Print

Mál nr. 525/2016

A (Steingrímur Þormóðsson hrl.)
gegn
Sjúkratryggingum Íslands (Erla S. Árnadóttir hrl.)
Lykilorð
  • Líkamstjón
  • Skaðabætur
  • Sjúklingatrygging
  • Eignarréttur
  • Jafnræði
  • Stjórnarskrá
Reifun

A krafðist þess að felldur yrði úr gildi sá hluti ákvörðunar S sem laut að því að bætur til hans samkvæmt lögum nr. 111/2000 um sjúklingatryggingu skertust samkvæmt þeim fyrirmælum 2. mgr. 5. gr. laganna að hámarksbætur væru 5.000.000 króna. Reisti hann þá kröfu á því að fyrrgreint ákvæði bryti gegn jafnræðisreglu stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og stjórnarskrárinnar, auk þess sem í því fælist skerðing eignarréttinda samkvæmt 72. gr. stjórnarskrárinnar. Í dómi héraðsdóms kom meðal annars fram að þar sem lög nr. 111/2000 mæltu fyrir um rétt sem óvíst væri hvort sjúklingar ættu annars en sviptu þá ekki rétti væri ekki um að ræða brot gegn eignaréttarákvæði 1. mgr. 72. gr. stjórnarskrárinnar. Þá styddist það við málefnaleg sjónarmið að setja þak á fjárhæð bóta eftir lögunum. Loks væri hvorki um að ræða brot gegn jafnræðisreglu 11. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 né 1. mgr. 65. gr. stjórnarskrárinnar. Var kröfu A því hafnað. Í dómi Hæstaréttar sagði að þar sem ákvörðun S ætti stoð í skýru og ótvíræðu ákvæði 2. mgr. 5. gr. laga nr. 111/2000 væri ekki um að ræða brot á jafnræðisreglu 11. gr. stjórnsýslulaga. Um eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar sagði síðan að því hefði verið slegið föstu í dómaframkvæmd að löggjafinn hefði nokkurt svigrúm til að takmarka fjárhæð bóta vegna skerts aflahæfis væru slíkar takmarkanir reistar á efnislegum ástæðum og jafnræðis gætt. Þar sem málefnaleg sjónarmið lægju að baki 2. mgr. 5. gr. laga nr. 111/2000 og reglan tæki jafnt til allra tjónþola samkvæmt lögunum fæli hún ekki í sér brot gegn 1. mgr. 65. gr. stjórnarskrárinnar. Var S því sýknaður af kröfu A.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson, Eiríkur Tómasson og Greta Baldursdóttir.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 20. júlí 2016. Hann krefst þess að felldur verði úr gildi sá hluti ákvörðunar stefnda 14. maí 2013 að bætur til hans skerðist samkvæmt því hámarki bótafjárhæðar sem tilgreint er í 2. mgr. 5. gr. laga nr. 111/2000 um sjúklingatryggingu. Þá krefst áfrýjandi málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Í máli þessu greinir aðila á um hvort stefnda hafi verið heimilt að skerða bætur til áfrýjanda á grundvelli laga nr. 111/2000, en í 2. mgr. 5. gr. þeirra er kveðið á um að hámark bótafjárhæðar skuli vera 5.000.000 krónur og sú fjárhæð breytast miðað við 1. janúar ár hvert í samræmi við vísitölu neysluverðs. Óumdeilt er að vegna breytinga á þeirri vísitölu frá 1. janúar 2001 þegar lögin tóku gildi til 1. janúar 2010 nam fjárhæðin 8.814.229 krónum 1. desember sama ár er tjónsatvikið varð sem hér um ræðir.

Sú ákvörðun stefnda 14. maí 2013 að lækka bætur áfrýjanda úr sjúklingatryggingu eftir lögum nr. 111/2000 studdist við hið skýra og ótvíræða ákvæði 2. mgr. 5. gr. þeirra um hámark bóta. Af þeirri ástæðu var ekki um að ræða brot á jafnræðisreglu 11. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Samkvæmt þessu og að teknu tilliti til málatilbúnaðar áfrýjanda stendur eftir að taka afstöðu til þess hvort umrætt ákvæði 2. mgr. 5. gr. laga nr. 111/2000 brjóti í bága við 1. mgr. 65. gr. stjórnarskrárinnar þar sem meðal annars er mælt fyrir um að allir skuli vera jafnir fyrir lögum. Einnig 1. mgr. 72. gr. hennar um að engan megi skylda til að láta af hendi eign sína nema almenningsþörf krefji. Þarf til þess lagafyrirmæli og komi fullt verð fyrir.

Því hefur verið slegið föstu, meðal annars með dómi Hæstaréttar 22. maí 1998 í máli nr. 311/1997, að í aflahæfi manna séu fólgin eignarréttindi sem njóti verndar 1. mgr. 72. gr. stjórnarskrárinnar. Þó er ótvírætt að löggjafinn hefur heimild til að setja reglur um það hvernig ákvarða skuli bætur þegar aflahæfið er skert, þar á meðal hefur  hann nokkurt svigrúm til að takmarka fjárhæð bóta með vísan til þess að takmarkanir verða gerðar á eignarrétti án þess að til bóta komi, enda byggist þær á almennum efnislegum ástæðum og jafnræðis sé gætt, sbr. dóm Hæstaréttar 15. mars 2001 í máli nr. 395/2000.

Í 2. gr. laga nr. 111/2000 kemur fram að bætur úr sjúklingatryggingu skuli greiða án tillits til þess hvort einhver beri ábyrgð samkvæmt reglum skaðabótaréttarins, enda megi að öllum líkindum rekja tjónið til einhvers af þeim tilvikum sem tiltekin eru í fjórum töluliðum lagagreinarinnar. Með lögunum er tjónþolum, sem þau taka til, tryggður víðtækari réttur til bóta en öðrum, auk þess sem lögin girða ekki fyrir að þeir geti krafist bóta á grundvelli almennra skaðabótareglna, svo sem sakarreglunnar og reglunnar um vinnuveitendaábyrgð. Í athugasemdum með frumvarpinu, sem varð að lögum nr. 111/2000, var fjallað um rök með og móti því úrræði að tryggja sjúklingum víðtækari rétt til bóta en flestum öðrum tjónþolum. Meðal þess, sem talið var mæla með slíku úrræði, var að sönnunarvandkvæði í þessum málflokki væru oft meiri en á öðrum sviðum. Veigamestu rökin, sem þóttu mæla gegn sjúklingatryggingu, voru kostnaðurinn, sem henni fylgdi, og að ekki væri sanngjarnt að veita þessum tjónþolum forgang umfram aðra.

Að virtu því, sem rakið hefur verið, er fallist á með stefnda að sú ákvörðun löggjafans að takmarka fjárhæð bóta samkvæmt lögum nr. 111/2000 á þann veg, sem gert er í 2. mgr. 5. gr. laganna, styðjist við málefnaleg sjónarmið. Með vísan til þess og þar sem um er að ræða reglu, sem tekur jafnt til allra tjónþola samkvæmt lögunum, felur hún heldur ekki í sér slíka mismunun í garð áfrýjanda að brjóti í bága við 1. mgr. 65. gr. stjórnarskrárinnar.

Samkvæmt framansögðu verður hinn áfrýjaði dómur staðfestur á þann hátt sem í dómsorði greinir.

Rétt er að málskostnaður fyrir Hæstarétti falli niður.

Dómsorð:

Stefndi, Sjúkratryggingar Íslands, er sýkn af kröfu áfrýjanda, A.

Staðfest eru ákvæði héraðsdóms um málskostnað og gjafsóknarkostnað.

Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 20. apríl 2016.

                Þetta mál, sem var tekið til dóms 26. febrúar 2016, er höfðað af A, kt. […], […], með stefnu birtri 3. febrúar 2015, á hendur Sjúkra­trygg­ingum Íslands, kt. […], Rauðarárstíg 10, Reykja­vík og birtri 4. febrúar 2015 á hendur íslenska ríkinu, vegna vel­ferðar­ráðu­neytis­ins, kt. […], Hafnarhúsinu við Tryggvagötu, vegna Heil­brigðis­stofn­unar Suðurnesja, kt. […], Skólavegi 6, Reykjanesbæ.

                Stefnandi krefst þess að ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands frá 14. maí 2013 í máli nr. 866, verði felld úr gildi með dómi, að því leyti, sem efni ákvörðunarinnar er, að bætur stefnanda skerðist, samkvæmt því hámarki bótafjárhæðar, sem tilgreint er í 2. mgr. 5. gr. laga nr. 111/2000.

                Stefnandi krefst málskostnaðar úr hendi stefnda að teknu til­liti til virðis­auka­skatts eins og málið væri eigi gjaf­sókn­ar­mál.

                Stefndi, Sjúkratryggingar Íslands, krefst sýknu af öllum kröfum stefnanda.

                Hann krefst jafnframt málskostnaðar að skaðlausu úr hendi stefnanda.

                Réttargæslustefndi, íslenska ríkið, gerir ekki sjálfstæðar kröfur.

Málsatvik

                Stefnandi slasaðist 11. nóvember 2010 þegar hann fór upp stiga, upp á háaloft heima hjá sér. Stiginn rann undan honum, hann féll og lenti á hægri öxl og hægri oln­boga. Stefnandi hélt í fyrstu að einkennin væru minni háttar. Þau fóru vax­andi næstu klukku­tíma eftir slysið og leitaði hann því til læknis daginn eftir.

                Í sjúkraskrá Heil­brigðis­stofnunar Suður­nesja 12. nóvember 2010 er tekið fram að allar hreyf­ingar stefnanda séu aumar og öxlin aum. Röntgen­myndir sýndu ekki brot. Talið var að stefn­andi hefði tognað á öxlinni og var honum ávísað bólgueyðandi lyfjum.

                Stefnandi leitaði á heilsugæsluna á ný, 1. desember 2010. Þá var hann enn veru­lega slæmur í hægri öxlinni en gat þó hreyft hana aðeins meira en áður. Skrifað var upp á beiðni um sjúkra­þjálfun. Hann leit­aði aftur á heilsugæsluna 17. desember 2010. Honum hafði ekkert batnað og hafði slæm einkenni vöðvabólgu hægra megin. Skrifuð var beiðni um segulómun af öxlinni og veikindavottorð. Þá hafði hann ekki hafið sjúkra­þjálfun en var ráðlagt að gera það sem fyrst.

