Print

Mál nr. 354/2000

Lykilorð
  • Tollur
  • Póstur
  • Stjórnarskrá
  • Friðhelgi einkalífs
  • Meðalhóf

Fimmtudaginn 15

 

Fimmtudaginn 15. mars 2001.

Nr. 354/2000.

 

Hörður Einarsson

(sjálfur)

gegn

tollstjóranum í Reykjavík

(Einar Karl Hallvarðsson hrl.)

 

Tollmeðferð. Póstur. Stjórnarskrá. Friðhelgi einkalífs. Meðalhólfsregla.

Starfsmenn T opnuðu fjórar bókasendingar til H í því skyni að nálgast vörureikninga svo að ákvarða mætti virðisaukaskatt af vörunni. H taldi T óheimilt að stunda reglubundna skoðun og opnun bókasendinga og gilti einu í hvaða tilgangi slík skoðun væri gerð. Áleit hann aðgerðirnar höggva að einkalífi sínu og tjáningarfrelsi. T taldi 45. gr. tollalaga hafa heimilað þá framkvæmd við tollmeðferð póstsendinga, sem um væri deilt, en þar væri kveðið á um að, tollgæslan mætti skoða og rannsaka allar vörur, sem fluttar væru til landsins. Hæstiréttur féllst á það með héraðsdómi, að í umdeildri tollmeðferð hefði ekki falist brot á 65. gr. eða 73. gr. stjórnarskrárinnar. Hins vegar var talið, að tollframkvæmdin hefði gengið í berhögg við einkalífsvernd stjórnarskrárinnar auk meðalhófsreglu stjórnsýsluréttar, en skattheimtusjónarmið hefðu aðallega ráðið henni. Fallist var á meginefni kröfu H og viðurkennt, að T hefði verið óheimilt að opna umdeildar bókasendingar á þann hátt sem gert var í þeim tilgangi einum að nálgast vörureikninga eða önnur gögn til ákvörðunar aðflutningsgjalda.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Guðrún Erlendsdóttir, Hrafn Bragason, Markús Sigurbjörnsson og Pétur Kr. Hafstein.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 15. september 2000. Hann krefst þess aðallega, að viðurkennt verði með dómi, að stefnda hafi verið óheimilt að opna og skoða bókasendingar, sem honum bárust í pósti frá útlöndum samkvæmt fjórum póstaðflutningsskýrslum 1999, einni 10. júní, tveimur 26. júlí og hinni fjórðu 23. ágúst. Til vara krefst hann sams konar viðurkenningardóms um þær þrjár þessara bókasendinga, sem bárust frá ríkjum innan Evrópska efnahagssvæðisins og aðflutningsskýrslur 10. júní og 26. júlí 1999 tóku til. Þá krefst áfrýjandi málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

I.

Mál þetta varðar fjórar bókasendingar til áfrýjanda að utan sumarið 1999, eins og nánar greinir í héraðsdómi. Starfsmenn tollgæslunnar í Reykjavík opnuðu þær í því skyni að nálgast vörureikninga inni í sendingunum, svo að ákvarða mætti virðisaukaskatt sem hluta aðflutningsgjalda, áður en áfrýjanda var gert viðvart um þær. Ber stefndi því við, að þetta hafi verið gert á grundvelli 1. mgr. 45. gr. tollalaga nr. 55/1987, sbr. 1. mgr. 104. gr., og 1. mgr. 107. gr., sbr. lög nr. 69/1996 og nr. 81/1998, og reglugerðar nr. 310/1992 um tollmeðferð póstsendinga, sbr. nú reglugerð nr. 709/2000. Framkvæmdinni var hagað þannig, að allar póstsendingar til landsins af því tagi, sem hér um ræðir, komu á Póstmiðstöðina í Reykjavík, þar sem starfsmenn stefnda störfuðu. Eftir að þeir höfðu opnað sendingu og náð í vörureikning var henni lokað aftur með límbandi, sem merkt var tollgæslunni. Fjárhæð reikningsins var að svo búnu rituð utan á sendinguna, áður en starfsmenn við póstþjónustu fengu hana til meðferðar, svo að þeir gætu útfyllt póstaðflutningsskýrslu, sem var sett í vasa utan á pakkann. Hann var svo fluttur í hlutaðeigandi pósthús, þar sem viðtakandi gat vitjað hans og greitt lögboðin gjöld.

Áfrýjandi reisir málatilbúnað sinn einkum á því, að tollyfirvöldum hér á landi sé óheimilt að stunda reglubundna skoðun og opnun allra bókasendinga, sem berist í pósti frá útlöndum. Gildi einu í hvaða tilgangi slík skoðun sé gerð, hvort heldur sé til innheimtu virðisaukaskatts eða eftirlits með innflutningi. Tollyfirvöld geti í mesta lagi krafist opnunar bókasendinga við úrtaksathuganir eða annars, ef sérstök rök hnígi til þess. Áfrýjandi leggur ríka áherslu á hina persónulegu afstöðu, sem felist í vali manns á lesefni, og höggvi aðgerðir tollgæslunnar því að einkalífi hans og tjáningarfrelsi. Vegna þeirra sitji þeir, sem kaupi bækur frá útlöndum, heldur ekki við sama borð og aðrir, sem fái annan varning erlendis frá, svo sem blöð og tímarit.

Stefndi skírskotar til þess, að samkvæmt ótvíræðu ákvæði 45. gr. tollalaga megi tollgæslan skoða og rannsaka allar vörur, sem fluttar séu til landsins, þar á meðal póstsendingar til áfrýjanda. Sá háttur, sem almennt sé hafður á tollafgreiðslu póstsendinga vegna vörukaupa, sé mjög til hagræðis fyrir viðtakendur og tollgæsluna sjálfa og í engu andstæður ákvæðum stjórnarskrár, lögum eða reglugerðar nr. 310/1992. Miklu skipti, að starfsmenn stefnda séu að lögum bundir þagnarskyldu og hafi þessi framkvæmd eingöngu verið viðhöfð í þeim tilgangi að ná til vörureikninga inni í sendingunum og ljúka álagningu aðflutningsgjalda án þess að þurfa að kalla hvern og einn viðtakanda á vettvang áður. Sé þetta mjög til þess fallið að einfalda og flýta tollmeðferð þessara smásendinga, sem ekki beri tollverð utan á sér, og auka vöruflæði.

Eins og mál þetta liggur fyrir hefur áfrýjandi lögvarða hagsmuni af því að fá úrlausn dómstóla um kröfur sínar.

II.

Með skírskotun til forsendna héraðsdóms verður fallist á, að í umdeildri tollmeðferð bókasendinga til áfrýjanda á árinu 1999 hafi ekki falist brot á 65. gr. eða 73. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944, sbr. 3. gr. og 11. gr. stjórnskipunarlaga nr. 97/1995.

III.

Í 1. mgr. 71. gr. stjórnarskrárinnar segir, að allir skuli njóta friðhelgi einkalífs, heimilis og fjölskyldu, sbr. 9. gr. stjórnskipunarlaga nr. 97/1995. Í 2. mgr. 71. gr. koma fram takmarkanir, sem setja má friðhelginni með dómsúrskurði eða sérstakri lagaheimild, og eru rannsóknir á póstsendingum meðal þess, sem til álita getur komið. Í 3. mgr. er svo veitt heimild til að takmarka á annan hátt með lögum friðhelgi einkalífs, heimilis eða fjölskyldu, ef brýna nauðsyn ber til vegna réttinda annarra. Ótvírætt er, að lagaheimildir, sem um er rætt í þessum stjórnarskrárákvæðum, verða að vera skýlausar. Hugtakið friðhelgi einkalífs hefur verið skýrt svo, að í því felist fyrst og fremst réttur manns til að ráða yfir lífi sínu og líkama og til að njóta friðar um lífshætti sína og einkahagi auk þess sem tilfinningalíf og tilfinningasambönd við aðra njóti verndar, sbr. dóm Hæstaréttar 25. febrúar 1999, bls. 857 í dómasafni. Í athugasemdum með frumvarpi til stjórnskipunarlaga nr. 97/1995 kom fram, að takmarkanir á þessum rétti fælust einkum í þvingunaraðgerðum, sem væru nauðsynlegar í þágu rannsóknar opinberra mála, en það væri þó ekki algilt.

Einkalíf manna nýtur einnig sambærilegrar verndar í 8. gr. samnings um verndun mannréttinda og mannfrelsis, sbr. lög nr. 62/1994 um mannréttindasáttmála Evrópu. Þar segir í 1. mgr., að sérhver maður eigi rétt til friðhelgi einkalífs síns, fjölskyldu, heimilis og bréfaskipta. Í 2. mgr. er svo kveðið á, að opinber stjórnvöld skuli eigi ganga á rétt þennan nema samkvæmt því, sem lög mæli fyrir um og nauðsyn beri til í lýðræðislegu þjóðfélagi vegna þjóðaröryggis, almannaheilla eða efnalegrar farsældar þjóðarinnar til þess að firra glundroða eða glæpum, til verndar heilsu manna eða siðgæði eða réttindum og frelsi annarra.

Enn segir í 1. mgr. 17. gr. alþjóðasamnings um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi, að enginn skuli þurfa að þola geðþótta- eða ólögmæta röskun á einkalífi, fjölskyldu, heimili eða bréfaskiptum né ólögmætar árásir á heiður eða mannorð sitt. Samkvæmt 2. mgr. skulu allir eiga rétt á lagavernd gegn slíkri röskun eða árásum. Þessi samningur hefur ekki lagagildi hér á landi, en hann var fullgiltur af Íslands hálfu 22. ágúst 1979, sbr. auglýsingu nr. 10 í C-deild Stjórnartíðinda 1979.

