Print

Mál nr. 151/1999

Lykilorð
  • Kosningar
  • Útvarpslög
  • Fjölmiðill
  • Stjórnarskrá
  • Mannréttindi
  • Málefni fatlaðra

__

                                                         

Fimmtudaginn 6. maí 1999.

Nr. 151/1999.

Berglind Stefánsdóttir og

Félag heyrnarlausra

(Ástráður Haraldsson hrl.

Björn L. Bergsson hdl.)

gegn

Ríkisútvarpinu

(Baldur Guðlaugsson hrl.

Kristján Þorbergsson hdl.)

Kosningar. Ríkisútvarp. Stjórnarskrá. Mannréttindi. Málefni fatlaðra.

Félag heyrnarlausra og B kröfðust þess að Ríkisútvarpinu yrði gert skylt að láta túlka á táknmáli framboðsumræður í sjónvarpi, kvöldið fyrir kosningar til Alþingis, um leið og þær færu fram. Talið var að það væri óaðskiljanlegur þáttur kosningarréttar, sem verndaður væri í III. kafla stjórnarskrárinnar nr. 33/1944 og 3. gr. I. viðauka mannréttindasáttmála Evrópu, að sá sem réttarins nyti hefði tækifæri til að kynna sér þau atriði sem kosið væri um. Ljóst þótti að það sé í samræmi við lögákveðið hlutverk Ríkisútvarpsins samkvæmt 15. gr. útvarpslaga nr. 68/1985 að það kynni frambjóðendur og stefnumál þeirra fyrir kosningar til Alþingis. Bæri Ríkisútvarpinu ótvírætt að gæta jafnræðis þegar það sinnti þessu hlutverki sínu og lyti sú skylda ekki aðeins að frambjóðendum og þeim stjórnmálaöflum sem í hlut ættu, heldur einnig að þeim sem útsendingum væri beint til. Ætti því Ríkisútvarpið að haga gerð og útsendingu framboðsumræðna þannig að aðgengilegt væri heyrnarlausum, sbr. einnig 7. gr. laga nr. 59/1992 um málefni fatlaðra. Þótt játa bæri Ríkisútvarpinu verulegu svigrúmi við tilhögun dagskrár og útsendinga yrðu þær ákvarðanir, sem röskuðu þeim skyldum og réttindum, sem mælt væri fyrir um í 15. gr. útvarpslaga og 7. gr. laga um málefni fatlaðra, að styðjast við gild málefnaleg rök. Þótti Ríkisútvarpið ekki hafa fært fram nægilega gild og málefnaleg rök til að réttlæta þá mismunum sem fólst í ákvörðun þess, en fyrir lá að tæknilega var vel framkvæmanlegt hafa þann háttinn á sem krafist var. Einnig var litið til þess að skammur tími var á milli útsendingar og upphafs kjörfundar. Þóttu Félag heyrnarlausra og B eiga rétt á því að kröfur þeirra yrðu teknar til greina við þessar aðstæður.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Pétur Kr. Hafstein, Guðrún Erlendsdóttir, Haraldur Henrysson, Hjörtur Torfason og Hrafn Bragason.

Áfrýjendur skutu málinu til Hæstaréttar 12. apríl 1999. Þeir krefjast þess að hinum áfrýjaða dómi verði hrundið og breytt á þá leið að synjun stefnda um að túlka á táknmáli framboðsumræður í sjónvarpi vegna alþingiskosninga 8. maí 1999, um leið og þær fara fram, verði dæmd ólögmæt. Þá er þess krafist að viðurkennt verði að stefnda sé skylt að láta túlka á táknmáli framboðsumræður í sjónvarpi vegna alþingiskosninganna um leið og þær fara fram. Þeir krefjast einnig málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Málið sætir flýtimeðferð samkvæmt ákvæðum XIX. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

I.

Eins og nánar greinir í héraðsdómi varðar mál þetta sjónvarpsútsendingu stefnda á umræðum frambjóðenda í kosningum til Alþingis, sem haldnar verða 8. maí 1999. Fram kom í málflutningi fyrir Hæstarétti að skilja ber kröfugerð áfrýjenda þannig að hún varði fyrirhugaða beina útsendingu stefnda á umræðum forystumanna stjórnmálasamtaka að kvöldi 7. maí, kvöldið fyrir kjördag.

