Print

Mál nr. 529/2015

Ragnar Önundarson (Ragnar Baldursson hrl.)
gegn
Söfnunarsjóði lífeyrisréttinda (Óttar Pálsson hrl.)
og gagnsök
Lykilorð
  • Lífeyrisréttindi
  • Lífeyrissjóður
  • Verðtrygging
  • Eftirlaun
  • Stjórnarskrá
Reifun

R starfaði hjá IÐ hf. á árunum 1976 til ársloka 1989 þegar bankinn sameinaðist þremur öðrum bönkum og varð að ÍS hf. Við sameininguna fluttust yfir til ÍS hf. lífeyrisskuldbindingar gagnvart R vegna starfa hans hjá IÐ hf. Árið 1993 samdi R við ÍS hf. um starfskjör og var þar um að ræða nokkra breytingu frá eldri samningi hans við IÐ hf., einkum að því er varðaði verðtryggingu lífeyrisréttinda. Ágreiningur aðila laut að því með hvaða hætti reikna skyldi lífeyrisréttindi R vegna starfa hans hjá IÐ hf. R vildi miða við laun bankastjóra ÍS hf. í lok árs 2009, en ella við laun hæstaréttardómara frá sama tímamarki. S taldi á hinn bóginn að í samningnum frá árinu 1993 hefði falist að réttindin hefðu runnið saman við réttindi þau sem R hafði áunnið sér vegna starfa sinna hjá ÍS hf. með þeim hætti að grundvallarlaun til útreiknings lífeyris skyldu vera síðustu fullu mánaðarlaun hans hjá ÍS hf. fyrir töku lífeyris og taka breytingum í samræmi við launavísitölu. Í dómi Hæstaréttar kom fram að R hafði áunnið sér veruleg lífeyrisréttindi er ÍS hf. yfirtók skyldu IÐ hf. gagnvart honum við sameiningu bankanna. Nytu slík réttindi verndar 1. mgr. 72. gr. stjórnarskrárinnar. Við gerð nýs samnings við R um lífeyrisrétt hans hefði því verið brýnt að tilgreina skýrlega ef hann ætti að missa eitthvað af réttindum sínum sem hann hafði áður sérstaklega samið um og áunnið sér. Ekki yrði séð af ákvæðum samningsins frá árinu 1993 að svo hefði verið, auk þess sem nánar tilgreint minnisblað, sem ritað hafði verið á þeim tíma sem samningurinn var gerður, væri því heldur ekki til stuðnings. Var því ekki fallist á með S að áunnin lífeyrisréttindi R vegna starfa hans hjá IÐ hf. skyldu verðtryggð samkvæmt svonefndri eftirmannsreglu. Þá var ekki talið að slík tengsl væru milli þess nýja banka sem var stofnaður í október 2008 og IÐ hf. að miða bæri við laun bankastjóra ÍS hf. árið 2009 þegar metin væru ákvæði samninga R við IÐ hf. 20 árum áður og lægju til grundvallar rétti hans að þessu leyti. Var því fallist á þrautavarakröfu R um að miða bæri lífeyrisréttindi hans við laun hæstaréttardómara.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Greta Baldursdóttir og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Aðaláfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 17. ágúst 2015. Hann krefst þess að viðurkennt verði að áunnin eftirlaunaréttindi hans við yfirfærslu þeirra frá Eftirlaunasjóði starfsmanna Glitnis banka hf. til gagnáfrýjanda 31. ágúst 2010 á verðlagi 31. desember 2009 hafi aðallega verið 76,3% af launum bankastjóra Íslandsbanka hf., en til vara 76,3% af 9/10 hlutum launa hans, í báðum tilvikum eins og þau voru 31. desember 2009, auk 13,7% af síðustu launum aðaláfrýjanda sem framkvæmdastjóra hjá Íslandsbanka hf. verðtryggðum með launavísitölu frá maí 1998, eða 139,4 stig, fyrstu tvö árin frá því taka lífeyris hefst, 8,7% næstu tvö árin og 3,7% í tvö ár eftir það. Að þessu frágengnu krefst aðaláfrýjandi þess að héraðsdómur verði staðfestur. Í öllum tilvikum krefst aðaláfrýjandi þess að viðurkennt verði að réttur hans til eftirlauna sé frá 65 ára aldri hans og miðist við að lífeyrir greiðist í 12 mánuði auk eins mánaðar á ári, en til frádráttar komi áunnin lífeyrisréttindi hans í Lífeyrissjóði verslunarmanna að fjárhæð 19.531.000 krónur. Loks krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Gagnáfrýjandi skaut málinu fyrir sitt leyti til Hæstaréttar 20. ágúst 2015. Hann krefst sýknu af kröfum aðaláfrýjanda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

I

Um málavexti, málsástæður og lagarök hafa aðilar vísað til héraðsdóms, en eins og þar er lýst starfaði aðaláfrýjandi í Iðnaðarbanka Íslands hf. frá 1. júní 1976 til ársloka 1989, fyrst sem sérfræðingur í hagdeild bankans, þá sem aðstoðarbankastjóri en loks einn af þremur bankastjórum. Eftir að iðnaðarbankinn sameinaðist þremur öðrum bönkum í ársbyrjun 1990 undir heitinu Íslandsbanki hf. varð aðaláfrýjandi einn af fjórum framkvæmdastjórum þess banka uns hann hætti þar störfum í lok maí 1998. Í héraðsdómi er rakið hvernig lífeyrisskuldbindingar gagnvart aðaláfrýjanda vegna framangreindra starfa hans fluttust yfir til gagnáfrýjanda, en ágreiningur málsaðila stendur um með hvaða hætti reikna skuli lífeyrisréttindi aðaláfrýjanda vegna starfa hans hjá iðnaðarbankanum.

Í ráðningarsamningi aðaláfrýjanda við iðnaðarbankann 16. maí 1988 sagði að laun bankastjóra skyldu fylgja launum hæstaréttardómara með tilgreindum hætti, en í sérstökum samningi um eftirlaunarétt bankastjóra 10. sama mánaðar var kveðið á um að eftirlaun skyldu vera ákveðinn hundraðshluti af launum bankastjóra eins og þau væru ákveðin á hverjum tíma og nema 7,5% fyrir hvert starfsár þar til náð væri eftirlaunum sem næmu 90% af mánaðarlaunum. Átti bankastjóri rétt til að hefja töku eftirlauna eigi síðar en við lok þess árs er hann næði 65 ára aldri. Þá var tilgreint að ef kæmi til sameiningar við aðra banka skyldi hann ábyrgjast að hinn sameinaði banki yfirtæki skuldbindingar um eftirlaun samkvæmt samningnum.

Í ráðningarsamningi aðaláfrýjanda við Íslandsbanka hf. 19. desember 1989, sem eins af fjórum framkvæmdastjórum bankans, var líkt og í fyrri ráðningarsamningi við iðnaðarbankann tilgreint að mánaðarlaun aðaláfrýjanda skyldu breytast hlutfallslega í samræmi við laun hæstaréttardómara. Var jafnframt tiltekið að gera skyldi sérstakan samning um lífeyrisrétt aðaláfrýjanda eigi síðar en 30. apríl 1990 sem gilda skyldi frá ársbyrjun það ár.