Eins og áður er fram komið hefur af hálfu stefnda verið talið, að 45. gr. tollalaga og þágildandi reglugerð nr. 310/1992 með síðari breytingum, sem sett var samkvæmt heimild í 107. gr. og 148. gr. laganna, hafi heimilað þá framkvæmd við tollmeðferð bókasendinga, sem áfrýjandi telur ekki standast. Með 1. mgr. 45. gr. tollalaga er tollgæslumönnum heimilað að skoða og rannsaka allar vörur, sem fluttar eru til landsins, hvort sem um er að ræða vörur á farmskrá, póstflutning, farþegaflutning eða annað. Samkvæmt ákvæðinu er heimilt að krefjast þess, að vörurnar séu fluttar í húsakynni tollgæslunnar eða á annan tiltekinn stað, þar sem tolleftirlit er framkvæmt, og þeim framvísað þar til skoðunar. Af hálfu stefnda hefur jafnframt verið vísað til 2. mgr. 33. gr. laga nr. 142/1996 um póstþjónustu, þar sem fram kemur sú undanþága frá ákvæði 1. mgr. 32. gr. laganna um póstleynd, að böggla frá útlöndum megi opna, ef nauðsynlegt er vegna ákvörðunar aðflutningsgjalda. Aðrar lokaðar póstsendingar má ekki samkvæmt ákvæðinu opna  vegna ákvörðunar aðflutningsgjalda nema í viðurvist viðtakanda.

  Í áðurnefndri reglugerð nr. 310/1992 segir í 1. mgr. 6. gr., að viðtakandi póstsendingar, sem tekin er til tollmeðferðar, skuli afhenda póststarfsmanni á hlutaðeigandi pósthúsi skriflega aðflutningsskýrslu ásamt vörureikningi og öðrum tollskjölum og skuli hann í skýrslunni veita upplýsingar um, hvaða vörur séu í sendingunni, verð þeirra, tollskrárnúmer, aðflutningsgjöld og önnur atriði. Í 2. mgr. 6. gr. er póststjórninni veitt heimild til að ákveða, að póststarfsmenn aðstoði viðtakendur póstsendinga við gerð aðflutningsskýrslu, ef þeir óska eftir því og greiða fyrir þóknun. Auk tollskýrslueyðublaðs E1 er póststjórninni heimilað að nota sérstakt tollskýrslueyðublað E3, sem fyllt skal út af póststarfsmönnum og sent viðtakanda til undirritunar. Þá segir jafnframt, að póststjórnin skuli að höfðu samráði við ríkistollstjóra ákveða, hvenær nota megi tollskýrslueyðublað E3. Ágreiningslaust er í málinu, að þetta eyðublað var notað við tollafgreiðslu umræddra bókasendinga til áfrýjanda og fyllt út af póststarfsmönnum, eftir að þeir höfðu fengið sendingarnar frá starfsmönnum stefnda með límbandi tollgæslunnar eftir opnun og áritun um verð utan á þær. Í reglugerðinni er hins vegar ekkert fjallað um meðferð póstsendinga að þessu leyti í höndum tollgæslunnar. Þar segir einungis í 1. mgr. 10. gr., að tolleftirlit með póstsendingum skuli miða að því að fyrirbyggja, að ákvæði laga um bann við innflutningi á vörum séu brotin, tryggja að lagaákvæði varðandi innflutningstakmarkanir séu virt og tollskyldar vörur séu færðar til tollafgreiðslu. Í 2. mgr. 10. gr. segir síðan, að tolleftirlit samkvæmt 1. mgr. skuli fara fram með úrtaksathugun og vali með tilliti til áhættuþátta. Nú gildir um tollmeðferð póstsendinga reglugerð nr. 709/2000, þar sem fram kemur í 13. gr. heimild fyrir póststarfsmann til að opna póstböggla að utan í viðurvist tollvarðar, ef það er gert til að afla vörureikninga til að byggja á útreikning aðflutningsgjalda. Er vísað til 2. mgr. 33. gr. laga nr. 142/1996 og ákvæða þeirra um þagnarskyldu póststarfsmanna.

Fram er komið, að erlend blöð og tímarit sættu áður sams konar tollmeðferð og bókasendingar frá útlöndum, en því var breytt með reglugerð nr. 336/1993 um innheimtu virðisaukaskatts af blöðum og tímaritum, sem send eru í áskrift erlendis frá í pósti. Þær sendingar eru ekki almennt opnaðar við komu og er póststjórninni heimilað í reglugerðinni að bera þessi blöð og tímarit út til viðtakenda án þess að krefja þá áður um greiðslu virðisaukaskatts.

IV.

Ótvírætt er, að stefndi hefur víðtæka heimild samkvæmt 1. mgr. 45. gr. tollalaga til að skoða og rannsaka hvers konar varning, sem til landsins er fluttur. Tilgangur tollmeðferðar innflutningsvara hlýtur annars vegar að vera sá að koma í veg fyrir ólögmætan innflutning og hins vegar að tryggja rétta álagningu og skil aðflutningsgjalda lögum samkvæmt. Þessu valdi tollgæslunnar verða þó sett málefnaleg mörk, er dregin verða af ákvæðum stjórnarskrár og meðalhófsreglu stjórnsýsluréttar auk annarra laga um réttarstöðu borgaranna.

Af hálfu stefnda hefur hin umdeilda tollmeðferð á bókasendingum frá öðrum löndum einkum verið réttlætt með því, að ríka nauðsyn beri til skilvirkrar innheimtu virðisaukaskatts af innfluttum varningi, en virðisaukaskattur sé ein helsta tekjulind ríkissjóðs og varði örugg innheimta hans efnahagslega velsæld þjóðarinnar. Þá hefur stefndi lagt á það ríka áherslu, eins og áður greinir, að þessi tollframkvæmd sé viðtakendum sjálfum til mikils hagræðis. Hann heldur því ekki fram, að viðbúnaður gegn ólögmætum innflutningi hafi sérstaklega ráðið því, að rétt hafi þótt að opna reglubundið sérhverja þá póstsendingu að utan, sem ætla hafi mátt, að í væri tollskyldur varningur, og ekki bar með sér, hvert verðmæti hans væri. Fram er komið, að ekki sætir allur innflutningur til landsins sambærilegri tollmeðferð.

Af þessu er ljóst, að skattheimtusjónarmið hafa aðallega ráðið þeirri tollframkvæmd, sem hér um ræðir. Póstsendingar til manna hér á landi frá öðrum löndum falla undir ákvæði 71. gr. stjórnarskrárinnar um friðhelgi einkalífs og eiga viðtakendur þeirra að öðru jöfnu rétt á því, að aðrir menn fái ekki án þeirra samþykkis vitneskju um innihaldið. Afskipti af póstsendingum verða því að eiga sér skýra og óvíræða lagastoð og ríka réttlætingu. Engu skiptir, þótt mönnum kunni að falla slík framkvæmd og hér um ræðir misvel í geð og sumum standi á sama um hana. Aðferðin sem slík er til þess fallin að þrengja að friðhelgi einkalífs og nægir það ekki eitt út af fyrir sig, að starfsmenn við tollgæslu séu bundnir þagnarskyldu. Þótt stefndi hafi rúmar heimildir að lögum til skoðunar á innfluttum varningi hefur hann ekki sýnt fram á það við þessar aðstæður, að nauðsynlegt hafi verið að opna reglubundið og fyrirvaralaust póstsendingar að utan að viðtakendum fornspurðum til að ná því lögmæta markmiði að innheimta aðflutningsgjöld og ekki hafi verið kostur á öðrum aðferðum í því skyni.

Að öllu þessu virtu þykir stefndi með þeirri tollframkvæmd, sem áfrýjandi ber brigður á, hafa gengið í berhögg við einkalífsvernd stjórnarskrárinnar auk meðalhófsreglu stjórnsýsluréttarins. Hins vegar er ósannað, að bækur áfrýjanda í póstsendingunum fjórum sumarið 1999 hafi verið skoðaðar sérstaklega eða eitthvað skráð um efni þeirra.

Samkvæmt framansögðu verður aðalkrafa áfrýjanda tekin til greina þannig, að viðurkennt verður með dóminum, að stefnda hafi verið óheimilt að opna þær fjórar  bókasendingar, sem mál þetta varðar, á þann hátt sem gert var og í þeim tilgangi einum að nálgast vörureikninga eða önnur gögn til þess að geta ákveðið aðflutningsgjöld.

Eftir þessum úrslitum þykir rétt, að stefndi greiða áfrýjanda málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti, eins og segir í dómsorði.

Dómsorð:

Stefnda, tollstjóranum í Reykjavík, var á árinu 1999 óheimilt að opna póstsendingar til áfrýjanda, Harðar Einarssonar, eina 10. júní, tvær 26. júlí og hina fjórðu 23. ágúst, á þann hátt sem gert var og í þeim tilgangi einum að ná í vörureikninga eða önnur gögn til þess að geta ákveðið aðflutningsgjöld.

Stefndi greiði áfrýjanda samtals 500.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 17. maí 2000.

I

Mál þetta, sem tekið var til dóms að loknum munnlegum málflutningi 12. apríl sl., er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur með stefnu birtri 3. ágúst 1999. Málið var þingfest 9. september 1999.

Stefnandi er Hörður Einarsson, kt. 230338-5749, Síðumúla 14, Reykjavík,

Stefndi er Tollstjórinn í Reykjavík, kt. 650269-7649, Tryggvagötu 19, Reykjavík.

Dómkröfur stefnanda eru aðallega þær, að viðurkennt verði með dómi, að tollgæslunni í Reykjavík hafi verið óheimilt að opna og skoða bókasendingar, sem stefnanda bárust í pósti frá útlöndum samkvæmt fjórum póstaðflutningsskýrslum, einni 10. júní 1999, tveimur 26. júlí 1999 og hinni fjórðu 23. ágúst 1999.

