Print

Mál nr. 512/2015

Bjarney Guðrún Ólafsdóttir, Ólafur Þór Jónsson og Sigríður Jónsdóttir (Ásgerður Ragnarsdóttir hrl.)
gegn
Landsneti (Þórður Bogason hrl.) og íslenska ríkinu (Fanney Rós Þorsteinsdóttir hrl.)
Lykilorð
  • Eignarnám
  • Fasteign
  • Raforka
  • Umhverfismat
  • Stjórnarskrá
  • Friðhelgi eignarréttar
  • Meðalhóf
  • Rannsóknarregla
  • Stjórnsýsla
  • Sératkvæði
Reifun

Í málinu kröfðust B, Ó og S þess að ógilt yrði ákvörðun iðnaðar- og viðskiptaráðherra frá árinu 2014 um annars vegar heimild L hf. til að framkvæma eignarnám til ótímabundinna afnota vegna lagningar 220 kV háspennulínu, svonefndrar Suðurnesjalínu 2, um jörð þeirra í Vogum á Vatnsleysuströnd og hins vegar um þinglýsingu á nánar tilgreindri kvöð á jörðina. Reistu B, Ó og S kröfu sína á því að ekki væri fullnægt skilyrði um almenningsþörf og meðalhóf fyrir framkvæmdunum, auk þess sem ráðherra hefði ekki sinnt rannsóknarskyldu sinni áður en tekin hefði verið ákvörðun um að heimila eignarnám. Loks hefði L hf. brotið gegn skyldu sinni til samráðs við B, Ó og S vegna framkvæmdanna og andmælaréttur þeirra ekki verið virtur við meðferð málsins. Í dómi Hæstaréttar kom fram að undirbúningur framkvæmdanna hefði farið eftir formlega lögboðnu ferli. Hefðu til að mynda verið haldnir kynningarfundir, fjallað hefði verið um væntanlegar framkvæmdir hjá sveitarstjórnum og tillögur L hf. sætt meðferð hjá Skipulagsstofnun og Orkustofnun. Á hinn bóginn var fallist á með B, Ó og S að L hf. hefði ekki rannsakað sem skyldi þann kost að leggja línuna í jörðu en ekki í lofti, eins og eignarnámsbeiðnin hafði kveðið á um. Talið var að B, Ó og S og aðrir landeigendur hefðu með rökum ítrekað andmælt þeim gögnum sem L hf. hefði vísað til um nauðsyn línulagnar í lofti. Jafnframt hefðu þeir lagt fram gögn sem sýna áttu að jarðstrengir væru raunhæfur kostur og rökstutt þörf á að kanna hann til þrautar áður en ráðist væri í stórvægilegar aðgerðir. Þrátt fyrir þetta hefði L hf. við undirbúning framkvæmdanna ekki látið fara fram sérstaka athugun á þeim möguleika að leggja jarðstreng, heldur hefði hann einkum vísað til almennra sjónarmiða um kosti og galla slíkra strengja. Þá hefði ráðherra ekki haft forgöngu um að þetta atriði yrði sérstaklega athugað áður en hann tók ákvörðun um að heimila eignarnám. Samkvæmt framansögðu og með hliðsjón af 1. mgr. 72. gr. stjórnarskrárinnar og meðalhófsreglu stjórnskipunarréttar, sbr. og 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, var fallist á kröfur B, Ó og S.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Eiríkur Tómasson, Greta Baldursdóttir, Ólafur Börkur Þorvaldsson og Viðar Már Matthíasson.

Áfrýjendur skutu málinu til Hæstaréttar 7. ágúst 2015. Þau krefjast þess að ógilt verði ákvörðun iðnaðar- og viðskiptaráðherra 24. febrúar 2014 um annars vegar heimild stefnda Landsnets hf. til að framkvæma eignarnám til ótímabundinna afnota vegna lagningar 220 kV háspennulínu, svonefndrar Suðurnesjalínu 2, á landi undir 437 metra langt og tæplega 46 metra breitt háspennulínubelti, samtals 179 metra langa og 6 metra breiða vegslóða og tvö burðarmöstur á jörð áfrýjenda, Stóra Knarrarnesi I, landnúmer 130884, í Vogum á Vatnsleysuströnd og hins vegar um þinglýsingu á nánar tilgreindri kvöð á jörðina. Þá krefjast þau þess að kvöð þessi sem þinglýst var 1. apríl 2014 verði afmáð úr þinglýsingarbókum. Loks krefjast áfrýjendur málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti óskipt úr hendi stefndu.

Stefndu krefjast hvor fyrir sitt leyti staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

I

Eins og greinir í hinum áfrýjaða dómi stendur deila málsaðila um þá ákvörðun iðnaðar- og viðskiptaráðherra 24. febrúar 2014 að heimila stefnda Landsneti hf. að framkvæma eignarnám vegna lagningar 220 kV háspennulínu um Stóra Knarranes I, en áfrýjendur eru þrír af eigendum jarðarinnar og jafnframt eigendur Heiðarlands Vogajarða sem einnig sætti á sama tíma eignarnámi að hluta vegna umræddra framkvæmda.

Gögn málsins bera með sér að undirbúningur að framkvæmdum hafi staðið í langan tíma. Þannig sendi stefndi Landsnet hf. 9. nóvember 2007 bréf til áfrýjandans Ólafs undir heitinu „Undirbúningur framkvæmda við raforkuflutningskerfið á Reykjanesskaga“. Þar var því lýst að stefndi hefði hafið undirbúning framkvæmda til styrkingar á raforkuflutningskerfinu á Reykjanesskaga. Var tilgreint að samráð hefði hafist við sveitarfélög á svæðinu og þess getið að framkvæmdirnar væru matsskyldar samkvæmt lögum nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum og stæði undirbúningur matsvinnu yfir. Var boðað að fulltrúar stefnda Landsnets hf. myndu kynna betur framlagðar tillögur um framkvæmdir og bent á að unnt væri að fá frekari upplýsingar um málefnið hjá tilgreindum starfsmönnum stefnda. Þá var tilkynnt að síðar yrði leitað formlegs leyfis landeigenda um afnot lands. Bréfinu fylgdi yfirlitskort sem sýndi mismunandi mögulegar línuleiðir og var vísað til þess að nánari upplýsingar um framkvæmdirnar myndu verða aðgengilegar á heimasíðum stefnda og Línuhönnunar hf. verkfræðistofu, sem hefði umsjón með mati á umhverfisáhrifum framkvæmdanna í samstarfi við verkfræðistofuna AFL og Landmótun sf.

Stefndi Landsnet hf. hafði áður sent sveitarfélaginu Vogum erindi 11. júlí 2007 með ósk um „að ákveðnir valkostir um uppbyggingu raforkuflutningskerfisins á Reykjanesi yrðu teknir til umfjöllunar og hafinn yrði nauðsynlegur undirbúningur að breytingum á aðalskipulagi.“ Í öðru bréfi stefnda til sveitarfélagsins 25. febrúar 2008 var vísað til þess að „nú þegar er verkefnið orðið mjög aðþrengt í tíma“ og farið fram á að „niðurstaða varðandi skipulagsmálin“ fengist við fyrsta tækifæri en lægi hún ekki fyrir innan mánaðar myndi það raska áformum um uppbyggingu verkefna á Reykjanesskaga. Í bréfinu sagði: „Lagt er til að nýjar línur verði reistar meðfram núverandi Suðurnesjalínu 1 frá Hafnarfirði að nýju tengivirki á Njarðvíkurheiði, líkt og kynnt hefur verið fyrir sveitarfélaginu. Landsnet leggur til að háspennukerfið verði byggt til reksturs á 400 kV spennu að Kúagerði og þaðan sem 220 kV háspennukerfi að aðveitustöð á Njarðvíkurheiði. Hluti af fyrirhuguðum framkvæmdum við háspennulínurnar er að leggja ljósleiðara meðfram þeim innan áhrifasvæðis þeirra. Aðveitustöð á Njarðvíkurheiði mun koma í stað tengivirkis á Rauðamel m.a. í þeim tilgangi að einfalda og minnka umfang flutningsmannvirkja fyrir raforku á þessu svæði. Þá er fyrirhugað að fjarlægja Suðurnesjalínu 1 frá Hamranesi að Njarðvíkurheiði sem mótvægisaðgerð.“

Í mars 2008 skilaði Almenna verkfræðistofan hf. greinargerð fyrir Suðurlindir ehf. í kjölfar ódagsettrar greinargerðar stefnda Landsnets hf. um „Fyrirhugaðar háspennulínur í landi Voga“ með þeirri meginniðurstöðu að gerð var „athugasemd við þá staðhæfingu Landsnets að jarðstrengur sé ekki raunhæfur valkostur.“

Í lok árs 2008 bárust stefnda Landsneti hf. athugasemdir og andmæli við lagningu línunnar um fyrirhugað svæði, ásamt ábendingum um að hana mætti leggja í jörð. Slíkar athugasemdir munu þó ekki hafa borist frá áfrýjendum.

Hinn 27. janúar 2009 sendi stefndi Landsnet hf. tillögu sína að matsáætlun til Skipulagsstofnunar samkvæmt 8. gr. laga nr. 106/2000. Með vísan til framangreinds ákvæðis sendi Skipulagsstofnun stefnda Landsneti hf. bréf 26. mars sama ár þar sem kynnt var niðurstaða stofnunarinnar. Undir kaflanum „framkvæmdasvæði og kostir“ sagði meðal annars: „Í kafla 2.2.2 í tillögu að matsáætlun er fjallað um jarðstrengi. Skipulagsstofnun vill leggja áherslu á að í frummatsskýrslu þurfi að koma fram samanburður á áhrifum af lagningu háspennulínu sem loftlínu eða sem jarðstrengs á hina mismunandi umhverfisþætti, auk fyrirætlana Landsnets um samanburð hvað varðar kostnaðar- og rekstrarþætti.“

Skipulagsstofnun óskaði 18. maí 2009 eftir umsögn Umhverfisstofnunar um frummatsskýrslu stefnda Landsnets hf. og veitti síðarnefnda stofnunin umsögn sína 25. júní það ár með þeirri niðurstöðu að frummatsskýrslan væri „mjög ýtarleg“. Þóttu ekki líkur á því að styrking suðvesturlína myndi hafa umtalsverð umhverfisáhrif í för með sér ef gætt yrði að tilteknum atriðum. Þá um sumarið bárust stofnuninni athugasemdir landeigenda við frummatsskýrsluna þar sem meðal annars kom fram sú ósk að háspennulínurnar yrðu lagðar í jörð.

Hinn 10. ágúst 2009 gaf stefndi Landsnet hf. út endanlega matsskýrslu þar sem fyrirhuguðum framkvæmdum og línuleiðum var lýst og mat lagt á áhrif framkvæmda á þá umhverfisþætti sem tilgreindir höfðu verið í matsáætlun. Í skýrslunni var að finna samanburð á lagningu loftlína og jarðstrengja þar sem kom meðal annars fram að háspennulínur með meira en 100 kV spennu væru almennt lagðar sem loftlínur, en dæmi væru þó um að slíkar línur væru lagðar sem jarðstrengir, aðallega vegna mikilla umhverfishagsmuna eða af öryggisástæðum. Helstu kostir jarðstrengja umfram loftlínur væru minni sjónræn áhrif og minna „byggingarbann“, auk þess sem þeir væru óháðir ýmsum ytri þáttum eins og ísingu, vindálagi og áflugi fugla. Vankantar þeirra væru á hinn bóginn margfalt meiri kostnaður, sem ykist eftir því sem kröfur um flutningsgetu væru meiri, erfiðari bilanaleit og lengri viðgerðartími, meira jarðrask, styttri endingartími, minna þol vegna svokallaðrar yfirlestunar og minni sveigjanleiki við endurnýjun. Þá kom fram að til að uppfylla lagalegar skyldur sínar hefði stefndi Landsnet hf. markað sér þá stefnu að leggja meginflutningslínur með mikilli flutningsgetu sem loftlínur, bæði til að tryggja afhendingaröryggi raforku og einnig til að halda niðri kostnaði við uppbyggingu og rekstur. Í sérstökum kafla um samanburð á kostnaði milli loftlína og jarðstrengja sagði að sú skylda væri lögð á stefnda Landsnet hf. samkvæmt 9. gr. raforkulaga nr. 65/2003 að byggja flutningskerfið upp á hagkvæman hátt að teknu tilliti til öryggis, skilvirkni, áreiðanleika afhendingar og gæða raforku. Til að uppfylla þessa skyldu væri ávallt reynt að halda kostnaði við uppbyggingu og rekstur flutningskerfisins í lágmarki. Þá sagði: „Ef bera á saman kostnað við jarðstrengi og loftlínur af einhverri nákvæmni þá er nauðsynlegt að gera það á grundvelli hvers verkefnis fyrir sig þar sem aðstæður geta verið mjög mismunandi. Þannig er t.d. mjög dýrt að fara með jarðstrengslögn í gegnum hraunasvæði en kostnaður við loftlínu á slíku svæði þarf ekki að vera hár.“

Hinn 17. september 2009 gaf Skipulagsstofnun út álit sitt um mat á umhverfisáhrifum hinna fyrirhuguðu framkvæmda. Stofnunin taldi að neikvæðustu áhrifin yrðu sjónræn, áhrif á landslag og þar með einnig á útivist og ferðaþjónustu. Yrðu heildaráhrif þessara framkvæmda óhjákvæmilega verulega neikvæð. Um væri að ræða umfangsmiklar framkvæmdir þar sem fyrirhugað væri að reisa 500 ný möstur og leggja milli 180 og 190 km af loftlínum og um 50 km af jarðstrengjum. Áhrifasvæði línanna myndi liggja á löngum köflum um svokallað hverfisverndarsvæði, svæði sem væru á náttúruminjaskrá og fólkvanga og í grennd við fjölförnustu þjóðvegi landsins. Umfang raforkulína og mastra myndi aukast talsvert miðað við núverandi aðstæður þegar á heildina væri litið. Þá yrðu heildaráhrif á jarðmyndanir, gróður og fuglalíf talsvert neikvæð. Taldi Skipulagsstofnun að við leyfisveitinguna þyrfti að setja skilyrði um vöktun.

Stefndi Landsnet hf. gaf út skýrslu ársetta 2009 sem unnin var af EFLA verkfræðistofu um „Notkun jarðstrengja í flutningskerfum raforku“. Í henni var fjallað með almennum hætti um jarðstrengslagnir í flutningskerfum raforku, farið í gegnum nokkur undirstöðuatriði um hönnun slíkra lagna og framkvæmdir, skýrt hvaða atriði kæmu upp við hönnun þeirra og greint frá lausnum. Þá var fjallað um hvernig kostnaður við jarðstrengslagnir kæmi til og um umhverfisþætti þeirra auk þess sem gerður var samanburður við lagningu loftlína. Loks var umfjöllun um notkun jarðstrengja í raforkukerfum almennt.

Sumarið 2009 gerðu nokkrir landeigendur á Vatnsleysuströnd athugasemdir við tillögu um breytingu á aðalskipulagi sveitarfélagsins Voga 2008-2028 vegna áætlana um lagningu háspennulína um lönd innan sveitarfélagsins. Var þar meðal annars bent á að samanburður stefnda Landsnets hf. á kostnaðarmun á jarðstreng og línumöstrum væri ekki réttur og nú gæti verið ódýrara að leggja jarðstreng. Í umsögn umhverfis- og skipulagsnefndar sveitarfélagsins í tilefni af athugasemdunum kom fram að sveitarstjórnin hefði, án árangurs, eytt mikilli orku og tíma í viðræðum við stefnda Landsnet hf. um lagningu jarðstrengja, einkum vegna kostnaðarsjónarmiða og flutningsöryggis. Vísaði nefndin til samkomulags sem sveitarfélagið gerði við stefnda Landsnet hf. 17. október 2008 sem gekk meðal annars út á það að lágmarka umhverfisáhrif og tryggja að línurnar yrðu lagðar í jörð, myndu forsendur fyrir lagningu slíkra lína breytast, svo sem vegna skipulagsmála sveitarfélagsins í framtíðinni. Loks kom fram í umsögninni að þó nefndin tæki í raun undir sjónarmið landeigenda um að heppilegra væri að allar línur lægju í jörðu þá væri ekki hægt að verða við slíkri kröfu.

Með bréfum stefnda Landsnets hf. í apríl 2011 mun öllum landeigendum sem málið varðaði hafa verið tilkynnt að Skipulagsstofnun hefði fallist á mat á umhverfisáhrifum framkvæmdanna með skilyrðum um vöktun. Þar sagði að áætlanir stefnda samræmdust samþykktum sveitarfélaganna um að fylgja í megindráttum háspennulínum sem fyrir væru. Óskaði stefndi eftir því að hefja samningaviðræður við landeigendur vegna framkvæmdanna. Haldnir voru fundir með landeigendum, þar á meðal tveir fundir með eigendum Knarrarnesjarða, fyrst 14. júní 2011 og svo sama dag ári síðar. Áfrýjendur mættu ekki til þessara funda en á þeim komu fram andmæli landeigenda við að ekki væri hugað að því að leggja línur í jörð. Af gögnum málsins verður ráðið að áfrýjendur hafi verið sama sinnis og aðrir landeigendur. Þá áttu sér stað í kjölfarið bréfaskipti og önnur samskipti milli áfrýjenda og stefnda Landsnets hf. um fyrirhugaðar framkvæmdir þar sem áfrýjendur ítrekuðu andmæli sín um lagningu háspennulínu í lofti og sendu landeigendur stefnda frekari gögn um samanburð milli lagningar jarðstrengja og loftlína. Eins og nánar greinir í héraðsdómi er eitt af ágreiningsefnum málsins hvort inntak samskipta þessara hafi verið í samræmi við það sem lög áskilja. Þá gerði stefndi Landsnet hf. í júní 2012 greinargerð um lagningu raflína í jörðu. Þar var rakin stefna hans í málum sem þessum og talið að jarðstrengir væru hvorki tæknilega né kostnaðarlega fýsileg lausn til flutnings raforku á hæsta spennustigi.

Hinn 20. febrúar 2013 fór stefndi Landsnet hf. fram á heimild ráðuneytis á grundvelli 1. mgr. 23. gr. raforkulaga til eignarnáms á landi áfrýjenda sem málið varðar og var eignarnám heimilað 24. febrúar 2014. Höfðuðu áfrýjendur málið af því tilefni 28. maí sama ár. Í málatilbúnaði stefnda íslenska ríkisins hafa ekki verið gerðar athugasemdir við að máli þessu sé beint að honum samhliða stefnda Landsneti hf., þótt aðild þess fyrrnefnda sé ástæðulaus.

Til viðbótar þessu máli reka áfrýjendur og fleiri landeigendur mál fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur með kröfu um að ákvörðun Orkustofnunar 5. desember 2013 um „leyfi til að reisa og reka flutningsvirkið, Suðurnesjalínu 2“ verði felld úr gildi. Þá munu einnig vera rekin mál fyrir úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála þar sem annars vegar er krafist ógildingar á ákvörðun Reykjanesbæjar 16. júní 2014 um framkvæmdaleyfi vegna Suðurnesjalínu 2 og hins vegar um að stefnda Landsneti hf. verði gert að endurskoða matsskýrslu vegna framkvæmdanna. Einnig gekk dómur í Hæstarétti 13. maí 2015 í máli nr. 53/2015, þar sem ógiltur var úrskurður matsnefndar eignarnámsbóta frá 29. júlí 2014 um heimild handa stefnda Landsneti hf. til að taka umráð lands úr jörð áfrýjenda undir framkvæmdirnar sem um ræðir, þótt ekki væri lokið máli um ákvörðun eignarnámsbóta. Loks gekk dómur í Hæstarétti 8. apríl 2016 í máli nr. 205/2016 þar sem hafnað var kröfu stefnda Landsnets hf. um að honum yrðu með beinni aðfarargerð fengin umráð landsréttinda áfrýjenda á grundvelli 13. gr. laga nr. 11/1973 um framkvæmd eignarnáms með skírskotun til framangreindrar ákvörðunar um heimild til eignarnáms.

Málsástæður og lagarök málsaðila eru rækilega rakin í hinum áfrýjaða dómi, þar á meðal þau sérfræðigögn sem málsaðilar vísa í máli sínu til stuðnings.

II

Eins og að framan er rakið hefur undirbúningur að framkvæmdum til að efla raforkuflutningskerfið á Reykjanesi staðið yfir í mörg ár. Var það eigi síðar en á árinu 2008 að stefndi Landsnet hf. miðaði við að lögð yrði 220 kV háspennulína í lofti milli Hafnarfjarðar og Reykjanesbæjar. Í framkvæmdunum mun felast að reisa línuna milli tengivirkis við Hamranes í Hafnarfirði og tengivirkis við Rauðamel norðan Svartsengis. Mun línan liggja um eignarland tuga jarða, þar með talið land áfrýjenda. Frá Hamranesi og um land Hafnarfjarðar, Skógræktar ríkisins, Óttarsstaða og Lónakots að landamerkjum Hvassahrauns, mun hún liggja í nýju línubelti nokkuð fjarri Suðurnesjalínu 1. Þá hefur stefndi Landsnet hf. uppi áform um að í framtíð verði þarna tvær 220 kV línur, jafnframt því sem tekin verði niður sú lína sem fyrir er. Þannig verði háspennulínur færðar töluvert fjær núverandi byggð við Hafnarfjörð. Á hinn bóginn muni línan fylgja núverandi Suðurnesjalínu 1 að tengivirkinu við Rauðamel. Samhliða heimild til að leggja línur í lofti kveður eignarnámsheimildin á um að stefnda Landsneti hf. verði heimilt að leggja ljósleiðara í jörðu meðfram rafmagnslínunni í eldri línuvegi.

Samkvæmt 1. gr. raforkulaga er markmið þeirra að stuðla að þjóðhagslega hagkvæmu raforkukerfi og efla þannig atvinnulíf og byggð í landinu. Í því skyni skal meðal annars stuðla að skilvirkni og hagkvæmni í flutningi og dreifingu raforku, tryggja öryggi raforkukerfisins og hagsmuni neytenda og taka tillit til umhverfissjónarmiða. Umræddar framkvæmdir voru matsskyldar eftir lögum nr. 106/2000, en samkvæmt 9. gr. laganna skal ávallt gera grein fyrir helstu möguleikum sem til greina koma og umhverfisáhrifum þeirra og bera þá saman. Um þetta sagði í athugasemdum með frumvarpi að lögunum að um nýmæli væri að ræða sem hefði mikla þýðingu því að samanburður á helstu möguleikum væri ein helsta forsendan fyrir því að raunveruleg umhverfisáhrif hinna fyrirhuguðu framkvæmda væru metin. Telst kostnaður við framkvæmdir ekki til umhverfisáhrifa í skilningi laganna þótt fjárhagsleg sjónarmið geti ráðið úrslitum um endanlega ákvörðun um þær, sbr. til hliðsjónar dóm Hæstaréttar 22. október 2009 í máli nr. 671/2008.

Af því sem að framan er rakið var gætt að því að undirbúningur framkvæmdanna færi eftir formlega lögboðnu ferli. Voru til að mynda haldnir kynningarfundir, fjallað var um væntanlegar framkvæmdir hjá sveitarstjórnum og sættu tillögur stefnda Landsnets hf. meðferð hjá Skipulagsstofnun og Orkustofnun.

Áfrýjendur gera ekki athugasemdir við það meginmarkmið stefnda Landsnets hf. að á Reykjanesi þurfi að auka flutningsgetu á rafmagni. Röksemdir þeirra fyrir kröfu sinni eru á hinn bóginn þær að ekki séu uppfyllt skilyrði um almenningsþörf og meðalhóf fyrir þessum tilteknu framkvæmdum og að ráðherra hafi ekki sinnt rannsóknarskyldu sinni. Þá hafi stefndi Landsnet hf. brotið gegn skyldu sinni til samráðs við áfrýjendur vegna framkvæmdanna og loks hafi andmælaréttur þeirra ekki verið virtur við meðferð málsins.

Samkvæmt 1. mgr. 72. gr. stjórnarskrárinnar er eignarrétturinn friðhelgur og engan má skylda til að láta af hendi eign sína nema almenningsþörf krefji. Þarf lagafyrirmæli til og skal fullt verð koma fyrir. Verður því að gera ríkar kröfur um töku ákvörðunar um heimild til eignarnáms og að stjórnvöld viðhafi vandaða stjórnsýsluhætti og gæti að meginreglum stjórnsýsluréttar. Er þá haft í huga að þótt sá, sem hyggur á framkvæmdir að gerðu eignarnámi, hafi forræði á því hvaða kostir uppfylli markmið þeirra, þarf mat hans í þeim efnum að vera reist á hlutlægum og málefnalegum grunni, sbr. dóm Hæstaréttar 22. október 2009 í máli nr. 22/2009. Leiðir af því að uppfylla þarf skyldu til fullnægjandi rannsóknar áður en eignarnám er gert í þágu framkvæmda. Verður beinn eignaréttur áfrýjenda ekki skertur sé unnt með öðrum úrræðum með viðunandi hætti að ná þeim tilgangi sem framkvæmdir miða að, sbr. meðal annars dóma Hæstaréttar 19. mars 2009 í máli nr. 425/2008 og 15. nóvember 2012 í máli nr. 60/2012.

Samkvæmt gögnum málsins andmæltu landeigendur framkvæmdum frá fyrstu stigum undirbúnings þeirra og gerðu margítrekað athugasemdir við ráðagerðir stefnda Landsnets hf. um að leggja línur í lofti og lýstu því að strengir í jörðu yrði síður íþyngjandi. Hafa áfrýjendur og aðrir landeigendur með rökum andmælt þeim gögnum sem stefndi Landsnet hf. hefur vísað til um nauðsyn línulagnar í lofti og jafnframt lagt fram gögn sem sýna eiga að jarðstrengir séu raunhæfur kostur og rökstutt þörf á að kanna hann til þrautar áður en ráðist væri í stórvægilegar aðgerðir. Þrátt fyrir þetta verður ekki séð af gögnum málsins að stefndi Landsnet hf. hafi við undirbúning framkvæmdanna látið fara fram sérstaka athugun á þeim möguleika að leggja jarðstreng vegna þeirrar línu sem hér um ræðir, heldur hefur hann einkum vísað til almennra sjónarmiða um kosti og galla slíkra strengja. Fékk ráðherra málefnið til sín í þessum búningi en lét eigi að síður hjá líða að hafa forgöngu um að þetta atriði yrði sérstaklega athugað áður en hann tók ákvörðun um að heimila eignarnám. Verður til að mynda ekki með viðhlítandi hætti ráðið af gögnum eða flutningi málsins hvar slíkur strengur gæti legið eða hver yrðu umhverfisáhrif hans og kostnaður af lagningu hans eftir atvikum með tilliti til þjóðhagslegrar hagkvæmni, sbr. 1. gr. raforkulaga. Við meðferð málsins fyrir dómi hafa stefndu heldur ekki sýnt fram á að atvik séu með þeim hætti að líta beri fram hjá þessum galla á meðferð málsins.

Samkvæmt öllu framansögðu og að virtri meðalhófsreglu stjórnskipunarréttar, sbr. og 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, verður af þessum sökum fallist á dómkröfu áfrýjenda um ógildingu ákvörðunar iðnaðar- og viðskiptaráðherra 24. febrúar 2014 um heimild stefnda Landsnets hf. til eignarnámsins. Leiðir af þessu að fallist verður á kröfu áfrýjenda um að kvöð á jörðinni Stóra Knarrarnesi I, sem þinglýst var 1. apríl 2014, verði afmáð úr þinglýsingarbók.

Verða stefndu dæmdir óskipt til að greiða áfrýjendum málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir, en við ákvörðun um fjárhæð hans er tekið tillit til þess að samhliða þessu máli eru rekin þrjú önnur samkynja mál.

Dómsorð:

Ógilt er ákvörðun iðnaðar- og viðskiptaráðherra 24. febrúar 2014 um heimild stefnda Landsnets hf. til að framkvæma eignarnám til ótímabundinna afnota vegna lagningar 220 kV háspennulínu, svonefndrar Suðurnesjalínu 2, á landi undir 437 metra langt og tæplega 46 metra breitt háspennulínubelti, samtals 179 metra langa og 6 metra breiða vegslóða og tvö burðarmöstur á jörðinni Stóra Knarrarnesi I í sveitarfélaginu Vogum og skal kvöð um þessa heimild sem þinglýst var á jörðina 1. apríl 2014 afmáð úr þinglýsingarbók.

Stefndu, Landsnet hf. og íslenska ríkið, greiði sameiginlega áfrýjendum, Bjarneyju Guðrúnu Ólafsdóttur, Ólafi Þór Jónssyni og Sigríði Jónsdóttur, samtals 1.200.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.

