Print

Mál nr. 227/2008

Lykilorð
  • Kynferðisbrot
  • Áfengislagabrot
  • Akstur án ökuréttar
  • Hegningarauki

Fimmtudaginn 30

 

Fimmtudaginn 30. október 2008.

Nr. 227/2008.

Ákæruvaldið

(Daði Kristjánsson, settur saksóknari)

gegn

Guðna Þorbergi Theodórssyni

(Sveinn Andri Sveinsson hrl.

 Eiríkur Elís Þorláksson hdl.)

 

Kynferðisbrot. Áfengislagabrot. Akstur án ökuréttar. Hegningarauki.

G var sakfelldur fyrir kynferðisbrot og áfengislagabrot, með því að hafa lagst við hlið stúlkunnar B og káfað á brjóstum hennar innan klæða og niður eftir læri, auk þess að hafa veitt A og B áfengi meðan þær dvöldu á þáverandi dvalarstað G. Þá var G jafnframt sakfelldur fyrir umferðarlagabrot. G hafði hlotið samtals fjögurra mánaða fangelsisrefsingu samkvæmt tveimur dómum frá 3. nóvember 2005 og 1. febrúar 2006. Í samræmi við 60. gr. almennra hegningarlaga voru þessir dómar teknir upp og málin dæmd í einu lagi. Var niðurstaða héraðsdóms um að G skyldi sæta sex mánaða fangelsi staðfest. Þá var G jafnframt dæmdur til að greiða B miskabætur að fjárhæð 150.000 krónur. 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Garðar Gíslason, Gunnlaugur Claessen, Ingibjörg Benediktsdóttir og Markús Sigurbjörnsson.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 16. apríl 2008 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun, en jafnframt af hálfu ákæruvalds, sem krefst staðfestingar á niðurstöðu héraðsdóms um sakfellingu ákærða en þyngingar á refsingu. Þá er þess krafist að ákærða verði gert að greiða B 350.000 krónur með vöxtum eins og dæmdir voru í héraði.

Ákærði krefst sýknu af sakargiftum samkvæmt 2. og 3. lið ákæru 16. júlí 2007, svo og að refsing verði milduð. Hann krefst þess einnig að fyrrgreindri kröfu B verði aðallega vísað frá héraðsdómi, en til vara verði krafan lækkuð.

Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður staðfest niðurstaða hans um sakfellingu ákærða samkvæmt ákæru 16. júlí 2007.

Eins og fram kemur í héraðsdómi játaði ákærði að hafa 4. desember 2006 ekið bifreiðinni PZ-820 sviptur ökurétti vestur Skipagötu og norður Pollgötu á Ísafirði uns lögregla stöðvaði akstur hans. Varðar það brot hans við 1. mgr. 48. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 með áorðnum breytingum, en ekki jafnframt við 5. gr. þeirra laga, eins og talið var í héraðsdómi. Að þessu gættu og að öðru leyti með vísan til forsendna héraðsdóms verður staðfest niðurstaða hans um sakfellingu ákærða samkvæmt ákæru 10. september 2007.

Sakaferill ákærða er réttilega rakinn í hinum áfrýjaða dómi, þar á meðal að honum hafi 3. nóvember 2005 verið dæmd 30 daga fangelsisrefsing, skilorðsbundin í fjögur ár, og 1. febrúar 2006 í 90 daga fangelsi, jafnframt skilorðsbundið í fjögur ár. Samkvæmt 60. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 ber að taka upp refsingu samkvæmt þessum dómum og gera ákærða nú refsingu í einu lagi. Með hliðsjón af 77. gr. og 78. gr. sömu laga er refsing hans hæfilega ákveðin í héraðsdómi.

Ákvæði héraðsdóms um miskabætur og sakarkostnað skulu vera óröskuð.

Ákærði verður dæmdur til að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, sem ákveðin eru að meðtöldum virðisaukaskatti, allt eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Ákærði, Guðni Þorbergur Theodórsson, greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, 353.279 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Sveins Andra Sveinssonar hæstaréttarlögmanns, 311.250 krónur.

 

 

Dómur Héraðsdóms Vestfjarða 12. febrúar 2008.

Mál þetta, sem dómtekið var 14. janúar sl., höfðaði ríkissaksóknari með ákæru 16. júlí 2007 á hendur ákærða, Guðna Þorberg Theodórssyni, kt. 021071-3319, nú til heimilis að Sólvallagötu 38b í Keflavík, Reykjanesbæ;

fyrir eftirfarandi brot framin að næturlagi í janúar 2005 á þáverandi dvalarstað ákærða að Þjóðólfsvegi 16 í Y:

1.  Kynferðisbrot, með því að hafa afklætt stúlkuna A, kennitala [...], svo hún var í nærbuxum einum fata, lagst ofan á hana og káfað á brjóstum hennar og reynt að kyssa hana.

Telst þetta varða við 2. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 11. gr. laga nr. 61/2007, sbr. áður 2. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga, sbr. 10. gr. laga nr. 40/1992 og 4. gr. laga nr. 40/2003.

2.  Kynferðisbrot, með því að hafa síðar um nóttina lagst við hlið stúlkunnar B, kennitala [...], sem var í nærfötum einum fata og káfað á brjóstum hennar innan klæða og niður eftir læri.

Telst þetta varða við sömu ákvæði og greinir í 1. tölulið, sbr. áður til vara 209. gr. almennra hegningarlaga, sbr. 15. gr. laga nr. 40/1992.

3.  Áfengislagabrot, með því að hafa fyrr um nóttina veitt framangreindum stúlkum áfengi á meðan þær dvöldu í húsnæðinu.

Telst þetta verða við 18. gr., sbr. 1. mgr. 27. gr., áfengislaga nr. 75/1998.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar.

Bótakröfur:

Af hálfu A er krafist miskabóta samkvæmt 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 úr hendi ákærða að fjárhæð kr. 500.000, auk vaxta samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 1. febrúar 2005 til þess dags er mánuður er liðinn frá því ákærða er birt ákæra en dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.

Af hálfu B er krafist miskabóta samkvæmt 26. gr. skaðabótalaga úr hendi ákærða að fjárhæð kr. 350.000, auk vaxta samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu frá 1. febrúar 2005 til þess dags er mánuður er liðinn frá því ákærða er birt ákæra en dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.“

Með ákæru 10. september 2007 höfðaði lögreglustjórinn á Vestfjörðum opinbert mál gegn ákærða, sem fékk númerið S-70/2007 við dóminn;

fyrir umferðarlagabrot, með því að hafa mánudaginn 4. desember 2006, ekið bifreiðinni PZ-820, sviptur ökurétti, vestur Skipagötu og norður Pollgötu, Ísafirði, uns lögreglan stöðvaði akstur hans og hafði afskipti af honum.

Telst þetta varða við 5. gr. og 1. mgr. 48. gr., sbr. 1. mgr. 100. gr., umferðarlaga nr. 50/1987, sbr. 186. gr. laga nr. 82/1998.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar.

Ákærði krefst þess aðallega að hann verði sýknaður af öllum sakargiftum samkvæmt ákæru, dagsettri 16. júlí 2007, en honum að öðru leyti ákveðin svo væg refsing sem lög frekast leyfa. Til vara krefst ákærði þess að hann verði dæmdur til vægustu refsingar sem lög frekast heimila. Hvað bótakröfur varðar krefst ákærði þess aðallega að kröfunum verði vísað frá dómi, en til vara að þær verði lækkaðar.

I.

Með bréfi 21. febrúar 2006 kærði Barnaverndarnefndin á norðanverðum Vestfjörðum til lögreglu meint kynferðislegt ofbeldi ákærða gegn stúlkunni A, fæddri [...]. Í bréfi nefndarinnar sagði að 2. febrúar 2006 hefði A greint foreldrum sínum frá því að hún hefði orðið fyrir kynferðislegu ofbeldi af hálfu ákærða. Degi síðar hefði stúlkan komið ásamt móður sinni til viðtals á Skóla- og fjölskylduskrifstofu X. Hefði stúlkan greint starfsmanni skrifstofunnar frá því að nótt eina í byrjun janúar 2005 hefði hún stolist út um glugga á heimili sínu (sic) ásamt vinkonu sinni. Þær stöllur hefðu því næst haldið til Y þar sem þær hefðu farið í samkvæmi í fjölbýlishúsi. Að sögn stúlkunnar hefði áfengi verið haft um hönd í samkvæminu og hún neytt þar áfengis. Hún hefði síðan ekki vitað fyrr en einungis voru fjórir eftir í samkvæminu. Hún myndi næst eftir sér liggjandi í rúmi í svefnherbergi og hefði ákærði verið að káfa á henni. Stúlkan hefði þá tekið að öskra og heimtað að „C“ sækti sig. Er í kærubréfinu að lokum haft eftir stúlkunni að henni hefði liðið mjög illa eftir að „... þetta hafi gerst og viljað ræða þetta.“

Í kjölfar kæru Skóla- og fjölskylduskrifstofu hóf lögregla rannsókn á málinu. Skýrsla var tekin af B 20. febrúar 2006 en hún fór með A í áðurgreint samkvæmi. Hinn 1. mars 2006 beindi lögreglustjóri beiðni til dómsins um skýrslutöku fyrir dómi af A. Óhóflegur dráttur varð á því hjá dómnum að umbeðin skýrslutaka færi fram, en af henni varð ekki fyrr en 11. desember 2006. Þann sama dag var einnig tekin skýrsla af áðurnefndri B þar sem þá hafði einnig vaknað grunur um meint brot ákærða gegn henni í umræddu samkvæmi, sbr. kæru Barnaverndarnefndar á [..] frá 4. desember 2006.

