Print

Mál nr. 403/2014

Lykilorð
  • Kærumál
  • Vitni

                                                         

Mánudaginn 16. júní 2014.

Nr. 403/2014.

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu

(Jón H.B. Snorrason saksóknari)

gegn

X

(Sigurbjörn Magnússon hrl.)

 

Kærumál Vitni.

Í tengslum við rannsókn ætlaðra brota á þagnarskyldu samkvæmt 136. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 krafðist L þess að X, fréttastjóri vefmiðilsins mbl.is, skýrði frá því fyrir dómi hver hefði ritað frétt sem birtist á umræddum vefmiðli 20. nóvember 2014 og byggði á minnisblaði innanríkisráðuneytisins um málefni tiltekins hælisleitanda. Þess var og krafist að X greindi frá því með hvaða hætti vefmiðillinn hefði komist yfir minnisblaðið og frá hverjum það hefði borist. Í úrskurði héraðsdóms kom fram að samkvæmt 3. mgr. 119. gr. laga nr. 88/2008 gæti dómari ákveðið að vitni svaraði spurningum um atriði, sem því væri ella óheimilt að svara samkvæmt a. til d. lið 2. mgr. 119. gr. laganna, ef vitnisburðurinn gæti ráðið úrslitum um niðurstöðu máls og að ríkari hagsmunir væru af því að spurningunum yrði svarað en að trúnaður héldi. Fallast yrði á það með L að það gæti ráðið úrslitum um niðurstöðu sakamáls gegn viðkomandi starfsmanni eða starfsmönnum ráðuneytisins að varpa ljósi á með hvaða hætti og frá hverjum umrætt minnisblað hefði borist blaðamanni mbl.is. Á hinn bóginn yrði að telja að þótt mikilsverðir hagsmunir væru tengdir því að upplýsa ætluð brot væru sakargiftir í málinu ekki nógu alvarlegar til þess að X yrði gert að gefa upp heimildarmann mbl.is fyrir fréttaflutning fjölmiðilsins greint sinn. Væri því ekki fullnægt skilyrðum ákvæðisins til að víkja frá heimildarvernd a. liðar 2. mgr. 110. gr. laga nr. 88/2008. Í dómi Hæstaréttar, sem staðfesti niðurstöðu hins kærða úrskurðar, kom fram að frá meginreglunni um vernd heimildarmanna fjölmiðla yrði því aðeins vikið að í húfi væru mjög veigamiklir almannahagsmunir sem vægju augljóslega þyngra en hagsmunir fjölmiðla af því að halda trúnaði við heimildarmenn sína. Málefni þeirra sem leitað hefðu hælis hér á landi hefðu verið mikið rædd á opinberum vettvangi og því væri eðlilegt að um þau væri fjallað á opinberum vettvangi. Yrði að teknu tilliti til þess ekki talið að L hefði sýnt fram á að hagsmunir X af því að halda trúnað við höfund og heimildarmann fréttarinnar ættu að víkja fyrir þeim hagsmunum að henni skyldi gert skylt að svara spurningum L í því skyni að upplýsa málið.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Eiríkur Tómasson og Helgi I. Jónsson og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 6. júní 2014 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 10. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 6. júní 2014, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að varnaraðila yrði gert að svara fyrir dómi nánar tilgreindum spurningum um tilurð fréttar sem birt var á mbl.is 20. nóvember 2013. Kæruheimild er í f. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Sóknaraðili krefst þess að fyrrgreind krafa sín verði tekin til greina.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

Málsatvikum er lýst í hinum kærða úrskurði. Eins og þar greinir kveðst lögregla hafa rökstuddan grun um að starfsmaður innanríkisráðuneytis hafi látið tveimur fjölmiðlum í té óformlegt minnisblað með persónuupplýsingum um þrjá nafngreinda einstaklinga og með því brotið gegn 1. mgr. 136. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, þar sem lýst er refsivert að opinber starfsmaður segi frá nokkru er leynt á að fara og hann hefur fengið vitneskju um í starfi sínu. Annar þessara fjölmiðla er netmiðillinn mbl.is þar sem varnaraðili starfar sem fréttastjóri. Krefst lögregla þess að hún skýri frá því fyrir dómi hver hafi ritað frétt, sem birt var á mbl.is og byggði á minnisblaði innanríkisráðuneytis, um mál eins þeirra sem þar var nefndur og sótt hafði um hæli sem flóttamaður hér á landi, en mál hans var þá til meðferðar hjá ráðuneytinu. Ennfremur með hvaða hætti netmiðillinn hafi komist yfir minnisblaðið og frá hverjum það hafi borist. Varnaraðili hefur neitað að svara þessum spurningum og borið fyrir sig a. lið 2. mgr. 119. gr. laga nr. 88/2008, þar sem kveðið er á um að vitni sé óheimilt án leyfis þess sem í hlut á að svara spurningum um hver sé höfundur eða heimildarmaður að grein eða frásögn sem hefur birst án þess að hann væri nafngreindur, ef vitnið ber ábyrgð að lögum á efni sem birtist opinberlega eða það hefur öðlast vitneskju um höfund eða heimildarmann í starfi hjá ábyrgðarmanni.

Þrátt fyrir áðurgreind fyrirmæli a. liðar 2. mgr. 119. gr. laga nr. 88/2008 getur dómari samkvæmt 3. mgr. sömu lagagreinar ákveðið að vitni skuli svara tilteknum spurningum að tveimur skilyrðum uppfylltum. Það fyrra er að vitnisburðurinn geti ráðið úrslitum um niðurstöðu sakamáls. Fallist er á það með héraðsdómi að úrslit í sakamáli, sem höfðað kann að verða gegn starfsmanni innanríkisráðuneytis fyrir brot á þagnarskyldu, gætu ráðist af því að upplýst verði með hvaða hætti og frá hverjum umrætt minnisblað barst í hendur blaðamanns mbl.is. Stendur þá eftir að leysa úr því hvort fullnægt sé síðara skilyrðinu sem lýtur að því hvort ríkari hagsmunir standi til þess að varnaraðili svari þeim spurningum, sem til hennar hefur verið beint, en að hún haldi trúnaði við höfund eða heimildarmann að fyrrgreindri frétt sem birt var á netmiðlinum.

Fjölmiðlar hafa mikilvægu hlutverki að gegna í lýðræðisþjóðfélagi og verður að játa blaðamönnum víðtæku frelsi til tjáningar samkvæmt 2. mgr. 73. gr. stjórnarskrárinnar. Samkvæmt 3. mgr. hennar má því frelsi aðeins setja skorður með lögum, svo sem í þágu allsherjarreglu eða vegna réttinda eða mannorðs annarra, enda teljist þær nauðsynlegar og samrýmist lýðræðishefðum. Forsenda fyrir því að fjölmiðlar geti rækt hlutverk sitt er að þeir geti aflað upplýsinga um mál sem hafa þýðingu fyrir almenning og miðlað þeim án afskipta annarra. Einn þáttur í þessu sjálfstæði fjölmiðla er að þeir geti tekið við slíkum upplýsingum í trúnaði án þess að þurfa að gera grein fyrir hvaðan eða frá hverjum þær stafi. Frá þeirri meginreglu verður því aðeins vikið að í húfi séu mjög veigamiklir almannahagsmunir sem vega augljóslega þyngra en hagsmunir fjölmiðla af því að halda trúnaði við heimildarmenn sína, svo sem ráðið verður af athugasemdum með 119. gr. frumvarps þess er varð að lögum nr. 88/2008 sem og 25. gr. laga nr. 38/2011 um fjölmiðla.

Í hinu óformlega minnisblaði, sem upphaflega var tekið saman í innanríkisráðuneyti og sent ráðherra, ráðuneytisstjóra og tveimur aðstoðarmönnum ráðherra, var meðal annars að finna upplýsingar um að nafngreindur maður væri grunaður um refsiverða háttsemi. Samkvæmt b. lið 8. töluliðar 2. gr. laga nr. 77/2000 um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga var hér um að ræða sérlega viðkvæmar persónuupplýsingar. Það að koma slíkum upplýsingum á framfæri við fjölmiðla gerir ætlað brot á þagnarskyldu enn alvarlegra. Ef brotið hefur verið framið í ávinningsskyni getur það varðað allt að þriggja ára fangelsi, sbr. síðari málslið 1. mgr. 136. gr. almennra hegningarlaga, en í athugasemdum með ákvæðinu kemur fram að hinn óréttmæti ávinningur þurfi ekki að vera fjárhagslegs eðlis.

Málefni þeirra sem leitað hafa eftir hæli sem flóttamenn hér á landi hafa að vonum verið mikið rædd á opinberum vettvangi. Því er eðlilegt að um þau sé fjallað í fjölmiðlum og sú umfjöllun sé eftir atvikum byggð á frásögn manna sem ekki vilja láta nafns síns getið. Að teknu tilliti til þessa verður ekki talið að sóknaraðili hafi sýnt fram á að hagsmunir varnaraðila af því að halda trúnað við höfund og heimildarmann umræddrar fréttar eigi að víkja fyrir þeim hagsmunum að henni skuli gert að svara spurningum sóknaraðila í því skyni að upplýsa til fulls það mál sem til rannsóknar er. Með því er ekki tekin afstaða til þess hvort það hafi verið réttlætanlegt af hálfu mbl.is að birta þær persónuupplýsingar sem fram komu í hinu óformlega minnisblaði innanríkisráðuneytis, hvort sem um var að ræða upphaflega eða breytta útgáfu þess. Að framansögðu virtu verður hinn kærði úrskurður staðfestur.

Varnaraðila verður dæmdur kærumálskostnaður eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Kærumálskostnaður varnaraðila, X, greiðist úr ríkissjóði, sem er málflutningsþóknun lögmanns hennar, 313.750 krónur.

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 6. júní 2014.

I.

         Í máli þessu, sem barst réttinum 27. maí sl., fer lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu fram á að skýrslutaka af vitninu X fari fram fyrir dómi á grundvelli heimildar í c-lið 1. mgr. 59. gr. laga nr. 88/2008. Fram kemur í greinargerð sóknaraðila að hann hyggist leggja eftirfarandi spurningar fyrir vitnið:

         1) Hver ritaði fréttina „Margt óljóst í máli hælisleitanda“ sem birt var á mbl.is að morgni miðvikudagsins 20. nóvember 2013, kl. 10:55?

         2) Hafði mbl.is óformlegt minnisblað innanríkisráðuneytisins undir höndum er fréttin „Margt óljóst í máli hælisleitanda“ var rituð og birt og ef svo er með hvaða hætti komst mbl.is yfir minnisblaðið og frá hverjum barst það?

         Krafan var tekin fyrir 30. maí sl. Þar sem vitnið hafði neitað að svara framangreindum spurningum við skýrslutöku hjá lögreglu varð það niðurstaða dómara að skilyrðum c-liðar 1. mgr. 59. gr. laga nr. 88/2008 fyrir því að taka mætti skýrslu af vitni fyrir dómi væri fullnægt. Aðspurð fyrir dómi taldi varnaraðili sér óheimilt að svara framangreindum spurningum með vísan til a-liðar 2. mgr. 119. gr. laga nr. 88/2008 og 25. gr. laga nr. 38/2011 að því frátöldu að hún var reiðubúin að svara fyrsta lið í síðari spurningunni. Af hálfu sóknaraðila var þá óskað eftir því að skýrsla yrði tekin af vitninu þar sem hún svaraði þeim hluta spurningarinnar og fór sú skýrslutaka fram. Að því loknu fór sóknaraðili fram á að dómari legði fyrir vitnið að svara öðrum spurningum með vísan til 3. mgr. 119. gr. laga nr. 88/2008. Af hálfu vitnisins var því mótmælt að skilyrðum ákvæðisins væri fullnægt.

