Print

Mál nr. 207/2015

Ákæruvaldið (Sigríður J. Friðjónsdóttir ríkissaksóknari)
gegn
X (Gísli Guðni Hall hrl.)
Lykilorð
  • Frestur
  • Tafir á meðferð máls
  • Niðurfelling máls
Reifun

Með dómi í héraði var X sýknaður af ákæru fyrir fjárdrátt, en til vara umboðssvik, og var dóminum áfrýjað af hálfu ákæruvaldsins. Eftir afhendingu málsgagna til Hæstaréttar fékk ákæruvaldið frest til 24. ágúst 2016 til að skila greinargerð til réttarins. Rétturinn framlengdi frestinn að ósk ákæruvaldsins til 14. september sama ár og aftur þann dag til 21. sama mánaðar. Ekki var óskað eftir frekari framlengingu á frestinum, en greinargerð barst 26. september 2016 og því ekki innan þess frests sem veittur hafði verið. Í kjölfarið krafðist X þess að málið yrði af þessum sökum aðallega fellt niður fyrir Hæstarétti, en því að öðrum kosti vísað frá dómi. Í dómi Hæstaréttar kom fram að ekki væru fyrirmæli í lögum nr. 88/2008 um meðferð sakamála um hverju það varðaði að ákæruvaldið léti hjá líða að skila til Hæstaréttar greinargerð í tilviki, þar sem héraðsdómi væri áfrýjað af þess hendi, innan frests sem rétturinn hefði sett í því skyni. Með hliðsjón af dómi Hæstaréttar í máli nr. 644/2007 var talið að leggja mætti þessa stöðu að jöfnu við það að útivist yrði af hendi ákæruvaldsins í þinghaldi í máli. Rakið var að þegar málsgögnin bárust Hæstarétti hefðu verið liðin meira en ellefu ár frá ætluðu broti, nærri átta ár frá upphafi rannsóknar og rúmir sautján mánuðir frá því að ríkissaksóknari gaf út áfrýjunarstefnu til að fá hnekkt héraðsdómi um sýknu X. Að virtu ákvæði 1. mgr. 171. gr. laga nr. 88/2008 um að hraða skuli meðferð máls eftir föngum, sbr. einnig 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar, var talið að þessar gífurlegu og óútskýrðu tafir á málinu hefðu gefið enn ríkari ástæðu en endranær til þess að rekstur málsins færi ekki frekar úr skorðum hvað málshraða varðaði. Samkvæmt framansögðu og í ljósi þess að vanræksla ákæruvaldsins um skil á greinargerð hefði ekki verið réttlætt, var fallist á kröfu X um að málið yrði fellt niður fyrir Hæstarétti.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Viðar Már Matthíasson og Þorgeir Örlygsson.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 4. mars 2015. Í greinargerð af hálfu ákæruvaldsins, sem barst réttinum 26. september 2016, er þess krafist að ákærði verði sakfelldur samkvæmt ákæru og dæmdur til refsingar.

Ákærði krefst á þessu stigi aðallega að málið verði fellt niður, en ella að því verði vísað frá Hæstarétti.

Samkvæmt ákvörðun réttarins var málið munnlega flutt um þessa kröfu ákærða.

I

Með ákæru sérstaks saksóknara 28. október 2013 var ákærða aðallega gefið að sök að hafa á nánar tiltekinn hátt gerst 25. apríl 2005 sekur um fjárdrátt í starfi sínu sem formaður stjórnar [...], sbr. 1. mgr. 247. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, en til vara umboðssvik, sbr. 249. gr. sömu laga. Með hinum áfrýjaða dómi, sem kveðinn var upp 18. febrúar 2015, var ákærði sýknaður af sakargiftunum.

Eins og að framan greinir var dóminum áfrýjað af hálfu ákæruvaldsins 4. mars 2015. Með bréfi ríkissaksóknara til Hæstaréttar 13. sama mánaðar var tilkynnt um ósk ákærða um verjanda fyrir réttinum og jafnframt tiltekið hver myndi fara með málið af hálfu ákæruvaldsins. Með bréfi sama embættis til réttarins 24. febrúar 2016 var svo tilkynnt um breytingu á því hver færi með málið fyrir ákæruvaldið. Samkvæmt gögnum málsins bárust ríkissaksóknara 19. ágúst 2015 dómsgerðir frá héraðsdómi, en málsgögn í þeim búningi, sem kveðið er á um í 2. mgr. 202. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála og reglum nr. 600/2014, bárust Hæstarétti 9. ágúst 2016.

Með bréfi réttarins síðastgreindan dag var ríkissaksóknara veittur frestur til 24. ágúst 2016 til að afhenda greinargerð samkvæmt 1. mgr. 203. gr. laga nr. 88/2008. Með bréfi þann dag fór saksóknari við embætti ríkissaksóknara, sem samkvæmt áðursögðu hafði í febrúar 2016 verið falið að sækja málið hér fyrir dómi, fram á að fresturinn yrði framlengdur til 14. september sama ár. Til skýringar á þeirri ósk vísaði saksóknarinn til þess að hann hafi mætt til vinnu eftir sumarleyfi í vikunni þar á undan og þyrfti hann „að frumlesa málsgögnin“. Varð Hæstiréttur við þessari beiðni 26. ágúst 2016. Á lokadegi hins nýja frests óskaði saksóknarinn öðru sinni eftir því að hann yrði framlengdur, í þetta sinn um eina viku eða til 21. september 2016. Hæsiréttur varð samdægurs við þeirri beiðni. Greinargerð ákæruvaldsins barst á hinn bóginn sem fyrr segir 26. september 2016 og því ekki innan þess frests sem veittur hafði verið.

Ákærði bar upp við Hæstarétt 27. september 2016 áðurgreinda kröfu um að málið yrði af þessum sökum aðallega fellt niður hér fyrir dómi, en því að öðrum kosti vísað frá Hæstarétti.

II

Samkvæmt 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar ber sérhverjum þeim, sem borinn er sökum um refsiverða háttsemi, réttur til að fá úrlausn um ákæru á hendur sér innan hæfilegs tíma. Í samræmi við þessa meginreglu segir í 1. mgr. 171. gr. laga nr. 88/2008 að hraða skuli meðferð máls eftir föngum og gildir það jafnt í héraði og fyrir Hæstarétti, sbr. 210. gr. laganna. Þá er í 3. mgr. 18. gr. sömu laga kveðið á um að ákærendum beri að hraða meðferð mála eftir því sem kostur er, en sama skylda hvílir á þeim, sem rannsaka sakamál, sbr. 2. mgr. 53. gr. þeirra.

Eftir 1. mgr. 152. gr. laga nr. 88/2008 höfðar ákærandi sakamál með útgáfu ákæru. Hann getur allt fram til uppkvaðningar dóms afturkallað ákæru, sbr. 2. mgr. 153. gr. sömu laga, og skal þá fella mál niður, sbr. b. lið 1. mgr. 170. gr. laganna. Áður en lög nr. 88/2008 tóku gildi var ekki kveðið á um það í lögum hverju það varðaði ef ekki væri sótt þing af hálfu ákæruvaldsins við meðferð máls í héraði. Með 160. gr. laga nr. 88/2008 var gerð breyting á þessu, en þar er mælt svo fyrir að sæki ákærandi ekki þing verði ekkert aðhafst í máli frekar á því stigi og skuli dómari ákveða nýtt þinghald sem ákæranda skal tilkynnt um. Sæki ákærandi heldur ekki þing í það sinn beri að fella málið niður.

Samkvæmt 202. gr. laga nr. 88/2008 skal ríkissaksóknari þegar áfrýjun héraðsdóms er ráðin afla dómsgerða vegna máls, búa til málsgögn í samráði við verjanda ákærða og afhenda þau síðan Hæstarétti ásamt dómsgerðum. Í 1. mgr. 203. gr. laganna er kveðið á um að þegar málsgögn hafa verið afhent skuli Hæstiréttur veita þeim aðila sem áfrýjað hefur tiltekinn frest til að skila skriflegri greinargerð og gögnum sem hann kann enn að telja vanta og hann hyggst byggja mál sitt á. Þegar greinargerð og gögn hafa borist skuli gagnaðila veittur frestur til að skila greinargerð og gögnum af sinni hálfu. Ekki er tekið fram hvaða afleiðingar það hafi ef sá aðili, sem áfrýjað hefur héraðsdómi, lætur hjá líða að skila greinargerð innan tilskilins frests. Í 1. mgr. 157. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála segir á hinn bóginn að láti áfrýjandi undir höfuð leggjast að afhenda Hæstarétti greinargerð verði ekki frekar af máli. Í almennum athugasemdum með frumvarpi sem varð að lögum nr. 88/2008 var tekið fram að óþarft þætti að mæla fyrir um ýmsar almennar reglur réttarfars í lögum um meðferð sakamála. Samkvæmt því bæri að forðast að gagnálykta frá ákvæðum laganna á þann veg að ekki skyldi beita ákvæðum laga nr. 91/1991.

