Print

Mál nr. 420/2005

Lykilorð
  • Kærumál
  • Ákæra
  • Frávísun frá héraðsdómi að hluta

Mánudaginn 10

 

Mánudaginn 10. október 2005.

Nr. 420/2005.

Ákæruvaldið

(Jón H. Snorrason saksóknari)

gegn

Jóni Ásgeiri Jóhannessyni

(Gestur Jónsson hrl.)

Jóhannesi Jónssyni

(Einar Þór Sverrisson hdl.)

Kristínu Jóhannesdóttur

(Kristín Edwald hrl.)

Tryggva Jónssyni

(Jakob R. Möller hrl.)

Stefáni Hilmari Hilmarssyni og

Önnu Þórðardóttur

(Þórunn Guðmundsdóttir hrl.)

 

Kærumál. Ákæra. Frávísun máls að hluta frá héraðsdómi.

Opinbert mál var höfðað á hendur sex einstaklingum vegna ætlaðra brota þeirra á almennum hegningarlögum, lögum um hlutafélög, lögum um ársreikninga, lögum um bókhald og tollalögum, sem þeir áttu að hafa framið sem stjórnendur B hf. og endurskoðendur félagsins. Var ákæra í málinu í 40 tölusettum liðum. Héraðsdómur vísaði málinu í heild frá dómi vegna ágalla á ákæru. Talið var að vísa yrði frá dómi ákæruliðum 1-32 á þeim grundvelli meðal annars að ýmist væri verknaðarlýsingu í ákæru ábótavant eða að heimfærsla til refsiákvæða eða tilgreining ætlaðs brots væri ekki í samræmi við verknaðarlýsingu og jafnvel í mótsögn við hana. Þá þótti í mörgum tilvikum ekki skýrt í hverju þátttaka hvers og eins hinna ákærðu í hinum ætluðu brotum átti að felast,  auk þess sem verulega þótti skorta á skýrleika í framsetningu ákæru að öðru leyti. Varðandi ákæruliði 33-36 var talið að málatilbúnaður ákæruvaldsins væri óskýr en ekki í þeim mæli að ekki yrði felldur efnisdómur á málið. Þá voru engir þeir annmarkar taldir á ákæruliðum 37-40 að varðaði frávísun. Var því lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar varðandi ákæruliði 33-40.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Garðar Gíslason, Guðrún Erlendsdóttir, Gunnlaugur Claessen og Ingibjörg Benediktsdóttir.

Ríkislögreglustjóri skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 22. september 2005, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum sama dag. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 20. september 2005, þar sem máli ákæruvaldsins á hendur varnaraðilum var vísað frá dómi. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Af hálfu ákæruvaldsins er þess krafist að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar.

Varnaraðilar hafa sameiginlega skilað skriflegum athugasemdum til Hæstaréttar. Þar eru ekki gerðar dómkröfur, en á hinn bóginn tekið fram að þau geri „ekki athugasemdir við að Hæstiréttur staðfesti frávísunarúrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur.“

I.

Ríkislögreglustjóri höfðaði mál þetta gegn varnaraðilum með ákæru 1. júlí 2005. Í upphafi hennar er greint frá nöfnum varnaraðila, kennitölum þeirra og heimilisföngum, en síðan segir: „Ákærðu, Jóni Ásgeiri, sem gegndi starfi forstjóra Baugs hf. frá 7. júlí 1998 til 3. júní 2002 og starfi stjórnarformanns hlutafélagsins frá 3. júní 2002, Tryggva, sem gegndi starfi aðstoðarforstjóra Baugs hf. frá 7. júlí 1998 til 3. júní 2002 og starfi forstjóra hlutafélagsins frá 3. júní 2002, Jóhannesi, sem var stjórnarmaður Baugs hf. og starfsmaður félagsins frá 7. júlí 1998, Kristínu, sem var framkvæmdastjóri Fjárfestingarfélagsins Gaums ehf., [kt.], frá 27. ágúst 1999 og varastjórnarmaður Baugs hf. frá 26. apríl 2000, Stefáni Hilmari, sem var löggiltur endurskoðandi Baugs hf. frá 7. júlí 1998, Önnu, sem var löggiltur endurskoðandi Baugs hf. frá og með árinu 2000, eru gefin að sök brot á eftirtöldum lagaákvæðum almennra hegningarlaga, laga um bókhald, ársreikninga og hlutafélög, samkvæmt málavaxtalýsingum sem hér fara á eftir og rakið er í hverju tilviki fyrir sig.“ Sakargiftir eru síðan reifaðar í 40 liðum, sem skipað er í átta kafla ákærunnar.

Málið var þingfest í héraðsdómi 17. ágúst 2005 og neituðu allir varnaraðilar sök. Var þá ákveðið að taka það fyrir á ný í þinghaldi 20. október 2005 til að undirbúa aðalmeðferð. Áður en til þess kom beindi héraðsdómur því bréflega 26. ágúst 2005 til ríkislögreglustjóra og verjenda varnaraðila að slíkir annmarkar kynnu að vera á ákæru, sem ekki yrði bætt úr undir rekstri málsins, að ekki yrði kveðinn upp dómur um efni þess. Var málið tekið fyrir af þessum sökum í þinghaldi 13. september 2005, þar sem aðilarnir reifuðu sjónarmið sín um þetta efni. Málinu var síðan vísað í heild frá dómi með hinum kærða úrskurði 20. sama mánaðar.

II.

Samkvæmt c. lið 1. mgr. 116. gr. laga nr. 19/1991 skal meðal annars greina í ákæru hvert brotið sé, sem ákært er út af, hvar og hvenær það er talið framið, heiti þess að lögum og önnur skilgreining og loks heimfærsla þess til laga og stjórnvaldsfyrirmæla ef því er að skipta. Til að fullnægja því, sem áskilið er í þessu ákvæði, verður verknaðarlýsing í ákæru að vera það greinargóð og skýr að ákærði geti ráðið af henni hvaða refsiverð háttsemi honum er gefin að sök og hvaða refsilagaákvæði hann er talinn hafa brotið, án þess að slík tvímæli geti verið um það að með réttu verði honum ekki talið fært að taka afstöðu til sakargifta og halda uppi vörnum gegn þeim. Verður ákærði að geta ráðið þetta af ákærunni einni og breytir þá engu hvort honum megi vegna rannsóknar málsins vera ljósar sakargiftirnar, ef þeim eru ekki gerð fullnægjandi skil í ákæru. Ákæra verður og að vera það skýr að þessu leyti að dómara sé fært af henni einni að gera sér grein fyrir því um hvað ákærði sé sakaður og hvernig telja megi þá háttsemi refsiverða. Í þessum efnum verður ákæra að leggja fullnægjandi grundvöll að máli, þannig að fella megi dóm á það samkvæmt því, sem í henni segir, enda verður ákærði ekki dæmdur fyrir aðra hegðun en þá, sem í ákæru greinir, sbr. 1. mgr. 117. gr. laga nr. 19/1991.

III.

Í I. kafla ákæru eru varnaraðilarnir Jón Ásgeir, Tryggvi, Jóhannes og Kristín sökuð um fjárdrátt, eins og nánar greinir í 1. til 4. lið ákærunnar. Ákæruliðir þessir eru svohljóðandi:

„1. Ákærðu Jóni Ásgeiri og Tryggva með því að hafa dregið sér og öðrum samtals kr. 40.073.196,54, á tímabilinu frá 30. apríl 1999 til 11. júní 2002, þegar þeir létu, með vitund og liðsinni meðákærðu Jóhannesar og Kristínar, Baug hf. greiða 34 reikninga sem voru gefnir út af félaginu Nordica Inc. á hendur Baugi hf., samkvæmt fyrirmælum ákærðu Jóns Ásgeirs og Tryggva, vegna afborgana af lánum, rekstrarkostnaði og öðrum tilfallandi kostnaði sem tilheyrði skemmtibátnum „Thee Viking“ sem var Baugi hf. óviðkomandi. Bát þennan höfðu ákærðu Jón Ásgeir og Jóhannes keypt í félagi við Jón Gerald Sullenberger, eiganda Nordica Inc., í Miami í Flórída í Bandaríkjunum, þar sem báturinn var staðsettur og skráður sem eign félags í eigu Jóns Geralds Sullenberger, New Viking Inc., skrásettu í Delaware í Bandaríkjunum.“ Umræddum 34 reikningum er síðan lýst í ákærunni með því að greina frá dagsetningu þeirra, númeri, texta, erlendri fjárhæð, sem sögð er nema samtals 453.117,20 bandaríkjadölum, greiðsludegi og greiddri fjárhæð í innlendri mynt að meðtöldum bankakostnaði.

„2. Ákærðu Jóni Ásgeiri og Jóhannesi með því að hafa dregið sér samtals kr. 441.254,00 á tímabilinu frá 19. apríl 1999 til 17. desember 2002, þegar ákærðu létu Baug hf. greiða til SPRON í eftirtöldum 17 greiðslum þóknun vegna bankaábyrgðar sem ákærðu höfðu stofnað til og var Baugi hf. óviðkomandi, í tengslum við kaup ákærðu og Jóns Geralds Sullenberger á skemmtibát samkvæmt 7. tölulið II. kafla ákæru hér á eftir ...“. Greiðslurnar sautján eru síðan taldar upp með tilgreiningu dagsetninga á tímabilinu frá 27. janúar 1999 til 19. desember 2002 og fjárhæðar í hverju tilviki. Varðandi fimmtán greiðslur eru þessu til viðbótar tiltekin „tímabil“, sem næst þrír mánuðir í senn frá 18. janúar 1999 til 15. október 2002, en í tveimur tilvikum eru greiðslurnar sagðar stafa af nánar tilteknum kostnaði.

„3. Ákærða Tryggva með því að hafa dregið sér samtals kr. 1.315.861,27 á tímabilinu frá 11. janúar 2000 til 12. febrúar 2002, þegar ákærði lét Baug hf. greiða í 13 skipti reikninga sem gefnir voru út í nafni félagsins Nordica Inc. í Bandaríkjunum á hendur Baugi hf., sem voru útgjöld Baugi hf. óviðkomandi. Til útgjaldanna hafði ákærði stofnað til í útlöndum með úttektum á American Express greiðslukorti í reikning hins bandaríska félags, Nordica Inc., sem hið bandaríska félag lagði út fyrir og innheimti síðan sem ferðakostnað hjá Baugi hf., samkvæmt fyrirmælum ákærða ...“. Þeir þrettán reikningar, sem hér um ræðir, eru síðan taldir upp í ákærunni og tiltekin þar dagsetning þeirra, númer, texti, erlend fjárhæð, sem sögð er nema samtals 14.354 bandaríkjadölum, dagsetning greiðslu og heildarfjárhæð hennar í innlendri mynt að meðtöldum bankakostnaði.

„4. Ákærða Tryggva með því að hafa dregið sér samtals kr. 99.605,00 hinn 17. maí 2001, þegar ákærði lét Baug hf. greiða Tollstjóranum í Reykjavík eftirgreind aðflutningsgjöld; virðisaukaskatt kr. 72.479,00, vörugjald kr. 26.087,00 og toll kr. 1.039,00, samtals kr. 99.605,00, þegar hann lét Baug hf., flytja til landsins og tollafgreiða sláttuvélatraktor af gerðinni Craftsmann, sem ákærði hafði keypt til eigin nota í Bandaríkjunum, ásamt fylgihlutum, fyrir samtals USD 2.702,97, samkvæmt vörureikningi útgefnum af Nordica Inc., Miami, Flórída í Bandaríkjunum, dags. 4. apríl 2001 á Baug-Aðföng hf.“

Í lok þessa kafla ákæru er tiltekið að ætluð brot varnaraðilans Jóns Ásgeirs samkvæmt 1. og 2. lið hennar teljist varða við 247. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, varnaraðilans Tryggva samkvæmt 1., 3. og 4. lið við sama lagaákvæði og varnaraðilans Jóhannesar samkvæmt 2. lið einnig við sama lagaákvæði, en samkvæmt 1. lið við 247. gr., sbr. 22. gr. laganna. Loks er háttsemi varnaraðilans Kristínar samkvæmt 1. lið talin varða við síðastnefndu lagaákvæðin.

Í framangreindum 1. lið ákærunnar er varnaraðilunum Jóni Ásgeiri og Tryggva gefið að sök að hafa dregið sér „og öðrum“ þargreinda fjárhæð með því að láta Baug hf. greiða alls 34 reikninga, sem hafi verið félaginu óviðkomandi. Ekki er þess getið skýrlega hvernig þessir varnaraðilar hafi sjálfir átt að hafa haft hag af þessum greiðslum eða hvort það hafi verið aðrir og þá hverjir. Verður því ekki ráðið af verknaðarlýsingu í ákærunni hvernig talið sé að varnaraðilarnir hafi auðgast af þessari háttsemi, svo að heimfæra mætti hana til 247. gr. almennra hegningarlaga, sbr. 243. gr. sömu laga. Eftir hljóðan ákærunnar virðist sem þessir varnaraðilar hafi í öllum umræddum tilvikum átt að hafa sameiginlega gefið fyrirmæli um greiðslur, en ekki er skýrt frekar hvernig það var gert. Þá er ekki greint frá því hvernig þessar greiðslur voru teknar eða þær færðar í bókhaldi félagsins. Að engu leyti er tiltekið í hverju ætlað liðsinni varnaraðilanna Jóhannesar og Kristínar, sem sökuð eru um hlutdeild í brotum samkvæmt þessum lið, eigi að hafa verið fólgið. Sérstök ástæða var þó til að taka af tvímæli um þetta þegar þess er gætt að í ákærunni kemur fram að sá fyrrnefndi var á umræddu tímabili stjórnarmaður og starfsmaður hjá Baugi hf., en sú síðarnefnda varamaður í stjórn hluta þessa tímabils.

Með 2. lið ákærunnar eru varnaraðilarnir Jón Ásgeir og Jóhannes sakaðir um að hafa dregið sér tiltekna fjárhæð með því að hafa látið Baug hf. í sautján tilvikum greiða Sparisjóði Reykjavíkur og nágrennis þóknun og annan kostnað vegna bankaábyrgðar, sem þeir hafi stofnað til og verið hafi félaginu óviðkomandi. Varnaraðilunum er í verknaðarlýsingu gefið að sök að hafa drýgt þessi brot á tímabilinu frá 19. apríl 1999 til 17. desember 2002, en samkvæmt upptalningu á greiðslunum, sem fram kemur í þessum lið ákærunnar, virðist sú fyrsta hafa verið innt af hendi 27. janúar 1999 og sú síðasta 19. desember 2002. Ekki er tilgreint í ákærunni hvernig ákærðu „létu“ félagið inna þessar greiðslur af hendi eða stóðu að því í sameiningu, en til þess verður að líta í þessu sambandi að samkvæmt því, sem fram kemur í upphafi ákærunnar, verður ekki án frekari skýringa séð hvernig varnaraðilinn Jóhannes hafi starfa sinna vegna átt að vera í stöðu til að gera slíkt. Í verknaðarlýsingu segir enn fremur að greiðslurnar hafi verið vegna bankaábyrgðar, sem þessir varnaraðilar hafi stofnað til, svo og að það hafi verið gert í tengslum við kaup þeirra og nafngreinds manns á skemmtibáti, sem um ræði í 7. lið ákærunnar. Af þeim ákærulið verður ekki annað ráðið en að Bónus sf. hafi aflað þessarar bankaábyrgðar á árinu 1996, en eins og nánar segir hér síðar er ekki greint frá því í ákærunni hver séu tengsl þessara varnaraðila við það sameignarfélag. Eins og síðar verður vikið að eru auk þess aðrir annmarkar á 7. lið ákærunnar, sem valda því að efnisdómur verður ekki felldur á hann. Sakargiftir samkvæmt 2. lið ákærunnar standa í slíkum tengslum við 7. lið hennar að efnisdómur verður þegar af þeirri ástæðu heldur ekki felldur á þann fyrrnefnda. Þá er þess ekki getið í ákærunni hvernig greiðslur samkvæmt 2. lið hennar voru teknar eða þær bókfærðar hjá Baugi hf.

Í 3. og 4. lið ákærunnar er varnaraðilanum Tryggva gefið að sök að hafa dregið sér fé frá Baugi hf. með því að hafa látið félagið greiða tiltekna reikninga og önnur útgjöld, sem því hafi verið óviðkomandi og honum á tilgreindan hátt til hagsbóta. Ekki er þess getið nánar í ákærunni hvernig þessar greiðslur hafi verið teknar eða þær færðar í bókum félagsins, sem skiptir máli við mat á því hvort um fjárdrátt hafi verið að ræða.

Vegna þeirra annmarka á ákærunni, sem að framan greinir, verður að vísa málinu frá héraðsdómi að því er varðar 1. til 4. lið hennar.

IV.

Í II. kafla ákæru eru varnaraðilarnir Jón Ásgeir, Tryggvi og Jóhannes sakaðir um umboðssvik með því að hafa misnotað aðstöðu sína hjá Baugi hf. á þann hátt, sem nánar greinir í 5. til 7. lið ákærunnar. Þessir liðir eru svohljóðandi:

„5. Ákærðu Jóni Ásgeiri og Tryggva með því að hafa blekkt og misnotað aðstöðu sína sem forstjóri og aðstoðarforstjóri Baugs hf. þegar þeir fengu, með vitund ákærða Jóhannesar sem stjórnarmanns, stjórn þess á stjórnarfundi hinn 20. maí 1999 til þess að heimila ákærða Jóni Ásgeiri að ganga til samninga og að kaupa 70% hlutafjár í Vöruveltunni hf. Á stjórnarfundinum leyndu ákærðu stjórn hlutafélagsins því að ákærði Jón Ásgeir var þá sjálfur umráðandi 70% hlutafjár og átti stærsta hluta þess og var raunverulegur stjórnandi Vöruveltunnar hf., frá því að hann gerði hinn 7. október 1998 bindandi samning um kaup á öllu hlutafé í Vöruveltunni hf., að nafnverði kr. 4.600.000,00 fyrir kr. 1.150.000.000,00 og með viðbótargreiðslu að fjárhæð kr. 100.000.000,00 samkvæmt viðbótarsamningi ákærða við seljendur sem dagsettur er hinn 5. júní 1999. Baugur hf. eignaðist með viðskiptunum á árinu 1999 70% hlutafjár í Vöruveltunni hf. sem ákærði Jón Ásgeir átti að meginhluta og réði yfir, fyrir kr. 1.037.000.000,00.

6. Ákærðu Jóni Ásgeiri og Tryggva með því að hafa misnotað aðstöðu sína, Jón Ásgeir sem forstjóri Baugs hf. og Tryggvi sem aðstoðarforstjóri Baugs hf. og stjórnarformaður Fasteignafélagsins Stoða hf., dótturfélags Baugs hf., þegar Fasteignafélagið Stoðir hf. keyptu fasteignir að Suðurlandsbraut 48, Laugalæk 2, Sporhömrum 3, Langarima 21-23 og Efstalandi 26 í Reykjavík, af Litla fasteignafélaginu ehf., fyrir kr. 354.000.000,00, en í árslok 1998 höfðu ákærðu selt Litla fasteignafélaginu ehf. eignirnar frá Vöruveltunni hf. fyrir kr. 217.000.000,00 með því að einkahlutafélagið yfirtók skuldir Vöruveltunnar hf., auk greiðslu.

7. Ákærðu Jóni Ásgeiri og Jóhannesi með því að hafa hinn 30. nóvember 1998, við yfirtöku Baugs hf. á Bónus sf., [kt.], misnotað aðstöðu sína hjá Baugi hf., til þess að binda það við erlenda bankaábyrgð í SPRON, að andvirði kr. 12.219.990,00, sem var óviðkomandi rekstri Bónus sf., en til ábyrgðarinnar höfðu ákærðu stofnað í nafni sameignarfélagsins hinn 17. júlí 1996, vegna lántöku í nafni bandaríska félagsins Nordica Inc. hjá Ready State Bank, Hialeah í Flórída í Bandaríkjunum, að fjárhæð USD 135.000. Ábyrgðin var stofnuð vegna kaupa ákærðu, í félagi við eiganda hins bandaríska félags, Jón Gerald Sullenberger, samkvæmt sölureikningi dagsettum hinn 16. ágúst 1996, á 37 feta skemmtibát af gerðinni Sea Ray Sundancer sem fékk nafnið „Icelandic Viking“, en með þessu varð Baugur hf., síðar Baugur Group hf., bundið við ábyrgðina sem gjaldféll á hlutafélagið hinn 17. október 2002.“

Í lok þessa kafla ákæru er tiltekið að ætluð brot varnaraðilans Jóns Ásgeirs samkvæmt 5., 6. og 7. lið hennar teljist varða við 249. gr. almennra hegningarlaga og varnaraðilans Jóhannesar samkvæmt 7. lið við sama lagaákvæði, en ætluð brot varnaraðilans Jóhannesar samkvæmt 5. lið og varnaraðilans Tryggva samkvæmt 5. og 6. lið við 249. gr., sbr. 22. gr. laganna.

Af áðurgreindu orðalagi 5. liðar ákærunnar verður ekki annað ráðið en að sökum, sem þar er getið, sé beint jöfnum höndum að varnaraðilunum Jóni Ásgeiri og Tryggva, en í niðurlagi II. kafla hennar kemur þó fram að ætlað brot þess fyrrnefnda sé heimfært til 249. gr. almennra hegningarlaga og þess síðarnefnda talið hlutdeild í því. Þá er varnaraðilinn Jóhannes jafnframt borinn sökum í þessum ákærulið um sams konar hlutdeildarbrot, en ætluðum verknaði hans er þó lýst á ófullnægjandi hátt. Af verknaðarlýsingu virðist mega ráða að varnaraðilinn Jón Ásgeir sé talinn hafa orðið „umráðandi“ 70% hlutafjár í Vöruveltunni hf. og átt „stærsta hluta þess“ í október 1998 eftir að hafa gert samning um „kaup á öllu hlutafé“ í félaginu, en ásamt „ákærðu“, sem þó er ekki getið nánar, leynt þessu fyrir stjórn Baugs hf. og fengið heimild hennar í maí 1999 til að kaupa handa félaginu 70% hlutafjár í Vöruveltunni hf., sem síðan hafi verið gert. Verknaðarlýsing í þessum lið ákæru er ruglingsleg og vart unnt að draga af henni og fjárhæðunum, sem þar koma fram, haldbærar ályktanir um hvort því sé haldið fram að varnaraðilinn Jón Ásgeir hafi auðgast af þessari háttsemi eða hún leitt til tjóns eða hættu á tjóni fyrir Baug hf., þannig að varðað gæti við 249. gr. almennra hegningarlaga.

Í 6. lið ákæru er varnaraðilunum Jóni Ásgeiri sem forstjóra Baugs hf. og Tryggva sem aðstoðarforstjóra félagsins og stjórnarformanni Fasteignafélagsins Stoða hf., sem sagt er vera dótturfélag Baugs hf., gefið að sök að hafa misnotað aðstöðu sína þegar dótturfélag þetta keypti tilteknar fasteignir á ótilgreindum tíma af Litla fasteignafélaginu ehf. fyrir 354.000.000 krónur, en í árslok 1998 hafi sömu varnaraðilar selt síðastnefnda félaginu þessar fasteignir frá Vöruveltunni hf. fyrir 217.000.000 krónur. Samkvæmt upphafsorðum II. kafla ákærunnar, sem þessi liður hennar heyrir til, varðar hann ætluð umboðssvik varnaraðilanna Jóns Ásgeirs, Tryggva og Jóhannesar, sem þeir hafi gerst sekir um með því að misnota aðstöðu sína hjá Baugi hf. Eftir verknaðarlýsingunni í þessum lið ákæru verður ekki annað séð en að ætluð misnotkun tveggja fyrstnefndu varnaraðilanna á þeirri aðstöðu eigi í þessu tilviki að hafa verið fólgin í því að annað félag, Fasteignafélagið Stoðir hf., sem ekki verður séð af ákæru hvort varnaraðilinn Jón Ásgeir hafi starfað fyrir, hafi keypt fasteignir af Litla fasteignafélaginu ehf., sem engan veginn verður séð hvort tengist varnaraðilunum, á hærra verði en þeir hafi látið Vöruveltuna hf. selja Litla fasteignafélaginu ehf. þær fyrir. Hvorki verður ráðið af þessum lið né 5. lið ákærunnar hvernig varnaraðilarnir Jón Ásgeir og Tryggvi hafi verið bærir til að ráðstafa eigum Vöruveltunnar hf. Ógerlegt er að álykta af þessu hvernig umræddir varnaraðilar séu taldir hafa auðgast af þessari háttsemi, bakað Baugi hf. tjón eða valdið hættu á því. Þá er verknaði varnaraðilans Tryggva lýst eins og hann sé aðalmaður í ætluðu broti ásamt varnaraðilanum Jóni Ásgeiri, en háttsemi þess fyrrnefnda er þó allt að einu heimfærð í niðurlagi þessa kafla ákærunnar til refsiákvæða eins og um hlutdeildarbrot sé að ræða.

Í 7. lið ákærunnar er varnaraðilunum Jóni Ásgeiri og Jóhannesi gefið að sök að hafa í nóvember 1998 við „yfirtöku Baugs hf. á Bónus sf.“ misnotað aðstöðu sína hjá fyrrnefnda félaginu með því að „binda það við erlenda bankaábyrgð“ hjá Sparisjóði Reykjavíkur og nágrennis, sem hafi verið óviðkomandi rekstri sameignarfélagsins, en til hennar hafi verið stofnað af félaginu í júlí 1996 í tengslum við kaup varnaraðilanna og nafngreinds manns á skemmtibáti. Með þessu hafi Baugur hf. og síðar Baugur Group hf. orðið bundið af ábyrgðinni, sem hafi fallið á félagið í október 2002. Af þessu virðist mega ráða að Bónus sf., sem hvergi er skýrt í ákærunni hvernig tengt sé varnaraðilum, hafi aflað ábyrgðar fyrrnefnds sparisjóðs vegna skuldbindingar erlends félags, sem ekki hafi komið rekstri sameignarfélagsins við, heldur tengst tilteknum persónulegum viðskiptum varnaraðilanna. Þeim er ekki gefið að sök að hafa brotið gegn sameignarfélaginu. Þess er í engu getið hvernig félagið hafi orðið skuldbundið í tengslum við þetta, þótt svo virðist sem það hafi átt þátt í því að útvega bankaábyrgð hér á landi fyrir skuld erlends félags. Af ákærunni verður ekki ráðið hvort eða hvernig hugsanleg viðskipti í tengslum við þetta kunni að hafa verið bókfærð hjá sameignarfélaginu eða hvaða skuldbinding hafi færst á hendur Baugs hf. við „yfirtöku“, sem svo er nefnd án frekari skýringa, á fyrrnefnda félaginu. Þótt ætla megi af niðurlagi þessa ákæruliðar að einhver óútskýrð skuldbinding, sem tengist framangreindu, hafi í október 2002 fallið annaðhvort á Baug hf. eða Baug Group hf., verður ekkert ráðið af ákærunni um hvernig varnaraðilarnir eru taldir hafa auðgast með þessu, bakað Baugi hf. tjón eða valdið hættu á slíku tjóni, enda í engu getið hver afdrif skuldbindingarinnar hafi orðið.

Að virtu öllu framangreindu verður málinu vísað frá héraðsdómi að því er varðar 5. til 7. lið ákæru.

V.

Í III. kafla ákæru er varnaraðilanum Jóni Ásgeiri gefinn að sök „fjárdráttur og/eða umboðssvik“, eins og nánar greinir í 8. og 9. lið hennar, en þeir eru svohljóðandi:

„8. Með því að hafa hinn 8. október 1998 látið millifæra af bankareikningi, númer 1151 26 000156, í eigu Baugs-Aðfanga ehf., dótturfélags Baugs hf., kr. 200.000.000,00 inn á bankareikning í eigu SPRON, númer 1151 26 009999, þar sem ákærði fékk útgefna bankaávísun sömu fjárhæðar, á nafn Helgu Gísladóttur. Ákærði afhenti eða lét afhenda Eiríki Sigurðssyni, sambýlismanni Helgu, eiganda alls hlutafjár í Vöruveltunni hf., bankaávísun þessa til greiðslu samkvæmt kaupsamningi dagsettum hinn 7. október 1998, þar sem Helga Gísladóttir seldi ákærða fyrir hönd ótilgreindra kaupenda allt hlutafé í hlutafélaginu Vöruveltunni og var ávísunin innleyst hinn 9. október 1998 og andvirði hennar lagt inn á bankareikning Helgu númer 0327 26 001708.

9. Með því að hafa hinn 15. júní 2001 látið Baug hf. greiða kr. 95.000.000,00 inn á bankareikning Kaupþings á Íslandi, nr. 1100 26 454080, þaðan sem fjárhæðinni var ráðstafað, ásamt láni frá Kaupthing Bank Luxembourg, að fjárhæð kr. 30.000.000,00, til félagsins Cardi Holding, dótturfélags Gaums Holding, sem bæði voru skráð í Lúxemborg, sem hlutafjárframlag í félagið FBA-Holding. Það félag var í eigu Fjárfestingafélagsins Gaums ehf. og þriggja annarra aðila. Færsla vegna greiðslunnar í bókhaldi Baugs hf. var með fylgiskjali, sem var útskrift tölvupósts með greiðslufyrirmælum ákærða til þáverandi fjármálastjóra Baugs hf., með handskrifuðum athugasemdum um númer bankareiknings sem greiðslan var færð inn á og svohljóðandi skýringum: „eignfæra ráðgjöf v/A Holding. Viðskiptafæra á Baug Holding. Vantar reikning“.“

Háttsemi varnaraðilans Jóns Ásgeirs samkvæmt 8. lið ákærunnar er talin varða við 247. gr. almennra hegningarlaga, en samkvæmt 9. lið aðallega við sama ákvæði og til vara við 249. gr. sömu laga.

Samkvæmt framangreindum 8. lið ákæru er varnaraðilinn Jón Ásgeir sakaður um fjárdrátt með því að hafa í október 1998 fengið fé af bankareikningi í eigu Baugs-Aðfanga ehf. til að inna af hendi til nafngreinds manns hluta af kaupverði hlutafjár í Vöruveltunni hf. Þess er í engu getið í ákærunni hvort varnaraðilann hafi skort heimild þeirra, sem bærir voru til að skuldbinda fyrrnefnda félagið, til þessarar ráðstöfunar eða hvort eða hvernig þessi útborgun af bankareikningnum hafi verið færð í bókhaldi þess. Er lýsingu á háttsemi varnaraðilans því verulega áfátt í þessum lið. Þá er þar heldur ekki samræmi milli þeirrar lýsingar og þess brotaheitis og refsiákvæðis, sem háttsemin er heimfærð undir.

Í 9. lið ákæru er lýst hvernig varnaraðilinn Jón Ásgeir er talinn hafa í júní 2001 látið Baug hf. greiða tiltekna fjárhæð, sem ekki er tiltekið hvernig tekin var, til erlends félags með heitinu Cardi Holding. Segir þar að félag þetta sé dótturfélag Gaums Holding, en um eignarhald að þeim eða tengsl þeirra við varnaraðila er einskis frekar getið. Fram kemur í lýsingu þessa verknaðar að greiðslan hafi verið færð í bókhaldi Baugs hf. samkvæmt skriflegum fyrirmælum varnaraðilans um að hana ætti að „viðskiptafæra á Baug Holding“. Því er hvorki haldið fram að þessi færsla hafi verið efnislega röng né að varnaraðila hafi brostið heimild til að standa á þennan hátt að ráðstöfunum af hálfu Baugs hf. Þá er hvergi í lýsingu verknaðar í þessum lið ákæru vikið að efnisatriðum, sem varðað gætu við 249. gr. almennra hegningarlaga. Skortir því á sama hátt og áður var getið samræmi milli þeirrar lýsingar á háttsemi varnaraðilans í þessum ákærulið og þess brotaheitis og refsiákvæða, sem ákæruvaldið heimfærir hana til.

Vegna þess, sem að framan greinir, verður málinu vísað frá héraðsdómi að því er varðar 8. og 9. lið ákærunnar.

 

VI.

Í IV. kafla ákæru er varnaraðilunum Jóni Ásgeiri, Tryggva og Kristínu gefinn að sök „fjárdráttur og/eða umboðssvik og brot gegn lögum um hlutafélög“ í tilvikum, sem lýst er á eftirfarandi hátt í 10. til 23. lið hennar:

„10. Ákærðu Jóni Ásgeiri og Tryggva með því að hafa hinn 23. ágúst 1999 látið millifæra af bankareikningi Baugs hf., nr. 0527 26 000720, kr. 100.000.000,00 til Íslandsbanka hf., vegna innheimtu bankans á hlutafjárloforðum, sem greiðslu Fjárfestingafélagsins Gaums ehf., þegar einkahlutafélagið eignaðist 10.000.000 hluti í hlutafjárútboði í Baugi hf. í apríl 1999. Í bókhaldi Baugs hf. var greiðslan til Íslandsbanka hf., í þágu einkahlutafélagsins, færð á viðskiptamannareikning þess hjá Baugi hf., sem krafa, þannig að eftir bókun millifærslunnar stóð viðskiptamannareikningurinn í kr. 182.782.689,00. Krafa hlutafélagsins á einkahlutafélagið var síðar lækkuð með eftirtöldum greiðslum einkahlutafélagsins NRP til Baugs hf.; kr. 15.000.000,00 hinn 28. október 1999, kr. 15.000.000,00 hinn 2. nóvember 1999 og kr. 60.000.000,00 hinn 28. júní 2000, þegar einkahlutafélagið NRP eignaðist umrædd hlutabréf Fjárfestingafélagsins Gaums ehf., en jafnframt var krafa á viðskiptamannareikningi einkahlutafélagsins hjá Baugi hf. færð niður um kr. 10.000.000,00 hinn 31. desember 1999.

11. Ákærða Jóni Ásgeiri með því að hafa um mitt ár 1999 án greiðslu eða skuldaviðurkenninga afhent eða látið afhenda Fjárfestingafélaginu Gaumi ehf. 10.695.295 hluti Baugs hf. í Flugleiðum hf., sem einkahlutafélagið seldi hinn 27. ágúst 1999 fyrir kr. 49.360.124,00. Framangreind ráðstöfun bréfanna var fyrst færð í bókhaldi Baugs hf. með lokafærslum frá endurskoðanda í árslok 1999 að fjárhæð kr. 44.800.000,00. Færslan var miðuð við 31. desember 1999 og þá færð sem krafa á viðskiptamannareikning Fjárfestingafélagsins Gaums ehf., sem eftir bókunina stóð í kr. 143.068.986,00, en skuld einkahlutafélagsins var gerð upp með víxli útgefnum hinn 20. maí 2002 sem greiddur var 5. september sama ár.

12. Ákærðu Jóni Ásgeiri og Tryggva með því að hafa hinn 11. október 1999 látið millifæra kr. 4.500.000,00 af bankareikningi Baugs hf., nr. 1150 26 00077, á bankareikning Fjárfestingafélagsins Gaums ehf., nr. 0527 26 001099, vegna kaupa einkahlutafélagsins á hluta fasteignarinnar að Viðarhöfða 6, í Reykjavík. Í bókhaldi Baugs hf. var greiðslan til einkahlutafélagsins færð sem viðskiptakrafa á viðskiptamannareikning einkahlutafélagsins hjá Baugi hf., sem eftir bókun millifærslunnar stóð í kr. 187.665.005,00, en skuld einkahlutafélagsins var gerð upp með víxlinum sem nefndur er í lok 11. töluliðs ákæru. Ákærðu Kristínu framkvæmdastjóra einkahlutafélagsins gat ekki dulist að millifærsla fjárhæðarinnar sem gerð var án skuldaviðurkenningar, samnings eða trygginga var ólögmæt og andstæð hagsmunum Baugs hf.

13. Ákærðu Jóni Ásgeiri og Tryggva með því að hafa hinn 3. desember 1999 látið millifæra kr. 8.000.000,00 af bankareikningi Baugs hf., nr. 0527 26 000720, til SPRON sem greiðslu Fjárfestingafélagsins Gaums ehf. fyrir helmingshluta hlutafjár í eigu SPRON í Viðskiptatrausti ehf. Í bókhaldi Baugs hf. var greiðslan færð sem krafa á viðskiptamannareikning einkahlutafélagsins í samræmi við útgefinn reikning, en eftir bókun færslunnar stóð viðskiptamannareikningurinn í kr. 168.031.286,00, en skuld einkahlutafélagsins var gerð upp með kaupum Baugs hf. á öllu hlutafé í Viðskiptatrausti ehf., sem fært var til lækkunar á viðskiptamannareikningi einkahlutafélagsins hinn 30. júní 2000 fyrir kr. 16.000.000,00.

14. Ákærðu Jóni Ásgeiri og Tryggva með því að hafa hinn 14. desember 1999 látið millifæra kr. 35.000.000,00 af bankareikningi Baugs hf., nr. 0527 26 000720, á bankareikning Fjárfestingafélagsins Gaums ehf., nr. 0527 26 001099, vegna kaupa einkahlutafélagsins á 186.500 hlutum í Debenhams PLC í Bretlandi. Í bókhaldi Baugs hf. var greiðslan til einkahlutafélagsins færð sem viðskiptakrafa á viðskiptamannareikning einkahlutafélagsins, sem eftir bókun millifærslunnar stóð í kr. 201.001.430,00 en framangreind skuld einkahlutafélagsins, kr. 35.000.000,00, var gerð upp með greiðslu hinn 22. desember 1999 til hlutafélagsins.

15. Ákærðu Jóni Ásgeiri og Tryggva með því að hafa hinn 13. febrúar 2001 látið færa kröfu á viðskiptamannareikning Fjárfestingafélagsins Gaums ehf. hjá Baugi hf. að fjárhæð kr. 50.529.987,00 vegna kaupa einkahlutafélagsins á hlutabréfum í Baugi hf. í hlutafjárútboði í félaginu í desember árið 2000 þegar einkahlutafélagið eignaðist bréfin. Ákærðu Kristínu sem framkvæmdastjóra einkahlutafélagsins gat ekki dulist að lánveitingin, sem var án skuldaviðurkenningar, trygginga og samnings um endurgreiðslu og lánakjör, var ólögmæt og andstæð hagsmunum Baugs hf. Í bókhaldi Baugs hf. var krafan færð á viðskiptamannareikning einkahlutafélagsins. Eftir bókun kröfunnar stóð viðskiptamannareikningurinn í kr. 145.871.863,00 en skuld einkahlutafélagsins var síðar gerð upp með víxlinum sem nefndur er í lok 11. töluliðs ákæru.

16. Ákærðu Jóni Ásgeiri og Tryggva með því að hafa hinn 13. febrúar 2001 látið færa kröfu á viðskiptamannareikning ákærðu Kristínar í bókhaldi Baugs hf. að fjárhæð kr. 3.786.727,00 vegna kaupa ákærðu Kristínar á hlutabréfum í Baugi hf. í hlutafjárútboði í félaginu í desember 2000 þegar ákærða eignaðist hlutabréfin. Ákærðu Kristínu gat ekki dulist að lánveitingin, sem var án skuldaviðurkenningar, trygginga og samnings um endurgreiðslu og lánakjör, var ólögmæt. Arðgreiðsla af hlutabréfunum fyrir árið 2001, kr. 397.894,00, var færð til lækkunar á skuldinni hinn 5. júlí 2001 en skuld ákærðu var gerð upp með víxlinum sem nefndur er í lok 11. töluliðs ákæru.

17. Ákærða Jóni Ásgeiri með því að hafa hinn 18. maí 2001 látið millifæra kr. 100.000.000,00 af bankareikningi Baugs hf., nr. 0527 26 000720, inn á bankareikning nr. 0527 26 001099 í eigu Fjárfestingafélagsins Gaums ehf., sem ákærðu Kristínu, sem var framkvæmdastjóri einkahlutafélagsins, gat ekki dulist að var ólögmætt og andstætt hagsmunum Baugs hf., enda lánveitingin án þess að einkahlutafélagið legði fram skuldaviðurkenningu, tryggingu eða samning um endurgreiðslu eða lánakjör, fyrir fénu, sem ráðstafað var samdægurs af bankareikningi einkahlutafélagsins til Nordic Restaurant Group AB, sem hlutafjárframlag einkahlutafélagsins í því félagi. Í bókhaldi Baugs hf. var millifærslan til einkahlutafélagsins færð sem krafa á viðskiptamannareikning einkahlutafélagsins, sem eftir bókun millifærslunnar stóð í kr. 262.836.989,00 en skuld einkahlutafélagsins var síðar gerð upp með víxlinum sem nefndur er í lok 11. töluliðs ákæru.

18. Ákærðu Jóni Ásgeiri og Tryggva með því að hafa hinn 16. maí 2000 misnotað aðstöðu sína þegar þeir lánuðu, án lánasamnings, trygginga eða ábyrgða, kr. 64.500.000,00, fyrir hönd Baugs hf. til einkahlutafélagsins Fjárfars, [kt.], sem ákærði Jón Ásgeir stjórnaði og rak, vegna kaupa einkahlutafélagsins á hlutabréfum í Baugi hf., að nafnverði kr. 5.000.000,00. Skuld Fjárfars ehf. við Baug hf., var gerð upp eftir húsleit lögreglu hjá Baugi hf., hinn 28. ágúst 2002.

19. Ákærðu Jóni Ásgeiri og Tryggva með því að hafa hinn 30. júní 2000 misnotað aðstöðu sína þegar þeir lánuðu, án lánasamnings, trygginga eða ábyrgða, kr. 50.000.000,00 fyrir hönd Baugs hf., til einkahlutafélagsins Fjárfars, sem ákærði Jón Ásgeir stjórnaði og rak, vegna kaupa einkahlutafélagsins á 5% hluta í Baugi.net ehf., [kt.], af Baugi hf. að nafnverði kr. 2.500.000,00. Viðskipti félaganna með hlutabréf í Baugi.net ehf. gengu til baka hinn 21. febrúar 2002.

20. Ákærðu Jóni Ásgeiri og Tryggva með því að hafa hinn 13. febrúar 2001 misnotað aðstöðu sína þegar þeir lánuðu, án lánasamnings, trygginga eða ábyrgða, kr. 85.758.591,00 fyrir hönd Baugs hf. til einkahlutafélagsins Fjárfars, sem Jón Ásgeir stjórnaði og rak, vegna kaupa einkahlutafélagsins á hlutabréfum í Baugi hf., í tengslum við hlutafjáraukningu þess, að nafnverði kr. 7.392.982,00. Skuld Fjárfars ehf. við Baug hf., var gerð upp eftir húsleit lögreglu hjá Baugi hf., hinn 28. ágúst 2002.

21. Ákærða Jóni Ásgeiri með því að láta Baug hf., greiða á tímabilinu frá 5. október 1998 til 2. maí 2002, samkvæmt reikningum, kostnað sem ákærði hafði stofnað til með úttektum á Visa og Mastercard greiðslukortum í reikning Baugs hf. vegna persónulegra úttekta ákærða óviðkomandi Baugi hf., samtals að fjárhæð kr. 12.553.358,60 svo sem hér á eftir greinir. Voru greiðslurnar í bókhaldi Baugs hf. færðar til eignar á viðskiptamannareikningi ákærða hjá Baugi hf. Skuld ákærða samkvæmt viðskiptamannareikningnum var gerð upp með víxlinum sem nefndur er í lok 11. töluliðs ákæru ...“. Við þennan lið ákærunnar eru úttektirnar, sem þar um ræðir, taldar upp í einstökum atriðum með því að tilgreina dagsetningu greiðslu, dagsetningu færslu, skýringu, sem ætla verður að hafi komið fram á reikningum fyrir úttektunum, fjárhæð þeirra og óútskýrð tilvísun til skjala með tilteknum auðkennum. Úttektirnar eru sundurliðaðar milli ára, þannig að 5 tilvik eru talin upp frá árinu 1998, 8 frá 1999, 17 frá 2000, 129 frá 2001 og 70 frá 2002.

„22. Ákærða Jóni Ásgeiri með því að láta Baug hf., greiða sér, á tímabilinu frá 2. júní 1999 til 12. júní 2002, í alls átta skipti, samtals kr. 9.536.452,00 úr sjóðum Baugs hf., í fimm skipti með millifærslum af bankareikningum hlutafélagsins nr. 1150 26 77 og 0527 26 720, inn á eigin bankareikning ákærða, í eitt skipti með millifærslu inn á bankareikning nafngreinds manns og í tvö skipti látið afhenda sér reiðufé. Voru greiðslurnar í bókhaldi Baugs hf. færðar til eignar á viðskiptamannareikningi ákærða hjá Baugi hf., svo sem hér á eftir greinir. Skuld ákærða samkvæmt viðskiptamannareikningnum var gerð upp með víxlinum sem nefndur er í lok 11. töluliðs ákæru ...“. Greiðslurnar, sem hér um ræðir, eru síðan taldar upp í átta liðum og tilgreind dagsetning þeirra, svokölluð „skýring í bókhaldi Baugs“ og fjárhæð.

„23. Ákærða Jóni Ásgeiri með því að láta Baug hf. greiða, á tímabilinu frá 26. janúar 1999 til 16. júlí 2002, samtals kr. 5.551.474,91, samkvæmt eftirgreindum reikningum, sem voru vegna kostnaðar sem ákærði hafði stofnað til og voru einkakostnaður ákærða, óviðkomandi Baugi hf. Greiðslurnar voru færðar til eignar á viðskiptamannareikningi ákærða hjá Baugi hf. Skuld ákærða samkvæmt viðskiptamannareikningnum var gerð upp með víxlinum sem nefndur er í lok 11. töluliðs ákæru ...“. Við þennan lið ákærunnar eru greiðslurnar, sem hann varðar, taldar upp með því að tiltaka dagsetningu hverrar færslu, skýringar í bókhaldi Baugs hf., sem svo eru nefndar, og fjárhæð. Þessar greiðslur eru sundurliðaðar eftir árum og 3 þeirra sagðar vera frá 1999, 9 frá 2000, 7 frá 2001 og 10 frá 2002.

Um heimfærslu til refsiákvæða á þeirri háttsemi, sem um ræðir í framangreindum liðum ákærunnar, segir eftirfarandi í lok IV. kafla hennar: „Brot ákærða Jóns Ásgeirs samkvæmt 10. til og með 23. töluliðs ákæru teljast varða við 247. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940, til vara við 249. gr. sömu laga og jafnframt teljast brot samkvæmt töluliðum 10, 15, 16, 18 og 20 varða við 2. mgr. 104. gr., og brot samkvæmt töluliðum 11, 12, 13, 14, 17, 19, 21, 22 og 23 varða við 1. mgr. 104. gr., sbr. 2. tl. 153. gr., laga um hlutafélög nr. 2, 1995. Brot ákærða Tryggva samkvæmt 10., 12., 13. til og með 16. og 18. til og með 20. töluliðs ákæru teljast varða við 247. gr., sbr. 22. gr., almennra hegningarlaga nr. 19, 1940, til vara við 249. gr. sbr. 22. gr., sömu laga og jafnframt teljast brot samkvæmt töluliðum 10, 15, 16, 18 og 20 varða við 2. mgr. 104. gr., og brot samkvæmt töluliðum 12, 13, 14 og 19 varða við 1. mgr. 104. gr., sbr. 2. tl. 153. gr., laga um hlutafélög nr. 2, 1995. Brot ákærðu Kristínar samkvæmt 12., 15. til og með 17. töluliðs ákæru teljast varða við 254. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940.“

Eins og að framan greinir er varnaraðilunum Jóni Ásgeiri og Tryggva í 10. lið ákæru gefið að sök að hafa í ágúst 1999 látið millifæra tiltekna fjárhæð af bankareikningi Baugs hf. til að greiða nánar tilgreinda skuldbindingu Fjárfestingafélagsins Gaums ehf., en fjárhæð þessi hafi í bókhaldi Baugs hf. verið færð á viðskiptamannareikning einkahlutafélagsins. Eins og orðalagi er háttað í þessum lið ákærunnar verður ekki annað ráðið en að varnaraðilunum sé hér gefið að sök að hafa í sameiningu staðið að þessum verknaði, án þess að nánar sé þó skýrt hvernig það hafi verið gert. Af heimfærslu ætlaðra brota til refsiákvæða virðist á hinn bóginn sem varnaraðilanum Tryggva sé hér gefin að sök hlutdeild í broti hins varnaraðilans, en í engu er þó heldur vikið að því í hverju hún hafi verið fólgin. Þá er verknaðinum, sem hér um ræðir, lýst á þann hátt að ætla verður að gengið sé út frá því að Baugur hf. hafi látið af hendi fé að láni til Fjárfestingafélagsins Gaums ehf., enda fjárhæðin færð á viðskiptamannareikning síðarnefnda félagsins hjá því fyrrnefnda. Ekki er leitast við að skýra frekar í ákærunni hvernig slík háttsemi varði við 247. gr. almennra hegningarlaga. Þá felst engin efnisleg lýsing í þessum ákærulið á þeim sökum, sem varnaraðilarnir Jón Ásgeir og Tryggvi eru bornir til vara, um umboðssvik þess fyrrnefnda og hlutdeild þess síðarnefnda í slíku broti.

Í 11. lið ákæru er varnaraðilanum Jóni Ásgeiri gefið að sök að hafa á miðju ári 1999 án greiðslu eða skuldaviðurkenningar „afhent eða látið afhenda“ Fjárfestingafélaginu Gaumi ehf. nánar tiltekna hluti Baugs hf. í Flugleiðum hf., sem einkahlutafélagið hafi selt í ágúst á því ári. Ráðstöfun hlutanna hafi verið bókfærð hjá Baugi hf. í lok ársins og tiltekin fjárhæð, sem lægri hafi verið en söluverð hlutanna í ágúst, verið færð sem skuld einkahlutafélagsins á viðskiptamannareikningi þess hjá Baugi hf. Sakargiftir samkvæmt þessum ákærulið beinast að varnaraðilanum Jóni Ásgeiri einum og er ætlað brot hans aðallega talið varða við 247. gr. almennra hegningarlaga, en til vara við 249. gr. þeirra. Framangreind lýsing á því hvernig umræddur hlutur í Flugleiðum hf. fór úr höndum Baugs hf. til Fjárfestingafélagsins Gaums ehf. felur ekki í sér ein út af fyrir sig lýsingu á háttsemi, sem 247. gr. almennra hegningarlaga tekur til. Þá er háttsemi varnaraðilans samkvæmt þessum lið ákærunnar í engu lýst á þann hátt að hún gæti fallið undir efnislýsingu 249. gr. sömu laga.

Í 12. lið ákærunnar eru varnaraðilarnir Jón Ásgeir og Tryggvi sakaðir um að hafa í október 1999 látið millifæra tiltekna fjárhæð af bankareikningi Baugs hf. á bankareikning Fjárfestingafélagsins Gaums ehf., sem síðarnefnda félagið hafi síðan notað á nánar tilgreindan hátt. Hafi fjárhæðin verið færð í bókhaldi Baugs hf. sem krafa á viðskiptamannareikningi einkahlutafélagsins, en varnaraðilanum Kristínu sem framkvæmdastjóra þess félags hafi ekki getað dulist að millifærsla fjárins, sem hafi verið gerð án skuldaviðurkenningar, samnings eða trygginga, hafi verið ólögmæt og andstæð hagsmunum Baugs hf. Um þennan lið ákæru eiga við sömu atriðin og áður var getið í umfjöllun um 10. lið hennar að því er varðar verknaðinn, sem varnaraðilarnir Jón Ásgeir og Tryggvi eru hér bornir sökum um. Framangreind háttsemi varnaraðilans Kristínar er í þessum lið ákæru talin varða við 254. gr. almennra hegningarlaga, þótt ekki sé vikið að hilmingu í upphafsorðum IV. kafla hennar. Í því lagaákvæði er fjallað um þá háttsemi að maður haldi, án þess að verknaður hans varði við 244., 245. eða 247.-252. gr. almennra hegningarlaga, ólöglega fyrir eigandanum hlut eða öðru verðmæti, sem aflað hefur verið á þann hátt, sem í þeim greinum segir, tekur þátt í ávinningnum af slíku broti, aðstoðar annan mann til þess að halda slíkum ávinningi eða stuðlar að því á annan hátt að halda við ólöglegum afleiðingum brotsins. Verknaðinum, sem þessi varnaraðili er hér sökuð um, er ekki lýst á þann hátt að sjá megi hvernig hann geti fallið undir hilmingarákvæði 254. gr. almennra hegningarlaga. Að auki verður að líta til þess að samkvæmt hljóðan þessa lagaákvæðis getur það ekki átt við nema brot varði verðmæti, sem aflað hefur verið á þann hátt, sem greinir í 244., 245. eða 247.-252. gr. almennra hegningarlaga. Samkvæmt áðursögðu er háttsemi varnaraðilanna Jóns Ásgeirs og Tryggva í þessum lið ákæru ekki lýst á þann veg að 247. gr. eða 249. gr. almennra hegningarlaga geti átt við um hana. Brestur því þegar af þeirri ástæðu skilyrði til að sækja varnaraðilann Kristínu til saka fyrir brot gegn 254. gr. laganna á þann hátt, sem hér er gert.

Með 13. lið ákærunnar er varnaraðilunum Jóni Ásgeiri og Tryggva gefið að sök að hafa í desember 1999 látið millifæra tiltekna fjárhæð af bankareikningi Baugs hf. sem greiðslu Fjárfestingafélagsins Gaums ehf. í nánar tilteknum viðskiptum. Þá eru þessir varnaraðilar í 14. lið ákærunnar sakaðir um að hafa í sama mánuði látið færa tiltekna fjárhæð af bankareikningi Baugs hf. á bankareikning Fjárfestingafélagsins Gaums ehf., sem hafi notað féð í nánar tilgreindum viðskiptum. Í báðum ákæruliðunum er tekið fram að umræddar fjárhæðir hafi verið færðar sem krafa á viðskiptamannareikningi Fjárfestingafélagsins Gaums ehf. í bókhaldi Baugs hf. Við þessa tvo liði ákærunnar eiga öll sömu atriðin og áður var getið varðandi 10. lið hennar.

Í 15. lið ákæru eru varnaraðilarnir Jón Ásgeir og Tryggvi bornir sökum fyrir að hafa 13. febrúar 2001 látið færa til skuldar á viðskiptamannareikningi Fjárfestingafélagsins Gaums ehf. hjá Baugi hf. tiltekna fjárhæð vegna kaupa fyrrnefnda félagsins á hlut í því síðarnefnda í hlutafjárútboði. Í 16. lið er þessum varnaraðilum jafnframt gefið að sök að hafa sama dag fært tiltekna fjárhæð til skuldar á viðskiptamannareikningi varnaraðilans Kristínar hjá Baugi hf. í sama tilgangi og áður er getið. Í báðum tilvikum er síðastnefndum varnaraðila gefið að sök að hafa ekki dulist að lánveitingarnar annars vegar til einkahlutafélagsins, sem hún var framkvæmdastjóri hjá, og hins vegar til hennar persónulega, sem hafi verið án skuldaviðurkenninga, trygginga eða samninga um endurgreiðslu og lánskjör, hafi verið ólögmætar og andstæðar hagsmunum Baugs hf. Um þá tvo liði ákærunnar, sem hér um ræðir, eiga öll sömu atriðin við og áður var getið varðandi 12. lið hennar.

Í 17. lið ákæru er varnaraðilanum Jóni Ásgeiri gefið að sök að hafa í maí 2001 látið millifæra tiltekna fjárhæð af bankareikningi Baugs hf. á bankareikning Fjárfestingafélagsins Gaums ehf., sem hafi síðan notað féð í nánar tilgreindum viðskiptum, en fjárhæðin hafi verið færð til skuldar á viðskiptamannareikningi einkahlutafélagsins hjá Baugi hf. Þá er varnaraðilanum Kristínu gefið að sök í þessum lið ákærunnar að hafa ekki dulist að ráðstöfun þessi væri ólögmæt og andstæð hagsmunum Baugs hf., enda hafi ekki verið gerð skuldaviðurkenning, sett trygging eða samið um endurgreiðslu og lánskjör. Um þennan lið ákæru eiga við öll sömu atriðin og áður var getið varðandi 12. lið hennar, að því frátöldu að hér er sakargiftum ekki jafnframt beint að varnaraðilanum Tryggva um hlutdeild í ætluðum brotum varnaraðilans Jóns Ásgeirs.

Í 18., 19. og 20. lið ákæru er varnaraðilunum Jóni Ásgeiri og Tryggva gefið að sök að hafa misnotað aðstöðu sína þegar þeir í maí og júní 2000 og febrúar 2001 lánuðu þrívegis nánar tilgreindar fjárhæðir frá Baugi hf. til Fjárfars ehf., sem varnaraðilinn Jón Ásgeir „stjórnaði og rak“, án lánssamninga, trygginga eða ábyrgða. Þessi háttsemi varnaraðilans Jóns Ásgeirs er í ákæru talin varða aðallega við 247. gr. almennra hegningarlaga, en til vara 249. gr. þeirra, og háttsemi varnaraðilans Tryggva við sömu lagaákvæði, sbr. 22. gr. laganna. Þessi heimfærsla er ekki í samræmi við þann verknað, sem lýst er í ákæru, en þar er í engu greint frá háttsemi, sem gæti fallið undir verknaðarlýsingu 247. gr. almennra hegningarlaga. Þá er brotum varnaraðilans Tryggva ekki lýst sem hlutdeild í brotum varnaraðilans Jóns Ásgeirs, heldur með þeim hætti að hann sé aðalmaður í þeim. Þá er til þess að líta að í þessum þremur liðum ákærunnar er rætt um lánveitingar Baugs hf. til Fjárfars ehf. Ekki er leitast við að skýra frekar hvernig þær geti talist hafa verið varnaraðilunum, báðum eða öðrum, til auðgunar eða leitt af sér hættu á tjóni fyrir Baug hf., en samkvæmt því, sem fram kemur í niðurlagi allra þessara ákæruliða, virðast þessi lán hafa verið endurgreidd hlutafélaginu eða gerð upp á annan hátt á árinu 2002.

Með 21. lið ákærunnar er varnaraðilanum Jóni Ásgeiri gefið að sök að hafa á árunum 1998 til 2002 látið Baug hf. greiða kostnað, sem hann hafi stofnað til með samtals 229 nánar tilgreindum persónulegum úttektum á greiðslukortum „í reikning Baugs hf.“, eins og segir í ákærunni, en þær hafi verið félaginu óviðkomandi. Greiðslur þessar hafi verið færðar á viðskiptamannareikning varnaraðilans hjá Baugi hf. Í þessari verknaðarlýsingu er ekki frekar skýrt hvort umrædd greiðslukort hafi verið gefin út til Baugs hf. og reikningum vegna úttekta verið af þeim sökum beint til félagsins eða hvort þau hafi verið á nafni varnaraðilans, sem hafi látið félagið greiða reikninga, sem hafi verið gefnir út á hendur honum persónulega. Á hvorn veginn, sem þessu kann að hafa verið háttað, kemur fram í ákæru að greiðslurnar hafi verið færðar varnaraðilanum til skuldar á viðskiptamannareikningi hans hjá félaginu. Ekki er skýrt frekar hvernig háttsemi sem þessi verði heimfærð til 247. gr. almennra hegningarlaga, sem varnaraðilinn er hér aðallega sakaður um að hafa brotið gegn. Verknaði er hér að engu leyti lýst á þann hátt að 249. gr. sömu laga geti tekið til hans, en í ákæru er háttsemi varnaraðilans, sem um ræðir í þessum lið, til vara heimfærð til þess ákvæðis.

Í 22. lið ákærunnar er varnaraðilanum Jóni Ásgeiri gefið að sök að hafa á árunum 1999 til 2002 látið Baug hf. inna í átta skipti af hendi greiðslur til sín, þar af fimm sinnum með millifærslum af bankareikningum félagsins á bankareikning varnaraðilans, einu sinni með millifærslu á bankareikning annars manns og tvisvar með því að afhenda reiðufé. Greiðslur þessar hafi verið færðar á viðskiptamannareikning varnaraðilans hjá félaginu. Ekki er frekar skýrt í ákærunni hvernig háttsemi af þessum toga verði heimfærð til 247. gr. almennra hegningarlaga, sem varnaraðilinn er aðallega sakaður um að hafa brotið gegn á þennan hátt. Þá er ætluðum verknaði í þessum ákærulið að engu leyti lýst þannig að 249. gr. sömu laga geti átt við um hann, en háttsemi varnaraðilans er til vara heimfærð undir það ákvæði.

Loks er varnaraðilinn Jón Ásgeir sakaður í 23. lið ákæru um að hafa á árunum 1999 til 2002 látið Baug hf. í 29 skipti greiða nánar tiltekna reikninga fyrir kostnaði, sem hann hafi stofnað til í eigin þágu og félaginu hafi verið óviðkomandi, en fjárhæð þessara greiðslna hafi í bókhaldi félagsins verið færð á viðskiptamannareikning varnaraðilans. Af verknaðarlýsingu þessari verður ekki skýrlega ráðið á hendur hverjum umræddir reikningar hafi verið gefnir út, varnaraðilanum eða Baugi hf. Þegar haft er í huga að greiðslur þessar eru sagðar hafa verið færðar varnaraðila til skuldar á viðskiptamannareikningi hans hjá félaginu skortir í ákæru viðhlítandi skýringar á því hvernig háttsemi þessi verði heimfærð til 247. gr. almennra hegningarlaga, sem hann er aðallega sakaður um að hafa brotið. Í ákæru er verknaður samkvæmt þessum lið til vara heimfærður til 249. gr. sömu laga. Í lýsingu á ætluðum verknaði er ekki að finna stoð fyrir því að það lagaákvæði geti átt hér við.

Samkvæmt öllu framangreindu eru slíkir annmarkar á 10. til 23. lið ákærunnar að ófært er að fella efnisdóm á þær sakir, sem þar eru bornar á varnaraðilana Jón Ásgeir, Tryggva og Kristínu og taldar eru varða við 247. gr., 249. gr. og 254. gr. almennra hegningarlaga, svo og hlutdeild í brotum gegn tveimur fyrstnefndu lagagreinunum. Í niðurlagi IV. kafla ákærunnar kemur fram að auk sakargifta um brot gegn þessum ákvæðum almennra hegningarlaga séu ætluð brot varnaraðilans Jóns Ásgeirs samkvæmt öllum fyrrnefndum liðum ákærunnar talin varða ýmist við 1. mgr. eða 2. mgr. 104. gr., sbr. 2. tölulið 153. gr. laga  nr. 2/1995 um hlutafélög. Þá er þar tiltekið að ætluð brot varnaraðilans Tryggva samkvæmt 10., 12. til 16. og 18. til 20. lið ákærunnar séu jafnframt talin varða við sömu ákvæði laga nr. 2/1995. Háttsemin, sem um ræðir í 10. til 23. lið ákærunnar, er í öllum tilvikum reifuð á þann hátt að svo virðist sem ætlast sé til að sama verknaðarlýsing taki samtímis til ætlaðra brota gegn áðurgreindum ákvæðum almennra hegningarlaga og gegn 104. gr., sbr. 2. tölulið 153. gr. laga nr. 2/1995. Þegar af þeirri ástæðu að ófært er vegna annmarka á þessum liðum ákærunnar að fella efnisdóm á sakargiftir, sem varða fyrrnefndu lagaákvæðin, veldur þessi háttur á framsetningu hennar því að ekki er þá heldur unnt að fjalla að efni til um ætluð brot gegn þeim síðarnefndu. Af þessum sökum verður málinu vísað frá héraðsdómi að því er varðar 10. til 23. lið ákærunnar.

VII.

Í V. kafla ákæru eru varnaraðilarnir Jón Ásgeir og Tryggvi sakaðir um brot gegn lögum um hlutafélög með háttsemi, sem tilgreind er í 24. til 28. lið hennar á eftirfarandi hátt:

„24. Ákærðu Jóni Ásgeiri og Tryggva með því að hafa veitt Fjárfestingafélaginu Gaumi ehf., sem var í eigu ákærða Jóns Ásgeirs og fjölskyldu hans, lán vegna tveggja eftirtaldra reikninga frá Baugi hf. vegna útlagðs kostnaðar fyrir einkahlutafélagið, en kröfurnar voru eignfærðar á árinu 1998 á viðskiptamannareikning einkahlutafélagsins hjá Baugi hf., samtals að fjárhæð kr. 401.430,00, svo sem hér greinir:

Dags. færslu

Skýring í bókhaldi Baugs

Fjárhæð

30.09.1998

Gagnabanki Íslands R6824

399.807,00

06.11.1998

Hagstofa Íslands

1.623,00

 

                                              Samtals kr.:

401.430,00

25. Ákærðu Jóni Ásgeiri og Tryggva með því að hafa veitt Fjárfestingafélaginu Gaumi ehf., sem var í eigu ákærða Jóns Ásgeirs og fjölskyldu hans, lán vegna þriggja eftirtaldra reikninga frá Baugi hf. vegna hlutdeildar einkahlutafélagsins í kostnaði Baugs hf., en kröfurnar voru eignfærðar á árinu 1999 á viðskiptamannareikning einkahlutafélagsins hjá Baugi hf., samtals að fjárhæð kr. 13.010.411,00, svo sem hér greinir:

 Dags. færslu

Skýring í bókhaldi Baugs

Fjárhæð

31.12.1999

Skrifstofuþjónusta

4.000.000,00

31.12.1999

Hlutd. í launum forstjóra

6.000.000,00

31.12.1999

Ferðakostnaður

3.010.411,00

 

                                                      Samtals kr.:

13.010.411,00

26. Ákærðu Jóni Ásgeiri og Tryggva með því að hafa veitt Fjárfestingafélaginu Gaumi ehf., sem var í eigu ákærða Jóns Ásgeirs og fjölskyldu hans, lán vegna sautján eftirtaldra reikninga frá Baugi hf. vegna útlagðs kostnaðar fyrir einkahlutafélagið, en kröfurnar voru eignfærðar á árinu 2000 á viðskiptamannareikning einkahlutafélagsins hjá Baugi hf., samtals að fjárhæð kr. 6.224.951,00, svo sem hér greinir:


Dags. færslu

Skýring í bókhaldi Baugs

Fjárhæð

01.05.2000

Visa JÁJ 18/3 – 17/4 innanl

Visa JÁJ 18/4 – erlend

462.289,00

30.05.2000

Reikn. frá A…(ólæsil)

4.100,00

30.05.2000

Reikn. frá Útilíf

49.446,00

01.06.2000

Reikn. frá Útilíf

15.174,00

07.06.2000

MC kort JÁJ v. maí

341.526,00

23.06.2000

Reikn. frá Bílabúð Benna

70.934,00

30.06.2000

Reikn. frá Flugleiðum

134.725,00

30.06.2000

Reikn. frá Bílabúð Benna

132.826,00

30.06.2000

Reikn. frá Útilíf

22.602,00

05.07.2000

Visa JÁJ maí/júní 00

520.725,00

15.08.2000

Reikn. DHL

Flísar v. JÁJ

448.401,00

15.08.2000

Reikn. frá Flugleiðum skv. JÁJ

129.085,00

01.09.2000

Euro JÁJ

1.045.294,00

01.09.2000

Euro JÁJ

1.881.953,00

19.10.2000

Visa JÁJ 18/8 – 17/9 erl. út

657.015,00

19.10.2000

Reikn. frá Gagnabanka

82.001,00

29.12.2000

Reikn. frá Flugleiðum

226.855,00

 

                                                   Samtals kr.:

6.224.951,00

27. Ákærðu Jóni Ásgeiri og Tryggva með því að hafa veitt Fjárfestingafélaginu Gaumi ehf., sem var í eigu ákærða Jóns Ásgeirs og fjölskyldu hans, lán vegna eftirtaldra fjögurra reikninga Baugs hf., vegna hlutdeildar einkahlutafélagsins í kostnaði Baugs hf., en kröfurnar voru eignfærðar á árinu 2000 á viðskiptamannareikning einkahlutafélagsins hjá Baugi hf., samtals að fjárhæð kr. 70.000.000,00, svo sem hér greinir:

Dags. færslu

Skýring í bókhaldi Baugs

Fjárhæð

31.12.2000

Launakostnaður árið 2000

15.000.000,00

31.12.2000

Kostnaður yfirstjórnar

15.000.000,00

31.12.2000

Þátttaka í auglýsingaherferð (Reikn.10-11 á Gaum)

30.000.000,00

31.12.2000

Þátttaka í stjórnunarkostnaði  (Reikn.10-11 á Gaum)

10.000.000,00

 

                                          Samtals kr.:

70.000.000,00

28. Ákærðu Jóni Ásgeiri og Tryggva með því að hafa veitt Fjárfestingafélaginu Gaumi ehf., sem var í eigu ákærða Jóns Ásgeirs og fjölskyldu hans, lán vegna eftirtaldra fjögurra reikninga Baugs hf. vegna útlagðs kostnaðar fyrir einkahlutafélagið, en kröfurnar voru eignfærðar á árinu 2001 á viðskiptamannareikning einkahlutafélagsins hjá Baugi hf., samtals að fjárhæð kr. 1.293.376,00, svo sem hér greinir:

 

Dags. færslu

Skýring í bókhaldi Baugs

Fjárhæð

30.03.2001

Útl. kostn. JÁJ

463.443,00

30.04.2001

Visa JÁJ mar/apr

554.563,00

28.05.2001

Reikn. frá Flugleiðum

115.115,00

30.09.2001

Reikn. frá Flugleiðum

160.255,00

 

                                              Samtals kr.:

1.293.376,00

Framangreindar lánveitingar samkvæmt töluliðum 24 til og með 28 voru að fullu gerðar upp með víxli útgefnum af einkahlutafélaginu Gaumi til hlutafélagsins Baugs, hinn 20. maí 2002 sem greiddur var 5. september sama ár.

Í niðurlagi þessa kafla ákærunnar er tiltekið að ætluð brot varnaraðilanna Jóns Ásgeirs og Tryggva samkvæmt 24. til 28. lið hennar teljist varða við 1. mgr. 104. gr., sbr. 2. tölulið 153. gr. laga nr. 2/1995.

Í framangreindum fimm liðum ákærunnar er varnaraðilunum Jóni Ásgeiri og Tryggva gefið að sök að hafa samtals í 30 skipti á árunum 1998 til 2001 veitt lán til Fjárfestingafélagsins Gaums ehf., sem þar er sagt vera í eigu fyrrnefnda varnaraðilans „og fjölskyldu hans“ án nánari tilgreiningar. Samkvæmt því, sem fram kemur í upphafi ákærunnar, var varnaraðilinn Jón Ásgeir á öllu þessu tímabili forstjóri Baugs hf., en varnaraðilinn Tryggvi aðstoðarforstjóri félagsins. Háttsemi þeirra og heimfærslu ætlaðra brota er hér lýst á þann hátt að ekki verður annað ályktað en að miðað sé við að þeir hafi í hvert og eitt skipti staðið í sameiningu að öllum þessum ráðstöfunum, en um þetta er þó ekki frekar fjallað í ákærunni. Ekki er í þessum liðum ákærunnar lýst að varnaraðilarnir hafi látið umræddu einkahlutafélagi í té peninga að láni frá Baugi hf., heldur að þeir hafi veitt því lán „vegna ... reikninga frá Baugi hf.“ eða „ vegna ... reikninga Baugs hf.“, sem taldir eru upp í hverjum ákærulið og sagðir eru ýmist varða útlagðan kostnað fyrir einkahlutafélagið eða hlutdeild þess í kostnaði Baugs hf., en kröfur þessar hafi verið færðar einkahlutafélaginu til skuldar á viðskiptamannareikningi hjá hlutafélaginu. Af verknaðarlýsingu verður ekki ráðið hvort átt sé við að Baugur hf. hafi í þessum tilvikum lagt út fé fyrir Fjárfestingafélagið Gaum ehf. með því að greiða skuldbindingar, sem beindust að einkahlutafélaginu, og þannig veitt því lán eða hvort viðkomandi kröfur hafi beinst að Baugi hf., sem hafi greitt þær og gert reikning á hendur einkahlutafélaginu fyrir endurkröfu, sem gjaldfrestur hafi síðan verið veittur á. Vegna þess óskýrleika, sem gætir um þetta atriði í verknaðarlýsingu 24. til 28. liðar ákærunnar, er ekki ljóst hvort þar sé lýst ráðstöfunum af þeim toga, sem refsing getur legið við samkvæmt 1. mgr. 104. gr., sbr. 2. tölulið 153. gr. laga nr. 2/1995.

Af þeim ástæðum, sem að framan greinir, verður málinu vísað frá héraðsdómi að því er varðar 24. til 28. lið ákæru.

VIII.

Í VI. kafla ákærunnar eru varnaraðilarnir Jón Ásgeir og Tryggvi bornir sökum um brot á almennum hegningarlögum, lögum um bókhald, lögum um ársreikninga og lögum um hlutafélög, sem greinir í 29. til 32. lið hennar, en þeir hljóða svo:

„29. Ákærðu Jóni Ásgeiri og Tryggva með því að hafa í sameiningu fært og eða látið færa til tekna í bókhaldi Baugs hf. hinn 30. júní 2001, samkvæmt lokafærsluskjali endurskoðanda dags. 27. september 2001, tvo tilhæfulausa reikninga, sem ekki áttu stoð í viðskiptum félagsins, annars vegar frá P/F SMS, Þórshöfn, Færeyjum, dags. 30. júní 2001, að fjárhæð DKK 3.900.000, sem jafngildir ISK 46.679.000,00 og hins vegar frá Nordica Inc., Miami í Flórída í Bandaríkjunum, dags. 30. ágúst 2001, að fjárhæð USD 589.890, sem jafngildir ISK 61.915.000,00, eða samtals ISK 108.594.000,00 og hafa með því rangfært bókhald og oftalið tekjur Baugs hf. sem þessu nam í rekstrarreikningi árshlutareiknings hinn 30. júní 2001, sem birtur var á Verðbréfaþingi Íslands og gaf til kynna að EBITDA hagnaður fyrstu sex mánuði ársins væri 15,6% hærri og hagnaður tímabilsins 24,6% hærri en var í raun.

30. Ákærðu Jóni Ásgeiri og Tryggva með því að hafa fært og eða látið færa rangar og tilhæfulausar færslur um viðskipti og notkun fjármuna í bókhald Baugs hf., þegar þeir létu færa eigin hlutabréf í hlutafélaginu, að nafnverði kr. 40.000.000,00 en bókfærðu verði kr. 330.764.000,00, til vörslu hjá Kaupthing Bank Luxembourg, eins og um sölu hlutabréfanna væri að ræða til Kaupthing Bank Luxembourg, á sama tíma og bréfin voru enn í eigu Baugs hf. og ráðstafað í nafni Baugs hf. í Lúxemborg. Bréfunum var meðal annars ráðstafað til greiðslna til nokkurra af æðstu stjórnendum hlutafélagsins. Ráðstafanir ofangreindra fjármuna voru rangfærðar í bókhaldi og duldar með eftirgreindum færslum og fylgigögnum:

Færsla nr. 9281 dags. 30.06.1999 með texta: „Hlutabréf í Baugi seld Kaupþingi“

Lykill

Heiti lykils

Debet

Kredit

V560882-0419

Kaupþing

330.764.000,00

 

F 73112

Biðreikningur

 

330.764.000,00

Færslan, til eignar á viðskiptamannareikningi Kaupþings hf., byggir á rangri skýringu í fylgiskjali sem er handskrifað bréf, ódagsett og óundirritað, þar sem segir um færsluna „Kaup á eigin bréfum.(gamall samningur)“ „Baugur kaupir 5% í Baugi og fær lán hjá FBA“ „413.455.006.- Biðreikningur“ „Selur Kaupþingi 4/5 hlut 330.764.000 út af biðreikn. D/viðskm. KÞ“. Ytri frumgögn vantar í bókhaldið. Viðskiptamannareikningur Kaupþings V560882-0419 er færður til eignar meðal annarra skammtímakrafna í árshluta- og ársreikningi félagsins.

Færsla nr. S005114 dags. 07.07.1999 með texta: „Kaupþing“

Lykill

Heiti lykils

Debet

Kredit

V560882-0419

Kaupþing

 

165.382.000,00

B 77

SPRON

165.382.000,00

 

Færslan er byggð á fyrirmælum, án skýringa, um færslur á bókhaldslykla samkvæmt fylgiskjali sem er handskrifað bréf, ódagsett og óundirritað en með áprentuðu nafni Tryggva Jónssonar. Ytri frumgögn til staðfestingar vantar í bókhaldið. Greiðslan er framkvæmd með millifærslu af bankareikningi hlutafélagsins í Lúxemborg, sem ekki er skráður í bókhaldi þess, inn á tékkareikning félagsins hjá SPRON.

Færsla nr. S005128 dags. 08.07.1999 með texta: „Kaupþing“

Lykill

Heiti lykils

Debet

Kredit

F 73112

Biðreikningur

21.582.000,00

 

B 77

SPRON

 

21.582.000,00

Færslan, til eignar á biðreikningi, er byggð á fyrirmælum, án skýringa, um færslur á bókhaldslykla í fylgiskjali sem er handskrifað bréf, ódagsett og óundirritað en með áprentuðu nafni Tryggva Jónssonar. Ytri frumgögn til staðfestingar vantar í bókhaldið. Um er að ræða millifærslu af tékkareikningi hlutafélagsins hjá SPRON á bankareikning þess í Lúxemborg sem ekki er skráður í bókhaldi hlutafélagsins.

Færsla nr. I00725 dags. 30.06.2001 með texta: „Kaupþing fært á fyrirframgreiddan kostnað“

Lykill

Heiti lykils

Debet

Kredit

F 73112

Biðreikningur

 

21.582.000,00

B 74592

Annar fyrirframgreiddur kostnaður án vsk

21.582.000,00

 

Færslan, sem er millifærsla af „Biðreikningur“ og til eignar á „Annar fyrirframgreiddur kostnaður án vsk“, er byggð á fyrirmælum um færslur samkvæmt bókunarblaði sem er handskrifað, ódagsett og óundirritað. Hvorki fylgir skýring millifærslunni né tilvísun í hina upprunalegu færslu nr. S005128 dags. 08.07.1999.

Hluti ofangreindrar eignfærslu að fjárhæð kr. 21.582.000,00 var færður til gjalda á bókhaldslykla með heitunum „Ýmislegt án vsk“ og „Ýmislegt ófrádráttarbært“ í bókhaldi Baugs hf. með 16 mánaðarlegum færslum hver að fjárhæð kr. 900.000,00, á tímabilinu mars 2001 til júní 2002, samtals að fjárhæð kr. 14.400.000,00.

31. Ákærðu Jóni Ásgeiri og Tryggva með því að hafa fært og eða látið færa rangar og tilhæfulausar færslur í bókhald Baugs hf., þegar þeir létu færa til eignar á viðskiptamannareikning Kaupþings hf., [kt.], og til tekna hjá Baugi hf. kr. 38.045.954,00 með eftirgreindum færslum og fylgigögnum:

Færsla nr. L0565 dags. 30.04.2000 með texta: „Tekjur v.ábyrgð á hlutabréfum“

Lykill

Heiti lykils

Debet

Kredit

V560882-0419

Kaupþing

25.000.000,00

 

F 51990

Aðrar fjármunatekjur

 

25.000.000,00

Færslan, til eignar á viðskiptamannareikningi Kaupþings hf., er byggð á fyrirmælum um færslur á bókhaldslykla, í fylgiskjali sem er handskrifað og óundirritað bréf (innra frumgagn), dags. 30.04.2000, þar sem eftirfarandi skýring kemur fram: „Tekjur Baugs v/ábyrgðar á hlutabréfum í UVS. Heildartekjur 50 mills. 25 tekjufært í apríl samkv. TJ“. Ytri frumgögn til staðfestingar vantar í bókhaldið.

Færsla nr. L0619 dags. 30.06.2000 með texta: „Þóknun vegna hlutabréfakaupa“

Lykill

Heiti lykils

Debet

Kredit

V560882-0419

Kaupþing

13.045.954,00

 

F 19922

Tekjur utan samstæðu án vsk

 

13.045.954,00

Færslan, til eignar á viðskiptamannareikningi Kaupþings hf., er gerð án þess að viðeigandi frumgögn, ytri sem innri, liggi að baki í bókhaldi Baugs hf.

32. Ákærðu Jóni Ásgeiri og Tryggva með því að hafa fært og eða látið færa rangar og tilhæfulausar færslur í bókhald Baugs hf., um viðskipti og notkun fjármuna þegar þeir létu færa sölu á 3,1 milljón hluta í Arcadia Plc. til Kaupthing Bank Luxembourg fyrir kr. 332.010.000,00 og tilhæfulaus endurkaup sömu hluta fyrir kr. 544.050.000,00. Ráðstafanir ofangreindra hlutabréfa voru færðar í bókhald Baugs hf. með eftirgreindum færslum og fylgigögnum:

Færsla nr. I00296 dags. 31.12.2000 með texta: „Lokaf. Sala hlbr. Arcadia til Kaupþ. Lux“

Lykill

Heiti lykils

Debet

Kredit

V560882-0419

Kaupþing

332.010.000,00

 

F65595

Erlend hlutabréf

 

167.399.464,00

F55505

Hagnaður af sölu hlutabréfa

 

164.610.536,00

Færslan byggir á óundirrituðu færslublaði frá endurskoðunarskrifstofu Baugs hf., dags. 23.03.2001. Engin ytri frumgögn fylgja með færslunni í bókhaldi Baugs hf. Afrit af undirrituðum en tilhæfulausum kaupsamningi lá fyrir utan bókhaldið.

Færsla nr. T000630 dags. 02.02.2001 með texta: „Sala á Arcadia hlutabréfum“

Lykill

Heiti lykils

Debet

Kredit

B 720

Íslandsbanki hf.

332.010,00

 

B 720

Íslandsbanki hf.

331.677.990,00

 

V560882-0419

Kaupþing

 

332.010.000,00

Færslan byggir á handskrifuðu blaði, ódagsettu og óundirrituðu, með skýringunni „Sala á Arcadia hlutabréfum“, auk afrits af bankayfirliti Baugs hf. sem sýnir innborgun á reikning Baugs hf., hinn 01.02.2001, að sömu fjárhæð. Engin ytri frumgögn fylgja með færslunni í bókhaldi Baugs hf. Greiðslan var framkvæmd með millifærslu af bankareikningi Baugs hf. í Lúxemborg sem ekki var skráður í bókhaldi Baugs hf., inn á tékkareikning hlutafélagsins hjá Íslandsbanka.

Færsla nr. L1073 dags. 11.05.2001 með texta: „Stofnhlutafé í A-Holding“

Lykill

Heiti lykils

Debet

Kredit

F 65193

Hlutafé, A-Holding

544.050.000,00

 

V560882-0419

Kaupþing

 

544.050.000,00

Færslan byggir á handskrifuðu blaði, dags. 27.06.2001, merkt „Jóhanna“, með skýringunni:

„1. Baugur selur K. Lúx. 3,1 m x 0,85 x 126 = 332 mills.

 2. Baugur kaupir aftur 3,1 m bréf x 135 x 130 = 544 mills. K. Lúx lánar.

 27/6 TJ og Magnús útvega skuldabréf til 5 ára með 4 afb. útg.dagur 30/6 með áföllnum vöxtum. Bókast sem stofnframlag Baugs hf. í A-Holding (Hlutafé)“.

Engin ytri frumgögn fylgja með færslunni í bókhaldi Baugs hf. til staðfestingar á að viðskiptin eða lánveitingin hafi átt sér stað. Afrit af undirrituðum en tilhæfulausum kaupsamningi lá fyrir utan bókhaldið.

Færsla nr. I00743 dags. 30.06.2001 með texta „Lokaf. Bakf. skuld við Kaupþing.“

Lykill

Heiti lykils

Debet

Kredit

V Holding

Baugur Holding S.A.

 

544.000.000,00

V560882-0419

Kaupþing

544.000.000,00

 

Færslan byggir á óundirrituðu lokafærsluskjali frá endurskoðunarskrifstofu Baugs hf., dags. 27.09.2001, með skýringartextanum „Bakfærð skuld við Kaupþing (skuldfærist í bókhaldi B-Holding)“.

Með framangreindum færslum sem tilgreindar eru í þessum 32. ákærulið hefur verið búin til skuld í bókhaldi Baugs hf., að fjárhæð kr. 212.040.000, sem ekki á við rök að styðjast.“

Um heimfærslu á þessari háttsemi varnaraðilanna segir eftirfarandi í lok þessa kafla ákærunnar: „Brot ákærða Jóns Ásgeirs samkvæmt 29. til og með 32. tölulið ákæru teljast varða við 2. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940, sbr. 1. gr. laga nr. 39, 1995, sbr. 3. og 5. tl. 1. mgr. 37. gr., sbr. 8. gr., sbr. 36. gr. laga nr. 145, 1994, um bókhald, 2. tl. 1. mgr. 83. gr., sbr. 3. og 9. gr., sbr. 82. gr. laga nr. 144, 1994, um ársreikninga, sbr. 1. og 3. gr. laga nr. 37, 1995 og samkvæmt 29. tölulið ákæru telst brot ákærða jafnframt varða við 1. tl. 1. mgr. 153. gr. hlutafélagalaga nr. 2, 1995. Brot ákærða Tryggva samkvæmt 29. til og með 32. tölulið ákæru teljast varða við 2. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940, sbr. 1. gr. laga nr. 39, 1995, sbr. 3. og 5. tl. 1. mgr. 37. gr., sbr. 8. gr., sbr. 36. gr. laga nr. 145, 1994 um bókhald, til vara sbr. 2. mgr. 37. gr., sbr. og 22. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940, 2. tl. 1. mgr. 83. gr., sbr. 3. og 9. gr., sbr. 82. gr., laga nr. 144, 1994 um ársreikninga, sbr. 1. og 3. gr. laga nr. 37, 1995 sbr. til vara sbr. 2. mgr. 83. gr. og 22. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940 og samkvæmt 29. tölulið ákæru telst brot ákærða jafnframt varða við 1. tl. 1. mgr. 153. gr. laga um hlutafélög nr. 2, 1995.“

Í fyrrgreindum 29. lið ákærunnar er varnaraðilunum Jóni Ásgeiri og Tryggva gefið að sök að hafa í sameiningu fært eða látið færa „til tekna í bókhaldi Baugs hf. ... tvo tilhæfulausa reikninga, sem ekki áttu stoð í viðskiptum félagsins“ og þannig rangfært bókhald þess og oftalið tekjur með þeim afleiðingum að gefið hafi verið til kynna í árshlutareikningi 30. júní 2001 að hagnaður félagsins hafi á nánar tiltekinn hátt verið hærri en hann var í raun. Í þessari lýsingu á verknaði varnaraðilanna er ekki skýrt frekar hvernig þeir eru taldir hafa staðið að þessu í sameiningu. Af því, sem fram kemur í lok þessa kafla ákærunnar um heimfærslu ætlaðra brota samkvæmt 29. til 32. lið hennar til refsiákvæða, sést að varnaraðilanum Tryggva er til vara gefið að sök að hafa verið hlutdeildarmaður í brotum varnaraðilans Jóns Ásgeirs. Háttsemi þess fyrrnefnda er þó hvergi lýst í þessum liðum ákærunnar á þann hátt að samrýmst geti þeirri heimfærslu. Þá er einnig til þess að líta að reikningar, sem beint er að félagi, hljóta eðli máls samkvæmt að fela í sér kröfur annarra á hendur því, sé ekki annað tekið fram. Kröfur á hendur félagi verða ekki færðar því til tekna í bókhaldi þess. Án nánari skýringa verður því ekki séð hvernig færsla á tilhæfulausum reikningum frá öðrum geti aukið bókfærðan hagnað þess, sem þeim er beint að, svo sem felst í orðalagi verknaðarlýsingar í þessum lið ákæru.

Samkvæmt 30. lið ákærunnar er varnaraðilunum Jóni Ásgeiri og Tryggva gefið að sök að hafa gert eða látið gera tilhæfulausar færslur „um viðskipti og notkun fjármuna“ í bókhaldi Baugs hf. þegar þeir hafi látið „færa eigin hlutabréf í hlutafélaginu, að nafnverði kr. 40.000.000,00 ..., til vörslu hjá Kaupthing Bank Luxembourg, eins og um sölu hlutabréfanna væri að ræða til Kaupthing Bank Luxembourg“. Bréfin hafi þó allt að einu enn verið í eigu Baugs hf. og ráðstafað í nafni félagsins, meðal annars „til greiðslna til nokkurra af æðstu stjórnendum hlutafélagsins.“ Í þessum lið ákærunnar er síðan tíundað með upptalningu á bókhaldsfærslum hvernig ráðstöfun „ofangreindra fjármuna“ sé talin hafa verið rangfærð og dulin í bókhaldi félagsins með fylgiskjölum, sem að nokkru eru þar rakin efnislega. Ekki verður séð hvað átt er við þegar fjallað er í ákærunni um að varnaraðilar hafi látið færa hlutabréfaeign Baugs hf. „til vörslu“ hjá fyrrnefndum banka „eins og um sölu“ þeirra væri að ræða. Talningin á bókhaldsfærslum, sem virðist eiga að sýna hvernig raunveruleg ráðstöfun þessara hlutabréfa hafi verið rangfærð og dulin, er sundurlaus og nánast óskiljanleg eins og hún er fram sett í ákærunni. Að auki er sá meginannmarki á verknaðarlýsingu í þessum ákærulið að ógerningur er að ráða af henni hvernig haldið sé fram að hlutabréfum þessum hafi í raun nákvæmlega verið ráðstafað, en án upplýsinga um það er ófært að taka afstöðu til sakargifta á hendur varnaraðilunum um að þeir hafi rangfært og dulið þær ráðstafanir.

Í 31. lið ákæru eru varnaraðilarnir Jón Ásgeir og Tryggvi sakaðir um að hafa gert eða látið gera í bókhaldi Baugs hf. rangar og tilhæfulausar færslur á tekjum félagsins að fjárhæð samtals 38.045.954 krónur og samsvarandi eign þess á viðskiptamannareikningi Kaupþings hf. Samkvæmt lýsingu á þessum verknaði í ákærunni á þetta að hafa verið gert í tvennu lagi, annars vegar 30. apríl og hins vegar 30. júní 2000, en færslurnar í fyrrgreinda skiptið hafi verið reistar á handskrifuðu og óundirrituðu bréfi, sem geymt hafi fyrirmæli um færslur á bókhaldslykla, þar sem eftirfarandi hafi meðal annars komið fram: „25 tekjufært í apríl samkv. TJ“. Að þessu virtu skortir í ákæru viðhlítandi skýringar á því hvernig varnaraðilarnir Jón Ásgeir og Tryggvi séu taldir sameiginlega bera refsiábyrgð á þessum ráðstöfunum og að þeim síðarnefnda sé til vara gefið að sök að vera hlutdeildarmaður í broti þess fyrrnefnda, svo sem ráðið verður, eins og áður greinir, af heimfærslu ætlaðra brota varnaraðilanna til refsiákvæða í lok þessa kafla ákærunnar.

Í 32. lið ákærunnar er varnaraðilunum Jóni Ásgeiri og Tryggva gefið að sök að hafa gert eða látið gera á árunum 2000 og 2001 rangar og tilhæfulausar færslur í bókhaldi Baugs hf. um sölu á tilteknum hlutabréfum í erlendu félagi til nafngreinds banka fyrir 332.010.000 krónur og endurkaup sömu hlutabréfa á 544.050.000 krónur. Samkvæmt því, sem segir í niðurlagi þessa ákæruliðar, hafi þetta leitt til þess að í bókhaldi félagsins hafi verið „búin til skuld“, sem ekki eigi við rök að styðjast, fyrir mismuninum á fyrrgreindum fjárhæðum. Í ákærunni er leitast við að gera frekari grein fyrir þessum verknaði með sundurlausri rakningu á bókhaldsfærslum og gögnum, sem þær eru sagðar að nokkru leyti hafa verið reistar á. Þær fábrotnu skýringar, sem gefnar eru í ákærunni á þessum færslum, nægja engan veginn til að gera lýsingu á ætluðum verknaði varnaraðilanna skiljanlega.

Að virtu öllu framangreindu verður málinu vísað frá héraðsdómi að því er varðar 29. til 32. lið ákæru.

 

 

IX.

Í VIII. kafla ákærunnar, sem kemur næstur eftir VI. kafla hennar, eru sakir bornar á varnaraðilana Jón Ásgeir, Tryggva, Stefán Hilmar og Önnu um brot gegn almennum hegningarlögum og lögum um ársreikninga. Þessi kafli, sem hefur að geyma 33. til 36. lið ákærunnar, er svohljóðandi:

„33. Ákærði Jón Ásgeir, sem framkvæmdastjóri Baugs hf., með því að hafa, við undirbúning, gerð og framsetningu ársreiknings vegna ársins 1998, með tilstuðlan og aðstoð meðákærða Tryggva sem aðstoðarframkvæmdastjóra og yfirmanns fjármála hlutafélagsins, sett fram rangar og villandi sérgreiningar á liðum skammtímakrafna í efnahagsreikningi þar sem fjárhæð lána, sundurliðað ásamt upplýsingum um vexti, greiðslukjör og aðra helstu skilmála, til hluthafa, stjórnarmanna, framkvæmdastjóra og aðila þeim nátengdum, var ekki sérstaklega getið, heldur felldar undir liðinn aðrar skammtímakröfur í efnahagsreikningi, auk þess sem þeirra var ekki getið í skýrslu stjórnar eða í skýringum ársreikningsins eins og bar að gera. Ársreikninginn með þessum röngu og villandi sérgreiningum og án viðeigandi skýringa, áritaði ákærði Stefán Hilmar, endurskoðandi hlutafélagsins, án fyrirvara.

Lán til hluthafa, stjórnarmanna, framkvæmdastjóra og aðila þeim nátengdum námu í lok reikningsárs 1998 fjárhæðum sem hér greinir:

Lánþegi

Samtals krafa í lok reikningsárs

Lánveitingar árið 1998 andstæðar 104. gr. laga um hlutafélög

nr. 2, 1995.

Jón Ásgeir Jóhannesson

221.298,00 kr.

61.466,50 kr.

Gaumur ehf.

401.430,00 kr.

401.430,00 kr.

34. Ákærði Jón Ásgeir, sem framkvæmdastjóri Baugs hf., með því að hafa, við undirbúning, gerð og framsetningu ársreiknings vegna ársins 1999, með tilstuðlan og aðstoð meðákærða Tryggva sem aðstoðarframkvæmdastjóra og yfirmanns fjármála hlutafélagsins, sett fram rangar og villandi sérgreiningar á liðum skammtímakrafna í efnahagsreikningi þar sem fjárhæð lána, sundurliðað ásamt upplýsingum um vexti, greiðslukjör og aðra helstu skilmála, til hluthafa, stjórnarmanna, framkvæmdastjóra og aðila þeim nátengdum, var ekki sérstaklega getið, heldur felldar undir liðinn aðrar skammtímakröfur í efnahagsreikningi, auk þess sem þeirra var ekki getið í skýrslu stjórnar eða í skýringum ársreikningsins eins og bar að gera. Ársreikninginn með þessum röngu og villandi sérgreiningum og án viðeigandi skýringa, áritaði ákærði Stefán Hilmar, endurskoðandi hlutafélagsins, án fyrirvara.

Lán til hluthafa, stjórnarmanna, framkvæmdastjóra og aðila þeim nátengdum námu í lok reikningsárs 1999 fjárhæðum sem hér greinir:

Lánþegi

Samtals krafa í lok reikningsárs

Lánveitingar árið 1999 andstæðar 104. gr. laga um hlutafélög

nr. 2, 1995.

Jón Ásgeir Jóhannesson

7.048.346,00 kr.

215.145,51 kr.

Gaumur ehf.

143.068.986,00 kr.

205.310.411,00 kr.

35. Ákærði Jón Ásgeir, sem framkvæmdastjóri Baugs hf., með því að hafa, við undirbúning, gerð og framsetningu ársreiknings vegna ársins 2000, með tilstuðlan og aðstoð meðákærða Tryggva sem aðstoðarframkvæmdastjóra og yfirmanns fjármála hlutafélagsins, sett fram rangar og villandi sérgreiningar á liðum skammtímakrafna í efnahagsreikningi þar sem fjárhæð lána, sundurliðað ásamt upplýsingum um vexti, greiðslukjör og aðra helstu skilmála, til hluthafa, stjórnarmanna, framkvæmdastjóra og aðila þeim nátengdum, var ekki sérstaklega getið, heldur felldar undir liðinn aðrar skammtímakröfur í efnahagsreikningi, auk þess sem þeirra var ekki getið í skýrslu stjórnar eða í skýringum ársreikningsins eins og bar að gera. Ársreikninginn með þessum röngu og villandi sérgreiningum og án viðeigandi skýringa árituðu ákærðu Stefán Hilmar og Anna, endurskoðendur hlutafélagsins, án fyrirvara.

Lán til hluthafa, stjórnarmanna, framkvæmdastjóra og aðila þeim nátengdum námu í lok reikningsárs 2000 fjárhæðum sem hér greinir:

Lánþegi

Samtals krafa í lok reikningsárs

Lánveitingar árið 2000 andstæðar 104. gr. laga um hlutafélög

nr. 2, 1995.  

Jón Ásgeir Jóhannesson

19.537.582,00 kr.

1.041.542,50 kr.

Gaumur ehf.

121.443.932,00 kr.

76.224.951,00 kr.

Fjárfar ehf.

113.602.581,00 kr.

114.500.000,00 kr.

36. Ákærði Jón Ásgeir, sem framkvæmdastjóri Baugs hf., með því að hafa, við undirbúning, gerð og framsetningu ársreiknings vegna ársins 2001, með tilstuðlan og aðstoð meðákærða Tryggva sem aðstoðarframkvæmdastjóra og yfirmanns fjármála hlutafélagsins, sett fram rangar og villandi sérgreiningar á liðum skammtímakrafna í efnahagsreikningi þar sem fjárhæð lána, sundurliðað ásamt upplýsingum um vexti, greiðslukjör og aðra helstu skilmála, til hluthafa, stjórnarmanna, framkvæmdastjóra og aðila þeim nátengdum, var ekki sérstaklega getið, heldur felldar undir liðinn aðrar skammtímakröfur í efnahagsreikningi, auk þess sem þeirra var ekki getið í skýrslu stjórnar eða í skýringum ársreikningsins eins og bar að gera. Ársreikninginn með þessum röngu og villandi sérgreiningum og án viðeigandi skýringa árituðu ákærðu Stefán Hilmar og Anna, endurskoðendur hlutafélagsins, án fyrirvara.

Lán til hluthafa, stjórnarmanna, framkvæmdastjóra og aðila þeim nátengdum námu í lok 14 mánaða reikningsárs 2001, 28. febrúar 2002, fjárhæðum sem hér greinir:

 

Lánþegi

Samtals krafa í lok reikningsárs

Lánveitingar reikningsárið 2001 andstæðar 104. gr. laga um hlutafélög nr. 2, 1995.  

Jón Ásgeir Jóhannesson

67.218.559,00 kr.

14.464.627,00 kr.

Kristín Jóhannesdóttir

3.388.833,00 kr.

3.786.727,00 kr.

Gaumur ehf.

244.347.997,00 kr.

151.823.363,00 kr.

Fjárfar ehf.

168.883.376,00 kr.

85.758.591,00 kr.

Brot ákærða Jóns Ásgeirs samkvæmt 33. til og með 36. töluliðs ákæru teljast varða við 2. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940, sbr. 1. gr. laga nr. 39, 1995 sbr., 2. tl. 1. mgr. 83. gr., sbr. 82. gr. sbr. 43. gr., sbr. 36. gr. laga nr. 144, 1994, um ársreikninga.

Brot ákærða Tryggva samkvæmt 33. til og með 36. töluliðs ákæru teljast varða við 2. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940, sbr. 1. gr. laga nr. 39, 1995, sbr. 2. tl. 1. mgr. 83. gr., sbr. 82. gr., sbr. 43. gr., sbr. 36. gr. laga nr. 144, 1994, um ársreikninga. Til vara teljast brot ákærða Tryggva varða við 2. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940, sbr. 1. gr. laga nr. 39, 1995, sbr. 2. tl. 1. mgr. 83. gr., sbr. 82. gr., sbr. 43. gr., sbr. 36. gr., sbr. 2. mgr. 83. gr. laga nr. 144, 1994, um ársreikninga, sbr. 22. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940, sbr. 1. gr. laga nr. 39, 1995.

Brot ákærða Stefáns Hilmars samkvæmt 33. til og með 36. töluliðs ákæru teljast varða við 2. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940, sbr. 1. gr. laga nr. 39, 1995, sbr. 2. og 3. tl. 85. gr., sbr. 82. gr., sbr. 43. gr., sbr. 36. gr. laga nr. 144, 1994 um ársreikninga.

Brot ákærðu Önnu samkvæmt 35. og 36. tölulið ákæru teljast varða við 2. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940, sbr. 1. gr. laga nr. 39, 1995, sbr. 2. og 3. tl. 85. gr., sbr. 82. gr., sbr. 43. gr., sbr. 36. gr. laga nr. 144, 1994 um ársreikninga.“

Með framangreindum 33. til 36. lið ákæru eru varnaraðilunum Jóni Ásgeiri, Tryggva, Stefáni Hilmari og Önnu gefin að sök brot gegn nánar tilteknum ákvæðum almennra hegningarlaga og laga nr. 144/1994 um ársreikninga með því að ekki hafi verið greint í ársreikningum Baugs hf. vegna áranna 1998 til 2001 frá ætluðum lánum félagsins til stjórnenda þess og annarra nátengdra á þann hátt, sem um ræðir í 36. gr. og 43. gr. síðarnefndu laganna. Í ákærunni er gerð grein fyrir þeim kröfum félagsins, sem af hálfu ákæruvaldsins er talið að vanrækt hafi verið að tilgreina sérstaklega í hverjum ársreikningi, en sakargiftir í þessum liðum hennar eru samhljóða að því er varðar verknaðarlýsingu, að frátöldum atriðum, sem snúa að ártölum, skuldurum og fjárhæðum. Auk þess er sökum beint að þremur varnaraðilum í 33. og 34. lið ákæru, en að fjórum varnaraðilum í þeim 35. og 36. Eins og ráðið verður af texta þessara ákæruliða hér að framan er þó auk þess, sem nú hefur verið getið, greint í tölulegum upplýsingum við hvern þeirra frá ætluðum lánveitingum á viðkomandi reikningsári, sem séu „andstæðar 104. gr. laga um hlutafélög nr. 2, 1995.“ Ekki verður séð hvernig þessar upplýsingar geta tengst þeim sökum, sem hafðar eru uppi í 33. til 36. lið ákærunnar, og gera þær málatilbúnað af hálfu ákæruvaldsins óskýran. Þrátt fyrir þetta verður ekki litið svo á að annmarkar séu á þessum ákæruliðum, sem staðið geta því í vegi að efnisdómur verði felldur á málið að því er þá varðar.

X.

Í IX. kafla ákærunnar er sökum beint að varnaraðilunum Jóni Ásgeiri, Jóhannesi og Kristínu fyrir tollsvik og rangfærslu skjala, sem nánar greinir í 37. til 40. lið ákærunnar, en þeir hljóða þannig:

„37. Ákærði Jón Ásgeir með því að hafa við innflutning í nafni Bónus sf. á bifreiðinni PX 256, með sendingarnr. D 779 01 11 8 US NYC 0884, gefið rangar upplýsingar á aðflutningsskýrslu dags. 6. nóvember 1998, innlagðri sama dag hjá Tollstjóranum í Reykjavík, ásamt tilhæfulausum vörureikningi dags. 20. október 1998, útgefnum af Nordica Inc., Miami, Flórída í Bandaríkjunum, sem tilgreindi kaupverð bifreiðarinnar ranglega USD 29.875,00 í stað USD 37.000,00 samkvæmt kaupsamningi dags. 13. október 1998 frá Colonial, Miami, Flórída í Bandaríkjunum, en reikninginn hafði viðskiptafélagi ákærða, Jón Gerald Sullenberger, gefið út að ósk ákærða í þessu skyni, og með því að aðflutningsgjöld voru reiknuð á grundvelli aðflutningsskýrslunnar kom ákærði sér undan því að standa skil á virðisaukaskatti að fjárhæð kr. 202.510,00 og vörugjaldi að fjárhæð kr. 325.618,00 eða samtals kr. 528.128,00.

38. Ákærði Jón Ásgeir með því að hafa við innflutning á bifreiðinni OD 090, með sendingarnúmeri S HEG 10 11 9 CA MTR W004, í nafni hlutafélagsins Baugs, gefið rangar upplýsingar á aðflutningsskýrslu dags. 3. desember 1999, innlagðri 7. desember 1999 hjá Tollstjóranum í Reykjavík, ásamt tilhæfulausum vörureikningi dags. 23. september 1999, útgefnum af Nordica Inc., Miami, Flórída í Bandaríkjunum, sem tilgreindi kaupverð bifreiðarinnar ranglega USD 27.600,00 í stað USD 34.400,00 samkvæmt vörureikningi dags. 29. október 1999 frá Automotores Zona Franca, Miami, Flórída í Bandaríkjunum, en fyrrnefnda reikninginn hafði viðskiptafélagi ákærða, Jón Gerald Sullenberger, gefið út að ósk ákærða í þessu skyni, og með því að aðflutningsgjöld voru reiknuð á grundvelli aðflutningsskýrslunnar kom ákærði sér undan því að standa skil á virðisaukaskatti að fjárhæð kr. 225.900,00 og vörugjaldi að fjárhæð kr. 363.229,00 eða samtals kr. 589.129,00.

39. Ákærði Jóhannes með því að hafa við innflutning á bifreiðinni KY 293, með sendingarnr. D 779 28 05 0 US NYC 0160, gefið rangar upplýsingar á aðflutningsskýrslu dags. 30. maí 2000, innlagðri sama dag hjá Tollstjóranum í Reykjavík, ásamt tilhæfulausum vörureikningi dags. 11. apríl 2000, útgefnum af Nordica Inc., Miami, Flórída í Bandaríkjunum, sem tilgreindi kaupverð bifreiðarinnar ranglega USD 34.850,00 í stað USD 43.400,00 samkvæmt vörureikningi dags. 17. maí 2000 frá Automotores Zona Franca, Miami, Flórída í Bandaríkjunum, en fyrrnefnda reikninginn hafði viðskiptafélagi ákærða, Jón Gerald Sullenberger, gefið út að ósk ákærða í þessu skyni, og með því að aðflutningsgjöld voru reiknuð á grundvelli aðflutningsskýrslunnar kom ákærði sér undan því að standa skil á virðisaukaskatti að fjárhæð kr. 231.691,00 og vörugjaldi að fjárhæð kr. 293.487,00 eða samtals kr. 525.178,00.

40. Ákærða Kristín með því að hafa við innflutning á bifreiðinni KY 835, með sendingarnr. D 779 28 05 0 US NYC 0159, gefið rangar upplýsingar á aðflutningsskýrslu dags. 30. maí 2000, innlagðri sama dag hjá Tollstjóranum í Reykjavík, ásamt tilhæfulausum vörureikningi dags. 11. apríl 2000, útgefnum af Nordica Inc., Miami, Flórída í Bandaríkjunum, sem tilgreindi kaupverð bifreiðarinnar ranglega USD 46.780,00 í stað USD 58.200,00 samkvæmt vörureikningi dags. 17. maí 2000 frá Automotores Zona Franca, Miami, Flórída í Bandaríkjunum, en fyrrnefnda reikninginn hafði viðskiptafélagi ákærðu, Jón Gerald Sullenberger, gefið út að ósk ákærðu í þessu skyni, og með því að aðflutningsgjöld voru reiknuð á grundvelli aðflutningsskýrslunnar kom ákærða sér undan því að standa skil á virðisaukaskatti að fjárhæð kr. 307.598,00 og vörugjaldi að fjárhæð kr. 389.639,00 eða samtals kr. 697.237,00.“

Ætluð brot varnaraðilans Jóns Ásgeir samkvæmt 37. og 38. lið ákærunnar, Jóhannesar samkvæmt 39. lið og Kristínar samkvæmt 40. lið eru þar talin varða við 2. mgr., sbr. 1. mgr. 126. gr. tollalaga nr. 55/1987 og 2. mgr. 158. gr. almennra hegningarlaga.

Á framangreindum 37. til 40. lið ákærunnar eru engir þeir annmarkar, sem valdið geta því að efnisdómur verði ekki felldur á málið að því er þá varðar.

 

 

XI.

Samkvæmt því, sem að framan er rakið, eru slíkir annmarkar á 1. til 32. lið ákæru að vísa verður málinu frá héraðsdómi að því er þá varðar. Öðru máli gegnir um 33. til 40. lið ákærunnar, svo sem áður er getið. Síðastnefndu liðunum er skipað í tvo kafla, sem standa ekki í tengslum við hina kaflana sex í ákærunni varðandi þær sakir, sem bornar eru á varnaraðilana. Er því engin nauðsyn að vísa málinu í heild frá dómi vegna annmarka á hluta þess. Af þessum sökum verður hinn kærði úrskurður felldur úr gildi að því er varðar 33. til 40. lið ákærunnar og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið að því leyti til efnismeðferðar.

Með þeirri niðurstöðu, sem að framan er getið, standa eftir í máli þessu til efnisúrlausnar ákæruliðir, sem einn eða fleiri varða alla varnaraðila. Lýkur því málinu ekki með dómi þessum gagnvart neinum þeirra. Ákvæði hins kærða úrskurðar um sakarkostnað, þar með talin málsvarnarlaun, verða þessu til samræmis felld úr gildi og ákvörðun um þau atriði látin bíða efnisdóms í málinu. Kærumálskostnaður skal á hinn bóginn greiðast úr ríkissjóði, eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Máli þessu er vísað frá héraðsdómi að því er varðar 1. til og með 32. lið ákæru ríkislögreglustjóra 1. júlí 2005.

Hinn kærði úrskurður er að öðru leyti felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar að því er varðar 33. til og með 40. lið fyrrnefndrar ákæru.

Allur kostnaður af kærumáli þessu greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun skipaðra verjenda varnaraðila, hæstaréttarlögmannanna Gests Jónssonar, Jakobs R. Möller, Kristínar Edwald og Þórunnar Guðmundsdóttur og Einars Þórs Sverrissonar héraðsdómslögmanns, 75.000 krónur til hvers þeirra.

 

                                                                                     

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 20. september 2005.

             Með ákæru, dagsettri 1. júlí sl., höfðaði ríkislögreglustjóri opinbert mál á hendur þeim Jóni Ásgeiri Jóhannessyni, [kt.], Laufásvegi 69, Reykjavík, Jóhannesi Jónssyni, [kt.], Hrafnabjörgum 4, Akureyri, Kristínu Jóhannesdóttur, [kt.], Barðaströnd 9, Seltjarnarnesi, Tryggva Jónssyni, [kt.], Vesturhúsum 22, Reykjavík, Stefáni Hilmari Hilmarssyni, [kt.], Brautarholti 2, Reykjavík og Önnu Þórðardóttur, [kt.], Langholtsvegi 108 a, Reykjavík.  Í inngangi ákærunnar segir að Jóni Ásgeiri, sem sagður er hafa gegnt starfi forstjóra Baugs hf. frá 7. júlí 1998 til 3. júní 2002 og starfi stjórnarformanns hlutafélagsins frá 3. júní 2002, Tryggva, sem sagður er hafa gegnt starfi aðstoðarforstjóra Baugs hf. frá 7. júlí 1998 til 3. júní 2002 og starfi forstjóra hlutafélagsins frá 3. júní 2002, Jóhannesi, sem sagður er hafa verið stjórnarmaður Baugs hf. og starfsmaður félagsins frá 7. júlí 1998, Kristínu, sem sögð er hafa verið framkvæmdastjóri Fjárfestingarfélagsins Gaums ehf., [kt.], frá 27. ágúst 1999 og varastjórnarmaður Baugs hf. frá 26. apríl 2000, Stefáni Hilmari, sem sagður er hafa verið löggiltur endurskoðandi Baugs hf. frá 7. júlí 1998 og Önnu, sem sögð er hafa verið löggiltur endurskoðandi Baugs hf. frá og með árinu 2000, séu gefin að sök brot á almennum hegningarlögum, lögum um bókhald, ársreikninga og hlutafélög.  Ennfremur er þess að geta að þrjú hinna ákærðu eru saksótt fyrir brot gegn tollalögum, þótt þess sé reyndar ekki getið í innganginum.

             Við athugun á ákærunni hafa dómendur þóst sjá slíka anmarka á henni að úr þeim verði ekki bætt undir rekstri málsins og dómur því ekki kveðinn upp um efni þess.  Var sækjanda og verjendum gerð grein fyrir þessu í bréfi hinn 26. f. m. og boðað til þinghalds hinn 13. þ. m. í samhljóðan við 4. mgr. 122. gr. laga um meðferð opinberra mála nr. 19, 1991, sbr. lög nr. 36, 1999.  Var málefnið þá reifað og tekið til úrskurðar, en það er sem hér segir: 

            

             Í II. kafla ákærunnar eru þeim Jóni Ásgeiri, Tryggva og Jóhannesi gefin að sök umboðssvik, með því að hafa misnotað aðstöðu sína hjá Baugi hf. í eftirgreindum tilvikum:

“5.        Ákærðu Jóni Ásgeiri og Tryggva með því að hafa blekkt og misnotað  aðstöðu sína sem forstjóri og aðstoðarforstjóri Baugs hf. þegar þeir fengu, með vitund ákærða Jóhannesar sem stjórnarmanns, stjórn þess á stjórnarfundi hinn 20. maí 1999 til þess að heimila ákærða Jóni Ásgeiri að ganga til samninga og að kaupa 70 % hlutafjár í Vöruveltunni hf.  Á stjórnarfundinum leyndu ákærðu stjórn hlutafélagsins því að ákærði Jón Ásgeir var þá sjálfur umráðandi 70 % hlutafjár og átti stærsta hluta þess og var raunverulegur stjórnandi Vöruveltunnar hf., frá því að hann gerði hinn 7. október 1998 bindandi samning um kaup á öllu hlutafé í Vöruveltunni hf., að nafnverði kr. 4.600.000,00 fyrir kr. 1.150.000.000,00 og með viðbótargreiðslu að fjárhæð kr. 100.000.000,00 samkvæmt viðbótarsamningi ákærða við seljendur sem dagsettur er hinn 5. júní 1999.  Baugur hf. eignaðist með viðskiptunum á árinu 1999 70% hlutafjár í Vöruveltunni hf. sem ákærði Jón Ásgeir átti að meginhluta og réði yfir, fyrir kr. 1.037.000.000,00.

6.          Ákærðu Jóni Ásgeiri og Tryggva með því að hafa misnotað aðstöðu sína, Jón Ásgeir sem forstjóri Baugs hf. og Tryggvi sem aðstoðarforstjóri Baugs hf. og stjórnar­formaður Fasteignafélagsins Stoða hf., dótturfélags Baugs hf., þegar Fasteignafélagið Stoðir hf. keyptu fasteignir að Suðurlandsbraut 48, Laugalæk 2, Sporhömrum 3, Langarima 21 - 23 og Efstalandi 26 í Reykjavík, af Litla fasteigna­félaginu ehf., fyrir kr. 354.000.000,00, en í árslok 1998 höfðu ákærðu selt Litla fasteigna­félaginu ehf. eignirnar frá Vöruveltunni hf. fyrir kr. 217.000.000,00 með því að einka­hlutafélagið yfirtók skuldir Vöruveltunnar hf., auk greiðslu.”

             Brot Jóns Ásgeirs samkvæmt þessum töluliðum ákæru er talið varða við 249. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940 og brot Jóhannesar og Tryggva við 249. gr. sbr. 22. gr. almennra hegningarlaga.

             Umboðssvik, sbr. 249. gr. almennra hegningarlaga, eru auðgunarbrot.  Er það eitt hugtaksatriða brotsins að brotamaður eða aðrir, hafi auðgast eða valdið samsvarandi tjóni eða tjónshættu með því að misnota aðstöðu sína.  Í þessum ákæruliðum er lýst viðskiptum með hlutafé í Vöruveltunni hf. og með nokkrar fasteignir í Reykjavík.  Ráðstafanir þessar þurfa sjálfar og einar ekki að vera refsiverðar og hefði því þurft að skilgreina það frekar hvernig brotið var framið, hvernig auðgun er talin hafa orðið, eða þá tilsvarandi tjón eða tjónshætta, eða skilgreina brotið með öðrum viðunandi hætti, eins og t. d. er þó gert í 7. ákærulið.  Þá er það einnig athugavert að Tryggvi sýnist vera saksóttur sem aðalmaður ásamt Jóni Ásgeiri, en þegar kemur að heimfærslu til refsiákvæðs er hann samt talinn vera hlutdeildarmaður í brotunum.  Loks er það að athuga að verknaði Jóhannesar er ekki lýst að neinu leyti í 5. ákærulið en þess einungis getið að hann hafi verið stjórnarmaður í Baugi hf. og haft vitneskju um tiltekin atriði.

             Í III. kafla ákærunnar er ákærða Jóni Ásgeiri er gefinn að sök fjárdráttur og/eða umboðssvik í eftirgreindum tilvikum:

“8.        Með því að hafa hinn 8. október 1998 látið millifæra af bankareikningi, númer 1151 26 000156, í eigu Baugs-Aðfanga ehf., dótturfélags Baugs hf., kr. 200.000.000,00 inn á bankareikning í eigu SPRON, númer 1151 26 009999, þar sem ákærði fékk útgefna bankaávísun sömu fjárhæðar, á nafn Helgu Gísladóttur.  Ákærði afhenti eða lét afhenda Eiríki Sigurðssyni, sambýlismanni Helgu, eiganda alls hlutafjár í Vöruveltunni hf., bankaávísun þessa til greiðslu samkvæmt kaupsamningi dagsettum hinn 7. október 1998, þar sem Helga Gísladóttir seldi ákærða fyrir hönd ótilgreindra kaupenda allt hlutafé í hlutafélaginu Vöruveltunni og var ávísunin innleyst hinn 9. október 1998 og andvirði hennar lagt inn á bankareikning Helgu númer 0327 26 001708.   

9.          Með því að hafa hinn 15. júní 2001 látið Baug hf. greiða kr. 95.000.000,00 inn á bankareikning Kaupþings á Íslandi, nr. 1100 26 454080, þaðan sem fjárhæðinni var ráðstafað, ásamt láni frá Kaupthing Bank Luxembourg, að fjárhæð kr. 30.000.000,00, til félagsins Cardi Holding, dótturfélags Gaums Holding, sem bæði voru skráð í Lúxemborg, sem hlutafjárframlag í félagið FBA-Holding.  Það félag var í eigu Fjárfestingafélagsins Gaums ehf. og þriggja annarra aðila.  Færsla vegna greiðslunnar í bókhaldi Baugs hf. var með fylgiskjali, sem var útskrift tölvupósts með greiðslufyrirmælum ákærða til þáverandi fjármálastjóra Baugs hf., með handskrifuðum athugasemdum um númer bankareiknings sem greiðslan var færð inn á og svohljóðandi skýringum: „eignfæra ráðgjöf v/A Holding. Viðskiptafæra á Baug Holding. Vantar reikning“.”

             Brot ákærða samkvæmt 8. tölulið er talið varða við 247. gr. almennra hegn­ingarlaga en brot hans samkvæmt 9. tölulið er talið varða við 247. gr. almennra hegn­ingalaga,  en til vara við 249. gr. sömu laga.

             Um verknaðarlýsingu í þessum ákæruliðum er það að segja, að þar er lýst ýmsum færslum og ráðstöfunum ákærðu.  Ráðstafanir sem þessar þurfa í sjálfu sér ekki að vera refsiverðar og hefði því þurft að koma fram með skýrum orðum, eins og gerir t. d. í I. kafla ákærunnar, hvernig ákærði er talinn hafa dregið sér, slegið eign sinni á, tileinkað sér eða tekið undir sig  fé, sem er eitt hugtaksatriða fjárdráttarbrots, eða orða það með öðrum fullnægjandi hætti.  Þá er verknaðarlýsingunni einnig áfátt að því er varðar varasökina á sama hátt og sagt var um liði 5 og 6 hér að ofan.

 

             Í IV. kafla ákæru er þeim  Jóni Ásgeiri, Tryggva og Kristínu gefinn að sök fjárdráttur og/eða umboðssvik og brot gegn lögum um hlutafélög í eftirgreindum tilvikum, en þó er heitis á ætluðu broti Kristínar, hilmingu, ekki getið:

“10.      Ákærðu Jóni Ásgeiri og Tryggva með því að hafa hinn 23. ágúst 1999 látið millifæra af bankareikningi Baugs hf., nr. 0527 26 000720, kr. 100.000.000,00 til Íslands­banka hf., vegna innheimtu bankans á hlutafjárloforðum, sem greiðslu Fjárfestinga­félagsins Gaums ehf., þegar einkahlutafélagið eignaðist 10.000.000 hluti í hlutafjárútboði í Baugi hf. í apríl 1999.  Í bókhaldi Baugs hf. var greiðslan til Íslands­banka hf., í þágu einkahlutafélagsins, færð á viðskiptamannareikning þess hjá Baugi hf., sem krafa, þannig að eftir bókun millifærslunnar stóð viðskiptamannareikningurinn í kr. 182.782.689,00.  Krafa hlutafélagsins á einkahlutafélagið var síðar lækkuð með eftir­töldum greiðslum einkahlutafélagsins NRP til Baugs hf.; kr. 15.000.000,00 hinn 28. október 1999, kr. 15.000.000,00 hinn 2. nóvember 1999 og kr. 60.000.000,00 hinn 28. júní 2000, þegar einkahlutafélagið NRP eignaðist umrædd hlutabréf Fjárfestingafélagsins Gaums ehf., en jafnframt var krafa á viðskiptamannareikningi einkahlutafélagsins hjá Baugi hf. færð niður um kr. 10.000.000,00 hinn 31. desember 1999.

11.        Ákærða Jóni Ásgeiri með því að hafa um mitt ár 1999 án greiðslu eða skulda­viðurkenninga afhent eða látið afhenda Fjárfestingafélaginu Gaumi ehf. 10.695.295 hluti Baugs hf. í Flugleiðum hf., sem einkahlutafélagið seldi hinn 27. ágúst 1999 fyrir kr. 49.360.124,00.  Framangreind ráðstöfun bréfanna var fyrst færð í bókhaldi Baugs hf. með lokafærslum frá endurskoðanda í árslok 1999 að fjárhæð kr. 44.800.000,00. Færslan var miðuð við 31. desember 1999 og þá færð sem krafa á viðskiptamannareikning Fjárfestingafélagsins Gaums ehf., sem eftir bókunina stóð í kr. 143.068.986,00, en skuld einkahlutafélagsins var gerð upp með víxli útgefnum hinn 20. maí 2002 sem greiddur var 5. september sama ár.

12.        Ákærðu Jóni Ásgeiri og Tryggva með því að hafa hinn 11. október 1999 látið millifæra kr. 4.500.000,00 af bankareikningi Baugs hf., nr. 1150 26 00077, á bankareikning Fjárfestingafélagsins Gaums ehf., nr. 0527 26 001099, vegna kaupa einka­hlutafélagsins á hluta fasteignarinnar að Viðarhöfða 6, í Reykjavík. Í bókhaldi Baugs hf. var greiðslan til einkahlutafélagsins færð sem viðskiptakrafa á viðskiptamannareikning einkahlutafélagsins hjá Baugi hf., sem eftir bókun millifærslunnar stóð í kr. 187.665.005,00, en skuld einkahlutafélagsins var gerð upp með víxlinum sem nefndur er í lok 11. töluliðs ákæru.  Ákærðu Kristínu framkvæmdastjóra einkahlutafélagsins gat ekki dulist að millifærsla fjárhæðarinnar sem gerð var án skuldaviðurkenningar, samnings eða trygginga var ólögmæt og andstæð hagsmunum Baugs hf.

13.        Ákærðu Jóni Ásgeiri og Tryggva með því að hafa hinn 3. desember 1999 látið millifæra kr. 8.000.000,00 af bankareikningi Baugs hf., nr. 0527 26 000720, til SPRON sem greiðslu Fjárfestingafélagsins Gaums ehf. fyrir helmingshluta hlutafjár í eigu SPRON í Viðskiptatrausti ehf.  Í bókhaldi Baugs hf. var greiðslan færð sem krafa á viðskiptamannareikning einkahlutafélagsins í samræmi við útgefinn reikning, en eftir bókun færslunnar stóð viðskiptamannareikningurinn í kr. 168.031.286,00, en skuld einka­hlutafélagsins var gerð upp með kaupum Baugs hf. á öllu hlutafé í Viðskiptatrausti ehf., sem fært var til lækkunar á viðskiptamannareikningi einkahlutafélagsins hinn 30. júní 2000 fyrir kr. 16.000.000,00.

14.        Ákærðu Jóni Ásgeiri og Tryggva með því að hafa hinn 14. desember 1999 látið millifæra kr. 35.000.000,00 af bankareikningi Baugs hf., nr. 0527 26 000720, á bankareikning Fjárfestingafélagsins Gaums ehf., nr. 0527 26 001099, vegna kaupa einkahlutafélagsins á 186.500 hlutum í Debenhams PLC í Bretlandi.  Í bókhaldi Baugs hf. var greiðslan til einkahlutafélagsins færð sem viðskiptakrafa á viðskiptamannareikning einkahlutafélagsins, sem eftir bókun millifærslunnar stóð í kr. 201.001.430,00 en framangreind skuld einkahlutafélagsins, kr. 35.000.000,00, var gerð upp með greiðslu hinn 22. desember 1999 til hlutafélagsins. 

15.        Ákærðu Jóni Ásgeiri og Tryggva með því að hafa hinn 13. febrúar 2001 látið færa kröfu á viðskiptamannareikning Fjárfestingafélagsins Gaums ehf. hjá Baugi hf. að fjárhæð kr. 50.529.987,00 vegna kaupa einkahlutafélagsins á hlutabréfum í Baugi hf. í hlutafjárútboði í félaginu í desember árið 2000 þegar einkahlutafélagið eignaðist bréfin.  Ákærðu Kristínu sem framkvæmdastjóra einkahlutafélagsins gat ekki dulist að lánveitingin, sem var án skuldaviðurkenningar, trygginga og samnings um endurgreiðslu og lánakjör, var ólögmæt og andstæð hagsmunum Baugs hf.  Í bókhaldi Baugs hf. var krafan færð á viðskiptamannareikning einkahlutafélagsins.  Eftir bókun kröfunnar stóð viðskiptamannareikningurinn í kr. 145.871.863,00 en skuld einkahlutafélagsins var síðar gerð upp með víxlinum sem nefndur er í lok 11. töluliðs ákæru.

16.        Ákærðu Jóni Ásgeiri og Tryggva með því að hafa hinn 13. febrúar 2001 látið færa kröfu á viðskiptamannareikning ákærðu Kristínar í bókhaldi Baugs hf. að fjárhæð kr. 3.786.727,00 vegna kaupa ákærðu Kristínar á hlutabréfum í Baugi hf. í hlutafjárútboði í félaginu í desember 2000 þegar ákærða eignaðist hlutabréfin.  Ákærðu Kristínu gat ekki dulist að lánveitingin, sem var án skuldaviðurkenningar, trygginga og samnings um endurgreiðslu og lánakjör, var ólögmæt.  Arðgreiðsla af hlutabréfunum fyrir árið 2001, kr. 397.894,00, var færð til lækkunar á skuldinni hinn 5. júlí 2001 en skuld ákærðu var gerð upp með víxlinum sem nefndur er í lok 11. töluliðs ákæru.

17.        Ákærða Jóni Ásgeiri með því að hafa hinn 18. maí 2001 látið millifæra kr. 100.000.000,00 af bankareikningi Baugs hf., nr. 0527 26 000720, inn á bankareikning nr. 0527 26 001099 í eigu Fjárfestingafélagsins Gaums ehf., sem ákærðu Kristínu, sem var framkvæmdastjóri einkahlutafélagsins, gat ekki dulist að var ólögmætt og andstætt hagsmunum Baugs hf., enda lánveitingin án þess að einkahlutafélagið legði fram skuldaviðurkenningu, tryggingu eða samning um endurgreiðslu eða lánakjör, fyrir fénu, sem ráðstafað var samdægurs af bankareikningi einkahlutafélagsins til Nordic Restaurant Group AB, sem hlutafjárframlag einkahlutafélagsins í því félagi.  Í bókhaldi Baugs hf. var millifærslan til einkahlutafélagsins færð sem krafa á viðskiptamannareikning einkahlutafélagsins, sem eftir bókun millifærslunnar stóð í kr. 262.836.989,00 en skuld einkahlutafélagsins var síðar gerð upp með víxlinum sem nefndur er í lok 11. töluliðs ákæru.

18.        Ákærðu Jóni Ásgeiri og Tryggva með því að hafa hinn 16. maí 2000 misnotað aðstöðu sína þegar þeir lánuðu, án lánasamnings, trygginga eða ábyrgða, kr. 64.500.000,00, fyrir hönd Baugs hf. til einkahlutafélagsins Fjárfars, [kt.], sem ákærði Jón Ásgeir stjórnaði og rak, vegna kaupa einkahlutafélagsins á hlutabréfum í Baugi hf., að nafnverði kr. 5.000.000,00. Skuld Fjárfars ehf. við Baug hf., var gerð upp eftir húsleit lögreglu hjá Baugi hf., hinn 28. ágúst 2002.

19.        Ákærðu Jóni Ásgeiri og Tryggva með því að hafa hinn 30. júní 2000 misnotað aðstöðu sína þegar þeir lánuðu, án lánasamnings, trygginga eða ábyrgða, kr. 50.000.000,00 fyrir hönd Baugs hf., til einkahlutafélagsins Fjárfars, sem ákærði Jón Ásgeir stjórnaði og rak, vegna kaupa einkahlutafélagsins á 5 % hluta í Baugi.net ehf., [kt.], af Baugi hf. að nafnverði kr. 2.500.000,00. Viðskipti félaganna með hlutabréf í Baugi.net ehf. gengu til baka hinn 21. febrúar 2002.

20.        Ákærðu Jóni Ásgeiri og Tryggva með því að hafa hinn 13. febrúar 2001 misnotað aðstöðu sína þegar þeir lánuðu, án lánasamnings, trygginga eða ábyrgða, kr. 85.758.591,00 fyrir hönd Baugs hf. til einkahlutafélagsins Fjárfars, sem Jón Ásgeir stjórnaði og rak, vegna kaupa einkahlutafélagsins á hlutabréfum í Baugi hf., í tengslum við hlutafjáraukningu þess, að nafnverði kr. 7.392.982,00. Skuld Fjárfars ehf. við Baug hf., var gerð upp eftir húsleit lögreglu hjá Baugi hf., hinn 28. ágúst 2002.

21.        Ákærða Jóni Ásgeiri með því að láta Baug hf., greiða á tímabilinu frá 5. október 1998 til 2. maí 2002, samkvæmt reikningum, kostnað sem ákærði hafði stofnað til með úttektum á Visa og Mastercard greiðslukortum í reikning Baugs hf. vegna persónulegra úttekta ákærða óviðkomandi Baugi hf., samtals að fjárhæð kr. 12.553.358,60 svo sem hér á eftir greinir.  Voru greiðslurnar í bókhaldi Baugs hf. færðar til eignar á viðskiptamannareikningi ákærða hjá Baugi hf.  Skuld ákærða samkvæmt viðskiptamannareikningnum var gerð upp með víxlinum sem nefndur er í lok 11. töluliðs ákæru: [ ]

22.        Ákærða Jóni Ásgeiri með því að láta Baug hf., greiða sér, á tímabilinu frá 2. júní 1999 til 12. júní 2002, í alls átta skipti, samtals kr. 9.536.452,00 úr sjóðum Baugs hf., í fimm skipti með millifærslum af bankareikningum hlutafélagsins nr. 1150 26 77 og 0527 26 720, inn á eigin bankareikning ákærða, í eitt skipti með millifærslu inn á bankareikning nafngreinds manns og í tvö skipti látið afhenda sér reiðufé.  Voru greiðslurnar í bókhaldi Baugs hf. færðar til eignar á viðskiptamannareikningi ákærða hjá Baugi hf., svo sem hér á eftir greinir.  Skuld ákærða samkvæmt viðskiptamanna­reikningnum var gerð upp með víxlinum sem nefndur er í lok 11. töluliðs ákæru: [ ]

23.        Ákærða Jóni Ásgeiri með því að láta Baug hf. greiða, á tímabilinu frá 26. janúar 1999 til 16. júlí 2002, samtals kr. 5.551.474,91, samkvæmt eftirgreindum reikningum, sem voru vegna kostnaðar sem ákærði hafði stofnað til og voru einkakostnaður ákærða, óviðkomandi Baugi hf.  Greiðslurnar voru færðar til eignar á viðskiptamannareikningi ákærða hjá Baugi hf.  Skuld ákærða samkvæmt viðskiptamannareikningnum var gerð upp með víxlinum sem nefndur er í lok 11. töluliðs ákæru: [ ]”

             Brot Jóns Ásgeirs eru samkvæmt 10. - 23. töluliðum m. a. talin varða við 247. gr. almennra hegningarlaga, en til vara við 249. gr. sömu laga. 

             Brot Tryggva eru samkvæmt 10., 12. - 16. og 18. - 20. töluliðum ákæru talin varða m. a. við 247. gr., sbr. 22. gr., almennra hegningarlaga, til vara við 249. gr. sbr. 22. gr., sömu laga.

             Loks eru brot ákærðu Kristínar samkvæmt 12. og 15. - 17. töluliðum ákæru talin varða við 254. gr. almennra hegningarlaga.

             Í ákæruliðum 10 - 23 er lýst ýmsum færslum og ráðstöfunum ákærðu.  Ráðstafanir sem þessar þurfa sjálfar og einar ekki að vera refsiverðar og hefði því, eins og áður er sagt, þurft koma fram með skýrum orðum hvernig ákærðu eru taldir hafa dregið sér, slegið eign sinni á, tileinkað sér eða tekið undir sig fé, sem telst vera eitt hugtaksatriða fjárdráttarbrots.  Þá er verknaðarlýsingunni í liðum 10, 13, 14, 21, 22 einnig áfátt að því er varðar varasökina, sbr. það sem sagt var hér að ofan.  Við ákæruliði nr. 18 – 20 er það einnig að athuga að þar virðist brotalýsingin fremur eiga við umboðssvik en fjárdrátt, sem þó verður að ætla af heimfærslunni að ákæruvaldið telji vera aðalbrotið.

             Við þátt Tryggva er það auk þess að athuga að athæfi hans í ákæruliðunum 10, 12 - 16 og 18 - 20 er lýst sem verknaði aðalmanns, líkt og verknaði Jóns Ásgeirs, en hann er allt að einu talinn vera hlutdeildarmaður í brotunum þegar þau eru færð undir refsiákvæði. 

             Um þátt Kristínar samkvæmt liðum 12 og 15 – 17 er það að segja, að athæfi hennar er ekki lýst þar að neinu leyti, heldur einungis sagt að henni hafi ekki getað dulist að atferli meðákærðu hafi verið ólögmætt af ástæðum sem tilgreindar eru í þessum liðum.

 

             Samkvæmt c- lið 1. mgr. 116. gr. laga um meðferð opinberra mála nr. 19, 1991 ber að greina í ákæru hvert það brot sé sem ákært er út af, hvar og hvenær það er talið framið, heiti þess að lögum og aðra skilgreiningu.  Í þessu felst að sakargiftir í ákæru þurfa að koma þar fram og þær þurfa að vera svo skýrar og ótvíræðar að ekki þurfi getum að þeim að leiða eða að deila um hverjar þær séu.  Í þessu vegur þyngst sjálf verknaðarlýsingin en hin atriðin, sem talin eru upp í lagaákvæðinu, skipta minna máli.  Samkvæmt íslenskri dómaframkvæmd og áliti fræðimanna er þannig talið nauðsynlegt að hverju broti sé lýst allnákvæmlega í ákæru og á þann hátt sem sönnunargögn málsins eru talin benda til að það hafi gerst.  Verður að lýsa því hvernig ákærði er talinn hafa með athæfi sínu gerst sekur um það brot sem um ræðir og þá þannig að atburðarásin falli að efnislýsingu refsilagabrotsins og skýringu refsiréttarins á því.  Helgast þetta allt af því að sakborningi er nauðsyn á því að fá gerla að vita hvaða athæfi honum er gefið að sök, svo að hann geti varið sig, og ennfremur af því að dómari verður að geta gert sér svo glögga grein fyrir efni máls, að hann geti lagt á það dóm.  Er ákærunni verulega áfátt að þessu leyti, eins og rakið hefur verið.  Reyndar er hún ekki sem gleggst í ýmsum minni atriðum, sem óþarft er að rekja.  Þykja ágallarnir varða frávísun, sbr. 4. mgr. 122. gr. oml.  Þar sem hér er um verulegan hluta ákærunnar að ræða verður ekki hjá því komist að vísa málinu í heild frá dómi.  

             Sakarkostnaður í málinu er þessi:

             Við ákvörðun málsvarnarlauna er tekið mið af vinnuskýrslum verjenda og viðmiðunarreglum dómstólaráðs nr. 1, 2002 og nr. 1, 2005.  Þá er virðisaukaskattur innifalinn í málsvarnarlaununum.  Málsvarnarlaun verjanda ákærða Jóns Ásgeirs, Gests Jónssonar hrl., ákveðast þannig 10.218.275 krónur.  Málsvarnarlaun verjanda ákærða Jóhannesar Jónssonar, Einars Þórs Sverrissonar hdl., ákveðast þannig 3.575.889 krónur.  Málsvarnarlaun verjanda ákærðu Kristínar, Kristínar Edwald hdl., ákveðast þannig 3.714.520 krónur.  Málsvarnarlaun verjanda ákærða Tryggva, Jakobs R. Möller hrl., ákveðast þannig 1.383.195 krónur.  Loks ákveðast málsvarnarlaun verjanda ákærðu Stefáns Hilmars og Önnu, Þórunnar Guðmundsdóttur hrl., þannig 2.892.757 krónur. 

             Yfirlit um sakarkostnað í málinu hefur ekki borist frá ákæruvaldinu, sbr. 2. mgr. 168. gr. oml., sbr. lög nr. 82, 2005, en fyrir utan málsvarnarlaun er kunnugt um að stofnað hefur verið til sakarkostnaðar vegna ákærða Jóns Ásgeirs sem nemur 9.352.475 krónum að meðtöldum virðisaukaskatti.  Þá hefur Andra Árnasyni hrl., sem var verjandi ákærða Tryggva í lögreglurannsókn málsins, verið greidd þóknun fyrir þann starfa sinn, 2.309.475 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti, og Helga Jóhannessyni hrl., sem var verjandi ákærða Jóns Ásgeirs framan af í lögreglurannsókninni, hefur sömuleiðis verið greidd þóknun fyrir starfann, 563.238 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti.

             Með því að málinu er vísað frá dómi verður sakarkostnaður í því ekki lagður á sakborninga, sbr. 1. mgr. 166. gr. oml., og ber að greiða hann úr ríkissjóði.

Pétur Guðgeirsson héraðsdómari kvað upp dóminn.

Úrskurðarorð:

             Ákæru í máli þessu er vísað frá dómi.

             Úr ríkissjóði greiðast málsvarnarlaun sem hér segir: Gesti Jónssyni hrl., 10.218.275 krónur, Einari Þór Sverrissyni hdl., 3.575.889 krónur, Kristínu Edwald hdl., 3.714.520 krónur, Jakob R. Möller hrl., 1.383.195 krónur og Þórunni Guðmundsdóttur hrl., 2.892.757 krónur. 

             Annar sakarkostnaður, samtals 12.788.426 krónur, greiðist einnig úr ríkissjóði.