Print

Mál nr. 647/2006

Lykilorð
  • Ríkisstarfsmenn
  • Niðurlagning stöðu
  • Uppsögn
  • Stjórnsýsla

Fimmtudaginn 10

 

Fimmtudaginn 10.maí 2007.

Nr. 647/2006.

Salmann Tamimi

(Jóhannes Rúnar Jóhannsson hrl.)

gegn

Landspítala-háskólasjúkrahúsi

(Einar Karl Hallvarðsson hrl.)

 

Ríkisstarfsmaður. Niðurlagning stöðu. Uppsögn. Stjórnsýsla.

S hafði starfað um árabil sem tölvunarfræðingur hjá L þegar honum var tilkynnt að starf hans hefði verið lagt niður vegna skipulagsbreytinga. Í rökstuðningi fyrir uppsögninni var einkum vísað til þess að helstu verkefni S hefðu snúið að tilteknum tölvukerfum L og að stefnt væri að því að hætta notkun þeirra. S krafðist þess aðallega að felld yrði úr gildi ákvörðun L um að segja honum upp störfum, en til vara viðurkenningar á því að ákvörðunin hefði verið ólögmæt. Talið var að ákvörðun um hvaða starfsmanni skuli segja upp vegna hagræðingar í rekstri réðist að meginstefnu af mati L, en að því væru þó settar skorður af grunnreglum stjórnsýsluréttar, þar með talinni réttmætisreglunni. Hafi starfsmaður verið ráðinn til ákveðins starfs geti verið nægilegt í þessu sambandi að uppsögn hans sé reist á því að ekki sé talin þörf á að nokkur gegni því starfi lengur. Hafi starfsmaður á hinn bóginn sinnt ákveðnu verkefni á tilteknu tímabili dugi ekki að líta eingöngu til þess að það verkefni muni dragast saman eða leggjast af, heldur þurfi jafnframt að leggja frekara mat á hæfni hans í samanburði við aðra starfsmenn. Hvorki var talið að S hefði verið ráðinn til að starfa við né starf hans verið einskorðað við þau tölvukerfi sem L bar við í rökstuðningi fyrir uppsögninni að hætt yrði að nota. Var því talið að L hefði verið skylt að leggja frekara mat á hæfni S áður en tekin var ákvörðun um uppsögn hans. Þar sem slíkt mat fór ekki fram hefði ekki verið réttilega staðið að ákvörðuninni. Ekki var unnt að fallast á aðalkröfu S þar sem ákvörðunin var þegar komin til framkvæmda, en viðurkennt var að L hefði verið óheimilt að segja honum upp störfum á þeim grunni sem gert var.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Árni Kolbeinsson og Markús Sigurbjörnsson.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 15. desember 2006 og krefst þess aðallega að felld verði úr gildi sú ákvörðun stefnda 28. september 2006 að segja honum upp störfum, en til vara að viðurkennt verði að ákvörðunin hafi verið ólögmæt. Hann krefst og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti, en til vara að málskostnaður falli niður.

Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

I.

Svo sem í héraðsdómi greinir mun áfrýjandi, sem er tölvunarfræðingur að mennt, hafa hafið störf sem verkefnastjóri hjá upplýsinga- og tölvudeild Sjúkrahúss Reykjavíkur í mars 1996. Við sameiningu Sjúkrahúss Reykjavíkur og Landspítalans á árinu 2001 tók hann við starfi sem verkefnastjóri á upplýsingatæknisviði stefnda. Hann var talsvert frá störfum vegna vinnuslyss í ágúst 2005 og enn talinn óvinnufær í september 2006. Starfsmönnum sviðsins var kynnt stefnumótun og nýtt skipulag þess á fundi 6. september 2006 og liggur fyrir ýtarleg greinargerð þar sem breytingum er lýst. Með bréfi 28. sama mánaðar var áfrýjanda tilkynnt að ákveðið hefði verið að leggja niður starf hans vegna framangreindra skipulagsbreytinga. Í rökstuðningi fyrir uppsögninni, sem veittur var 10. október sama ár að ósk áfrýjanda, kom fram að helstu verkefni hans hafi snúið að svokölluðum Notes kerfum stefnda. Mjög hafi dregið úr verkefnum þeim, sem hann hafi haft með höndum, þar sem stefnt hafi verið að því að skipta um tölvupóstkerfi á spítalanum, hætta notkun á Lotus Notes og nota þess í stað annað kerfi. Ákveðið hafi verið að þau verkefni sem hann hafi sinnt skyldu færast og dreifast til tækniþjónustu spítalans, en þeir sem séð hafi um Notes póstkerfið hafi tekið að sér rekstur þessara kerfa. Með nýju skipulagi, þar sem aðeins yrði ein hugbúnaðardeild í stað þriggja, væri stefnt að hagkvæmari nýtingu á starfsfólki, auk þess sem gert væri ráð fyrir að meira yrði leitað til aðkeyptra verktaka. Þessi hagræðing og skipulagsbreyting í rekstri upplýsingatæknisviðs hafi leitt til þess að leggja þurfi starf hans þar niður.

Áfrýjandi vildi ekki una þessari ákvörðun stefnda og höfðaði mál þetta 31. október 2006.

II.

Áfrýjandi hefur lagt nokkur ný gögn fyrir Hæstarétt. Meðal þeirra er minnisblað ráðgjafafyrirtækisins Gátta ehf. frá 14. ágúst 2006, sem unnið var fyrir upplýsingatæknisvið stefnda vegna stefnumótunar og fyrirhugaðra breytinga á skipulagi þess. Áfrýjandi telur að minnisblað þetta sýni að ómálefnalegar ástæður hafi ráðið uppsögn hans, enda hafi tilgangur skipulagsbreytinganna samkvæmt minnisblaðinu verið að skipta út starfsmönnum, svo sem þar sé að orði komist, og styðji það eindregið að honum hafi verið sagt upp störfum vegna atriða sem tengdust persónu hans en ekki hagræðingu, eins og stefndi haldi fram. Þannig segi meðal annars í minnisblaðinu að „þær leiðir sem færar eru fyrir utan áminningarferli er að nýta skipulagsbreytingar til að losna við óhæfa starfsmenn“ og að erfitt sé að breyta stöðum „nema viðkomandi kerfi séu tekin úr rekstri.“ Að mati áfrýjanda sýnir þetta að markmiðið með uppsögn hans hafi fyrst og fremst verið að losna á einfaldan hátt við starfsmann sem hafi ekki lengur þótt velkominn. Um ómálefnaleg sjónarmið sé að ræða og eigi uppsögnin sér ekki stoð í ákvæðum laga nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, heldur feli hún í sér brot gegn 1. mgr. 44. gr. laganna. Er byggt á því að framburður fyrrverandi deildarstjóra rekstrar- og skrifstofulausna á upplýsingatæknisviði, sem hafi verið yfirmaður áfrýjanda lengst af, renni frekari stoðum undir þetta.

Stefndi telur umrætt minnisblað ekki skipta hér máli. Það hafi aðeins að geyma hugmyndir fyrirtækisins Gátta ehf. varðandi undirbúning skipulagsbreytinganna. Stefndi hafi ekki gert þær hugmyndir að sínum og séu tillögur minnisblaðsins um leiðir til breytinga ekki á ábyrgð hans. Fram sé komið í málinu og rakið í héraðsdómi að mikil vinna hafi verið lögð í stefnumótun og nýtt skipulag upplýsingatæknisviðs stefnda. Skoðanir og störf utanaðkomandi ráðgjafa hafi aðeins verið til aðstoðar við þá vinnu og hafi verið aflað ráðgjafar frá fleiri fyrirtækjum en Gáttum ehf.

Fallast verður á með stefnda að minnisblað Gátta ehf., með hugmyndum þeim og tillögum sem þar greinir, sé ekki á ábyrgð stefnda. Þá hefur ekki verið sýnt fram á að farið hafi verið að þeim tillögum, sem athugasemdir áfrýjanda lúta að, við breytingar á skipulagi upplýsingatæknisviðs stefnda. Ekki verður heldur fallist á að með framburði fyrrverandi deildarstjóra rekstrar- og skrifstofulausna á upplýsingatæknisviði fyrir héraðsdómi hafi verið leiddar þær líkur að því að uppsögn áfrýjanda hafi tengst persónu hans eða nokkru því, sem í 21. gr. laga nr. 70/1996 greinir, að sönnunarbyrði um að svo hafi ekki verið verði lögð á stefnda. Er því fallist á með héraðsdómi að ekki hafi annað verið leitt í ljós en að uppsögn áfrýjanda hafi stafað af fækkun starfsmanna vegna hagræðingar í rekstri stefnda, sbr. 1. mgr. 44. gr. laganna.

III.

Mat á því hverra skipulagsbreytinga sé þörf til að koma til leiðar hagræðingu í rekstri er í höndum stefnda og sætir ekki öðrum takmörkunum en þeim að aðgerðir sem gripið er til verða að vera í samræmi við lög og meginreglur stjórnsýsluréttar. Forstöðumenn stefnda komust að þeirri niðurstöðu að nauðsynlegt væri að fækka starfsmönnum til að ná fram hagræðingu í rekstri þess sviðs sem áfrýjandi starfaði á. Í lögum nr. 70/1996 eru ekki reglur um hvað skuli ráða vali forstöðumanns á starfsmanni, einum eða fleiri, sem segja skal upp við slíkar aðstæður. Þótt ákvörðun um þetta ráðist þannig að meginstefnu af mati stefnda eru valinu settar skorður af grunnreglum stjórnsýsluréttar, þar með talinni réttmætisreglunni, en samkvæmt henni verða stjórnvöld ávallt að byggja matskenndar ákvarðanir á málefnalegum sjónarmiðum. Hafi starfsmaður verið ráðinn til ákveðins starfs getur verið nægilegt í þessu sambandi að uppsögn hans sé reist á því að ekki sé talin þörf á að nokkur gegni því starfi lengur. Hafi starfsmaður á hinn bóginn sinnt ákveðnu verkefni á tilteknu tímabili dugir ekki að líta eingöngu til þess að það verkefni muni dragast saman eða leggjast af, heldur þarf jafnframt að leggja frekara mat á hæfni hans í samanburði við aðra starfsmenn, meðal annars með tilliti til þekkingar og starfsreynslu á viðkomandi sviði.