Vegna áðurnefnds dráttar á því að beiðni lögreglustjóra yrði tekin fyrir dróst rannsókn málsins nokkuð. Samkvæmt framlögðum rannsóknargögnum lauk rannsókninni í apríl 2007 og hinn 16. júlí sama ár gaf ríkissaksóknari út ákæru á hendur ákærða samkvæmt áðursögðu.

Um málsatvik hvað varðar ákæru lögreglustjórans á Vestfjörðum 10. september 2007 vísast til þess sem að framan er rakið úr ákærunni.

II.

A.

Ákærði bar fyrir dómi að umrætt kvöld hefði hann leyft dóttur sinni að vera ásamt vinum sínum í íbúð þeirri sem hann hafði til umráða í tvo daga í janúarmánuði 2005. Þetta hefði verið um helgi en nánar kvaðst hann ekki geta tímasett málsatvik innan nefnds mánaðar með nokkurri vissu. Sérstaklega aðspurður kvaðst ákærði frekar telja þetta hafa verið 16. heldur en 8. nefnds mánaðar.

Ákærði kvaðst hafa komið í íbúðina í þann mund sem gestir dóttur hans voru að tygja sig til heimferðar. Sjálfur sagðist ákærði hafa verið að koma úr samkvæmi hjá vini sínum og hefði hann verið undir nokkrum áfengisáhrifum.

Þegar flestallir gestirnir voru farnir úr íbúðinni sagði ákærði tvær stúlkur, sem hann hefði ekkert þekkt, A og B, hafa birst. Þær hefðu undir það síðasta „hangið“ í íbúðinni og í raun bara verið að leita að einu, kynlífi.

Þegar einungis ákærði, D og stúlkurnar tvær hefðu verið eftir í íbúðinni hefðu B og D hafið samfarir í stofunni. Af þeim sökum hefðu ákærði og A yfirgefið stofuna og þau bæði dvalið í eldhúsi íbúðarinnar sem og svefnherbergi hennar. Þar hefði A, sem ákærði sagði ekki hafa verið í jafnvægi, meðal annars greint honum frá erfiðum heimilisaðstæðum sínum. Ákærði sagðist í raun engan áhuga hafa haft á að ræða við stúlkuna, enda ekkert þekkt hana og engan áhuga haft á kynnum við hana. A hefði haldið áfram að barma sér um stund en hún síðan skyndilega farið á hnén upp í rúmið, flett upp peysunni og sagt: „Þú mátt koma við brjóstin á mér en ég get ekki leyft þér að ríða mér af því að ég er barnapía bróður þíns og ég er bara þrettán ára.“ Ákærði hefði svarað stúlkunni því til að hann hefði enga löngun til að koma við hana. A hefði síðan haldið áfram að rekja raunir sínar fyrir ákærða en það loks tekið enda er einhver, sem hann myndi ekki hver hefði verið, hefði hringt í stúlkuna og sagst vera kominn að sækja hana. A hefði í kjölfarið yfirgefið íbúðina, en mögulega hefði hún þó áður rætt eitthvað við B. Spurður um klæðnað A er hún fór inn í svefnherbergið bar ákærði að hún hefði verið í litlum bol, hlýrabol undir honum og buxum. Stúlkan hefði verið í þessum sömu fötum er hún yfirgaf svefnherbergið.

Eftir að A hafði yfirgefið íbúðina kvaðst ákærði hafa boðið B og D að fara inn í svefnherbergi, sem þau hefðu þegið.

Ákærði sagði A hafa komið aftur um það bil 40 mínútum síðar að sækja peysu sem hún hefði skilið eftir í íbúðinni. Hún hefði rætt eitthvað við B en síðan snúið sér að ákærða og sagt: „... loksins hef ég fundið einhvern sem vill hlusta á mig.“ Hefði hún þar átt við þann aðila sem sótti hana skömmu áður í íbúðina.

Eftir að A var farin sagði ákærði B og D áfram hafa verið inni í svefnherbergi. Sjálfur hefði hann í fyrstu verið við drykkju í stofunni en hann síðan farið inn í svefnherbergið og „... hvort ég sé eitthvað að reyna að vekja hann D til þess að reyna að koma að drekka með mér eða eitthvað.“ Ákærði sagði það alrangt sem B hefði haldið fram um að hann hefði lagst upp í rúmið og káfað á henni. Hann hefði hvorugt gert. Ákærði neitaði einnig að hafa rætt við stúlkuna um nudd og sagðist enga þekkingu hafa á slíku. Tók ákærði fram að nudd hefði komið til tals í samkvæminu fyrr um nóttina í tengslum við möguleg atvinnutækifæri, en það hefði verið áður en stúlkurnar tvær birtust.

Á ákærða var að skilja að honum hefði ekki tekist að vekja D og hann því yfirgefið svefnherbergið. Fljótlega eftir það hefðu B og D yfirgefið íbúðina.

Ákærði kvaðst ekki hafa séð A drekka áfengi eftir að hún birtist í íbúðinni um nóttina. Ásakanir um að hann hefði boðið henni og B áfengi sagði ákærði alrangar, hann hefði engum boðið áfengi, og fullyrti ákærði að stúlkurnar hefðu komið með áfengi með sér í samkvæmið. Þá kom fram hjá ákærða að bæði hann og dóttir hans hefðu átt áfengi í ísskáp íbúðarinnar.

Sérstaklega spurður um aldur stúlknanna tveggja bar ákærði að hann hefði vitað það eitt að þær voru ungar. Inni í svefnherberginu hefði A síðan sagt honum að hún væri þrettán ára, eins og áður var rakið. Tók ákærði fram í þessu sambandi að hann hefði ekkert verið að skipta sér af stúlkunum, hann hefði ekkert varðað um þær, þar með talinn aldur þeirra.

Spurður um hvort þeir D hefðu talað um það sín á milli að það yrði selskapur í íbúð ákærða þessa nótt og að D útvegaði stúlkur í samkvæmið svaraði ákærði því til að ekkert slíkt hefði komið til tals. Þá aftók ákærði að hann hefði heitið D nánum kynnum af dóttur sinni tækist honum að útvega ákærða stúlku. Ásakanir sem þessar sagði ákærði svívirðilega móðgun. Ennfremur hafnaði ákærði því sem röngu að hann hefði kysst A í stofunni um nóttina. Að lokum bar ákærði um ölvunarástand sitt þessa nótt að hann hefði alls ekki verið það ölvaður að áhrif hefði haft á minni hans.

B.

Sakargiftir samkvæmt ákæru lögreglustjórans á Vestfjörðum 10. september 2007 játaði ákærði við fyrirtöku málsins 25. október 2007. Hann áréttaði þá afstöðu sína er aðalmeðferð málsins var fram haldið 14. janúar sl.

C.

Ákærði gaf skýrslu hjá lögreglu vegna málsins 20. apríl 2007. Í skýrslunni er meðal annars bókað:

Mætta er tjáð að þau D og B hafi bæði sagt að eftir að A var farin úr íbúðinni og þau þrjú orðin ein eftir þar hafi D og B farið saman ein inn í umrætt svefnherbergi og verið þar nokkra stund.

Mætti segir, aðspurður, að þetta sé rétt. Hann hafi orðið einn eftir frammi í íbúðinni meðan B og D voru ein inni í svefnherberginu.

Mætti er spurður um hvort hann hafi farið inn í herbergið á eftir þeim.

Hann segist ekki hafa farið inn á eftir þeim B og D, inn í svefnherbergið.

