Mál nr. 605/2012

Lykilorð
  • Skuldamál
  • Aðild

                                     

Fimmtudaginn 14 mars 2013.

Nr. 605/2012.

 

Þórir Brynjúlfsson

(sjálfur)

gegn

Íslandsbanka hf.

(Elvar Örn Unnsteinsson hrl.)

 

Skuldamál. Aðild.

Í hf. höfðaði mál gegn Þ til heimtu skuldar vegna yfirdráttar á tékkareikningi. Þ bar því m.a. við að Í hf. ætti ekki lögvarða kröfu á hendur sér og að ekki hefði verið gerður við hann sérstakur samningur um yfirdráttarlán og væri því ekki fyrir að fara skuld hans við bankann. Hæstiréttur staðfesti niðurstöðu héraðsdóms um að Í hf. væri eigandi hinnar umþrættu kröfu og því réttur aðili að málinu. Þá var talið að með samfelldri notkun sinni á reikningnum allt frá stofnun hans til ársins 2009 hefði Þ samþykkt þær yfirdráttarheimildir sem honum hefðu verið veittar og í gildi hefðu verið hverju sinni. Skipti engu í því sambandi þótt ekki lægi fyrir skriflegur samningur milli aðila. Þá var kröfu Þ um skuldajöfnuð hafnað sem og kröfu hans um að Í hf. bæri að afskrifa kröfu sína á hendur honum. Með vísan til þessa staðfesti Hæstiréttur niðurstöðu héraðsdóms um greiðsluskyldu Þ.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Viðar Már Matthíasson og Þorgeir Örlygsson og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.

Áfrýjandi skaut málinu upphaflega til Hæstaréttar 6. júlí 2012. Ekki varð af fyrirhugaðri þingfestingu þess 22. ágúst 2012 og áfrýjaði hann öðru sinni 19. september sama ár samkvæmt heimild í 4. mgr. 153. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Hann krefst þess aðallega að málinu verði vísað frá héraðsdómi, en til vara að hann verði sýknaður af kröfu stefnda. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

I

Mál þetta höfðar stefndi til innheimtu skuldar á tékkareikningi áfrýjanda nr. 3727. Samkvæmt gögnum málsins námu innstæðulausar færslur á reikningnum 3.527.362 krónum 15. júlí 2010.

Með áfrýjun málsins krefst áfrýjandi aðallega endurskoðunar á úrskurði héraðsdóms Reykjavíkur 6. maí 2011, þar sem hafnað var kröfu hans um frávísun málsins, en til vara krefst hann sýknu af kröfu stefnda. Eins og rakið er í niðurstöðum framangreinds úrskurðar byggði áfrýjandi kröfu sína um frávísun frá héraðsdómi á því að stefndi ætti ekki lögvarða kröfu á hendur sér. Sú málsástæða lýtur í reynd að því að stefndi sé ekki réttur eigandi kröfu þeirrar er hann hefur uppi í málinu og eigi þar með ekki aðild að því. Varnir byggðar á þeirri málsástæðu leiða til sýknu en ekki frávísunar, sbr. 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991 og eru því ekki efni til að vísa málinu frá héraðsdómi.

II

Fyrir liggur í gögnum málsins að áfrýjandi stofnaði ofangreindan tékkareikning  í Útvegsbanka Íslands 13. desember 1985. Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður staðfest niðurstaða hans um aðild stefnda að málinu.

Samkvæmt 4. gr. laga nr. 94/1933 um tékka skal útgefandi hafa til umráða fé hjá greiðslubankanum, er honum sé heimilt samkvæmt samningi við greiðslubankann að ráðstafa með tékkum. Áfrýjandi ritaði undir yfirlýsingu við umsókn sína um stofnun tékkareiknings, þar sem meðal annars segir að ef innstæða reynist ekki næg á tékkareikningi fyrir útgefnum tékkum geti það haft í för með sér refsiábyrgð lögum samkvæmt. Af reikningsyfirliti, sem og greinargerð áfrýjanda fyrir Hæstarétti má ráða að áfrýjandi hefur ekki notað tékka í mörg ár, heldur debetkort sem tengt er ofangreindum reikningi nr. 3727. Ekki er lengur ágreiningur um að áfrýjandi hafi notað reikning þennan, þar sem áfrýjandi lýsti því skorinort yfir við munnlegan málflutning fyrir Hæstarétti. Það verður einnig ráðið af reikningsyfirliti að áfrýjandi notaði reikninginn allt til loka apríl 2009.

Í lögum um neytendalán nr. 121/1994, sem taka til lánssamninga er lánveitandi gerir í atvinnuskyni við neytendur, er kveðið svo á að samningar um yfirdráttarheimild af tékkareikningi falli undir gildissvið laganna. Áfrýjandi hefur haldið því fram að ekki hafi verið gerður við hann sérstakur samningur um  yfirdráttarlán og því sé ekki fyrir að fara skuld hans við stefnda.

Málsástæða þessi kom fyrst fram í greinargerð áfrýjanda, sem er ólöglærður, til Hæstaréttar, en með vísan til 2. mgr. 163. gr. laga nr. 91/1991, verður um hana fjallað.

