Print

Mál nr. 81/2004

Lykilorð
  • Vinnuslys
  • Líkamstjón
  • Skaðabætur
  • Þjáningarbætur
  • Sakarskipting
  • Gjafsókn

Fimmtudaginn 30

 

Fimmtudaginn 30. september 2004.

Nr. 81/2004.

Háborg ehf.

(Hákon Árnason hrl.)

gegn

Garðari Sveinbirni Ottesen

(Björn L. Bergsson hrl.)

 

Vinnuslys. Líkamstjón. Skaðabætur. Þjáningabætur. Sakarskipting. Gjafsókn.

G slasaðist þegar hann var að aðstoða vinnufélaga sinn, sem var að saga stórar plastplötur í hjólsög á verkstæði H ehf. Féll G um rör, sem lá frá söginni þvert yfir gangveginn, er hann var að bera allþunga plötu frá söginni. Rörið, sem var um 10 cm í þvermál, var í 4-7 cm hæð frá gólfi og var samlitt gólfinu. Hafði G áður unnið við sambærilegt verk og skömmu áður átt þátt í að flytja fyrirtækið á þann stað, þar sem það var starfrækt á umræddum tíma. Talið var að lega rörsins í gangvegi þeirra, sem þurftu að fara um verkstæðið, meðal annars með þungar byrðar, hafi almennt verið til þess fallin að skapa slysahættu og hafi H ehf. borið að fara eftir 6. gr. reglna nr. 499/1994 um öryggi og hollustu þegar byrðar eru handleiknar, sbr. 38. gr. laga nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum. Var H ehf. talið bera skaðabótaábyrgð á slysi G. Óhjákvæmilegt væri hins vegar að líta til þess að G hafði áður unnið við þessar aðstæður og átti því að þekkja þær. Verkið sem hann vann að hafi verið einfalt og með eðlilegri aðgæslu hafi hann getað komið í veg fyrir slysið. Þótti hann því sjálfur eiga talsverða sök á slysinu og eðlilegt að hann bæri tjón sitt að hálfu. Aftur á móti var ekki fallist á kröfu H ehf. um að lækka þjáningabætur til G á grundvelli sérstakrar heimildar lokamálsliðar 1. mgr. 3. gr. skaðabótalaga.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason og Ingibjörg Benediktsdóttir og Haraldur Henrysson fyrrverandi hæstaréttardómari.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 23. febrúar 2004. Hann krefst aðallega sýknu af kröfu stefnda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti, en til vara að krafan verði lækkuð og málskostnaður felldur niður.

Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti eins og málið væri eigi gjafsóknarmál.

Málsatvikum er lýst í héraðsdómi. Við munnlegan málflutning fyrir Hæstarétti lýsti lögmaður áfrýjanda því yfir, að eins og málið lægi fyrir yrði að byggja á frásögn stefnda um það, hvernig slys það atvikaðist, er hann varð fyrir í vinnu sinni hjá áfrýjanda 25. ágúst 1998. Samkvæmt þessu verður á því byggt að stefndi hafi umrætt sinn verið að aðstoða vinnufélaga sinn, sem var að saga stórar plastplötur í hjólsög og hafi stefndi fallið um rör, sem lá frá söginni þvert yfir gangveginn, er hann var að bera allþunga plötu frá söginni. Rörið, sem var um 10 cm í þvermál, var í 4-7 cm hæð frá gólfi og var samlitt gólfinu samkvæmt frásögn stefnda fyrir dómi. Fram kom hjá stefnda og vinnufélaga hans að hann hafði áður unnið við sambærilegt verk og einnig að hann hafði skömmu áður átt þátt í að flytja fyrirtækið á þann stað, þar sem það var starfrækt á þessum tíma.

Þegar málsatvik eru virt verður að telja að lega umrædds rörs í gangvegi þeirra, sem þurftu að fara þarna um, meðal annars með þungar byrðar, hafi almennt verið til þess fallin að skapa slysahættu og bar áfrýjanda að fara eftir 6. gr. reglna nr. 499/1994 um öryggi og hollustu þegar byrðar eru handleiknar, sem settar voru samkvæmt heimild í 38. gr. laga nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum. Að þessu leyti verður áfrýjandi talinn bera skaðabótaábyrgð á slysi stefnda.

Óhjákvæmilegt er hins vegar að líta til þess að stefndi hafði áður unnið við þessar aðstæður og átti því að þekkja þær. Verkið sem hann vann að var einfalt og með eðlilegri aðgæslu hefði hann getað komið í veg fyrir slysið. Þykir hann því sjálfur eiga talsverða sök á slysinu og er eðlilegt að hann beri tjón sitt að hálfu.

