Print

Mál nr. 625/2017

LBI ehf. (Jóhannes Sigurðsson hrl.) og Svafa Grönfeldt (Ragnar Halldór Hall hrl.)
gegn
Sigurjóni Þorvaldi Árnasyni (enginn), Halldóri Jóni Kristjánssyni (enginn), Kjartani Gunnarssyni (enginn), Andra Sveinssyni (enginn), Þorgeiri Baldurssyni (enginn), Jóni Þorsteini Oddleifssyni (enginn), Allianz Global Corporate & Specialty AG, Alterra Corporate Capital 2 Ltd., Alterra Corporate Capital 3 Ltd., Brian John Tutin, Bridget Anne Carey-Morgan, Brit Insurance Ltd., Carol Jean Harris, David John De Marle Coulthard, Eileen Elsie Hunter, Gary Frederick Sullivan, Ian Richard Posgate, John Leon Gilbart, Joseph Elmaleh, Julian Michael West, Kelvin Underwriting Ltd., Liberty Mutual Insurance Europe Ltd., Nameco (No 11) Ltd., Nameco (No 231) Ltd., Norman Thomas Rea, Novae Corporate Underwriting Ltd., QBE Corporate Ltd., QBE International Insurance Ltd., Richard Michael Hodgson Read, SCOR Underwriting Ltd. og Sorbietrees Underwriting Ltd. (Viðar Lúðvíksson hrl.)
Lykilorð
  • Kærumál
  • Frestur
  • Matsgerð
  • Stjórnarskrá
Reifun

Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem máli L ehf. á hendur sóknaraðilanum SG og varnaraðilum var frestað til tiltekins tíma, í því skyni að veita hluta varnaraðila tækifæri til að leggja fram beiðni um afhendingu gagna vegna matsgerðar sem þeir freistuðu að afla undir rekstri málsins. Í dómi sínum fór Hæstiréttur yfir atvik málsins og þann tíma sem liðið hafði frá því að það var þingfest í héraði 8. mars 2012. Benti rétturinn á að samkvæmt 1. mgr. 102. gr. laga nr. 91/1991 skuli dómari í héraði ávallt taka fyrir mál eftir að greinargerð hefur verið lögð fram og leita þar sátta og gefa aðilum kost á að koma að sýnilegum sönnunargögnum sem ekki hefur verið tilefni eða tækifæri til að leggja fram áður. Að svo búnu ætti að meginreglu að ákveða aðalmeðferð. Hins vegar væri dómara í 2. mgr. 102. gr. laga nr. 91/1991 heimilað að verða við ósk aðila um að fresta máli frekar væri það vænlegt til að ná sáttum eða nauðsynlegt til að afla gagna sem nægilegur frestur hefði ekki áður verið til. Að öðrum kosti bæri dómara að jafnaði að synja um frest. Væru nefnd ákvæði laga nr. 91/1991 leidd af meginreglu einkamálaréttarfars um hraða málsmeðferð auk þess sem þau helguðust af 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar. Yrði að gæta að þessu við beitingu 2. mgr. 102. gr. nefndra laga. Af atvikum málsins taldi Hæstiréttur ljóst að umræddir varnaraðilar hefðu allt frá fyrstu stigum gert sér grein fyrir því að vegna varna sinna stæðu líkur til þess að þau myndu þarfnast matsgerðar dómkvadds manns. Þrátt fyrir það hefði beiðni um dómkvaðningu matsmanna ekki verið lögð fram fyrr en 26. nóvember 2013 en þá hefði verið liðið nær hálft annað ár frá þingfestingu málsins. Að teknu tilliti til þeirra mótmæla sem fram komu gagnvart matsbeiðninni, hefði umræddum varnaraðilum ennfremur mátt vera ljóst allt frá byrjun að brýnt væri að matsstörf yrðu markviss og þeim flýtt sem kostur væri. Þá rakti Hæstiréttur jafnframt framgang matsvinnunnar og taldi að ekki yrði betur séð en að matsmennirnir, sem dómkvödd voru 17. nóvember 2014, hefðu á nærri þriggja ára tímabili ekki hafið vinnu við samningu matsgerðar fyrr en á síðustu tveimur mánuðum tímabilsins og að sú vinna sneri aðeins að tiltölulega litlum hluta heildarverksins. Þá virtist ennfremur sem matsmennirnir teldu sér illfært að gera áætlun um það hvenær ljúka mætti matinu. Taldi Hæstiréttur að gegn andmælum sóknaraðila og að gættum rétti þeirra samkvæmt 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar væri ófært að telja að varnaraðilunum hefði ekki þegar gefist nægilegur frestur til að afla matsgerðar. Yrði því að hafna kröfum þeirra um frekari frestun málsins í því skyni. Samkvæmt því var hinn kærði úrskurður felldur úr gildi.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson, Helgi I. Jónsson og Markús Sigurbjörnsson.

Sóknaraðilar skutu málinu til Hæstaréttar hvort fyrir sitt leyti með kærum 25. og 26. september 2017, en kærumálsgögn bárust réttinum 29. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 18. september 2017, þar sem máli sóknaraðilans LBI ehf. á hendur sóknaraðilanum Svöfu Grönfeldt og varnaraðilum var frestað til 1. nóvember 2017. Kæruheimild er í h. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðilinn Svafa krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi. Sóknaraðilinn LBI ehf. krefst þess aðallega „að hinum kærða úrskurði verði hrundið og að lagt verði fyrir héraðsdómara að ákveða aðalmeðferð svo fljótt sem því verður við komið“, til vara „að hinum kærða úrskurði verði hrundið og lagt verði fyrir héraðsdómara að ákveða aðilum fjórar vikur til að ljúka gagnaöflun í málinu, en að því frágengnu verði ákveðin aðalmeðferð svo fljótt sem því verður við komið.“ Að öðrum kosti krefst sóknaraðilinn þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi. Þá krefjast báðir sóknaraðilar kærumálskostnaðar óskipt úr hendi þeirra „sem kunna að taka til varna í kærumáli þessu“.

