Print

Mál nr. 861/2016

Bjarni Marteinn Berg Elfarsson (Tómas Jónsson hrl.)
gegn
Íslandsbanka hf. (Stefán A. Svensson hrl.)
Lykilorð
  • Fjármálafyrirtæki
  • Skuldabréf
  • Gengistrygging
  • Neytendalán
Reifun

B krafðist viðurkenningar á því að í veðskuldabréfi sem hann hafði gefið út til Í hf. hefði falist lán í íslenskum krónum, bundið gengi erlendra gjaldmiðla í andstöðu við 13. og 14. gr. laga nr. 38/2001. Í dómi héraðsdóms var vísað til þess að í dómaframkvæmd hefði verið lagt til grundvallar að miða bæri við skýringu á texta þess skuldaskjals sem lántaki hefði samþykkt hverju sinni og að það væri einungis í þeim tilvikum þegar slík textaskýring tæki ekki af tvímæli um hvers efnis skuldbindingin væri, sem rétt væri að líta til annarra atriða. Benti héraðsdómur á að fyrirsögn veðskuldabréfsins bæri skýrlega með sér að um væri að ræða skuldbindingu í erlendum gjaldmiðlum og að hún hefði verið nákvæmlega tilgreind í bréfinu. Með hliðsjón af ítrekuðum dómafordæmum Hæstaréttar taldi héraðsdómur því að samningurinn hefði tekið til gildrar skuldbindingar í erlendum gjaldmiðlum. Þá féllst héraðsdómur ekki á að vanræksla lánveitanda á því að fylgja ákvæðum laga um neytendalán við lánveitingu gæti leitt til þess að líta bæri á lánið sem gengistryggt lán í íslenskum krónum. Var Í hf. því sýknaður af kröfum B. Hæstiréttur staðfesti héraðsdóm með vísan til forsendna hans.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson og Karl Axelsson og Ingibjörg Benediktsdóttir settur hæstaréttardómari.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 27. desember 2016. Hann krefst þess að viðurkennt verði að í veðskuldabréfi útgefnu af sér 17. júlí 2006, nr. 101ERLB062000001, hafi falist lán í íslenskum krónum, bundið gengi erlendra gjaldmiðla í andstöðu við 13. og 14. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.

Áfrýjanda verður gert að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Áfrýjandi, Bjarni Marteinn Berg Elfarsson, greiði stefnda, Íslandsbanka hf., 750.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 30. september 2016.

Mál þetta var höfðað með stefnu birtri 9. febrúar sl. og dómtekið að lokinni aðalmeðferð 21. september sl. Stefnandi er Bjarni Marteinn Berg Elfarsson, Haukanesi 1, Garðabæ. Stefndi er Íslandsbanki hf., Kirkjusandi 2, Reykjavík:

Stefnandi gerir aðallega þá kröfu að viðurkennt verði með dómi að í veðskuldabréfi (lánssamningi) Íslandsbanka hf. og stefnanda, útgefnu 17. júlí 2006, nr. 101ERLB062000001, hafi falist lán í íslenskum krónum, bundið gengi erlendra gjaldmiðla í andstöðu við 13. og 14. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Til vara er þess krafist „að ákvæði í veðskuldabréfi (lánssamningi) Íslandsbanka hf., og stefnanda nr. 101ERLB062000001, um LIBOR/EURIBOR vexti, sé óskuldbindandi fyrir stefnanda frá útgáfudegi þess 17. júlí 2006 til endurútreiknings Íslandsbanka hf. á því í íslenskar krónur þann 06.09.2012, samkvæmt bráðabirgðaákvæði X í lögum nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, sbr. lög nr. 151/2010“. Hann krefst einnig málskostnaðar.

Stefndi krefst sýknu af aðalkröfu stefnanda. Hann krefst þess aðallega að varakröfu stefnanda verði vísað frá dómi en til vara að hann verði sýknaður af henni. Hann krefst einnig málskostnaðar.

