Print

Mál nr. 206/2007

Lykilorð
  • Milliliðalaus málsmeðferð
  • Ómerking
  • Heimvísun
  • Sératkvæði

         

Fimmtudaginn 8. nóvember 2007.

Nr. 206/2007.

Ákæruvaldið

(Sigríður J. Friðjónsdóttir, saksóknari)

gegn

X

(Kristinn Bjarnason hrl.)

 

Milliliðalaus málsmeðferð. Ómerking. Heimvísun. Sératkvæði.

 

X var ákærður fyrir húsbrot, brot gegn blygðunarsemi og barnaverndarlagabrot með því að hafa að næturlagi ruðst inn á heimili konu og tveggja stúlkna, káfað á annarri stúlkunni utanklæða og reynt að kyssa hana og sýnt hinni stúlkunni ruddalegt og ósiðlegt athæfi. Aðalmeðferð fór fram í málinu 16. janúar 2006 og gáfu ákærði og vitni þá skýrslur fyrir dómi. Dómur hafði ekki verið kveðinn upp í því þegar héraðsdómaranum var veitt leyfi frá störfum í desember 2006. Í samræmi við ákvörðun dómarans sem tók við málinu fóru skýrslugjöf og málflutningur fram að nýju 30. janúar 2007. X mætti ekki til þinghaldsins og var bókað eftir verjanda hans að honum væri kunnugt um þinghaldið en hann hefði kosið að mæta ekki til þess. Málið var svo dómtekið og X sakfelldur fyrir þau brot sem honum voru gefin að sök. Í dómi Hæstaréttar var talið að þar sem skilyrði 120. gr., sbr. 126. gr. laga nr. 19/1991, hefðu ekki verið fyrir hendi og ákærði hefði aldrei komið fyrir þann dómara sem dæmdi í málinu yrði ekki hjá því komist að ómerkja héraðsdóminn og leggja fyrir héraðsdómara að taka málið til löglegrar meðferðar og dómsálagningar að nýju.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Hjördís Hákonardóttir og Jón Steinar Gunnlaugsson.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 28. mars 2007 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun en jafnframt af hálfu ákæruvalds sem krefst staðfestingar á sakfellingu ákærða en refsiþyngingar og að hann verði dæmdur til að greiða A og B hvorri fyrir sig 600.000 krónur í skaðabætur auk vaxta og dráttarvaxta samkvæmt ákæru.

Ákærði krefst þess aðallega að málinu verði vísað frá héraðsdómi en til vara að hann verði sýknaður af öllum ákæruliðum og að kröfum um skaðabætur verði vísað frá dómi. Að því frágengnu krefst hann ómerkingar héraðsdóms og heimvísunar málsins en verði ekki á neitt af þessu fallist að refsing verði milduð og að kröfur um skaðabætur verði lækkaðar.

Mál þetta er fyrir Hæstarétti tekið til dóms samkvæmt 1. mgr. 156. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála að undangenginni fyrirtöku þess, þar sem ákæruvaldinu og verjanda ákærða gafst með vísan til 2. mgr. 161. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 163. gr. laga nr. 19/1991, kostur á að koma á framfæri munnlegum athugasemdum um formsatriði við meðferð þess, einkum er varðar kröfu ákærða um að hinn áfrýjaði dómur verði ómerktur og málinu vísað heim í hérað á ný.

Aðalmeðferð fór fram í málinu í Héraðsdómi Vestfjarða 16. janúar 2006. Þá komu ákærði og vitni fyrir dóm og gáfu skýrslur. Málið var síðan flutt og dómtekið. Héraðsdómari sem þá fór með málið lauk ekki dómi á það innan þess tíma sem greinir í 2. mgr. 133. gr. laga nr. 19/1991. Var málið því endurupptekið, flutt munnlega og dómtekið á ný 22. júlí 2006 án þess að ákærði og vitni gæfu skýrslu fyrir dómi. Dómara þeim sem með málið fór var síðar veitt leyfi frá störfum vegna veikinda og tók sá héraðsdómari sem kvað upp hinn áfrýjaða dóm við meðferð þess að svo búnu. Með bréfi 22. desember 2006 tilkynnti héraðsdómarinn að endurtaka þyrfti skýrslutökur og málflutning og boðaði hann til fyrirtöku 10. janúar 2007 og jafnframt til nýrrar aðalmeðferðar er fara skyldi fram 30. janúar 2007. Ákærði mótmælti því og gerði kröfu um að aðalmeðferð og skýrslutaka í málinu skyldi ekki fara fram að nýju. Með ákvörðun 10. janúar 2007 hafnaði héraðsdómari kröfunni. Ákærði freistaði þess að kæra þá ákvörðun til Hæstaréttar, sem vísaði málinu frá Hæstarétti 24. janúar 2007 í máli nr. 40/2007. Í forsendum Hæstaréttar var meðal annars tekið fram að hin kærða ákvörðun fæli í raun í sér að endurtaka ætti skýrslugjöf ákærða og vitna fyrir dómi, en ekki að hefja ætti aðalmeðferð á nýjan leik. Ákærði mætti hvorki til þinghaldsins 10. janúar 2007 né til aðalmeðferðarinnar 30. janúar 2007. Verjandi hans mætti hins vegar til síðarnefnda þinghaldsins og var bókað eftir honum að ákærða væri kunnugt um þinghaldið en hann hafi hins vegar kosið að mæta ekki til þess. Teldi hann sig ekki hafa neinu að bæta við skýrslu sína fyrir dómi 16. janúar 2006. Ákærði kom því aldrei fyrir dóm eftir að dómarinn sem lauk dómi á málið tók við meðferð þess.

Ákærði telur að með framangreindri meðferð málsins fyrir héraðsdómi hafi verið brotinn á honum réttur samkvæmt lögum nr. 19/1991, 70. gr. stjórnarskrárinnar og 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Eigi þetta að leiða til frávísunar málsins frá héraðsdómi. Sé ekki á það fallist beri af þessum sökum að ómerkja hinn áfrýjaða dóm. Af hálfu ákæruvalds hefur þessum kröfum verið mótmælt.

Annmarkar sem verða á meðferð máls fyrir dómi geta ekki leitt til þess að máli verði vísað frá sama dómi. Eru ekki efni til að taka kröfu ákærða um þetta til greina.

Það er meginregla sem víða kemur fram í lögum nr. 19/1991 að meðferð opinbers máls skuli vera milliliðalaus en í því felst einkum að sönnunarfærsla í máli skuli fara fram fyrir þeim dómara sem leysir úr því með dómi. Kemur reglan meðal annars fram í 1. mgr. 48. gr. laganna. Samkvæmt 46. gr. sömu laga metur dómari hverju sinni hvort nægileg sönnun sé fram komin um hvert það atriði sem varðar sekt og ákvörðun viðurlaga við broti. Er þar meðal annars tekið fram að hann skuli meta hvaða sönnunargildi skýrslur ákærða hafi. Lögin gera í 127. gr. ráð fyrir að ákærði mæti við þingfestingu máls og að dómari leggi fyrir lögreglu að færa ákærða fyrir dóm ef hann mætir þá ekki. Því aðeins er heimilt að dæma mál að ákærða fjarstöddum að uppfyllt séu skilyrði 120. gr, sbr. 126 gr. laganna. Um það er ekki að ræða í þessu máli. Í þessu felst að ekki sé í öðrum tilvikum heimilt að fella dóm á mál án þess að ákærði hafi komið fyrir þann dómara sem dæmir í málinu.

Samkvæmt því sem hér hefur verið rakið verður ekki hjá því komist að ómerkja hinn áfrýjaða dóm og leggja fyrir héraðsdómara að taka málið til löglegrar meðferðar og dómsálagningar á ný.

Samkvæmt þessum úrslitum verður allur sakarkostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti felldur á ríkissjóð, þar með talin þóknun skipaðs réttargæslumanns bótakrefjenda í héraði og málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða á báðum dómstigum en þau verða ákveðin verða í einu lagi eins og nánar greinir dómsorði, hvort tveggja að meðtöldum virðisaukaskatti.

Dómsorð:

Héraðsdómur er ómerktur og er málinu vísað heim í hérað til löglegrar meðferðar og dómsálagningar á ný.

Allur sakarkostnaður í héraði og áfrýjunarkostnaður greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, X, á báðum dómstigum, Kristins Bjarnasonar hæstaréttarlögmanns, samtals 1.011.438 krónur, og þóknun til skipaðs réttargæslumanns bótakrefjenda í héraði, 325.941 króna.

