Print

Mál nr. 328/2002

Lykilorð
  • Erlent ríki
  • Smán
  • Refsiheimild
  • Vínarsamningur
  • Áfrýjun
  • Frávísunarkröfu hafnað
  • Sératkvæði

Fimmtudaginn 12

 

Fimmtudaginn 12. desember 2002.

Nr. 328/2002.

Ákæruvaldið

(Bogi Nilsson ríkissaksóknari)

gegn

Ingólfi Guðmundssyni

(Sigurmar K. Albertsson hrl.)

Arnari Inga Jónssyni og

(Brynjar Níelsson hrl.)

Erpi Þórólfi Eyvindssyni

(Haraldur Blöndal hrl.)

 

Erlent ríki. Smán. Refsiheimild. Vínarsamningur. Áfrýjun. Frávísunarkröfu hrundið. Sératkvæði.

 

I, A og E var gefið að sök að hafa smánað erlenda þjóð og erlent ríki opinberlega samkvæmt 95. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með því að hafa varpað bensínsprengju síðla nætur á aðsetur bandaríska sendiráðsins og sendiherrans en töluverð ummerki voru á framhlið sendiráðsbyggingarinnar eftir eld og reyk. Sannað var að I hefði útbúið bensínsprengjuna og varpað henni á sendiráðið og að A og E hefðu verið með honum í för. Var I talinn aðalmaður en A og E hlutdeildarmenn. Tekið var fram að sú háttsemi að smána opinberlega erlenda þjóð eða ríki í skilningi 1. mgr. 95. gr. hegningarlaga yrði að fela í sér svívirðingu eða óvirðingu í garð þjóðarinnar með einum eða öðrum hætti sem ætlað væri að vekja athygli og eftirtekt og vera niðrandi og gefa til kynna fyrirlitningu og vansæmd. Yrði að telja þá háttsemi I að ráðast gegn framhlið bandaríska sendiráðsins með bensínsprengju, sem fremur virtist hafa verið ætlað að skilja eftir sig ummerki en valda verulegum spjöllum, til þess fallna að smána Bandaríkin, þjóðina sjálfa eða ráðamenn hennar, en sprengjan lenti á veggnum, örskammt frá skjaldarmerki og þjóðfána Bandaríkjanna. Taldist þetta athæfi opinber óvirðing í garð hinnar erlendu þjóðar enda framið á almannafæri og á opinberri byggingu sem er tákn ríkisins hér á landi og hluti þess samkvæmt viðurkenndum þjóðréttarreglum, sbr. 22. gr. Vínarsamningsins, sbr. lög nr. 16/1971 um aðild Íslands að alþjóðasamningi um stjórnmálasamband. Voru I, A og E því sakfelldir fyrir brot á 1. mgr. 95. gr. almennra hegningarlaga en A og E báru refsiábyrgð samkvæmt 1. mgr. 22. gr. sömu laga.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Hrafn Bragason, Garðar Gíslason, Haraldur Henrysson, Ingibjörg Benediktsdóttir og Pétur Kr. Hafstein.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 1. júlí 2002 til sakfellingar samkvæmt ákæru og refsiákvörðunar.

Ákærðu krefjast þess allir aðallega, að málinu verði vísað frá Hæstarétti. Til vara krefjast þeir sýknu og til þrautavara vægustu refsingar, sem lög leyfa.

I.

Frávísunarkrafa ákærðu er á því reist, að ekki liggi fyrir leyfi til áfrýjunar málsins. Slíkt hafi verið nauðsynlegt samkvæmt 2. mgr. 150. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála, þar sem sakfelling geti ekki leitt til annarrar refsingar en sektar, er væri langt undir áfrýjunarfjárhæð í einkamálum, sbr. 2. mgr. 152. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, og hafi krafa sækjanda í héraði ekki lotið að öðru.

Ríkissaksóknari telur ákærðu ranglega sýknaða í héraðsdómi og áfrýjar honum samkvæmt heimild í 148. gr. laga nr. 19/1991, sbr. 8. gr. laga nr. 37/1994. Ákvæði 2. mgr. 150. gr. laganna um áfrýjun áfellisdóma á hér ekki við, enda ekki um það að ræða, að refsing eða önnur viðurlög séu talin að mun of væg, sbr. 148. gr. Kemur frávísunarkrafa ákærðu því ekki til álita.

II.

Ákærðu er gefið að sök að hafa smánað erlenda þjóð og erlent ríki opinberlega samkvæmt 95. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með því að hafa aðfaranótt laugardagsins 21. apríl 2001 varpað bensínsprengju á aðsetur bandaríska sendiráðsins og bandaríska sendiherrans við Laufásveg í Reykjavík, en við það blossaði upp eldur á framhlið hússins. Engar verulegar skemmdir urðu þó á sendiráðsbyggingunni, en öryggisverðir slökktu eldinn á skammri stundu. Framlagðar ljósmyndir bera þó með sér, að töluverð ummerki hafa sést á framhlið sendiráðsbyggingarinnar eftir eld og reyk. Ákæruvaldið telur, að ákærðu hafi sammælst um verknaðinn, en ákærði Ingólfur útbúið sprengjuna og varpað henni á húsið. Hafi ákærðu Arnar og Erpur gerst sekir um hlutdeild í broti ákærða Ingólfs á framangreindu hegningarlagaákvæði, sbr. 22. gr. sömu laga. Málið var endurupptekið eftir aðalmeðferð og dómtöku í héraði og því beint til sakflytjenda að reifa heimfærslu ætlaðra brota ákærðu til 257. gr. almennra hegningarlaga, en sækjandi vísaði jafnframt til 165. gr. sömu laga. Hafa sakflytjendur hér fyrir dómi einnig lýst viðhorfi sínu til beitingar þessara lagaákvæða og mælt gegn henni.