Félag heyrnarlausra fór fyrst fram á það við stefnda með bréfi 6. nóvember 1998 að framboðsumræður í sjónvarpi yrðu samstundis túlkaðar á táknmáli. Þessi beiðni var ítrekuð með bréfum félagsins 9. desember og 28. desember sama ár. Með bréfi 11. janúar 1999 hafnaði framkvæmdastjóri sjónvarpsins beiðni félagsins án sérstaks rökstuðnings en lýsti jafnframt yfir vilja til að kanna aðrar hugmyndir félagsins um stjórnmálakynningu fyrir heyrnarlausa. Í fundargerð útvarpsráðs 16. febrúar sama ár kemur fram að til standi að lokaumræður fyrir alþingiskosningar verði endursýndar með neðanmálstexta og táknmálstúlkaðar í lok dagskrár sama dags og síðan aftur að morgni kjördags áður en kjörstaðir verði opnaðir. Var þessi tilhögun kynnt Félagi heyrnarlausra með bréfi framkvæmdastjóra sjónvarpsins 17. sama mánaðar. Í fundargerð ráðsins 23. sama mánaðar kemur fram að ákveðið hafi verið að ganga ekki til móts við kröfur Félags heyrnarlausra frekar en að framan greinir.

II.

 Í III. kafla stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 og lögum nr. 80/1987 um kosningar til Alþingis er mælt fyrir um alþingiskosningar á fjögurra ára fresti og um kosningarrétt og kjörgengi. Samkvæmt 3. gr. viðauka nr. 1 við mannréttinda-sáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, hefur íslenska ríkið skuldbundið sig til þess að halda frjálsar kosningar með hæfilegu millibili, og sé atkvæðagreiðsla leynileg og fari fram við aðstæður er tryggi það að í ljós komi álit almennings með frjálsum hætti í kjöri til löggjafarþings. Almennt er viðurkennt að í ákvæðinu felist meðal annars réttur einstaklinganna til þess að bjóða sig fram og kjósa í almennum kosningum til löggjafarþings og taka með því þátt í því virka og lýðræðislega stjórnarfari, sem lögð er áhersla á í formála sáttmálans. Þessi réttindi einstaklinganna lúta þó þeim takmörkunum, sem leiðir af nánara fyrirkomulagi kosninga í hverju ríki. Er ekki um það deilt í málinu að almenn skipan alþingiskosninga, kjörgengis og kosningarréttar, eins og henni er fyrir komið í framangreindum ákvæðum stjórnarskrárinnar og kosningalögum samrýmist ákvæðum 3. gr. 1. viðauka sáttmálans.

Það er óaðskiljanlegur þáttur kosningarréttar að sá, sem réttarins nýtur, hafi tækifæri til að kynna sér framboð og málefni, sem kosið er um, enda myndi sá réttur einstaklinganna, sem verndaður er í 3. gr. 1. viðauka mannréttindasáttmála Evrópu, missa efnislegt inntak ef frambjóðendum væru ekki tækar leiðir til kynningar á stefnumálum sínum eða kjósendum gert ókleift eða torvelt að nálgast slíkar upplýsingar. Af þessu leiðir þó ekki almenna skyldu ríkisins eða stofnana þess til að kynna einstaka frambjóðendur eða stefnumál þeirra fyrir kjósendum, sem sjálfir hafa forræði á því, hvernig þeir móta afstöðu sína. Hlýtur slík kynningarstarfsemi einkum að grundvallast á því almenna tjáningar- og athafnafrelsi, sem tryggt er í mannréttindaákvæðum stjórnarskrárinnar og alþjóðlegum mannréttindasamningum, sem Ísland er aðili að. Taki ríkið eða stofnanir þess hins vegar að sér það hlutverk að einhverju leyti að kynna kjósendum frambjóðendur og málefni þeirra í þágu frjálsra og lýðræðislegra kosninga, ber að gæta þess að slík kynning fari fram án manngreinarálits í samræmi við 65. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. 3. gr. stjórnarskipunarlaga nr. 97/1995, og 14. gr. mannréttindasáttmála Evrópu.

III.