Boðaður samningur var þó ekki gerður fyrr en 9. júlí 1993 og þá undir heitinu ráðningarsamningur við framkvæmdastjóra. Gildistími samningsins var sagður frá upphafi starfa aðaláfrýjanda hjá bankanum og var kveðið á um í 5. gr. að laun aðaláfrýjanda skyldu taka breytingum „í samræmi við almennar launabreytingar á hverjum tíma.“ Voru í samningnum ítarleg ákvæði um „eftirlaun“. Þannig kom fram í 1. mgr. 6. gr. hans að bankinn skyldi tryggja aðaláfrýjanda „ellilífeyri frá 65 ára aldri“ og samkvæmt 2. mgr. greinarinnar væri „fjárhæð lífeyris ... ákveðinn hundraðshluti af grundvallarlaunum“ er næmi 0,4% fyrir hvern mánuð í starfi „þó aldrei hærri en 90% fyrstu tvö árin eftir að taka hans hefst, 85% næstu tvö, 80% næstu tvö, 75% næstu tvö árin og 70% eftir það.“ Skyldu þessi grundvallarlaun „teljast síðustu fullu mánaðarlaun framkvæmdastjórans fyrir töku lífeyris, sbr. 5. gr., og ... breytast eftir það í samræmi við breytingar á launavísitölu samkvæmt útreikningi Hagstofu Íslands.“

Í 3. mgr. 6. gr. samningsins voru sérstök ákvæði um að greiðslur úr tilgreindum lífeyrissjóðum eða lífeyristryggingu kæmu „til frádráttar framangreindum tryggðum lágmarksrétti“. Þá sagði: „Aðrar eftirlaunagreiðslur, sem framkvæmdastjórinn kann að hafa áunnið sér rétt til áður en hann hóf störf í bankanum eða einhverjum af þeim bönkum sem sameinuðust í Íslandsbanka hf., koma til lækkunar á greiðslum bankans að því marki sem þær, að viðbættum áunnum réttindum skv. 2. mgr., fara fram úr hámarksgreiðslum samkvæmt þeirri málsgrein. Bankinn og framkvæmdastjórinn skulu greiða iðgjöld fyrir framangreindar tryggingar frá 1. janúar 1990 og á meðan framkvæmdastjórinn starfar sem slíkur og þar til hann hefur náð fullum eftirlaunarétti samkvæmt þessari grein í lífeyrissjóðnum. Hafi framkvæmdastjóri ekki náð 70% lífeyri skv. 2. mgr. þegar taka lífeyris hefst skal hann halda áunnu hlutfalli óbreyttu.“

Í 7. gr. samningsins voru ákvæði um að „í stað ávinnslu réttinda hjá bankanum, sbr. 6. gr.“ gæti aðaláfrýjandi valið um að greiðslur rynnu í tilgreindan lífeyrissjóð eða í aðra lífeyristryggingu og einnig um viðbótariðgjald og ráðstöfun þess. Sagði að „þegar greiðslur iðgjalda samkvæmt þessari grein hefjast skal meta þann árafjölda, sem greiða ber iðgjöld, til að fullum réttindum skv. 6. gr. verði náð. Greiðslur iðgjalda falla niður ef framkvæmdastjóri hefur náð fullum eftirlaunaréttindum samkvæmt 6. gr. Velji framkvæmdastjóri þessa leið skal meta þegar áunnin eftirlaunaréttindi hans í bankanum að frádregnum áunnum réttindum annars staðar eftir reglum 3. mgr. 6. gr. og greiða mismuninn í viðurkenndan lífeyrissjóð eða séreignasjóð. Iðgjaldagreiðslur samkvæmt þessari grein koma að öllu leyti í stað ávinnslu réttinda hjá bankanum samkvæmt 6. gr.“

Í 8. gr. samningsins var svofellt ákvæði: „Áunnin eftirlaunaréttindi, sem Íslandsbanki hf. yfirtók við samruna rekstrar bankanna í ársbyrjun 1990, teljast til áunninna réttinda hjá bankanum. Til frádráttar þeim koma áður áunnin réttindi í öðrum lífeyrissjóðum eða lífeyristryggingum.“

Loks var í 13. gr. samningsins svokallað sérákvæði þar sem sagði: „Þegar framkvæmdastjórinn hóf störf hjá bankanum hinn 1. janúar 1990 hafði hann áunnið sér rétt til 76,3% eftirlauna hjá Iðnaðarbanka Íslands hf., en bankinn yfirtók þá skuldbindingu gagnvart honum að frádregnum þeim lífeyrisrétti, sem framkvæmdastjórinn hafði áunnið sér hjá öðrum lífeyrissjóðum, sem sá banki hafði greitt iðgjöld í. Þrátt fyrir ákvæði 2. mgr. 6. gr., verður eftirlaunaréttur framkvæmdastjórans aldrei lægri en það hlutfall af launum, sem hann hafði áunnið sér rétt til hinn 1. janúar 1990, eða 76,3% af launum“.

Hinn 7. október 2008 ákvað Fjármálaeftirlitið með heimild í 100. gr. a. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, sbr. 5. gr. laga nr. 125/2008 að taka yfir vald hluthafafundar Íslandsbanka hf., er þá bar heitið Glitnir banki hf., og skipa honum skilanefnd. Á grundvelli heimildar í þeim lögum tók Fjármálaeftirlitið þá ákvörðun 14. október 2008 að flytja nánar tilgreindar eignir og skuldbindingar Glitnis banka hf. til nýs banka sem nú ber heitið Íslandsbanki hf.

II

Ekki er ágreiningur milli málsaðila um að viðurkenna beri að aðaláfrýjandi eigi rétt til eftirlauna frá gagnáfrýjanda frá 65 ára aldri og að lífeyri skuli greiða fyrir 12 mánuði á ári, að viðbættri aukagreiðslu einu sinni á ári er nemi fjárhæð einnar mánaðargreiðslu. Einnig skuli áunnin lífeyrisréttindi aðaláfrýjanda í Lífeyrissjóði verslunarmanna að fjárhæð 19.531.000 krónur dregin frá lífeyrisrétti hans hjá gagnáfrýjanda. Þá er hvorki deilt um að aðaláfrýjanda beri lífeyrisréttur sem nemur 13,7% af síðustu launum sem framkvæmdastjóri Íslandsbanka hf., verðtryggðum með tilteknum hætti, né að aðaláfrýjandi hafi áunnið sér lífeyrisréttindi sem námu 76,3% af viðmiðunarlaunum áður en hann tók við starfi framkvæmdastjóra hjá Íslandsbanka hf. í byrjun árs 1990.

Stendur einungis eftir ágreiningur um við hvaða laun skuli miða þegar reiknuð eru út „76,3% af launum“ samkvæmt 13. gr. samningsins 9. júlí 1993. Vill aðaláfrýjandi miða við laun bankastjóra Íslandsbanka hf. í lok árs 2009, en ella við laun hæstaréttardómara frá sama tímamarki. Gagnáfrýjandi telur á hinn bóginn að í samningnum hafi falist að réttindi sem aðaláfrýjandi hafði áunnið sér vegna starfa sinna hjá Iðnaðarbanka Íslands hf. hafi runnið saman við réttindi þau sem hann ávann sér vegna starfa sinna hjá Íslandsbanka hf. með þeim hætti að áðurnefnd grundvallarlaun til útreiknings lífeyris skyldu vera síðustu fullu mánaðarlaun hans hjá síðarnefnda bankanum fyrir töku lífeyris og taka breytingum í samræmi við launavísitölu.