         Með vísan til 2. mgr. 181. gr., sbr. f-lið og n-lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008, skal dómari kveða upp úrskurð um það hvort varnaraðila verði gert að svara umbeðnum spurningum. Lögmaður varnaraðila lagði fram skriflega greinargerð í málinu 2. júní sl. Málið var því næst flutt munnlega um kröfu sóknaraðila 3. júní sl. og það tekið til úrskurðar.

II.

         Í greinargerð sóknaraðila kemur fram að lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hafi til rannsóknar ætluð þagnarskyldubrot eins eða fleiri starfsmanna innanríkisráðuneytisins. Hafi rannsókn lögreglu leitt í ljós að minnisblað um þrjá nafngreinda einstaklinga, sem samið hafi verið af starfsmönnum ráðuneytisins seinnipart þriðjudagsins 19. nóvember 2013, hafi borist í hendur óviðkomandi, þ. á m.  blaðamanna. Hafi þessi þrír einstaklingar kært málið til lögreglu.

         Af hálfu sóknaraðila er upplýst að minnisblaðið hafi verið tekið saman af lögfræðingi í ráðuneytinu að beiðni skrifstofustjóra vegna fyrirhugaðra mótmæla við ráðuneytið vegna afgreiðslu þess á máli hælisleitandans A. Í minnisblaðinu sé meðal annars vikið að því að í beiðni um frestun réttaráhrifa úrskurðar ráðuneytisins í máli hælisleitandans hafi komið fram að hann væri nú í sambandi við nafngreinda, íslenska stúlku, en að áður hafi hann verið í sambandi við aðra konu sem hafi stöðu hælisleitanda. Sú síðargreinda eigi von á barni og sé A mögulega faðir þess. Þá komi fram í minnisblaðinu að í beiðninni sé því haldið fram að A hafi stöðu grunaðs manns í tveimur málum sem séu til rannsóknar hjá lögreglunni á Suðurnesjum. Í því eintaki minnisblaðsins sem lögfræðingur ráðuneytisins tók saman sé einn fremur vikið að því að í hælismáli konunnar, sem eigi von á barni, sé því borið við að hún sé mansalsfórnarlamb.

         Þá kemur fram í greinargerð sóknaraðila að rannsókn lögreglunnar hafi ennfremur leitt í ljós að umrætt minnisblað hafi verið vistað á opnu drifi ráðuneytisins. Skrifstofustjóri hafi sent það með tölvupósti til ráðuneytisstjóra, ráðherra og tveggja aðstoðarmanna ráðherra kl. 17:17 hinn 19. nóvember 2013. Auk skrifstofustjórans og lögfræðingsins sem tók minnisblaðið saman hafi tveir aðrir lögfræðingar lesið minnisblaðið yfir. Í skýrslum sem lögreglan hafi tekið af þessum starfsmönnum ráðuneytisins hafi ekkert komið fram um að aðrir en þeir sem að framan greinir hafi búið yfir vitneskju um minnisblaðið. Jafnframt bendi rannsókn lögreglunnar til þess að hverfandi líkur séu á því að minnisblaðið hafi verið sent frá ráðuneytinu í tölvupóstkerfi þess.

         Af hálfu sóknaraðila kemur fram að í frétt sem birst hafi á forsíðu Fréttablaðsins 20. nóvember sl. sé fjallað um málefni A og að fréttin virðist vera byggð á umræddu minniblaði. Samkvæmt upplýsingum lögreglu hafi blaðið farið frá ritstjórn í prentun um kl. 22:50 hinn 19. nóvember. Þá hafi birst frétt um sama efni á mbl.is að morgni 20. nóvember sl., kl. 10:55. Í fréttinni komi fram að mbl.is hafi undir höndum „óformlegt minnisblað innanríkisráðuneytisins“ og megi ljóst vera að fréttin sé byggð á minnisblaðinu.

         Greint er frá því af hálfu sóknaraðila að þann 13. mars sl. hafi X mætt til yfirheyrslu hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu. Þar hafi hún upplýst að hún starfaði sem [...] hjá vefmiðlinum mbl.is [...]. Hafi hún skýrt frá því að hún [...] fréttum miðilsins, [...][...] og skrifaði einnig fréttir. Hún hafi kosið að svara ekki frekari spurningum lögreglu, þ. á m. hver hafi ritað umrædda frétt og hvort miðillinn hefði undir höndum umrætt minnisblað.

         Sóknaraðili tekur fram að í kjölfarið hafi verið farið þess á leit við héraðsdóm að vitninu yrði gert skylt að svara spurningum lögreglu um heimildarmann sinn. Með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 7. apríl sl. í máli nr. R-86/2014 hafi kröfu lögreglustjóra verið hafnað þar sem ekki hefði verið leitað allra þeirra leiða sem færar væru til þess að upplýsa málið áður en farið hefði verið fram á að vitnið svaraði spurningum lögreglu. Með dómi Hæstaréttar Íslands 2. maí 2014 í máli nr. 255/2014 hafi úrskurðurinn verið staðfestur með eftirfarandi athugasemd: „Samkvæmt gögnum sem sóknaraðili hefur lagt fyrir Hæstarétt hefur hann eftir uppkvaðningu hins kærða úrskurðar tekið skýrslur af sex nafngreindum mönnum og aflað jafnframt tiltekinna annarra gagna í tengslum við þá rannsókn sem mál þetta varðar. Telur hann að við svo búið séu úr vegi þær hindranir sem héraðsdómur taldi vera við því að lagt yrði mat á hvort í málinu séu uppfyllt skilyrði 3. mgr., sbr. a. lið 2. mgr. 119. gr. laga nr. 88/2008 til að krefja varnaraðila um svör við spurningum sínum. Eftir öflun gagnanna sem hér um ræðir átti sóknaraðili að réttu lagi að leggja beiðni sína um skýrslutöku fyrir dómi af varnaraðila öðru sinni fyrir héraðsdóm, en ekki að kæra úrskurð dómsins til að fá leyst úr kröfu sinni á framangreindum forsendum, enda er það hlutverk Hæstaréttar að endurskoða úrlausn héraðsdóms en ekki að leysa úr máli á fyrsta dómstigi. Að þessu gættu verður hinn kærði úrskurður staðfestur með vísan til forsendna hans.”

         Sóknaraðili upplýsir í greinargerð sinni að eftir uppkvaðningu úrskurðar héraðsdóms hafi lögregla tekið skýrslur af  [...], [...] og  [...][...] [...]. Lögregla hafi aflað upplýsinga um farsímnotkun þeirra  [...]  starfsmanna ráðuneytisins er komið hafi að gerð minnisblaðsins, auk upplýsinga um farsímnotkun  [...]  og [...]. Jafnframt hafi lögregla aflað upplýsinga um allar inn- og úthringingar úr borðsímum ráðuneytisins frá kl. 17.00 þann 19. nóvember til 12.00 hinn 20. nóvember. Þá hafi lögregla rannsakað fartölvu [...],[...].

         Samkvæmt greinargerð sóknaraðila voru helstu niðurstöður þessara aðgerða lögreglu þær að B hafi átti rúmlega tveggja mínútna símtal við [...] Vísis, [...], 19. nóvember 2013 kl. 18:40, og þrjú styttri símtöl við hann síðar sama kvöld. Þá hafi B einnig átt rúmlega tveggja mínútna símtal 20. nóvember kl. 9:46 við [...] Morgunblaðsins, [...], en eins og áður segi hafi mbl.is birt kl. 10:55 frétt á vef sínum þar sem fram komi að vefmiðilinn hafi undir höndum óformlegt minnisblað innanríkisráðuneytisins. Í kjölfar þessara upplýsinga hafi lögregla tekið skýrslu af [...] Vísis og [...] Morgunblaðsins sem báðir hafi borið m.a. fyrir sig a-lið 2. mgr. 119. gr. laga nr. 88/2008. 

          Í greinargerð sóknaraðila er enn fremur gerð grein fyrir niðurstöðu rannsóknar á persónulegri tölvu B. Þar hafi komið í ljós að [...] hafi vistað umrætt minnisblað í tölvu sinni og opnað það tvívegis 19. nóvember kl. 18:46 og 22:20. Þá hafi mátt sjá að þegar skjalinu hafi verið lokað hafi tölvan spurt „Do you want to save changes you made to [A]. Hafi B verið [...] að nýju 10. maí sl., en sóknaraðili kveður  [...]  hafa í fyrri yfirheyrslu sagt mjög ákveðið að [...] hafi bara opnað umræddan tölvupóst og ekkert átt neitt frekar við skjalið og eytt því. Fram kemur í greinargerð sóknaraðila að B hafi gefið litlar skýringar á þessu misræmi. Þá hafi B ekki getað útskýrt hvers vegna þær tímasetningar, sem  [...]  hafi verið að vinna með skjalið, væru mjög í námunda við tímasetningar á símasamskiptum [...] við [...]  Vísis (18:40 og 22:43). Í sömu yfirheyrslu hafi lögregla fengið heimild til þess að skoða tölvupósta B á umræddu tímabili en ekkert marktækt hafi verið að sjá þar sem tengdist málinu. Hins vegar hafi mátt sjá í tölvu B ummerki um að B hafi gert leit að umræddu skjali í tölvunni. [...] hvers vegna B hafi þurft að leita sérstaklega að skjalinu, þar sem það hafi verið vistað á skjáborði tölvunnar (desktop), hafi [...] svarað að B hafi verið jafn [...] og allir aðrir yfir þessu máli og viljað sjá hvort eitthvað væri inni í tölvu sinni sem ekki ætti að vera þar. Þá getur sóknaraðili þess að skjalið hafi ekki verið í tölvu B, enda hafi [...] skýrt frá því að [...] hefði eytt því.

         Fram kemur af hálfu sóknaraðila að lögregla hafi að nýju tekið skýrslu af vitninu X, en hún hafi áður lýst því yfir að hún væri reiðubúin að svara spurningum lögreglu um það hvort fréttamiðillinn hefði hið umrædda minnisblað undir höndum. Við þá yfirheyrslu hafi vitnið neitað að upplýsa hvort miðillinn hefði blaðið undir höndum og vísaði til a-liðar 2. mgr. 119. gr. laga nr. 88/2008.

         Í greinargerð sóknaraðila kemur fram að í ljósi alls þessa hafi hún rökstuddan grun um að starfsmaður innanríkisráðuneytisins hafi látið fjölmiðla hafa hið óformlega minnisblað og þar með brotið gegn þagnarskylduákvæði 18. gr. laga um réttindi og skyldur ríkisstarfsmanna nr. 70/1996 og 136. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Það sé enn fremur mat lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu að lögregla hafi í rannsókn sinni leitað allra þeirra leiða sem færar séu til þess að upplýsa mál þetta.