Samkvæmt frumskýrslu lögreglu var hún kvödd að bandaríska sendiráðinu við Laufásveg kl. 04.23 aðfaranótt laugardagsins 21. apríl 2001 „vegna árásarboða sem þaðan kæmu.“ Þegar lögreglumenn komu á vettvang hafi þeir séð talsverðan reyk leggja frá húsnæðinu og hafi starfsmaður öryggisþjónustunnar Securitas ehf. verið að sprauta með slökkvitæki á vesturhlið sendiráðsins. Hann tjáði lögreglu, að sést hefði til manns í eftirlitsmyndavél, þar sem hann hefði kastað „bensínkokteil“ í sendiráðið, en annar starfsmaður Securitas hefði veitt honum eftirför. Voru lögreglubifreiðar sendar af stað til leitar að mönnunum, en þá hafði öryggisvörðurinn gert viðvart um tvo menn á Skálholtsstíg. Ákærðu Arnar og Erpur voru handteknir í Templarasundi fáeinum mínútum eftir verknaðinn og færðir í fangageymslur lögreglunnar í Reykjavík. Þeir voru yfirheyrðir af lögreglu næsta dag og látnir lausir um kvöldið. Ákærði Ingólfur var hins vegar ekki handtekinn fyrr en að kvöldi laugardagsins 21. apríl 2001 og yfirheyrður um hádegisbil á sunnudegi en fór eftir það frjáls ferða sinna. Ákærðu Arnar og Erpur voru yfirheyrðir að nýju hjá lögreglu í desember 2001.

III.

Í héraðsdómi er gerð grein fyrir framburði ákærðu og vitna fyrir dóminum, sem skýrir atburðarás málsins að verulegu leyti, og má vísa til þess. Hins vegar þykir rétt að reifa jafnframt þætti úr framburði ákærðu hjá lögreglu, sem þeir hafa sérstaklega aðspurðir staðfest fyrir héraðsdómi, að ákærða Erpi undanskildum.

Við skýrslutöku hjá lögreglu 22. apríl 2001 sagði ákærði Ingólfur meðal annars, að á veitingahúsi um nóttina hafi þeir ákærðu rætt um stjórnmál í víðum skilningi og þar á meðal um hernaðarstefnu Bandaríkjanna og íhlutun þeirra í málefni Palestínu. Þeir hafi ennfremur rætt um mótmælin, sem verið hafi við bandaríska sendiráðið í Reykjavík, þegar kveikt hafi verið í ísraelska fánanum þar. Upp úr þeirri umræðu hafi spunnist sú hugmynd að hafa í frammi einhver sýnileg mótmæli við sendiráðið og hafi þá kviknað sú hugmynd að kasta „Molotov-kokteil“ í það. Hann kvaðst ekki muna, hver hefði átt þá uppástungu. Fyrir héraðsdómi taldi ákærði Ingólfur þetta ekki ranglega eftir sér haft. Þá var eftir honum skráð í lögregluskýrslu, að meðákærðu hafi virst mjög ánægðir, þegar hann hafi sagt þeim, að hann væri búinn að útbúa sprengjuna, eftir að hann hafði farið að bíl ákærða Arnars, náð þar í tóma vodkaflösku og fyllt hana með mold og bensíni auk afrifu af dagblaði, eins og nánar greinir í héraðsdómi. Skömmu síðar hafi þeir ákveðið að fara og kasta sprengjunni í bandaríska sendiráðið. Fyrir dóminum kvaðst hann halda, að þetta væri rétt eftir sér haft og hafi meðákærðu vitað, hvert förinni var heitið.

Í skýrslu lögreglu 21. apríl 2001 er skráð eftir ákærða Arnari, að á leið þeirra þremenninga hafi ákærði Ingólfur haft á orði, að hann ætlaði að kasta „Molotov-kokteil“ í bandaríska sendiráðið, en hann hafi aldrei útskýrt ástæðu þess fyrir þeim. Fyrir dómi kvað ákærði þetta „einhvern veginn“ rétt eftir sér haft, en hann myndi ekki til þess, að mikið hefði verið talað um það á leiðinni að kasta sprengjunni. Við skýrslutöku hjá lögreglu 17. desember 2001 sagði ákærði Arnar, að Ingólfur hafi komið til þeirra Erps á veitingahúsinu Prikinu og beðið þá að koma út og þar hefði hann sýnt þeim tilbúinn „Molotov-kokteil“, sem hann hefði útbúið í vodkaflöskunni. Þeir hafi síðan gengið saman að bandaríska sendiráðinu, en í bakgarði húss gegnt því hafi Ingólfur tekið upp flöskuna, kveikt í kveiknum, hlaupið úr garðinum upp á Laufásveginn og hent logandi flöskunni í sendiráðið. Á sama tíma hafi þeir Erpur hlaupið af stað til að forða sér af vettvangi. Sér hafi verið ljóst, í hvað hafi stefnt, þegar Ingólfur hafi sýnt þeim „Molotov-kokteilinn“. Hann hafi ekkert gert til að stöðva Ingólf í því að henda flöskunni í sendiráðið og sagði: „Það var ekki að mínu mati sameiginleg ákvörðun um að framkvæma þetta heldur gerði Ingólfur þetta og við stöðvuðum hann ekki.“ Fyrir héraðsdómi kvað ákærði Arnar þetta rétt eftir sér haft.

Í lögregluskýrslu 21. apríl 2001 var haft eftir ákærða Erpi, að Ingólfur hafi verið með tilbúinn „Molotov-kokteil“ innanklæða, þegar þeir hafi verið að yfirgefa veitingahúsið Prikið. Þá hafi Ingólfur sagt við þá Arnar, að hann hygðist kasta þessu í bandaríska sendiráðið. Þeir hafi verið ölvaðir og fundist þetta eins og hvert annað grín en ekkert sagt við Ingólf. Hann hafi séð, þegar Ingólfur hafi kveikt á sprengjunni og hlaupið fyrir horn hússins, en þá hafi hann misst sjónar af honum og forðað sér á hlaupum af vettvangi. Fyrir héraðsdómi bar ákærði Erpur við nær algeru minnisleysi vegna ölvunar.

IV.

