Print

Mál nr. 236/2000

Lykilorð
  • Vörumerki
  • Stjórnsýslukæra
  • Jafnræðisregla
  • Stjórnarskrá

Fimmtudaginn 9

 

Fimmtudaginn 9. nóvember 2000.

Nr. 236/2000.

Unilever

(Skúli Th. Fjeldsted hrl.)

gegn

áfrýjunarnefnd í vörumerkja- og

einkaleyfamálum og

(Ástráður Haraldsson hrl.)

Colgate-Palmolive Company

(Jón Ólafsson hrl.)

                                                   

Vörumerki. Stjórnsýslukæra. Jafnræðisregla. Stjórnarskrá.

U áfrýjaði ákvörðun Einkaleyfastofunnar (E), um skráningu á tilteknum vörumerkjum C, til áfrýjunarnefndar í vörumerkja- og einkaleyfamálum (Á). Á vísaði málinu frá á grundvelli 2. mgr. 67. gr. vörumerkjalaga nr. 45/1997, sem kveður á um að með umsóknir, sem berist E fyrir gildistöku laganna, skuli farið eftir eldri lögum, en samkvæmt þeim gat einungis umsækjandi um skráningu vörumerkis áfrýjað til Á. Umsókn C barst E á árinu 1994, en þá voru í gildi lög nr. 47/1968 um vörumerki. Héraðsdómur féllst ekki á það með U að umrædd ákvæði eldri laga um vörumerki samræmdust ekki jafnréttisákvæðum stjórnarskrárinnar. Taldi dómurinn ákvæði eldri og núgildandi laga um vörumerki skýr og ákvörðun Á í samræmi við þau. Var kröfum U hafnað. Hæstiréttur staðfesti héraðsdóminn.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Árni Kolbeinsson og Markús Sigurbjörnsson.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 13. júní 2000. Hann krefst þess að ógilt verði ákvörðun, sem stefnda áfrýjunarnefnd í vörumerkja- og einkaleyfamálum tók 30. júní 1999, um að vísa frá máli áfrýjanda gegn stefnda Colgate-Palmolive Company, svo og að lagt verði fyrir nefndina að taka til efnislegrar umfjöllunar kæru áfrýjanda á ákvörðun Einkaleyfastofunnar 17. júlí 1998 í sama máli. Þá krefst áfrýjandi málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndu krefjast hvor fyrir sig að héraðsdómur verði staðfestur og áfrýjanda gert að greiða málskostnað fyrir Hæstarétti.

Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.

Áfrýjanda verður gert að greiða málskostnað fyrir Hæstarétti, sem er ákveðinn handa hvorum stefnda fyrir sig eins og í dómsorði greinir.

 

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Áfrýjandi, Unilever, greiði hvorum stefndu, áfrýjunarnefnd í vörumerkja- og einkaleyfamálum og Colgate-Palmolive Company, 100.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 14. mars 2000.

I

Mál þetta, sem tekið var til dóms að loknum munnlegum flutningi 29. febrúar sl., er höfðað með stefnu birtri 29. og 30. september sl.

Stefnandi er Unilever Administration Center í  Lundúnum.

Stefndu eru áfrýjunarnefnd í vörumerkja- og einkaleyfamálum og Björn Árna­son, Árni Björnsson, f.h. Colgate Palmolive Company í New York.  Þá er iðn­aðarráðherra, fyrir hönd iðnaðarráðuneytisins, stefnt til réttargæslu í málinu.

Stefnandi krefst þess að ógilt verði með dómi sú ákvörðun áfrýjunarnefndar í vöru­­merkja- og einkaleyfamálum, í máli hennar nr. 3/1998, að vísa málinu frá nefnd­nni og að lagt verði fyrir hana að taka hina áfrýjuðu ákvörðun Einkaleyfastofunnar í mál­inu til efnislegrar umfjöllunar.  Þá er krafist málskostnaðar.

Stefndu krefjast sýknu og málskostnaðar. 

Réttargæslustefndi gerir engar kröfur í málinu, enda eru engar kröfur gerðar á hendur honum.

II

Málavextir eru þeir að 17. júlí 1998 tók Einkaleyfastofan þá ákvörðun í and­mæla­mál­­inu nr. 12/1998 að heimila skráningu tveggja myndmerkja samkvæmt umsóknum nr. 244 og 245/1994.  Umsækjandi um þessar skráningar var stefndi, Colgate- Palmo­live Company.  Skráður umboðsmaður stefnda hér á landi er Björn Árnason, Árni Björns­son.  Stefn­andi hafði andmælt þessum skráningum.  Hann áfrýjaði ákvörðun Einka­leyfastofunnar til stefndu, áfrýjunarnefndarinnar, 16. september 1998.  Eftir nokk­ur bréfaskipti milli áfrýjun­arnefndarinnar og stefnanda komst hún að þeirri nið­ur­stöðu að vísa málinu frá, með vísan til 2. mgr. 67. gr. vörumerkjalaga nr. 45/1997, en hún kveður á um að með um­sóknir, er berast Einkaleyfastofu fyrir gildistöku laganna, skuli farið eftir eldri lögum.  Samkvæmt 1. mgr. 44. gr. eldri vörumerkjalaga nr. 47/1968 var einungis um­sækjanda um vörumerki heimilað að áfrýja ákvörðunum Einka­leyfastofu. 