Stefndi hefur lýst því að ákvörðun um að leggja niður starf áfrýjanda hafi ekki byggst á vali milli manna, frammistöðu þeirra eða hæfileikum, heldur einungis á því að verkefni hans rúmuðust ekki innan nýs skipulags. Hefur stefndi einkum vísað til þess að helstu verkefni áfrýjanda hafi snúið að Notes tölvukerfum og að frekari þróun þeirra hjá stefnda hafi verið stöðvuð. Af starfslýsingu áfrýjanda, framburði vitna og öðrum gögnum málsins verður ekki ráðið að starfsvið hans hafi verið einskorðað við þessi kerfi, heldur liggur þvert á móti fyrir að hann hafi á starfstíma sínum haft margvísleg önnur verkefni með höndum. Áfrýjandi hefur því sýnt nægilega fram á að hann hafi hvorki verið ráðinn til að starfa við né starf hans verið einskorðað við þau Notes kerfi, sem stefndi bar við í rökstuðningi fyrir uppsögninni að hætt yrði að nota. Af þessum sökum var stefnda skylt að leggja frekara mat á hæfni áfrýjanda áður en tekin var ákvörðun um að segja honum upp störfum. Óumdeilt er að slíkt mat fór ekki fram og var því ekki staðið réttilega að ákvörðun stefnda um að segja áfrýjanda upp störfum.

Aðalkrafa áfrýjanda lýtur að því að felld verði úr gildi ákvörðun stefnda 28. september 2006 um að segja honum upp störfum. Óumdeilt er að ákvörðun þessi er þegar komin til framkvæmda og verður hún því ekki ógilt úr því sem komið er. Áfrýjandi krefst þess til vara að viðurkennt verði að ákvörðunin hafi verið ólögmæt. Samkvæmt framansögðu verður sú krafa tekin til greina á þann hátt, sem í dómsorði greinir.

Stefndi verður dæmdur til að greiða áfrýjanda málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti, sem ákveðinn er í einu lagi eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Viðurkennt er að stefnda, Landspítala-háskólasjúkrahúsi, hafi verið óheimilt að segja áfrýjanda, Salmann Tamimi, upp störfum á þeim grunni, sem gert var með bréfi stefnda 28. september 2006.

Stefndi greiði áfrýjanda málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti, samtals 750.000 krónur.

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 14. desember 2006.

         Mál þetta, sem dómtekið var 28. nóvember síðastliðinn, var höfðað með stefnu birtri 31. október sl. af Salmann Tamimi, Dalseli 34, Reykjavík, á hendur Landspítala – háskólasjúkrahúsi, Eiríksgötu 5, Reykjavík.

         Stefnandi krefst þess að felld verði úr gildi með dómi sú ákvörðun stefnda, dag­sett 28. september 2006, að segja honum upp störfum. Til vara er þess krafist að viðurkennt verði með dómi að framangreind ákvörðun stefnda hafi verið ólögmæt. Stefnandi krefst málskostnaðar úr hendi stefnda að skaðlausu að teknu tilliti til virðis­aukaskatts af málflutningsþóknun.

         Stefndi krefst sýknu af kröfum stefnanda auk málskostnaðar úr hans hendi sam­kvæmt mati dómsins.

         Málið sætir flýtimeðferð samkvæmt dómi Hæstaréttar 30. október sl., en með honum var felldur úr gildi úrskurður dómstjóra Héraðsdóms Reykjavíkur 25. október sl. þar sem beiðni stefnanda um flýtimeðferð var hafnað.

Yfirlit málsatvika og ágreiningsefna

Í málatilbúnaði stefnanda er því lýst að hann sé 51 árs gamall Íslendingur af palestínskum uppruna. Hann hafi búið á Íslandi síðan 1971 og verið íslenskur ríkis­borgari frá 1983. Hann sé formaður Félags múslima á Íslandi og hafi verið áberandi í fjölmiðlum sem slíkur. Fjölmiðlar hafi iðulega leitað til hans þegar þeir hafi talið ástæðu til að afla upplýsinga um afstöðu Araba eða múslima til málefna eða viðburða.

Stefnandi hafi útskrifast sem tölvunarfræðingur frá Háskóla Íslands árið 1994 og í mars 1996 hafi hann verið ráðinn til starfa hjá tölvudeild Sjúkrahúss Reykjavíkur. Í starfi hans hafi meðal annars falist þjónusta við notendur og uppsetning á kerfum og tölvum. Þegar stefnandi var ráðinn til starfa hafi tölvukostur þar verið nær enginn og tölvuvæðing sjúkrahússins í raun verið verkefni stefn­anda auk þriggja annarra starfsmanna, þar með talins þáverandi sviðsstjóra.

Stefnandi hafi á árinu 1998 orðið deildarstjóri þjónustudeildar á Sjúkrahúsi Reykja­víkur. Á þeim tíma hafi hann ásamt öðrum séð um innleiðingu Lotus Notes-póstkerfis sjúkrahússins og uppsetningu vélbúnaðar tengdum kerfinu. Þá hafi hann verið almennt ábyrgur fyrir innkaupum vélbúnaðar.

Við sameiningu Sjúkrahúss Reykjavíkur og Landspítalans í stefnda hafi stefnandi tekið við starfi sem verkefnastjóri á upplýsingatæknisviði og sem slíkur haft umsjón með fjölmörgum tölvukerfum hjá stefnda. Sum þeirra hafi verið fyrir hendi við sam­ein­inguna, en öðrum hafi hann tekið þátt í að koma á fót, svo sem Focal skjala­vistunarkerfi stefnda, Focal tímaskráningarkerfi, gæðaskrán­ingar­kerfi, atvika­skrán­ingar­­­kerfi sjúklinga, atvikaskráningarkerfi starfsmanna, tölfræði­kerfi stefnda, dag­bókar­­kerfi vaktmanna o.fl. Einnig hafi stefnandi séð um innleiðingu og upp­setningu Theriak Apótek kerfisins á Sjúkrahúsi Reykjavíkur árið 1999, en það sé enn í notkun.

Stefnandi lýsir því að í ágúst 2005 hafi hann orðið fyrir vinnuslysi er hann rann niður blautan hringstiga á skrifstofum upplýsingatæknisviðs. Hann hafi fengið mikinn hnykk á háls sem leitt hafi til þess að hann hafi þurft að fara í aðgerð í nóvember 2005. Aðgerðin hafi ekki skilað tilætluðum árangri og hafi stefnandi þurft að fara í aðra aðgerð í maí 2006, þar sem vinstri öxl hafi verið spegluð. Enn séu bólgur í hálsi og öxl stefnanda og sé hann í áframhaldandi meðferð hjá bæklunarskurðlækni, ásamt sjúkraþjálfun. Stefnandi finni enn fyrir miklum sársauka vegna meiðslanna en hann hafi engu að síður stundað sína vinnu, þrátt fyrir fyrirmæli frá lækni um að hafa hægt um sig. Eftir sprautumeðferð 26. september sl. hafi stefnandi fengið vottorð um að hann væri óvinnufær með öllu eins og sakir stæðu. Þegar sú staða kom upp að stefnandi hafi þurft að fara í seinni aðgerðina hafi hann tilkynnt staðgengli sviðsstjóra um það. Sviðsstjóri hafi verið þar staddur og spurt stefnanda, án sérstaks tilefnis, hvort hann kæmi nokkuð aftur til starfa. Stefnandi hafi svarað því til að auðvitað kæmi hann til baka þegar hann hefði fengið bót meina sinna.

Á starfsmannafundi í ágúst sl. kynnti sviðsstjóri upplýsingatæknisviðs að skipu­lags­breytingar væru fyrirhugaðar á sviðinu. Stefnandi vísar til þess að ekkert hafi komið fram á fundinum eða í gögnum, sem þar var dreift, um að uppsagnir fylgdu þessum skipulags­breyt­ingum. Á fundi framkvæmdastjórnar stefnda 5. september sl. hafi sviðsstjóri kynnt framkvæmdastjórninni fyrirhugaðar skipulagsbreytingar. Hann hafi lagt fram minnis­­blað þar að lútandi og aflað samþykkis framkvæmda­stjórnar­innar fyrir breyt­ing­unum. Ef komið hefði fram á fundinum að skipulags­breytingarnar hefðu í för með sér upp­sagnir hafi það verið munnlega, enda geymi minnisblaðið engar upplýsingar um það. Sviðsstjórinn hafi tekið saman sérstakt minnis­­blað um starfs­­mannabreytingar vegna nýs skipulags 28. september sl. þar sem fram komi að störf fimm starfsmanna yrðu lögð niður og þeim sagt upp störfum. Sama dag hafi stefnandi verið kallaður á skrifstofu sviðsstjóra og honum afhent uppsagnarbréf. Upp­gefin ástæða hafi verið skipu­lags­breytingar. Fyrir þann tíma hefði ekkert verið rætt við stefnanda um þær, störf hans og verkefni eða að skipulagsbreyt­ingarnar hefðu í för með sér að stefnanda yrði sagt upp störfum.

Stefnandi byggir málssóknina á því að honum hafi verið sagt upp störfum vegna trúarbragða sinna og kynþáttar. Hann sé eini starfs­maðurinn af arabískum uppruna og eini músliminn sem starfi hjá upplýsinga­tæknisviði stefnda. Hann sé eini tölvu­menntaði starfsmaður sviðsins sem sagt hafi verið upp störfum í nafni nýinnleiddra skipulags­breytinga. Önnur sjónarmið hefðu ótvírætt legið til grundvallar uppsögn stefn­anda en þau er lúti að skipu­lags­breytingunum. Máls­meðferðarreglur hefðu verið brotnar þegar ákvörðun um uppsögn stefnanda var tekin. Stefnandi vísar í þessu sam­bandi til meðalhófsreglunnar, rannsóknar­reglunnar, rétt­mætisreglunnar og jafnræðis­reglunnar.