III.

1. Helstu málsástæður og lagarök sóknaraðila

         Af hálfu sóknaraðila er á því byggt að nauðsyn beri til þess að grípa til þess úrræðis sem fram kemur í 3. mgr. 119. gr. laga nr. 88/2008, enda hafi lögregla nú leitað allra þeirra leiða sem færar séu til þess að upplýsa mál þetta. Þá verði ekki séð að unnt sé að grípa til annarra eða vægari rannsóknarúrræða en að gera varnaraðila skylt að svara spurningum lögreglu. Því verði ekki hjá því komist að leggja mat á það hvort vegi þyngra að upplýsa brotið eða að trúnaður haldi, sbr. 3. mgr. 119. gr. laga nr. 88/2008.

         Sóknaraðili bendir á að tvö skilyrði þurfi að vera uppfyllt svo fallast megi á kröfu hans. Í fyrsta lagi verði vitnisburðurinn að geta ráðið úrslitum um niðurstöðu máls. Í öðru lagi þurfi ríkari hagsmunir að vera fyrir því að spurningunum verði svarað en trúnaður haldi.

         Sóknaraðili tekur málið þannig vaxið að það geti ráðið úrslitum um niðurstöðu sakamálsins að varpa ljósi á með hvaða hætti og frá hverjum umrætt minnisblað hafi borist í hendur blaðamanns á mbl.is. Að þessu leyti sé fullnægt áskilnaði 3. mgr. 119. gr. laga nr. 88/2008.

         Varðandi síðara skilyrðið telur sóknaraðili að horfa verði til nokkurra atriða. Í fyrsta lagi beri að taka tillit til hagsmuna brotaþola. Um það vísar sóknaraðili meðal annars til dóms Hæstaréttar Íslands í máli nr. 419/1995, en þar hafi verið vísað til þess að í skýrslum stjórnarformanns brotaþola, Sambands íslenskra samvinnufélaga, hafi komið fram að hann teldi greinar umrædds blaðamanns ekki hafa skaðað hagsmuni sambandsins. Þá sé einnig til þess vísað að nauðasamningum brotaþola hafi verið lokið og skuldaskil hans gengin í gegn. Því væru ekki sömu hagsmunir tengdir þeim trúnaðarupplýsingum, sem fjölmiðillinn hafi haft undir höndum, og annars hefði verið. Að mati sóknaraðila megi af þessu ráða að hagsmunir þess sem brotið bitnar á vegi þungt þegar metið sé hvort blaðamanni verði gert skylt að upplýsa um heimildarmann sinn. Á það er bent af hálfu sóknaraðila að í kærubréfi hinna þriggja kærenda komi fram að ætlaður „leki“ úr ráðuneytinu hafi skaðað mjög hagsmuni þeirra og það varði þá miklu að mál þetta verði upplýst.

         Í öðru lagi telur sóknaraðili að líta verði til hagsmuna almennings. Það varði hagsmuni almennings miklu að þegnar landsins geti treyst því að íslensk stjórnsýsla sé ábyrg og að tryggt sé að varðveisla og meðferð á viðkvæmum persónuupplýsingum, sem stjórnvöld hafi undir höndum, sé örugg. Þá eigi almenningur að geta treyst því að unnt sé að rannsaka og upplýsa mál þar sem slíkar upplýsingar hafi komist í hendur óviðkomandi aðila með ólögmætum og refsiverðum hætti og að sá sem afbrot hafi framið fái lögmæt viðurlög.

         Í þriðja lagi telur sóknaraðili að líta verði til þess hvort þær upplýsingar, sem blaðamaður fær í hendur frá heimildarmanni, eigi erindi við almenning. Þetta sjónarmið sé grundvallaratriði við mat á því hvort blaðamanni verði gert að aflétta nafnleynd heimildarmanns síns. Um þetta vísar sóknaraðili meðal annars til dóma Mannréttindadómstóls Evrópu og dóms Hæstaréttar Íslands í málinu nr. 419/1995, en í þeim dómi hafi meðal annars verið vísað til þess að opinber umræða um málefni SÍS og skuldaskil gætu haft almennt gildi sem „og umræða um hag og starfsaðferðir lánastofnana í landinu“.

         Sóknaraðili telur að upplýsingar um persónuleg málefni þeirra þriggja einstaklinga sem fjallað var um í minnisblaði innanríkisráðuneytisins eigi ekkert erindi við almenning. Þær geti ekki talist vera innlegg í almenna umræðu um málefni hælisleitenda í landinu.

         Sóknaraðili vísar þessu til stuðnings enn fremur til athugasemda við frumvarp til fjölmiðlalaga nr. 38/2011, en þar sé þetta sjónarmið margítrekað. Þar komi meðal annars fram að í tjáningarfrelsi „að þessu leyti felst m.a. réttur til að taka við og miðla upplýsingum sem eiga erindi til almennings“. Þá segir þar að ef „fullnægjandi heimildarvernd er ekki tryggð getur það orðið til þess að upplýsingar sem erindi eiga til almennings verði ekki látnar í té vegna ótta heimildarmanna um að þeir eigi yfir höfði sér hefndaraðgerðir atvinnurekenda, stjórnvalda eða annarra sem hagsmuni hafa af því að upplýsingum sé haldið leyndum“.

         Sóknaraðili telur það því vera lykilatriði þegar fjallað sé um nafnleyndina að fjölmiðillinn sé að miðla upplýsingum sem eigi erindi til almennings. Hornsteinn tjáningarfrelsis fjölmiðla grundvallist ekki á því að þeir geti birt og miðlað viðkvæmum persónuupplýsingum sem hafi verið lekið úr stjórnsýslunni með refsiverðum hætti. Það sé ekki tilgangurinn með nafnleynd heimildarmanna.

         Í fjórða lagi telur sóknaraðili að líta verði til þess hvað heimildarmanninum hafi gengið til með upplýsingagjöf sinni. Við rannsókn málsins hafi komið í ljós að umrætt minnisblað hafi verið útbúið þar sem fyrirhuguð hafi verið mótmæli við innanríkisráðuneytið vegna synjunar ráðherra á beiðni hælisleitanda. Það hafi verið gert til þess að upplýsa ráðherra nánar um stöðu málsins. Í ljósi þeirra persónulegu upplýsinga, sem minnisblaðið hafi haft að geyma, verði að ætla að því hafi verið lekið til fjölmiðla í því augnamiði einu að upplýsa almenning um viðkvæma stöðu hælisleitandans í ljósi sakamálarannsóknar sem hann hafi sætt, þannig að koma mætti í veg fyrir áframhaldandi mótmæli og gagnrýnisraddir.

         Í fimmta lagi vísar sóknaraðili til þess að ein af grundvallarreglum íslensks sakamálaréttarfars sé reglan um að leiða skuli hið sanna og rétta í ljós. Á grundvelli þeirrar reglu sé t.d. meginregla 116. gr. laga nr. 88/2008 um að sérhverjum manni beri að skýra satt og rétt frá málsatvikum, þ.m.t. blaðamönnum. Frávik frá þeirri meginreglu, sbr. a. lið 2. mgr. 119. gr. laganna, beri að skýra þröngt.

         Í ljósi alls ofangreinds telur sóknaraðili að lagaskilyrðum 3. mgr. 119. gr. laga um meðferð sakamála sé fullnægt í máli þessu. Um lagarök fyrir beiðninni vísar sóknaraðili til c-liðar 1. mgr. 59. gr., 1. mgr. 65. gr., 1. mgr. 116. gr. og 3. mgr. 119. gr., sbr. 1. mgr. 102. gr.  laga 88/ 2008 um meðferð sakamála.

2. Helstu málsástæður og lagarök varnaraðila

         Af hálfu varnaraðila er þess krafist að beiðni sóknaraðila verði hafnað með vísan til a-liðar 2. mgr. 119. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008, 73. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 og 10. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Þá byggir varnaraðili einnig á 118. gr. laga nr. 88/2008, sbr. 2. mgr. 6. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu og 70. gr. stjórnarskrárinnar.

         Í greinargerð sinni víkur varnaraðili sérstaklega að áhrifum viðbótarrannsóknar lögreglu eftir uppkvaðningu úrskurðar í máli nr. R-86/2014. Mótmælir hann því að með þessum rannsóknaraðgerðum hafi verið fullnægt þeim áskilnaði um meðalhóf sem leiði af 3. mgr. 73. gr. stjórnarskrárinnar og 2. mgr. 10. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Af greinargerð sóknaraðila verði ekki ráðið á hvaða grundvelli umræddar skýrslutökur hafi farið fram, þ.e. hvort aðilar hafi notið stöðu vitnis eða sakbornings, en það hafi umtalsverða þýðingu. Hvað símnotkun varði þá liggi fyrir að ekki hafi verið aflað upplýsinga um símnotkun innanríkisráðherra. Þá liggi ekki fyrir hvort að farið hafi fram frekari rannsókn á tölvugögnum ráðuneytisins, en eins og fram komi í kröfu sóknaraðila þá hafi umrætt minnisblað verið vistað á „opnu drifi ráðuneytisins“. Af því leiði að allir starfsmenn ráðuneytisins hafi getað nálgast það.

         Varnaraðili telur einnig að þær upplýsingar sem fram komi í kröfu sóknaraðila um viðbótarrannsókn hans bendi sterklega til þess að kröfu sóknaraðila sé ranglega beint að varnaraðila. Nafn X komi hvergi fram í kröfu sóknaraðila þegar fjallað sé um ný rannsóknargögn. Þær upplýsingar gefi fremur tilefni til þess að beina rannsókn málsins að öðrum aðilum en varnaraðila. Að mati varnaraðila renni þetta frekari stoðum undir mála­tilbúnað hans um að skilyrðum 119. gr. laga nr. 88/2008 sé ekki fullnægt og að hafna beri alfarið kröfu sóknaraðila.

         Af hálfu varnaraðila er á það bent að dómari geti ákveðið á grundvelli 3. mgr. 119. gr. laga nr. 88/2008, að vitni skuli svara spurningum um tiltekin atriði, þrátt fyrir fyrirmæli 2. mgr. sömu greinar, ef vitnisburðurinn getur ráðið úrslitum um niðurstöðu máls, enda séu ríkari hagsmunir af því að spurningum verði svarað en að trúnaður haldi. Varðandi fyrra skilyrðið telur varnaraðili með öllu óljóst að vitnisburður hennar komi til með að ráða úrslitum um niðurstöðu þess máls sem til rannsóknar sé. Þeirri fullyrðingu í forsendum úrskurðar héraðsdóms í máli nr.  R-86/2014 „að það geti ráðið úrslitum um niðurstöðu sakamálsins að varpa ljósi á með hvaða hætti og frá hverjum umrætt minnisblað barst í hendur blaðamanns á mbl.is“ sé mótmælt af hálfu varnaraðila. Meðal annars með vísan til þess að títtnefnt minnisblað hafi borist til „óviðkomandi“ eða „ýmissa manna, þ.á m. blaðamanna“ og að það hafi verið geymt á „opnu drifi ráðuneytisins“, telur varnaraðili að ekki hafi verið leiddar líkur að því að heimildarmaður varnaraðila sé sá sem gerst hafi brotlegur gegn þeim ákvæðum laga sem rannsókn lögreglu beinist að. Þar með telur varnaraðili að sóknaraðili hafi ekki leitt neinum líkum að því að rannsókn hans beinist að heimildarmanni varnaraðila og því alls óvíst hvort vitnisburður varnaraðila „geti ráðið úrslitum um niðurstöðu máls“. Þvert á móti bendi orðalag upplýsinga frá sóknaraðila til þess að fjölmargir aðilar komi til greina og því verði ekki fallist á það með sóknaraðila að vitnisburður varnaraðila geti ráðið úrslitum um niðurstöðu þess máls sem til rannsóknar er hjá sóknaraðila. Þá telur varnaraðili ekki rétt að réttlætanlegt sé að gera varnaraðila að upplýsa um heimildarmann sinn í þeim tilgangi einum að staðfesta rökstuddan grun lögreglu á hendur einum tilteknum starfsmanni ráðuneytisins.