III

Sem fyrr segir eru ekki fyrirmæli í lögum nr. 88/2008 um hverju það varði að ákæruvaldið láti hjá líða að skila til Hæstaréttar greinargerð í tilviki, þar sem héraðsdómi er áfrýjað af þess hendi, innan frests sem rétturinn hefur sett í því skyni samkvæmt 1. mgr. 203. gr. laganna. Með hliðsjón af dómi Hæstaréttar 8. maí 2008 í máli nr. 644/2007 verður að líta svo á að þessa stöðu megi leggja að jöfnu við það að útivist verði af hendi ákæruvaldsins í þinghaldi í máli. Samkvæmt 160. gr. laga nr. 88/2008 verður útivist af hálfu ákæruvaldsins til þess að dómur ákveður nýtt þinghald og tilkynnir það ákæranda, en verði útivist af hans hendi á ný skuli mál fellt niður. Við beitingu þessarar reglu í tilviki, þar sem ákæruvaldið hefur ekki skilað til Hæstaréttar greinargerð innan frests sem er settur í því skyni, verður þó að virtum áðurnefndum dómi að setja það skilyrði að af hálfu ákæruvaldsins hafi ekki orðið ítrekuð eða óréttlætt vanræksla um skil á greinargerð.

Eins og áður greinir var ákærði sýknaður með héraðsdóminum, sem til endurskoðunar er í málinu. Dóminum var áfrýjað af hálfu ákæruvaldsins. Að baki reglu 1. mgr. 171. gr. laga nr. 88/2008 um að hraða skuli meðferð sakamáls eftir föngum, sbr. 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar, býr það öðru fremur að sakaður maður megi treysta því að sá tími, sem líður frá því að rannsókn hefst og þar til máli lýkur, dragist ekki óþarflega á langinn af ástæðum sem honum er ekki um að kenna. Ætlað brot ákærða á að hafa verið framið 25. apríl 2005. Rannsókn málsins mun eiga rót sína að rekja til fundar saksóknara efnahagsbrotadeildar ríkislögreglustjóra og skattrannsóknarstjóra ríkisins 29. janúar 2009. Í framhaldi af þeim fundi sendi sá síðarnefndi gögn til efnahagsbrotadeildarinnar og rannsókn málsins hófst í kjölfar þess. Lögregluskýrsla var þó fyrst tekin af ákærða 21. janúar 2011. Rannsókn á ætluðu broti hófst því um það bil fjórum árum eftir að það átti að hafa verið framið. Engin skýring er fram komin á því hvers vegna ákæra var ekki gefin út fyrr en 28. október 2013, rúmum fjórum árum eftir upphaf rannsóknar. Mál þetta dróst jafnframt úr hömlu hjá ákæruvaldinu eftir að héraðsdómur var upp kveðinn 18. febrúar 2015 og dómsgerðir afhentar því og þar til málsgögnum var skilað til Hæstaréttar 9. ágúst 2016. Ákæruvaldið hefur ekki veitt haldbærar skýringar á því hvers vegna það tók svo langan tíma að útbúa málsgögn og skila þeim til Hæstaréttar. Þegar málsgögnin loks bárust réttinum voru liðin meira en ellefu ár frá ætluðu broti, nærri átta ár frá upphafi rannsóknar og rúmir sautján mánuðir frá því að ríkissaksóknari gaf út áfrýjunarstefnu til að fá hnekkt héraðsdómi um sýknu ákærða. Þessar gífurlegu og óútskýrðu tafir á málinu gáfu enn ríkari ástæðu en endranær til þess að rekstur málsins færi ekki frekar úr skorðum hvað málshraða varðar.

 Eftir skil málsgagna fékk ákæruvaldið sem fyrr segir frest til 24. ágúst 2016 til að skila greinargerð fyrir Hæstarétti. Rétturinn framlengdi frestinn að ósk ákæruvaldsins til 14. september 2016 og aftur þann dag til 21. sama mánaðar. Ekki var óskað eftir frekari framlengingu á frestinum, en greinargerð barst ekki innan hans. Því fer fjarri að þessi vanræksla ákæruvaldsins um skil á greinargerð hafi verið réttlætt. Samkvæmt þessu verður fallist á kröfu ákærða um að málið verði fellt niður fyrir Hæstarétti.

Leggja verður allan áfrýjunarkostnað málsins á ríkissjóð, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, sem ákveðin verða að meðtöldum virðisaukaskatti eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Málið er fellt niður.

Allur áfrýjunarkostnaður málsins greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, Gísla Guðna Hall hæstaréttarlögmanns, 620.000 krónur.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 18. febrúar 2015

Árið 2015, miðvikudaginn 18. febrúar, er á dómþingi Héraðsdóms Reykjavíkur, sem háð er í Dómhúsinu við Lækjartorg af Guðjóni St. Marteinssyni héraðsdómara, kveðinn upp dómur í málinu nr. S-1031/2013: Ákæruvaldið gegn X en málið var dómtekið 29. f.m.

                Málið er höfðað með ákæru sérstaks saksónara, dagsettri 28. október 2013, á hendur:

                ,,X,         

  kt. [...],

  með lögheimili í [...]

aðallega fyrir fjárdrátt með því að hafa 25. apríl 2005, í starfi sínu sem stjórnarformaður [...], kt. [...] (nú [...]), dregið sér af fjármunum [...] 2.875.000.000 íslenskra króna sem hann ráðstafaði til [...], kt. [...] (nú [...]). Nánar tiltekið lét ákærði 22. apríl 2005 millifæra 46.500.000 bandaríkjadali af bankareikningi [...] nr. 002-1006036216 í útibúi Danske Bank í New York í Bandaríkjunum inn á bankareikning [...] nr. 401301 í Kaupthing Bank Luxembourg S.A., sem ákærði hafði látið stofna 17. apríl 2005, en samkvæmt sérstöku umboði, sem barst síðastnefndum banka 20. apríl 2005, hafði ákærði fullt og ótakmarkað umboð til ráðstafana á fjármunum félagsins á þeim bankareikningi. Hinn 25. apríl 2005 var 45.864.241,84 bandaríkjadölum skipt yfir í 2.875.000.000 íslenskra króna í gjaldeyrisviðskiptum á áðurnefndum reikningi [...] í Kaupthing Bank Luxembourg S.A. Sama dag lét ákærði millifæra 2.875.000.000 króna af sama bankareikningi yfir á bankareikning [...] nr. 401098 í sama banka en ráðstöfunin var ekki í þágu [...] eða hluti af lögskiptum félagsins. Millifærslan var framkvæmd án vitundar, og þar með samþykkis, þáverandi forstjóra, fjármálastjóra og annarra meðlima í stjórn [...] en ákærða. Sama dag var fjárhæðinni skipt yfir í 260.889.292,20 danskar krónur og 375.000.000 danskra króna millifærðar af sama reikningi [...] yfir á bankareikning þáverandi eiganda [...].

Til vara fyrir umboðssvik með því að hafa með framangreindri háttsemi misnotað þá aðstöðu sem hann fékk í krafti umboðs til ráðstöfunar á fjármunum [...] á bankareikningi félagsins nr. 401301 í Kaupthing Bank Luxembourg S.A. og valdið [...] verulegri fjártjónshættu með einhliða ráðstöfun fjármuna félagsins til [...] án þess að gera nokkrar ráðstafanir til að tryggja hagsmuni [...] en ráðstöfunin var ekki þáttur í viðskiptum félagsins.

Háttsemi ákærða telst aðallega varða við 1. mgr. 247. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, en til vara við 249. gr. sömu laga.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.

Röksemdir sem málsóknin er byggð á, sbr. d-lið 1. mgr. 152. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.“

Verjandi ákærða krefst sýknu og að allur sakarkostnaður, þar með talin málsvarnarlaun, verði greidd úr ríkissjóði.

Samkvæmt gögnum málsins má rekja upphaf málsins til 29. janúar 2009 er lögreglan fundaði með skattrannsóknarstjóra vegna rannsóknar á ætluðum skattalagabrotum ákærða. Rannsóknarvinnu í kjölfarið er lýst í gögnum málsins en teknar voru skýrslur af ákærða og fjölda vitna undir rannsókninni. Ekki þykir ástæða til að rekja hana frekar hér.

Nú verður rakinn framburður ákærða og vitnisburður fyrir dómi.