 

 

Sératkvæði

Eiríks Tómassonar og

Viðars Más Matthíassonar

Samkvæmt 2. mgr. 9. gr. laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum skal framkvæmdaraðili gera grein fyrir í frummatsskýrslu helstu möguleikum sem til greina koma og umhverfisáhrifum þeirra og bera þá saman. Svo sem fram kemur í atkvæði meirihluta dómenda var gerður samanburður á lagningu loftlína og jarðstrengja í matsskýrslu stefnda Landsnets hf. um þá fyrirhuguðu framkvæmd, sem um ræðir í máli þessu, þar sem meðal annars voru borin saman mismunandi áhrif þessara tveggja kosta á umhverfið. Í áliti Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar var einnig gerð grein fyrir þessum ólíku áhrifum loftlína og jarðstrengja á umhverfið. Áður en iðnaðar- og viðskiptaráðherra tók þá ákvörðun, sem áfrýjendur krefjast að ógilt verði, fengu þau færi á að koma að andmælum sínum, þar á meðal lögðu þau fram skýrslu frá því í nóvember 2013 um almennan samanburð á loftlínum og jarðstrengjum hér á landi vegna áætlana um uppbyggingu á flutningskerfi raforku. Ekki verður annað ráðið af gögnum málsins en að ráðherra hafi fullnægt rannsóknarskyldu sinni samkvæmt 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 áður en hann tók þá ákvörðun að veita stefnda Landsneti hf. heimild til eignarnáms. Breytir engu um það þótt ákvörðunin hafi að hluta stuðst við álit Orkustofnunar sem eftir 1. tölulið 2. gr. laga nr. 87/2003 hefur það hlutverk að vera ríkisstjórninni til ráðuneytis um orkumál og önnur auðlindamál, sem stofnuninni eru falin með lögum, og veita stjórnvöldum ráðgjöf og umsagnir um þau mál.

Að þessu virtu og að öðru leyti með vísan til forsendna héraðsdóms teljum við að staðfesta beri niðurstöðu hans, en fella málskostnað fyrir Hæstarétti niður.

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 30.  júní 2015

Mál þetta, sem dómtekið var 5. júní sl., höfðuðu Bjarney Guðrún Ólafsdóttir, Safamýri 47, Reykjavík, Ólafur Þór Jónsson, Sléttuvegi 31, Reykjavík og Sigríður Jónsdóttir, Hvassaleiti 56, Reykjavík, með stefnu, birtri 28. maí 2014, á hendur Landsneti hf., Gylfaflöt 9, Reykjavík, og íslenska ríkinu.

Dómkröfur stefnenda eru í fyrsta lagi þær, að ógilt verði með dómi ákvörðun atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins frá 24. febrúar 2014 um annars vegar heimild Landsnets til að framkvæma eignarnám til ótímabundinna afnota vegna lagningar 220 kV háspennulínu (Suðurnesjalínu 2) á landi undir 437 metra langt og tæplega 46 metra breitt háspennulínubelti, samtals 179 metra langa og 6 metra breiða vegslóða og 2 burðarmastur, á jörðinni Stóra Knarrarnes I (landnr. 130884), Vogum á Vatnsleysuströnd, og hins vegar um að í þessu skyni verði svohljóðandi kvöð þinglýst á jörðina Stóra Knarrarnes I:

  1. Landsneti hf., kt. 580804-2410, er heimilt að leggja um óskipt land jarðarinnar Stóra Knarrarnes I, landnr. 130884 samtals 437 metra langa 220 kV rafmagnslínu, svokallaða Suðurnesjalínu 2, ásamt því að reisa 2 stauravirki í landinu, nánar tiltekið 2 burðarmöstur, til að bera línuna uppi. Skal Landsnet hf. jafna allt jarðrask að loknum framkvæmdum og sá í gróðursár. Verða mannvirki þessi óskoruð eign Landsnets hf. eða annars þess aðila sem fyrirtækið framselur rétt sinn til. Er heimild vegna háspennulínunnar og annarra réttinda samkvæmt yfirlýsingu þessari ótímabundin og sú kvöð sem lega mannvirkja þessra setur á jörðina óuppsegjanleg af hálfu landeigenda eða rétttaka þeirra.

  2. Línulögn þessari fylgir sú kvöð, í samræmi við ákvæði reglugerðar um raforkuvirki nr. 678/2009, með áorðnum breytingum, að óheimilt verður að koma fyrir mannvirkjum á belti, sem er að jafnaði 46 metra breitt undir og við línuna. Landsnet hf. eða þeir, sem það felur slík störf, skulu hafa óhindraðan aðgang að stauravirkjum og rafmagnslínunni í landi jarðarinnar, bæði að því er varðar byggingarframkvæmdir, svo og viðhald, eftirlit og endurnýjun síðar. Landsneti hf. er heimilt að leggja samtals 179 metra langan vegslóða að línunni og meðfram henni og halda slóðanum við eftir því sem þörf krefur. Mega mannvirki þessi standa í landinu ótímabundið og óátalið af eigendum og ábúendum jarðarinnar.

  3. Landsneti hf. er heimilt að leggja ljósleiðara í jörðu meðfram rafmagnslínunni í eldri línuvegi. Sú kvöð fylgir að allt verulegt jarðrask kringum legu strengsins er óheimilt nema í samráði við og undir eftirliti Landsnets hf. Ljósleiðarinn skal að öðru leyti lúta sömu kvöðum og réttindum og rafmagnslínan.

  4. Landsnet hf. eða þeir, sem fyrirtækið felur slík störf, skulu hafa óhindraðan aðgang að helgunarsvæði rafmagnslínunnar og ljósleiðara í landi jarðarinnar, bæði vegna byggingarframkvæmda, sem og vegna viðhalds, eftirlits og endurnýjunar síðar.

    Í öðru lagi er þess krafist, að kvöð, tilgreind sem 434-A-000681/2014, sem þinglýst var 1. apríl 2014 á jörðina Stóra Knarrarnes I (landnr. 130884), Vogum á Vatnsleysuströnd, verði afmáð úr þinglýsingarbókum. Þá er krafist málskostnaðar að skaðlausu úr hendi stefndu að óskiptu.

    Hvor stefndu fyrir sig krefst sýknu, auk málskostnaðar. Af hálfu íslenska ríkisins er gerð sú varakrafa að málskostnaður verði látinn niður falla.

    I

    Sá ágreiningur málsaðila sem hér er kominn til úrlausnar héraðsdóms hverfist um þá ákvörðun atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra 24. febrúar 2014 að heimila stefnda Landsneti hf. að framkvæma eignarnám vegna lagningar 220 kV háspennulínu (Suðurnesjalínu 2) um land stefnenda.

                    Gögn málsins bera með sér að undirbúningur nefndrar framkvæmdar hafði staðið í nokkur ár þegar óskað var eftir heimild til eignarnáms. Þannig liggur fyrir að haldinn var opinn fundur í Reykjanesbæ 8. febrúar 2009 um tillögu að matsáætlun stefnda Landsnets hf. fyrir Suðvesturlínur. Skipulagsstofnun féllst á greinda tillögu í marsmánuði 2009. Í endanlegu áliti Skipulagsstofnunar 17. september 2009 var fallist á mat Landsnets hf. á umhverfisáhrifum en tiltekin skilyrði sett fyrir framkvæmdinni.

    Orkustofnun veitti Landsneti hf. leyfi 5. desember 2013 til að reisa og reka flutningsvirkið Suðurnesjalínu 2 í samræmi við 9. gr. raforkulaga nr. 65/2003. Var Landsneti hf. veitt leyfi til að reisa 220 kV háspennulínu frá tengivirki við Hamranes í Hafnarfirði um Voga, Reykjanesbæ og Grindavíkurbæ, að tengivirki við Rauðamel um 5 km norðan við Svartsengi. Sem fyrr segir var eignarnám í þágu framkvæmdar þessarar heimilað í febrúar 2014 til ótímabundinna afnota fyrir Landsnet hf. Í málinu er m.a. um það deilt hvort hvort stefnendum hafi í framangreindu ferli gefist nægileg tækifæri til að koma sjónarmiðum sínum á framfæri, hvort samningaviðræður hafi verið fullreyndar þegar þeim var slitið af hálfu stefnda Landsnets hf. og hvort gætt hafi verið að skilyrðum íslensks réttar um rannsóknarskyldu stjórnvalda og laga áskilnaði um meðalhóf. 

    II

    Stefnendur byggja á því í málinu að fyrirliggjandi ákvörðun um eignarnám sé haldin slíkum annmörkum, bæði hvað form- og efni áhrærir, að hún sé ógildanleg og að hver og einn þessara annmarka leiði til þess að óhjákvæmilegt sé að fella ákvörðunina úr gildi. Þannig reisa stefnendur kröfu sína á því að ákvörðunin sé í andstöðu við 72. gr. stjórnarskrárinnar, 1. mgr. 1. gr. 1. viðauka mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, og 23. gr. raforkulaga. Þá hafi verið brotið gegn rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, meðalhófsreglu, sbr. 12. gr. sömu laga, og andmælarétti stefnenda, sbr. 13. gr. laganna.

    Í fyrsta lagi halda stefnendur því fram að ekki sé uppfyllt skilyrði um almenningsþörf og að ákvörðunin sé í andstöðu við meðalhófsreglu stjórnskipunar- og stjórnsýsluréttar. Þannig sé lagning Suðurnesjalínu 2 í jörðu raunhæfur framkvæmdakostur og mun minna íþyngjandi en loftlína. Sá kostur hafi hins ekki verið tekinn til raunverulegrar skoðunar svo sem skylt sé og hafi ráðuneytið ekki sinnt rannsóknarskyldu sinni að því leyti, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga. Þá hafi ekki verið sýnt fram á nauðsyn á 220 kV línu og meðalhófs ekki verið gætt að því leyti. Enn fremur hafi verið óheimilt að taka ákvörðun um eignarnám á þessu stigi, enda liggi ekki fyrir hvort nauðsynleg leyfi til framkvæmdarinnar fáist. Ákvörðun um eignarnám sé auk þess reist á röngum forsendum. Í öðru lagi byggja stefnendur á því að brotið hafi verið gegn lagalegri skyldu til samráðs við stefnendur vegna framkvæmdarinnar og að samningaviðræður hafi ekki verið fullreyndar, en slík krafa felist í eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar og mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. jafnframt 23. gr. raforkulaga, og reglum umhverfisréttar um samráð vegna framkvæmda. Þá er í þriðja lagi byggt á því að brotið hafi verið gegn andmælarétti stefnenda, sbr. 13. gr. stjórnsýslulaga, með því að leggja ákvörðun Orkustofnunar um leyfi til að reisa og reka flutningsvirkið Suðurnesjalínu 2 til grundvallar ákvörðun um eignarnám án þess að gefa stefnendum færi á að koma að andmælum vegna þeirrar ákvörðunar.

    Að mati stefnenda stendur 72. gr. stjórnarskrárinnar eignarnámi í vegi, þar sem skilyrði 1. mgr. ákvæðisins fyrir eignarnámi að almenningsþörf krefji, sé ekki uppfyllt í málinu, en við mat á því hvort slík þörf sé til staðar þurfi að gæta sjónarmiða um meðalhóf. Sé unnt að ná markmiði framkvæmdar sem feli í sér skerðingu á eignarrétti, með mismunandi leiðum, beri að velja þann kost sem sé minnst íþyngjandi fyrir þann sem skerðingin bitni á. Því hvíli sú lágmarksskylda á framkvæmdaraðila að taka þá kosti, sem náð geta markmiðinu, til raunverulegrar og raunhæfrar skoðunar áður en ákvörðun sé tekin um framkvæmdarkost.

    Stefnendur byggja á því að fyrir hendi séu aðrir kostir en 220 kV loftlína til styrkingar á raforkuflutningskerfi á svæðinu sem telja megi minna íþyngjandi fyrir stefnendur, valdi mun minni skemmdum á línuleiðinni og nánast engri sjónmengun, en að þeir kostir hafi ekki verið kannaðir með raunhæfum hætti. Þá hafi ráðuneytið ekki gætt að skyldu sinni að tryggja að slík skoðun yrði framkvæmd, en það sé forsenda þess að til greina komi að fallast á beiðni um eignarnám. Þá felist skyldan til að taka mismunandi framkvæmdakosti til raunhæfrar skoðunar ekki eingöngu í 72. gr. stjórnarskrárinnar, heldur einnig í óskráðri meðalhófsreglu stjórnskipunarréttar sem feli í sér að ávallt skuli gæta hófs við aðgerðir sem skerða stjórnarskrárvarin réttindi og velja þá leið sem sé minnst íþyngjandi. Krafan um almenningsþörf sé einnig varin í eignarréttarákvæði 1. gr. 1. samningsviðauka við mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, en ákvæðið felur því í sér sams konar skyldu til að kanna raunhæfa framkvæmdakosti þegar framkvæmd felur í sér skerðingu á eignarrétti og velja þann kost sem er minnst íþyngjandi.

    Þá hafi meðalhófsregla stjórnsýsluréttarins sambærilega þýðingu, sbr. 12. gr. stjórnsýslulaga, en báðir stefndu séu bundnir af þeirri reglu. Að sama skapi felist í rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga að taka verði alla framkvæmdakosti sem uppfylla markmið framkvæmdar til skoðunar á grundvelli bestu fáanlegu upplýsinga.

    Með hliðsjón af þessu telja stefnendur að framkvæmdaraðili verði að taka framkvæmdakosti sem uppfylla markmið framkvæmdar til raunhæfrar skoðunar og geti ekki útilokað kosti án þess fyrir liggi forsvaranlegt, hlutlægt og málefnalegt mat á þeim. Stefnendur byggja á því að þar sem þeir framkvæmdakostir sem stefnendur hafi rökstutt að séu minna íþyngjandi en 220 kV loftlína hafi ekki verið kannaðir með raunverulegum hætti, leiði það eitt og sér til þess að ekki hafi verið sýnt fram á almenningsþörf fyrir framkvæmdinni í skilningi 72. gr. stjórnarskrárinnar og eignarréttarákvæðis mannréttindasáttmálans. Að sama skapi hafi með þessu móti verið brotið gegn meðalhófsreglu stjórnskipunarréttar og stjórnsýsluréttar. Byggt er á því að ráðuneytinu hafi borið að hafna beiðni um eignarnám þegar af þessari ástæðu.

    Stefnendur kveðast hafa haldið því fram frá upphafi að styrking raforkuflutningskerfis á svæðinu með lagningu jarðstrengs sé mun minna íþyngjandi fyrir þá en lagning línunnar í lofti, einkum vegna verulegrar sjónmengunar sem stafi af háspennulínu, því umtalsverða helgunarsvæði sem loftlínum fylgi og skertari möguleikar til landnýtingar en í tilviki jarðstrengja. Þrátt fyrir það hafi sá möguleiki að leggja línuna í jörðu ekki verið tekinn til raunhæfrar skoðunar. Í málinu liggi enginn samanburður fyrir á kostnaði við lagningu Suðurnesjalínu 2 annars vegar í jörðu og hins vegar í lofti. Því síður hafi verið gerður samanburður á öðrum þáttum sem líta beri til við mat á hagkvæmni og áhrifum framkvæmdarinnar fyrir stefnendur og aðra landeigendur, svo sem áhrifum á umhverfi og landnýtingu á því svæði sem eignarnámið taki til. Þá hafi ekki verið tekið mið af þáttum sem varði þjóðfélagið í heild sinni, svo sem áhrifum á ferðaþjónustu og rekstrarhagkvæmni, en skylt sé að líta til slíkra þátta, enda sé markmið raforkulaga nr. 65/2003 að stuðla að þjóðhagslega hagkvæmu raforkukerfi.

    Staðreyndin sé sú að ekki hafi verið kannaðir og bornir saman þeir framkvæmdakostir sem til staðar séu með hlutlægum og málefnalegum hætti, enda þótt ljóst þyki að bæði jarðstrengur og loftlína geti náð því markmiði framkvæmdarinnar að styrkja raforkuflutningskerfi á svæðinu. Því hafi ítrekað verið hafnað að framkvæma slíka skoðun með vísan til almennra og úreltra upplýsinga um kostnaðarmun á milli jarðstrengja og loftlína, en stefnendur telja að órökstuddar fullyrðingar um almennan kostnaðarmun séu þýðingarlausar og geti ekki verið til þess fallnar að útiloka raunhæfa framkvæmdakosti. Það skipti sköpum að samanburður af þessu tagi taki mið af aðstæðum í hverju tilviki fyrir sig, enda fáist annars ekki nothæf niðurstaða. Stefnendur telja mikilvægt að árétta að kostnaður einn og sér sé fjarri því að vera eini mælikvarðinn á það hvort skylt sé að taka framkvæmdakosti til skoðunar, líta verði til annarra atriða á borð við umhverfisáhrif og þjóðhagslega hagkvæmni.

    Stefnendur kveðast hafa teflt fram margvíslegum rökum og gögnum til stuðnings því að jarðstrengur sé raunhæfur valkostur sem taka beri til skoðunar og skilað ítarlegum athugasemdum við málsmeðferð ráðuneytisins þar sem þetta hafi verið rökstutt og lagt fram fjölda gagna, þar á meðal tugi sérfræðigagna með nýjustu upplýsingum um tækni- og kostnaðarþróun á sviði jarðstrengja. Af þeim megi leiða að staðreyndin sé sú að tækninýjungar og lækkandi verð jarðstrengja hafi gert notkun jarðstrengja að sífellt vænlegri kosti. Rök hnígi að því að kostnaðarmunur á jarðstrengjum og loftlínum sé miklum mun minni en haldið hafi verið fram af hálfu stefnda Landsnets, auk þess sem lagning jarðstrengs hafi margvíslega kosti og sé mun minna íþyngjandi fyrir stefnendur.

    Stefnendur telja að skylt hafi verið að meta þann kost að leggja línuna í jörðu þegar í upphafi en að það sé enn ótvíræðara nú með hliðsjón af tækniþróun sem gjörbreyti þeim forsendum sem upphafleg afstaða stefnda Landsnets hf. hafi byggst á. Sú þróun krefjist þess að unnin sé samanburðarathugun á hagkvæmni þess að leggja Suðurnesjalínu 2 annars vegar í jörðu og hins vegar í lofti. Við slíka athugun yrði meðal annars að líta til sjónarmiða á borð við stofn- og líftímakostnað, bilanatíðni, flutningstap, helgunarsvæði, landnýtingu, veðurfarsleg áhrif, endingartíma, flugöryggi sem og þjóðhagslega þætti á borð við umhverfisáhrif og áhrif á ferðaþjónustu. Þá minna stefnendur á að Landsneti sé skylt að meta framkvæmdir út frá þjóðhagslegum forsendum.

    Stefnendur vísa til þess að Landsnet hafi viðurkennt að tækniframfarir hafi orðið á sviði jarðstrengja sem hafi leitt til þess að kostnaðarmunur á jarðstrengjum og loftlínum fari sífellt minnkandi. Þannig segi á heimasíðu Landsnets að „miklar framfarir [séu] í hönnun jarðstrengja“ og að fylgjast verði „reglulega með þróun mála“. Raunar hafi verið viðurkennt að útreikningar fyrirtækisins sem byggt hafi verið á í málinu til þessa varðandi kostnað vegna jarðstrengja séu úreltir og að taka verði þá til gagngerrar endurskoðunar. Að mati stefnenda er afar óeðlilegt að knýja á um eignarnám vegna lagningar Suðurnesjalínu 2 án hlutlægrar og málefnalegrar skoðunar á þeim kosti að leggja línuna í jörðu. Eigi það sérstaklega við þar sem fyrir liggi að forsendur séu allt aðrar en þær hafi verið þegar upphaflega hafi verið ákveðið að ráðast í lagningu línunnar, en hafa verði í huga að álit Skipulagsstofnunar um umhverfisáhrif sé tæplega fimm ára gamalt og sú ákvörðun um að loftlína komi eingöngu til greina enn eldri.

    Nú sé svo komið að krafa um nýtingu jarðstrengja við uppbyggingu raforkuflutningskerfis hafi aldrei verið háværari, til að mynda hafi í Danmörku verið tekin sú ákvörðun af stjórnvöldum að nýjar flutningsrásir í raforkuflutningskerfinu á spennustiginu 132/150 kV skuli eftirleiðis lagðar með jarðstreng. Í Frakklandi sé rekið lengsta flutningskerfi raforku í Evrópu, alls 100.000 km á lengd, og hafi langstærstur hluti raflína verður lagður í jörðu allt frá árinu 2009, nýlagnir í lofti á spennustiginu 225 kV heyri þar til algerra undantekninga. Þá liggi fyrir óháð skýrsla kanadíska ráðgjafafyrirtækisins Metsco Energy Solutions Inc. (Metsco) um tæknilega þróun og kostnaðarmun jarðstrengja og loftlína á 132 kV og 220 kV spennu á Íslandi. Skýrsla Metsco hafi komið út í nóvember 2013 og hafi að geyma almennan samanburð á loftlínum og jarðstrengjum á Íslandi vegna áætlana um uppbyggingu á flutningskerfi raforku. Skýrslan hafi verið send ráðuneytinu með bréfi 28. nóvember 2013 þar sem gerð hafi verið grein fyrir helstu niðurstöðum hennar og hafi ráðherra vitnað til skýrslunnar í ræðu á Alþingi og sagt að hún væri nýrri en aðrar skýrslur, með nýrri upplýsingar um atriði sem vörðuðu samanburðinn milli loftlína og jarðstrengja.

    Að mati stefnenda hefur skýrsla Metsco grundvallarþýðingu í málinu en þar segi meðal annars að tækninýjungar og lækkandi verðlag í framleiðslu jarðstrengja og búnaði þeim tengdum hafi gert notkun jarðstrengja í flutningskerfum að sífellt vænlegri kost á síðustu áratugum. Sérstaklega sé tekið fram að þetta eigi við um Ísland. Útreikningar í skýrslunni sýni að nýrri tegundir jarðstrengja við 132 kV og 220 kV spennu í dreifbýli séu á bilinu 4-20% dýrari en sams konar loftlínur, að teknu tilliti til bæði stofn- og líftímakostnaðar, sem sé mun lægra en áætlanir Landsnets geri ráð fyrir. Vert sé að geta þess að skýrslan byggi útreikninga sína meðal annars á forsendum í skýrslu sem samin hafi verið af stefnda Landsneti hf. en í skýrslu Metsco sé tekið mið af nýjustu upplýsingum um líftíma jarðstrengja, auk þess sem sérstaklega sé tekið fram að varhugavert sé að líta til eldri útreikninga um líftímakostnað jarðstrengja þar sem þeir grundvallist yfirleitt á úreltum tölum um styttri endingartíma þeirra. Hljóti þar meðal annars að vera vísað til fyrrgreindra útreikninga Landsnets hf., enda geri þeir óumdeilanlega ráð fyrir töluvert styttri endingartíma jarðstrengja en skýrsla Metsco geri. Meginniðurstaða skýrslunnar sé sú að bæði loftlínur og jarðstrengir séu raunhæfir valkostir og verði ekki hjá því komist að taka þá báða til raunverulegrar skoðunar þegar ákvörðun sé tekin um einstök verkefni í flutningskerfinu. Samkvæmt þessu sé það niðurstaða skýrslu sem hafi að geyma nýjustu upplýsingar um lagningu jarðstrengja hér á landi, að taka verði þennan valkost til raunverulegrar skoðunar þegar ákvörðun sé tekin um framkvæmdir til styrkingar á raforkuflutningskerfinu. Að sömu niðurstöðu sé komist í skýrslu nefndar um mótun stefnu um lagningu raflína í jörðu frá október 2013 sem lögð hafi verið fyrir Alþingi á 143. löggjafarþingi 2013-2014, þar sem segi að mikilvægt sé að í hverju tilfelli fyrir sig sé metið hvort jarðstrengur, loftlína eða sæstrengur henti best út frá kostnaði, umhverfisáhrifum og öryggi. Þannig sé almennt viðurkennt að við styrkingu raforkuflutningskerfisins beri að kanna þann möguleika að leggja jarðstreng og að líta beri til aðstæðna í hverju tilviki fyrir sig. Það hljóti að falla í hlut stefnda Landsnets hf. sem eignarnámsbeiðanda að sýna fram á að hann hafi tekið bæði jarðstreng og loftlínu til raunverulegrar skoðunar eða að þrátt fyrir framangreindar röksemdir sé um óraunhæfan kost að ræða sem ekki þurfi að skoða. Ekki hafi verið sýnt fram á slíkt, enda séu almennar staðhæfingar stefnda Landsnets ekki studdar gögnum sem sýni fram á hina meintu óhagkvæmni við lagningu Suðurnesjalínu 2 í jörðu. Með hliðsjón af íþyngjandi eðli eignarnáms, verði að gera þá kröfu að stefndi Landsnet hf. axli þá sönnunarbyrði sem hvíli á fyrirtækinu í þessum efnum.

    Stefnendur halda því fram að lagning jarðstrengs sé raunhæfur framkvæmdakostur og bendi öll aðgengileg og óháð gögn til þess að áreiðanleiki þeirra sé mikill. Erlend tölfræði um bilanatíðni jarðstrengja og loftlína sýni að jarðstrengir bili mun sjaldnar en loftlínur, en telja megi að sá munur sé enn meiri hér á landi í ljósi harkalegra veðurbrigða, enda séu jarðstrengir ekki viðkvæmir fyrir skammtíma veðurfarslegum þáttum svo sem ísingu, saltmengun, veðri og vindi. Vísindamenn hafi greint frá því að í rúmlega 120 ára sögu loftlína á Íslandi hafi ísing sem hlaðist á víra og annan búnað verið ein helst ógnin við rekstraröryggi þeirra mannvirkja. Þá séu fjölmörg dæmi um mikið eignatjón af völdum ísingar með tilheyrandi truflunum í rekstri og skertri afhendingu raforku til viðskiptavina orkufyrirtækjanna. Óveður og ísing geti því í sumum tilfellum leitt til ótímabærrar endurbyggingar stórra loftlínukafla. Þá séu jarðstrengir taldir geta enst mun lengur en loftlínur af rekstraraðila stærsta raforkuflutningskerfis Evrópu, franska raforkuflutningskerfisins RTE. Í skýrslu Metsco segi að gera megi ráð fyrir því að nútíma jarðstrengir endist í að minnsta kosti 60 ár, sé þess gætt að þeir séu reknir innan hitaþolmarka sem þeir séu hannaðir fyrir, líkt og ávallt þurfi að hafa í huga með aflspenna og annan rafbúnað í flutningskerfum. Jafnframt sé til þess að líta að minna orkutap verði við flutning rafmagns í jarðstrengjum en loftlínum og sé enginn munur á gæðum raforku sem flutt sé með jarðstreng eða loftlínu. Þá megi nefna að loftlínur geti ógnað öryggi manna, t.d. vegna snjóþunga. Að sama skapi geti bygging nýrra loftlína haft neikvæð áhrif á flugöryggi. Ljóst sé að Suðurnesjalína 2 sé í næsta nágrenni við Keflavíkurflugvöll sem sé alþjóðlegur millilandaflugvöllur. Engin gögn liggi fyrir í málinu sem sýni fram á að áhrif línunnar á flugmál og flugöryggi hafi verið rannsökuð. Augljóst sé að þessir annmarkar einskorðist við loftlínur og séu ekki fyrir hendi í tilviki jarðstrengja, enda ógni strengur í jörðu hvorki flugöryggi né öryggi manna. Samkvæmt þessu telja stefnendur jarðstrengi uppfylla ítrustu kröfur um öryggi, skilvirkni, áreiðanleika afhendingar og gæði raforku og telja þá að öllu leyti sambærilega, og jafnvel betri kost en loftlínu.

    Stefnendur telja óumdeilt að sjónræn áhrif loftlína séu meiri en jarðstrengja. Loftlínur breyti upplifun og útsýni þaðan sem þær sjáist. Þannig dragi sýnileiki háspennulína úr aðdráttarafli staða og tilfinningu fyrir óspilltri náttúru. Náttúruspjöll á landi með línuvegum og mastrastæðum séu einnig gífurleg og flest óafturkræf. Að auki hamli háspennulínur mjög landnýtingu vegna stærðar helgunarsvæðis þeirra, sem nemi um 50–60 metrum að breidd. Þá sé ótalið land sem fari undir línuvegi, vegslóða að hverju mastri og jarðrask vegna steyptrar, djúprar undirstöðu undir hvert einasta mastur. Helgunarsvæði jarðstrengja sé minna eða almennt um 12 metra breitt á rekstrartíma jarðstrengs.

    Stefnendur tiltaka að víðast hvar sé mögulegt að leggja jarðstrengi meðfram öðrum mannvirkjum, meðal annars vegum, og ganga frá athafnasvæðinu þannig að mjög lítil ummerki verði. Þannig verði jarðstrengir vart sýnilegir, takmarki lítið upplifun fólks á landinu og hamli ekki verulega notkun lands. Í umsögn Umhverfisstofnunar vegna Suðurnesjalínu 2 frá 25. júní 2009 komi fram að ein helstu umhverfisáhrif af lagningu Suðvesturlína séu á landslag og að á heildina litið muni fyrirhugaðar framkvæmdir fela í sér aukinn sýnileika háspennulína. Undir þessi sjónarmið taki Skipulagsstofnun í áliti sínu um mat á umhverfisáhrifum vegna Suðurnesjalínu 2, en þar komi fram að ljóst sé að sjónræn áhrif og áhrif á landslag verði talsvert neikvæð.