         Varnaraðili byggir einnig á því að við hagsmunamat, sem eigi að fara fram þegar afstaða er tekin til beiðni sóknaraðila, verði að komast að þeirri niðurstöðu trúnaður varnaraðila gagnvart heimildarmanni haldi. Þetta hagsmunamat lúti einungis að tveimur atriðum, annars vegar að trúnaðarsambandi varnaraðila og heimildarmanns og hins vegar að alvarleika þess máls sem sóknaraðili hafi til rannsóknar. Ekki sé grundvöllur til þess að líta til annarra atriða í þeim efnum líkt og sóknaraðili telji rétt að gera. Til stuðnings þeirri ályktun vísar varnaraðili til athugasemda við 119. gr. í frumvarpi því er varð að lögum nr. 88/2008, en þar segi að hér verði dómari annars vegar að leggja mat á „trúnaðarsambandið og eðli þess og hins vegar á alvarleika málsins. Því alvarlegri sem sakargiftir eru, þeim mun líklegra væri að trúnaði yrði aflétt og því ríkari sem trúnaður er, því líklegra væri að hann héldi.“

         Með vísan til þessa mótmælir varnaraðili þeirri fullyrðingu í kröfu sóknaraðila að við umrætt hagsmunamat beri að horfa til hagsmuna brotaþola, hagsmuna almennings, þess hvort upplýsingarnar eigi erindi við almennings, tilgangs heimildarmanns til upplýsingagjafar sem og sannleiksreglunnar.

         Um fyrsta atriðið, hagsmuni brotaþola, heldur varnaraðila því fram að tilvísun til dóms Hæstaréttar í máli nr. 419/1995 hafi enga þýðingu. Dómurinn hafi fallið á gildistíma laga um meðferð opinberra mála nr. 19/1991 sem ekki séu lengur í gildi. Ákvæði 53. gr. eldri laga nr. 19/1991 hafi verið ólíkt núgildandi ákvæði 119. gr. laga nr. 88/2008 og ljóst að ákveðin stefnubreyting löggjafans hafi orðið með setningu nýrra laga hvað þetta atriði varði. Samkvæmt 53. gr. eldri laga nr. 19/1991 hafi verið nægjanlegt að metið væri sem svo að ríkir hagsmunir væru í húfi sem og að vitnisburður væri nauðsynlegur fyrir rannsókn þess máls sem um ræddi svo að trúnaði yrði aflétt. Orðalag 53. gr. eldri laga hafi þannig ekki tilgreint nákvæmlega til hvaða hagsmuna ætti að líta, andstætt orðalagi núgildandi 119. gr. laga nr. 88/2008, eins og áður sé rakið.

         Varnaraðili mótmælir því einnig að líta beri til hagsmuna almennings við fyrrnefnt hagsmunamat. Sá málatilbúnaður sóknaraðila eigi sér hvorki stoð í 119. gr. laga nr. 88/2008 né í ummælum í greinargerð með því frumvarpi sem orðið hafi að lögum nr. 88/2008.Varnaraðili mótmælir sérstaklega þeirri fullyrðingu sóknaraðila, að það hafi þýðingu að „sá sem afbrot hefur framið fái lögmæt viðurlög“. Því sé mótmælt sem röngu og ósönnuðu að heimildarmaður varnaraðila hafi brotið gegn lögum með því að afhenda upplýsingarnar, enda liggi ekkert fyrir um það hvort heimildarmaður varnaraðila falli yfirhöfuð undir lög nr. 70/1996 um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna, né heldur önnur ákvæði sem rannsókn sóknaraðila taki til. Jafnvel þó að svo væri þá hafi meint brot heimildarmanns enga þýðingu við mat á því hvort heimildarverndinni skuli aflétt, sbr. eftirfarandi orðalag í greinargerð með 25. gr. laga nr. 38/2011 um fjölmiðla, sem mælir fyrir um að blaðamanni sé óheimilt að aflétta leynd yfir heimildarmanni: „Enn fremur hefur komið fram að það að upplýsinga sé aflað á ólögmætan hátt af hálfu heimildarmanns nægi ekki eitt sér til að rjúfa heimildarverndina...“.

         Varnaraðili byggir enn fremur á því að ekki beri að byggja á því við matið hvort upplýsingarnar „hafi átt erindi við almenning“, enda eigi málatilbúnaður sóknaraðila að þessu leyti sér hvorki stoð í 119. gr. laga nr. 88/2008 né ummælum í greinargerð með því frumvarpi sem varð að lögunum. Þá sé því mótmælt sem röngu að Mannréttindadómstóll Evrópu hafi lagt umrætt sjónarmið til grundvallar með þeim hætti sem sóknaraðili geri. Þannig hafi Mannréttindadómstóllinn vísað til þessarar viðmiðunar þegar metið sé hvort aðildarríki Mannréttindasáttmála Evrópu hafi brotið gegn ákvæði 10. gr. sáttmálans, en ekki til stuðnings því að aflétta beri vernd heimildarmanna sem tryggð sé í nefndu ákvæði.

         Varnaraðili hafnar því enn fremur alfarið að líta beri „til þess hvað heimildarmanninum gekk til með upplýsingagjöf sinni“ og að sannleiksregla 116. gr. laga nr. 88/2008 leiði til þess að fallast beri á þá kröfu sóknaraðila að varnaraðila verði gert að upplýsa um heimildarmann sinn. Þessi málatilbúnaður sóknaraðila eigi sér hvorki stoð í 119. gr. laga nr. 88/2008 né í ummælum í greinargerð með því frumvarpi sem orðið hafi að lögunum. Hvað síðara sjónarmiðið varði, þ.e. að sannleiksregla 116. gr. laga nr. 88/2008 eigi að valda því að aflétta beri vernd heimildarmanns, þá áréttar varnaraðili að réttur hans sé ekki einungis tryggður í 119. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála og 25. gr. laga nr. 38/2011 um fjölmiðla, heldur ennfremur í 73. gr. stjórnarskrárinnar og 10. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu. Geti 116. gr. laga nr. 88/2008 ekki ein og sér leitt til þess að fallast beri á kröfu sóknaraðila á kostnað réttar varnaraðila sem tryggður sé með rétthærri réttarheimildum.

         Varnaraðili reisir vörn sína að öðru leyti á því að sú regla sem fram komi í a-lið 2. mgr. 119. gr. laga nr. 88/2008, sé ein mikilvægasta regla gildandi laga um rétt og skyldu blaðamanna til þess að neita að segja til heimildarmanna sinna, sbr. orðalagið „[v]itni er óheimilt [...]“. Í þessu orðalagi felist jafnframt ákveðin stefnubreyting löggjafans enda hafi í 53. gr. eldri laga um meðferð opinberra mála verið kveðið á um að viðkomandi væri þetta „óskylt“.

         Um þessa meginreglu vísar varnaraðili enn fremur til 1. og 2. mgr. 25. gr. laga nr. 38/2011 um fjölmiðla þar sem meðal annars segi að  „[s]tarfsmönnum fjölmiðlaveitu sem hlotið hafa leyfi eða skráningu hjá fjölmiðlanefnd er óheimilt að upplýsa hver sé heimildarmaður að grein, riti, frásögn, tilkynningu eða öðru efni, hvort sem það hefur birst eða ekki, hafi heimildarmaður eða höfundur óskað nafnleyndar“. Í 3. mgr. 25. gr. laganna komi fram að aðeins verði vikið frá þessu með samþykki viðkomandi heimildarmanns eða á grundvelli 119. gr. laga nr. 88/2008. Í athugasemdum við 25. gr. í frumvarpi því er varð að lögum nr. 38/2011 sé meðal annars áréttað að verndun trúnaðar á milli fjölmiðlafólks og heimildarmanna sé eitt af grundvallarskilyrðum þess að fjölmiðlar geti lagt sitt af mörkum til lýðræðisþjóðfélagsins og einn af hornsteinum tjáningarfrelsis þeirra. Þá sé trúnaðarskylda blaðamanna gagnvart heimildarmönnum sínum áréttuð í 2. gr. siðareglna Blaðamannafélags Íslands. Þá falli réttur blaðamanna til að neita að segja til heimildarmanna sinna einnig undir vernd tjáningarfrelsis samkvæmt 73. gr. stjórnarskrárinnar og 10. gr. mannréttindasáttmála Evrópu.

         Varnaraðili telur því ljóst að rík áhersla sé lögð á trúnaðarsamband blaðamanns og heimildarmanns í íslenskum rétti, og eigi blaðamaður rétt, auk þess sem á honum hvíli skylda, til þess að virða það samband. Slíkt sé í samræmi við þá vernd sem tjáningarfrelsinu, þ.á m. rétti blaðamanns til að neita að segja til heimildarmanns síns, sé veitt í stjórnarskrá og mannréttindasáttmála Evrópu.

         Af hálfu varnaraðila er því haldið fram að í kröfu sóknaraðila sé ekki vikið að alvarleika málsins og hvernig hann geti réttlætt að vikið sé frá þeim lögvarða grundvallarrétti varnaraðila að neita að segja til heimildarmanna sinna. Í þessu efni telur varnaraðili að líta verði til þess að þau brot sem til rannsóknar séu, og lúti að þagnarskyldu ríkisstarfsmanna, varði fangelsisrefsingu allt að einu ári samkvæmt 136. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Þá telur varnaraðili ljóst að meint þagnarskyldubrot verði ekki talin þess eðlis að réttlætt geti að tjáningarfrelsi varnaraðila verði takmarkað með svo afdrifaríkum hætti að honum verði gert að segja til heimildarmanna sinna. Varnaraðili tekur sérstaklega fram að sóknaraðili byggi ekki á 138. gr. almennra hegningarlaga, líkt og hann hafi gert í fyrra máli sínu, sbr. úrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur í máli nr. R-86/2014. Því komi ekki til skoðunar hugsanleg refsihækkunarsjónarmið vegna misnotkunar stöðu við mat á alvarleika málsins í þessu síðara máli sóknaraðila.