Ekki er ágreiningur um fjárhæðir í málinu að öðru leyti en því að áfrýjandi krefst lækkunar á þjáningarbótum. Með vísan til forsendna héraðsdóms verður hann staðfestur um það atriði.

Samkvæmt þessu verður áfrýjandi dæmdur til að greiða stefnda 3.937.691 krónu með dráttarvöxtum eins og í dómsorði greinir.

Dæma ber áfrýjanda til að greiða 600.000 krónur samtals í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti, sem renni í ríkissjóð.

Staðfest verður gjafsóknarákvæði héraðsdóms en gjafsóknarkostnaður fyrir Hæstarétti greiðist eins og nánar segir í dómsorði.

Dómsorð:

Áfrýjandi, Háborg ehf., greiði stefnda, Garðari Sveinbirni Ottesen, 3.937.691 krónu með vöxtum samkvæmt 16. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 frá 25. ágúst 1998 til 2. ágúst 2003, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags.

Áfrýjandi greiði 600.000 krónur samtals í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti, sem renni í ríkissjóð.

Gjafsóknarákvæði hins áfrýjaða dóms er staðfest.

Gjafsóknarkostnaður stefnda fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns hans, Björns L. Bergssonar hæstaréttarlögmanns, 300.000 krónur.

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 6. febrúar 2004.

I

Mál þetta, sem dómtekið var 23. janúar 2004, var höfðað 21. mars 2003.  Stefnandi er Garðar Sveinbjörn Ottesen, kt. 031259-5259, Laugarnesvegi 106, Reykjavík en stefndi er Háborg ehf., kt. 700686-2059, Skútuvogi 4, Reykjavík og er Vátryggingafélagi Íslands, kt. 690689-2009, Ármúla 3, Reykjavík, stefnt til réttargæslu.  Þann 4. september 2003 var þingfest framhaldsstefna í málinu.

Endanlegar dómkröfur stefnanda eru þær að stefndi verði dæmdur til greiðslu skaðabóta að fjárhæð 7.875.383 krónur með vöxtum samkvæmt þágildandi 16. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 frá 25. ágúst 1998 til 2. ágúst 2003 en með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags.  Þá krefst stefnandi málskostnaðar eins og málið væri ekki gjafsóknarmál.

Stefndi krefst þess aðallega að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda og honum dæmdur málskostnaður.  Til vara gerir hann þær dómkröfur að sök verði skipt í málinu og málskostnaður verði í því tilviki látinn falla niður.

    Á hendur réttargæslustefnda eru engar kröfur gerðar og hann gerir engar kröfur í málinu.

II

Stefnandi varð fyrir slysi við vinnu sína hjá stefnda þann 25. ágúst 1998.  Atvik voru þannig að stefnandi var að aðstoða Michael Sigurjónsson, starfsmann stefnda, í vélasal verkstæðisins.  Var stefnandi að bera stóra plastplötu er hann datt um rör sem lá frá sög sem notuð var til að saga plöturnar.  Við fallið hlaut stefnandi meiðsl á vinstra hné.

Aðilum ber ekki alls kostar saman um málavexti.  Óumdeilt er að stefnandi var í mars 1998 ráðinn til sölu- og markaðsstarfa hjá Nýborg ehf.  Nýborg ehf. var á þeim tíma staðsett í Ármúla en fyrirtæki stefnda var í Skútuvogi 4.  Á tímabilinu maí til júní 1998 voru bæði fyrirtækin flutt undir sama þak að Skútuvogi 6.  Af gögnum málsins verður ráðið að fyrirtækin tengdust innbyrðis og voru í eigu sömu aðila að hluta eða öllu leyti og hafði Nýborg ehf. með höndum rekstur verslunar með byggingavörur og húsgögn en stefndi var framleiðslufyrirtæki.  Ekki er ágreiningur um það í málinu að stefndi sé réttur aðili málsins sem vinnuveitandi stefnda.

Stefnandi heldur því fram að eftir að Nýborg ehf. flutti undir sama þak og stefndi hafi hann einstaka sinnum starfað á verkstæði stefnda í íhlaupum en aðalstarf hans hafi alla tíð verið sölu- og markaðsstörf.  Hann hafi verið óvanur að starfa á verkstæðinu en unnið þar meðal annars til að kynna sér þær vörur sem þar voru framleiddar til að vera betur í stakk búinn að selja þær.