Ákærði neitar sök. Hann kvaðst ekki skilja hvers vegna hann sæti ákæru vegna atviks sem hann kannist ekki við og ekkert fjártjón hefði hlotist af. Hann kvaðst engar skýringar hafa fengið á því hvernig hann ætti að hafa gerst brotlegur við lög. Hann tók fram að hann hefði aldrei gefið fyrirmæli um ráðstöfun fjármuna [...] af reikningi félagsins í Kaupthing Bank Luxembourg S.A. (KBL) til handa [...]. Þá kvað hann yfirlit málsins sýna að [...] hefði ekki fengið fjármuni beint frá [...] og ákærði hefði aldrei fengið í hendur yfirlit frá bankanum um slíka ráðstöfun fjárins. Ákærði kvað gögn sem ákæruvaldið leggi til grundvallar ákæru vera innanhússgögn og vinnugögn frá KBL. Þau gögn geti ekki verið bindandi gagnvart [...]. Þá greindi ákærði frá hagsmunum sínum á þessum tíma vegna eignarhalds síns á [...]. Hann kvaðst í apríl 2005 og fram á sumar það ár hafa verið stærsti hluthafi félagsins með um 30% hlutafjár. Hann greindi frá markaðsvirði félagsins á þessum tíma og í því sambandi hagsmunum sínum sem hann hefði teflt í tvísýnu með háttseminni sem honum er gefin að sök samkvæmt ákæru. Hann kvað hagsmuni sína og hagmuni félagsins hafa farið saman og hann skilji ekki hvernig nokkrum detti í hug að hann hefði viljað stofna fjármunum [...] í hættu eins og ákært sé fyrir og að láta millifæra peninga út í loftið án skjala, lánasamninga eða skuldaviðurkenninga. Hann kvaðst hafa aukið hlut sinn í félaginu hinn 21. júní 2005 og spurði hvers vegna hann hefði átt að auka hlut sinn í félaginu á sama tíma og hann ynni því tjón af ásetningi. Ákærði kvaðst aldrei hafa haft neina hagsmuni af rekstri [...] eða afkomu þess félags og vísaði ákærði í þessu sambandi til röksemdakafla ákæru þar sem segir að ekki verði séð að ákærði hafi á þeim tíma eða öðrum haft nokkur formleg tengsl við starfsemi [...]. Ákærði tók fram að samkvæmt ákærunni hafi millifærslan sem um ræðir átt sér stað hinn 25. apríl 2005 en þess sé ekki getið í ákærunni að reikningurinn sem um ræðir hafi verið samþykktur til opnunar af KBL hinn 27. sama mánaðar eða tveimur dögum síðar. Ákærði bar að hafi millifærslan af reikningi [...] til [...] hinn 25. apríl 2005 átt sér stað væri það á ábyrgð bankans. Starfsmönnum bankans hafi verið óheimilt að millifæra fjármuni af reikningi sem ekki hafi verið samþykktur til opnunar af bankanum. Hann kvaðst þannig ekki koma þessum hlutum saman og ekki skilja hvernig millifærslan á að hafa getað gerst. Hann kvað hafa verið lagðan fyrir sig fjölda skjala frá árinu 2005 undir rannsókn málsins sem hann á að hafa undirritað. Ákærði kvaðst hafa marglýst því við rannsókn málsins að hann myndi ekki nú hvort hann undirritaði þessi 10 ára gömlu skjöl, auk þess sem hann telji skjölin ekki tengjast sakarefninu. Ákærði kvað svo virðast sem ákæruvaldið geri sér grein fyrir þessu þar sem í greinargerð til Hæstaréttar vegna kæru um frávísun málsins segi: „Af lágmarksathugun á gögnum málins má sjá að nákvæmar upplýsingar um atvik kringum millifærsluna, t.d um hvernig og hverjum ákærði gaf fyrirmæli um að framkvæma hana, komu ekki fram með óyggjandi hætti við rannsókn málsins.“ Ákærði kvað þetta rétt. Ekkert undir rannsókn málsins hafi leitt í ljós fyrirmæli um þessi atriði frá sér. Ákærði kvað fjármuni [...] hafa verið flutta af reikningi í KBL til ávöxtunar. Það hefði verið gert með vitneskju allra helstu stjórnanda [...] og [...], þar á meðal A, B, C, D og E. Hugmyndir um að ákærði hefði talið sig geta látið fjármuni félagsins hverfa sé út í hött. Notkun fjárins sem um ræðir hafi verið rekjanleg og hún ekki getað horfið. Þá kvað ákærði KBL fyrir löngu síðan hafa staðfest að fjármunirnir hefðu verið félaginu til reiðu allan tímann. Vísaði ákærði í þessu sambandi til staðfestingar KBL til endurskoðanda [...] frá 16. mars 2006 en þar senda þeir F og G, sem báðir voru framkvæmdarstjórar KBL á þessum tíma staðfestingu þess að fjármunirnir á reikningi [...] hafi verið til reiðu til úttektar hvenær sem er. Þetta sé staðfesting þess að engin fyrirmæli um millifærslu hafi borist.

Ákærði kvað reikningsskilmála KBL kveða á um það að svokölluð Account Statement, eða reikningsyfirlit væru tæmandi lýsingu á viðskiptum viðkomandi reikningseiganda við bankann kæmi ekki fram athugasemd innan 30 daga eins og kveðið er á um í reikningsskilmálunum. Komi færsla ekki fram á Aaccount Statement þá sé hún ekki bindandi fyrir viðskiptavin. Hann kvað enga færslu fjármuna frá [...] til [...] koma fram á reikningsyfirlitum KBL til [...] vegna bankareikningsins sem um ræðir. Ákærði taldi málatilbúnað ákæruvaldsins þannig byggðan á misskilningi eða mistökum. Hann kvað ákæruvaldið byggja á öðrum gögnum en þeim sem voru bindandi fyrir [...] enda hafi félagið ekki verið bundið af öðrum færslum en þeim sem fram komu á reikningsyfirlitum sem að ofan voru nefnd.

Ákærði var starfandi stjórnarformaður [...] á þeim tíma sem í ákæru greinir. Vísaði hann í fundargerð stjórnarfundar [...] frá 17. janúar 2005. Um hlutverk sitt vísaði hann í fundargerðina þar sem segir að hann eigi að „einbeita sér að útrás og viðskiptaþróun félagsins“. Hann lýsti starfi sínu sem starfandi stjórnarformanns en [...] hafi verið almenningshlutafélag sem skráð var á markað. Ákærði kvaðst ekki vita um nein tengsl eða samstarf [...] og [...] eða af gagnkvæmum lánaveitingum.

Ákærði kvað hafa verið tilkynnt 14. mars 2005 að [...] hefði í hyggju að kaupa [...]. Ákærði hefði eins og aðrir heyrt þetta í fréttum. Hann lýsti umróti á flugmarkaði í Skandinavíu á þessum tíma og því er það mál var rætt á stjórnarfundi [...] hinn 11. apríl 2005. Hann mundi ekki til þess að komið hefði til skoðunar innan [...] að félagði tæki þátt í kaupum [...] á [...].

Ákærði var spurður hvers vegna fjármunirnir voru millifærðir af reikningi [...] á reikning [...] hinn 25. apríl 2005 eins og lýst er í ákærunni. Vísaði ákærði í framburð sinn hér að framan um að engin slík bindandi millifærsla hefði átt sér stað.

Meðal gagna málsins eru skjöl sem sýna að [...] tók lán hjá KBL í júní 2005 þar sem tilgreint var í viðauka við lánasamninginn að andvirði lánsins skyldi ráðstafað inn á reikning [...]. Ákærði kvaðst ekki hafa upplýsingar um þetta.

Ákærði kvað bankareikninginn nr. 401301 í KBL hafa verið opnaðan til að ávaxta fjármuni félagsins og nota til mögulegra fjárfestinga. Ákærði mundi ekki eftir undirritunum skjala vegna stofnunar reikningsins en kvað nafnritun á skjölunum líkjast sinni undirritun. Hann mundi ekki hvort reikningurinn hefði verið stofnaður að sínu frumkvæði en tók fram að [...] hefði verið í miklum viðskiptum við Kaupþing banka á þessum tíma. Ákærði nefndi dæmi um þau samskipti.

Meðal gagna málsins er umboð til ákærða sem D veitti honum til ráðstöfunar eigna [...] á reikningum í KBL. Ákærði kvaðst ekki muna eftir þessu skjali en tók fram að ekkert komi fram í skjalinu út á hvað það gangi. Í skjalinu komi hvorki fram nafn [...] né reikningsnúmer og hann viti ekki hvort skjalið tengist reikningum sem í ákæru greinir. Hann gat ekki skýrt hvers vegna umboðið var gefið út. Hann mundi ekki eftir því að hafa beðið D um að gefa umboðið út. Hann viti ekki hvort [...] hafi á þessum tíma átt aðra bankareikninga hjá KBL.

Ákærði var spurður um 46,5 miljóna dollara millifærslu af bankareikningi [...] í útibúi Danske Bank í New York inn á bankareikning félagsins í KBL hinn 22. apríl 2005 sem lýst er í ákærunni. Ákærði kvaðst ekki hafa haft þessa millifærslu á sinni könnu. Hann mundi ekki eftir tölvupóstum vegna þessarar millifærslu enda hafi hann fengið allt að 300 tölvupósta á dag. Ákærði var spurður um tölvupóst sem G hjá KBL sendi honum vegna reikningsins sem hér um ræðir. Ákærði mundi ekki eftir póstinum eða samskiptum vegna hans. Aðspurður kvaðst ákærði ekki hafa rætt við G hjá KBL um mögulega þátttöku [...] í kaupum [...] á [...] og ákærði kvaðst enga hugmynd hafa haft um það hvort G hafði það hlutverk innan KBL að leiða þau viðskipti til lykta.

Borið var undir ákærða skjal sem af hálfu ákæruvaldsins er talið sýna raunverulegt yfirlit allra færslna á bankareikningnum sem um ræðir í KBL, meðal annars að fjárhæðinni sem um ræðir hafi verið skipt þennan dag í íslenskar krónur, eins og lýst er í ákærunni. Ákærði var spurður hver hefði ákveðið að skipta fénu í íslenskar krónur. Ákærði kvaðst ekkert kannast við viðskiptin sem lýst var. Hann hefði ekki látið millifæra fjármunina á reikning [...] eins og hann sé ákærður fyrir og hann hafi engar upplýsingar um millifærsluna og hann hafi ekkert með hana að gera. Þá kvað ákærði skjalið sem um ræðir vera innanhúsvinnuskjal bankans og hafi ekki verið bindandi yfirlit og ekkert haft með [...] að gera.

Fyrir liggur fjárvörslusamningur milli [...] og KBL, dagsettur 25. apríl 2005, er varðar millifærslu 2.875.000 króna inn á reikning [...] sem í ákærunni greinir. Afrit samningsins fannst við húsleit á heimili ákærða og sýnist samningurinn undirritaður af ákærða sem kvaðst ekki muna eftir undirritun skjalsins en undirritunin væri mjög lík sinni. Skjalið er óundirritað af hálfu bankans. Ákærði kvað þetta ekkert rifja upp fyrir sér og kvaðst enga grein geta gert fyrir fjárvörslusamningnum en benti á að engin gögn frá bankanum væru til staðar sem gæfu til kynna að samningurinn hefði orðið virkur eins og kveðið sé á um í samningnum.