Varnaraðilarnir Allianz Global Corporate & Specialty AG, Alterra Corporate Capital 2 Ltd., Alterra Corporate Capital 3 Ltd., Brian John Tutin, Bridget Anne Carey-Morgan, Brit Insurance Ltd., Carol Jean Harris, David John De Marle Coulthard, Eileen Elsie Hunter, Gary Frederick Sullivan, Ian Richard Posgate, John Leon Gilbart, Joseph Elmaleh, Julian Michael West, Kelvin Underwriting Ltd., Liberty Mutual Insurance Europe Ltd., Nameco (No 11) Ltd., Nameco (No 231) Ltd., Norman Thomas Rea, Novae Corporate Underwriting Ltd., QBE Corporate Ltd., QBE International Insurance Ltd., Richard Michael Hodgson Read, SCOR Underwriting Ltd. og Sorbietrees Underwriting Ltd., sem hér á eftir verða nefnd í einu lagi varnaraðilarnir Allianz Global Corporate & Specialty AG og fleiri, krefjast þess aðallega að málinu verði vísað frá Hæstarétti, en til vara að hinn kærði úrskurður verði staðfestur. Þá krefjast þau kærumálskostnaðar.

Varnaraðilarnir Sigurjón Þorvaldur Árnason, Halldór Jón Kristjánsson, Kjartan Gunnarsson, Andri Sveinsson, Þorgeir Baldursson og Jón Þorsteinn Oddleifsson hafa ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti.

I

Sóknaraðilinn LBI ehf. höfðaði mál þetta 17., 18. og 23. janúar 2012 á hendur sóknaraðilanum Svöfu ásamt varnaraðilum og var það þingfest 8. mars sama ár. Einnig hefur fyrrnefndi sóknaraðilinn höfðað tvö önnur mál, sem hann hefur beint að flestum þeim sem eiga aðild að máli þessu gagnstætt honum, en öll þrjú málin varða sambærileg atvik. Í dómi Hæstaréttar 13. mars 2017 í máli nr. 43/2017, þar sem leyst var úr ágreiningsefni um gagnaöflun í máli þessu, er í meginatriðum gerð grein fyrir dómkröfum sóknaraðilans LBI ehf. samkvæmt héraðsdómsstefnu, á hverju þær hafi verið reistar og hvers aðrir aðilar málsins hafi krafist fyrir sitt leyti. Í dóminum er einnig rakið að varnaraðilarnir Allianz Global Corporate & Specialty AG og fleiri hafi í þinghaldi í héraði 26. nóvember 2013 lagt fram beiðni um að dómkvaddir yrðu menn til að leggja mat á atriði, sem þau kváðu tengjast vörnum sínum í málinu, svo og að ágreiningur hafi risið um þá matsbeiðni, en úr honum leysti héraðsdómur með úrskurði 14. mars 2014, sem staðfestur var með dómi Hæstaréttar 29. apríl sama ár í máli nr. 243/2014. Í þeim úrskurði héraðsdóms voru talin í níu liðum með fjölmörgum undirliðum þau atriði, sem dómkveðja átti menn til að meta. Í grófum dráttum var beint til matsmanna spurningum, sem flestar vörðuðu stöðu tiltekinna atriða miðað við árslok 2006, árslok 2007, 31. mars 2008 og að nokkru 30. júní sama ár, en þau voru í fyrsta lagi hvort reikningsskil Landsbanka Íslands hf. hafi gefið rétta mynd af því hvert eigið fé félagsins hafi verið og eiginfjárhlutfall, í öðru lagi hversu margir hlutir í félaginu hafi beint eða óbeint verið í eigu þess, í þriðja lagi hversu margir hlutir í félaginu hafi staðið til tryggingar fyrir kröfum þess á hendur öðrum, í fjórða lagi hversu margir hlutir í félaginu hafi staðið stjórnendum og starfsmönnum þess til boða á grundvelli afkastahvetjandi launakerfis, í fimmta lagi hver áhætta félagsins hafi verið af kröfum þess á hendur 44 nafngreindum mönnum og félögum ásamt aðilum þeim tengdum, í sjötta lagi hvert hafi verið virði lánasafns félagsins, í sjöunda lagi hverjar hafi verið skuldbindingar þess, sem greiða hafi þurft að nokkru eða öllu á árinu 2008, og hvort það hafi fyrirsjáanlega getað staðið við þær, í áttunda lagi hver hafi verið staða á svonefndum heildarskiptasamningum félagsins og í níunda lagi hver lausafjárstaða þess hafi verið, en um þetta var jafnframt leitað svara um hvort mánaðarlegar skýrslur félagsins fyrir tímabilið frá nóvember 2007 til mars 2008 hafi gefið rétta mynd af lausafjárstöðunni. Að fenginni niðurstöðu um heimild þessara varnaraðila til að fá matsmenn dómkvadda kom einnig upp ágreiningur um hverja ætti að kveðja til verksins, en á grundvelli dóms Hæstaréttar 3. nóvember 2014 í máli nr. 691/2014 dómkvaddi héraðsdómur 17. sama mánaðar endurskoðendurna Jóhann Unnsteinsson og Margréti Pétursdóttur til matsstarfa.

Ágreiningurinn, sem kom til úrlausnar í áðurnefndum dómi í máli nr. 43/2017, sneri að því hvort Landsbankanum hf. væri eftir kröfu varnaraðilanna Allianz Global Corporate & Specialty AG og fleiri skylt að veita dómkvöddum matsmönnum aðgang vegna starfa þeirra að gögnum eða upplýsingum um atriði, sem nánar voru talin í 28 liðum. Töldu varnaraðilarnir þessi atriði varða starfsemi Landsbanka Íslands hf. á fyrrgreindu tímabili áður en Fjármálaeftirlitið neytti 7. október 2008 heimildar samkvæmt 100. gr. a. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, sbr. 5. gr. laga nr. 125/2008, til að taka yfir vald hluthafafundar í því félagi, víkja stjórn þess frá og setja yfir það skilanefnd. Það félag ber nú heiti sóknaraðilans LBI ehf. og rekur hann mál þetta til heimtu skaðabóta og vátryggingarbóta vegna atvika, sem hann kveður hafa gerst í starfsemi félagsins áður en Fjármálaeftirlitið greip til framangreindrar ráðstöfunar. Með ákvörðun Fjármálaeftirlitsins 9. október 2008 var síðan tilteknum réttindum og skyldum Landsbanka Íslands hf. ráðstafað til nýs félags, sem nú er Landsbankinn hf., en samhliða því mun nýja félagið hafa tekið yfir „gagnasöfn“ eldra félagsins, svo sem komist var að orði í ákvörðuninni. Töldu varnaraðilarnir Allianz Global Corporate & Specialty AG og fleiri Landsbankanum hf. skylt að verða við kröfu þeirra um að veita aðgang að umræddum gögnum eða upplýsingum, sem félagið bjó yfir á þessum grunni. Í dómi Hæstaréttar í máli nr. 43/2017 var kröfum varnaraðilanna hafnað, en í honum var jafnframt greint frá ýmsum úrskurðum héraðsdóms og öðrum dómum réttarins, sem gengið höfðu fram að því um ágreiningsefni varðandi gagnaöflun í máli þessu.

