Print

Mál nr. 84/2003

Lykilorð
  • Ávana- og fíkniefni
  • Ákæra
  • Upptaka
  • Stjórnarskrá
  • Jafnræðisregla

Miðvikudaginn 28

 

Miðvikudaginn 28. maí 2003.

Nr. 84/2002.

Ákæruvaldið

(Bragi Steinarsson vararíkissaksóknari)

gegn

Vali Þórssyni Wilcox

(Hilmar Ingimundarson hrl.)

 

Ávana- og fíkniefni. Ákæra. Upptaka. Stjórnarskrá. Jafnræðisregla.

V var ákærður fyrir fíkniefnalagabrot með því að hafa 22. mars 2002 haft í vörslum sínum amfetamín, sbr. 2. gr. laga nr. 65/1974 um ávana- og fíkniefni, sem og húsbrot og ölvunarakstur. V játaði þá háttsemi sem honum var gefin að sök, en krafðist sýknu af  fyrstnefnda brotinu með vísan til þess að háttsemi hans hafi verið refsilaus þar sem amfetamín hafi á tímabilinu frá 29. júní 2001 til 27. mars 2002 fallið undir 3. gr. laga nr. 65/1974. Talið var að ákæruvaldinu hafi verið rétt að haga ákærunni í samræmi við það, enda hafi dómur Hæstaréttar 11. apríl 2002 í máli nr. 162/2002 tekið af allan hugsanlegan vafa í þessu efni. Af gögnum málsins yrði ekki annað ráðið en að sakflytjendur hafi átt færi á að tjá sig um hvort V kynni með þeirri háttsemi, sem lýst sé í ákæru, að hafa brotið gegn 3. gr. laga nr. 65/1974. Hafi málið verið reifað með tilliti til þessa lagaákvæðis fyrir Hæstarétti. Vörn V hafi því að þessu leyti ekki verið áfátt. Þótt í ákæru hafi ekki verið sérstaklega tilgreint að varsla V á amfetamíni hafi verið án heimildar hafi honum ekki getað dulist af lýsingu á háttsemi hans þar og heimfærslu brots hans til lagaákvæða að sakarefnið tók til óheimillar vörslu hans, enda hafi hann ekki haldið því fram að hann hafi notið undanþágu til hennar. Var þessi annmarki á ákærunni ekki talinn slíkur að hann væri því til fyrirstöðu að háttsemi V yrði felld undir ákvæði 3. gr. framangreindra laga, en refsing við broti gegn því væri vægari en þegar um væri að tefla fortakslaust bann við vörslu samkvæmt 2. gr. laganna, sbr. reglugerð nr. 233/2001 og nú reglugerð nr. 848/2002. Þá var heldur ekki talið að ákæruvaldið hafi brotið gefn jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar með því að áfrýja aðeins dómi í máli ákærða til Hæstaréttar, en ekki öðrum sýknudómum. Var V því sakfelldur fyrir heimildarlausar vörslur á amfetamíni, sbr. 3. gr. laga nr. 54/1974. Var og honum gert að greiða 50.000 króna sekt í ríkissjóð og fallist á upptökukröfu ákæruvaldsins.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Árni Kolbeinsson og Ingibjörg Benediktsdóttir.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 28. febrúar 2003 af hálfu ákæruvalds, sem krefst þess að ákærði verði sakfelldur fyrir þá háttsemi sem greinir í 1. tölulið ákæru og honum gert að sæta upptöku á 22,7 grömmum af amfetamíni, tveimur fötum af íblöndunarefni og tveimur vogum.

Ákærði krefst þess að niðurstaða hins áfrýjaða dóms verði staðfest um 1. lið ákæru.

I.