                Þegar stefnandi kom á heilsugæslustöðina 5. janúar 2011 var hann enn óvinnu­fær en hafði hafið sjúkraþjálfun. Hann hafði ekki enn komist til rannsóknar og var skráður með verk í hægri olnboga og framhandlegg. Segulómskoðun á hægri öxlinni 12. janúar 2011 sýndi algert rof í sinum og ofan- og neðankambsvöðvum og verulega rýrnun í þessum vöðvum. Hástaða var í axlarlið, vökvi í slímsekk undir axlarhyrnu og slit­breyt­ingar í axlarhyrnulið.

                Stefnandi fékk tilvísun til B bæklunarlæknis og hitti hann lækn­inn 10. febrúar 2011. Þá hafði stefnandi verki í hægri öxl eins og áður. Hreyfi­skerð­ing var veruleg og hann var að auki kominn með „frosna“ öxl. Í aðgerð 22. febrúar losaði bæklunarlæknirinn liðinn, hreinsaði burtu bólguvef undan axlarhyrnu og fræsti neðan af henni. Staðfest var stór rifa í lyftihulsu axlarinnar en ekki var unnt að gera við hana og óljóst var hvort það yrði hægt síðar því sinarnar höfðu dregist til baka vegna styttingar í vöðvum.

                Í niðurstöðu vottorðs læknisins 24. júní 2011 segist hann ekki hafa nein gögn um að stefnandi hafi meitt sig illa á þessari öxl áður. Því telji hann lík­legt að stefn­andi hafi rifið sinar í ofangreindu slysi. Í kjöl­far þess hafi hann leitað strax á slysa­deild þar sem áverkinn var ekki greindur. Læknirinn taldi meiri líkur en minni á að sú töf sem varð í upphafi á réttri greiningu og meðferð hafi getað valdið því að ekki var hægt að end­ur­tengja sinaskaðann sem sé nú við­var­andi hjá stefn­anda.

                Eftir þetta var stefnandi í meðferð hjá sjúkra­þjálf­ara.

                Lífeyrissjóðurinn Gildi lét meta tjón stefnanda og mat trúnaðarlæknir sjóðsins 30. des­em­ber 2011 að afleið­ingar slyssins væru 100% örorka stefnanda bæði til sjó­manns­starfa og almennra starfa. Í end­ur­mati 16. ágúst 2012 komu ekki fram neinar breyt­ingar frá fyrra mati. Síðasta matið fór fram 16. mars 2014.

                C lögfræðingur og D bækl­un­ar­læknir, töldu í mati dags. 17. október 2011, að tíma­bundin örorka stefnanda vegna tímabilsins 11. nóv­ember 2010-22. júní 2011 væri 100%, miðað við batahvörf 22. júní 2011. Varan­legur miski/læknisfræðileg örorka var metin 15 stig vegna slysa­áverk­anna.

                Stefnandi sótti 30. ágúst 2011 um bætur úr sjúklingatryggingu frá stefnda, Sjúkra­tryggingum Íslands, samkvæmt lögum nr. 111/2000, um sjúklingatryggingu.

                Ákvörðun stefnda lá fyrir 14. maí 2013. Í forsendum niðurstöðu stefnda segir að hann telji stefnanda ekki hafa hlotið bestu hugsanlegu meðferð á Heil­brigðis­stofnun Suð­ur­nesja 1. desember 2010 þegar hann leitaði þangað vegna áverka á hægri öxl. Ljóst sé að læknar heilbrigðisstofnunarinnar hafi ekki greint áverk­ann er stefnandi leit­aði til þeirra 12. nóvember 2010, daginn eftir slysið. Teknar hafi verið röntgen­myndir til að ganga úr skugga um að hann væri ekki brotinn. Stefn­andi hafi verið aumur við allar hreyfingar og því hafi ekki verið hægt að ætlast til að læknar greindu slitið svo stuttu eftir áverkann því erfitt hafi verið að skoða stefnanda á þessum tíma. Stefndi taldi hins vegar að í næstu skoðun, 1. desem­ber 2010, hafi skoðun lækna ekki verið fullnægjandi því þá hefði átt að senda stefn­anda í segul­óm­rannsókn. Enn fremur taldi stefndi að allur gangur eftir að ákveðið var að senda stefnanda í þá skoðun hafi verið of hægur. Langur tími hafi liðið þar til til­vísun var send bækl­un­ar­skurð­lækni og sú tilvísun hafi aðeins verið send bréf­leiðis en ekki á nokkurn hátt, t.d. með sím­tali, reynt að flýta fyrir afgreiðslu.

                Álit stefnda, sem byggði að miklu leyti á gögnum B bækl­un­ar­skurð­læknis, var að við áðurnefnt slys hefði lyftihulsa hægri axlar stefnanda rifnað. Mikil­vægt sé í slíkum tilvikum, að greining gangi fljótt fyrir sig og að sjúkl­ingi sé komið snemma í meðferð hjá bækl­un­ar­skurð­lækni svo unnt sé að gera við rif­una með við­un­andi árangri. Í tilviki stefnanda hafi verið miklar tafir og þegar hann hafi loks kom­ist til bæklunarskurðlæknis hafi of langur tími verið lið­inn frá slysi til að unnt væri að gera við skemmdirnar. Stefndi leit svo á að með­ferðin hefði taf­ist um tvo mán­uði vegna ýmissa atvika. Í þessu felist hinn eigin­legi sjúkl­inga­trygg­ing­ar­atburður og í ljósi þess sem fram hafi komið sé dagsetning hans ákveðin 1. des­em­ber 2010.

                Í ákvörðuninni kom fram að stefn­andi ætti langa sjúkra­sögu að baki. Hann hefði aðallega verki í baki og brjósk­los, en stefnandi hafi þó jafn­framt haft einkenni frá öxlum. Þau einkenni teljist hins vegar ekki hafa verið það mikil að litið verði á þau sem forskaða sem hafi áhrif við matið.

                Við mat á afleiðingum sjúklingatryggingaratburðarins kom fram að taka yrði til­lit til afleiðinga hins upprunalega áverka. Ekki væri hægt að líta svo á að stefnandi hefði jafnað sig að fullu, jafnvel þótt hann hefði farið í aðgerðina innan þess tíma sem unnt hefði verið að sauma saman lyftihulsu hægri axlar því áverkinn var mjög alvar­legur. Stefnandi hefði því alltaf setið uppi með ákveðnar varanlegar afleið­ingar vegna upp­haf­lega áverkans.

                Stefndi taldi þriðj­ung afleiðing­anna tengjast upphaflegum áverka en tvo þriðju bæri að rekja til sjúkl­inga­trygg­ing­ar­atburð­arins. Varanlegur miski stefnanda var met­inn að álitum til 15 stiga þegar afleið­ingar upp­haf­legs áverka og sjúkl­inga­trygg­ingar­atburðar væru metnar saman. Varan­legur miski vegna sjúkl­inga­tryggingaratburðarins væri því hæfi­lega metinn 10 stig. Varan­leg örorka stefnanda var metin 30% í heildina en vegna sjúkl­inga­trygg­ing­ar­atburðar þótti hún hæfilega metin 20%.

                Þegar mat var lagt á varanlegar afleiðingar atviksins fyrir stefnanda var ljóst að bætur fyrir varanlegt tjón næðu því hámarki sem mælt er fyrir um í lögum nr. 111/2000 um sjúkl­inga­trygg­ingu en hámark vegna tjóns sem varð árið 2010 er 8.814.229 kr. Bætur vegna tíma­bund­inna þátta komu því ekki til skoðunar.

                Með uppgjöri bóta sem fylgdi ákvörðun stefnda voru stefnanda greiddar alls 9.547.496 kr.

Miskabætur

988.300 kr.

Bætur fyrir varanlega örorku

7.825.267 kr.

Vextir

733.267 kr.

Samtals

9.547.496 kr.

 

                Í ákvörðun stefnda kemur fram að skaðabætur stefnanda vegna varan­legrar örorku nemi 14.545.663 kr. en af þeim fáist einungis 7.825.929 kr. greiddar, vegna efnis 2. mgr. 5. greinar laga nr. 111/2000.

                Stefnandi óskaði 27. janúar 2014 sérfræðimats á afleiðingum sjúklinga­trygg­ing­ar­atburðarins 1. desember 2010. E lögfræðingur og F bækl­un­ar­læknir afhentu matsgerð sína 22. febrúar 2014. Það var nið­ur­staða þeirra að miski vegna sjúklinga­trygg­ing­ar­atburð­arins væri 10 stig, sá sami og stefndi mat. Varanlega örorku vegna sjúkl­inga­tryggingaratburðarins töldu mats­menn­irnir hins vegar 35%, sem er veruleg hækkun frá mati stefnda, úr 20% í 35%. Tíma­bundna örorku skv. 2. gr. skaðabótalaga mátu matsmennirnir frá slysdegi til 22. ágúst 2011, og þján­inga­bætur skv. 3. gr. lag­anna sömuleiðis í samræmi við ákvæði skaða­bóta­laga.

                Stefnandi höfðaði mál fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur í lok mars 2014 vegna sjúkl­inga­trygg­ingaratburðarins, aðallega á hendur Sjúkratryggingum Íslands en til vara á hendur íslenska ríkinu. Í því máli byggði stefnandi fjárkröfur sínar á ofan­greindu sér­fræði­mati. Með dómi Hæstaréttar 4. desember 2014 í máli nr. 762//2014 var máli stefn­anda vísað frá héraðsdómi.

                Stefnandi freistar þess nú, að ná rétti sínum með því að krefjast ógildingar á stjórn­valds­ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands, frá 14. maí 2013, að því leyti sem hún mælir fyrir um lægri bætur til stefnanda, samkvæmt 2. mgr. 5. gr. laga nr. 111/2000, en stefnandi telur sig eiga rétt á samkvæmt skaðabótalögum og megin­reglum skaða­bóta­réttar.