Honum er kynnt að B hafi borið að hún og D hafi legið í rúminu, hlið við hlið og hún aðeins klædd nærfötum að hana minni, þegar mætti hafi komið inn í herbergið og lagst við hlið hennar. Mætti hafi farið að káfa á líkama hennar, brjóstum og lærum, innan klæða. Hún hafi beðið hann um að hætta en hann streist á móti og sagst ætlað að sýna henni nuddþekkingu hans. Þetta hafi gengið svona í 10 mínútur eða svo þar til henni hafi tekist að vekja D sem hafi rekið mætta út úr herberginu.

Mætti segir þennan framburð B rangan, algjörlega.

Mætta er kynnt að D hafi staðfest að hann hafi vaknað þarna í rúminu við hlið B og mætti hafi þá staðið yfir B, hennar megin við rúmið.

Aðspurður segir mætti þetta rangt hjá D, hann hafi ekki komið inn í þetta herbergi meðan þau tvö voru þar inni.

III.

A.

A skýrði svo frá, þegar skýrsla var tekin af henni fyrir dómi í Barnahúsi 11. desember 2006, að hún hefði um helgi í janúar 2005, um miðjan mánuðinn að hún taldi, farið ásamt vinkonu sinni, B, í partí í Y í boði vinar B, D. Kvað vitnið annaðhvort D eða E nokkurn hafa ekið þeim í teitið.

Vitnið sagði þær B hafa komið í gleðskapinn um kl. 02:00 um nóttina. Aðspurt um gesti í samkvæminu þá nefndi vitnið, auk þeirra B, D. Einnig hefði þar verið húsráðandi, ákærði í málinu. Kvaðst vitnið hafa sest niður, hlustað á tónlist og spjallað. Vitnið sagði ákærða hafa veitt því áfengi í partíinu og hefði það drukkið mjög mikið, mögulega sjö Thule-bjóra og fimm „Brezzera“ og hefði þetta verið í fyrsta skipti sem vitnið neytti áfengis. Taldi vitnið áfengisneyslu B hafa verið mun minni. Síðar um nóttina sagði vitnið fleiri krakka hafa komið í teitið og nefndi sérstaklega F, sem vitnið kvað bestu vinkonu dóttur ákærða.

Næst kvaðst vitnið muna eftir sér er það hefði vaknað um nóttina liggjandi í rúmi ákærða. Hefði ákærði verið að káfa á vitninu og kyssa það. Vitnið kvaðst hafa grátið og öskrað á ákærða að fara ofan af sér en það hefði hann ekki viljað. Taldi vitnið sig hafa verið komið úr öllu nema brjóstahaldara og nærbuxum. Sagði vitnið ákærða ítrekað hafa reynt að kyssa sig en það hefði vitnið ekki viljað. Ákærði hefði síðan farið af vitninu, sem hefði þá dottið í gólfið. Kvaðst vitnið hafa haldið áfram að öskra og gráta og síðan farið fram þar sem vitnið taldi að það hefði fengið B til að hringja í C, sem vitnið hefði verið nýbúið að kynnast, og hefði hann í framhaldinu komið og sótt vitnið. Taldi vitnið sig hafa verið klætt í netabol og nærbuxur er það fór út úr svefnherberginu. Er vitnið síðan yfirgaf íbúðina, um kl. 04:00 eða 05:00, hefði það verið komið í buxur, brjóstahaldara yfir netabolinn og „... svo fékk ég, svo var ég í peysu ...“. Ennfremur bar vitnið að: „Svo fór ég bara inn í bílinn og hringdi í vinkonu mína og var eitthvað að tala við hana, hágrátandi og strákurinn náttúrulega C með mér, og var svona eiginlega dottandi allan tímann, var svolítið þreytt, og var svona að reyna að tala við C líka.“.

Nánar aðspurt um hvað gerst hefði í herberginu svaraði vitnið svo: „Ókei, ég lá í rúminu og hann lá ofan á mér og var búinn að klæða mig úr, að ofan fyrst. Og hann var alltaf að kyssa mig og ég alltaf öskrandi „... láttu mig í friði, ég vil fara heim, farðu af mér ...“ hágrátandi. Hann sagði líka alltaf „... þetta er allt í lagi, þetta er allt í lagi, uss þetta er allt í lagi ...“ Og svo já hann var alltaf að káfa á mér og svo fór hann af mér og ég datt á gólfið og hrindi í vini mína til að láta sækja mig og það gat enginn sótt mig strax og eitthvað. Og þá tók hann eitthvað utan um mig og sagði „... þetta er allt í lagi, þetta er allt í lagi ...“ Ég bara „... nei, láttu mig í friði...“ og svo man ég ekkert meira.“ Sagði vitnið ákærða hafa snert bjóst þess, rass og klof.

Spurt um hvort aldur vitnisins hefði komið til tals milli þess og ákærða svaraði vitnið: „Ég, mig minnir ekki. Jú ég held það samt sko. Veit það ekki.“ Þá taldi vitnið að ákærði hefði engin deili vitað á því er atvik máls gerðust. Vitnið hefði hins vegar verið kunnugt tveimur systkinum hans.

Vitnið kvaðst fyrst hafa greint frá háttsemi ákærða í samtölum sínum við sálfræðing. Kom fram hjá vitninu að eftir atburði næturinnar hefði því liðið mjög illa sem vitnið kvaðst afdráttarlaust tengja við áðurlýstar athafnir ákærða í svefnherberginu.

A gaf skýrslu að nýju fyrir dómi er aðalmeðferð málsins var fram haldið 14. janúar 2008. Kvaðst vitnið halda að atvik máls hefðu gerst fyrri hluta janúarmánaðar 2005, þó væri einnig mögulegt að þau hefðu gerst um miðjan mánuðinn.

Vitnið sagðist umrædda nótt hafa gist hjá vinkonu sinni, B, sem hefði á þessum tíma verið að slá sér upp með vini ákærða, D. Hann hefði boðið B og vitninu í samkvæmi í íbúð ákærða.

Fram kom hjá vitninu að því hefði verið boðið áfengi í teitinu, Thule og Breezer, bæði af ákærða og D og hefði hún þegið áfengið. Kvað vitnið þetta hafa verið í fyrsta sinn sem það neytti áfengis.

Síðar um nóttina sagði vitnið sig, D, B og ákærða hafa verið orðin ein eftir í íbúðinni og hefðu þau verið að hlusta á tónlist og spjalla. Fram kom hjá vitninu að í þeim samræðum hefði ákærði nefnt nudd og viljað nudda vitnið. B og D kvað vitnið hafa verið að kyssast. Sagði vitnið B síðar hafa sagt sér að hún hefði um nóttina sofið hjá D í stofu íbúðarinnar. Fyrir þessu kvaðst vitnið eingöngu hafa orð vinkonu sinnar, vitnið hefði ekkert slíkt séð til þeirra tveggja, það hefði þá verið inni í svefnherbergi. Um ástæðu þess að vitnið fór inn í svefnherbergið bar það: „Ég bara eiginlega man það ekki. Sko ég held, ég held að D hafi bara tekið mig inn í herbergi, nei Guðni.“ Neitaði vitnið því aðspurt að þau ákærði hefðu verið að kyssast áður en þau fóru inn í herbergið „... alla vega ekki svo ég muni sko ...“ Kom fram hjá vitninu að minni þess af atburðum næturinnar væri verulega skert þar sem hún hefði verið orðin „rosalega ölvuð“.

Vitnið aftók að framburður ákærða, þess efnis að hún hefði inni í svefnherberginu sýnt honum brjóst sín, væri réttur. Það hefði vitnið ekki gert.

Áréttaði vitnið þann framburð sinn, sem vitnið gaf er tekin var af því skýrsla í Barnahúsi, að inni í svefnherberginu hefði vitnið vaknað upp við að ákærði var búinn að klæða það úr öllu nema nærbuxunum og var að káfa á brjóstum og síðu þess. Aðspurt um hvort ákærði hefði reynt að kyssa vitnið játti það því. Vitnið sagðist hafa brugðist við með því að öskra á ákærða, segja honum að hætta og ýta við honum, en síðan brostið í grát.

Í framhaldinu kvaðst vitnið hafa farið út úr svefnherberginu og beðið B um að hringja í C fyrir sig.

Að endingu kom fram hjá vitninu að því hefði liðið illa vegna þeirra atvika er að framan er lýst. Í byrjun árs 2006 kvaðst vitnið hafa tekið þá ákvörðun að segja foreldrum sínum frá því sem gerst hefði umrædda nótt. Í kjölfarið hefði vitnið rætt við sálfræðing og hefði það hjálpað nokkuð. Vitnið teldi sig hins vegar þurfa á frekari hjálp að halda og hygðist það leita til Stígamóta í þeim tilgangi.

B.