Stefndi heldur því hins vegar fram að stefnandi hafi, vegna lélegrar íslenskukunnáttu, ekki verið nothæfur í það starf sem hann var ráðinn til í upphafi og hafi honum verið boðið starf á verkstæðinu og hafi hann verið búinn að vinna þar í tæpa fimm mánuði þegar slysið varð eða frá því í apríl 1998.  Hafi starf hans aðallega verið fólgið í vinnu við sög, plötuburð og tiltekt á lager og verkstæði og hafi hann verið kominn með góða reynslu í þeim störfum.  Hann hafi meðal annars séð um að setja plötur í rekka og taka þær úr rekkunum til vinnslu á sög.  Hafi stefnandi margoft tekið umrætt rör frá söginni við vinnslu og sett það aftur í samband við hana að vinnslu lokinni.

Í kjölfar slyssins kveðst stefnandi hafa leitað á bráða- og slysamóttöku Sjúkrahúss Reykjavíkur og þar sem röntgenmyndir hafi sýnt slit hafi hann verið sendur til Arnbjörns Arnbjörnssonar bæklunarskurðlæknis.  Vegna gruns um rifinn liðþófa var gerð speglun á vinstra hné stefnanda þann 11. september 1998.  Komu í ljós talsverðar slitbreytingar á innanverðu hnénu og slit niður á bein.  Auk þess var ytri liðþófinn rifinn og þurfti að fjarlægja aftari helming hans. 

Þann 24. september 1998 tilkynnti stefnandi lögreglu um slysið og þann 29. september 1998 tilkynnti stefndi Vinnueftirliti ríkisins um slysið.  Vinnueftirlitið fór á vettvang 25. febrúar 2000.

Stefnandi kveðst hafa verið lengi að ná sér eftir aðgerðina þann 11. september 1998 og þrátt fyrir meðferð sjúkraþjálfara og inntöku bólgueyðandi lyfja hafi hann þjáðst verulega af verkjum eftir aðgerðina og var hún endurtekin þann 29. apríl 1999.  Þá kom í ljós að innri liðþófann vantaði nær alveg og voru slitbreytingar sjáanlegar sem og lækkun á liðbrjóski með fram liðbrúnum í framanverðu hnénu.  Í kjölfar síðari aðgerðarinnar var stefnandi metinn 75% öryrki hjá Tryggingastofnun ríkisins þann 24. september 1999.

Þar sem stefnandi fékk ekki nægan bata þrátt fyrir aðgerðirnar var honum vísað til Stefáns Carlssonar bæklunarlæknis sem framkvæmdi vinkilmælingar á hnjám hans.  Mælingar, sem og röntgenmyndir, sýndu slit sem og óhagstæðan álagsvinkil á vinstra hné stefnanda.  Vegna þessa framkvæmdi Gunnar Brynjólfur Gunnarsson bæklunarskurðlæknir á honum aðgerð þar sem álagsvinkli hnésins var breytt.  Eftir aðgerðina hefur stefnandi verið í reglubundnu eftirliti hjá Gunnari Brynjólfi allt til dagsins í dag ásamt því að vera í endurhæfingarmeðferð hjá sjúkraþjálfara.   Stefnandi kveðst hafa verið óvinnufær frá því slysið varð og sé enn.

Lögmaður stefnanda ritaði réttargæslustefnda bréf 6. mars 2000 þar sem krafist var viðurkenningar á bótaábyrgð stefnda.  Réttargæslustefndi hafnaði bótaábyrgð fyrir hönd stefnda með bréfi dagsettu 27. september 2001.

Stefnandi fékk leyfi dóms- og kirkjumálaráðuneytisins þann 28. nóvember 2002 til gjafsóknar í máli þessu. 

Stefnandi óskaði dómkvaðningar matsmanna vegna líkamstjónsins sem hann varð fyrir í umræddu slysi og voru Júlíus Valsson gigtarlæknir og Páll Sigurðsson lagaprófessor dómkvaddir til verksins þann 7. febrúar 2003 og er matsgerð þeirra dagsett 26. júní 2003.  Í niðurstöðu matsgerðarinnar segir að heilsufar stefnanda hafi verið orðið stöðugt þann 17. mars 2001 og eftir þann tímapunkt hafi ekki verið að vænta frekari bata.  Þá er það niðurstaða matsmanna að stefnandi hafi verið veikur í skilningi skaðabótalaganna fram til 17. mars 2001 en eftir þann tímapunkt hafi hann verið orðinn vinnufær að nýju að minnsta kosti til léttra starfa.  Varanlegur miski stefnanda á grundvelli 4. gr. skaðabótalaga er að mati matsmanna 15% og varanleg örorka hans á grundvelli 5. gr. skaðabótalaganna 20%.