 

Sératkvæði

Hjördísar Hákonardóttur

Mál þetta var þingfest af dómstjóra Héraðsdóms Vestfjarða 7. september 2005 og neitaði ákærði sök. Aðalmeðferð fór fram í því 16. janúar 2006 og gaf ákærði þá skýrslu ásamt vitnum. Málið var síðan munnlega flutt og dómtekið. Hinn 22. júlí sama ár var málið endurupptekið og munnlega flutt að nýju en engar skýrslur teknar. Með bréfi setts dómstjóra 22. desember sama ár var saksóknara, verjanda og réttargæslumanni brotaþola tilkynnt að reglulegum dómstjóra hefði verið veitt veikindaleyfi og að bréfritari hefði verið settur í hans stað frá 27. nóvember 2006 til 31. mars 2007. Teldi hann með vísan til dóms Hæstaréttar 8. júní 2006 í málinu nr. 28/2006 að endurupptaka þyrfti málið öðru sinni og endurtaka skýrslutökur og málflutning óháð því hver yrði dómari í málinu. Með bréfinu boðaði hann til aðalmeðferðar, sem fara myndi fram í dómhúsinu við Lækjartorg í Reykjavík 30. janúar 2007. Með bréfi 4. janúar 2007 mótmælti ákærði þessari ákvörðun og krafðist þess að kveðinn yrði upp úrskurður um kröfu hans þess efnis að boðuð aðalmeðferð með skýrslutökum og málflutningi skyldi ekki fara fram. Þessari kröfu var hafnað með ákvörðun héraðsdóms 10. janúar 2007. Ákærði kærði ákvörðunina til Hæstaréttar 12. sama mánaðar. Í dómi Hæstaréttar 24. janúar 2007 var komist að þeirri niðurstöðu að hin kærða ákvörðun fæli í raun í sér að endurtaka ætti skýrslugjöf ákærða og vitna fyrir dómi, en ekki að hefja ætti aðalmeðferð á nýjan leik. Málinu var því vísað frá Hæstarétti þar sem kæruheimild skorti, sbr. 2. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Aðalmeðferð fór svo fram 30. janúar 2007. Ákærði mætti ekki til hennar, en skýrslutökur fóru fram yfir vitnum og málið var munnlega flutt. Að því loknu var það dómtekið og dómur kveðinn upp í því 27. febrúar 2007. Þar var ákærði fundinn sekur um þau brot sem hann var ákærður fyrir.

Með 70. gr. stjórnarskrárinnar nr. 33/1944 og einnig 1. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, skal öllum tryggð réttlát málsmeðferð fyrir dómi. Eitt meginatriði réttlátrar málsmeðferðar er að hún sé milliliðalaus. Milliliðalaus málsmeðferð tryggir að ákærði og vitni koma fyrir þann dómara, sem metur sönnunargildi framburða þeirra, svo og að ákærði og verjandi hans eigi þess kost að fylgjast með framburði þeirra sem koma fyrir dóminn, andmæla honum og spyrja eða láta spyrja út í atriði sem þeir telja þörf á. Þá samrýmist það ekki milliliðalausri málsmeðferð að byggja á skriflegum gögnum um atriði sem hægt er að lýsa fyrir dómi. Milliliðalaus málsmeðferð er talin líklegust til þess að tryggja rétta niðurstöðu máls auk þess sem hún er talin stuðla að einfaldari og fljótvirkari úrlausn málsins, en það er annað mikilvægt markmið réttlátrar málsmeðferðar að niðurstaða náist svo fljótt sem unnt er.

Meginreglan um milliliðalausa málsmeðferð er ekki afdráttarlaust orðuð í lögum nr. 19/1991, en hún er talin eiga stoð í 1. mgr. 48. gr. þeirra laga, þar sem segir að dómur skuli reistur á sönnunargögnum sem færð eru fram við meðferð máls „fyrir dómi“. Í 2. mgr. sömu greinar er dómara þó veitt heimild til að taka til greina skýrslur ákærða og vitna, sem gefnar hafa verið fyrir dómi áður en mál var höfðað samkvæmt 74. gr. a og 105. gr. laga nr. 19/1991 án þess að krafa sé gerð um að þær skýrslur hafi verið gefnar fyrir sama dómara og dæmir málið. Þá er kveðið á um það í 3. mgr. 48. gr. laganna, að þegar vitni hefur ekki komið fyrir dóm skuli dómari meta hvort skýrsla, sem gefin hefur verið fyrir lögreglu eða öðrum rannsóknaraðila, eigi að hafa sönnunargildi og þá hvaða gildi hún eigi að hafa. Að auki er í 126. gr. laganna veitt heimild, að ákveðnum skilyrðum uppfylltum, til að leggja dóm á mál þótt ákærði hafi ekki komið fyrir dóm. Ennfremur er aðeins gerð krafa um að endurtaka þurfi munnlegan málflutning, en ekki skýrslugjöf ákærða og vitna, þegar dómur er fjölskipaður og nýr dómari tekur við málinu eftir dómtöku þess, sbr. 1. mgr. 136. gr. laganna. Allar þessar heimildir fela í sér undantekningu frá fyrrgreindri meginreglu.

Eins og mál þetta liggur fyrir voru aðstæður nokkuð sérstakar. Málið hafði verið flutt tvisvar þegar héraðsdómari veiktist og nýr dómari tók við málinu. Þá hafði ákærði gefið skýrslu fyrir dómi og verið viðstaddur aðalmeðferð ásamt verjanda sínum og átt þess kost að gera athugasemdir við framburði vitna og spyrja eða láta spyrja spurninga. Ákvað hinn nýi dómari réttilega að endurtaka skýrslutökur og láta munnlegan málflutning fara fram að nýju og boðaði til þinghalds í þessu skyni. Af hálfu ákærða var þessu mótmælt og ákvörðun dómarans kærð til Hæstaréttar, sem vísaði kærunni frá. Þinghaldið fór síðan fram á þeim degi sem boðaður hafði verið. Þar var verjandi ákærða viðstaddur og er bókað „að ákærða sé kunnugt um þinghaldið en hann hafi hins vegar kosið að mæta ekki til þess. Lýsir verjandi því yfir að ákærði telji sig ekki hafa neinu að bæta við skýrslu sína fyrir dómi 16. janúar 2006.“

Samkvæmt 4. mgr. 129. gr. laga nr. 19/1991 á ákærði rétt á að vera viðstaddur aðalmeðferð máls, en ekki er í lögunum kveðið á um að honum sé það skylt. Fyrirmæli 3. mgr. sömu greinar lýsa einungis framkvæmd aðalmeðferðar og er ekki unnt að skilja þau á þann veg að á ákærða hvíli skylda til að gefa þar skýrslu. Skýrar heimildir eru í lögunum um að heimilt sé að færa ákærða með valdi til yfirheyrslu við rannsókn máls samkvæmt kvaðningu, sbr. 4. mgr. 32. gr. laganna, eða til þingfestingar samkvæmt fyrirkalli, sbr. 127. gr. laganna, sbr. ennfremur d. lið 98. gr. þeirra. Verði útivist af hálfu ákærða við aðalmeðferð er hins vegar ekki kveðið þar á um að heimilt sé að færa  hann með valdi fyrir dóm.

Ákærði í máli þessu hafði gefið skýrslu fyrir dómi og sá sér ekki hag í því að mæta í þinghaldið 30. janúar 2007. Öll vitni, sem höfðu áður gefið skýrslu fyrir dómi, komu þá að nýju fyrir dóm og gáfu þar skýrslu. Skipaður verjandi ákærða var þar viðstaddur og verður ekki annað séð af endurriti en að hann hafi tekið fullan þátt í þinghaldinu og gætt hagsmuna ákærða meðal annars með því að spyrja vitni. Ekki verður séð að nýjar upplýsingar, sem þýðingu höfðu um úrlausn málsins, hafi komið fram í þinghaldinu 30. janúar 2007 eða að vitni hafi breytt framburði sínum í neinu sem máli skiptir. Þegar ákærði mætti til aðalmeðferðar í fyrra skiptið 16. janúar 2006 naut hann þess grundvallarréttar að fá að hlýða á framburð vitna og andmæla því sem þar kom fram. Þá hefur ekki verið dregin í efa að sú yfirlýsing, sem bókuð var í þinghaldinu, um að ákærði teldi sig ekki hafa neinu að bæta við fyrri skýrslu sína hafi verið rétt eftir honum höfð. Í þessu ljósi verður ekki talið að meðferð málsins í héraði hafi brotið í bága við 70. gr. stjórnarskrárinnar eða 1. mgr. 6. gr. mannréttindasáttamála Evrópu.

Fallast má á að formlega séð hafi það verið andstætt fyrrgreindri meginreglu um milliliðalausa málsmeðferð, að ákærði hafði ekki komið fyrir þann dómara sem stýrði þinghaldinu 30. janúar 2007 og dæmdi í málinu. Engu að síður verður að taka tillit til eftirtalinna atriða. Þegar hér var komið hafði málið tekið óvenjulega langan tíma, sem samrýmdist ekki kröfu 70. gr. stjórnarskrárinnar um hraða málsmeðferð. Þegar sönnunarfærslan og rökstuðningur dómarans eru virt verður ekki séð að framburður ákærða ráði þar úrslitum. Meðferð málsins að þessu leyti var í samræmi við vilja ákærða og hann hefur að öðru leyti en að því er að málsmeðferðartíma lýtur notið allra þeirra réttinda sem 70. gr. stjórnarskrárinnar og 1. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu mæla fyrir um. Þegar allt þetta er virt og vegið í ljósi þess að það eru jafnframt ríkir hagsmunir í réttarríki að réttvísin nái fram að ganga, þá verður eins og hér stendur á ekki talið að meðferð málsins í héraði hafi verið haldin slíkum annmörkum að rétt sé að ómerkja hinn áfrýjaða dóm og vísa málinu heim í hérað.

Tel ég því rétt að fram fari munnlegur málflutningur fyrir Hæstarétti og málið síðan tekið til efnislegrar úrlausnar.