Í yfirlýsingu endurskoðanda og tryggingafræðings 28. maí 2009, sem komu að gerð samningsins 9. júlí 1993 fyrir hönd Íslandsbanka hf., sagði að samningurinn hafi átt að tryggja að launaviðmið til ákvörðunar lífeyrisréttar aðaláfrýjanda vegna fyrri starfa hjá Iðnaðarbanka Íslands hf. skyldi fylgja launum hæstaréttardómara með tilgreindum álögum, en ekki launavísitölu. Einungis hafi átt að miða við launavísitölu vegna lífeyrisréttar sem aðaláfrýjandi ynni til í starfi hjá Íslandsbanka hf. frá 1. janúar 1990. Um þetta vísuðu þeir til minnisblaðs endurskoðandans 15. júní 1993 undir heitinu „grunnhugmyndir að eftirlaunasamningum við bankastjórn“. Þar sagði meðal annars: „Nýir samningar taka gildi með nýjum ávinnsluákvæðum, en rétturinn var hins vegar mismunandi í hinum ýmsu bönkum ... Menn halda þeim réttindum, sem þeir hafa áunnið sér. Þeir sem ekki höfðu náð fullum réttindum við sameininguna ávinna sér viðbótarrétt eftir ákvæðum hins nýja samnings.“ Endurskoðandinn staðfesti framangreint fyrir dómi, en tryggingafræðingurinn var þá látinn.

Aðaláfrýjandi hafði áunnið sér veruleg lífeyrisréttindi er Íslandbanki hf. yfirtók skyldur Iðnaðarbanka Íslands hf. gagnvart honum við sameiningu bankanna árið 1990. Njóta slík réttindi verndar 1. mgr. 72. gr. stjórnarskrárinnar. Við gerð nýs samnings við aðaláfrýjanda um lífeyrisrétt hans var því brýnt að tilgreina skýrlega ef hann átti að missa eitthvað af réttindum sínum sem hann hafði áður sérstaklega samið um og áunnið sér, en ekki var um að ræða almennar breytingar er sneru að réttindum allra félaga þess lífeyrissjóðs er aðaláfrýjandi tilheyrði. Af þeim ákvæðum samningsins 9. júlí 1993 sem að framan eru rakin, einkum 8. gr. og hinum svokölluðu sérstöku ákvæðum 13. gr. sem áttu að taka til þess atriðis, verður ekki séð að svo hafi verið og er framangreint minnisblað, sem ritað var á þeim tíma sem samningurinn var gerður, því heldur ekki til stuðnings. Að þessu gættu verður staðfest sú niðurstaða héraðsdóms að með samningnum 9. júlí 1993 hafi ekki verið hróflað við eldra viðmiði um að þegar áunnin lífeyrisréttindi aðaláfrýjanda vegna starfa hans hjá Iðnaðarbanka Íslands hf. skyldu verðtryggð samkvæmt svonefndri eftirmannsreglu þannig að þau yrðu „ákveðinn hundraðshluti af bankastjóralaunum, eins og þau eru á hverjum tíma“ svo sem kveðið hafði verið á um í samningi hans við bankann 10. maí 1988.

Að framan eru rakin afdrif þess banka er aðaláfrýjandi starfaði hjá er hann öðlaðist hin umþrættu réttindi er gagnáfrýjandi yfirtók. Standa ekki rök til þess að telja slík tengsl vera milli þess nýja banka sem var stofnaður í október 2008 og Iðnaðarbanka Íslands hf. að miða beri við laun bankastjóra fyrrgreinda bankans þegar metin eru ákvæði tveggja samninga aðaláfrýjanda við iðnaðarbankann 20 árum áður og liggja til grundvallar rétti hans að þessu leyti. Samkvæmt þessu verður einnig fallist á með héraðsdómi að líta verði til þess viðmiðs sem aðaláfrýjandi miðar þrautavarakröfu sína við, enda er það, eins og málið er lagt upp, eina leiðin til að finna nú hver viðmiðunarlaunin gætu hafa orðið.  

Samkvæmt öllu framansögðu verður hinn áfrýjaði dómur staðfestur.

Eftir þessum úrslitum er rétt að hvor aðila beri sinn kostnað af rekstri málsins fyrir Hæstarétti.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Málkostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 20. maí 2015.

                Mál þetta höfðaði Ragnar Önundarson, kt. [...], með stefnu birtri 29. apríl 2014 á hendur Söfnunarsjóði lífeyrisréttinda, Borgartúni, 29, Reykjavík.  Málið var dómtekið að lokinni aðalmeðferð 22. apríl sl. 

                Stefnandi krefst þess aðallega að viðurkennt verði að áunnin lífeyrisréttindi hans við yfirfærslu þeirra frá Eftirlaunasjóði starfsmanna Glitnis banka hf. til stefnda þann 31. ágúst 2010 á verðlagi 31. desember 2009 hafi verið 76,3% af launum banka­stjóra Íslandsbanka hf. eins og þau voru 31. desember 2009, auk 13,7% af síðustu launum stefnanda sem framkvæmdastjóra hjá Íslandsbanka hf., verðtryggðum með launavísitölu frá maí 1998 (139,4 stig), fyrstu tvö árin frá því að taka lífeyris hefst, 8,7% næstu tvö árin og 3,7% í tvö ár eftir það. 

                Til vara krefst stefnandi þess að viðurkennt verði með dómi að áunnin eftir­launaréttindi hans við yfirfærslu þeirra frá Eftirlaunasjóði starfsmanna Glitnis banka hf. til stefnda þann 31.8.2010 á verðlagi 31. desember 2009 hafi verið 76,3% af 9/10 hluta launa bankastjóra Íslandsbanka hf. eins og þau voru 31. desember 2009, auk 13,7% af síðustu launum stefnanda sem framkvæmdastjóra hjá Íslandsbanka hf. verð­tryggðum með launavísitölu frá maí 1998 (139,4 stig) fyrstu tvö árin frá því að taka lífeyris hefst, 8,7% næstu tvö árin og 3,7% í tvö ár eftir það. 

                Til þrautavara krefst stefnandi þess að viðurkennt verði með dómi að áunnin eftirlaunaréttindi hans við yfirfærslu þeirra frá Eftirlaunasjóði starfsmanna Glitnis banka hf. til stefnda þann 31.8.2010 á verðlagi 31. desember 2009 hafi verið 76,3% af launum hæstaréttardómara auk 17% álags og 25% viðbótarálags á launin þannig reiknuð eins og þau laun voru í lok árs 2009 auk 13,7% af síðustu launum stefnanda sem framkvæmdastjóra hjá Íslandsbanka hf. verðtryggðum með launavísitölu frá maí 1998 (139,4 stig) fyrstu tvö árin frá því að taka lífeyris hefst, 8,7% næstu tvö árin og 3,7% í tvö ár eftir það.

                Þá er þess í öllum tilvikum krafist að stefnandi eigi rétt til eftirlauna frá 65 ára aldri og að lífeyrir greiðist í 12 mánuði auk eins mánaðar á ári. 

                Þess er jafnframt krafist að viðurkennd verði skylda stefnda til að þola yfir­færslu réttinda stefnanda frá Eftirlaunasjóði starfsmanna Glitnis banka hf. til sín eins og þau hafi verið áunnin og viðurkennd 31. desember 2009 með öllum þeim réttindum og skyldum sem fylgdu réttindum annarra sjóðsfélaga Eftirlaunasjóðs starfsmanna Glitnis banka hf. er tekin voru yfir af stefnda. 