II

Í þinghaldi í héraði 17. nóvember 2014 voru sem áður segir dómkvaddir tveir menn til matsstarfa. Þegar mál þetta var aftur tekið fyrir á dómþingi 4. febrúar 2015 kom fram að álitaefni gætu verið uppi um sérstakt hæfi matsmannanna og var vikið að því að nýju í þinghaldi 2. mars 2015, en af því tilefni gáfu þau skýrslur fyrir dómi 24. sama mánaðar. Þegar málið var næst tekið fyrir 27. apríl 2015 lá fyrir að enginn aðilanna krefðist þess að matsmennirnir létu af störfum vegna vanhæfis.

Af gögnum málsins verður ráðið að matsmenn hafi efnt til fyrsta fundar vegna starfa sinna með lögmönnum aðilanna 4. júní 2015 og hafi komið þar fram að þau teldu ekki fyrirsjáanlegt að matsgerð yrði lokið fyrr en seint á árinu 2016 eða snemma árs 2017. Í bréfi matsmanna 2. nóvember 2016 til lögmanns varnaraðilanna Allianz Global Corporate & Specialty AG og fleiri var vísað til þess að þau hafi 30. júní 2015 óskað eftir tilteknum gögnum vegna starfa sinna, en með því að gögnin hafi öll verið í vörslum Landsbankans hf. hafi verið ákveðið að hann „myndi stofna rafrænt gagnaherbergi þar sem öll umbeðin gögn yrðu aðgengileg fyrir matsmenn.“ Þrátt fyrir það hafi gengið erfiðlega að fá aðgang að öllum gögnum og skorti enn talsvert á, en Landsbankinn hf. hafi að nokkru borið við bankaleynd eða því að umbeðin gögn væru ekki til og að auki hafi sum gögnin, sem hafi þó fengist, reynst ófullnægjandi. Til vandkvæða hafi einnig orðið að matsmenn hafi ekki fengið aðstoð frá starfsmönnum bankans og tímafrekt væri að vinna í gagnagrunni, sem lagður hafi verið til. Hefðu matsmennirnir áhyggjur af framgangi starfa sinna og legðu þau til að gerður yrði samningur við Landsbankann hf. til að tryggja að þau fengju liðsinni starfsmanna hans, meðal annars til að útbúin yrðu „viðbótargögn eða þau tekin saman eftir atvikum“, svo og að aflétt yrði „bankaleynd af gögnum þar sem nafngreining er matsmönnum nauðsynleg.“ Með bréfinu fylgdi löng skrá um gögn, sem matsmennirnir töldu sig vanta. Matsmennirnir héldu síðan í annað sinn matsfund 3. nóvember 2016 með lögmönnum aðilanna, þar sem rætt var frekar um framangreind efni. Þar kom meðal annars fram að „matsmenn væru ekki byrjaðir á eiginlegri matsvinnu og reikna þeir með að matsvinnan taki 1,5-2 ár að lágmarki, eftir að næg gögn hafa borist til að geta hafið eiginlega matsvinnu.“

Í tölvubréfi til matsmanna 23. maí 2017 vísaði lögmaður varnaraðilanna Allianz Global Corporate & Specialty AG og fleiri til þess að Hæstiréttur hafi 13. mars sama ár kveðið upp fyrrnefndan dóm í máli nr. 43/2017 og yrðu forsendur hans nýttar „við næstu skref við öflun gagna til afnota fyrir matsmenn.“ Hygðust varnaraðilarnir „leggja fram nýjar beiðnir um afhendingu gagna“ þegar málið yrði næst tekið fyrir 6. júní 2017 og væri því óskað eftir að matsmennirnir gerðu lista yfir gögn, sem þau teldu sig vanta, þau myndu hefjast handa við að gera beiðni um slík gögn til að beina sjálf að „Landsbankanum hf., LBI ehf. og/eða öðrum aðilum, sem matsmenn telja að hafi undir höndum þau gögn“, matsmenn myndu veita upplýsingar um hvaða gögn þau væru þegar með og jafnframt gera tímaáætlun um störf sín. Einnig var tekið fram í tölvubréfinu að þess væri „sérstaklega óskað að matsmenn upplýsi nú hvort þeir telja sér unnt að ljúka við matsgerð sína í skömmtum, t.d. þannig að matsmenn afhendi niðurstöður sínar varðandi einstakar matsspurningar jafnskjótt og þau svör liggja fyrir, en að matsmenn afhendi svör við öðrum spurningum síðar.“ Matsmennirnir svöruðu þessu erindi með bréfi 1. júní 2017, þar sem meðal annars kom fram að þau hafi upphaflega ætlað sér að „hefja ekki vinnu við matið sjálft“ fyrr en þau væru „komin með nægjanleg gögn til að geta greint heildarmyndina“ með tilliti til reikningsskila Landsbanka Íslands hf., sem matsspurningar sneru meðal annars að. Það hafi á hinn bóginn reynst „ómögulegt með öllu ... að átta sig á innihaldi þeirra gagna sem hafa borist og að ná að tengja þau við fjárhæðir í þeim ársreikningum sem um ræðir“ og væri ekki ljóst hvort frekari gögn fengjust til að bæta þar úr. Sökum þessa og „lítilla væntinga um að skoðun ... og mat geti orðið heildstætt vegna skorts á gögnum“ hafi matsmennirnir „ákveðið að skipta um nálgun á verkefnið“ og „til að byrja með velja afmarkaða spurningu/spurningar eða hluta hennar/þeirra og gera tilraun til að svara í fyrsta kasti hluta af matsspurningunum“. Kváðust matsmennirnir mundu „í lok júnímánaðar senda umfangsminni gagnalista sem nær bara til þeirra tilteknu spurninga“ sem yrði byrjað á. Varðandi áætlaðan tíma til verksins áréttuðu matsmennirnir að þau hygðust „gera tilraun til þess að ... vinna matsgerðina í skömmtum og skila svörum við einstökum spurningum eftir því sem þau liggja fyrir“, en framgangur verksins yrði fyrst ljós þegar þau sæju „hvort og þá hvaða gögn okkur mun verða afhent í kjölfar þess gagnalista sem sendur verður 30. júní.“