Með ákæru sýslumannsins í Hafnarfirði 6. janúar 2003 var mál þetta höfðað á hendur ákærða og tveimur öðrum nafngreindum mönnum. Þáttur þeirra var síðar greindur frá málinu. Var ákærða gefið að sök í 1. lið ákæru fíkniefnalagabrot með því að hafa 22. mars 2002 haft í vörslum sínum 22,7 grömm af amfetamíni í herbergi sínu að Hringbraut 76, Hafnarfirði, tvær fötur af íblöndunarefni og tvær nánar tilgreindar vogir, ætlaðar til vigtunar á fíkniefnum. Þá var hann sakaður í 2. lið ákæru um húsbrot 20. ágúst sama árs með því að hafa sparkað upp útidyrahurð að íbúð að Suðurgötu 106, Hafnarfirði, og í kjölfar þess farið þangað inn í heimildarleysi ásamt tveimur öðrum mönnum. Loks var hann í 4. lið ákærður fyrir að hafa ekið bifreiðinni OU-671 undir áhrifum áfengis á Fjarðargötu að Bæjartorgi í Hafnarfirði 27. október 2002. 

          Ákærði hefur játað þá háttsemi sem honum er að sök gefin. Hann unir niðurstöðu héraðsdóms um sakfellingu samkvæmt 2. og 4. lið ákæru. Hann krefst þess hins vegar að verða sýknaður af brotinu í 1. lið með vísan til þess að háttsemi hans, sem þar er lýst, sé honum refsilaus, þar sem amfetamín hafi fallið af skrá um þau efni, sem óheimilt er að flytja inn á íslenskt forráðasvæði, selja þar eða hafa í vörslum við breytingu á reglugerð nr. 233/2001 um ávana- og fíkniefni og önnur eftirlitsskyld efni, sem gerð var með reglugerð nr. 490/2001 og tók gildi 29. júní 2001. Hafi ekki verið bætt úr þessu fyrr en með reglugerð nr. 248/2002 um breytingu á reglugerð nr. 233/2001 um ávana- og fíkniefni og önnur eftirlitsskyld efni, sem tók gildi 27. mars 2002. Verknaðarlýsing í ákæru taki eingöngu til þess að ákærði hafi haft amfetamín í vörslum sínum, sbr. 2. gr. laga nr. 65/1974 um ávana- og fíkniefni, en ekki til þess að þær hafi verið án heimildar, sbr. 3. gr. laganna. Af þessum sökum verði 1. liður ákæru, eins og orðalagi hans sé háttað, ekki talinn lýsa refsiverðri háttsemi ákærða.

II.

          Eins og lýst er í héraðsdómi kemur fram í 1. mgr. 2. gr. laga nr. 65/1974 að varsla og meðferð ávana- og fíkniefna, sem talin eru upp í 6. gr. laganna með áorðnum breytingum sé óheimil á íslensku forráðasvæði. Er amfetamín ekki meðal þeirra ávana- og fíkniefna, sem talin eru upp í síðarnefndu greininni. Í 2. mgr. 2. gr. laganna er heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra veitt heimild til að mæla svo fyrir í reglugerð að varsla og meðferð annarra ávana- og fíkniefna, sem sérstaklega mikil hætta er talin stafa af samkvæmt alþjóðasamningum, sé á sama hátt óheimil á íslensku forráðasvæði. Þegar ákærði hafði í vörslum sínum amfetamínið, sem um ræðir í málinu, var í gildi fyrrnefnd reglugerð nr. 233/2001 eins og henni hafði verið breytt með reglugerð nr. 490/2001. Samkvæmt henni var amfetamín ekki flokkað sem efni, sem bannað er á íslensku forráðasvæði eftir 2. mgr. 2. gr. laga nr. 65/1974, sbr. 2. gr. reglugerðar nr. 233/2001, heldur sem efni, sem getið er í fylgiskjali II með alþjóðasamningi um ávana- og fíkniefni frá árinu 1971 með síðari breytingum. Samkvæmt þessu féll amfetamín undir 3. gr. laga nr. 65/1974 á gildistíma þeirrar breytingar á reglugerð nr. 233/2001, sem gerð var með reglugerð nr. 490/2001 uns breyting á henni gekk í gildi með reglugerð nr. 248/2002, eða á tímabilinu 29. júní 2001 til 27. mars 2002, sbr. einnig dóm Hæstaréttar 11. apríl 2002 í máli nr. 162/2002.