Málsástæður og lagarök stefnanda

Jafnræðisregla stjórnsýsluréttar og stjórnarskrárinnar

                Stefnandi byggir dómkröfu sína á því að ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands, frá 14. maí 2013, um ákvörðun bóta til stefnanda vegna sjúkl­inga­trygg­ing­ar­atburðar 1. desember 2010 standist hvorki jafnræðisreglu stjórnsýsluréttar, sbr. einnig 11. gr. laga nr. 37/1993 né þá jafnræðisreglu stjórnskipunarréttar sem fel­ist í 65. grein stjórn­ar­skrár­innar að því leyti að heimilt hafi verið að lækka skaða­bætur til stefnanda á grund­velli 2. mgr. 5. gr. laga nr. 111/2000. Ákvæði 2. mgr. 5. gr. víki það langt frá jafn­ræðis­reglu stjórn­sýslu­réttar að efni þess fái ekki staðist gagnvart jafn­ræðis­reglum stjórn­ar­skrár­innar.

                Sú leið sem sé farin með lögum nr. 111/2000, að setja þak á fjár­hæð við útgreiðslu bóta, þ.e. að koma í veg fyrir að þeir sem verði fyrir veru­legu fjártjóni vegna sjúklingatryggingaratburðar fái fullar bætur, sé hvorki rök­studd, útskýrð né rétt­lætt í umfjöllun með þessari lagagrein í frumvarpi til laganna né í lögunum í heild.

                Stefnandi byggir á því að heimild löggjafans til að takmarka eignarréttindi þegn­anna, sem þeir verði að þola bótalaust, hafi ákveðin takmörk. Bótalaus skerðing verði í fyrsta lagi að vera almenn. Í öðru lagi megi ekki felast í henni bein tilfærsla verð­mæta frá einum aðila til annars. Í þriðja lagi þurfi að færa gild rök fyrir nauðsyn skerð­ing­ar­innar og í fjórða lagi verði þeir hagsmunir sem vernda eigi með skerðing­unni að hafa meira vægi en þeir hagsmunir sem skerða á.

                Stefnandi byggir á því að í lögum um sjúklingatryggingu felist persónuleg rétt­indi þeirra sem hljóti líkamstjón af völdum læknisaðgerða. Þau réttindi séu eign­ar­rétt­indi í formi kröfu um bætur. Stefnandi byggir á því að óheimilt sé að mis­muna tjón­þolum í sömu stöðu með því að þeir sem skaðist minna fái tjón sitt að fullu bætt, en þeir sem verði fyrir verulegu tjóni að fái það sama skapi ekki bætt. Með þessu mis­muni lögin tjón­þolum á þann hátt að farið sé gegn 11. gr. stjórnsýslulaga, sbr. 65. gr. stjórn­ar­skrár­innar, sbr. 3. gr. laga nr. 97/1995 (sbr. greinargerð með þeirri laga­grein), sbr. og 14. gr. mann­rétt­inda­sátt­mála Evrópu og 18. gr. laga nr. 62/1994 um mann­rétt­inda­sátt­mála Evrópu. Auk þess sé með þessu brotið gegn meginreglu skaðabótalaga nr. 50/1993 sem og þeim til­gangi laga nr. 111/2000 sem lesa megi úr greinargerð með lög­unum.

                Stefnandi áréttar að í lögum nr. 111/2000, um sjúklingatryggingu, frumvarpi til lag­anna og lög­skýr­ingar­gögnum sé umrædd mismunun hvergi útskýrð eða réttlætt. Hann telur ómálefnaleg sjónarmið í skilningi réttmætisreglu stjórn­sýslu­réttar, sbr. meg­in­efni 12. gr. stjórnsýslulaga, sbr. og meðalhófsreglu stjórn­skip­unar­réttar, hafa ráðið þegar ákveðin var umrædd hámarks­fjár­hæð greiddra bóta.

                Hvergi séu tilgreind hlutlæg og málefnaleg sjón­ar­mið að baki þeirri ákvörðun að haga ákvæðinu í 2. mgr. 5. gr. laga nr. 111/2000 á þennan hátt. Þessi ómál­efna­legu sjón­ar­mið hafi áhrif á persónulega hagi stefn­anda og hafi áhrif á þann hátt að hann njóti lakari kjara en aðrir menn í sambærilegri stöðu, þ.e. menn sem hlotið hafi tjón vegna læknismeðferðar. Stefnandi telur að 7. gr. laga nr. 111/2000, þar sem fjallað sé um skaðabótarétt eftir almennum reglum fyrir því fjártjóni sem ekki fáist bætt úr sjúkl­inga­tryggingu, verndi ekki tjón­þola í sporum stefnanda og geri stöðu þeirra á ýmsan hátt verri en var fyrir setn­ingu laganna miðað við framkvæmd þeirra.

                Stefnandi telur 7. gr. laganna mismuna tjónþolum á þann hátt að fáist fullar bætur ekki greiddar á grundvelli laganna verði sjúklingur að sækja bætur í almennu skaða­bóta­máli eftir reglum skaðabótaréttarins. Þess þurfi þeir tjón­þolar ekki sem verði fyrir líkamstjóni í skilningi laga nr. 111/2000, sem ekki nái því hámarki sem 2. mgr. 5. greinar kveði á um, en þeir fái fullar bætur frá Sjúkra­trygg­ingum Íslands skv. lögum nr. 111/2000.

                Þetta fyrirkomulag geri sjúklingum/tjónþolum sem hljóti verulegt líkams­tjón óþarf­lega erfitt um vik að nálgast fullar bætur þar eð þeir þurfi að sanna sök þeirra sem veittu viðkomandi læknisþjónustu. Það þurfi ekki þeir tjónþolar að gera sem hljóti lík­ams­tjón sem nái ekki hámarki 2. mgr. 5. gr. laga nr. 111/2000. Sönnun í slíkum málum sé oft á tíðum erfið, enda hafi helstu rökin fyrir því að koma á sjúkl­inga­trygg­ingu hér á landi meðal annars verið sönnunarvandkvæði sem voru í þessum mála­flokki.

                Þótt almennt sé viðurkennt að heimilt sé, við ákveðnar kringum­stæður, að mis­muna mönnum ef málefnalegar aðstæður liggja því til grundvallar verði að vera hægt að rétt­læta slíka skerðingu og þá einnig mismununina. Í þessu tilviki sé hvorki miðað við tekjur tjón­þola eingöngu né aðra hlut­læga mælikvarða. Í skaða­bóta­lögum nr. 50/1993 séu ákvæði um hámark bóta­fjár­hæðar. Ákvæðið sé rökstutt á þann hátt að það þyki eðli­legt að menn með miklar tekjur getið auðveldlega keypt vátrygg­ingar sem tryggi þeim bætur fyrir tjón er þeir kunni að verða fyrir vegna þess­arar takmörkunar. Hámark bóta skv. lögum nr. 111/2000 sé ekki í neinu samræmi við bóta­hámark skaða­bóta­laga. Í skaðabótalögum sé í það minnsta reynt að færa fram mál­efna­legar ástæður fyrir þeirri skerðingu sem felist í hámarki greiddra bóta. Í lögum um sjúkl­inga­trygg­ingu sé svo veiga­mikil skerðing og mis­munun hins vegar hvergi rétt­lætt. Við núver­andi fyrir­komu­lag, sem stefn­andi telji að fari gegn stjórn­ar­skrár­vernd­uðum rétti hans, fái tjón­þolar sem verði fyrir veru­legu tjóni ekki greiddar fullar bætur. Slíkt stang­ist á við markmið og til­gang laga nr. 111/2000, sam­kvæmt grein­ar­gerðinni með lög­unum, og sé einnig and­stætt grund­vall­ar­mark­miðum skaða­bóta­laga nr. 50/1993 sem eru að þeir sem verði fyrir veru­legu tjóni fái fullar bætur.

                Stefnandi byggir á því að tjónþolar sem hljóti tjón af læknis­með­ferð/­sjúk­dóms­með­ferð eigi að vera í sambærilegri stöðu og eiga jafnan rétt til bóta. Báðir, sá tjón­þoli sem bíði tiltölulega lítið líkamstjón af læknisþjónustu og sá sem bíði veru­legt lík­ams­tjón af henni, eigi að fá fullar skaðabætur. Eins hafi engin rök verið færð fyrir því að sá sem bíður tjón af sjúklingatryggingaratburði eigi að fá lægri bætur en sá sem bíður líkams­tjón af hreinum og klárum læknamistökum þar sem skaða­bóta­skyldan sé ótví­ræð, enda þótt ætla megi að á sönnunarkröfum sé slakað vegna svo­kall­aðs sjúkl­inga­trygg­ing­ar­atburðar, sem sé þó ekki ljóst.

                Samkvæmt því sem rakið hefur verið byggir stefnandi á því að í 2. mgr. 5. gr. lag­anna felist klár mis­munun, hvernig sem litið er á málið, sem er andstæð 11. gr. stjórn­sýslu­laga og 1. mgr. 65. gr. stjórnarskrárinnar. Þá sé, eins og áður segir, óljóst að hvaða mark­miði þessi mismunun stefni en ljóst sé að áhrif hennar séu óeðlilega þung­bær fyrir stefn­anda. Ekki verði séð að málefnaleg rök búi að baki ákvæð­inu. Sam­kvæmt meg­in­inntaki jafnræðisreglunnar hvíli sú skylda á stefnda að sýna fram á skýr rök til grund­vallar slíkri mismunun, en stefnandi telur sig hafa sýnt fram á að umrætt laga­ákvæði feli í sér ólíka meðferð sambærilegra mála.

                Stefnandi leggur ríka áherslu á að engin gild rök hafi verið færð fyrir þeirri skerð­ingu sem felist í 2. mgr. 5. gr. laga nr. 111/2000 og sé vandséð að þeir hags­munir sem verndaðir séu með þessu skerðingarákvæði séu meiri en hags­munir stefn­anda af því að fá fullar bætur.

