jafnframt að ákvæði héraðsdóms um málskostnað verði staðfest og aðaláfrýjendur dæmdir óskipt til að greiða málskostnað fyrir Hæstarétti.

I.

Eins og greinir í héraðsdómi birtust dagana 24. til 26. september 2005 í O, sem gefið var út af 365-prentmiðlum ehf., fréttir varðandi ætlaðan aðdraganda þess að nafngreindur maður bar fram við ríkislögreglustjóra á árinu 2002 kæru um refsiverða háttsemi á hendur tilteknum forráðamönnum C. Fréttir þessar munu að meira eða minna leyti hafa verið reistar á tölvupóstsendingum, sem gengið höfðu meðal annarra á milli gagnáfrýjanda og B, [...], en til O höfðu þær borist af ótilgreindum ástæðum. Gagnáfrýjandi fékk 30. september 2005 lagt lögbann við því að 365-prentmiðlar ehf. birtu í O eða öðrum fjölmiðlum sínum einkagögn hennar, hvort heldur úr tölvupósti eða öðrum einkaskjölum. Um það lögbann og kröfur gagnáfrýjanda, sem því tengdust, var fjallað í dómi Hæstaréttar 1. júní 2006 í máli nr. 541/2005.

Áður en gagnáfrýjandi leitaði fyrrgreinds lögbanns birtist 26. september 2005 efni, sem varðaði hana, í dagblaðinu DV. Á þeim tíma var það blað eins og O gefið út af 365-prentmiðlum ehf., en ritstjórar þess fyrrnefnda voru þá aðaláfrýjendur, sem staðhæfa að engin tengsl hafi verið milli ritstjórna þessara tveggja fjölmiðla. Á forsíðu DV þennan dag voru ljósmyndir af gagnáfrýjanda og áðurnefndum B og ofan við þær svofelldur texti í fyrirsögn: „[A] og [B] nánari en þau hafa haldið fram“. Þar fyrir neðan stóð með stóru letri: „Þau voru elskendur“, en síðan í þremur línum: „Samband þeirra af allt öðrum toga en haldið var“, „Fóru leynt með sambandið þó á margra vitorði væri“ og „[A] stærði sig af ástarsambandinu í fjölmenni“. Inni í blaðinu var grein undir fyrirsögninni „[A] og [B] voru í ástarsambandi“. Þessi grein var svohljóðandi samkvæmt framlögðu ljósriti úr blaðinu: „[A] og [B], [...], áttu í ástarsambandi á meðan á tölvusamskiptum þeirra stóð sem mjög hafa verið í fréttum að undanförnu. „Ég vil ekki tala um þetta,“ segir [A] en hún er stödd í Kanada sem kunnugt er af fréttum. Og B tekur í svipaðan streng: „Ég svara ekki svona spurningum.“ F framkvæmdastjóri G, útgáfufélags E, vísar til svars ritstjórans, aðspurður um ástarsambandið, og ítrekar traust sitt og stjórnar G á ritstjóranum. H, gömul vinkona A en fjandvinur nú, segist undrandi á því að ástarsamband A og B hafi ekki verið komið í hámæli miklu fyrr miðað við hversu mjög A sjálf hafi gumað að því og það jafnvel í fjölmenni. H er því ekki sú eina sem bjó yfir þessari vitneskju. Samband A og B var á fjölmargra vitorði, samkvæmt heimildum DV. „Þetta kemur mér fyrir bragðið ekki á óvart,“ segir H. „[B] er aðeins einn af mörgum ástmönnum A og hún gerir ekki neitt nema hafa ávinning af því sjálf.“ Ástarsamband A og B varpar nýju ljósi á aðild þeirra að Baugsmálinu öllu þó viðkvæmt geti verið fyrir þá sem í hlut eiga. En í ljósi fullyrðinga B og A í fréttum helgarinnar verður ekki fram hjá því horft.“ Á þessum stað í textanum kom síðan undirfyrirsögn, „[H] hafði gögnin“, og hljóðaði framhald greinarinnar svo: „Eru tölvupóstarnir sem O byggir fréttir sínar á frá þér komnir? „Ég segi ekkert um það. Hins vegar get ég sagt að miðað við það sem fram hefur komið til þessa, þá hef ég haft allar þær upplýsingar undir höndum lengi. Einnig hef ég undir höndum tölvupóst frá A þar sem hún krefur I um 70 milljónir króna og hvítan Audi-jeppa að auki. A þarf ekki að vera hissa á því að þessar upplýsingar hafi lekið út. A býður fólki til veislu á heimili sínu og fattar ekki þegar einhverjir eða einhver gesta hennar fer í tölvuna hennar og framsendir gögn sem þar eru. A hefur aldrei kunnað að velja sér vini, eins og nú sannast,“ segir [H].“ Lokakafli greinarinnar var síðan með undirfyrirsögninni „Praktísk í ástamálum“, svohljóðandi: „Í viðtali við Blaðið, sem birtist fyrir helgi, segir A meðal annars: „Ég þarf ekki lengur að þjóna öðrum og hef ákveðið að vera framvegis mjög praktísk í ástamálum. Ég er hamingjusöm kona og óttast ekki karlmenn.“ Síðar í sama viðtali, segir A svo: „Ég ætla að hella mér út í stjórnmál. Hef alltaf haft mikinn áhuga en lítinn tíma. Reynsla mín ætti að lífga upp á Sjálfstæðisflokkinn.“ A keppir að því að hreppa fimmta sætið á framboðslista Sjálfstæðisflokksins fyrir næstu borgarstjórnarkosningar. Ljóst er að reynsla A hefur þegar lífgað upp á Sjálfstæðisflokkinn, þó með öðrum hætti en hún sjálf hefði óskað.“ Við þessa grein, sem bar ekki með sér nafn höfundar, var ljósmynd af húsi, þar sem gagnáfrýjandi var sögð búa, og önnur af H, auk mynda af gagnáfrýjanda og B. Við hverja af þessum ljósmyndum var stuttur texti, sem efnislega var tekinn upp úr greininni eða fyrirsögnum við hana.

Á öðrum stað í sama tölublaði DV var ljósmynd af gagnáfrýjanda og þar við hlið svofelldur texti: „5 karlmenn sem A þyrfti að ná tökum á“. Neðan við hann voru ljósmyndir af fimm þekktum körlum, innlendum og erlendum, ásamt nöfnum þeirra og stuttum athugasemdum varðandi hvern. Ekki er ástæða til að rekja þessa umfjöllun frekar.

