Print

Mál nr. 499/2005

Lykilorð
  • Kærumál
  • Kröfugerð
  • Lögvarðir hagsmunir
  • Valdmörk
  • Útlendingur

Fimmtudaginn 8

 

Fimmtudaginn 8. desember 2005.

Nr. 499/2005.

Reginald Iheme

(Sigríður Rut Júlíusdóttir hdl.)

gegn

íslenska ríkinu

(Skarphéðinn Þórisson hrl.)

 

Kærumál. Kröfugerð. Lögvarðir hagsmunir. Valdmörk. Útlendingar.

Staðfestur var úrskurður héraðsdóms þar sem vísað var frá dómi kröfum R um að viðurkennt yrði að hann nyti réttarstöðu flóttamanns og að honum skyldi veita hæli á Íslandi sem slíkum, sem og kröfu hans um að hann ætti rétt á dvalarleyfi á Íslandi af mannúðarástæðum. Var talið að ákvarðanir um það hvort veita ætti R hæli á Íslandi, hvort sem væri sem pólitískum flóttamanni eða af mannúðarástæðum ættu ekki undir lögsögu dómstóla, sbr. 1. mgr. 24. gr. laga nr. 91/1991. Þá taldist R ekki hafa lögvarða hagsmuni af því að fá viðurkenningu með dómi á því að hann hefði réttarstöðu flóttamanns, en R hafði verið gert að yfirgefa landið áður en úrskurður héraðsdóms var kveðinn upp. Eftir stóð af málsókn R gegn Í krafa hans um að ógiltur yrði úrskurður dómsmálaráðuneytisins þar sem hafnað var kröfum hans um hæli og dvalarleyfi af mannúðarástæðum og honum vísað brott úr landi, meðal annars með þeim réttaráhrifum að honum væri bönnuð endurkoma inn á Schengen-svæðið í þrjú ár.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Guðrún Erlendsdóttir, Garðar Gíslason og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 22. nóvember 2005, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 29. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 11. nóvember 2005, þar sem vísað var frá dómi kröfu sóknaraðila um að viðurkennt verði að hann eigi að njóta réttarstöðu flóttamanns og skuli veitt hæli á Íslandi sem slíkum og kröfu sóknaraðila um að viðurkennt verði að hann eigi rétt á að fá dvalarleyfi á Íslandi af mannúðarástæðum. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Skilja verður kröfugerð sóknaraðila þannig að hann krefjist þess að hinum kærða úrskurði verði hrundið og að lagt verði fyrir héraðsdómara að taka framangreindar kröfur hans til efnismeðferðar. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Rétt þykir að kærumálskostnaður falli niður.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Kærumálskostnaður fellur niður.

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 11. nóvember 2005.

Mál þetta var höfðað með stefnu birtri 7. október 2005 og tekið til úrskurðar 4. nóvember sl. Málið sætir flýtimeðferð samkvæmt dómi Hæstaréttar 6. október sl. í hæstaréttarmáli nr. 429/05.

    Samkvæmt stefnu er stefnandi Reginald Iheme, fæddur 2. janúar 1967, með heimili í Njarðvík. Stefndi er dómsmálaráðherra fyrir hönd íslenska ríkisins, Skuggasundi, Reykjavík.

    Í þessum þætti málsins krefst stefndi þess að vísað verði frá dómi kröfu stefnanda um að viðurkennt verði að hann eigi að njóta réttarstöðu flóttamanns og skuli veitt hæli á Íslandi sem slíkum. Hann krefst þess einnig að vísað verði frá dómi kröfu stefnanda um að viðurkennt verði að hann eigi rétt á að fá dvalarleyfi á Íslandi af mannúðarástæðum. Þá krefst hann málskostnaðar.

    Í þessum þætti málsins krefst stefnandi þess að kröfum stefnda um frávísun verði hafnað og honum úrskurðaður málskostnaður, eins og málið væri eigi gjafsóknarmál.

    Að ósk dómara tjáðu aðilar sig einnig um hvort ástæða væri til að vísa málinu sjálfkrafa frá dómi í ljósi nýrra upplýsinga um að stefnanda hafi verið vikið úr landi.

I.