Af hálfu stefnda er því mótmælt að ákvörðun um að leggja starf stefnanda niður ætti á nokkurn hátt rætur að rekja til uppruna hans, heilsufars eða þess að hann sé múslimi og formaður Félags múslima á Íslandi. Ákvörðun stefnda sé vegna skipulags­breytinga sem meðal annars væri ætlað að auka skilvirkni. Greinargerð stefnda, sem lýsi fyrirhugðum skipulagsbreytingum og endur­skoðun á stefnumótun, sé ítarleg og afar vönduð og byggi á mikilli vinnu við endurskipulagningu með hagræðingu og skilvirkni að markmiði. Stefnandi haldi því fram að sviðsstjóri upplýsingatæknisviðs hafi nánast ekkert rætt við stefnanda um störf hans eða leitað til hans með nokkuð sem að verkefnum hans sneri. Af hálfu stefnda er þessu mótmælt. Sviðsstjóri hafi spurt stefn­anda allnokkrum sinnum um vinnu hans og þá einkum óskað eftir upplýs­ingum um verklok og annað. Mótmælt er og því að sviðsstjórinn hafi innt stefnanda eftir svörum við því hvort hann kæmi nokkuð aftur til starfa eftir veikinda­leyfi.

Af stefnda hálfu er því haldið fram að ákvörðun um að leggja niður starf stefn­anda og uppsögn hafi verið lögmæt og því ekkert tilefni til að fella hana úr gildi eða telja hana ólögmæta. Vísað er til þess að breytt skipulag á upplýsingatæknisviði hefði í för með sér ýmsar breytingar á starfsemi og skipan verkefna auk þess sem það leiddi til þess að nokkur störf á sviðinu yrðu lögð niður, þar á meðal starf stefnanda. Dregið hefði úr þeirri starfsemi sem stefnandi hefði haft með höndum. Ákveðið hefði verið að verkefni sem stefnandi hefði sinnt skyldu færast og dreifast til tækniþjónustu. Með nýju skipulagi verði aðeins ein hugbúnaðardeild í stað þriggja en með því sé stefnt að hagkvæmari nýtingu á starfsfólki. Auk þess sé gert ráð fyrir því að verktakar sinni ákveðnum verkefnum. Þessi hagræðing og skipulagsbreyting í rekstri upplýsingatækni­sviðs hefði leitt til þess að leggja hefði þurft starf stefnanda á því sviði niður.

         Málsástæður og lagarök stefnanda

Stefnandi vísar til þess að sú ákvörðun að segja upp starfsmanni ríkisins vegna skipulagsbreytinga feli í raun í sér tvær ákvarðanir. Í fyrsta lagi ákvörðun um það til hverra ráðstafana þurfi að grípa í rekstri stofnunar vegna breyttra aðstæðna og hverjar breytingar skili bestum árangri og í öðru lagi hvaða starfsmanni eða starfsmönnum skuli sagt upp störfum, hafi ákvörðun verið tekin um að fækka starfsfólki.

Stefnandi vísar til málsmeðferðarreglna stjórnsýsluréttarins og telur að þær hafi verið brotnar þegar ákvörðun var tekin um að segja honum upp störfum.

Í fyrsta lagi hafi ákvörðunin brotið gegn meðalhófsreglu stjórnsýsluréttarins, sbr. 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Uppsögnin sé skýrlega íþyngjandi ákvörðun gagn­vart stefnanda. Áður en til slíkrar ráðstöfunar verði gripið í hagræðingarskyni, verði að liggja fyrir að settu marki verði ekki náð með öðru og vægara móti. Ekkert mat hafi farið fram á því hvort mögulegt hefði verið að beita vægara úrræði en uppsögn stefnanda til að ná fram markmiðunum sem stefnt hafi verið að með þeim breyt­ingum á skipulagi upplýsingatæknisviðs sem stefndi hafi byggt uppsögn stefnanda á. Um þetta vitni minnisblaðið, en þar sé ekki einu orði vikið að slíku mati eða greiningu eða velt upp öðrum möguleikum og hvaða áhrif leiðir, sem ekki fælu í sér uppsögn stefnanda, hefðu haft. Upp á stefnda standi ótvírætt að sýna fram á að framan­greint mat hefði farið fram. Stefndi verði að bera hallann af því að slík sönnun hafi ekki tekist, sbr. skyldu stefnda til að rökstyðja ákvörðun sína um uppsögn, sbr. 2. mgr. 44. gr. laga nr. 70/1996 og 21. og 22. gr. stjórnsýslulaga.

Þá hljóti það að standa upp á stefnda að skýra hvernig það samræmdist meðal­hófs­reglu stjórnsýslunnar að segja stefnanda upp störfum eftir að upplýsingatæknisvið stefnda hafi ráðið nýútskrifaðan tölvunarfræðing til starfa í sumar, auk manns sem sé enn í meistaranámi í hugbúnaðarverkfræði og þrjá verktaka í 50% hlutfall hvern við tölvutengd störf. Fram komi í minnisblaðinu að vinna við skipulags­breytingar á upp­lýs­ingatæknisviði hafi staðið yfir mánuðum saman. Í því ljósi sé óskiljanlegt hvers vegna farið hafi verið út í framangreindar ráðningar ef fyrir lá að störfum tölvunar­fræðinga myndi fækka og að meðalhófsreglan lagði þá skyldu á herðar stefnda að láta slíkar ráðningar hjá líða í stað þess að segja upp starfsmönnum sínum.

Í öðru lagi hafi með ákvörðuninni verið brotið gegn rannsóknarreglu stjórnsýslu­réttarins, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga. Stefnda hafi borið að sjá til þess að nægjanlegra upplýsinga væri aflað um allar þær aðstæður og atvik sem þýðingu kynnu að hafa þegar afstaða var tekin til þess hvort segja skyldi stefnanda upp störfum eða einhverjum öðrum starfsmanni. Slíkar upplýsingar hefðu, eins og hagaði til með uppsögn stefnanda, ekki getað legið fyrir og mál ekki verið nægilega upplýst án þess að upplýsinga væri aflað hjá stefnanda um verkefni hans, stöðu þeirra og hæfni almennt. Þetta hafi verið sérlega mikilvægt í ljósi skamms starfstíma sviðsstjóra á upp­lýs­inga­tæknisviði, sem tók við starfinu haustið 2005, og lítilla samskipta hans við stefnanda á starfstímanum. Stefnandi hafi setið fund með sviðsstjóra og full­trúum skrifstofu starfsmannamála um atvikaskráningakerfi starfsmanna í nóvember það ár en þar fyrir utan hafi sviðsstjóri hvorki rætt við stefnanda um störf hans né leitað til hans með nokkuð sem að verkefnum hans sneri. Engin viðleitni hafi verið sýnd til að afla nokkurra upplýsinga frá stefnanda um verkefni hans hjá stefnda.

Með ákvörðuninni hafi einnig verið brotið gegn efnisreglum stjórnsýsluréttarins og vísi stefnandi í því sambandi til réttmætisreglunnar og jafnræðisreglunnar.

Uppsögn stefnanda fari í bága við réttmætisreglu stjórnsýsluréttarins, en samkvæmt þeirri reglu verði stjórnvöld ávallt að byggja matskenndar ákvarðanir á málefnalegum sjónarmiðum. Uppsögn stefnanda byggi hins vegar á sjónarmiðum sem ekki standist þá kröfu.

Rökstuðningur stefnda 5. október sl. sýni að málefnaleg sjónarmið búi ekki að baki uppsögn stefnanda, enda séu fullyrðingar um staðreyndir rangar og ályktanir sem af þeim séu dregnar í engu röklegu samhengi við forsendurnar. Þannig liggi fyrir að alls ekki standi til að leggja niður verkefni stefnanda í fyrirsjáanlegri framtíð, a.m.k. ekki hvað neinu nemi. Í rökstuðningi fyrir uppsögn stefnanda komi fram að meginverkefni hans hafi snúið að innleiðingu og utanumhaldi með Notes-kerfum stefnda. Mjög hafi dregið úr þessum verkefnum þar sem stefnt sé að því að skipta um póstkerfi, þ.e. hætta notkun á Lotus Notes en nota þess í stað MS-Outlook. Þetta hafi haft þau áhrif að öll frekari þróun og viðbætur við Notes-kerfin hafi verið stöðvaðar. Síðasta vetur hafi verið ákveðið að verkefnin, sem stefnandi hafði sinnt, skyldu færast og dreifast til tækniþjónustu stefnda og aðilar, sem séð hafi um Notes-póstkerfið þar, hafi tekið að sér rekstur þessara kerfa.

Í fyrsta lagi einskorðist vinna stefnanda á engan hátt við Notes-kerfi stefnda. Hann hafi nú síðast tekið þátt í innleiðingu og kennslu á Oracle-vefpöntunarkerfi sem byggist á Oracle E-business Suite-kerfinu, rétt eins og Fjárhags- og mannauðs­stjórnunarkerfi stefnda. Bæði kerfin séu keypt að fyrirmælum Fjársýslu ríkisins og verði notuð um fyrirsjáanlega framtíð hjá stefnda. Eins og fram komi í minnisblaðinu telji sviðsstjóri síðarnefnda kerfið eitt af helstu nýju verkefnum upplýsinga­tæknisviðs og verði það þróað og innleitt áfram á sjúkrahúsinu. Stefnandi hafi þannig mikilsverða reynslu af því að vinna innan þess grunns sem væntanlega fái aukið vægi í framtíðar­starfsemi stefnda.