Gagnáfrýjandi höfðaði mál þetta með stefnu 23. febrúar 2006 til refsingar á hendur aðaláfrýjendum fyrir að hafa með umfjöllun um einkalíf hennar í umræddu dagblaði brotið gegn 229. gr. almennra hegningarlaga, svo og til greiðslu miskabóta að fjárhæð 5.000.000 krónur auk vaxta og málskostnaðar. Undir rekstri málsins fyrir héraðsdómi mun því hafa verið lýst yfir af hendi aðilanna í þinghaldi 4. október 2006 að ekki væri deilt um náið samband gagnáfrýjanda og þess manns, sem nefndur var í frétt DV sem málið varðar, en á hinn bóginn væri deila um framsetningu fréttarinnar og aðrar fullyrðingar í henni.

II.

Í héraðsdómsstefnu skortir á að gerð sé skýrlega grein fyrir því hvaða atriði í áðurnefndum texta og eftir atvikum myndefni, sem birtist í DV 26. september 2005, varði að mati gagnáfrýjanda einkamálefni hennar á þann hátt að opinber frásögn af þeim geti varðað aðaláfrýjendur refsingu samkvæmt 229. gr. almennra hegningarlaga og fébótaábyrgð samkvæmt 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Að auki er í stefnunni vikið að umfjöllun í sama dagblaði um gagnáfrýjanda við önnur tækifæri, ýmist með því að geta í einhverjum atriðum um efni slíkra skrifa og hvenær þau birtust eða án þess að nokkuð sé nánar frá því greint, en um þau hafa þó engin frekari gögn verið lögð fram í málinu. Í málflutningi gagnáfrýjanda fyrir Hæstarétti var því meðal annars lýst að hún teldi efnið, sem birtist um hana í DV 26. september 2005, í heild varða aðaláfrýjendur refsingu og skaðabótaábyrgð.

Um þennan málatilbúnað gagnáfrýjanda verður að líta til þess að samkvæmt d. lið 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála verður að greina í stefnu í einkarefsimáli svo glöggt sem verða má fyrir hvaða tilgreindu orð eða athafnir refsingar sé krafist. Þegar framangreind umfjöllun í DV 26. september 2005 varðandi gagnáfrýjanda er virt getur ekki átt við að sérhvert atriði, sem þar kom fram, snúi að einkamálefnum hennar í skilningi 229. gr. almennra hegningarlaga. Á hinn bóginn var í lýsingu atvika í héraðsdómsstefnu greint sérstaklega frá texta fyrirsagnar um gagnáfrýjanda á forsíðu blaðsins, svo og fyrirsagnarinnar „[A] og [B] voru í ástarsambandi“ við áðurnefnda grein inni í blaðinu, en að auki var þar hermt að í þeirra grein væri staðhæft orðrétt að þau hefðu átt „í ástarsambandi á meðan tölvusamskipti þeirra um málefni C, sem O hefur greint frá, stóðu yfir“. Eins og gögn málsins liggja fyrir verður síðastnefndum orðum ekki fundinn staður í greininni og geta þau því ekki komið frekar til álita. Varðandi efni fyrirsagnanna tveggja, sem hér um ræðir, er þess að gæta að í stefnunni hefst lýsing málsástæðna fyrir refsikröfu á hendur aðaláfrýjendum með þeim orðum að byggt sé á því að „framangreind umfjöllun DV um hið meinta ástarævintýri“ sé frásögn af einkamálefnum gagnáfrýjanda, sem vernduð séu af 71. gr. stjórnarskrárinnar og 229. gr. almennra hegningarlaga. Að annarri háttsemi aðaláfrýjenda í garð gagnáfrýjanda var hins vegar ekki sérstaklega vikið í þessu samhengi. Verður að líta svo á að með þessu hafi komið nægilega fram í héraðsdómsstefnu að krafan um refsingu, sem gagnáfrýjandi gerir á hendur aðaláfrýjendum, sé reist á efni þessara tveggja fyrirsagna, en af framangreindum ástæðum geta önnur atriði í skrifum um hana, sem birtust í DV umræddan dag eða við önnur tækifæri, ekki komið til álita í þessu sambandi.

Í málinu andmæla aðaláfrýjendur því ekki að framangreint efni, sem sneri að gagnáfrýjanda og birtist í DV 26. september 2005, hafi varðað einkalíf hennar og einkamálefni í skilningi 1. mgr. 71. gr. stjórnarskrárinnar og 229. gr. almennra hegningarlaga. Þeir mótmæla heldur ekki að þeir beri ábyrgð á birtingu þess eftir ákvæðum V. kafla laga nr. 57/1956 um prentrétt. Eins og nánar greinir í héraðsdómi bera þeir því á hinn bóginn við að þeim hafi verið vítalaust að birta þetta efni í skjóli tjáningarfrelsis síns samkvæmt 2. mgr. 73. gr. stjórnarskrárinnar, enda hafi það staðið í beinum tengslum við opinbera umræðu, sem mikið hafi farið fyrir á þessum tíma, um aðdraganda að kæru til lögreglu um ætlaða refsiverða háttsemi tiltekinna manna og horft til skýringar á þeim aðdraganda. Lýðræðishefðir standi ekki til þess að takmarka þetta frelsi þeirra með stoð í 3. mgr. 73. gr. stjórnarskrárinnar, því upplýsingarnar í blaðagreininni hafi átt erindi til almennings og varðað málefni, sem miklar deilur hafi staðið um í þjóðfélaginu.