Í máli þessu greinir aðila á um hvort lagt skuli fyrir stefndu, áfrýjunarnefnd í vöru­­merkja- og einkaleyfamálum, að taka framangreinda ákvörðun Einka­leyfa­stof­unn­ar til efnislegrar umfjöllunar eða ekki. 

III

Stefnandi byggir á því, að í 1. mgr. 63. gr. núgildandi vörumerkjalaga sé báðum máls­aðilum heimilað að áfrýja ákvörð­unum Einkaleyfastofu, gagnstætt því sem segir í eldri vörumerkjalögum.  Þessi breyting hafi verið studd við jafnræðisregluna, enda sé það andstætt henni að einungis annar aðili máls hafi áfrýjunarrétt.  Honum hljóti því að vera heimilt að áfrýja framangreindri ákvörðun Einkaleyfastofunnar.  Sam­kvæmt eldri vörumerkjalögum hafi aðilum verið mismunað með þeim hætti að ein­ungis um­sækjandi hafði áfrýjunarrétt.  Þetta hafi nú verið leiðrétt með 63. gr. vöru­merkja­lag­anna og sé það í samræmi við jafnræðisregluna er nú hafi verið lögfest í 65. gr. stjórn­ar­skrárinnar.

Með vísan til þess að jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar beri að beita við skýringu laga þá beri að skýra 67. gr. núgildandi vörumerkjalaga svo þröngt sem unnt er og nái hún því ekki lengra en svo að efnisreglur eldri laga skuli gilda um meðferð eldri um­sókna.  Andmælendur geti þó notið að jöfnu við eldri umsóknir þess réttar­fars­hag­ræðis sem felist í áfrýjunarákvæði 63. gr. vörumerkjalaga.  Í 67. gr. vöru­merkja­lag­anna sé einungis vísað til umsókna sem borist hafi Einkaleyfastofu fyrir gild­is­töku lag­anna en ekki tekin afstaða til áfrýjunar úrskurða, sem nauðsynlegt hefði verið ef tak­marka hefði átt áfrýjunarréttinn með þessu ákvæði.   Stefnandi bendir á að með­ferð um­sóknar af hálfu Einkaleyfastofu sé í raun lokið með uppkvaðningu úr­skurðar og eftir það hefjist nýr kafli í skiptum málsaðila, sem sé meðferð áfrýjun­arinnar og algjör óþarfi sé að túlka 67. gr. vörumerkjalaganna svo vítt að áfrýju­narréttur sé með henni tak­markaður.  Tilgangi greinarinnar sé fullkomlega náð með þeirri túlkun að efnis­reglur eldri laga skuli leggja til grundvallar við úrlausn áfrýjun­arnefndarinnar, á sama hátt og var við meðferð umsóknarinnar hjá Einka­leyfa­stofu. 

Þá vitnar stefnandi í 11. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 þar sem kveðið er á um, að stjórnvöld skuli við úrlausn mála gæta jafnræðis í lagalegu tilliti.  Slíks jafnræðis væri að nauðsynjalausu ekki gætt ef einungis umsækjandi teldist hafa heimild til áfrýjun­ar á úrskurði, svo sem um ræðir í þessu máli. 

IV

Stefndi, áfrýjunarnefnd í vörumerkja- og einkaleyfamálum, byggir sýknukröfu sína á því að ekki leiki vafi á að um alla meðferð umsókna frá meðstefnda, Colgate-Palmolive, sem um ræðir í þessu máli, hafi borið að beita ákvæðum eldri vöru­merkja­laga.  Samkvæmt 44. gr. þeirra var einungis umsækjanda um skráningu vöru­­merkis heimilt að áfrýja ákvörðun Einkaleyfastofunnar til áfrýjunarnefndarinnar.  And­mæl­andi umsóknar hafði ekki þann rétt en honum hafi verið veittur hann með nýjum lög­um um vörumerki, er gildi tóku 1. júlí 1997, rúmum þremur árum eftir að umsóknin kom fram. 

Stefndi kveðst ekki sjá að sú skipan sem af ofangreindu leiði og sem feli í sér að stefn­anda er ekki tækt það úrræði að skjóta máli sínu til stefnda, áfrýjun­ar­nefnd­ar­inn­ar, fari á nokkurn hátt í bága við jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar.  Enn síður telur stefndi rök til að byggja málatilbúnað stefnanda á jafnræðisreglu stjórnsýslulaganna.