B skýrði svo frá, þegar skýrsla var tekin af henni fyrir dómi í Barnahúsi 11. desember 2006, að föstudags- eða laugardagskvöld eitt um vetur árið 2005, eftir afmæli hennar 14. janúar „... held ég, ég man það ekki alveg ...“, hefði vinur hennar, D, boðið henni og A í partí hjá vini sínum í Y og hefðu þær þegið boðið. Síðar um kvöldið hefðu stúlkurnar stolist út og D sótt þær og ekið þeim til Y.

Þegar í samkvæmið var komið sagði vitnið þær A í fyrstu hafa setið og spjallað. Ákærði, sem vitnið hefði aldrei hitt áður, hefði síðan boðið þeim bjór úr ískáp í íbúðinni sem þær hefðu þegið. Í teitið sagði vitnið fleiri stúlkur hafa komið, meðal annars dóttur ákærða, G, og einhverjar vinkonur hennar. Er þær stúlkur höfðu dvalið um hríð í samkvæminu sagði vitnið þær hafa haldið á brott. Eftir það hefðu vitnið, A, D og ákærði setið um hríð og hlustað á tónlist, drukkið bjór og spjallað saman. Áleit vitnið að það hefði drukkið þrjá bjóra og kvaðst hafa orðið ringlað, svolítið fullt. Var það hald vitnisins að í samræðum þeirra fjögurra hefði aldur þess og A ekki komið til tals.

Vitnið sagði ákærða hafa byrjað að kyssa A í stofunni „... og svo voru þau bara að kyssast þangað til að þau fóru inn í herbergi ...“ og hefðu vitnið og D orðið eftir í stofunni. Um hvort þeirra ákærða eða A hefði átt frumkvæði að því að þau fóru inn í svefnherbergið gat vitnið ekki borið.

Um 15-20 mínútum eftir að ákærði og A gengu inn í herbergið sagði vitnið þau D hafa heyrt öskur og óp í A sem síðan hefði komið grátandi út úr herberginu á nærbuxum einum fata. Vitnið kvaðst hafa farið til A og huggað hana sem sagt hefði það eitt að hún vildi fara. Um ástæður þess hefði hún ekkert sagt. Vitnið sagði vin A hafa komið og sótt hana, eftir símtal frá D að því er vitnið taldi, og hefðu þá einungis vitnið, D og ákærði verið eftir í íbúðinni.

Eftir að A var farin sagði vitnið þau D hafa farið inn í svefnherbergið og lagst þar til hvílu. Minnti vitnið að það hefði þá einungis verið í nærfötum. Mögulega um hálftíma síðar hefði ákærði komið inn í herbergið og lagst við hlið vitnisins. Hefði ákærði tekið að káfa á brjóstum vitnisins, innan klæða, og niður eftir öðru læri þess og kvaðst vitnið hafa beðið hann um að hætta því. Ákærði hefði þá sagst vera lærður í nuddi og viljað sýna vitninu það. Ennfremur hefði hann tjáð vitninu að við nuddið þyrfti að „snerta brjóst og annað“. Sagði vitnið káf ákærða alls ekki hafa komið sér fyrir sjónir sem nudd. Vitnið hefði síðan vakið D sem sagt hefði ákærða að fara út úr herberginu sem hann hefði gert. Aðspurt taldi vitnið að ákærði hefði legið við hlið þess í 10-15 mínútur inni í svefnherberginu.

 Vitnið kvaðst hafa sagt A frá háttsemi ákærða gagnvart sér inni í svefnherberginu eftir að A hafði sagt vitninu frá því að ákærði hefði reynt að nauðga henni inni í sama herbergi fyrr um nóttina. Hún hefði hins vegar ekkert lýst því frekar fyrir vitninu.

B gaf skýrslu að nýju fyrir dómi við aðalmeðferð málsins 8. janúar 2008. Þar greindi vitnið svo frá að umrætt sinn hefði D boðið því í samkvæmi í íbúð ákærða. Vitnið hefði þá innt D eftir því hvort það mætti taka vinkonu sína, A, með sér, sem hann hefði samþykkt. Einhvern tímann eftir miðnættið hefðu þær A síðan laumast út af heimili vitnisins og D í framhaldinu ekið þeim í gleðskapinn. Þar hefðu þá verið að sögn vitnisins ákærði, sem vitnið hefði verið að hitta í fyrsta sinn, og tveir aðrir menn sem farið hefðu skömmu síðar. Kvaðst vitnið hafa drukkið tvo til þrjá bjóra í teitinu en á þá hefði ákærði vísað því í ísskáp í íbúðinni.

Síðar um nóttina sagði vitnið sig, A, D og ákærða hafa verið orðin ein eftir í íbúðinni. Í fyrstu hefðu þau öll verið í stofunni og hefði ákærði setið í stól og A ofan á honum og þau verið að kyssast og káfa hvort á öðru. Ákærði hefði síðan farið með A inn í svefnherbergi þar sem hún hefði verið orðin svolítið drukkin. Tók vitnið sérstaklega fram að „... hann tók hana ekki með valdi þangað inn, hún reyndi ekkert að komast frá honum þá.“ Vitnið og D hefðu hins vegar orðið eftir á sófanum í stofunni „... og fórum að kyssast og eitthvað svona ...“.

Síðar um nóttina, mögulega að liðnum 15-20 mínútum, kvað vitnið A hafa komið hlaupandi út úr svefnherberginu. Hún hefði verið grátandi og á nærbuxum einum fata. A hefði sagt vitninu að hún vildi fara og óskað eftir að C kæmi og sækti sig, sem orðið hefði úr. Aðspurt kvað vitnið A ekkert hafa greint sér frá því hvað gerst hefði inni í herberginu.

Eftir að A var farinn sagði vitnið þau D hafa farið inn í svefnherbergið og lagst þar til hvílu. Hefði vitnið þá annaðhvort verið nakið eða í nærbuxum einum fata. Þegar D hefði verið sofnaður hefði ákærði komið inn í herbergið og spurt vitnið hvort hann mætti koma upp í rúmið. Vitnið hefði svarað þeirri spurningu neitandi en ákærði þrátt fyrir það skriðið upp í rúmið þeim megin sem vitnið lá, farið undir sængina og tekið að káfa á vitninu. Vitnið hefði reynt að vekja D en það ekki tekist. Ákærði hefði tjáð vitninu að hann hefði lært nudd og væri afar góður nuddari. Ennfremur hefði hann sagt nauðsynlegt að hann snerti brjóst vitnisins svo nuddaðferð hans virkaði. Vitnið kvaðst hafa reynt að ýta ákærða frá sér og beðið hann um að hætta. Hann hefði ekki orðið við því fyrr en vitninu hefði tekist að vekja D. Þá hefði ákærði yfirgefið herbergið.

Síðar um nóttina kvaðst vitnið hafa farið fram á snyrtingu. Ákærði hefði þá setið í sófanum og virst mjög miður sín. Vitnið hefði því sest hjá ákærða og rætt við hann. Í því samtali hefði ákærði tjáð vitninu að hann hefði fyrr um kvöldið samið svo um við D að ef hann útvegaði ákærða stelpu um kvöldið þá „mætti hann fá að sofa hjá dóttur hans Guðna.“

Um tímasetningu framangreindra atburða bar vitnið að það myndi eftir miklum snjó úti. Áleit vitnið að atvik máls hefðu „örugglega“ gerst eftir afmæli vitnisins, 14. janúar. Að lokum bar vitnið að aldur þeirra A hefði ekki komið til tals í teitinu.

IV.

D sagðist fyrir dómi þekkja ákærða þar sem þeir hefðu um hríð verið saman til sjós. Taldi vitnið að það hefðu þeir enn verið er atvik máls gerðust.

Vitnið kvaðst umrætt kvöld og nótt í janúar 2005 hafa sótt samkvæmi í íbúð ákærða í Y. Þeir hefðu þá verið nýkomnir af sjó, annaðhvort sama dag eða daginn áður. Samkvæmið sagði vitnið hafa farið fram að kvöldi föstudags eða laugardags. Nánar um tímasetninguna bar vitnið að þetta hefði verið fyrri hluta janúarmánaðar 2005, mögulega á bilinu frá 8. til 10. þess mánaðar.

Vitnið sagðist hafa boðið tveimur stúlkum í samkvæmið, þeim A og B. Kvaðst vitnið hafa tilkynnt ákærða, sem ekki hefði þekkt stúlkurnar, að hann myndi koma með þær í samkvæmið. Hvernig stúlkurnar hefðu þangað komist gat vitnið ekki um borið en tók fram að sjálft hefði það ekki ekið þeim þangað þar sem á þeim tíma er stúlkurnar komu í gleðskapinn hefði vitnið verið orðið drukkið. Ákærða sagði vitnið einnig hafa verið drukkinn er atvik máls gerðust.