Til vara krefst stefnandi þess, að viðurkennt verði með dómi, að tollgæslunni í Reykjavík hafi verið óheimilt að opna og skoða bókasendingar, sem stefnanda bárust í pósti frá öðrum ríkjum innan Evrópska efnahagssvæðisins samkvæmt þremur póstaðflutningsskýrslum, einni 10. júní 1999 og tveimur 26. júlí 1999.

Ennfremur er þess krafist, að stefndi verði dæmdur til greiðslu málskostnaðar samkvæmt mati dómsins.

Dómkröfur stefnda eru þær að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda og að stefnanda verði gert að greiða honum málskostnað samkvæmt mati dómsins.

Málið var tekið til dóms 12. apríl sl. en síðan eru liðnar fimm vikur. Í samtölum við lögmenn málsaðila 16. þ.m. kom fram að þeir teldu ekki þörf á að málið yrði flutt að nýju og staðfestu þeir það í þinghaldi fyrir dómsuppsögu. Dómari málsins var sama sinnis.

II

Óumdeild málsatvik og helstu ágreiningsefni

Stefnandi kaupir öðru hvoru bækur frá útlöndum til einkanota eða vegna atvinnu sinna. Pantar hann þær frá seljendum, sem síðan senda þær til hans í pósti, venjulega eina í hverri sendingu. Ýmist eru bækurnar greiddar við pöntun með greiðslukorti eða síðar samkvæmt reikningi seljanda. Bækurnar eru sendar sem almennar sendingar en ekki sem skráðar sendingar.

Mál þetta höfðar stefnandi vegna fjögurra bókasendinga sem honum bárust í pósti frá útlöndum á tímabilinu frá 10. júní til 23. ágúst 1999 en þær voru allar opnaðar af tollgæslu. Um er að ræða eftirfarandi bókasendingar:

l. Frá Carl Heymanns Verlag KG í Þýskalandi samkvæmt reikningi nr. 609315/01 dags. 5. maí 1999 að upphæð 110.70 þýsk mörk, sbr. póstaðflutningsskýrslu 10. júní 1999.

2. Frá Waterstone's í Bretlandi samkvæmt reikningi dags. 21. júní 1999 að upphæð 63.95 ensk pund, sbr. póstaðflutningsskýrslu 26. júlí 1999.

3. Frá netbókaversluninni amason.co.uk í Bretlandi samkvæmt reikningi dags. 20. júlí 1999 að upphæð 17.24 ensk pund, sbr. póstaðflutningsskýrslu 26. júlí 1999.

4. Frá netbókaversluninni amason.com í Bandaríkjunum samkvæmt reikningi dags. 5. ágúst 1999 að upphæð 12.34 bandaríkjadalir, sbr. póstaðflutningsskýrslu 23. ágúst 1999.

Samkvæmt framangreindu er fyrsta, önnur og þriðja sendingin frá öðrum ríkjum innan Evrópska efnahagssvæðisins en hin fjórða frá Bandaríkjunum.

Stefnandi hefur lagt fram í málinu umbúðir allra þeirra póstsendinga sem um er fjallað og sýna þær að umbúðir bókasendinganna hafa verið opnaðar og þær límdar aftur með límbandi með áletruninni "Tollgæslan Reykjavík". Utan á umbúðirnar hefur verið límdur vasi fyrir vörureikninginn. Stefnanda hefur síðan verið send tilkynning frá pósthúsi um, að hann ætti þar póstsendingu, sem vitja ætti innan eins mánaðar. Í tilkynningu pósthúss er yfirleitt tekið fram hver sé sendandi og tilgreind heildarupphæð gjalds sem greiða þarf við afhendingu sendingarinnar en það er reiknað á grundvelli upplýsinga sem fram koma á reikningi þeim sem fylgir sendingunni.

Þegar stefnandi vitjaði sendinganna í pósthús var honum gert að greiða 24,5% virðisaukaskatt af tollverði hverrar sendingar og fast 180 króna gjald af hverri sendingu vegna tollmeðferðar í pósti. Að greiðslu lokinni fékk stefnandi kvittun á póstaðflutningsskýrslu E-3 sem fyrirfram hafði verið útbúin af póststofu.

Með bréfi til fjármálaráðherra dags. 21. maí 1999 óskaði stefnandi meðal annars eftir því, að hætt yrði að opna í tolli bókasendingar frá útlöndum. Með bréfi fjármálaráðuneytisins dags. 16. júlí 1999 var þeirri ósk hafnað.

Í máli þessu deila aðilar meðal annars um hvort sú aðferð sem tollyfirvöld viðhafa við tollafgreiðslu bókasendinga frá útlöndum samrýmist reglugerð um tollmeðferð póstsendinga nr. 310/1992, meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, jafnræðisreglu 1. mgr. 65. gr. stjórnarskrárinnar, 71. gr. stjórnarskrárinnar um friðhelgi einkalífs, tjáningarfrelsisákvæði 73. gr. stjórnarskrárinnar, 4., 6., 11. og 21. gr. samningsins um Evrópska efnahagssvæðið (hér eftir EES-samningur) sem lögfestur var með lögum nr. 2/1993 og ákvæðum 8. og 10. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu (hér eftir MSE) og alþjóðasamnings um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi.

III

Málsástæður og lagarök stefnanda

Stefnandi byggir málshöfðun þessa á því, að tollyfirvaldi sé óheimilt að stunda reglubundna skoðun og opnun bókasendinga, sem berast í pósti frá útlöndum, eins og gert sé hér á landi. Gildi einu í hvaða tilgangi slík skoðun sé gerð, til innheimtu virðisaukaskatts eða til eftirlits með innflutningi. Slík vinnubrögð séu í andstöðu við öll nútímaleg vinnubrögð við tollgæslu og millilandaverslun, sem miði að því að draga úr tollskoðun og greiða sem best fyrir innflutningi og útflutningi.

Stefnandi byggir á því að 45. gr. tollalaga nr. 55/1987 um heimild tollgæslumanna til skoðunar og rannsóknar á vörum verði ekki beitt um bókasendingar til einkanota, sem stefnanda berast í pósti frá útlöndum, sama frá hvaða löndum sé og óháð tilgangi skoðunar. Önnur lagaákvæði og lagasjónarmið útiloki víðtæka beitingu þeirrar heimildar sem í ákvæðinu felist. Tollyfirvald geti aðeins krafist opnunar sendingar ef um sé að ræða úrtaksathugun á innflutningi eða ef sérstaklega stendur á, svo sem, ef rökstuddur grunur er um ólöglegan innflutning í bókasendingu og þá að stefnanda viðstöddum. Aðalkröfuna rökstyður stefnandi nánar þannig:

1. Stefnandi telur reglulega skoðun og opnun bókasendinga, sem berast í pósti frá útlöndum, andstæða ákvæðum reglugerðar um tollmeðferð póstsendinga nr. 310/1992 með síðari breytingum. Slík framkvæmd brjóti gegn fyrirmæli reglugerðarinnar um úrtaksathugun og val með tilliti til áhættuþátta. Þau gangi þannig lengra heldur en sérákvæði 2. mgr. 10. gr. reglugerðarinnar heimili og einnig lengra en markmið tolleftirlits samkvæmt 1. mgr. 10. gr. veiti tilefni til þar sem ekki gildi um innflutninginn aðrar innflutningstakmarkanir og bækur séu ekki tollskyldar.

2. Regluleg og stöðug opnun og skoðun bókasendinga sé brot gegn meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga. Stöðug opnun yfirvalda á bókasendingum til borgaranna sé gróf aðgerð, hvort sem markmið hennar sé að auðvelda yfirvöldum innheimtu gjalda eða að fylgjast með ólöglegum innflutningi eða jafnvel lesefni borgaranna. Kaup og lestur einstaklinga á bókum og öðru lesefni til einkanota teljist til einkalífs fólks og tjáningarfrelsis og njóti því verndar stjórnarskrár og vísar stefnandi sérstaklega til breytingarlaga nr. 97/1995, MSE, sbr. lög nr. 62/1994, og alþjóðasamnings um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi. Verði ekki við það unað, að stjórnvöld gangi lengra í að fylgjast með innflutningi bóka heldur en annars varnings.

Þá hafi stjórnvöld aðrar og vægari aðferðir en reglulega og stöðuga opnun og skoðun bæði til þess að innheimta virðisaukaskatt og fylgjast með innflutningi. Almenna reglan við móttöku póstsendinga sé sú, að móttakandi fái senda tilkynningu frá pósthúsi þess efnis, að hann eigi þar sendingu frá útlöndum, móttakandinn sé beðinn að vitja hennar og framvísa vörureikningi. Við móttöku á pósthúsi greiði móttakandi aðflutningsgjöld og sjaldnast sé hann beðinn um að opna póstsendinguna. Þá bendir stefnandi á að um innheimtu virðisaukaskatts af blöðum og tímaritum sem send séu í áskrift erlendis frá í pósti verið sett sérstök reglugerð, nr. 336/1993. Þessar sendingar séu aldrei tollskoðaðar og virðisaukaskattur sé gerður upp eftir móttöku. Stefnandi telur að sama eða svipað fyrirkomulag gæti ríkið haft við innflutning bóka.

3. Með því að hafa annan hátt á tollmeðferð bóka heldur en á tollmeðferð póstsendinga almennt, sérstaklega tollmeðferð blaða og tímarita, brjóti ríkisvaldið gegn jafnræðisreglu 1. mgr. 65. gr. stjórnarskrárinnar og banni 14. gr. MSE við mismunun. Að því er varði bækur, blöð og tímarit sérstaklega verði að líta svo á, að um sé að ræða sambærilegar vörur, enda vörurnar t.d. í sama tollflokki samkvæmt 49. kafla tollskrár. Um sé að ræða ólögmæta mismunun.