Sannað er með játningu ákærða Ingólfs fyrir dómi, sem fær stuðning í öðrum gögnum málsins, einkum framburði ákærða Arnars, að hann hafi útbúið bensínsprengju og varpað henni á bandaríska sendiráðið við Laufásveg í Reykjavík aðfaranótt 21. apríl 2001, eins og nánar greinir í ákæru, en ákærða Ingólfi var kunnugt um eftirlitsmyndavélar við sendiráðið. Jafnframt er sannað með framburði ákærðu fyrir dómi, einkum Ingólfs og Arnars, að ákærðu Arnar og Erpur voru í för með ákærða Ingólfi og fékk hann lánuð hjá þeim föt, áður en hann lét til skarar skríða, í því skyni að dyljast og villa á sér heimildir, frá ákærða Arnari bláa húfu og ákærða Erpi jakka í felulitum. Fær þetta jafnframt stuðning í rannsóknargögnum lögreglu. Þá er ljóst, að ákærðu lögðu lykkju á leið sína frá veitingastaðnum Prikinu við Ingólfsstræti í þeim tilgangi að dyljast, er þeir héldu niður á Fríkirkjuveg, en þaðan fóru þeir upp með húsi nr. 11 í bakgarð húss við Laufásveg gegnt sendiráðinu. Hins vegar þykir ekki alveg nægilega sýnt fram á, að ákærðu hafi sammælst um verknaðinn, en samkvæmt framburði ákærða Arnars fyrir dómi hefur honum að minnsta kosti verið ljós fyrirætlun ákærða Ingólfs, þegar þeir nálguðust bandaríska sendiráðið. Með hliðsjón af framburði ákærðu Ingólfs og Arnars hlaut ákærða Erpi þá einnig að vera ljóst, hvað í bígerð var, þrátt fyrir viðbárur um ölvun og óminni, en hann gerði ekkert fremur en ákærði Arnar til að stöðva ákærða Ingólf. Samkvæmt framansögðu verður ákærði Ingólfur að teljast aðalmaður í þeim verknaði, sem lýst er í ákæru, en ákærðu Arnar og Erpur hlutdeildarmenn. Um heimfærslu til refsiákvæðis og refsingu ræðir nánar hér á eftir. 

V.

Samkvæmt 1. mgr. 95. gr. almennra hegningarlaga, sbr. lög nr. 101/1976 og lög nr. 82/1998, skal sá sæta sektum eða fangelsi allt að tveimur árum, er smánar opinberlega erlenda þjóð eða erlent ríki, æðsta ráðamann, þjóðhöfðingja þess, fána þess eða annað viðurkennt þjóðarmerki, fána Sameinuðu þjóðanna eða fána Evrópuráðsins. Ef sakir eru miklar varðar brotið fangelsi allt að sex árum. Í 2. mgr. 95. gr., sbr. lög nr. 47/1941, er sama refsing lögð við því að smána opinberlega eða hafa annars í frammi skammaryrði, aðrar móðganir í orðum eða athöfnum eða ærumeiðandi aðdróttanir við aðra starfsmenn erlends ríkis, sem staddir eru hér á landi.

Með lögum nr. 56/2002, sem gildi tóku 14. maí 2002, var svofelldri nýrri málsgrein bætt við 95. gr. hegningarlaganna: „Sömu refsingu skal hver sá sæta sem ógnar eða beitir valdi gagnvart sendierindreka erlends ríkis hér á landi eða ræðst inn á eða veldur skemmdum á sendiráðssvæði eða hótar slíku.“ Í almennum athugasemdum með frumvarpi til þessara laga kemur fram, að málsgreininni sé ætlað að veita aukna refsivernd fyrir ógnun eða valdbeitingu gagnvart erlendum sendierindrekum hér á landi og eignaspjöllum, sem unnin séu á sendiráðssvæði eða hótunum um að fremja slík eignaspjöll. Bent er á, að hvorki í 1. mgr. né 2. mgr. 95. gr. sé afdráttarlaust kveðið á um refsivernd í þeim tilvikum, þegar árás eða ógnun er beint gegn starfsmanni erlendra ríkja hér á landi eða skemmdarverk unnin á sendiráðssvæði. Einvörðungu sé í 2. mgr. 95. gr. fjallað um „opinberlega smánun eða aðrar móðganir“ í garð starfsmanna erlends ríkis, sem staddir séu hér á landi. Með frumvarpinu eigi að taka af skarið um, að háttsemi, sem telst minni háttar skemmdarverk á sendiráðsbyggingu, lóð sendiráðs eða heimili erlends sendierindreka, svo og hótun um að fremja slíkan verknað, eigi undir ákvæðið, „þótt ekki sé um smánun eða móðgun að ræða.“ Eðlilegt þyki að kveða skýrar á um þetta í refsilögum, einkum í ljósi þjóðréttarlegra skuldbindinga Íslands. Vísað er í Vínarsamninginn um stjórnmálasamband frá 18. apríl 1961, sem fullgiltur hefur verið af Íslands hálfu, sbr. auglýsingu nr. 14/1971 í C-deild Stjórnartíðinda 1971, og lög nr. 16/1971 um aðild Íslands að alþjóðasamningi um stjórnmálasamband, en með 1. gr. þeirra laga var samningnum veitt lagagildi hér á landi. Áréttaðar eru skuldbindingar samkvæmt 22. gr. Vínarsamningsins og sagt, að aðild Íslands að þessum samningi hafi ekki áður leitt til sérstakra breytinga á 95. gr. almennra hegningarlaga. Í Noregi hafi hins vegar verið valin sú leið að orða í 2. mgr. 95. gr. þarlendra hegningarlaga refsivernd, sem sé sambærileg að efni til og frumvarpsgreinin, en það ákvæði hafi meðal annars verið sett til þess að uppfylla skuldbindingar samkvæmt Vínarsamningnum. Í sérstökum athugasemdum við frumvarpsgreinina er sagt, að með ákvæðinu sé ætlað að mæta þeim skuldbindingum, sem leiði af 22., 29. og 30. gr. Vínarsamningsins. Því sé lagt til, að tekin verði af tvímæli um það, að ógnun eða valdbeiting gagnvart sendierindreka erlends ríkis hér á landi eða árás eða skemmdarverk á sendiráðssvæði eða hótun um að fremja slíkt verk verði lýst refsiverð háttsemi, án þess að hún þurfi að fela í sér smán eða móðgun samkvæmt 2. mgr. 95. gr. hegningarlaga.

Í vörn ákærðu er því haldið fram, að löggjafinn hafi talið vafa leika á um það, að ákvæði 1. mgr. 95. hegningarlaga næði til tilvika sambærilegra þeim, er um ræðir í þessu máli, og því þótt ástæða til að setja með lögum nr. 56/2002 það ákvæði, er varð 3. mgr. 95. gr. hegningarlaganna.

VI.