Mál þetta var tekið fyrir í héraði 6. júní 2017 og var þá fært í þingbók að varnaraðilarnir Allianz Global Corporate & Specialty AG og fleiri hafi „óskað eftir fresti í því skyni að leggja fram beiðni um afhendingu gagna í þágu matsgerðar.“ Þessu mótmæltu báðir sóknaraðilar ásamt varnaraðilunum Sigurjóni Þorvaldi Árnasyni, Halldóri Jóni Kristjánssyni, Þorgeiri Baldurssyni og Jóni Þorsteini Oddleifssyni og ákvað héraðsdómur að fresta málinu „til munnlegra athugasemda“ um þetta deiluefni til 27. sama mánaðar. Í tölvubréfi 21. júní 2017 greindi lögmaður varnaraðilanna Allianz Global Corporate & Specialty AG og fleiri matsmönnunum frá þessari ákvörðun, en tók fram að þrátt fyrir hana skyldu „matsmenn halda sínu striki við matsstörfin og í samræmi við þær hugmyndir“ sem þau hafi lýst í áðurnefndu bréfi 1. sama mánaðar. Spurðist lögmaðurinn einnig fyrir um hvort matsmenn gætu gert tímaáætlun fyrir þinghaldið 27. júní 2017 eða upplýst hvenær þau teldu sig „geta svarað fyrstu matsspurningum (að hluta eða öllu leyti)“. Í svari matsmanna 22. júní 2017 kváðust þau hafa haldið að sér höndum eftir bréf sitt 1. sama mánaðar, enda hafi þau ekki fyrr en nú „fengið viðbrögð frá matsbeiðanda við hugmyndum ... um nýja nálgun á matsgerðina“, en orðið væri „fullreynt að okkar mati að sú nálgun sem við höfum verið með mun ekki skila árangri“. Ekki væri unnt að gera „gagnalista vegna tiltekinna spurninga“ fyrir þinghaldið 27. júní 2017. Í því þinghaldi kvað héraðsdómur upp úrskurð um að fresta málinu til 18. september sama ár. Sóknaraðilar kærðu þann úrskurð til Hæstaréttar, en með dómi 21. ágúst 2017 í máli nr. 457/2017 var því vísað frá réttinum.

Eftir að fyrrgreindur úrskurður héraðsdóms var kveðinn upp 27. júní 2017 sendi lögmaður varnaraðilanna Allianz Global Corporate & Specialty AG og fleiri tölvubréf 30. sama mánaðar til matsmanna og lögmanna annarra málsaðila, þar sem meðal annars kom fram að hann færi þess á leit að matsmenn létu uppi óskir um frekari gögn fyrir lok næsta mánaðar, ynnu að tímaáætlun og héldu áfram vinnu „hratt og örugglega að matsstörfum eftir þeim aðferðum sem matsmenn telja rétt að nota við matið.“ Af þessu tilefni urðu nokkur bréfaskipti milli lögmanna aðilanna, sem einnig var beint til matsmannanna. Ekki er ástæða til að rekja þau í einstökum atriðum, en vegna þessa sendu matsmennirnir bréf til lögmannanna 18. júlí 2017, þar sem meðal annars var lýst nýrri nálgun að matsstörfum, sem svo var nefnd, og greint var frá því að matsmennirnir hygðust eiga fund með starfsmönnum Landsbankans hf. og sóknaraðilans LBI ehf. í byrjun ágúst til að „skerpa skilning á stöðu gagnaafhendinga“. Létu matsmennirnir þess jafnframt getið að „án frekari gagna er ... ekki grundvöllur til að svara matsspurningunum í heild sinni né einstökum spurningum að fullu“.

Í bréfi matsmanna 31. ágúst 2017 til lögmanns varnaraðilanna Allianz Global Corporate & Specialty AG og fleiri var ítrekað að þau hafi „ákveðið að breyta um nálgun við verkefnið“ og ætluðu að „byrja á að svara hluta af einstökum spurningum m.v. þau gögn sem eru fyrirliggjandi nú þegar auk opinberra upplýsinga.“ Því var einnig lýst að á fundi, sem matsmennirnir hafi átt með starfsmönnum Landsbankans hf., hafi komið fram að bankinn teldi sér ekki skylt að afhenda gögn um viðskiptavini sína, en tekin yrði í hverju tilviki afstaða til þess hvort matsmenn fengju gögn um „fyrrum viðskiptavini sem nú eru gjaldþrota“. Sagði að matsmennirnir hafi í þessu ljósi „ákveðið að velja eina spurningu til að byrja með“, en þó „bara eina dagsetningu úr þeirri spurningu, þann 31. desember 2007 og gera atlögu að því að svara henni.“ Þá sagði jafnframt: „Matsmenn hyggjast svara því sem hægt er úr spurningu nr. 1 þann 30. nóvember m.v. þau gögn sem verða fyrirliggjandi en áskilja sér í leiðinni rétt til að bæta við svarið síðar ef frekari gögn berast og/eða ef vinna við aðrar spurningar leiðir af sér nýjar upplýsingar. Varðandi tímaáætlun vegna spurninga 2 – 9 þá teljum við ekki mögulegt að setja fram raunhæfa tímaáætlun á þessari stundu þar sem við áttum okkur ekki á því hvenær við fáum nauðsynleg gögn.“