Helstu ágreiningsefni og yfirlit um málsatvik

Ágreiningur aðila snýr að láni sem stefnandi tók hjá Sparisjóði Hafnarfjarðar með útgáfu veðskuldabréfs 17. júlí 2006, en ekki er um það deilt að stefndi hefur tekið við réttindum og skyldum sparisjóðsins samkvæmt bréfinu. Deila aðilar um hvort lánið hafi verið ólögmætt gengistryggt lán eða lögmætt lán í erlendri mynt. Ef talið er að lánið hafi verið í erlendri mynt byggir stefnandi á því að allt að einu beri að líta á lánið sem lán í íslenskum krónum þar sem brotið hafi verið gegn reglum um neytendavernd þegar stefnandi tók lánið. Við sömu aðstæður byggir stefnandi á því, gegn mótmælum stefnda, að vaxtaákvæði í téðu veðskuldabréfi hafi verið óskuldbindandi, einkum með vísan til ógildingarreglna samningaréttar, eins og þær verða skýrðar með hliðsjón af reglum um neytendalán. Atvik málsins eru óumdeild. Þá er ekki uppi tölulegur ágreiningur í málinu.

A

Atvik málsins eru nánar tiltekið þau að með fyrrgreindu veðskuldabréfi, sem bar heitið, „Veðskuldabréf í erlendum myntum/mynteiningum“, viðurkenndi stefnandi að skulda Sparisjóði Hafnarfjarðar „eða þeim sem hann vísar til, eftirfarandi erlendar fjárhæðir: EUR 125.000 [...] eða jafnvirði þeirra fjárhæða í íslenskum krónum, erlendum myntum eða mynteiningum, miðað við sölugengi í íslenskum sparisjóðum á gjalddaga eða greiðsludegi“ (skáletrun stefnda). Skyldi stefnandi endurgreiða fjárhæðina, sem var „endurlánað erlent lánsfé“, á 15 árum á þriggja mánaða fresti, með fyrsta gjalddaga þann 4. september 2006. Lokagjalddagi höfuðstóls og vaxta skyldi vera 4. júní 2021.

Af höfuðstól skuldarinnar, eins og hann væri á hverjum tíma, skyldi stefnandi greiða vexti „sem taka mið af 3 mánaða LIBOR/EURIBOR vöxtum eins og þeir eru á alþjóðlegum fjármagnsmarkaði á hverjum gjalddaga fyrir sig“. Kom fram að vextir væru „breytilegir og breytast á gjalddögum skuldarinnar, þ.e. í upphafi hvers vaxtatímabils, sem er 3 mánuðir í senn, að fyrsta vaxtatímabilinu undanskildu, á því miðast vextirnir við LIBOR vexti sem í gildi eru á kaupdegi bréfsins, að viðbættu álagi“. Vextir skyldu greiðast eftir á á þriggja mánaða fresti, fyrst 4. september 2006, og reiknast frá kaupdegi (útgáfudegi skuldabréfsins), þ.e. 17. júlí 2006. Að auki skyldi stefnandi greiða fast 3,80% vaxtaálag, en skuldareiganda var þó heimilt að breyta vaxtaálaginu til hækkunar eða lækkunar á þriggja ára fresti út lánstímann, fyrst þremur árum frá útgáfudegi skuldabréfsins, að undangenginni sérstakri tilkynningu til stefnanda. Sætti stefnandi sig ekki við hækkun vaxtaálags umfram vaxtaálag undangenginna þriggja ára var honum heimilt að greiða skuldina upp að fullu innan 30 daga frá dagsetningu tilkynningar um vaxtaálagshækkunina, án sérstakrar uppgreiðsluþóknunar.