4. Stefnandi telur að með reglulegri og stöðugri opnun og skoðun póstsendinga, sem innihaldi erlendar bækur, sé brotið gegn 71. gr. stjórnarskrárinnar, eins og hana beri að skýra með hliðsjón af 8. gr. MSE og 17. gr. alþjóðasamningsins um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi. Lestur og kaup bóka sé hluti af einkalífi einstaklinganna í þjóðfélaginu og njóti friðhelgi. Umrædd skerðing á friðhelgi einkalífs sé mannréttindabrot nema hún sé sérstaklega réttlætt. Það fjárhagslega markmið sem búi að baki þessari rannsókn póstsendinga, þ. e. að innheimta virðisaukaskatts, réttlæti hana ekki, sbr. sérstaklega 2. mgr. 8. gr. MSE. Meðalhófsreglan sé innbyggður hluti af 71. gr. stjórnarskrárinnar, 8. gr. MSE og 17. gr. alþjóðasamningsins um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi.

5. Í reglulegri og stöðugri opnun og skoðun póstsendinga, sem innihaldi erlendar bækur, felist skerðing á tjáningarfrelsi, sbr. 73. gr. stjórnarskrárinnar, samanber 10. gr. MSE og 19. gr. alþjóðasamningsins um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi. Sérhver maður eigi rétt á því að taka við upplýsingum og hugmyndum heima og erlendis án afskipta stjórnvalda nema svo standi á sem greinir í 3. mgr. 73. gr. stjórnarskrárinnar, 2. mgr. 10. gr. MSE og 3. mgr. 19. gr. alþjóðasamningsins um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi, en þær undantekningar eiga hér ekki við. Stefnandi telur ekki vera nauðsynlegt til þess að um sé að ræða skerðingu á tjáningarfrelsi í þessu sambandi, að sá, sem tjáningin sé ætluð, verði endanlega af henni. Nægilegt sé að tjáningin sé trufluð með afskiptum ríkisvaldsins eins og hér sé um að ræða.

6. Stefnandi bendir á að þær fjórar bókasendingar, sem hér um ræðir, séu aðeins hinar síðustu í langri röð bókasendinga, sem hann hafi fengið í pósti frá útlöndum yfir langt tímabil og hafa verið opnaðar og skoðaðar af tollgæslu. Engin sérstök ástæða hafi verið til þess að opna og skoða umræddar sendingar eða aðrar slíkar til stefnanda.

Verði sjónarmiðum þeim sem stefnandi teflir fram fyrir aðalkröfu hafnað telur hann að sérreglur EES-samningsins, sbr. lög um Evrópska efnahagssvæðið nr. 2/1993, leiði til annarrar niðurstöðu að því er varðar innflutning bóka frá öðrum ríkjum innan Evrópska efnahagssvæðisins.

Stefnandi bendir á að í inngangsorðum EES-samningsins, sé meðal annars lögð áhersla á það markmið samningsaðilanna að mynda öflugt og einsleitt Evrópskt efnahagssvæði er grundvallist á sameiginlegum reglum og sömu samkeppnisskilyrðum. Ríkin hafi einsett sér að beita sér fyrir því að frelsi til vöruflutninga verði sem víðtækast á svæðinu og einnig lýst því yfir, að þau stefndu að því, með fullri virðingu fyrir sjálfstæði dómstólanna, að ná fram og halda sig við samræmda túlkun og beitingu EES-samningsins og þeirra ákvæða í löggjöf Evrópubandalagsins, sem tekin voru efnislega upp í EES-samninginn.

Þau ákvæði EES-samningsins, sem í máli þessu komi helst til álita séu 11. gr. hans sem efnislega svari til 28. gr. stofnsáttmála Evrópubandalagsins. Í 11. gr. EES-samningsins segi að magntakmarkanir á innflutningi, svo og allar ráðstafanir sem hafi samsvarandi áhrif, séu bannaðar milli samningsaðila.

Því er haldið fram, að regluleg og stöðug opnun og skoðun bókasendinga frá öðrum EES-ríkjum, eins og hún sé framkvæmd hér á landi, teljist ráðstöfun sem hafi samsvarandi áhrif og magntakmarkanir og feli því í sér brot gegn EES-samningnum, nema hún sé sérstaklega réttlætt. Framkvæmdin sé öll önnur en varðandi bækur sem Íslendingar kaupi innanlands. Það sé réttur Íslendinga að fá allar bækur án tálmunar af hendi stjórnvalda. Einnig sé það réttur þeirra sem hingað selji bækur frá EES-ríkjum, að ekki séu hömlur á afhendingu þeirra til kaupenda hér á landi.

Í 1. mgr. 21. gr. EES-samningsins skuldbindi EES-ríkin sig til þess að einfalda eftirlit og formsatriði á landamærum, og er vísað um fyrirkomulag til bókunar 10, en hún fjallar um að einfalda skoðun og formsatriði vegna vöruflutninga. Í l. mgr. 3. gr. bókunar 10 sé meðal annars orðuð sú almenna regla að skoðun vegna flutnings á vörum yfir landamæri milli EFTA-ríkis og Evrópubandalagsins, sbr. 1. mgr. 2. gr. bókunar 10, felist í slembiathugunum, nema gild rök réttlæti annað. Stefnandi telur að reglan um að tollskoðun eigi almennt að takmarkist við slembiathugun styðjist auk þess við 11. gr. EES-samningsins.

Þá er því haldið fram, að með opnun og skoðun bókasendinga frá öðrum ESS-ríkjum brjóti íslenska ríkið gegn banni 4. gr. EES-samningsins við mismunun á grundvelli ríkisfangs á gildissviði samningsins.

Við skýringu EES-réttar ber að taka ríkt tillit til meðalhófsreglunnar, sem er ein af grundvallarreglum EB-réttarins og þar með EES-réttarins. Með hliðsjón af meginreglunni um frjálst vöruflæði verði opnun og skoðun hverrar einustu bókasendingar ekki talið hóflegt tæki til þess að innheimta opinber gjöld af innflutningi og fylgjast eðlilega með honum, enda önnur og vægari úrræði tiltæk, sbr. það, sem sagði um það efni í rökstuðningi fyrir aðalkröfunni.

Við skýringu EB og EES-réttar beri einnig að tryggja vernd mannréttinda og sé það hlutverk jafnt innanlandsdómstóla sem EB-dómstólsins og EFTA-dómstólsins. Þá sé frjálst vöruflæði ein af grundvallarreglum EB og EES-réttarins. Allar takmarkanir á frjálsu vöruflæði verði því að réttlæta sérstaklega, annað hvort samkvæmt undantekningum 13. gr. eða með vísun til brýnna þarfa vegna almannahagsmuna.

Stefnandi bendir á að skýra skuli íslensk lög og reglur, að svo miklu leyti sem við eigi, til samræmis við EES-samninginn og þær reglur, sem á honum byggi. Með 3. gr. laga nr. 2/1993 hafi verið leidd í íslensk lög sú skuldbinding, sem Ísland tók á sig með bókun 35 við EES-samninginn en af henni sé ljóst, að EES-reglum sé ætlað að hafa forgang, þar sem þær og landslög kunni að rekast á. Með hliðsjón af þessu verði 45. gr. tollalaga nr. 55/1987 ekki beitt eftir orðanna hljóðan um heimild til skoðunar á vörum frá öðrum EES-ríkjum, þar sem hún brjóti í bága við meðal annars 11. gr. EES. Ákvæðið sé frá því fyrir gildistöku EES-samningsins og hafi ekki verið aðlagað honum þrátt fyrir endurskoðun tollalaga á síðustu árum. Beri því að skýra þetta ákvæði með hliðsjón af ákvæðum samningsins.

Stefnandi hefur í málatilbúnaði sínum vísað til fjölmargra dómsúrlausna EFTA-dómstólsins og Evrópudómstólsins og einnig til stofnsáttmála Evrópubandalagsins.

IV

Málsástæður og lagarök stefnda

Stefnandi kveður bókasendingar frá útlöndum hafa færst í vöxt, einkum með tilkomu veraldarvefsins og beri slíkar sendingar utan á sér að í þeim sé gjaldskyldur varningur. Af hálfu stefnda er mótmælt þeim skilningi stefnanda að bókasendingar til stefnanda hafi verið opnaðar til að framkvæma á skoðun á innihaldi þeirra. Stefnandi kveður sendingarnar hafa verið opnaðar til þess eins að kanna hvort bók eða önnur gjaldskyld vara væri í sendingunni og hvort vörureikningur væri til staðar til að grundvalla á útfyllingu aðflutningsskýrslu. Um hafi verið að ræða lágmarksskoðun sem framkvæmd hafi verið þar sem yfirgnæfandi líkur hafi verið taldar á að umræddar sendingar innihéldu gjaldskylda vöru.

Sendingar þær sem um ræðir í málinu sæti tollmeðferð samkvæmt tollalögum nr. 55/1987. Teljist sá virðisaukaskattur sem stefnanda hafi verið skylt að greiða af bókum til aðflutningsgjalda, sbr. 1. gr. tollalaga, og hann hafi borið að innheimta samkvæmt 34. gr. laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt. Upplýsingar um tollverð vöru sé forsenda ákvörðunar aðflutningsgjalda, sbr. 8. gr. tollalaga, en tollstjórar, hver í sínu umdæmi, annist álagningu og innheimtu tolla og annarra skatta og gjalda sem greiða beri við tollafgreiðslu samkvæmt tollalögum, sbr. 3. mgr. 36. gr. tollalaga. Almennt beri sá er flytur inn vörur sem sæta skulu tollmeðferð ábyrgð á því að upplýsingar til útfyllingar aðflutningsskýrslu séu réttar, sbr. 16. gr. tollalaga. Sé innflytjanda skylt að afhenda tollyfirvaldi frumrit eða samrit af vörureikningi yfir hina innfluttu vöru eða sendingu þegar afhendingar aðflutningsskýrslu er krafist, sbr. 18. gr. tollalaga, en ríkistollstjóri ákveður form hennar samkvæmt 15. gr. laganna. Samkvæmt ákvæðum tollalaga verði innflutt vara ekki afhent fyrr en hún hafi verið tollafgreidd og aðflutningsgjöld greidd.