Í öðru lagi liggi alls ekki fyrir ákvörðun um það hvenær skipt verði um póstkerfi. Það verkefni sé ekki talið meðal helstu nýrra verkefna stefnda á næstu árum heldur eitt af „...öðrum stórum verkefnum á sviði upplýsingatækni sem gert er ráð fyrir að ráðist verði í á næstu árum...“ Það sé þannig fráleitt að slík ákvörðun, sem þvert á það sem standi í rökstuðningnum hafi alls ekki verið tekin og sem e.t.v. verði tekin einhvern tíma í framtíðinni, geti verið ástæða þess að segja stefnanda upp störfum núna.

Í þriðja lagi hafi það hvort Lotus Notes-póstkerfið verði lagt af ekkert með við­hald og þróun annarra Notes-kerfa að gera. Mörg af mikilvægustu kerfum stefnda séu Notes-kerfi og sum hver svo ný að enn hafi ekki verið greitt fyrir þau að fullu, svo sem dagbókarkerfi vaktmanna. Þó svo fleiri Notes-kerfi verði ekki keypt þurfi að sinna þeim kerfum sem fyrir hendi séu um langa framtíð.

Í fjórða lagi sé sú hugmynd fráleit að í hvert skipti sem verkefnum við tiltekin tölvukerfi fækki eða þau leggist af feli það sjálfkrafa í sér að sá einstaklingur sem hafi sinnt þeim einmitt áður en þau lögðust af þurfi að láta af störfum. Hér sé á ferð eins­konar hugmynd um einnota tölvunarfræðinga sem hafi sama líftíma í starfi og kerfin sem þeir annist. Hið rétta sé að tölvunarfræðingar sinni að sjálfsögðu mörgum og margvíslegum kerfum á sínum starfstíma, enda þróist tölvutæknin hratt. Meðal­líftími tölvunarfræðinga í starfi væri því mjög skammur samkvæmt ráðagerð stefnda. Veru­leikinn sé að sjálfsögðu sá að verði ekki keypt eða þróuð fleiri tölvukerfi í Notes verði keypt eða þróuð tölvukerfi á öðrum grunni. Þau þurfi að sjálfsögðu að innleiða, þróa og annast og það að stefnandi eða aðrir hafi áður sinnt öðrum kerfum skerði á engan hátt hæfni þeirra til þess að vinna með ný kerfi. Þekking stefnanda, sem í krafti starfs­reynslu sinnar hafi næma þekkingu fyrir þörfum stefnda, hljóti í öllu falli að taka langt fram hæfni nýútskrifaðra tölvunar­fræðinga sem hvorki hafi umtalsverða starfs­reynslu á sínu fagsviði né á sjúkrahúsinu.

Í fimmta lagi sé sá þáttur rökstuðningsins er lúti að flutningi verkefna stefnanda til tækniþjónustu stórfurðulegur. Ætla mætti að verkefnin hefðu verið flutt með yfir­lýstri ákvörðun til einhverrar einingar hjá stefnda sem hefði ekkert með starfsemi upplýsingatæknisviðs að gera. Þau verkefni sem vísað sé til hafi hins vegar verið flutt þegar stefnandi var fjarverandi vegna aðgerðar, sem hann hafi þurft að fara í vegna meiðsla sem hann hlaut í framangreindu vinnuslysi, til annarra starfsmanna upplýs­inga­tækni­sviðs sem nú annist þau. Þegar stefnandi hafi komið aftur til starfa hafi hann verið beðinn um að taka að sér önnur verkefni, sem þá hafi þurft að sinna, en aldrei hafi honum verið tilkynnt að önnur verkefni hefðu verið flutt frá honum með varanlegum hætti. Það að engin eiginleg ákvörðun hafi verið tekin um slíkan tilflutning verkefna endurspeglist í því að stefnandi hafi fengið áfram fyrirspurnir frá notendum við­kom­andi kerfa lengi eftir að umsjón þeirra var „flutt“ annað. Ákvörð­un um að framan­greind verkefni stefnanda væru flutt frá honum teljist hluti af þeim skipu­­lags­­breytingum sem stefnandi vísi til sem ástæðu uppsagnar stefnanda. Sá verk­efna­flutningur verði því að uppfylla sömu kröfur um að hann þurfi að skýra með mál­efna­legum hætti.

Stefnandi sé með meiri menntun en margir starfsmenn upplýsingatæknisviðs stefnda, sem ekki hafi verið sagt upp störfum, og meiri menntun á sviði tölvumála en nokkur annar sem sagt var upp störfum.

Stefnandi hafi hvað lengstan starfsaldur allra starfsmanna upplýsingatæknisviðs og verulega mikið lengri en fjölmargir starfsmenn sem ekki hafi verið sagt upp störfum. Sumir hafi verið ráðnir sl. sumar á meðan skipulagsbreytingarnar sem liggja eigi uppsögn stefnanda til grundvallar hafi verið í vinnslu.

Stefnandi hefði unnið að verkefnum á sviði tölvumála, hjá Sjúkrahúsi Reykja­víkur og síðar hjá stefnda, sem séu fjölbreyttari en þau sem flestir, ef ekki allir, starfs­menn sviðsins hafi unnið við hjá sjúkrahúsunum. Hreyfanleiki hans í starfi sé því mjög mikill og ekkert því til fyrirstöðu að úthluta honum öðrum verkefnum, stæði á annað borð til að leggja verkefni hans niður.

Stefnandi vísi til jafnræðisreglu 1. mgr. 11. gr. stjórnsýslulaga, en uppsögn hans fari í bága við þá reglu. Þegar stefndi hafi tekið ákvörðun um það hverjum skyldi sagt upp, hefði borið að meðhöndla stefn­anda eins og aðra starfsmenn upplýsingatækni­sviðs sem hafi tölvunarfræðimenntun, hafi langan starfs­aldur hjá stefnda og sem hafi flekklausan starfsferil. Þvert á móti hafi honum einum þeirra starfsmanna sem teljist til framan­greinds hóps verið sagt upp störfum, en allir aðrir, sem eins sé ástatt um að þessu leyti, hafi haldið störfum sínum.

Stefnandi vísi til banns við mismunun, sbr. 2. mgr. 11. gr. stjórnsýslulaga, og 65. gr. stjórnarskrárinnar nr. 33/1944 og 14. gr. laga nr. 62/1994 um mannréttindasáttmála Evrópu. Stefnanda hafi verið sagt upp störfum vegna trúar­bragða sinna og kynþáttar en hann sé múslimi af arabískum uppruna. Hann sé eini starfs­­maðurinn af arabískum uppruna sem starfi hjá upplýsinga­tæknisviði stefnda og eini músliminn sem þar starfi. Hann sé eini tölvumenntaði starfsmaður sviðsins sem sagt hafi verið upp störfum í nafni nýinnleiddra skipulags­breytinga. Þegar íþyngjandi stjórnsýsluákvörðun eða önnur ákvörðun handhafa almanna­valds feli í sér ólíka meðferð einhvers, sem svo hátti til um sem greini í framangreindum ákvæðum, samanborið við aðra, beri stjórn­völd sönnunar­byrði fyrir því að sjónarmið, er lúti að þeim atriðum, hafi ekki átt þátt í ákvörðuninni. Mannréttindadómstóll Evrópu beiti framangreindri nálgun við meðferð mála sam­kvæmt 14. gr. sáttmálans. Sönn­unar­mat, sem feli í sér meiri kröfur til stefnanda hvað varði öll tilvísuð ákvæði, feli í sér brot á þjóðréttarskuldbindingum Íslands. Þá ber að skýra réttarfarsreglur, ekki síður en efnisreglur íslensks landsréttar, til samræmis við þjóðréttarskuldbindingar Íslands.

Stefnandi vísi til þess að um sniðgöngu hafi verið að ræða, en brotnar hafi verið reglur 1. ml. 2. mgr. 44. gr., sbr. 21. gr. laga nr. 70/1996 og 13. gr. laga nr. 37/1993. Staðreyndir tengdar uppsögn stefnanda sýni ótvírætt að önnur sjónarmið hafi legið til grundvallar uppsögn stefnanda en þau er lúti að skipulagsbreytingum. Þannig sé upp­gefin ástæða uppsagnarinnar einungis tilraun til að sniðganga þær kröfur sem stjórn­sýslulög nr. 37/1993 og lög nr. 70/1996 geri um málsmeðferð áður en til slíkrar upp­sagnar geti komið. Því beri að ógilda uppsögnina.

Kröfurnar byggi stefnandi á efnis- og málsmeðferðarreglum stjórnsýsluréttarins, lög­festum og ólögfestum, og ákvæðum laga nr. 70/1996 sem hann vísi til í mála­tilbúnaði sínum. Þá byggi hann á 65. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 auk 14. gr. laga nr. 62/1994 um mannréttindasáttmála Evrópu.

         Málsástæður og lagarök stefnda

Af hálfu stefnda er vísað til þess að um réttindi og skyldur stefnanda í starfi hjá stefnda fari samkvæmt ráðningarskilmálum á grundvelli laga nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Þar gildi gagnkvæmur þriggja mánaða uppsagnar­frestur.

Fyrir liggi ítarleg greinargerð um stefnumótun og skipulag upplýsingatæknisviðs frá 5. september 2006 þar sem fram komi afrakstur nokkurra mánaða vinnu. Þetta nýja skipu­lag upplýsingatæknisviðsins miði að því að ná fram nokkrum meginmark­miðum í rekstrinum þannig að fækkað yrði deildum og millistjórnendum, skerpt yrði á verk­efnum hverrar deildar og starfsemi þeirra gerð skilvirkari. Betur yrði aðgreind inn­leiðing nýrra lausna daglegs rekstrar, betur aðgreind þjónusta við viðskiptavini og sér­fræðiaðstoð og enn stutt við innleiðingu verkferla og verkefnastjórnar, en þessu sé nánar lýst í skýrslunni, sem sé ítarleg.