    Samkvæmt matsskýrslu EFLU frá 10. ágúst 2009 sem unnin hafi verið fyrir stefnda Landsnet hf., fylgi háspennulínum hljóð og hávaði af tvennum toga, annars vegar vindgnauð og hins vegar hljóð af rafrænum uppruna. Hin rafrænu hljóð hækki við vaxandi spennu. Augljóst sé því að loftlínur valdi truflunum og óþægindum fyrir þá sem eru í návígi við þessi mannvirki. Sambærilegir annmarkar fylgi ekki jarðstrengjum. Þá sé vert að benda á að áflug fugla sé þekkt vandamál vegna loftlína en jarðstrengir hafi slíka hættu ekki í för með sér. Þannig segi í fyrrgreindu áliti Skipulagsstofnunar að áhrif á fugla vegna Suðurnesjalínu 2 geti verið talsvert neikvæð sem stafi ýmist af því að línur muni liggja þvert á flugleiðir fugla, línum muni fjölga frá því sem nú er eða að samsíða loftlínur muni hafa leiðara í mismunandi hæð frá jörðu, auk þess sem línuleið muni liggja í nálægð við gamlan varpstað hafarna.

    Stefnendur vísa til þess að í umhverfislöggjöf Íslands og Evrópska efnahagssvæðisins sé beinlínis á því byggt að jarðstrengir séu í tilviki eins og hér um ræði umhverfisvænni kostur en loftlínur. Loftlínur utan þéttbýlis til flutnings raforku með 66 kV spennu eða hærri séu þannig í hópi þeirra framkvæmda sem ávallt séu háðar umhverfismati, sbr. 22. tölulið 1. viðauka laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum. Hins vegar þegar um flutning raforku með jarðstrengjum utan þéttbýlis um 10 km leið eða lengri sé að ræða, sé það metið í hverju tilviki fyrir sig hvort framkvæmd sé háð umhverfismati, sbr. b-lið 3. töluliðar 2. viðauka sömu laga. Lagning jarðstrengja sé þannig samkvæmt lagaskilgreiningu almennt talin hafa vægari umhverfisáhrif heldur en lagning loftlína. Beiting meðalhófsreglu leiði því til þeirrar niðurstöðu, að jarðstrengir séu að öðru jöfnu teknir fram yfir loftlínur til raforkuflutninga. Stefnendur telja því einsýnt að út frá sjónarmiðum um umhverfisvernd og landnýtingu séu jarðstrengir mun álitlegri kostur en loftlínur.

    Stefnendur benda á að samkvæmt skýrslu ráðgjafafyrirtækisins Boston Consulting Group um framtíð íslenskrar ferðaþjónustu frá september 2013 hafi ferðaþjónusta verið á góðri leið með að taka fram úr sjávarútvegi á árinu 2013 sem mikilvægasta útflutningsatvinnugrein þjóðarinnar. Í skýrslunni sé gert ráð fyrir 7% árlegum vexti í ferðaþjónustu næstu 10 ár og að ferðamönnum muni fjölga úr rúmlega 672.000 árið 2012 í eina og hálfa milljón árið 2023. Þá sé gert ráð fyrir að ferðaþjónusta muni skila 215 milljörðum árlega til landsframleiðslu árið 2023 og ríflega 400 milljörðum sama ár með óbeinum framlögum. Um 5.000 ný störf verði til og beinar og óbeinar heildarskatttekjur af ferðaþjónustu muni nema 52 milljörðum á ári eftir áratug. Enn fremur segi í skýrslunni að til þess að ná þessum árangri sé nauðsynlegt að tryggja náttúruvernd.

    Kannanir hafi ítrekað staðfest að ferðamenn sæki í miklum mæli Ísland heim vegna hinnar einstöku og ósnortnu náttúru landsins. Kannanir Ferðamálastofu sýni að á bilinu 71,3-79,7% erlendra ferðamanna nefni íslenska náttúru sem helsta áhrifaþátt ákvörðunar um að ferðast til Íslands. Í ljósi aukins vægis ferðaþjónustu á komandi árum sé mikilvægt að við tilhögun stórtækra framkvæmda sé tekið tillit til framtíðarhagsmuna ferðaþjónustu og leitast við að draga úr neikvæðum umhverfisáhrifum.

    Hafa verði hugfast að nær allir erlendir ferðamenn sem komi hingað til lands eigi leið um einhvern hluta áhrifasvæðis fyrirhugaðrar línuleiðar Suðurnesjalínu 2 og að sýnileiki loftlína muni aukast gríðarlega, verði af framkvæmdinni. Í áliti Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum vegna Suðurnesjalínu 2 komi fram að þegar litið sé til heildaráhrifa Suðurnesjalínu 2 á útivist og ferðaþjónustu verði þau óhjákvæmilega verulega neikvæð.

    Í könnun Rannsókna og ráðgjafar ferðaþjónustunnar (RRF) fyrir stefnda árið 2007 hafi fagfólk í ferðaþjónustu, útivistarfólk og ferðamenn verið spurð hvort þau teldu að fyrirhugaðar háspennulínur á Reykjanesskaganum skyldu vera loftlínur eða í jarðstreng. Af þeim sem hafi tekið þátt í könnuninni voru 71-82% mjög eða fremur sammála því að háspennulínur á Reykjanesskaganum ætti að leggja í jörðu. Mat um 67-94% fagfólks í ferðaþjónustu hafi jafnframt verið að með fyrirhuguðum háspennulínum myndi ferðum þeirra fækka í nágrenni línustæða en neikvæð sjónræn áhrif af línunum og spillt náttúruupplifun hafi verið nefndar sem helstu ástæðurnar.

    Í áðurnefndri skýrslu Metsco sé jafnframt lögð áhersla á að mikilvægt sé að taka tillit til áhrifa á ferðaþjónustu við mat á framkvæmdakostum og að þar séu loftlínur líklegri til að hafa neikvæð áhrif.

    Þessu til viðbótar benda stefnendur á að samkvæmt könnun markaðsstofu ferðamála á Suðurnesjum frá því í desember 2009 starfi um 15% af vinnuaflinu á Suðurnesjum við ferðaþjónustu. Í frétt vb.is frá því í nóvember 2013 segi að ferðaþjónusta hafi verið orðin stærsta atvinnugreinin í Reykjanesbæ og að um 20% íbúanna ynnu við slíka þjónustu. Ferðaþjónusta sé því orðin ein af grunnstoðum atvinnulífsins á fyrirhuguðu áhrifasvæði Suðurnesjalínu 2 og ljóst að áhrifin af tilvist línunnar myndu eingöngu verða neikvæð fyrir þá grein.

    Því megi ljóst vera að hagsmunum íslenskrar ferðaþjónustu, og þar með atvinnulífi og byggð á Suðurnesjum, sé best borgið með því að Suðurnesjalína 2 verði lögð í jörðu. Hafi það verulega þýðingu fyrir mat á þjóðhagslegri hagkvæmni framkvæmdarinnar, enda sé markmið raforkulaga, sbr. 1. gr. laganna, beinlínis að stuðla að þjóðhagslega hagkvæmu raforkuflutningskerfi.

    Með vísan til þessa telja stefnendur að sýnt hafi verið fram á að jarðstrengur sé raunhæfur kostur við lagningu Suðurnesjalínu 2. Þannig geti meintur kostnaðarmunur alls ekki réttlætt að sá kostur að leggja línuna í jörðu sé ekki skoðaður og borinn saman við lagningu loftlínu. Þá beri jafnframt að taka tillit til sjónarmiða sem hafi óbeinan kostnað í för með sér, svo sem sjónarmiða um landnýtingu, umhverfisvernd og þjóðhagslega þætti á borð við hagsmuni ferðaþjónustu.

    Stefnendur telja að ráðuneytið hafi með öllu horft framhjá röksemdum stefnenda um að meta þurfi þann kost að Suðurnesjalína 2 verði lögð í jörðu með raunverulegum hætti, sbr. lagaskilyrði um almenningsþörf og meðalhóf. Ráðuneytið hafi ekki tekið athugasemdir stefnenda til efnislegrar skoðunar og virðist í engu hafa kannað þau margvíslegu gögn sem lögð hafi verið fram. Þvert á móti hafi ráðuneytið farið þá leið að vísa til þess að Orkustofnun hefði fjallað um samanburð á loftlínum og jarðstrengjum vegna framkvæmdarinnar í ákvörðun sinni 5. desember 2013. Ljóst sé að rökstuðningur stofnunarinnar sé grundvallarþáttur í ákvörðun ráðuneytisins og hafi ráðið úrslitum um að ekki hafi verið talin þörf á því að taka til skoðunar þann kost að leggja línuna i jörðu. Þannig hafi umfjöllun um þetta atriði verið tekin orðrétt upp í ákvörðun stofnunarinnar í ákvörðun ráðuneytisins og tekið fram að í málinu sé ekki að finna „efnisleg rök til að ganga gegn mati Orkustofnunar, né eignarnámsbeiðanda, hvað þetta varðar“. Þetta hafi verið staðhæft án skýringa á því hvers vegna röksemdir og fjöldi framlagðra gagna stefnenda hafi þótt að engu hafandi, en meðal annars hafi algjörlega verið horft framhjá fyrrgreindri skýrslu Metsco sem geymi nýjustu upplýsingar um kostnað og aðra þætti sem varði lagningu jarðstrengja hér á landi. Þá hafi ráðuneytið farið þessa leið enda þótt stefnendum hefði ekki verið gefinn kostur á að skila andmælum vegna ákvörðunar Orkustofnunar.

    Ráðuneytið hafi tekið athugasemdalaust upp í ákvörðun sinni texta sem varði meinta óhagkvæmni jarðstrengja í samanburði við loftlínur sem finna megi í fylgibréfi með ákvörðun Orkustofnunar. Gera verði alvarlega athugasemd við að Orkustofnun notist í rökstuðningi sínum við efnisgrein sem í reynd sé afrituð orð fyrir orð úr athugasemdum Landsnets hf. frá 19. nóvember 2013. Óásættanlegt sé að málatilbúnaður annars málsaðila sé athugasemdalaust lagður efnislega til grundvallar ákvörðun án þess að þess sjáist nokkur stoð að farið hafi fram óháð og sjálfstæð athugun á því sem þar komi fram. Slíkt fái ekki samræmst rannsóknarreglu stjórnsýsluréttar, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga, ekki síst þegar um sé að ræða svo veigamikið atriði sem sýnilega skipti sköpum um lokaniðurstöðu málsins.

    Ráðuneytið hafi lagt þessar ófullnægjandi forsendur og niðurstöður Orkustofnunar til grundvallar ákvörðun sinni um heimild til eignarnáms og talið það duga til að sýnt hefði verið fram á „með fullnægjandi hætti að eignarnámsbeiðanda [væri] rétt að hafna og vísa frá, að vel athuguðu máli, hugmyndum landeigenda um aðrar útfærslur að Suðurnesjalínu 2“.

    Stefnendur telja þessa afgreiðslu ráðuneytisins ekki standast. Ráðuneytinu hafi borið að yfirfara öll gögn vandlega og staðreyna réttmæti þeirra þannig að unnt væri að taka sjálfstæða og rökstudda ákvörðun í málinu. Það fái ekki staðist að ráðuneytið geti skotið sér framhjá slíkri rannsókn með vísan til afstöðu annars lægra setts stjórnvalds sem hafi tekið aðra og algjörlega ótengda ákvörðun vegna framkvæmdarinnar, ekki síst í ljósi þess að til grundvallar þeirri niðurstöðu liggi einhliða fullyrðingar og raunar framsetning annars málsaðilans. Stefnendur telja þetta verulegan annmarka á ákvörðun ráðuneytisins sem hafi ekki uppfyllt ekki þá prófun á almenningsþörf sem 72. gr. stjórnarskrárinnar og 1. gr. 1. samningsviðauka við mannréttindasáttmála Evrópu geri fortakslaust kröfu um að fari fram. Minna íþyngjandi valkostur við framkvæmd Suðurnesjalínu 2 hafi ekki komið til skoðunar við mat ráðuneytisins á því hvort skilyrði væru til eignarnáms. 

    Stefnendur hafi ásamt öðrum landeigendum höfðað mál þar sem þess sé krafist að leyfisveiting Orkustofnunar verði felld úr gildi og þar sé að finna ítarleg andmæli við rökstuðning stofnunarinnar og vísa stefnendur til þeirra með heildstæðum hætti en gera þó nokkrar athugasemdir við rökstuðning Orkustofnunar sem ráðuneytið grundvalli ákvörðun sína á.

    Í fyrsta lagi telji stefnendur ákvörðun Orkustofnunar byggja á einhliða gögnum stefnda Landsnets hf. og úreltum útreikningum. Þá sé í ákvörðuninni athugasemdalaust byggt á skýrslu sem Orkustofnun segi að hafi verið lögð fyrir jarðstrengjanefnd en með því sé gefið í skyn að um sé að ræða hlutlausa skýrslu sem staðfesti málatilbúnað stefnda Landsnets hf. Hins vegar benda stefnendur á að að um sé að ræða skýrslu sem samin hafi verið einhliða af stefnda Landsneti hf. Niðurstaða Orkustofnunar, og þar með ráðuneytisins, sé því í reynd byggð á fullyrðingum og gögnum sem einhliða stafi frá stefnda Landsneti hf. á sama tíma og litið sé framhjá skýrslu Metsco sem samin sé af hlutlausum aðila og hafi að geyma nýrri upplýsingar um lagningu jarðstrengja hér á landi. Þá hafi verið litið framhjá gögnum sem sýni að munur á kostnaði við að leggja loftlínur og jarðstrengi fari sífellt minnkandi. Þá hafi verið litið framhjá upplýsingum um að rekstraraðili franska raforkuflutningskerfisins RTE í París geri í útreikningum sínum ráð fyrir að núvirtur líftímakostnaður við að leggja jarðstrengi fyrir allt að 400 megawatta (MW) afl í dreifbýli sé jafn á við loftlínur.

    Þessar upplýsingar staðfesti að það sé rangt sem fram komi í skýrslu stefnda Landsnets hf. sem ákvörðun Orkustofnunar og ákvörðun ráðuneytisins byggi á, að jarðstrengir á 220 kV spennustigi séu margfalt dýrari en sams konar loftlínur. Þá árétta stefnendur að þegar bera eigi saman kostnað við lagningu jarðstrengs og loftlínu sé nauðsynlegt að meta kostnað í hverju tilviki fyrir sig. Þó unnt sé að notast við kostnaðarhlutföll í grófum samanburði, sé ótækt að ákvarðanir um hvort leggja eigi tiltekna raflínu í jörð eða lofti séu byggðar á slíkum almennum mælikvörðum.

    Í öðru lagi mótmæla stefnendur sérstaklega þeirri staðhæfingu Orkustofnunar að hagkvæmni jarðstrengja á Íslandi út frá líftímakostnaði sé ekki jafnmikil og í öðrum Evrópulöndum, þar sem t.d. orkuverð á Íslandi sé lágt, en vaxtastig hátt. Þessi staðhæfing sé algjörlega ósönnuð og miðist eingöngu við tvo kostnaðarþætti þegar ljóst megi vera að líftímakostnaður ráðist af mun fleiri þáttum. Hér sé um grundvallaratriði að ræða og fái ekki staðist að staðhæfa með þessum hætti án þess að skýra frá öllum þáttum sem líta beri til við kostnaðarmatið. Af hálfu stefnenda hafi verið byggt á því að lagning jarðstrengs sé að minnsta kosti jafnhagkvæm hér á landi og annars staðar í Evrópu sé litið til líftímakostnaðar, meðal annars vegna lægri launakostnaðar en almennt gerist í samanburðarlöndum í Evrópu. Hinn lági launakostnaður og lágt orkuverð skapi því sérstakt svigrúm hér á landi til þess að vanda frágang línulagna, meðal annars með því að leggja þær í jörðu. Þar að auki bendi ársreikningur stefnda Landsnets hf. frá 2013 ekki til annars en að fyrirtækið njóti ágætra vaxtakjara og annarra lánakjara bæði hjá erlendum lánardrottnum og innlendum, þar á meðal eigendum sínum.

    Í þriðja lagi verði að hafa í huga að af hálfu stefnda Landsnets hf., og þar af leiðandi Orkustofnunar, sé iðulega vísað til stofnkostnaðar í stað líftímakostnaðar, en ljóst sé að samanburður á líftímakostnaði yrði jarðstrengjum mun hagstæðari. Í fyrrnefndri skýrslu nefndar um mótun stefnu um lagningu raflína í jörð sé lögð áhersla á að ekki sé nægilegt að taka einungis tillit til mismunandi stofnkostnaðar við samanburð á jarðstreng og loftlínu heldur verði að meta allan kostnað, þar með talinn rekstrarkostnað eða svo kallaðan líftímakostnað.

    Stefnendur árétta að af hálfu stefnda Landsnets hf. hafi verið viðurkennt að útreikningar fyrirtækisins á kostnaði vegna jarðstrengja séu úreltir. Engu að síður hafi ráðuneytið ekki talið þörf á frekari rannsókn á kostnaðarmuninum og því síður á raunverulegri heildstæðri rannsókn á þeim kosti að leggja umrædda línu í jörðu.

    Af þessu megi ráða að ráðuneytið hafi farið þá leið að taka ekki sjálfstæða afstöðu til þeirrar röksemdar að kanna bæri þann kost að línan yrði lögð í jörðu. Þvert á móti hafi verið vísað til röksemda annars stjórnvalds, Orkustofnunar, án þess að útskýra hvers vegna ítarleg gögn stefnenda sem hafi að geyma nýjustu upplýsingar á þessu sviði og stönguðust á við einhliða staðhæfingar stefnda, kæmu ekki til skoðunar. Með þessu hafi ráðuneytið brotið gróflega gegn rannsóknarskyldu sinni, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga. Þannig hafi ráðuneytið í engu leitast eftir því að afla og staðreyna upplýsingar svo sem nauðsynlegt hafi verið til að unnt væri að taka afstöðu til þess hvort skilyrði 72. gr. stjórnarskrárinnar og eignarréttarákvæðis mannréttindasáttmála Evrópu um almenningsþörf væru uppfyllt, en í því felist að velja beri þann framkvæmdakost sem sé minnst íþyngjandi fyrir stefnendur og aðra landeigendur.

    Með hliðsjón af þessu fái sú afstaða ráðuneytisins ekki staðist að heimilt hafi verið að líta framhjá þessum framkvæmdakosti án raunverulegrar skoðunar að teknu tilliti til allra aðstæðna. Fari því fjarri að sýnt hafi verið fram á almenningsþörf fyrir framkvæmdinni, sbr. 72. gr. stjórnarskrárinnar og 1. gr. 1. samningsviðauka við mannréttindasáttmála Evrópu, auk þess sem meðalhófsreglunnar hafi ekki verið gætt.

    Stefnendur telja jafnframt að ekki hafi verið sýnt fram á að nauðsynlegt sé að reisa 220 kV flutningsmannvirki en röksemdir því til stuðnings hafi verið reifaðar ítarlega í athugasemdum stefnenda og annarra landeigenda til ráðuneytisins. Fram komi í rökstuðningi ráðuneytisins að sýnt hafi verið fram á að markmiði framkvæmdarinnar yrði ekki náð með fullnægjandi hætti til lengri tíma nema með lagningu 220 kV línu. Því til stuðnings sé einkum vísað til röksemda stefnda Landsnets hf. um að meginflutningskerfi raforku á Suðvesturlandi sé rekið á slíkri spennu og að óskynsamlegt væri að reisa einungis 132 kv línu þar sem núverandi lína sé fullnýtt, sem og að 220 kV lína sé nauðsynleg til að tryggja afhendingaröryggi til framtíðar. Þá vísi ráðuneytið á ný til röksemda í ákvörðun Orkustofnunar þar sem fram komi að við uppbyggingu kerfisins sé mikilvægt að líta til langtímasjónarmiða með hliðsjón af framtíðarþörf raforkunotenda og raforkuframleiðenda á svæðinu og að þess vegna sé 132 kV lína óhagkvæmur kostur.

    Stefnendur telja að þessi rökstuðningur fái ekki staðist. Þvert á móti sýni raforkuspá Orkuspárnefndar að ekki sé þörf á svo mikilli styrkingu kerfisins til framtíðar litið. Fyrirhugað mannvirki gæti flutt um 26-falda ársnotkun ársins 2013 á svæðinu og 17-falda þá flutningsgetu sem talið sé að þörf verði fyrir árið 2050 samkvæmt spám. Sú 220 kV háspennulína sem ráðuneytið telji að nauðsynlegt sé að heimila eignarnám vegna hafi því  bersýnilega flutningsgetu langt umfram almenna raforkuþörf til langrar framtíðar litið. Ráðuneytið víki ekki að þessu og verði að ætla að niðurstaða í þessum efnum ráðist í raun af pólitískum væntingum til orkufreks iðnaðar á svæðinu í framtíðinni. Það sé í raun staðfest í ákvörðun Orkustofnunar sem ráðuneytið hafi svo vísað til.

    Þannig sé í reynd viðurkennt að ekki sé þörf á styrkingu af þessari stærðargráðu í dag en talin nauðsyn á slíku, komi til orkufreks iðnaðar á næstu árum. Að mati stefnenda getur ekki staðist að grundvalla niðurstöðu um meðalhóf á slíkri óljósri, ótímasettri og órökstuddri framtíðarsýn. Það geti ekki talist réttmætt að heimila skerðingu eignarréttinda með lagningu háspennulína umfram það sem sé í reynd nauðsynlegt. Hafa verði í huga að lína á 220 kV spennu sé mun meira íþyngjandi en lína á 132 kV spennu, enda umhverfisáhrif meiri og helgunarsvæði lína á hærri spennu stærra. Í þessu sambandi taka stefnendur fram að Skipulagsstofnun hafi undanfarið lagt áherslu á að stefndi Landsnet hf. skilgreini og meti nauðsyn þess að reisa línur á 220 kV spennu, m.a. með hliðsjón af því að raforkumannvirki á lægri spennu séu minni og hafi í för með sér minni neikvæð umhverfisáhrif.

    Stefnendur leggja áherslu á að framkvæmdir aðila á borð við stefnda Landsnet hf. eigi eðli máls samkvæmt að vera til þess fallnar að uppfylla tilteknar þarfir sem séu vel skilgreindar og liggi fyrir. Í því sambandi er vísað til þess að samkvæmt 2. ml. 1. mgr. 12. gr. reglugerðar nr. 1040/2005 skuli umsókn um leyfi til að byggja flutningsvirki fylgja þarfagreining vegna viðkomandi virkis. Af ákvæðinu leiði að áður en ráðist sé í tiltekið verk þurfi að skilgreina nákvæmlega þær þarfir sem skuli uppfylla og hvernig það verði gert. Stefndi Landsnet hf. hafi látið undir höfuð leggjast að vinna slíka greiningu og Orkustofnun látið það óátalið. Þá hafi ráðuneytið einnig látið undir höfuð leggjast að kalla eftir greiningunni.

    Stefnendur vísa til þess að stefndi Landsnet hf. njóti sérleyfis til byggingar og reksturs raforkuflutningsmannvirkja lögum samkvæmt og lúti því ekki lögmálum samkeppni í rekstri sínum. Sú sérstaða geri enn ríkari kröfur til ráðuneytisins um að veita ekki heimild til eignarnáms vegna styrkingar raforkuflutningskerfisins nema að undangenginni sjálfstæðri og vandaðri rannsókn á raunverulegri þörf fyrir þau flutningsmannvirki sem sótt sé um að reisa. Hins vegar skorti verulega á að ráðuneytið hafi sinnt rannsóknarskyldu sinni, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga. Því telja stefnendur að ekki hafi verið sýnt fram á raunverulega þörf fyrir lagningu Suðurnesjalínu 2 á spennustiginu 220 kV. Þannig hafi ekki verið sýnt fram á nauðsyn svo viðamikillar framkvæmdar og að lína á lægra spennustigi dugi ekki til styrkingar raforkuflutningskerfis á svæðinu. Þetta sé í andstöðu við skilyrðið um almenningsþörf, sbr. 72. gr. stjórnarskrárinnar og 1. gr. 1. samningsviðauka við mannréttindasáttmála Evrópu, og meðalhófsreglu stjórnskipunarréttar. Jafnframt sé ákvörðunin að þessu leyti í andstöðu við meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga.

    Verði talið sýnt fram á nauðsyn 220 kV línu þá telja stefnendur að eftir sem áður hafi verið skylt að taka þann kost að leggja línu á slíkri spennu í jörðu til raunverulegrar skoðunar.

    Stefnendur byggja á því að ráðuneytinu hafi verið óheimilt að taka ákvörðun um eignarnám þar sem beiðni Landsnets hf. hafi ekki verið tæk til efnislegrar meðferðar. Hefði því verið rétt að hafna beiðninni, í öllu falli að svo stöddu.

    Byggja stefnendur í þessu samhengi á því að ekki fái staðist að taka ákvörðun um heimild til eignarnáms þar sem ekki liggi fyrir að grunnforsendur fyrir lagningu Suðurnesjalínu 2 séu til staðar. Þannig hafi stefndi Landsnet hf. til að mynda ekki aflað nauðsynlegra leyfa fyrir lagningu umræddrar háspennulínu, en í því sambandi megi nefna framkvæmdaleyfi frá sveitarfélaginu Vogum sem sé forsenda þess að til greina komi að ráðast í framkvæmdina. Að mati stefnenda geti ekki komið til greina að taka ákvörðun um sviptingu stjórnarskrárvarinna eignarréttinda við þessar aðstæður og vísa stefnendur þar til 72. gr. stjórnarskrárinnar sem mæli meðal annars fyrir um það grundvallarskilyrði eignarnáms að almenningsþörf krefji, en í því felist að eignarnám verði að teljast nauðsynlegt vegna almannahagsmuna. Stefnendur telja óhugsandi að slík nauðsyn sé til staðar þegar enn sé óljóst hvort nauðsynleg leyfi til viðkomandi framkvæmdar fáist. Heimild til eignarnáms komi aldrei til greina nema sem lokaúrræði og slík íþyngjandi ákvörðun verði ekki tekin fyrr en ljóst sé að öll önnur skilyrði til þeirrar framkvæmdar sem sé ástæða eignarnámsins séu uppfyllt. Það að taka slíka íþyngjandi ákvörðun á meðan óvissa ríki um hvort aðrar forsendur fyrir lagningu Suðurnesjalínu 2 séu uppfylltar sé í andstöðu við skilyrðið um almenningsþörf, sbr. 72. gr. stjórnarskrárinnar og 1. gr. 1. samningsviðauka við mannréttindasáttmála Evrópu, meðalhófsreglu stjórnskipunarréttar og meðalhófsreglu stjórnsýsluréttar.

    Í ákvörðun ráðuneytisins um eignarnám komi fram að samkvæmt eignarnámsbeiðni stefnda Landsnets hf. sé framkvæmdin ekki miðuð sérstaklega að ákveðnum orkufrekum verkefnum, heldur sé um að ræða nauðsynlega framkvæmd í almannaþágu. Í frétt um tilkynningu um árshlutauppgjör fyrirtækisins Century Aluminium, hinum bandaríska eiganda Norðuráls, sem hyggist reisa nýtt álver í Helguvík, fyrir fyrsta ársfjórðung ársins 2013, hafi verið haft eftir forstjóra fyrirtækisins að samningaviðræður um orkukaup til fyrirhugaðs álvers í Helguvík stæðu enn yfir og gengu hægt, en forstjórinn hefði vonast til þess að ný ríkisstjórn myndi sjá til þess að nýjar raforkulínur að álverinu yrðu settar upp.

    Þá sé vitað að Landsnet hf. hafi gert samning um flutning raforku til fyrirhugaðs álvers í Helguvík, meðal annars um land stefnenda, sem muni vera dagsettur 3. október 2007 en Landsnet hf. hafi neitað beiðni lögmanna stefnenda og annarra landeigenda um afrit af samningnum.

    Ekkert af þessu komi heim og saman við eignarnámsbeiðni og eignarnámsákvörðun ráðuneytisins og verði það að teljast rangt sem greini í eignarnámsbeiðni og eignarnámsákvörðun að framkvæmdin sé ekki miðuð sérstaklega að ákveðnum orkufrekum verkefnum. Miðað við alla forsögu málsins verði að telja það liggja fyrir með óvefengjanlegum hætti að bygging Suðurnesjalínu 2 sé meðal annars og sérstaklega til þess að búa í haginn fyrir álver í Helguvík. Því verði ekki hjá því komist að líta svo á að eignarnámsákvörðunin sé reist á röngum forsendum. Þá hafi ráðuneytið einnig í þessu tilviki brotið upplýsinga- og rannsóknarskyldu sína sem leiði til ógildingar ákvörðunarinnar.

    Ef svo hefði verið að Landsnet hf. og ráðuneytið teldu samninga um álver í Helguvík í uppnámi þegar eignarnámsbeiðni var samin og eignarnámsákvörðun tekin, sé það jafn óskiljanlegt og ámælisvert að ekki hafi verið gerð grein fyrir þeirri stöðu í eignarnámsákvörðuninni, enda sé þá augljóst að endurskoða beri framkvæmdina í því ljósi og draga stórkostlega úr umfangi hennar. Um sé að ræða flutningsgetu raforku fyrir nokkur hundruð þúsunda manna byggð með öllum tilheyrandi og eðlilegum atvinnurekstri. Einnig í þessu tilviki væri um að ræða brot á upplýsingaskyldu og rannsóknarskyldu ráðuneytisins.