Þegar lagt er mat á þessar varnir aðaláfrýjenda verður að líta til þess að á þeim tíma, sem efnið um gagnáfrýjanda sem hér um ræðir birtist í DV, hafði þegar komið ítarlega fram í umfjöllun O og annarra fjölmiðla að hún hafi átt ýmis samskipti meðal annars við B til að greiða götu þess manns, sem bar fyrrgreinda kæru fram við lögreglu. Í áðurnefndum dómi Hæstaréttar 1. júní 2006 í máli nr. 541/2005 var því slegið föstu að upplýsingar um þetta hafi átt erindi til almennings. Þegar virt er sú ríka vernd, sem 1. mgr. 71. gr. stjórnarskrárinnar veitir einkalífi manna, verður á hinn bóginn ekki séð hvaða erindi upplýsingar þessu til viðbótar hafi átt til almennings um önnur og persónuleg samskipti gagnáfrýjanda við nefndan B, enda var hvorki leitast við í fréttaflutningi DV 26. september 2005 að skýra gildi þeirra fyrir málefnið, sem til umræðu var í þjóðfélaginu, né hafa aðaláfrýjendur fært fyrir því haldbærar skýringar í máli þessu. Af þessum sökum verður að fallast á að aðaláfrýjendur hafi brotið gegn 229. gr. almennra hegningarlaga með því að birta umræddan dag þær fyrirsagnir, sem vörðuðu einkamálefni gagnáfrýjanda og áður var getið. Sekt á hendur aðaláfrýjendum fyrir þetta brot er hæfilega ákveðin í héraðsdómi. Samkvæmt 1. mgr. 54. gr. almennra hegningarlaga ber að verða við kröfu gagnáfrýjanda um að mælt verði fyrir um vararefsingu, en um hana fer samkvæmt því, sem í dómsorði greinir.

Aðaláfrýjendur hafa með framangreindri refsiverðri háttsemi bakað sér fébótaábyrgð samkvæmt 26. gr. skaðabótalaga með ólögmætri meingerð gegn persónu gagnáfrýjanda. Við ákvörðun fjárhæðar miskabóta verður að taka tillit til þess að umfjöllun um gagnáfrýjanda á forsíðu DV 26. september 2005 fékk aukna útbreiðslu með því að mynd af þeim hluta síðunnar var notuð í auglýsingu, sem birt var í O sama dag. Að þessu virtu verður staðfest niðurstaða héraðsdóms um miskabætur og vexti af þeim.

Ákvæði héraðsdóms um málskostnað verður staðfest. Aðaláfrýjendum verður gert að greiða gagnáfrýjanda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og nánar segir í dómsorði.

Dómsorð:

Aðaláfrýjendur, Jónas Kristjánsson og Mikael Torfason, greiði hvor um sig 150.000 krónur í sekt í ríkissjóð innan fjögurra vikna frá uppsögu þessa dóms, en sæti ella fangelsi í 12 daga.

Héraðsdómur skal að öðru leyti vera óraskaður.

Aðaláfrýjendur greiði í sameiningu gagnáfrýjanda, A, 300.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

         

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 8. desember 2006.

Mál þetta sem dómtekið var 6. nóvember sl., er höfðað með stefnu, birtri 28. febrúar og 3. mars 2006.

Stefnandi er A, [...], Reykjavík.

Stefndu eru Jónas Kristjánsson, Fornuströnd 2, Seltjarnarnesi og Mikael Torfason, Vesturgötu 26a, Reykjavík.      

Dómkröfur stefnanda eru þær að stefndu, Jónas og Mikael, verði látnir sæta ýtrustu refsingu sem lög leyfa fyrir brot á 229. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, ásamt síðari breytingum. Þá krefst stefnandi þess að báðir stefndu verði dæmdir, in solidum, til að greiða stefnanda miskabætur að fjárhæð 5.000.000 króna að viðbættum vöxtum skv. 8. gr. laga nr. 38/2001 frá stefnubirtingardegi en með dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags. Þá er gerð krafa um málskostnað.

Stefndu krefjast þess að þeir verði sýknaðir af öllum kröfum stefnanda og þeim tildæmdur málskostnaður úr hendi stefnanda samkvæmt mati dómsins.

 

MÁLSATVIK

Í september 2005 hóf systurblað DV, O, að birta án samþykkis stefnanda upp úr tölvupóstsamskiptum sem stefnandi hafði átt við ýmsa nafnkunna einstaklinga á árunum 2001 til 2003. Á forsíðu O 24. september 2005 var birt frétt sem bar yfirskriftina  „Höfðu samráð um mál Jóns Geralds gegn [C]“ síðan var í undirfyrirsögn sagt „[B], [M] og [N] funduðu um Baugsmálið mánuðum áður en það var kært til lögreglu. B og A voru í sambandi við L áður en kæra var lögð fram.“ Í framhaldi af þessari fyrirsögn birtist frétt í blaðinu sem var í samræmi við fyrirsögnina. Í fréttinni er þess sérstaklega getið að blaðið hafi undir höndum margs konar gögn sem sýni fram á að B, A og L hafi unnið að undirbúningi málaferlanna gegn forsvarsmönnum C a.m.k. frá því í maí þetta sama ár. Í frétt O hinn 25. september 2005 er síðan birt ný frétt undir fyrirsögninni „[B]  og [A] sendu Baugsgögnin til skattsins.“ Í fréttinni er síðan rakið og vísað til viðtala og með hvaða hætti reynt var að koma á rannsókn í meintum skattalagabrotum forsvarsmanna C og með hvaða hætti þau tjáðu sig bæði, B og stefnandi, um það mál.

Stefnandi fékk lagt lögbann við frekari birtingu úr tölvupóstunum þar sem hún kveður blaðið hafa komist yfir tölvupósta þessa fyrir milligöngu einstaklings sem hafi brotist inn í tölvupósthólf í eigu stefnanda og prentað út og afhent O. Með dómi Hæstaréttar 1. júní sl. var synjað um staðfestingu lögbanns.

Hinn 26. september 2005, sama dag og O birti úr síðustu tölvupóstunum áður en lögbann var lagt á frekari birtingu úr póstunum, birtist á forsíðu  DV umfjöllun um meint ástarsamband stefnanda og B, [...], auk ljósmynda af stefnanda og B. Í forsíðutexta sagði:

[A] og [B] nánari en þau hafa haldið fram...