Markmið breytinganna sé að stuðla að hagræðingu í rekstri, en þær hafi verið kynntar starfsmönnum upplýsingatæknisviðs í september sl. Breytingarnar hafi óhjá­kvæmi­lega leitt til þess að leggja hafi þurft niður fimm störf og starfsmönnum verið fækkað í samræmi við það. Fundur hafi verið haldinn 6. september sl. en allir starfs­menn upplýsingatæknisviðs hafi verið boðaðir til hans og hafi greinargerðinni verið dreift til fundarmanna. Fimm starfsmönnum upplýsingatæknisviðs hafi verið sagt upp störfum vegna þessara breytinga og hafi stefnandi verið einn þeirra.

Með bréfi framkvæmdastjóra skrifstofu tækni og eigna og sviðsstjóra upplýsinga­tæknisviðs 28. september sl. hafi stefnanda verið tilkynnt að ákveðið hefði verið að leggja niður starfið sem hann gegndi á upplýsingatæknisviði. Í bréfinu hafi aðdrag­andi þessarar ákvörðunar verið útskýrður og að breytt skipulag á sviðinu hefði verið kynnt starfsmönnum. Laun stefnanda yrðu greidd í þrjá mánuði frá og með 1. október 2006 samkvæmt ákvæðum kjarasamninga um upp­sagnar­frest og 2. ml. 1. mgr. 41. gr. laga nr. 70/1996. Athygli stefnanda hafi verið vakin á því að honum væri rétt að óska eftir frekari rökstuðningi fyrir ákvörðuninni. Stefnandi hafi óskað eftir rökstuðningi sem honum hafi verið sendur 10. október sl. Fram hafi komið að með nýrri stefnumótun myndi upp­lýsingatæknisvið í auknum mæli sinna verkefnum sem krefðust aukinnar sér­fræði­­þekkingar. Ýmis einfaldari verkefni myndu færast og dreif­ast til einstakra sviða og gert væri ráð fyrir frekari úthýsingu verkefna og meiri að­keypt­ari sérfræði­þjónustu og sérfræðiráðgjöf.

Ein af breytingunum, sem stefndi hafi staðið fyrir í hagræðingarskyni, hafi lotið að því að fækka hugbúnaðardeildum úr þremur í eina. Stefnandi hafi verið starfsmaður rekstrar- og upplýsingalausna og hafi megin­verkefni hans lotið að innleiðingu og utan­um­haldi með Notes-kerfum hjá stefnda. Mjög hafði dregið úr þeim verkefnum og stefnt hafi verið að því að skipta út póstkerfinu og taka MS-Outlook þess í stað í notkun. Öll frekari þróun og viðbætur við Notes-kerfin hafi verið stöðvuð. Síðast­liðinn vetur hefði verið ákveðið að verkefnin, sem stefnandi hefði sinnt, skyldu færast og dreifast til tækni­þjónustu stefnda. Rekstur þessara kerfa hafi þá flust til aðila þar. Stefnandi hefði síðan þá komið að verkefnum, eins og útskiptingu símtækja, en þeim sé lokið. Öll þessi atriði og aukin aðkeypt vinna hefði leitt til þess að stefndi hafi talið nauðsynlegt, til að framfylgja umræddum breytingum, að starf stefnanda yrði eitt þeirra sem lagt skyldi niður.

Sýknukrafa stefnda sé byggð á því að ákvörðun um niðurlagningu starfs stefnanda og uppsögn hafi verið lögmæt og ekkert tilefni sé til að fella hana úr gildi eða fallast á málatilbúnað stefnanda að öðru leyti. Þessi ákvörðun byggi á málefnalegum rökum og lög­mætum ástæðum. Samkvæmt ákvæðum laga nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfs­manna ríkisins hafi stefnda verið heimilt að leggja niður starf stefnanda og segja honum upp störfum með vísan til 43. og 44. gr. laganna. Ákvæði 2. ml. 1. mgr. 44. gr. mæli sérstaklega fyrir um að ekki sé skylt að gefa starfsmanni kost á að tjá sig um ástæður uppsagnar áður en hún taki gildi ef hún stafi af ástæðum á borð við þær að verið sé að fækka starfsmönnum vegna hagræðingar í rekstri stofnunar. Slíkar ástæður séu nefndar í dæmaskyni um það hvenær ekki sé skylt að veita andmælarétt. Heimildir stefnda til að segja upp ráðningu, vegna þess að staða sé lögð niður vegna skipulags­breytinga og hagræðingar, séu því rúmar og undir mati vinnuveitanda.

Samkvæmt meginreglu vinnuréttar, sem einnig komi ótvírætt fram í ákvæðum starfsmannalaga, einkum IV. kafla og 2. mgr. 38. gr., sé það mat vinnuveitanda hvort og hvenær sé rétt að fækka starfsmönnum eða leggja niður störf til að markmiðum hagræðingar verði náð. Slíkt mat verði ekki endurskoðað efnislega af dómstólum. Um hafi verið að ræða ákvörðun í samræmi við lög sem teknar hafi verið á málefnalegum grundvelli. Á fundi framkvæmdastjórnar stefnda hafi sviðsstjóri gert grein fyrir því að fyrirhugaðar skipulagsbreytingar myndu óhjákvæmilega leiða til starfsmannabreytinga og fyrirsjáanlegt að ekki væri þörf fyrir alla þá starfskrafta sem þar væru.

Mat stjórnenda stefnda hafi verið að vegna skipulagsbreytinga í rekstri og til að framfylgja markmiðum, sem í þeim hafi falist, væri óhjákvæmilegt að segja stefnanda upp störfum. Þetta mat komi augljóslega fram í gögnum málsins, rökstuðningi sem stefnanda var látinn í té og umsögn stefnda vegna málsóknarinnar. Tilgangur endur­skoðunar á stefnumótun og skipulagsbreytinga upplýsingatæknisviðs hafi verið að skerpa á starfsemi sviðsins, fækka deildum og gera sviðið skilvirkara auk þess sem verkaskipting milli deilda hafi verið endurskoðuð. Þessi stefnumótun hafi verið unnin í náinni samvinnu við starfsmenn sviðsins. Samhliða skipulagsbreytingum og breytt­um áherslum hafi verið óumflýjanlegt að leggja niður ákveðin störf á sviðinu, en auk starfs­ins sem stefnandi gegndi hafi fjögur önnur störf verið lögð niður þar sem ekki hafi verið talin þörf fyrir þau lengur. Af þessum fimm hafi tveir þeirra, þ.e. stefnandi og annar starfsmaður, tilheyrt deild rekstrar- og skrifstofulausna og einn þeirra hafi verið starfsmaður í deild klínískra lausna, en þrjár hugbúnaðardeildir hafi verið sameinaðar í eina. Tveir af þessum fimm hafi verið starfsmenn stoðdeildar en sú deild hafi verið lögð niður og verkefni hennar flutt og dreift á aðrar deildir.

Ákvörðun um að leggja niður umrædd störf, þ.á m. stefnanda, hafi ekki byggst á vali milli manna, heldur því að nauðsynlegt hafi verið að leggja niður umrædd störf og fækka starfsmönnum til þess að ná markmiðum nýrrar stefnumótunar og skipulags­breytingum. Störf og verkefni viðkomandi starfsmanna hafi ekki rúmast innan skipu­lags­breytinganna og ekki hafi verið þörf fyrir þá í nýju skipulagi.

Stefndi mótmæli því að ákvörðun stefnda hafi verið andstæð 12. gr. stjórnsýslu­laga nr. 37/1993. Í þessu tilviki gangi starfsmannalögin framar og mat stefnda á því að fækka hafi þurft starfsmönnum tiltekinnar deildar. Verði talið að ákvörðunin hafi á einhvern hátt takmarkast af gildi lagagreinarinna byggi stefndi á því að málefnalegt mat hafi farið fram sem leitt hafi til þess að starf stefnanda hafi verið lagt niður. Ákvörðun stefnda hafi þó ekki verið byggð á mati heldur því að vegna um­ræddra skipulagsbreytinga hafi ekki lengur verið þörf fyrir verkefnin sem stefnandi hefði haft með höndum.

Innan stofnunarinnar hafi farið fram umræða um það og mat hvort möguleiki væri á því að flytja starfsmennina til í starfi eða gera breytingar á störfum þeirra. Niður­staða stjórnenda hefði hins vegar verið sú að yrði markmiðum stefnumótunarinnar og skipu­lagsbreytinganna náð gætu þeir ekki séð hvernig starfskraftar um­ræddra starfs­manna nýttust innan deildarinnar. Fyrir þessu séu þau rök að með breyting­unum hafi verkefni flust og dreifst á milli skipulagseininga og því náist aukin skilvirkni í innra starfi sviðsins. Það hafi leitt til þess að færri þyrfti til að inna þau af hendi. Fækkun starfs­manna á upplýsingatæknisviði komi einnig til af því að þar þurfi að sinna verk­efnum í auknum mæli af þeim sem hefðu viðeigandi sér­fræði­þekkingu, en ýmis ein­fald­ari verkefni færðust og dreifast til einstakra annarra sviða. Þá hafi falist í breyt­ingunum frekari úthýsing verkefna, auk meiri aðkeyptrar þjónustu og sérfræði­ráðgjafar, en af því hafi óhjákvæmilega hlotist fækkun. Um þessi atriði hafi stefndi átt fullnaðar­mat.

Við þessar aðstæður hafi ekki verið leiðir til að taka aðra eða vægari ákvörðun og því hafi ekki verið brotið gegn 12. gr. stjórnsýslulaga. Þrátt fyrir það hefði verið leitast við að koma til móts við hags­muni þeirra sem sættu uppsögn með ýmsu móti sem enn sjái ekki fyrir endann á gagnvart stefnanda, enda hafi mál þetta verið höfðað skömmu eftir að ákvörðun um uppsögn lá fyrir. Samið hafi verið við ráðgjafafyrirtæki um að starfsmenn fengju þjónustu sem stefndi greiddi að fullu. Miði hún að því að aðstoða starfsmennina, eins og hægt væri, til að leita nýrra starfa og þá samhliða hversu mikið af uppsagnar­frestinum þeir vildu vinna. Þeir fengju að halda tölvubúnaði og farsímum út upp­sagnar­fest, engum tölvukerfum hefði verið lokað og reynt yrði einnig að hjálpa þeim við að finna annað starf hjá stefnda. Þegar uppsagnir voru afhentar hafi viðkom­andi verið bent á að hafa samband við skrifstofu starfsmannamála vegna þessa.