Samkvæmt því sem fram kemur í stefnu er stefnandi frá Nígeríu. Við komu sína hingað til lands 30. september 2004 óskaði stefnandi eftir hæli á Íslandi sem flóttamaður, þar sem lífi hans og velferð væri hætta búin yrði hann sendur aftur til heimalands síns. Í úrskurði Útlendingastofnunar 18. mars 2005 var beiðni hans synjað og einnig var því hafnað að stefnandi fengi dvalarleyfi af mannúðarástæðum með heimild í 2. mgr. 11. gr. laga um útlendinga nr. 96/2002. Þá var kveðið á um það í úrskurðinum að stefnanda yrði bönnuð koma til Íslands í þrjú ár og að hann skyldi skráður í Schengen-upplýsingakerfið, sem hefði þau áhrif að hann teldist óæskilegur á landsvæði allra Schengen ríkjanna í þrjú ár frá þeirri skráningu. Hlaut niðurstaðan staðfestingu í úrskurði dómsmálaráðuneytisins 31. ágúst 2005. Jafnframt var þar hafnað kröfu stefnanda um að réttaráhrifum úrskurðarins yrði frestað meðan mál yrði borið undir dómstóla.

    Stefnandi höfðaði mál þetta í framhaldi af framangreindum ákvörðunum stjórnvalda. Í málinu krefst stefnandi þess að felld verði úr gildi fyrrgreindur úrskurður dómsmálaráðuneytisins 31. ágúst 2005 um að staðfesta úrskurð Útlendingastofnunar um að synja stefnanda um hæli á Íslandi. Stefnandi krefst þess einnig, aðallega, að viðurkennt verði með dómi að stefnandi eigi að njóta réttarstöðu flóttamanns samkvæmt A-lið 1. gr. alþjóðasamnings um stöðu flóttamanna og skuli veitt hæli sem slíkum á Íslandi, sbr. VII. kafla laga nr. 96/2002. Til vara krefst hann þess að viðurkennt verði með dómi að hann eigi rétt á að fá dvalarleyfi af mannúðarástæðum, sbr. 2. mgr. 11. gr. laga nr. 96/2002. Eru það síðastgreindar viðurkenningarkröfur stefnanda sem stefndi krefst að verði vísað frá dómi.

    Við fyrirtöku málsins 25. október sl. var upplýst að stefnandi hefði verið fluttur af landi brott 22. sama mánaðar. Var lagður fram í málinu úrskurður dómsmálaráðuneytisins 20. október sl., þar sem hafnað var beiðni stefnanda um að verða ekki vísað úr landi fyrr en mál hans hefði verið til lykta leitt fyrir íslenskum dómstólum. Þá var lögð fram kvörtun stefnanda til Umboðsmanns Alþingis 20. október sl. vegna þessara aðgerða stjórnvalda.

II.

Stefndi telur framangreindar viðurkenningarkröfur stefnanda í andstöðu við 1. mgr. 24. gr. laga nr. 91/1991, en telur hins vegar skilyrðum fullnægt fyrir efnisdómi um þá kröfu stefnanda að felld verði úr gildi fyrrgreind ákvörðun dómsmálaráðuneytisins 31. ágúst 2005. Stefndi vísar til 2. gr. og 60. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944. Dregur hann þá ályktun af þessum reglum að það sé ekki hlutverk og verkefni dómstóla að fjalla um hvort veita eigi stefnanda hæli sem flóttamanni eða dvalarleyfi af mannúðarástæðum. Heyri ákvarðanir um slíkt undir stjórnvöld, enda þótt stefnandi eigi þess kost að fá skorið úr lögmæti og gildi slíkra ákvarðana þegar þær hafi verið teknar. Stefnandi vísar í þessu sambandi til dóma Hæstaréttar í málum nr. 216/2002 og 217/2002 hinn 17. maí 2002 sem hann telur skýr fordæmi í þessu efni.

    Stefnandi vísar til þess að stefnandi eigi rétt á því að fá skorið úr um réttarstöðu sína sem flóttamanns samkvæmt 70. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. 8. gr. stjórnarskipunarlaga nr. 97/1995. Þá séu dómstólar til þess bærir að skera úr um embættistakmörk yfirvalda samkvæmt 60. gr. stjórnarskrárinnar. Stefnandi telur að dómstólar geti að ákveðnum skilyrðum uppfylltum kveðið upp dóma þar sem lagðar eru jákvæðar athafnaskyldur á stjórnvöld, líkt og krafist sé í þessu máli. Sé þar um að ræða ákvarðanir sem séu lögbundnar eða þar sem stjórnvöld hafi lítið sem ekkert svigrúm til mats. Vísar stefnandi til þess í þessu sambandi að úrlausn um það hvort einhver teljist flóttamaður í skilningi 44. gr. laga nr. 96/2002 sé ekki með neinum hætti matskennd.  Stefnandi vísar einnig til ýmissa dóma Hæstaréttar þar sem lagðar hafa verið jákvæðar athafnaskyldur á stjórnvöld og telur að jafnræðissjónarmið eigi að leiða til þess að kröfugerð stefnanda í málinu sé heimil. Að því er varðar tilvísun stefnda til dóma Hæstaréttar í málum nr. 216/2002 og 217/2002 hinn 17. maí 2002 telur stefnandi að þeir hafi ekki fordæmisgildi. Dómarnir hafi verið kveðnir upp í tíð eldri laga og áður en Ísland varð þátttakandi í Schengen-samstarfinu. Einnig hafi orðið þróun í dómaframkvæmd síðan dómarnir voru kveðnir upp. Jafnvel þótt talið yrði að dómarnir hefðu fordæmisgildi telur stefnandi að kröfugerð í þessu máli svo og atvik málsins séu allt önnur en í þeim málum sem lauk með umræddum dómum Hæstaréttar. Í þessu sambandi er einkum vísað til þess að í því máli sem hér um ræði hafi stefnandi ekki yfirgefið landið sjálfviljugur líkt og í þeim málum sem lauk með umræddum dómum Hæstaréttar. Stefnandi telur að lokum að hvernig sem á málið sé litið eigi ekki að vísa frá fyrri hluta fyrstu viðurkenningarkröfu hans, þ.e. að viðurkennt verði með dómi að stefnandi eigi að fá réttarstöðu flóttamanns á Íslandi.