                                                                  

 

Dómur Héraðsdóms Vestfjarða 27. febrúar 2007.

Mál þetta, sem dómtekið var 30. janúar sl., höfðaði ríkissaksóknari með ákæru 13. júní 2005 á hendur ákærða, X, [kt. og heimilisfang].

„fyrir húsbrot, brot gegn blygðunarsemi og barnaverndarlagabrot framin að nóttu til í júlí 2002 með því að hafa ruðst í heimildarleysi inn á heimili C og dætra hennar A, fæddri 1987 og B, fæddri 1993, að Y, brotið gegn blygðunarsemi A með því að setjast á rúm stúlkunnar og káfa á brjóstum hennar utan klæða og reyna að kyssa stúlkuna og að hafa því næst sýnt B ruddalegt og ósiðlegt athæfi með því að setjast á rúm stúlkunnar og reyna að toga niður um hana síðbuxur.

Telst þetta varða við 231. gr. og 209. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og 3. mgr. (sic) barnaverndarlaga nr. 80/2002.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar.

Af hálfu A er krafist miskabóta að fjárhæð kr. 600.000 auk vaxta og dráttarvaxta frá 14. júlí 2002 til greiðsludags.

Af hálfu B er krafist miskabóta að fjárhæð kr. 600.000 auk vaxta og dráttarvaxta frá 14. júlí 2002 til greiðsludags.“

Af hálfu ákærða er þess krafist aðallega að hann verði sýknaður af kröfum ákæruvalds í málinu og bótakröfum vísað frá dómi. Til vara er þess krafist að ákærða verði ekki gerð refsing en til þrautavara að hann verði dæmdur til vægustu refsingar sem lög frekast heimila og refsingin öll höfð skilorðsbundin. Í öllum tilvikum er þess krafist að sakarkostnaður verði felldur á ríkissjóð, þar með talin hæfileg málsvarnarlaun verjanda til handa.

I.

Með bréfi 7. maí 2004 lagði Barnaverndarnefndin á norðanverðum Vestfjörðum fram kæru á hendur ákærða „... vegna meints ósiðlegs athæfis gegn ólögráða einstaklingum.“

Í greinargerð, sem fylgdi kæru barnaverndaryfirvalda, kemur fram að 15. apríl 2004 hafi C, til heimilis að Y, komið á fund ráðgjafa hjá Skóla- og fjölskylduskrifstofu Ísafjarðarbæjar og tilkynnt að hún og dætur hennar hefðu orðið fyrir kynferðislegu ofbeldi á heimili hennar. Drukkinn maður, ákærði í máli þessu, hefði ruðst inn á heimilið að nóttu til og ætlað að ná til C. Hún hefði falið sig fyrir ákærða en hann þá farið inn í herbergi dóttur hennar, A. Hefði C þá farið dóttur sinni til aðstoðar en síðan falið sig að nýju. Síðar hefði hún heyrt til ákærða inni í herbergi yngri dóttur sinnar, B, og hún því farið þangað og komið að ákærða þar sem hann var að færa stúlkuna úr nærbuxunum. Tekist hefði að ná stúlkunni frá ákærða og þær mæðgur allar því næst læst sig inni í einu herbergja hússins. Ákærði hefði þá komið og barið á dyrnar, hrópað ókvæðisorð og haft í hótunum við C.

Föstudaginn 21. maí 2004 var tekin skýrsla af C hjá lögreglu vegna málsins og í vikunni þar á eftir voru teknar frekari vitnaskýrslur. Hinn 28. maí tók lögregla síðan skýrslu af ákærða. Kannaðist ákærði við að hafa komið nótt eina sumarið 2002 ölvaður á heimili C. Hann neitaði því hins vegar að tilgangur heimsóknar hans hefði verið af kynferðislegum toga og vísaði því jafnframt alfarið á bug að hann hefði ætlað eða gert tilraun til að vinna dætrum C mein á nokkurn hátt.

Að beiðni lögreglustjórans á Ísafirði voru teknar skýrslur fyrir dómi í Barnahúsi af systrunum A og B 23. ágúst 2004. Að lokinni rannsókn lögreglu voru gögn málsins send ríkissaksóknara. Ríkissaksóknari höfðaði síðan mál þetta með útgáfu ákæru 13. júní 2005. Málið var þingfest 7. september sama ár og dómtekið að lokinni aðalmeðferð 16. janúar 2006. Hinn 22. júlí sama ár var málið endurupptekið og flutt munnlega á ný. Að málflutningi loknum var málið dómtekið að nýju. Málið var endurupptekið öðru sinni 10. janúar sl. og aðalmeðferð þess fram haldið 30. sama mánaðar. Að loknum málflutningi þann dag var málið dómtekið í þriðja sinn.

II.

Er aðalmeðferð máls þessa var fram haldið 30. janúar sl. mætti ákærði ekki fyrir dóm. Upplýsti skipaður verjandi að ákærða væri um þinghaldið kunnugt en að hann hefði hins vegar kosið að mæta ekki til þess. Lýsti verjandinn því yfir að ákærði teldi sig ekki hafa neinu að bæta við fyrri skýrslu sína fyrir dómi.

Ákærði bar fyrir dómi 16. janúar 2006 að umrætt kvöld hefði hann verið gestkomandi í afmælisveislu á Z. Eftir veisluna, sem ákærði sagði mögulegt að hann hefði verið í fram undir kl. 03:00, hefði hann farið eitthvað út á rölt og síðan endað á heimili C, systur mágkonu sinnar, að Y. „Ég man ekki nákvæmlega hvort hún (C) kom og opnaði hurðina eða hvernig en mér þykir það ákaflega líklegt.“ Síðar í skýrslutökunni sagði ákærði sérstaklega aðspurður um hvort hann myndi eftir því að hafa farið inn í húsið: „Ég man ekki þegar ég fer inní húsið, nei.“

Um erindi sitt inn á heimili C og barna hennar bar ákærði: „... ég veit ekki hvort ég átti nokkurt erindi þangað, ég veit það ekki, nei. En það er alveg hundrað prósent öruggt að það er ekki á nokkurn hátt í þeim tilgangi sem þær lýsa þarna. Það er svo fjarri lagi að það, ég skil ekki hvernig það getur hvarflað að nokkurri manneskju.“

Inni í húsinu kvaðst ákærði hafa rætt við mæðgurnar þrjár, C og dætur hennar, A og B. Hvar þær samræður fóru fram sagðist ákærði ekki muna nákvæmlega. Eftir efni þeirra sagðist ákærði ekki muna sérstaklega, „... bara dagleg mál.“ Aðspurður kvaðst ákærði ekki minnast þess að hafa viðhaft dónalegt tal við einhverja mæðgnanna.

Ákærði sagði það alveg eins geta verið að hann hefði farið inn í svefnherbergi stúlknanna, en að hann minntist þess hins vegar ekki. „Ég man að ég sat hjá stelpunum og var að tala við þær og get hafa tekið utan um þær og það finnst mér ekkert óeðlilegt og þarf ekkert að vera neitt ósiðlegt við það.“ Ákærði kvaðst hafa talað við stelpurnar og allt verið í lagi. Hann hefði spurt stelpurnar að því hvert móðir þeirra hefði farið og þær svarað því til að hún hefði farið að hringja, en í hvern hefðu stelpurnar ekki vitað.

Er ákærði hefði verið að fara út hefði C birst og hún sagst hafa hringt í D, bróður ákærða og mág C, og beðið hann um að fjarlægja ákærða. Ákærði kvaðst hafa spurt C: „... til hvers varst þú að hringja í hann, ég er að fara. Var ég að gera ykkur eitthvað, var ég með einhver læti?“ og hefði hún svarað því neitandi, „... þær eru bara eitthvað smeykar stelpurnar ...“ hefði hún sagt. Kvaðst ákærði hafa orðið hálfreiður vegna hringingar C og þau í kjölfarið tekið að þrátta um fjárhúsbyggingu sem hún hefði verið með áætlanir um. Þetta hefði hins vegar ekki verið alvarlegt rifrildi. D hefði komið meðan á þessum orðahnippingum stóð, en þá hefðu allar mæðgurnar verið niðri á ganginum. Þeir bræður hefðu síðan fljótlega yfirgefið heimilið.

Fram kom hjá ákærða að hann hefði gleymt úlpunni sinni í húsi C þessa nótt og mögulega líka húfu. Hann hefði sótt þessa muni, líklega daginn eftir, og þá beðist afsökunar á ónæðinu: „Og það þurfti þess ekki því ég hafði ekkert gert.“ Kvaðst ákærði hafa haft óbreytt samskipti við C og dætur hennar frá því að þessi atvik gerðust og þar til málinu var vísað til yfirvalda. Þannig hefði hann til að mynda viku fyrir þann tíma ekið C upp í hesthús og hún þá meðal annars talað um hversu erfitt væri að taka sig upp og fara suður í skóla.

Aðspurður um hvort hann hefði verið tíður gestur á heimili C kvaðst ákærði ekki geta sagt það. Hann hefði ekki komið reglulega á heimilið. Ákærði sagðist hins vegar hafa hitt C nær daglega uppi á Þ, þar sem fjárhúsa- og hesthúsabyggingarnar væru og hann hefði sitt fé. Hefði hann margoft aðstoðað þær mæðgur, t.d. mokað fyrir þær skít og gert hitt og þetta annað fyrir þær.