Af hálfu stefnda sé því mótmælt að rannsóknarregla 10. gr. stjórnsýslulaga hafi verið brotin. Gögn málsins beri með sér að mikil vinna hafi verið lögð í að kanna skilvirkni og hagkvæmni upplýsingatæknisviðs og niðurstaðan hafi verið sú að óhjá­kvæmilegt væri að leggja niður tiltekin störf. Málið hafi verið upplýst að fullu þannig að taka mætti ákvörðun þá sem um sé deilt í málinu. Stefnandi gangi út frá því að eitt­hvert formlegt val hafi átt sér stað hjá stjórnendum milli stefnanda og annarra starfs­manna upplýsingatæknisviðs þegar stefnanda var sagt upp. Þetta sé ekki rétt heldur hafi starf stefnanda einfaldlega verið lagt niður þar sem engin þörf hafi verið fyrir það lengur. Enginn annar starfsmaður sinni sams konar starfi og því hafi ekkert val farið fram. Stjórnendum hafi verið fullkunnugt um hver verkefni stefnanda voru. Einnig hafi stjórnendum verið kunnugt um á hvaða sviðum þekking hans lá. Þegar ákvörðun var tekin um að leggja niður störfin fimm hafi allar nauðsynlegar upplýsingar legið fyrir enda gífurleg vinna að baki endurskoðaðrar stefnu­mótunar og skipulags í átt til hagræðingar í rekstri. Þessi vinna hafi tekið langan tíma og metið hafi verið og gerð grein fyrir hvernig skipulagið ætti að vera með hagsmuni stofnunarinnar, með tiliti til hag­ræðingar og skilvirkni, að leiðarljósi.

Stefnandi hafi borið fyrir sig allmörg atriði til að rengja eða véfengja grundvöll þeirrar ákvörðunar að segja honum upp störfum. Stefndi mótmæli málsástæðum stefnanda um að rökstuðningur fyrir uppsögninni fái ekki staðist, einkum varðandi Lotus Notes-kerfið. Áformað sé að leggja niður þessi verkefni að því leyti að ekki verði um frekari þróun eða innleiðingar að ræða. Stefndi reki Lotus Notes-póstkerfi auk þess sem innleiddur hafi verið fjöldi Notes-kerfa sem séu fjölbreytilegar hugbún­aðar­lausnir sem tengdust Notes-póstkerfinu, flestar smáar í sniðum. Verkefni stefn­anda hafi mest snúið að innleiðingu og áfram­haldandi þróun þessara svokölluðu Notes-kerfa. Tekin hafi verið sú ákvörðun fyrir um tveimur árum að bæta ekki við fleiri Notes lausnum og hætta áframhaldandi þróun, en reka þær þó áfram. Þetta komi fram í tæknistefnu upplýsinga­tækni­deildar. Tæknideildin hafi séð um og sjái um rekstur Notes-póstkerfis­ins og um tæknilegan rekstur annarra Notes-kerfa. Eftir að ákveðið hafi verið að hætta innleiðingu nýrra Notes lausna eða þróun eldri hafi þetta hlutverk stefnanda dregist smám saman það mikið saman að ákveðið hefði verið að starfsmenn tæknideildar, sem sinntu Notes-póstkerfinu, sæju einnig um rekstur allra Notes-kerfa.

Stefnandi fullyrði einnig að hann hafi nú síðast tekið þátt í innleiðingu og kennslu á vefpöntunarkerfi Oracle-kerfisins, auk þess sem hann fullyrði að hann hafi mikla þekkingu á þessu sviði, en þetta fái ekki staðist. Stefnandi hafi komið að kennslu hjá notendum í Fossvogi á svokallaðri vefverslun sem hafi verið afmarkaður hluti af innleiðingu á vörustýringu OEBS-kerfisins. Þetta hafi verið á tímabilinu nóvember 2004 til janúar 2005. Samkvæmt fundargerðum hafi stefnandi mætt á þrjá fundi með innleiðingarhópnum. Hins vegar fái ekki staðist að stefnandi hefði þekkingu á þessum kerfum og fjárhags- og mannauðskerfum stefnda.

Rétt sé, eins og fram komi í stefnu, að ekki hafi verið tekin ákvörðun um að skipta úr Notes-póstkerfi. Hins vegar hafi verið tekin ákvörðun um að bæta ekki við frekari Notes-kerfum né að þróa þau kerfi sem fyrir séu heldur frekar einfaldlega að halda þeim gangandi. Stefnandi fullyrði einnig að mörg af mikilvægustu kerfum stefnda séu Notes-kerfi. Þessi fullyrðing sé röng þar sem flest þeirra séu lítil og einföld hliðar­kerfi. Þótt eitthvað þurfi að sinna þessum Notes-kerfum í framtíðinni liggi fyrir að kerfin séu rekin samhliða póstkerfinu og hafi tæknideild haft með það að gera síðan í janúar 2006, eins og fram komi í rökstuðningi til stefnanda. Verkefni stefnanda hafi fyrst og fremst snúið að innleiðingu og breytingum á Notes-kerfunum þar sem hann hafi verið verkefnastjóri og tengiliður við birgja. Þessi verkefni hafi hins vegar smám saman lagst af eftir að ákveðið var að hætta að innleiða ný kerfi og breyta eldri kerfum.

Í því skyni að véfengja ákvörðun stefnda hafi stefnandi gagnrýnt ráðningu annarra eða aðkeypta vinnu verktaka. Nýútskrifaður tölvunarfræðingur hafi verið ráðinn í samræmi við stefnu stefnda að leitast við að hafa markvissa nýliðun og að fagþekking starfsmanna sé í sífelldri þróun. Umræddur starfsmaður hafi verið ráðinn til að sinna sérhæfðu verkefni sem snúi að uppbyggingu „Vöruhúss gagna“, en það sé nýlegt og sér­hæft svið innan tölvunarfræðinnar sem krefjist mikillar þekkingar á gagnagrunns­kerfum og vinnu þeim tengdum. Þetta sé fræðigrein sem áhersla sé lögð á í tölvunar­fræðinámi í dag og því góður kostur að fá nýlega útskrifaðan aðila í þetta verkefni. Stefnandi hafi ekki unnið að verkefnum á þessu sviði né hafi hann haft þá sérþekkingu sem þurfi að mati stefnda. Stefndi hafi átt mat um það hvort maður með tiltekna sérþekkingu yrði ráðinn í slíkt verkefni. Þá tilfæri stefnandi verkefni manns í meistara­námi í hugbúnaðarverkfræði. Sá starfsmaður sé verkfræðingur frá Háskóla Íslands sem samhliða námi sé tímabundið í rúmlega hálfu starfi hjá upplýsingatækni­deild. Hann vinni að ákveðnu þróunarverkefni sem kallist Ljórinn og hafi með fjar­aðgang annarra heilbrigðisstofnana að kerfum stefnda að gera. Um sé að ræða mjög sérhæft verkefni sem snúi að rafrænum skilríkjum og aðgangsöryggismálum. Þessi vinna sé jafnframt hluti af mastersverkefni hans í skólanum og verkefnið styrkt af heilbrigðis­ráðu­neytinu. Ráðning hans sé fyllilega í samræmi við stefnu stofnunar­innar að eiga markvisst samstarf við aðrar menntastofnanir og ráðuneyti enda framsýn menntun eitt af meginmarkmiðum stefnda.

Stefnandi nefni einnig þrjá verktaka sem hafi með höndum verkefni fyrir stefnda. Í greinargerð upplýsingatæknisviðs komi fram að stefnt sé að því að fá verktaka meira inn til að sinna ákveðnum þáttum. Það sé í samræmi við stjórnunarrétt stefnda að meta hvort og þá hvenær hagstæðara sé að kaupa verktaka til að vinna tiltekin störf eða eigin starfsmenn. Þetta sé í beinu samræmi við stefnuna um að úthýsa ákveðnum verk­þáttum og fá inn verktaka til að sinna ákveðn­um verkefnum. Um sé að ræða tíma­bundin átaksverkefni þar sem metið sé að hag­stæðara sé að fá inn aðila með sérfræði­þekkingu á ákveðnu sviði. Upplýsinga­tæknisvið hafi til langs tíma nýtt verktaka fyrir umtalsverðan hluta þjón­ustu sinnar og megi þar nefna hugbúnaðargerð og ýmsa aðra ráðgjöf.

Fyrir liggi að störfum tölvunarfræðinga muni fækka. Það hafi þó ekki legið fyrir þegar umræddar ráðningar fóru fram og í raun sé þetta röng nálgun. Rekstur sviðsins byggi á því að starfsfólk innanborðs hafi sérþekkingu sem nýtist í starfi. Stefndi geti ekki fallist á að meðalhófsregla leggi þá skyldu á herðar stjórnenda stefnda að hætta ný­ráðningum í sérhæfð störf þótt það leiði óhjákvæmilega til að leggja þurfi störf niður.

