Print

Mál nr. 88/2016

Tónlistarskólinn í Reykjavík (Guðni Á. Haraldsson hrl.)
gegn
Reykjavíkurborg (Kristbjörg Stephensen hrl.)
Lykilorð
  • Stjórnarskrá
  • Sveitarfélög
  • Sjálfseignarstofnun
  • Málsástæða
Reifun

T krafðist þess að viðurkennt yrði að R bæri greiðsluskyldu á launakostnaði T vegna kennslu- og stjórnunarkostnaðar við kennslu nemenda í framhaldsnámi í hljóðfæraleik og miðstigi og framhaldsstigi í söng nánar tiltekin skólaár. Ágreiningur málsins laut að því hvort sú ákvörðun R að hætta fjárstuðningi við T vegna kostnaðar við kennslu í fyrrgreindu námi hefði verið lögmæt, en sú ákvörðun hefði verið tekin í kjölfar samkomulags Í og S um eflingu tónlistarnáms og jöfnun á aðstöðumun nemenda til tónlistarnáms. Í dómi Hæstaréttar kom fram að 8. og 10. gr. laga nr. 75/1985 um fjárhagslegan stuðning við tónlistarskóla yrðu ekki skilin svo að í þeim fælist fortakslaus skylda sveitarfélaga til að fjármagna tónlistarkennslu allra þeirra sem slíkir skólar ákvæðu að veita kennslu og að þeim væri óheimilt að setja nokkrar skorður í þeim efnum. Var R því sýknað af kröfu T.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Greta Baldursdóttir og Helgi I. Jónsson og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 4. febrúar 2016. Hann krefst þess að viðurkennt verði að stefndi beri greiðsluskyldu á launakostnaði áfrýjanda vegna kennslu- og stjórnunarkostnaðar við kennslu nemenda í framhaldsnámi í hljóðfæraleik og miðstigi og framhaldsstigi í söng fyrir skólaárin 2011 til 2012, 2012 til 2013 og 2013 til 2014. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

I

Málsatvikum eru gerð greinargóð skil í hinum áfrýjaða dómi, en eins og þar er rakið er áfrýjandi sjálfseignarstofnun sem hefur starfað samkvæmt skipulagsskrá frá árinu 1997.  Samkvæmt 4. gr. skipulagsskrárinnar fyrir skólann byggir hann starfsemi sína á fjárveitingum samkvæmt lögum nr. 75/1985 um fjárhagslegan stuðning við tónlistarskóla. Í þeim lögum eru ýmis ákvæði um hvernig kostnaðarþátttöku sveitarfélaga er háttað varðandi sjálfstætt starfandi tónlistarskóla. Þannig segir í 8. gr. þeirra að tónlistarskólar sem eigi eru reknir af sveitarfélögum skuli senda áætlun um kennslu á næsta fjárhagsári til viðkomandi sveitarstjórnar ekki síðar en 1. maí ár hvert. Í 2. mgr. 8. gr. laganna er kveðið á um að sveitarstjórn skuli taka afstöðu til áætlunar skólans og gera samkomulag við skólastjórn um kennslu og starfsmannahald fyrir 1. júlí ár hvert. Jafnframt segir í 10. gr. laganna að tónlistarskólar sem eigi eru reknir af sveitarfélögum skuli fá greiddan úr sveitarsjóði launakostnað kennara og skólastjóra í samræmi við rekstaráætlun og þær breytingar sem verði á launatöxtum í samræmi við kjarasamninga.

Í kjölfar samkomulags íslenska ríkisins og Sambands íslenskra sveitarfélaga 13. maí 2011 um eflingu tónlistarnáms og jöfnun á aðstöðumun nemenda til tónlistarnáms voru forsvarsmenn tónlistarskóla í Reykjavíkurborg upplýstir um þá ákvörðun stefnda að hætta fjárstuðningi vegna kennslu í hljóðfæranámi á framhaldsstigi og söngnámi á mið- og framhaldsstigi. Samkvæmt þjónustusamningi við áfrýjanda 5. september 2012, er tók gildi 1. sama mánaðar og gilti til 31. ágúst 2015, tók fjárstuðningur stefnda aðeins til kennslukostnaðar vegna nemenda á grunn- og miðstigi í hljóðfæranámi og grunnstigi í söng. (3,98)

Ágreiningur máls þessa lýtur að því hvort sú ákvörðun stefnda að hætta fjárstuðningi við áfrýjanda vegna kostnaðar við kennslu í hljóðfæranámi á framhaldsstigi og söngnámi á mið- og framhaldsstigi hafi verið lögmæt.