Í framhaldi af þessu bréfi sendu matsmennirnir tölvubréf 1. september 2017 til Landsbankans hf., þar sem þau óskuðu eftir því að fá fyrir 7. sama mánaðar afhent gögn um tilgreind atriði, en tekið var fram að beiðnin væri sett fram vegna ráðagerða þeirra um að „svara spurningu 1 í matsbeiðni ... vegna ársreiknings 2007“. Meðal gagnanna, sem matsmennirnir óskuðu eftir, voru „útlánamatsskýrslur í árslok 2007“ vegna 64 nafngreindra manna og félaga, svo og sundurliðanir, skýrslur og yfirlit um tiltekin atriði. Hliðstæð beiðni var send sóknaraðilanum LBI ehf. og jafnframt tvær aðrar, sem tóku til afmarkaðri atriða, annars vegar til Fjármálaeftirlitsins og hins vegar til endurskoðanda, sem virðist hafa kannað reikningsskil Landsbanka Íslands hf. fyrir sóknaraðilann. Að auki sendi lögmaður varnaraðilanna Allianz Global Corporate & Specialty AG og fleiri bréf 4. september 2017 til sóknaraðilans LBI ehf. og Landsbankans hf., þar sem óskað var eftir að varnaraðilunum yrðu afhent sömu gögn. Landsbankinn hf. svaraði þessum erindum fyrir sitt leyti með bréfi 11. september 2017, þar sem sagði meðal annars: „Landsbankinn bendir á að flest þau gögn sem farið er fram á að bankinn afhendi eru þegar í vörslum matsmanna, en LBI setti þau í rafrænt gagnaherbergi og eru þau vistuð á gagnadrifi í vörslum LBI. Landsbankinn hafnar því að afhenda umbeðin gögn þar sem þau eru þegar í vörslum matsmanna. Einnig getur Landsbankinn ekki afhent umbeðin gögn þegar óskað er eftir ótilgreindum gögnum sem lýst er sem undirliggjandi vinnugögnum eða yfirlitum, en gagnabeiðnin þarf að taka til tilgreindra skjala sem matsbeiðandi þarf að lýsa efnislega svo Landsbankinn geti leitað að þeim í kerfum sínum ... Hluti þeirra gagna sem óskað er afhendingar á eru ekki í vörslum Landsbankans og því ekki hægt að afhenda þau.“ Í framhaldi af þessu var í bréfinu tekin afstaða til einstakra atriða í beiðni matsmanna. Þá svaraði sóknaraðilinn LBI ehf. þessum erindum að því er hann varðaði með bréfi 12. september 2017. Þar var í meginatriðum vísað til þess að hann hafi þegar á fyrri stigum orðið við óskum matsmanna um afhendingu flestra þeirra gagna, sem ný beiðni þeirra tæki til, að því leyti sem hann hefði þau undir höndum. Ýmis önnur þessara gagna hafi áður verið afhent matsbeiðendum, en að öðru leyti væru gögn, sem beiðnin varðaði, í vörslum Landsbankans hf. Í tilefni af þessu svari sendi lögmaður varnaraðilanna Allianz Global Corporate & Specialty AG og fleiri tölvubréf degi síðar til matsmannanna og fylgdi því hluti þeirra gagna, sem matsmennirnir höfðu óskað eftir.

Málið var tekið fyrir á ný í þinghaldi í héraði 18. september 2017. Þar var fært til bókar að lögmenn varnaraðilanna Allianz Global Corporate & Specialty AG og fleiri hafi „upplýst að ekki sé unnt að leggja fram beiðni um afhendingu gagna að svo stöddu“ og óskað eftir að málinu yrði frestað til að þeim gæfist kostur á að leggja fram slíka beiðni „í samráði við dómkvadda matsmenn.“ Hafi dómari innt lögmennina „eftir framgangi matsstarfa og ástæðu þess að gagnabeiðni er nú ekki lögð fram.“ Einnig var bókað að sóknaraðilar hafi ásamt varnaraðilunum Sigurjóni, Halldóri og Þorgeiri mótmælt því að málinu yrði frestað frekar og „krafist að aðalmeðferð verði ákveðin án tafar.“ Eftir að lögmenn aðilanna höfðu tjáð sig um þetta ágreiningsefni var hinn kærði úrskurður kveðinn upp, en með honum var málinu sem fyrr segir frestað til nýs þinghalds 1. nóvember 2017.

Samkvæmt gögnum, sem varnaraðilarnir Allianz Global Corporate & Specialty AG og fleiri hafa lagt fyrir Hæstarétt, héldu matsmennirnir sinn þriðja matsfund með lögmönnum aðilanna 2. október 2017. Í fundargerð frá þeim fundi kom meðal annars fram að matsmennirnir hygðust „vinna að svörum á afmörkuðum hlutum matsbeiðninnar og leggja fram svör eftir því sem þeir telja hægt að svara einstökum spurningum/hlutum.“ Væri fyrsti hluti verksins „spurning 1 fyrir dagsetninguna 31.12.2007“, en samhliða honum myndi hefjast „vinna við að svara öðrum spurningum.“ Væri ekki ráðgert „að langur tími muni líða þar til fleiri svör liggja fyrir.“ Þá kom fram í fundargerðinni að matsmenn hafi verið spurð hvort unnt væri að „setja fram raunhæfa tímaáætlun um lok matsstarfa“ og hafi svar þeirra verið eftirfarandi: „Matsmenn munu setja fram tímaáætlun um lok matsstarfa fyrir 1. nóvember nk. samhliða gagnalistum varðandi einstakar spurningar. Sú áætlun verður byggð á þeim gögnum sem við höfum fengið og ætti þess vegna að vera raunhæf. Ef bíða þarf lengi eftir nauðsynlegum viðbótargögnum mun áætlun trúlega riðlast.“

III

Fyrir Hæstarétti krefst sóknaraðilinn Svafa þess sem fyrr segir að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og er ítrasta varakrafa sóknaraðilans LBI ehf. á sama veg. Yrðu þær kröfur sóknaraðilanna teknar til greina yrði felld niður ákvörðun héraðsdóms um frestun málsins til þinghalds á nánar tilgreindum tíma 1. nóvember 2017. Af slíkum málalokum myndi leiða að nauðsyn bæri til að taka málið fyrir í héraðsdómi svo fljótt sem auðið væri til að taka nýja ákvörðun um framhald rekstrar þess, bæði um hvort og þá hversu lengi því kynni að verða frestað og í hvaða tilgangi, en þó allt að gættum dómi í málinu. Þessi kröfugerð sóknaraðilanna er því nægilega ljós, gagnstætt því sem var í dómi Hæstaréttar í fyrrnefndu máli nr. 457/2017, og samrýmist hún jafnframt markmiði kæruheimildar í h. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991. Eru því ekki efni til að verða við aðalkröfu varnaraðilanna Allianz Global Corporate & Specialty AG og fleiri um að málinu verði vísað frá Hæstarétti.