Það hljóti að rúmast innan stjórnunarréttar vinnuveitanda að meta hvort hag­kvæmara og skilvirkara sé að fá starfsmenn stofnunarinnar til að sinna nýjum verk­efnum eða kaupa utanaðkomandi aðila til verksins. Það fari eftir eðli þeirra verkefna sem um ræði og þeirrar þekkingar sem þörf sé á til að leysa þau. Verkefnin hafi breyst mikið á síðustu árum og þau verkefni sem framundan séu hjá deildinni séu þess eðlis að stjórnendur meti stöðuna svo að í mörgum tilfellum sé hagkvæmara að kaupa ákveðna þjónustu eða úthýsa ákveðinni starfsemi. Þetta sé í samræmi við þá þróun sem eigi sér stað um allan heim að fyrirtæki séu í síauknum mæli að úthýsa meiru af upplýsingatæknistarfsemi sinni. Krafan um aukna sérhæfingu á mörgum sviðum tölvutækninnar kalli á þekkingu sem erfitt sé að viðhalda innanhúss og því sé aðgengi að sérfræðingum eða tímabundin aðkoma ráðgjafa oft vænlegri kostur eins og hér sé raunin. Einnig komi fram í stefnumótun upplýsingatæknisviðs breyttar áherslur þar sem sviðið ætli að vera sérfræðingasvið en ýmis almenn verkefni, eins og skýrslugerð, færðist meira til notenda.

Stefndi telji því ekki rétt að verkefni hafi verið tekin af stefnanda. Rétt sé að stefnandi hafi verið frá vinnu þegar ákveðið var að hætta frekari hugbúnaðargerð og innleiðingum vegna Lotus Notes-kerfanna og þau færð til tæknideildar. Hins vegar hafi yfirmaður stefnanda tilkynnt honum um þetta þegar stefnandi kom aftur til vinnu. Stefnandi hafi lýst því í samtali við sviðsstjóra að honum þætti skynsamlegt að þessi Notes verkefni færðust til tæknideildarinnar. Um þetta hafi stefndi og yfirmenn hans eftir sem áður átt fullnaðarmat. Verkefni sem stefnandi hafi verið beðinn um að taka að sér, eftir að hann kom aftur eftir veikindi, hafi falist í því að aðstoða við það að skipta út símum en skipta hafi þurft út um 2000 borðsímum vegna galla í þeim.

Stefnandi hafi fullyrt að hann sé með meiri menntun en sumir aðrir á sviðinu eða miðað við aðra sem sagt var upp og hefði hvað lengstan starfsaldur. Stefndi véfengi þetta ekki að því leyti sem byggt sé á prófgráðum. Á hinn bóginn byggði ákvörðun um niðurlagningu starfanna fimm ekki á prófgráðum einum og sér eða starfs­aldri þeirra starfsmanna sem sinntu þeim, auk þess sem ekkert val hafi farið fram um það hvaða störf skyldu leggjast niður. Menntun manna sé þar að auki mismunandi á sviðinu. Ekkert í lögum hafi lagt þá skyldu á herðar stefnda að leggja skilyrðislaust til grundvallar prófgráður eða starfsaldur í þessu efni. Sú fullyrðing stefnanda fái ekki staðist að hann hafi unnið að fjölbreyttari verkefum en flestir aðrir eða að ekkert hafi verið því til fyrirstöðu að úthluta honum öðrum störfum eða verkefnum. Ákvarðan­irnar hafi byggst á því að endurskoðun á stefnumótun og skipulagi sviðsins með hag­ræð­ingu, skilvirkni og betri þjónustu að leiðarljósi, hafi leitt til þess að störfum var fækkað þar sem ekki var þörf fyrir þau.

Stefndi mótmæli því að jafnræðisregla hafi verið brotin. Hvorki hafi verið brotið gegn 11. gr. stjórnsýslulaga né ákvæðum 65. gr. stjórnarskrár. Þá sé því einnig mótmælt að brotið hafi verið gegn 14. gr. mannréttinda­sáttmála Evrópu. Eins og stefndi hafi skilmerkilega rökstutt hafi ekki verið um sams konar störf að ræða heldur mismunandi sérhæfð störf sem fólk á upplýsingatæknisviði vann. Ekki hafi farið fram val á milli manna heldur hafi ákvörðun stefnda byggst á því að ekki hafi verið þörf fyrir tiltekin störf sem hinir fimm umræddu starfsmenn höfðu með höndum. Stefnanda hafi því á engan hátt verið mismunað í skilningi ofangreindra ákvæða.

Einnig mótmæli stefndi því að stefnanda hafi verið sagt upp störfum vegna trúar­bragða sinna og kynþáttar. Ekkert sé hæft í þeim ásökunum og séu málsástæður stefn­anda í þessa veru óverðskuldaðar. Stefndi hafi að líkindum sérstöðu meðal fyrir­tækja og stofnana þar sem mjög stór hluti starfsmanna sé af ólíku þjóðerni og líklega séu trúarbrögð þeirra margs konar. Af þeim rúmlega 5000 starfsmönmun sem skráðir séu í virkt starf hjá stefnda séu tæplega 260 starfsmenn af erlendu þjóðerni, eða um 5% af heildarstarfsmannafjölda. Raunar sé stefnandi ekki í þessu úrtaki þar sem hann er íslenskur ríkisborgari. Alls komi þessir starfsmenn frá 39 mismunandi þjóðum. Stefnandi hafi starfað í rúm 10 ár hjá stefnda og Sjúkrahúsi Reykjavíkur. Ekkert sé hæft í því að uppruni eða trúarbrögð stefnanda, hvað þá störf hans í þágu Félags múslima, hafi haft áhrif á ákvörðun stefnda.

Stefnandi byggi á því að uppsögnin stafi af öðrum ástæðum en skipulagsbreyt­ingum í því skyni að sniðganga stjórnsýslulög og starfsmannalög. Sé ýjað að því að áminna hefði átt stefnanda á grundvelli 21. gr. starfsmannalaga. Af hálfu stefnda sé þessu mótmælt með vísan til framanritaðs þar sem uppsögnin hafi verið vegna skipulagsbreytinga og fækkunar starfsmanna og átt sér skýra stoð í 2. ml. 1. mgr. 44. gr. starfsmannalaga. Allnokkuð hafi verið um það síðustu ár að störf hafi verið lögð niður og mönnum sagt upp í kjölfarið. Nærtækasta dæmið sem megi nefna sé að árið 2004 hafi um 50 manns verið sagt upp störfum vegna skipulagsbreytinga, þar sem störf hafi verið lögð niður.

Af framangreindum ástæðum beri að sýkna stefnda af öllum kröfum stefn­anda. Verði ekki á sýknukröfu fallist telji stefndi ekki skilyrði til að fallast á aðalkröfu stefn­anda, enda ekki í samræmi við þá reglur vinnuréttar og réttarreglur um ríkisstarfsmenn að starfsmaður eigi rétt á starfi sínu að nýju, ef markmið ógildingar­kröfu sé þess efnis.

Til stuðnings kröfum stefnda um málskostnað vísist í öllum tilvikum til XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

         Niðurstaða

Í málinu liggja fyrir gögn þar sem rakið er að unnið var að nýju stjórnskipulagi fyrr á þessu ári fyrir upplýsingatæknisvið stefnda þar sem stefnandi hefur starfað í nokkur ár sem tölvunarfræðingur. Þessar skipulagsbreytingar og ráðstafanir stefnda í tengslum við þær hafa auk þess verið skýrðar fyrir dóminum með ítarlegum munn­legum skýrslum nokkurra stjórnenda og starfs­manna stefnda.

Í skjali stefnda um starfsmannabreytingar vegna nýs skipulags frá 28. september 2006 kemur meðal annars fram að þrjár hugbúnaðardeildir verði sam­ein­aðar í eina deild er kallist hugbúnaðardeild. Því er enn fremur lýst að sam­hliða skipulags­breytingum og breyttum áherslum, sem fram komi í stefnumótun upp­lýs­inga­tækni­sviðs, sé nauð­syn­legt að gera ákveðnar breytingar í starfsmanna­málum sviðsins. Helstu ástæður fyrir því séu þær að verkefni flytjist á milli skipulagseininga og því náist fram aukin skilvirkni í innra starfi sviðsins þannig að færri þurfi til að sinna þeim, sviðið muni í auknum mæli sinna verkefnum þar sem sérfræðiþekkingu þurfi til, en ýmis einfaldari verkefni færist til einstakra sviða og því þurfi færri starfsmenn á upplýsingatæknisvið, og loks sé gert ráð fyrir frekari úthýsingu verkefna auk meiri aðkeyptri þjónustu og sérfræðiráðgjöf.

Fyrir dóminum skýrði Björn Jónsson, sviðsstjóri upplýsingatæknisviðs hjá stefnda, frá því að tilgangur skipulagsbreytinganna hefði verið sá að ná fram hagræðingu í starfseminni. Breytingarnar hefðu í fyrsta lagi falist í breyttum áherslum þannig að á upp­lýsingatæknisviði yrði nýjum verkefnum sinnt um leið og önnur verkefni færðust frá sviðinu. Í öðru lagi yrðu ákveðin störf færð frá sviðinu og þá í aðrar deildir hjá stefnda. Í þriðja lagi hafi verið ákveðið að úthýsa ákveðnum málaflokkum en í því fælist kaup á utanaðkomandi sérfræðiþekkingu. Í framhaldi af þessum breytingum hafi þrjár deildir upplýsingatæknisviðs verið sameinaðar í eina. Fyrir hefði legið ákvörðun um að stöðva frekari þróun og viðbætur við Lotus Notes-kerfi stefnda, þar sem fyrir­hugað var að skipta um póstkerfi, þ.e. úr Notes í Microsoft Outlook póstkerfi. Megin­verkefni stefnanda hafi lotið að innleiðingu og þróun Notes-kerfanna en úr þessum verkefnum hafi dregið af framangreindum ástæðum. Mögu­leikar stefnanda á því að sinna öðru starfi innan sviðsins hafi verið kannaðir og hafi sviðs­stjórinn leitast við að finna önnur verkefni fyrir stefnanda. Einnig kom fram í skýrslu deildarstjóra tækni­deildar á upplýsingatæknisviði, Friðþjófs Bergmanns, að þáverandi yfirmaður stefn­anda, Jón Margeir Hróðmars­son, hefði rætt við sig varðandi stöðu stefnanda, en innan tæknideildar hefðu hins vegar allar stöður verið full­mannaðar. Í framburði Björns kom auk þess fram að þeim starfsmönnum sem sagt var upp vegna skipulags­breytinganna hefði verið boðin aðstoð við leit að öðru starfi hjá stefnda og þeim bent á að hafa samband við skrifstofu starfsmannamála. Þá hefur komið fram að stefndi hafi samið við ráðgjafafyrirtæki um að þeir starfsmenn sem sagt var upp störfum fengju ráðgjöf á kostnað stefnda.  