Í veðskuldabréfinu var stefnanda veitt heimild til að „ákveða breytingu á myntsamsetningu“ veðskuldabréfsins, enda tilkynnti hann það skuldareiganda með a.m.k. 10 daga fyrirvara, undirritaði yfirlýsingu þar um og greiddi þóknun. Skuldbatt stefnandi sig til að greiða kostnað af innheimtu „hverrar greiðslu myntar“ og greiðsluþóknun nýtti hann sér uppgreiðsluheimild eða greiddi að öðru leyti aukalega umfram umsamda afborgun, auk þess sem stefnandi veitti skuldareiganda heimild til þess að skuldfæra tékkareikning sinn í íslenskum krónum fyrir afborgunum, vöxtum og innheimtukostnaði. Í þessu sambandi áskildi skuldareigandi sér rétt til þess í veðskuldabréfinu að „yfirfæra jafnvirði eftirstöðva fjárhæða lánsins yfir í íslenskar krónur, m.v. sölugengi í íslenskum sparisjóðum á gjalddaga eða greiðsludegi“.

Í veðskuldabréfinu var einnig að finna ákvæði um afleiðingar þess að stefnandi stæði ekki í skilum, en þá skyldi lánið allt, ásamt áföllnum vöxtum og kostnaði, fallið í gjalddaga án uppsagnar eða tilkynningar. Við þær aðstæður var skuldareiganda og „heimilt að umreikna skuldina í íslenskar krónur á gjalddaga miðað við skráð sölugengi Seðlabanka Íslands í þeim myntum / mynt sem skuldin samanstendur af“ og bæri stefnanda þá að greiða „dráttarvexti af gjaldfallinni eða gjaldfelldri skuld í samræmi við gjaldskrá sparisjóðsins hverju sinni, sbr. ákvæði III. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu“. Að endingu var í veðskuldabréfinu kveðið á um að stefnandi skyldi greiða 2,5% lántökugjald, kostnað við gerð lánsskjala, innheimtukostnað vegna hverrar greiðslu og þinglýsingar- og stimpilgjöld.

B

Útborgunarfjárhæð láns nam 11.178.150 krónum og var hún greidd inn á reikning stefnanda 19. júlí 2006 með skýringunni „Erlend lán“. Í fylgiskjali með veðskuldabréfinu, sem bar yfirskriftina „Fylgiskjal með FC lánum“, kom fram að útborgunarfjárhæðin væri fundin miðað við ákveðið gengi evru gagnvart íslensku krónunni að teknu tilliti til ákveðinna frádráttarliða. Ekki er um það deilt að stefnandi óskaði eftir láninu í þeim tilgangi að fjármagna fasteignarkaup og greiddi hann Kópavogsbæ stuttu síðar 11.318.987 krónur í þeim tilgangi. Ekki er ástæða til að rekja gögn málsins um aðdraganda þess að stefnandi tók lánið en ágreiningslaust er að ekki var unnið sérstakt greiðslumat eða fylgt fyrirmælum þágildandi laga um neytendalán við lánveitinguna.

Hinn 26. nóvember 2008 var gerð skilmálabreyting á veðskuldabréfinu. Kemur fram í skjalinu að um sé að ræða skilmálabreytingu á veðskuldabréfi „að fjárhæð EUR 125.000“. Önnur skilmálabreyting var gerð á veðskuldabréfinu 25. ágúst 2009 og þá vísað til lánsins með sambærilegum hætti. Hinn 7. desember 2010 gerði stefnandi að nýju samkomulag við lánveitanda um greiðslur af láninu vegna þeirrar óvissu sem þá ríkti um lögmæti veðskuldabréfa í erlendum myntum. Hinn 12. september 2012 var stefnanda tilkynnt að lánið hefði verið endurreiknað samkvæmt 18. gr. laga nr. 38/2010, sbr. bráðabirgðaákvæði laganna nr. X sem fjallar um húsnæðislán til neytenda. Niðurstaða þess endurútreiknings var að staða skuldbindingar stefnanda lækkaði úr 15.497.527 krónum í 11.521.385 krónur. Í samræmi við ákvæði laga nr. 38/2001 kom fram að eftirstöðvar lánsins mynduðu „nýjan höfuðstól lánsins í íslenskum krónum“, sem skyldi vera verðtryggður. Þá var vísað til þess að lánið myndi bera vexti samkvæmt 2. málsl. 4. gr. laga nr. 38/2001 auk þess sem fram komu upplýsingar um tilhögun á greiðslu lánsins og greiðsluáætlun.