Í 14. gr. útvarpslaga nr. 68/1985 segir að Ríkisútvarpið sé sjálfstæð stofnun í eigu íslenska ríkisins. Samkvæmt 2. mgr. 15. gr. laganna skal Ríkisútvarpið halda í heiðri lýðræðislegar grundvallarreglur og mannréttindi og frelsi til orðs og skoðana. Eftir 3. mgr. 15. gr. skal það meðal annars veita almenna fréttaþjónustu og vera vettvangur fyrir mismunandi skoðanir á þeim málum, sem efst eru á baugi hverju sinni eða almenning varða. Samkvæmt 4. mgr. 15. gr. skal miða útvarpsefni við fjölbreytni íslensks þjóðlífs og veita alla þá þjónustu, sem unnt er með tækni útvarpsins og þjóðinni má að gagni koma.

Af framangreindu er ljóst að stefnda er sérstaklega falið það hlutverk með lögum að vera vettvangur frjálsra skoðanaskipta um þau málefni, sem almenning varða. Með hliðsjón af þessu lögákveðna hlutverki stefnda verður að telja að honum geti verið rétt við kosningar til Alþingis að kynna almenningi frambjóðendur og stefnumál þeirra eftir því, sem efni standa til. Ber stefnda þá ótvírætt að gæta jafnræðis þegar hann sinnir þessu hlutverki sínu, eins og raunar leiðir beint af orðum 2. mgr. 15. gr. laga nr. 68/1985. Lýtur sú skylda ekki aðeins að jafnræði milli þeirra frambjóðenda og stjórnmálaafla, sem í hlut eiga, heldur einnig að þeim, sem útsendingum er beint til. Samkvæmt þessu verður á það fallist að stefnda beri eftir megni að haga gerð og útsendingu framboðsumræðna þannig að aðgengilegt sé heyrnarlausum. Styðst sú niðurstaða einnig við 7. gr. laga nr. 59/1992 um málefni fatlaðra, sem mælir fyrir um að fatlaðir skuli eiga rétt á allri almennri þjónustu ríkis og sveitarfélaga.

IV.

Svo sem áður er fram komið lýtur krafa áfrýjenda að því að stefnda verði gert skylt að láta túlka á táknmáli í umræðuþátt í sjónvarpi að kvöldi föstudagsins 7. maí 1999, daginn áður en kosningar til Alþingis fara fram, um leið og hann er sendur út beint. Í þætti þessum koma fram leiðtogar þeirra flokka og framboða, sem bjóða fram í öllum kjördæmum landsins. Telja áfrýjendur að þeir eigi rétt á að fylgjast með þessum þætti um leið og aðrir landsmenn, en með honum nái kosningabaráttan hámarki. Stefndi hefur hins vegar ákveðið að endursýna þáttinn með neðanmálstexta og táknmálstúlkun í lok dagskrár 7. maí og aftur að morgni kjördags áður en kjörstaðir verða opnaðir. Samkvæmt dagskrá sjónvarpsins, sem lögð var fram í Hæstarétti við munnlegan málflutning, hefst bein útsending þáttarins kl. 20.50 og mun ljúka fyrir kl. 22.30. Fyrirhuguð fyrri endursýning með táknmálstúlkun og textun mun hins vegar hefjast eftir miðnætti umrætt kvöld, eða kl. 00.10, en hin síðari hefst kl. 07.30 að morgni  8. maí.

Í bréfum stefnda, þar sem framangreindum óskum áfrýjenda var svarað, komu ekki fram efnislegar röksemdir fyrir synjun hans. Í bréfi menntamálaráðherra til áfrýjandans Félags heyrnarlausra 18. janúar 1999 sagði að eðlilegt hefði verið að niðurstöðu stefnda hefði fylgt nánari rökstuðningur af hans hálfu. Í greinargerð stefnda í héraði sagði einungis að sá háttur á útsendingu, sem farið er fram á, valdi truflun þeim yfirgnæfandi meirihluta, sem fulla heyrn hafi og kjósi að fylgjast grannt með því, sem fram fari. Nánari útlistun á þessu liggur þó ekki fyrir. Einnig hefur verið bent á að þess sé enginn kostur að texta dagskrárefni, sem sent sé út beint. Sú tilhögun, sem stefndi hafi ákveðið, veiti hins vegar svigrúm til að textavinna umræddan þátt, auk þess að táknmálstúlka hann. Þar með muni aukaútsendingar gagnast mun fleirum en þeim, sem eingöngu skilja táknmál heyrnarlausra. Í málflutningi af hálfu stefnda fyrir Hæstarétti var því á hinn bóginn lýst yfir að það væri ekki tæknilegum vandkvæðum bundið að verða við óskum áfrýjenda. Jafnframt kom fram af hálfu áfrýjenda, ómótmælt af stefnda, að af þessu myndi hljótast lítill umframkostnaður.