         Við mat á alvarleika málsins telur varnaraðili að líta beri til þess að samkvæmt 53. gr. eldri laga nr. 19/1991 hafi samskonar takmörkun verið orðuð með þeim hætti að reglan um að viðkomandi væri „óskylt“ að skýra frá samskonar upplýsingum ætti þó ekki við „ef vitnisburðar er krafist vegna afbrots, sem ætla má að muni varða þyngri refsingu en fésektum eða fangelsi allt að einu ári, eða vegna brots gegn þagnarskyldu í opinberu starfi, enda sé vitnisburður nauðsynlegur fyrir rannsókn málsins og ríkir hagsmunir í húfi“. Varnaraðili telur þetta mismunandi orðalag 53. gr. laga nr. 19/1991 samanborið við a-lið 2. mgr. 119. gr. laga nr. 88/2008 hafa þýðingu að tvennu leyti. Í fyrsta lagi verði við hagsmunamatið að miða við að það brot, sem til rannsóknar sé, megi ekki varða vægari refsingu en gert var ráð fyrir samkvæmt eldri lögum. Í öðru lagi beri að leggja til grundvallar að löggjafinn hafi ekki lengur séð sérstaka ástæðu til þess að láta önnur sjónarmið gilda um þagnarskyldubrot í opinberu starfi en önnur brot. Því séu ekki forsendur fyrir hendi til þess að líta sérstaklega til þess að um meint brot gegn trúnaðarskyldu ríkisstarfsmanna sé að ræða, heldur einungis til þess hvort brotið sé það alvarlegt að réttlætanlegt sé að víkja til hliðar trúnaðarsambandi blaðamanns og heimildarmanns. Óháð þessari áherslubreytingu löggjafans telur varnaraðili einnig rétt að líta til þess að í dómi Hæstaréttar í máli nr. 419/1995 hafi verið komist að þeirri niðurstöðu að blaðamaður gæti borið fyrir sig 53. gr. eldri laga nr. 19/1991, og neita þar með að greina frá heimildarmönnum sínum, þrátt fyrir að til rannsóknar væri meint trúnaðarbrot opinberra starfsmanna. Þessi nálgun Hæstaréttar sé að mati varnaraðila í samræmi við sambærilega dóma í Danmörku og Noregi, sbr. t.d. UfR 2002.1586, UfR 2011.1329 og Rt. 2004.1400.

         Varnaraðili telur rétt að vísa sérstaklega til síðastnefnda málsins, en það hafi varðað meintan upplýsingaleka innan norsku lögreglunnar. Í því máli hafi gögnum vegna rannsóknar lögreglunnar á stóru fíkniefnamáli verið lekið til blaðamanns. Opinber rannsókn á lekanum, þ. á m. skýrslutaka af lögreglumönnum, hafi ekki skilað árangri og því hafi kröfu verið beint gegn blaðamanni að upplýsa um heimildarmann sinn. Hæstiréttur Noregs taldi að þrátt fyrir alvarleika brotsins, sem fólst í afhendingu upplýsinga um opinbera rannsókn, þá skyldi vernd heimildarmannsins ekki aflétt.

         Í þessu sambandi bendir varnaraðili enn fremur á að í athugasemdum við 119. gr. frumvarps þess er varð að lögum nr. 88/2008 segi að „því alvarlegri sem sakargiftir eru, þeim mun líklegra væri að trúnaði yrði aflétt …“. Ber því við mat á alvarleika einungis að líta til þeirra brota sem til rannsóknar eru hjá sóknaraðila og viðurlögum við þeim, en ekki annarra brota, s.s. brota á friðhelgi einkalífs eða brota á málsmeðferðarreglum stjórnsýsluréttar.

         Við mat á því hvort sakargiftir séu nægilega alvarlegar telur varnaraðili að athugasemdir við 25. gr. frumvarps sem varð að lögum nr. 38/2011 um fjölmiðla hafi sérstaka þýðingu. Þara komi fram að heimildarverndinni verði einungis aflétt til þess að „koma í veg fyrir eða upplýsa alvarlegan glæp á borð við morð, mannrán, nauðgun, misnotkun barna, landráð eða sambærilega glæpi.“ Í þessu ljósi telur varnaraðili að ekki séu forsendur fyrir hendi til þess að skylda varnaraðila að segja til heimildarmanna sinna. Í því sambandi vísar varnaraðili til þess að (i) sóknaraðili hafi ekki leitt neinar líkur að því að rannsókn hans beinist að heimildarmanni varnaraðila og því sé alls óvíst hvort vitnisburður varnaraðila „geti ráðið úrslitum um niðurstöðu máls“; (ii) trúnaðarsambandi blaðamanns og heimildarmanns sé veitt ríkuleg vernd samkvæmt íslenskum lögum, stjórnarskrá og mannréttindasáttmála Evrópu, enda sé um að ræða einn af horn­steinum tjáningar­frelsis blaðamanna; og (iii) alvarleiki þess máls sem sé til rannsóknar sé engan veginn svo mikill að réttlætt geti að vikið sé frá trúnaðar­sambandi varnaraðila og heimildarmanna hans og þar með grundvallarrétti og -skyldu varnaraðila.

         Að öðru leyti vísar varnaraðili til eftirfarandi umfjöllunar um 73. gr. stjórnarskrárinnar og 10. gr. mannréttindasáttmála Evrópu sem og þeirra grundvallarreglna og -sjónarmiða sem mótast hafi í dómaframkvæmd Mannréttindadómstóls Evrópu. Varnaraðili telur að hafa verði þessar reglur og þau sjónarmið í huga við beitingu a-liðar 2. mgr., sbr. 3. mgr. 119. gr. laga nr. 88/2008. Það samrýmist stöðu almennra laga gagnvart stjórnarskrá og viðteknum lögskýringarsjónarmiðum um túlkun ákvæða stjórnarskrárinnar með tilliti til mannréttindasáttmála Evrópu og úrlausna Mannréttindadómstóls Evrópu.

         Varnaraðili telur alveg ljóst að réttur varnaraðila til þess að neita að segja til heimildarmanna sinna falli undir þá vernd tjáningarfrelsisins sem kveðið sé á um í 73. gr. stjórnarskrárinnar og 10. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Varnaraðili telur að nái krafa sóknaraðila fram að ganga sé um óréttlætanlega takmörkun á tjáningarfrelsi varnaraðila að ræða, en tjáningarfrelsið teljist til mikilvægustu mannréttinda í lýðræðisríkjum. Innan þess hafi löngum verið talið rúmast svokallað mál-, skoðana-, sannfæringar-, birtingar-, prent- og upplýsingafrelsi. Viðurkennt sé að fjölmiðlar hafi rétt og beri skyldu til þess að miðla til almennings öllum þeim upplýsingum og hugmyndum sem almenning geti varðað. Hafi Mannréttindadómstóll Evrópu komist svo að orði, að fjölmiðlar gegni hlutverki varðhunds almennings í þessum skilningi og þurfi svigrúm til þess að sinna því hlutverki sínu. Varnaraðili kveður rétt blaðamana til að neita að segja til heimildarmanna sinna vera nátengt þessu hlutverki fjölmiðla. Þar vísar varnaraðili til þess að fjölmiðlar gætu illa sinnt hlutverki sínu ef ekki mætti treysta því að trúnaður sé haldinn af þeirra hálfu gagnvart heimildarmönnum sem ekki vilji njóta nafnleyndar. Ýmsar ástæður geti enda orðið til þess að heimildarmaður neiti að greina frá upplýsingum nema honum sé heitið nafnleynd. Til dæmis kunni hann að óttast um starf sitt eða líf í víðasta skilningi.

         Varnaraðili kveður rétt sinn til þess að neita að segja til heimildarmanna sinna þannig vera einn af hornsteinum tjáningarfrelsisins, en án þess réttar gætu heimildarmenn færst undan því að aðstoða fjölmiðla við að upplýsa almenning um málefni sem almenning varði. Þetta hafi verið staðfest í stefnumarkandi dómi Mannréttindadómstóls Evrópu um rétt blaðamanna til að halda trúnað við heimildarmenn sína í máli Goodwin gegn Bretlandi frá 27. mars 1996. Hefur dómstóllinn oft staðfest umrædda vernd nafnleyndar heimildarmanna og mikilvægi þeirrar verndar.

         Varnaraðili vísar til þess að samkvæmt fyrrgreindum ákvæðum stjórnarskrár og mannréttindasáttmála Evrópu verði tjáningarfrelsi varnaraðila ekki takmarkað nema að takmörkunin sé lögmælt, stefni að lögmætu markmiði og að hún sé nauðsynleg í lýðræðislegu þjóðfélagi vegna þeirra atriða sem tilgreind séu í 3. mgr. 73. gr. stjórnarskrárinnar og 2. mgr. 10. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Enginn ágreiningur sé um að 3. mgr. 119. gr. laga nr. 88/2008 sé fullnægjandi lagastoð og að stefnt sé að lögmætu markmiði. Á hinn bóginn telur varnaraðili skýrt að sú krafa sóknaraðila sem byggi á framangreindu sé ekki nauðsynleg í lýðræðislegu þjóðfélagi að teknu tilliti til þeirra sjónarmiða sem almennt séu lögð til grundvallar í dómum Mannréttindadómstóls Evrópu. Sú afstaða varnaraðila sé ekki síst byggð á því að allar takmarkanir á tjáningarfrelsinu beri að skýra þröngt.

         Varnaraðili byggir á því að í þessum áskilnaði um nauðsyn felist skýr krafa um meðalhóf. Vísar varnaraðili í þessu sambandi til dóms Mannréttindadómstóls Evrópu í máli De Haes og Gijsels gegn Belgíu frá 24. febrúar 1997 og dóms sama dómstóls í máli Roemen og Schmit gegn Luxemborg frá 25. febrúar 2003, en einnig til grundvallarreglna íslenskra laga um að meðalhófs skuli gætt við beitingu ákvæða stjórnsýslu- og stjórnskipunarréttar. Í kröfunni um meðalhóf felist t.d. að ef lögreglu er unnt að rannsaka brot, og eftir atvikum leysa mál, með öðrum aðferðum en sem felast í því að vikið sé frá nafnleynd heimildarmanns, skuli þeim aðferðum beitt.

         Varnaraðili telur að sóknaraðili hafi ekki sýnt fram á að nauðsyn standi til þess að takmarka tjáningarfrelsi varnaraðila og að markmiðum sóknaraðila verði ekki náð með öðrum og minna íþyngjandi úrræðum. Í þessu sambandi áréttar varnaraðili það sem fyrr segi að í kröfu sóknaraðila komi fram að minnisblað það, sem mál þetta varði, hafi „borist í hendur óviðkomandi, þ. á m. blaðamanna“. Varnaraðili hafnar þess vegna því sem sóknaraðili heldur fram „að lögregla hafi í rannsókn sinni leitað allra þeirra leiða sem færar eru til að upplýsa mál þetta“. Ekki sé loku fyrir það skotið að lögreglu sé unnt að ná því markmiði sem að sé stefnt með öðrum, vægari aðferðum, en sem felast í að varnaraðila verði gert að afhjúpa heimildarmann sinn. Þá hafi sóknaraðili undir höndum ýmis rannsóknargögn og hafi ýmis tiltæk úrræði til þess að rannsaka mál á grundvelli laga nr. 88/2008, umfram þær rannsóknaraðgerðir sem hann hafi þegar gripið til. Þannig sé aðferð sóknaraðila við að ná fram lögmætu markmiði ekki í samræmi við það sem nauðsynlegt sé í lýðræðislegu þjóðfélagi. Telur varnaraðili að sóknaraðili beri sönnunarbyrðina fyrir því að önnur, vægari úrræði séu ekki tæk til þess að ná því lögmæta markmiði sem stefnt sé að. Séu þau ekki fyrir hendi komi fyrst þá til skoðunar hvort nægir hagsmunir séu í húfi til þess að réttlætanlegt sé að knýja varnaraðila til að afhjúpa nafnleynd heimildarmanns.