II

Fallist er á með héraðsdómi, að sú málsástæða áfrýjanda er lýtur að þýðingu þess að rétt eintak reglna um þjónustusamninga Reykjavíkurborgar við tónlistarskóla hafi ekki legið frammi við undirritun þjónustusamnings aðila 5. september 2012, hafi verið of seint fram komin og komist því ekki að við úrlausn málsins, sbr. 5. mgr. 101. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

Fyrir Hæstarétti tefldi áfrýjandi þeirri málsástæðu að ekki lægi fyrir formleg ákvörðun stefnda þess efnis að fella niður þær greiðslur sem ágreiningur málsins lýtur að vegna skólaársins 2011 til 2012 og eigi því greiðsluskylda stefnda vegna þess skólaárs að vera óumdeild. Þessari málsástæðu var ekki haldið fram undir rekstri málsins í héraði. Að því gættu er ekki fullnægt skilyrðum 2. mgr. 163. gr. laga nr. 91/1991 til að hún fái komist að hér fyrir dómi.  

III

Sveitarfélög ráða sjálf málefnum sínum og hafa sjálfsforræði á eigin tekjustofnum, sbr. 78. gr. stjórnarskrárinnar. Þeim er og skylt að gera ráð fyrir útgjöldum sínum í árlegri fjárhagsáætlun, sbr. 62. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011, þar með talið áætluðum fjárútlátum til tónlistarskóla. Í þessu ljósi ber að túlka framangreind ákvæði laga nr. 75/1985, sem fela í sér þá skyldu sveitarfélags að styðja við tónlistarkennslu í sjálfstætt starfandi tónlistarskólum, sbr. 1. mgr. 3. gr. laganna. Þau verða á hinn bóginn ekki skilin svo að í þeim felist fortakslaus skylda sveitarfélaga til að fjármagna tónlistarkennslu allra þeirra sem slíkir skólar ákveða að veita kennslu og þeim sé óheimilt að setja nokkrar skorður í þeim efnum. Er því fallist á niðurstöðu hins áfrýjaða dóms að ekki verði af lögum ráðið að sú skylda hvíli á stefnda að veita fjármunum sínum til áfrýjanda á þann hátt sem krafist er í málinu eða að slík greiðsluskylda verði ráðin af einkaréttarlegum skuldbindingum aðila. Verður hinn áfrýjaði dómur því staðfestur, en um málskostnað fyrir Hæstarétti fer eins og greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.

Áfrýjandi, Tónlistarskólinn í Reykjavík, greiði stefnda, Reykjavíkurborg, 500.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

                                                                 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 13. nóvember 2015.

                Mál þetta, sem var dómtekið miðvikudaginn 14. október sl., er höfðað 12. mars 2015. Stefnandi er Tónlistarskólinn í Reykjavík, Skipholti 33, Reykjavík, en stefndi er Reykjavíkurborg, Ráðhúsinu við Tjörnina, Tjarnargötu, Reykjavík. Íslenska ríkinu, Arnarhváli við Lindargötu í Reykjavík er stefnt til réttargæslu.

                Sakarefni málsins var skipt að ósk málsaðila og með samþykki dómara í þinghaldi fimmtudaginn 8. október sl. og eru dómkröfur í þessum þætti málsins eftirfarandi.

                Stefnandi krefst þess að viðurkennt verði með dómi að stefndi Reykjavíkurborg beri greiðsluskyldu á launakostnaði stefnanda vegna kennslu- og stjórnunarkostnaðar við kennslu nemenda í framhaldsnámi í hljóðfæraleik og miðstigi og framhaldsstigi í söng fyrir skólaárin 2011/2012, 2012/2013 og 2013/2014.