Í 1. lið ákæru var ákærði sem fyrr segir sakaður um að hafa 22. mars 2002 „haft í vörslum sínum“ 22,7 grömm af amfetamíni, tvær fötur af íblöndunarefni og tvær nánar tilgreindar vogir, ætlaðar til vigtunar á fíkniefnum. Eins og að framan greinir var þess ekki getið þar að vörslur hans á amfetamíninu væru „án heimildar“, enda var brot hans þar talið varða við 2. gr. laga nr. 65/1974. Í ljósi þess sem fyrr segir um að amfetamín hafi fallið undir 3. gr. laga nr. 65/1974 á þeim tíma, sem brotið var framið, en ekki 2. gr. laganna, hefði ákæruvaldinu verið rétt að haga ákæru í málinu í samræmi við það, enda var ofangreindur dómur Hæstaréttar í máli nr. 162/2002 kveðinn upp tæpum níu mánuðum áður en ákæra var gefin út, sem tók af allan hugsanlegan vafa í þessu efni.

III.

Í 1. mgr. 117. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála segir, að hvorki megi dæma ákærða fyrir aðra hegðun en þá, sem í ákæru greinir, né aðrar kröfur á hendur honum. Dæma má þó ákærða áfall, að fullnægðum ákveðnum skilyrðum, þótt minniháttar atriði séu ekki skýrt eða rétt greind í ákæru, enda telji dómari að vörn hafi ekki verið áfátt þess vegna, en þó aldrei aðrar kröfur en þar koma fram. Getur dómari, ef þurfa þykir, gefið ákæranda og verjanda færi á að tjá sig um sakaratriði að þessu leyti. Samkvæmt sama ákvæði er dómara heimilt með sömu skilyrðum að dæma eftir öðrum refsiákvæðum en getið er um í ákæru, þó aldrei aðrar kröfur en þar greinir. Málið var rekið og dæmt í héraði í samræmi við 125. gr. laga nr. 19/1991. Af gögnum málsins verður ekki annað ráðið en að sakflytjendur hafi átt færi á að tjá sig um hvort ákærði kynni með þeirri háttsemi, sem lýst er í ákæru, að hafa brotið gegn 3. gr. laga nr. 65/1974. Fyrir Hæstarétti var málið einnig reifað með tilliti til þessa lagaákvæðis. Vörn ákærða hefur því að þessu leyti ekki verið áfátt. Þótt í ákæru sé ekki sérstaklega tilgreint að varsla ákærða á amfetamíni hafi verið án heimildar gat honum ekki dulist af lýsingu á háttsemi hans þar og heimfærslu brots hans til lagaákvæða að sakarefnið tók til óheimillar vörslu hans, enda hefur hann ekki haldið því fram að hann hafi notið undanþágu til hennar. Að þessu virtu þykir framangreindur annmarki á ákæru ekki vera slíkur að hann sé því til fyrirstöðu að háttsemi ákærða verði felld undir ákvæði 3. gr. framangreindra laga, en refsing við broti gegn því er vægari en þegar um er að tefla fortakslaust bann við vörslu samkvæmt 2. gr. laganna, sbr. reglugerð nr. 233/2001 og  nú reglugerð nr. 848/2002.

Ákærði vísar einnig til þess að nokkrir ótilgreindir sýknudómar hafi gengið í héraði vegna sams konar brota og því, sem hér er til umfjöllunar, og framin voru á tímabilinu 21. júní 2001 til 27. mars 2002. Telur hann að það fari gegn 65. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. 3. gr. stjórnarskipunarlaga nr. 97/1995, að ríkissaksóknari hafi ekki áfrýjað þeim dómum heldur eingöngu dómi í sínu máli. Ákærði hefur engin gögn lagt fram til sönnunar þessari fullyrðingu, en skoraði í greinargerð sinni fyrir Hæstarétti á ákæruvaldið að leggja fram umrædda dóma. Við munnlegan málflutning lagði ákæruvaldið fram fáeina héraðsdóma, þar sem sýknað var af broti vegna vörslu amfetamíns á framangreindu tímabili þegar fortakslaust bann við henni hafði fallið niður. Ákæruvaldið kvað ástæðu fyrir því að dómunum var ekki áfrýjað aðallega þá, að krafa ákæruvalds um upptöku fíkniefna hafi verið tekin þar til greina, en svo væri ekki í máli þessu. Að auki hafi áfrýjun ekki verið nauðsynleg að mati ákæruvalds í þeim málum, þar sem ekki hafi mátt vænta að ákærðu yrði gerð frekari refsing þó til sakfellingar kæmi. Verður ekki fallist á með ákærða að með því að áfrýja dómi í máli þessu, en ekki áðurnefndum dómum, hafi jafnræðisregla stjórnarskrárinnar verið brotin. Samkvæmt framansögðu verður ákærði sakfelldur fyrir heimildarlausar vörslur sínar á margnefndu amfetamíni og brot hans fellt undir 3. gr. laga nr. 65/1974, sbr. reglugerð nr. 233/2001, reglugerð nr. 490/2001 og nú reglugerð nr. 848/2002, og honum gerð refsing eftir 1. mgr. 5. gr. laga nr. 65/1974 með áorðnum breytingum.