Meginágreiningur aðila lýtur að því hvort stefndi beri ábyrgð á tjóni stefnanda en ekki er ágreiningur um afleiðingar slyssins á heilsu stefnanda. 

    Fyrir dómi gáfu skýrslu stefnandi, fyrirsvarsmaður stefnda, Hjalti Sigurðsson og vitnin, Michael K. Sigurjónsson og Sváfnir Hermannsson.

III

Stefnandi byggir málatilbúnað sinn á því að stefndi beri ótvíræða bótaábyrgð á vinnuslysi stefnanda.  Grundvallist sú ábyrgð á almennu skaðabótareglunni og reglunni um húsbónda-ábyrgð sem og reglum um aukna ábyrgð atvinnurekanda vegna ófullnægjandi aðbúnaðar sem og á ófullnægjandi verkstjórn.

Sé á því byggt að aðbúnaður starfsmanna stefnda hafi verið óforsvaranlegur og stefndi hafi vanrækt að tryggja stefnanda öruggt og heilsusamlegt starfsumhverfi eins og kveðið sé á um í lögum nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum.  Eins og fram komi í umsögn Vinnueftirlits ríkisins hafi umbúnaður við sög þá sem stefnandi var að vinna við ekki verið fullnægjandi og jafnframt hafi Vinnueftirlitið gert þá kröfu um úrbætur að plaströr það sem lá frá bakhlið sagarinnar yrði allt málað í skærgulum lit til að vara við hindrun. 

Hafi forsvarsmönnum stefnda mátt vera fullljóst að stórfelld hætta stafaði af rörinu og hafi þeim borið að bregðast við til samræmis við það.  Þegar af þeirri ástæðu hafi stefndi, með því að aðhafast ekkert þrátt fyrir hættulegt vinnuumhverfi, bakað sér skaðabótaskyldu gagnvart stefnanda.

Þá er af hálfu stefnanda einnig á því byggt að verkstjórn hjá stefnda hafi verið ábótavant.  Í því sambandi verði að líta til þess að stefnandi hafi verið ráðinn til sölu- og markaðsstarfa og því verið óvanur vinnu á verkstæði.  Í ljósi reynsluleysis stefnanda verði að gera meiri kröfur en ella um fullnægjandi verkstjórn.  Þegar óskað hafi verið eftir aðstoð stefnanda á verkstæðinu hafi honum ekki verið gefnar neinar leiðbeiningar um hvernig hann skyldi bera sig að við verkið hvað þá að honum hafi verið leiðbeint um þær hættur sem leyndust á verkstæði stefnda.  Megi í því sambandi geta þess að stefnandi hafi einn verið látinn bera stórar plötur frá söginni en hver plata hafi verið um það bil fimmtán til tuttugu kíló.  Telur stefnandi það óforsvaranlegt verklag hjá stefnda að láta hann einan um að bera plöturnar.  Vegna vanrækslu á að gefa stefnanda nægar leiðbeiningar og upplýsa hann um þá hættu sem af rörinu stafaði hafi stefndi bakað sér skaðabótaskyldu gagnvart stefnanda.

Þá kveður stefnandi að stefndi hafi vanrækt þá skyldu sína sem atvinnurekandi að tilkynna slysið til lögreglustjóra og Vinnueftirlits ríkisins svo fljótt sem unnt var og eigi síðar en innan sólarhring frá því slysið átti sér stað, eins og skylt hafi verið samkvæmt reglum um tilkynningu vinnuslysa nr. 612/1989 sem settar séu á grundvelli laga nr. 46/1980.  Hafi verið full ástæða til þess enda hafi stefnandi strax í kjölfar slyssins leitað til bráða- og slysamóttöku Sjúkrahúss Reykjavíkur auk þess sem hann hafi verið óvinnufær í kjölfar slyssins.  Slysið hafi því ekki verið rannsakað með fullnægjandi hætti og sé það tekið fram í umsögn Vinnueftirlits ríkisins að það teldi ógerlegt að veita markvissa umsögn um orsök slyssins og aðrar aðstæður þar sem það hafi ekki verið réttilega tilkynnt eftirlitinu samkvæmt gildandi reglum.  Beri stefndi því hallann af því að rúmur mánuður hafi liðið frá slysdegi þar til slysið var tilkynnt Vinnueftirliti ríkisins enda væri málið að fullu upplýst ef það hefði verið tilkynnt og rannsakað í kjölfar slyssins.