Í 3. gr. laga um neytendalán segir meðal annars að í samningi um yfirdráttarheimild af tékkareikningi svo og sambærilegum lánssamningi með breytilegum höfuðstól skuli neytanda í upphafi slíkra viðskipta veittar upplýsingar um hvaða takmörk séu á lánsupphæðinni, hverjir vextir séu og hvaða gjöld falli á lánið frá þeim tíma er gengið er frá samningi, svo og við hvaða skilyrði megi breyta þeim. Í e. lið 3. gr. segir að þar skuli jafnframt veittar upplýsingar um árlega hlutfallstölu kostnaðar við mismunandi notkun á heimildinni. Ennfremur segir í e. lið að þrátt fyrir ákvæði 5. gr. laganna, þar sem meðal annars er kveðið svo á að lánssamningur skuli gerður skriflega og fela í sér tilgreindar upplýsingar, sé heimilt að breyta yfirdráttarheimild á tékkareikningi að munnlegri beiðni neytanda. Skilmálar stefnda um debetkort, sem áfrýjandi lagði fram fyrir Hæstarétti samrýmast ákvæði e. liðar 3. gr., að því leyti að í þeim kafla skilmálanna þar sem fjallað er um yfirdráttarheimildir, kemur fram í 3. grein að reikningseigandi geti óskað eftir hækkun eða lækkun á yfirdráttarheimild með skriflegri beiðni, símtali, tölvupósti, símbréfi eða í netbanka. Reikningseigandi teljist hafa samþykkt hækkun á yfirdráttarheimild með notkun sinni á reikningnum í kjölfar hækkunar heimildar.

Af gögnum málsins verður ekki ráðið að gerður hafi verið sérstakur skriflegur samningur milli áfrýjanda og forvera stefnda um yfirdráttarheimild hins síðarnefnda. Hins vegar liggur fyrir að áfrýjandi notaði fyrrgreindan reikning, fékk send reikningsyfirlit þar sem fram komu breytilegar yfirdráttarheimildir og notaði reikninginn til samræmis við yfirdráttarheimildir hverju sinni. Hefur hann því með samfelldri notkun sinni á reikningnum allt frá stofnun hans til ársins 2009 samþykkt  þær yfirdráttarheimildir sem honum voru veittar og í gildi voru hverju sinni og skiptir engu í því sambandi þótt ekki liggi fyrir skriflegur samningur, sbr. til hliðsjónar dóm Hæstaréttar 20. september 2012 í máli nr. 36/2012.

Áfrýjanda var birt stefna í máli þessu 30. ágúst 2010. Að því sem áður segir um samfellda notkun áfrýjanda á reikningi sínum er ekki fallist á að krafa stefnda sé fyrnd.

Í áfrýjunarstefnu og greinargerð til Hæstaréttar lýsti áfrýjandi varakröfu sinni þannig að auk sýknu krefðist hann skuldajafnaðar við ætlaða gagnkröfu sína vegna tjóns sem starfsmenn Glitnis banka hf. hefðu valdið honum. Þá krafðist hann þess einnig að stefndi yrði dæmdur til að afskrifa kröfu sína á hendur áfrýjanda. Er í raun um málsástæður til stuðnings varakröfu að ræða. Með vísan til 1. mgr. 28. gr. laga nr. 91/1991 verður skuldajöfnuði hafnað, þar sem áfrýjandi hefur hvorki tilgreint fjárhæð kröfunnar né sýnt fram á að skilyrði skuldajafnaðar séu fyrir hendi.

Þá verður ekki heldur fallist á röksemdir áfrýjanda fyrir því að stefnda beri að afskrifa kröfu sína á hendur honum.

Samkvæmt öllu ofangreindu verður hinn áfrýjaði dómur staðfestur.

Áfrýjanda verður gert að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.

Áfrýjandi, Þórir Brynjúlfsson, greiði stefnda, Íslandsbanka hf., 250.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 10. apríl 2012.

Mál þetta, sem dómtekið var 14. mars sl., er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af Íslandsbanka hf., Kirkjusandi 2, Reykjavík, á hendur Þóri Brynjúlfssyni, Rekagranda 8, Reykjavík, með stefnu birtri 30. ágúst 2010.

Stefnandi gerir þær dómkröfur að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda skuld að fjárhæð 3.527.362 kr. ásamt dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 38/2001 af 3.527.362 kr. frá 15. júlí 2010 til greiðsludags. 

Þá er þess krafist að stefnandi verði dæmdur til greiðslu málskostnaðar samkvæmt mati dómsins auk virðisaukaskatts af málflutningsþóknun.

Stefndi gerir aðallega þá kröfu að málinu verði vísað frá en til vara að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda. Þá krefst stefndi þess að stefnandi verði dæmdur til greiðslu málskostnaðar að mati dómsins.

Með úrskurði héraðsdóms, dags. 6. maí 2011, var kröfu stefnda um frávísun málsins hafnað.