                Alls ofangreinds er krafist gegn því að stefnandi uni því að áunnin lífeyris­réttindi hans í Lífeyrissjóði verslunarmanna að fjárhæð kr. 19.531.000 verði dregin frá heildarlífeyrisrétti hans og að stefnandi uni því að réttindi hans verði flutt frá Eftir­launasjóði starfsmanna Glitnis banka hf. til stefnda.

                Loks krefst stefnandi málskostnaðar. 

                Stefndi krefst sýknu af kröfum stefnanda og málskostnaðar að mati dómsins. 

                Hér á eftir verður Íslandsbanki nefndur oftsinnis og er þá átt við banka með því nafni sem hóf starfsemi 1990 og er nú til slitameðferðar. 

                Stefnandi starfaði í Iðnaðarbanka Íslands hf. frá 1. júní 1976 til ársloka 1989.  Var hann fyrst sérfræðingur í hagdeild bankans, síðan forstöðumaður hagdeildar, þá aðstoðarbankastjóri og loks bankastjóri.  Á þessum tíma ávann stefnandi sér eftir­launarétt samkvæmt ráðningarsamningi sínum við bankann. 

                Í stefnu segir að stefnandi hafi í fyrstu áunnið sér 2% lífeyrishlutfall á ári.  Þessara kjara hafi hann notið í 41 mánuð og áunnið sér þannig 6,833% lífeyrisrétt.  Hann hafi verið aðstoðarbankastjóri frá árinu 1979 og bankastjóri frá því í ágúst 1984.  Á tímabilinu sem hann gegndi starfi aðstoðarbankastjóra var hann um langt skeið stað­gengill bankastjóra, sem var forfallaður.  Hafði hann áunnið sér lífeyrisréttindi sem námu 76,3% af viðmiðunarlaunum, þegar hann tók við starfi framkvæmdastjóra hjá Íslandsbanka í byrjun árs 1990.  Stefndi mótmælir ekki þessum útreikningi stefnanda. 

                Í samningi sem stefnandi og aðrir bankastjórar Iðnaðarbankans gerðu við bankann 10. maí 1988 var eftirlaunaréttur þeirra skýrgreindur.  Almenna reglan samkvæmt 1. gr. var sú að eftirlaunaréttur yrði virkur í lok þess mánaðar er 65 ára aldri væri náð.  Eftirlaunin skyldu nema tilteknu hlutfalli bankastjóralauna eins og þau yrðu á hverjum tíma, allt að 90%.  Í 7. gr. samnings þessa sagði að ef kæmi til sameiningar bankans við aðra banka ábyrgðist bankinn að hinn sameinaði banki yfir­tæki skuldbindingar samkvæmt samningnum. 

                Laun bankastjóra á þessum tíma voru ákveðin eins og laun hæstaréttardómara með tilteknu álagi, auk aukagreiðslna og fríðinda, en skrifað var undir sérstakan ráðningarsamning við stefnanda þann 16. maí 1988. 

                Í ársbyrjun 1990 var rekstur fjögurra banka sameinaður með því að eignir þeirra og skuldir voru lagðar fram sem hlutafjáraukning í Útvegsbanka Íslands hf. og nafni hans breytt í Íslandsbanki.  Stefnandi heldur því fram að lífeyrisskuldbinding bankans við hann hafi verið reiknuð og dregin frá þeim verðmætum sem komu í hlut eigenda Iðnaðarbankans. 

                Stefnandi varð einn af fjórum framkvæmdastjórum Íslandsbanka frá 1. janúar 1990.  Laun hans námu 90% af launum bankastjóra, en þau voru ákveðin eins og áður eftir launum hæstaréttardómara.  Það breyttist á árinu 1993. 

                Í ráðningarsamningi stefnanda við Íslandsbanka var ekki neitt ákvæði um eftir­laun eða lífeyrisréttindi.  Í sérstakri bókun var tekið fram að bankaráð og stefnandi skyldu gera sérstakan samning um lífeyrisrétt sem skyldi gilda frá 1. janúar 1990. 

                Nýr ráðningarsamningur var undirritaður 9. júlí 1993.  Í 6. gr. hans var ákvæði um eftirlaun.  Ekki er nauðsynlegt að reifa þau ákvæði þar sem aðilar eru sammála um hvaða réttindi stefnandi ávann sér samkvæmt þessum samningi.  Í 6. gr. sagði að fjár­hæð lífeyris væri ákveðinn hundraðshluti af grundvallarlaunum.  Þau voru skýrgreind sem „síðustu fullu mánaðarlaun framkvæmdastjórans fyrir töku lífeyris, sbr. 5. gr., og skulu þau breytast eftir það í samræmi við breytingar á launavísitölu samkvæmt út­reikningi Hagstofu Íslands“. 

                Í 8. gr. samningsins sagði:  „Áunnin eftirlaunaréttindi, sem Íslandsbanki yfirtók ... teljast til áunninna réttinda hjá bankanum.“ 

                Í 13. gr. samnings stefnanda var sérákvæði.  Þar segir: 

                Þegar framkvæmdastjórinn hóf störf hjá bankanum hinn 1. janúar 1990 hafði hann áunnið sér rétt til 76,3% eftirlauna hjá Iðnaðarbanka Íslands hf., en bankinn yfirtók þá skuldbindingu gagnvart honum að frádregnum þeim lífeyrisrétti, sem framkvæmdastjórinn hafði áunnið sér hjá öðrum lífeyrissjóðum, sem sá banki hafði greitt iðgjöld í.

                Þrátt fyrir ákvæði 2. mgr. 6. gr. verður eftirlaunaréttur framkvæmdastjórans aldrei lægri en það hlutfall af launum, sem hann hafði áunnið sér rétt til hinn 1. janúar 1990, eða 76,3% af launum og reiknast makalífeyrir ...

                Þetta ákvæði má segja að sé þungamiðja ágreinings aðila.  Hér er samið um minni réttindaávinnslu en í samningi stefnanda við Iðnaðarbankann og aðra viðmiðun um verðtryggingu réttindanna. 

                Í stefnu er lýst aðdragandanum að þessari samningsgerð.  Hafði endur­skoðanda bankans verið falið að leggja fram hugmyndir að eftirlaunasamningum bankastjórnar.  Lagði hann fram minnisblað dags. 15. júní 1993, sem stefnandi segir að hafi orðið grunnur að samningum, m.a. áðurnefndum samningi við hann sjálfan. 

                Á minnisblaðinu er lýst þeirri meginhugmynd að frá sameiningu bankanna í Íslandsbanka eigi eftirlaunaréttindi að ávinnast með saman hætti hjá allri banka­stjórninni.  Tekið er fram að rétturinn hafi verið mismunandi í hverjum banka.  Í 3. tl. segir:  „Menn halda þeim réttindum, sem þeir hafa áunnið sér.  Þeir sem ekki höfðu náð fullum réttindum við sameininguna ávinna sér viðbótarrétt eftir ákvæðum hins nýja samnings.“  Verðtrygging réttinda er ekki nefnd á minnisblaðinu. 

                Þessar skuldbindingar Íslandsbanka voru skömmu síðar fluttar í eftirlauna­sjóðinn sem áður var nefndur.  Greiddi bankinn fé til sjóðsins í samræmi við útreikning tryggingastærðfræðings á skuldbindingunum. 