Stefnandi átti í nokkrum samskiptum við stefnda eftir endurútreikninginn þar sem hann var ósáttur við framkvæmd hans. Hinn 26. september 2012, svaraði stefndi fyrirspurn stefnanda um framangreindan endurútreikning. Var þar áréttað að lánið hefði verið endurreiknað á grundvelli fyrrgreinds bráðabirgðaákvæðis X í lögum nr. 38/2001 sem mælti fyrir um endurútreikning húsnæðislána án tillits til þess hvort þau teldust ólögmæt. Var og rakið að þar sem lánið teldist lögmætt ættu sjónarmið um svonefndar fullnaðarkvittanir ekki við og lagaskilyrði skorti fyrir frekari lækkun lánsins. Ekki er ástæða til að rekja frekar samskipti aðila.

Ekki var um munnlegar skýrslur að ræða við aðalmeðferð málsins.

Helstu málsástæður og lagarök stefnanda

Stefnandi hefur látið reikna út að nýju fyrrgreint lán miðað við fullnaðarkvittanir, eins og lánið væri ólögmætt erlent gengislán þ.e. í íslenskum krónum með erlendu gengisviðmiði. Samkvæmt þeim endurútreikningi hefði lánið átt að lækka um 2.710.209 krónur umfram það sem leiddi af endurútreikningi stefnda. Telur stefnandi sig því hafa lögvarða hagsmuni af því að fá lánið viðurkennt sem ólögmætt erlent gengislán eða leyst úr því að vaxtaákvæði veðskuldabréfsins hafi verið ógilt.

Aðalkröfu sína reisir stefnandi í fyrsta lagi á því að téður lánssamningur aðila hafi í reynd verið í íslenskum krónum og því í andstöðu við 13. gr. laga nr. 38/2001. Stefnandi telur það hafa meginþýðingu hvernig skuldbindingar og efndir aðila voru í raun og veru. Leggur hann áherslu á að aðeins íslenskar krónur hafi verið afhentar honum sem lánsfé, jafnframt því sem afborganir voru í íslenskum krónum. Erlendar myntir hafi því aldrei skipt um hendur. Í þessu sambandi kom fram í munnlegum málflutningi að einungis bankareikningur stefnanda í íslenskum krónum hefði komið við sögu. Einnig vísaði stefnandi til þess að í téðu veðskuldabréfi væri í 7. mgr. beinlínis vísað til „gengistryggingar“. Samkvæmt þessu eigi ekki að ráða úrslitum þótt í fyrirsögn veðskuldabréfsins hafi komið fram að veðskuldabréfið væri í erlendum myntum eða mynteiningum enda komi fyrir neðan orðalagið eða jafnvirði þeirra fjárhæða í íslenskum krónum........ sem hafi í dómum Hæstaréttar samrýmst því að samningur væri gengistryggður. Stefnandi vísar til þess að hvað sem líði orðalagi veðskuldabréfsins hafi íslenskar krónur í reynd verið lánaðar og greiddar til baka. Þá geti síðari tíma breytingar á samningnum ekki haggað meginefni hans að þessu leyti.

Í annan stað byggir stefnandi aðalkröfu sína á því að ofangreindur lánssamningur, bæði að efni til og í framkvæmd, hafi verið í andstöðu við lög nr. 121/1994, um neytendalán, en samkvæmt 24. gr. laganna hafi stefndi ekki mátt víkja frá ákvæðum laganna með lánssamningi stefnanda í óhag. Tenging samningsins við erlenda mynt, jafnvel þótt lánið verði talið hafa verið veitt í þeirri mynt, sé þess vegna ólögmæt. Af þeim sökum beri að miða skuldbindingu stefnanda við íslenskar krónur með erlendu gengisviðmiði. Í lögum nr. 121/1994 segi að heildarlántökukostnaður skuli reiknaður út í krónum, sbr. 4. tl. 1. mgr. 6. gr. laganna, sem leiði til þess að miða skuli heildarlántökukostnað við íslenskar krónur. Þetta hafi ekki verið gert og lánsfjárhæð hvergi tilgreind í krónum, né heldur vextir. Þá hafi ekki verið lagt mat á heildarlántökukostnað eða árlega hlutfallstölu kostnaðar. Þá hafi lánsumsókn og greiðsluáætlun ekki legið fyrir. Samkvæmt framangreindu hafi skort mjög á að stefnanda væru veittar fullnægjandi upplýsingar fyrir og við lántökuna um fjárskuldbindingu sína. Lánið geti af þessari ástæðu ekki talist „löglegt gjaldeyrislán“ og beri því að miða við að það hafi verið veitt í íslenskum krónum. Þannig telur stefnandi að sé neytendalán í erlendum gjaldeyri þá beri að umreikna og veita jafnframt upplýsingar um kostnað og fjárhæðir í krónum. Að öðrum kosti sé tenging lánsins við erlenda gjaldmiðla óheimil og að vettugi virðandi svo sem eigi við um lán stefnanda.