Málavextir

Þann 13. desember 1985 stofnaði stefndi tékkareikning nr. 3727 við útibú Útvegsbanka Íslands. Árið 1990 voru Útvegsbanki Íslands, Alþýðubanki Íslands, Iðnaðarbanki Íslands og Verslunarbanki Íslands sameinaðir undir nafninu Íslandsbanki, sem síðar var Glitnir og nú Íslandsbanki hf., kt. 491008-0160, sbr. ákvörðun fjármálaeftirlitsins, dags. 14. október 2008. Tékkareikningur stefnda er nú reikningur nr. 513-26-3727 við útibú stefnanda að Lækjargötu 12, Reykjavík.

Af hálfu stefnanda var stefnda sent milliinnheimtubréf, dags. 21. apríl 2010, þar sem þeim tilmælum var beint til hans að greiða skuldina eða semja um greiðslu hennar innan tíu daga frá dagsetningu bréfsins ella yrði reikningnum lokað og krafan send lögmanni bankans til innheimtu. Með bréfi stefnanda, dags 11. júní 2010, var stefnda á ný send áskorun sama efnis. Loks sendi stefnandi stefnda innheimtubréf, dags. 21. júlí 2010, og var þá höfuðstóll kröfunnar 3.527.362 kr. sem er stefnufjárhæð málsins.

Málsástæður og lagarök stefnanda

Stefnandi byggir kröfur sínar á meginreglum samninga- og kröfuréttar um loforð og efndir fjárskuldbindinga. Kröfu um dráttarvexti, þ.m.t. vaxtavexti, styður stefnandi við reglur III. kafla vaxtalaga nr. 38/2001, með síðari breytingum. Krafa um málskostnað styðst við 1. mgr. 130. gr. laga 91/1991 um meðferð einkamála. Krafa um virðisaukaskatt af málflutningsþóknun er reist á lögum númer 50/1988. Stefnandi er ekki virðisaukaskattskyldur og ber honum því nauðsyn til að fá dóm fyrir skatti þessum úr hendi stefnda. Varðandi varnarþing vísast til 32. gr. laga nr. 91/1991.

Málsástæður og lagarök stefnda

Stefndi gerir þá kröfu að málinu verði vísað frá dómi þar sem stefnandi sé ekki aðili að málinu og eigi ekki lögvarða kröfu á hendur stefnda. Stefndi hafi verið í viðskiptum við Glitni hf. og hafi sagt sig frá viðskiptum við stefnanda þar sem hann hafi ekki ætlað að eiga í viðskiptum við þann banka.

Stefndi segir í greinargerð sinni að ef krafa stefnanda vegna viðskipta stefnda við Glitni hf. verði viðurkennd, þá eigi hann gagnkröfu á stefnanda vegna taps á viðskiptum sínum við Glitni hf. en stefndi hafi tapað töluverðum fjármunum á þeim viðskiptum.

Einnig geri stefndi kröfu um frávísun málsins þar sem stefnandi eigi ekki lögvarða kröfu á hendur honum samkvæmt meginreglum kröfuréttarins um efndir fjárskuldbindinga og skuldbindingargildi loforða þar sem ekki hafi verið um neitt loforð eða skuldbindingu að ræða af hálfu stefnda. Hvergi sé til neinn samningur milli stefnda og stefnanda eða Glitnis hf. vegna þeirrar kröfu sem fram sé kominn. Umsókn um tékkareikning í Útvegsbanka frá árinu 1985 hafi að mati stefnda ekkert gildi þar sem efnahagsreikningi Útvegsbanka hefur fyrir löngu verið lokað og allar kröfur hans á hendur viðskiptavinum löngu uppgerðar. Útvegsbankinn sé ekki lengur lögaðili. Sú umsókn hafi ekkert gildi gagnvart meginreglum kröfuréttarins um skuldbindingargildi loforða enda beri stefnandi þær ekki fyrir sig þar sem ekki sé um neinn samning eða loforð að ræða sem gilt sé af hálfu stefnda. Ef fyrrnefnd umsókn hefði haft eitthvert gildi samkvæmt meginreglum kröfuréttarins væri hún löngu fyrnd samkvæmt ákvæðum laga um fyrningu.

Ef dómurinn álítur að stefnandi eigi kröfu á stefnda þá biður stefndi dóminn að krefjist þess að stefnandi leggi fram skjöl um öll viðskipti stefnda á öllum reikningum Glitnis hf. síðastliðinn sex ár. Ef stefnandi heldur að hann eigi kröfu á stefnda þá er honum í lófa lagið að afskrifa hana eins og hann hefur gert við marga af „vildar“viðskiptavinum sínum.

Stefndi var viðskiptavinur Glitnis hf. og stundaði viðskipti á fjármálamarkaði með milligöngu bankans. Í stuttu máli má segja að rekstur bankans hafi verið byggður á lygi og svikum eins og komið hefur fram í dagsljósið á síðustu mánuðum og vegna þess tapaði stefndi miklu fé á viðskiptum við bankann. Stefndi ætlaði sér aldrei að vera viðskiptavinur stefnanda í ljósi viðskiptasögu sinnar við Glitni hf. enda sleit hann öllum viðskiptum sínum við bankann fljótlega eftir fall hans.