Málsókn sína styður stefnandi við reglur skaðabótaréttar um ábyrgð atvinnurekanda á vanbúnaði á vinnustað sem og ófullnægjandi eftirliti.  Í því sambandi vísar hann jafnframt til ákvæða laga nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum.  Krafan sé grundvölluð á skaðabótalögum nr. 50/1993.  Kröfu sína um málskostnað styður stefnandi við 130. gr. laga nr. 91/1991 og kröfuna um virðisaukaskatt á málflutningsþóknun styður hann við lög nr. 50/1988.

IV

Sýknukröfu sína kveðst stefndi byggja á því að stefndi og starfsmenn hans hafi ekki að neinu leyti sýnt af sér saknæma og ólögmæta háttsemi varðandi slys stefnanda, sem að öllu leyti megi rekja til gáleysis stefnanda sjálfs svo og óhappatilviljunar.  Íslenskur skaðabótaréttur byggi á sakarreglunni og verði aðili ekki látinn bera skaðabótaábyrgð á tjóni annars nema tjónið verði rakið til sakar hans.  Sönnunarbyrðin fyrir því að stefndi sé skaðabótaskyldur að íslenskum lögum hvíli á stefnanda og sé því hafnað sem ósönnuðu að rekja megi slysið til saknæmrar og ólögmætrar háttsemi stefnda.

Stefndi mótmælir því að aðbúnaður starfsmanna hafi verið óforsvaranlegur og að stefndi hafi vanrækt að tryggja stefnanda öruggt og heilsusamlegt starfsumhverfi.  Hafi Vinnueftirlit ríkisins ekki gert aðrar athugasemdir en þær, að mála þyrfti umrætt rör í skærari litum. Stefnanda hafi verið vel kunnugt um staðsetningu rörsins og margoft gengið yfir það, tekið það frá söginni og komið því fyrir aftur, eftir því hvað hentaði hverju sinni.

Stefndi mótmælir enn fremur að verkstjórn hjá stefnda hafi verið ábótavant.  Stefnandi hafi ekki reynst hafa þá kunnáttu sem þurfti í það starf sem hann var upphaflega ráðinn til og hafi hann því fengið starf á verkstæði stefnda.  Hafi stefnandi starfað á verkstæðinu í tæpa fimm mánuði þegar slysið varð og verið fullkunnugt um sitt verksvið og aðstæður á vinnustað.  Hafi starf hans falist í vinnu við sög, plötuburð og tiltekt á lager og verkstæði.  Hafi hann verið kominn með góða reynslu af þessum störfum er slysið varð.  Þá geti það vart talist óforsvaranlegt verklag að láta mann á besta aldri bera 15-20 kg plötur enda hafi hann margoft áður borið sams konar plötur og aldrei gert neinar athugasemdir.  Hefði stefnanda verið í lófa lagið að óska eftir aðstoð samstarfsmanns síns við að bera plöturnar, teldi hann þær of þungar fyrir sig.  Þá hafi stefnanda verið fullkunnugt um rörið, þar sem hann hafi margoft tekið það frá söginni við vinnslu og sett það aftur í samband við hana, að vinnslu lokinni.

Verði ekki fallist á sýknukröfu kveðst stefndi reisa varakröfu sína á því að slysið verði að stærstum hluta rakið til eigin sakar stefnanda og óhappatilviljunar með vísan til þeirra röksemda sem reifaðar séu varðandi sýknukröfu og verði stefnandi að bera tjón sitt sjálfur í hlutfalli við það.

Um lagarök vísar stefndi til meginreglna skaðabóta- og vátryggingarréttar og laga um vátryggingarsamninga nr. 20/ 1954.  Málskostnaðarkröfu sína byggir stefndi á 129. gr. og 130. gr. laga nr. 91 / 1991 um meðferð einkamála, einkum þó 1. mgr. 130. gr.

V

Eins og rakið hefur verið lýtur megin ágreiningur aðila að því hvort stefndi beri ábyrgð á tjóni stefnanda vegna vinnuslyss er hann varð fyrir 25. ágúst 1998 en ekki er ágreiningur um afleiðingar slyssins á heilsu stefnanda.  Þá er heldur ekki deilt um niðurstöðu matsgerðar hinna dómkvöddu matsmanna, Júlíusar Valssonar og Páls Sigurðssonar, um bótagrundvöll og hefur stefndi lýst því yfir að ekki sé tölulegur ágreiningur í málinu, komi til þess að stefndi verði dæmdur bótaskyldur, nema að því leyti að stefndi telur að lækka beri kröfu stefnanda um þjáningarbætur. 