IV

Samkvæmt 1. mgr. 102. gr. laga nr. 91/1991 skal dómari í héraði ávallt taka fyrir mál eftir að greinargerð hefur verið lögð fram um varnir í því og leita þar sátta ásamt því að gefa aðilum kost á að koma að sýnilegum sönnunargögnum, sem ekki hefur áður verið tilefni eða tækifæri til að leggja fram, en við svo búið á að meginreglu að ákveða aðalmeðferð í máli. Í 2. mgr. sömu lagagreinar er dómara þó heimilað að verða við ósk aðila um að fresta máli frekar sé það vænlegt til að ná sáttum eða nauðsynlegt til að afla gagna, sem nægilegur frestur hefur ekki áður verið til, en aðilunum ber þá jöfnum höndum að nota slíkan frest til gagnaöflunar. Að öðrum kosti á dómari að jafnaði að synja um frest þótt aðilarnir séu á einu máli um að æskja hans. Þessi ákvæði laga nr. 91/1991 eru leidd af meginreglu einkamálaréttarfars um hraða meðferð máls og helgast einnig af fyrirmælum 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar um að öllum beri réttur til að fá úrlausn fyrir dómi um réttindi sín og skyldur innan hæfilegs tíma. Að þessu ber að gæta við beitingu framangreindrar heimildar í 2. mgr. 102. gr. laga nr. 91/1991, sem jafnframt er undantekning frá meginreglunni í 1. mgr. sömu lagagreinar.

Mál þetta var sem áður segir þingfest í héraði 8. mars 2012, en varnaraðilar ásamt sóknaraðilanum Svöfu tóku til varna í því með greinargerðum, sem voru ekki lagðar fram fyrr en 22. janúar 2013. Í greinargerð varnaraðilanna Allianz Global Corporate & Specialty AG og fleiri, sem var 60 síður að lengd, var meðal annars tekið fram að þau áskildu sér rétt „til að óska eftir dómkvaðningu matsmanna undir rekstri málsins til að meta hvers kyns atriði því tengd.“ Samhliða greinargerðinni lögðu þessir varnaraðilar fram svonefnda bókun, þar sem skorað var á sóknaraðilann LBI ehf. að leggja fram „skjöl og gögn“, sem talin voru upp í 96 töluliðum, en tveir af þessum liðum voru að auki greindir í fjölmarga undirliði. Af þessu verður ráðið að varnaraðilarnir hafi allt frá því á fyrstu stigum málsins gert sér grein fyrir því að vegna varna sinna stæðu líkur til þess að þau myndu þarfnast matsgerðar dómkvadds manns ásamt því að afla verulegs fjölda skjala, sem þeim voru ekki tiltæk á þeim tíma. Beiðni um dómkvaðningu matsmanna var þrátt fyrir þetta ekki lögð fram fyrr en 26. nóvember 2013 og var þá liðið nærfellt hálft annað ár frá þingfestingu málsins. Í úrskurði héraðsdóms 14. mars 2014, sem var staðfestur með fyrrnefndum dómi Hæstaréttar í máli nr. 243/2014, var leyst úr ágreiningi um hvort dómkveðja ætti matsmenn á grundvelli þessarar beiðni, en henni hafði meðal annars verið mótmælt með þeim rökum að varnaraðilarnir hefðu haft fullt tilefni til að bera hana fram á fyrri stigum og væri hún því of seint fram komin, auk þess sem umfang beiðninnar væri svo úr hófi að fyrirsjáanlega tæki fjölda ára að ljúka matsgerð. Þessum mótmælum var hafnað í úrskurðinum, en tekið fram að heimild varnaraðilanna til að afla matsgerðar væri háð þeirri forsendu að ekki hlytust af því óhóflegar tafir við meðferð málsins. Varnaraðilunum, sem kusu sjálf að leita svo viðamikillar matsgerðar sem raun ber vitni, mátti því allt frá byrjun vera ljóst að brýnt væri að matsstörf yrðu markviss og þeim yrði flýtt svo sem kostur væri að því viðlögðu að frestur fengist ekki í málinu til að koma matsgerð að.

Eins og áður var rakið kom fram á fyrsta matsfundi 4. júní 2015 að matsmenn teldu fyrirsjáanlegt að ekki tækist að ljúka matsgerð fyrr en seint á árinu 2016 eða snemma árs 2017. Þegar matsfundur var haldinn öðru sinni nærri sautján mánuðum síðar, 3. nóvember 2016, kom fram að matsmenn hefðu ekki enn byrjað á „eiginlegri matsvinnu“ og reiknuðu þau með að hún myndi taka „að lágmarki“ eitt og hálft til tvö ár eftir að þau hefðu fengið nægileg gögn, sem þau teldu enn skorta talsvert á. Án þess að nokkuð teljandi virðist hafa miðað áfram í vinnu matsmanna leið eftir þetta meira en hálft ár þar til lögmaður varnaraðilanna Allianz Global Corporate & Specialty AG og fleiri hreyfði því í bréfi til þeirra 23. maí 2017 hvort unnt væri að ljúka matsgerð í áföngum. Því svöruðu matsmennirnir 1. júní sama ár á þann hátt að þau myndu „gera tilraun“ til að velja „afmarkaða spurningu ... eða hluta hennar ... til að svara í fyrsta kasti“. Af svörum matsmannanna mátti einnig ráða að þau hefðu ekki enn hafið „vinnu við matið sjálft“. Í bréfi þeirra 22. sama mánaðar kom fram að þau hefðu síðan haldið að sér höndum sökum þess að lögmaður varnaraðilanna hefði ekki brugðist við framangreindum svörum. Í öðru bréfi 18. júlí 2017 kváðust matsmennirnir ekki hafa undir höndum nægileg gögn, en án þeirra væri ekki grundvöllur til að svara matsspurningum í heild eða einstökum spurningum að fullu. Loks kom fram í bréfi þeirra 31. ágúst 2017 að þau hefðu ákveðið að „gera atlögu að því“ að svara afmörkuðum hluta af fyrstu matsspurningunni af níu og hygðust ljúka því 30. nóvember sama ár, en það væri „ekki mögulegt að setja fram raunhæfa tímaáætlun á þessari stundu“ um hvenær unnt yrði að svara spurningunum að öðru leyti.