   Varakröfu sína byggir stefnandi á því að ákvæði veðskuldabréfsins um LIBOR-vexti sé óskuldbindandi samkvæmt 36. gr. a-d og 36. gr. laga nr. 7/1936, um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga, með síðari breytingum, eins og þessar reglur verða skýrðar til samræmis við tilskipun nr. 87/102/EBE og nr. 93/13/EBE um óréttmæta samningsskilmála. Í fyrsta lagi telur stefnandi að skilmálar bréfsins að þessu leyti séu óljósir þar sem enginn vaxtafótur sé tilgreindur. Því til stuðnings bendir stefnandi á að engin lánsumsókn né greiðsluáætlun hafi verið gerð og því ekki hægt að átta sig með neinu móti á því hverjir vextirnir væru, hvorki í upphafi lántöku né síðar, né hvaða áhrif þeir hefðu á lánið. Einnig bendir stefnandi á að veðskuldabréfið hafi verið samið einhliða af lánveitanda sem hafi verið fjármálastofnun en stefnandi hafi haft stöðu neytanda. Leiðir af framangreindu að ef einhver skilmáli samningsins telst ekki á skýru og skiljanlegu máli teljist hann í raun ósanngjarn í skilningi laganna sbr. 36. gr. b., laga nr. 7/1936.

Í annan stað vísar stefnandi til þess að stefnda hafi í öllu falli ekki verið heimilt að krefja stefnanda um annan lántökukostnað en þann sem tilgreindur var í samningi aðila samkvæmt 4. tölul. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 121/1994. Stefnandi telur jafnframt að stefnda hafi eingöngu verið heimilt að krefja hann um þann lánskostnað, þ.e. vexti, sem fullnægði þeim áskilnaði 2. málsliðar 2. mgr. 14. gr. laga nr. 121/1994, að vera innan marka þeirrar árlegu hlutfallstölu kostnaðar, sem telja megi að hafi átt að vera reiknuð svo greinanlegt væri við gerð samningsins skv. 5. tölul. 1. mgr. 6. gr. laganna. Stefnda sé því óheimilt að krefja stefnanda um greiðslu vaxta samkvæmt samningnum. Í þriðja lagi vísar stefnandi til þess að stefndi hafi brotið gegn 5. gr. og 2. mgr. 9. gr. sbr. 8. gr. laga nr. 57/2005 um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu. Í þessu sambandi er bent á að það sé stefnda sem lánveitanda að bera ábyrgð á því að stefnanda séu kynnt öll skjöl sem að láni snúa, hvort sem það eru lánssamningur og fylgiskjöl hans eða önnur kynningarefni sem stefndi leggur fram til upplýsinga um lán. Í fjórða lagi vísar stefnandi til þess að stefndi sé sérfrótt fjármálafyrirtæki sem hafi látið undir höfuð leggjast að útbúa lánsumsókn og greiðsluáætlun. Verði stefndi að bera hallann af því að hafa ekki farið eftir skýrum ákvæðum neytendalánalaga um upplýsingagjöf við samningsgerðina gagnvart stefnanda. 