                Stefnandi bendir á að þegar frumvarp til laganna hafi verið samið hafi verið höfð hliðsjón af löggjöf hinna Norðurlandanna um sjúklingatryggingu og réttar­þróun sem orðið hafi á þessu sviði. Lög um sjúklingatryggingu á Norðurlöndunum kveði ekki á um hámarksbótafjárhæð, nema í Svíþjóð en upphæðin þar sé töluvert hærri eða um 950.000 evrur, en finna megi lágmarksfjárhæð í þeim öllum. Með laga­frum­varp­inu hafi verið stefnt að því að færa íslenskar reglur um sjúklingatryggingu nær öðrum nor­rænum reglum um sjúklingatryggingu og auka þannig bótarétt sjúklinga sem hljóti heilsu­tjón í tengslum við læknismeðferð o.fl. Í almennum athuga­semdum við frum­varp laganna segi að ákvæði almannatryggingalaga frá 1989 hafi að nokkru bætt rétt sjúkl­inga, en allmikið vanti á að sjúklingar eigi rétt til bóta sem nálg­ist að vera fullar fébætur fyrir raunverulegt tjón. Í 22. gr. laganna segi að þau skuli endur­skoða innan fjög­urra ára frá gildistöku þeirra. Það hafi þó ekki verið gert, þrátt fyrir brýna nauð­syn.

Eignarréttindi skv. 65. gr. stjórnarskrár, sbr. 72. gr. hennar

                Stefnandi byggir einnig á því að krafa hans teljist til eignarréttinda sem njóti verndar 72. gr. stjórnarskrárinnar nr. 33/1944, sbr. efni 10. gr. stjórnskipunarlaga nr. 97/1995, sbr. 1. gr. 1. við­auka mann­rétt­inda­sáttmála Evrópu. Hæstiréttur hafi í þremur dómum uppkveðnum árið 1998, bls. 1976, bls. 2002 og bls. 2233 viðurkennt að vinnu­geta manna séu eignar­rétt­indi sem séu varin af 72. grein stjórnarskrár. Stefnandi eigi því rétt til fullra skaða­bóta úr hendi stefnda fyrir missi starfsorku og njóti sá réttur verndar stjórn­ar­skrárinnar. Löggjafanum sé óheimilt að skerða þessi rétt­indi hans en með ákvæði 2. mgr. 5. gr. laga nr. 111/2000 séu þau í raun skert. Ekki sé sýnt fram á lög­mætt mark­mið að baki ákvæðinu. Þessi skerðing gangi mjög langt inn á svið frið­helgi eign­ar­rétt­ar­ins og tengist öðrum mikilvægum hags­munum, þ. á m. feli hún aug­ljós­lega í sér mis­munun, eins og rakið hafi verið. Ætti því að endur­meta lög­gjöf­ina með ítarlegri og strang­ari hætti, sbr. dóm Hæstaréttar frá 4. júní 1998, í máli nr. 317/1997 og lög nr. 37/1999.

                Markmið laga um sjúklingatryggingu sé meðal annars að sjúklingur eigi rétt til bóta sem nálgist að vera fullar fébætur fyrir raunverulegt tjón. Ljóst sé að þegar fjár­tjón sjúkl­ings nemi hærri fjárhæð en hámarksfjárhæð samkvæmt 2. mgr. 5. gr., sem ekki sé ólíklegt í ljósi þess hversu lág fjárhæðin er í lögunum, sé viðkomandi tjónþoli hins vegar veru­lega langt frá því að fá fullar fébætur. Samkvæmt ákvörðun Sjúkra­trygg­inga í þessu máli vanti til dæmis 6.628.834 kr. (14.454.663 kr. -7.825.929 kr.) upp á að stefn­andi fái fullar bætur fyrir var­an­lega örorku og séu honum ekki heldur metnar þján­inga­bætur eða bætur fyrir tíma­bundið tekjutap.

                Í þeim málum þar sem greiddar hafi verið bætur, samkvæmt sjúklinga­trygg­ingu hafi tjón farið yfir hámarksbætur laganna í um 15% tilvika, sé miðað við upp­lýs­ingar SÍ frá árinu 2013. Því sé ljóst að í 85% tilvika fái sjúkl­inga­trygg­ingar­atviks­þolar fullar bætur, sem staðfesti að í framkvæmd Sjúkratrygginga sé brotið gegn jafn­ræði hvað varðar þau 15% tilvikanna þar sem ekki eru greiddar fullar bætur.

                Niðurstaða rökstuðnings stefnanda sé því sú að þótt aflahæfi manna sé ekki með öllu óskerðanlegt verði aflahæfið aðeins skert á þann hátt að gætt verði ákvæða 72. gr. og 65. gr. stjórnarskrár. Horfa verði til þess að enda þótt upphæð skaða­bóta fyrir varanlega örorku sé að einhverju leyti háð pólitísku mati löggjafans sé ljóst, hvað snertir afnám bóta, að löggjafinn geti ekki farið út fyrir þau mörk sem honum séu sett í ofangreindum stjórnarskrárákvæðum, án þess að um eignarskerðingu verði að ræða.

                Stefnandi byggi á því að við setningu 2. mgr. 5. gr. laga nr. 111/2000 hafi lög­gjaf­inn gengið of langt, þar sem ekki hafi verið gætt andstæðra hagsmuna sem í húfi séu og ekki gengið almennan meðalveg. Stefnandi bendir á í því sambandi að 2. mgr. 5. gr. laganna hafi ekki breytt því að bætur fyrir varanlega örorku séu ígildi framtíð­ar­launa. Réttur til framtíðarlauna sé varinn af 72. gr. stjórnarskrár. Því brjóti afnám bóta fyrir varanlega örorku í bága við 72. gr. stjórnarskrárinnar, rétt eins og fram­tíð­ar­tekjur stefn­anda hafi hreinlega verið lækkaðar úr 14.454.663 kr. í 7.825.929 kr. eða um 6.628.704 kr., miðað við 20% varanlega örorku, af þeirri ástæðu að um sjúkl­inga­trygg­ing­ar­atburð hafi verið að ræða en ekki slys eða hrein og klár lækna­mis­tök. Því sé ljóst að vikið sé frá þeirri meginreglu skaða­bóta­réttar að tjón skuli bætt að fullu. Þá megi gera því skóna að í ákvæðinu felist bein eigna­til­færsla til þeirra sem fái fullar bætur, skv. lögum nr. 111/2000 fyrir lægra tjón, sem ekki nái hámarks­ákvæðum 2. mgr. 5. gr. laganna.

                Með þeirri stýfingu bóta sem felist í 2. mgr. 5. gr. laga nr. 111/2000 losni Sjúkra­trygg­ingar við umtalsverðar bótagreiðslur og þar með íslenska ríkið.

                Þá byggir stefnandi á því að það komi ekki í veg fyrir að brotið sé gegn jafn­ræðis­reglum þótt samkvæmt lögum nr. 111/2000 sé tjónþolum gert auðveldara fyrir að ná rétti sínum og ekki sé sanngjarnt að veita slíkum tjónþolum, sem fari yfir hámark 2. mgr. 5. gr., forgang fram yfir aðra tjónþola. Það komi ekki heldur í veg fyrir brot gegn jafn­ræðis­reglum þótt tjónþolar geti síðar farið í almennt skaða­bóta­mál, þegar og af þeirri ástæðu að aðrir tjónþolar, sem eigi undir lög nr. 111/2000 og verði fyrir tjóni upp að mörkum 2. mgr. 5. gr. laga nr. 111/2000, sem var árið 2010 8.814.229 kr., fái fullar bætur vegna eins tjónsatvika (sjúklinga­trygg­ingar­atburða) og hjá þeim sem fara yfir mörkin og þurfi ekki að fara aftur í kostnaðarsamt skaða­bóta­mál til að ná rétti sínum.

                Sá hópur tjónþola sem verði fyrir fjártjóni sem nemi hærri fjárhæð en hámarki 2. mgr. 5. gr. laga nr. 111/2000 sé almennt verr staddur vegna tak­mark­aðra bóta­úrræða en þeir sem verði fyrir fjártjóni sem ekki nái hámarki 2. mgr. 5. gr. vegna strang­ari sönn­un­ar­krafna í almennu skaðabótamáli, þar sem óvissa ríki um hvort þeir eigi rétt á frek­ari bótum, en slík mál séu þar að auki kostnaðarsöm og tímafrek.

                Því sé ljóst að stefnandi sé sviptur mikilsverðum réttindum með 2. mgr. 5. gr. laga nr. 111/2000. Ljóst sé að tjónþolum (sjúklingatryggingaratviksþolum) sé mis­munað eftir því hvort þeir nái hámarki 2. mgr. 5. gr. laga nr. 111/2000 eða ekki. Þá verði ekki séð, eins og áður segir, að nokkur gild rök hafi verið færð fyrir þess­ari mis­munun, þau komi alla vega ekki fram í lögum, en samkvæmt megininntaki jafn­ræð­is­regl­unnar og meðalhófsreglunnar hvíli sú skylda á Sjúkratryggingum Íslands að sýna fram á skýr rök til grundvallar slíkri mismunun. Það hafi ekki verið gert. Að þessu leyti sé jafnræðisreglan brotin.

                Stefnandi byggir á því að honum sé heimilt, skv. 60. gr. stjórnarskrárinnar að bera ákvörðun SÍ, frá 14. maí 2013, undir dóm, eins og hann geri í þessu máli, en hann telji stjórn­valdsákvörðunina efnislega ranga. Þá þurfi ekki að tæma hina stjórn­sýslu­legu kæru­leið svo leita megi dóms, eins og í sumum skattamálum þar sem bein­línis sé kveðið á um það. Í 16. gr. laga nr. 111/2000 sé hins vegar heimild­ar­ákvæði.

                Stefnanda sé heimilt að bera ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands undir dóm, hvað varðar þá skerðingu sem stofnunin beiti á grund­velli 2. mgr. 5. gr. laga nr. 111/2000, þar sem verulegur efnisannmarki sé á stjórn­valds­ákvörð­un­inni sem snerti jafn­ræðisreglu stjórnsýsluréttar, sbr. t.d. 11. gr. stjórn­sýslu­laga nr. 37/1993 sem og lög­mæt­is­regl­una, sbr. 12. gr. stjórnsýsluréttar. Stefn­andi byggir á því að með efnis­ann­marka stjórn­sýslu­ákvörð­unar sé átt við að brotið hafi verið gegn efnis­reglum stjórn­sýslu­rétt­ar­ins, svo sem jafnræðisreglu, meðalhófsreglu og lög­mætis­reglu. Það geri efn­is­ann­mark­ana enn veru­legri ef þeir varða við grund­vallar­reglur stjórn­ar­skrár, eins og stefn­andi byggi á.