Sem viðskiptavinur var stefndi með veðreikninga vegna kaupa og sölu á hlutabréfum og gerði lögformlega undirritaða samninga með ýmsum skilyrðum. Stefndi sinnti veðköllum samkvæmt samningum og tapaði stórfé á þeim viðskiptum. Má segja að öll viðskipti stefnda hafi verið byggð á sandi þar sem um hafi verið að ræða markaðsmisnotkun og bankinn logið með fulltingi greiningadeildar sinnar um ástand bankans og eigin fjármögnun. Verði hlutabréfa hafi verið haldið uppi og villandi upplýsingar gefnar um stöðu efnahagsmála. Enginn óbrjálaður fjárfestir hefði fjárfest á íslenskum hlutabréfamarkaði hefði hann vitað um stöðu mála. Er skemmst að minnast Stím-málsins sem er nú til rannsóknar.

Stefndi átti einnig fjármuni í sjóði 9 og tapaði fjármunum við fall bankans. Talað hefur verið um að helstu eigendur bankans, þ.e. stærstu hluthafar og svokallaðir skuggastjórnendur, hafi stjórnað fjárfestingarstefnu sjóðanna í gegnum sjóðsstjóra. Stefnda skilst að viðskipti með fjármuni sjóðs 9 séu í rannsókn en stefndi mun engu að síður senda formlegt erindi til ríkissaksóknara, efnahagsbrotadeildar ríkislögreglustjóra og sérstaks saksóknara og fara fram á rannsókn á málefnum hans.

Stefndi keypti hlutabréf í Icelandair þegar það var selt út úr FL group en Glitnir hf. sá um hlutabréfaútboðið. Stefndi tapaði enn og aftur fjármunum á því. Eru áhöld um að ekki hafi verið löglega staðið að því útboði og að eignir Icelandair hafi verið ofmetnar, þ.e. að verðmæti Icelandair með viðskiptavild og efnislegum eigum hafi verið metið of hátt. Það hafði í för með sér að útboðsgengið var of hátt. Stefndi keypti hlutabréf í Icelandair með lánum frá Glitni hf. sem höfðu hlutabréfin að veði. Stefndi seldi bréfin sem betur fer að eigin frumkvæði áður en gengi þeirra féll mikið en þau höfðu fallið þó nokkuð þegar stefndi seldi með þó nokkru tapi. 

Stefndi hafði samband við sérstakan saksóknara vegna fyrrnefnds hlutabréfaútboðs og mun bráðlega senda formlega beiðni um rannsókn til ríkissaksóknara, efnahagsbrotadeildar og sérstaks saksóknara og fara fram á rannsókn vegna þess.

Stefndi keypti hlutabréf í Glitni hf. þegar yfirlýsing var send frá Seðlabanka Íslands og stjórn Glitnis hf. um að íslenska ríkið ætlaði að gerast hluthafi að bankanum. Glitnir hf. var fjóra daga á markaði Kauphallar Íslands eftir þá ákvörðun og áætlað er að tap vegna kaupa á hlutabréfum í bankanum þá daga hafi verið alls 4 milljarðar. Starfsfólk eignastýringar Glitnis hf. hvatti viðskiptavini til að kaupa hlutabréf í bankanum þessa fjóra daga. Hvað gerðist síðan er á allra vitorði.

Vaknað hafa spurningar um ábyrgð stjórnenda Glitnis hf., Þorsteins Más Vilhelmssonar stjórnarformanns, o.fl., stjórnenda Seðlabanka Íslands, Davíðs Oddssonar o.fl., og forsvarsmanna ríkisins, þeirra Geirs Haarde, Árna Mathiesen og Björgvins Sigurðssonar. Sú ábyrgð varðar annars vegar upplýsingagjöf stjórnar Glitnis hf. til stjórnar Seðlabankans og fyrrnefndra ráðherra og hins vegar embættisfærslu fyrrnefndra ráðherra og seðlabankastjóra en áhöld eru um að þeir hafi gerst sekir um vanrækslu þar sem þeir skoðuðu ekki stöðu bankans nógu vel.

Einnig hafa vaknað spurningar um ábyrgð Fjármálaeftirlitsins og Kauphallar Íslands að því er varðar hvort Glitnir hf. hafi yfirhöfuð átt að vera á markaði kauphallarinnar þessa fjóra daga.

Stefndi tapaði fjármunum á kaupum á hlutbréfum í Glitni hf. þessa fjóra daga. Stefndi hefur í hyggju að senda erindi til ríkissaksóknara, efnahagsbrotadeildar ríkislögreglustjóra og sérstaks saksóknara og biðja um formlega rannsókn.