Fyrir liggur tölvupóstur frá C til ákærða, dagsettur 3. maí 2005, þar sem spurt er um greiðslu félagsins að fjárhæð 46,5 milljónir dollara inn á reikning [...] í Lúx til að geta fært greiðsluna í bækur félagsins. Ákærði svaraði því í tölvupósti að þetta væri handbært fé. Ákærði kvað þennan póst sýna að á þessum tíma hefði hann ekki haft aðrar upplýsingar en þær að féð sem um ræðir hafi verið handbært félaginu.

                Fyrir liggja tölvupóstar um samskipti ákærða og H í maí og júní 2005. Þar er m.a. rætt um Lúx-mál. Ákærði var spurður út í þau samskipti og kvað hann hugsanlegt að þau vörðuðu félag ákærða sem hét [...] og H hefði verið í forsvari fyrir en félagið hefði verið með viðskipti í KBL ásamt tveimur öðrum félögum sem voru fjármögnuð þar. Ákærði mundi ekki eftir efni samskiptanna í smáatriðum en þeir H voru í stöðugum og miklum tölvusamskiptum á þessum tíma.

Ákærði var spurður út í tölvupóst sinn til G í KBL, dagsettan 13. júní 2005. Ákærði kvaðst ekki muna eftir þessum pósti og gat ekki skýrt efni hans öðruvísi en svo að hann varðaði þau verkefni sem verið var að vinna með KBL á þessum tíma. Tölvupósturinn gæti varðað margt, bæði varðandi [...] eða [...] en um þremur vikum síðar hefði félagið keypt viðbótareignarhlut í [...]. Ýmis önnur viðskipti voru í gangi. Ákærði kvaðst ekki geta ímyndað sér að þessi tölvupóstur varðaði sakarefni málsins.

Ákærði var spurður hvort hann myndi eftir samskiptum sínum við B og C er varðaði viðleitni þeirra til að fá upplýsingar um reikning [...] í KBL. Hann kvaðst ekki muna eftir einstökum samskiptum en samskiptin við þau voru mikil á þessum tíma vegna ýmissa mála. Hann kvaðst vafalaust hafa aðstoðað þau við hvaðeina sem var á hans valdi.

Ákærði kvaðst aldrei hafa fengið upplýsingar um það að fjármunirnir sem í ákæru greinir væru ekki inni á reikningi [...] í KBL.

Ákærði kvaðst ekki hafa óskað eftir því við G og F hjá KBL að upplýsingagjöf um reikninginn ætti að takmarkast við ákærða eða vera háð samþykki hans. Auk þess hafi hann ekki getað gefið starfsmönnum bankans slík fyrirmæli.      

Fyrir liggur tölvupóstur frá ákærða, dagsettur 28. júní 2005, til F þar sem ákærði gefur upp eban-reikningsnúmer reiknings í eigu [...] hér á landi vegna erlendrar millifærslu, auk þess sem ákærði gefur upp fjárhæðina USD 46.741.125. Spurður um það hverju hann hafi verið að koma á framfæri við F kvaðst ákærði ekki muna sérstaklega eftir þessum pósti en taldi að hann væri að miðla upplýsingum og koma einhverju á framfæri og aðstoða við mál sem hann mundi ekki nú hver voru. Hann mundi ekki eftir aðdraganda þessa eða samhengi að öðru leyti.

Meðal gagna málsins er lánasamningur, dagsettur 30. júní 2005, þar sem [...] er lántaki og KBL lánveitandi en lánið er að fjárhæð 46,5 milljónir dollara. Ákærði vissi ekki um atvik að baki þessa samnings. Í samningnum er ákærði tilgreindur sem ábyrgðarmaður ásamt I. Ákærði kvaðst ekki geta skýrt hvers vegna þetta er með þessum hætti. Meðal gagna málsins er ábyrgðarsamningur, dagsettur 30. júní 2005, sem ákærði sýnist hafa undirritað, en samningurinn varðar ábyrgð á láni KBL til [...] að fjárhæð 46,5 milljónir dollara. Ákærði mundi ekki eftir undirritun sinni en skjalið fannst við húsleit á þáverandi heimili ákærða.

Ákærði kvaðst ekki vita hvers vegna [...] greiddi 46,5 milljónir dollara inn á reikninga [...] 30. júní 2005.

Vitnið D var einn af framkvæmdarstjórum [...] frá því í apríl 2005 auk þess að vera einn af prókúruhöfum félagsins. Hann lýsti starfssviði sínu. Hann kvaðst ekki hafa gefið nein fyrirmæli eða vitað neitt af millifærslunum sem lýst er í ákærunni og sér hafi ekki verið kunnugt um fjármagnsflutningana er þeir áttu sér stað. Hann var spurður út í tilurð ódagsetts umboðs sem hann gaf út fyrir ákærða vegna reiknings í KBL. D kvað ákærða hafa komið með óútfyllt skjalið og óskað eftir því að gengið yrði frá opnun bankareiknings í KBL með það fyrir augum að reikningurinn yrði nýttur til fjárfestingastarfsemi erlendis. D kvað aðalfund skömmu fyrr hafa sett ákærða sem fyrirsvarsmann fyrir útrás og fjárfestingar og hafi hann þannig talið sig vera að fylgja þessum vilja félagsins eftir er ákærði bar erindið upp við hann. D vissi ekki hvers vegna nafn [...] kom ekki fram á umboðinu. D kvað einhver skjöl hafa fylgt með er umboðið var gefið. Hann kvað mjög langt um liðið en taldi skjölin hafa varðað skilmála reikningsins sem um ræðir og kvaðst hann hafa talið að hann hefði opnað bankareikning félagsins í KBL og virkjað hann. D kvaðst hafa látið forstjóra og fjármálastjóra félagsins vita af reikningsstofnuninni. D kvaðst ekki hafa skilið málið svo á þessum tíma að ákærði einn ætti að hafa aðgang að reikningum sem skjalið varðar. D kvaðst ekki hafa gert annað en að rita undir umboðið en ákærði hefði fengið gögnin í hendur eftir það. D kvaðst hinn 28. júní 2005 hafa gefið út umboð fyrir C, fjármálastjóra [...], til að fá aðgang að upplýsingum um reikning félagsins í KBL. D kvað aðdraganda umboðsins hafa verið þann að áður hefðu komið upplýsingar frá bankanum um að vitnið gæti fengið upplýsingar um reikninginn. D kvaðst hafa heyrt um innlögn á [...] í fréttum. Hann viti ekki hvort ákærði lét millifæra fjármunina á [...] hafi það verið gert.

Vitnið F var framkvæmdastjóri hjá KBL á þessum tíma. Hann var spurður um hlutverk KBL í kaupum [...] á [...] og starfi hans þar að lútandi. Hann kvaðst hafa haft takmörkuð afskipti af þessu þar sem sérstök deild innan bankans annaðist slík verkefni og J lögfræðingur hafi annast þau störf fyrir þá deild bankans. Hann kvað viðskiptavini KBL hafa haft viðskiptastjóra í bankanum sem væri tengiliður við viðkomandi deildir bankans. Hann taldi G eða D hafa verið viðskiptastjóra [...] í bankanum á þessum tíma. Hann kvað sig minna að umræða hefði verið uppi um að [...] tæki þátt í kaupunum á [...]. Hann gat ekki fullyrt um það með hvaða hætti það yrði. Hann vissi ekki hver innan bankans gegndi hvaða hlutverki í þessum hugmyndum. Hann hefði ekki verið með í viðræðum um þetta og hann viti ekki hvort [...] hefði átt þar hlut að máli. Hann vissi af samskiptum ákærða við bankann vegna reiknings nr. 401301 sem [...] átti en hann viti ekki hvort ákærði átti í einhverjum samskiptum við bankann vegna hugmyndanna um kaupin á [...]. Vitnið kvað skjöl sem liggja frammi vegna opnunar reikningsins sem um ræðir vera stöðluð opnunarskjöl fyrir þá sem opna reikning og þessi skjöl væru fyrir lögaðila. Hann kvað þá G hafa verið stadda hér á landi í öðrum erindagjörðum en í leiðinni hitt ákærða sem undirritaði skjölin 17. apríl 2005. F kvaðst hafa fyllt skjalið út. F var spurður út í umboð sem D veitti ákærða og vísað var til að framan er rakinn var vitnisburður D. F kvað þetta vera almennt umboð til einhvers að fara með reikning í KBL og að skjalið virðist tengjast reikningi 401301 en hann mundi ekki eftir neinum öðrum sérstökum tengslum skjalsins við atvik málsins. Hann mundi ekki eftir móttöku skjalsins í bankanum eða frá hverjum það barst.

Hinn 22. apríl 2005 voru millifærðar 46,5 milljónir dollara af reikningi [...] í New York inn á reikning KBL nr. 401301. F kvaðst hafa unnið náið með G og það skýri hvers vegna hann hafi fengið tölvupóstsamskipti sem G átti við ýmsa og hafi hann þá sent sér póst til upplýsingar. F vissi ekki hver tilgangurinn var með opnun reiknings [...] hjá KBL.