                Stefnandi hætti störfum hjá Íslandsbanka 31. maí 1998.  Hann telur að hann hafi áunnið sér eftirlaunarétt er nemi 40,4% af launum maímánaðar 1998. 

                Stefnandi kveðst ekki hafa fengið neinar upplýsingar um réttindi sín hjá eftirlaunasjóðnum fyrr en í janúar 2007 er Talnakönnun hf. reiknaði réttindi hans að beiðni sjóðsins.  Í því bréfi kom fram að réttindin miðuðust við laun stefnanda og vísi­tölu í maí 1998.  Þá kom fram að lífeyrir skyldi greiddur í 13 mánuði á ári. 

                Þann 30. desember 2008 ritaði stefnandi eftirlaunasjóðnum bréf þar sem hann m.a. setti fram kröfu um að sjóðurinn viðurkenndi að hann ætti rétt til eftirlauna sem næmu 82% af launum bankastjóra Íslandsbanka (þá Nýja Glitnis banka) eins og þau væru á hverjum tíma. 

                Þessu bréfi stefnanda var svarað með bréfi lögmanns fyrir hönd sjóðsins, dags. 16. febrúar 2009.  Þar kemur fram sú afstaða að réttindi stefnanda frá tíma hans í Iðnaðarbankanum og réttindin sem hann ávann sér í Íslandsbanka rynnu í eitt og að grundvallarlaun til útreiknings lífeyris skyldu vera síðustu fullu mánaðarlaun stefnanda fyrir töku lífeyris, framreiknuð samkvæmt launavísitölu. 

                Stefnandi var ósáttur við þessa afstöðu sjóðsins og aflaði sér minnisblaðs þeirra Ólafs Nilssonar endurskoðanda og Bjarna Þórðarsonar tryggingafræðings, sem komu að gerð samninga um eftirlaun og lífeyrisréttindi eftir stofnun Íslandsbanka á árinu 1990.  Þeir lýsa þeirri skoðun sinni að launaviðmið til ákvörðunar lífeyrisréttar stefnanda vegna starfs hans sem bankastjóri og aðstoðarbankastjóri í Iðnaðar­bankanum skyldu vera laun hæstaréttardómara með tilgreindum álögum.  Réttindi sem hann hefði aflað sér í starfi hjá Íslandsbanka ættu að reiknast sem hlutfall af launum hans í apríl 1998, verðtryggð samkvæmt launavísitölu. 

                Aðilar lögðu ágreining sinn í gerð samkvæmt samþykktum sjóðsins.  Gerðar­dómur vísaði málinu frá sér með dómi 20. nóvember 2009.  Taldi dómurinn að Glitnir banki hefði þurft að eiga aðild að málinu, en eftirlaunasjóðurinn viðurkenndi ekki að hann bæri allar þær skyldur sem bankinn hefði tekið á sig.  Þar sem stefndi í þessu máli mótmælir því ekki að hann beri allar þær skyldur sem bankinn tók á sig, þarf ekki að reifa nákvæmlega hvernig staðið var að yfirtöku eftirlaunasjóðsins á skuld­bindingum Íslandsbanka á árinu 1993.  Er þetta rakið ítarlega í stefnu.  Stefnandi lýsti í kjölfar gerðardómsins kröfu í slitabú Glitnis banka.  Kveðst hann hafa gert það til öryggis ef ekki yrði viðurkennt að eftirlaunasjóðurinn hefði yfirtekið allar lífeyris­skuldbindingar bankans. 

                Stefnandi lýsti enn fremur kröfu eftir innköllun vegna sameiningar eftirlauna­sjóðsins og stefnda.  Stjórn sjóðsins hafnaði kröfu stefnanda að svo stöddu með bréfi dags. 2. nóvember 2010.  Stefnandi mótmælti þeirri afstöðu með bréfi 10. nóvember 2010. 

                Ekki er nauðsynlegt að rekja bréfaskipti aðila nánar.  Fram koma upplýsingar um að stefndi hafi lagt 150 milljónir króna í varasjóð til að mæta kröfu stefnanda um aukin lífeyrisréttindi.  Þá eru rakin bréfaskipti eftirlaunasjóðsins og starfsmanna Talnakönnunar, sem stefnandi telur sýna að fram til 2007 hafi sjóðurinn haft sama skilning á eftirlaunaréttindum hans og þeir Ólafur Nilsson og Bjarni Þórðarson. 

                Stefndi mótmælir því ekki að eftirlaunasjóðurinn, sem sameinast hefur stefnda, hafi yfirtekið allar lífeyrisskuldbindingar Íslandsbanka gagnvart stefnanda. 

                Málsástæður og lagarök stefnanda

                Um aðalkröfu

                Í fyrri lið aðalkröfu byggir stefnandi á því að lífeyrisréttindi sem hann ávann sér hjá Iðnaðarbankanum skuli reiknuð samkvæmt eftirmannsreglu allt þar til þau voru flutt frá Eftirlaunasjóði starfsmanna Glitnis banka til stefnda.  Þá krefst hann þess að viðurkennt verði að þessi réttindi nemi 76,3% af launum bankastjóra Íslandsbanka hf.  Hann segir að eftirlaunasjóðurinn hafi tekið yfir eftirlaunaskuldbindingu Íslandsbanka.  Hafi þar verið færð nákvæmlega sama skuldbinding og hafði áður verið færð af Iðnaðarbankanum til Íslandsbanka. 

                Stefnandi byggir á því að í starfi hjá Iðnaðarbankanum hafi hann áunnið sér 6,833% eftirlaunarétt sem sérfræðingur og forstöðumaður og 76,3% rétt sem banka­stjóri.  Þessi réttindi hafi eftirlaunasjóðurinn tekið á sig og fengið fullt verð fyrir.  Þá hafi verið skráð í bækur sjóðsins að réttindin væru verðtryggð samkvæmt eftirmanns­reglu.  Kveðst stefnandi byggja bæði á þessari skráningu og ráðningarsamningi sínum.  Því byggir stefnandi á því að eftirlaunaréttindi sem hann ávann sér hjá Iðnaðarbankanum skuli verðtryggð samkvæmt eftirmannsreglu. 

                Eftirlaunasjóðurinn hafi túlkað réttindi stefnanda á þennan hátt allt frá 1993 og fram á seinni hluta árs 2006.  Þá hafi hann breytt réttindunum einhliða með nýrri túlkun á ráðningarsamningi stefnanda.  Hafi hann þá viljað að öll eftirlaunaréttindi stefnanda skyldu miðast við síðustu laun hans í starfi hjá Íslandsbanka og uppfærast samkvæmt launavísitölu.  Segir stefnandi að sér hafi ekki verið tilkynnt um þessa breyttu afstöðu sjóðsins. 

                Stefnandi segir að það hafi ekki verið nefnt einu orði í samningnum við Íslandsbanka að verið væri að breyta áunnum réttindum eða að stefnandi væri að afsala sér réttindum.  Skýrt hafi verið tekið fram að bankinn hafi yfirtekið áunnin réttindi. 