Stefndi tók lán hjá Glitni hf. árið 2006 fyrir um 30% af andvirði bifreiðar sem hann keypti. Stefndi hugðist staðgreiða bifreiðina en var bent á að það væri snjallræði að taka svokallað myntkörfulán og nota þá fjármuni sem hann ætti í hlutabréfakaup, það myndi örugglega skila sér í hagnaði fyrir hann sem viðskiptavin. Hlutabréfin hurfu, krónan lækkaði og lánið tvöfaldaðist. Vaknað hafa spurningar um hvort Glitnir hf. og fleiri bankar hafi tekið stöðu gegn krónunni og valdið falli hennar og þar með unnið gegn hagsmunum stefnda og fleiri viðskiptavina.

Eftir dóma Hæstaréttar í málum nr. 92/2010 og 153/2010 hætti stefnandi að senda stefnda greiðsluseðla og viðurkenndi í raun fordæmisgildi dómanna. Stefndi sendi stefnanda greiðsluáskorun þar sem hann fór fram á að stefnandi leiðrétti höfuðstól lánsins í samræmi við dóminn, þ.e. gengistryggingin yrði felld úr gildi og stefnandi sendi stefnda greiðsluseðla með samningsvöxtum.

Einnig sendi stefndi stefnanda áskorun um að fá að greiða upp lánið miðað við dóma Hæstaréttar frá 16. júní 2010. Stefnandi varð við hvorugri áskoruninni. Stefndi lítur þannig á að hann eigi rétt á báðu fyrrgreindu miðað við dóma Hæstaréttar og 36. gr. samningalaga sem heimilar að samningi sé vikið til hliðar að hluta til.

Stefndi hyggst stefna stefnanda fljótlega vegna þessarar synjunar að viðlögðum skaðabótum þar sem erfitt sé að selja bifreiðina.

Af þessari upptalningu sést að það hallar á þrotabú Glitnis hf. eða á stefnanda í viðskiptum hans og stefnda ef krafa stefnanda verður tekin til greina. Stefndi hefur tapað umtalsverðum fjármunum vegna „leiðsagnar bankans“ í fjármálum. Upphæð sú hleypur á nokkrum milljónum.

Í viðbót við að hafa tekið stöðu gegn krónunni, hafi það komið fram að starfsfólk bankans virðist hafa vitað af ólögmæti svokallaðra myntkörfulána og spurningar hafa vaknað um það hvort nokkur viðskipti með erlenda gjaldmiðla hafi átt sér stað að baki myntkörfulánunum. Einnig hafa vaknað spurningar um að hve miklu leyti stefnandi hafi afskrifað lán, þar með talin myntkörfulán, sem færð voru úr Glitni hf. en stefnandi innheimtir að fullu, þ.e. að upprunalegu verðgildi. Vonandi geti stjórnendur stefnanda svarað þessum spurningum þegar þeir verða kallaðir til vitnis og leitt í ljós hve miklu stefndi hafi í raun tapað á viðskiptum við Glitni hf. og stefnanda. Einnig geti þeir svarað hve mikla fjármuni stefnandi hafi afskrifað og hjá hverjum.

Ef krafa stefnda á hendur stefnanda, sem átti öll sín viðskipti við Glitni hf., verður viðurkennd verður stefnandi að axla þær skyldur og ábyrgð sem Glitnir hf. hafði gagnvart stefnda. Því á skuldajöfnun augljóslega við ef því er að skipta. Þar sem stefndi hefur verið við vinnu erlendis í leiguflugi, en hann er flugstjóri hjá Icelandair, hefur hann ekki haft tíma til að safna saman öllum gögnum er varða viðskipti sín hjá Glitni hf. Stefndi mun leggja þau fram síðar en gerir um leið kröfu um að stefnandi leggi einnig fram þau gögn frá árunum 2004 til 2010.

Stefndi mun kalla vitni fyrir dóm til að sýna og sanna hvernig stjórnendur og yfirmenn bankans unnu gegn stefnda sem viðskiptavini og ollu honum skaða langt umfram kröfu stefnanda. Í raun má segja að stefna og kröfugerð bankans sé einelti og áreiti af hendi stefnanda og áskilur stefndi sér rétt til að kæra stefnanda fyrir þær sakir.

Stefndi byggir á því að ekki sé til neinn löggerningur sem hefur falinn í sér loforð af hálfu stefnda við stefnanda er varða framkomna kröfu. Stefnandi byggir ekki kröfu sína á meginreglu kröfuréttarins um efndir fjárskuldbindinga eða skuldbindingargildi loforða því að ekki er til nein lögvarin heimild af hálfu stefnanda til að krefja stefnda um greiðslu. Ef stefnandi ætti lögvarða kröfu á hendur stefnda þá myndi stefndi krefjast skuldajafnaðar þar sem hann sannanlega tapaði á viðskiptum við Glitni hf. vegna svika og lyga, eins og kemur fram hér að framan, en stefnandi álítur að hann eigi hlut að máli sem í raun á uppruna sinn í Glitni hf. Því hlýtur stefndi að eiga, með gagnályktun, kröfu á hendur stefnanda um skuldajöfnun ef dómurinn álítur að um lögvarða kröfu sé að ræða. Skuldajöfnun ætti sannanlega rétt á sér ef þrotabú Glitnis hf. gerði kröfu um greiðslu á þeirri upphæð sem stefnt er fyrir. Sú umsókn um tékkareikning sem stefnandi leggur fram hefur ekkert gildi að lögum þar sem Útvegsbanki er ekki lögaðili og það stofnar ekki stefnanda kröfurétt að lögum. Ef umsókn um tékkareikning hefði eitthvert kröfuréttarlegt gildi væri sú krafa löngu fyrnd. Ef tómlæti, Glitnis hf., og/eða stefnanda, við að krefjast loforðs af stefnda hefur valdið réttarspjöllum er það á ábyrgð stefnanda.