Lögvarðir hagsmunir/beinir hagsmunir

                Stefnandi byggir á því að úrlausn þessa máls hafi raunhæft gildi fyrir hann í skiln­ingi 1. mgr. 24. gr. og 25. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Stefnandi hafi leitt nægar líkur að því að hann hafi ekki fengið líkamstjón sitt bætt að fullu  með ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands frá 14. maí 2013. Hann hafi gert grein fyrir tjóni sínu með sér­fræði­matsgerð og eigi rétt á því að fá úr því skorið hvort 2. mgr. 5. gr. laga nr. 111/2000 brjóti í bága við jafnræðis- og eign­ar­vernd­ar­ákvæði stjórnar­skrár­innar.

                Samkvæmt því sérfræðimati sem stefnandi hafi aflað sér reiknist kröfur hans þannig:

Bætur vegna miska

10.080.000 kr. x 10 stig

1.000.800 kr.

Bætur fyrir varanlega örorku:

8.986.500 kr. x 8.010 x 35%

25.193.652 kr.

Tímabundin örorka

8,7mán

4.547.300 kr.

Þjáningabætur

 

307.000 kr.

Samtals bætur

 

31.048.752 kr.

                Stefnandi byggir á því að mat Sjúkratrygginga á varanlegri örorku hans vegna sjúkl­inga­tryggingaratburðarins hafi einungs byggt á gögnum máls­ins án þess að stefn­andi væri kallaður á matsfund til að athuga áverka og kynna sér viðhorf hans til fram­tíðar varðandi vinnu. Mat SÍ á varanlegri örorku stefnanda eða skerðingu á vinnu­getu sé hæpið en í slíkum efnum beri til dæmis að horfa á það tekjufall sem tjónþoli hafi orðið fyrir, þ.e. tekjur tjónþola fyrir sjúklingatryggingaratburðinn og þær tekjur sem stefn­andi sé nú fær um að afla. Stefnandi sé ómenntaður en hafi, fyrir sjúklinga­trygg­ing­ar­atburð­inn, unnið sem sjó­maður á fiski­skipum og togurum og haft háar tekjur. Þá vinnu geti hann ekki stundað lengur. Honum bjóðist nú einungis störf sem gefi lágar tekjur. Auk þess sem ekki komi greinilega fram hvert sé árslaunaviðmið eða aldurs­stuð­ull. Þá sé mat sam­kvæmt 5. gr. skaðabótalaga, svokallað sanngirnismat, þar sem horfa verði á atvik eins og þau séu þegar metið er, en óheimilt sé að geta sér til um hvað verði í fram­tíð­inni, sbr. greinargerð með 5. gr. skaðabótalaga. Mat á var­an­legri örorku hjá Sjúkratryggingum sé auk þess lítið rökstutt og ekki í samræmi við þau mats­sjónar­mið sem hafa beri hlið­sjón af við slík möt, sbr. þá sérfræðimatsgerð sem stefn­andi hafi aflað hjá hlut­lausum mats­mönnum og þann rökstuðning sem hjá þeim kemur fram.

                Samkvæmt því mati sem felist í stjórnvaldsákvörðun Sjúkratrygginga frá 14. maí 2013 séu kröfur stefnanda þessar, varðandi miska og varanlega örorku:

Miskabætur skv. ákvörðun SÍ frá 14. maí 2013

988.300 kr.

Bætur fyrir varanlega örorku skv. sömu ákvörðun

14.545.633 kr.

Þessu kröfuliðum til viðbótar koma:

 

Bætur fyrir tímabundið tekjutap, skv. sérfræðimatinu

4.547.300 kr.

og þjáningabætur

307.000 kr.

Alls bætur skv. ákvörðun SÍ með tekjutapi og þjáningab.

20.388.233 kr.

                Sjúkratryggingar Íslands hafi greitt stefnanda vegna sjúklinga­trygg­ing­ar­atburð­arins 8.814.229 kr., auk vaxta að fjárhæð 733.267 kr. Einnig hafi stefnandi fengið greiðslur frá Tryggingastofnun árið 2011, 1.008.586 kr., og sjúkradagpeninga 600.030 kr. Þá hafi stefn­andi fengið greiðslur árið 2012 frá lífeyrissjóðum, sem hann hafi greitt iðgjald til af vinnu sinni, 5.594.075 kr. Í þessari fjárhæð hafi verið ein­greiðsla að fjár­hæð 2.102.953 kr. (ekki örorkulífeyrir) sem ekki sé frádráttarbær skv. 4. mgr. 5. gr. skaða­bóta­laga og árið 2013, 2.944.643 kr. Stefnandi hafi ein­ungis fengið greiðslur frá lífeyris­sjóðum samkvæmt samþykktum þeirra í þrjú ár frá slysi, eða til nóv­em­ber 2013, meðan hann hafi verið ófær til sjómannsstarfa (fyrri starfa) en stefn­andi hafi í síðasta mati sínu hjá lífeyrissjóðum verið metinn minna en 50% óvinnu­fær til almennra starfa og því ekki átt frekari rétt til greiðslna frá líf­eyris­sjóðum þeim sem hann átti aðild að.

                Þótt allar fjárhæðirnar séu teknar, þ.e. 8.814.299 kr., + 1.008.586 kr. + 600.030 kr. og + 40% af 5.594.075 kr. árið 2012 og 2.944.643 kr. árið 2013, eða 40% af 8.538.718 kr. sem gera 3.415.548 kr., nái þessar frádráttarfjárhæðir, skv. 4. mgr. 5. gr. skaða­bóta­laga alls 13.737.463 kr. ekki einu sinni þeim 14.454.663 kr. sem Sjúkra­trygg­ingar hafi þó metið tjón stefn­anda, vegna þess sem sjúkl­inga­trygg­ing­ar­áverk­arnir hafi skert vinnu­getu hans. Þá séu eftir bætur fyrir miska, 988.300 kr., sem og þján­inga­bætur og bætur fyrir tíma­bundið tekju­tap (alls krafa að fjárhæð 20.388.233 kr.). Stefn­andi eigi auk þess eftir að fá vexti á kröfur sínar, en til viðbótar sé þessi frá­dráttur varðandi greiðslur frá líf­eyris­sjóðum yfirleitt lækk­aður um 15% vegna ein­greiðslu­hagræðis og skatt­frelsis, miðað við batahvörf. Enginn vafi sé því á að stefn­andi hafi beina og lög­varða hags­muni af því að fá dóm­kröfu sína tekna til efnis­legrar úrlausnar þótt miðað sé við mat SÍ á miska og var­an­legri örorku og síðan við sér­fræði­matið vegna mats á þján­inga­bótum og bótum fyrir tíma­bundið tekjutap, en þeir bóta­þættir voru ekki metnir af SÍ.

                Stefnandi áréttar að bætur sem hann fékk úr frítímaslysatryggingu sinni drag­ist ekki frá bótum skv. 4. mgr. 5. gr. skaðabótalaga. Stefnandi byggir einnig á því að frá­drátt­ar­reglur 4. mgr. 5. gr. skaðabótalaga standist ekki skv. 49. gr. og 1. mgr. 122. gr. vátrygg­ingarsamningalaga sem tóku gildi 1. janúar 2006. Sams­ konar ákvæði hafi verið í þeim vátryggingarsamningalögum (25. gr.) sem giltu þegar skaða­bóta­lögin voru sett og löggjafinn hafi metið það þannig að það lagaákvæði yrði að fella úr gildi til að rýma fyrir frádráttarreglum 4. mgr. 5. greinar skaða­bóta­laga.

Nánar um kröfu stefnanda

                Stefnandi tekur fram að dómkröfur hans lúti ekki að því að ákvörðun Sjúkra­trygg­inga Íslands, þess efnis að um sjúkratryggingaatburð hafi verið að ræða, verði felld úr gildi, heldur einungis sá hluti hennar sem snúi að því að tak­marka bæt­urnar skv. 2. mgr. 5. gr. laga nr. 111/2000. Verði dómkröfur sóknar­aðila teknar til greina verði Sjúkratryggingar Íslands því einungis að taka nýja bóta­ákvörðun til upp­gjörs á bótum til stefnanda og meta þá einnig tímabundið tekjutap skv. 2. gr. skaða­bóta­laga og þjáningabætur skv. 3. gr. skaðabótalaga, en slíkt mat vegna sjúkl­inga­trygg­ing­ar­atburðarins liggi ekki fyrir. Þessa nýju ákvörðun gæti stefn­andi síðan borið undir dóm.

                Stefnandi skírskotar til þeirra lagareglna sem hann hefur þegar vísað til, svo sem ákvæða laga nr. 111/2000, sérstaklega til 5. og 7. gr. Hann vísar til laga um rétt­indi sjúkl­inga nr. 74/1997, laga um heilbrigðismál nr. 40/2007, og skaða­bóta­laga nr. 50/1993 með síðari breytingum. Þá vísar hann til reglu skaða­bóta­réttar um „fullar bætur“, til téðra efnis­ann­marka­reglna stjórnsýsluréttar, til ofan­greindra jafnræðis­reglna og til 72. gr. stjórn­ar­skrár og 65. gr., sbr. áorðnar breytingar.

                Stefnandi beinir kröfu sinni að sjúkratryggingarstofnun (Sjúkratryggingum Íslands) samkvæmt 13. gr. laga nr. 111/2000, sbr. og 7. gr. sömu laga, sbr. og III. bráða­birgða­kafla laga nr. 112/2008, sem starfi samkvæmt lögum nr. 112/2008 en sjúkra­trygg­ingar­stofnun hafi sérstaka stjórn, sem sé skipuð af velferðarráðherra, og ráð­herra­skip­aðan forstjóra til fimm ára í senn. Stofnunin sé skráð sem Sjúkra­trygg­ingar Íslands hjá ríkis­skattstjóra og þjóðskrá, með kennitöluna 480408-0550, að Rauð­ar­ár­stíg 10, Reykja­vík og hafi sjálfstæðan fjárhag og aðildarhæfi í þessu máli. Þá vísar stefn­andi einnig til 13. gr. og 14. gr. laga nr. 111/2000.