Fyrir liggur í málinu að stefnandi sinnti á starfstíma sínum hjá stefnda öðrum verk­efnum en Lotus Notes-kerfinu. Hann tók meðal annars þátt í innleiðingu og kennslu á Oracle vefpöntunarkerfi, vefverslun, sem byggt er á Oracle E-buisness Suite-kerfinu. Elísabet Guðmunds­dóttir, verkefnastjóri á hag- og upplýsingasviði, er tilheyrir skrifstofu fjár­reiðna- og upplýsinga, skýrði frá því fyrir dóminum að stefn­andi hefði frá því um miðjan nóvember 2004 tekið þátt í kennslu á fyrrgreindu vefpöntunarkerfi. Stefnandi hafi verið í leyfi frá störfum árið 2005, en eftir að hann kom aftur til starfa hafi innleiðingu kerfisins verið að mestu lokið. Aðspurð taldi hún þennan hluta, þ.e. vefverslunina, vera mjög litla einingu innan alls Oracle-kerfisins. Greindi hún frá því að rekstur kerfisins væri nú í höndum sérstakrar einingar á skrifstofu fjárreiðna- og upplýsinga, en upplýsingatæknisvið kæmi ekki að þeim rekstri. Varðandi það hvort stefnt væri að áframhaldandi innleiðingu annarra eininga eða þátta innan Oracle-kerfis­ins sagði hún það ekki vera á döfinni, enda kerfið í eigu Fjársýslu ríkisins.

Af stefnanda hálfu er vísað til þess að meðal­hófsregla stjórnsýsluréttarins hafi verið brotin þegar stefnanda var sagt upp störfum. Ekkert mat hafi farið fram á því hvort mögulegt hefði verið að beita vægara úrræði en uppsögn til að ná þeim markmiðum sem stefnt hafi verið að með skipulagsbreyt­ingunum á upplýsinga­tækni­sviði sem stefndi hafi byggt uppsögnina á. Þegar litið er til þess sem hér að framan er rakið verður að telja að sýnt hafi verið fram á af hálfu stefnda að ákvarð­anir um skipu­lagsbreytingar og uppsagnir starfsmanna hafi byggst á málefnalegum forsendum og mati stjórnenda stefnda á því að þessar að­gerðir væru nauð­syn­legar til að ná fram þeirri hagræðingu sem stefnt var að með skipu­lags­breytingunum. Af hálfu stefnda var leitast við að finna annað starf fyrir stefnanda en þrátt fyrir þá viðleitni hefur það ekki tekist, enda fram komið að allar stöður eru fullmannaðar. Þá hefur komið fram í málinu að stefnandi hefur ráðið annað starfsfólk í sérhæfð störf eða ákveðið að kaupa sérfræðiþjónustu í auknum mæli. Það kemur til af hinum öru breytingum og hraðri þróun á þessu sviði svo og brýnni þörf á bestu viðeigandi sérfræðiþekkingu sem völ er á hverju sinni eins og lýst hefur verið af hálfu stefnda. Stjórnendur stefnda hafa metið það svo að þessar aðgerðir og stefnubreytingar skiluðu aukinni hagkvæmni og hent­uðu betur rekstrarþörfum og starfsemi stefnda. Af hálfu stefnda er vísað til þess að ákvarðanir um breytingar vegna hins nýja skipulags og eftirfarandi ráðstafanir hafi verið byggðar á mati á því hvernig verkefnin skyldu leyst af hendi. Sú stefna hafi verið tekin að úthýsa ákveðnum verkþáttum og fá utanaðkomandi verktaka til að sinna tilteknum verkefnum. Hagstæðara sé að fá inn aðila til að leysa ákveðin tímabundin álags­verkefni. Krafan um aukna sérhæfingu á mörgum sviðum tölvu­tækninnar kalli á þekk­ingu sem erfitt sé að viðhalda innanhúss. Upplýsingatæknisvið verði meira sérfræði­svið en áður. Stefnandi hefur ekki leitt nægilega haldbær rök fyrir því að framangreint mat stefnda hafi verið rangt eða að það sé byggt á ómálefnalegum forsendum. Með vísan til þessa verður ekki fallist á að brotið hafi verið gegn meðal­hófs­reglunni með uppsögninni, enda verður að fallast á þau rök stefnda að stjórnendur þurfi að hafa svigrúm til að meta hverjir skuli vinna þá sérfræðivinnu sem um ræðir, þar með talið hvort slík sérfræðivinna verði í auknum mæli keypt utanfrá þar sem það sé hag­kvæm­ara en að starfsfólk stefnda hafi slík verkefni með höndum.

Eins og hér að framan er rakið hafa verið lagðar fram ítarlegar upplýsingar og skýr­ingar af hálfu stefnda um skipulags­breytingarnar og hvernig þeim skyldi fram­fylgt. Jafnframt hafa komið fram lýsingar og skýringar á því hver verkefni stefnanda voru og hvers vegna dregið hafði úr þeim áður en tekin var ákvörðun af hálfu stefnda um uppsögnina. Þegar þetta er virt verður ekki fallist á þau rök stefnanda að skort hafi upplýsingar um verkefni stefnanda eða annað sem gat skipt máli þegar ákveðið var að segja stefnanda upp störfum. Samkvæmt því verður að telja að þess hafi verið gætt af hálfu stefnda að fyrir lægju fullnægjandi upplýsingar um ástæður uppsagnarinnar. Verða þar með ekki talin rök fyrir því að fallast á að með ákvörðun stefnda hafi verið brotið gegn rannsóknar­reglunni eins og haldið er fram af hálfu stefnanda. 

Þegar ákveðið var að stefnanda skyldi sagt upp störfum ásamt fjórum öðrum starfsmönnum stefnda vegna skipulagsbreytinga á upplýsingatæknisviði var byggt á því að ekki væri lengur þörf á því að þeir sinntu þessum störfum. Það kom til af því að verkefni voru færð milli deilda, þrjár hugbúnaðardeildir voru sameinaðar í eina, keypt var utanaðkomandi sérfræðiþekking og -þjónusta í auknum mæli og verkefni sem áður voru hjá stefnda höfðu verið færð annað. Hvað stefnanda varðar hefur komið fram að verkefni hans hafi mest verið innleiðing og þróun Notes-kerfa. Tekin hefði verið sú ákvörðun að þróa þessi kerfi ekki áfram og að tæknideildin sæi um reksturinn. Stefnandi hefði einnig sinnt tíma­bundnum verkefnum, sem nú væri lokið, svo sem kennslu á Oralce-vefpöntunar­kerfi og útskiptingu símtækja. Verkefni stefnanda hefðu því smám saman dregist saman og tekin hefði verið sú ákvörðun í hagræðingarskyni að flytja þau annað eða fela öðrum að sinna verkefnum sem enn stóðu eftir við skipulagsbreytingar. Þegar þetta er virt verður ekki fallist á þá máls­ástæðu stefnanda að ákvörðun stefnda um uppsögn stefnanda hafi ekki verið byggð á mál­efna­legum rökum. 

Ákvörðun stefnda um uppsagnir var, samkvæmt því sem fram hefur komið, byggð á mati stjórnenda stefnda á því hvernig verkefni skyldu unnin og hverjir skyldu leysa þau af hendi eins og hér að framan hefur verið rakið. Af hálfu stefnda hefur því verið lýst að þörf var á aukinni sérfræðiþjónustu og viðeigandi lausnum og hagræðingu þar sem þarfir í rekstri og starfsemi stefnda voru hafðar að leiðarljósi. Ekkert bendir til að trúarbrögð eða uppruni stefnanda hafi haft áhrif á matið, sem stjórnendur stefnda hafa óhjákvæmilega þurft að leggja á það hvort stefnandi héldi starfi sínu hjá stefnda í kjölfar skipulagsbreytinganna eða hvort honum yrði sagt upp starfinu eins og raunin varð síðan, en því hefur þegar verið lýst að verkefni stefnanda drógust saman og hverjar ástæður voru fyrir því. Verða því engin rök talin standa til þess að álykta að stefnandi hafi ekki notið jafnræðis við mat stefnda á því hvernig verkefnum skyldi sinnt samkvæmt hinu nýja skipulagi og þegar ákvörðun var tekin um uppsögn­ina. Með vísan til þessa verður ekki fallist á að jafnræðisreglan hafi verið brotin í um­ræddu tilviki.

Samkvæmt öllu því sem hér hefur verið tekin afstaða til og lagt verður til grundvallar við úrlausn málsins er ekki fallist á að uppsögn stefnanda hafi verið ólögmæt og að hana beri að fella úr gildi af þeim sökum. Ber því að hafna báðum kröfum stefnanda í málinu, aðal- og varakröfu, og sýkna stefnda af þeim. 

Rétt þykir með vísan til 3. mgr. 130. gr. laga um meðferð einkamála að máls­kostnaður falli niður, en í því sambandi er einkum litið til þess að mikilvægar upplýsingar og skýringar komu fyrst fram undir rekstri málsins um ástæður skipulags­breyting­anna og hvers vegna þær leiddu til uppsagnar stefnanda.

         Dóminn kvað upp Sigríður Ingvarsdóttir héraðsdómari sem fékk málið til meðferðar 31. október sl.

DÓMSORÐ:

         Stefndi, Landspítali – háskólasjúkrahús, er sýknað af kröfum stefnanda, Salmanns Tamimi, í máli þessu.

         Málskostnaður fellur niður.