Þegar framangreint er virt í heild verður ekki betur séð en að matsmennirnir, sem voru eins og áður segir dómkvödd 17. nóvember 2014, hafi á nærri þriggja ára tímabili ekki hafið vinnu við samningu matsgerðar fyrr en á síðustu tveimur mánuðum þess og snúi sú vinna aðeins að tiltölulega litlum hluta heildarverksins. Jafnframt virðist sem matsmennirnir telji sér illfært að gera áætlun um hvenær ljúka mætti mati í heild, en þau hafa þó á fyrri stigum látið í ljós að það gæti minnst tekið hálft annað ár eftir að nægileg gögn yrðu fengin, sem enn virðist ekki hafa tekist. Fyrrnefnd heimild í 2. mgr. 102. gr. laga nr. 91/1991 til að fresta máli er háð því að nægilegur frestur hafi ekki áður verið veittur til að afla nauðsynlegra gagna. Gegn andmælum sóknaraðila og að gættum rétti þeirra eftir 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar er ófært að telja að varnaraðilunum Allianz Global Corporate & Specialty AG og fleiri hafi ekki nú þegar gefist nægilegur frestur til að afla matsgerðar. Verður því að hafna kröfum þeirra um frekari frestun málsins til að bíða matsgerðar, hvað þá sérstaklega til að koma að nýjum kröfum um afhendingu gagna til afnota við matið. Í ljósi þeirrar reglu 2. mgr. 102. gr. laga nr. 91/1991 að aðilum beri jöfnum höndum að nota sama frest til gagnaöflunar verður varnaraðilunum þó ekki meinað að leggja fram matsgerð svo lengi sem málinu þurfi að fresta af öðrum sökum. Hinn kærði úrskurður verður því felldur úr gildi.

Varnaraðilunum Allianz Global Corporate & Specialty AG og fleiri verður gert að greiða sóknaraðilum kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er felldur úr gildi.

Varnaraðilar Allianz Global Corporate & Specialty AG, Alterra Corporate Capital 2 Ltd., Alterra Corporate Capital 3 Ltd., Brian John Tutin, Bridget Anne Carey-Morgan, Brit Insurance Ltd., Carol Jean Harris, David John De Marle Coulthard, Eileen Elsie Hunter, Gary Frederick Sullivan, Ian Richard Posgate, John Leon Gilbart, Joseph Elmaleh, Julian Michael West, Kelvin Underwriting Ltd., Liberty Mutual Insurance Europe Ltd., Nameco (No 11) Ltd., Nameco (No 231) Ltd., Norman Thomas Rea, Novae Corporate Underwriting Ltd., QBE Corporate Ltd., QBE International Insurance Ltd., Richard Michael Hodgson Read, SCOR Underwriting Ltd. og Sorbietrees Underwriting Ltd. greiði óskipt hvorum sóknaraðila, LBI ehf. og Svöfu Grönfeldt, 500.000 krónur í kærumálskostnað.

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 18. september 2017.

Mál þetta var höfðað með stefnu birtri 17., 18. og 23. janúar 2012. Stefnandi er LBI hf., áður Landsbanki Íslands hf., Austurstræti 16, Reykjavík. Stefndu eru Sigurjón Þ. Árnason, Granaskjóli 28, Reykjavík, Halldór J. Kristjánsson, sagður óstaðsettur í hús í Kanada, Kjartan Gunnarsson, Starhaga 4, Reykjavík, Andri Sveinsson, sagður óstaðsettur í hús í Englandi, Þorgeir Baldursson, Stórahjalla 5, Kópavogi, Svafa Grönfeldt, sögð óstaðsett í hús í Bandaríkjunum og Jón Þorsteinn Oddleifsson, Krossakri 6, Garðabæ. Þá er stefnt Brit Insurance Ltd., 55 Bishopsgate, London, Stóra-Bretlandi og 24 öðrum nafngreindum vátryggjendum með lögheimili í Bretlandi og Þýskalandi.

                Við fyrirtöku málsins 18. september sl. var af hálfu stefndu Brit Insurance Ltd. o.fl. óskað eftir frestun málsins í því skyni að leggja fram beiðni um afhendingu gagna í þágu matsgerðar sem unnið er að beiðni þessara stefndu. Var vísað til þess að dómkvaddir matsmenn hefðu undanfarið verið í samskiptum við stefnanda, svo og tiltekna aðra aðila, fengið gögn afhent í þágu matsstarfa og farið yfir þau gögn. Þeir hefðu hins vegar ekki komið á framfæri við stefndu Brit Insurance Ltd. o.fl., sem matsbeiðendur, endanlegum lista yfir þau gögn sem þeir teldu að enn vantaði til þess að þeir gætu lokið matsstörfum. Þessum stefndum hefði því ekki verið mögulegt að leggja fram beiðni um afhendingu gagna úr hendi stefnanda og Landsbankans hf. líkt og ráð var fyrir við fyrirtöku málsins 27. júní sl.

                Af hálfu stefnanda var frekari frestun málsins mótmælt og þess krafist að aðalmeðferð málsins yrði ákveðin án tafar. Af hálfu stefndu Svöfu, Þorgeirs, Sigurjóns og Halldórs var tekið undir mótmæli og kröfu stefnanda. Af hálfu þessara aðila var vísað til þess að rúm þrjú ár væru liðin síðan matsbeiðni var samþykkt en matsmenn hefðu upplýst að eiginleg matsstörf væru ekki hafin. Matsmenn hefðu nú tilkynnt að þeir myndu leggja til grundvallar nýja nálgun við matið og telji að gögn sem legið hafi fyrir um langt skeið séu fullnægjandi í því sambandi. Vísað var til þess að óskýrt væri hvernig matsmenn hygðust framkvæma matið og ljúka því og allt benti til þess að þeir hefðu látið undir höfuð leggjast að nýta þann langa tíma sem liðinn væri til að hefja eiginlega matsstörf. Þá hefði ekki verið lögð fram tímaáætlun um framkvæmd matsins. Með öllu sé óljóst hvaða gögnum matsbeiðendur kunni að kalla eftir vegna matsins og hvenær matsferlinu ljúki endanlega. Því sé lagst gegn því að rekstur málsins sé tafinn frekar með frekari tilraunum við framkvæmd matsins.

                Þessi ágreiningur var tekinn til úrskurðar að loknum munnlegum athugasemdum lögmanna aðila og í sama þinghaldi kveðinn upp úrskurður, án skriflegra forsendna samkvæmt heimild í 3. mgr. 112. gr. laga nr. 91/1991, sbr. 8. gr. laga nr. 78/2015, um frestun málsins til 1. nóvember nk. Er þessi skriflegi úrskurður saminn 26. september 2017, vegna kæra úrskurðarins til Hæstaréttar Íslands, sem bárust dóminum sama dag.