ÞAU VORU ELSKENDUR

-          Samband þeirra af allt öðrum toga en haldið var

-          Fóru leynt með sambandið þó á margra vitorði væri

-          [A]  stærði sig af ástarsambandinu í fjölmenni

Á bls. 6 í blaðinu er undir yfirskriftinni [A] og [B]  voru í ástarsambandi“ staðhæft að stefnandi og nefndur B hafi staðið „...í ástarsambandi á meðan tölvusamskipti þeirra um málefni [C], sem [O] hefur greint frá, stóðu yfir...“  Sé þannig gefið í skyn að slíkt komi fram í tölvupóstunum sem O hafði undir höndum. Í umfjöllun blaðsins er greint frá því að hvorki stefnandi né B hafi  viljað tjá sig við blaðamann DV  um ofangreindar fullyrðingar blaðsins. Vísar blaðið í H nokkra sem heimild fyrir hinu meinta ástarsambandi auk þess sem vísað er til ónafngreindra heimildarmanna blaðsins. Í téðri grein segir að nefnd H vilji hvorki játa né neita því að tölvuskeyti milli stefnanda og ýmissa einstaklinga, þ.á m. B sem O birti í september 2005, séu frá henni komin. Er haft eftir H að hún hafi undir höndum tölvupósta um samskipti stefnanda og I, fyrrum sambýlismanns stefnanda, og staðhæft að stefnandi hafi gert háar fjárkröfur á hendur honum og þær gerðar að sérstöku umfjöllunarefni þó ekki hafi þær tengst hinu meinta ástarsambandi. Með greininni eru birtar ljósmyndir af stefnanda, B sem og heimili  stefnanda. Þá sé í umfjöllun DV að finna brot úr viðtali stefndu við dagblaðið K nokkru áður. Sé það slitið úr samhengi og skeytt inn í skrifin.

Stefnandi kveður að um langt skeið hafi ritstjórar DV lagt sig eftir því að fjalla í blaðinu með ýmsum hætti um einkalíf stefnanda án þess að frumkvæðis eða samþykkis stefnanda nyti við og iðulega farið með staðlausa stafi og rangfærslur í umfjöllun sinni. Hafi blaðið því ítrekað birt skrif um stefnanda þar sem dregin hafi verið upp röng, neikvæð og lítilsvirðandi mynd af henni, bersýnilega í þeim tilgangi að sverta mannorð hennar og gera lítið úr persónu hennar frammi fyrir almenningi. Hafi þessi framganga DV verulega raskað högum stefnanda og valdið henni og aðstandendum hennar verulegum tilfinningalegum óþægindum. Stefndu mótmæla þessu sem rangri fullyrðingu. Stefnandi hafi ekki verið til umfjöllunar í DV umfram það sem hún sjálf hafi gefið tilefni til.

Stefnandi kveður framangreindar staðhæfingar um einkahagi stefnanda í DV vera án samþykkis stefnanda eða B, eins og berlega komi fram í téðri grein, og hvorki stefnandi né B því heimildarmenn blaðsins. Ljóst sé af téðri umfjöllun DV að ritstjórn DV hafi byggt umfjöllun sína á slúðri téðrar H og annarra um meint ástarsamband stefnanda við B, [...], fyrir nokkrum árum til þess að skrifa í æsifréttastíl um einkamálefni stefnanda. Með því að birta opinberlega í DV staðhæfingar um meint ástarsamband stefnanda og B hafi stefndu gerst sekir um ólögmæta meingerð gegn persónu og æru stefnanda og brotlegir við ákvæði 229 gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940. Eitt gleggsta dæmið um einelti DV gagnvart stefnanda sé greinarstúfur sem birtist í blaðinu þennan sama dag, 26. september, á bls. 2  undir yfirskriftinni „5 karlmenn sem [A] þyrfti að ná tökum á„. Sé þar að finna myndir af stefnanda og fimm þekktum karlmönnum, innlendum og erlendum, og við hverja mynd af karlmönnunum sé rætinn texti sem vísi til stefnanda. Bersýnilegt sé að þessi skrif hafi ekki í sér fólgið fréttagildi eða séu reist á sjónarmiðum venjulegrar blaðamennsku heldur séu skrifin persónuleg aðdróttun drýgð af illfýsi. Stefnandi hafi verið gestur í sjónvarpsþætti Egils Helgasonar, „Silfri Egils“ sunnudaginn 8. janúar 2006, þar sem hún hafi tjáð sig m.a. um þá fyrirætlan sína að höfða mál á hendur DV vegna ítrekaðra skrifa blaðsins um einkamálefni hennar.  Daginn eftir viðtal þetta hafi birst í  DV greinarkorn undir fyrirsögninni „málaferli í beinni útsendingu“ þar sem vísað hafi verið til ummæla stefnanda í téðum sjónvarpsþætti og því lýst yfir að ef stefnandi höfðaði mál á hendur blaðinu myndi blaðið leggja „...til minnst 20 forsíður á nýju ári...“ undir umfjöllun um stefnanda. Hafi þar verið að verki nefndur Eiríkur Jónsson blaðamaður sem einna lengst hafi gengið í því að ráðast að æru og persónu stefnanda. Hafi þetta verið bein skilaboð til stefnanda um að hún mætti vænta frekari atlögu af hálfu DV drægi hún blaðið fyrir dómstóla. Ljóst sé að stefnandi sé ekki ein um að hafa skilið framangreint sem hótanir í sinn garð en dagblaðið Blaðið hafi séð ástæðu til að fjalla um þessi skrif DV í  blaðinu þann 12. janúar 2006 og komi þar m.a. sú afstaða fram að það væri „...fáheyrt að blaðamenn hóti einstaklingum á síðum blaðs síns en menn séu orðnir ýmsu vanir þegar Eiríkur Jónsson eigi í hlut...“