Um ástand sitt þessa nótt bar ákærði að hann hefði verið búinn að neyta áfengis og verið orðinn „... allt of fullur ...“, hann hefði verið óvenju mikið drukkinn.

III.

C greindi svo frá fyrir dómi að umrædda nótt hefði hún verið heima, að Y, með tveimur dætrum sínum, A og B. Vitnið sagði húsið hafa verið ólæst þar sem tvö eldri börn vitnisins, 17 og 18 ára, hefðu enn verið úti og þeirri reglu verið fylgt á heimilinu að sá sem síðast kæmi heim læsti á eftir sér.

Um kl. 03:00 um nóttina kvaðst vitnið hafa vaknað við eitthvert brölt niðri og sagðist vitnið hafa talið að sonur sinn væri á ferðinni. Eftir nokkra stund hefði vitnið ákveðið að fara fram og athuga með strákinn og þá séð að það var ákærði sem kominn var óboðinn inn í húsið. Ákærða sagði vitnið augljóslega hafa verið drukkinn og þá hefði hann verið blóðugur á gagnauga.

Vitnið sagði sér ekkert hafa brugðið svo mjög við að sjá ákærða, sem það hefði lengi þekkt, enda þau bæði fædd og uppalin á Z og verið saman í kór í 20-30 ár. Þá væri ákærði mágur systur vitnisins. Enga sérstaka vináttu eða kunningsskap sagði vitnið hins vegar hafa verið þeirra á milli og ákærði einungis hafa komið einu sinni, mögulega tvisvar, inn í hús vitnisins, að umræddu skipti slepptu, á meðan vitnið bjó í því. Vitninu hefði því í fyrstu dottið í hug að ákærði hefði einfaldlega villst á húsi. Af viðbrögðum ákærða er hann kom auga á vitnið hefði það hins vegar skynjað að sú var ekki raunin.

Vitnið sagðist hafa innt ákærða eftir því hvert erindi hans væri, en ákærði í fyrstu engu svarað. Vitnið kvaðst hafa kvatt ákærða til að drífa sig heim og síðan farið niður af pallinum, sem svefnherbergin í húsinu séu á, og í áttina að anddyrinu. Er þangað var komið hefði vitnið ítrekað tilmæli sín um að ákærði hefði sig heim. Ákærði hefði þá gripið í vitnið og sagt: „Ég ætla að ríða þér.“ Kvaðst vitnið enn hafa ítrekað ósk sína um að ákærði drifi sig heim og leitt hann fram í anddyri. Er þangað var komið hefði ákærði hallað sér upp að útihurðinni og viðhaft sömu ummæli og áður. Við það kvaðst vitnið hafa orðið svolítið hrætt. Vitnið hefði því farið til dóttur sinnar A og fengið hjá henni GSM-síma, en heimilissíminn hefði verið lokaður. Vitnið hefði fyrst hringt í bróður sinn en heyrst hann vera ölvaður og því talið óráðlegt að fá hann á vettvang. Næst hefði vitnið hringt í samstarfskonu sína, E, í þeim tilgangi að fá mann hennar, F, til að koma og aðstoða vitnið við að koma ákærða út. Sú hefði hins vegar tjáð ákærðu að eiginmaður hennar hefði verið í samkvæmi með ákærða fyrr um kvöldið þar sem þeim hefði lent saman og því tilgangslaust að ræða við hann.

Á meðan á símtalinu stóð sagðist vitnið hafa heyrt orðaskipti í herberginu við hliðina. Það hefði því farið inn til dóttur sinnar, A, og þá komið að ákærða sem lá „... með lappirnar svona svolítið út úr rúminu en lá svona eiginlega yfir hana og var með andlitið alveg við vangann á henni og var svona eitthvað að káfa á henni.“ Hefði ákærði verið með hendurnar eitthvað fram með efri hluta líkama stúlkunnar en nákvæmlega hvar ákærði hafði hendurnar kvaðst vitnið ekki hafa séð. Við þessa sjón sagði vitnið hafa fokið í sig og sér með einhverju móti tekist að koma ákærða út úr herberginu og hefði A lokað á eftir þeim. Eftir þetta sagðist vitnið hafa hlaupið inn í litla herbergið í miðjunni, svokallaða skrifstofu, farið þar á bak við hurðina og hringt í mág sinn og bróður ákærða, D, og beðið hann um að koma.

Er þarna var komið sögu kvaðst vitnið hafa heyrt í dóttur sinni B, sem er atvik máls gerðust hefði sofið hjá móður sinni. Þegar vitnið hefði komið inn í herbergið hefði ákærði setið á rúmstokknum hjá stúlkunni, haldið um mjaðmir hennar og verið að toga hana úr buxunum. Stúlkan hefði togað á móti og beðið ákærða um að hætta. Vitnið sagði sér hafa tekist að koma ákærða út og hefði það síðan læst þær B inni í herberginu. Ákærði hefði barið á hurðina og sagt þeim að opna sem þær hefðu ekki gert.

Vitnið sagðist í framhaldinu hafa heyrt fótatak ákærða fjarlægjast og síðan heyrt að hann var kominn inn í bílskúr. Ákærði hefði síðar komið til baka og vitnið þá heyrt að hann hafði verkfæri meðferðis sem hann hefði reynt að opna með hurðina. Síðar um nóttina, þegar ákærði var farinn, sagðist vitnið hafa séð skrúfjárn og töng við hurðina.

Að lokum sagði vitnið ákærða hafa gefist upp á tilraunum sínum til að opna dyrnar og hann aftur farið eitthvað frá. Taldi vitnið að þá hefði A komið yfir í herbergið til þeirra B. Ákærði hefði síðan komið aftur að hurðinni og gert enn frekari tilraunir til að opna hana.

Vitnið sagði sér vera minnisstætt að er þær voru inni í herberginu hefðu systurnar haft orð á því að D hefði fyrst farið fram hjá húsinu, en síðan komið til baka. Kvaðst vitnið hafa gefið honum tíma til að komast inn í húsið en síðan farið fram til hans og ákærða. Eftir nokkur orðaskipti hefði D tekist að tala ákærða til og koma honum út úr húsinu.

Þremur dögum síðar sagði vitnið ákærða hafa komið til að ná í gleraugu og jakka sem hann hafði skilið eftir. Við það tækifæri hefði hann beðið vitnið afsökunar á framkomu sinni umrædda nótt. Sagði vitnið ákærða ekki hafa skýrt það neitt nánar á hverju hann væri að biðjast afsökunar. Vitnið hefði þá tjáð ákærða að hann þyrfti einnig að biðja stúlkurnar afsökunar, en það vissi vitnið ekki til að hann hefði gert.

Vitnið sagði atburði næturinnar hafa haft mikil áhrif á dætur sínar. B kvað hún ávallt ganga á allar hurðir áður en hún fari að sofa þegar þær mæðgur séu í heimsókn á Z. Þá hefði stúlkan eftir umrædda atburði, á meðan þær bjuggu enn á Z, aldrei viljað vera ein heima í húsinu, jafnvel þó svo að vitnið hefði einungis ætlað í næsta hús. Þremur árum síðar eða sumarið 2005, þegar þær mæðgur hefðu komið vestur til að tæma húsið, hefði B enn ekki með nokkru móti viljað vera ein í húsinu. Þá hefði A eftir að mál þetta var komið af stað neitað að vera uppi á Þ nema vitnið væri þar líka vegna þess að hún vildi ekki eiga það á hættu að hitta ákærða sem hún hefði óttast að myndi gera sér eitthvað meira og vera svo reiður við sig.

Umrædda atburði sagði vitnið jafnframt hafa haft áhrif á fjölskylduna í heild. Vitnið hefði vegna þeirra ekki lengur getað sótt staði sem tengst hefðu atvinnu þess, er dætur hennar hefðu allar að nokkru tekið þátt í, sem og tómstundum. Þegar svo hafi verið komið hefði lítið staðið eftir. Nú sé staðan sú að stúlkurnar vilji ekki búa á Z sem vitnið kvaðst alfarið tengja ákærða.

Um hvernig það kom til að mál þetta kom til kasta barnaverndaryfirvalda bar vitnið að málið hefði komið upp í viðtölum stúlknanna við sálfræðing sem til hefðu verið komin í tengslum við önnur atvik.

A kvaðst hafa vaknað umrædda nótt við að móðir hennar kom inn í herbergið hennar til að fá lánaðan hjá henni síma. Vitnið sagði móður sína því næst hafa farið út úr herberginu aftur.

Eftir að móðir vitnisins var farin sagði vitnið ákærða hafa komið inn í herbergið. Ákærði, sem verið hefði „... mjög vel fullur ...“ og blóðugur í framan og á höndum, hefði sest á rúmstokkinn hjá vitninu og innt það eftir móður þess. Vitnið sagðist hafa svarað því til að það vissi ekki hvar móðir sín væri. Aðspurt kvaðst vitnið hafa verið hrætt við ákærða.