                Stefndi krefst sýknu og málskostnaðar.

                Af hálfu réttargæslustefnda eru ekki gerðar sérstakar kröfur enda engum kröfum beint gegn honum í málinu.

I

                Í málinu er ekki teljandi ágreiningur um helstu málsatvik. Stefnandi er sjálfseignarstofnun sem stofnuð er árið 1930 og starfar skv. skipulagsskrá frá árinu 1997.  Markmið hans er rekstur tónlistarskóla og veitir hann nemendum alhliða menntun í tónlistarnámi og býr nemendur sína þannig undir störf tónlistarmanna og tónlistarkennara. Lokapróf frá skólanum eru framhaldspróf og burtfararpróf í hljóðfæraleik og söng. Samkvæmt 4.gr. skipulagsskrár fyrir skólann byggir hann starfsemi sína á fjárveitingum skv. lögum nr. 75/1985 um fjárhagslegan stuðning við tónlistarskóla. Samkvæmt 9. gr. laganna skulu starfsmenn stefnanda njóta launa í samræmi við kjarasamninga á hverjum tíma. Samkvæmt 10. gr. sömu laga skal stefnandi fá greiddan úr sveitarsjóði launakostnað kennara og skólastjóra í samræmi við samkomulag um rekstraráætlun og þær breytingar sem verða á launatöxtum í samræmi við framangreinda kjarasamninga. Samkvæmt 11. gr. sömu laga skal stefnandi innheimta skólagjöld af nemendum skólans til að standa undir öðrum kostnaði við skólareksturinn en launakostnaði kennara og skólastjóra, að svo miklu leyti sem rekstrarkostnaðurinn er ekki borinn af styrktarmeðlimum eða annarri fjáröflun.

                Með setningu laga nr. 75/1985 var kveðið á um að ríki og sveitarfélög skiptu launakostnaði starfsmanna tónlistarskóla jafnt sín á milli. Með lögum nr. 87/1989 um breytingu á verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga var lögum nr. 75/1985 breytt á þann hátt að sveitarfélög greiddu ein launakostnað kennara og skólastjóra tónlistarskóla.

                Hinn 19. maí 2005 samþykkti stefndi reglur um þjónustusamninga Reykjavíkurborgar við tónlistarskóla. Reglurnar fólu í sér að þjónustukaup borgarinnar miðuðust við aldur nemenda þannig að nemendur við tónlistarskólana væru á aldrinum 4-25 ára, en söngnemendur allt að 27 ára.

                Hinn 1. september 2005 undirrituðu aðilar þjónustusamning með það að markmiði að styrkja og efla tónlistarskólanám í Reykjavík. Í samningnum fólst að stefnandi skyldi kenna tilteknum lágmarksfjölda nemenda sem hefðu lögheimili í Reykjavík. Á móti greiddi stefndi umsamda fjárhæð í samræmi við 10. gr. laga nr. 75/1985. Var fjárframlagið heildarframlag stefnda til stefnanda en skyldi taka breytingum í samræmi við meðalbreytingu launa samkvæmt kjarasamningum. Gilti samningurinn fyrir tímabilið 1. september 2005 til 31. ágúst 2008.

                Hinn 29. september 2010 undirrituðu aðilar nýjan þjónustusamning sem gilti fyrir tímabilið 1. september 2010 til og með 31. ágúst 2011. Var samningurinn að mestu samhljóða þjónustusamningnum sem áður hafði gilt og var hann gerður með fyrirvara um fjárheimildir í fjárhagsáætlun stefnda fyrir árið 2011.

                Hinn 13. maí 2011 gerðu Samband íslenskra sveitarfélaga og mennta- og menningarmálaráðuneytið með sér samkomulag um eflingu tónlistarnáms og jöfnun á aðstöðumun nemenda til tónlistarnáms. Kveður stefndi að samkomulagið hafi meðal annars verið gert í framhaldi af viðleitni stefnda til þess að fá ríkið að fjármögnun á efri stigum tónlistarnáms.