Líta verður svo á, að með framangreindri breytingu á 95. gr. hegningarlaganna hafi löggjafinn meðal annars haft í hyggju að veita sendiráðum og svæðum umhverfis þau aukna refsivernd í því skyni að uppfylla betur en áður alþjóðlegar skuldbindingar samkvæmt Vínarsamningnum. Undir ákvæðið eru þannig felld minni háttar skemmdarverk, sem ekki þurfa að fela í sér smán eða móðgun en fremur má líta á sem eignaspjöll. Það girðir þó ekki fyrir, að ýmis konar spellvirki verði talin fela í sér smán gegn sendiráðinu og þeirri erlendu þjóð, sem það er tákn fyrir, þótt minni háttar séu.

Sú háttsemi að smána opinberlega erlenda þjóð eða ríki í skilningi 1. mgr. 95. gr. hegningarlaga verður að fela í sér svívirðingu eða óvirðingu í garð þjóðarinnar með einum eða öðrum hætti, sem ætlað er að vekja athygli og eftirtekt. Hún þarf að vera niðrandi og gefa til kynna fyrirlitningu og vansæmd. Við slíkar aðstæður verður ákvæðinu beitt, enda standi stjórnarskrárvarið tjáningarfrelsi því ekki í vegi. Af hálfu ákærðu er því ekki haldið fram, að með hinum umrædda verknaði hafi ætlunin verið að nýta sér slík réttindi. Á hinn bóginn verður að telja þá háttsemi ákærða Ingólfs að ráðast gegn framhlið bandaríska sendiráðsins með bensínsprengju, sem fremur virðist hafa verið ætlað að skilja eftir sig ummerki en valda verulegum spjöllum, til þess fallna að smána Bandaríkin, þjóðina sjálfa eða ráðamenn hennar. Hann lýsti því sjálfur hjá lögreglu, að hann hefði miðað á vegg á annarri hæð sendiráðsins, þ.e. hægra megin fyrir ofan útgöngudyrnar. Þar lenti logandi flaskan og ljósmyndir sýna sót og svertu á nokkrum hluta veggjarins, örskammt frá skjaldarmerki og þjóðfána Bandaríkjanna. Þetta athæfi telst opinber óvirðing í garð hinnar erlendu þjóðar, enda framið á almannafæri og á opinberri byggingu, sem er tákn ríkisins hér á landi og hluti þess samkvæmt viðurkenndum þjóðréttarreglum, sbr. 22. gr. Vínarsamningsins.

Með hliðsjón af framansögðu verður framferði ákærða Ingólfs talið fela í sér brot á 1. mgr. 95. gr. almennra hegningarlaga og þarf þá ekki að taka afstöðu til annarra refsiákvæða, sem nefnd hafa verið í málinu. Ákærðu Arnar og Erpur lögðu ákærða Ingólfi lið, eins og lýst hefur verið, og gerðu ekkert til að koma í veg fyrir þann verknað, sem hann hugðist fremja. Þeir bera því jafnframt refsiábyrgð samkvæmt 1. mgr. 22. gr. hegningarlaga.

Við ákvörðun refsingar er til þess að líta, að ákærðu eru ungir að árum og hafa ekki áður gerst sekir um brot, sem hér skipta máli, ákærðu Ingólfur og Arnar gegn umferðarlögum en ákærði Erpur hefur hreint sakavottorð. Brot þeirra var að vísu alvarlegt en olli ekki yfirgripsmiklu tjóni. Með hliðsjón af öllum atvikum og 1., 2., 4. og 5. tl. 1. mgr. 70. gr. almennra hegningarlaga þykir rétt, að ákærðu sæti sektum í ríkissjóð, ákærði Ingólfur 250.000 króna sekt en ákærðu Arnar og Erpur 150.000 króna sekt hvor. Sektirnar skulu greiðast innan 30 daga frá uppsögu þessa dóms að viðlagðri vararefsingu, eins og nánar greinir í dómsorði.

Ákærðu skulu greiða allan kostnað sakarinnar í héraði og fyrir Hæstarétti, eins og í dómsorði segir.

Dómsorð:

Ákærði Ingólfur Guðmundsson greiði 250.000 króna sekt í ríkissjóð innan 30 daga frá uppsögu þessa dóms en sæti ella fangelsi í 34 daga.

Ákærði Arnar Ingi Jónsson greiði 150.000 króna sekt í ríkissjóð innan 30 daga frá uppsögu þessa dóms en sæti ella fangelsi í 26 daga.

Ákærði Erpur Þórólfur Eyvindsson greiði 150.000 króna sekt í ríkissjóð innan 30 daga frá uppsögu þessa dóms en sæti ella fangelsi í 26 daga.

Ákærði Ingólfur greiði skipuðum verjanda sínum í héraði og fyrir Hæstarétti, Sigurmar K. Albertssyni hæstaréttarlögmanni, samtals 300.000 krónur.

Ákærði Arnar Ingi greiði skipuðum verjanda sínum í héraði og fyrir Hæstarétti, Brynjari Níelssyni hæstaréttarlögmanni, samtals 270.000 krónur.

Ákærði Erpur Þórólfur Eyvindsson greiði skipuðum verjanda sínum í héraði, Gísla Gíslasyni héraðsdómslögmanni, 150.000 krónur, og skipuðum verjanda sínum fyrir Hæstarétti, Haraldi Blöndal hæstaréttarlögmanni, 120.000 krónur.

Allan annan sakarkostnað greiði ákærðu óskipt.

 


Sératkvæði

Hrafns Bragasonar

Ég er sammála því er segir í fjórum fyrstu köflunum í atkvæði meirihluta dómenda um málsatvik og ábyrgð ákærðu á þeim verknaði ákærða Ingólfs að varpa „Molotov-kokteil” í bandaríska sendiráðið síðla aðfaranætur laugardagsins 21. apríl 2001, en við það urðu nokkrar brunaskemmdir á framhlið hússins, svo sem fram kemur á framlögðum ljósmyndum. Þá er ég sammála lýsingu þeirra á ákvæðum 95. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og þeim breytingum sem gerðar hafa verið á greininni með lögum nr. 56/2002 eða eftir að atvik málsins urðu og má vísa í V. kafla atkvæðisins þar um. Hins vegar er ég ósammála þeim um heimfærslu verknaðarins til refsiákvæðis og tel að VI. kafli dómsins eigi að hljóða með eftirgreindum hætti:

VI.