 Þegar  litið er til stöðu stefnda að lögum er augljóst að játa ber honum verulegt svigrúm við tilhögun dagskrár og útsendinga. Eru þessi mál undir stjórn útvarpsstjóra og útvarpsráðs, sbr. 18. gr. og 20. gr. laga nr. 68/1985. Ákvarðanir, sem raska skyldum þeim og réttindum, sem mælt er fyrir um í 15. gr. laganna, verða hins vegar að styðjast við gild málefnaleg rök. Sama á við um frávik frá skyldum samkvæmt      7. gr. laga nr. 59/1992. Um þetta eiga dómstólar endanlegt mat.

Mál þetta varðar mikilvæg réttindi, þ.e. kröfu ákveðins hóps einstaklinga um að þeir njóti á sama hátt og aðrir þeirrar þjónustu stefnda, sem ætluð er til að auðvelda kjósendum val milli framboða í kosningum til löggjafarþings þjóðarinnar. Ákvörðun stefnda um tilhögun útsendingar umrædds framboðsfundar felur í sér að heyrnarlausir kjósendur sitja þar ekki við sama borð og aðrir landsmenn. Viðurkennt er, að sú tilhögun, sem áfrýjendur óska eftir, er tæknilega vel framkvæmanleg. Verður ekki talið, að stefndi hafi fært fram nægilega gild og málefnaleg rök til að réttlæta þá mismunun, sem í ákvörðun hans felst. Er þá jafnframt til þess að líta, að hin beina útsending sjónvarpsumræðnanna fer fram í lok kosningabaráttunnar, að kvöldi síðasta dags fyrir kjördag og einungis nokkrum klukkustundum áður en kjörfundur hefst. Við þessar aðstæður þykja áfrýjendur eiga rétt á því, að kröfur þeirra verði teknar til greina.

Eftir úrslitum málsins ber að dæma stefnda til að greiða áfrýjendum málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti, eins og greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Synjun stefnda, Ríkisútvarpsins, á óskum áfrýjenda, Berglindar Stefánsdóttur og Félags heyrnarlausra, um að túlka á táknmáli framboðsumræður í sjónvarpi 7. maí 1999, um leið og þær fara fram, er ólögmæt. Er viðurkennt að stefnda sé skylt að láta túlka þessar umræður á táknmáli um leið og þær fara fram.

Stefndi greiði áfrýjendum sameiginlega 300.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 8. apríl 1999.

Mál þetta, sem dómtekið var 17. mars síðastliðinn, er höfðað með stefnu, þingfestri 18. febrúar 1999.

Stefnandi er Berglind Stefánsdóttir, kt. 170260-3769, Vogalandi 8, Reykjavík, persónulega og sem formaður fyrir hönd Félags heyrnarlausra, kt. 600776-0279, Laugavegi 26, Reykjavík.

Stefndi er Ríkisútvarpið, kt. 540269-5729, Efstaleiti 1, Reykjavík.

Stefnendur gera þá kröfu, að synjun stefnda um að túlka á táknmáli framboðsræður í sjónvarpi vegna Alþingiskosninga 8. maí 1999, um leið og þær fara fram, eða gera þær á annan hátt aðgengilegar fyrir heyrnarlausa, verði dæmd ólögmæt. Þá krefjast stefnendur þess, að viðurkennt verði, að stefnda sé skylt að láta túlka á táknmáli framboðsræður í sjónvarpi vegna Alþingiskosninga, um leið og þær fara fram, eða gera þær á annan hátt aðgengilegar fyrir heyrnarlausa. Að lokum krefjast stefnendur þess, að stefnda verði gert að greiða stefnendum málskostnað að mati réttarins.

Stefndi krefst sýknu af kröfum stefnenda og að stefnda verði tildæmdur málskostnaður úr hendi þeirra að skaðlausu.

Málavextir.