Niðurstaða

Óumdeilt er að stefndi stofnaði tékkareikning í Útvegsbankanum 13. desember 1985 og liggur fyrir umsókn stefnda um stofnun reikningsins.

Árið 1990 voru Útvegsbanki Íslands, Alþýðubanki Íslands, Iðnaðarbanki Íslands og Verslunarbanki Íslands sameinaðir undir nafni Íslandsbanka, sem síðar var Glitnir hf. og nú Íslandsbanki hf., kt. 491008-0160, sbr. ákvörðun fjármálaeftirlitsins, dags. 14. október 2008. Í  1. gr. ákvörðunarinnar segir að öllum eignum Glitnis banka hf., hverju nafni sem þær nefnast, svo sem fasteignum, lausafé, reiðufé, eignarhlutum í öðrum félögum og kröfuréttindum sé þegar í stað ráðstafað til Nýja Glitnis banka hf., sem síðar varð Íslandsbanki hf. Í 2. gr. segir að Nýi Glitnis banki hf. taki jafnframt við öllum tryggingarréttindum Glitnis banka hf., þ.m.t. öllum veðréttindum, ábyrgðum og öðrum sambærilegum réttindum sem tengjast kröfum bankans. Sú ákvörðun var tekin með heimild í 100. gr. a laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, sbr. 5. gr. laga nr. 125/2008 um fjárveitingar úr ríkissjóði vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði o.fl.

Úr sambærilegu álitaefni var leyst með dómi Hæstaréttar í máli nr. 567/2011. Af hálfu stefnda hafa ekki verið lögð fram haldbær rök til að vikið verði frá því fordæmi sem sett var með þeim dómi Hæstaréttar. Samkvæmt því og með vísan til ofangreinds dóms telur dómari að krafa sú sem hér er deilt um sé eign stefnanda og hann réttur aðili málsins.

Fyrir liggur að stefndi hefur verið eigandi reikningsins frá stofnun hans. Stefndi byggir á því að hann hafi ekki valið að vera í viðskiptum við stefnanda og hafi því tilkynnt honum að hann ætlaði að hætta þeim viðskiptum. Fyrir liggur bréf stefnda, dags. 10. desember 2009, þar sem hann ítrekar, og vísar í fyrra bréf, að viðskiptum hans við stefnanda sé lokið nema hvað varðar bílasamning og óskar eftir því að 38.205 kr. sem lagðar voru inn á reikning 0513-26-3727 fyrir mistök verði lagðar inn á annan reikning stefnda í öðrum banka.

Framlögð gögn bera með sér að til skuldarinnar hafi stofnast vegna notkunar stefnda á reikningnum. Samkvæmt framlögðu reikningsyfirliti, dags. 24. ágúst 2010, var stefndi í lok desember 2009 í skuld á reikningum að fjárhæð 3.224.224 kr.

Í greinargerð stefnda mótmælir hann ekki fjárhæð kröfunnar né heldur því að hafa notað umræddan reikning. Í málflutningi stefnda hélt hann því fyrst fram að af hálfu stefnanda hefði aldrei verið sýnt fram á að stefndi hafi notað reikninginn en það bæri stefnanda að sanna. Af hálfu stefnanda var málsástæðu þessari mótmælt þar sem hann taldi hana of seint fram komna.

Samkvæmt 2. mgr. 99. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála skulu málsástæður koma fram í greinargerð og samkvæmt 5. mgr. 105. gr. laganna skulu málsástæður og mótmæli koma fram jafnskjótt og tilefni verður til. Stefndi hefði getað komið málsástæðu þessari að í greinargerð og er það því mat dómarans, með hliðsjón af nefndum lagaákvæðum, að málsástæða þessi sé of seint fram komin og því verði ekki á henni byggt.

Í málflutningi stefnda kom einnig fram að hann teldi að ekki hafi verið gert ráð fyrir yfirdrætti á reikningnum og ekki hafi verið krafist ábyrgðarmanna vegna notkunar á reikningnum  og því verði hann ekki dæmdur til greiðslu dómkröfunnar. Var þessu mótmælt af hálfu stefnanda sem benti á að ekki væri þörf á ábyrgðarmönnum og að reikningseigendur bæru sjálfir ábyrgð á notkun reikningi sínum.

Af hálfu stefnda var þessari málsástæðu ekki hreyft í greinargerð og ber því með vísan til sömu raka og getið er um hér að ofan að telja að ofangreind málsástæða sé of seint fram komin.