Vitnið sagði A og B báðar hafa neytt áfengis í samkvæminu. Áfengið, sem verið hefði í eigu dóttur ákærða, kvaðst vitnið hafa boðið þeim. Taldi vitnið aldur stúlknanna ekki hafa komið sérstaklega til tals í teitinu. Fyrir dómi bar vitnið fyrst að það hefði talið B fullra 14 ára gamla er atvik máls gerðust. Síðar í skýrslu sinni fullyrti vitnið hins vegar að það hefði vitað nákvæmlega um aldur stúlkunnar er atvik máls gerðust.

Þegar mest var sagði vitnið um 10-15 manns hafa verið í gleðskapnum. Síðar um nóttina sagði vitnið þau B hafa kysst og stundað­­ kynlíf í svefnsófa í stofu íbúðarinnar. Þá hefðu einungis vitnið, B, A og ákærði verið eftir í íbúðinni, og hefðu þau tvö síðastnefndu verið inni í svefnherbergi. Hvernig það atvikaðist að ákærði og stúlkan fóru inn í svefnherbergið kvaðst vitnið aðspurt ekki geta um borið. Síðar hefði A komið grátandi fram og hefði ákærði gefið vitninu þá skýringu á gráti stúlkunnar að kannski væri um móðursýkiskast að ræða. Stúlkuna kvaðst vitnið ekki hafa rætt við.

Síðar sagðist vitnið hafa farið inn í svefnherbergið ásamt B þar sem þau hefðu sofnað. Vitnið sagði stúlkuna hafa vakið sig og hefði ákærði þá verið kominn inn í herbergið og staðið við rúmið þeim megin sem stúlkan lá. Áleit vitnið B, sem það taldi hafa verið allsnakta en þó mögulega í nærbuxum, hafa verið hrædda og hún haldið utan um vitnið. Um veru ákærða inni í herberginu bar vitnið að sér hefði fundist „... rosalega skrýtið að hann hafi verið þarna, og af hverju?“ Kvaðst vitnið hafa innt ákærða eftir því hvað hann væri að vilja inni í herberginu en hann engu svarað og farið fram. Aðspurt minntist vitnið þess ekki að B hefði sagt neitt við það um veru ákærða inni í herberginu. Í tilefni af rannsókn málsins rúmu ári síðar hefði B hins vegar greint vitninu frá því að ákærði hefði reynt að káfa á henni þarna um nóttina.

C tók fram í upphafi skýrslugjafar sinnar fyrir dómi að hann myndi atvik máls illa. Vitnið skýrði annars svo frá að það hefði umrædda nótt komið að fjölbýlishúsi því sem um ræðir í málinu þeirra erinda að sækja A. Hvernig það kom til gat vitnið hins vegar ekki um borið. Vitnið kvaðst hafa hringt og tilkynnt um komu sína en gat aðspurt ekki sagt til um hver viðmælandi þess hefði verið.

Skömmu síðar sagði vitnið A hafa komið „sótölvaða“ út úr húsinu. Fatnað stúlkunnar kvað vitnið hafa verið nokkuð skrýtinn en hún hefði verið í netabol og brjóstahaldara þar yfir. Vitnið sagði stúlkuna hafa sest inn í bifreiðina og þau síðan ekið um í nokkurn tíma og spjallað saman.

Vitnið kvaðst hafa séð að stúlkunni leið eitthvað skringilega. Hún hefði tjáð vitninu að ákærði hefði verið vondur við sig. Vitnið hefði innt stúlkuna eftir því hvað ákærði hefði gert og hún þá orðið mjög skrýtin. Svo hefði hún sagt að ákærði hefði verið að nudda hana og kenna henni nudd. Taldi vitnið að stúlkan hefði sagt nuddið hafa átt sér stað í rúmi í svefnherbergi umræddrar íbúðar.

Vitnið kvaðst síðar, mögulega undir hádegi, hafa farið upp í íbúð ákærða til að sækja eitthvað, sem það myndi ekki hvað var. Staðfesti vitnið fyrir dómi eftirfarandi ummæli, sem eftir því eru höfð í lögregluskýrslu, og það kvað ákærða hafa látið falla við vitnið er það kom í íbúðina umrætt sinn: „Mætti segir að Guðni hafi strax farið að tala um að hann hafi eitthvað verið að nudda A og ekki vitað fyrr en seint og um síðir hversu ung hún væri. Hann hafi orðið svo reiður við þá vitneskju að hann hafi kastað GSM símanum sínum í gólfið og eyðilagt hann.“

F, sem kvaðst vera besta vinkona dóttur ákærða, G, bar fyrir dómi að hún hefði sótt samkvæmi í íbúð ákærða umrætt sinn í boði G. Gleðskapinn sagði vitnið hafa átt sér stað um helgi, líklega fyrri partinn í janúar 2005. Nánar um tímasetningu samkvæmisins gat vitnið ekki borið.

Vitnið sagðist hafa komið í íbúð ákærða ásamt G um miðnættið. Þá hefðu verið í teitinu unnusti vitnisins, H, ákærði og fleira fólk. Stúlkurnar A og B kvað vitnið hafa komið í gleðskapinn að minnsta kosti klukkustundu síðar ásamt D.

Fram kom hjá vitninu að það hefði verið undir áhrifum áfengis umrædda nótt. Ölvun sagði vitnið hafa verið mikla og almenna í samkvæminu en frjáls aðgangur hefði verið að miklu magni áfengis í ísskáp í íbúðinni. Þá hefði fíkniefna einnig verið neytt í samkvæminu. Sérstaklega aðspurt kvaðst vitnið ekki vita hver hefði verið eigandi fyrrgreinds áfengis en ákærða sagði vitnið hafa boðið sér áfengi. Þá bar vitnið að það hefði séð A og B með „ávaxtabjór“ í hendi sem það „gerði ráð fyrir“ að ákærði hefði boðið þeim.

Vitnið kvaðst muna eftir A og B í sófa í íbúðinni og hefði D eitthvað verið að reyna við þá síðarnefndu, halda utan um hana. Rak vitnið ekki minni til að á þeim tíma sem það dvaldist í íbúðinni hefði ákærði veitt stúlkunum neina sérstaka athygli. Taldi vitnið að það hefði yfirgefið samkvæmið um kl. 03:00 um nóttina, þá ofurölvi, ásamt H og G. Þá hefðu áðurnefndar tvær stúlkur, D og ákærði enn verið í íbúðinni.

G dóttir ákærða, kvaðst ekki geta tímasett málsatvik nákvæmlega en kannaðist þó við að í janúar 2005 hefðu vitnið og nokkrar vinkonur þess komið saman í íbúð sem faðir vitnisins hefði haft afnot af að Þjóðólfsvegi 16 í Y. Kvað vitnið samkvæmið hins vegar hafa orðið fjölmennara en til stóð og þangað meðal annars komið B og A. Stúlkunum hefði vitnið ekki verið kunnugt en þær hefðu komið í íbúðina í fylgd vinar þess. Aðspurt um áfengisneyslu í samkvæminu sagði vitnið gesti hafa komið með áfengi með sér.

I sagði dóttur sína, A, hafa í janúar eða febrúar 2006 skýrt sér frá því að hún og vinkona hennar, B, hefðu læðst út nótt eina, sem A hefði fengið að gista á heimili B, og farið til Y. Er þangað var komið hefðu þær farið heim til ákærða sem veitt hefði þeim vín. A hefði orðið mjög drukkin og ákærði þá leitt hana inn í herbergi og byrjað að hátta hana. Stúlkan hefði þá áttað sig á því hvað var að gerast, hún orðið tryllt, öskrað á hjálp og kallað eftir því að C kæmi henni til hjálpar. Það hefði orðið úr, C komið og stúlkan yfirgefið íbúðina með honum.

Fram kom hjá vitninu að seinni part vetrar árið 2005 hefði hegðun A verið mjög erfið og af þeim sökum hefði vitnið leitað aðstoðar skóla- og fjölskylduskrifstofu bæjarins. Stúlkan hefði farið í viðtal hjá sálfræðingi, í janúar eða febrúar 2006, og þar hefði hún sagt frá ofangreindu atviki. Í kjölfarið hefði hún einnig greint vitninu frá því. Barnaverndarnefnd hefði síðan lagt fram kæru hjá lögreglu vegna málsins. Kvaðst vitnið nú tengja ofangreindan atburð við lýsta hegðun A á árinu 2005 og sagði hana enn stríða við vanlíðan vegna hans og af þeim sökum stæði til að stúlkan leitaði sér aðstoðar hjá Stígamótum.