                Í réttargæsluaðild bendir stefnandi á að velferðarráðherra sé æðsta stjórnvald á heil­brigðissviði, sbr. lög nr. 40/2007 um heilbrigðismál, sbr. III. kafla laganna um stjórn heilbrigðisstofnana, sbr. Heilbrigðistofnun Suðurnesja, sbr. og 1. gr. laga nr. 115/2011 um Stjórnarráð Íslands og forsetaúrskurð nr. 71/2013, sbr. 4. lið 8. greinar, hvað varðar Heilbrigðisstofnun Suðurnesja. Varðandi fyrirsvar vísar hann til 5. mgr. 17. gr. laga um meðferð einkamála. Stefnandi bendir á að íslenska ríkinu sé málið skylt og að stefnandi kunni einnig að beina kröfum sínum að íslenska ríkinu, skv. 7. gr. laga nr. 111/2000 verði dómurinn ekki við dómkröfum hans.

Málsástæður og lagarök stefnda Sjúkratrygginga Íslands

                Stefndi mótmælir öllum málsástæðum stefnanda. Stefndi telur þá ákvörðun sína, sem krafist er að verði ógilt, rétta, bæði að efni og formi til. Þegar ákvörðunin var tekin hafi verið gætt laga um sjúklingatryggingu og auk þess fylgt öllum megin­reglum stjórn­sýsluréttar og stjórnskipunarréttar og hámarks­bætur úr sjúkl­inga­trygg­ingu hafi verið ákvarðaðar í samræmi við fyrir­liggj­andi gögn.

Aðalkrafa um sýknu

                Stefndi hafnar alfarið þeim málsástæðum stefnanda að ákvæði 2. mgr. 5. gr. laga nr. 111/2000 um sjúklingatryggingu sé andstætt 72. gr. eða 65. gr. stjórnar­skrár­innar, enda sé ákvæðið sett á stjórnskipulega réttan hátt, með jafnræði tjónþola í huga, og komi ekki í veg fyrir að sá fjárhagsskaði sem tjónþoli gæti átt rétt á sé að fullu bættur. Stefndi hafnar því að með ákvörðun hans séu bætur til stefnanda lækkaðar á grund­velli 2. mgr. 5. gr. laga nr. 111/2000.

                Í athugasemdum með því frumvarpi sem varð að lögum nr. 111/2000 komi fram að tilgangur laganna sé meðal annars sá að tryggja tjónþola víðtækari rétt til bóta en hann eigi samkvæmt almennum skaðabótareglum og jafnframt að gera honum auð­veld­ara að ná rétti sínum. Sjúklingum hafi þannig verið veittur víðtækari réttur til bóta en flestum öðrum tjónþolum og komi fram í athugasemdunum að veigamestu rökin gegn sjúklingatryggingu séu kostnaðurinn sem henni fylgi og að ekki væri sanngjarnt að veita þessum tjónþolum forgang umfram aðra tjónþola. Með lögum um sjúkl­inga­trygg­ingu sé sjúklingum því gert auðveldara um vik en öðrum tjónþolum að ná fram rétti sínum upp að ákveðnu hámarki, en þegar því sé náð séu sjúklingar, sem hafi orðið fyrir áföllum í tengslum við læknismeðferðir, jafnsettir öðrum tjónþolum og geti sótt bætur eftir almennum skaðabótareglum í þeim tilvikum sem það á við.

                Skýrt sé kveðið á um það í 2. mgr. 5. gr. laganna að hámark bóta samkvæmt lög­unum sé 5.000.000 kr. og sú fjárhæð sé verðbætt miðað við vísitölu neysluverðs á því ári sem sjúklingatryggingaratburður varð. Hámarksfjárhæðin nemi 8.814.229 kr. þegar hún hafi verið uppreiknuð, vegna tjónsatvika sem urðu á árinu 2010, og hafi stefndi greitt stefnanda bætur í samræmi við það, auk vaxta.

                Stefndi vekur athygli á því að misskilnings gæti hjá stefnanda en hann segi meðal annars að ákvörðun stefnda frá 14. maí 2013 standist ekki jafn­ræðis­reglur stjórn­sýsluréttar og stjórnskipunarréttar að því leyti að „heimilt hafi verið að lækka skaða­bætur til stefnanda á grundvelli 2. mgr. 5. gr. laga nr. 111/2000“. Hér telur stefndi stefn­anda rugla saman skaðabótum og bótum úr sjúkl­inga­trygg­ingu. Stefndi vísar til þess að stofnunin hafi ekki greitt stefnanda skaðabætur, enda geti Sjúkra­trygg­ingar Íslands ekki orðið skaðabótaskyldar vegna atvika sem ger­ist á Land­spít­ala – háskóla­sjúkra­húsi. Sambærilegur misskilningur sé víðar í mál­flutn­ingi stefn­anda. Mikil­vægt sé að hafa í huga að bætur um sjúkl­inga­trygg­ingu séu sérstakar bætur sem séu greiddar á grundvelli laga nr. 111/2000 og fari bóta­fjárhæðin eftir skaða­bóta­lögum en bóta­grund­völlur byggi þó ekki á þeim lögum. Á þessu þurfi að gera skýran grein­ar­mun þar sem stefndi hafi ekki tekið sér heimild til að „lækka skaða­bætur“ heldur hafi stofn­unin greitt hámark bóta úr sjúkl­inga­tryggingu sam­kvæmt 2. mgr. 5. gr. laga nr. 111/2000.

                Jafnframt virðist gæta misskilnings hjá stefnanda um markmið laga um sjúkl­inga­trygg­ingu. Stefndi mótmælir því að markmið þeirra laga hafi verið að sjúkl­ingar ættu rétt á bótum sem nálguðust það að vera fullar fébætur fyrir raun­veru­legt tjón enda standi það ekki í athuga­semdum við frum­varp til laga um sjúkl­inga­trygg­ingu.

                Stefnandi haldi því fram að með „stýfingu bóta sem felist í 2. mgr. 5. gr. laga nr. 111/2000 losni Sjúkratryggingar Íslands við umtalsverðar bóta­greiðslur og þar með ísl. ríkið“. Stefndi tekur fram að með setningu laga nr. 111/2000 hafi sjúkl­ingar fengið umtals­vert aukin réttindi til bóta vegna áfalla í tengslum við lækn­is­með­ferðir og því sé fjarri lagi að tala um að einstök ákvæði laganna séu til þess fallin að losa stefnda eða íslenska ríkið undan bótagreiðslum, enda hafi lögin í heild gert hag sjúklinga sem lendi í atvikum sem falla undir gildissvið lag­anna, en væru ekki bóta­skyld á grund­velli skaða­bótalaga, töluvert betri en var fyrir tíð lag­anna og þar með fyrir tíð 2. mgr. 5. gr. lag­anna.

Ákvæði laga nr. 111/2000 brjóta hvorki gegn 11. gr. laga nr. 37/1993 né 65. gr. stjórn­ar­skrár­innar

                Stefndi hafnar því að 2. mgr. 5. gr. laga nr. 111/2000 sé andstæð 11. gr. stjórn­sýslu­laga nr. 37/1993 og 65. gr. stjórnarskrárinnar. Í jafnræðisreglu 11. gr. stjórn­sýslu­laga felist að við úrlausn máls skuli stjórnvöld gæta samræmis og jafnræðis í lagalegu til­liti. Þannig skuli mál sem séu sambærileg í lagalegu tilliti hljóta sams konar úrlausn. Sér­staklega sé tekið fram að óheimilt sé að mismuna aðilum við úrlausn mála á grund­velli sjónarmiða sem byggist á kynferði þeirra, kynþætti, litarhætti, þjóðerni, trúar­skoð­unum, stjórnmálaskoðunum, þjóðfélagsstöðu, ætterni eða öðrum sambærilegum ástæðum. Stefndi hafnar því að gegn þessari reglu hafi verið brotið við ákvörðun í máli stefn­anda, enda sé skýrt kveðið á um hámark bótafjárhæðar í 5. mgr. 2. gr. laga nr. 111/2000 og það hámark gildi fyrir alla umsækjendur. Vegna frekari rökstuðnings er vísað í umfjöllun um 1. mgr. 65. gr. stjórnarskrárinnar sem fer hér á eftir.

                Af ákvæðum 1. mgr. 65. gr. stjórnarskrárinnar verði dregin sú ályktun að ekki megi veita tilteknum hópum sérstök réttindi. Að sama skapi sé brotið gegn reglunni sé öllum mönnum, nema afmörkuðum hópi, veitt sérstök réttindi eða vernd. Það sé ólög­mæt mismunun ef ómálefnaleg sjónarmið sem varði persónulega hagi manns eru látin hafa þau áhrif að hann nyti lakari réttar en aðrir menn í sambærilegri stöðu. Af þessu leiði að ekki sé öll mismunun ólögmæt, en hún þurfi að byggjast á lögmætum og mál­efna­legum sjónarmiðum.

                Í því sambandi verði að ætla löggjafanum svigrúm til að takmarka þessi rétt­indi án þess að farið sé gegn stjórnarskrárvörðum rétti einstaklinga. Hér beri að merkja að ákvæði laga nr. 111/2000 séu afdráttarlaus þess efnis að hámarksfjárhæð bóta nemi 5.000.000 kr. auk verðbóta. Þetta girði þó ekki fyrir að sjúklingur geti fengið fullar fébætur fyrir meint tjón sitt á grundvelli reglna skaðabótaréttar. Í athugasemdum við 7. gr. frumvarps er varð að lögum nr. 111/2000 segi: „Sjúklingur eða aðstand­endur hans geta að sjálfsögðu krafist bóta samkvæmt skaðabótareglum fyrir tjón sem er utan gildis­sviðs sjúklingatryggingar.“

                Með ákvæðinu séu að sönnu settar skorður við því að sjúklingar geti fengið fullar fébætur úr hendi stefnda ef raunverulegt fjártjón nemur hærri fjárhæð en 5.000.000 kr. auk verð­bóta. Til grundvallar ákvæðinu liggi hins vegar almenn, hlutlæg og mál­efna­leg rök. Viðmiðið sé almennt og gildi óháð aldri sjúklings, kynferði hans, rík­is­borg­ara­rétti og þjóðernisuppruna og stöðu að öðru leyti. Stefndi hafnar því að í þess­ari við­mið­un­ar­reglu felist ólögmæt mismunun gagnvart stefnanda og að hún sé í and­stöðu við ákvæði 11. gr. stjórnsýslulaga og 1. mgr. 65. gr. stjórnarskrárinnar um jafn­ræði.