Vitnið sagði ákærða hafa byrjað að þreifa á sér og hann síðan spurt aftur um móður þess. Vitnið sagðist þá hafa brugðið á það ráð að segja ákærða að hún væri niðri í eldhúsi, í þeim tilgangi að ákærði færi út úr herberginu. Ákærði hefði ekki tekið það svar gilt og sagt móður vitnisins ekki vera þar. Hann hefði haldið áfram að þreifa á vitninu, meðal annars brjóstum þess, og gert tilraun til þess að komast undir bol sem vitnið hefði verið í. Vitnið sagðist hafa stoppað ákærða af og hann þá spurt hvort hann mætti þetta ekki og vitnið svarað neitandi. Ákærði hefði samt sem áður haldið áfram og einnig reynt að kyssa vitnið. Nánar lýsti vitnið því atviki svo að ákærði hefði hallað sér fram og spurt vitnið hvort hann mætti kyssa það, en vitnið svarað neitandi og ýtt honum frá. Ákærði hefði síðan farið út úr herberginu og vitnið þá hlaupið til og læst. Sérstaklega aðspurt kvaðst vitnið ekki hafa orðið vart við að neinn annar hefði komið inn í herbergið á meðan ákærði var þar.

Vitnið sagði ákærða síðar hafa komið aftur og reynt að komst inn í herbergið að nýju. Bar vitnið að það hefði heyrt ákærða reyna að opna dyrnar að herberginu með einhverju „dóti“ en án árangurs. Vitnið hefði síðan ekki heyrt í ákærða um stund en hann svo komið aftur og gert frekari tilraunir til að opna hurðina, enn þá án árangurs.

Þegar vitnið hefði heyrt að ákærði var kominn niður í eldhús kvaðst það hafa opnað dyrnar og hlaupið inn í herbergi til móður sinnar og systur. Þaðan hefði móðir vitnisins hringt í D, úr fyrrnefndum síma vitnisins, sem síðan hefði komið á vettvang. Tók vitnið fram að D hefði tvisvar eða þrisvar ekið fram hjá húsinu áður en hann stöðvaði bílinn við það. Þá kom fram hjá vitninu að ákærði hefði, eftir að vitnið var komið inn í herbergið til móður sinnar og systur, gert árangurslausar tilraunir til að opna hurðina að herberginu.

Er D var kominn kvað vitnið móður sína hafa farið út úr herberginu. Sagði vitnið í kjölfarið hafa komið til orðaskipta milli móður sinnar, ákærða og D, en þeim síðastnefnda síðan tekist að koma ákærða út úr húsinu.

Eftir atburði næturinnar sagðist vitnið hafa forðast ákærða. Þannig hefði vitnið gætt þess að fara upp í hesthús á þeim tíma sem það vissi að ákærði var ekki á svæðinu. Vitnið kvaðst hafa borið kvíðboga fyrir því að hitta ákærða og þá hefði það aldrei þorað að vera eitt eftir þessi atvik. Enn þann dag í dag sagði vitnið sér ekki vera vel við að fara vestur, þar sem það vissi af ákærða.

Um samskiptin við ákærða áður en umræddir atburðir gerðust bar vitnið að þau hefðu fyrst og fremst verið vegna nálægðar hesthúsanna við fjárhús ákærða uppi á Þ. Sagðist vitnið til að mynda ekki minnast þess að ákærði hefði nokkru sinni komið í heimsókn á heimili þess.

B skýrði svo frá, þegar skýrsla var tekin af henni fyrir dómi í Barnahúsi, að hún hefði þá nótt er um ræðir vaknað við að „... blindfullur og vitlaus maður ...“, bróðir D (ákærði), var að toga niður um hana buxurnar. Sagði vitnið neftóbaks- og brennivínslykt hafa verið af ákærða.

Spurt um klæðnað sinn kvaðst vitnið hafa verið í rauðum buxum, hvítum bol með rauðum ermum og nærbuxum. Sagði vitnið ákærða hafa togað í rauðu buxurnar við hnén. Um hversu langt niður ákærði hefði togað buxurnar bar vitnið að þær hefðu farið niður á mjaðmir.

Vitnið sagði ákærða ítrekað hafa spurt hvar móðir þess væri og vitnið svarað að hún væri örugglega uppi í hesthúsum ásamt A. Við svar vitnisins hefði  ákærði hætt að toga í buxurnar. Ákærði hefði síðan farið til A, vitnið farið í humátt á eftir honum en þá mætt móður sinni, sem síðan hefði farið á bak við fatahengið í herberginu.

Vitnið sagðist í framhaldinu hafa, að beiðni móður sinnar, farið inn í herbergi til A og beðið um að fá að skoða GSM-símann hennar. Ákærði hefði þá setið í rúminu hjá A. A hefði lánað vitninu símann og það labbað með hann til móður sinnar sem hefði hringt í bróður ákærða, D, og beðið hann um að koma.

Ákærði hefði síðan komið inn í herbergi til vitnisins. Vitnið sagði hann hafa verið rauðan í framan og með sár á vinstra gagnauga. Kvaðst vitnið hafa verið skíthrætt við ákærða. Ákærði hefði sagt vitninu að fara aftur að sofa, hann myndi bíða eftir móður þess, og síðan hefði hann yfirgefið herbergið á ný.

Er hér var komið sögu sagði vitnið systur sína hafa verið búna að læsa hurðinni hjá sér. Í framhaldinu hefðu vitnið og móðir þess einnig læst sig inni í herbergi. Ákærði hefði síðan líklega farið inn í bílskúr og náð í skrúfjárn eða eitthvað beitt til að opna hurðina, en á meðan hefði A komið yfir til móður sinnar og vitnisins. Eftir að ákærði kom til baka úr bílskúrnum hefði hann hamast á hurðinni með áhaldinu. Vitnið sagðist hafa grátið á meðan en móðir þess sagt við það „þetta bjargast, þetta bjargast“.

Vitnið kvaðst hafa gengið að herbergisglugganum og þá séð D aka hjá og vitnið því spurt móður sína hvort hann ætlaði ekki að koma. D hefði síðar komið inn í húsið og farið að ræða við ákærða og hefði móðir vitnisins þá farið niður til þeirra.

Eftir umrætt atvik kvaðst vitnið hafa átt erfitt með að sofna. Það væri hrætt og ætti erfitt með að sofa eitt og gæti það alls ekki heima hjá sér. Kvaðst vitnið óttast að ákærði gerði sér mein þar sem hann hefði orðið reiður er hann var kærður.

D, bróðir ákærða, kvaðst hafa fengið símhringingu um nóttina frá C er óskað hefði eftir því að hann kæmi og aðstoðaði hana við að koma ákærða, sem komið hefði ofurölvi inni í ólæst hús hennar, út úr húsinu. Fram hefði komið hjá C að börn hennar væru hrædd við ákærða.

Vitnið sagðist hafa haldið af stað og fyrst ekið fram hjá húsi C en síðan strax snúið við, ekið að húsinu og stöðvað bifreiðina. Vitnið hefði því næst farið inn í húsið. Þegar inn var komið hefðu ákærði og C verið að rífast á ganginum. Aðspurt um deiluefnið svaraði vitnið því til að það minnti að þau hefðu verið að rífast um einhverja húsbyggingu.

Vitnið sagði það hafa tekið sig nokkra stund, mögulega 15-20 mínútur, að koma ákærða út úr húsinu. Vitnið hefði síðan ekið um með ákærða nokkra hríð, mögulega í 1-2 klukkustundir, áður en það fór með hann heim. Sagðist vitnið hafa beint því til ákærða að þegar af honum rynni skyldi hann fara og biðjast afsökunar á heimsókninni, þ.e. að hafa farið óboðinn inn í húsið að næturlagi. Hefði ákærði tekið jákvætt í það.

Um ástand ákærða bar vitnið að hann hefði verið ölvaður. Sagðist vitnið reyndar aldrei, hvorki fyrr né síðar, hafa séð ákærða í líku ástandi. Ákærði væri dagfarsprúður maður en þarna hefði hann „flippað út“, nánast ekki vitað hvað hann hét.

E bar fyrir dómi að hún hefði um kvöldið farið í afmælisveislu ásamt manni sínum, F. Í veislunni hefði ákærði einnig verið og sagði vitnið hann, eins og flesta aðra í samkvæminu, hafa verið undir áhrifum áfengis. Hann hefði jafnframt verið æstur og ólíkur sjálfum sér.

Vitnið kvað þau F hafa verið komin heim úr afmælisveislunni eftir miðnætti, um kl. 01:00. Síðar um nóttina hefði C hringt í vitnið og beðið um að fá að tala við mann þess þar sem hún væri hjálparþurfi. Vitnið hefði innt C eftir því hvað að væri og hún svarað því til að ákærði væri staddur á heimili hennar og að hún vildi losna við hann en kæmi honum ekki út.

Vitnið sagðist hafa gefið C samband við F og hefðu þau rætt saman. Kvað vitnið F hafa tjáð C að hann treysti sér ekki til að koma henni til aðstoðar þar sem honum og ákærða hefði lent saman í afmælisveislunni fyrr um kvöldið. Hefði C skilið að í ljósi aðstæðna þýddi ekki að F kæmi á vettvang.