    Stefnendur telja að Landsnet hafi brotið gróflega gegn skyldu sinni til samráðs við sig og aðra landeigendur við undirbúning framkvæmdarinnar. Lagning Suðurnesjalínu 2 hafi mikil umhverfisáhrif og gildi strangar málsmeðferðarreglur sem feli í sér lágmarkskröfur um kynningu, samráð og aðkomu hagsmunaaðila að slíkum málum. Fram komi í 4. mgr. 6. gr. Árósasamningsins um aðgang að upplýsingum, þátttöku almennings í ákvarðanatöku og aðgang að réttlátri málsmeðferð í umhverfismálum sem Ísland hafi fullgilt og sé einnig hluti af EES-rétti að sérhver samningsaðili skuli gera ráð fyrir þátttöku almennings snemma í ferlinu þegar allir kostir séu fyrir hendi og um virka þátttöku almennings geti verið að ræða. Einnig sé í þessu sambandi byggt á tilskipun 2003/35/EB sem varði þátttöku almennings við gerð skipulags- og framkvæmdaáætlana í tengslum við umhverfsimál, einkum 2. gr. og 4. mgr. 3. gr., en tilskipunin sé einnig hluti af EES-samningnum.

    Vinnubrögðin við undirbúning þeirrar framkvæmdar sem hér um ræði hafi hvorki verið í samræmi við framangreind ákvæði né 8. gr. laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum. Stefndi Landsnet hf. hafi í upphafi sagst hafa verið með „ýmsa“ valkosti til athugunar en eftir samráð við sveitarfélög, hafi einn valkostur verið eftir, þ.e. sá sem deilt sé um í máli þessu. Meðan á samráðsferli Landsnets hf. við sveitarfélögin hafi staðið, hafi almenningi ekki verið hleypt að borðinu og ekki einu sinni þeim sem hafi beinna hagsmuna að gæta líkt og eigi við um stefnendur og aðra landeigendur á svæðinu. Það hafi fyrst verið þegar náðst hafði niðurstaða milli stefnda og sveitarfélaganna sem málið hafi verið kynnt fyrir almenningi í matsáætlun, og þá aðeins einn valkostur. Staðreyndin sé sú að Landsnet hafi ekki talið sig þurfa að hafa sérstakt samráð við landeigendur fyrr en fyrirtækið hafi talið að því komið að semja við þá um bætur fyrir landsafnot.

    Stefnendur telja að framangreindar reglur umhverfisréttarins, sem og 72. gr. stjórnskrárinnar, sbr. 1. gr. 1. samningsviðauka við mannréttindasáttmála Evrópu, veiti landeigendum ríkan rétt til þátttöku í ákvörðunum um umhverfismál sem standi til að taka varðandi eignir þeirra, þ.e. rétt til virkrar þátttöku í ferli sem miði að ákvarðanatöku um tilhögun framkvæmdar frá upphafi þegar allir valkostir séu opnir og mögulegt að hafa einhver áhrif á ákvarðanatöku. Ákvæði stjórnarskrárinnar og mannréttindasáttmálans um vernd eignarréttinda feli í sér skyldu til að leita beinna samninga við landeigendur um allt ferli fyrirhugaðrar eignarskerðingar, þ.e. til að leita samninga við þá um framkvæmdir á landi þeirra, fyrirkomulag framkvæmda, alla útfærslu og loks bætur til þeirra.

    Þar sem ekki hafi verið löglega staðið að undirbúningi framkvæmdarinnar og brotið gegn skyldu til samráðs við stefnendur hafi stefnendum ekki gefist færi á viðræðum við Landsnet hf. fyrr en aðrir framkvæmdakostir en 220 kV loftlína hefðu verið útilokaðir. Stefnendur hafi þannig aldrei átt þess kost að hafa áhrif á ákvörðun um tilhögun þeirrar framkvæmdar sem skerði eignarréttindi stefnenda, en það sé í andstöðu við 72. gr. stjórnarskrárinnar, 1. gr. 1. samningsviðauka mannréttindasáttmálans og fyrrgreindar reglur á sviði umhverfisréttar. 

    Stefnendur mótmæla því sem komi fram í ákvörðun ráðuneytisins að samningaviðræður hafi verið reyndar til þrautar, svo sem áskilið sé í 72. gr. stjórnarskrárinnar og 23. gr. raforkulaga. Þetta skilyrði helgist ekki síst af sjónarmiðum um að eignarnám sé afdrifamikil og verulega íþyngjandi ákvörðun sem eigi ekki að koma til greina fyrr en fullljóst sé orðið að aðrar leiðir séu ekki færar. Í ákvörðun ráðuneytisins sé tekið fram að Landsnet hf. hafi í tvö ár reynt að ná samningum við landeigendur en gögn málsins sýni að samningaviðræður hafi „ekki snúist um fjárhæð eignarnámsbóta heldur fyrst og fremst um útfærslu framkvæmdarinnar og hvernig unnt væri að standa að henni með öðrum hætti“. Vísað sé til þess að framkvæmdin hafi sætt mati á umhverfisáhrifum og að um hana hafi verið fjallað í lögbundnu skipulagsferli, auk þess sem fyrir liggi leyfi Orkustofnunar til að reisa og reka flutningsvirkið.

    Stefnendur benda á að þeir hafi í reynd aldrei átt í eiginlegum samningaviðræðum vegna Stóra-Knarrarness I og því geti viðræður ekki talist reyndar til þrautar. Stefndi Landsnet hf. hafi boðað stefnendur einhliða til tveggja funda með árs millibili sem stefnendur hafi ekki séð sér fært að mæta til. Þess utan hafi engin samskipti átt sér stað milli aðila um afnot af landi stefnenda, fyrir utan eitt símtal til eins þeirra þar sem afstaða stefnenda var áréttuð. Stefndi Landsnet hf. hafi engu að síður talið sér stætt á að slíta samningaviðræðum með vísan til þess að frekari samningaviðræður væru „þýðingarlausar“. Í beiðni um heimild til að taka réttindi í landi stefnenda eignarnámi hafi sú afstaða gagnvart meðal annars verið rökstudd með vísan til þess að hluti stefnenda hefði „hafnað öllum tilboðum“ í jörðina vegna Suðurnesjalínu 2 „og jafnvel kallað þau fjarstæðukennd“. Þá segi þar að ekki hafi verið rætt sérstaklega við þau um eignarhlut þeirra í Stóra Knarrarnesi I þar sem sami lögmaður hafi gætt hagsmuna þeirra vegna eignarhluta þeirra í báðum jörðum. Þessari röksemdafærslu er vísað á bug af hálfu stefnenda, enda komi skýrt fram í öllum samskiptum stefnda og þáverandi lögmanns stefnenda að viðræður þeirra hafi einungis varðað jörðina Heiðarland Vogajarðir. Stefnda Landsneti hf. hafi því ekki verið heimilt að draga þær ályktanir að afstaða stefnenda til samningaviðræðna vegna jarðarinnar Heiðarlands Vogajarða væri sú sama og afstaða stefnenda til samningaviðræðna vegna jarðarinnar Stóra Knarrarness I. Stefnda Landsneti hf. hafi því ekki verið stætt á að slíta samningaviðræðum með einhliða hætti.

    Enda þótt heimilt væri að leggja afstöðu stefnenda til samningaviðræðna vegna Heiðarlands Vogajarða að jöfnu við afstöðu þeirra til samningaviðræðna vegna Stóra Knarrarness I, byggja stefnendur engu að síður á því að samningaviðræður hafi ekki verið fullreyndar. Lögmönnum stefnda Landsnets hf. hafi verið kynnt hagsmunagæsla lögmanns stefnenda í desember 2012 og óskað eftir fresti til yfirferðar gagna svo unnt yrði að móta ráðgjöf. Í framhaldi af því hafi Landsnet hf. tilkynnt að samningaviðræðum væri í raun lokið og að ekki væri þörf á fresti til gagnayfirferðar. Með bréfi stefnenda 7. febrúar 2013 hafi verið gagnrýnt að samningaviðræðum væri lokið án þess að efnislegar og málefnalegar viðræður hefðu í reynd átt sér stað. Tekið hafi verið fram að það væri ekki á færi stefnda Landsnets hf. að slíta samningaviðræðum einhliða og áður en gagnaðilar teldu málið hafa verið rætt til þrautar, en héldi stefndi Landsnet hf. sig við þá afstöðu, yrði það á hans ábyrgð. Sérstaklega hafi verið gagnrýnt að ekki hafi verið ætlunin að veita lögmönnum stefnenda tóm til að yfirfara gögn málsins og meta stöðuna ásamt umbjóðendum sínum, enda þótt ítrekað hefði verið að gagnayfirferð og mat á réttarstöðu stæði yfir. Af hálfu Landsnets hf. hafi þrátt fyrir þetta ekki verið hvikað frá þeirri afstöðu að samningaviðræðum væri lokið. Stefnendur telja slík einhliða slit á samningaviðræðum, ein og sér, fela í sér brot á þeirri skyldu stefnda Landsnets hf. að reyna samninga til hlítar og eigi það sérstaklega við þar sem lögmenn stefnenda óskuðu eftir frekari viðræðum.

    Að mati stefnenda hafi í reynd ekki farið fram raunverulegar samningaviðræður í skilningi 23. gr. raforkulaga, sbr. áskilnað 72. gr. stjórnarskrárinnar. Ljóst sé af dómaframkvæmd að gerðar séu ríkar kröfur til inntaks samningaviðræðna og að þær séu fullreyndar áður en eignarnám geti komið til greina. Það skipti öllu hvort samningsaðili hafi raunverulega sýnt hug á því að ná samningnum, t.d. með því að taka sanngjarnt tillit til hagsmuna gagnaðila og leggja raunhæft mat á tillögur hans. Stefnendur hafi lagt áherslu á að kanna yrði þann kost að leggja umrædda línu í jörðu. Þetta hafi stefnendur gert þar sem sá framkvæmdakostur sem fólst í jarðstreng hefði ekki á nokkru tímamarki hlotið raunhæfa skoðun og hafi stefnendur talið það brot á stjórnarskrárvörðum rétti sínum að sá möguleiki væri ekki kannaður. Landsnet hf. hafi aldrei reynt og aldrei sýnt vilja til að reyna að ná samkomulagi við stefnendur.

    Þeirri afstöðu ráðuneytisins að samningaviðræður við landeigendur sem undanfari eignarnáms eigi eingöngu að snúast um bótafjárhæð mótmæla stefnendur alfarið. Slík afstaða eigi sér hvorki stoð í 72. gr. stjórnarskrárinnar né 23. gr. raforkulaga. Þá brjóti sú afstaða í bága við þá vernd sem 1. gr. 1. samningsviðauka mannréttindasáttmála Evrópu sé ætlað að veita.

    Stefnendur byggja á því að mismunandi framkvæmdakostir hljóti að vera þáttur í þeim samningaviðræðum við landeigendur sem fram skuli fara áður en eignarnám komi til greina. Í eignarrétti felist meðal annars að vilji einhver fá afnot af eign annars aðila, beri honum að leita samninga við eigandann um afnotin, fyrirkomulag þeirra og endurgjald fyrir þau samkvæmt skýrri dómaframkvæmd Hæstaréttar. Það sé veruleg þrenging á þessu mikilvæga skilyrði að líta svo á að samningaviðræður varði eingöngu bótafjárhæð. Það sé jafnframt í beinni andstöðu við orðalag 1. mgr. 23. gr. raforkulaga þar sem samkomulag um endurgjald fyrir landnot sé nefnt í dæmaskyni sem eitt þeirra atriða sem reyna skuli að ná samkomulagi um við landeiganda. Hafa verði í huga að það sé fyrst á þessu stigi sem landeigandi eigi þess kost að eiga bein samskipti við þann aðila sem hyggst skerða eignarréttindi hans. Sé þess ekki kostur á þessu stigi að reyna að ná samningum um þá leið sem fara skuli við slíka skerðingu, megi ljóst vera að landeigandi eigi aldrei rétt á slíkum viðræðum. Þá sé sú staða uppi að aðili sem eignarréttarskerðing bitnar á hafi ekki lögvarinn rétt til að ræða við framkvæmdaraðila þá framkvæmdakosti sem viðkomandi telji minnst íþyngjandi. Slíkt geti ekki samræmst þeirri eignarréttarvernd sem 72. gr. stjórnarskrárinnar og eignarréttarákvæði mannréttindasáttmálans tryggja. Slík niðurstaða samræmist heldur ekki þeirri umhverfisréttarvernd sem Árósasamningurinn og EES-samningurinn tryggi almenningi.

    Stefnendur geri sérstaka athugasemd við það að stefndi Landsnet hf. hafi lýst því einhliða yfir að samningaviðræður væru fullreyndar, enda þótt lögmaður stefnenda hafi ekki talið svo vera og lýst því yfir að hann þyrfti frekara tóm til að móta ráðgjöf sína. Slík einhliða slit á samningaviðræðum séu í andstöðu við 23. gr. raforkulaga og 72. gr. stjórnarskrárinnar. Þá verði að gera athugasemd við það að ráðuneytið leggi áherslu á að umrædd framkvæmd hafi farið í gegnum „lögbundið ferli“ og að um „skilgreinda framkvæmd“ sé að ræða. Að líkindum sé með því vísað til umhverfismats frá 2009 og gildandi aðalskipulags í Vogum. Stefnendur telja þetta þó ekki geta haft sérstaka þýðingu fyrir skylduna til að reyna samninga til hlítar áður en krafist sé eignarnáms. Stefnendur minna á að þeir sem og ýmsir aðrir landeigendur hafi frá því að áform um styrkingu raforkuflutningskerfis á svæðinu komu fyrst fram, lagt áherslu á að línan yrði lögð í jörðu. Það að Landsnet hf. hafi ekki hlutast til um að raunverulegt mat á framkvæmdakostum færi fram strax við upphaf undirbúnings framkvæmdar, svo sem honum hafi borið lagaleg skylda til, geti ekki leyst hann undan skyldu til að eiga samningaviðræður við landeigendur um þá kosti sem þeir telji minnst íþyngjandi á síðari stigum.

    Stefnendur telja ráðuneytið vísa í mikilvægum atriðum til ákvörðunar Orkustofnunar um veitingu leyfis á grundvelli raforkulaga og geri rökstuðning stofnunarinnar að sínum. Þannig megi ljóst vera að umrædd ákvörðun sé grundvallargagn í málinu og hafi í raun ráðið úrslitum um þá afstöðu ráðuneytisins að Landsneti hf. hafi ekki verið skylt að taka þann kost að leggja línuna í jörðu til raunverulegrar skoðunar. Stefnendum hafi hins vegar ekki verið gefið færi á að koma á framfæri athugasemdum við ákvörðun Orkustofnunar og hafi ekki hugkvæmst að ráðuneytið hygðist byggja rökstuðning sinn á ákvörðuninni, enda hafi ákvörðunin varðað allt annan þátt málsins. Ljóst megi vera að stefnendur hafi haft margvíslegar athugasemdir við ákvörðunina og tilkynnt ráðuneytinu að til stæði að höfða dómsmál til ógildingar hennar. Því hafi ráðuneytinu ekki getað dulist að stefnendur hefðu fram að færa andmæli vegna þeirra röksemda sem ákvörðunin byggðist á.

    Byggja stefnendur á því að ráðuneytið hafi brotið gegn andmælarétti stefnenda, sbr. 13. gr. stjórnsýslulaga, með því að hafa ekki gefið færi á að koma athugasemdum við umrædda ákvörðun á framfæri. Þegar ráðuneytið hafi tekið ákvörðun um að leggja röksemdir Orkustofnunar til grundvallar úrlausn sinni, hafi því borið að kalla eftir athugasemdum stefnenda við ákvörðun stofnunarinnar. Með því að gera það ekki hafi ráðuneytið brotið gegn kjarna andmælaréttar stefnenda þar sem stefnendum hafi ekki verið gefið færi á að tjá sig um grundvallargagn sem ráðuneytið hygðist byggja afstöðu sína á. Meginreglan sé sú að stjórnvaldi sé almennt óheimilt að taka ákvörðun í máli fyrr en það hafi gefið aðila sérstakt færi á að kynna sér ný gögn sem hafi bæst við í máli hans og koma á framfæri andmælum, enda hafi upplýsingarnar verulega þýðingu við úrlausn málsins og séu aðilanum í óhag. Stefnendur telja einsýnt að þessi staða sé uppi í málinu. Ákvörðun Orkustofnunar sé stefnendum sýnilega í óhag og hafi stefnendum að óvörum verið nýtt sem grundvallargagn í röksemdafærslu ráðuneytisins án þess að stefnendum hafi verið gefið færi á að skila athugasemdum. Hefði stefnenda verið gefinn kostur á að koma á framfæri andmælum, hefðu stefnendur bent á ýmsa annmarka á röksemdafærslu Orkustofnunar. Virkur andmælaréttur stefnenda hefði þannig verið til þess fallinn að upplýsa málið og leiðrétta rangfærslur.

    Stefnendur minna á að andmælareglan tengist náið rannsóknarreglunni, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga, þar sem mál verði ekki talin nægilega upplýst nema aðila hafi verið gefinn kostur á að kynna sér gögn máls og koma að andmælum. Brot ráðuneytisins á andmælarétti stefnenda hafi því jafnframt leitt til þess að rannsókn var ófullnægjandi.

    Stefnendur byggja á því að brot á andmælarétti stefnenda hafi leitt til þess að mikilvæg sjónarmið og upplýsingar sem hafi verið til þess fallin að hafa áhrif á ákvarðanatöku ráðuneytisins hafi ekki komið fram. Byggja stefnendur á því að um verulegan annmarka sé að ræða sem leiði sjálfstætt til þess að ógilda verði hina umþrættu ákvörðun um eignarnám.

    Stefnendur telja að framangreindar málsástæður og röksemdir leiði hver og ein, og ekki síður séu þær teknar saman í heild, til þess að fallast verði á dómkröfur stefnenda og ógilda ákvörðun um eignarnám á landi stefnenda. Þar við bætist að ráðuneytið hafi látið það undir höfuð leggjast við málsmeðferðina hjá sér að taka rökstudda afstöðu til málsástæðna stefnenda, og leiði sá annmarki á málsmeðferðinni einnig til ógildingar ákvörðunarinnar.

    III

    Stefndi Landsnet hf. vísar til þess að hlutverk fyrirtækisins sé að annast flutning raforku og stjórnun íslenska raforkukerfisins. Fyrirtækið starfi samkvæmt sérleyfi og sé háð opinberu eftirliti Orkustofnunar sem meðal annars ákvarði tekjumörk sem gjaldskrá fyrirtækisins byggir á. Orkustofnun ráði ekki einungis tekjumörkum og gjaldskrá fyrirtækisins heldur einnig því hvort leyfi skuli veitt fyrir byggingu nýrra flutningsvirkja raforku á hærri spennu en 66 kV, sbr. 2. mgr. 9. gr. raforkulaga.

    Landsnet hf. beri ábyrgð á öruggri stýringu raforkukerfisins og skuli tryggja öryggi og gæði við raforkuafhendingu, sbr. 4. mgr. 9. gr. raforkulaga. Við byggingu raflína í flutningskerfinu þurfi oftast að fara um langan veg, í tilviki Suðurnesjalínu 2 um 34 km., og því verði ákvarðanir um hönnun og fyrirkomulag að byggjast á almennum ákvörðunum um útfærslu. Erfitt eða útilokað kunni að reynast að koma að öllum sjónarmiðum um hana.

    Framkvæmdin Suðvesturlínur hafi verið lengi í undirbúningi og farið í gegnum lögbundið ferli, á undirbúningsstigi hafi verið haft samráð við sveitarfélög, stofnanir og aðra hagsmunaaðila, og framkvæmdin hafi verið kynnt sérstaklega fyrir landeigendum, þar á meðal stefnendum, meðal annars með fundahöldum. Þá hafi yfirlitskort fylgt öllum bréfum stefnda og upplýsingarit verið send á öll heimili á Suðurnesjum og í Hafnarfirði ásamt því að sett hafi verið upp sérstök heimasíða um verkefnið (www.sudvesturlinur.is) þar sem hagsmunaaðilar og landeigendur hafi getað nálgast gögn um verkefnið. Fyrir liggi umhverfismat og álit Skipulagsstofnunar frá 17. september 2009 vegna framkvæmdarinnar, þar sem fallist sé á framkvæmdina. Sá hluti verkefnisins sem nefndur sé Suðurnesjalína 2 sé á samþykktu aðalskipulagi Hafnarfjarðar og allra sveitarfélaga á Suðurnesjum er framkvæmdina varði, þ.e.a.s. sveitarfélagsins Voga, Reykjanesbæjar og Grindavíkur, og einnig á staðfestu svæðisskipulagi.

    Ljóst sé að þau sjónarmið sem stefnendur vísi til hafi frá upphafi legið fyrir auk þess sem stefndi Landsnet hf. hafi í samskiptum sínum við stefnendur veitt þeim fullt tækifæri til að koma sjónarmiðum sínum á framfæri. Við undirbúning framkvæmdarinnar hafi Landsnet hf. fylgt lögbundnum ferlum, en með því sé fyrst og fremst um að ræða mat á umhverfisáhrifum og gerð skipulagsáætlana af hálfu viðkomandi sveitarfélaga. Mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar sé mikilvægur og stefnumarkandi áfangi við undirbúning hennar og sé stefnda Landsneti hf. þannig bæði rétt og skylt að haga í framhaldinu undirbúningi framkvæmdarinnar í samræmi við niðurstöður úr lögbundnu ferli og lögmætar ákvarðanir, t.d. skipulagsyfirvalda. Frá upphafi hafi ljóst að stefndi Landsnet hf. hafi talið á grundvelli þeirra laga sem hann starfi eftir að bygging 220 kV háspennulínu væri nauðsynleg framkvæmd, enda sú 132 kV háspennulína, Suðurnesjalína 1 sem nú ein tengi Suðurnes við 220 kV meginflutningskerfið á Suðvesturhorni landsins orðin fulllestuð og ófær um að mæta kröfum um aukinn raforkuflutning á aðeins 20 árum.

    Í málatilbúnaði sínum líti stefnendur framhjá þýðingu lögbundins undirbúningsferlis framkvæmdarinnar bæði hvað varði mat á umhverfisáhrifum og gerð skipulagsáætlana.

    Stefndi mótmælir því að samningaviðræðum hafi verið einhliða lokið af hálfu stefnda Landsnets hf. án þess að efnislegar og málefnalegar viðræður hafi í reynd átt sér stað. Stefndi vísar í þessu samhengi til þess að stefnendur hafi frá upphafi mótmælt framkvæmd Suðurnesjalínu 2, 220kv háspennulínu og hafi langar samningaviðræður stefnda Landsnets hf. við stefnendur ekki breytt þeirri skoðun hans. Því hafi verið ljóst að af framkvæmdum yrði ekki nema að fenginni heimild til eignarnáms.

    Leyfi Orkustofnunar ásamt greinargerð frá 5. desember 2013 liggi fyrir sem heimili stefnda að reisa og reka flutningsvirkið Suðurnesjalínu 2. Fyrirhuguð lína verði 32,4 km. löng 220 kV háspennulína sem liggja muni frá tengivirki við Hamranes í Hafnarfirði um sveitarfélögin Voga, Reykjanesbæ og Grindarvíkurbæ að tengivirki við Rauðamel, um 5 km norðan við Svartsengi. Framkvæmdin sé hluti af svonefndum Suðvesturlínum, framtíðarstyrkingu raforkuflutningskerfisins á Suðvesturlandi, en núverandi orkuflutningskerfi á Suðvesturlandi muni ekki anna fyrirsjáanlegri eftirspurn á svæðinu í nánustu framtíð. Verst sé ástandið á Suðurnesjum. Þar sé einungis ein háspennulína, Suðurnesjalína 1, 132 kV, sem nú þegar sé nýtt til fulls. Vegna þessa sé fyrsti áfangi í styrkingu raforkuflutningskerfisins á Suðvesturlandi bygging nýrrar háspennulínu á Suðurnesjum, áðurnefndrar Suðurnesjalínu 2. Markmið framkvæmdarinnar sé að byggja upp raforkuflutningskerfið á Suðurnesjum til framtíðar svo það geti mætt orkuflutningsþörf á svæðinu nú og til framtíðar, jafnt til atvinnustarfsemi og almannanota. Þá sé tilgangurinn einnig að auka afhendingaröryggi raforku með tvöfaldri tengingu við almenna kerfið.

    Öll skilyrði að lögum fyrir framkvæmdinni séu því uppfyllt að frátöldum þremur af fjórum framkvæmdaleyfum, en á sífellt lengri undirbúningstíma framkvæmda sem sæta þurfi mati á umhverfisáhrifum sé eðlilegt að framkvæmdaleyfi heyri til þeirra þátta sem teljist til lokaundirbúnings þeirra en stefndi Landsnet hf. hafi sótt um framkvæmdaleyfi til þeirra fjögurra sveitarfélaga sem framkvæmdina varði 7. maí 2014 og hafi framkvæmdaleyfi af hálfu Reykjanesbæjar verið veitt 16. júní 2014.

    Á grundvelli lögbundinnar starfsemi sinnar samkvæmt raforkulögum, sérfræðiþekkingar og sem ábyrgðaraðili orkuflutningskerfis landsins telur stefndi Landsnet hf. að ekki sé raunhæft að leggja Suðurnesjalínu 2 í jörð, að teknu tilliti til samanburðar á kostnaði og rekstareiginleikum háspennulína og jarðstrengja og hafi Orkustofnun tekið undir það mat, en samanburður á þeim kosti að leggja jarðstreng í stað háspennulínu hafi þegar legið fyrir þegar Landsnet hf. hafi sent meðstefnda íslenska ríkinu erindi sitt 25. nóvember 2013.

    Fráleitt sé að ætla stefnda Landsneti hf. að velja framkvæmdakost sem ekki sé í samræmi við lögbundnar skyldur hans líkt og stefnendur virðist telja. Þá sé fráleitt að stefnendur stilli máli þessu upp þannig að þeir standi jafnfætis stefndu þegar komi að opinberri stefnumörkum og lögbundnum ákvörðunum. Stefnendur beri ekki ábyrgð á afhendingaröryggi orku á Suðurnesjum en á landeigendur séu þó lagðar skyldur vegna meðal annars afnota af landsréttindum, sbr. VI. kafli raforkulaga. Hér sé um framkvæmd að ræða sem snerti allan almenning og varði innviði samfélagsins. Dómstólar hafi ekki vald til að fallast á dómkröfur stefnenda því þær varði í raun þrískiptingu ríkisvaldsins, sbr. 2. gr. stjórnarskrárinnar. Engir annmarkar séu á stjórnvaldsákvörðun stjórnvalda. Ef um annmarka gæti verið að ræða væru þeir óverulegri og ættu ekki undir neinum kringumstæðum að leiða til ógildingar ákvörðunarinnar.

    Í ákvörðun ráðuneytisins um heimild til eignarnáms sé tekin afstaða til allra álitaefna stefnenda með ítarlegum hætti og öll sjónarmið sem fjallað sé um í málinu hafi legið fyrir við ákvarðanatökuna. Stefnendur hafi notið ríkulegs andmælaréttar af hálfu meðstefnda og málsmeðferð meðstefnda hafi verið vönduð og í samræmi við lög.

    Enda þótt stefnendur geti ekki fallist á rökstuðning fyrir því að uppfyllt séu skilyrði eignarnáms, þá sæti eignaréttur almennum takmörkunum laga og málsmeðferð brjóti í engu gegn 72. gr. stjórnarskrárinnar eða 23. gr. raforkulaga. Stjórnvaldsákvörðunin feli réttilega í sér almennt og hlutlægt mat um að framkvæmdir við Suðurnesjalínu 2 muni ekki hafa veruleg og óafturkræf áhrif á eignir stefnenda. Skýrara dæmi um nauðsyn samfélagsins á beitingu eignarnámsheimilda vegna samfélagslegra þátta sem nái til mjög mismunandi hagsmuna, bæði einstaklegra og almennra, verði vart fengið. Því beri að meta málsatvik heildstætt og út frá lögbundnum hagsmunum, lögfestum skyldum og réttindum stefnda Landsnets hf. ekki síður en einstaklingsbundnum hagsmunum stefnenda. Um sé að ræða almenna kvöð á eignarrétti sem allir landeigendur á línuleiðinni sem fari um skipulagt mannvirkjabelti á Reykjanesi sæta. Engar forsendur né lagafyrirmæli séu til þess að ógilda stjórnvaldsákvörðunina og væri slík niðurstaða afar íþyngjandi fyrir stefnda og um leið þá samfélagslegu hagsmuni sem honum beri að sinna á grundvelli raforkulaga.