Hlynur Hafberg Snorrason lögreglufulltrúi bar fyrir dómi að hann hefði stýrt rannsókn málsins. Vitnið sagði við rannsóknina fljótlega hafa tekist að upplýsa um meintan brotavettvang. Lögregla hefði í kjölfarið leitað eftir upplýsingum um hvenær umrædd íbúð hefði verið í umráðum ákærða. Í ljós hefði komið að gestabók í íbúðinni hefði glatast og leigusalinn því ekki getað upplýst nákvæmlega hvaða daga ákærði hefði haft íbúðina til umráða. Niðurstaða lögreglu hefði verið sú að annaðhvort hefðu meint brot átt sér stað aðfaranótt 8. janúar 2005 eða aðfaranótt 16. sama mánaðar.

V.

Í málinu liggja frammi samskiptaseðill, dagsettur 23. mars 2006, og handritaðar athugasemdir sem Marteinn Steinar Jónsson sálfræðingur ritaði vegna viðtala sem hann átti við stúlkuna A 24. janúar og 7. febrúar 2006. Í samskiptaseðlinum segir meðal annars svo:

A er 15 ára. Hún kemur vegna þess að henni hefur liðið mjög illa. Segist hafa verið mjög pirruð og erfið í samskiptum. Foreldrar hennar, þau sendu hana frá sér vegna þess að hún var svo erfið á heimilinu.

Ég hitti hana fyrst 24. janúar og þá ræddi ég við hana í 15 mínútur eftir að Fjölnir læknir hafði beðið mig um að taka viðtal við hana. Fjölnir hélt að hún væri þunglynd en forsaga þess er að hegðun A hafði breyst verulega eftir janúarmánuð 2005. Hún hafði farið í partý í Y og orðið töluvert drukkin og man eftir því að hafa sofnað og þegar hún vaknar aftur þá er hún ekki í fötunum. Bara í netbol og nærbuxum eða hvort að eru síðbuxur það er ekki ljóst.

Til þess að gera langa sögu stutta, þá lítur út fyrir að hún hafi orðið fyrir kynferðislegu áreiti, einhvers konar misnotkun. ... Þessi atburður hefur augljóslega haft þau áhrif á hennar líðan að hún varð mjög erfið. Fór að reykja, vera úti á nóttunni og haga sér með þeim hætti að foreldrar hennar voru ráðalausir.

[---]

Til þess að gera langa sögu stutta þá kom í ljós þegar hún kemur hérna til mín að hún hafi orðið fyrir kynferðislegu áreiti í janúar 2005 og eftir að þetta hefur komið upp hefur hún getað rætt þau mál við foreldra sína og hefur eftir það róast, líður mun betur. Er í betra jafnvægi, orðin samviskusöm í skólanum, fær góða umsögn hjá kennurum. Hún virðir núna útivistarreglur, er oft heima á kvöldin. Það er hægt að tala við hana í rólegheitum.

Marteinn Steinar Jónsson kom fyrir dóm við aðalmeðferð málsins og staðfesti og skýrði tilvitnuð gögn. Bar vitnið meðal annars að mjög sterk kvíðaeinkenni hefðu komið fram hjá A sem vitnið taldi sýnt að mikið hefðu minnkað eftir að stúlkan opnaði sig um atvik það sem nefnt er að framan og gerst hafi í janúar 2005.

VI.

A.

Fyrir liggur að haldið var samkvæmi á þáverandi dvalarstað ákærða að Þjóðólfsvegi 16 í Y aðfaranótt laugardags eða sunnudags í janúar 2005. Ekkert þeirra vitna sem skýrslu gaf fyrir dómi gat sagt til um það með nokkurri vissu hvenær sá gleðskapur fór fram. Þá verður nákvæm dagsetning málsatvika heldur ekki ráðin af þeim skriflegu gögnum sem lögð hafa verið fram í málinu en þó þykir af þeim mega ráða að langlíklegast sé að atvik máls hafi gerst annaðhvort á tímabilinu frá 7.-9. janúar eða tímabilinu frá 14.-16. þess mánaðar. Samkvæmt þessu verður engu slegið föstu um dagsetningu nefnds samkvæmis, svo ekki verði vefengt með skynsamlegum rökum, sbr. 45. og 46. gr. laga nr. 19/1991.

Ákærði bar fyrir dómi að hann hefði ekkert þekkt stúlkurnar A og B er atvik máls gerðust. Var vætti stúlknanna um þetta atriði á sömu lund en báðar sögðust þær hafa verið ákærða ókunnugar og verið að hitta hann í fyrsta sinn í samkvæminu. Hvað aldur A varðar sérstaklega er ljóst að hún var þá ekki orðin fullra 14 ára. Fyrir dómi voru ákærði, stúlkurnar tvær og D spurð um hvort aldur stúlknanna hefði komið til tals í gleðskapnum og gat ekkert þeirra staðfest að svo hefði verið. Samkvæmt því og í ljósi þess að einungis voru fjórir til fimm mánuðir þar A yrði fullra 14 ára er atvik máls gerðust þykir ósannað, sbr. 45. og 46. gr. laga nr. 19/1991, að ákærða hafi hlotið að vera ljóst að stúlkan væri einungis 13 ára gömul.

Í fyrsta tölulið ákæru er ákærða gefið að sök að hafa afklætt A svo hún var í nærbuxum einum fata, lagst ofan á hana og káfað á brjóstum hennar og reynt að kyssa hana. Til stuðnings þessum sakargiftum er framburður stúlkunnar, bæði fyrir dómi í Barnahúsi og er aðalmeðferð málsins var fram haldið 14. janúar sl. Þá má telja framburði B og D, þess efnis að A hafi verið grátandi er hún kom út úr herberginu um nóttina, framburði stúlkunnar til nokkurs stuðnings.

Ákærði hefur neitað lýstum ásökunum A og ekkert kannast við náin samskipti við stúlkuna þessa nótt. B hins vegar bar fyrir dómi að í stofu íbúðarinnar um nóttina hefði ákærði setið í stól og A ofan á honum og hefðu þau verið að kyssast og káfa hvort á öðru. Ákærði hefði síðan farið með A inn í svefnherbergi þar sem hún hefði verið orðin svolítið drukkin. Tók B sérstaklega fram að „... hann tók hana ekki með valdi þangað inn, hún reyndi ekkert að komast frá honum þá.“ Fyrir dómi 14. janúar sl. neitaði A aðspurð því að þau ákærði hefðu verið að kyssast áður en þau fóru inn í herbergið „... alla vega ekki svo ég muni sko ...“ Kom fram hjá stúlkunni að minni hennar af atburðum næturinnar væri verulega skert þar sem hún hefði verið orðin „rosalega ölvuð“. Er þessi lýsing stúlkunnar á ástandi sínu í ágætu samræmi við framburð annarra vitna, t.d. B og C en hann sagði stúlkuna hafa komið „sótölvaða“ út úr húsinu síðar um nóttina.

Eins og áður er rakið þykir ósannað að ákærða hafi hlotið að vera ljóst að A væri einungis 13 ára gömul er hún kom í samkvæmi á dvalarstað hans. Þá er einnig ósannað að hann hafi látið sér aldur stúlkunnar í léttu rúmi liggja. Þegar að þessu virtu verður ákærði ekki sakfelldur fyrir brot gegn 2. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga gagnvart stúlkunni.

Eins og nefnt var að framan bar A fyrir dómi að minni hennar af atburðum næturinnar væri verulega skert þar sem hún hefði verið orðin mjög ölvuð. Verður við mat á framburði stúlkunnar ekki fram hjá þessu ástandi hennar litið. Þá verður ennfremur að horfa til þess að A hefur ekkert getað borið um hvernig það atvikaðist að hún fór inn í svefnherbergið með ákærða og heldur ekki um atvik fram að því að hún vaknaði við það að ákærði var að kyssa hana og káfa á henni lítt klæddri inni í svefnherberginu. Er þau atvik eru sett í samhengi við það sem rakið hefur verið úr framburði B um samskipti ákærða og A í stofunni þykir því einnig óvarlegt að telja sannað að ákærði hafi gerst sekur um brot á 209. gr. almennra hegningarlaga gagnvart stúlkunni, svo sem til álita hefði komið, enda málið sótt og varið samkvæmt því.