Helstu málsástæður og lagarök stefnda

Stefndi byggir sýknukröfu sína á því að skuldbinding stefnanda samkvæmt umræddu veðskuldabréfi hafi að sönnu verið um gilt lán í erlendum gjaldmiðli, þ.e. evru. Í fyrsta lagi vísast til þess að veðskuldabréfið ber heitið: „Veðskuldabréf í erlendum myntum/mynteiningum“. Í öðru lagi sé lánsfjárhæðin, þ.e. höfuðstólsfjárhæð skuldbindingar stefnanda, einungis tilgreind í hinum erlenda gjaldmiðli, þ.e. „EUR 125.000“. Þá, í þriðja lagi, hafi skuldbindingin borið LIBOR/EURIBOR-vexti samkvæmt veðskuldabréfinu til samræmis við að um erlent lán sé að ræða. Þá hnígi síðari tíma skilmálabreytingar ótvírætt að sömu niðurstöðu. Af þessu leiði, bæði um einstök atriði og að samanlögðu, að umrædd skuldbinding teljist ótvírætt vera í erlendum gjaldmiðlum. Stefndi vísar til þess að samkvæmt þessu hafi form og efni skuldaskjalsins verið ótvírætt um að lánið væri í hinum tilgreindu erlendu myntum. Við slíkar aðstæður leiði af fordæmum Hæstaréttar að ekki eigi að líta til annarra atvika. Því skipti ekki máli þótt lánið hafi verið greitt út í íslenskum krónum og afborganir farið fram í sömu mynt. Tilvísun stefnanda til þess að í veðskuldabréfinu sjálfu sé rætt um „gengistryggingu“ var við munnlegan flutning málsins mótmælt sem of seint fram kominni málsástæðu. Þessi tilvísun í bréfinu gæti þó ekki leitt til þess að lánið teldist gengistryggt. Stefndi byggir jafnframt á því að stefnandi hafi, hvað sem öðru líður, glatað hvers konar rétti sínum fyrir tómlætis sakir, enda hafi honum verið í lófa lagið að hafa uppi kröfur á fyrri stigum, og hafi stefnandi raunar viðurkennt í verki lögmæti skuldbindingarinnar.

Að því er varðar skort á upplýsingagjöf við lánveitinguna er því mótmælt að annmarkar að þessu leyti geti leitt til þess að skuldbindingin geti ekki talist „löglegt gjaldeyrislán“. Telur stefndi ljóst, meðal annars með hliðsjón af almennum reglum fjármunaréttar um form og efni skuldabréfa, að sé skuldbinding á annað borð í erlendri mynt, geti ætlaður skortur á upplýsingagjöf, samkvæmt lögum nr. 121/1994 og viðlíka atriði, ekki valdið því að skuldbindingin teljist þar með vera í íslenskum krónum, gengistryggð. Slík lögskýring eigi sér enga stoð. Að sama skapi leiði ekki af lögum nr. 121/1994 að óheimilt sé að stofna til skuldbindingar í erlendri mynt, nema því aðeins að áskilnaði laganna um upplýsingagjöf sé fullnægt og jafnvel þótt svo yrði talið, geti slíkt engu breytt um inntak skuldbindingarinnar samkvæmt almennum reglum íslensks réttar, þ.m.t. um form og efni skuldaskjala.

Að því er snertir varakröfu stefnanda er frávísunarkrafa stefnda grundvölluð á því að krafan sé óljós. Ekki sé ljóst hvaða lögvörðu hagsmuni stefnandi hafi af þessari dómkröfu, og ekki hvað síst með tilliti til þess að skuldbindingin ber ekki lengur vexti samkvæmt veðskuldabréfinu heldur vexti samkvæmt 4. gr. laga nr. 38/2001. Stefndi vísar einnig til þess að stefndi hafi lýst því yfir að láninu hafi verið breytt í verðtryggða skuldbindingu en í því felist bindandi ráðstöfun sakarefnis af hans hendi, þ.e. að um nýtt lán hafi verð að ræða. Svo sem gögn málsins beri með sér hafi þessari nýju skuldbindingu fylgt ítarleg greiðsluáætlun í samræmi við fyrirmæli laga nr. 121/1994 um neytendalán. Ekki verði á hinn bóginn ráðið af málatilbúnaði stefnanda, hvort og þá hvaða lögvörðu hagsmuni stefnandi hafi af úrlausn varakröfu sinnar í ljósi framangreinds, svo sem hvaða kröfurétt hún gæti skapað stefnanda.