           Í ákæru er ákærðu gefið að sök að hafa með verknaði sínum smánað erlenda þjóð og erlent ríki opinberlega samkvæmt 95. gr. almennra hegningarlaga. Í athugasemdum við ákvæði þessarar greinar, eins og hún var upphaflega, var sagt að hún væri sett til þess að vernda öryggi íslenska ríkisins, en ekki með það fyrir augum að vernda sérstaklega erlenda hagsmuni hér á landi. Á þetta viðhorf meðal annars rót sína að rekja til þess að íslenska ríkið er skuldbundið að þjóðarrétti til að veita sendimönnum erlendra ríkja, sem hér dveljast, ákveðna vernd þar á meðal refsivernd, sbr. nú lög nr. 16/1971 um aðild Íslands að alþjóðasamningi um stjórnmálasamband, eða Vínarsamninginn eins og hann er kallaður, en með 1. gr. laganna var samningnum veitt lagagildi hér á landi. Í samræmi við þetta vísaði bandaríska sendiráðið lögreglunni til íslenska utanríkisráðuneytisins eftir verknað piltanna og af hálfu ráðuneytisins var atburðurinn kærður til lögreglu 9. október 2001, svo sem rétt var í samræmi við skyldur ríkisins samkvæmt greindum sáttmála. Var þetta gert innan þess sex mánaða frests sem um getur í 29. gr. almennra hegningarlaga, sbr. það er síðar verður um fjallað. Í 22. gr. Vínarsamningsins er ríkjum lögð sú skylda á herðar að lýsa refsiverða árás og skemmdarverk á sendiráðssvæði eða hótun um að fremja slíkt verk.

Samkvæmt gögnum málsins var verknaður piltanna tilkynntur til lögreglu sem árás á sendiráð en síðan rannsakaður sem íkveikja. Hefði ríkissaksóknari átt þess kost að ákæra samkvæmt 164. gr. almennra hegningarlaga eða þar sem skemmdir á byggingunni urðu minni háttar samkvæmt 257. gr. sömu laga, enda var verknaðurinn kærður innan sex mánaða frá því hann var framinn, svo sem áður greinir. Málið var endurupptekið í héraði og því beint til sakflytjenda að reifa heimfærslu ætlaðra brota ákærðu til 257. gr. almennra hegningarlaga, en sækjandi vísaði þá einnig til 165. gr. laganna. Af þessum sökum þótti rétt að sakflytjendur reifuðu málið einnig með tilliti til þessara ákvæða fyrir Hæstarétti. Samkvæmt upphafsákvæði 117. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála má ekki dæma ákærða fyrir aðra hegðun en þá sem í ákæru greinir. Rétt er þó að dæma eftir öðrum refsiákvæðum en segir í ákæru ef vörn er ekki áfátt og verknaðarlýsing fellur að viðkomandi ákvæði. Ríkissaksóknari valdi að ákæra í málinu á þann veg að ákærðu hefðu með verknaði sínum smánað Bandaríki Norður-Ameríku opinberlega og heimfæra verknað þeirra til ákvæðis 1. mgr. 95. gr. laganna, svo sem að framan greinir. Er verknaðarlýsing ákærunnar ekki með þeim hætti að refsað verði fyrir ákvæði 257. gr. almennra hegningarlaga.

          Í V. kafla að framan er þess getið að í vörn ákærðu hafi því verið haldið fram að löggjafinn hafi talið vafa leika á því hvort 1. mgr. 95. gr. hegningarlaganna næði til verknaðar piltanna. Var þá til þess vitnað að með lögum nr. 56/2002, sem sett voru eftir að verknaður þeirra var framinn, var nýrri málsgrein bætt við 95. gr. Er gerð grein fyrir ákvæði þessu  í V. kafla og athugasemdum sem því fylgdu. Í þeim er bent á að hvorki sé í 1. mgr. né 2. mgr. 95. gr. afdráttarlaust kveðið á um refsivernd í þeim tilvikum, þegar skemmdarverk séu unnin á sendiráðssvæði. Með frumvarpinu eigi meðal annars að taka af skarið um, að háttsemi, sem telst minni háttar skemmdarverk á sendiráðsbyggingu, eigi undir ákvæðið, „þótt ekki sé um smánun eða móðgun að ræða.” Í sérstökum athugasemdum við frumvarpsgreinina er sagt að með ákvæðinu sé ætlað að mæta þeim skuldbindingum sem leiði af 22. gr., 29. og 30. gr. Vínarsamningsins. Í athugasemdunum kemur fram að í Noregi hafi verið talin þörf á að taka upp sambærilegt ákvæði í sama skyni. Mun það hafa verið gert 15. desember 1950.

         Ákvæði 1. mgr. 95. gr. hegningarlaganna hefur ekki verið beitt í dómum Hæstaréttar Íslands frá því fyrir miðja síðustu öld. Í Danmörku mun samhljóða ákvæði heldur ekki hafa verið beitt eftir þann tíma. Í Noregi hefur sambærilegur verknaður og hér um ræðir verið heimfærður til 2. mgr. 95. gr. norskra hegningarlaga eftir 1950, sem er samhljóða ákvæði því sem leitt var í lög á Íslandi 2002. Frá lokum síðari heimsstyrjaldarinnar hefur orðið viðhorfsbreyting til þeirra málefna sem snúa að 1. mgr. 95. gr. hegningarlaganna, sem best kemur fram í ákvæðum mannréttindayfirlýsingar og mannréttindasáttmála Sameinuðu þjóðanna og kristallast í 10. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, en sáttmálanum var veitt lagagildi á Íslandi með lögum þar um nr. 62/1994, sbr. og 73. gr. stjórnarskrárinnar, svo sem henni var breytt með 11. gr. stjórnarskipunarlaga nr. 97/1995. Veita þessi ákvæði mönnum aukinn rétt til að láta í ljós skoðanir sínar þar á meðal að hafa í frammi mótmæli við erlend sendiráð. Ákvæði 1. mgr. 95. gr. hegningarlaganna miðar að því að erlendum þjóðum og ríkjum sé á Íslandi sýnd tilhlýðileg virðing í orði og æði á opinberum vettvangi. Ákvæðið verður ekki skýrt án hliðsjónar af greindum mannréttindaákvæðum um tjáningarfrelsi og þeim viðhorfum sem þau endurspegla. Við skýringu á þeim ákvæðum verður ekki litið fram hjá því hvernig Mannréttindadómstóll Evrópu hefur skýrt ákvæði mannréttindasáttmálans. Verður nú að taka tillit til framagreindra sáttmála og löggjafar, sem af þeim hefur leitt, þegar ákvæði 1. mgr. 95. gr. hegningarlaganna er skýrt, svo sem þegar skýrð eru önnur æruverndarákvæði íslenskrar löggjafar. Verður verknaður ekki talinn heyra undir ákvæðið nema svo sé ótvírætt tekið fram í ákvæðinu sjálfu, sbr. 3. mgr. 73. gr. stjórnarskrárinnar. Íslenski löggjafinn var meðal annars að bregðast  við þessu með setningu laga nr. 56/2002 að því er varðaði skemmdarverk, sem framin væru á sendiráðssvæði.