         Varnaraðili telur enn fremur að sóknaraðili verði að sýna fram á að nauðsynlegt sé að takmarka tjáningarfrelsi varnaraðila, þ. á m. hvort nægir hagsmunir séu í húfi til þess að réttlætanlegt sé að knýja varnaraðila til að afhjúpa nafn heimildarmanns síns. Hann kveður ákveðnar vísbendingar felast í dómi Mannréttindadómstóls Evrópu í máli Nordisk Film & TV A/S gegn Danmörku frá 8. desember 2005 um það hversu alvarlegt undirliggjandi brot þurfi að vera til þess að réttlætanlegt sé að takmarka tjáningarfrelsi blaðamanna. Fram hafi komið að skilyrðið væri að um væri að ræða mikilsverða hagsmuni almennings (e. an overriding requirement in the public interest). Það brot sem um ræddi hafi lotið að kynferðislegri misnotkun barna og sagði dómstóllinn að þegar um slíkt brot væri að ræða væri mikilvægt að sá sem afbrot hefði framið væri beittur lögmæltum viðurlögum. Féllst dómstóllinn því á þau sjónarmið sem fram komu af hálfu Danmerkur og byggðu á forsendum Hæstaréttar Danmerkur þegar hann hafi komist að þeirri niðurstöðu að blaðamönnunum bæri skylda til þess að afhenda gögnin.

         Varnaraðili leggur áherslu á að það brot sem hér sé til rannsóknar varði meint brot gegn þagnarskyldu opinberra starfsmanna. Verði uppljóstrun á slíku broti ekki talin varða jafn mikilsverða hagsmuni eins og ef um væri að ræða meint brot gegn t.a.m. ákvæðum XXII., XXIII. eða XXIV. kafla almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Þá vísar varnaraðili til þess að Mannréttindadómstóll Evrópu hafi ekki talið nægilegt að um trúnaðarbrot eitt og sér væri að ræða, hvort heldur sem er af hálfu starfsmanna einkaaðila eða ríkisstarfsmanna, sbr. dóma í málum Roemen og Schmit gegn Lúxemborg frá 25. maí 2003 og Ernst o.fl. gegn Belgíu frá 15. júlí 2003. Aðeins komi því til greina að víkja frá rétti blaðamanns til að halda nafni heimildarmanns síns leyndum ef slíkt trúnaðarbrot teljist stofna öryggi ríkisins eða almennings í mjög mikla hættu. Vísar varnaraðili hér einnig til umfjöllunar í dómum Hæstaréttar Danmerkur og Noregs í UfR 2002.1586, UfR 2011.1329 og Rt. 2004.1400.

         Varnaraðili telur rétt að benda á að dómstólar hafi tekið til skoðunar hvort að upplýsingar eigi erindi til almennings þegar þeir meta hvort að aflétta beri heimildarverndinni. Varnaraðili telur að svo hafi verið í þessu máli. Telur hann að umfjöllun fjölmiðla um opinbera stjórnsýslu varði almenning. Málefni útlendinga sem hafi sótt um hæli hér á landi hafi verið talsvert mikið til umræðu undanfarin ár. Þar hefur sjónum sérstaklega verið beint að reglum um málsmeðferð hælisumsókna sem og þeim alþjóðlegu skuldbindingum sem Ísland sé aðili að varðandi málefni flóttamanna. Vernd heimildarmanna stuðli að því að mikilvægar upplýsingar, þ.e. upplýsingar sem varði almenning, séu gerðar opinberar, þ.á m. upplýsingar eins og þær sem um ræði í þessu máli.

         Varnaraðili bendir í þessu sambandi á að málefni þess hælisleitanda sem sóknaraðili vísi til hafi verið til umfjöllunar í fjölmiðlum um nokkurt skeið. Hafi hann og aðilar honum tengdir sjálfir rekið málið á opinberum vettvangi. Þannig hafi samtökin No Borders, sem hafi látið sig málefni þessa hælisleitanda varða, boðað til mótmælafundar fyrir utan innanríkisráðuneytið 20. nóvember 2013 á heimasíðu sinni. Á þessum tímapunkti hafi enn fremur verið ljóst að umræddur hælisleitandi hafi verið í felum og því hafi ekki verið unnt að vísa honum úr landi, þrátt fyrir að honum hefði verið synjað um hæli hérlendis. Af þessu leiði að upplýsingar um hælisleitandann og barnsmóður hans höfðu borist almenningi. Þá hafi innanríkisráðuneytið tekið saman sérstakt, óformlegt minnisblað um málefni hans. Þær upplýsingar sem birst hafi opinberlega um þennan hælisleitanda á opinberum vettvangi hafi gefið til kynna að hann hafi orðið tvísaga og því hafi þær skipt máli að mati varnaraðila þegar komið hafi að því að meta málstað hans og það sem talsmenn hans héldu fram opinberlega.

         Á þessum grundvelli telur varnaraðili að í frétt hans hafi verið að finna upplýsingar sem hafi átt erindi við almenning. Jafnvel þótt talið yrði að hluti umfjöllunar varnaraðila hafi ekki átt erindi við almenning, telur varnaraðili að líta beri til efnis fréttar mbl.is í heild sinni þegar mat sé lagt á hvort varnaraðila verði gert að aflétta leynd heimildarmanns síns. Verði þannig talið að hluti upplýsinga í frétt mbl.is varði ekki almenning geti það ekki orðið til þess að varnaraðila beri að aflétta trúnaði við heimildar­mann sinn þar sem telja verði að meginefni umræddar fréttar mbl.is hafi átt erindi við almenning. Um þetta efni vísar varnaraðili m.a. til dóms Hæstaréttar Noregs, sbr. Rt. 2004, 1400.

         Að teknu tilliti til alls framangreinds telur varnaraðili að sóknaraðila hafi ekki tekist að sýna fram á að skilyrðum 119. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála sé fullnægt og því beri að hafna kröfu sóknaraðila að öllu leyti enda myndi önnur niðurstaða fela í sér að verulega væri vegið að þeim mikilvæga rétti sem í vernd heimildarmanna felist – tjáningarfrelsinu.

         Varnaraðili telur enn fremur að verði honum gert skylt að upplýsa um heimildarmann sinn sé ekki loku fyrir það skotið að brotinn verði á honum réttur til þess að fella ekki á sig sök, sbr. 118. gr. laga nr. 88/2008, 2. mgr. 6. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu og 70. gr. stjórnarskrárinnar, enda sé ekkert sem komi í veg fyrir að sóknaraðili hefji sérstaka rannsókn á hendur varnaraðila, og höfði eftir atvikum síðar sakamál, vegna meints hlutdeildarbrots varnaraðila.

         Um lagarök vísar varnaraðili m.a. til ákvæða 118. gr. og 2. og 3. mgr. 119. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008, 73. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 og 10. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Þá vísar varnaraðili einnig til laga um fjölmiðla nr. 38/2011, nánar til tekið til 25. gr., sem og til almennra sjónarmiða um að varnaraðila sé rétt og skylt að halda í heiðri starfsskyldur sínar, sbr. m.a. 2. gr. siðareglna Blaðamannafélags Íslands.

IV.

Niðurstaða

         Eins og fram kemur í greinargerð sóknaraðila hefur lögreglan til rannsóknar ætlað þagnarskyldubrot eins eða fleiri starfsmanna innanríkisráðuneytisins. Rannsókn málsins hefur leitt í ljós að óformlegt minnisblað eða samantekt, þar sem farið var yfir mál hælisleitandans A, og samið var af lögfræðingi í innanríkisráðuneytinu seinnipartinn 19. nóvember 2013, í tilefni af fyrirhugðum mótmælum daginn eftir, hafi borist í hendur óviðkomandi, þ.á m. blaðamanna. Í skjalinu er m.a. vikið að því, að í beiðni um frestun réttaráhrifa úrskurðar ráðuneytisins í máli hælisleitandans, hafi komið fram að hann væri nú í sambandi við nafngreinda íslenska stúlku, en áður hafi hann verið í sambandi við aðra konu sem hafi haft stöðu hælisleitanda hér á landi. Sú síðargreinda eigi von á barni og sé A mögulega faðir þess. Þá kemur fram í minnisblaðinu að í beiðninni sé því haldið fram að A hafi stöðu grunaðs manns í tveimur málum sem séu til rannsóknar hjá lögreglunni á Suðurnesjum. Í því eintaki minnisblaðsins sem lögfræðingur ráðuneytisins tók saman er enn fremur vikið að því að í hælismáli konunnar, sem eigi von á barni, sé því borið við að hún sé mansalsfórnarlamb. Í öðru eintaki af sama skjali hefur verið bætt við þá umfjöllun að ekki liggi fyrir hver sé barnsfaðir konunnar, en að rannsóknargögn gefi til kynna að hún sé beitt þrýstingi um að segja að A sé faðirinn þó að hann eigi nú í sambandi við íslenska stúlku.

         Með þeirri beiðni sem hér liggur fyrir hyggst sóknaraðili freista þess að varpa ljósi á hver beri ábyrgð á því að skjalið, í einni eða annarri mynd, hafi borist úr ráðuneytinu.

         Rannsókn lögreglunnar hefur leitt í ljós að umrætt skjal var vistað á opnu drifi ráðuneytisins. [...]  sendi það með tölvupósti til [...],[...] og [...][...][...] kl. 17:17 hinn 19. nóvember 2013. Auk skrifstofustjórans og lögfræðingsins sem tók minnisblaðið saman lásu tveir aðrir lögfræðingar það yfir. Í skýrslum sem lögreglan hefur tekið af þessum starfsmönnum ráðuneytisins hefur ekkert komið fram um að aðrir en þeir sem að framan greinir hafi búið yfir vitneskju um minnisblaðið. Jafnframt bendir rannsókn lögreglunnar til þess að hverfandi líkur séu á því að minnisblaðið hafi verið sent frá ráðuneytinu í tölvupóstkerfi þess.

         Varnaraðili, X, er  [...] á mbl.is sem er fjölmiðill í skilningi 13. tölulið 1. mgr. 2. gr. laga nr. 38/2011 og birtir fréttir á veraldarvefnum. Í frétt sem þar birtist kl. 10.55 hinn 20. nóvember 2013 er tekið fram að mbl.is hafi minnisblað innanríkisráðuneytisins undir höndum. Í fréttinni er farið yfir meðferð og afgreiðslu erinda A hjá Útlendingastofnun og ráðuneytinu. Þá er þar meðal annars greint frá framangreindu sambandi hans við íslenska stúlku og að ætluð barnsmóðir hans sé hugsanlega fórnarlamb mansals. Konurnar eru þó ekki nafngreindar. Enginn er skráður höfundur fréttarinnar.