B hefur staðfastlega haldið því fram að ákærði hafi umrædda nótt, er einungis hún, D og ákærði voru eftir í íbúðinni, komið inn í svefnherbergi til þeirra D og lagst við hlið hennar. Hefði ákærði káfað á brjóstum hennar, innan klæða, og einnig niður eftir öðru læri hennar. Hún hefði beðið ákærða um að hætta sem þá hefði sagst vera lærður í nuddi og viljað sýna henni það. Ennfremur hefði hann tjáð stúlkunni að við nuddið þyrfti að „snerta brjóst og annað“. Sagði stúlkan káf ákærða alls ekki hafa komið sér fyrir sjónir sem nudd. Hún hefði síðan vakið D sem sagt hefði ákærða að fara út úr herberginu sem hann hefði gert.

Fyrir dómi sagði ákærði það alrangt hjá B að hann hefði lagst upp í rúmið og káfað á henni. Hann kannaðist hins vegar við að hafa farið inn í svefnherbergið en það hefði hann gert í þeim tilgangi að vekja D. Við skýrslugjöf hjá lögreglu 20. apríl 2007 hafði ákærði hins vegar aftekið með öllu að hafa komið inn í herbergið á meðan B og D voru þar inni. D bar um þessi atvik að hann hefði sofnað eftir að þau B fóru inn í herbergið. Síðar hefði stúlkan vakið hann og hefði ákærði þá verið kominn inn í herbergið og staðið við rúmið þeim megin sem hún lá. Áleit D B hafa verið hrædda og hefði hún haldið utan um hann. Um veru ákærða inni í herberginu bar D að sér hefði fundist „... rosalega skrýtið að hann hafi verið þarna, og af hverju?“ Kvaðst Dhafa innt ákærða eftir því hvað hann væri að vilja inni í herberginu en hann engu svarað og farið fram.

Svo sem áður er rakið er ósannað að atvik þau sem hér um ræðir hafi átt sér stað fyrir 14 ára afmæli B, 14. janúar 2005. Þegar af þeirri ástæðu verður ákærði ekki sakfelldur fyrir brot gegn 2. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga gagnvart stúlkunni. Hvað varðar meint brot ákærða gegn 209. gr. almennra hegningarlaga gegn B verður við mat á sönnunargildi framburðar ákærða ekki fram hjá því litið að við skýrslutöku hjá lögreglu vildi hann ekkert við það kannast að hafa farið inn í herbergið til stúlkunnar og D og gat ákærði fyrir dómi engar haldbærar skýringar gefið á hinum breytta framburði sínum. Framburður B hefur á hinn bóginn verið staðfastur og greinargóður undir rannsókn og rekstri málsins og þá fær hann nokkra stoð í áður tilvitnuðum framburði D. Samkvæmt öllu þessu þykir sannað gegn neitun ákærða, svo ekki verði vefengt með skynsamlegum rökum, sbr. 45. og 46. gr. laga nr. 19/1991 að ákærði hafi sýnt af sér þá háttsemi sem í öðrum tölulið ákæru greinir gagnvart stúlkunni og með því brotið gegn 209. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

A og B hafa staðfastlega haldið því fram að ákærði hafi veitt þeim áfengi á þáverandi dvalarstað sínum að Þjóðólfsvegi 16 í Y umrædda nótt í janúar 2005. Fær vætti stúlknanna að þessu leyti nokkra stoð í framburði vitnisins F. Ákærði hefur hins vegar neitað þessum sakargiftum og fær neitun ákærða nokkra stoð í framburði G, dóttur hans, og D fyrir dómi.

Við mat á sönnunargildi framburða ofangreindra vitna og ákærða verður til þess að líta að ekkert hefur annað komið fram í málinu en A og B hafi verið allsgáðar er þær komu í samkvæmið. Þá verður ekki horft fram hjá hinum nána skyldleika ákærða og G við mat á framburði hennar. Að lokum þykir það draga nokkuð úr gildi framburðar D, hvað umrætt sakarefni varðar, að fyrir lögreglu 15. febrúar 2007 bar hann að A og B hefðu, líkt og aðrir gestir í samkvæminu, gengið í áfengi ákærða að vild og hefði ákærði haft um það fulla vitneskju og ekki latt þær til neyslunnar.

Samkvæmt öllu framansögðu þykir ekki óvarlegt að telja sannað með framburðum A og B gegn neitun ákærða, svo ekki verði vefengt með skynsamlegum rökum, sbr. 45. og 46. gr. laga nr. 19/1991, að ákærði hafi veitt stúlkunum áfengi á þáverandi dvalarstað sínum, svo sem honum er gefið að sök í þriðja tölulið ákæru, og er það brot ákærða réttilega heimfært til refsiákvæða í ákæru.

B.

Svo sem fram kemur í kafla II B játaði ákærði við fyrirtöku málsins 25. október sl. sakargiftir samkvæmt ákæru lögreglustjórans á Vestfjörðum, útgefinni 10. september 2007. Áréttaði ákærði þá afstöðu sína er aðalmeðferð málsins var fram haldið 14. fyrri mánaðar. Er játning ákærða í samræmi við gögn málsins. Umferðarlagabrot hans telst því sannað og varðar það við tilgreind lagaákvæði í ákæru lögreglustjóra.

VII.

Samkvæmt vottorði sakaskrár ríkisins á ákærði talsverðan sakaferil að baki. Á árunum 1988 til 1990 hlaut hann sex refsidóma fyrir margvísleg brot gegn almennum hegningarlögum. Með dómi 21. september 1992 var ákærði dæmdur til tveggja ára og sex mánaða fangelsisvistar fyrir brot gegn 194. gr., 1. mgr. 217. gr. og 1. mgr. 257. gr. almennra hegningarlaga. Hinn 30. október 1997 var ákærði dæmdur í 30 daga fangelsi fyrir fjársvik. Í desember 2000 hlaut ákærði sektardóm fyrir ölvunarakstur og þá gekkst hann tæpum tveimur árum síðar undir sátt í Noregi fyrir brot gegn „17. gr. lösgjengerloven frá 31. maí 1900 nr. 5 (Slagsmál)“. Á árunum 2004 og 2005 gekkst ákærði undir þrjár sektargerðir vegna fíkniefnabrota. Hinn 22. mars 2005 var ákærði dæmdur í 60 daga fangelsi, skilorðsbundið í fjögur ár, fyrir nytjastuld og þá var hann 3. nóvember sama ár dæmdur í 30 daga fangelsi, skilorðsbundið í fjögur ár, fyrir þjófnað og fíkniefnabrot. Að endingu var ákærði 1. febrúar 2006 dæmdur í 90 daga fangelsi, skilorðsbundið í fjögur ár, fyrir líkamsárás og ölvunarakstur. Í því máli var dómurinn frá 22. mars 2005 tekinn upp og dæmdur með, en hins vegar var ekki hróflað við dómnum frá 3. nóvember sama ár. Með umferðarlagabroti sínu 4. desember 2006 rauf ákærði skilorð tveggja síðastgreindra dóma.

Með vísan til 60. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 ber að taka dómana  frá 3. nóvember 2005 og 1. febrúar 2006 upp og dæma þau mál með í máli þessu og ákvarða ákærða refsingu í einu lagi að teknu tilliti til 78. gr. almennra hegningarlaga hvað varðar brot þau sem framin voru fyrir uppsögu nefndra dóma, en að teknu tilliti til 77. gr. laganna hvað umferðarlagabrotið varðar.

Samkvæmt öllu framangreindu og að brotum ákærða virtum þykir refsing hans hæfilega ákveðin sex mánaða fangelsi. Vegna sakaferils ákærða þykir ekki fært að skilorðsbinda refsingu hans að neinu leyti.

VIII.

A.

Samkvæmt niðurstöðu dómsins hér að framan ber skv. 3. mgr. 172. gr. laga nr. 19/1991 að vísa bótakröfu A frá dómi.

B.

Í málinu gerir J, fyrir hönd ólögráða dóttur sinnar, B, kröfu þess efnis að ákærði verði dæmdur til að greiða stúlkunni miskabætur skv. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 að fjárhæð 350.000 krónur, auk vaxta samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 1. febrúar 2005 til 29. september 2007, en dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags. Um fjárhæð miskabótakröfunnar er vísað til dómafordæma Hæstaréttar Íslands í sambærilegum málum. Þá er auk áðurgreindra ákvæða vísað til 4. og 9. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu til stuðnings vaxtakröfunni.

Af hálfu brotaþola er vísað til þess að af kynferðisbroti ákærða hafi hlotist miskatjón sem hann beri ábyrgð á samkvæmt sakarreglu skaðabótaréttar og skaðabótalögum. Brotaþoli hafi sótt sálfræðiviðtöl hjá Margréti Magnúsdóttur, sálfræðingi í Barnahúsi, til að leitast við að vinna úr áfallinu.