           Fyrir héraðsdómi neitaði ákærði Ingólfur að hafa ætlað að smána Bandaríki Norður–Ameríku. Var því haldið fram af verjanda hans fyrir Hæstarétti að hann væri andvígur utanríkisstefnu Bandaríkjanna og hafi hugmyndin að aðförinni að sendiráðinu sprottið upp úr umræðum um stefnu Bandaríkjanna í málefnum Austurlanda nær og hafi aðförin átt að tákna andstöðu hans. Er þetta í samræmi við framburð hans og ákærða Arnars Inga, sem þeir staðfestu að mestu fyrir héraðsdómi. Ljóst er að sendiráð Bandaríkjanna verður fyrir atlögu þeirra vegna að minnsta kosti skoðana ákærða Ingólfs. Fyrir liggur hins vegar að piltarnir voru allir illa drukknir þegar verknaðurinn var framinn og er því erfitt að ráða í hvað þeim gekk nánar til. Verður ekki við annað miðað en að ásetningur þeirra hafi verið sá að vinna skemmdir á sendiráðinu, án þess að í verknaðinn verði lögð önnur frekari og dýpri merking. Þá var verkið unnið seint um nótt þegar fáir voru á ferli og enginn fylgdist með því nema öryggisverðir í gegnum eftirlitsmyndavélar en ákærðu laumuðust um bakgarða að sendiráðinu. Verður af framangreindum ástæðum ekki talið að 1. mgr. 95. gr. hegningarlaganna geti átt við verknað ákærðu. Þar sem ákæruvaldið hefur bundið verknaðarlýsingu ákæru við brot samkvæmt greininni verður að sýkna ákærðu af kröfum þess og dæma íslenska ríkið til greiðslu alls áfrýjunarkostnaðar málsins.

             

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 28. maí 2002.

Mál þetta var höfðað með ákæru Ríkissaksóknara, dagsettri 11. febrúar 2001, á hendur Arnari Inga Jónssyni, kt. 271079-5409, Granaskjóli 13, Reykjavík, Erpi Þórólfi Eyvindssyni, kt. 290877-6019, Framnesvegi 42, Reykjavík, og Ingólfi Guðmundssyni, kt. 030679-5719, Óðinsgötu 11, Reykjavík,

“...fyrir að hafa, aðfaranótt laugardagsins 21. apríl 2001, smánað erlenda þjóð og erlent ríki opinberlega samkvæmt 95. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með því að varpa bensínsprengju á aðsetur bandaríska sendiráðsins og sendiherrans við Laufásveg í Reykjavík, en við það blossaði upp eldur á framhlið hússins.  Ákærðu höfðu um nóttina sammælst um að varpa bensínsprengju á sendiráðið og útbjó ákærði Ingólfur bensínsprengjuna, sem var glerflaska, fyllt bensíni og með kveik í stút.  Síðan fóru ákærðu saman að sendiráðinu, þar sem ákærði Ingólfur, eftir að hafa sett á sig húfu meðákærða Arnars Inga og klæðst jakka meðákærða Erps Þórólfs, bar eld að kveiknum, hljóð með sprengjuna logandi úr húsagarði gegnt sendiráðinu og kastaði henni í vegg yfir anddyri hússin.  Öryggisvörður sendiráðsins slokkti eldinn fljótlega en nokkrar brunaskemmdir urðu á framhlið hússins. 

Háttsemi ákærðu þykir varða við 95. gr. almennra hegningarlaga, sbr. 22. gr. sömu laga hvað varðar háttsemi ákærðu Arnars Inga og Erps Þórólfs.

Þess er krafist að ákærðu verði dæmdir til refsingar.” 

Ákærði, Arnar Ingi Jónsson, krefst sýknu

Ákærði, Erpur Þórólfur Eyvindsson, krefst sýknu

Ákærði, Ingólfur Guðmundsson, krefst sýknu, til vara vægustu refsingar er lög leyfa. 

Málið var dómtekið 8. maí sl.  Dómari ákvað að endurupptaka málið samkvæmt heimild í 131. gr. laga nr. 19/1991, sbr. einnig lokamálslið 1. mgr. 117. gr. sömu laga.  Var málflytjendum gefinn kostur á að reifa heimfærslu meintra brota ákærðu til annarra refsiákvæða en vísað er til í ákæru.  Reifuðu sækjandi og verjendur einkum hugsanlega heimfærslu til 257. gr. almennra hegningarlaga.  Var málið dómtekið á ný að loknum endurflutningi fyrr í dag.

Samkvæmt frásögn í frumskýrslu lögreglu bárust boð um árás frá bandaríska sendiráðinu við Laufásveg aðfaranótt laugardagsins 21. apríl 2001.  Þrír starfsmenn öryggisgæslufyrirtækisins Securitas, sem voru á vakt í sendiráðinu, urðu varir við mann sem kom að sendiráðinu og kastaði bensínkokteil í húsið.  Tveir gæslumenn fóru út og slökkti annar þeirra eldinn með handslökkvitæki. 

Skömmu síðar handtóku lögreglumenn ákærðu Arnar og Erp þar sem þeir voru á ferð í Templarasundi, eftir ábendingu eins gæslumannanna, sem hafði elt ákærðu. 

Ekki urðu verulegar skemmdir á sendiráðsbyggingunni og eldurinn var slökktur á örskotsstund. 