                Samkvæmt 1. gr. samkomulagsins er markmið þess að leggja grundvöll að eflingu tónlistarnáms með aðkomu ríkissjóðs að fjármögnun kennslukostnaðar í tónlistarskólum, þrátt fyrir ákvæði laga nr. 75/1985. Samkvæmt samkomulaginu bar sveitarfélögum meðal annars að tryggja að nemendur sem uppfylltu inntökuskilyrði tónlistarskóla og reglur um námsframvindu gætu stundað tónlistarnám á framhaldsstigi í hljóðfæraleik og á mið- og framhaldsstigi í söng án tillits til búsetu, sbr. 4. gr. samkomulagsins. Í samkomulaginu kom fram að aðilar væru sammála um að ríkissjóður veitti árlega framlag að upphæð kr. 480.000.000.- vegna kennslukostnaðar í tónlistarskólum. Var framlagið greitt til Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga og var því ætlað að standa straum af kennslukostnaði í tónlistarskólum vegna hljóðfæranáms á framhaldsstigi og söngnáms á mið- og framhaldsstigi og tengdum kostnaði. Á móti skuldbundu sveitarfélögin sig til að taka yfir ný verkefni frá ríki sem næmi kr. 230.000.000.-.  

                Í samræmi við framangreint samkomulag var breyting gerð á lögum nr. 75/1985 þar sem bætt var við ákvæði til bráðabirgða, þar sem fram kom að ríkissjóður greiddi árlegt framlag á árunum 2011 - 2014 í Jöfnunarsjóð sveitarfélaga til að standa straum af kennslukostnaði að viðbættu álagi fyrir stjórnunarkostnað vegna söngnáms á miðstigi og söng- og hljóðfæranáms á framhaldsstigi. Með reglugerð nr. 23/2013 voru settar nánari reglur um framkvæmd þessa.

                Samkomulagið, sem tók gildi 1. júlí 2011 og gilti í fyrstu til 31. ágúst 2013 en var síðar framlengt til loka árs 2014, er samningur milli íslenska ríkisins og sambands íslenskra sveitarfélaga f.h. sveitarfélaga. Tónlistarskólar eru ekki aðilar að samkomulaginu.

                Stefnandi lýsir því í stefnu að fljótlega eftir gerð fyrrnefnds samkomulags hafi stefndi gert forsvarsmönnum tónlistarskóla í Reykjavík, þar með talið stefnanda, það ljóst að framlag borgarinnar til kennslu hljóðfæranáms á framhaldsstigi og söngnáms á mið- og framhaldsstigi yrði fellt niður. Forsvarsmenn skólanna mótmæltu þessu.

                Kemur fram hjá stefnanda að skólaárið 2011/2012 hafi hann fengið greiddar kr. 91.2 milljónir sem fasta greiðslu frá stefnda og síðan viðbót upp á kr. 41.5 milljónir. Tekjuafgangur hafi því verið upp á kr. 7.452.621. kr. það skólaár. Um þetta atriði kveður stefndi að á tímabilinu janúar til júlí 2012 hafi borgarráð samþykkt sérstakar lánveitingar til stefnda en um hafi verið að ræða fyrirframgreiðslur upp í væntanlegan þjónustusamning við stefnda. Hafi stefnandi ekki endurgreitt lánin. Stefnandi mótmælir því að um lán hafi verið að ræða.

                Hinn 29. maí 2012 setti stefndi sér reglur um þjónustusamninga Reykjavíkurborgar við tónlistarskóla. Reglurnar taka til þjónustusamninga og úthlutunar fjármuna stefnda til tónlistarskóla í Reykjavík, sbr. lög nr. 75/1985 og aðalnámskrá tónlistarskóla, sbr. auglýsingu nr. 529/2000. Skilyrði þess að tónlistarskóli fái fjárframlög frá stefnda er að viðkomandi tónlistarskóli fari að fullu að reglunum. Kveða reglurnar meðal annars á um að fjárframlög til tónlistarskóla séu einungis vegna nemenda með lögheimili í Reykjavík sem falli utan samkomulagsins frá 13. maí 2011.