Ríkissaksónari sendi endurrit héraðsdóms í máli þessu með bréfi 5. mars 2003 til Fangelsismálastofnunar ríkisins. Kemur þar meðal annars fram að ákærði uni dóminum, sem verði áfrýjað að því er varðar 1. lið ákæru en ekki 2. og 4. lið hennar. Þótt ágreiningur málsins snúist einvörðungu um sakarefnið í 1. lið ákæru hefði ákæruvaldið að réttu lagi átt að bíða þess að senda málið til fullnustu að því er varðar þessa þætti ákærunnar svo unnt hefði verið, ef til þess kæmi, að ákveða ákærða refsingu í einu lagi fyrir brotin, sbr. 77. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Þar sem það var ekki gert verður að ákveða ákærða refsingu fyrir fíkniefnalagabrot hans til viðbótar þeirri sektarrefsingu sem honum var gerð í héraði með hliðsjón af þessu ákvæði. Ákærði var dæmdur 29. maí 2001 fyrir brot gegn 5. mgr. 19. gr. áfengislaga nr. 75/1998 en ekki gerð refsing. Þá gekkst hann undir viðurlagákvörðun 13. september 2001 með greiðslu 130.000 króna sektar fyrir fíkniefnalagabrot 23. febrúar 2000. Með vísan til þess að ákærði hefur áður hlotið refsingu fyrir fíkniefnalagabrot, hann er ungur að aldri og brotið, sem hann er hér sakfelldur fyrir, er ekki stórfellt er refsing hans hæfilega ákveðin 50.000 króna sekt til ríkissjóðs. Skal ákærði greiða hana innan fjögurra vikna frá uppsögu dóms þessa, en sæta ella fangelsi í 12 daga. Eftir kröfu ákæruvalds og samkvæmt þeim lagaákvæðum, sem vísað er til í ákæru, ber að gera upptækt 22,7 grömm af amfetamíni, tvær fötur með íblöndunarefni og tvær vogir, sem hald var lagt á við rannsókn sakarefnisins í 1. lið ákæru.

          Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað skal vera óraskað, en hvorugur aðilanna krefst endurskoðunar á niðurstöðu héraðsdóms um þennan þátt málsins.

Ákærði verður dæmdur til að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

          Ákærði, Valur Þórsson Wilcox, greiði 50.000 króna sekt í ríkissjóð innan fjögurra vikna frá uppsögu dóms þessa, en sæta ella fangelsi í 12 daga.

Upptækt skal gera 22,7 grömm af amfetamíni, tvær fötur með íblöndunarefni og tvær vogir.

          Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað skal vera óraskað.

        Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, Hilmars Ingimundarsonar hæstaréttarlögmanns, 100.000 krónur.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjaness 13. febrúar 2003.

                Ár 2003, fimmtudaginn 13. febrúar, er á dómþingi héraðsdóms Reykjaness, sem háð er að Fjarðargötu 9, Hafnarfirði af Sveini Sigurkarlssyni héraðsdómara, kveðinn upp dómur í málinu nr.  S-117/2003:  Ákæruvaldið gegn Val Þórssyni Wilcox, sem tekið var til dóms þann 4.þ.m.

             Málið er höfðað með ákæru sýslumannsins í Hafnarfirði útgefinni 6. janúar 2003 á hendur Val Þórssyni Wilcox, kt. 030781-4499, Hringbraut 76, Hafnarfirði, fyrir brot gegn almennum hegningarlögum og löggjöf um ávana- og fíkniefni.