    Stefnendur haldi því fram að fyrirliggjandi ákvörðun um eignarnám sé haldin slíkum annmörkum að hún sé ógildanleg. Því mótmælir stefndi Landsnet hf. sem röngu og ósönnuðu og telur að engir annmarka séu á eignarnámsákvörðun íslenskra stjórnvalda. Jafnvel þótt talið yrði að einhverjir annmarkar væru á henni, telur stefndi Landsnet hf. að slíkir annmarkar séu óverulegir og geti ekki leitt til ógildingar á ákvörðuninni með vísan til heildstæðs mats á málinu og umfangi þess. Landsnet hf. bendir á að til þess að stjórnvaldsákvörðun teljist ógildanleg þurfi að vera á henni verulegur annmarki.

    Af hálfu stefnda Landsnets hf. er því haldið fram að eignarnámsákvörðun stjórnvalda uppfylli öll form- og efnisskilyrði og að ekki hafi verið leiddir í ljós neinir verulegir annmarkar á henni sem leiða ættu til ógildingar hennar. Ákvörðunin sé ítarlega rökstudd og byggð á málefnalegum sjónarmiðum. Hún byggi á heimild íslenska ríkisins og sjónarmiðum sem fram komi fyrst og fremst í 72. gr. stjskr., 23. gr. raforkulaga og stjórnsýslulögum nr. 37/1993, meðal annars með tilliti til jafnræðisreglu 11. gr. laganna þegar metin sé staða stefnenda og annarra landeigenda sem sæta þurfi sömu almennu en afmörkuðum takmörkunum á eignarréttindum sínum og stefnendur. Þannig eigi sjónarmið stefnenda ekki að hafa aukið vægi umfram önnur sjónarmið, meðal annars stefnda Landsnets hf., og mati á aðstæðum öllum vegna framkvæmdarinnar sem stefndi Landsnet hf. telji nauðsynlegt að ráðast í. Ljóst sé hins vegar að áður en stjórnvaldsákvörðunin hafi verið tekin, hafi bæði stefnendum og stefnda Landsneti hf. verið gefinn kostur á að koma að sjónarmiðum sínum og. Stefnendur hafi nýtt sér andmælarétt sinn og öll sjónarmið sem varði einstaklega hagsmuni hans hafi legið fyrir þegar ákvörðunin hafi verið tekin og íslensk stjórnvöld lögðu mat á beiðni stefnda Landsnets hf. um eignarnámið. Þannig sé málsmeðferðin í samræmi við stjórnsýslulög, þar með taldar 10., 12. og 13. gr. laganna, og ákvörðunin lögmæt í alla staði, bæði hvað varði form og efni.

    Stefnendur málsins tefli fram málsástæðum í málinu sem varði ekki atriði þessa máls og er þeim mótmælt af hálfu stefnda Landsnets hf. Í málinu sé hvorki leyfi Orkustofnunar til framkvæmdarinnar til endurskoðunar né skýrsla eða mat á umhverfisáhrifum hennar. Hið sama megi segja um skipulagsáætlanir þeirra sveitarfélaga sem framkvæmdin liggi um. Öll þessi atriði sem varði framkvæmdina hafi verið fyrir hendi þegar stjórnvaldsákvörðunin hafi verið tekin og hafi stefndu verið rétt og skylt að byggja á þeim og treysta á ákvarðanir sem hafi verið teknar í löngu og ströngu lögbundnu ferli.

    Stefndi Landsnet hf. krefst þess að ekki verði leyst úr öðrum málsástæðum stefnenda í dómi en þeim sem varði beinlínis umþrætta eignarnámsákvörðun í málinu og byggi á einstaklegum og lögvörðum hagsmunum stefnenda. Um þetta vísar stefndi Landsnet hf. til 1. mgr. 25. gr. laga um meðferð einkamála. Þær málsástæður sem stefnendur byggi á að nær öllu leyti geti ekki talist varða einstaka og lögvarða hagsmuni stefnenda heldur sé um að ræða almenn atriði sem lúti opinberri stefnumörkun, lögbundnum undirbúningsferlum og ákvörðunum annarra stjórnvalda en þess sem hafi tekið þá ákvörðun sem krafist sé ógildingar á. Í þessu sambandi bendir stefndi Landsnet hf. í fyrsta lagi á fullyrðingar stefnenda um að lagning Suðurnesjalínu 2 í jörð sé raunhæfur framkvæmdakostur og mun minna íþyngjandi en loftlína sem ekki hafi verið tekinn til „raunverulegrar skoðunar“ auk þess sem stefnendur fullyrði að ekki hafi verið sýnt fram á nauðsyn 220 kV háspennulínu. Í öðru lagi telji stefnendur stefnda Landsnet hf. hafa brotið gegn lagaskyldu sinni til samráðs við stefnendur vegna framkvæmdarinnar, og í þriðja lagi sé fullyrt að veita hefði átt stefnendum sérstakan andmælarétt vegna tilvísunar íslenskra stjórnvalda í stjórnvaldsákvörðun til leyfis Orkustofnunar. Slíkur málflutningur feli í sér að við eignarnámsákvörðun hefði átt að endurskoða og fjalla að nýju um öll leyfi, skipulagsáætlanir og lögbundna ferla vegna framkvæmdarinnar. Þessi atriði eigi það sammerkt að annað hvort hafi verið fjallað um þau áður af þar til bærum aðilum eða um sé að ræða atriði sem ekki beri að fjalla um í eignarnámsákvörðun á grundvelli 23. gr. raforkulaga, sbr. og 72. gr. stjórnarskrár.

    Stefndi Landsnet hf. hafi tilkynnt landeigendum um undirbúning framkvæmda við raforkuflutningskerfið á Reykjanesskaga með bréfi 9. nóvember 2007. Mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar hafi verið unnið í samræmi við ákvæði laga um mat á umhverfisáhrifum nr. 106/2000, sbr. sérstaklega 8.-10. gr. laganna, en þar sé kveðið á um kynningarferli sem felist m.a. í því að framkvæmdaraðili kynnir umsagnaraðilum og almenningi tillögu að matsáætlun, sbr. 1. mgr. 8. gr. laganna. Fummatsskýrsla sé unnin á grundvelli samþykktar matsáætlunar. Skipulagsstofnun kynni hina fyrirhuguðu framkvæmd og frummatsskýrslu með auglýsingu í Lögbirtingablaðinu, dagblaði sem gefið er út á landsvísu og eftir því sem við eigi í fjölmiðli sem ætla megi að nái til þeirra sem búi nærri framkvæmdasvæði, sbr. 2. mgr. 10. gr. laganna. Öllum sé frjálst að gera athugasemdir við frummatsskýrslu, sbr. 4. mgr. 10. gr. laganna. Þá hafi upplýsingar legið fyrir á heimasíðu stefnda, landsnet.is og sérstakri heimasíðu verkefnisins, sudvesturlinur.is. Stefnendur hafi nýtt sér umsagnarrétt sinn og komið sjónarmiðum sínum á framfæri, meðal annars með aðstoð lögmanna. Í grundvallaratriðum sé afstaða stefnenda óbreytt, þ.e.a.s. að hann leggist gegn framkvæmdinni og hafi afstaðan legið fyrir á öllum stigum ákvörðunartöku hinna fjöldamörgu þátta sem varði jafn viðamikla, kostnaðarsama og tæknilega flókna framkvæmd sem Suðurnesjalína 2 sé. Landeigendum í sveitarfélaginu Vogum hafi sérstaklega verið gefinn kostur á að gera athugasemdir við tillögu stefnda að lögn Suðurnesjalínu 2 og Kolviðarhólslínu 2 frá Hrauntungum að Njarðvíkurheiði. Stefndi Landsnet hf. hafi kynnt framkvæmdina ítarlega og að öllu leyti og jafnvel umfram lögbundnar skyldur sínar, auk þess sem málið hlaut nokkra fjölmiðlaathygli og gat því ekki hafa farið framhjá neinum hagsmunaaðila innan sveitarfélagsins Voga.

    Lögbundnir umsagnaraðilar hafi einnig látið mat á umhverfisáhrifum til sín taka. Þannig liggi fyrir umsögn Umhverfisstofnunar þar sem skýrt komi fram að á hraunsvæði, svo sem á hinu skipulagða mannvirkjabelti á Reykjanesskaga, sé það betri kostur með tilliti til jarðmyndana og náttúruverndar að leggja loftlínur yfir hraun frekar en jarðstrengi, þar sem fyrrnefnd aðgerð sé mun afturkræfari en sú síðarnefnda hvað varði spjöll á jarðmyndunum og gróðri. Umhverfisstofnun telji að frummatsskýrsla stefnda Landsnets hf. hafi verið ítarleg og gefið góða mynd af hugsanlegum umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar. Skýrt komi fram að Umhverfisstofnun sé ekki hlynnt því að jarðstrengur verði lagður í óraskað hraun og telji stofnunin ekki líkur á því að styrking suðvesturlína muni hafa umtalsverð umhverfisáhrif í för með sér. Þá segi í umsögn Orkustofnunar meðal annars að stofnunin leggi áherslu á að við uppbyggingu flutningskerfis landsins og endurbætur á því sé leitað hagkvæmustu leiða að teknu tilliti til atriða sem snerta öryggi raforkuafhendingar. Í ljósi þess að mikill munur sé á kostnaði við byggingu loftlína annars vegar og lagningu jarðstrengja hins vegar, styðji Orkustofnun þá viðleitni stefnda Landsnets hf. að velja loftlínur í stað jarðstrengja þar sem aðstæður leyfi. Í umsögn Vegagerðarinnar komi fram skýr fyrirmæli þess efnis að þeir jarðstrengir sem liggi samsíða vegum skuli allir vera utan veghelgunar sem nái 30 m frá miðlínu veganna. Sama gildi um loftlínur og helgunarsvæði þeirra. Ljóst sé því, hvað sem skoðunum stefnenda líði, að engin samlegðaráhrif séu með lagningu jarðstrengja á hárri spennu og þjóðvegakerfi landsins. Um tvo aðskilda þætti sé að ræða en báðir falli undir mannvirki sem séu innviðir þjóðfélagsins, í almannaþágu og lúti lögbundum skilyrðum um öryggi og tilhögun framkvæmda. Í umsögn HS Orku hf. komi meðal annars fram að bygging Suðurnesjalínu sé brýn nauðsyn svo viðunandi afhendingaröryggi raforkunnar sé tryggt, rekstraröryggi virkjana fyrirtækisins verði ásættanlegt og að frekari þróun jarðhitaiðnaðarins geti átt sér stað með frekari virkjunum. Hvetji fyrirtækið til að framkvæmdin verði að veruleika sem fyrst.

    Þessu til viðbótar hafi stefnendur látið til sín taka vegna skipulagsmála, bæði vegna aðalskipulags í sveitarfélaginu Vogum og vegna Svæðisskipulags Suðurnesja. Sveitarfélagið Vogar hafi þó tekið rökstudda og ítarlega afstöðu til þess hvers vegna beri að leggja loftlínu fremur en jarðstreng, meðal annars með vísan til samningaviðræðna sveitarfélagsins við stefnda og samkomulags þessara aðila um línulagnir í sveitarfélaginu. Þá hafi það jafnframt tekið rökstudda afstöðu til stækkunar raforkuflutningskerfisins úr 132 kV í 220 kV og um línustæði í landinu. Bendi sveitarfélagið á að komi til eignarnáms, komi það í hlut matsnefndar eignarnámsbóta að ákveða sanngjarnar bætur fyrir röskunina og afnotin.

    Hvað varði samráð og tilraunir til að ná samningum við stefnendur á grundvelli 23. gr. raforkulaga, andmælarétt hans og sjónarmiða um meðalhóf við beitingu eignarnáms sé ljóst að öll skilyrði fyrir beitingu eignarnáms samkvæmt 72. gr. stjórnarskrár og 23. raforkulaga séu fyrir hendi í málinu. Engin ný sjónarmið hafi verið uppi í andmælum stefnenda til meðstefnda íslenska ríkisins. Af heildstæðu mati á málinu og gögnum þess verði ekki dregin önnur ályktun en sú að stefnendur vilji ekki heimila framkvæmdina Suðurnesjalína 2 á hluta eignarlands síns þótt öll skilyrði séu til þess og almannaheill krefji. Verði vart fundið skýrara dæmi um réttmæta beitingu eignarnáms en í þessu tilviki. Stefnendur telji sig hins vegar bæran, með vísan til 23. gr. raforkulaga og 72. gr. stjórnarskrár., að fjalla um í samningaviðræðum um bætur vegna framkvæmdar Suðurnesjalínu 2 með 220 kV háspennulína aðra þætti en möguleg áhrif þeirrar framkvæmdar á land stefnenda sem stefndi Landsnet hf. hefur ákveðið að ráðast í og ber ábyrgð á að lögum. Stefndi Landsnet hf. bendir á að í 21. og 23. gr. raforkulaga sé beinum orðum vikið að endurgjaldi fyrir landnot og náist ekki samkomulag þar að lútandi sé bæði Landsneti hf. heimilt, en ekki síður skylt í ljósi lögbundins hlutverks síns, að leita heimildar til eignarnáms. Samningaviðræður við landeigendur og þar með stefnendur snúist fyrst og fremst um þær bætur sem eðlilegt megi telja að greiða beri stefnendum vegna þeirrar kvaðar sem leggja verði á hans land í ljósi almannahagsmuna.

    Af hálfu stefnda Landsnets hf. er á það lögð áhersla að hið almenna raforkuflutningskerfi verði ekki klæðskerasniðið að óskum og vilja hvers og eins landeiganda. 

    Þótt ákvörðun um heimild til eignarnáms feli í sér í þessu tilviki nauðsynlega forsendu til þess að unnt sé að ráðast í framkvæmdir, feli hún ekki í sér skilyrðislaust leyfi til framkvæmda. Eignarnámsbeiðni snúi að einstökum og lögvörðum hagsmunum þess landeiganda sem í hlut á og ákvörðun um hvort réttmætt sé að hann láti í té afnot af sínu landi í þágu samfélagsins sem margir aðrir landeigendur geri. Það séu þau rök sem hvíli að baki bæði 72. gr. stjórnarskrárinnar og 23. gr. raforkulaga. Framkvæmdin, Suðurnesjalína 2, sé komin mjög langt í undirbúningi og verkhönnun vegna útboðs hennar sé hafin. Nauðsynlegt hafi verið að sækja um eignarnámsheimild vegna andstöðu stefnenda við framkvæmdina.

    Stefndi vísar til þess að veiting framkvæmdaleyfis sé ekki nauðsynlegt skilyrði ákvörðunar um eignarnám. Lögbundið leyfi Orkustofnunar, sbr. 2. mgr. 9. gr. raforkulaga, sé heldur ekki forsenda þess að leitað sé eignarnáms þótt það leyfi, líkt og framkvæmdaleyfi og ákvörðun um að heimila eignarnám, skipulagsákvarðanir og mat á umhverfisáhrifum, séu allt forsendur fyrir framkvæmdinni, hver með sínum hætti.

    Í 15. gr. laga um framkvæmd eignarnáms segi að eignarnemi geti horfið frá fyrirhuguðu eignarnámi, segi hann til þess innan mánaðar frá því að mat á eignarnámsbótum hafi legið fyrir. Þannig kunni t.d. mat á því tjóni sem eignarnámsþoli hafi orðið fyrir að vera svo fjarri því sem eignarnemi hafi áætlað að hann kjósi að falla frá eignarnámi. Komi sú staða upp skuli eignarnemi bæta allt tjón sem rakið verði til aðgerða hans og honum jafnvel skylt að greiða eignarnámsbætur. Einnig kunni sú staða að koma upp að eignarnám hafi verið veitt, bætur greiddar, en umbeðin framkvæmd verði ekki að veruleika af einhverjum ástæðum. Ábyrgð af kostnaði þar að lútandi hvíli hjá eignarnema.

    Stefndi Landsnet hf. bendir á að hlutverk stjórnvalda á grundvelli 23. gr. raforkulaga sé takmarkað við ákveðna þætti og geti meðstefndi hvorki tekið allar ákvarðanir sem teknar hafa verið af til þess bærum stjórnvöldum lögum samkvæmt til endurskoðunar við ákvörðun sína um eignarnám né tekið ákvörðun um veitingu leyfa sem öðrum stjórnvöldum sá falið að lögum, hvort sem þau hafi verið veitt eða ekki. Eignarnámsákvörðunin takmarkist réttilega af þessum þáttum. Yrði fallist á ógildingu ákvörðunarinnar á grundvelli þeirra almennu sjónarmiða sem stefnendur byggi á og varði allan almenning, væri um leið verið að fallast á að ákvarðanir sem teknar hafi verið í lögbundnu undirbúningsferli væru ógildar.

    Umfjöllun stefnenda um lagningu jarðstrengja eða byggingu 132 kV loftlínu sé sama marki brennd. Ákvörðun um eignarnám skv. 23. gr. raforkulaga nái ekki til þess þáttar enda hafi stefnendur nú þegar höfðað dómsmál til að láta reyna á gildi leyfis Orkustofnunar sem gefið sé út á grundvelli 2. mgr. 9. gr. raforkulaga.

    Stefnda Landsneti hf. beri samkvæmt 1. gr. og 1. mgr. 9. gr. raforkulaga að stuðla að þjóðhagslega hagkvæmu raforkuflutningskerfi og beri skyldu til að byggja upp raforkuflutningskerfið á hagkvæman hátt, að teknu tilliti til öryggis, skilvirkni, áreiðanleika afhendingar og gæða raforku. Munur á kostnaði við lagningu jarðstrengja á 220 kV spennu og loftlínu sé þannig að ekki sé réttlætanlegt að leggja Suðurnesjalínu 2 í jörð. Engar þær breytingar hafi orðið sem hreki þá staðreynd að kostnaður við lagningu jarðstrengs á 220 kV spennu miðað við lagningu loftlínu sé margfaldur. Við framkvæmdir við almenna flutningskerfið sem Suðurnesjalína 2 verður hluti af nemi slíkur kostnaðarmunur háum fjárhæðum sem hlaupi á milljörðum króna.

    Áhrif ógildingar stjórnvaldsákvörðunarinnar 24. febrúar 2014 á slíkum almennum forsendum hefði lítil áhrif á hagsmuni stefnenda en gífurleg áhrif á hagmuni stefnda sem og samfélagsins í heild. Málið yrði á byrjunarreit. Þá er því mótmælt að stefnendur geti byggt á slíkum almennum sjónarmiðum sem annað hvort afstaða hafi verið tekin til lögum samkvæmt eða bíði ákvörðunar. Stefnendur beri engar skyldur að lögum gagnvart almenningi um rekstur raforkukerfisins, að öðru leyti en því sem kveðið sé á um í VI. kafla raforkulaga.

    Stefnendur málsins byggi á því að ákvæði 72. gr. stjórnarskrár standi eignarnámi í vegi þar sem skilyrði um almenningsþörf séu ekki uppfyllt að hans mati þar sem ekki hafi verið gætt sjónarmiða óskráðrar meðalhófsreglu stjórnskipunarréttar þess efnis að ávallt skuli gæta hófs við aðgerðir sem skerði stjórnarskrárvarin réttindi og velja þá leið sem sé minnst íþyngjandi. Vísi stefnendur einnig til 1. gr. 1. samningsviðauka við mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, og 12. gr. stjórnsýslulaga um meðalhóf. Þá telji stefnendur að það felist í rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga að taka verði alla framkvæmdakosti sem uppfylli markmið framkvæmdar til skoðunar á grundvelli bestu fáanlegu upplýsinga. Stefnendur haldi því fram að framkvæmdaraðili, í þessu tilviki stefndi Landsnet hf., geti ekki útilokað slíka kosti án þess að fyrir liggi forsvaranlegt, hlutlægt og málefnalegt mat á þeim. Byggt sé á því af hálfu stefnenda að ekki hafi verið kannað með raunverulegum hætti þeir framkvæmdakostir sem stefnendur hafi rökstutt sem minna íþyngjandi en 220 kV loftlína og því hefði borið að hafna beiðni stefnda Landsnets hf. um eignarnám, þegar af þeirri ástæðu. Stefndi Landsnet hf. mótmælir þessum málsástæðum stefnenda sem röngum og ósönnuðum.

    Markmiðum og tilgangi framkvæmdarinnar sé meðal annars lýst í beiðni um eignarnám. Suðurnesjalína 2 sé 220 kV háspennulína sem reist verði samhliða 132 kV háspennulínu, Suðurnesjalínu 1, sem nú sé fulllestuð. Svæðið sé ekki tengt með svonefndri N-1 tengingu en það ástand sé óviðunandi þegar um svo stór byggðarlög sé að ræða sem séu á Reykjanesskaganum. Í framtíðinni sé gert ráð fyrir að Suðurnesjalína 1 verði rifin og ný 220 kV háspennulína byggð í hennar stað. Nái þá 220 kV meginflutningskerfi stefnda til Suðurnesja með viðunandi afhendingaröryggi sem felist í N-1 tengingu þess. Þetta séu þau markmið framkvæmdar sem stjórnvöldum beri að leggja til grundvallar þegar stjórnvaldsákvörðun sé tekin á grundvelli rannsóknarreglu en ekki önnur markmið sem varði aðrar framkvæmdir.

    Stefnendur byggi á því að stefndi hafi ekki kannað þá framkvæmdakosti sem hann telji sig hafa rökstutt að séu minna íþyngjandi en 220 kV loftlína, og að það leiði eitt og sér til þess að ekki hafi verið sýnt fram á almenningsþörf fyrir framkvæmdinni í skilningi 72. gr. stjskr. Þessu er mótmælt af hálfu stefnda Landsnets hf.

    Stefndi Landsnet hf. hafi ítrekað bent á að framkvæmdin liggi um skipulagt mannvirkjabelti á Reykjanesskaga og að ekki verði komist hjá því að kvaðasetja jörð stefnenda vegna legu hennar frá fjöru og langt inn í landið. Í eignarnámsheimildinni sé komist að þeirri niðurstöðu að beiðnin sé sett fram og afmörkuð með þeim hætti að gætt sé meðalhófs og ekki seilst lengra en þörf krefji til að ná fram skilgreindum markmiðum framkvæmdarinnar. Þá séu í ákvörðun meðstefnda tekin til umfjöllunar skilyrði 72. gr. stjórnarskrár um almenningsþörf og að nauðsyn beri til að ráðast í framkvæmdina og er tekið undir þá niðurstöðu af hálfu stefnda Landsnets hf. enda verði ekki ráðist í framkvæmdina nema með því að ráðherra heimili eignarnám á grundvelli 23. gr. raforkulaga. Ekkert í umfjöllun stefnenda hnekki því mati að komi ekki til eignarnáms, verði framkvæmdin, Suðurnesjalína 2, 220 kV háspennulína, ekki að veruleika. Því verði að líta svo á að eignarnámið sé nauðsynleg forsenda framkvæmdarinnar. Einnig sé ljóst að almannahagsmunir liggi til grundvallar skilgreindum markmiðum framkvæmdarinnar.

    Í umsókn stefnda Landsnets hf. um leyfi til Orkustofnunar  sé sérstaklega fjallað um samanburð á kostnaði og tæknilegum eiginleikum jarðstrengs á 220 kV spennu sem væri með 630 MVA flutningsgetu. Eðli málsins samkvæmt verði ávallt einhverjar breytingar á kostnaðarmun milli háspennulína og jarðstrengja og ný tækni komi til sögunnar. Þær geti þó almennt ekki kollvarpað ákvörðunum sem teknar séu eftir bestu þekkingu á hverjum tíma. Í þessu máli eigi slíkt ekki við og ekki um neinn forsendubrest eða sambærilegt að ræða.

    Staðreyndir málsins og grundvöllur raunhæfs og lögbundins vals á þeim kosti að leggja háspennulínu 220 kV fremur en 220 kV jarðstrengi séu meðal annars þeir að með aukinni spennu aukist stofnkostnaður við jarðstrengslögn margfalt og séu jarðstrengir á hárri spennu tæknilega óhagkvæmari lausn en loftlínur á sömu spennu. Sveigjanleika til breytinga og aðlögunar flutningskerfisins að breyttum þörfum sé mun minni þegar um sé að ræða jarðstrengi. Þá taki mun lengri tíma að gera við jarðstrengi en loftlínur og hafi það áhrif á afhendingaröryggi raforku. Að teknu tilliti til samanburðar á kostnaði og rekstareiginleikum sé það mat stefnda Landsnets hf. að ekki sé raunhæft að leggja Suðurnesjalínu 2 í jörð. Það mat og um leið lögbundin ákvörðun stefnda hafi verið staðfest í lögbundnum undirbúningsferlum, svo sem í mati á umhverfisáhrifum, aðalskipulagi sveitarfélagsins Voga og með leyfi Orkustofnunar. Sjónarmið stefnenda hafi ávallt legið fyrir og þeir komið þeim á framfæri við til þess bæra aðila. Ekki sé unnt að verða við þeirri ósk hans að Suðurnesjalína 2 verði lögð í jörð með vísan til framangreindra lagaákvæða og almannahagsmuna.

    Stefnendur málsins telji að það sé skylda að taka þann kost að leggja Suðurnesjalínu 2 í jörðu til skoðunar enda sé það raunhæfur framkvæmdakostur sem sé mun minna íþyngjandi fyrir stefnendur en loftlína. Því er hafnað af hálfu stefnda Landsnets hf. Stefndi Landsnet hf. fylgist með verðþróun og kostnaðarmun jarðstrengja og loftlína og hafi enga hagsmuni af því að velja loftlínur í stað jarðstrengs, þegar skilyrði séu til þess, t.d. á 66 kV spennustigi. Þá verði að líta til þess mikla munar sem sé á jarðstrengjum og loftlínum hvað kostnað varði og rekstrarlega þætti. Þegar að lagningu jarðstrengja komi hafi verið sett ákveðin viðmið við ákvörðunartöku um það hvort leggja skuli jarðstreng eða loftlínu sem taka verði tillit til. Í fyrsta lagi að 220 kV jarðstrengslausn sé ekki tæknilega eða kostnaðarlega fýsileg á því spennustigi og komi eingöngu til athugunar á styttri köflum og við mjög sérstakar aðstæður, t.d. einstæðar umhverfisaðstæður eða í þéttri íbúðabyggð. Í öðru lagi séu 132 KV jarðstrengslausnir skoðaðar á styttri vegalengdum og þar sem um tengingu við einstaka viðskiptavini sé að ræða. Í þriðja lagi sé jarðstrengslausn að öðru jöfnu valin til tengingar á 66 kV, sé kostnaður og viðgerðartími ásættanlegur við þá lausn.

    Stefndi Landsnet hf. ítrekar að öll sjónarmið sem stefnendur byggi á, svo sem athugasemdir við kostnaðarsamanburð á jarðstrengjum og loftlínum, hafi legið fyrir frá upphafi og fengið umfjöllun á öllum stigum hins langa og lögbundna undirbúningsferlis framkvæmdarinnar. Þá er bent á að fyrir liggi samkomulag við sveitarstjórn sveitarfélagsins Voga um viðbrögð við því ef íbúðabyggð muni kalla á breytingar á legu háspennulínanna, en aðalskipulagið 2008-2028 geri annars ekki ráð fyrir íbúðabyggð sunnan Reykjanesbrautar.

    Í eignarnámsákvörðuninni 24. febrúar 2014 sé ítarlega fjallað um hugmyndir um aðra útfærslu framkvæmdarinnar og tekið undir með stefnda Landsneti hf., eignarnámsbeiðanda, að rétt hafi verið að hafna og vísa frá, að vel athuguðu máli, hugmyndum landeigenda um aðrar útfærslur á Suðurnesjalínu 2 en þá sem fyrir liggi með ákvörðun þar til bærra stjórnvalda, auk þess sem mat á því hvaða framkvæmdakostur næði best tilsettu markmiði framkvæmdarinnar Suðurnesjalínu 2, var talið hafa verið reist á hlutlægum og málefnalegum grunni. Stefnendur hafi skilað ítarlegum athugasemdum við málsmeðferðina og lagt fram fjölda gagna og hafi því gefist færi á að koma að andmælum sínum áður en ákvörðun hafi verið tekin um eignarnám. Skilyrðum 10.–13. gr. stjórnsýslulaga sé því fullnægt.

    Þar sem stefnendur telji það óeðlilegt að knýja á um eignarnám vegna lagningar Suðurnesjalínu 2 án „hlutlægrar og málaefnalegrar“ skoðunar á þeim kosti að leggja línuna í jörð, einkum þar sem forsendur séu allt aðrar en þegar upphaflega hafi verið ákveðið að ráðast í lagningu línunnar en álit Skipulagsstofnunar sé fimm ára gamalt en ákvörðun um loftlínu sé enn eldri, þá sé bent á að engar forsendur hafi breyst sem kollvarpi ákvörðun um lagningu Suðurnesjalínu 2, hvorki hvað varði kostnaðarmun eða tæknilega útfærslu og umhverfisáhrif. Þessi málatilbúnaður stefnenda styðjist ekki við nein lagasjónarmið enda séu þau ekki fyrir hendi.