Stefndi byggir einnig á því að krafa stefnanda sé fyrnd og vísar til þess að tékkareikningurinn var stofnaður 1985. Stefndi hefur notað reikninginn samfellt síðan hann var stofnaður og til ársloka 2009 þrátt fyrir breytingar sem orðið hafa á formi reikningsins og fjármálastofnuninni sem hafði reikninginn í vörslum sínum. Eins og fyrr hefur verið rakið var stefnda þann 30. ágúst 2010 birt stefna vegna kröfunnar. Ekki er því fallist á það með stefnda að krafa stefnanda sé fyrnd.

Stefndi krefst þess að verði krafa stefnanda tekin til greina þá verði henni skuldajafnað við kröfur stefnda á hendur stefnanda. Af hálfu stefnanda hefur því verið mótmælt þar sem ekkert hafi komið fram um fjárhæð krafnanna. Í greinargerð stefnda segir hann að vonandi geti stjórnendur stefnanda svarað spurningum um viðskipti stefnanda og stefnda þegar þeir verði kallaðir til vitnis og leitt í ljós hve miklu stefndi hefur í raun tapað á viðskiptum við Glitni hf. og stefnanda. Með úrskurði héraðsdóms, dags. 17. nóvember 2011, vegna ágreinings um vitnaleiðslur, var fjallað um kröfu stefnda um að leidd yrðu fyrir dóminn níu vitni, m.a. fyrrverandi stjórnarmenn og starfsmenn Glitnis hf. Með úrskurðinum var kröfu stefnanda hafnað en þar segir m.a. í niðurstöðu: „Enginn þeirra, að undanskildum þeim Birnu Einarsdóttur og Hannesi Guðmundssyni, sem hafa aðilastöðu í málinu, hefur þau tengsl við sakarefni málsins, að þýðingu geti haft fyrir úrlausn þess. Þá verður ekki talið að sú sönnunarfærsla hafi þýðingu að því er gagnkröfu stefnda í málinu varðar, eins og málatilbúnaði stefnda í þeim efnum er háttað.“

Samkvæmt 1. mgr. 28. gr. laga nr. 91/1991 er varnaraðila rétt að hafa uppi gagnkröfu til skuldajafnaðar í máli án þess að gagnstefna ef skilyrði fyrir skuldajöfnuði eru fyrir hendi. Gagnkrafan skal þá höfð uppi í greinargerð en sjálfstæður dómur getur ekki gengið um hana.

Stefndi lýsir því í greinargerð að hann telji sig eiga kröfur á hendur stefnanda vegna taps sem hann hafi orðið fyrir í viðskiptum við stefnanda, m.a. með hlutabréf. Af hálfu stefnda hafa verið lögð fram gögn vegna viðskipta hans við stefnanda. Ekki verður af málatilbúnaði stefnda séð á hvaða grundvelli kröfurnar eru reistar né heldur hver fjárhæð þeirra er utan þess að stefndi telur að þær nemi milljónum. Þegar að ofangreindum ástæðum eru ekki skilyrði til skuldajafna kröfu stefnanda og kröfum stefnda á hendur stefnanda.

Þær varnir sem fram hafa verið færðar af hálfu stefnda geta ekki leitt til sýknu af kröfu stefnanda.

Með vísan til ofangreinds er því fallist á kröfu stefnanda eins og hún er sett fram með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla laga nr. 38/2001 eins og greinir í dómsorði.

Eftir þessari niðurstöðu ber stefnda að greiða stefnanda málskostnað sem telst hæfilega ákveðinn 300.000 kr. og hefur þá verið tekið tillit til virðisaukaskatts og þess að málið hefur áður verið flutt um frávísunarkröfu og um ágreining um vitnaleiðslur.

Sigríður Elsa Kjartansdóttir, settur héraðsdómari, kvað upp dóminn.

D Ó M S O R Ð

Stefndi, Þórir Brynjúlfsson, greiði stefnanda, Íslandsbanka hf., 3.527.362 kr. auk dráttarvaxta samkvæmt III. kafla laga nr. 38/2001 frá 15. júlí 2010 til greiðsludags.

Stefndi greiði stefnanda 300.000 kr. í málskostnað.

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 6. maí 2011.

Mál þetta, sem tekið var til úrskurðar 14. mars sl., að loknum munnlegum málflutningi um frávísunarkröfu stefnda, er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af Íslandsbanka hf., Kirkjusandi 2, Reykjavík, vegna Íslandsbanka hf. útibús, Lækjargötu 12, Reykjavík, gegn Þóri Brynjúlfssyni, Rekagranda 8, Reykjavík, með stefnu, birtri 30. ágúst 2010.

Dómkröfur stefnanda eru þær að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda skuld að fjárhæð 3.527.362 kr. ásamt dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 38/2001, af 3.527.362 kr. frá 15. júlí 2010 til greiðsludags. Þá er krafist málskostnaðar samkvæmt mati dómsins auk virðisaukaskatts af málflutningsþóknun.

Dómkröfur stefnda eru þær að málinu verði vísað frá dómi.

Í þessum þætti málsins er til meðferðar krafa stefnda um frávísun málsins.