Að því er varðar kröfu stefnda um sýknu af varakröfu stefnanda er öllum málsástæðum stefnanda hafnað. Þá er jafnframt byggt á sömu málsástæðum og til stuðnings kröfu um frávísun sem og að stefnandi hafi, hvað sem öðru líður, með tómlæti sínu og athugasemdalausri greiðslu vaxta frá stofnun skuldbindingarinnar glatað hvers konar rétti sem hann vill byggja á í þessu samhengi. Að þessu slepptu leggur stefndi áherslu á að vaxtaviðmiðun veðskuldabréfsins hafi verið skýr og hafi ekki getað dulist almennum neytanda, þ.m.t. að vextirnir gætu tekið breytingum eftir þróun á alþjóðlegum fjármagnsmörkuðum. Í annan stað hafi stefnandi greitt slíka vexti af skuldbindingunni athugasemdalaust um langa hríð og viðurkennt þannig í verki skyldu sína til greiðslu vaxta. Í þriðja lagi verði hvorki ráðið að vaxtaákvæði skuldabréfsins brjóti gegn einstökum ákvæðum laga nr. 7/1936, um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga, þ.m.t. 36. gr. a-d. Jafnvel þótt svo yrði talið telur stefnandi fjarstæðu að slíkt geti haft þá lögfylgju að skuldbindingin teljist þar með vaxtalaus. Sama eigi við verði fallist á að upplýsingagjöf lánveitanda, í tengslum við stofnun skuldbindingarinnar, hafi ekki að öllu leyti samrýmst lögum nr. 121/1994.

Stefndi vísar einnig til þess að vextir hafi verið tilgreindir í veðskuldabréfinu og því geti 14. gr. laga nr. 121/1994 ekki leitt til þess að vaxta verði ekki krafist. Hvað sem þessu líði hafi stefnanda mátt vera ljóst hver heildarlántökukostnaður væri. Telur stefndi einnig að hér skipti máli að stefnandi greiddi ætíð athugasemdalaust vexti af skuldbindingunni og sú staðreynd að lánveitingar fjármálafyrirtækja bera jafnan vexti. Stefnanda, sem almennum neytenda, hafi því hvorki dulist, né mátt dyljast, að skuldbindingin bæri lántökukostnað í formi vaxta. Þá hafi í dómaframkvæmd ekki verið talið að vanræksla upplýsingagjafar samkvæmt lögum nr. 121/1994 leiði þá þegar til þess að lántökukostnaðar verði ekki krafist. Stefndi mótmælir því að hann hafi brotið gegn lögum nr. 57/2005, um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu. Jafnvel þótt svo yrði talið er því mótmælt að það geti haft þær lögfylgjur í för með sér sem stefnandi krefst. Stefndi mótmælir því með sömu rökum að hann, sem fjármálafyrirtæki, verði að bera hallann af hvers konar vanrækslu með þeim afleiðingum að skuldbindingin teljist vaxtalaus.

Niðurstaða

Við mat á því hvort lán sé í erlendri mynt eða íslenskum krónum, bundið gengi erlendra gjaldmiðla, hefur í dómaframkvæmd verið lagt til grundvallar að miða beri við skýringu á texta þess skuldaskjals sem lántaki hefur samþykkt. Einungis við þær aðstæður þegar sú textaskýring tekur ekki af tvímæli um hvers efnis skuldbindingin er að þessu leyti hefur verið talið rétt að líta til annarra atriða, svo sem til þess hvernig meginskyldur aðila voru efndar og hvernig staðið var að framkvæmd samnings að öðru leyti, þ. á m. við síðari skilmálabreytingar.