Þann 6. nóvember 1998 sendi Félag heyrnarlausra stefnda bréf og fór þess á leit, að framboðsræður í sjónvarpi vegna Alþingiskosninga, sem fram eiga að fara 8. maí næstkomandi, yrðu túlkaðar jafnóðum á táknmáli. Beiðnin var ítrekuð með bréfum 9. og 28. desember 1998. Með bréfi stefnda 11. janúar síðastliðinn var erindinu hafnað. Hins vegar liggur fyrir bréf stefnda til Félags heyrnarlausra, dagsett 17. febrúar síðastliðinn, þar sem í upphafi er vísað til samtals framkvæmdastjóra stefnda og Félags heyrnarlausra 9. febrúar síðastliðinn og áréttuð er sú tillaga stefnda, að „lokaumræðurnar fyrir alþingiskosningarnar verði endursýndar rit- og táknmálstúlkaðar í dagskrárlok daginn fyrir kjördag eða nánast í beinu framhaldi þess að þær fara fram.“ Yrði umræðuþátturinn síðan endursýndur rit- og táknmálstúlkaður að morgni kjördags, áður en kjörstaðir eru opnaðir. Stefnendur höfnuðu þessu boði stefnda.

Málsástæður og lagarök stefnenda.

Stefnendur byggja kröfur sínar á því, að með synjun sinni hafi stefndi, sem opinbert stjórnvald, brotið gegn mannréttindum þeirra og þá einkum gegn ákvæði 65. gr. stjórnarskrár lýðveldisins um jafnræði þegnanna. Þá telja stefnendur, að í synjun stefnda felist brot gegn ákvæði 21. gr. mannréttindayfirlýsingar Sameinuðu þjóðanna og 14. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Forsenda þess, að maður njóti raunverulegs kosningaréttar sé, að hann hafi möguleika á að kynna sér þá kosti, sem bjóðast í kosningum. Hefðbundinn framboðsfundur stjórnmálaleiðtoga í sjónvarpi sé afar snar og mikilvægur þáttur í þessari kynningu og kunni jafnvel að ráða úrslitum um, hvernig kjósandi ráðstafar atkvæði sínu. Slík lágmarkskynning sé því í raun eðlisþáttur í þeim rétti, sem kveðið sé á um í 33. gr. stjórnarskrárinnar um kosningarétt. Telja stefnendur, að stefndi sé með framboðskynningum í sjónvarpi, samkvæmt hefðbundnu fyrirkomulagi, að rækja þá skyldu að standa að lýðræðislegri umræðu í landinu, sem á honum hvíli samkvæmt III. kafla útvarpslaga nr. 68/1985. Við þá framkvæmd komi stefndi fram sem opinbert stjórnvald og hafi tvímælalaust skyldur sem slíkt að virða þá sjálfsögðu lýðræðisreglu, að öllum landsmönnum sé gert kleift að eiga aðgang að slíkum framboðskynningum. Í því sambandi beri að hafa í huga, að Íslendingar fæðist inn í tvo ólíka málhópa; þann sem hafi íslensku að móðurmáli og hinn, er ekki geti tileinkað sér íslensku á máltökunámskeiði og hafi íslenskt táknmál að móðurmáli. Með því að standa að framboðskynningu, eins og stefndi fyrirhugi, sé því í raun ákveðið, að hluti þjóðarinnar eigi ekki aðgang að kynningunni.

Málsástæður og lagarök stefnda.

Stefndi hafnar því, að synjun hans á að láta táknmálstúlka jafnharðan greindan umræðuþátt, með því að fella táknmálstúlk inn í útsenda dagskrármynd, geti talist brot á þeim ákvæðum, sem stefnendur vísi til. Þá styður stefndi sýknukröfu sína jafnframt þeim rökum, að með greindri ákvörðun um endursýningar þess umræðuþáttar, sem málið varðar, sé nægjanlega mætt þeim sjónarmiðum, er stefnendur færi fram til stuðnings kröfu sinni um viðstöðulausa túlkun af hálfu táknmálstúlks, sem felldur sé inn í útsenda mynd þáttarins. Bendir stefndi á, að stefnukröfur séu valkvæðar að því leyti, að boðið sé upp á aðra lausn, en aðallega er krafist, með orðunum „ eða gera þær á annan hátt aðgengilegar fyrir heyrnalausa.“ Er á því byggt, að sú tilhögun, sem stefndi hafi ákveðið, fullnægi þessari kröfugerð og þeim réttarheimildum, sem hún er studd við. Hljóti það að leiða til sýknu, verði kröfugerðin á annað borð talin dómtæk.