         Við skýrslutöku fyrir dómi staðfesti vitnið að mbl.is hefði haft umrætt minnisblað undir höndum í annarri hvorri útgáfunni og reist fréttina á því.

         Lögmenn A og beggja kvennanna hafa lagt fram kæru vegna málsins. Rannsókn lögreglunnar beinist að háttsemi sem er refsiverð og getur varðað opinberan starfsmann allt að eins árs fangelsi samkvæmt 136. gr. almennra hegningarlaga. Feli brotið í sér misnotkun á stöðu hans getur það varðað hinn brotlega allt að tveggja ára fangelsi, sbr. 138. gr. sömu laga.

         Í a-lið 2. mgr. 119. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála kemur fram að vitni sé óheimilt, án leyfis þess sem í hlut á, að svara spurningum um hver sé höfundur eða heimildarmaður að riti, grein, frásögn eða tilkynningu sem hefur birst án þess að hann hafi verið nafngreindur, ef vitnið ber ábyrgð að lögum á efni prentaðs rits eða öðru efni sem birtist opinberlega eða það hefur öðlast vitneskju um höfund eða heimildarmann í starfi hjá ábyrgðarmanni. Ágreiningslaust er að varnaraðili er í þeirri stöðu sem lýst er í ákvæðinu.

         Samkvæmt 1. mgr. 25. gr. laga nr. 38/2011 um fjölmiðla er starfsmönnum fjölmiðlaveitu, sem hlotið hefur leyfi eða skráningu hjá fjölmiðlanefnd, óheimilt að upplýsa hver sé heimildarmaður að grein, riti, frásögn, tilkynningu eða öðru efni, hvort sem það hafi birst eða ekki, hafi heimildarmaður eða höfundur óskað nafnleyndar. Starfsmönnum er jafnframt óheimilt að láta af hendi gögn sem hafa að geyma upplýsingar um heimildarmann eða höfund í slíkum tilvikum. Í 3. mgr. sömu greinar kemur fram að þessari heimildarvernd verði einungis aflétt með samþykki viðkomandi heimildarmanns eða höfundar eða á grundvelli 119. gr. laga um meðferð sakamála.

         Varnaraðili ber bæði þessi hliðstæðu ákvæði fyrir sig. Miðað við málatilbúnað varnaraðila verður að ganga út frá því að hvorki höfundur fréttarinnar, sem birtist í mbl.is 20. nóvember 2013, né heimildarmaður fréttaveitunnar hafi veitt samþykki sitt fyrir því að varnaraðili upplýsti lögreglu um það hverjir þeir væru.

         Samkvæmt 3. mgr. 119. gr. laga nr. 88/2008 getur dómari ákveðið að vitni skuli svara spurningum um atriði, sem því væri ella óheimilt að svara samkvæmt a- til d-lið 2. mgr. 119. gr. laganna. Tvö skilyrði þurfa þá að vera uppfyllt. Í fyrsta lagi verður vitnisburðurinn að geta ráðið úrslitum um niðurstöðu máls. Hins vegar þurfa ríkari hagsmunir að vera fyrir því að spurningunum verði svarað en að trúnaður haldi.

         Við rannsókn málsins hafa komið fram vísbendingar um samskipti [...] við tvo nafngreinda starfsmenn fjölmiðla sem birtu í kjölfarið fréttir af málinu sem virðast reistar á hinu óformlega minnisblaði. Varnaraðili er ekki þar á meðal. Á hinn bóginn er hún  [...]  á fjölmiðlaveitu sem upplýst er að fékk umrætt minnisblað í hendur og reisti fréttaflutning af málinu á því. Af þeim sökum er ekki unnt að fallast á með varnaraðila að kröfu sóknaraðila sé beint að röngum aðila.

         Eins og ráða má af greinargerð sóknaraðila hefur rannsókn málsins leitt ýmislegt í ljós sem gefur vísbendingu um hver kunni að hafa átt hlut að máli. Ákærandi á mat um það hvort það, sem fram er komið við rannsókn málsins, sé nægilegt eða líklegt til sakfellis, sbr. 145. gr. laga nr. 88/2008. Sóknaraðili leitar nú eftir vitnisburði varnaraðila sem er fyrst og fremst ætlað að varpa ljósi á hver sé heimildarmaður mbl.is. Sóknaraðila er ófært að færa sönnur á að hinn óþekkti heimildarmaður sé hinn sami og framdi hið ætlaða þagnarskyldubrot. Ef fallist yrði á beiðni sóknaraðila, og í ljós kæmi að annar maður hefði látið mbl.is í té umrætt skjal, verður ætla að honum yrði gert að greina frá heimildarmanni sínum. Að þessu gættu er á það fallist með sóknaraðila að það geti ráðið úrslitum um niðurstöðu sakamálsins að varpa ljósi með hvaða hætti og frá hverjum umrætt minnisblað barst í hendur blaðamanns á mbl.is. Að þessu leyti er fullnægt áskilnaði 3. mgr. 119. gr. laga nr. 88/2008.

         Kemur þá til skoðunar hvort síðara skilyrðinu í 3. mgr. 119. gr. laga nr. 88/2008 sé fullnægt. Mat á því kallar á að dómari taki afstöðu til þess hvort vegi þyngra, að leiða hið sanna í ljós um hver hafi afhent blaðamönnum minnisblaðið, sem innihélt meðal annars persónuupplýsingar um A og konurnar tvær, eða að trúnaður haldi milli mbl.is og heimildarmanns fjölmiðilsins í samræmi við almenna reglu a-liðar 2. mgr. 119. gr. laga nr. 88/2008 og 1. mgr. 25. gr. laga nr. 38/2011.

         Í athugasemdum við 119. gr. í frumvarpi því er varð að lögum nr. 88/2008 kemur fram að við þetta hagsmunamat verði dómari annars vegar að leggja mat á trúnaðarsambandið og eðli þess og hins vegar á „alvarleika málsins“. Síðan segir orðrétt: „Því alvarlegri sem sakargiftir eru, þeim mun líklegra væri að trúnaði yrði aflétt og því ríkari sem trúnaður er, því líklegra væri að hann héldi.“ Nauðsynlegt er að taka mið af þessari leiðsögn í lögskýringargögnum við hagsmunamatið.

         Dómurinn telur enn fremur að hafa verði til hliðsjónar það sem fram kemur í athugasemdum við 25. gr. þess frumvarps er varð að lögum nr. 38/2011. Þar er á það bent að vegna meginreglu sakamálaréttarfars um að leiða beri hið sanna í ljós eftir því sem kostur séu öll frávik frá vitnaskyldu þrengri í sakamáli en í einkamáli. Því sé undanþágan frá vitnaskyldu á grundvelli heimildaverndar fjölmiðla ekki fortakslaus í sakamálum, sbr. 119. gr. laga nr. 88/2008, eins og í einkamálum, sbr. 53. gr. laga nr. 91/1991. Í umfjöllun í athugasemdunum um undanþágurnar frá heimildaverndinni, sem vikið er að í 3. mgr. 25. gr. laga nr. 38/2011, er heimildaverndin sett í samhengi við 73. gr. stjórnarskrárinnar og 10. gr. mannréttindasáttmála Evrópu um tjáningarfrelsi. Þar er gerð grein fyrir því að í dómaframkvæmd Mannréttindadómstóls Evrópu hafi verið lögð rík áhersla á það að vernd trúnaðarsambands fjölmiðlafólks og heimildarmanna þeirra „séu nauðsynlegur þáttur í tjáningarfrelsi fjölmiðla og grundvallarskilyrði fyrir því að þeir geti sinnt lýðræðislegu hlutverki sínu“. Vitnað er til stefnumarkandi dóms mannréttindadómstólsins í máli Goodwins gegn Bretlandi (dómur 27. mars 1996) þar sem fram komi að án heimildarverndarinnar kynnu heimildarmenn að forðast það að veita fjölmiðlum liðsinni við að upplýsa almenning í málum er varða almannahag (e. public intrest). Af því kynni að leiða að grafið yrði undan eftirlitshlutverki fjölmiðla (e. public-watchdog role) og dregið úr möguleikum þeirra til að miðla nákvæmum og áreiðanlegum upplýsingum. Af þessum sökum væru fyrirmæli um uppljóstrun heimilda ósamrýmanleg 10. gr. mannréttindasáttmálans nema að það sé réttlætt með mikilsverðum hagsmunum almennings (e. unless it is justified by an overriding requirement in the public interest). Því næst er dregin sú ályktun í athugasemdunum að í dómaframkvæmd mannréttindadómstólsins ráðist úrslit í flestum tilvikum af því hvort takmörkunin á vernd heimildamanna teljist nauðsynleg í lýðræðislegu þjóðfélagi. Um þá hagsmuni sem dómstóllinn hafi talið nægilega mikilsverða segir orðrétt í athugasemdunum: „Þeir hagsmunir sem dómstóllinn hefur einkum talið heimildaverndinni yfirsterkari eru að með því að aflétta heimildarverndinni verði unnt að koma í veg fyrir eða upplýsa alvarlegan glæp á borð við morð, manndráp, nauðgun, misnotkun barna, landráð eða sambærilega glæpi. Það er því ljóst að einungis í allra alvarlegustu tilvikum telur dómstóllinn koma til greina að skylda fjölmiðla til að upplýsa um heimildarmenn sína. Enn fremur hefur komið fram að það að upplýsinga sé aflað á ólögmætan hátt af hálfu heimildarmanns nægi ekki eitt sér til að rjúfa heimildarverndina sem og að yfirvöld geti ekki komist fram hjá heimildarverndinni með því að beita öðrum þvingunarúrræðum svo sem húsleit eða símhlerunum. Loks hefur glögglega komið fram að ekki skiptir máli hver heimildarmaður er eða hvaða stöðu hann gegnir. Opinberir starfsmenn njóta þannig sömu verndar og aðrir og sams konar hagsmunir þurfa að vera í húfi svo réttlætanlegt sé að víkja heimildarverndinni til hliðar þegar þeir eiga í hlut.
Ætla má að dómstólar hér á landi muni líta til sambærilegra sjónarmiða við hagsmunamat á grundvelli 3. mgr. 119. gr. laga um meðferð sakamála.“

         Nákvæm greining á dómsúrlausnum mannréttindadómstólsins gefur vísbendingu um að hér sé tekið fremur djúpt í árinni þegar því er haldið fram að einungis við rannsókn mjög alvarlegra glæpa á borð við manndráp, nauðgun og kynferðisbrot gegn börnum komi til álita að aflétta heimildaverndinni. Eftir sem áður verður af framangreindum lögskýringargögnum ráðið að sakargiftir þurfi almennt að vera alvarlegar til þess að réttlætanlegt sé að starfsmanni fjölmiðils verði gert að greina frá heimildarmanni fjölmiðilsins. Þetta helgast af almennu mikilvægi heimildarverndar fjölmiðla fyrir tjáningarfrelsi þeirra og hlutverk þeirra í lýðræðislegu samfélagi.

