Print

Mál nr. 584/2015

Ákæruvaldið (Sigríður J. Friðjónsdóttir ríkissaksóknari)
gegn
Andra Má Ágústssyni (Arnar Þór Stefánsson hrl.)
Lykilorð
  • Ávana- og fíkniefni
  • Fangelsi
  • Refsiheimild
  • Stjórnarskrá
Reifun

A var ákærður fyrir brot gegn 81. gr., sbr. 1. og 4. tölulið 1. mgr. 52. gr., þágildandi laga nr. 49/2005 um fullnustu refsinga og lögum nr. 65/1974 um ávana- og fíkniefni með því að hafa haft í vörslum sínum lyf og fíkniefni sem tilgreind voru í tíu töluliðum og reynt að smygla þeim inn í fangelsið að Litla Hrauni. Var hann sakfelldur samkvæmt tveimur töluliðanna en sýknaður af sakargiftum samkvæmt átta þeirra. Var talið að einskorða yrði 1. tölulið 1. mgr. 52. gr. laga nr. 49/2005 við muni eða efni sem almennt væri refsivert að hafa í vörslum sínum, svo sem þau ávana- og fíkniefni sem talin væru upp í 6. gr. laga nr. 65/1974, en þau lyf sem tilgreind voru í fyrrgreindum átta töluliðum féllu ekki þar undir. Þá væri í 4. tölulið ekki lýst á neinn hátt þeim munum og efnum sem bannað væri að smygla inn í fangelsi, heldur miðað við hluti sem fanga væri óheimilt að hafa í vörslum sínum eða klefa samkvæmt reglum fangelsa nr. 54/2012 sem settar væru af Fangelsismálastofnun á grundvelli 80. gr. laga nr. 49/2005. Var talið að svo víðtækt framsal til stjórnvalds bryti í bága við 1. mgr. 69. gr. stjórnarskrárinnar um skýrleika refsiheimilda. Var refsing A ákveðin sekt að fjárhæð 100.000 krónur að viðlagðri vararefsingu auk þess sem honum var gert að sæta upptöku á nánar tilgreindum fíkniefnum.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Eiríkur Tómasson og Helgi I. Jónsson og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 23. júní 2015. Af hálfu ákæruvaldsins er þess krafist að ákærði verði sakfelldur samkvæmt ákæru að öðru leyti en því að fallið er frá heimfærslu brots hans til 3. töluliðar 1. mgr. 52. gr. laga nr. 49/2005 um fullnustu refsinga. Þá er gerð krafa um að refsing ákærða verði þyngd.

Ákærði krefst staðfestingar héraðsdóms.

Í fyrirmælum 1. mgr. 69. gr. stjórnarskrárinnar um að engum verði gert að sæta refsingu nema hann hafi gerst sekur um háttsemi, sem var refsiverð samkvæmt lögum á þeim tíma þegar hún átti sér stað, felst að heimild til beita mann refsingu verður ekki einungis að styðjast við sett lög, heldur verður hún einnig að vera nægjanlega skýr og fyrirsjáanleg. Í því efni nægir að löggjafinn kveði með almennum hætti á um að háttsemi varði refsingu þótt hann feli síðan stjórnvaldi, til dæmis ráðherra sem æðsta handhafa framkvæmdarvalds, að útfæra regluna nánar í stjórnvaldsfyrirmælum.

Samkvæmt 81. gr. þágildandi laga um fullnustu refsinga, nr. 49/2005, var það lýst refsivert ef maður smyglaði eða reyndi að smygla til fanga munum eða efnum sem getið var í 1. mgr. 52. gr. laganna og hann vissi eða mátti vita að fanga væri óheimilt að hafa í fangelsi. Eftir þeirri málsgrein tók forstöðumaður fangelsis ákvörðun um leit í klefa fanga ef grunur lék á að þar væri að finna muni eða efni sem meðal annars væri refsivert að hafa í vörslum sínum, sbr. 1. tölulið, eða fanga væri óheimilt að hafa í vörslum sínum eða í klefa samkvæmt reglum fangelsis. Við úrlausn um það hvort lýsing 81. gr. á þeirri háttsemi, sem refsing var lögð við, þar sem að hluta var vísað til 1. mgr. 52. gr., hafi fullnægt áðurgreindu skilyrði 1. mgr. 69. gr. stjórnarskrárinnar um skýrleika refsiheimilda verður að skýra síðarnefndu greinina fremur þröngt en rúmt. Í því samhengi verður að einskorða ákvæðið í 1. tölulið við muni eða efni, sem almennt er refsivert að hafa í vörslum sínum, svo sem þau ávana- og fíkniefni sem talin eru upp í 6. gr. laga nr. 65/1974 um ávana- og fíkniefni, sbr. 1. mgr. 2. gr. þeirra laga. Í 4. tölulið var munum og efnum ekki lýst á neinn hátt, heldur miðað við þá hluti, sem fanga var óheimilt að hafa í vörslum sínum eða klefa samkvæmt reglum fangelsis, sbr. 8. gr. reglna fangelsa nr. 54/2012 sem settar voru af Fangelsismálastofnun á grundvelli 80. gr. laga nr. 49/2005. Slík heimild til að setja stjórnvaldsfyrirmæli um þetta efni studdist við það lögmæta sjónarmið að nauðsyn beri til að halda uppi lögum og reglu í fangelsum. Á hinn bóginn braut svo víðtækt framsal til stjórnvalds, þar sem því var falið að setja efnisreglur frá grunni í stað þess að útfæra nánar lýsingu á refsiverðri háttsemi sem mælt var fyrir um í lögum, í bága við grundvallarreglu 1. mgr. 69. gr. stjórnarskrárinnar um skýrleika refsiheimilda.