F var spurður um millifærslu af reikningi [...] hinn 25. apríl 2005 inn á reikning [...] sem í ákæru greinir. Hann vissi ekki atvik að baki þeirri millifærslu. Hann hafi ekki átt þátt í að framkvæma hana innan bankans. Það hafi verið á verksviði viðskiptastjóra að sjá um millifærslu sem þessa. Hann kvaðst engin samskipti hafa átt við ákærða um þessa millifærslu og hann vissi ekki hver ákvað að hún skyldi gerð. F kannaðist óljóst við fjárvörslusamning milli [...] og KBL, dagsettan 25. apríl 2005, og kvað skjöl sama efnis mjög algeng í bankaviðskiptum í Lúxemborg. Aðalefni samningsins er það að [...] leggur inn pening og bankinn lánar á móti þriðja aðila sem samningsaðili, hér [...], tiltekur, á kjörum sem samið sé um. Hann kvað aðdraganda samningsins hafa snúist um hugmyndir sem uppi voru varðandi kaup á [...]. F kvað C hafa haft samskipti við sig til að reyna að fá upplýsingar um bankareikning félagsins sem hér um ræðir í maí og júní 2005. Hann kvað almenna reglu vera þá að tiltekið sé í opnunarskjölum hverjir hafi heimild á vegum einstaklings eða félags til þess að eiga samskipti við bankann. Í þessu tilviki hafi það verið ákærði og D og því hafi aðrir ekki verið með aðgang að reikningnum. Hann kvaðst ekki muna til þess að ákærði hefði lagt til einhvers konar leynd um reikninginn sem um ræðir og taldi hann að að lokum hefði ákærði óskað eftir því að upplýsingar yrðu veittar um reikninginn. Hann taldi C hafa fengið upplýsingar að lokum.

Fyrir liggur tölvupóstur frá ákærða til F, dagsettur 30. júní 2005, þar sem ákærði gefur upp eban-reikningsnúmer [...] hér á landi og fjárhæðina 46.744.125 USD. F taldi þetta vera vegna endurgreiðslu. Hann viti ekki hvers vegna ákærði sendi honum þennan póst en F áframsendi póstinn á D sem átti að annast málið. Hann gat þannig ekkert borið um aðdraganda eða samhengi þess að ákærði sendi honum póstinn. Hann gat ekki borið um fjármögnun endurgreiðslu [...] og vissi ekkert um lánasamning [...] við KBL sem dagsettur er 30. júní 2005. Hann gat ekkert borið um ábyrgðarsamning, dagsettan 30. júní 2005, þar sem ákærði gengst í ábyrgð eins og rakið hefur verið og vissi ekkert um atvik sem að baki lágu.

Fyrir liggur svar KBL, dagsett 24. febrúar 2006, við fyrirspurn endurskoðanda [...] um reikninginn sem um ræðir, þar segir m.a.: ,,Eftirfarandi færslur áttu sér stað á reikningi 401301 á árinu 2005: 22.04.05 Fé móttekið USD 46.500.000,00  30.06.05 Fé fært út USD 46.744.137,00.“  F kvað svörin takmarkast af fyrirspurn endurskoðandans. Hinn 26. febrúar 2006 sendi endurskoðandinn frekari fyrirspurnir vegna reikningsins. Þar er spurt hvort einhverjar frekari hreyfingar hafi átt sér stað á reikningum á árinu 2005. Bankinn svaraði á ensku með bréfi, dagsettu 16. mars 2006, en í þýðingu löggilts skjalaþýðanda segir um þetta: „Hreyfingarnar á reikningnum, skv. fyrirmælum [...], fólust einungis í móttöku fjár frá félaginu og að leggja það inn, en [...] kreditfærði höfuðstól að upphæð USD 46.500.000. Sérhverjar aðrar  hreyfingar eða færslur myndu hafa verið háðar fyrirmælum frá [...]. Höfuðstóllinn var ekki settur á fasta innlánsskilmála þar sem vaxtatími og vaxtakjör eru sett til ákveðins tíma. Þess vegna var höfuðstóllinn og uppsafnaðir vextir til reiðu tilúttektar að óska og vilja [...] á hvaða tímapunkti sem er. Vaxtakjörin voru í samræmi við eðlilegar markaðsaðstæður v. USD á tímabilinu og sú staðreynd að höfuðstóllinn var ekki settur á ákveðinn innlánsmörk hvað tímalengd varðar endurspeglast í vaxtakjörum“. Nánar spurður um þetta kvaðst F vísa til svara sinna hjá lögreglu um þetta en þar sagði hann að hálfur sannleikur hefði verið sagður um þetta. Nánar spurður hvort þetta væru einu hreyfingar á reikningnum á þessum tíma sem [...] væri bundinn af kvaðst hann ekki geta sagt að svo væri þar sem hreyfingarlistinn sem nefndur var segi aðra sögu. Nánar spurður um þetta og hvort nokkuð færi á milli mála að fjármunirnir sem um ræðir og uppsafnaðir vextir hefðu verið til reiðu og til ráðstöfunar af hálfu [...] kvaðst hann ekki geta svarað því þannig og að engar aðrar millifærslur hafi verið á reikningum miðað við það sem fram hefur komið. F vísaði til svaranna sem gefin voru og kvað meininguna hafa verið þá að svara spurningum endurskoðandans.

F kvað reikningseigandann fá sendan svokallað Account Statement eða reikningsyfirlit eins og mælt sé fyrir um í reikningsskilmálum. Nánar spurður vissi hann ekki hvernig þessu var háttað hjá bankanum og hvort önnur yfirlit voru send.

F lýsti því að til að opna reikning í nafni skráðs hlutafélags þá hafi opinber skjöl verið lögð til grundvallar meðal annars hverjir hefðu heimildir fyrir hönd viðkomandi félags. Í því tilviki sem hér um ræðir hafi ákærði haft þessar heimildir og þar sem nafn A framkvæmdastjóra hafi komið fram á skjölun hafi hann einnig haft sömu heimildir. F lýsti ferli innan bankans áður en reikningur sé opnaður. Hann kvað nefnd innan bankans fara yfir málið og samþykkja opnun reiknings. Það eigi því að vera þannig að fyrst eftir þetta ferli og samþykki reiknings sé unnt að nota hann. Bankinn eigi að varðveita frumrit opnunarskjala.

F kvað tímælalaust að bankinn ætti að hafa undir höndum gögn sem sýndu hver gaf fyrirmæli eða lét millifæra af reikningum hinn 25. apríl 2005. Þetta ætti að vera í formi hljóðritaðs eða skráðs símtals, tölvupósts eða á annan bréflegan hátt. Gögn eigi að liggja fyrir frá reikningshafa um millifærslu. Hún gerist ekki öðruvísi. Spurður um hvaða gögn bankinn hafði undir höndum sem sýni að ákærði hefði gefið þessi fyrirmæli vísaði hann til þess sem rakið var en engin slík gögn liggja frammi í málinu. Spurður hvort slík gögn væru hjá bankanum kvað hann þau eiga að liggja fyrir.

                Vitnið G var forstöðumaður einkabankaþjónustu KBL á þeim tíma sem í ákæru greinir. Hann kvaðst ekkert hlutverk hafa haft innan KBL að því er varðar kaup [...] á [...].

Fyrir liggur tölvupóstur frá G, dagsettur 21. apríl 2005, þar sem virðist rætt um aðkomu [...] að kaupunum á [...]. Spurður um það hverju hann hafi verið að koma á framfæri við samstarfsmenn sína í póstinum kvaðst hann ekki muna eftir erindinu eða póstinum. Hann kvaðst engar hugmyndir eða ráðagerðir hafa rætt við ákærða um aðkomu [...] að kaupum á [...].

Fyrir liggur tölvupóstur frá G, dagsettur 25. apríl 2005, þar sem fram kemur að [...] muni greiða DKK 262,2 milljónir. Hann kvað póstinn bera með sér að þarna sé greint frá því að [...] ætli að greiða tilgreinda fjárhæð vegna viðskiptanna með [...]. G kvaðst telja að hann hefði fengið þessar upplýsingar frá K en hann hefði verið í samskiptum við hann vegna ýmissa mála. G minnti að hann hefði setið fund ásamt K og ákærða er hugmyndir um þátttöku [...] í kaupum á [...] voru ræddar. Aðspurður hvort einhver frá [...] hefði verið í samskiptum við vitnið eða aðra starfsmenn KBL vegna þátttöku [...] í kaupunum kvaðst G ekki muna eftir neinum frá [...] sem hann var í samskiptum við vegna þessa. Hann geti ekki svarað fyrir aðra starfsmenn bankans. Fyrir liggi skjöl frá bankanum sem gera ráð fyrir greiðslu frá [...] vegna kaupanna á [...]. G taldi líklegast að skjölin hefðu verið unnin í lögfræðideild bankans.

G vissi ekki hver útbjó greiðslufyrirmæli um greiðslu frá [...] til [...] vegna þessa. Spurður um opnun reiknings [...] hjá KBL kvaðst G ekki geta sagt neitt um stofnun reikningsins og mundi ekki eftir neinni aðkomu sinni að stofnun hans.

G var spurður út í ódagsett umboð til ákærða sem áður hefur verið rakið. Hann kannaðist við formið en gat ekkert borið um skjalið eða hvers vegna það var gefið út.

Hinn 22. apríl 2005 sendið vitnið tölvupóst til ákærða og afrit á F. Efnið var millifærsla Bandaríkjadollara inn á reikning KBL. G gerði ráð fyrir að pósturinn varðaði millifærslu af reikningi [...] í New York inn á reikning [...] í KBL hinn 22. apríl 2005. Hann mundi ekki aðdraganda þessa. Hann kvað þessa millifærslu í minningunni vera vegna fyrirhugaðrar þátttöku [...] í kaupunum á [...].