Aðilar deila meðal annars um hvert hafi verið starfssvið stefnanda.  Ekki liggur fyrir skriflegur ráðningarsamningur milli aðila svo sem stefnda bar að gera samkvæmt tilskipun Evrópusambandsins nr. 91/533/EBE og auglýsingu nr. 503.1997, en tilskipunin varðar skyldu vinnuveitanda til að skýra launþegum frá samningsskilmálum eða ráðningarfyrirkomulagi.  Þar sem stefndi sinnti ekki þessari skyldu sinni verður hann að bera hallann af þeim sönnunarskorti sem sú vanræksla kann að hafa í för með sér.

Eins og fram er komið heldur stefnandi því fram að hann hafi verið ráðinn í sölu- og markaðsstarf og hafi stundum tekið að sér að vinna á verkstæði stefnda þegar þannig hafi staðið á.  Stefndi hins vegar heldur því fram að stefnandi hafi verið ónothæfur í sölu- og markaðsstarf vegna tungumálaerfiðleika og því hafi hann verið fluttur til í starfi og hafi starf hans frá apríl 1998 verið á verkstæði stefnda. 

Þrátt fyrir meinta tungumálaerfiðleika stefnanda, sem hefðu varla farið fram hjá þeim sem réð hann, var hann ráðinn til starfans.  Þá hefur vitnið, Sváfnir Hermannsson, sem var forveri stefnanda í starfi, borið að hann hafi ekki orðið var við annað en að stefnandi væri fullfær um að sinna þessu starfi.  Þá hefur komið fram hjá stefnda að í júlí 1998 hafi stefnandi, þrátt fyrir meinta tungumálaerfiðleika, verið settur í sölumannsstarfið aftur meðan beðið hafi verið eftir nýjum starfsmanni og dregur það úr trúverðugleika þeirrar fullyrðingar stefnda að stefnandi hafi verið ónothæfur til sölumannsstarfa. 

Þá fær sú staðhæfing stefnanda, að hann hafi einungis unnið á verkstæðinu í einstaka tilvikum en verið sölumaður að aðalstarfi, stoð í framburði vitnisins, Michaels Sigurjónssonar, auk þess sem fyrirsvarsmaður stefnda undirritaði sjálfur tilkynningu um vinnuslys 29. september 1998 þar sem fram kemur á tveim stöðum að stefnandi sé sölumaður.  Þykir því ljóst að aðalstarf stefnanda hjá stefnda var sölumennska en störf hans á verkstæðinu íhlaupavinna.

Þegar slys ber að höndum á vinnustað skal atvinnurekandi án ástæðulausrar tafar tilkynna slíkt til Vinnueftirlits ríkisins verði starfsmaður af þeim sökum óvinnufær í einn eða fleiri daga sbr. 79. gr. laga nr. 46/1980 sbr. og reglugerð nr. 612/1989 þar sem segir í 3. mgr. 1. gr. að verði slys eða eitrun á vinnustað skuli atvinnurekandi eða fulltrúi hans tilkynna það lögreglu og Vinnueftirliti ríkisins símleiðis eða með öðrum hætti svo fljótt sem verða má og eigi síðar en innan sólarhrings.  Þá ber atvinnurekanda einnig að tilkynna lögreglu eða umboðsmanni hans um slys sem ætla má að sé bótaskylt sbr. 23. gr. laga nr. 177/1993.

Ljóst er að stefnandi var frá vinnu lengur en einn dag vegna slyssins og stefndi sinnti ekki framangreindri tilkynningarskyldu sinni fyrr en eftir að stefnandi hafði sjálfur tilkynnt um það til lögreglu 24. september 1998, en stefndi tilkynnti ekki um slysið til Vinnueftirlits ríkisins fyrr en 29. september 1998 og sama dag tilkynntu aðilar málsins sameiginlega til Tryggingastofnunar ríkisins um slysið.  Breytir það engu í þessu sambandi að stefndi taldi að slys stefnanda hefði verið lítilvægt enda kom strax í ljós að stefnandi var óvinnufær í kjölfar slyssins og því ófrávíkjanleg skylda atvinnurekanda að tilkynna um slysið.

