Print

Mál nr. 238/2000

Lykilorð
  • Vinnuvélar
  • Refsiheimild
  • Stjórnarskrá

Fimmtudaginn 5

 

Fimmtudaginn 5. október 2000.

Nr. 238/2000.

Ákæruvaldið

(Bogi Nilsson ríkissaksóknari)

gegn

Arnóri Barkarsyni

(Ólafur Sigurgeirsson hrl.)

                                              

Vinnuvélar. Refsiheimild. Stjórnarskrá.

A var ákærður fyrir brot gegn ákvæðum c. liðar 2. gr., 1. tölulið A. liðar 3. gr. og 1. mgr. 11. gr. reglna nr. 198/1983 um réttindi til að stjórna vinnuvélum, eins og þeim var breytt með 1. gr. reglna nr. 24/1999, sbr. 1. mgr. 99. gr. laga nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, með því að hafa ekið gaffallyftara á vinnustað sínum, án tilskilinna réttinda. Talið var að hvorki væri í tilvitnuðum ákvæðum reglna nr. 198/1983 né í 1. mgr. 99. gr. laga nr. 46/1980 lagt bann við því að maður, sem ekki hefur hlotið sérstök réttindi, stjórni gaffallyftara af þeirri gerð sem A ók í umrætt sinn, gagnstætt því sem áður gilti samkvæmt 2. mgr. 1. gr. reglugerðar nr. 121/1967 um réttindi til vinnu og meðferðar á vinnuvélum. Því var talið að viðhlítandi lagastoð fyrir því að A hefði unnið til refsingar með akstrinum skorti, sbr. 1. mgr. 69. gr. stjórnarskrárinnar og var staðfest niðurstaða héraðsdóms um sýknu A.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson og Gunnlaugur Claessen og Björn Þ. Guðmundsson prófessor.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 29. maí 2000 af hálfu ákæruvalds, sem krefst þess að ákærði verði sakfelldur samkvæmt ákæru og honum ákveðin refsing.

Ákærði krefst staðfestingar héraðsdóms.

Í málinu er ákærða gefið að sök að hafa brotið gegn ákvæðum c. liðar 2. gr., 1. tölulið A. liðar 3. gr. og 1. mgr. 11. gr. reglna nr. 198/1983 um réttindi til að stjórna vinnuvélum, eins og þeim var breytt með 1. gr. reglna nr. 24/1999, sbr. 1. mgr. 99. gr. laga nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, með því að hafa 25. júní 1999 ekið án tilskilinna réttinda gaffallyftara með skráningarnúmerinu JL 1557 á vinnustað sínum, Sandi Ímúr hf. Fyrir liggur í málinu að þann dag ók ákærði gaffallyftaranum á annan nafngreindan starfsmann félagsins, sem hlaut af því beinbrot á fæti.

Hvorki er í tilvitnuðum ákvæðum reglna nr. 198/1983 með áorðnum breytingum né 1. mgr. 99. gr. laga nr. 46/1980 lagt bann við því að maður, sem ekki hefur hlotið sérstök réttindi, stjórni gaffallyftara þeirrar gerðar, sem ákærði ók umrætt sinn, gagnstætt því, sem áður gilti samkvæmt 2. mgr. 1. gr. reglugerðar nr. 121/1967 um réttindi til vinnu og meðferðar á vinnuvélum. Skortir því viðhlítandi lagastoð fyrir því að ákærði hafi unnið til refsingar með áðurnefndri háttsemi sinni, sbr. 1. mgr. 69. gr. stjórnarskrárinnar, eins og henni var breytt með 7. gr. stjórnarskipunarlaga nr. 97/1995. Verður hinn áfrýjaði dómur því staðfestur.

Allur áfrýjunarkostnaður málsins skal greiddur úr ríkissjóði, eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Allur áfrýjunarkostnaður málsins greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða fyrir Hæstarétti, Ólafs Sigurgeirssonar hæstaréttarlögmanns, 50.000 krónur.

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 5. maí 2000.

Málið er höfðað með ákæru lögreglustjórans í Reykjavík 6. mars sl gegn ákærða Arnóri Barkarsyni, kt. 081273-4999, Kríuhólum 2, Reykjavík og X, „hinum fyrrnefnda fyrir brot á reglum um réttindi til að stjórna vinnuvélum og hinum síðarnefnda fyrir brot á lögum um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum með því að hafa í sameiningu staðið að því að ákærði Arnór stjórnaði vinnuvél án tilskilinna réttinda með eftirgreindum hætti:

I.

Ákærði Arnór með því að hafa, föstudaginn 25. júní 1999, við vinnu sína á vinnustað Sands Ímúrs hf. að Viðarhöfða 1 í Reykjavík stjórnað lyftaranum JL-1557 án tilskilinna réttinda.

Telst þetta varða við c-lið 2. gr., sbr. 1. tl. 3. gr. A og 1. mgr. 11. gr., reglna um réttindi til að stjórna vinnuvélum nr. 198/1983, sbr. 1. gr. reglna nr. 24/1999 og 1. mgr. 99. gr. laga um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum nr. 46/1980.