                Svo sem fram komi í athugasemd við 2. mgr. 5. gr. frumvarpsins er varð að lögum nr. 111/2000 sé meginmarkmið frumvarpsins að „tryggja sjúklingum allt að 5 millj. kr. í bætur og eftir atvikum aðstandendum þeirra sem misst hafa framfæranda“. Eins og áður segi séu sjúklingar sem hafi orðið fyrir áföllum í tengslum við læknis­með­ferðir jafnsettir öðrum tjónþolum þegar hámarkinu sleppir og geti sótt bætur eftir almennum skaðabótareglum í þeim tilvikum sem slíkt eigi við. Taka verði tillit til þess að skilyrði til greiðslu bóta á grundvelli laga nr. 111/2000 séu víðtækari en gangi og gerist í almennum skaðabótamálum og standi almannahagsmunir til þess að bæturnar séu á einhvern hátt takmarkaðar. Ákvæðið brjóti því ekki í bága við jafn­ræðis­reglur stjórn­sýslu­laga og stjórnarskrárinnar að mati stefnda.

Ákvæði laga nr. 111/2000 brjóta ekki gegn 72. gr. stjórnarskrárinnar

                Stefndi hafnar því að ákvæði 2. mgr. 5. gr. laga nr. 111/2000 feli í sér brot gegn 72. gr. stjórnarskrárinnar.

                Eins og að framan sé rakið girði hvorki 2. mgr. 5. gr. né 7. gr. laga nr. 111/2000 fyrir að stefnandi fái meint fjártjón sitt að fullu bætt. Honum sé frjálst að höfða mál á grundvelli almennra skaðabótareglna á hendur meintum tjónvaldi til heimtu greiðslu á fjárbótum vegna tjóns umfram 5.000.000 kr. að viðbættum verð­bótum.

                Þá sé rétt að benda á að þrátt fyrir ákvæði 72. gr. stjórnarskrárinnar geti lög­gjaf­inn mælt fyrir um ýmiss konar takmarkanir á eignarrétti og eignaskerðingar án þess að til bóta komi, enda byggist þær á almennum efnislegum ástæðum og jafnræðis sé gætt. Ákvæði um hámarksbætur skv. 2. mgr. 5. gr. laga nr. 111/2000 sé miðað við almenna mælikvarða. Þrátt fyrir að með lögunum sé tjónþolum gert auð­veld­ara um vik að sækja bætur upp að ákveðnu marki vegna áfalla í tengslum við lækn­is­með­ferðir, geri það þeim ekki erfiðara um vik að sækja fullu bætur vegna þeirrar fjárhæðar sem eftir standi á grundvelli almennra skaðabótareglna heldur en var fyrir tíð laga nr. 111/2000.

                Að lokum bendir stefndi á að bætur úr sjúklingatryggingu séu í mörgum til­fellum greiddar þegar tjónþoli verði fyrir tjóni vegna atviks sem hvorki heil­brigðis­starfs­menn né heilbrigðisstofnun beri ábyrgð á samkvæmt almennum skaða­bóta­reglum. Í því sambandi megi nefna atvik þar sem sjúklingur fái fylgikvilla aðgerðar, t.d. sýkingu. Bótagrundvöllur laga um sjúklingatryggingu sé gjörólíkur skil­yrðum almennra skaðabótareglna fyrir bótaskyldu. Nærtækast sé að nefna að í mörgum til­vikum sé enginn tjónvaldur sem beri ábyrgð á því tjóni sem af meðferð hlýst, heldur geti verið um fylgikvilla að ræða sem enginn fái ráðið við. Því er að mati stefnda hæpið að halda því fram að bætur skuli greiða umfram hámark bóta sam­kvæmt 2. mgr. 5. gr. laga nr. 111/2000 á grundvelli sjónarmiða sem búa að baki almennum skaða­bóta­reglum.

                Stefndi vísar til laga nr. 111/2000 um sjúklingatryggingu, 1. mgr. 65. gr. og 72. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944, skaðabótalaga nr. 50/1993 og almennra reglna skaðabótaréttar. Krafan um málskostnað styðst við 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991.

Málsástæður og lagarök réttargæslustefnda, íslenska ríkisins

                Réttargæslustefndi tekur undir sjónarmið stefnda, Sjúkra­trygginga Íslands, um stjórn­skipu­legt gildi laga nr. 111/2000 og tekur þar með ekki undir málsástæður stefn­anda. Hins vegar telur réttargæslustefndi nauðsynlegt að halda því til haga að hann telur bóta­skyldu ekki hafa stofnast á grundvelli almennra reglna í tilviki stefnanda. Rétt­ar­gæslu­stefndi sé því ekki bundinn af ákvörðun stefnda um grundvöll bóta. Ákvörðun stefnda hafi verið tekin á forsendum stofnunarinnar.

                Réttargæslustefndi telur það ákvæði laga nr. 111/2000 sem á reynir í fullu sam­ræmi við ákvæði stjórnarskrár, en með þeim hafi löggjafinn skilgreint sérstakan bóta­rétt við tilteknar aðstæður þannig að greiða megi sem sjúklingatryggingu, en upp að lögákveðnu hámarki. Þessi réttur sé í mörgum tilvikum víðtækari en leiðir af almennum reglum. Hvergi verði séð að sú tilhögun laga stangist á við þau ákvæði stjórn­ar­skrár sem stefnandi byggi á.

                Ef skilja má kröfur stefn­anda þannig að hann telji réttargæslustefnda eiga að greiða sér málskostnað krefst réttargæslustefndi þess að málskostnaður falli niður og vísar því til stuðn­ings til XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

Niðurstaða

                Stefnandi höfðar þetta mál til þess að fá viðurkennt að ákvæði 2. mgr. 5. gr. laga nr. 111/2000 um sjúklingatryggingu standist ekki stjórnarskrá. Þar eð þak sé á þeirri bótafjárhæð sem greiða megi samkvæmt lögunum njóti tjónþolar, sem hljóti meiri skaða en svo að fjár­hæðin bæti hann, ekki jafnræðis í samanburði við tjónþola, sem skaðist svo lítið að þeir fái allt sitt tjón bætt.

                Atvik eru óumdeild. Stefnandi slasaðist á heimili sínu 11. nóvember 2010 þegar hann féll úr stiga. Hann leitaði til læknis á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja næsta dag og einnig 1. og 17. des­em­ber svo og 5. janúar 2011. Hann fór í segulómskoðun 12. janúar og liðspeglun 22. febrúar. Í þeirri aðgerð kom í ljós að ekki var hægt að tengja sinar sem höfðu að öllum líkindum rifnað þegar hann féll niður úr stiganum og að sá skaði væri að öllum lík­indum viðvarandi. Læknirinn sem gerði aðgerðina taldi þetta viðvarandi tjón stafa af því að dregist hefði að greina þann áverka sem stefnandi hefði hlotið á öxlinni við fallið.

                Með ákvörðun 14. maí 2013 féllst stefndi, Sjúkratryggingar Íslands, á að stefn­andi hefði ekki hlotið bestu hugsanlegu meðferð á Heil­brigðis­stofnun Suðurnesja 1. des­em­ber 2010 þegar hann leitaði þangað vegna áverka á hægri öxl. Af þeim sökum hefði stefn­andi hlotið varanlegt tjón sem stefnda bæri að bæta honum á grundvelli laga nr. 111/2000 um sjúklingatryggingar. Stefndi bætti stefnanda ekki allt metið tjón hans vegna þeirra takmarkana á bótafjárhæð sem tilgreindar eru í 2. mgr. 5. gr. laganna.

                Stefnandi höfðar þetta mál til þess að fá ógiltan þann hluta ákvörðunar stefnda sem byggir á 2. mgr. 5. gr. Stefnandi telur það brjóta gegn jafnræðisreglu stjórnar­skrár­innar að lögbinda hámarksfjárhæð bóta samkvæmt lögunum. Af þeim sökum sé sá hluti ákvörð­unar stefnda sem varði fjárhæð bótanna efnislega rangur og því verði að ógilda hann.

                Það byggir hann á því að hann hafi vegna þess hluta slyssins sem verði rakið til gáleysis starfsmanna Heilsu­gæslu Suðurnesja hlotið fjártjón sem nemi hærri fjár­hæð en hámarksfjárhæð, samkvæmt 2. mgr. 5. gr., uppreiknaðri miðað við tjónsdag.

                Stefnandi vísar til þess að sumir sem eigi rétt til bóta á grundvelli laganna annaðhvort slasist svo lítið að vinnugeta þeirra skerðist lítið og örorkan sé því lág eða örorkan sé hærri en starfið sem þeir sinntu sé svo lágt launað að þeir verði fyrir svo smá­vægi­legu fjártjóni að nemi lægri eða sömu fjár­hæð og hámarksbótum samkvæmt 2. mgr. 5. gr.

                Ójafnræðið felist í því að þeir sem hljóti ekki meira fjártjón en þetta fái það bætt að fullu en fólk sem slasist meira eða hafi sinnt betur launuðu starfi og hljóti fjár­tjón sem nemi hærri fjárhæð en hámarksbótum þurfi að sækja afgang fjártjóns síns annað.

                Upphaf röksemdafærslu stefnanda verður ekki skilið á annan hátt en þann að stefn­andi byggi á því að ríkisvaldið hafi, með setn­ingu laga nr. 111/2000, haft af honum fjármuni. Þar eð hann fái ekki bætt allt raun­veru­legt tjón sitt vegna sjúkl­inga­trygg­ingaratburðarins á grundvelli laganna hafi ríkisvaldið hreint og beint haft af honum eignar­rétt­indi hans.