 

1. Gegn ákærða Val, fyrir að hafa, föstudaginn 22. mars 2002, um kl. 13:50, haft í vörslum sínum 22,70 gr. af amfetamíni er hann framvísaði við leit lögreglu í herbergi hans að Hringbraut 76, Hafnarfirði, en auk þess haft í vörslum sínum umrætt sinn tvær fötur af íblöndunarefni og tvær vogir, aðra pesóla og hina digitalgramma, ætlaðar til vigtunar á fíkniefnum.

 

2. Gegn ákærðu öllum fyrir húsbrot,  þriðjudaginn 20. ágúst 2002, um kl. 13:14, með því að ákærði Valur sparkaði upp útidyrahurð að  íbúð að Suðurgötu 106, Hafnarfirði, í eigu Gunnars Rúnars H Óskarssonar, kt. 140456-3739, en ákærðu fóru öll í kjölfarið í heimildarleysi inn í íbúðina.

 

             ..............

 

4. Gegn ákærða Val, fyrir að hafa, aðfararnótt sunnudagsins 27. október 2002, um kl. 03:05, ekið bifreiðinni OU-671, undir áhrifum áfengis (vínandamagn í blóði 0,86o/oo), á Fjarðargötu, Hafnarfirði, að Bæjartorgi uns lögreglan stöðvaði för hans á Vesturgötu, við A-Hansen.

 

Telst háttsemi ákærða í 1. lið varða við 2. gr., sbr. 5. gr. laga um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974, sbr. lög nr. 60/1980, sbr. lög nr. 13/1985, sbr.  reglugerð um ávana- og fíkniefni og önnur eftirlitsskyld efni nr. 233/2001, sbr. reglugerð nr. 490/2001, í 2. lið varða við 231. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og í 4. lið varða við 1., sbr. 2. mgr. 45. gr., sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, sbr. lög nr. 48/1997.

             Þess er krafist að ákærðu verði dæmd til refsingar.

Jafnframt er þess krafist að ákærði Valur verði dæmdur til sviptingar ökuréttar, skv. 101. og 102. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, sbr. lög nr. 44/1993 og nr. 23/1998 og til upptöku á 22,70 gr. af amfetamíni, tveimur fötum af íblöndunarefni og tveimur vogum sem getið er í 1. lið ákærunnar og lögreglan lagði hald á við rannsókn málsins, sbr. 6. og 7. mgr. 5. gr. laga um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974, sbr. lög nr. 10/1997, sbr. 2. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 233/2001.

 

             3.  liður í ákæruskjali var klofinn frá og sameinaður öðru máli og því ástæðulaust að rekja hann hér.

             Ákærði hefur játað fyrir dómium að vera sekur um þá háttsemi sem honum er g efin að sök í 1.2.og 4. lið ákæruskjals.

Er málið dæmt skv. 125. gr. oml., en með skýlausri játningu ákærða fyrir dómi þykir sannað að hann hafi framið brot þau sem honum eru gefin að sök og eru réttilega færð til refsiákvæða í ákæru að bókaðri breytingu að öðru leyti en því að háttsemi ákærða sem lýst er í 1. lið ákæru frá 21. nóvember 2002 telst að mati dómara ekki geta fallið undir 2. gr., sbr. 5. gr. laga nr. 65/1974.  Ráðagerð um hugsanlega breytingu á heimsfærslu undir 3. gr. sbr. 5. gr. laga nr. 65/1974 lá fyrir er fjallað var um lagaatriði máls.

Ákærði hefur játað að hafa haft undir höndum amfetamín það sem ákært er fyrir í þessum ákærulið.   Hann hefur ekki borið fyrir sig að hann hafi haft leyfi til þess að flytja inn amfetamín eða nota það sem lyf.   Kemur því hér til skoðunar hvort dómara sé heimilt að beita heimild 117. gr. laga nr. 91/1991 eða dæma eftir annarri grein en í ákæru segir fyrir þá hegðun sem ákærða er gefin að sök.