Af hálfu stefndu segir að þeim hafi verið ljóst þegar ofangreindar fréttir hefðu birst í O að þarna hafi verið um stórfrétt að ræða þar sem ritstjóri blaðs sem lengi hefði verið langútbreiddasta dagblað þjóðarinnar hafi verið í sérstæðu sambandi við stefnanda um að koma meintum ávirðingum ákveðinna einstaklinga í ákærumeðferð. Það hafi því skipt máli að kanna af hverju þessir aðilar tengdust sameiginlega þessu máli og hvaða tengsl væru milli þeirra sem urðu þess valdandi að það samband myndaðist milli þeirra, sem rakið var í fréttum O að væri fyrir hendi, og hefði leitt til þar til greindra aðgerða þeirra við að koma fram ákæru á hendur forsvarsmönnum fyrirtækisins C. Af greindum ástæðum hafi því þótt nauðsynlegt að kanna hvernig stæði á þessu nána sambandi ritstjórans og stefnanda og hafi blaðamanni verið falið að afla upplýsinga um það atriði. Blaðamaðurinn hafi gert það og hafi niðurstaða hans orðið sú, að ástæða þess að stefnandi og ritstjórinn hefðu staðið að málum með þeim hætti sem rakið hafi verið í O væri sú að þau hefðu um nokkurt skeið átt náið samband eins og vikið hafi verið að á forsíðu DV mánudaginn 26. september 2005. Umfjöllun um þessi persónulegu málefni ritstjórans og stefnanda hafi verið afsakanleg og eðlilegur liður í tjáningarfrelsi í lýðfrjálsu landi, miðað við þær aðstæður sem fyrir hendi hafi verið að mati stefndu, þar sem sú umfjöllun sem DV birti mánudaginn 26. september 2005 hafi varpað mun skýrara ljósi á það með hvaða hætti þeir hlutir hefðu getað gerst sem fjallað hafi verið um í tilvísuðum fréttum O. Blaðamaðurinn sem hafi unnið fréttina sem hér um ræðir hafi rætt við fjölda aðila áður en hann skrifaði fréttina og hafi það verið mat þeirra sem ákvörðun tóku um birtingu fréttarinnar að tekist hefði að afla gagna sem færðu sönnur á réttmæti fréttarinnar sem birtist í blaðinu. Þar sem vissa hafi verið fyrir því á DV að fréttin væri rétt og þar sem aðstæður í þjóðfélagsumræðunni hafi verið með þeim hætti sem raun bar vitni eftir ofangreinda birtingu O á nokkrum tölvupóstum stefnanda hafi forsvarsmönnum DV þótt það einsýnt að þessi frétt ætti erindi til fólksins í landinu og gæfi skýringar sem ekki hefðu komið fram áður í opinberri umræðu um svokallað Baugsmál og ýmislegt annað í þjóðfélaginu.

 

MÁLSÁSTÆÐUR OG LAGARÖK                

Stefnandi vísar til þess í stefnu að hann byggi á því að framangreind umfjöllun DV um ætlað ástarsamband stefnanda og B sé frásögn af einkamálefnum stefnanda sem falli undir verndarákvæði 71 gr. stjórnarskrárinnar um friðhelgi einkalífsins, sbr. og 229. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940. Í téðri grein almennra hegningarlaga, sbr. og 121. gr. laga nr. 82, 1998 um breytingu á almennum hegningarlögum, sé kveðið á um að hver sá sem skýri opinberlega frá einkamálefnum manna án þess að nægar ástæður séu fyrir hendi, er réttlæti verknaðinn, skuli sæta sektum eða fangelsi allt að 1 ári. Ljóst sé að ástarsambönd fólks teljist almennt til viðkvæmra persónulegra einkamálefna hlutaðeigandi einstaklinga og opinber frásögn í fjölmiðlum um slík sambönd sé því skýlaust brot gegn einkalífsrétti hlutaðeigandi fólks. Þegar ekki njóti við samþykkis hlutaðeigandi einstaklinga séu ekki til staðar nægar ástæður sem réttlæti slíka umfjöllun enda krefjist almannahagsmunir þess ekki að opinberar frásagnir eða umræður séu um slík málefni. Þá veiti ákvæði 229. gr. almennra hegningarlaga vernd gegn sönnum frásögnum jafnt sem ósönnum og gildi því ekki meginreglan um Exceptio Veritatis líkt og þegar um ærumeiðingar sé að ræða. Skipti því engu máli hvort hin opinbera frásögn í DV hinn 26. september 2005 hafi falið í sér  sannleikskorn eður ei. Í öllum tilvikum sé slík opinber umfjöllun brot gegn 229. gr. almennra hegningarlaga þegar ekki njóti við samþykkis til að greina opinberlega frá slíkum einkamálefnum fólks eða annarra réttlætingarástæðna sem jafna megi til samþykkis. Sé því ekki tilefni til þess að fjalla um sannleiksgildi téðrar umfjöllunar í málinu af hálfu stefnanda þar sem það leiði ekki til refsileysis stefndu þó satt væri.

Um refsiskilyrði sé að öðru leyti vísað til 18. gr. almennra hegningarlaga og um heimild til höfðunar einkarefsimáls til 242. gr. laganna, 3. tl. um heimild til höfðunar einkarefsimáls svo og til ákvæða stjórnarskrár Lýðveldisins Íslands nr. 33/1944,  1. mgr. 71. gr. um friðhelgi einkalífs, sbr. 9. gr. stjórnskipunarlaga nr.  97/1995, svo og til 1. mgr. 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu um skyldu íslenska ríkisins til þess að veita stefnanda fullnægjandi einkalífsvernd, sbr. l. nr. 62/1994 og að lokum til laga um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga nr. 77/2000, einkum 7. gr. og 5. gr. laganna.

Stefnandi byggi á því að stefndu beri miskabótaábyrgð gagnvart stefnanda á grundvelli 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, þar sem hin opinbera umfjöllun sé ólögmæt meingerð gegn persónu stefnanda. Við ákvörðun miskabóta verði að horfa til þess að atlaga DV að einkalífsrétti stefnanda hafi staðið um alllangt skeið og stefndu hafi af einbeittum ásetningi brotið gegn einkalífsrétti stefnanda án þess að skeyta um kröfu stefnanda um að látið yrði af umfjöllun um sig og án þess að skeyta um hvort í umfjöllun blaðsins væri farið með satt eða logið um stefnanda. Hafi báðir stefndu lýst því yfir að þeir hefðu að markmiði að birta opinberlega um einkamálefni fólks hvað svo sem liði afstöðu viðkomandi til birtingarinnar svo ekki er um að efast að ásetningi hafi verið til að dreifa við framningu brotsins. Hafa verði og í huga við ákvörðun miskabóta að í blaði stefndu hafi stefnandi verið hædd og lítilsvirt, borin röngum sökum og útmáluð sem vargur fyrir alþjóð með skipulegum hætti um langt skeið af eintómri illfýsi stefndu og starfsmanna þeirra. Einnig beri að hafa í huga hótanir þær sem settar hafi verið fram af hálfu ritstjórnar DV þann 9. janúar 2006.

 Auk heldur verði að líta til útbreiðslu DV og auglýsinga á því blaði, sbr. birtingu forsíðu DV í O sem er eitt víðlesnasta blað landsins en ætla megi að tugþúsundir Íslendinga hafi borið umrædda forsíðu DV augum þann 26. september 2005.