Í reglugerð nr. 310/1992 um tollmeðferð póstsendinga sé fjallað um tollmeðferð á nánar tilgreindum smásendingum. Samkvæmt 3. gr. hennar skuli allar innfluttar póstsendingar fluttar til tollmeðferðar á Póstmiðstöðina í Reykjavík, sem þjóni öllu landinu. Sendingin verði ekki afhent fyrr en tollmeðferð hafi farið fram og aðflutningsgjöld greidd. Í 6. gr. reglugerðarinnar sé heimilað að nota sérstaka póstaðflutningsskýrslu á eyðublaði E-3 og skuli það fyllt út af póststarfsmönnum í samráði við ríkistollstjóra. Póstaðflutningsskýrslur séu sendar til innheimtu ásamt sendingunum á hlutaðeigandi pósthús. Þegar vörureikningar séu ekki utan á sendingunum eða fylgiskjal með póstfylgibréfi þurfi að opna sendingarnar því í fjölmörgum tilvikum séu reiknar inni í þeim. Ekki komi í hlut annarra en starfsmanna stefnda að sinna þeim þætti og hafa með höndum tolleftirlit, sbr. 2. gr. reglugerðarinnar.

Stefndi byggir á því, að samkvæmt 45. gr. tollalaga hafi verið heimilt að opna póstsendingar sem stefnanda hafi borist. Tollgæslumönnum sé heimilt að skoða og rannsaka allar vörur sem fluttar séu til landsins, hvort sem um sé að ræða vörur á farmskrá, póstflutning, farþegaflutning eða annað. Starfsmenn stefnda hafi aðsetur á Póstmiðstöðinni í Reykjavík en þangað berist allar póstsendingar frá útlöndum. Tollmeðferð póstsendinga fari fram þar og án þess að viðtakandi, sem geti verið búsettur hvar sem er á landinu, sé tilkvaddur. Ekki sé talið hagkvæmt að kalla fleiri þúsund manns sem fá gjaldskyldar sendingar á ári hverju í póstmiðstöð til að framvísa vörureikningum eða til að opna sendingar. Stefndi kveður umrædda framkvæmd byggjast á skýrri heimild í tollalögum. Vísar hann einnig til 2. mgr. 33. gr. laga nr. 142/1996 um póstþjónustu í því sambandi.

Af hálfu stefnda er áréttað að þessi meðferð sé undantekning frá hinni almennu meðferð þegar almennt tollskýrslueyðublað, E-1, er notað en telur notkun þess eyðublaðs vera mun flóknari, sbr. reglugerð nr. 228/1993 um tollskýrslur og fylgiskjöl þeirra. Ákvæði 6. gr. og 10. gr. reglugerðarinnar verði því að skýra saman. Með því að nota póstaðflutnings­skýrslu, E-3, náist það markmið frekar að einfalda og flýta tollmeðferð og draga úr töfum eða hindrunum á innflutningi smápóstsendinga. Af hálfu stefnda er því mótmælt að umrædd aðferð sé andstæð ákvæði 10. gr.

Stefndi byggir einnig á því að starfsmenn hans séu bundnir þagnarskyldu. Vísast til 18. gr. laga nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins nr. 70/1996, 141. gr. tollalaga og 44. gr. laga um virðisaukaskatt nr. 50/1988.

Stefnandi telur að líta verði á bækur eins og hvern annan innfluttan varning sem sæti tollmeðferð samkvæmt tollalögum. Vara sem sæti tollmeðferð sé almennt ekki í lokuðum umbúðum og sé þannig að jafnaði ljóst hvaða vöru sé um að ræða. Skýra grein verði að gera fyrir innihaldi vörusendingar til þess að unnt sé að tollafgreiða, sbr. t.d. ákvæði 24. og 25. gr. tollalaga svo og 42. gr., 45. gr. og 2. mgr. 50. gr. laganna svo og 5., 6. og 7. gr. reglugerðar nr. 310/1992.

Að hálfu stefnda er því haldið fram að útlit og merkingar umræddra sendinga til stefnanda hafi borið með sér að um væri að ræða bókasendingu frá erlendu bókaforlagi sem bæri að greiða af aðflutningsgjöld. Það sé reynsla starfsmanna stefnda slíkar sendingar hafi að geyma vörureikning sem hægt sé að byggja útreikning aðflutningsgjalda á. Ekki liggi annað fyrir en að í tilviki stefnanda hafi vörureikningar verið inni í póstsendingunni. Ekkert sé fram komið um að sérstök rannsókn hafi farið fram á innihaldi bókasendinganna, enda ekki merkt í reit því viðvíkjandi á póstaðflutningsskýrslum, sem lagðar hafi verið fram.

Ekki sé vitað til að starfsmenn stefnda hafi séð eða veitt eftirtekt innihaldi póstsendinganna umfram þær upplýsingar sem fram komi á vörureikningi og aðflutningsskýrslu, en þær upplýsingar hvorki geti né megi fara fram hjá þeim. Samkvæmt ákvæðum tollalaga, meðal annars í 104. gr., megi ekki afhenda vöru fyrr en hún hefur verið tollafgreidd.

Aðflutningsgjöld, í þessu tilviki virðisaukaskattur, sé reiknaður af kaupverði bókarinnar og flutningskostnaði en upplýsingar um slíkt komi að jafnaði fram á vörureikningi. Engin önnur ástæða hafi legið að baki opnunar bókasendinga til stefnanda en að nálgast slíkan vörureikning.

Þegar starfsmanna stefnda hafi opnað bókasendingu til að nálgast reikning sé henni lokað aftur og innsigluð með límbandi, merktu tollgæslunni, áður en starfsmenn við póstþjónustu geti handleikið sendinguna. Þannig sé tryggt að opinber starfsmaður tollgæslu, sem bundinn sé þagnarskyldu, hafi tollafgreitt vöruna. Fjárhæð reikningsins sé síðan rituð utan á pakkann, svo að fylla megi út póstaðflutningsskýrslu, hún sett í vasa utan á pakkann og hann fluttur á hlutaðeigandi pósthús þar sem viðtakandi vitjar hans og greiðir lögboðin gjöld. Stefnandi byggir á því að við þessar aðstæður sé í raun óhjákvæmilegt annað en að sendingar verði að opna af starfsmanni stefnda til að frumtilgangi tollafgreiðslu verði náð. Í opnun póstsendinga í framangreindum tilgangi því felist alls ekki rannsókn á innihaldi sem hægt sé að fella undir ritskoðun eða brot gegn friðhelgi einkalífs eins og stefnandi haldi fram.

Stefndi byggir á því að meta verði allar máls­ástæður stefnanda í ljósi framangreindra atriða. Í þessu sambandi beri einnig að líta til þess að nauðsyn þess að opna sendingar stefnanda hafi ekki síst verið til komin vegna þess að sendingarnar hafi verið þannig búnar til flutnings að reikningur hafi verið inni í þeim. Framangreind tollmeðferð sé í fullkomnu samræmi við meðalhófsreglu og mjög í anda hennar, þannig að lögmætu markmiði verði náð án þess að stefnanda eða öðrum sé íþyngt umfram það sem nauðsynlegt er. Þar sem opnun sendinga styðst við skýlausar heimildir í lögum og reglugerðum, svo og lögmæt markmið telur stefndi að sýkna beri af öllum kröfum stefnanda. Þá beri að virða varnir stefnda í því ljósi að virðisaukaskattur sé ein megintekjulind ríkisins og mikilvægt að tryggja skilvirka innheimtu skattsins.

Þá mótmælir stefndi því að meðalhófsregla 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 hafi verið brotin þar sem um eiginlega stjórnsýsluákvörðun hafi ekki verið að ræða svo vitað sé. Stjórnsýslulög gildi ekki um almenn stjórnvaldsfyrirmæli og geti því tæplega átt við.

Stefndi telur að megintilgangi laga verði að ná og virk innheimta lögboðinna gjalda sé lögmætt markmið og óhjákvæmilegt. Engin huglæg afstaða stefnda standi til þess að takmarka persónu- eða tjáningarfrelsi stefnanda og vara sem sæti tollmeðferð geti ekki talist til eiginlegra tjáskipta eða að bréfleynd hvíli þar á.

Stefndi mótmælir því að brotið hafi verið gegn jafnræðisreglu stjórnarskrár í 1. mgr. 65. gr. eða 14. gr. MSE. Stefndi telur jafnræðisreglu ekki taka til mismunandi meðferðar dauðra hluta, heldur þess hvort mönnum eða lögaðilum sé mismunað þannig að í bága fari við greindar jafnræðisreglur þegar um öldungis sambærilegt tilvik sé að ræða. Þar sem stefnandi byggi ekki á því að hann hafi sætt annarri meðferð en aðrir þeir sem fá bækur sendar frá útlöndum verði kröfur hans ekki studdar við jafnræðisreglu. Þá sé ekki fram komið að stefnandi hafi sætt mismunun vegna þeirra atriða sem nefnd séu í 65. gr. stjórnarskrár eða 14. gr. MSE, sbr. lög nr. 62/1994, svo sem litarháttar, kynferðis, trúarbragða eða annars. Mismunandi meðferð á bókum annars vegar og blöðum og tímaritum hins vegar sé áreiðanlega ekki andstæða ákvæðum þessum.