Í tilkynningu stefnda til Vinnueftirlits ríkisins segir að tildrög slyssins hafi verið þau að stefnandi hafi verið að bera stóra plastplötu og hafi hann hrasað um rör sem legið hafi frá sög að ryksugu sem taki spæni frá söginni.  Rörið hafi verið í 4 cm hæð frá gólfi.  Vinnueftirlitið fór ekki á vettvang fyrr en 25. febrúar 2000 eftir hafa borist bréf lögmanns stefnanda 18. febrúar 2000.  Kemur fram í umsögn Vinnueftirlitsins að við rannsókn á slysstað og í samtali við fyrirsvarsmann stefnda hafi komið fram að aðstæður á slysstað væru mikið breyttar frá slysinu og væri skipulag á vinnustað og uppsetning véla gjörbreytt.  Þá kemur fram að þar sem allar aðstæður á slysstað væru mjög breyttar sé ógerlegt fyrir Vinnueftirlitið að veita markvissa umsögn um slysið við takmarkaða úttekt.  Það virðist þó ljóst að hinn slasaði hafi hrasað um 100 mm plaströr sem notað hafi verið til að draga spæni og ryk frá umræddri sög.  Ef grafast eigi nánar fyrir um orsök slyssins, meta aðstæður og vinnutilhögun, verði að fara fram ítarlegri rannsókn þar sem skipulag vinnustaðarins, uppröðun véla og framkvæmd vinnu verði leidd í ljós.  Þá kemur fram í umsögn Vinnueftirlitsins að við takmarkað eftirlit hafi komið í ljós að frá hjólsög, sem notuð sé til að efna niður plastplötur, liggi 100 mm plaströr, sem sett sé saman úr tveimur lengjum, grárri og rauðgulri að lit,  á gólfi frá bakhlið sagarinnar út að vegg. 

Vegna þess að stefndi brást þeirri skyldu sinni að tilkynna um slysið til hlutaðeigandi fór engin rannsókn fram á vettvangi fyrr en löngu eftir að slysið varð og þá höfðu aðstæður breyst frá því sem þær voru er slysið bar að höndum.  Er því ekki við annað að styðjast en framburði aðila og vitna og verður stefndi að bera hallann af þeim sönnunarskorti sem af þessu kann að leiða um aðstæður á slysstað.

Fyrirsvarsmaður stefnda, Hjalti Sigurðsson, kveðst hafa verið vitni að umræddu slysi þar sem bílskúrshurð, sem var á milli verslunar og verkstæðis, hafi verið opin og hann staðið stutt frá henni og horft á þetta gerast.  Stefnandi heldur því hins vegar fram að eingöngu hann og umræddur Michael hafi verið á vettvangi umrætt sinn.  Fær sá framburður hans stoð í vitnisburði Michaels og töldu báðir að umrædd bílskúrshurð hafi verið lokuð þar sem mikill hávaði sé frá söginni og því sé hurðin oftast lokuð.  Þá kemur fram í tilkynningu fyrrgreinds Hjalta til Tryggingastofnunar ríkisins að eini sjónarvotturinn að slysinu hafi verið umræddur Michael.  Nefnir hann ekki sjálfan sig þar og þykir sú skýring hans ótrúverðug, að hann hafi ekki talið nauðsynlegt að tilgreina sjálfan sig sem sjónarvott þar sem hann væri sá sem tilkynnti.

Stefnandi hefur borið að hann hafi verið að aðstoða umræddan Michael við að taka á móti stórri plastplötu sem Michael hafði verið að saga og hafi hann þurft að fara yfir umrætt rör með plötuna til að koma henni fyrir á sínum stað.  Þessi framburður hans fær stoð í framburði vitnisins, Michaels, og þar sem ljóst þykir að þeir einir eru til frásagnar um hvað gerðist verður við það miðað að aðstæður hafi verið með þeim hætti sem þeir lýsa. 

Þá liggur fyrir að umrætt rör lá á gólfinu en samkvæmt því sem fram kom hjá fyrirsvarsmanni stefnda var það einungis þannig til bráðabirgða og var verið að vinna í því að setja það upp í loft og taka það þannig af gólfinu.  Þá kom fram hjá Vinnueftirliti ríkisins að, eins og aðstæður voru á þeim tíma sem þeir komu á staðinn,  hafi þótt nauðsynlegt að lita allt rörið í skærgulum lit til að vara við hindrun.