Með vísan til þess sem að framan greinir verður ákærða ekki refsað fyrir þá háttsemi að hafa ætlað að smygla inn í fangelsið að Litla Hrauni þeim lyfjum sem greind eru í a. til h. lið ákæru á grundvelli 81. gr., sbr. 1. mgr. 52. gr., laga nr. 49/2005. Af þeim sökum verður hann sýknaður af þeim sakargiftum.

Ákvæði hins áfrýjaða dóms um sakfellingu ákærða samkvæmt i. og j. lið ákæru, heimfærslu þeirra brota til refsiákvæða og refsingu ákærða, svo og ákvæði dómsins um upptöku og sakarkostnað, skulu vera óröskuð.

Allur áfrýjunarkostnaður málsins greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, sem ákveðin verða að meðtöldum virðisaukaskatti eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Allur áfrýjunarkostnaður málsins greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun verjanda ákærða, Arnars Þórs Stefánssonar hæstaréttarlögmanns, 496.000 krónur.  

 

Dómur Héraðsdóms Suðurlands 26. maí 2015.

Mál þetta, sem þingfest var og dómtekið fimmtudaginn 21. maí sl., er höfðað með ákæru útgefinni af lögreglustjóranum á Suðurlandi þann 18. mars sl., sem barst dóminum 27. sama mánaðar, á hendur Andra Má Ágústssyni, kt. [...], skráðum til heimilis óstaðsett í hús í Reykjavík,

„fyrir fíkniefnalagabrot og brot á lögum um fullnustu refsinga

með því að hafa síðdegis miðvikudaginn 29. október 2014 í fangelsinu að Litla Hrauni á Eyrarbakka haft í vörslu sinni neðangreind lyf og fíkniefni sem ákærði reyndi að smygla inn í fangelsið á Litla Hrauni í plastumbúðum klemmdum undir pung og á milli rasskinna ákærða, en ákærða var ljóst eða mátti vera ljóst að algjörlega var óheimilt að koma með lyf þau sem greinir frá í liðum a. til h., með þessum hætti inn í fangelsið þar sem fangar mega ekki sjálfir afla sér lyfja.

  1. 19 töflu sem innihéldu virka efnið rabeprazol

  2. 2 töflur sem innihéldu virka efnið quetíapín

  3. 18 töflur sem innihéldu virka efnið levómeprómazín

  4. 1 töflu sem innihélt virka efnið quetíapín

  5. 5 töflur sem innihélt [sic] virka efnið amísúlpríð

  6. 3 töflur sem innihélt [sic] virka efnið clenbúteról

  7. 4 töflur sem innihélt [sic] virka efnið sólifenacín

  8. 1 töflu sem innihélt virka efið [sic] lóperamíð

  9. 1 töflu sem innihélt ávana- og fíkniefnið tramadól sem ákærði hafði vörslur af [sic] án tilskilinnar heimildar

  10. 16 stykki af glærum belgjum sem innihéldu ávana- og fíkniefnin psilocybin og psilocin

    Telst háttsemi ákærða varða við 2. gr., sbr. 5. og 6. gr. laga um ávana- og fíkniefni nr. 65, 1974 með síðari breytingum og 2. gr., sbr. 1. mgr. 14. gr. reglugerðar um ávana- og fíkniefni og önnur eftirlitsskyld efni nr. 233/2001 með síðari breytingum að því er varðar vörslu ákærða á psilocybin og psilocin, 3. gr. sbr. 5. gr. laga um ávana- og fíkniefni nr. 65, 1974 með síðari breytingum, sbr. fylgiskjal I með reglugerð nr. 789/2010 um breytingu á reglugerð nr. 233/2001 að því er varðar heimildarlausar vörslur ákærða á tramadól og 81. gr. laga 49, 2005 um fullnustu refsinga sbr. 1., 3. og 4. tl. 52. gr. sömu laga, sbr. einnig 1. mgr. 8. gr. reglna fangelsa nr. 54/2012 sem birtar voru í B-deild stjórnartíðinda þann 26. janúar 2012.

    Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til að sæta upptöku á framangreindum fíkniefnum (efnaskrá lögreglu nr. 28999) samkvæmt 6. mgr. 5. gr. laga nr. 65, 1974 og 2. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 233/2001 og til greiðslu alls sakarkostnaðar.“

    Ákærði mætti ekki við þingfestingu málsins þrátt fyrir lögmæta birtingu ákæru þann 18. maí sl., ásamt fyrirkalli þar sem þess var getið að málið kynni að verða dæmt að ákærðu fjarstaddri. Málið var því tekið til dóms samkvæmt 161. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.

    Um málavexti vísast til ákæruskjals.

    Ákærða er meðal annars gefið að sök brot gegn 81. gr., sbr. 3. og 4. tl. laga nr. 49/2005, sbr. og reglna fangelsa nr. 54/2012, með því að hafa reynt að smygla inn í fangelsi lyfjum þeim sem tilgreind eru í a. – h. liðum ákæru, en ákærða hafi verið eða mátt vera ljóst að óheimilt væri að koma með, þar sem fangar megi ekki sjálfir afla sér lyfja.

    Samkvæmt 1. mgr. 69. gr. stjórnarskrárinnar verður engum gert að sæta refsingu nema hann hafi gerst sekur um háttsemi sem var refsiverð samkvæmt lögum á þeim tíma er hún átti sér stað eða má fullkomlega jafna til slíkrar háttsemi, sbr. og 1. mgr. 1. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og 1. mgr. 7. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sem lögfestur var hér á landi með lögum nr. 62/1994. Regla þessi girðir þó ekki fyrir að löggjafinn geti með lögum heimilað stjórnvöldum að mæla fyrir um, í almennum stjórnvaldsfyrirmælum, hvaða háttsemi er refsiverð. Þó leiðir af reglunni að löggjafinn verður í meginatriðum að lýsa því í lögum sem varðar getur refsingu, svo stjórnvöldum verði heimilað að setja reglur þar að lútandi.

    Í 81. gr. laga nr. 49/2005 segir að „[s]á sem smyglar eða reynir að smygla til fanga munum eða efnum sem getið er í 1. mgr. 52. gr. og hann veit eða má vita að fanga er óheimilt að hafa í fangelsi skal sæta sektum eða fangelsi allt að sex mánuðum nema þyngri refsing liggi við samkvæmt öðrum lögum.“ Í ákvæði 52. gr. laganna, sem fjallar um leit í klefa, er kveðið á um það í 1. mgr. greinarinnar, að forstöðumaður fangelsis taki ákvörðun um leit í klefa fanga, ef grunur leikur á um að þar sé að finna muni eða efni sem tilgreind eru í töluliðum ákvæðisins. Ákvæði 3. tl. greinarinnar varðar muni eða efni sem „smyglað hefur verið inn í fangelsið“ og 4. tl. muni eða efni sem „fanga er óheimilt að hafa í vörslum sínum eða í klefa samkvæmt reglum fangelsis.”

    Í 3. tl. 52. gr. er þannig kveðið á um að fanga sé óheimilt hafa í vörslum sínum hluti sem smyglað hefur verið inn í fangelsið, en fyrir liggur að nefndum töflum hafði ekki verið smyglað inn í fangelsið áður en ákærði kom með þær og verður því þegar af þeirri ástæðu ekki talið að ákærði hafi gerst brotlegur samkvæmt ákvæðinu. 

    Í 4. tl. 52. gr. er vísað til muna sem fanga er óheimilt að hafa í vörslum sínum eða klefa samkvæmt reglum fangelsis. Í reglum fangelsa nr. 54/2012, sem settar voru af Fangelsismálastofnun ríkisins 10. janúar 2012, kemur fram í 1. mgr. 8. gr. að fanga sé óheimilt að afla sér, veita viðtöku eða aðstoða aðra fanga við að komast yfir hvað eina sem bannað sé að nota í fangelsinu svo sem m.a. lyf önnur en þau sem ávísað sé af fangelsislæknum og taka beri á lyfjatíma. Rétt er að taka fram að reglurnar gilda um fanga, en ekki er sérstaklega í þeim getið um þá er heimsækja fangelsið. Efnisinnihald ákvæðis 4. tl. 52. gr. laga nr. 49/2005 ræðst þannig af umræddum reglum fangelsa, sem aftur ræður efnisinnihaldi 81. gr. laganna.

    Ljóst er að hvorki er í ákvæði 81. gr. laganna, né í 3. eða 4. tl. 1. mgr. 52. gr. þeirra efnisregla um að refsivert sé að smygla inn í fangelsi lyfjum. Þannig vísar 81. gr. laganna efnislega um það sem bannað er að smygla í fangelsið til 1. mgr. 52. gr. Ákvæði 3. tl. þeirrar greinar vísar í raun aftur til 81. gr. laganna, enda varðar ákvæðið það sem smyglað hefur verið inn í fangelsi, en ákvæði 4. tl. greinarinnar vísar um efni sitt til reglna nr. 54/2012 um fangelsi. Að öllu framangreindu virtu er það álit dómsins að umrædd ákvæði og reglur þær er ákærða er gefið að sök að hafa brotið gegn, með því að reyna að smygla ofangreindum lyfjum í fangelsið séu ekki nægilega skýrar, enda sé í lögum hvergi að finna efnisreglu sem fjalli um verknaðarlýsingu á því broti sem ákærði er sakaður um. Þannig skorti lagastoð fyrir því að ákærði hafi unnið sér til refsingar með umræddri háttsemi sinni og verður því að sýkna hann af broti því er varðar smygl á lyfjum þeim er tilgreind eru í a. – h. lið ákæru. Að öðru leyti telst sannað að ákærði hefur gerst sekur um þá háttsemi sem honum er gefin að sök í ákæru og þar þykir að öðru leyti rétt færð til refsiákvæða, þ.e. er varðar brot gegn 2. gr., sbr. 5. og 6. gr. og. 3. gr. sbr. 5. gr. laga nr. 65/1974 um ávana- og fíkniefni, sem og brot gegn 81. gr., sbr. 1. tl. 52. gr. laga nr. 49/2005 um fullnustu refsinga. Hefur ákærði með háttsemi þeirri unnið sér til refsingar.

    Samkvæmt framlögðu sakavottorði hefur ákærði fjórum sinnum áður sætt refsingu. Þann 2. ágúst 2013 var ákærða gerð sekt vegna brota gegn umferðarlögum nr. 50/1987. Þann 23. maí 2014 var ákærða gert að sæta skilorðsbundnu fangelsi, vegna brota gegn ákvæðum laga nr. 65/1974 um ávana- og fíkniefni, sem og umferðarlaga nr. 50/1987. Þann 1. október 2014 gerði ákærði tvær sáttir við lögreglustjóra, vegna brota gegn ákvæðum laga nr. 65/1974 um ávana- og fíkniefni, og vopnalaga nr. 16/1998.

    Refsing ákærða er hæfilega ákveðin 100.000 krónur í sekt til ríkissjóðs, sem ákærða ber að greiða innan fjögurra vikna frá uppkvaðningu dóms þessa en sæta ella fangelsi í 8 daga.

    Með vísan til 6. mgr. 5. gr. laga nr. 65/1974 og 2. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 233/2001, eru gerð upptæk framangreind fíkniefni líkt og greinir í dómsorði.

    Sakarkostnaður nemur samkvæmt yfirliti lögreglu samtals 222.589 kr. Með vísan til 218. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, ber að dæma ákærða til greiðslu hluta sakarkostnaðar, er nemur 44.518 kr. Að öðru leyti greiðist sakarkostnaður úr ríkissjóði.

    Sólveig Ingadóttir, löglærður aðstoðarmaður dómara, kveður upp dóm þennan.

    D ó m s o r ð :

    Ákærði, Andri Már Ágústsson, er sýkn af broti því er varðar tilraun til smygls á lyfjum inn í fangelsið að Litla Hrauni, sbr. a. – h. lið ákæru.

    Ákærði greiði 100.000 krónur í sekt til ríkissjóðs innan fjögurra vikna frá uppkvaðningu dóms þessa en sæti ella fangelsi í 8 daga.

    Gerð er upptæk 1 lyfjatafla er innihélt tramadól og 16 stykki af glærum belgjum er innihéldu psiocybin og psilocin, sbr. efnaskrá lögreglu nr. 28999.

    Ákærði greiði sakarkostnað, er nemur 44.518 krónum.