    Umfangsmiklar framkvæmdir sem falli undir gildissvið laga um mat á umhverfisáhrifum séu mörg ár í undirbúningi og taki kynningar- og ákvörðunarferli langan tíma. Miklir og lögvarðir hagsmunir séu í húfi fyrir framkvæmdaraðila sem beri ábyrgð á framkvæmd og kostnaði við hana. Þetta sjónarmið endurspeglist meðal annars í 1. mgr. 12. gr. laga um mat á umhverfisáhrifum, en samkvæmt ákvæðinu megi leyfisveitendur leggja matsskýrslu til grundvallar leyfisveitingu í 10 ár frá því að álit Skipulagsstofnunar um hana hafi legið fyrir. Eftir þann tíma sæti matsskýrslan ekki skilyrðislausri endurskoðun en leyfisveitandi skuli óska ákvörðunar Skipulagsstofnunar um hvort endurskoða eigi hana að hluta eða í heild. Í málinu liggi fyrir umhverfismat og álit Skipulagsstofnunar sem sæti ekki endurskoðun í þessu máli. Umfjöllun stefnenda sem þá þætti varði sé því mótmælt, meðal annars með vísan til 25. gr. laga um meðferð einkamála. Þá sé vísað til synjunar Skipulagsstofnunar á beiðni stefnenda um að taka matsskýrslu til endurskoðunar, sérstaklega til umfjöllunar um réttarstöðu stefnda Landsnets hf.

    Stefndi Landsnet hf. mótmælir því að skýrsla kanadíska ráðgjafarfyrirtækisins Metsco sé óháð og á einhvern hátt rétthærri en þær upplýsingar sem stefndi Landsnet hf. hafi veitt eða vísi til á grundvelli lagalegrar stöðu sinnar sem rekstraraðili flutningsnetsins. Skýrslan geti ekki haft grundvallarþýðingu í málinu og hafi í raun enga þýðingu í málinu og styðji í engu málatilbúnað stefnenda. Skýrslan staðafesti þær tölur sem notaðar hafi verið við útreikning á stofnkostnaði jarðstrengja hjá stefnda Landsneti hf. en hvað líftímakostnað í skýrslunni þá séu gerðar alvarlegar athugasemdir við þær forsendur sem þar séu notaðar bæði varðandi líftíma strengja og loftlína, svo og forsendur útreikninga á viðhaldskostnaði, orkuverðsforsendur o.fl. Sé litið fram hjá þeim villum sem fram komi í forsendum hennar, staðfestir tölurnar um kostnað, hvort sem er stofnkostnað og líftímakostnað, þær tölur sem stefnda Landsnet hf. hafi stuðst við og birt.

    Í skýrslu Metsco sé lögð áhersla á að um almennan samanburð sé að ræða og að meta verði hvert tilvik fyrir sig sérstaklega. Stefnda Landsnet hf. sé þeirrar skoðunar að loftlínur séu hagstæðar þegar krafist sé mikillar flutningsgetu eins og í tilviki hins almenna raforkukerfis. Suðurnesjalína 2 sé byggð með þarfir hins almenna flutningskerfis í huga til lengri tíma og með tilliti til samfélagslegra hagsmuna. Minnt sé á að einungis á 20 árum sé 132 kV Suðurnesjalína 1 orðin fulllestuð og brýn þörf á úrbótum. Það sé rétt að kostnaður af lagningu jarðstrengja í samanburði við loftlínur sé í sífelldri endurskoðun og sé ástæða þess meðal annars sú að stefndi Landsnet hf. taki það hlutverk sitt alvarlega að stuðla að þjóðhagslega hagkvæmu raforkuflutningskerfi sem og þá skyldu sína að byggja upp raforkuflutningskerfið á hagkvæman hátt, að teknu tilliti til öryggis, skilvirkni, áreiðanleika afhendingar og gæða raforku. Fyrirtækið hafi þó ekki hagsmuni af því að byggja loftlínur í stað jarðstrengja eða annarra þeirra kosta sem séu óhagkvæmari en jarðstrengir að teknu tilliti til framangreindra þátta. Þeir séu því sífellt í endurskoðun. Sú könnun sem stefnendur vísi til  bendi til að kostnaður við lagningu jarðstrengja hafi lækkað frá fyrri athugun. Munurinn sé engu að síður svo mikill að ekki sé réttlætanlegt að leggja Suðurnesjalínu 2 í jörð. Leyfisumsókn stefnda Landsnets hf. til Orkustofnunar hafi byggt og byggi á nýjustu gögnum og tölum en engar þær breytingar hafi orðið sem hrekji þá staðreynd að kostnaður við lagningu jarðstrengs á 220 kV spennu miðað við lagningu loftlínu sé margfaldur. Við framkvæmdir við almenna flutningskerfið, sem Suðurnesjalína 2 verði hluti af, nemi slíkur kostnaðarmunur háum fjárhæðum sem hlaupi á milljörðum króna.

    Í raun sé enginn fræðilegur ágreiningur um að meginreglan sé sú að jarðstrengir séu mun dýrari en loftlínur og á margan hátt verri kostur. Kostnaðarmun megi minnka ef gefnar séu forsendur sem ekki séu endilega í samræmi við raunveruleikann. Þótt raunverulegur munur á kostnaði við jarðstrengi og loftlínur hafi minnkað eitthvað milli athugana, séu útreikningar stefnda ekki úreltir. Það valdi ekki ógildi stjórnvaldsákvörðunar enda breyti nýjustu athuganir engu fyrir málið í heild heldur staðfesti þvert á móti að loftlína sé enn mun betri kostur í hinu almenna flutningskerfi en jarðstrengur á hærri spennu af margvíslegum ástæðum.

    Samkvæmt framangreindu verði ekki fallist á með stefnendum að stjórnvöld hafi virt að vettugi 10. gr. stjórnsýslulaga. Málið hafi verið nægjanlega upplýst til þess að hægt hefði verið að taka upplýsta ákvörðun í því. Orkustofnun hafi farið að almennum reglum við undirbúning og töku ákvörðunar sinnar, þar á meðal að afla nægjanlegra upplýsinga til að byggja ákvörðun sína á sem hafi byggt á upplýsingum málsaðila og þeirra sem hafi sent inn athugasemdir. Upplýsingar stefnda Landsnets hf. hafi verið réttar og áreiðanlegar. Því sé ekki hægt að að fallast á það með stefnendum að Orkustofnun hafi ekki sinnt rannsóknarskyldu sinni eða að ófullnægjandi upplýsingar hafi legið fyrir við töku ákvörðunarinnar.

    Ekki sé heldur hægt að fallast á þá málsástæðu að íslensk stjórnvöld hefðu átt að veita stefnendum sérstakan og óskilgreindan andmælarétt vegna þess að í stjórnvaldsákvörðuninni sé réttilega fjallað um leyfi Orkustofnunar til stefnda Landsnets hf. Stefnendur hafi nýtt andmælarétt sinn til fulls einnig að þessu leyti með bréfi 28. janúar 2014, þar sem fjallað séum leyfi Orkustofnunar.

    Stefndi Landsnet hf. hafnar allri umfjöllun stefnenda um veðurfarsleg áhrif á loftlínur enda grípi hann til þess að bera saman ólíka landshluta og allt aðrar veðurfarsaðstæður. Ekki nægi heldur, við mat á endingatíma á jarðstrengja að vísa til umfjöllunar sem varði flutningskerfi í Suður-Frakklandi þar sem aðstæður séu allt aðrar. Ljóst sé að lagning háspennts strengs í hrauni og klöppum sé allt önnur framkvæmd en plæging strengs í mjúkan leirjarðveg sem einkenni Suður-Frakkland. Þá sé ótalið að bili jarðstrengur um hávetur á Íslandi sé hugsanlegt að viðgerð geti tekið marga mánuði þar sem fannfergi geti torveldað viðgerð í langan tíma. Jarðstrengir séu einnig mun viðkvæmari fyrir jarðhræringum, en Suðurnes séu þekkt jarðskjálftasvæði. Þá vísar stefndi Landsnet hf. til þess að árið 2006 hafi hlutfall jarðstrengja á Íslandi og erlendis verið svipað samkvæmt tölum frá CIGRÉ, alþjóðlegra samtaka um stór raforkukerfi, þó heldur í hærri kantinum á Íslandi. Notkun á 220 kV strengjum hafi verið um 1% af heildarlengd 220 kV kerfisins í báðum tilvikum.

    Þá sé rangt að engin gögn liggi fyrir í málinu sem sýni fram á að áhrif línunnar á flugmál og flugöryggi hafi verið rannsökuð. Ekkert sé fjær sanni. Við blasi að Suðurnesjalína 2 liggi samhliða eldri línum sem séu að öllu leyti sambærilegar hvað varði flugöryggi. Benda megi á samantekt skýrslu um mat á umhverfisáhrifum, þar sem fjallað sé um áhættu og öryggismál en þar komi fram að leitað hafi verið til meðal annars Flugmálastjórnar. Að sama skapi hafi Flugmálastjórn verið gefinn kostur á að gera athugasemdir við svæðisskipulag Suðurnesja, sem stofnunin hafi ekki séð ástæðu til.

    Hvað varði umhverfisvernd og landnýtingu, þá liggi ekkert fyrir um að lagning jarðstrengs sé umhverfisvænni framkvæmd en lagning loftlínu. Helgunarsvæði jarðstrengs sé um 12 metra breitt sem sé það svæði sem þurfi að grafa upp að minnsta kosti þegar þegar nýr strengur sé lagður en yfirleitt sé það breiðara. Slík framkvæmd myndi því skilja eftir breiða rás í hraunið milli Hafnarfjarðar og Reykjanesbæjar eða óafturkræft rask á um 40 hekturum eldhrauns. Í þessu sambandi sé minnt á að samkvæmt náttúruverndarlögum njóti eldhraun sérstakrar verndar sem óheimilt sé að raska nema brýna nauðsyn beri til. Þótt sjónræn áhrif verði af línunni sé óafturkræft rask af loftlínum miklu minna en af lagningu jarðstrengja.

    Stefndi Landsnet hf. telur ekki mega leiða af ákvæðum laga um mat á umhverfisáhrifum að lagning jarðstrengja sé samkvæmt lagaskilgreiningu almennt talin hafa vægari umhverfisáhrif en lagning loftlína. Fráleitt sé að beiting meðalhófsreglu leiði af þessum sökum til þeirrar niðurstöðu að jarðstrengir séu að öðru jöfnu teknir fram yfir loftlínur til raforkuflutninga. Hið rétta sé að jarðstrengir sem liggi um lengri veg séu ávallt háðir ákvæðum laga nr. 106/2000 einmitt af þeim sökum að þeir gætu haft mikil umhverfisáhrif, sérstaklega á Íslandi þar sem mikið er um hraun, og geti því verið óheppilegri valkostur.

    Um neikvæð áhrif vegna ferðamennsku sé áréttað að línan muni liggja samsíða háspennulínu sem fyrir sé á svæðinu, við hlið fjölfarnasta þjóðvegar landsins. Því sé ekki verið að raska ósnortnu víðerni eða ferðamannavin, heldur sé þvert á móti fylgt svonefndu mannvirkjabelti Reykjaness, sbr. tilmæli Skipulagsstofnunar og sveitarfélaga á svæðinu. Þótt könnun meðal ferðamanna hafi leitt í ljós að þeir myndu heldur kjósa, án nokkurra forsendna eins og t.d. kostnaðar, að línan yrði lögð í jörð, sé með öllu ósannað að framkvæmdin Suðurnesjalína 2 muni nokkur áhrif hafa á ferðamennsku til Íslands eða á Íslandi.

    Markmið framkvæmdarinnar sé meðal annars að tryggja viðunandi afhendingaröryggi raforku á Suðurnesjum með svokallaðari N-1 tengingu, þ.e.a.s. að í flutningskerfinu séu tvær sjálfstæðar flutningslínur. Megi t.d. vísa til þess að á Suðurnesjum sé stærsti og mikilvægasti millilandaflugvöllur landsins, Keflavíkurflugvöllur en starfsemi hans falli undir ferðaþjónustu og samgöngur.

    Stefnendur haldi því fram að íslensk stjórnvöld hafi horft framhjá röksemdum um að meta þurfi þann kost að Suðurnesjalína 2 verði lögð í jörð „með raunverulegum hætti“ og ekki tekið athugasemdir stefnenda til efnislegrar skoðunar eða kannað framlögð gögn. Þá haldi stefnendur því fram að rökstuðningur Orkustofnunar við veitingu leyfis til framkvæmdarinnar sé grundvallarþáttur í ákvörðun stjórnvalda og hafi ráðið úrslitum um að ekki hafi verið talin þörf á því að taka til skoðunar þann kost að leggja línuna í jörðu. Telji stefnendur að þessi atriði leiði fyrst og fremst til þess að lagaskilyrði um almenningsþörf og meðalhóf séu ekki uppfyllt og að brotið hafi verið á andmælarétti hans, fyrst og fremst þar sem stefnendur telji að þeim hafi ekki verið gefinn kostur á að skila andmælum vegna ákvörðunar Orkustofnunar. Þessu mótmælir stefndi Landsnet hf. og bendir á að ákvörðun ráðherra um heimild til eignarnáms sé sjálfstæð stjórnvaldsákvörðun sem stefnendur krefjist ógildingar á. Verði því að gæta að afmörkun þeirra atriða sem komi til endurskoðunar við eignarnámsákvörðun á grundvelli 23. gr. raforkulaga.

    Í niðurstöðum ákvörðunarinnar sé fyrst fjallað um lagaskilyrði og komist að því að þau séu fyrir hendi til að taka megi ákvörðun. Þá sé komist að þeirri niðurstöðu að skilyrði um að samningaleið hafi verið reynd til þrautar séu fyrir hendi og staðfest það mat stefnda að ekki yrði raunhæft að áætla að frekari samningaviðræður við stefnendur hefðu leitt til þess að samkomulag næðist um framkvæmdina Suðurnesjalína 2 eins og hún sé skilgreind og staðfest af þar til bærum yfirvöldum. Þá sé jafnframt talið að meðan á samningaviðræðum stóð hafi hugmyndum stefnenda um aðrar mögulegar útfærslur að Suðurnesjalínu 2, þ.e.a.s en þeirri sem liggi fyrir í lögbundnum ákvörðunum Skipulagsstofnunar, Orkustofnunar og í skipulagi sveitarfélaga, verið svarað með fullnægjandi hætti. Því geti leyfisveiting Orkustofnunar ekki hafa skipt höfuðmáli í rökstuðningi ákvörðunarinnar. Skilyrði eignarnáms hafi verið metin sjálfstætt og heildarmat lagt á málið áður en ákvörðunin hafi verið tekin og sé hún ekki haldin neinum þeim verulegu annmörkum sem leiða ættu til þess að dómkröfur stefnenda yrðu teknar til greina. Skilyrði eignarnáms hafi verið fyrir hendi hvort sem útgáfa leyfis Orkustofnunar hafi legið fyrir eða ekki þegar ákvörðunin hafi verið tekin.

    Stefndi Landsnet hf. tekur fram að „líftímakostnaður“ línu ráðist af mörgum þáttum sem varði kostnað sem til falli vegna reksturs línu eða strengs og fjármögnunar eftir að framkvæmd sé lokið, auk framkvæmdakostnaðar. Í skýrslu sem lögð hafi verið fyrir jarðstrengjanefnd, Lagning raflína í jörðu, 2. janúar 2013, sé fjallað ítarlega um jarðstrengi, þar á meðal um líftímakostnað jarðstrengja. Þeir útreikningar staðfesti að verulegur kostnaðarmunur sé á jarðstrengjum og loftlínum á 220 kV spennu, hvort sem litið sé til stofnkostnaðar eða líftímakostnaðar.

    Niðurstaða mats á kostum og göllum jarðstrengja og loftlína sé sú að jarðstrengir séu mun dýrari framkvæmd, sérstaklega á hærri spennustigum. Áreiðanleiki þeirra sé einnig minni. Munurinn sé einfaldlega enn þannig að ekki sé réttlætanlegt að orkuflutningsvirki eins og Suðurnesjalína 2 sé lögð í jörð, þegar málið sé virt heildstætt. Gögn stefnenda sýni ekki fram á eða sanni hið gagnstæða og byggi röksemdir stefnenda á því að taka beri einstaklingsbundna hagsmuni þeirra fram yfir hagsmuni samfélagsins.

    Starfsemi stefnda Landsnets hf. byggi að mestu á raforkulögum og hafi fyrirtækið skyldur og réttindi samkvæmt þeim sem taka verði mið af þegar teknar séu ákvarðanir um byggingu nýrra raflína í flutningskerfinu.

    Núverandi Suðurnesjalína 1 sé rekin á 132 kV. Hún sé fulllestuð í dag, þ.e.a.s. nýting hennar sé um eða yfir 100%. Hún sé auk þess eina tenging Suðurnesja við almenna raforkukerfið og kerfið á Suðurnesjum uppfylli því ekki svokallaðan N-1 staðal um flutningsöryggi, þ.e.a.s. um varalínu sem geti flutt raforku þótt háspennulína bili. Tilgangur Suðurnesjalínu 2 sé þannig tvíþættur: Í fyrsta lagi að stækka flutningsgetu kerfisins í 220 kV svo það geti mætt bæði núverandi og framtíðareftirspurn eftir orkuflutningi á svæðinu; og í öðru lagi að koma á N-1 kerfi á Suðurnesjum og gera þar með afhendingaröryggi raforku á svæðinu ásættanlegt. Hvort tveggja í samræmist ákvæðum raforkulaga og markmiðum þeirra, sbr. einkum 1. og 1. mgr. 9. gr. laganna.

    Stefnendur telji hins vegar nægilegt að nýja línan sé einungis 132 kV háspennulína eins og sú sem fyrir sé, að umhverfisáhrif slíkrar háspennulínu séu minni og að nægilegt sé að líta til þess hver sé orkuflutningsþörf dagsins í dag. Slíkt geti stefndi Landsnet hf. hins vegar ekki leyft sér. Einstök ákvörðun um að styrkja raforkuflutningskerfið sé jafnan ákvörðun um að ráðast í milljarða framkvæmd. Útilokað sé að styrkja flutningskerfið á hverjum stað í takt við raforkuþörf eins og hún sé hverju sinni. Þegar ráðist sé í að styrkja raforkuflutningskerfið verði að gera það bæði með núverandi- og framtíðarorkuþörf viðkomandi svæðis í huga. Framtíðaráform stefnda Landsnets hf., sem fyrirtækið hafi kunngert, sé að um Suðurnes liggi tvær 220 kV háspennulínur. Ekki sé t.d. þörf á 400 kV kerfi. Með því fáist viðunandi og réttlætanleg styrking kerfisins til framtíðar. Kerfið á Suðurnesjum í dag sé fulllestað, en bent er á að núverandi lína, 132 kV, sé aðeins rétt rúmlega 20 ára gömul, en endingartími loftlína geti verið allt að 70 ár. Fyrir liggi að hana þurfi nú að rífa og reisa nýja 220 kV línu, þar sem línan hafi ekki verið nægilega stór í upphafi. Tillaga stefnenda um byggingu nýrrar 132 kV línu nú væri því veruleg skammsýni, en fyrst og fremst sóun á fjármunum og þjóðfélagslega óhagkvæm fjárfesting. Telja verði að hugmyndir stefnenda séu settar fram einungis í þeim tilgangi að vinna að einstaklingsbundnum hagsmunum stefnenda sem í þessu tilfelli fari alls ekki saman við hagsmuni samfélagsins alls.

    Vegna athugasemda stefnenda um matsáætlun Blöndulínu 3 og athugasemdir Skipulagsstofnunar við tillögu að matsáætlun Kröflulínu 3, bendir Landsnet hf. á að nauðsynlegt sé talið að auka flutningsgetu byggðalínunnar svokölluðu þannig að unnt sé að reka hana á 220 kV. Fyrir því séu margháttuð rök. Það sé Landsnet hf. sem framkvæmdaraðili sem leggi fram framkvæmdakost og beri ábyrgð á honum, sbr. m.a. 1. mgr. 8. gr. laga um mat á umhverfisáhrifum. Skipulagsstofnun sé ekki ætlað að taka sér vald sem hún hafi ekki að lögum, t.d. um mat á því á hvaða spennustigi nauðsynlegt sé að reka meginflutningskerfi raforku í landinu. Ljóst sé að rekstur byggðalínu í dag feli í sér takmarkanir á orkuflutningi sem mikilvægt sé fyrir þjóðfélagið að rutt verði úr vegi, m.a. til að bregðast við náttúruvá. Á þessu hafi stefndi og Orkustofnun sérþekkingu og skyldur að lögum.

    Hvað varði tilvísun stefnenda til orkuspárnefndar, um fyrirsjáanlega raforkuflutningsþörf, tekur Landsnet hf. fram að þegar lagt sé mat á þörf fyrir styrkingu flutningskerfisins liggi mun fleiri þættir til grundvallar en hjá orkuspárnefnd. Því sé ekki hægt að miða uppbyggingu raforkuflutningskerfisins við þá spá. Það sé heldur ekki tilgangur orkuspárinnar að aðstoða við uppbyggingu raforkuflutningskerfisins í landinu.

    Þannig myndi bygging Suðurnesjalínu 2 á 132 kV kerfi fela í sér mjög takmarkaða uppbyggingu flutningskerfisins á Reykjanesi þar sem ekki sé horft til framtíðar varðandi orkuflutningsþörf og afhendingaröryggi. Að mati stefnenda eigi allir þessir hagsmunir að víkja fyrir hagsmunum stefnenda sjálfs þar sem línan skyldi liggja í jörðu um land hans en ekki í lofti. Megi því ljóst vera að málsástæður stefnenda um þetta séu ómálefnalegar og beri að hafna.

    Stefndi Landsnet hf. vísar til þess að ákvörðun um eignarnám hafi verið tímabær, meðal annars þar sem framkvæmdaleyfi frá sveitarfélaginu Vogum hafi verið forsenda þess að ráðist yrði í framkvæmdina. Þannig sé því mótmælt að eignarnámsákvörðun verði ekki tekin fyrr en ljóst sé að öll önnur skilyrði til þeirrar framkvæmdar sem sé ástæða eignarnámsins séu uppfyllt enda í ósamræmi við lög og rétt. Sótt hafi verið um framkvæmdaleyfi hjá öllum þeim fjórum sveitarfélögum sem framkvæmdina varði og sveitarfélagið Vogar meðal annars upplýst um stöðu eignarnámsmála að kröfu þess sjálfs, auk þess sem framkvæmdaleyfi liggi fyrir hjá Reykjanesbæ. Þá hafi matsnefnd eignarnámsbóta heimilað stefnda umráðatöku.

    Samningaviðræður við landeigendur, þ.m.t. stefnendur, byggi á raforkulögum og beri stefnendur líka réttindi og skyldur samkvæmt lögunum, sbr. VI. kafla raforkulaga. Ekki sé um að ræða frjálsa samninga í þeim skilningi að landeigendur kjósi að ganga til samninga við stefnda á grundvelli ákvörðunar um að ráðist skuli í framkvæmdina. Að sama skapi geti þeir ekki hafnað samningum á grundvelli ákvörðunar um að ekki skuli ráðist í framkvæmdina. Væri um slíkt að ræða yrði mikil hætta á að vandkvæði yrðu við uppbyggingu stoðkerfis samfélagsins, meðal annars vegna þess að minni hluti í oddaaðstöðu kynni að koma í veg fyrir nauðsynlegan aðgang samfélagsins að afnotum lands. Slík staða kynni að valda þjóðfélagslegum óróa en lög sem varði nauðsynlega innviði, með stuðningi í ákvæði 72. gr. stjórnarskrárinnar, bregðist við og eiga að koma í veg fyrir að slík staða geti komið upp. Þannig eigi almennt ekki að vera uppi sú staða að eignarréttur einstaklings geti staðið í vegi fyrir lögbundnum og nauðsynlegum ákvörðunum sem varði almannaheill. Því sé í VI. kafla raforkulaga fjallað um réttindi og skyldur landeigenda, eignarnáms- og bótaákvæði og marki þau ramma um samningaviðræður stefnda og allra landeigenda, hvar sem er á landinu. Samningaviðræður verði að fara fram og á málefnalegan hátt en veiti landeigandi ekki heimild til framkvæmdar, beri stefnda skylda til að reyna á eignarnámsheimildir.

    Það sé misskilningur að samningaviðræður við landeigendur eigi meðal annars að snúast um hvers konar framkvæmd eigi að ráðast í. Stefnda Landsneti hf. beri að undirbúa framkvæmdir eftir lögbundnu ferli og leyfum en stefnendur byggi á almennum sjónarmiðum, sem yfirleitt séu þess eðlis að yfirvöldum beri að taka afstöðu til þeirra, í stað þess að fjalla um sérgreinda og lögvarða hagsmuni sína og skýra af hverju þeir eigi að leiða til þess að fella beri almennar og lögvarðar ákvarðanir stjórnvalda úr gildi með tilheyrandi raski á almannahagsmunum. Framkvæmdin hafi sætt lögbundnu kynningarferli, meðal annars samkvæmt ákvæðum laga um mat á umhverfisáhrifum og hafi hún verið kynnt fyrir landeigendum og athygli vakin á henni. Þá mótmæli stefndi Landsnet hf. því að 72. gr. stjórnarskrár, 1. gr. 1. viðauka við mannréttindasáttmála Evrópu, Árósarsamningur eða tilskipun 2003/35/EB, feli í sér skyldu til að „leita beinna samninga við landeigendur um allt ferli fyrirhugaðrar eignarskerðingar, þ.e. til að leita samninga við þá um framkvæmdir á landi þeirra, fyrirkomulag framkvæmda, alla útfærslu og loks bætur til þeirra.“

    Í eignarnámsákvörðuninni sjálfri sé það staðfest að það sé ekki hluti samningaviðræðna við einstaka landeigendur vegna eignarnáms hvort loftlína eða jarðstrengur skuli valinn eða hvort færa beri línuna ofar í landið eða út í sjó og hver sé betri kostur fyrir einstaka landeigendur.

    Stefndi Landsnet hf. telur samningaviðræður við stefnendur hafa verið  reyndar til þrautar, sbr. 72. gr. stjórnarskrár og 23. gr. raforkulaga og hafnar því mati stefnenda að það hafi „í reynd ekki farið fram raunverulegar samningaviðræður“ með vísan til þeirrar kröfu stefnenda að háspennulína yrði lögð í jörðu. Raforkulög nái til margháttaðra réttinda sem þar séu talin upp, svo sem jarðhitaréttinda og vatnsréttinda, sbr. 23. gr. laganna, og um endurgjald fyrir nýtingu þeirra og landnot, en hvað varði rekstur stefnda Landsnets hf., sbr. III. kafla laganna og leyfi Orkustofnunar, sbr. 2. mgr. 9. gr. raforkulaga, sé ljóst að samningaviðræður á grundvelli 1. mgr. 23. gr. séu um endurgjald fyrir landnot en ekki viðræður um í hvaða framkvæmd verði ráðist líkt og stefnendur haldi fram. Lögbundin ferli líkt og mat á umhverfisáhrifum og gerð skipulagsáætlana byggi beinlínis á því að hagsmunaaðilar geti komi með athugasemdir við umfjöllun, þar með taldir landeigendur, og hafi þau þýðingu við ákvörðun um eignarnám. Á þessu umsagnarferli byggi Árósasamningurinn og reglur EES-réttar sem íslensk lög séu í samræmi við. Stefnendur hafi haft fullt tækifæri og nýtt sér rétt sinn til að koma með athugasemdir við framkvæmdina. Andmælaréttur stefnenda hafi verið virtur en stjórnvöld hafi ekki fallist á þau sjónarmið sem stefnendur hafi fært fram. Það gildi meðal annars um eignarnámsákvörðun ráðherra og telji stefndi Landsnet hf. enga þá verulegu annmarka á henni að taka beri dómkröfur stefnenda til greina.

    Þá hafnar stefndi því að hann geti ekki einhliða slitið samningaviðræðum þegar afstaða viðsemjenda liggi fyrir og ljóst sé að leyfi til framkvæmda verði ekki veitt. Stefnendur hafi verið boðaðir á fund með stefnda Landsneti hf. 14. júní 2011, þar sem kynna átti tilboð til landeigenda vegna fyrirhugaðra framkvæmda vegna landsafnota, en þangað hafi enginn stefnenda mætt. Illa hafi gengið að fá fundi með þeim sem í forsvari voru fyrir jörðinni og hafi stefnda verið tilkynnt að ekki væri áhugi á að ræða um framkvæmdina við fyrirtækið. Ítrekaðar beiðnir um fundi hafi ekki borið árangur. Á fundi með hluta stefnenda á útmánuðum 2012 hafi stefnda verið tilkynnt um neikvæð viðhorf í garð framkvæmdarinnar. Síðari fundarboð hafi ekki borið árangur. Lokatilboði stefnda Landsnets hf. til landeigenda í september 2012 var hafnað af hálfu tveggja stefnenda og hafi sú afstaða verið staðfest af lögmanni þeirra. Þá segi í bréfi lögmanns stefnenda frá því í desember 2012 að stefnendur myndu aldrei samþykkja loftlínu um land sitt og myndu reyna að sporna gegn því. Því hafi verið talið að frekari samningaviðræður væru þýðingarlausar og tilraunir til samninga fullreyndar. Sé tekið undir það mat í eignarnámsákvörðun ráðuneytisins. Þá hafi reynst ómögulegt að ná samningi við þann þriðja stefnenda þar sem hann hafi aldrei mætt til fundar við stefnda þrátt fyrir ítrekaðar óskir um fund. Hafi stefnendur því alfarið hafnað samningum við stefnda.