Einnig er til þess vísað að bætur fyrir miskatjón skv. 26. gr. skaðabótalaga 50/1993 skuli ákvarðast eftir því sem sanngjarnt þyki. Við mat á fjárhæð miskabóta beri almennt að líta til þess hversu alvarlegt brotið sé, sakarstigs, huglægrar upplifunar brotaþolans og umfangs tjónsins. Í því tilviki sem hér um ræði verði að horfa til þess að brotaþoli var „rétt orðin(n) 14 ára“ (sic) og því á honum og ákærða mikill aldursmunur og einnig aðstöðumunur sem ákærði hefði nýtt sér. Þá hafi brotaþoli orðið fyrir alvarlegri andlegri og félagslegri röskun í kjölfar brots ákærða.

C.

Brotaþoli á rétt til miskabóta úr hendi ákærða vegna þeirrar ólögmætu meingerðar sem í broti hans fólst, sbr. b-lið 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Að brotinu virtu þykja miskabætur stúlkunni til handa hæfilega ákvarðaðar 150.000 krónur með vöxtum skv. 8. gr., sbr. 4. gr., laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 1. febrúar 2005 til 29. september 2007, en dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. sömu laga, sbr. 9. gr. laganna, frá þeim degi til greiðsludags.

IX.

Í samræmi við niðurstöðu málsins verður ákærði dæmdur til að greiða sakarkostnað vegna skýrslugjafar vitnis í Barnahúsi, 33.959 krónur. Hann greiði ennfremur helming þóknunar verjanda á rannsóknarstigi, sem nam 95.074 krónum, og helming málsvarnarlauna skipaðs verjanda síns, Sveins Andra Sveinssonar hrl., sem þykja hæfilega ákveðin 370.512 krónur að virðisaukaskatti meðtöldum, sem og helming ferðakostnaðar verjanda er nam 25.964 krónum. Þá greiði ákærði jafnframt helming þóknunar skipaðs réttargæslumanns brotaþola, Sifjar Konráðsdóttur hrl., bæði á rannsóknarstigi málsins og fyrir dómi, en þóknunin þykir hæfilega ákveðin samtals 129.480 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti. Samkvæmt öllu þessu dæmist ákærði til að greiða 33.959+(95.074÷2)+(370.512÷2)+(25.964÷2)+(129.480÷2), eða samtals 344.474 krónur í sakarkostnað.

Dóm þennan kveður upp Kristinn Halldórsson héraðsdómari, sem dómsformaður, ásamt meðdómsmönnunum Benedikt Bogasyni og Símoni Sigvaldasyni héraðsdómurum. Dómsuppkvaðning hefur dregist nokkuð vegna starfsanna dómsformanns.

D Ó M S O R Ð:

Ákærði, Guðni Þorberg Theodórsson, sæti sex mánaða fangelsi.

Ákærði greiði B 150.000 krónur ásamt vöxtum skv. 8. gr., sbr. 4. gr., laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 1. febrúar 2005 til 29. september 2007, en dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.

Bótakröfu A er vísað frá dómi.

Ákærði greiði 344.474 krónur í sakarkostnað. Allur annar kostnaður sakarinnar greiðist úr ríkissjóði.

Sératkvæði

Símonar Sigvaldasonar

Ég er sammála meirihluta dómenda um sakarefni samkvæmt 2. og 3. tl. ákæru. Að því er varðar sakarefni samkvæmt 1. tl. ákæru er niðurstaða mín þessi. Ákærða er samkvæmt þessum tölulið gefið að sök kynferðisbrot gagnvart A með því að hafa í janúar 2005 á þáverandi dvalarstað ákærða að Þjóðólfsvegi 16 í Y afklætt stúlkuna svo hún var á nærbuxum einum fata, lagst ofan á hana og káfað á brjóstum hennar og reynt að kyssa hana að næturlagi.

                Við mat á sönnun í kynferðisbrotamálum þar sem ákærði neitar sök er sú staða oftast uppi að framburður ákærða og brotaþola ganga hvor gegn öðrum og sjaldnast öðrum beinum sönnunargögnum til að dreifa. Reynir þá á mat á trúverðugleika framburðar í málinu og er sú staða uppi í máli þessu. Við mat á því hvorn framburð leggja beri til grundvallar niðurstöðu er miðað við hvort eitthvað sé fram komið sem styður framburði ákærða eða brotaþola.

                Að mínu mati er framburður A trúverðugur. Hefur hún verið sjálfri sér samkvæm alla tíð. Þá hefur hún ekki gert meira úr hlutum en efni standa til og alls ekki dregið fjöður yfir það að hún hafi verið mjög ölvuð þessa nótt. Hefur hún verið einkar hreinskilin í framburði sínum. Það sem síðan styður framburð hennar um að eitthvað alvarlegt hafi gerst í herberginu umrædda nótt er í fyrsta lagi framburðir B og D. B hefur borið að A hafi verið hrædd er hún hafi komið út úr herbergi íbúðarinnar þar sem A og ákærðu voru tvö ein. D hefur borið að A hafi verið bæði grátandi og hrædd. Þá hafa bæði B og D borið að ákærði hafi verið að kyssa A í stofunni. A kveðst ekki muna eftir því en telur það þó geta hafa átt sér stað.

                Það sem í annan stað styður framburð A er að sálfræðingur er tók viðtal við stúlkuna hefur greint hjá henni ótvírætt að hún hafi orðið fyrir áfalli í janúar 2005. Það áfall megi rekja til atburða sem átt hafi sér stað umrætt sinn. Líðan stúlkunnar hafi hins vegar farið batnandi eftir viðtölin. 

                Í þriðja lagi hefur móðir stúlkunnar greint frá því að A hafi öll breyst eftir þessa atburði í janúar 2005. Hafi lífsstíll hennar orðið mjög slæmur en fram er komið að þá hafi stúlkan farið að bæði reykja og drekka. Ekkert annað er fram komið í málinu er skýrir svo mikið breytta hegðun stúlkunnar.

                Framburður ákærða hefur hins vegar verið einkar ótrúverðugur í heild sinni. Hefur hann orðið missaga um atburði eins og varðandi för sína inn í herbergið til B og D, svo sem nánar er rakið í dómi. Þá hefur hann verið mjög umtalsillur um stúlkurnar en hann fullyrðir að þær hafi verið komnar á staðinn til að leita sér að kynferðislegum athöfnum. Stúlkurnar voru þá einungis 13 og 14 ára að aldri. Þá er framburður hans um að A hafi flett upp um sig og sýnt honum á sér brjóstin afar ótrúverðugur.

                Þegar öll þau atriði eru virt sem hér að framan eru rakin er það niðurstaða mín að ég tel rétt að leggja framburð A til grundvallar niðurstöðu. Hefur ákærði með því orðið sannur að því að hafa afklætt A í herberginu umrædda nótt þannig að hún var á nærbuxum einum fata, lagst ofan á hana og káfað á brjóstum hennar og reynt að kyssa hana.

                A var 13 ára er þessir atburðir áttu sér stað, en hún varð ekki 14 ára fyrr en seinni partinn í maí 2005. Niðurstaða málsins um heimfærslu til refsiákvæða ræðst af því hvað ákærða var eða mátti vera ljóst um aldur stúlkunnar. Í málinu liggja frammi myndir af A í skjali merkt I/3.1 í rannsóknargögnum málsins. Þar er mynd tekin af A sem sögð er vera frá fyrri hluta árs 2005. Önnur mynd af stúlkunni er frá í nóvember sama ár. Myndirnar bera ekki augljóslega með sér aldur og þroska stúlkunnar. Framburður ákærða hefur verið ótrúverðugur svo sem áður var rakið. Ákærði skýrði frá því fyrir dóminum að hann hafi vitað að stúlkurnar væru ungar  er þær komu  á  heimili  hans. Þá bar C að  ákærði hafi næsta dag sagt að hann hafi ekki vitað fyrr en seint og um síðir hve ung stúlkan hafi verið. Þegar til þessa framburðar C er litið tel ég að hægt sé að byggja á því sem ákærði sagði fyrir dómi um aldur stúlknanna. Tel ég því með vísan til þess, sem og þeirra mynda sem fyrir liggja í málinu, að ákærða hafi ekki getað dulist að A var mjög ung að árum og að hann hafi látið sér það í léttu rúmi liggja og ekki látið það aftra gerðum sínum gagnvart stúlkunni. Með því liggur að mínu mati fyrir lægsta stig ásetnings eða dolus eventualis. Samkvæmt því á að sakfella ákærða fyrir brot gegn 2. mgr. 202. gr. laga nr. 19/1940. Á það að hafa áhrif á refsingu ákærða til þyngingar, auk þess sem A á rétt á skaðabótum úr hendi ákærða. Þar sem aðrir dómendur eru á öðru máli um þessi atriði verður ekki um þau fjallað frekar.