                Stefnandi byggir á því að í ráðningarsamningnum hafi falist yfirtaka á skyldum, en ekki hafi verið samið um breytingu á réttindum stefnanda.  Eigi að breyta verðtryggingunni sé verið að skerða áunninn lífeyrisrétt hans afturvirkt.  Eftirlauna­réttindin hafi átt að flytjast til eftirlaunasjóðsins og varðveitast þar óskert.  Ljóst sé að gerður hafi verið skýr greinarmunur á eldri réttindum og þeim réttindum sem stjórnendur Íslandsbanka áunnu sér eftir að hann var stofnaður.  Vísar stefnandi um þessi atriði til minnisblaðs Ólafs Nilssonar endurskoðanda og Bjarna Þórðarsonar tryggingastærðfræðings. 

                Stefnandi telur að lífeyrisréttindi sín og réttur sinn til verðtryggingar þeirra samkvæmt eftirmannsreglunni séu varin af 72. gr. stjórnarskrárinnar.  Þau verði ekki af honum tekin nema með breytingu sem væri almenn og tæki til allra sjóðfélaga.  Hann hafi ekki afsalað sér þessum réttindum. 

                Stefnandi krefst þess að eftirlaunaréttindin sem hann ávann sér í Iðnaðar­bankanum skuli miðast við laun bankastjóra Íslandsbanka í desember 2009.  Sameining eftirlaunasjóðsins og stefnda hafi verið miðuð við stöðu eigna og skuld­bindinga á þeim degi.  Íslandsbanki sem nú starfi tengist Iðnaðarbankanum sterkum böndum.  Þá eigi ekki að miða við lægra settan starfsmann, eða starfsmann sem gegni sambærilegri stöðu og hann sjálfur hjá Íslandsbanka.  Það felist í eftirmannsreglunni að miða eigi við hæstu stöðu, sbr. 9. mgr. 6. gr. samþykkta eftirlaunasjóðsins.  Laun bankastjóra Íslandsbanka hafi verið 1.750.000 krónur í desember 2009. 

                Um seinni lið aðalkröfu segir stefnandi að hann hafi í starfi hjá Íslandsbanka áunnið sér upp í 90% eftirlaunarétt, frá 76,3% sem hann hafði þegar áunnið sér.  Þessi réttindi lúti öðrum lögmálum en fyrri réttindi.  Ellilífeyrisréttindi yrðu aldrei hærri en 90%.  Ellilífeyrir yrði 90% fyrstu tvö árin eftir að greiðsla hans hæfist, 85% næstu tvö árin og svo koll af kolli niður í 70%.  Í 13. gr. samningsins er sérákvæði um að eftirlaunarétturinn í tilviki stefnanda færi þó aldrei niður fyrir 76,3%.  Þá hafi verið áréttað í ráðningarsamningnum að áunnin eftirlaunaréttindi sem Íslandsbanki yfirtók í ársbyrjun 1990 teldust til áunninna réttinda í bankanum.  Þau réttindi sem stefnandi hafi áunnið sér í starfi hjá Íslandsbanka eigi að reiknast í samræmi við skilning eftirlaunasjóðsins á þeim. 

                Um varakröfu

                Varakrafa er sambærileg aðalkröfu nema hvað að þar er miðað við að áunnin réttindi í Iðnaðarbankanum skuli miðast við 90% af launum bankastjóra Íslandsbanka.  Rök fyrir þessu séu þau að laun framkvæmdastjóra hjá bankanum hafi numið 90% af launum bankastjóra.  Eigi að miða þessi réttindi við laun í því starfi sem hann gegndi síðast þá eigi að reikna þau með þessum hætti en ekki eins og stefndi vilji gera. 

                Um þrautavarakröfu

                Í þrautavarakröfu er byggt á sömu atriðum og í aðalkröfu, fyrir utan það að réttindin frá Iðnaðarbankanum verði miðuð við laun hæstaréttardómara auk tilgreinds álags.  Það sé lágmarkskrafa að miðað skuli við þau launakjör sem stefnandi naut er hann ávann sér eftirlaunaréttindin.  Grunnlaun hæstaréttardómara hafi í desember 2009 verið 806.230 krónur.  Uppreiknuð samkvæmt ráðningarsamningnum væri launaviðmiðunin 1.179.111 krónur. 

                Annað

                Kröfu um 8,33% álag byggir stefnandi á því að svokallaður 13. mánuður hafi ávallt verið greiddur, þótt hans sé hvergi getið í kjara- eða ráðningarsamningum.  Þetta hafi eftirlaunasjóðurinn viðurkennt fyrir gerðardóminum. 

                Að eftirlaunaaldur sé 65 ár byggir stefnandi á ráðningarsamningum sínum.  Þetta sé enn fremur viðurkennt af stefnda.

                Stefnandi reiknar kröfur sínar miðað við 31. desember 2009, en þann dag hafi stefndi tekið á sig skuldbindingar eftirlaunasjóðsins. 

                Stefnandi kveðst krefjast þess að viðurkennd verði skylda stefnda til að yfir­færa réttindi stefnanda eins og þau hafi verið 31. desember 2009, þar sem nauðsynlegt sé að þeim fylgi öll viðbótarréttindi, eins og t.d. réttur til hlutfallslegrar úthlutunar af umframeignum eftirlaunasjóðsins og réttur til að breyta 20% af áunnum eftirlauna­réttindum í séreignarsparnað. 

                Um málskostnaðarkröfu sína tekur stefnandi fram að eftirlaunasjóðurinn hefði getað komið í veg fyrir að gerðardómur sem fjallaði um ágreining aðila vísaði málinu frá sér.  Hefði hann veitt gerðardóminum réttar upplýsingar um meðferð lífeyris­réttinda stefnanda og stöðu eftirlaunasjóðsins gagnvart Glitni banka hefði hann getað komið í veg fyrir að niðurstaðan yrði sú og þar með getað sparað höfðun þessa máls.  Stefndi sé aðili að þessu máli eftir að hann tók yfir öll réttindi og skyldur eftirlauna­sjóðsins. 

                Málsástæður og lagarök stefnda

                Stefndi byggir á því að ekki verið ráðið af ráðningarsamningi stefnanda við Íslandsbanka að áunninn eftirlaun hans skyldu taka mið af launum Íslandsbanka eins og þau voru 31. desember 2009.  Samningurinn mæli fyrir um að fjárhæð lífeyris skuli vera ákveðinn hundraðshluti af grundvallarlaunum.  Hugtakið grundvallarlaun merki síðustu fullu mánaðarlaun framkvæmdastjórans fyrir töku lífeyris.  Þá skuli þau breytast í samræmi við breytingar á launavísitölu. 

                Stefndi mótmælir því ekki að Íslandsbanki hafi í ársbyrjun 1990 tekið á sig lífeyrisskuldbindingu Iðnaðarbankans gagnvart stefnanda.  Þau eftirlaunaréttindi hans hafi talist til áunninna réttinda hjá Íslandsbanka samkvæmt 8. gr. ráðningarsamnings stefnanda.  Með sérákvæði í 13. gr. samningsins sé hins vegar ákveðið hvað í þessu felist.  Þar sé vísað til þess að stefnandi hafi áunnið sér rétt til 76,3% eftirlauna hjá Iðnaðarbankanum, sem stefnandi hafi yfirtekið. Eftirlaunaréttur hans verði aldrei lægri en það hlutfall sem hann hafði þá áunnið sér.  