Lögreglan í Reykjavík rannsakaði mál þetta og var á rannsóknarstigi miðað við að meint brot varðaði við 1. mgr. 257. gr. almennra hegningarlaga.  Því var leitað eftir afstöðu sendiráðs Bandaríkjanna til málsins og hvort krafist væri málshöfðunar.  Var erindinu vísað síðar til utanríkisráðuneytisins eftir tilvísun sendiráðsins.  Með bréfi utanríkisráðuneytisins 9. október 2001 var lýst þeirri afstöðu ráðuneytisins að höfð skyldi uppi refsi- og bótakrafa í málinu.

Fyrir dómi sagði ákærði Ingólfur Guðmundsson að hann og meðákærðu hefðu verið á skemmtistaðnum Prikinu við Bankastræti.  Hann hefði farið þaðan einn og sótt bjór í bíl Arnars, sem var lagt í stæði við Kirkjustræti.  Þá hafi hann tekið með tóma vodkaflösku, en vodkað hefðu þeir drukkið fyrr um kvöldið.  Hann kvaðst hafa sett mold í flöskuna, síðan sett í hana bensín sem hann hefði fengið með sjálfsafgreiðslu á bensínstöðinni við Klöpp, hann hefði síðan sett afrif af dagblaði ofan í flöskuna.  Hann kvaðst hafa útbúið þetta og geymt við hús við Hverfisgötu, en farið aftur á Prikið.  Hann hefði sagt meðákærðu að koma og þá hefði hann sótt flöskuna og hitt þá aftur fyrir utan Prikið.  Þaðan hefðu þeir farið saman.  Í bakgarðinum hefði hann fengið lánaðan jakka meðákærða Erps og húfu meðákærða Arnars.  Þetta hefði hann gert til að dyljast, hann vissi eins og allir að það væru myndavélar við sendiráðið. 

Ákærði kvaðst halda að hann hefði sagt meðákærðu að hann væri með Molotov-kokteil þegar þeir voru fyrir utan Prikið og lögðu af stað í átt að sendiráðinu.  Þeir hafi ekki rætt neitt um hver myndi kasta, það hafi komið af sjálfu sér að hann hafi gert það.  Hann taldi að hann hefði fengið eld hjá Arnari til að kveikja í kokteilnum.  Hann hefði síðan hlaupið í burtu. 

Um ferðir þeirra félaga fyrr um kvöldið sagði ákærði Ingólfur að þeir hefðu allir þrír verið á tónleikum í Iðnó um kvöldið.  Síðan hefðu þeir orðið viðskila, en hist aftur á Prikinu.  Hann sagði að þeir hefðu ekki rætt það sín á milli að mótmæla við bandaríska sendiráðið.  Þeir hefðu talað um að gera eitthvað heimskulegt, stökkva í Tjörnina til dæmis. 

Ákærði Arnar Ingi Jónsson lýsti fyrir dómi ferðum sínum umrætt kvöld.  Hann hefði farið á tónleika í Iðnó, á Skuggabarinn, veitingastaðinn 22 og á Prikið.  Í millitíðinni hefði hann skroppið vestur á Seltjarnarnes.  Hann hefði á öllum þessum stöðum verið með meðákærða Erpi og meðákærði Ingólfur hefði verið á tónleikunum og á Skuggabarnum og á Prikinu.  Hann kvaðst ekki minnast þess að þeir hefðu rætt sérstaklega um að mótmæla við bandaríska sendiráðið.  Þá hefði ekki komið til tals að útbúa Molotov-kokteil.  Hann sagði að inni á Prikinu væri mjög erfitt að tala saman, tónlist væri þar mjög hávær. 

Um aðdraganda atviksins við sendiráðið sagði ákærði Arnar að þegar kom að því að lokað yrði á Prikinu hafi þeir farið út og Ingólfur komið með einhverja tösku.  Þeir hefðu síðan gengið í átt að sendiráðinu, hann kvaðst ekki hafa vitað þá að ferðinni var heitið þangað.  Þeir hafi lítið rætt saman, meðákærði Ingólfur hefði sagt þeim að koma með sér.  Hann hefði sýnt þeim ofan í töskuna á leiðinni. 

Arnar kvaðst hafa lánað Ingólfi húfu þegar þeir voru á leiðinni.  Þeir hefðu farið í bakgarð á móti sendiráðinu.  Hann kvaðst ekki muna eftir því að hann hefði lánað honum eld.  Arnar kvaðst ekki hafa trúað því að Ingólfur myndi kasta kokteilnum eitthvað.  Hann hefði lagt af stað burt þegar Ingólfur var að kasta kokteilnum.  Þegar Ingólfur kom til baka hefði hann fleygt til hans húfunni og jakka Erps og hlaupið burt.  Hann og Erpur hefðu hlaupið í átt að Iðnó og verið handteknir í miðbænum. 

Arnar sagði að þeir hefðu ekki ákveðið að kasta kokteilnum í sendiráðið.  Hann hefði séð hann fyrst á leiðinni frá Prikinu og hefði aldrei ætlað að taka þátt í að kasta honum. 

Ákærði Erpur Þórólfur Eyvindsson gaf skýrslu fyrir dómi.  Hann lýsti ferðum sínum umrætt kvöld.  Hann hefði farið á tónleika í Iðnó, á Skuggabarinn og í samkvæmi, á 22 og loks á Prikið.  Hann kvaðst hafa verið mjög ölvaður.  Hann kannaðist ekki við að þeir félagar hefðu rætt um stefnu Bandaríkjastjórnar eða að þeir skyldu mótmæla við sendiráð Bandaríkjanna.  Ákærði kvaðst ekki muna eftir því að meðákærði Ingólfur hefði sýnt honum Molotov-kokteil. 

Ákærði kvaðst ekki muna vel eftir ferðum þeirra eftir að þeir fóru af Prikinu.  Hann hefði haldið að þeir ætluðu á Píanóbarinn, en sá staðurr væri opinn lengur en aðrir.  Hann muni að þeir hafi farið eitthvað, en síðan muni hann næst eftir því að þeir voru handteknir.  Sig rámi þó í að þeir hafi verið staddir í einhverjum bakgarði. 

Ákærði sagði af og frá að hann hefði lagt á ráðin um að kasta Molotov-kokteil í sendiráðið. 