Nokkrum dögum síðar kvaðst vitnið hafa hitt C og innt hana eftir því hvernig hún hefði losnað við ákærða út af heimilinu. Í því samtali hefði C lýst atvikum um nóttina svo að hún hefði vaknað við að ákærði kom inn í húsið. Til orðaskipta hefði komið milli C og ákærða sem meðal annars hefði lýst því yfir að hann vildi hafa við hana mök. Ákærði hefði síðan farið og leitað á dætur hennar þar sem þær hefðu legið í rúmum sínum.

G greindi svo frá fyrir dómi að leitað hefði verið til sín af sóknarprestinum á Z og hún beðin um að aðstoða C og dætur hennar tvær með sálgæslu. Vitnið hefði þá verið starfandi sóknarprestur auk þess að vera fyrrverandi starfsmaður Stígamóta og Kvennaathvarfs. Vitnið kvaðst hafa rætt við þær mæðgur um páskana 2003. Fyrst hefði hún rætt við mæðgurnar allar í einu, en síðan hverja fyrir sig.

B sagði vitnið hafa verið afar hrædda og hún grátið mikið. Stúlkan hefði munað atburði næturinnar mjög vel og lýst þeim í smáatriðum. Stúlkan hefði óttast mjög að ákærði kæmi aftur inn á heimili hennar, hún hefði fundið fyrir miklu öryggisleysi og verið hrædd við að vera ein.

A hvað vitnið hafa verið mjög reiða vegna umræddra atvika og hún tárast og síðan grátið í samtalinu við vitnið. Líkt og systir  hennar hefði A upplifað mikið öryggisleysi heima hjá sér. Hún hefði verið hrædd og sú hræðsla brotist út í mikilli reiði.

Fram kom hjá vitninu að systurnar hefðu óttast ákærða eftir þessa atburði. „Þetta var einstaklingur sem þær höfðu ekki séð sem ógn, sem varð að ógn.“

IV.

Að beiðni ríkissaksóknara, dagsettri 29. mars 2005, ritaði Ólöf Ásta Farestveit, uppeldis- og afbrotafræðingur, greinargerð vegna viðtals sem hún átti við A 5. nóvember 2004. Greinargerð Ólafar Ástu er dagsett 14. apríl 2005, en í henni segir svo:

[A] sagði að sér liði ágætlega dags daglega en þó væru enn nokkur atriði sem angra hana í daglegu lífi þrátt fyrir að langt sé liðið frá meintum atburði. Hún sagðist hugsa stundum um það sem gerðist heima hjá henni og er hún hrædd við að vera ein heima í húsinu. En ef hún sefur ein heima þá læsir hún að sér í svefnherbergi sínu.

Í viðtalinu var lagður fyrir [A] spurningarlisti PTSD sem er greiningarviðmið um áfallastreitu. [A] uppfyllir ekki þau greiningarviðmið en ber þó nokkur merki um slíkt. Hún hefur til að mynda truflandi minningar um atvikið og taldi hún slíkt eiga sér stað um það bil einu sinni í viku. Hún finnur fyrir líkamlegum hræðsluviðbrögðum vegna innri og ytri áreita sem minna hana á atvikið. Nokkuð ber á hliðrunum við hugsunum og tilfinningum hjá henni sem og stöðum og fólki sem tengjast meintu broti.

Kovacs spurningarlistinn um geðlægð fyrir börn var einnig lagður fyrir stúlkuna í viðtalinu. Hann er ætlaður til að kanna hvort viðkomandi beri merki þunglyndis svo unnt sé að vísa einstaklingnum áfram til viðeigandi læknis til frekari greiningar. Skorar hún 11 stig. Þar er hún á mörkum klínísks kvarða hvað varðar neikvæðni, áhugaleysi og neikvæða sjálfsmynd sem segir til um vægt þunglyndi.

YSR sjálfsmatslisti um atferli unglinga 11-18 ára var lagður fyrir [A] og staðfestir sá listi að nokkru spurningalista Kovacs því á þunglyndiskvarðanum er nokkur hækkun sem mælist þó ekki á klínískum kvarða. Þar kemur fram að heildar vandi stúlkunnar er á mörkum klínísks kvarða og er það innri vandi hennar (líðan þættir) þ.e. kvíði og þunglyndi sem lyftir þeim kvarða upp. Hins vegar eru hegðunarþættirnir allir innan eðlilegra marka. Sambærilegur sjálfsmatslisti CBCL er lagður fyrir móður hennar og þar kemur stúlkan út innan eðlilegra marka í öllum þáttum.

Langt er um liðið frá meintum atburði og hafði það árhrif á að stúlkan taldi sig hafa unnið úr vandamálum því tengdu. Hins vegar sat hún enn uppi með mikla reiði í garð ofangreinds manns. Einnig hafði óöryggi hennar litað líf hennar frá þeim tíma þrátt fyrir að hún taldi Z nokkuð öruggan stað til að búa á.

 

Að beiðni ríkissaksóknara ritaði Ólöf Ásta Farestveit einnig greinargerð vegna viðtalsmeðferðar B. Sú skýrsla Ólafar Ástu er dagsett 25. apríl 2005. Í upphafi greinargerðarinnar kemur fram að stúlkan hafi mætt í fimm viðtöl á tímabilinu 3. september 2004 til 11. mars 2005. Í greinargerðinni segir svo:

Langt er um liðið frá meintum atburði og því hafði mikil úrvinnsla átt sér stað hjá stúlkunni áður en hún hóf meðferð. ...

[B] sagði að auðveldara hefði verið að gleyma ofangreindum atburðum eftir að hún flutti til Reykjavíkur en meðan hún bjó fyrir vestan þá hafi hún ávallt verið hrædd og þó hún væri orðin nokkuð stór þorði hún ekki að sofa ein. Sagðist hafa verið í stöðugum ótta við það að [X] kæmi aftur inn til þeirra einhverja nóttina. [B] sagðist oft verða leið vegna málsins en hún tengir 3 ólík mál saman, þ.e. [...], þegar X braust inn til þeirra og þegar kindin hennar dó. Hún setur þetta allt undir sama hatt tilfinningalega og líður mjög illa og finnur fyrir mikilli sorg yfir lífsreynslu sinni. Hún orðaði það að sér fyndist lífið stundum of erfitt.

Þegar leið á meðferðina sagðist hún vera nánast hætt að hugsa um ofangreindan atburð. Það hjálpaði mikið til að hún var nú búsett í Reykjavík og ekkert sem minnti hana á ofangreindan atburð, hvorki staðurinn né [X] sjálfur.

CBCL spurningalistinn um atferli barna var lagður fyrir móður. Þar kemur fram að hegðunarþættir og tilfinningaþættir stúlkunnar eru innan eðlilegra marka. Þó hefur hún nokkra hækkun á þunglyndiskvarða og eru það þættir eins og einmanaleiki, stöðugar áhyggjur og ótti sem m.a. hækka þann kvarða hjá stúlkunni. Eru þetta tilfinningar sem móðir metur að stúlkan beri með sér.

[B] er enn til meðferðar hjá undirritaðri en viðtölin eru eftir þörfum stúlkunnar. Ofangreint brot hefur valdið stúlkunni vanlíðan og ótta sem hún bjó við í langan tíma eftir að brotið átti sér stað þó hún hafi að mestu gleymt þessu dags daglega í dag 2 ½ ári eftir meintan atburð.

 

Ólöf Ásta Farestveit kom fyrir dóm við aðalmeðferð málsins og staðfesti og skýrði framanraktar skýrslur sínar. Vitnið sagðist hafa átt fimm viðtöl við B. Þær afleiðingar sem fram hefðu komið hjá stúlkunni í viðtölunum hefðu verið óöryggi og að hún hefði verið hrædd á eigin heimili. Stúlkunni hefði liðið mjög illa og hún ekki þorað að sofa ein í rúmi heldur sofið uppí hjá móður sinni. Henni hefði hins vegar liðið mun betur eftir að þær mæðgur fluttu til Reykjavíkur og hefði stúlkan tjáð vitninu sérstaklega að þeirri íbúð væri hægt að læsa. Þá hefði í Reykjavík ekki verið neitt sem sérstaklega minnti hana á atburði næturinnar.

Vanlíðan sína sagði vitnið stúlkuna einnig hafa skýrt með tveimur öðrum atburðum svo sem vikið sé að í greinargerðinni. Hefði stúlkan ruglað þessu þrennu svolítið saman en hún þó tengt óöryggið á heimilinu beint við komu ákærða þangað umrædda nótt. Vitnið sagði það að ákærði hefði eitthvað togað í buxur B ekki hafa setið í henni heldur óöryggið sem hún hefði upplifað á heimilinu eftir atburði næturinnar.

Hvað A varðar kom fram hjá vitninu að það hefði einungis rætt einu sinni við stúlkuna. Vitnið sagði það viðtal hafa verið langt og í því komið fram að stúlkan var hrædd, en líka mjög reið yfir því hversu mál þetta hefði dregist á langinn.

Fram kom hjá vitninu að A hefði verið hrædd við að vera á heimili sínu á Z. Hún hefði verið óörugg og læst að sér. Þetta hefði stúlkan tengt beint við komu ákærða inn á heimilið um nóttina. Þá hefði stúlkunni fundist ákveðin niðurlæging hafa falist í athæfi ákærða inni í herbergi hennar og henni þótt mjög erfitt að þurfa að mæta ákærða, sem og konu hans, á förnum vegi. Þannig hefði hún til að mynda verið hrædd við að fara út í hesthús þar sem hún hefði mátt eiga von á að rekast á ákærða. Hefði þetta áreiti verið búið að þjaka stúlkuna í um tvö ár er viðtalið fór fram.