Svo sem áður er rakið bar það veðskuldabréf sem um er deilt í málinu fyrirsögnina „Veðskuldabréf í erlendum myntum/mynteiningum“ og með því viðurkenndi stefnandi að skulda Sparisjóði Hafnarfjarðar „eða þeim sem hann vísar til, eftirfarandi erlendar fjárhæðir: EUR 125.000 [...] eða jafnvirði þeirra fjárhæða í íslenskum krónum, erlendum myntum eða mynteiningum, miðað við sölugengi í íslenskum sparisjóðum á gjalddaga eða greiðsludegi“. Samkvæmt þessu bar fyrirsögn veðskuldabréfsins skýrlega með sér að um væri að ræða skuldbindingu í erlendum gjaldmiðlum og var hún nákvæmlega tilgreind í bréfinu, þótt einnig hafi verið vísað til jafnvirðis lánsfjárhæðarinnar í íslenskum krónum. Í síðari skilmálabreytingum, sem áður greinir, var skuldin einungis tilgreind í erlendum gjaldmiðlum.

Þegar litið er til framangreindra atriða verður, með hliðsjón af ítrekuðum fordæmum Hæstaréttar, þegar af þessum ástæðum að fallast á það með stefnda að samningurinn hafi tekið til gildrar skuldbindingar í erlendum gjaldmiðlum, sbr. t.d. dóm Hæstaréttar 11. desember 2014 í máli nr. 235/2014. Getur það þar af leiðandi ekki haft þýðingu við úrlausn málsins að lánið var greitt út til stefnanda í íslenskum krónum sem greiddi einnig af láninu í þeim gjaldmiðli. Að virtri þessari niðurstöðu telur dómurinn einnig að stefnandi hafi ekki leitt að því haldbær rök að vanræksla lánveitanda gagnvart því að fylgja ákvæðum laga nr. 121/1994 um neytendalán við veitingu lánsins geti leitt til þess að líta beri á lánið sem gengistryggt lán í íslenskum krónum. Verður stefndi því sýknaður af aðalkröfu stefnanda.

Með varakröfu sinni krefst stefnandi þess efnislega að viðurkennt verði að ákvæði veðskuldabréfsins um vexti hafi verið óskuldbindandi fyrir hann frá útgáfudegi bréfsins 17. júlí 2006 þar til láninu var breytt í verðtryggt íslensk lán með endurútreikningi stefnda 6. september 2015 til samræmis við bráðabirgðaákvæði X laga nr. 38/2001, eins og lögunum var breytt með 1. gr. laga nr. 151/2010. Þeir hagsmunir sem stefnandi byggir málatilbúnað sinn í heild á, þ.m.t. varakröfu sína, felast í þeirri afstöðu hans að stefnda beri að taka tillit til fullnaðarkvittana stefnanda fyrir greiðslu vaxta á umræddu tímabili. Varakrafa stefnanda jafngildir hins vegar því að viðurkennt sé að stefnanda hafi verið alfarið óskylt að greiða nokkra vexti af láninu á því tímabili sem vísað er til í kröfunni. Að mati dómsins er þessi kröfugerð stefnanda ósamrýmanleg grundvelli málatilbúnaðar hans og þeim hagsmunum sem hann telur sig hafa af málsókninni. Leiðir einnig af þessu að alls óljóst er hvaða þýðingu það hefði fyrir hagsmuni stefnanda ef fallist væri á þessa kröfu hans. Eru hagsmunir stefnanda af kröfunni því einnig vanreifaðir. Verður varakröfu stefnanda vísað sjálfkrafa frá dómi af þessum sökum.

                Eftir atvikum þykir rétt að málskostnaður falli niður.

Af hálfu stefnanda flutti málið Þórður Heimir Sveinsson hdl.

Af hálfu stefnda flutti máli Stefán A. Svensson hrl.

Skúli Magnússon héraðsdómari kveður upp dóm þennan.

D Ó M S O R Ð

Stefndi, Íslandsbanki hf., er sýkn af aðalkröfu stefnanda, Bjarna Marteins Berg Elfarssonar.

Varakröfu stefnanda er vísað frá dómi.

Málskostnaður fellur niður.