                Stefndi byggir á því að með ráðningarsamningi stefnanda hjá Íslandsbanka hafi verið samið um breytingu á verðtryggingarviðmiðun eftirlaunaréttinda sem hann hafði þá þegar áunnið sér.  Samið hafi verið um að verðtrygging yrði framvegis samkvæmt launavísitölu, en ekki eftir launum bankastjóra Iðnaðarbankans.  Sú staða hafi verið lögð niður þegar ráðningarsamningurinn var gerður.  Það sé langsótt, ef ekki óhugsandi, að stefnandi og Íslandsbanki hafi gert samning um lífeyrisréttindi í júlí 1993 og ákveðið að eftirlaun skyldu ráðast af launum fyrir starf sem lagt hafði verið niður.  Hafi aðilar ætlað að miða við laun bankastjóra Íslandsbanka hefðu þeir tekið það fram í samningnum. 

                Stefndi mótmælir því sem röngu og ósönnuðu að við fjármögnun eftirlauna­sjóðsins hafi hann fengið greiðslu frá bankanum vegna stefnanda sem tekið hafi mið af kröfugerð hans nú.  Fjármögnun sjóðsins hafi byggst á útreikningum á heildar­skuldbindingum hans á tryggingafræðilegum forsendum.  Ekkert í gögnum málsins bendi til þess að þar hafi verið gert ráð fyrir „bankastjóralaunum“ vegna stefnanda.  Þetta myndi heldur ekki ráða úrslitum.  Vísar hann annars til upplýsinga frá trygginga­stærðfræðingi eftirlaunasjóðsins, en þar komi fram að í útreikningi á skuldbindingum vegna Ragnars hafi verið miðað við laun framkvæmdastjóra í bankanum þegar hann lét af störfum.  Tekur hann fram að útreikningur tryggingafræðings skapi stefnanda ekki stjórnarskrárvarin eignarréttindi. 

                Stefndi mótmælir því sem segir í stefnu að eftirlaunasjóðurinn hafi breytt eftirlaunaréttindum stefnanda einhliða seinni hluta árs 2006 eða í ársbyrjun 2007 með nýrri túlkun á ráðningarsamningnum. 

                Stefndi mótmælir því að unnt væri að miða við laun bankastjóra nýja Íslands­banka, sem stofnaður var í október 2008, þótt fallist yrði á að mismunandi reglur giltu um verðtryggingu hinna eldri réttinda stefnanda. 

                Þá heldur stefndi því fram að eftirlaunaréttindi samkvæmt samningnum við Iðnaðarbankann hafi verið takmörkuð við 90% af bankastjóralaunum.  Ekki sé tekið tillit til þessa í aðalkröfu stefnanda.  Þá taki stefnandi ekki tillit til frádráttarliða samkvæmt samningnum, sem séu víðtækari en frádráttarliðir í samningnum við Íslandsbanka.  Stefnandi velji þau ákvæði samningsins sem séu honum hagstæð, en líti fram hjá öðrum sem takmarki rétt hans.  Því sé ekki unnt að taka kröfu hans til greina. 

                Stefndi mótmælir því að unnt sé að miða eftirlaun stefnanda við laun hæstaréttardómara.  Samningur stefnanda við Iðnaðarbankann hafi sagt að miða ætti við bankastjóralaun á hverjum tíma.  Þar hafi laun hæstaréttardómara ekki verið nefnd.  Ekki fái staðist að laun bankastjóra hefðu ætíð verið við þau miðuð.  Nú hafi staða þessa bankastjóra verið lögð niður og viðmiðun eftirlaunasamningsins því ekki til staðar lengur. 

                Stefndi mótmælir sönnunargildi minnisblaðs um lífeyrisréttindi stefnanda, sem Bjarni Þórðarson og Ólafur Nilsson rituðu og er dagsett 28. maí 2009.  Þessa blaðs hafi stefnandi aflað eftir að ágreiningur reis milli aðila. 

                Loks vísar stefndi til sömu málsástæðna gegn þrautavarakröfu og getið er að framan um aðal- og varakröfu stefnanda. 

                Stefndi vísar til meginreglna samninga- og kröfuréttar, einkum meginreglna um stofnun krafna, skuldbindingargildi samninga og túlkun. 

                Niðurstaða

                Stefnandi krefst viðurkenningar eftirlaunaréttinda með ákveðnum hundraðs­hluta af ákveðinni fjárhæð og viðurkenningar á því að greiða skuli 13 mánaðar­greiðslur á hverju ári.  Stefndi krefst sýknu af kröfum stefnanda.  Með öðrum orðum krefst hann þess að því verði hafnað að viðurkennd verði með dómi tiltekin réttindi stefnanda.  Þetta gefur ekki nákvæma mynd af ágreiningi aðila.  Stefndi viðurkennir að stefnandi eigi talsverð réttindi.  Ágreiningur stendur einungis um við hvaða laun réttindin í fyrri hluta kröfugerðar stefnanda skuli miðast og hvernig þau séu verð­tryggð.  Aðilar eru sammála um að eftirlaun stefnanda skuli nema 76,3% af þeirri fjár­hæð sem hér verður komist að niðurstöðu um, auk 13,7% af síðustu launum hans sem framkvæmdastjóra hjá Íslandsbanka, verðtryggðum með tilteknum hætti. 

                Hin umdeildu réttindi ávann stefnandi sér í starfi hjá Iðnaðarbankanum til árs­loka 1989.  Um þau var samið í sérstökum samningi um eftirlaun bankastjóra bankans, dags. 16. maí 1988.  Réttindin eru í samningnum kölluð eftirlaun, en ekki lífeyrir.  Þau áttu að nema ákveðnum hundraðshluta af bankastjóralaunum eins og þau væru á hverjum tíma. 

                Í árslok 1989 hætti stefnandi störfum hjá Iðnaðarbankanum og hóf störf sem framkvæmdastjóri hjá Íslandsbanka.  Í ráðningarsamningi, dags. 19. desember 1989, var sérstök bókun þar sem sagði að gera skyldi sérstakan samning um lífeyrisrétt sem skyldi gilda frá 1. janúar 1990.  Það var ekki gert fyrr en 9. júlí 1993, en þá var gerður nýr ráðningarsamningur.  Þar sagði í 6. gr. að bankinn tryggði stefnanda eftirlaunarétt, ellilífeyri frá 65 ára aldri sem væri ákveðinn hundraðshluti af grundvallarlaunum.  Grundvallarlaun teldust síðustu fullu mánaðarlaun fyrir töku lífeyris, sem breyttust í samræmi við breytingar á launavísitölu. 

                Hér liggur ágreiningur aðila.  Stefndi telur að öll eftirlaunaréttindi stefnanda skuli reiknast samkvæmt þessu ákvæði ráðningarsamningsins frá 1993, en stefnandi vill reikna réttindi frá starfstíma sínum í Iðnaðarbankanum samkvæmt eftirlauna­samningnum frá 1988. 

                Þau ákvæði samningsins sem hér reynir á eru annars vegar 5. mgr. 6. gr. og hins vegar 8. gr. 