Hinn 25. apríl 2005 var fjármunum á reikningi KBL skipt í íslenskar krónur og í framhaldinu lagðir inn á reikning [...] í KBL. G vissi ekki hver ákvað að þessir fjármunir yrðu færðir á reikning [...]. Spurður um það hvernig svona millifærsla hafi farið fram í bankanum kvað hann reikningseiganda eða umboðsmann hans þurfa að gefa fyrirmæli um millifærslu sem hafi þurft að vera staðfest í hljóðrituðu símtali, með tölvupósti með netfangi rétthafa eða með skriflegum fyrirmælum um millifærslu. G gat ekki skýrt hvers vegna engin skjalleg gögn um millifærsluna hefðu ekki verið til í bankanum og hann viti ekki hvort þau séu til. Hann kvaðst hvorki muna né vita hvort ákærði gaf fyrirmæli um millifærsluna á reikning [...]. Hann viti ekki hvaða starfsmaður KBL kunni að hafa tekið við fyrirmælum er varða millifærsluna og hann kvað sér ekki kunnugt um neitt er varðar millifærsluna. Hann mundi ekki hvort hann hafði eitthvert samanband við einhvern af prókúruhöfum [...] áður en millifærslan átti sér stað. Hann taldi ólíklegt að millifærslan hefði átt sér stað fyrir mistök. Hann kvað viðskiptastjóra ekki annast millifærslur sem þessa. Fyrirmæli fari til bakvinnslu bankans þar sem vinna vegna hennar fer fram. G staðfesti að yfirlit frá bankanum meðal gagna málsins sýndi að inn á reikning [...] hefðu verið lagðar 46,5 milljónir dollara hinn 22. apríl 2005. Hinn 25. s.m. hafi fjárhæðinni verið skipt í 2.875.000.000 íslenskra króna og sú fjárhæð hafi síðan sama dag verið millifærð á reikning [...] í bankanum. Hann kvað síðan sjást á yfirlitinu að sama fjárhæð var bakfærð 2. júní 2005 en hann gat ekki skýrt þá aðgerð frekar. Nánar spurður um skjalið þar sem þessar upplýsingar koma fram kvað hann þetta ekki skjal sem sent sé viðskiptavini. Skjalið komi úr upplýsingakerfi bankans og sé ekki sent viðskiptavini. Hann kvað sérstakt form sem ber heitið Account Statement vera reikningsyfirlit sem viðskiptavinir fái sent nema merkt hafi verið í sérstakan reit í opnunarskjölum um að yfirlit skyldi ekki sent.

Fyrir liggur fjárvörslusamningur milli KBL og [...], dagsettur 25. apríl 2005, og var hann borinn undir vitnið og vissi hann ekkert um skjalið eða tilurð þess.

G var spurður hvort K eða ákærði hefðu óskað eftir því við hann að leynd myndi ríkja um reikning [...] í KBL. G kvað ekki hafa verið farið fram á leynd en hann minnti að rætt hefði verið um það að reikningseiganda yrðu ekki send yfirlit eða önnur skjöl er vörðuðu reikninginn. G kvað opnunarskjöl reikningsins bera með sér að senda átti út yfirlit og það hafi verið gert í samræmi við þau þar sem ekki var óskað eftir öðru. G kvað K hafa rætt við sig eftir sendingu yfirlitsins og lýst óánægju sinni en það hafi engu skipt þar sem sending yfirlits hefði verið í samræmi við óskir reikningseigandans og fyrirkomulagi sé ekki breytt nema með samþykki hans.

G mundi aðeins eftir einu símtali við C þar sem hann óskaði eftir því að fá upplýsingar um reikninginn sem um ræðir. Samkvæmt reglum bankans og opnunarskjölum reikningsins hafi ákærði verið sá sem átti að fá upplýsingarnar um reikninginn.

Hinn 30. júní 2005 lánaði KBL [...] fjárhæð sem var greidd inn á reikning [...] KBL. G hafði engin afskipti af lánssamningnum vegna lánsins til [...]og gat ekkert borið um efni hans eða mál tengd þessu.

                Vitnið J var lögfræðingur á fyrirtækjasviði KBL á þeim tíma sem í ákæru greinir. Hann kvaðst hafa fengið það hlutverk að útbúa ákveðinn skjalapakka sem tengdist lánveitingu til [...] og þá væntanlega vegna kaupa [...] á [...]. Hann kvaðst hafa fengið upplýsingarnar frá G, L og F til að geta útbúið skjölin. Borin var undir vitnið tölvupóstur frá 25. apríl 2005 en hann kvað svo langt um liðið að hann myndi ekki eftir póstinum. Hann kvað sér ekki hafa verið kunnugt um hugmyndir um það að [...] tæki einhvern þátt í kaupum á [...]. Hann var spurður um fjármunina sem runnu frá [...] til [...] í krafti lánveitingar KBL til [...] og ábyrgðaryfirlýsingar ákærða. J mundi ekki eftir því hver fól honum að vinna skjalið. Hann kvaðst ekkert geta borið um millifærslurnar á reikningi [...] sem í ákæru greinir.

                Vitnið H var spurður um tölvupósta frá 16. maí 2005. Hann mundi ekki eftir þeim. Hann kvað þó ótal mál geta komið til greina en vitnið hafði annast fjárfestingafélag í eigu ákærða og hafi ýmis umsvif þess verið mikil og meðal annars samskipti við KBL. H kvað hið sama svar eiga við um tölvupóst frá 6. júní 2005. Hann myndi ekki eftir efni póstanna og hið sama ætti við um tölvupóst vitnisins til ákærða frá 14. júní 2005.

Vitnið C var forstöðumaður hjá [...] þar til í maí 2005 er hann tók við starfi fjármálastjóra en hann varð prókúruhafi félagsins frá mars 2005. Hann kvaðst ekkert hafa komið að stofnun reiknings [...] nr. 401301 í KBL en kvaðst hins vegar hafa gefið fyrirmæli um millifærslu á reikning félagsins í KBL af reikningi í New York. Hann kvaðst ekki hafa gefið fyrirmæli um millifærslu af reikningi félagsins inn á reikning [...] en C kvaðst á þeim tíma ekki hafa haft aðgang að reikningnum en félagið hafði ekki aðra reikninga í KBL. C sendi ákærða tölvupóst 21. apríl 2005 þar segir m.a. að C þurfi að vita fjárhæð, mynt og greiðslufyrirmæli til að geta komið þessum peningum á sinn stað á morgun eins og segir í skeytinu. Spurður um efni þessa pósts kvaðst C hafa frétt af reikningnum í KBL er hann var staddur í London er A hringdi og lét vita að stofnun reikningsins stæði til. C hefði greint svo frá að tilgangur með stofnun reikningsins hefði verið sá að vera reiðubúinn með peninga til þess að sýna fram á fjárhagslega getu og fjárhagslegan vilja og fjármunirnir áttu að vera aðgengilegir félaginu inni á reikningnum. Síðar í skýrslutökunni kvaðst hann ekki viss um það hvort þessar upplýsingar voru frá A en ákærði hefði síðar greint sér svona frá. Það hafi verið hlutverk hans að losa fjármuni úr ávöxtun og tryggja að þeir færu áfram samkvæmt fyrirmælum. Hann kvað A hafa beint fyrirmælum til sín um að framkvæma millifærsluna eftir að ákærði hafi beðið A um þetta. Upplýsingarnar um fjárhæðina og tegund myntar, það er 46,5 milljónir dollara sem millifæra áttu, áttu að komu frá ákærða og hann hafi beint erindinu til ákærða þar sem hann var sá eini sem hafði upplýsingarnar um reikninginn samkvæmt hans minni.

Fyrir liggur tölvupóstur C til ákærða, dagsettur 3. maí 2005, þar sem spurt er um pappíra til að geta látið bókfæra millifærsluna að fjárhæð 46,5 milljónir dollara sem lagðir voru inn á reikning í KBL. Ákærði svaraði með tölvupósti síðar sama dag og sagði að enn sem komið væri, væru fjármunirnir „deposit á okkar reikning“ og bæri að færa sem handbært fé. C mundi ekki eftir þessum samskiptum en kvaðst síðar, seint í maí eða júní 2005, hafa gengið illa að fá yfirlit um reikninginn nr. 401301. Hann kvaðst síðar hafa fengið aðgang að reikningnum og kvaðst hann hafa séð að peningarnir hefðu farið af honum á ákveðnum tímapunkti. Hann taldi sig ekki hafa fengið aðgang að reikningnum fyrr en eftir að hann fékk umboð frá D um aðganginn, en umboðið er dagsett 28. júní 2005. Hann mundi ekki hvenær hann fékk upplýsingarnar um færsluna til [...] en eftir það hefði hann leitað eftir svörum frá ákærða. Fram að því hafði hann fengið svör um mistök og að peningarnir ættu að vera aðgengilegir félaginu. C kvað forstjóra félagsins hafa vitað af millifærslu af reikningi félagsins sama dag og það varð ljóst. Hann kvað þá stöðu hafa verið uppi að endurskoðandi félagsins hefði gert athugasemd við árshlutareikning félagsins ef ekki væru til staðar staðfestingar frá KBL um að féð væri félaginu aðgengilegt. Hann kvað þrýsting vegna þessa hafa orðið til þess að peningarnir skiluðu sér. Hann viti ekki hvernig það gerðist. C kvaðst ekkert vita um millifærsluna af reikningi [...] á reikning [...] hinn 25. apríl 2005.