Í 1. mgr. 2. gr. laga nr. 65/1974 um ávana- og fíkniefni er varsla og meðferð ávana- og fíkniefna, sem talið er upp í 6. gr laganna, sbr. 3. gr. laga nr. 68/2001, óheimil á íslensku yfirráðasvæði en í upptalningunni er amfetamíns ekki getið.  Í 2. mgr. 2. gr. sömu laga er heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra veitt heimild til þess að mæla svo fyrir í reglugerð að varsla og meðferð annarra ávana- og fíkniefna sem sérstaklega mikil hætta er talin stafa af samkvæmt alþjóðasamningnum, sé með sama hætti óheimil á íslensku yfirráðasvæði.  Þegar atvik það sem ákært er fyrir var í gildi í reglugerð nr. 233/2001 um ávana- og fíkniefni eins og henni hafði verið breytt með reglugerð nr. 490/2001, eða þar til reglugerð um aðra breytingu á henni nr. 248/2002, tók gildi.  Samkvæmt gildandi reglugerð var amfetamín ekki flokkað sem efni sem lýtur fortakslausu banni á íslensku yfirráðasvæði skv. 2. gr. laga 65/1974, sbr. 2. gr. reglugerðarinnar, heldur var það flokkað sem efni, sem getið er á fylgiskjali II með alþjóðasamningi um ávana- og fíkniefni frá 1971 með síðari breytingum.  Féll því amfetamín á gildistíma þeirra breytinga sem gerð var  reglugerð nr. 490/2001 á reglugerð nr. 233/2001, undir ákvæði 3. gr. laga nr. 65/1974.  Í þeirri grein segir m.a. að ráðherra sé heimilt að ákveða í reglugerð að efni sem ekki falli undir 2. grein þ.á m. amfetamín megi aðeins nota hér á landi í læknisfræðilegum og vísindalegum tilgangi, og meðferð þeirra einungis heimil lyfsölum og öðrum þeim sem ráðherra hafi veitt sérstakt leyfi til slíks auk þeirra sem við þeim taka frá lyfsölum samkvæmt lögum og almennum reglum um lyfseðla og lyfjaávísanir.  Af því sem nú hefur verið rakið er ljóst að bann við því að hafa amfetamín undir höndum var ekki fortakslaust.

Í 117. gr. laga nr. 19/1991 er mótuð sú meginregla að ekki megi dæma ákærða fyrir aðra hegðun en þá sem í ákæru greinir.  Verður að telja að í orðalagi ákæruliðarins skorti slíkt meginatriði í verknaðarlýsinguna, með því að ákærða er ekki gefið að sök að hafa haft amfetamín án leyfis í vörslum sínum, að hún lýsi refsiverðu athæfi á umræddum tíma og ber því að sýkna ákærða af þessum lið ákærunnar.

Fyrir aðra ákæruliði þ.e. 2. og 4 lið er ákærði sakfelldur.

Ákærði, Valur Þórsson Wilcox, hefur ekki sætt refsingum sem hér skipta máli.

Þykir refsing hæfilega ákveðin 100.000 króna sekt til ríkissjóðs en vararefsing sektar 20 daga fangelsi. 

Þá sæti ákærði sviptingu ökuréttar í 6 mánuði frá dómsbirtingu að telja.

Loks ber með vísan til 1. mgr. 165. gr. laga nr. 19/1991 að dæma ákærða til þess að greiða 2/3 hluta sakarkostnaðar þ.m.t. 2/3 af 45.000 króna málsvarnarlaunum skipaðs verjanda síns, Hilmars Ingimundarsonar hrl.

                Sveinn Sigurkarlsson héraðsdómari kveður upp dóminn.

DÓMSORÐ

                Ákærði,  Valur Þórsson Wilcox, skal vera sýkn af broti samkvæmt 1. lið ákæru.

                Ákærði greiði 100.000 krónur í sekt til ríkissjóðs innan fjögurra vikna en sæti ella fangelsi í 20 daga. 

                Ákærði sæti sviptingu ökuréttar í 6 mánuði frá dómsbirtingu að telja.

                Ákærði greiði 2/3 sakarkostnaðar þar með talinn 2/3 hluta af 45.000 króna málsvarnarlaunum skipaðs verjanda síns,  Hilmars Ingimundarsonar hrl.