                Í 5. mgr. 6. gr. segir:  „Aðrar eftirlaunagreiðslur sem framkvæmdastjórinn kann að hafa áunnið sér rétt til áður en hann hóf störf í bankanum eða einhverjum af þeim bönkum sem sameinuðust í Íslandsbanka hf., koma til lækkunar á greiðslum bankans að því marki sem þær, að viðbættum áunnum réttindum skv. 2. mgr., fara fram úr hámarksgreiðslum samkvæmt þeirri málsgrein.“ 

                Í 8. gr. segir:  „Áunnin eftirlaunaréttindi, sem Íslandsbanki hf. yfirtók við sam­runa rekstrar bankanna í ársbyrjun 1990, teljast til áunninna réttinda hjá bankanum.“

                Í fyrrgreinda ákvæðinu er mælt fyrir um frádrátt eftirlaunagreiðslna sem stefnandi kann að hafa áunnið sér áður en hann hóf störf í Íslandsbanka eða Iðnaðar­bankanum, sé þetta skýrt eftir orðanna hljóðan.  Er raunar ekkert sem styður aðra skýringu en að eftirlaunaréttindi stefnanda frá Iðnaðarbankanum og Íslandsbanka skuli reiknuð saman þegar kemur til frádráttar annarra réttinda.  Ákvæði 8. gr. felur ekki annað í sér en skýrgreiningu á hugtakinu áunnin réttindi í samningnum.  Í því felst ekki sérstök efnisregla. 

                Við þessa athugun samningsákvæða má bæta að í ráðningarsamningi stefnanda segir að semja skuli sérstaklega um lífeyrisréttindi og að sá samningur skuli, eins og áður segir, gilda frá 1. janúar 1990.  Ætlun aðila með þessu ákvæði hefur verið að ákveða að samræmd eftirlaunaréttindi skyldu gilda frá þeim degi sem Íslandsbanki hóf starfsemi.  Þar með væri hætt réttindaávinnslu samkvæmt eldri samningum. 

                Í samningi aðila frá 9. júlí 1993 er efni eldri eftirlaunaréttinda stefnanda ekki skýrgreint.  Einungis eru settar tilteknar reglur um áhrif hinna eldri réttinda á réttindi sem ávinnast hjá Íslandsbanka.  Ekki er unnt að skýra samninginn svo að verðtrygging eldri réttinda stefnanda skyldi fara eftir reglum samningsins.  Í honum er ekki kveðið á um efni hinna eldri réttinda, einungis hvaða áhrif þau hafa á ný réttindi sem ávinnast myndu hjá Íslandsbanka.  Verður því að viðurkenna kröfu stefnanda um eftirlauna­réttindi sem nema 76,3% af launum. 

                En þá þarf að leysa úr því við hvaða laun skuli miða útreikning þessa hluta eftirlauna stefnanda.  Hann krefst þess aðallega að miðað verði við laun bankastjóra Íslandsbanka hf eins og þau voru 31. desember 2009.  Í samningi stefnanda og Iðnaðarbankans frá árinu 1988 segir að miða skuli við laun bankastjóra.  Verður að skýra ákvæðið svo að átt hafi verið við bankastjóra Iðnaðarbankans.  Rekstri Iðnaðar­bankans var hætt í árslok 1989 er rekstur hans var sameinaður rekstri annarra banka í Íslandsbanka.  Í október 2008 var skipuð skilanefnd yfir Íslandsbanka og síðar slita­stjórn.  Var nýr banki stofnaður sem tók yfir talsvert af eignum og skuldum gamla bankans.  Stefnandi miðar aðal- og varakröfu sína við laun bankastjóra þessa nýja banka.  Ekki er fallist á að það sé heimilt.  Talsverður munur er á stærð bankanna og þess einnig að gæta að stefnandi var annar tveggja bankastjóra, en Íslandsbanka stýrir einn bankastjóri. 

                Eftirlaunasamningur stefnanda og annarra bankastjóra Iðnaðarbankans var gerður sama dag og ráðningarsamningur stefnanda sem bankastjóra.  Laun hans voru þá ákveðin eftir launum hæstaréttardómara með tilteknum viðbótum.  Því er ekki haldið fram að þessari viðmiðun hafi verið breytt áður en stefnandi hætti störfum í Iðnaðarbankanum og hóf störf í Íslandsbanka.  Laun hæstaréttardómara voru á þessum tíma ákveðin af kjaradómi, sem var óháður gerðardómur.  Þau eru nú ákveðin af kjara­ráði, sem einnig er óháður úrskurðaraðili.  Launin skulu breytast í samræmi við launa­þróun í landinu, sbr. nú 8. gr. laga nr. 47/2006.  Þykir stefnandi eiga rétt til þess að fá viðurkennd eftirlaunaréttindi sem miðist við þessi laun eins og hann krefst til þrauta­vara. 

                Stefndi telur að stefnandi hafi ekki tekið tillit til þess að eftirlaunaréttindi hafi verið takmörkuð við 90% af bankastjóralaunum.  Stefnandi gerir einmitt ekki kröfu um hærra hlutfall en 90% af fullum launum, en það var hámark eftirlauna samkvæmt eftirlaunasamningi hans við Iðnaðarbankann. 

                Öðrum þáttum í kröfugerð stefnanda er ekki mótmælt.  Fallist verður því á síðari lið viðurkenningarkröfu stefnanda um eftirlaunaréttindi sem hann ávann sér í starfi hjá Íslandsbanka.  Þá verður viðurkennt að greiða skuli eftirlaunin fyrir 13 mánuði á hverju ári. 

                Ekki er nauðsynlegt að mæla fyrir um skyldu stefnanda til að þola yfirtöku stefnda á skyldum bankanna og eftirlaunasjóðsins.  Í dóminum er veitt viðurkenning ákveðinna réttinda stefnanda gagnvart stefnda.  Krafa um viðurkenningu réttinda og skyldu sem fylgt hafi réttindum annarra sjóðsfélaga Eftirlaunasjóðs starfsmanna Glitnis banka er tekin hafi verið yfir af stefnda, er hins vegar of óákveðin og ekki tengd ákveðnum tilgreindum réttindum og verður henni vísað frá dómi. 

                Stefnda verður gert að greiða stefnanda 1.350.000 krónur í málskostnað.  Hefur þá verið tekið tillit til virðisaukaskatts. 

                Jón Finnbjörnsson héraðsdómari kveður upp dóm þennan. 

D ó m s o r ð

                Framangreindri kröfu um viðurkenningu réttinda og skyldu er vísað frá dómi. 

                Viðurkennt er að áunnin eftirlaunaréttindi stefnanda, Ragnars Önundarsonar, við yfirfærslu þeirra frá Eftirlaunasjóði starfsmanna Glitnis banka hf. til stefnda, Söfnunarsjóðs lífeyrisréttinda, þann 31. ágúst 2010 á verðlagi 31. desember 2009 hafi verið 76,3% af launum hæstaréttardómara auk 17% álags og 25% viðbótarálags á launin þannig reiknuð eins og þau voru í lok árs 2009, auk 13,7% af síðustu launum stefnanda sem framkvæmdastjóra hjá Íslandsbanka hf. verðtryggðum með launavísitölu frá maí 1998 (139,4 stig) fyrstu tvö árin frá því að taka lífeyris hefst, 8,7% næstu tvö árin og 3,7% í tvö ár eftir það. 

                Viðurkennt er að stefnandi eigi rétt til eftirlauna frá 65 ára aldri og að lífeyri skuli greiða fyrir 12 mánuði á ári, að viðbættri aukagreiðslu árlega er nemi sömu fjárhæð og ein mánaðargreiðsla. 

                Lífeyrisréttindi stefnanda í Lífeyrissjóði verslunarmanna, að fjárhæð 19.531.000 krónur, skulu dregin frá lífeyrisrétti hans hjá stefnda. 

                Stefndi greiði stefnanda 1.350.000 krónur í málskostnað.