Vitnið B var framkvæmdarstjóri hjá [...] í apríl 2005 en hún varð forstjóri félagsins 1. júní sama ár. Hún kvað sér ekki hafa verið kunnugt um millifærslurnar sem í ákæru greinir á þeim tíma sem þær áttu sér stað. Hún mundi ekki hvenær hún frétti af millifærslunni yfir á reikning [...] en svo langt sem hún muni kvað hún millifærsluna ekki hafa verið fullskýrða og hún ásamt fjármálastjóra hafi tekið að leita skýringa á henni. KBL hafi borið fyrir sig bankaleynd og að stofnandi reiknings hefði einn aðgang að reikningnum í bankanum. Hún kvaðst hafa rætt þetta við ákærða í síma og hjá honum hafi komið fram að peningarnir væru til taks fyrir félagið og þau ættu að geta fengið allar upplýsingar frá bankanum um reikninginn. Hún kvað peningana hafa skilað sér til [...] hinn 30. júní 2005 en hún hafi ekki vitað þá hvernig það gerðist.

Vitnið A var forstjóri [...] og einn af prókúruhöfum á þeim tíma sem í ákæru greinir en lét af störfum 1. júní 2005. Hann kvaðst engan þátt hafa átt í stofnun reikningsins í KBL og hann hafi ekki framkvæmt millifærslurnar inn á eða út af þeim reikningi. A var spurður um millifærslu inn á reikning [...] hinn 22. apríl 2005 að fjárhæð 46,5 milljónir dollara. Hann kvaðst enga aðkomu hafa haft af þessu. Hann kvaðst hafa heyrt að skjöl vantaði vegna millifærslunnar en hann hefði aldrei haft vitneskju um það á þeim tíma að fjármunir hefðu farið úr umráðum félagsins.

Vitnið M kvaðst ekki hafa, sem stjórnarmaður og varaformaður stjórnar [...] í apríl 2005, haft einhverja vitneskju um það að til hafi hugsanlega staðið að félagið tæki þátt í viðskiptum [...] með [...]. Hann hafði enga vitneskju um millifærslu af reikningi [...] í KBL á reikning [...] hinn 25. apríl 2005. Hann kvaðst fyrst hafa frétt af málinu um miðjan júní 2005.

Vitnið N var stjórnarmaður í [...] á þeim tíma sem hér um ræðir. Hann hafi ekki haft vitneskju um það að hugmyndir væru uppi um að [...] tæki þátt í kaupum [...] á [...]. Hann kvaðst ekki hafa vitað af millifærslu af reikningi [...] í KBL hinn 25. apríl 2005 inn á reikning [...]. Það hefði ekki komið til umræðu í stjórn félagsins.

Vitnið O var stjórnarmaður [...] á þessum tíma. Hún, sem stjórnarmaður í félaginu, hefði ekki haft vitneskju um að uppi væru hugmyndir um að [...] tæki þátt í kaupum [...] á [...]. Hún hefði ekki fyrr en 30. júní 2005 vitað af millifærslu af reikningi [...] hinn 25. apríl 2005 inn á reikning [...] er forstjórinn greindi henni frá því sama dag og stjórnarfundur var haldinn.

Vitnið P var stjórnarmaður [...] á þeim tíma sem hér um ræðir. Hann kvað það ekki hafa verið rætt í stjórn félagsins að til stæði að [...] tæki þátt í kaupum [...] á [...]. Hann kvað millifærslu inn á reikning [...] hinn 25. apríl 2005 aldrei hafa verið rædda í stjórn félagsins.

Vitnið Q var stjórnarmaður [...] á þessum tíma. Hann kvaðst ekki muna hvort hugmyndir hefðu verið um að [...] tæki hugsanlega þátt í kaupum á [...]. Hann kvað millifærsluna á reikning [...] hinn 25. apríl 2005 aldrei hafa verið rædda í stjórn félagsins.

Vitnið R var stjórnarmaður [...] á þessum tíma. Hann kvað aldrei hafa verið formlega rætt í stjórninni að til þess gæti komið eða að hugmyndir væru uppi um það að [...] tæki þátt í kaupum [...] á [...]. Þetta hefði verið viðrað utan stjórnar bæði af stjórnarformanni og öðrum stjórnarmönnum sem ræddu ýmsa viðskiptamöguleika eins og gengur. Hann kvað millifærslu inn á reikning [...] hinn 25. apríl 2005 aldrei hafa verið rædda í stjórn félagsins meðan vitnið sat þar.

Vitnið S var endurskoðandi félagsins og átti samskipti við KBL vegna þess og leitaði upplýsinga frá bankanum. Hann kvað svör bankans koma heim og saman við það sem fram kom í bókhaldi félagsins. Vitnið sendi bankanum frekari fyrirspurnir og sendi tölupóst hinn 26. febrúar 2006 en megin tilgangur sinn hafi verið sá að ganga úr skugga um hvort lánveiting til [...] hefði átt sér stað. Hann kvað sinn skilning hafa verið þann að peningarnir hefðu verið til reiðu fyrir félagið allan tímann frá því að þeir voru lagðir inn á reikning félagsins. Hann kvað að hann hefði borið fram  frekari fyrirspurnir hefði hann vitað af millifærslunni á reikning [...].

Vitnið K kvaðst hafa setið tvo stjórnarfundi [...] á sínum tíma og vita deili á ákærða en ekkert hafa þekkt hann. Hann kvað þá ákærða ekki hafa verið með neinar hugleiðingar eða ráðagerðir um að [...] tæki þátt í kaupum [...] á [...]. Borin voru undir K nokkrir tölvupóstar og við marga þeirra kannaðist hann ekki. Suma póstana kvað hann ekkert skýra fyrir sér en hann kvaðst hafa verið í samskiptum við G hjá KBL um mörg mál en ekki um mál [...]. Hann kvað hugmyndina um kaup á [...] hafa komið frá KBL og hann hafi örugglega rætt þetta við G hjá KBL en [...] hafi þar ekki borið á góma. Spurður um lánasamning [...] í KBL og greiðslu til baka hinn 30. júní 2005 kvaðst K ekki muna eftir þessu skjali og mundi ekki eftir gerð lánasamningsins þótt hann dragi ekki í efa undirritun sína á skjölin. Svo langur tími sé liðinn að hann muni ekki eftir þessu. K var spurður um ábyrgðarmenn á samningnum sem hafi verið ákærði og I. K kvaðst ekkert kannast við þessa ráðstöfun. Hann tók fram að hann setji spurningamerki við flest sem frá þessum banka hafi komið og skýrði hann þetta. Hann kvaðst hafa tekið lán hjá bankanum en hann geti ekki svarað fyrir það sem gerðist innan bankans.

Vitnið E var einn prókúruhafa [...] í apríl 2005. Hann kvaðst hvorki hafa átt frumkvæði að eða komið að stofnun reikningsins í KBL í apríl 2005 og hann hafi sem prókúruhafi engin fyrirmæli gefið um færslur inn á eða út af þeim reikningi.

Niðurstaða

Ákærði, sem var starfandi stjórnarformaður [...] á þeim tíma sem í ákæru greinir, neitar sök. Í röksemdakafla ákæru segir að sakargögn bendi til þess að millafærslan af reikningi [...] í KBL hinn 25. apríl 2005 inn á reikning [...] í sama banka hafi tengst áformum ákærða um þátttöku [...] í kaupum [...] á [...] og að um þessi áform ákærða hafi þáverandi forstjóra, fjármálastjóra og öðrum stjórnarmeðlimum en ákærða verið ókunnugt og engin ákvörðun hafi verið tekin um þetta að hálfu félagsins. Ákærði neitar því að hafa haft þessi áform. Ekkert er um þetta í gögnum málsins og engin vitnisburður utan vitnið K sem kvað þetta hafa borið á góma er ræddar voru ýmsar viðskiptahugmyndir.

Með framburði ákærða, vitnisburði C og með öðrum gögnum málsins er sannað að ákærði lét millifæra 46,5 milljónir Bandaríkjadala af bankareikningi [...] í útibúi Danske Bank í New York inn á bankareikning [...] nr. 401301 í KBL en reikningurinn var stofnaður 17. apríl 2005 og samkvæmt gögnum málsins var hann samþykktur af bankanum til opnunar hinn 27. apríl 2005. Í ákærunni segir að ákærði hafi samkvæmt sérstöku umboði, sem barst bankanum 20. apríl 2005, haft fullt og ótakmarkað umboð til ráðstafana á fjármunum félagsins á þessum bankareikningi. Er hér vísað til ódagsetts umboðs sem D undirritaði sem prókúruhafi [...] til handa ákærða. Með vísan til vitnisburðar D og framburðar ákærða er lagt til grundvallar að ákærði hafi undirritað skjalið.

Í ákærunni segir að hinn 25. apríl 2005 hafi 45.864.241,84 Bankaríkjadölum verið skipt yfir í 2.875.000.000 íslenskra króna í gjaldeyrisviðskiptum á nefndum bankareikningi [...] í KBL. Ákærða er ekki gefið að sök að hafa látið gera þetta eins og ákært er varðandi millifærsluna sjálfa til [...]. Ekkert segir ákærunni um það hvers vegna þetta var gert, hver ákvað þetta eða gaf fyrirmæli um þetta. Ekkert verður ráðið um þetta af gögnum málsins og enginn vitnisburður skýrir þetta. Þessi hluti málsins er því óupplýstur.

Meint fjárdráttarbrot ákærða er af hálfu ákæruvaldsins talið fullframið er ákærði lét millifæra fjármunina á bankareikning [...] hinn 25. apríl 2005 eins og segir í ákærunni. Ákærði telur enga bindandi millifærslu fyrir hendi gagnvart [...], ekkert slíkt hafi átt sér stað og vísaði hann í því sambandi til reikningsyfirlita sem liggja fyrir, þar sem þessarar millifærslu sé ekki getið og reikningsyfirlitin séu það sem bindi bankann gagnvart félaginu. Þá vísaði ákærði til svars bankans við fyrirspurn endurskoðanda [...] þar sem ekkert kom fram um millifærsluna sem hér um ræðir. Auk þessa bendir ákærði á að reikningur félagsins í KBL hafi ekki verið samþykktur til notkunar fyrr en 27. apríl 2005 eða tveimur dögum eftir hina umdeildu millifærslu.