    Því er hafnað af hálfu stefnda Landsneti hf. að engar eiginlegar samningaviðræður hafi átt sér stað við stefnendur enda sýni framlögð gögn hið gagnstæða. Stefnda Landsneti hf. hafi því verið nauðugur einn sá kostur, eftir nær tveggja ára tilraunir til samninga við stefnendur, að óska eftir heimild að taka eignarnámi umrædd landsréttindi, enda yrði að öðrum kosti ekki af framkvæmdinni Suðurnesjalínu 2, með tilheyrandi tjóni fyrir hið almenna raforkuflutningskerfi og notendur þess.

    Fyrir liggi að samningaviðræðum við stefnendur hafi ekki verið slitið fyrr en þeir hefðu lýst því yfir að ekki kæmi til greina að semja og tilboðum hefði ítrekað verið hafnað.

    Af hálfu stefnda Landsnets hf. er málskostnaðarkröfu stefnenda sérstaklega mótmælt. 

    IV

    Af hálfu stefnda íslenska ríkisins er málatilbúnaði stefnenda og kröfum á honum reistum mótmælt. Á því er byggt að farið hafi verið að lögum við ákvörðun um eignarnám og fyrir því hafi verið ótvíræð heimild í lögum, en ákvörðunin hafi verið byggð á 1. mgr. 23. gr. raforkulaga. Um framkvæmd eignarnámsins fari síðan eftir almennum reglum, sbr. 5. mgr. 23. gr. laganna. Þá hafi ákvörðunin enn fremur verið í samræmi við 72. gr. stjórnarskrárinnar, 1. mgr. 1. gr. 1. viðauka mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994 og stjórnsýslulög nr. 37/1993. Því krefst íslenska ríkið sýknu af kröfum stefnenda.

    Stefndi telur málatilbúnað stefnenda að verulegu leyti í andstöðu við 80. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Samkvæmt e. lið 1. mgr. 80. gr. laganna skuli lýsing málsástæðna vera gagnorð og svo skýr að ekki fari á milli mála hvert sakarefnið sé. Hins vegar sé framsetning málsástæðna stefnenda og lagaraka mjög óljós svo erfitt sé að halda uppi vörnum í málinu. Þá sé stefnan í raun skriflegur málflutningur, auk þess sem henni fylgi gríðarlegt magn skjala og virðist allnokkur hluti þeirra þarflaus fyrir mál þetta. Séu þessi atriði að mati stefnda íslenska ríkisins í andstöðu við 80. gr. laga nr. 91/1991.

    Stefndi íslenska ríkið byggir á því að skilyrði 1. mgr. 72. gr. stjórnarskrárinnar um almenningsþörf hafi verið uppfyllt. Bent er á að skilyrðið hafi verið skýrt á þann veg að tiltekin starfsemi eða aðstaða verði að vera svo þýðingarmikil að réttlætanlegt sé að svipta menn eignum sínum eða takmarka eignarrétt þeirra. Þá megi ekki ganga lengra en nauðsyn krefur.

    Stefndi leggur áherslu á að ríkir almannahagsmunir séu fólgnir í því að flutnings- og dreifikerfi raforku í landinu séu örugg, skilvirk og hagkvæm. Löggjafinn hafi litið svo á að öryggi raforkuafhendingar falli undir mikilvæga almannahagsmuni, enda komi fram í 1. gr. raforkulaga að markmið þeirra sé að stuðla að þjóðhagslega hagkvæmu raforkukerfi. Í því skyni skuli meðal annars tryggja öryggi raforkukerfisins og hagsmuni neytenda. Í greinargerð með frumvarpi því sem hafi orðið að raforkulögum greini að taka verði tillit til mikilvægra almannahagsmuna, svo sem varðandi öryggi raforkuafhendingar. Áfram skuli tryggt að öryggi raforkukerfisins verði sem best og séu lagðar skyldur á dreifiveitur og flutningsfyrirtækið til að svo megi verða. Þá séu fordæmi séu fyrir því að flutningsfyrirtækinu Landsneti hf. hafi verið heimilað að framkvæma eignarnám á landsréttindum vegna lagningar raflína, sem séu hluti af raforkuflutningskerfi landsins, á þeim grundvelli að um almenningsþörf væri að ræða. Hafi það verið metið svo að ríkir almannahagsmunir væru fólgnir í því að flutnings- og dreifikerfi raforku í landinu væru örugg, skilvirk og hagkvæm. Því væru uppfyllt skilyrði 1. mgr. 72. gr. stjórnarskrárinnar um að almenningsþörf krefji.

    Stefndi telur nægileg rök fram komin að brýn þörf sé á styrkingu raforkuflutningakerfisins á Suðurnesjum. Framkvæmdin Suðurnesjalína 2 sé byggð með þarfir hins almenna flutningskerfis í huga til lengri tíma og með tilliti til samfélagslegra hagsmuna en áhersla sé lögð á að öryggi kerfisins í dag sé ófullnægjandi. Suðurnesjalína 1 sem þjóni svæðinu sé rekin á 132 kV spennu og sé fulllestuð. Þá hafi Landsnet hf. bent á að svæðið sé ekki tengt með svokallaðri N-1 tengingu sem sé óviðunandi þegar um svo stór byggðalög sé að ræða. Verulegt rekstraröryggi sé fólgið í því fyrir raforkukerfi svæðisins að hafa tvær háspennulínur á þessari leið en það hafi valdið vandkvæðum og straumleysi á svæðinu þegar Suðurnesjalína 1 hafi farið úr rekstri vegna viðhalds eða truflana. Að mati stefnda hafa verið færð rök fyrir því að út frá lágmarksafhendingaröryggi raforku sé um brýna og óumflýjanlega framkvæmd að ræða. Þá sé alþjóðaflugvöllur landsins á Suðurnesjum og ríkir almannahagsmunir fólgnir í öryggi raforkuafhendingu til hans.

    Stefndi bendir einnig á að í ákvörðun Orkustofnunar 5. desember 2013 komi fram mat stofnunarinnar á því að afhendingaröryggi verði ekki aukið nema með því að tengja Suðurnes við flutningskerfið með annarri línu en þeirri sem fyrir sé. Ófullnægjandi sé að svo stórt svæði sé einungis tengt meginflutningskerfinu með einni tengingu. Því fallist stefndi á þær röksemdir Landsnets hf. að framkvæmdin Suðurnesjalína 2 sé aðkallandi bæði fyrir samfélagið í heild og atvinnustarfsemi á svæðinu, enda verði ekki betur séð en að stefnendur taki almennt undir þá meginforsendu Landsnets hf. að tenging Suðurnesja við flutningskerfi raforku sé ófullnægjandi.

    Stefndi byggir á því að sýnt hafi verið fram á með óumdeildum hætti að út frá afhendingaröryggi raforku sé þörf á hinni skilgreindu framkvæmd Suðurnesjalínu 2. Löggjafinn hafi metið það svo að afhendingaröryggi raforku teljist til almannahagsmuna og fordæmi séu fyrir því að eignarnám hafi verið heimilað á þeim grunni. Stefndi telur að líta verði á flutningskerfi raforku sem hluta af grunninnviðum samfélagsins og sýnt hafi verið fram á þörf framkvæmdarinnar með fullnægjandi hætti. Því sé skilyrðum 1. mgr. 72. gr. stjórnarskrárinnar um almenningsþörf og að almannahagsmunir réttlæti ákvörðun um eignarnám uppfyllt. Sama gildi um skilyrði 23. gr. raforkulaga um að eignarnám skuli eingöngu ákvarðað að því leyti sem nauðsyn beri til.

    Stefndi telur sýnt að ekki verði í greinda framkvæmd ráðist nema að undangengnu eignarnámi á grundvelli 23. gr. raforkulaga en án eignarnámsins yrði framkvæmdin ekki að veruleika. Því sé ljóst að eignarnámið sé nauðsynleg forsenda framkvæmdarinnar og liggi almannahagsmunir til grundvallar skilgreindum markmiðum hennar.

    Stefndi íslenska ríkið leggur áherslu á að við mat á framkvæmdaleiðum hafi verið yfirfarin öll þau gögn sem fyrir hafi legið í málinu, jafnt þau sem hafi stafað frá stefnendum sem Landsneti hf. Vel hafi verið farið yfir þann kost sem stefnendur hafi lagt til, þ.e. að leggja jarðstreng. Hafi það engu að síður verið mat stefnda íslenska ríkisins að Landsnet hf. hefði gætt meðalhófs við útfærslu framkvæmdarinnar. Er því mótmælt að stefndi íslenska ríkið hafi ekki viðhaft sjálfstæða skoðun á framkvæmdakostum. Þá er því jafnframt mótmælt að lagðar hafi verið ófullnægjandi forsendur til grundvallar ákvörðun um heimild til eignarnáms. Stefndi íslenska ríkið telur að rétt hafi verið að líta til niðurstöðu Orkustofnunar til fyllingar sjálfstæðri skoðun. Orkustofnun sé hið faglega stjórnvald á þessu sviði, sbr. lög nr. 87/2003 um Orkustofnun, og starfi fjölmargir sérfræðingar innan stofnunarinnar sem lagt hafi mat á framkvæmdakostina sem tilgreindir hafi verið. Þó hafi öll gögn sem stefnendur hafi lagt fram verið metin sjálfstætt hjá ráðuneytinu.

    Við mat á því hvernig staðið sé að uppbyggingu flutningskerfis raforku verði að horfa til framtíðarþarfa allra viðskiptavina flutningsfyrirtækisins, bæði dreifiveitna og stórnotenda, virkjana og annarra sem stundi viðskipti með raforku. Afhendingaröryggi verði ekki aukið nema með því að tengja Suðurnes við flutningskerfið með annarri línu en þeirri sem fyrir sé. Stefndi íslenska ríkið telur að stefndi Landsnet hf. hafi sýnt fram á að því markmiði verði ekki náð með fullnægjandi hætti til lengri tíma litið nema með lagningu 220 kV línu. Því hafi stefndi íslenska ríkið metið það svo að meðalhófs hafi verið gætt við útfærslu framkvæmdarinnar, þar sem lagning háspennulínu samhliða núverandi línu (Suðurnesjalínu 1) sé minnst íþyngjandi fyrir landeigendur á línuleiðinni. Öðrum útfærslum fylgi umtalsvert viðbótarrask og fyrir liggi mat skipulagsyfirvalda og Umhverfisstofnunar um að betra sé að fylgja þegar röskuðum svæðum. Jarðstrengir séu ekki án umhverfisáhrifa, enda séu þeir taldir verri kostur í ákveðinni landgerð, svo sem hrauni. Skipta þurfi alfarið um jarðveg umhverfis strenglögnina til þess að tryggja fullnægjandi hitaleiðni frá strengjum. Til þess að ganga með fullnægjandi hætti frá jarðstrengjum í hrauni þurfi að grafa stóran og nokkuð djúpan skurð og setja viðeigandi efni í skurðinn. Sé jarðhiti í hrauninu geti jafnvel þurft að leggja strengi í steyptan stokk með loftkælingu. Nauðsynlegur frágangur skilji eftir sig svöðusár í hrauninu sem geti ekki talist umhverfisvænt. Virðist stefnendur alfarið líta framhjá fyrirsjáanlegum umhverfisspjöllum við lagningu jarðstrengs um viðkvæm hraun Reykjaness. Telur stefndi ljóst að slík lagning hefði óhjákvæmilega í för með sér umhverfisspjöll.

    Þá leggur stefndi enn fremur áherslu á að stefndi Landsnet hf. hafi ekki krafist fullkominna eignaryfirráða á landsréttindum heldur óskað eftir að taka eignarnámi afmarkað land til ótímabundinna nota. Beiðnin hafi verið sett fram og afmörkuð með þeim hætti að gætt sé meðalhófs og ekki seilst lengra en þörf krefji til að ná fram skilgreindum markmiðum framkvæmdarinnar. Stefndi íslenska ríkið telur að þar með hafi meðalhófs verið gætt í beitingu þess úrræðis sem valið hafi verið og sé það fyllilega í samræmi við lög.

    Stefndi byggir á því að öll afgreiðsla ákvörðunarinnar hafi verið í samræmi við lög. Ítarleg rannsókn hafi legið að baki ákvörðuninni og meðalhófs gætt í hvívetna. Því sé fullyrðingum stefnenda um að stefndi íslenska ríkið hafi skotið sér undan því að taka sjálfstæða og rökstudda ákvörðun í málinu og þar með brotið meðal annars gegn rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga mótmælt. Að mati stefnda hafa ekki verið færð nægileg rök fyrir því að sá kostur sem stefnendur hafi lagt til sé minna íþyngjandi valkostur við Suðurnesjalínu 2. Þvert á móti telur stefndi íslenska ríkið að ný háspennulína samhliða núverandi línu sé minnst íþyngjandi kosturinn. Hafi það verið niðurstaðan eftir umfangsmikla yfirferð á öllum gögnum málsins og röksemdum aðila.

    Stefndi íslenska ríkið  mótmælir því að ákvörðun um eignarnám hafi aðeins verið grundvölluð á ákvörðun Orkustofnunar 5. desember 2013, þar sem Landsneti hf. hafi verið heimilað að reisa Suðurnesjalínu 2. Stefndi áréttar að mat stjórnvalda hafi verið byggt á sjálfstæðri athugun, þótt einnig hafi verið litið til ákvörðunar Orkustofnunar.

    Því er mótmælt að ákvörðun Orkustofnunar hafi verið byggð á einhliða gögnum Landsnets hf. og úreltum útreikningum. Þannig sé skýrsla Landsnets hf. sem stefnendur geri athugasemdir við jafn gott innlegg í umræður um val á jarðstrengjum og loftlínum eins og önnur fylgigögn með skýrslu jarðstrengjanefndar. Ekki hafi verið um athugasemdalausa skoðun á skýrslunni að ræða.

    Stefnendur vísi til skýrslu kanadíska fyrirtækisins Metsco Energy Solutions Inc. máli sínu til stuðnings og haldi því fram að Orkustofnun hafi ekki tekið afstöðu til skýrslunnar. Af hálfu íslenska ríkisins er því mótmælt. Stefndi íslenska ríkið telur að í skýrslunni sé að finna ágætis umfjöllun um íslenska raforkukerfið og séu dregnir fram nokkrir kostir strengja og loftlína. Bent sé á að töp séu minni í strengjum en loftlínum, rekstrarkostnaður strengja sé lægri og að strengir séu ekki viðkvæmir fyrir stormum, salti eða ísingu. Helstu kostir loftlína séu nefndir, svo sem lægri stofnkostnaður, auðveldari uppbygging, auðveldari viðgerðir og meiri sveigjanleiki gagnvart álagi.

    Í skýrslunni sé stillt upp dæmum fyrir 132 kV og 220 kV háspennuloftlínu og streng sem sé um 120 km að lengd en áætlaður líftími í báðum dæmunum sé 60 ár. Stefndi íslenska ríkið telur vart standast að miðað sé við 60 ára líftíma fyrir nýjustu gerðir strengja, þar sem framleiðendur þeirra meta líftímann 25 til 40 ár og 60 ára reynsla liggi ekki fyrir. Þá telur stefndi jafnframt að sú forsenda gangi vart upp að fjalla um 120 km streng án þess að taka spólustöðvar með í reikninginn sem fylgi umtalsverður kostnaður. Slíkt skekki myndina verulega strengnum í hag. Þrátt fyrir þessa skekkju í forsendum sé niðurstaða skýrslunnar sú að líftímakostnaður 132 kV strengs sé 4% hærri en fyrir 132 kV loftlínu og að líftímakostnaður 220 kV strengs sé 20% hærri en fyrir 220 kV loftlínu.

    Þá leggur stefndi áherslu á að strenglögn í gegnum hraun sé vandasamari og kostnaðarsamari en almennt gangi og gerist um strengjalagnir. Ekki sé tekið fram í skýrslunni að gert sé ráð fyrir því að strengurinn liggi í gegnum hraun heldur komi fram að um almenna umfjöllun sé að ræða. Telur stefndi þetta vera dæmi um vanáætlaðan kostnað vegna jarðstrengs. Að mati stefnda er ekki unnt að heimfæra niðurstöður skýrslunnar upp á Suðurnesjalínu 2. Því verði að taka niðurstöðum skýrslu Metsco Energy Solutions Inc. með fyrirvara sökum framangreindra vankanta á grunnforsendunum. Eina ályktunin sem hægt sé að draga af skýrslunni sé að 132 kV og 220 kV spennu strenglagnir séu kostnaðarsamari en loftlínur, þótt sé ekki hægt að fullyrða hver viðbótarkostnaðurinn yrði við að leggja Suðurnesjalínu 2 sem streng í gegnum hraun með tilheyrandi spóluvirkjum og mögulega umtalsvert styttri líftíma strengs en 60 ár. Stefndi telur enn fremur að á grundvelli þeirrar þekkingar sem liggi fyrir í dag sé ekki hægt að mæla með lagningu á strengjum á Íslandi í gegnum hraun á 220 kV spennu óháð þeirri umtalsverðu óafturkræfu röskun á viðkvæmu hrauni sem slík lagning hefði í för með sér.

    Stefndi mótmælir fullyrðingum um að byggt hafi verið á úreltum útreikningum. Stjórnvöld fylgist vel með framþróun í þessum málum en reynslan verði að leiða í ljós hver raunkostnaður sé við lagningu strengja við íslenskar aðstæður. Að mati stefnda íslenska ríkisins sé það grundvallaratriði málsins að strenglögn um hraun sé ekki umhverfisvæn framkvæmd. Þá myndi 132 kV spennu jarðstrengur ekki fullnægja orkuþörf á svæðinu til lengri tíma litið og ekki bjóða upp á þann sveigjanleika á spennuhækkun sem loftlína hafi upp á að bjóða. Ef leggja ætti 220 kV spennu jarðstreng sem byði upp á sömu flutningsgetu og 220 kV spennu loftlína yrði ljóst að mikið rask yrði á hrauninu og kostnaðarlega yrði það ekki samkeppnishæf lausn.

    Stefndi hafnar því að röksemdir Orkustofnunar hafi verið teknar upp gagnrýnislaust og engin sjálfstæð athugun hafi farið fram hjá stjórnvöldum.

    Stefndi mótmælir því að ekki hafi verið sýnt fram á að nauðsynlegt sé að reisa 220 kV flutningsmannvirki. Stefndi leggur áherslu á að flutningsfyrirtækið verði að taka tillit til þess í uppbyggingu sinni á flutningskerfinu að það eigi möguleika á að tengja stærri framleiðendur og notendur við kerfið auk almennra notenda, en samkvæmt 3. mgr. 9. gr. raforkulaga sé það eitt af hlutverkum flutningsfyrirtækis að tengja alla sem vilja tengjast flutningskerfinu.

    Þá bendir stefndi á að um árabil hafi verið stefnt að uppbyggingu raforkuframleiðslu og iðnaðar á Suðurnesjum. Til að geta þjónustað slíka uppbyggingu þurfi að gera ráð fyrir flutningsgetu sem geti annað þessum raforkuviðskiptum. Stefnendur vísi í raforkuspá og fullyrði að verið sé að reisa línur langt umfram skilgreindar þarfir. Þessu hafnar stefndi, enda lýsi raforkuspá almennum vexti í raforkuþörf almennings og smærri fyrirtækja. Í spánni sé ekki tekið tillit til mögulegra nýrra virkjana eða stórnotenda nema vitað sé að undirritaðir samningar liggi fyrir. Landsnet hf. verði hins vegar að taka tillit til slíkra þátta við ákvörðun um uppbyggingu á flutningskerfinu. Mikill og almennur vilji sé til uppbyggingar á Suðurnesjum og verði Landsnet hf. að vera í stakk búið að þjóna mögulegum nýjum viðskiptavinum á svæðinu. Skipti þar engu hvort um sé að ræða nýja framleiðendur, stórnotendur eða almenning.

    Stefndi íslenska ríkið telur það óskynsamlegt að byggja upp margföld flutningskerfi, enda yrði slíkt of kostnaðarsamt. Flutningsfyrirtækið þurfi því að byggja upp kerfi í nokkrum þrepum til þess að geta mætt mögulegri flutningsþörf í framtíðinni. Loftlínur hafi þá kosti umfram strengi að hægt sé að byggja þær upp fyrir hærri flutningsgetu en þær þurfi að anna í upphafi og síðan sé hægt að hækka spennuna þegar þess gerist þörf. Hver viðbótarafleining verði ódýrari eftir því sem farið sé hærra upp í spennu.

    Stefndi leggur áherslu á að í dag sé aðeins ein lína til staðar sem tengi Reykjanes við meginflutningskerfið. Að mati stefnda hamli það eðlilegu viðhaldi og sé óásættanlegt framtíðarfyrirkomulag fyrir afhendingaröryggi raforku á svæðinu.

    Stefndi bendir á að með því að byggja Suðurnesjalínu 2 sem 220 kV háspennulínu sé tiltölulega auðvelt að auka flutningsgetu hennar þegar til þess komi. Það yrði ekki æskilegt, umhverfisvænt eða þjóðhagslega hagkvæmt að bæta við nýjum línum hverri á fætur annarri samhliða aukinni aflþörf. Viðurkennt sé að það sé bæði hagkvæmast og þjóni umhverfissjónarmiðum best að byggja flutningskerfi á þann hátt að þau anni flutningsgetu til langrar framtíðar. Því telji stefndi sýnt fram á nauðsyn þess að flutningsvirkið verði 220 kV spenna í stað 132 kV spennu.

    Stefndi byggir á því að heimilt hafi verið að taka ákvörðun um eignarnám á þessu stigi. Ljóst sé að þegar heimild til eignarnáms hafi verið veitt hafi undirbúningur framkvæmdarinnar verið kominn á lokastig, einungis ákvörðunin um sjálft eignarnámið og framkvæmdaleyfi sveitarfélags hafi staðið því í vegi að unnt yrði að hefja framkvæmdir.

    Stefndi bendir á að framkvæmdin Suðurnesjalína 2 hafi farið í gegnum viðamikið lögbundið ferli á undanförnum árum. Áður en framkvæmdin hafi komið inn á borð til íslenska ríkisins hefði hún þegar sætt mati á umhverfisáhrifum og verið um hana fjallað í lögbundnu skipulagsferli, þar sem aðalskipulag viðkomandi sveitarfélaga hafi gert ráð fyrir þeirri línuleið sem Landsnet hf. hafi ráðgert Suðurnesjalínu 2. Leyfi Orkustofnunar til framkvæmdarinnar í samræmi við 2. mgr. 9. gr. raforkulaga hafi síðan fengist 5. desember 2013.

    Þrátt fyrir að Landsnet hf. hefði ekki sótt um framkvæmdaleyfi, sem skylt sé samkvæmt 13. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, hafi stefndi íslenska ríkið talið heimilt að afgreiða beiðni um eignarnám. Fyrirhugaðar framkvæmdir vegna Suðurnesjalínu 2 séu háðar framkvæmdaleyfi Hafnarfjarðarbæjar, sveitarfélagsins Voga, Reykjanesbæjar og Grindavíkurbæjar. Stefndi bendir á að almennt sé litið svo á að ekki sé sótt um framkvæmdaleyfi fyrr en nær öruggt sé að skilyrði fyrir framkvæmd teljist uppfyllt. Framkvæmdaleyfi gildi aðeins í eitt ár og falli niður ef framkvæmdir hefjast ekki innan þess tíma, sbr. 2. mgr. 15. gr. skipulagslaga. Hefði sú staðreynd að framkvæmdaleyfi vegna framkvæmdarinnar væri ekki fyrir hendi því ekki áhrif á mat íslenska ríkisins um að skilyrði til eignarnáms væru uppfyllt lögum samkvæmt. Því hafi verið rétt að taka ákvörðun um eignarnámið á þessu stigi.

    Stefndi íslenska ríkið mótmælir fullyrðingum stefnenda um að ákvörðun um eignarnám hafi verið byggð á röngum forsendum. Stefndi vísar í þessu samhengi til þess að stefnendur hafi ekki fært sönnur á að ákvörðun um eignarnám hafi verið reist á röngum forsendum og mótmælir því að framkvæmdin sé miðuð sérstaklega að orkufrekum verkefnum. Stefndi kveðst telja eðlilegt við útreikning á arðsemiskröfu að miða við þá skiptingu tekna að 70% komi frá stórnotendum og 30% frá dreifiveitum. Hlutfallið byggist á því hvernig þessir tveir hópar viðskiptavina Landsnets hf. nýti raflínur í miðlægu flutningskerfinu og því eigi það við um allar framkvæmdir sem tilheyri því. Ljóst sé að á Reykjanesi séu tvær jarðvarmavirkjanir með um 175 MW uppsett afl og fimm virkjunarkostir í orkunýtingarflokki verndar- og orkunýtingaráætlunar, með samanlagt uppsett afl upp á 280 MW. Auk þess séu tveir virkjunarkostir í biðflokki með samanlagt 100 MW uppsett afl. Stefndi telur því að líta verði á Reykjanes-, Svartsengis- og Krýsuvíkursvæðið sem stórt svæði með mikla orkuvinnslumöguleika. Með hliðsjón af framtíðaruppbyggingu flutningskerfis raforku sé nauðsynlegt að til staðar séu áreiðanlegar tengingar fyrir slíkt svæði inn á meginflutningskerfi raforku. Þar af leiðandi telji íslenska ríkið að stefnendur hafi ekki sýnt fram á að ákvörðunin hafi verið byggð á röngum forsendum.

    Stefndi byggir á því að samningaviðræður milli Landsnets hf. og stefnenda hafi verið fullreyndar. Því hafi eignarnám verið heimilað. Í málinu liggi fyrir að fyrsti opni kynningarfundur Landsnets hf. um tillögu að matsáætlun fyrir Suðvesturlínur hafi verið haldinn í Reykjanesbæ í febrúar 2009. Öllum landeigendum á línuleiðinni hafi verið send kynningarbréf í apríl 2011 og fyrstu samningafundir farið fram með eigendum einstakra jarða í júní 2011.

    Stefndi bendir á að Landsnet hf. hafi haldið tvo fundi með eigendum Knarrarnesjarða, annars vegar 14. júní 2011 og hins vegar 14. júní ári síðar. Stefnendur hafi verið boðuð á báða fundina en ekki séð sér fært að mæta. Af gögnum málsins megi sjá að bréf hafi gengið milli Landsnets hf. og stefnenda og síðar lögmanna stefnenda. Þannig hafi lögmaður Landsnets hf. sent einum stefnenda bréf 5. nóvember 2012. Í því bréfi hafi verið vísað til símtals, þar sem fram fóru samningaviðræður og sett fram tilboð Landsnets hf. Af gögnum málsins sjáist jafnframt að stefnendur hafi fyrst og fremst kosið að ræða um útfærslu framkvæmdarinnar og hvernig unnt væri að haga henni með öðrum hætti. Stefndi telur ljóst af gögnum málsins að í samningaviðræðum hafi eignarnámsbeiðandi ítrekað sýnt fram á að samningaviðræður um eignarnám lyti eðli máls samkvæmt að viðræðum um hina skilgreindu framkvæmd, Suðurnesjalínu 2, sem hlotið hafi lögbundna meðferð. Það sé í samræmi við almenn sjónarmið um að veiting heimildar til eignarnáms komi almennt ekki til fyrr en undirbúningur verkefnis sé á lokastigi. Þannig sé það ekki hluti af samningaviðræðum um eignarnám við einstaka landeigendur að fara yfir mismunandi framkvæmdakosti. Hið lögbundna ferli, það er mat á umhverfisáhrifum og skipulagsferli, feli í sér að það sé ekki alfarið í höndum eignarnámsbeiðanda að ákveða hvaða leið sé valin eða hvernig útfærsla framkvæmdar sé. Frávik frá þeirri útfærslu framkvæmdarinnar sem liggi fyrir feli í sér nýja framkvæmd sem fara þurfi að nýju í gegnum lögbundið ferli. Slík ákvörðun sé ekki að öllu leyti innan valdsviðs eignarnámsbeiðanda og geti þar af leiðandi ekki verið andlag samningaviðræðna milli eignarnámsbeiðanda og eignarnámsþola.

    Stefndi telur sýnt að samningaviðræður hafi verið fullreyndar. Líta verði til þess að stefnendur hafi svarað tilboðum og fundarboðum stefnda Landsnets hf. ýmist óljóst eða yfirhöfuð ekki. Samningaviðræður aðila hafi staðið yfir í tæp tvö ár. Því sé ljóst að fullreynt hafi verið að ná samkomulagi. Stefnendur hafi ekki verið til viðtals um annað en annan framkvæmdakost. Með vísan til þessa byggir stefndi íslenska ríkið á því að Landsnet hf. hafi með sannanlegum hætti leitast við að ná samningum við stefnendur.