                Með þessari nálgun sinni á viðfangsefnið hefur stefnandi alger endaskipti á hlut­unum. Því verður ekki hjá því komist að árétta að meginreglan er sú að þeir sem hljóta tjón verða að bera tjón sitt sjálfir. Undan því geta menn einungis komist að þeir geti fundið ein­hvern sem fella má á fjárhagslega ábyrgð á tjóninu, til dæmis vegna þess að hann hafi valdið því af ásetn­ingi eða gáleysi eða reglur um hlutlæga ábyrgð eigi við.

                Viðurkennt hefur verið að reglur um hlutlæga ábyrgð ríkisins, lög um sjúkl­inga­trygg­ingu, taki til tjóns stefnanda. Á þeim eru þó þau takmörk sem eru stefnanda til­efni þessa máls, þ.e. ríkissjóður taki ekki að sér að bæta honum allt tjónið.

                Í 1. mgr. 76. gr. stjórnarskrárinnar segir að öllum, sem þess þurfa, skuli í lögum tryggður réttur til aðstoðar vegna sjúkleika, örorku, elli, atvinnuleysis, örbirgðar og sambærilegra atvika. Þessa stjórnarskrárbundnu skyldu hefur löggjafinn meðal annars uppfyllt með því að setja lög nr. 99/2007 um félagslega aðstoð og nr. 100/2007 um almanna­trygg­ingar.

                Hins vegar verður ekki séð að þetta stjórnarskrárákvæði felli þá skyldu á lög­gjaf­ann að setja lög um bótarétt þeirra sem hljóta tjón við þær aðstæður sem til­greindar eru í lögum nr. 111/2000 um sjúklingatryggingu. Í greinargerð með frum­varpi til þeirra laga kemur fram að löggjafinn vilji fylgja þeirri þróun sem orðið hafi á hinum Norð­ur­löndunum en hliðstæð bótaúrræði séu ekki til utan Norðurlandanna. Í grein­ar­gerð­inni kemur einnig fram að margvísleg sjónarmið mæli gegn því að lög sem þessi séu yfir­höfuð sett en með þeim sé fólki sem hljóti tjón vegna læknismeðferðar veittur meiri réttur til fjár úr ríkis­sjóði en þeim sem hljóta tjón vegna slyss eða sjúk­dóms.

                Stefnandi byggir á því að ríkisvaldið hafi með hámarksfjárhæð bóta samkvæmt lögunum haft af honum þann eignarrétt sem felist í aflahæfi hans og þannig brotið gegn eignarréttarákvæði 72. gr. stjórnarskrárinnar.

                Dómurinn getur ekki fallist á að eignarréttur stefnanda sé skertur við það að ákveðin hámarksfjárhæð sé sett í lögunum.

                Fyrir setningu laga nr. 111/2000 hafði fólk í sömu stöðu og stefnandi það eitt úrræði, til þess að þurfa ekki að bera tjón sitt sjálft, að höfða mál gegn sjúkrastofnun eða starfsmanni hennar og reyna að sanna sak­næm vinnubrögð þeirra. Tækist það gat við­komandi fengið allt tjón sitt bætt. Tæk­ist það ekki fékk viðkomandi ekkert bætt. Með fyrra fyrirkomulagi voru bætur fyrir skerðingu aflahæfis viðkomandi því alls ekki tryggðar eins og stefnandi virð­ist ganga út frá. Lögin veittu tjónþola í þessari stöðu því rétt sem óvíst var hvort hann ætti ella en sviptu hann ekki rétti sem hann hefði átt án þeirra. Jafn­framt koma lögin ekki í veg fyrir að hann fái afla­hæfi sitt að fullu bætt með því að nýta sér þann rétt sem hann á óháð lögunum og höfða mál á hendur sjúkra­stofn­un­inni. Af stefnanda er því ekki tekinn neinn réttur með lögunum.

                Þá þarf að taka afstöðu til þess hvort löggjafinn hafi, þegar hann setti lög nr. 111/2000, brotið gegn jafnræðisreglu 65. gr. stjórnarskrárinnar.

                Í greinargerð með frumvarpi til laganna er tekið fram að allmikið vanti á að sjúkl­ingar eigi rétt til bóta sem nálgist fullar fébætur fyrir raunverulegt tjón. Engu að síður er það ekki, eins og stefnandi byggir á, markmið laganna að greiða tjónþolum sem eiga rétt til bóta á grundvelli laganna bætur sem nálgist að vera fullar fébætur fyrir raun­veru­legt tjón. Hefði svo verið hefði 2. mgr. 5. gr. ekki verið sett í lögin. Þvert á móti er með henni ljóst að fullar fébætur fyrir raunverulegt tjón er ekki markmið lag­anna.

                Löggjafinn tekur fram í greinargerð með frumvarpi til laga nr. 111/2000 að meðal veigamestu rakanna gegn því að setja lög sem þessi sé sá kostnaður sem þeim fylgi en jafnframt það að með lögunum sé þeim sem geta leitt líkur að því að tjón þeirra verði rakið til læknismeðferðar án þess að sök komi þar við sögu veittur meiri réttur en þeim sem búi við tjón af völdum sjúkdóma eða slysa sem enginn beri ábyrgð á.

                Þrátt fyrir þessi rök gegn lögunum vildi löggjafinn létta undir með þeim sem hljóta tjón vegna læknismeðferðar og veita þeim hlut­lægan bóta­rétt með lögum. Hann sá þó fram á að vegna takmarkaðra fjármuna ríkissjóðs yrði ekki fært að bæta þeim öllum allt tjón þeirra. Þegar svona stendur á telur dómurinn að það sé fylli­lega mál­efna­legt sjón­ar­mið til þess að tryggja að lög sem þessi verði yfirhöfuð sett og allir þeir sem hljóta tjón sem fellur undir lögin fái einhverjar bætur, að fjárhæðir sem greiða má á grund­velli laganna séu tak­mark­aðar.

                Eins og áður segir hagga lögin ekki þeim rétti sem tjónþolar áttu fyrir setningu þeirra til að höfða mál, freista þess að sanna sök heilbrigðisstarfsmanna og fá fjártjón sitt þannig að fullu bætt.

                Það er því mat dómsins að löggjafinn hafi stuðst við málefnalegt sjónarmið sem hafi verið fyllilega í samræmi við markmið laganna þegar hann ákvað að þeim sem taldir eru eiga rétt til bóta á grundvelli laganna mætti ein­ungis greiða bætur upp að tiltekinni hámarksfjárhæð burt séð frá heildarfjártjóni þeirra.

                Því verður ekki séð að efnislegt inntak 2. mgr. 5. gr. laga nr. 111/2000 brjóti gegn jafnræðisreglu 65. gr. stjórnarskrárinnar.

                Þegar stefndi komst að þeirri niðurstöðu að ekki væri hægt að greiða stefnanda hærri bætur en hámarksfjárhæðina samkvæmt 2. mgr. 5. gr., að teknu tilliti til hækk­unar vegna verðlagsbreytinga, fór hann eftir hinni lögmæltu takmörkun. Með því braut hann ekki gegn jafn­ræðis­reglu 11. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, enda hefur stefn­andi ekki haldið því fram að stjórnvaldið hafi greitt nokkrum tjónþola bætur umfram hina lög­boðnu hámarksfjárhæð.

                Af þessum sökum er hafnað þeirri kröfu stefnanda að ákvörðun stefnda, Sjúkra­trygginga Íslands, frá 14. maí 2013 í máli nr. 866, verði felld úr gildi með dómi, að því leyti, sem efni ákvörðunarinnar er, að bætur stefnanda skerðist, sam­kvæmt því hámarki bótafjárhæðar, sem tilgreint er í 2. mgr. 5. gr. laga nr. 111/2000.

                Vegna eðlis þessa máls þykir rétt að hver málsaðila um sig beri sinn kostnað af málinu.

                Stefnanda var með bréfi innanríkisráðuneytisins, 26. júní 2014, veitt gjafsókn „til að höfða mál gegn Sjúkratryggingum Íslands og til vara íslenska ríkinu vegna vel­ferð­ar­ráðuneytisins, til heimtu skaðabóta vegna sjúklingatryggingaratburðar sem átti sér stað á HSS, 1. desember 2010, í kjölfar slyss sem umsækjandi varð fyrir 11. nóv­em­ber 2010“.

                Það mál sem vísað er til í bréfi ráðuneytisins hafði stefnandi höfðað með stefnu þingfestri 27. mars 2014. Með dómi Hæstaréttar 4. desember 2014 í máli nr. 762/2014 var mál­inu vísað frá héraðsdómi.

                Það mál sem nú er til úrlausnar höfðaði stefn­andi með stefnu birtri í byrjun febrúar 2015 og byggir kröfu sína um máls­kostnað á sama gjafsóknarleyfi og í fyrra máli. Þrátt fyrir það þykir, til þess að tryggja skaðleysi stefnanda af málshöfðuninni, rétt að málflutnings­þóknun lögmanns hans, Þormóðs Skorra Steingrímssonar, greiðist úr ríkis­sjóði. Þegar litið er til eðlis og umfangs máls­ins, þykir málflutningsþóknun hæfi­lega ákveðin 900.000 kr. og hefur við ákvörðun hennar verið tekið tillit til skyldu stefn­anda til þess að greiða virðisaukaskatt af mál­flutn­ingsþóknun.

                Ingiríður Lúðvíksdóttir, settur héraðsdómari, kveður upp þennan dóm.

D Ó M s o r ð

                Hafnað er þeirri kröfu stefnanda, A, að ákvörðun Sjúkra­trygg­inga Íslands frá 14. maí 2013 í máli nr. 866, verði felld úr gildi með dómi, að því leyti, sem efni ákvörðunarinnar er, að bætur stefnanda skerðist samkvæmt því hámarki bóta­fjár­hæðar sem tilgreint er í 2. mgr. 5. gr. laga nr. 111/2000.

                Málskostnaður milli aðila fellur niður.

                Gjafsóknarkostnaður stefnanda, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hans, Þormóðs Skorra Steingrímssonar, 900.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði.