Print

Mál nr. 609/2011

Lykilorð
  • Kærumál
  • Fjármálafyrirtæki
  • Slitameðferð
  • Lánssamningur

                                                         

Mánudaginn 28. nóvember 2011.

Nr. 609/2011.

Sveinn Óskar Sigurðsson og

Samsidanith Chan

(Gísli Guðni Hall hrl.)

gegn

Frjálsa fjárfestingarbankanum hf.

(Hlynur Jónsson hrl.)

Kærumál. Fjármálafyrirtæki. Slitameðferð. Lánssamningur.

Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem hafnað var að viðurkenna tilteknar kröfur SS og SC, sem þau lýstu við slit F hf. sem almennum kröfum samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. SS og SC lýstu tveimur kröfunum við slit F hf. á grundvelli tveggja lánssamninga þeirra við F hf. með vísan til þess að hinn síðastnefndi hefði ekki staðið rétt að útreikningi krafna á hendur þeim samkvæmt samningunum og því ættu þau rétt til endurgreiðslu ætlaðs ofgreidds fjár. Í úrskurði héraðsdóms, sem staðfestur var í Hæstarétti, var talið að skuldbinding SS og SC væri ákveðin í íslenskum krónum og bundin við gengi erlendra gjaldmiðla í samræmi við dómaframkvæmd Hæstaréttar í sambærilegum málum. Sú niðurstaða leiddi til þess að ekki kæmi til úrlausnar álitaefni um útreikning afborgana af lánunum, enda byggðu SS og SC útreikninga sína á þeirri forsendu að um erlend lán væri að ræða. Var kröfum SS og SC því hafnað.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Markús Sigurbjörnsson og Viðar Már Matthíasson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 4. nóvember 2011, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 14. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 21. október 2011, þar sem hafnað var að viðurkenna kröfur sóknaraðila að fjárhæð samtals 3.338.394 krónur, sem þau lýstu sem almennum kröfum samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. við slit varnaraðila. Kæruheimild er í 1. mgr. 179. gr. sömu laga. Sóknaraðilar krefjast þess að kröfur þeirra verði viðurkenndar við slit varnaraðila með stöðu í réttindaröð samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991. Þá krefjast þau málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Rétt er að aðilarnir beri hvert sinn kostnað af kærumáli þessu.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Kærumálskostnaður fellur niður.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 21. október 2011.

I

Mál þetta var þingfest 27. janúar 2010, en þá var lagt fram bréf slitastjórnar Frjálsa fjárfestingarbankans hf., móttekið 22. desember 2009, þar sem óskað var dómsmeðferðar vegna ágreinings um lýsta kröfu sóknaraðila við slit bankans. Erindinu var beint til héraðsdóms á grundvelli 171. gr. laga nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti o.fl., sbr. og 2. mgr. 120. gr. sömu laga. Fram kemur í bréfi slitastjórnar að Héraðsdómur Reykjavíkur hafi skipað Frjálsa fjárfestingarbankanum hf., Lágmúla 6, Reykjavík, slitastjórn 23. júní 2009 samkvæmt fyrirmælum 101. gr. laga nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki. Innköllun vegna slitanna hafi verið gefin út 22. júlí 2009 og hafi kröfulýsingarfrestur runnið út 22. október sama ár.

Sóknaraðilar, Sveinn Óskar Sigurðsson og Samsidanith Chan, áður til heimilis að Stórateig 20 í Mosfellsbæ, en nú að Barrholti 23, einnig í Mosfellsbæ, lýstu tveimur kröfum við slit varnaraðila, annars vegar að fjárhæð 2.202.593 krónur, en hins vegar að fjárhæð 1.135.801 krónu. Samkvæmt kröfulýsingu byggðust kröfur þeirra á því að varnaraðili hefði ekki staðið rétt að útreikningi krafna á hendur þeim samkvæmt lánssamningum aðila 29. ágúst 2006, og því ættu þau rétt til endurgreiðslu þess fjár sem þau hefðu ofgreitt. Næmi ofgreiðslan höfuðstól hvorrar kröfu um sig. Kröfunum var lýst sem almennum kröfum samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti o.fl. Að auki var krafist áfallandi vaxta frá 23. júní 2009 til greiðsludags. Var þeirri kröfu lýst sem eftirstæðri kröfu samkvæmt 114. gr. sömu laga.

Slitastjórn varnaraðila hafnaði kröfum sóknaraðila, annars vegar á þeirri forsendu að lýstar kröfufjárhæðir væru vanreifaðar og kröfulýsingar því í andstöðu við fyrirmæli 117. gr. laga nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti o.fl. Um leið var því hafnað að sóknaraðilar hefðu ranglega verið krafðir um greiðslur samkvæmt lánssamningum. Hins vegar byggðist afstaða slitastjórnar á því að skilmálar lánssamninga og/eða annarra skuldaskjala hefðu ekki brotið í bága við ákvæði 13. og 14. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu. Sóknaraðilar mótmæltu afstöðu slitastjórnar, en ágreiningur aðila varð ekki jafnaður. Í kjölfarið var ákveðið að vísa ágreiningnum til dómstóla, eins og áður greinir.

Dómkröfur sóknaraðila eru þær að við slitameðferð varnaraðila verði viðurkenndar kröfur þeirra, annars vegar að fjárhæð 2.202.593 krónur, en hins vegar að fjárhæð 1.135.801 króna, og að þeim verði skipað í réttindaröð sem almennum kröfum samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991. Að auki krefjast þeir málskostnaðar að skaðlausu úr hendi varnaraðila, að mati dómsins, að viðbættum virðisaukaskatti af lögmannsþóknun.

Varnaraðili krefst þess aðallega að öllum kröfum sóknaraðila verði hafnað, en til vara að kröfur þeirra verði lækkaðar. Í báðum tilvikum er krafist málskostnaðar að skaðlausu, að mati dómsins.

II

Í stuttu máli eru atvik þau að sóknaraðilar tóku lán hjá varnaraðila til fasteignakaupa 29. ágúst 2006. Annað lánið var að fjárhæð 38.300.000 krónur, merkt númer 714065, en hitt 22.000.000 króna, merkt númer 714064. Texti og skilmálar veðskuldabréfa sem gefin voru út í tilefni af lánveitingunum er samhljóða í öllum meginatriðum. Þannig er fyrirsögn skuldabréfanna „Veðskuldabréf - Fasteignalán í erlendri mynt“ og bera þau bæði svohljóðandi áritun: „Skuldabréfið er gengistryggt, með breytilegum LIBOR vöxtum og jöfnum afborgunum.“ Í báðum tilvikum er lánsfjárhæðin tilgreind í íslenskum krónum, en tekið fram að hún sé „jafnvirði“ þeirra mynta og í þeim hlutföllum sem þar komi fram, þ.e. svissneskra franka (50% CHF) og japanskra yena (50% JPY). Í 2. gr. skuldabréfanna segir að lánið sé „bundið sölugengi Seðlabanka Íslands á ofangreindum myntum. Höfuðstóll skuldarinnar breytist í hlutfalli við breytingar á sölugengi hverrar myntar eins og það er á útborgunardegi til fyrsta gjalddaga, og síðan í hlutfalli við breytingar á sölugengi myntanna milli gjalddaga. Afborganir eru reiknaðar þannig, að á hverjum gjalddaga er deilt í höfuðstól hverrar myntar með þeim fjölda gjalddaga sem þá eru eftir, að meðtöldum þeim gjalddaga sem er í það sinn“. Vextir af lánunum voru ákveðnir þriggja mánaða LIBOR vextir, auk 2,95% vaxtaálags, og skyldu þeir greiðast eftir á, á sama tíma og afborganir. Í lokamálslið 7. gr. segir að gjaldfallnar fjárhæðir umreiknist ávallt í íslenskar krónur.    

Við útgáfu skuldabréfanna undirrituðu sóknaraðilar fylgiskjal, þar sem útskýrð voru nokkur hugtök í skilmálum skuldabréfanna. Um gengistryggð skuldabréf segir þar svo: „Gengistrygging skuldabréfa FFB [Frjálsa fjárfestingarbankans hf.] miðast við sölugengi Seðlabanka Íslands. Einu sinni á dag skráir Seðlabanki Íslands opinbert viðmiðunargengi krónunnar gagnvart flestum erlendum myntum (sbr. 19. gr. laga nr. 36/2001 um Seðlabankann). Ýmsir hlutir geta haft áhrif á gengi gjaldmiðla svo sem efnahagsástand í landi viðkomandi gjaldmiðils og margt fleira. Höfuðstóll skuldarinnar breytist í hlutfalli við breytingar á sölugengi hverrar myntar milli gjalddaga.“ Einnig segir þar eftirfarandi um breytingar á gengi: „Breytingar á gengi erlendra mynta gagnvart íslensku krónunni og breytingar á vöxtum geta haft áhrif á heildarendurgreiðslu lánsins.“ Í sama fylgiskjali er jafnframt útreikningur og sundurliðun allra afborgana lánanna, allt í íslenskum krónum. Við sama tækifæri undirrituðu sóknaraðilar annað skjal, með yfirskriftinni „Yfirlýsing – Fylgiskjal með láni í erlendri mynt“. Þar lýsa sóknaraðilar því yfir að þeir geri sér grein fyrir að lántaka með þessum hætti sé áhættusamari en lántaka í íslenskum krónum, eins og bankinn hafi kynnt þeim sérstaklega. Síðan segir svo: „Um er að ræða gengisáhættu, sem lýsir sér m.a. í því, að samkvæmt tölfræðilegu mati sem byggir á sögulegum sveiflum á áhættu lána sem skiptast með ofangreindum hætti, getur höfuðstóll láns sem tekið er í framangreindri myntkörfu hækkað umtalsvert á lánstímanum. Jafnframt er um að ræða vaxtaáhættu sem felst m.a. í því að lánið er með breytilegum vaxtagrunni, þriggja mánaða LIBOR vöxtum, með föstu álagi.“ 

Samkvæmt greinargerð sóknaraðila telja þeir útreikningsaðferð varnaraðila við innheimtu afborgana af skuldabréfunum ranga og í andstöðu við ákvæði skuldabréfanna og ófrávíkjanleg lagaákvæði. Aðallega er þar á því byggt að orðalag umræddra veðskuldabréfa gefi skýrlega til kynna að um erlend lán sé að ræða, þ.e. í svissneskum frönkum og japönskum yenum, og hafi þeim borið að endurgreiða lánin í sömu myntum. Lánin hafi verið gengistryggð með því að fjárhæðirnar í hinum erlendu myntum áttu að vera jafnvirði lánsfjárhæðarinnar í íslenskum krónum. Því beri varnaraðili áhættuna af því ef íslensk króna fellur í verði gagnvart erlendu myntunum. Í því tilviki fái hann færri íslenskar krónur fyrir þá svissnesku franka og japönsku yen, sem sóknaraðilum ber að endurgreiða í afborgun hverju sinni. Til vara byggðu sóknaraðilar á því í greinargerð sinni að umræddir lánssamningar væru ólögmætir samkvæmt 14. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, þar eð lánin væru í íslenskum krónum, en bundin gengi þeirra erlendu gjaldmiðla sem áður greinir. Til þrautavara voru kröfur þeirra á því reistar að víkja bæri til hliðar þeim ákvæðum lánssamninganna sem höfðu að geyma fyrirmæli um gengistryggingu og tilvísanir til hinna erlendu mynta. Því til stuðnings vísuðu sóknaraðilar einkum til 36. gr. laga nr. 7/1936, um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga.

Í greinargerð varnaraðila er aðalkrafa hans studd þeim rökum að umræddir lánssamningar séu í erlendum myntum, og hafi honum verið heimilt að binda slík lán við gengi erlendra gjaldmiðla, enda hafi það verið til hagsbóta fyrir lántaka. Varakrafan er hins vegar á því reist að fallist dómurinn á kröfur sóknaraðila um breytingar á lánssamningunum, verði skilmálum breytt í þá veru að höfuðstóll lánanna breytist í hlutfalli við breytingar á vísitölu neysluverðs samkvæmt 14. gr. laga nr. 38/2001.

Eins og fyrr segir var mál þetta þingfest 27. janúar 2010. Sóknaraðilar lögðu fram  greinargerð sína í þinghaldi í málinu 19. mars það ár, en varnaraðili 9. apríl sama ár. Eftir það hafa í Hæstarétti fallið dómar þar sem því hefur verið slegið föstu að óheimilt sé að binda lán í íslenskum krónum við gengi erlendra gjaldmiðla og fari samningsákvæði þess efnis í bága við ófrávíkjanlegar reglur 13. og 14. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu. Vísast hér til dóma réttarins í málum nr.  92/2010, 153/2010, 603/2010, 604/2010 og 155/2011. Í máli Hæstaréttar nr. 471/2010 var síðan tekist á um hvort og þá hvaða áhrif niðurstaða réttarins í tveimur fyrstnefndu málunum hefði á vexti af láni samkvæmt sambærilegum lánssamningi, en í öllum tilvikum hafði verið samið svo um að vextir af lánunum ættu að ráðast af millibankavöxtum í London af þeim myntum sem hin ólögmæta gengistrygging tók mið af. Niðurstaða réttarins í síðastnefnda málinu var sú að þar sem órjúfanleg tengsl væru milli ólögmætra skilmála skuldabréfsins um gengistryggingu lánsins og fyrirmæla þess um vexti, væri hvorki unnt að styðjast við þau fyrirmæli óbreytt, né gefa þeim með skýringu annað inntak. Því yrði með öllu að líta fram hjá ákvæðum samningsins um vaxtahæð. Þar sem samningurinn hafi hins vegar kveðið á um að skuldin bæri vexti, væri óhjákvæmilegt að líta svo á að atvik hafi svarað til þess að samið hafi verið um að greiða vexti af peningakröfu, án þess að tiltaka hverjir þeir skyldu vera. Með vísan til 4. gr., sbr. 3. gr. laga nr. 38/2001, voru vextir því ákveðnir jafnháir vöxtum sem Seðlabanki Íslands ákveður með hliðsjón af lægstu vöxtum á nýjum almennum óverðtryggðum útlánum hjá lánastofnunum, og birtir eru samkvæmt 10. gr. sömu laga.

Í þinghaldi í máli þessu 4. maí sl. lagði varnaraðili fram bókun, þar sem vísað var til niðurstöðu Hæstaréttar í ofangreindum málum réttarins nr. 603/2010 og 604/2010. Í bókuninni segir enn fremur svo: „Í ofangreindum dómum var til umfjöllunar inntak skuldbindinga málsaðila sem byggðu á samskonar veðskuldabréfum og á reynir í máli þessu. Að mati varnaraðila er fordæmi Hæstaréttar í málunum ótvíræð; í fyrsta lagi um að lán Frjálsa fjárfestingarbankans hf. voru ákveðin í íslenskum krónum og gengistryggð með ólögmætum hætti samkvæmt lögum nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu og í öðru lagi um að lánin skuli frá stofndegi bera vexti samkvæmt 4. gr., sbr. 3. gr. laga nr. 38/2001 sem skuli vera á hverjum tíma jafnháir vöxtum, sem Seðlabanki Íslands ákveði með hliðsjón af lægstu vöxtum á nýjum almennum óverðtryggðum útlánum hjá lánatofnunum og birtir eru samkvæmt 10. gr. laganna. Með vísan til framgreindra dómafordæma leggur varnaraðili fram með bókun þessari endurútreikning á stöðu lána sóknaraðila. Endurútreikningarnir byggja jafnframt á lögum 151/2010 sem breyttu lögum nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, sbr. 5. mgr. 18. gr. þeirra. Af framlögðum gögnum er að mati varnaraðila ljóst að sóknaraðilar eiga engar kröfur á varnaraðila vegna meintra ofgreiðslna af lánum þeirra nr. 614064 og 614065 frá viðkomandi lántökudögum til 23. júní 2009 eins og sóknaraðilar telja heldur skortir þvert á móti upp á að full skil teljist hafa verið gerð.“

Með bókuninni fylgdu yfirlit með endurútreikningi umræddra lána. Sjá má þar að samanlagður höfuðstóll beggja lánanna hefur lækkað um ríflega 52,8 milljónir króna, miðað við 11. mars 2011.   

Sóknaraðilar lögðu einnig fram bókun af sinni hálfu við fyrirtöku málsins 10. júní sl., og vísuðu þar til bókunar varnaraðila og áðurnefndra dóma Hæstaréttar. Þar sagði einnig svo: „Með þessu hefur varnaraðili fallist á málsástæðu sóknaraðila, sem haldið er fram til vara, ef ekki verður fallist á aðalmálsástæðu þeirra um að skuldabréfin séu í erlendri mynt og hafi að geyma lögmætt gengistryggingarákvæði. Skilmálana beri að efna samkvæmt efni sínu. Dómsmál, sem varnaraðili hefur vísað til, eru ósambærileg að því leyti að þau voru lögð öðruvísi upp heldur en þetta mál. Ekki var byggt á sambærilegum skilningi á efni skuldabréfa og sóknaraðilar byggja á. Þessi málsástæða sóknaraðila er reifuð í greinargerð og verður rökstudd nánar í munnlegum málflutningi.“

Í bókun sóknaraðila sagði einnig að ekki væri fallist á forsendur fyrir endurútreikningi varnaraðila á lánum sóknaraðila. Jafnframt var tekið fram að féllist dómurinn ekki á skilning sóknaraðila á skilmálum skuldabréfanna, væri ekki unnt að fallast á kröfu þeirra eins og hún væri sett fram, sbr. dómur Hæstaréttar í málinu nr. 603/2010. Enn fremur sagði þar svo: „Sóknaraðilar líta svo á að önnur hugsanleg ágreiningsmál varðandi endurútreikninga séu ekki til úrlausnar í þessu máli, eins og kröfugerð aðila er háttað. Sóknaraðilar afmarka málflutning sinn við þetta og þar með sakarefnið.“ 

Við upphaf aðalmeðferðar vísaði lögmaður sóknaraðila til ofangreindrar bókunar og tók fram að sakarefni málsins væri nú afmarkað þannig að sóknaraðilar byggðu einungis á aðalmálsástæðu þeirra í greinargerð til dómsins. Um leið væri fallið frá öðrum málsástæðum, sem fram kæmu í greinargerð þeirra.

Málið var tekið til úrskurðar að loknum munnlegum málflutningi 11. október sl. Annar sóknaraðila, Sveinn Óskar Sigurðsson, gaf þá aðilaskýrslu fyrir dóminum, og verður vísað til framburðar hans þyki tilefni til.

III

Í samræmi við framanritað byggja sóknaraðilar á því að þeir hafi tekið erlend lán hjá varnaraðila 29. ágúst 2006, annars vegar að jafnvirði 38.300.000 króna, en hins vegar að jafnvirði 22.000.000 króna. Í veðskuldabréfum, sem gefin hafi verið út í tilefni af lántökunum, komi skýrlega fram að lánin séu í erlendri mynt, að jöfnu í svissneskum frönkum (CHF) og japönskum yenum (JPY). Þá segi þar að lánin séu gengistryggð og hafi sóknaraðilum borið að endurgreiða lánin í sömu myntum. Halda sóknaraðilar því fram, og telja það réttan skilning á orðalagi veðskuldabréfanna, að fjárhæðirnar í erlendu myntunum, sem þeim beri að endurgreiða, eigi að vera jafnvirði tilgreindra lánsfjárhæða í íslenskum krónum. Samkvæmt því beri lánastofnunin áhættuna af því ef íslensk króna fellur í verði gagnvart erlendu myntunum. Í því tilviki fái lánastofnunin færri íslenskar krónur fyrir þá svissnesku franka og japönsku yen, sem sóknaraðilum beri að endurgreiða í afborgun hverju sinni.

Sóknaraðilar byggja einnig á því að varnaraðili hafi ákveðið að sóknaraðilar fengju lánin á sínum tíma greidd í íslenskum krónum og að allar afborganir skyldu innheimtar í íslenskum krónum. Greiðsluáætlun, sem varnaraðili hafi gert í tengslum við lánveitingarnar, hafi einnig miðast við þetta, en þar séu greiðslur hverju sinni tilgreindar í krónum. Komi það sóknaraðilum ekki að sök, svo fremi að miðað sé við jafnvirði hinna íslensku lánsfjárhæða, eins og segi í skuldabréfunum. Krafa sóknaraðila sé til komin af því að varnaraðili hafi ekki reiknað afborganir miðað við þetta jafnvirði, heldur virðist þeim sem varnaraðili hafi snúið myntunum við og þannig varið sig gagnvart áhættu af falli íslensku krónunnar. Telja sóknaraðilar slíkt bæði andstætt orðalagi veðskuldabréfanna og banni laga nr. 38/2001 við gengistryggingu íslenskra lána.

Leiki vafi á um réttan skilning á orðalagi veðskuldabréfanna, leggja sóknaraðilar áherslu á að varnaraðili sé fjárfestingarbanki með fjölda sérfræðinga í sinni þjónustu, meðal annars við áhættustýringu, og hafi bankinn ótal tækifæri til að verja sig gegn gjaldeyrisáhættu. Sóknaraðilar séu hins vegar neytendur í skilningi neytendalaga, og hafi ekki sömu möguleika til að verja sig gegn slíkri áhættu. Þá byggja sóknaraðilar á því að samkvæmt túlkunarreglum samningaréttar eigi varnaraðili, vegna stöðu sinnar og yfirburða við samningsgerð, að bera hallann af óljósu orðalagi samningsákvæða.

Kröfur sóknaraðila byggjast á útreikningi þeirra og sundurliðast þannig:

1.       Samkvæmt skuldabréfi nr. 714065

Höfuðstóll

kr. 1.937.261,-

Vextir til 23. júní 2009

kr.   219.832,-

Kostnaður vegna kröfulýsingar

kr.     45.500,-

Samtals

kr.  2.202.593,-

2.       Samkvæmt skuldabréfi nr. 714064

Höfuðstóll

kr.    967.772,-

Vextir til 23. júní 2009

kr.    122.529,-

Kostnaður vegna kröfulýsingar

kr.      45.500,-

Samtals

kr.  1.135.801,-

Sóknaraðilar telja að útreikningsaðferð varnaraðila við innheimtu afborgana sé röng og í andstöðu við ákvæði veðskuldabréfanna. Kröfur þeirra eru um endurgreiðslu á ofgreiddum afborgunum og byggjast á óskráðum meginreglum um endurheimt ofgreidds fjár.

Um lagarök vísa sóknaraðilar til túlkunarreglna samninga- og kröfuréttar, laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001, einkum 2., 13., 14. og 18. gr., laga nr. 36/2001, um Seðlabanka Íslands, laga um neytendalán nr. 121/1994, einkum 6., 9. og 15. gr., og laga nr. 7/1936, einkum 36. gr. þeirra. Málskostnaðarkrafan styðst við 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, og krafa um virðisaukaskatt af málflutningsþóknun við lög nr. 50/1988.

IV

Varnaraðili leggur í upphafi áherslu á að þorri málsástæðna hans í greinargerð til dómsins eigi ekki lengur við þar sem forsendur fyrir málatilbúnaði hans hafi að stórum hluta breyst eftir dóma Hæstaréttar í þeim málum sem nefnd eru hér að framan. Séu þeir dómar fordæmi við úrlausn þessa máls, enda hafi rétturinn þar í sumum tilvikum fjallað um lánsskilmála með nákvæmlega sama orðalagi og í máli þessu. Niðurstaða þeirra mála hafi verið sú að skuldabréfin væru um lán í íslenskum krónum, sem gengistryggð væru með ólögmætum hætti samkvæmt ákvæðum laga nr. 38/2001. Ógildi ákvæðisins um gengistryggingu leiddi jafnframt til þess að líta yrði með öllu fram hjá ákvæðum lánssamningsins um vaxtahæð. Þess í stað var litið svo á að atvik svöruðu til þess að samið hefði verið um að greiða vexti af peningakröfu, án þess að tiltaka hverjir þeir skyldu vera. Með vísan til 4. gr., sbr. 3. gr. laga nr. 38/2001, voru vextir því ákveðnir jafnháir vöxtum sem Seðlabanki Íslands ákveður með hliðsjón af lægstu vöxtum á nýjum almennum óverðtryggðum útlánum hjá lánastofnunum, og birtir eru samkvæmt 10. gr. sömu laga.

Samkvæmt ofanrituðu byggir varnaraðili á því að sakarefni þessa máls hafi þegar verið leitt til lykta með fyrrnefndum dómum Hæstaréttar. Þegar af þeirri ástæðu beri að hafna þeim rökum sóknaraðila að veðskuldabréf í þessu máli séu um lán í erlendri mynt. Einnig mótmælir hann því að nokkur vafi sé um réttan skilning á orðalagi veðskuldabréfanna og bendir á að sóknaraðilar hafi í rúm þrjú ár greitt afborganir af lánunum, án athugasemda við útreikninga varnaraðila á hverri afborgun. Telur hann að túlkun sóknaraðila nú á skilmálum skuldabréfanna, svo og kröfugerð þeirra á þeim grundvelli, eigi sér enga stoð og byggi á meðvituðum útúrsnúningi þeirra á orðalagi skuldabréfanna og vondri trú um hið rétta inntak lánssamninganna. Sérstaklega kveðst hann mótmæla túlkun sóknaraðila á orðinu „jafnvirði“, sem komi fyrir í texta veðskuldabréfanna, og leggur áherslu á að með því sé einfaldlega verið að vísa til þess að á útborgunardegi lánanna hafi umreiknaðar lánsfjárhæðir annars vegar verið að jafnvirði 22.000.000 króna, en hins vegar 38.300.000 króna, en lánin hafi verið í svissneskum frönkum og japönskum yenum. Erlendur höfuðstóll þeirra mynta komi þó hvergi fyrir í texta skuldabréfanna. Telur varnaraðili að ákvæði lánssamninganna um útreikning afborgana séu skýr, og vísar í því efni til 2. gr. skilmála þeirra. Um leið hafnar hann kröfum sóknaraðila og bendir jafnframt á að ekki sé gerð grein fyrir útreikningi krafnanna í greinargerð sóknaraðila til dómsins. Loks byggir hann á því að sóknaraðilar geti ekki átt fjárkröfu á hendur varnaraðila á grundvelli óskráðra meginreglna um endurgreiðslu ofgreidds fjár, enda geti slíkar reglur aldrei komið til álita fyrr en skuldin samkvæmt veðskuldabréfinu sé að fullu greidd, og í ljós komi þá að greiðsla hafi verið innt af hendi umfram skyldu.

Varakrafa varnaraðila, um lækkun á kröfum sóknaraðila, er studd sömu rökum og aðalkrafa hans. Að auki telur hann að eftirtalin atriði eigi að leiða til lækkunar á kröfum sóknaraðila, fallist dómurinn á annað borð á útreikningsaðferðir þeirra:

Í útreikningum sóknaraðila sé krafist endurgreiðslu á ofgreiddum afborgunum á gjalddögum 15. júlí 2009 og 15. september sama ár. Þar sem báðir gjalddagar séu eftir 23. júní 2009, þegar varnaraðili var tekinn til slitameðferðar, byggir varnaraðili á því að kröfur vegna þeirra gjalddaga komi ekki til álita við slitameðferðina, sbr. 1. mgr. 102. gr. laga nr. 161/2002. Í sömu útreikningum sé heldur ekki gert ráð fyrir afborgunum af höfuðstól veðskuldabréfs nr. 714065 frá október 2008 til júní 2009 og frá nóvember 2008 til júlí 2009 vegna skuldabréfs nr. 714064. Þar sem sóknaraðilar greiddu afborganir og vexti af lánunum á þessum tíma, telur varnaraðili að lækka beri kröfur þeirra sem nemi afborgunum þeirra á sama tíma, annars vegar um 716.634 krónur vegna láns nr. 714065, en hins vegar um 365.144 vegna láns nr. 714064. Þá telur varnaraðili að frá kröfum sóknaraðila beri að draga dráttarvexti og kostnað, enda hafi þeir ávallt þurft að bera slíkan kostnað, og dráttarvexti eftir atvikum. Loks er því hafnað að krafa sóknaraðila vegna kostnaðar við kröfulýsingu geti talist almenn krafa.

Um lagarök vísar varnaraðili sérstaklega til meginreglna samninga- og kröfuréttar um efndir fjárskuldbindinga, laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, einkum 13. og 14. gr. þeirra, laga nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki, einkum 101. gr., svo og 36. gr. samningalaga nr. 7/1936. Málskostnaðarkrafan er studd við 130. og 131. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.

V

Í máli þessu deila aðilar um túlkun á orðalagi tveggja veðskuldabréfa sem sóknaraðilar gáfu út til varnaraðila 29. ágúst 2006. Annað veðskuldabréfið er að fjárhæð 38.300.000 krónur, og ber númerið 714064, en hitt að fjárhæð 22.000.000 króna, með númerinu 714065. Texti og skilmálar skuldabréfanna eru samhljóða í öllum aðalatriðum, og hefur hér að framan verið gerð grein fyrir þeim samningsákvæðum sem skipta máli. Jafnframt hefur verið getið um þau fylgiskjöl sem sóknaraðilar undirrituðu samhliða lántökunni. Meðal gagna málsins eru einnig skjöl er sýna skilmálabreytingar beggja lánssamninganna. Í lýsingu þeirra á veðskuldabréfunum segir að „upphafleg lánsfjárhæð“  sé annars vegar „að jafnvirði ISK. 38.300.000,-“, en hins vegar „að jafnvirði ISK.22.000.000,-“.