V.

Eins og rakið er í kafla III bar C fyrir dómi að hún hefði umrædda nótt í júlí 2002 verið heima ásamt tveimur dætrum sínum, A og B. Hús sitt að Y sagði hún hafa verið ólæst þar sem tvö eldri börn hennar hefðu enn verið úti. Um kl. 03:00 um nóttina kvaðst C hafa vaknað við eitthvert brölt niðri og fyrst talið að sonur sinn væri þar á ferðinni. Eftir nokkra stund hefði hún ákveðið að fara fram og athuga með strákinn og þá séð að það var ákærði sem kominn var óboðinn inn í húsið.

Ekki nýtur framburðar annarra í málinu um hvernig það atvikaðist að ákærði fór inn í húsið að Y umrædda nótt. Þannig má af framburði dætra C, A og B, ráða að þær hafi verið sofandi er ákærði kom inn í húsið. Þá bar ákærði sjálfur fyrir dómi að hann myndi ekki þau atvik, en hann gat sér hins vegar þess til að C hefði hleypt sér inn. Svo sem áður er rakið samrýmist sú ágiskun hans ekki framburði C.

Samkvæmt framburði ákærða fyrir dómi var hann óvenju mikið drukkinn þessa nótt og kvaðst hann hafa verið „... allt of fullur ...“. Samrýmist sú lýsing ákærða á ástandi sínu framburði C og dætra hennar, sem allar báru um ölvun ákærða, og þá kom fram hjá bróður ákærða, D, að ákærði hefði verið ölvaður og hann aldrei, hvorki fyrr né síðar, séð bróður sinn í viðlíka ástandi. Verður að virða framburð ákærða í málinu í ljósi þessa ástands hans.

Ákærði gat hvorki fyrir dómi né fyrir lögreglu upplýst hvaða erindi hann átti á heimili C og barna hennar umrædda nótt. Fram kom hjá C að engin sérstök vinátta eða kunningsskapur hefði verið með henni og ákærða gegnum tíðina og ákærði einungis komið einu sinni, mögulega tvisvar, inn í hús hennar, að umræddu skipti slepptu, á meðan hún bjó í því. Framburður A var um þetta mjög á sömu lund en hún sagðist fyrir dómi ekki minnast þess að ákærði hefði nokkru sinni komið inn á heimili hennar. Þá bar ákærði sjálfur um þetta atriði að hann hefði ekki verið tíður gestur á heimilinu.

 Svo sem áður er rakið bar C fyrir dómi að ákærði hefði umrædda nótt komið óboðinn inn í hús hennar að Y. Hefur ekkert komið fram um það í málinu að ákærði hafi átt nokkurt lögmætt erindi inn í einkahýbýli C og barna hennar. Af framburði C verður ekki ráðið að ákærði hafi gert sérstaklega vart við sig eftir að hann kom inn í húsið. Með för sinni inn á heimilið, án heimildar, þykir ákærði því hafa brotið gegn 231. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Í málinu er ákærða einnig gefið að sök að hafa þessa sömu nótt brotið gegn blygðunarsemi A, fæddri 1987, með því að setjast á rúm stúlkunnar og káfa á brjóstum hennar utan klæða og reyna að kyssa hana. A lýsti atvikum þessum svo, er aðalmeðferð málsins var fram haldið fyrir dómi 30. janúar sl., að um nóttina hefði hún vaknað við að móðir hennar kom inn í herbergi hennar til að fá lánaðan síma. Móðir hennar hefði síðan farið út úr herberginu og ákærði þá komið inn. Hann hefði sest á rúmstokkinn hjá A og innt stúlkuna eftir því hvar móðir hennar væri og hún svarað því til að um það vissi hún ekki. Ákærði hefði þá tekið að þreifa á stúlkunni en síðan aftur spurt um móður hennar. A sagðist þá hafa brugðið á það ráð að segja ákærða að hún væri niðri í eldhúsi, í þeim tilgangi að losna við ákærða út úr herberginu. Ákærði hefði haldið áfram að þreifa á stúlkunni, meðal annars brjóstum hennar, og jafnframt gert tilraun til þess að komast undir bol sem hún var klædd í. Stúlkan sagðist hafa stoppað ákærða af en hann síðan haldið áfram og jafnframt reynt að kyssa hana. Þeirri tilraun ákærða lýsti stúlkan nánar svo að ákærði hefði hallað sér fram og spurt hana hvort hann mætti kyssa hana, en hún svarað neitandi og ýtt ákærða frá. Þegar A gaf skýrslu fyrir dómi í Barnahúsi 23. ágúst 2004, og einnig við upphaf aðalmeðferðar 16. janúar 2006, lýsti hún umræddum atvikum mjög á sömu lund.

C bar um atvik þessi fyrir dómi 30. janúar sl. að hún hefði heyrt orðaskipti úr herbergi A, hún farið þangað inn og komið að ákærða sem legið hefði „... með lappirnar svona svolítið út úr rúminu en lá svona eiginlega yfir hana (A) og var með andlitið alveg við vangann á henni og var svona eitthvað að káfa á henni.“ Hefði ákærði verið með hendurnar eitthvað fram með efri hluta líkama stúlkunnar.

Ákærði hefur neitað umræddum sakargiftum. Fyrir dómi sagði hann það alveg eins geta verið að hann hafi farið inn í svefnherbergi stúlknanna, en að hann minntist þess hins vegar ekki. „Ég man að ég sat hjá stelpunum og var að tala við þær og get hafa tekið utan um þær og það finnst mér ekkert óeðlilegt og þarf ekkert að vera neitt ósiðlegt við það.“ Ákærði kvaðst hafa talað við stelpurnar og allt verið í lagi.

Af ofangreindu er ljóst að framburður ákærða fyrir dómi um samskipti hans við stúlkuna A umrædda nótt var um margt óljós og sundurlaus. Framburður A og móður hennar hvað umrætt sakarefni varðar hefur hins vegar í öllum aðalatriðum verið samhljóða og stöðugur meðan á meðferð málsins hefur staðið. Til þess verður að líta að um tvö ár liðu frá því að atvik máls gerðust og þar til tekin var skýrsla af stúlkunni fyrir dómi í Barnahúsi og af móður hennar hjá lögreglu. Í því ljósi þykir það ekki draga úr sönnunargildi framburðanna þó svo um önnur atriði, og þá sér í lagi um röð atvika um nóttina, séu þeir ekki fyllilega samrýmanlegir. Þá þykir við sönnunarmatið mega taka nokkurt mið af framburði vitnisins E þess efnis að C hafi í kjölfar umræddra atvika lýst þeim að einhverju marki fyrir E og þá meðal annars nefnt að ákærði hefði um nóttina leitað á dætur hennar þar sem þær hefðu legið í rúmum sínum.

Að öllu því heildstætt virtu sem að framan hefur verið rakið þykir sannað, svo ekki verði véfengt með skynsamlegum rökum, sbr. 45. og 46. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála, að ákærði hafi umrædda nótt sest á rúm A og káfað á brjóstum hennar utan klæða og reynt að kyssa hana. Með þeirri háttsemi þykir ákærði hafa sýnt af sér lostugt athæfi í skilningi 209. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Þá þykir nægjanlega sannað með vætti A og Ólafar Ástu Farestveit að með þessari háttsemi hafi ákærði sært blygðunarsemi stúlkunnar. Verður ákærði því sakfelldur fyrir brot gegn nefndu ákvæði almennra hegningarlaga.

Að endingu er ákærða gefið að sök í málinu að hafa sýnt stúlkunni B, fæddri árið 1993, ruddalegt og ósiðlegt athæfi með því að setjast á rúm hennar og reyna að toga niður um hana síðbuxur. B bar um atvik þetta, þegar skýrsla var tekin af henni fyrir dómi í Barnahúsi, að hún hefði um nóttina vaknað við að „... blindfullur og vitlaus maður ...“, ákærði í málinu, var að toga niður um hana buxurnar. Sagði stúlkan ákærða hafa togað í buxur sínar við hnén. Aðspurð um hversu langt niður ákærði hefði togað buxurnar svaraði hún því til að þær hefðu farið niður á mjaðmir.

C bar um þetta atvik að er hún hefði verið að hringja í D hefði hún heyrt í B í næsta herbergi. Hún hefði því farið inn í herbergið, sem þær mæðgur hefðu sofið saman í er atvik máls gerðust, og þá séð ákærða sitjandi á rúmstokknum hjá stúlkunni. Hefði hann haldið um mjaðmir stúlkunnar og verið að toga hana úr buxunum. Stúlkan hefði togað á móti og beðið ákærða um að hætta.

Svo sem rakið hefur verið var framburður ákærða fyrir dómi um samskipti hans við stúlkuna B umrædda nótt um margt óljós og sundurlaus. Framburður B og móður hennar, C, var hvað umrætt sakarefni varðar í aðalatriðum samhljóða og hefur framburður móðurinnar verið stöðugur undir meðferð málsins. Til þess verður að líta að um tvö ár liðu frá því að atvik máls gerðust og þar til tekin var skýrsla af stúlkunni fyrir dómi í Barnahúsi og af móður hennar hjá lögreglu. Í því ljósi þykir það ekki draga úr sönnunargildi framburðanna þótt þeir séu ekki í öllum atriðum samhljóða. Þá þykir við sönnunarmatið, með sama hætti og áður, mega taka nokkurt mið af þeim framburði E sem vitnað var til að framan.