Að öllu því virtu sem nú hefur verið rakið verður að telja að fyrrgreindur frágangur rörsins hafi verið óforsvaranlegur og til þess fallinn að skapa hættu og þar sem þessi frágangur aftraði umferð hefði þurft að vara sérstaklega við þeirri hættu sem af þessu stafaði.   Þá verður einnig til þess að líta að stefnandi var að vinna starf sem hann var ekki vanur að vinna og þekkti ekki vel til aðstæðna á staðnum.  Þá hafði fyrirtækið einungis verið rekið á þessum stað frá því í byrjun júlí og stefndi hefur sjálfur hefur borið að stefnandi hafi verið við sölumannsstörf allan júlímánuð.  Er það því niðurstaða máls þessa að orsök slyss stefnanda verði rakin til framangreinds óforsvaranlegs frágangs á röri því sem hann féll um.  Þegar af þeirri ástæðu ber stefndi ábyrgð á tjóni hans en stefnandi þykir ekki hafa sýnt fram á að verkstjórn stefnda hafi verið á einhvern hátt ábótavant eða að það hafi verið óforsvaranlegt verklag að láta hann einan um að bera stórar plötur enda ekkert fram komið í málinu um að það hafi orsakað slysið.

Stefnandi hefur sjálfur borið að hann hafi komið nokkuð að vinnu við umrædda sög og mátti honum því vera kunnugt um hvernig frágangur var á rörinu.  Af þeim sökum bar honum að sýna sérstaka aðgæslu þar sem hann var í umrætt sinn að bera þungar byrðar.  Þykir stefnandi hafa sýnt aðgæsluleysi umrætt sinn og því eiga sjálfur nokkra sök á því tjóni sem hann varð fyrir og þykir rétt að stefnandi verði sjálfur látinn bera ¼ hluta tjóns síns en stefndi beri ¾ hluta þess.

Sá hluti kröfugerðar stefnanda sem lýtur að þjáningarbótum er að fjárhæð 876.460 krónur sem er vegna þess að hann hafi verið rúmliggjandi í 3 daga eða 1.770 krónur fyrir hvern dag og í 917 daga hafi hann verið batnandi eða 950 krónur fyrir hvern dag.  Stefndi telur með vísan til niðurlags 1. mgr. 3. gr.  þágildandi skaðabótalaga að lækka beri bætur þessar þar sem veikindatímabil stefnanda sé óvenju langt.  Krafa stefnanda byggir á niðurstöðu dómkvaddra matsmanna sem ekki hefur verið hnekkt, en stefnda hefði verið í lófa lagið að óska eftir yfirmatsgerð.  Þá hefur stefndi ekki rökstutt að atvik séu hér með svo sérstökum hætti að efni séu til að beita heimild í lokamálslið 1. mgr. 3. gr. skaðabótalaga til að lækka kröfu stefnanda að þessu leyti. 

Þegar allt framangreint er virt verður stefndi dæmdur til greiðslu 5.906.537 króna með vöxtum eins og greinir í dómsorði en vaxtakröfu stefnanda hefur ekki verið mótmælt.

Gjafsóknarkostnaður stefnanda greiðist úr ríkissjóði, samtals 739.529 krónur, þar með talin þóknun lögmanns hans, Herdísar Hallmarsdóttur hdl., sem þykir hæfilega ákveðin 662.340 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti.  Sá útlagði kostnaður sem þegar hefur verið greiddur nemur 37.189 krónum og hæfileg vitnaþóknun til vitnisins, Michaels Sigurjónssonar, er ákvörðuð 40.000 krónur.

Samkvæmt 4. mgr. 128. gr. og 3. mgr. 130. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991 ber að dæma stefnda til að greiða 554.646 krónur í málskostnað sem rennur í ríkissjóð.

Af hálfu stefnanda flutti málið Herdís Hallmarsdóttir hdl. en af hálfu stefnda flutti málið Sigurður Arnalds hdl.

Dóminn kveður upp Greta Baldursdóttir héraðsdómari.

D Ó M S O R Ð

Stefndi, Háborg ehf., greiði stefnanda, Garðari Sveinbirni Ottesen, 5.906.537 krónur með vöxtum samkvæmt 16. gr. þágildandi skaðabótalaga nr. 50/1993 frá 25. ágúst 1998 til 2. ágúst 2003 en með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags.

Gjafsóknarkostnaður stefnanda greiðist úr ríkissjóði, samtals 739.529 krónur, þar með talin þóknun lögmanns hans, Herdísar Hallmarsdóttur hdl.,  662.340 krónur.

Stefndi greiði 554.646 krónur í málskostnað sem rennur í  ríkissjóð.