Því er eindregið mótmælt af hálfu stefnda, að sú tilhögun, sem hann hafi ákveðið, feli í sér brot á 33. gr. og 65. gr. stjórnarskrárinnar, ákvæðum 21. gr. mannréttinda­yfirlýsingar Sameinuðu þjóðanna og 14. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Þá er ásökunum um brot á ákvæðum útvarpslaga mótmælt. Stefndi hafi gripið til sérstakra ráðstafana til að auðvelda heyrnarskertum og heyrnarlausum að njóta sjónvarpsútsendinga. Gildi það um þá útsendingu, sem um er deilt í málinu, sem og nokkra aðra dagskrárliði. Á hinn bóginn hljóti það að vera matsatriði, hversu langt stefnda beri að ganga í þeim efnum og við það mat að koma til skoðunar, hver sá fjöldi manna er, sem þarfnast sérstakrar dagskrárgerðar.

Í útvarpslögum sé svo fyrir mælt, að ákvarðanir útvarpsráðs um útvarpsefni skuli vera endanlegar, sbr. 2. mgr. 20. gr. laga nr. 68/1985. Er sýknu jafnframt krafist með vísan til þess, að fyrir liggi staðfesting útvarpsráðs á þeim ákvörðunum yfirstjórnar stefnda sem í málinu hafa verið teknar.

Niðurstaða.

Samkvæmt 14. gr. útvarpslaga nr. 68/1985 er stefndi sjálfstæð stofnun í eigu íslenska ríkisins. Þá segir í 15. gr. sömu laga, að stefndi skuli leggja rækt við íslenska tungu, sögu þjóðarinnar og menningararfleifð. Í 3. mgr. sömu lagagareinar kemur meðal annars fram, að stefndi skuli vera vettvangur fyrir mismunandi skoðanir á þeim málum, sem efst eru á baugi hverju sinni eða almenning varða. Þá segir í 4. mgr. greinarinnar, sbr. 10. gr. laga nr. 82/1993, að efni á erlendu máli, sem sýnt er í sjónvarpsdagskrá stefnda, skuli jafnan fylgja íslenskt tal eða texti á íslensku, eftir því sem við á hverju sinni. Það eigi þó ekki við, þegar fluttir eru erlendir söngtextar eða þegar dreift er viðstöðulaust um gervitungl og móttökustöð fréttum eða fréttatengdu efni, er sýnir að verulegu leyti atburði, sem gerast í sömu andrá. Við þær aðstæður skuli Ríkisútvarpið – sjónvarp, eftir því sem kostur er, láta fylgja endursögn eða kynningu á íslensku á þeim atburðum, sem gerst hafa.

Af framansögðu má vera ljóst, að í útvarpslögum er ekki er gert sérstaklega ráð fyrir túlkun úr íslensku talmáli yfir á táknmál fyrir heyrnarlausa.

Í 33. gr. stjórnarskrárinnar lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 er öllum, sem eru 18 ára eða eldri, þegar kosning fer fram og hafa íslenska ríkisborgararétt, tryggður kosningaréttur til Alþingis. Þá segir í 3. gr. samningsviðauka nr. 1 við samning um verndun mannréttinda og mannfrelsis, sem lögtekinn var hérlendis með lögun nr. 62/1994, að samningsaðilar skuldbindi sig til þess að halda frjálsar kosningar með hæfilegu millibili, og sé atkvæðagreiðsla leynileg og fari fram við aðstæður, er tryggi það, að í ljós komi álit almennings með frjálsum hætti í kjöri til löggjafarþings.

Af hálfu stefnenda er á því byggt, að forsenda þess, að maður njóti raunverulegs kosningaréttar sé, að hann hafi möguleika á að kynna sér þá kosti, sem bjóðast í kosningum. Sé hefðbundinn framboðsfundur stjórnmálaleiðtoga í sjónvarpi afar mikilvægur þáttur í þeirri kynningu og kunni jafnvel að ráða úrslitum um, hvernig kjósandi ráðstafar atkvæði sínu. Sé slík lágmarkskynning því í raun eðlisþáttur í þeim rétti, sem kveðið er á um í 33. gr. stjórnarskrárinnar um kosningarétt.

Að áliti dómsins verður ekki ráðið af 33. gr. stjórnarskrárinnar og 3. gr. umrædds samningsviðauka við samning um verndun mannréttinda og mannfrelsis, að á stefnda hvíli, sem ríkisstofnun, sérstök skylda til kynningar á stjórnmálamönnum og því, sem þeir hafa fram að færa fyrir kosningar, heldur er þar einungis mælt fyrir rétt manna til að ráðstafa atkvæði sínu í leynilegum kosningum. Verður ekki talið, að sú kynning frambjóðenda í sjónvarpi, sem mál þetta er risið af, sé eðlisþáttur í kosningarétti manna.