Sóknaraðilar byggja á því að umræddir lánssamningar séu í erlendri mynt og að fjárhæðirnar í erlendu myntunum, sem þeim beri að greiða, eigi að vera jafnvirði lánsfjárhæðarinnar í íslenskum krónum. Þar sem varnaraðili hafi ranglega reiknað og innheimt afborganir af lánunum, gera þeir kröfu um að þær fjárhæðir sem þeir telja sig hafa ofgreitt af þeim sökum verði viðurkenndar sem almennar kröfur við slitameðferð varnaraðila. Varnaraðili gerir hins vegar aðallega kröfu um að öllum kröfum sóknaraðila verði hafnað, og byggist krafan á því að sakarefni málsins hafi þegar verið leitt til lykta með dómum Hæstaréttar. Jafnframt er á því byggt að túlkun sóknaraðila á orðalagi skuldabréfanna eigi sér enga stoð í efni þeirra. 

Þótt yfirskrift þeirra lánssamninga, sem hér er fjallað um og gerð hefur verið grein fyrir að framan, gefi til kynna að verið sé að semja um lán í erlendri mynt, verður ekki horft fram hjá þeirri staðreynd að lánsfjárhæðin er þar ákveðin í íslenskum krónum og hana bar að endurgreiða í þeim gjaldmiðli. Í því efni breytir engu þótt lánsfjárhæðin sé sögð „jafnvirði“ íslenskra króna í þar tilgreindum myntum, enda er hvergi getið um fjárhæð hinna erlendu mynta sem yfirskrift samninganna benti til að verið væri að lána. Orðalag 2. gr. skilmála skuldabréfanna, þess efnis að lánin séu bundin sölugengi Seðlabanka Íslands á umsömdum myntum og að höfuðstóll skuldarinnar breytist í hlutfalli við breytingar á sölugengi hverrar myntar eins og það er á útborgunardegi til fyrsta gjalddaga, bendir og ótvírætt til þess að lánin séu í íslenskum krónum, enda  ástæðulaust að taka slíkt fram ef lánin væru í raun í erlendri mynt. Þá liggur fyrir að sóknaraðilar fengu aldrei í hendur þá erlendu mynt sem þeir halda nú fram að þeim beri að greiða varnaraðila sem jafnvirði lánsfjárhæðarinnar í íslenskum krónum. Þykir þetta taka af öll tvímæli um að umræddir lánssamningar eru í íslenskum krónum, sbr. og dómar Hæstaréttar í málum nr. 92/2010, 153/2010, 603/2010, 604/2010 og 155/2011. Niðurstaða þeirra mála var jafnframt sú að reglur 13. og 14. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, heimiluðu ekki að verðtryggja slík lán með því að binda þau við gengi erlendra gjaldmiðla. Samkvæmt því hafnar dómurinn þeirri málsástæðu sóknaraðila að umrædd lán séu í erlendri mynt. Leiðir sú niðurstaða einnig til þess að ekki koma til úrlausnar álitaefni um útreikning afborgana af lánunum, enda byggja sóknaraðilar útreikninga sína á þeirri forsendu að um erlend lán sé að ræða og að gengistrygging lánanna sé heimil. Er kröfum sóknaraðila því hafnað. 

Eins og atvikum er hér háttað, svo og með vísan til 2. mgr. 178. gr. laga nr. 21/1991 og 3. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991, þykir rétt að hvor aðila beri sinn kostnað af málinu. 

Ingimundur Einarsson héraðsdómari kvað upp úrskurð þennan.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð:

Kröfum sóknaraðila, Sveins Óskars Sigurðssonar og Samsidanith Chan, sem þeir lýstu sem almennum kröfum við slitameðferð varnaraðila, Frjálsa fjárfestingarbankans hf., að fjárhæð 2.202.593 krónur og 1.135.801 króna, er hafnað.

Málskostnaður fellur niður.