Að auki verði, við ákvörðun miskabóta, að hafa í huga að þær skuli fela í sér varnaðaráhrif gegn frekari ásetningsbrotum af hálfu stefndu við rekstur og útgáfu DV. Sé miskabótakrafa stefnanda, að fjárhæð 5.000.000 króna, því síst of há í ljósi allra atvika málsins.

Hin umþrætta umfjöllun sé ekki merkt tilgreindum blaðamanni DV. Þá sé enginn nafngreindur í blaðinu sem ábyrgðarmaður blaðsins.  Stefndu, Jónas og Mikael, beri því solidaríska ábyrgð á því efni blaðsins sem enginn skráður höfundur sé fyrir samkvæmt lögum nr. 57/1956 um prentrétt, sbr.  15. gr., sbr. og 16. gr. s.l., og sé því refsikröfum réttilega beint að þeim báðum.

Stefnanda vísi til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 varðandi málskostnað svo og til laga nr. 50/1998 um virðisaukaskatt.

Sýknukröfu sína, hvað þá málsástæðu stefnanda varðar, að brotið hafi verið gegn ákvæði 71. gr. stjórnarskrárinnar um friðhelgi einkalífs, sbr. 229. gr. almennra hegningarlaga, sbr. 121. gr. laga nr. 82/1998 um breytingu á almennum hegningarlögum, byggja stefndu á því að þeir hafi ekki farið út fyrir mörk eðlilegs tjáningarfrelsis, eins og það sé tryggt í stjórnarskrá, sbr. 73. gr. stjórnarskrárinnar, og að fyrir hendi hafi verið nægar ástæður sem réttlætt hafi það, að umrædd frétt birtist um stefnanda hinn 26. september 2005, sbr. 229. gr. almennra hegningarlaga. Í 71. gr. stjórnarskrárinnar segi að allir skuli njóta friðhelgi einkalífs, heimilis og fjölskyldu. Friðhelgi einkalífs sé einnig verndað að lögum í 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu sbr. lög nr. 62/1994. Ekki sé að finna skilgreiningu á hugtakinu friðhelgi einkalífs eða einkamálefnum í lögum en í greinargerð með frumvarpi til stjórnskipunarlaga nr. 97/1995 komi hins vegar fram eftirfarandi skilgreining á þessu hugtaki, sbr. Alþingistíðindi 1994 bls. 2099.

„Í friðhelgi einkalífs felst fyrst og fremst réttur manna til að ráða yfir lífi sínu og líkama og til að njóta friðar um lífshætti sína og einkahagi. Jafnframt er litið svo á að tilfinningalíf og tilfinningasambönd við aðra njóti verndar.“

Í 229 gr. almennra hegningarlaga sé vísað til þess að hver sem skýri opinberlega frá einkamálefnum annars manns án þess að nægar ástæður séu fyrir hendi er réttlæti verknaðinn skuli sæta þar til greindri refsingu. Í ákvæðinu sjálfu sé vikið að því, og á því byggt, sbr. gagnályktun, að heimilt sé að skýra opinberlega frá einkamálefnum annars manns séu nægar ástæður fyrir hendi sem réttlæti verknaðinn. Ein af þeim ástæðum sem hér komi til skoðunar sé hvort um hafi verið að ræða frétt sem haft hafi þýðingu við skoðanamótun í lýðfrjálsu landi. Í öðru lagi komi til skoðunar hvort það eitt og sér réttlæti ekki birtingu fréttarinnar að um var að ræða umtalaðar, áberandi og opinberar persónur. Í þriðja lagi beri að skoða hvort almenn vitneskja hafi víða verið fyrir hendi um þau atriði sem fjallað var um í frétt DV þannig að blaðið hafi í umrætt sinn skýrt frá atriðum sem voru á vitorði margra þegar fréttin birtist.

Af hálfu stefndu er því haldið fram að umrædd frétt hafi átt erindi til fólksins í landinu vegna þeirrar umfjöllunar sem var um tengsl þeirra aðila sem fréttin fjallaði um við Baugsmálið. Á sama tíma hafi stefnandi líka verið í framboði í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins við borgarstjórnarkosningar í Reykjavík og sá aðili sem nefndur sé í fréttinni áhrifamaður í íslenskum stjórnmálum til margra áratuga. Þegar slíkir aðilar tengist ákveðnum böndum á sama tíma og þeir standi saman að því að koma fram ákveðnum áhugamálum sínum, til þóknunar réttlætinu, séð með þeirra gleraugum, skipti það máli fyrir eðlilega skoðanamótun að fólkið í landinu fái að vita um þau tengsl sem eru á milli viðkomandi aðila. Um hafi verið að ræða upplýsingar til fólks sem átt hafi erindi í lýðfrjálsu landi til þess að skoðanamyndunin geti verið með eðlilegum hætti og byggð á þeim staðreyndum sem fyrir hendi séu.

Þeir einstaklingar sem um var fjallað í frétt DV séu áberandi og umtalaðar persónur til margra ára. Stefnandi hafi ítrekað verið umtöluð bæði vegna einkamálefna sinna og ýmissa annarra atriða og hafi beinlínis ítrekað sóst eftir því að um hana væri fjallað í fjölmiðlum.

Þá er því haldið fram að vitneskja um það sem sagði í fréttinni hafi víða verið fyrir hendi fyrir tilverknað stefnanda og því hafi frétt DV fjallað um atriði sem voru á vitorði fjölmargra.

Af hálfu stefndu er því haldið fram að þeir hafi ekki með frétt í DV rofið friðhelgi einkalífs stefnanda því að hún hafi sjálf gert það með því að láta þau atriði sem fréttin fjallar um komast í hámæli.

Tilvísun stefnanda í lög nr. 77/2000 eigi tæpast við í máli þessu, sbr. ákvæði 3. gr. laganna þar sem vísað sé sérstaklega til gildissviðs laganna.

Tjáningarfrelsið sé verndað skv. 73. gr. stjórnarskrárinnar. Af hálfu stefndu er vísað til þess og einnig til 19. gr. mannréttindayfirlýsingar Sameinuðu þjóðanna og 2. og 3. mgr. 19.gr. Alþjóðasamnings um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi á vegum Sameinuðu þjóðanna sem tók gildi þ. 23.3.1976. Þá er vísað í 10. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994 um mannréttindasáttmála Evrópu.