Að öllu því heildstætt virtu sem hér hefur verið rakið þykir sannað, svo ekki verði véfengt með skynsamlegum rökum, sbr. 45. og 46. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála, að ákærði hafi umrædda nótt sest á rúm B og reynt að toga niður um hana buxur. Verður eins og mál þetta liggur fyrir dóminum að telja það athæfi ákærða ruddalegt og ósiðlegt í skilningi 3. mgr. 99. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002.

Við endurupptöku málsins 22. júlí 2006 var eftir sækjanda bókað að augljós tilvísun í ákvæði barnaverndarlaga nr. 80/2002 hefði fallið niður við ritun ákæru. Sagði sækjandi það álit sitt að þau mistök kæmu ekki að sök, enda vörnum ákærða ekki verið áfátt þess vegna. Þegar aðalmeðferð málsins var fram haldið 30. janúar sl. ítrekaði sækjandi að tilvísun til 99. gr. nefndra laga hefði fallið niður við ritun ákæru.

Umrætt brot ákærða er í ákæru heimfært til 3. mgr. barnaverndarlaga nr. 80/2002, sem átti samkvæmt áðursögðu að vera 3. mgr. 99. gr. laganna, sbr. leiðréttingar sækjanda. Með vísan til 1. mgr. 117. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála þykir rétt að dæma áfall á hendur ákærða þrátt fyrir að tilvísun þessi hafi fallið niður við ritun ákæru, enda um augljósa ritvillu að ræða og ljóst að vörnum ákærða hefur ekki verið áfátt þess vegna.

VI.

A.

C gerir í málinu, fyrir hönd ófjárráða dóttur sinnar, B, kröfu um miskabætur skv. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 úr hendi ákærða að fjárhæð 600.000 krónur, auk vaxta skv. 4. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 14. júlí 2002 til 17. mars 2005, en dráttarvaxta skv. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.

Af hálfu B er til þess vísað að af brotum ákærða hafi hlotist miskatjón sem hann beri ábyrgð á samkvæmt sakarreglu skaðabótaréttar og skaðabótalögum. Bætur fyrir miskatjón skv. 26. gr. laga nr. 50/1993 ákvarðist eftir því sem sanngjarnt þyki. Við mat á fjárhæð miskabóta beri að líta til þess hversu alvarleg brotin hafi verið, sakarstigs, huglægrar upplifunar brotaþola og umfangs tjónsins.

Til stuðnings kröfum brotaþola er vísað til almennu skaðabótareglunnar, 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 og dómvenju um miskabætur. Um lagagrundvöll vaxtakröfu er vísað til 4. gr., 6. gr., 1. mgr. 8. gr. og 9. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu.

Brotaþoli á rétt til miskabóta úr hendi ákærða vegna þeirrar ólögmætu meingerðar sem í brotum hans fólst, sbr. b-lið 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Að brotum ákærða virtum og með nokkurri hliðsjón af áðurrakinni greinargerð Ólafar Ástu Farestveit þykja miskabætur til handa brotaþola hæfilega ákvarðaðar 200.000 krónur.

Í 171. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála segir að bótakröfu skuli tilgreina ótvírætt í ákæru, sbr. 2. mgr. 116. gr. laganna. Í ákæru kemur fram að af hálfu hvors brotaþola um sig sé krafist „... miskabóta að fjárhæð kr. 600.000 auk vaxta og dráttarvaxta frá 14. júlí 2002 til greiðsludags.“ Í ákæru er því í engu getið um upphafsdag dráttarvaxta, svo sem hins vegar er gert í skriflegum kröfum brotaþola sem eru hluti gagna málsins. Þar sem í ákæru er gerð krafa um vexti og dráttarvexti, þó svo með ófullkomnum hætti sé, þykir að þessu virtu mega fallast á kröfu brotaþola um dráttarvexti frá og með 17. mars 2005 að telja, en þann dag var liðinn mánuður frá því að lögregla kynnti ákærða bótakröfuna.

Samkvæmt framansögðu verður ákærði dæmdur til að greiða brotaþola 200.000 krónur með vöxtum skv. 8. gr., sbr. 4. gr., laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 14. júlí 2002 til 17. mars 2005, en dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. sömu laga, sbr. 9. gr. laganna, frá þeim degi til greiðsludags.

B.

A gerir í málinu kröfu um miskabætur skv. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 úr hendi ákærða að fjárhæð 600.000 krónur, auk vaxta skv. 4. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 14. júlí 2002 til 17. mars 2005, en dráttarvaxta skv. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.

Brotaþoli vísar til þess að af brotum ákærða hafi hlotist miskatjón sem hann beri ábyrgð á samkvæmt sakarreglu skaðabótaréttar og skaðabótalögum. Bætur fyrir miskatjón skv. 26. gr. laga nr. 50/1993 ákvarðist eftir því sem sanngjarnt þyki. Við mat á fjárhæð miskabóta beri að líta til þess hversu alvarlegt brotin hafi verið, sakarstigs, huglægrar upplifunar brotaþola og umfangs tjónsins.

Til stuðnings kröfum sínum vísar brotaþoli til almennu skaðabótareglunnar, 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 og dómvenju um miskabætur. Um lagagrundvöll vaxtakröfu er vísað til 4. gr., 6. gr., 1. mgr. 8. gr. og 9. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu.

Brotaþoli á rétt til miskabóta úr hendi ákærða vegna þeirrar ólögmætu meingerðar sem í brotum hans fólst, sbr. b-lið 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Að brotum ákærða virtum og með nokkurri hliðsjón af áðurrakinni greinargerð Ólafar Ástu Farestveit þykja miskabætur til handa brotaþola hæfilega ákvarðaðar 200.000 krónur.

Samkvæmt framansögðu og þess sem áður segir um dráttarvexti verður ákærði dæmdur til að greiða brotaþola 200.000 krónur með vöxtum skv. 8. gr., sbr. 4. gr., laga nr. 38/2001 frá 14. júlí 2002 til 17. mars 2005, en dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. sömu laga, sbr. 9. gr. laganna, frá þeim degi til greiðsludags.

VII.

Samkvæmt vottorði sakaskrár ríkisins hefur ákærða ekki áður verið gerð refsing. Að brotum ákærða virtum þykir refsing hans hæfilega ákveðin sex mánaða fangelsi. Eftir atvikum og þar sem fyrir liggur að meðferð málsins fyrir dóminum hefur dregist úr hömlu þykir með heimild í 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 rétt að fresta fullnustu refsingar ákærða og skal hún falla niður að liðnum tveimur árum frá uppkvaðningu dóms þessa að telja haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.

Með vísan til niðurstöðu dómsins hér að framan, sbr. 1. mgr. 165. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála, þykir rétt að ákærði greiði allan kostnað sakarinnar sem til féll fram að 16. janúar 2006, að kostnaði slepptum við fyrirhuguð þinghöld sem niður féllu vegna veðurs og ófærðar. Ákærði greiði samkvæmt þessu útlagðan kostnað vegna öflunar vottorða/greinargerða Ólafar Ástu Farestveit 10.000 krónur og vitnakostnað, samtals 51.953 krónur. Ákærði greiði ennfremur 493.020 krónur af málsvarnarlaunum skipaðs verjanda síns, Kristins Bjarnasonar hrl., sem eftir atvikum öllum þykja hæfilega ákveðin 700.188 krónur að virðisaukaskatti meðtöldum, sem og ferðakostnað verjanda 45.825 krónur. Þá greiði ákærði jafnframt 262.944 krónur af þóknun skipaðs réttargæslumanns brotaþola, Sifjar Konráðsdóttur hrl., bæði á rannsóknarstigi málsins og fyrir dómi, en þóknunin þykir hæfilega ákveðin 325.941 króna að meðtöldum virðisaukaskatti. Samkvæmt öllu þessu dæmist ákærði til að greiða samtals 863.742 krónur í sakarkostnað.

Dóm þennan kveður upp Kristinn Halldórsson, settur héraðsdómari. Dómarinn fékk málið til meðferðar 27. nóvember 2006. Hefur dómsuppkvaðning dregist lítillega vegna starfsanna dómara.

 

D Ó M S O R Ð:

Ákærði, X, sæti sex mánaða fangelsi en fresta skal fullnustu refsingarinnar og skal hún falla niður að liðnum tveimur árum frá uppkvaðningu dóms þessa að telja haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.

Ákærði greiði A 200.000 krónur ásamt vöxtum samkvæmt 8. gr., sbr. 4. gr., laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 14. júlí 2002 til 17. mars 2005, en dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.

Ákærði greiði B 200.000 krónur ásamt vöxtum samkvæmt 8. gr., sbr. 4. gr., laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 14. júlí 2002 til 17. mars 2005, en dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.

Ákærði greiði 863.742 krónur í sakarkostnað. Allur annar kostnaður sakarinnar greiðist úr ríkissjóði.