         Í þessu sambandi er einnig ástæða til að benda á að heimildin í 3. mgr. 119. gr. laganna tekur til trúnaðartengsla af ólíkum toga, sbr. einstaka stafliði 2. mgr. ákvæðisins. Auk tengsla milli heimildarmanna og fjölmiðlamanna nær hún einnig til trúnaðarskyldu ýmissa fagstétta, eins og endurskoðenda, félagsráðgjafa, lögmanna, lækna, presta og sálfræðinga við skjólstæðinga sína, sem og til þagnarskyldu opinberra starfsmanna. Það er til marks um mikilvægi heimildarverndarinnar að samkvæmt 53. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála er óheimilt að víkja frá henni meðan dómari getur í öðrum tilvikum og að tilteknum skilyrðum uppfylltum aflétt trúnaðarskyldum við meðferð einkamála. Löggjafinn hefur því litið svo á að af þeim trúnaðarsamböndum sem fjallað er um í 119. gr. laga nr. 88/2008 njóti vernd heimildarmanna fjölmiðla ákveðinnar sérstöðu í ljósi tjáningarfrelsisins. Ber að taka mið af því við mat á eðli trúnaðarsambandsins svo vitnað sé til fyrrgreindra athugasemda við 119. gr. frumvarpsins sem varð að lögum nr. 88/2008.

         Eins og rakið hefur verið miðar beiðni sóknaraðila að því að upplýsa ætlað brot opinbers starfsmanns á þagnarskyldu sem á honum hvíldi. Í 18. gr. laga nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins kemur fram að ríkisstarfsmanni beri að gæta þagmælsku um atriði er hann fær vitneskju um í starfi sínu og leynt skal fara samkvæmt lögum, fyrirmælum yfirmanns eða eðli máls. Til skýringar á þessari vísireglu má meðal annars líta til 9. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012 þar sem fram kemur að óheimilt sé að veita almenningi aðgang að gögnum um einkamálefni einstaklinga sem sanngjarnt og eðlilegt er að leynt fari.

         Að þessu leyti miða þagnarskyldureglur að því að vernda friðhelgi einkalífs einstaklinga. Þessi sjónarmið eiga meðal annars við um þær upplýsingar sem fram komu um A og konurnar tvær sem fjallað var um í hinu umdeilda minnisblaði. Þá miða þagnarskyldureglur að því að skapa traust þeirra sem hlut eiga að máli að stjórnvöld noti viðkvæmar upplýsingar af þessu tagi einungis í þeim málefnalega tilgangi sem þeirra er aflað. Hætt er við að málsaðilar veigruðu sér við að leggja fram réttar upplýsingar fyrir stjórnvöld ef slík skylda hvíldi ekki á opinberum starfsmönnum sem fá þær í hendur, en það gæti komið niður á almennu réttaröryggi og áreiðanleika stjórnvaldsákvarðana. Þannig er markmið þagnarskyldureglna ekki einungis að vernda friðhelgi einkalífs þeirra sem upplýsingarnar eru um, heldur tengjast þær einnig almennum markmiðum um að stjórnarathafnir séu reistar á traustum og málefnalegum grundvelli.

         Áður er vikið að því að brot opinbers starfsmanns á þagnarskyldu sem á honum hvílir getur varðað allt að eins árs fangelsi, en allt að tveggja ára fangelsi hafi brotið falið í sér misnotkun á stöðu starfsmannsins. Þegar tekið er mið af þessum viðurlögum verða sakargiftir vart taldar alvarlegar í samanburði við ýmis önnur mál. Á hinn bóginn eru mikilvægir verndarhagsmunir í húfi sem tengjast bæði friðhelgi einkalífs þeirra sem í hlut eiga og kröfum um málefnalega og vandaða stjórnsýslu eins og áður er rakið. Af þessum sökum er mikilvægt að þeir starfsmenn sem bregðast þagnarskyldu sinni séu beittir viðurlögum. Í þessu ljósi er á það fallist að ríkir hagsmunir séu tengdir því sé að upplýsa hver beri ábyrgð á því að hið óformlega minnisblað komst í hendur óviðkomandi.

         Eins og áður greinir byggist heimildaverndin samkvæmt 119. gr. laga nr. 88/2008 og 25. gr. laga nr. 38/2011 á því veigamikla hlutverki fjölmiðla að miðla upplýsingum sem erindi eiga til almennings. Sóknaraðili reisir kröfu sína um að aflétta beri þessari heimildavernd meðal annars á því að upplýsingarnar, sem verið var að miðla í frétt mbl.is, hafi ekki átt erindi við almenning. Varnaraðili er á öndverðum meiði og telur að umfjöllunin hafi átt fullt erindi við almenning. Þar sem þetta atriði verður leitt af tilgangi heimildarverndarinnar telur dómurinn að það hafi þýðingu við hagsmunamat samkvæmt 3. mgr. 119. gr. laga nr. 88/2008 að greina upplýsingarnar í þessu ljósi.

         Minnisblaðið sem um ræðir var tekið saman í tilefni af fyrirhuguðum mótmælum við meðferð stjórnvalda á A fyrir utan húsnæði innanríkisráðuneytisins. Með því var athygli fjölmiðla og almennings vakin á máli hans án þess að stjórnvöld hefðu frumkvæði að því. Í minnisblaðinu er farið yfir nokkur atriði sem fram komu í umsókn hans um hæli hér á landi frá október 2011 og sérstaklega tekið fram að hann hafi skýrt frá því undir rekstri málsins hjá Útlendingastofnun að hann hefði engin tengsl við Ísland og ætti unnustu í Kanada. Þá kemur fram í minnisblaðinu að í kæru A í maí 2012 til innanríkisráðuneytisins á ákvörðun Útlendingastofnunar, um að endursenda hann til Sviss á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar, hafi ekki verið á því byggt að hann hefði sérstök tengsl við landið auk þess sem áréttað hefði verið að hann ætti unnustu í Kanada. Þá kemur þar fram að ráðuneytið hafi kveðið upp úrskurð sinn í málinu í október 2013 þar sem ákvörðun Útlendingastofnunar hefði verið staðfest. Í minnisblaðinu er síðan greint frá því að beiðni hafi borist ráðuneytinu um frestun réttaráhrifa úrskurðarins. Helstu röksemdir beiðninnar eru reifuð í minnisblaðinu, en þar eru einkum tilgreind atriði sem eru til þess fallin að tengja A við Ísland. Meðal þessara atriða var samband hans við íslenska stúlku sem og að hann hefði verið í sambandi við barnshafandi hælisleitanda. Þá hefði hann enn stöðu grunaðs manns í sakamálarannsókn. Í minnisblaðinu er síðan vitnað beint í rökstuðning ráðuneytisins fyrir því að hafna frestun réttaráhrifa úrskurðarins. Í niðurlagi þess er að lokum bent á að konan, sem eigi von á barni, hafi borið því við að vera mansalsfórnarlamb.

         Í frétt mbl.is eru sömu efnisatriði og fram koma í minnisblaðinu rakin í meginatriðum. Með því fékkst heildstæðari mynd af málinu, sem þegar var til almennrar umfjöllunar, út frá sjónarhorni ráðuneytisins. Frá sjónarmiði fjölmiðils hlýtur afstaða ráðuneytis til þeirra atriða sem voru tilefni mótmælanna að hafa þá þýðingu að það eigi erindi til almennings. Þó verður að draga í efa að hluti upplýsinganna, sem fjallað var um í fréttinni, hafi haft slíka þýðingu, einkum umfjöllun er tengist einkalífi hælisleitandans og þeirra kvenna sem þar komu við sögu. Þegar upplýsingarnar eru aftur á móti metnar heildstætt er það álit dómsins að þær hafi átt slíkt erindi við almenning að það dragi ekki úr þýðingu heimildarverndarinnar.

         Samkvæmt því sem hér hefur verið rakið verður almennt að ganga út frá því að einungis mikilsverðir hagsmunir er lúta að rannsókn alvarlegra sakamála geti vikið til hliðar heimildarvernd samkvæmt a-lið 2. mgr. 119. gr. laga nr. 88/2008 og 25. gr. laga nr. 38/2011. Dómurinn fær ekki séð að fyrir hendi séu aðstæður í máli þessu sem dragi úr þýðingu þessarar verndar. Þó að mikilsverðir hagsmunir séu tengdir því að upplýsa það brot sem til rannsóknar er telur dómurinn varhugavert að álykta að þeir hagsmunir séu ríkari en þeir sem styðja að trúnaðurinn haldi. Þegar þessir andstæðu hagsmunir eru vegnir saman telur dómurinn því að sakargiftir í máli þessu séu ekki nógu alvarlegar til þess að varnaraðila verði gert að gefa upp heimildarmann mbl.is fyrir fréttaflutningi fjölmiðilsins 20. nóvember 2013. Sama á við um spurningu sóknaraðila um það hver sé höfundur fréttarinnar „Margt óljóst í máli hælisleitanda“.

         Varnaraðili hefur þegar svarað spurningu sóknaraðila um það hvort mbl.is hafi haft óformlegt minnisblað innanríkisráðuneytisins undir höndum er framangreind frétt var rituð og birt. Með vísan til dóms Hæstaréttar Íslands frá 2. maí 2014 í málinu nr. 255/2014 og með hliðsjón af dómi réttarins frá 10. janúar 1996 í málinu nr. 419/1995 ber að fallast á það með varnaraðila að svar við spurningu um það með hvaða hætti umrætt minnisblað hafi borist mbl.is geti varpað ljósi á hver heimildarmaður fjölmiðlaveitunnar er. Getur varnaraðili því einnig borið fyrir sig skyldu samkvæmt a-lið 2. mgr. 119. gr. laga nr. 88/2008 og 1. mgr. 25. gr. laga nr. 38/2011 varðandi þennan lið í síðari spurningunni og neitað að svara honum. Samkvæmt öllu framansögðu verður kröfu sóknaraðila hafnað.

         Varnaraðili krefst málskostnaðar. Samkvæmt 2. mgr. 125. gr. laga nr. 88/2008 getur vitni krafist þess, að fullnægðum skyldum sínum, að dómari ákveði því greiðslu vegna útlagðs kostnaðar af rækslu vitnaskyldu og þóknun fyrir atvinnumissi eins og nánar greinir í ákvæðinu. Eins og mál þetta er vaxið og með vísan til framangreinds ákvæðis þykir rétt að varnaraðili fái hæfilegan kostnað greiddan vegna aðstoðar lögmanns við rækslu vitnaskyldunnar. Þykir sá kostnaður réttilega ákveðinn 300.000 krónur og ber ákæranda að sjá til þess að hann verði greiddur úr ríkissjóði, sbr. síðari málslið 2. mgr. 125. gr. laga nr. 88/2008.

         Ásmundur Helgason héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

         Hafnað er kröfu sóknaraðila, Lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu, um að varnaraðila, X, verði gert að svara spurningunni: „Hver ritaði fréttina „Margt óljóst í máli hælisleitanda“ sem birt var á mbl.is að morgni miðvikudagsins 20. nóvember 2013, kl. 10:55?“, sem og „með hvaða hætti komst mbl.is yfir minnisblað innanríkisráðuneytisins og frá hverjum barst það?“

         Kostnaður varnaraðila vegna lögmannsaðstoðar að fjárhæð 300.000 krónur greiðist úr ríkissjóði.