Tjáningarfrelsið sé ein grundvallarstoð lýðræðisþjóðfélags og undantekningar á tjáningarfrelsi verði ávallt að skýra þröngt og sýna fram á nauðsyn takmarkana með sannfærandi, rökrænum hætti. Bent er sérstaklega á að við setningu laga nr. 97/1995 hafi verið ákveðið að hafa tjáningarfrelsisákvæði íslensku stjórnarskrárinnar rýmra en það sé í 10. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Í því sambandi er bent á greinargerð með frumvarpi því sem varð að lögum nr. 97/1995, sbr. Alþingistíðindi 1994 A bls. 2105.

Af hálfu stefndu er því haldið fram að ekki hafi verið farið út fyrir mörk tjáningarfrelsisins miðað við verndarákvæði 73. gr. stjórnarskrárinnar.

Varðandi gamandálk þann sem vikið sé að í stefnu þar sem m.a. séu taldir upp nokkrir einstaklingar, eins og biskupinn yfir Íslandi, forseti lýðveldisins og fyrrverandi forseti Bandaríkjanna, sé þar augljóst að um grín sé að ræða sem geti ekki skaðað nokkurn aðila í því samhengi sem það er sett fram.

Krafist er sýknu af miskabótakröfu stefnanda á grundvelli 26. gr. laga nr. 50/1993 skaðabótalaga. Því er mótmælt sem röngu að DV hafi gert atlögu að einkalífsréttindum stefnanda um langa hríð en engin gögn liggi fyrir í málinu sem sýni fram á réttmæti þessarar staðhæfingar. Stefndu kannist ekki við að stefnandi hafi beint til þeirra tilmælum um að ekki væri fjallað um stefnanda í DV. Þvert á móti hafi stefnandi gefið ýmis tilefni til að um hana væri fjallað. Stefnandi hafi um langt skeið verið áberandi einstaklingur í þjóðfélaginu og ekki hikað við að tjá skoðanir sínar á mönnum og málefnum og tjá sig um einkamálefni sín iðulega og ítrekað.

Því er mótmælt sem röngu sem fram kemur í stefnu, að stefnandi hafi í DV verið hædd og lítilsvirt, borin röngum sökum og útmáluð sem vargur fyrir alþjóð með skipulegum hætti af eintómri illfýsi stefndu og starfsmanna þeirra. Engin rök séu færð fyrir þessari staðhæfingu og engin gögn lögð fram í málinu sem réttlætt geti þessi ummæli stefnanda í stefnu í garð stefndu eða starfsfólks DV.

Í málatilbúnaði sínum blandi stefnandi saman atriðum sem ekki skipti máli varðandi ákvörðun miskabóta. Þannig sé því haldið fram að miskabætur eigi að ákveða með tilliti til sjónarmiða um varnaðaráhrif gegn frekari ásetningsbrotum, en ákvörðun um fjárhæð miskabóta lúti fyrst og fremst að því að sá sem fær dæmdar bætur fái sanngjarnar bætur á grundvelli þess miska sem viðkomandi hafi orðið fyrir. Almenn þjóðfélagsleg sjónarmið og hagsmunir komi ekki til skoðunar hvað þetta varði.

Miskabótakrafa og fjárhæð hennar sé ekki rökstudd að neinu leyti af hálfu stefnanda. Ekki sé sýnt fram á að stefnandi hafi orðið fyrir miska og þá hvernig og hvenær. Málatilbúnaður stefnanda lúti að frétt DV hinn 26. september 2005 og megi halda því fram að stefnandi hafi ekki orðið fyrir miska vegna fréttarinnar þó einhver annar kunni að hafa beðið álitshnekki af því að vera í sambandi við stefnanda.

Af hálfu stefndu er þess krafist að hafna beri öllum dómkröfum stefnanda. Fjölmiðill hafi skyldum að gegna við lesendur sína. Þegar DV hafi borist upplýsingar, að þeir sem staðið hafi að því að reyna að koma fram ákærum í svonefndu Baugsmáli væru í ákveðnum tengslum, hafi þar verið um frétt að ræða sem átt hafi erindi til almennings í landinu að mati stefndu. Hefði DV, að þeirra mati, ekki gegnt skyldum sínum sem fréttamiðill hefði blaðið stungið þessari frétt undir stól. Tjáningarfrelsisákvæði stjórnarskrárinnar sé til að tryggja að fjölmiðlar geti komið á framfæri öllum fréttum sem máli skipta og geti veitt mikilvægar upplýsingar og haft áhrif á skoðanamyndun í lýðræðisþjóðfélagi. Fréttagildi þeirrar fréttar sem DV birti hafi mikla þýðingu og af hálfu blaðsins hafi verið staðið faglega að öflun upplýsinga og meðferð þeirra.

Af ofangreindum ástæðum öllum beri því að hafna öllum kröfum stefnanda á hendur stefndu.

Stefndu vísa til 71. og 73. gr.  stjórnarskrárinnar nr. 33/1944. Einnig 19. gr. mannréttindayfirlýsingar Sameinuðu þjóðanna og 2. og 3. mgr. 19. gr. Alþjóðasamnings um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi á vegum Sameinuðu þjóðanna sem tók gildi þ. 23. mars 1976. Þá er vísað í 10. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994 um mannréttindasáttmála Evrópu. Vísað er til 25. kafla almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sérstaklega 229 gr. og 237. gr. Vísað er til almennra reglna skaðabótaréttarins og 26. gr. laga nr. 50/1993. Einnig er vísað til 21. kafla laga um meðferð einkamála nr. 91/1991 hvað varðar málskostnað.

 

NIÐURSTAÐA

Samkvæmt 1. mgr. 71. gr. stjórnarskrár sbr. 9. gr. stjórnskipunarlaga nr. 97/1995,  skulu allir njóta friðhelgi einkalífs, heimilis og fjölskyldu. Ekki er um það ágreiningur með aðilum máls þessa að umfjöllun DV umrætt sinn var um einkalíf stefnanda.