Í stefnu er réttilega bent á að fyrirkomulag tollmeðferðar á blöðum og tímaritum sé háttað með talsvert öðru móti á grundvelli reglugerðar nr. 336/1993. Ákvæði reglugerðarinnar mæli ekki fyrir um að blöð og tímarit sem send séu í pósti erlendis frá séu undanþegin tolleftirliti. Einungis sé þar mælt fyrir um sérstakar reglur varðandi innheimtu virðisaukaskatts af slíkum varningi. Af þessari reglugerð verði ráðið að reynt hafi verið að einfalda og flýta tollmeðferð og þar með vöruflæði eftir því sem við verður komið.

Stefndi telur tollmeðferð póstsendinga til stefnanda ekki andstæða 71. gr. stjórnarskrárinnar, 8 gr. MSE eða 17. gr. alþjóðasamnings um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi. Stefnandi njóti friðhelgi einkalífs síns þótt upplýsingar um innihald póstsendinga, sem sæta skulu tollmeðferð, komi lögum samkvæmt fyrir sjónir starfsmanna stefnda, sem bundnir séu þagnarskyldu. Ekki fari fram skráningar á niðurstöðum eftirlits eða kerfisbundin söfnun upplýsinga sem sé til þess fallin að vega að friðheldi einkalífs eða tjáningarfrelsi. Sendingar séu einungis opnaðar í þeim tilgangi að unnt sé að fylla út póstaðflutningsskýrslu. Þá sé heimilt samkvæmt 2. mgr. 71. gr. stjórnarskrár að rannsaka skjöl og póstsendingar með sérstakri lagaheimild. Stefndi telur að það eitt að nálgast vörureikning í sendingu, sem óumdeilt sé að sæta skuli tollmeðferð, sé ekki andstætt nefndum ákvæðum, enda um lögmætt markmið og tilgang að ræða.

Stefndi mótmælir að kröfur stefnanda verði studdar við 8. gr. MSE eða 17. gr. alþjóðasamnings um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi.. Stefnandi hafi ekki gert nákvæma grein fyrir því á hvern hátt sé vegið að friðhelgi einkalífs síns. Um hafi verið að ræða innflutning á vöru sem sæti tollmeðferð að lögum og greiða beri aðflutningsgjöld af. Slíkur innflutningur sæti eftirliti lögum samkvæmt en allar innfluttar vörur sæti tollmeðferð. Þótt talið yrði að opnanir sendinga væru innan gildissviðs nefndra ákvæða, telur stefndi að fyrir hendi séu lögmæltar undantekningar til að ná málefnalegum og lögmætum markmiðum, meðal annars til að halda uppi virku eftirliti með því að lögskyld aðflutningsgjöld séu greidd af innfluttum vörum.

Þá mótmælir stefndi því að kröfur stefnanda verði studdar við ákvæði 73. gr. stjórnarskrár, 10. gr. MSE eða 19. gr. alþjóðasamnings um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi. Ekki hafi verið settar skorður við tjáningarfrelsi stefnanda, en því megi setja skorður með lögum, sbr. 3. mgr. 73. gr. stjórnarskrár og 2. mgr. 10. gr. MSE. Framkvæmd tolleftirlits með innfluttum bókum og öðrum vörum brjóti ekki gegn nefndum ákvæðum, þar sem hún hindri á engan hátt möguleika borgarans á að tjá skoðanir sínar eða sannfæringar eða afla sér hverra þeirra upplýsinga sem þeir óska. Sömu sjónarmið hljóti að eiga við um allar vörur sem sæti tollmeðferð og bækur njóti þar ekki sérstöðu. Telur stefndi að ákvæði laga um tolleftirlit, opnun og skoðun rúmist innan heimilda greindra ákvæða.

Af hálfu stefnda er varakröfu stefnanda mótmælt með sömu rökum og að framan greinir en því til viðbótar byggir stefndi  á eftirfarandi sjónarmiðum.

Stefndi mótmælir því að um sé að ræða magntakmarkanir eða aðgerðir er hafi samsvarandi áhrif samkvæmt 11. gr. EES-­samningsins, sbr. lög nr. 2/1993. Gildandi framkvæmd sé fremur til einföldunar og til þess að flýta fyrir tollafgreiðslu vara.

Stefndi mótmælir því að brotið hafi verið gegn 4. gr. EES-samningsins um mismunun á grundvelli ríkisfangs í tilviki stefnanda. Stefndi mótmælir því að tálmun sé fyrir að fara þótt innfluttar bækur sæti tollmeðferð. Tilgangur EES-samningsins sé ekki að sporna gegn tollmeðferð innfluttra vara. Eðli málsins samkvæmt þurfi maður hér á landi ekki að fá bók tollafgreidda kaupi hann hana innanlands en erlendar bækur séu almennt keyptar af aðilum sem séu skráðir á virðisauka­skattskrá og sjálfir hafi flutt inn vöruna og fengið tollafgreidda. Gildandi framkvæmd sé almennt fremur til þess fallin að auka frjálst vöruflæði en takmarka það. Engin höft séu á heimild stefnanda til að kaupa bækur frá útlöndum.

Stefndi kveður bókun 10 við EES-samninginn um að einfalda skoðun og formsatriði vegna vöruflutninga ekki hafa lagagildi hér á landi. Umrædd framkvæmd sé hins vegar í góðu samræmi við megintilgang hennar. Það að krefja hvern og einn innflytjanda póstsendinga um tollskýrslugerð í formi E-1 og að byggja eftirlitið eingöngu á slembiúrtaki hefði mun meiri tálmanir í för með sér gagnvart slíkum innflutningi, en það fyrirkomulag sem nú er viðhaft að tollayfirvöld framkvæmi lauslega skoðun á hverri sendingu svo að unnt sé að útfylla póstaðflutningsskýrslu E-3. Engum tæknilegum hindrunum sé til að dreifa.

Stefndi mótmælir því að núverandi framkvæmd sé andstæð þeirri meðalhófsreglu sem leggja beri til grundvallar við skýringu EES-samningsins. EES-samningurinn sé ekki mannréttindasamningur og ekki sé vegið að mannréttindum stefnanda.

Því er mótmælt að opnanir á sendingum sem sæti tollmeðferð sé takmörkun á vöruflæði. Þótt hins vegar yrði á það fallist telur stefndi að almannahagsmunir réttlæti slíkar aðgerðir, sbr. 13. gr. EES-samningsins, enda verði að tryggja innheimtu virðisaukaskatts og jafnræði við hana með virkum hætti.

V

Niðurstaða

Í þinghaldi í málinu 7. janúar sl. var fjallað um hvort á málinu væru gallar sem varðað gætu frávísun án kröfu en í greinargerð stefnda er vikið að því. Dómarinn taldi málatilbúnað stefnanda ekki gefa tilefni til að taka málið nú til munnlegs málflutnings og úrskurðar um hvort vísa því frá dómi án kröfu, sbr. 1. mgr. 100. gr. laga nr. 91/1991. Stefnandi þykir hafa lögvarða hagsmuni af að fá skorið úr dómkröfum sínum og þykja engir þeir gallar vera á málatilbúnaði hans að vísa beri málinu frá dómi án kröfu.

Í stefnu var vakin athygli á því að rétt kynni að vera að leita ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins vegna álitaefna í málinu en ekki gerð krafa um það. Í þinghaldi 7. janúar sl var fjallað um hvort dómaranum væri rétt að leita ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins. Taldi dómarinn ekki þörf á að leita slíks álits í málinu og gerðu lögmenn málsaðila ekki athugasemdir við þá niðurstöðu.

Samkvæmt 3. mgr. 36. gr. tollalaga nr. 55/1987, sbr. breytingu með 17. gr. laga nr. 69/1996, annast tollstjórar, hver í sínu tollumdæmi, meðal annars eftirlit með innflutningi, umflutningi og útflutningi á vörum til og frá landinu. Stefndi, Tollstjórinn í Reykjavík, annast eftirlit með innflutningi í Reykjavík, þar á meðal innflutningi á öllum póstsendingum til landsins og eru þær afgreiddar í Póstmiðstöðinni í Reykjavík, þar sem starfsmenn stefnda starfa.

Um ákvæði reglugerðar nr. 310/1992

Fyrir liggur að tollur er ekki lagður á bækur hér á landi. Við innflutning bóka er hins vegar á þær lagður virðisaukaskattur. Telst hann til aðflutningsgjalda, samkvæmt 1. gr. tollalaga nr. 55/1987 og ber að greiða hann við tollmeðferð vöru áður en varan er afhent. Bækur eru þannig teknar til tollafgreiðslu eins og annar varningur sem fluttur er til landsins.

Samkvæmt 45. gr. tollalaga er tollgæslumönnum veitt heimild til þess að skoða og rannsaka allar vörur er flytjast til landsins, hvort sem um er að ræða vörur á farmskrá, póstflutning, farþegaflutning eða annað. Heimilt er að krefjast þess að vörurnar séu fluttar í húsakynni tollgæslunnar eða á annan tiltekinn stað þar sem tolleftirlit er framkvæmt og þeim framvísað þar til skoðunar. Engin rök eru til að um bækur til einkanota gildi sérstakar reglur um heimildir tollgæslumanna til skoðunar fremur en um bækur sem fluttar eru til landsins til endursölu eða um aðrar vörur sem fluttar eru inn.