Kemur þá til skoðunar, hvort í umræddri synjun stefnda felist brot á jafnræðisreglu íslensks stjórnskipunarréttar og mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994.

Samkvæmt 1. mgr. 65. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. 3. gr. stjórnskipunarlaga nr. 97/1995, skulu allir vera jafnir fyrir lögum og njóta mannréttinda, án tillits til kynferðis, trúarbragða, skoðana, þjóðernisuppruna, kynþáttar, litarháttar, efnahags, ætternis og stöðu að öðru leyti. Þá segir í 14. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, að réttindi þau og frelsi, sem lýst er í samningnum, skuli tryggð án nokkurs manngreinarálits, svo sem vegna kynferðis, kynþáttar, litarháttar, tungu, trúarbragða, stjórnmála- eða annarra skoðana, þjóðernis eða þjóðfélagsstöðu, tengsla við þjóðernisminnihluta, eigna, uppruna eða annarra aðstæðna, en þetta ákvæði mannréttinda­sátt­málans hafur verið talið í samræmi við jafnræðisreglu íslensks stjórnskipunarréttar. Ennfremur sækir ákvæði 1. mgr. 65. gr. stjórnarskrárinnar fyrirmynd sína til 26. gr. gr. alþjóðasamnings um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi, sem Ísland hefur staðfest. Sú regla, sem þar kemur fram og er víðtækari, en áðurnefnd ákvæði stjórnarskrárinnar og mannréttindasáttmála Evrópu, telst þó ekki sjálfkrafa hluti af landsrétti, þar sem hún hefur ekki verið lögleidd. Þá er mannréttindalyfirlýsing Sameinuðu þjóðanna, sem stefnendur byggja einnig á, ekki þjóðréttarsamningur og því ekki bindandi að lögum fyrir aðildarríki Sameinuðu þjóðanna.

Að mati dómsins felst ekki í inntaki jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar réttur til handa heyrnarlausum til að fá túlkað talmál í útvarpi eða sjónvarpi, í þessu tilviki framboðsræður og umræður frambjóðenda til Alþingiskosninga, yfir á táknmál heyrnarlausra jafnóðum og útsending fer fram, heldur verður að telja, að til þess þurfi sérstaka löggjöf. Var hin umdeilda synjun stefnda því lögmæt.

Samkvæmt framanskráðu verður stefndi sýknaður af aðakröfum stefnenda í máli þessu.

Stefnendur krefjast þess til vara, að synjun stefnda á að gera umræddar framboðsræður „ á annan hátt aðgengilegar fyrir heyrnarlausa verði dæmd ólögmæt.“ Jafnframt er krafist viðurkenningardóms um skyldu stefnda til að gera framboðsræðurnar „ á annan hátt aðgengilegar fyrir heyrnarlausra.“

Fyrir liggur í málinu, að stefndi hefur boðist til að endursýna margnefndan umræðuþátt, rit- og táknmálstúlkaðan, í dagskrárlok daginn fyrir kjördag, nánast í beinu framhaldi og þær fara fram, og endursýna hann í sama formi að morgni kjördags, áður en kjörstaðir eru opnaðir. Því boði hafa stefnendur hafnað. Verður sú afstaða þeirra eigi skilin á annan veg en þann, að með því móti sé ekki orðið við kröfu þeirra um að gera umræddar framboðsræður „ á annan hátt aðgengilegar fyrir heyrnarlausa.“ Í málatilbúnaði stefnenda er hins vegar engin grein gerð fyrir við hvað er átt með umræddri kröfugerð. Er hún að mati dómsins svo óskýr, að dómur verði eigi á hana lagður. Ber því að vísa varakröfum stefnenda sjálfkrafa frá dómi.

Eftir atvikum er rétt, að hver aðila beri sinn kostnað af málinu.

Dóminn kveður upp Helgi I. Jónsson héraðsdómari.

Dómsorð:

Stefndi, Ríkisútvarpið, á að vera sýkn af aðalkröfum stefnenda, Berglindar Stefánsdóttur og Félags heyrnarlausra, í máli þessu.

Varakröfum stefnenda er vísað sjálfkrafa frá dómi.

Málskostnaður fellur niður.