Stefnandi krefst þess að frávísunarkröfu stefnda verði hrundið og að málið verði tekið til efnismeðferðar.

Málsástæður stefnanda

Í stefnu segir að stefndi hafi stofnað tékkareikning nr. 3727 við útibú Útvegsbanka Íslands hinn 13. desember 1985. Útvegsbanki Íslands hafi á árinu 1990 verið sameinaður Alþýðubanka Íslands, Iðnaðarbanka Íslands og Verslunarbanka Íslands undir nafninu Íslandsbanki, síðar Glitnir hf., nú Íslandsbanki hf., sem hafi yfirtekið skuld stefnda, sbr. ákvörðun fjármálaeftirlitsins, dags. 14. október 2008. Tékkareikningur 3727 sé nú tékkareikningur 513-26-3727 við útibú stefnanda Lækjargötu 12, Reykjavík. Hinn 15. júlí 2010 námu innistæðulausar færslur á reikningnum 3.527.362 kr.  Var reikningum þá lokað. Áður hafði stefnda verið send milliinnheimtubréf, dags. 21. apríl 2010 og tilkynning um löginnheimtu, dags. 11. júní 2010. Skuld þessi hafi ekki fengist greidd þrátt fyrir innheimtutilraunir og sé því nauðsynlegt að höfða mál til greiðslu hennar.

Kröfur um dráttarvexti, þ.m.t. vaxtavexti, styður stefnandi við reglur III. kafla vaxtalaga nr. 38/2001 með síðari breytingum. Krafan um málskostnað sé studd við 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um  meðferð einkamála. Krafa um virðisaukaskatt af málflutningsþóknun sé reist á lögum nr. 50/1988. Stefnandi sé ekki virðisaukaskattskyldur og beri honum því nauðsyn til að fá dóm fyrir skatti þessum úr hendi stefnda. Varðandi varnarþing er vísað til 32. gr. nr. 91/1991. Stefandi byggir kröfur sínar á meginreglum samninga- og kröfuréttar um loforð og efndir fjárskuldbindinga.

Málsástæður stefnda vegna kröfu um frávísun

Stefndi byggir frávísunarkröfu sína á því að Íslandsbanki hf. sé ekki aðili að þessu máli og eigi ekki lögvarða kröfu á hendur stefnda. Hvergi sé til samningur milli stefnda og Íslandsbanka hf. eða Glitnis hf. vegna þeirrar kröfu sem fram sé komin. Stefndi telur að umsókn um tékkareikning í Útvegsbanka Íslands frá árinu 1985 hafi ekkert gildi þar sem efnahagsreikningi Útvegsbanka Íslands hafi fyrir löngu verið lokað og allar kröfur hans á hendur viðskiptavinum löngu uppgerðar. Útvegsbanki Íslands sé ekki lengur lögaðili. Þá sé krafan löngu fyrnd. Þá telur stefndi, eins og rakið er í greinargerð hans, að hann eigi kröfu á hendur Íslandsbanka vegna taps í viðskiptum við Glitni hf. Stefndi hafi verið viðskiptavinur Glitnis hf. og stundað viðskipti á fjármálamarkaði með milligöngu bankans og tapað miklu fé á viðskiptum og „leiðsögn bankans“ í fjármálum.

Niðurstaða

Stefndi byggir frávísunarkröfu sína á því að stefnandi eigi ekki lögvarða kröfu á hendur sér.

Krafa stefnanda er vegna yfirdráttar á tékkareikningi nr. 513-26-3727 hjá stefnanda. Eins og rakið er í stefnu  stofnaði stefndi tékkareikning nr. 3727 upphaflega við útibú Útvegsbanka Íslands í desember 1985, en Útvegsbanki Íslands, Alþýðubanki Íslands, Iðnaðarbanki Íslands og Verslunarbanki Íslands voru sameinaðir á árinu 1990 undir nafninu Íslandsbanki, síðar Glitnir hf. Með ákvörðun fjármálaeftirlitsins, dags. 14. október 2008, hefur stefnandi, Íslandsbanki hf., yfirtekið yfirdráttarskuldina. Stefnandi hefur lögvarða hagsmuni af því að fá úr dómkröfu sinni skorið fyrir dómi og engir annmarkar eru á kröfunni sem valda því að stefndi eigi erfitt með að verjast henni eða dómstóll með að taka afstöðu til hennar. Varnir sem stefndi hefur uppi um aðildarskort, um gildi umsóknar um stofnun tékkareiknings og fyrningu, svo og málsástæður sem að gagnkröfu hans í málinu lúta varða úrlausn málsins við efnislega meðferð þess, en leiða ekki til frávísunar. Ber því að hafna kröfu stefnda um frávísun málsins, en ákvörðun um málskostnað bíður efnisdóms.

Eggert Óskarsson héraðsdómari kvað upp úrskurð þennan

Ú R S K U R Ð A R O R Ð:

Kröfu stefnda, Þóris Brynjúlfssonar, um frávísun máls þessa er hafnað.

Málskostnaður bíður efnisdóms.