Samkvæmt opnunarskjölum reikningsins í bankanum átti að senda reikningseiganda, þ.e. [...], mánaðarlegt reikningsyfirlit. Ekki var merkt í þar til gerðan reit á opnunarskjölunum sem hefði þurft að gera hefði staðið til að senda ekki póst til reikningseiganda. Samkvæmt þessu átti [...] að fá reikningsyfirlit mánaðarlega sem sýndu stöðu reikningsins. Ákærði neitar að hann hafi gefið bankanum fyrirmæli um eitthvað annað. Verður að telja ólíklegt að breyting hefði verið gerð á þessu fyrirkomulagi, andstætt fyrirmælum á opnunarskjölunum reikningsins, nema samkvæmt sannanlegum fyrirmælum frá reikningseiganda eða forsvarsmanni hans, eins og ráða má af vitnisburði G.

Undir aðalmeðferð málsins bar leynd nefnds bankareiknings nokkuð á góma en samkvæmt því sem rakið var sýnist engin leynd hafa verið yfir reikningnum og vitnið F bar að ákærði hefði ekki lagt til að nein leynd hvíldi yfir reikningnum. Þá verður ekki ráðið af skjölum um opnun reikningsins sem ákærði undirritaði að leynd ætti að ríkja um reikninginn, þvert á móti, svo sem rakið hefur verið.

Hvað varðar svör KBL, dagsett 16. mars 2006 sem rakið er á bls. 9 að framan, við fyrirspurn endurskoðanda [...] um hreyfingar á reikningnum vísast til vitnisburðar F og G en vitnisburður þeirra um þetta er ótraustur og óskýr. Hefur ekki verið skýrt á trúverðugan hátt hvers vegna bankinn svaraði ekki á fullnægjandi hátt spurningum endurskoðanda félagsins. Það er hins vegar mat dómsins að með vinnuskjölum bankans sem sýna hreyfingar á títtnefndum bankareikningi, og með vitnisburði G, F og C, sé sannað að millifærðar voru 2.875.000.000 króna á bankareikning [...], eins og lýst er í ákærunni. Óupplýst er í málinu hvernig það gat átt sér stað tveimur dögum áður en bankareikningurinn var samþykktur til notkunar samkvæmt áritun á opnunarskjöl reikningsins en vitnið F kvað að fyrst eftir samþykki reiknings ætti að vera hægt að nota hann.

Eins og rakið var neitar ákærði að hafa látið millifæra fjármunina. Samkvæmt vitnisburði F vissi hann ekkert um atvik að baki millifærslunni sem hér um ræðir. Hann vissi ekki hver ákvað hana og hann átti engin samskipti við ákærða vegna hennar. Vitnið F kvað bankann eiga að hafa undir höndum gögn sem sýni hver gaf fyrirmæli eða lét millifæra af bankareikningnum hinn 25. apríl 2005. Gögnin gætu verið hljóðritað eða skráð símtal, tölvupóstur eða önnur skjalleg gögn frá reikningshafa um millifærsluna. Öðruvísi verði hún ekki gerð.

Vitnið G kvað sér ekki kunnugt um neitt er varðaði millifærsluna á reikning [...]. Hann bar á sama hátt og vitnið F um hvað þyrfti að koma til svo unnt væri að millifæra af reikningi félags. Hann hvorki mundi né vissi hvort ákærði gaf fyrirmæli um þetta og hann vissi heldur ekki hvaða starfsmaður bankans kynni að hafa tekið við fyrirmælum varðandi þetta.

Vitnið J gat ekkert borið um millifærsluna.

Þau þrjú vitni sem nefnd voru og öll voru starfsmenn KBL hafa samkvæmt þessu engu ljósi getað varpað á millifærsluna eða hvaða starfsmaður bankans annaðist hana. Þá er, eins og rakið var að framan, allt óupplýst um það er fjárhæðinni á bankareikningi [...] var skipt yfir í 2.875.000.000 íslenskra króna sama dag, þ.e. 25. apríl 2005.

Undir aðalmeðferð málsins voru borin undir ákærða og vitni tölvupóstar um ýmis samskipti sem af hálfu ákæruvaldsins eru talin renna stoðum undir sakargiftir á hendur ákærða. Ákærði á ekki aðild að öllum þessum samskiptum. Tölvupóstar liggja fyrir þar sem ákærði kemur við sögu varðandi millifærslur á reikninginn í KBL. Allt eru þetta samskipti um tilfærslur o.fl. sem áttu sér stað fyrir 25. apríl 2005 og hafa verið raktar að framan. Skýringar ákærða og vitna á mörgum þessum tölvupóstum hafa verið raktar eins og minni viðkomandi náði en ekki eru allar skýringar ákærða eða vitna trúverðugar. Hafa ber þó hugfast að nærri tíu ár eru liðin frá þessum samskiptum. Það ræður hins vegar ekki úrslitum í málinu þar sem engir tölvupóstar, öðrum gögnum eða vitnisburði er til að dreifa um millifærsluna á reikning [...] hinn 25. apríl 2005. Þótt fjárhæðin sem millifærð var fyrir 25. apríl 2005, og ákærði og aðrir hafa skýrt að minnsta kosti að hluta, sé sambærileg millifærslunni á bankareikning [...] 25. apríl 2005 dugar það ekki, gegn neitun ákærða, sem sönnun fyrir því að hann hafi látið millifæra á reikning [...] þennan dag enda enginn vitnisburður eða önnur gögn um það eins og rakið var. Algjör skortur gagna og/eða upplýsinga frá KBL um þetta sætir furðu eins og síðar verður rakið.

Fyrir liggur að [...] endurgreiddi [...] fjármunina ásamt vöxtum hinn 30. júní 2005 og varð [...] því ekki fyrir fjártjóni. Fyrir liggur lánasamningur [...] hjá KBL vegna endurgreiðslunnar til [...]. Hvorki lánasamningurinn, fjárvörslusamningurinn, sem bar á góma að ofan, né önnur gögn varðandi þennan hluta málsins, sem er illa upplýstur, nægja til þess að slá því föstu, gegn neitun ákærða, að hann hafi látið millifæra fjárhæðina yfir á reikning [...] hinn 25. apríl 2005.

Samkvæmt því sem rakið hefur verið eru engin gögn frá KBL um millifærsluna á reikning [...] hinn 25. apríl 2005. Vitni sem störfuðu við bankann á þeim tíma sem hér um ræðir gátu ekkert upplýst um þetta. Þá benda sum gögn frá bankanum, eins og svör bankans til endurskoðanda FL [...] rakin voru að framan, til þess, að engin millifærsla til [...] hafi átt sér stað og féð á bakareikningi nr. 401301 hafi allan tímann verið [...] aðgengilegt. Allt sætir þetta nokkurri furðu og engar fullnægjandi skýringar hafa komið fram um þetta. Ákæruvaldið verður að bera hallan vegna algjörs skorts á gögnum frá KBL um millifærsluna til [...] auk þess sem engin vitnisburður skýrir hana eins og rakið hefur verið.

Að öllu ofanrituðu virtu og öðrum gögnum málsins er ósannað, gegn eindreginni neitun ákærða, að hann hafi látið millifæra 2.875.000.000 króna af bankareikningi [...] yfir á bankareikning [...] hinn 25. apríl 2005. Ber samkvæmt þessu að sýkna ákærða af fjárdrætti.

Til vara er ákært fyrir umboðssvik með því að hafa ,,með framangreindri háttsemi misnotað þá aðstöðu sem hann fékk í krafti umboðs til ráðstöfunar á fjármunum [...] á bankareikningi félagsins í Kaupthing Bank Luxembourg S.A. og valdið [...] verulegri fjártjónshættu með einhliða ráðstöfunum fjármuna félagsins til [...] án þess að gera nokkrar ráðstafanir til að tryggja hagsmuni [...] en ráðstöfunin var ekki þáttur í viðskiptum félagsins.“ Hin meintu umboðssvik varða sömu háttsemi ákærða sem í aðalkröfu eru talin fjárdráttur. Ákærði var að framan sýknaður af því að hafa farmið þá háttsemi sem um ræðir, þ.e. að hafa látið millifæra fjármunina af reikningi [...] til [...]. Af þeirri niðurstöðu leiðir að sýkna ber ákærða einnig af umboðssvikum.

                Allur sakarkostnaður greiðist úr ríkissjóði, þar með talin 9.958.905 króna málsvarnarlaun Gísla Guðna Hall hæstaréttarlögmanns en þóknun lögmannsins er fyrir vinnu undir rannsókn málsins og dómsmeðferð og hefur verið tekið tillit til virðisaukaskatts við ákvörðun þóknunar verjandans. Þá greiði ríkissjóður 19.384 evru og 413.655 krónur vegna útlagðs sakarkostnaðar verjandans.

                Finnur Þór Vilhjálmsson aðstoðarsaksóknari flutti málið fyrir ákæruvaldið.

Guðjón St. Marteinsson héraðsdómari kveður upp dóminn.

Dómsorð:

                Ákærði, X, er sýknaður af kröfum ákæruvaldsins.

                Allur sakarkostnaður greiðist úr ríkissjóði, þar með talin 9.958.905 króna málsvarnarlaun Gísla Guðna Hall hæstaréttarlögmanns. Þá greiði ríkissjóður 19.384 evru og 413.655 krónur vegna útlagðs sakarkostnaðar verjandans.