III.

Niðurstaða

    Í munnlegum flutningi skýrði lögmaður stefnanda kröfugerð sína þannig að í aðalkröfu fælist krafa um að felldur yrði úr gildi í heild sinni úrskurður dómsmálaráðuneytisins 31. ágúst 2005, en ekki aðeins sá hluti hans sem fæli í sér synjun um að veita stefnanda hæli á Íslandi sem flóttamanni. Þessi skýring stefnanda á kröfugerð sinni sætti ekki athugasemdum stefnda sem jafnframt telur engin efni til að vísa málinu í heild sjálfkrafa frá dómi. Að mati dómara fer ekki á milli mála að stefnandi hefur lögvarða hagsmuni af því, án tillits til þess hvort honum hefur þegar verið vísað úr landi, að fá skorið úr um ákvörðun stjórnvalda um að honum sé óheimilt að koma að nýju til landsins í þrjú ár. Að fengnum framangreindum skýringum stefnanda á kröfugerð hans er því ekki ástæða til að fjalla frekar um hugsanlega sjálfkrafa frávísun málsins í heild.

    Samkvæmt dómum Hæstaréttar 17. maí 2002 í málum nr. 21/2002 og 217/2002 er það hvorki hlutverk dómstóla „að veita hæli af mannúðarástæðum né dvalarleyfi“. Með vísan til 1. mgr. 24. gr. laga nr. 91/1991 var það niðurstaða Hæstaréttar að vísa frá kröfum um að áfrýjendur í þessum málum fengju hæli hér á landi „af mannúðarástæðum“ sem og kröfum um að þeir fengju hér dvalarleyfi. Þrátt fyrir orðlagið „af mannúðarástæðum“ í kröfugerð áfrýjenda í umræddum málum er ljóst að kröfur þeirra beindust að því að þeir fengju hér hæli sem pólitískir flóttamenn, svo sem það var orðað í 4. mgr. 10. gr. þágildandi laga nr. 45/1965 um eftirlit með útlendingum.

    Síðari hluti aðalviðurkenningarkröfu stefnanda máls þessa er að stefnanda skuli veitt hæli sem flóttamanni á Íslandi. Er því hér um að ræða fyllilega sambærilega kröfugerð og vísað var frá með framangreindum dómum Hæstaréttar. Að mati dómara hafa aðstæður ekki breyst frá því að umræddir dómar Hæstaréttar voru kveðnir upp, hvorki að lögum né í raun, sem réttlætt gætu frávik frá þeim reglum sem þar var slegið föstum. Með vísan til umræddra fordæma Hæstaréttar er því óhjákvæmilegt að vísa frá dómi kröfu stefnanda um að honum skuli veitt hæli sem flóttamanni á Íslandi. Með vísan til sömu fordæma verður varakröfu hans þess efnis að hann eigi rétt á að fá dvalarleyfi á Íslandi af mannúðarástæðum einnig vísað frá dómi.