                Hinn 5. september 2012 undirrituðu aðilar nýjan þjónustusamning sem  tók gildi 1. september 2012 og gildir til þriggja ára, eða til 31. ágúst 2015. Er samningurinn að mestu leyti samhljóða samningunum sem áður höfðu gilt. Samningurinn gerir þó ráð fyrir að fjárframlag lækki og að árlegt framlag stefnda verði kr. 31.194.000.-. Sú breyting er einnig gerð frá samningnum á undan að ákvæði um fjölda nemenda er fellt út í hinum nýja samningi. Í stað þess kveður samningurinn á um að stefnandi skuli nýta árlegt framlag til greiðslu launakostnaðar kennara og skólastjóra í samræmi við þann fjölda nemendastunda sem tilgreindir eru í samningnum. Er framlag á síðari tveimur árum samningsins með fyrirvara um árlegan fjárhagsramma stefnda. Í samningnum er einnig kveðið á um að árlegt framlag samkvæmt samningnum taki „til kennslu þeirra nemenda sem falla undir reglur um þjónustusamninga Reykjavíkurborgar við tónlistarskóla“.

                Stefnandi kveður að umræddur þjónustusamningur hafi verið lagður fyrir stefnanda til undirritunar og hafi verið einhliða saminn af stefnda. Ekki hafi því verið um samningaviðræður að ræða. Við lestur samningsins hafi komið í ljós að stefndi hafi, líkt og árið áður, fellt niður greiðsluskyldu sína og kostnað vegna kennslukostnaðar við hljóðfæranám á framhaldsstigi og söngnám á mið- og framhaldsstigi. Þannig hafi kostnaður sá sem fram hafi komið að greiddur skyldi af stefnda til stefnanda ekki verið í neinu samræmi við launakostnað skólans á komandi skólaári. Þannig skyldi stefndi greiða til stefnanda kr. 31.194.000. í árlegt framlag, meðan slíkt framlag hafi numið kr. 83.506.000. í samningi aðila frá árinu 2010.  Þannig hafi stefndi einhliða fellt niður greiðslu á þessum kennslukostnaði stefnanda. Fulltrúar stefnanda hafi gert athugasemdir við þetta og hafi treyst því að þetta yrði lagfært.  Af hálfu stefnda er því mótmælt að athugasemdir hafi komið fram um efni samningsins og á það bent að hann hafi verið undirritaður án fyrirvara af hálfu samningsaðila.

                Í stefnu er það rakið að skólaárið 2012/2013 hafi stefndi  reitt fram kr. 31.880.000. til greiðslu fyrir kennslu á grunnstigi og hafi úthlutað greiðslu úr Jöfnunarsjóði að fjárhæð kr. 78.561.000. til greiðslu á kennslukostnaði fyrir hljóðfæranám á framhaldsstigi og söngnáms á mið- og framhaldsstigi. Samtals kr. 110.541.000. Kostnaður stefnanda vegna þessa sama hafi hins vegar numið  kr. 130.791.316. og því hafi rekstur skólans verið neikvæður um kr. 20.250.316. Skólaárið 2013/2014 hafi stefndi greitt kr. 31.892.006 og hafi úthlutað úr Jöfnunarsjóði kr. 78.562.344. Samtals kr. 110.544.350. Rekstrarkostnaður stefnanda hafi þetta sama skólaár verið kr. 138.996.880. Neikvæður rekstrarkostnaður þetta skólaár hafi því numið kr. 28.452.530. Samtals hafi neikvæður rekstrarkostnaður stefnanda fyrir skólaárin 2011/2012, 2012/2013 og 2013/2014  verið kr. 41.160.225. 

                Með bréfi til stefnda, dags. 22. desember 2014, gerði stefnandi kröfu um greiðslu skuldar vegna launakostnaðar, sem stafi af mismuni milli vangreidds launakostnaður vegna hljóðfæraleiks á framhaldsstigi og söngnáms á mið- og framhaldsstigi, samtals að síðastgreindri fjárhæð.