II.

Ákærði X með því að hafa sem framkvæmdastjóri Sands Ímúrs hf. látið viðgangast að nefndur Arnór stjórnaði lyftaranum JL-1557 eins og greinir í 1. ákærulið þrátt fyrir að hann vissi að hann hafði ekki tilskilin réttindi til þess og að hafa ekki séð um að hann engi nauðsynlega kennslu og þjálfun til þess að stjórna lyftara.

Telst þetta varða við a-lið 13. gr., 1. mgr. 14. gr. og 37. gr., sbr. 1., 2. og 3. mgr. 12. gr. og 1. mgr. 99. gr., laga um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, sbr. 1., 2. og 3. gr. reglna um réttindi til að stjórna vinnuvélum og 1. gr. reglna nr. 24/1999.

Þess er krafist að ákærðu verði dæmdir til refsingar.”

Þætti meðákærða var lokið með viðurlagaákvörðun.

Ákærði Arnór játar skýlaust háttsemi þá sem honum er að sök gefin í ákæru.  Af hans hálfu er hins vegar talið að háttsemin sé refsilaus þar sem ekki séu viðhlítandi refsiheimildir fyrir hendi í þeim lagaákvæðum sem vísað er til í ákærunni.

Í 1. mgr. 1. gr. reglna nr. 198/1983 um réttindi til að stjórna vinnuvélum segir að með reglum þessum sé leitast við að tryggja næga þekkingu, þjálfun og öryggi í meðferð vinnu- og farandvéla, sem taldar eru upp í 3. gr.  Þá segir í 1. mgr. 3. gr. reglnanna, eins og þeim hefur nú verið breytt með 1. gr. reglna nr. 24/1999, að náms- og þjálfunarkröfur miðist við stærð og gerð viðkomandi vinnuvéla samkvæmt neðangreindri flokkun: A Frumnámskeið.  Í 1. tl. þeirrar flokkunar er fjallað um gaffallyftara með lyftigetu 1,2 til 10 tonn, en óumdeilt er að lyftari sá er ákærði ók greint sinn fellur undir þá gerð lyftara.  Samkvæmt c-lið 1. mgr. 2. gr. framangreindra reglna nr. 198/1983 getur sá einn öðlast réttindi til að stjórna vinnuvélum sem lokið hefur tilskildu námi og þjálfun, sbr. 3., 5. og 6. gr.  sömu reglna.  Óumdeilt er að ákærði hefur ekki hlotið slík réttindi þar sem hann hefur ekki lokið tilskildu námi og þjálfun. 

Ljóst er af framangreindum ákvæðum að leyfi þarf til að stjórna þeirri gerð lyftara sem ákærði stjórnaði umrætt sinn að undangenginni nánar tiltekinni þjálfun og námi, sbr. 2. mgr. 3. gr. regnanna.  Í 1. mgr. 99. gr. laga um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum nr. 46/1980 segir, að brot gegn lögum þessum og reglugerðum settum samkvæmt þeim varði sektum, nema þyngri refsing liggi við að öðrum lögum.  Ákvæði 11. gr. reglna nr. 198/1983 um að brot gegn þeim reglum varði tiltekinni refsingu fá stoð í ofangreindum lögum og er ákvæðið sem slíkt viðhlítandi refsiheimild sem unnt er að beita hafi brot verið framið gegn lögunum.

Í reglum þeim, sem vísað er til í ákæru, eru hins vegar engin ákvæði er taka til þeirrar háttsemi að aka vinnuvél án þess að hafa hlotið umrædd réttindi, sbr. hins vegar 1. gr. reglugerðar nr. 121/1967 um réttindi til vinnu og meðferðar á vinnuvélum, sem numin var úr gildi 1. október 1983, er reglur nr. 198/1983 tóku gildi.  Þar var ákvæði þess efnis að þeir einir mættu vinna með nánar tilgreindum vinnuvélum sem höfðu öðlast réttindi samkvæmt reglugerðinni.  

Refsingu verður því aðeins beitt að til þess sé heimild í settum lögum, sbr. 2. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.  Eins og að framan greinir skortir viðhlítandi refsiheimild til að beita refsingu vegna þeirrar háttsemi sem ákærði er sakaður um í máli þessu.  Ber því að sýkna hann af öllum kröfum ákæruvaldsins í málinu.

Eftir þessum málsúrslitum ber að greiða allan sakarkostnað úr ríkissjóði, þar  með talda þóknun skipaðs verjanda ákærða, Ólafs Sigurgeirssonar hæstaréttarlögmanns, 40.000 krónur.

Ingibjörg Benediktsdóttir héraðsdómari kvað upp dóminn.

D ó m s o r ð:

Ákærði, Arnór Barkarson, skal vera sýkn af öllum kröfum ákæruvaldsins í máli þessu.

Allur sakarkostnaður greiðist úr ríkissjóði, þar  með talin þóknun skipaðs verjanda ákærða, Ólafs Sigurgeirssonar hæstaréttarlögmanns. 40.000 krónur.