Samkvæmt 16. gr. tollalaga ber þeim sem flytur inn vöru sem sæta skal tollmeðferð ábyrgð á að upplýsingar til útfyllingar aðflutningsskýrslu séu réttar. Þá er innflytjanda samkvæmt 18. gr. tollalaga skylt að afhenda tollyfirvaldi frumrit eða afrit vörureiknings yfir hina innfluttu vöru þegar afhendingar aðflutningsskýrslu er krafist. Í 1. mgr. 6. gr. reglugerðar um tollmeðferð póstsendinga, nr. 310/1992, er gert ráð fyrir að í aðflutningsskýrslu, sem rituð sé á tollskýrslueyðublað, skuli viðtakandi póstsendingar veita upplýsingar um hvaða vörur séu í sendingunni, verð þeirra tollskrárnúmer, aðflutningsgjöld og fleira. Í 2. mgr. 6. gr. er kveðið á um að póststarfsmönnum sé heimilt að nota sérstakt tollskýrslueyðublað, E-3, sem skal fyllt út af póststarfsmönnum og sent viðtakanda til undirritunar. Póststjórnin og ríkistollstjóri skulu hafa samráð um hvenær nota megi slíkt tollskýrslueyðublað. Slíkt tollskýrslueyðublað er notað við tollafgreiðslu smásendinga af því tagi sem hér um ræðir. Til þess að tollyfirvöldum sé unnt að nýta framangreinda heimild til að nota tollskýrslueyðublað E-3 þarf tollverð vörunnar að liggja fyrir. Óumdeilt er að póstsendingar þær sem stefnandi fékk í hendur báru ekki með sér hvert tollverð vörunnar var.

Í 1. mgr. 10. gr. reglugerðar nr. 310/1992 segir að tolleftirlit með póstsendingum skuli miða að því að fyrirbyggja að ákvæði laga um bann við innflutningi á vörum séu brotin, tryggja að lagaákvæði varðandi innflutningstakmarkanir séu virt og tollskyldar vörur séu færðar til tollafgreiðslu. Í 2. mgr. segir síðan að tolleftirlit samkvæmt 1. mgr. skuli fara fram með úrtaksathugun og vali með tilliti til áhættuþátta.

Með hliðsjón af þeim stóra þætti sem virðisaukaskattur er í tekjuöflun ríkisins og ákvæðum tollalaga um innheimtu aðflutningsgjalda má fallast á með stefnanda að einn mikilvægasti þáttur tollmeðferðar sé að stuðla að því að lögboðin aðflutningsgjöld verði greidd af vöru og afla í því skyni nauðsynlegra upplýsinga. Í því skyni getur verið nauðsynlegt að upplýsa hvers kyns vara sé í tiltekinni sendingu, hvort aðflutningsgjöld beri að greiða af henni og hvert sé tollverð hennar. Með vísan til framangreinds og annarra ákvæða reglugerðar nr. 310/1992 en 10. gr. má vera ljóst að tolleftirlit lýtur að fleiru en því sem talið er upp í 1. mgr. 10. gr. Af samhengi 1. og 2. mgr. 10. verður að álykta að fyrirmæli um tolleftirlit með úrtaksathugun taki fyrst og fremst til þeirra fyrirbyggjandi og íþyngjandi aðgerða sem um er fjallað í 1. mgr. en ekki til lágmarksskoðunar af því tagi sem hér um ræðir, sem telja verður að sé fyrst og fremst ætlað að stuðla að skilvirku eftirliti með réttri álagningu og innheimtu aðflutningsgjalda.

Í máli þessu er ekki annað fram komið en að umræddar bókasendingarnar til stefnanda, sem teljast til smápóstsendinga, hafi verið opnaðar í þeim tilgangi einum að ná vörureikningi innan úr þeim til þess að byggja á útreikning aðflutningsgjalda. Með hliðsjón af 45. gr. tollalaga, þeim tilgangi tollmeðferðar að tryggja skilvirka innheimtu opinberra gjalda og öðru framansögðu verður ekki talið að sú starfsaðferð tollyfirvalda að opna umbúðir vöru í þeim tilgangi að nálgast vörureikning sé óheimil vegna ákvæða 1. og 2. mgr. 10. gr. reglugerðar nr. 310/1992.

Um meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Í framburði Bjarna Sverrissonar yfirtollvarðar fyrir dómi kom fram að smápóstsendingar af því tagi sem um ræðir í máli þessu skipti tugum þúsunda á ári. Einnig að tollverðir opni kerfisbundið þær sendingar sem bæru það með sér að vörureikningur væri í þeim í því skyni að nálgast reikninginn til að grundvalla á útreikning aðflutningsgjalda. Af hálfu stefnanda hefur því verið haldið fram að tollyfirvöldum sé í lófa lagið að viðhafa sömu aðferð við tollafgreiðslu þessara sendinga og annarra póstsendinga, þ.e. að byggja innheimtu aðflutningsgjalda á upplýsingum um tollverð sem fram komi í aðflutningsskýrslu frá móttakanda. Ef uppgefið tollverð eða annað þyki tortryggilegt eigi tollyfirvöld þess kost á að opna sendingu og skoða og eins sé hægt að beita úrtaksathugun.

 Sýnt hefur verið fram á í málinu að sú framkvæmd tollyfirvalda að opna póstsendingar með bókum í því skyni að ná út vörureikningi til að byggja á álagningu aðflutningsgjalda þjónar því markmiði að starfsmenn Póstmiðstöðvarinnar í Reykjavík geti útfyllt sérstaka aðflutningsskýrslu, E-3, og móttakendur sendinga nálgast þær á næsta pósthúsi eftir að hafa staðfest aðflutningsskýrslu með undirritun sinni. Stefnandi bendir réttilega á að tollyfirvöldum séu aðrar leiðir færar til að grundvalla á rétta álagningu aðflutningsgjalda. Hann þykir hins vegar ekki hafa sýnt fram á að þær leiðir sem hann bendir á væru síður íþyngjandi fyrir móttakendur smápóstsendinga.

Við mat að því hvort tollyfirvöld brjóti gegn meðalhófsreglu með umræddri framkvæmd þykir verða að horfa til þess að opnun póstsendinga af þessu tagi, sem framkvæmd er af tollvörðum sem bundnir eru þagnarskyldu, þykir ekki verulega íþyngjandi fyrir móttakanda sendingar. Með hliðsjón af víðtækri heimild tollyfirvalda samkvæmt 45. gr. tollalaga til að skoða póstsendingar, fjölda sendinga af þessu tagi, mikilvægi skilvirkrar innheimtu aðflutningsgjalda og því augljósa hagræði sem dómurinn telur móttakendur póstsendinga af þessu tagi hafa af þessari framkvæmd þykir kerfisbundin opnun tollyfirvalda á umbúðum slíkra póstsendinga ekki brjóta gegn meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Um jafnræðisreglu 67. gr. stjórnarskrárinnar

Fyrir liggur að bókasendingar í pósti frá útlöndum af því tagi sem hér um ræðir eru opnaðar með kerfisbundnum hætti ef ekki er hægt að nálgast vörureikning nema opna þær. Slík kerfisbundin opnun er eingöngu viðhöfð um þær póstsendingar sem tollafgreiða má á grundvelli tollskýrslueyðublaðs E-3 en ekki um blöð og tímarit eða aðrar póstsendingar.

Stefnandi þykir ekki hafa sýnt fram á að önnur framkvæmd hafi verið viðhöfð varðandi bókasendingar til hans en um sambærilegar bókasendingar til annarra. Af hálfu stefnda þykir hafa verið gerð fullnægjandi grein fyrir þeim sérstöku rökum sem liggja til grundvallar sérreglum um innheimtu virðisaukaskatt af blöðum og tímaritum sem send eru í áskrift erlendis frá í pósti, samanber reglugerð um það efni nr. 336/1993. Einnig þykir stefndi hafa sýnt fram á að málefnaleg sjónarmið liggi að baki notkun tollskýrslublaðs E-3, sem umrædd kerfisbundin opnun póstsendinga er forsenda fyrir. Málefnaleg rök þykja þannig liggi að baki því að tollyfirvöld geri greinarmun á bókasendingum sem hér um ræðir og öðrum þeim vörum sem stefnandi hefur vísað til og að mismundi framkvæmd sé höfð á tollafgreiðslu þessara vörutegunda.

Þar sem ekki hefur verið sýnt fram á í máli þessu að stefnandi hafi mátt sæta annarri framkvæmd við tollafgreiðslu en þeir sem flytja inn sambærilega vöru verður ekki fallist á að stefndi hafi brotið gegn jafnræðisreglu 1. mgr. 65. gr. stjórnarskrárinnar.

Um friðhelgi einkalífs samkvæmt 71. gr. stjórnarskrár

Tollstarfsmenn eru ríkisstarfsmenn og er, samkvæmt 18. gr. laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins nr. 70/1996, skylt að gæta þagmælsku um atriði er þeir fá vitneskju um í starfi sínu og leynt skulu fara samkvæmt lögum, fyrirmælum yfirmanna eða eðli málsins.

Sem fyrr segir opna tollgæslumenn með kerfisbundnum hætti slíkar bókasendingar sem stefnandi hefur fengið sendar í pósti.  Ekkert er fram komið í málinu um það að opnun á bókasendingum stefnanda hafi farið fram í öðrum tilgangi en þeim að ná í meðfylgjandi vörureikninga, sem sannanlega fundust í öllum fjórum bókasendingunum og voru lagðir til grundvöllur útreikningi virðisaukaskatts.

Fallast má á með stefnda að líta verði á innflutning á bókum með þeim hætti sem stefnandi hefur kosið sem hvern annan innflutning á vörum í skilningi tollalaga. Ljóst má vera að ekki er til þess ætlast samkvæmt tollalögum að því sé haldið leyndu gagnvart tollyfirvöldum hvers kyns vöru sé verið að flytja til landsins og á það jafnt við vöruheiti og nánari gerð hennar. Þvert á móti ber innflytjanda að gefa upplýsingar til tollyfirvalda um innflutta vöru, sbr. 15. - 18. gr. tollalaga nr. 55/1987 og t.d. 1. mgr. 6. gr. reglugerðar nr. 310/1992.