Hugtakið friðhelgi einkalífs hefur verið skýrt á þann veg, að í því felist fyrst og fremst réttur til að ráða yfir lífi sínu og líkama og til að njóta friðar um lífshætti sína og einkahagi, og er litið svo á, að tilfinningalíf og tilfinningasambönd við aðra njóti verndar. Einkalíf manna nýtur einnig verndar  samkvæmt ákvæðum 8. gr. samnings um verndun mannréttinda og mannfrelsis, sbr. lög nr. 62/1994, og 17. gr. alþjóðasamnings um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi, sbr. auglýsingu nr. 10/1979.

Í 1. mgr. 73. gr. stjórnarskrár segir að allir séu frjálsir skoðana sinna og sannfæringar. Í 2. mgr. segir að hver maður eigi rétt á að láta í ljós hugsanir sínar, en ábyrgjast verði hann þær fyrir dómi. Ritskoðun og aðrar sambærilegar tálmanir á tjáningarfrelsi má aldrei í lög leiða. Í 3. mgr. segir að tjáningarfrelsi megi aðeins setja skorður með lögum í þágu allsherjarreglu eða öryggis ríkisins, til verndar heilsu eða siðgæði manna eða vegna réttinda eða mannorðs annarra, enda teljist þær nauðsynlegar og samrýmist lýðræðishefðum. Tjáningarfrelsi eru þannig settar skorður með stoð í fyrrgreindri 3. mgr. 73. gr. stjórnarskrárinnar. Fallast verður á að ákvæði 229. gr. laga nr. 19/1940 fullnægi skilyrðum ákvæðisins að því leyti að takmarkanir, sem þar eru gerðar á tjáningarfrelsi, eru settar með lögum vegna réttinda og eftir atvikum mannorðs annarra. Reynir því á hvort skorður, sem ákvæðið myndi setja við tjáningarfrelsi stefndu með því að kröfur stefnanda yrðu teknar til greina, séu nauðsynlegar og samrýmanlegar lýðræðishefðum.

Við ákvörðun á mörkum tjáningarfrelsis verður að líta til þess að vegna lýðræðishefða þarf að tryggja að fram geti farið þjóðfélagsleg umræða. Stefndu halda því fram að nægar ástæður hafi verið fyrir hendi til að réttlæta umfjöllun í DV þar sem í skrifum O hafi málefni tengd kæru um ætlaða refsiverða háttsemi forráðamanna Baugs Group hf. um alllangt skeið borið hátt í opinberri umræðu hér á landi og harðar deilur staðið um þau, meðal annars vegna húsleitar lögreglu hjá félaginu í ágúst 2002 og ákæru á hendur nokkrum fyrirsvarsmönnum þess í júlí 2005. Skrif þess blaðs hafi haft að geyma efni, sem átt hafi erindi til almennings og varðað mál, sem miklar deilur hefðu staðið um í þjóðfélaginu.

Umfjöllun DV um einkalíf stefnanda, sem birtist í blaðinu 26. september 2005, var sértæk og ekki í þeim tengslum við fréttaflutning af svonefndu Baugsmáli að nokkur nauðsyn hafi borið til þess að upplýsa lesendur um samband stefnanda og B umfram það sem þegar hafði komið fram. Verður fallist á með stefnanda að gengið hafi verið nær einkalífi hennar en þörf var á vegna opinberrar umræðu um málefni, sem varðaði almenning. Að því virtu verður lagt til grundvallar að ekki hafi nægar ástæður verið fyrir hendi, sem réttlættu birtingu þeirrar umfjöllunar sem mál þetta er sprottið af. Þá liggur fyrir að stefnandi og B vildu ekki tjá sig um málið við blaðið og verður sú ályktun af því dregin að þau hafi verið mótfallin umfjöllun blaðsins. Þá verður ekki fallist á það, enda þótt stefnandi og B séu kunnar persónur, að stefnandi þurfi að þola nærgöngulli umfjöllun um einkalíf sitt en almennt gerist um fólk og kemur ekkert fram í máli þessu sem rennir stoðum undir það að stefnandi hafi sóst eftir umfjöllun af þessu tagi. Þvert á móti er á því byggt að hún hafi verið henni mótfallin eins og að framan greinir. Sömuleiðis kemur ekkert fram um það að samband stefnanda og Styrmis Gunnarssonar hafi verið almennt kunnugt fólki auk þess að slík vitneskja réttlætir ekki fréttaflutning af því tagi sem hér átti sér stað. Dómari telur að í máli þessu séu ekki í húfi neinir slíkir hagsmunir, sem réttlætt geti að gengið sé svo harkalega á friðhelgi einkalífs eins og hér var gert með fréttaflutningi og umfjöllun blaðs stefndu um stefnanda og einkalíf hennar. Telur dómari sakfellingu stefnda fyrir brot gegn ákvæði 229. gr. laga nr. 19/1940 vera samrýmanlega heimild 3. mgr. 73. gr. stjórnarskrárinnar, svo og ákvæði 2. mgr. 10. gr. samnings um verndun mannréttinda og mannfrelsis, sbr. lög nr. 62/1994, sem er af sama toga og nefnt ákvæði stjórnarskrárinnar.

Samkvæmt þessu er fallist á það með stefnanda að brotið hafi verið gegn ákvæði 229. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 121. gr. laga nr. 82/1998. Stefndu bera ábyrgð á broti þessu skv. 2. mgr. 15. gr. laga nr. 57/1956 um prentrétt og eru því dæmdir til þess hvor um sig að greiða 150.000 krónur í sekt til ríkissjóðs.

Brot stefndu fól í sér ólögmæta meingerð gegn einkalífi stefnanda og verður stefndu gert að greiða stefnanda 500.000 krónur í miskabætur til stefnanda, sbr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, sbr. 13. gr. laga nr. 37/1999. Er hér litið til þess hvernig fjallað var um einkalíf stefnanda í umfjöllun DV 26. september 2005, innihald hennar og hvernig hún var fram sett í máli og myndum.

Eftir úrslitum málsins verða stefndu dæmdir til að greiða stefnanda 400.000 krónur í málskostnað.

Allan V. Magnússon héraðsómari kvað upp dóminn.

 

DÓMSORÐ

Stefndu, Jónas Kristjánsson og Mikael Torfason, greiði hvor um sig 150.000 krónur í sekt til ríkisjóðs.

Stefndu greiði stefnanda, A, 500.000 krónur í miskabætur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 3. mars 2006 til greiðsludags.

Stefndu greiði stefnanda in solidum 400.000 krónur í málskostnað.