Stefnda hafi verið óheimilt að taka áfrýjun stefnanda til efnislegrar meðferðar þar sem hann hafði ekkert vald til þess.  Slík meðferð hefði verið markleysa.  Hér sé ekki um að ræða atriði sem varði breytingu á stjórnsýsluframkvæmd eða það að ákvörðunin væri háð einhvers konar mati stefnda, heldur sé hreinlega um það að ræða að lögum hafi síðar verið breytt.  Sjónarmið sem varði almennt jafnræði eigi því tæpast við.  Þá kveður stefndi að vandséð sé á hvern átt sú skipan mála, sem hafi leitt af skilum milli nýrri og eldri laga um vörumerki, skerði hagsmuni stefnanda enda sé honum hægur vandi að reka mál um efniságreininginn fyrir dómstólum.

Stefndi, Colgate-Palmolive Company, byggir sýknukröfu sína á því að samkvæmt 2. mgr. 67. gr. vörumerkjalaga skuli fara með umsóknir, sem berast Einka­leyfa­stofu fyrir gildistöku laganna, eftir eldri lögum.  Samkvæmt eldri vöru­merkja­lög­um hafi stefn­andi ekki haft heimild til að áfrýja til áfrýjunarnefndarinnar.  Í 2. mgr. 67. gr. nýju vörumerkjalaganna sé kveðið á um að með umsóknir, sem berist fyrir gild­istöku lag­anna, skuli fara eftir eldri lögum.  Í athugasemd við ákvæði í grein­ar­gerð sé skýrt tekið fram að frá þessu skuli enga undantekningu gera.  Stefndi telur að ákvæði 2. mgr. 67. gr. nýju vörumerkjalaganna taki m.a. til áfrýjunar á ákvörðun Einka­leyfastofu vegna umsóknar, sem fram hafi komið í tíð eldri vörumerkjalaga, án til­lits til þess hvort máli sé í reynd áfrýjað í tíð eldri laga eða yngri.

V

Stefndi, Colgate Palmolive Company, lagði inn til Einkaleyfastofu tvær umsóknir um skráningar á myndmerkjum 4. mars 1994.  Þá voru í gildi lög nr. 47/1968 um vöru­merki.  Hér að framan hefur verið gerð grein fyrir afgreiðslu Einkaleyfastofu á um­sóknunum og afstöðu stefnanda til þeirra.  Framangreind lög voru felld úr gildi með lögum um vörumerki nr. 45/1997, er gildi tóku 1. júní það ár.  Í 2. mgr. 67. gr. nýju laganna segir að með umsóknir, er berist Einkaleyfastofu fyrir gildistökuna skuli farið eftir eldri lögum.  Í samræmi við ákvæði eldri laganna vísaði stefndi, áfrýjun­ar­nefnd í vörumerkja- og einkaleyfamálum, frá sér kröfu stefnanda um að ákvörðun Einka­leyfastofu yrði hrundið, eins og rakið var. 

Í máli þessu krefst stefnandi þess að ákvörðun stefnda, áfrýjunarnefndar í vöru­merkja- og einkaleyfamálum, verði ógilt.  Byggir hann á því að ákvæði 1. mgr. 44. gr. eldri vörumerkjalaga um að einungis tilkynnandi gæti borið mál undir stefnda, hafi ekki samrýmst jafnréttisákvæðum stjórnarskrárinnar og þar með hafi sér verið mis­mun­að við afgreiðslu þessa máls hjá stefnda.

Ákvæði eldri og núgildandi vörumerkjalaga eru skýr og var ákvörðun stefnda, áfrýjunarnefndar í vörumerkja- og einkaleyfamálum, í samræmi við þau.  Þegar leyst er úr því hvort ákvæðin brjóti gegn jafnréttisákvæðum stjórnarskrárinnar verður að líta til þess hvort frávísun stefnda hafi leyst endanlega úr ágreiningi út af ákvörðun Einak­leyfa­stofu eða ekki.  Þrátt fyrir að það hafi einungis verið tilkynnandi sem gat borið mál undir stefnda samkvæmt ákvæðum eldri vörumerkjalaga þá stóð stefnanda alltaf sú leið opin að bera ákvörðun Einkaleyfastofu undir dómstóla.  Með vísan til þessa er það niðurstaða dómsins að framangreind ákvæði eldri vörumerkjalaga, sbr. 2. mgr. 67. gr. núgildandi vörumerkjalaga, brjóti ekki í bága við stjórnarskrána á þann hátt, sem stefnandi heldur fram og er því hafnað kröfu hans um að ógilda framangreinda ákvörðun stefnda, áfrýjunarnefndar í vörumerkja- og einkaleyfamálum.

Samkvæmt þessum málsúrslitum verður stefnandi dæmdur til að greiða hvorum stefndu 120.000 krónur í málskostnað.

Arngrímur Ísberg héraðsdómari kvað upp dóminn.

Dómsorð

Stefndu, áfrýjunarnefnd í vörumerkja- og einkaleyfamálum og Colgate Palmolive Company, eru sýknaðir af öllum kröfum stefnanda, Unilever Administration Center, og skal stefnandi greiða hvorum stefndu 120.000 krónur í málskostnað.