    Með fyrri hluta aðalviðurkenningarkröfu stefnanda gerir hann efnislega kröfu um að viðurkennt verði að hann njóti réttarstöðu flóttamanns, sbr. 44. gr. laga nr. 96/2002 og 1. gr. Genfarssamnings um stöðu flóttamanna frá 28. júlí 1951. Að mati dómara verður með engum hætti lesin út úr framangreindum dómum Hæstaréttar sú regla að það falli utan lögsögu dómstóla að fjalla um kröfu manns þess efnis að viðurkennt sé að hann njóti réttarstöðu flóttamanns. Þá hafa ekki verið leiddar líkur að því að við úrlausn um hvort maður hafi réttarstöðu flóttamanns njóti stjórnvöld svo mikils svigrúms til mats að ekki sé hægt að kveða á um skyldu þeirra til athafna að þessu leyti. Verður því ekki litið svo á að það falli utan lögsögu dómstóla samkvæmt 1. mgr. 24. gr. laga nr. 91/1991, eins og sú grein verður skýrð til samræmis við 2. gr. og 70. gr. stjórnarskrárinnar, að fjalla um þá viðurkenningarkröfu sem hér um ræðir. Til þess að krafa sem þessi verði höfð uppi fyrir dómi samkvæmt 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991 verður hins vegar, sem endranær, að vera fullnægt almennum skilyrðum réttarfars um lögvarða hagsmuni.

    Í réttarstöðu flóttamanns samkvæmt þeim réttarreglum sem áður greinir felst fyrst og fremst vernd manns gegn því að vera sendur til svæðis þar sem hann hefur ástæðu til að óttast ofsóknir eða á hættu að vera sendur áfram til slíks svæðis, sbr. 1. mgr. 45. gr. laga nr. 96/2002. Í viðurkenningu á réttarstöðu manns sem flóttamanns felst þannig ekki sjálfkrafa réttur til hælis á Íslandi með þeim mikilvægu réttaráhrifum sem slíkri ákvörðun fylgir, sbr. m.a. 1. mgr. 46. gr. laga nr. 96/2002. Af þessu er ljóst að lögvarðir hagsmunir manns felast jafnan í því að fá úrlausn um hvort hann eigi rétt til hælis á Íslandi sem flóttamaður, en ekki eingöngu um það lagalega atriði hvort hann njóti réttarstöðu flóttamanns í skilningi framangreindra reglna. Þrátt fyrir þetta er engan veginn unnt að útiloka að maður geti haft sjálfstæða hagsmuni af því að fá viðurkenningu á réttarstöðu sinni sem flóttamaður án tillits til þess hvort hann hafi fengið eða muni fá hæli hér á landi. Nægir hér að nefna þá aðstöðu að maður sem fengið hefur dvalarleyfi af mannúðarástæðum sækist eftir atvinnuréttindum, sbr. 4. mgr. 10. gr. laga nr. 97/2002 um atvinnuréttindi útlendinga, eða óski eftir ríkisborgararétti, sbr. 6. tölulið 5. gr. a laga nr. 100/1952 um ríkisborgararétt með síðari breytingum.

    Í máli þessu er upplýst að stefnanda hefur verið vísað úr landi og liggur ekkert fyrir um hvort eða hvenær hann muni koma hingað til lands að nýju. Jafnvel þótt upplýsingar lægju fyrir um slíka endurkomu væri þó engan veginn unnt að fullyrða að þær forsendur, sem dómur um viðurkenningu á réttarstöðu stefnanda sem flóttamanns byggðist á, stæðu óhaggaðar. Væri þannig undir hælinn lagt hvort stefnandi nyti þeirra réttinda sem fylgja réttarstöðu flóttamanns við hugsanlega endurkomu hingað til lands þótt slík réttarstaða hans hefði verið viðurkennd með dómi á tilteknu tímamarki. Þá hlýtur dómari að líta til þess að viðurkenningarkrafa stefnanda um að hann eigi rétt á að njóta réttarstöðu flóttamanns er hluti af málsástæðum fyrir kröfu hans um ógildingu úrskurðar dómsmálaráðuneytisins 31. ágúst 2005. Að öllu þessu virtu verður ekki séð að stefnandi hafi lögvarða hagsmuni af því að fá efnisdóm um umrædda viður­kenningar­kröfu sína.

    Samkvæmt framangreindu verður vísað frá dómi kröfu stefnanda um að viðurkennt verði að hann eigi að njóta réttarstöðu flóttamanns og skuli veitt hæli á Íslandi sem slíkum. Þá verður einnig vísað frá dómi kröfu hans um að viðurkennt verði að hann eigi rétt á að fá dvalarleyfi af mannúðarástæðum.

    Málskostnaður verður ekki dæmdur sérstaklega fyrir þennan þátt málsins.

    Af hálfu stefnanda flutti málið Sigríður Rut Júlíusdóttir hdl.

    Af hálfu stefnda flutti málið Skarphéðinn Þórisson hrl.

    Skúli Magnússon héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Vísað er frá dómi kröfu stefnanda, Reginalds Iheme, um að viðurkennt verði að hann eigi að njóta réttarstöðu flóttamanns og skuli veitt hæli á Íslandi sem slíkum. Þá er einnig vísað frá dómi kröfu hans um að viðurkennt verði að hann eigi rétt á að fá dvalarleyfi á Íslandi af mannúðarástæðum.