                Við téða fyrirtöku málsins var, að lokinni uppkvaðningu fyrrgreinds úrskurðar um frestun málsins, lögð á það áhersla af hálfu dómara að um væri að ræða lokafrest stefndu Brit Insurance Ltd. o.fl. til þess að leggja fram beiðni um afhendingu gagna í þágu yfirstandandi mats. Kæmu ekki fram haldbærar skýringar við næstu fyrirtöku málsins um hvers vegna ekki væri unnt að leggja fram slíka beiðni mætti við því búast að dómari lýsti gagnaöflun lokið að kröfu annarra aðila og aðalmeðferð málsins yrði ákveðin. Dómari beindi því til lögmanns stefndu Brit Insurance Ltd. o.fl. að leiða dómkvadda matsmenn fyrir dóm til skýrslugjafar við næstu fyrirtöku málsins í því skyni að dómurinn gæti innt matsmenn eftir framgangi matsins og fyrirsjáanlegum lokum matsstarfa. Dómari minnti enn fremur á að aðilum matsmáls bæri skylda til þess að leiðbeina matsmönnum eftir föngum um matsatriði, þar á meðal þær reglur sem gildi um vinnu matsgerða.

Niðurstaða

                Með dómi Hæstaréttar Íslands 13. mars sl. í máli nr. 43/2017 var felldur úr gildi úrskurður dómsins, þar sem Landsbankanum hf. var gert skylt að veita dómkvöddum matsmönnum, Jóhanni Unnsteinssyni löggiltum endurskoðanda og Margréti Pétursdóttur löggiltum endurskoðanda, aðgang að tilteknum gögnum og upplýsingum í þágu mats sem heimilað var með úrskurði 14. mars 2014 og staðfestur var með dómi Hæstaréttar 29. apríl þess árs. Fyrir liggur að matsmenn hafa talið téð gögn og upplýsingar nauðsynlegar til að ljúka matinu. Stefndu Brit Insurance Ltd. o.fl., sem óskuðu eftir matinu, hafa lýst því yfir fyrir dóminum að þeir hyggist leggja fram, í ljósi forsendna hæstaréttardómsins 13. mars sl., nýja beiðni um afhendingu gagna, nú á grundvelli 67. til 69. gr. laga nr. 91/1991, í því skyni að matsmenn fái afhent, eftir því sem unnt er, þau gögn og þær upplýsingar sem þeir telja nauðsynlegar til þess að ljúka matsstörfum. Matsmenn hafi hins vegar enn ekki tilgreint endanlega um hvaða gögn þeir telji enn nauðsynlegt að afla frá stefnanda og Landsbankanum hf., svo sem áður er rakið.

                Dómari hefur ítrekað beint þeim tilmælum til stefndu Brit Insurance Ltd. o.fl, sem matsbeiðenda, sbr. meðal annars bókun í þinghaldi 16. nóvember 2016 og 27. júní sl., að hraða téðu mati eftir því sem kostur væri og vísað til þess að rúm heimild aðila til öflunar matsgerðar væri háð þeirri forsendu að hin umbeðna sönnunarfærsla leiddi ekki til slíkra tafa á meðferð máls að brotið væri gegn rétti annarra aðila til að fá úrlausn um réttindi sín og skyldur með réttlátri málsmeðferð innan hæfilegs tíma samkvæmt 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944, sbr. 8. gr. stjórnarskipunarlaga nr. 97/1995, og 1. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. samnefnd lög nr. 62/1994. Dómari hefur einnig minnt á að í fyrrgreindum úrskurði dómsins 14. mars 2014 komi fram að, eðli málsins samkvæmt, hljóti matsgerð að takmarkast við þau svör sem unnt er að veita við matsspurningum á grundvelli gagna sem tiltæk eru matsmönnum. Verði engin skylda lögð á matsmenn að afla sjálfir gagna umfram það sem þeir telja eðlilegt eða mögulegt. Kunni því við ákveðnar aðstæður að vera óhjákvæmilegt að ljúka mati án þess að allra hugsanlegra gagna hafi verið aflað auk þess sem niðurstaða matsmanna geti einnig orðið sú að ekki sé unnt að svara tilteknum matsspurningum. Með vísan til 3. mgr. 101. gr. laga nr. 91/1991 hefur dómari sömuleiðis beint því til stefndu Brit Insurance Ltd. o.fl. að leggja fram tímaáætlun dómkvaddra matsmanna, eða áætlun sem unnin hafi verið í samráði við þá, um hvernig hægt verði að ljúka matsstörfum sem allra fyrst. Samkvæmt framangreindu getur aldrei komið til álita að fresta málinu ótiltekið, eða þar til matsgerð liggur endanlega fyrir, svo sem stefndu Brit Insurance Ltd. o.fl. hafa óskað eftir.

                Svo sem áður greinir var með áðurgreindum dómi Hæstaréttar 13. mars sl. felldur úr gildi úrskurður dómsins, þar sem fallist var á skyldu Landsbankans hf. til að veita matsmönnum aðgang að tilteknum gögnum og upplýsingum í þágu matsstarfanna. Ljóst er að unnið hefur verið að öflun gagna vegna matsins í samvinnu við stefnanda og Landsbankann hf. eftir frestun málsins 27. júní sl. en matsmönnum ekki unnist tími til að afmarka með endanlegum hætti hvaða gögn sé nauðsynlegt að afla frá þessum aðilum með atbeina dómsins. Með vísan til 2. mgr. 102. laga nr. 91/1991, ber við þessar aðstæður að veita stefndu Brit Insurance Ltd. o.fl., sem matsbeiðendum, hæfilegan frest til þess að leggja fram nýja beiðni um afhendingu gagna og ljúka þar með endanlega gagnaöflun í þágu matsmálsins. Er frestun málsins við þessar aðstæður í samræmi við forræði aðila á sakarefninu og jafnræði aðila einkamáls. Verður slík frestun, til ákveðins tíma, því ekki talin óhæfileg eða andstæð þeim grundvallarréttindum annarra málsaðila sem áður ræðir, enda verður að líta svo á að hér sé um lokafrestun málsins að ræða af þessum ástæðum. Er málinu því frestað til þess tíma sem fram kemur í úrskurðarorði.

                Skúli Magnússon héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Málinu er frestað til  þinghalds 1. nóvember nk. kl. 13:30 í dómhúsinu við Lækjartorg, dómsal 401.