    Stefndi mótmælir staðhæfingum stefnenda sem lúta að því að niðurstaða ráðuneytisins hafi verið byggð á ákvörðun Orkustofnunar 5. desember 2013 og að með því hafi verið brotið á andmælarétti stefnenda. Stefndi leggur áherslu á að ákvörðun um eignarnám hafi ekki eingöngu verið byggð á ákvörðun Orkustofnunar, enda hafi farið fram sjálfstæð rannsókn hjá íslenskum stjórnvöldum. Ljóst sé því að stefnda íslenska ríkinu hafi ekki verið skylt að gefa stefnendum kost á að tjá sig sérstaklega um ákvörðun Orkustofnunar við meðferð eignarnámsmálsins. Engu að síður hafi landeigendum verið veitt tækifæri á að koma að athugasemdum 10. desember 2013 og hafi umbeðin umsögn stefnenda borist 28. janúar 2014. Hafi stefnendum því gefist tækifæri á að tjá sig um ákvörðun Orkustofnunar undir rekstri málsins hjá íslenskum stjórnvöldum. Þá sé þess að geta að stefnendur hafi komið athugasemdum sínum á framfæri við Orkustofnun áður en sú ákvörðun hafi verið tekin, auk þess sem að meginhluta hafi sömu gögn legið fyrir við meðferð Orkustofnunar og við meðferð eignarnámsmálsins hjá stefnda. Því sé því alfarið vísað á bug að andmælaréttur 13. gr. stjórnsýslulaga hafi verið brotinn gagnvart stefnendum við meðferð málsins. Stefnendur hafi komið athugasemdum sínum og gögnum að í málinu og ítarlega hafi verið farið yfir sjónarmið stefnenda.

    Stefndi mótmælir því að ógilda beri ákvörðunina 24. febrúar 2014 um heimild Landsnets hf. til eignarnáms tiltekinna réttinda í landi stefnenda vegna byggingar raforkuflutningsvirkis á Suðurnesjalínu 2. Við alla málsmeðferð í tengslum við ákvörðunina hafi verið farið að ákvæðum laga. Allar málsmeðferðarreglur stjórnsýslulaga hafi verið uppfylltar, svo sem rannsóknarregla og meðalhófsregla, auk þess sem andmælaréttur stefnenda hafi verið virtur. Við undirbúning ákvörðunarinnar hafi verið litið til allra gagna málsins og röksemda aðila, þar með talið til jarðstrengja sem mögulegs valkosts. Ákvörðun stjórnvalda hafi því verið lögmæt.

    V

    Í forgrunni máls þessa standa fyrirmæli 72. gr. stjórnarskrárinnar nr. 33/1944 um vernd eignarréttarins. Orðrétt segir þar í 1. mgr. ákvæðisins: „Eignarrétturinn er friðhelgur. Engan má skylda til að láta af hendi eign sína nema almenningsþörf krefji. Þarf til þess lagafyrirmæli og komi fullt verð fyrir.“

    Samkvæmt 2. gr. laga nr. 75/2004 um stofnun Landsnets hf. hefur félagið það hlutverk að annast flutning raforku og kerfisstjórnun samkvæmt ákvæðum III. kafla raforkulaga nr. 65/2003.

    Fram kemur 1. gr. laga nr. 65/2003 að markmið laganna sé að stuðla að þjóðhagslega hagkvæmu raforkukerfi og efla þannig atvinnulíf og byggð í landinu. Í því skyni skuli:

    „1.     Skapa forsendur fyrir samkeppni í vinnslu og viðskiptum með raforku, með þeim takmörkunum sem nauðsynlegar reynast vegna öryggis raforkuafhendingar og annarra almannahagsmuna.

        2.     Stuðla að skilvirkni og hagkvæmni í flutningi og dreifingu raforku.

        3.     Tryggja öryggi raforkukerfisins og hagsmuni neytenda.

        4.  Stuðla að nýtingu endurnýjanlegra orkugjafa og taka tillit til umhverfissjónarmiða að öðru leyti.“

    Í tilvitnuðum löggjafarmarkmiðum birtist áhersla á þá ríku almannahagsmuni sem við örugga raforkudreifingu eru bundnir.

    Í eignarnámsbeiðni stefnda Landsnets hf. 20. febrúar 2013 er um rökstuðning m.a. vísað til þess að Suðurnesjalína 1, „sem nú þjónar svæðinu og rekin er á 132 kV spennu“ sé „fulllestuð í dag“ og jafnframt sé öryggi kerfisins sé ófullnægjandi „eins og málum er nú háttað, því einungis er um að ræða þessa einu tengingu frá Reykjanesskaganum við 220 kV meginflutningskerfi Landsnets í Hamranesi við Hafnarfjörð. Svæðið er ekki tengt með svokallaðri N-1 tengingu en það er ástand sem Landsnet telur óviðunandi þegar um svo stór byggðarlög er að ræða sem eru á Reykjanesskaganum. Þar er jafnframt aðal millilandaflugvöllur landsins.“

    Síðar í sömu beiðni segir orðrétt: „Því er aðkallandi fyrir bæði samfélagið í heild og atvinnustarfsemi á Reykjanesi að flutningskerfi raforku verði styrkt og það þolir ekki frekari bið.“ Í beiðninni er jafnframt vísað til þess að um sé að ræða „nauðsynlega framkvæmd í almannaþágu“ og að verulegt rekstraröryggi sé í því fólgið fyrir raforkukerfi svæðisins „að hafa tvær háspennulínur á þessari leið í stað einnar eins og nú er.“

    Skemmst er frá því að segja að gögn málsins, þ. á m. umsagnir opinberra aðila við frummatsskýrslu sem sendar voru Skipulagsstofnun á tímabilinu maí til júlí 2009, benda til þess að ofangreindar fullyrðingar eigi við gild rök að styðjast, þ.e. að tenging Suðurnesja við flutningskerfi raforku sé að öllu óbreyttu ekki nægilega trygg og að Suðurnesjalína 1 sé nú því sem næst fullnýtt. Með hliðsjón af þessu telur dómurinn að hagsmunir þeir sem lögum nr. 65/2003 er samkvæmt framanskráðu ætlað að vernda verði ekki með viðunandi hætti tryggðir til frambúðar á svæðinu nema með lagningu 220 kV línu sem fyrirsjáanlega mun geta annað aukinni flutningsþörf þegar til framtíðar er litið. Af hálfu stefnenda hefur því raunar ekki verið andmælt að rétt sé að styrkja tengingu Suðurnesja við flutningskerfi raforku.

    Með ákvæðum 23. gr. laga nr. 65/2003 hefur löggjafinn veitt almenna heimild til eignarnáms nái fyrirtæki ekki samkomulagi við landeiganda eða eiganda orkulinda vegna framkvæmda á grundvelli þeirra laga, sbr. nánari fyrirmæli laganna þar að lútandi. Í eignarnámsbeiðni Landsnets hf. 20. febrúar 2013 er orðum vikið að því að öllum landeigendum „á línuleiðinni“ hafi verið send kynningarbréf í apríl 2011, þar sem vakin var athygli þeirra á undirbúningi framkvæmda. Fyrstu samningafundir með eigendum einstakra jarða hafi farið fram í júní 2011. Í framhaldi af því hafi „margir samningafundir verið haldnir og mikil samskipti átt sér stað milli landeigenda og Landsnets hf.“ Þá er tekið fram að samningar við landeigendur hafi tekist í mörgum tilvikum en ekki öllum.

    Með vísan til áðurgreindrar lagaskyldu sem á stefnda Landsneti hf. hvílir viðvíkjandi uppbyggingu og rekstri flutningskerfis raforku má fallast á það með stefnda Landsneti hf. að félaginu sé nauðsynlegt að hefja framkvæmdina sem fyrst. Að því virtu og með skírskotun til annars sem að framan greinir þykir mega leggja til grundvallar að uppfyllt séu hér skilyrði 1. mgr. 72. gr. stjórnarskrárinnar um almenningsþörf, sem og sá áskilnaður 23. gr. laga nr. 65/2003 að eignarnám skuli eingöngu ákvarðað að því leyti sem nauðsyn beri til. Um samningaviðræður málsaðila verður nánar fjallað hér á eftir.

    Að þessu frágengnu stendur eftir ágreiningur málsaðila um það hvaða leið skuli valin við framkvæmdirnar og hvernig staðið hefur verið að ákvörðunum um Suðurnesjalínu 2.

    Af framlögðum loftmyndum og kortum má glöggt sjá legu þess landsvæðis sem umþrætt ákvörðun ráðherra 24. febrúar 2014 lýtur að. Gögn þessi sýna einnig vel legu fyrirhugaðrar háspennulínu um landareign stefnenda. Landamerkjum jarðanna er þannig háttað að löndunum verður best lýst sem landræmum sem teygja sig frá norðvestri til suðausturs, langt inn á heiðina sunnan við Reykjanesbrautina sem einnig þversker skák stefnenda. Með hliðsjón af staðháttum verður fallist á það með stefndu að tengikerfi raforku þurfi óhjákvæmilega að þvera landareign stefnenda með þeim hætti sem hér hefur verið lýst og að ekki sé val á leið sem sneiðir þar fram hjá þannig að komist verði hjá eignarnámi.

    Að þessu sögðu ber að taka fram að hér sem endranær verður af hálfu dómsins lagt til grundvallar að skerðing á eignarrétti, líkt og sú sem um ræðir í þessu máli, sé einungis réttlætanleg ef ekki er með öðrum úrræðum unnt að ná því marki sem að er stefnt, sbr. m.a. dóma Hæstaréttar 19. mars 2009 í máli nr. 425/2008 og 15. nóvember 2012 í máli nr. 60/2012. Í samræmi við þennan áskilnað laga og réttar verður nú hugað að því hvort kröfur um meðalhóf teljist uppfylltar eins og til háttar í máli þessu.

    Hér að framan hefur verið komist að þeirri niðurstöðu að ekki hafi verið unnt að ákvarða legu raforkuflutningskerfis um land stefnenda með öðrum og minna íþyngjandi hætti en gert var. Eftir stendur þá að leysa úr því hvort telja beri aðra kosti en lagningu loftlínu ákjósanlegri út frá sjónarmiðum um meðalhóf, sbr. 12. gr. laga nr. 37/1993, en stefnendur hafi undir meðferð málsins bent á jarðstreng sem ákjósanlegri valkost. Við mat á þessu atriði þykir rétt að líta til þess að svæðinu sem títtnefnd eignarnámsákvörðun tók til hefur þegar verið raskað. Með hliðsjón af þeirri staðreynd verður lagning háspennulínu við hlið þeirrar línu sem fyrir er ekki talin óhæfilega íþyngjandi fyrir stefnendur. Í þessu samhengi er ekki heldur unnt að horfa fram hjá því að lagning jarðstrengs á því svæði sem hér um ræðir - og er að mestu þakið mosavöxnu hrauni - er ekki án umhverfisröskunar, sbr. m.a. matsskýrslu verkfræðistofunnar Eflu hf. 10. ágúst. Í matsskýrslunni segir að loftlínur hafi mun meiri sjónræn áhrif á umhverfi sitt en jarðstrengir, en sýnileiki loftlína sé mjög háður því landslagi sem þær liggi um. Þar segir jafnframt að jarðstrengur valdi þó einnig sjónrænum áhrifum, enda megi gera ráð fyrir að lagningu hans fylgi rask á um 10 metra breiðu svæði. Þá kemur fram í sömu skýrslu að í samanburði verði einnig að taka tillit til sérstaks búnaðar vegna langra strengja. Í skýrslunni er sömuleiðis nefnt að töluvert stærra svæði raskist við lagningu jarðstrengs en loftlínu „eða um 4-6 sinnum meira svæði“. Þá þurfi ekki í öllum tilvikum að vera slóð með allri loftlínunni eins og tilfellið sé með jarðstrengi. Af þessu telur dómurinn mega álykta að lagning jarðstrengs verði ekki framkvæmd án sjálfstæðra umhverfisspjalla. Að mati dómsins verður heldur ekki fram hjá því litið í þessu samhengi að loftlínur hafa þann kost umfram jarðstrengi að með loftlínu er hægt að byggja flutningsgetu upp í áföngum, m.ö.o. auka hana á síðari stigum eftir því sem þörf krefur með fjölgun víra, sbr. hagkvæmnismat Suðurnesjalínu 2 frá 4. janúar 2011. Í þessu tilliti telur dómurinn sýnt að jarðstrengir bjóði upp á minni sveigjanleika þegar litið er til framtíðar.

    Undir rekstri málsins hafa verið lagðar fram áætlanir sem benda til að framleiðsla raforku á Reykjanesi geti meira en tvöfaldast á næstu árum og áratugum, þ.e. á endingartíma Suðurnesjalínu 2, sbr. nánar kerfisáætlun Landsnets 2012-2016, sem og raforkuspá Orkuspárnefndar 2012-2050. Miðað við skilgreinda virkjanakosti í nýtingarflokki  á háhitasvæðum er ekki tilefni til annars en að ætla að orkuframleiðsla á Suðurnesjum muni aukast umtalsvert frá því sem nú er þótt óljóst megi telja hve mikil sú aukning geti orðið, sbr. framlagða greinargerð Sigmundar Einarssonar jarðfræðings 19. nóvember 2014. Í þessu samhengi verður heldur ekki fram hjá því litið að Reykjanes, með tilheyrandi hafnaraðstöðu, aðgengi að vinnuafli o.fl., hefur verið skilgreint sem svæði fyrir margvíslegan iðnað svo sem kísilver, gagnaver, álver o.fl., sbr. bréf HS Orku hf. 28. maí 2009. Meta verður þá orkuþörf sem þetta útheimtir í samhengi við þær skyldur sem á stefnda Landsneti hf. hvíla samkvæmt lögum nr. 75/2004, nánar tiltekið um raforkuflutning og kerfisstjórnun, svo og þær skyldur sem lagðar hafa verið á félagið samkvæmt ákvæðum 9. gr. laga nr. 65/2003.

    Samkvæmt áætlunum stefnda Landsnets hf. er Suðurnesjalína skilgreind sem hluti af meginflutningskerfi landsins sem kemur til með að vera rekið á 220/400 kV spennu.  Með hliðsjón af því og áætlunum um uppbyggingu iðnaðar og orkuframleiðslu á Suðurnesjum næstu áratugina, getur dómurinn ekki fallist á þá málsástæðu að áætlanir um 220 kV/690 MVA raflínu gangi gegn meðalhófsreglu. Þvert á móti þykir nauðsynlegt að gert sé ráð fyrir mögulegri aukinni flutningsgetu Suðurnesjalínu með því að hækka spennu upp í 220 kV á afskriftatíma fyrirhugðrar framkvæmdar.

    Samkvæmt 1. mgr. 9. gr. laga nr. 65/2003 ber Landsneti hf. að byggja flutningskerfið upp á hagkvæman hátt að teknu tilliti til öryggis, skilvirkni, áreiðanleika afhendingar og gæða raforku. Með því að stefnendur hafa ekki sýnt fram á aðra lausn sem er minna íþyngjandi en uppfyllir þó kröfur um öryggi, skilvirkni og hagkvæmni verður hafnað sjónarmiðum stefnenda er lúta að ætluðum brotum gegn meðalhófi í þessu sambandi. 

    Um meðalhófssjónarmið stefnenda má að síðustu geta þess að í eignarnámsbeiðni stefnda Landsnets hf. var aðeins krafist eignarnáms á afmörkuðu landsvæði, sem ekki er stærra en nauðsynlegt er til að ná fram þeim markmiðum sem framkvæmdin miðar að. Samkvæmt öllu framanrituðu þykir ekki hafa verið sýnt fram á það af hálfu stefnenda að við meðferð málsins hafi verið brotið gegn meðalhófsreglu stjórnsýsluréttar eða stjórnskipunarréttar. 

    Að öllu þessu frágengnu verður nú hugað að því hvort stefndi Landsnet hf. hafi ekki tekið til nægjanlegrar skoðunar þann möguleika að leggja Suðurnesjalínu 2 í jörðu og hvort stefndi íslenska ríkið hafi ekki sinnt rannsóknarskyldu sinni, sbr. 10. gr. laga nr. 37/1993.

    Af áðurnefndri eignarnámsbeiðni og öðrum gögnum málsins má ráða að beiðnin átti sér nokkuð langan aðdraganda og fylgdi þar lögbundnu ferli. Þannig liggur m.a. fyrir að haldinn var opinn kynningarfundur í Reykjanesbæ 8. febrúar 2009 um tillögu að matsáætlun stefnda Landsnets hf. fyrir Suðvesturlínur. Í marsmánuði 2009 samþykkti Skipulagsstofnun tillögu stefnda Landsnets hf. og endanleg matsskýrsla var send stofnuninni síðar sama ár, nánar tiltekið í ágúst 2009. Með álitsgerð 17. september 2009 samþykkti Skipulagsstofnun mat Landsnets á umhverfisáhrifum með nánar tilgreindum skilyrðum. Umhverfisráðherra staðfesti 28. janúar 2010 að sameiginlegt mat á umhverfisáhrifum skyldi ekki fara fram. Af hálfu Orkustofnunar var ákveðið 5. desember 2013 að heimila Landsneti hf. að reisa og reka raforkuflutningskerfi fyrir Suðurnesjalínu 2, nánar tiltekið 220 kV háspennulínu, sem ráðgert er að liggi frá tengivirki við Hamranes í Hafnarfirði, þaðan um sveitarfélögin Voga, Reykjanesbæ og Grindavíkurbæ að tengivirki við Rauðamel. Í ákvörðun atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra 24. febrúar 2014 er gerð ítarleg grein fyrir þeim bréfaskiptum sem fram fóru milli hlutaðeigandi aðila á fyrri stigum. Er þar m.a. tíundað að ráðuneytið hafi gefið landeigendum kost á að koma á framfæri athugasemdum og ábendingum vegna eignarnámsbeiðni Landsnets hf., en jafnframt reifaðar röksemdir landeigenda sem fram komu af þessu tilefni. Í ákvörðun ráðherra er einnig gerð grein fyrir umsögn eignarnámsbeiðanda um athugasemdir landeigenda, auk þess sem reifaðar eru viðbótarröksemdir landeigenda og viðbrögð við umsögn eignarnámsbeiðanda. Þá er ennfremur greint frá síðari umsögn eignarnámsbeiðanda vegna umsagnar landeigenda og gerð grein fyrir umsögn landeigenda um síðastgreind sjónarmið eignarnámsbeiðanda. Í heild bera skjöl málsins, þar á meðal bréf atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins 2. apríl 2013 með sér að talsverð samskipti fóru fram á fyrri stigum málsins, þar sem stefnendum gafst kostur á að koma athugasemdum sínum á framfæri. Af hálfu stefnenda hefur því verið haldið fram að síðastgreind ákvörðun hafi einungis byggst á niðurstöðu Orkustofnunar. Gegn mótmælum stefnda íslenska ríkisins og að virtum þeim ítarlegu forsendum sem ákvörðun ráðherra 24. febrúar 2014 ber með sér að hafa byggst á, þykir ekki verða fullyrt að eignarnámsákvörðun hafi verið tekin án þess að sjálfstætt mat hafi farið fram. Með sömu rökum hefur dómurinn ekki staðreynt að ófullnægjandi forsendur hafi legið hinni umdeildu ákvörðun til grundvallar. Þótt ráðherra hafi í umrætt sinn ljóslega haft hliðsjón af niðurstöðu Orkustofnunar 5. desember 2013 getur það eitt ekki valdið ógildi ákvörðunar ráðherrans. Umrædd ákvörðun ráðherra ber vott um að þar hafi verið litið til framkominna umsagna landeigenda og fyrirliggjandi gagna.

    Af hálfu stefnenda hefur sérstaklega verið vísað til þess að hagkvæmni jarðstrengja hefði átt að skoða betur. Áður tilvísuð matsskýrsla frá 10. ágúst 2009, svo og fyrrgreint hagkvæmnismat 4. janúar 2011 bera að áliti dómsins merki um að framkvæmdin hafi verið metin út frá þjóðhagslegum forsendum, auk annarra þátta sem vægi hafa í þessu tilliti lögum samkvæmt. Í matsskýrslunni 10. ágúst 2009 er fjallað bæði um jarðstrengi og loftlínur og finna má þar samanburð á kostnaði, rekstrarþáttum og umhverfisáhrifum, þar sem kostir og gallar beggja leiða eru settir á vogarskálarnar. Þá er þar að finna samantekt um helstu kosti jarðstrengja umfram loftlínur annars vegar og helstu kosti loftlína umfram jarðstrengi hins vegar. Helstu kostir jarðstrengja eru þar sagðir vera lítill sýnileiki, að þeir séu óháðir ytri þáttum svo sem ísingu, saltmengun o.fl., auk þess sem „minna byggingabann“ er tiltekið sem kostur. Í samanburðinum eru helstu kostir loftlína umfram jarðstrengi sagðir vera sem hér segir: „Lægri kostnaður; meiri flutningsgeta miðað við sama leiðaraþvermál; þola yfirlestun í ákveðinn tíma (jarðstrengir geta brunnið yfir); auðveldari bilanaleit og styttri viðgerðartími; meiri sveigjanleiki við endurnýjun; þola betur jarðskjálfta; ökuslóð að hverju mastri, að öðru leyti getur slóð fylgt landslaginu; minna jarðrask“. Með hliðsjón af þessum samanburði verður staðhæfingum stefnenda um skort á samanburði nefndra valkosta hafnað.

    Af hálfu stefnda íslenska ríkisins hefur verið fullyrt að öll gögn stefnenda hafi verið metin með sjálfstæðum og rökstuddum hætti af hálfu ráðuneytisins og niðurstaðan verið sú að ekki hafi verið færð nægileg rök fyrir því að tillögur stefnendafælu í sér minna íþyngjandi úrræði við lagningu Suðurnesjalínu 2. Ný háspennulína samhliða núverandi línu hafi því verið talin minnst íþyngjandi kosturinn. Að mati dómsins gefa hvorki framkomnar málsástæður né framlögð gögn tilefni til gagnstæðrar niðurstöðu.Verður því hafnað sjónarmiðum stefnenda sem lúta að ætluðum brotum gegn rannsóknarreglu stjórnsýsluréttar.

    Auk framangreindra málsástæðna er ógildingarkrafa stefnenda á því byggð að samningaviðræður hafi ekki verið reyndar til þrautar áður en leitað var eftir eignarnámi. Röksemdir stefnenda sem að þessu lúta eiga skírskotun til þess áskilnaðar 1. mgr. 23. gr. raforkulaga nr. 65/2003 að ekki komi til eignarnáms nema staðreynt sé að samkomulag hafi ekki tekist við landeigendur vegna framkvæmda á grundvelli raforkulaga. Í þessu samhengi verður ekki litið fram hjá því að skjöl málsins bera með sér að stefnendum hafi á fyrri stigum gefist kostur á samningaviðræðum um málið og fyrir liggur fyrir að fulltrúar málsaðila hafa skipst á bréfum þar sem gerð hefur verið grein fyrir sjónarmiðum aðila í þessu tilliti. Þess ber enn fremur að geta í því samhengi sem hér um ræðir, að eignarnámsbeiðnin sem málshöfðun þessi er sprottin af snýr að afmarkaðri framkvæmd, þ.e. Suðurnesjalínu 2, sem á fyrri stigum hefur farið í gegnum lögbundið skipulagsferli svo sem fyrr segir. Af ákvæðum 23. gr. laga nr. 65/2003 leiðir að á eignarnámsbeiðandi hefur ekki ótakmarkað svigrúm um efni viðræðna við einstaka landeigendur, heldur hljóta viðræður þessar ávallt að lúta að framkvæmdinni eins og hún hefur þá verið skilgreind. Hin skilgreinda framkvæmd vegna Suðurnesjalínu 2 hefur verið takmörkuð við háspennulínu. Lagning jarðstrengs á þessari leið hefur ekki sætt umhverfismati og ekki verið sett á framkvæmdaáætlun. Af þessu leiðir að frávik frá fyrirliggjandi útfærslu framkvæmdar fælu í reynd í sér nýja framkvæmd sem fara þyrfti að nýju í gegnum hið skilgreinda ferli sem lög mæla fyrir um. Með því að lög veita ekki svigrúm til viðræðna á slíkum valkvæðum grundvelli má fallast á það með stefnda Landsneti hf. að engin teikn hafi verið fram komin um breytta afstöðu stefnenda til framkvæmdarinnar þegar viðræðunum var slitið. Stefnendur höfðu ítrekað lýst sig andsnúna háspennulínu en leitað eftir viðræðum um aðrar útfærslur framkvæmdarinnar við Suðurnesjalínu 2. Bréf og önnur skjöl sem frá stefnendum stafa og lögð hafa verið fram undir rekstri málsins endurspegla ekki vilja stefnenda til viðræðna um háspennulínu. Að þessu virtu og að öðru leyti með hliðsjón af fyrirliggjandi upplýsingum um samskipti málsaðila í aðdraganda málshöfðunar þessarar verður að fallast á það með stefndu að samningaviðræður hafi verið fullreyndar og því séu uppfyllt skilyrði eignarnáms hvað þetta áhrærir.

    Af hálfu stefnenda er enn fremur á því byggt að andmælaréttur þeirra hafi ekki verið virtur. Hér að framan hefur orðum verið vikið að endurteknum bréfaskiptum málsaðila á fyrri stigum málsins. Fyrir liggur að 5. desember 2013 veitti Orkustofnun stefnda Landsneti hf. leyfi samkvæmt 2. mgr. 9. gr. laga nr. 65/2003 til að reisa og reka flutningsvirkið Suðurnesjalínu 2. Í leyfisbréfinu er tekið fram að leyfið sé veitt „á grundvelli þeirra gagna er fylgdu leyfisumsókninni og aflað var á umsóknarferlinu og með fyrirvörum er fram koma í fylgibréfi með leyfi Orkustofnunar [...]“. Í tilvísuðu fylgibréfi Orkustofnunar, sem einnig er dagsett 5. desember 2013, er ferill málsins rakinn og gerð grein fyrir þeim athugasemdum við umsókn stefnda Landsnets hf. sem bárust frá Náttúruverndarsamtökum Suðvesturlands og landeigendum. Við úrlausn um þá málsástæðu stefnenda sem lýtur að andmælarétti er einnig rétt að horfa til þess að nokkrum dögum eftir framangreinda leyfisútgáfu 5. desember 2013, nánar tiltekið 10. sama mánaðar, sendi atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið bréf til lögmanna stefnenda þar sem landeigendum var gefinn kostur á að koma á framfæri athugasemdum vegna eignarnámsbeiðni stefnda Landsnets hf. Bréf þetta, 10. desember 2013, var sent í kjölfar fyrri bréfaskipta um málið, nánar tiltekið eftir að ráðuneytinu höfðu borist athugasemdir lögmanna landeigenda 31. október 2013 og viðbótarumsögn Landsnets hf. 6. desember 2013. Athugasemdir landeigenda bárust ráðuneytinu með bréfi Lex lögmannsstofu 28. janúar 2014. Í því bréfi segir m.a. fram að landeigendur hafi ákveðið að skjóta framangreindri ákvörðun Orkustofnunar 5. desember 2013 til dómstóla og að sú málshöfðun muni m.a. byggjast á því að landeigendur hafi ekki notið lögmælts andmæla- og upplýsingaréttar, sbr.  13. og 15. gr. laga nr. 37/1993. Við lestur ákvörðunar atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra 24. febrúar 2014 má sjá að við undirbúning þeirrar ákvörðunar hefur ekki verið horft fram hjá framangreindum athugasemdum og umsögnum. Raunar er í ákvörðuninni sérstaklega fjallað um ofangreindar athugasemdir landeigenda 28. janúar 2014. Að áliti dómsins hefði farið betur á því að ráðuneytið vekti sérstaka athygli á niðurstöðu Orkustofnunar í bréfi sínu 10. desember 2013. Með hliðsjón af því heildarsamhengi sem lesa má út úr ofangreindum samskiptum þykir þó ekki ástæða til að ógilda ákvörðun ráðherra af þessum sökum. Hefur dómurinn við þá ákvörðun horft til þess hversu skammt leið frá ákvörðun Orkustofnunar 5. desember 2013 þar til bréf ráðuneytisins var sent út, auk þess sem litið hefur verið efnislega til athugasemda landeigenda 28. janúar 2014 og nánari forsendna ákvörðunar ráðherra 24. febrúar 2014. Verður þar af leiðandi hafnað að brotið hafi verið gegn andmælarétti stefnenda við meðferð málsins.   

    Að öllu framanskráðu virtu þykja stefnendur ekki hafa sýnt fram á að ákvörðun ráðherra 24. febrúar 2014 hafi verið ólögmæt. Verður kröfum þeirra því hafnað.

    Eins og atvikum er hér háttað þykir rétt að málskostnaður falli niður.

    Mál þetta dæmdu Arnar Þór Jónsson, settur héraðsdómari, sem dómsformaður og meðdómsmennirnir Ásmundur Helgason héraðsdómari og Hallgrímur G. Sigurðsson rafmagnsverkfræðingur.

    D ó m s o r ð:

    Stefndu, íslenska ríkið og Landsnet hf., eru sýknaðir af kröfum stefnenda, Bjarneyjar Guðrúnar Ólafsdóttur, Ólafs Þórs Jónssonar og Sigríðar Jónsdóttur, í máli þessu.

    Málskostnaður fellur niður.