Ekki er byggt á því í málinu að tollstarfsmenn hafi með opnun umræddra bókasendinga komist á snoðir um sérstaklega viðkvæmar upplýsingar. Ekkert bendir til þess að tollyfirvöld kynni sér sérstaklega efni bókanna, skrái upplýsingar um bókatitla eða annað sem snertir bókainnflutninginn eða nýti sér á einn eða annan hátt þá vitneskju sem tollstarfsmenn verða óhjákvæmilega áskynja um bókakaup manna.

Í slíkri opnun póstsendinga sem að framan hefur verið lýst, sem framkvæmd er af tollstarfsmönnum, sem bundnir eru þagnarskyldu, þykir felast svo léttvægt inngrip í einkalíf móttakenda bókasendinga samanborið við þá hagsmuni sem ríkisvaldið hefur af tolleftirliti og traustri og skilvirkri innheimtu virðisaukaskatts að ekki þykir koma til greina að um brot gegn friðhelgi einkalífs teljist að ræða. Skiptir í því sambandi ekki máli hvort um kerfisbundna opnun póstsendinga er að ræða eða ekki. Stefnandi þykir þegar af þeirri ástæðu hvorki geta borið fyrir sig 71. gr. stjórnarskrárinnar, 8. gr. MSE, sbr. lög nr. 62/1994 eða 17. gr. alþjóðasamnings um borgaraleg eða stjórnmálaleg réttindi sem fullgiltur var af Íslands hálfu 22. ágúst 1979, á grundvelli þingsályktunar 8. maí 1979, sbr. auglýsingu nr. 10/1979 sem birt var í C-deild stjórnartíðinda 28. ágúst 1979. Síðastgreindur samningur hefur  ekki lagagildi hér á landi.

Um um tjáningarfrelsisákvæði 73. gr. stjórnarskrár

Vísað er til þess sem áður greinir um opnun bókasendinga og tilgang með kerfisbundinni opnun slíkra sendinga. Ekkert er fram komið í málinu sem bendir til þess að bókasendingar séu opnaðar í því skyni að hindra eða torvelda innflutning á tilteknum tegundum bóka eða tilteknum bókum. Sem fyrr segir bendir heldur ekkert til þess að tollyfirvöld kynni sér sérstaklega efni bókanna, skrái upplýsingar um bókatitla eða annað sem snertir bókainnflutninginn eða nýti sér á einn eða annan hátt þá vitneskju sem tollstarfsmenn verða óhjákvæmilega áskynja um bókakaup manna. Ljóst er að tollmeðferð hlýtur ávallt að hafa í för með sér nokkra töf á að innflytjendur fái vöru afhenta. Hins vegar verður ekki fallist á með stefnanda að umrædd framkvæmd komi í veg fyrir eða torveldi að hann geti aflað sér upplýsinga og hugmynda erlendis frá umfram það sem eðlilegt getur talist með hliðsjón af því að um varning sem sætir tollmeðferð.

Samkvæmt framansögðu verður því ekki með neinu móti séð að bækurnar séu opnaðar í þeim tilgangi að ritskoða þær eða að ritskoðun eða sambærilegar tálmanir á tjáningarfrelsi felist í umræddri framkvæmd. Verða ákvæði 73. gr. stjórnarskrárinnar, 2. mgr. 10. gr. MSE, sbr. lög nr. 62/1994 eða 3. mgr. 19. gr. alþjóðasamnings um borgaraleg eða stjórnmálaleg réttindi ekki skýrð svo rúmt að umrædd framkvæmd teljist brjóta í bága við þau.

Um EES- samninginn

Stefnandi byggir varakröfu sína á því að það leiði af 4., 6., 11. og 21. gr. EES-samningsins svo og bókun 10 við samninginn að stefnda hafi verið óheimilt að opna og skoða þrjár bókasendingar til hans frá öðrum ríkjum innan Evrópska efnahagssvæðisins.

Meginmál EES-samningsins og tilteknar bókanir með samningnum öðlaðist lagagildi hér á landi með lögum nr. 2/1993, sbr. 2. gr. laganna. Bókun 10 hefur ekki öðlast lagagildi hér á landi.

Í 11. gr. EES-samningsins segir að magntakmarkanir á innflutningi, svo og allar ráðstafanir sem hafi samsvarandi áhrif, séu bannaðar milli samningsaðila.

Eðli málsins samkvæmt er á ýmsan hátt einfaldara að kaupa bók í verslun hér á landi en að panta hana erlendis og flytja inn. Stefnandi hefur hins vegar ekki sýnt fram á að tollafgreiðsla bóka sem Íslendingar kaupa í smásölu í öðrum EES-ríkjum taki lengri tíma en tollafgreiðsla bóka sem fluttar eru inn til endursölu eða að umrædd framkvæmd tefji tollafgreiðsluna á einhvern hátt. Þá hefur stefnandi ekki sýnt fram á að þessi framkvæmd hafi óhagræði eða aukinn kostnað í för með sér fyrir móttakanda. Þvert á móti þykir stefndi hafa sýnt fram á að sá háttur sem hafður er á tollafgreiðslu bóka í smásendingum stuðli fremur að því að greiða fyrir innflutningi bóka sem innlendir aðilar kaupa erlendis í smásölu eins og hér er um fjallað. Stefnandi þykir ekki hafa sýnt fram á að opnun póstsendinga sé til þess fallin að letja innlenda kaupendur til viðskipta af þessu tagi. Þá má einnig nefna að þeim aðilum sem selja bækur í smásölu hingað til lands er í lófa lagið að ganga þannig frá sendingum að ekki þurfi að opna sendingarnar til þess að nálgast upplýsingar um tollverð vörunnar. Stefnandi hefur samkvæmt framansögðu ekki sýnt fram á að í umræddri framkvæmd tollyfirvalda felist magntakmarkanir í innflutningi á bókum sem brjóti í bága  við 11. gr. EES-samningsins.

Fallast má á það með stefnda að umrædd framkvæmd á tollmeðferð smásendinga eins og þeirra sem um er fjallað í máli þessu sé í anda 21. gr. EES-samningsins þar sem framkvæmdin miðar að greiða fyrir innflutningi. Í 21. gr. er vísað til bókunar 10 en í þeirri bókun er fjallað um úrtaksathuganir til tollskoðun. Stefnandi þykir ekki hafa sýnt fram á að umrædd framkvæmd sem miðar fyrst of fremst að því að afla með greiðum hætti upplýsinga um tollverð vöru feli í sér flóknari tollmeðferð en þótt notast væri við almenn tollskýrslueyðublöð og úrtakseftirlit. 

Þar sem ekki hefur verið fallist á að varakrafa stefnanda verði grundvölluð á 11. eða 21. gr. EES-samningsins liggur fyrir að taka til skoðunar hvort framkvæmd stefnda samrýmist 4. gr. samningsins en samkvæmt því ákvæði er hvers kyns mismunun á grundvelli ríkisfangs bönnuð á gildissviði samningsins nema annað leiði af einstökum ákvæðum hans.

Einu aðflutningsgjöldin sem lögð eru á innfluttar bækur er virðisaukaskattur. Virðisaukaskattur leggst jafnt á erlendar bækur sem keyptar eru af erlendum smásölum og á þær sem fluttar eru til landsins til endursölu. Eðli málsins samkvæmt er virðisaukaskattur innheimtur með öðrum hætti af kaupanda bókar í verslun hér á landi og af þeim sem flytur bók inn sjálfur þar sem innflytjandi bókarinnar er áður búinn að greiða aðflutningsgjöld og innheimtir síðan virðisaukaskattinn með söluverði bókarinnar. Eins og fyrr segir má fallast á það með stefnda að mismunandi háttur sem hafður er á tollafgreiðslu bóka í smásendingum og stærri bókasendinga stuðli fremur að því að greiða fyrir innflutningi bóka sem innlendir aðilar kaupa erlendis í smásölu eins og hér er um fjallað. Stefnandi þykir ekki hafa sýnt fram á að umrædd kerfisbundin opnun póstsendinga sé til þess fallin að letja innlenda kaupendur til viðskipta af þessu tagi. Sem fyrr segir er þeim sem selja bækur í smásölu hingað til lands í lófa lagið að ganga þannig frá sendingum að ekki þurfi að opna sendingarnar. Verður því ekki fallist á með stefnda að umrædd framkvæmd geti talist mismunun á grundvelli ríkisfangs í skilningi 4. gr. EES-samningsins.

Stefnandi hefur vísað til 6. gr. EES-samningsins um skyldu samningsaðila til að framkvæma samninginn í samræmi við úrskurði Evrópudómstólsins sem máli skipta og kveðnir hafa verið upp fyrir undirritunardag samningsins Þær dómsniðurstöður Evrópudómstólsins og EFTA-dómstólsins sem stefnandi hefur vísað til þykja ekki geta leitt til annarrar niðurstöðu en að framan greinir. Samkvæmt framansögðu ber því að sýkna stefnda af öllum kröfum stefnanda í máli þessu.

Með hliðsjón af atvikum öllum þykir rétt að hvor aðili beri sinn kostnað af málinu.

Stefnandi flutti mál sitt sjálfur en Einar Karl Hallvarðsson hrl. af hálfu stefnda.

Sigurður Tómas Magnússon héraðsdómari kvað upp dóminn.

D ó m s o r ð :

Stefndi, Tollstjórinn í Reykjavík, skal vera sýkn af öllum kröfum stefnanda, Harðar Einarssonar,  í máli þessu.

Málskostnaður fellur niður.