Ágúst Daníelsson gaf skýrslu fyrir dómi.  Hann var á vakt í sendiráðinu þessa nótt.  Hann kvaðst hafa verið inni er hann sá á skjánum glampa hinum megin við götuna.  Svo hafi hann séð að maður kom hlaupandi með Molotov-kokteil í hendinni og kastaði honum í húsið.  Þeir hafi hlaupið út tveir, félagi hans hafi slökkt eldinn.  Sjálfur hafi hann hlaupið niður í Hallargarðinn, þar hafi hann séð tvo menn á hlaupum og ákveðið að hlaupa í veg fyrir þá.  Hann hafi séð þá aftur á móti Fríkirkjunni og þá hafi annar þeirra verið að fagna.  Hann hafi síðan fylgst með þeim þangað til lögreglan handtók þá í Templarasundi. 

Ágúst sagði þrír öryggisverðir hefðu verið í sendiráðinu þessa nótt.  Þá hefðu sendiherrahjónin verið í húsinu, en ekki aðrir. 

Haukur B. Sigmarsson var á vakt í sendiráðinu þessa nótt.  Hann sagði fyrir dómi að sá sem sat við skjáina hefði sagt að eldur væri í húsinu.  Þeir hafi hlaupið út tveir og hann hafi slökkt eldinn, en félagi hans hefði hlaupið á eftir einhverjum.  Hann kvaðst hafa verið fljótur að slökkva eldinn.  Hann hefði notað duftslökkvitæki til þess.

Jón Michael Þórarinsson var á vakt í sendiráðinu þessa nótt.  hann kvaðst hafa vaktað skjáina er félagar hans fóru út.  Hann kvaðst hafa séð á skjánum að maður kom hlaupandi framan að húsinu og hélt á logandi flösku.  Stuttu síðar hafi komið mikill blossi eftir að flöskunni var kastað í húsið.  Félagar hans tveir hafi þá farið út. 

Loks gáfu skýrslur fyrir dómi fjórir lögreglumenn, einn sem fór að sendiráðinu og þrír sem handtóku ákærðu Erp og Arnar.  Ekki er ástæða til að rekja framburði þeirra. 

Upptaka af því þegar ákærði Ingólfur kastaði sprengjunni var til staðar í dóminum á myndböndum og gátu málflytjendur og dómari horft á upptökuna. 

Lögreglan óskaði rannsóknar á sýni sem tekið var á vettvangi.  Var um að ræða stút af flösku með efnisleifum.  Í niðurstöðu rannsóknastofu í lyfjafræði segir að rannsóknin bendi til þess að sýnið hafi verið mikið mengað bensíni. 

 

Niðurstaða. 

Ákærði Ingólfur Guðmundsson hefur játað að hafa útbúið svonefndan Molotov-kokteil og kveikt í honum og kastað í vegg sendiráðsbyggingarinnar við Laufásveg eins og lýst er í ákæru. 

Í 95. gr. almennra hegningarlaga er lögð refsing við því að smána opinberlega erlenda þjóð eða erlent ríki, æðsta ráðamann, þjóðhöfðingja þess, fána þess eða annað viðurkennt þjóðarmerki. 

Hliðstætt þessu ákvæði hegningarlaganna eru ákvæði dönsku og norsku hegningarlaganna.  Þannig segir í grein 110 e í dönsku lögunum:  “... der offentlig forhåner en fremmed nation, en fremmed stat, dens flag eller andet anerkendt nationalmærke ...”.  Í 95. gr. norsku laganna er nokkru ítarlegra ákvæði, en þar segir:  “Den som her i riket offentlig forhåner en fremmed stats flag eller riksvåpen, eller som medvirker hertil, straffes med bøter eller med hefte eller fengsel inntil 1 år.

På samme måte straffes den som her i riket krenker en fremmed stat ved å øve vold mot eller opptre truende eller fornærmelig overfor noen representant for den, eller ved å trenge seg inn i, gjøre skade på eller tilsmusse område, bygning eller rom som brukes av slik representant, eller som medvirker til det.”

Þegar litið er til norsku reglunnar verður séð að verknaðarlýsing ákærunnar er sniðin að 2. mgr. ákvæðisins, en að í 1. mgr. er ákvæði efnislega samhljóða 95. gr. íslensku laganna. 

Ákærði Ingólfur vann ekki spjöll á þjóðfána Bandaríkjanna eða öðru merki á sendiráðsbyggingunni.  Ekki horfðu aðrir á verknað ákærða en meðákærðu og vaktmemenn í sendiráðinu.  Verk sitt framkvæmdi ákærði þó opinberlega í skilningi 95. gr.  Framganga ákærða fól hins vegar ekki í sér smánun gagnvart hinu erlenda ríki, en sendiráðsbyggingin sem slík er ekki þjóðarmerki í skilningi ákvæðisins.  Hefur ákærði Ingólfur því ekki brotið gegn 95. gr. almennra hegningarlaga.  Meðákærðu hafa af sömu ástæðu ekki gerst sekir um hlutdeild. 

Samkvæmt 4. mgr. 257. gr. almennra hegningarlaga er áskilið að fram komi krafa um málshöfðun frá brotaþola til að mál verði höfðað vegna brota gegn 1. og 3. mgr. greinarinnar.  Áður er lýst bréfi utanríkisráðuneytisins sem dagsett er 9. október 2001.  Í bréfi þessu er vísað til 1. og 2. mgr. 22. gr. alþjóðasamnings um stjórnmálasamband, en með lögum nr. 16/1971 var veitt heimild fyrir aðild Íslands að samningi þessum.  Ekkert er það í samningi þessum eða í lögum sem veitir utanríkisráðherra eða ráðuneyti hans umboð til þess að krefjast málshöfðunar fyrir hönd sendiráða erlendra ríkja vegna brota gegn 257. gr. almennra hegningarlaga.  Verður því ekki leyst úr því hvort ákærðu hafi brotið gegn 1. mgr. 257. gr. almennra hegningarlaga.  Verða ákærðu sýknaðir af kröfum ákæruvalds. 

Málsvarnarlaun verjenda ákærðu, 150.000 krónur til hvers, greiðist úr ríkissjóði. 

Jón Finnbjörnsson, héraðsdómari, kveður upp dóm þennan. 

D ó m s o r ð

Ákærðu, Ingólfur Guðmundsson, Arnar Ingi Jónsson og Erpur Þórólfur Eyvindsson, eru sýknaðir af kröfum ákæruvalds. 

Sakarkostnaður greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun Sigurmars K. Albertssonar og Brynjars Níelssonar, hæstaréttarlögmanna, og Gísla Gíslasonar, héraðsdómslögmanns, 150.000 krónur til hvers.