                Stefndi hafnaði greiðsluskyldu og samskipti aðila í kjölfarið leiddu ekki til sáttar. Var mál þetta því höfðað.

II

                Stefnandi kveðst byggja á því í málinu greiðsluskylda stefnda sem sveitarfélags sé bundin í lögum nr. 75/1985 um fjárhagslegan stuðning sveitarfélaga við tónlistarskóla. Áratuga hefð og framkvæmd á þessum lögum leiði það af sér að stefnda hafi borið að greiða þann launakostnað stefnanda sem fallið hafi til við kennslu í hljóðfæraleik á framhaldsstigi og söngnámi á mið- og framhaldsstigi. Stefndi Reykjavíkurborg geti nú ekki, í skjóli samkomulags um stuðning ríkisins við slíkt nám, skotið sér undan þessari lögbundnu skyldu sem eigi sér auk þess áratuga hefð. Þá sé stefndi stjórnvald og hafi því þurft að fara eftir skráðum sem óskráðum reglum stjórnsýsluréttar við þessar ákvarðanir sínar.

                Með lögum nr. 22/1975 um fjárhagslegan stuðning við tónlistarskóla hafi verið ákveðið að tónlistarskólar skyldu fá styrk úr ríkissjóði og sveitarsjóðum er næmi launakostnaði til kennara. Sveitarfélög skyldu sjá um framkvæmd launagreiðslna en styrkur ríkissjóðs skyldi nema 50% af launakostnaði, enda skyldu laun greidd skv. kjarasamningum á hverjum tíma. Tilgangur með setningu laga nr. 22/1975 hafi verið sá að gera öllum kleift að stunda nám án tillits til efnahags og stuðla að eflingu tónlistarkennslu sem víðast um landið.

                Með lögum nr. 75/1985 hafi þessi verkaskipting milli ríkis og sveitarfélaga haldist óbreytt, en með lögum nr. 87/1989 um breytingu á þeim lögum hafi verið ákveðið að sveitarfélögin ein skyldu framvegis bera launakostnað kennara og skólastjóra tónlistarskóla og hafi sú skylda verið óbreytt síðan.

                Því sé haldið fram að sú framkvæmd sem stefndi hafi tekið upp í framhaldi af samkomulagi ríkisins og Sambands ísl. sveitarfélaga frá maí 2011 sé andstæð ákvæðum laga nr. 75/1985 um fjárhagslegan stuðning við tónlistarskóla. Það samkomulag hafi ekki lagagildi, heldur séu þar sveitarfélög að semja við ríkið um að það veiti þeim styrk þannig að þau geti staðið að fjármögnun á kennslu tónlistarskóla. Í staðinn hafi sveitarfélögin tekið að sér hin ýmsu verkefni upp á 230 milljónir króna. Þannig lúti samkomulagið einnig að allt öðrum hlutum og breyti í engu greiðsluskyldu sveitarfélaga samkvæmt lögunum.

                Greiðsluskyldan komi fram í 10.gr. laga nr. 75/1985 þar sem segi: „Tónlistarskólar, sem eigi eru reknir af sveitarfélögum, skulu fá greiddan úr sveitarsjóði launakostnað kennara og skólastjóra í samræmi við rekstraráætlun og þær breytingar sem verða á launatöxtum í samræmi við framangreinda kjarasamninga. Greiðsla skal fara fram mánaðarlega samkvæmt nánara samkomulagi milli skólastjórnar og sveitarstjórnar.“

                Þá sé því haldið fram að ef skólar eins og stefnandi uppfylli þær skyldur sem lögin setji þeim þá verði sveitarfélög eins og stefndi að virða þessa lögbundnu greiðsluskyldu, enda hafi sveitarfélögum verið markaðir tekjustofnar til þess. Stefndi hafi ekki borið því við að stefnandi hafi vanrækt þær skyldur sem á honum hvíli skv. lögum nr. 75/1985. Þannig hafi stefnandi ávallt skilað inn til stefnda upplýsingum um nemendafjölda og öðrum þeim gögnum sem mælt sé fyrir um í lögunum. Þannig hafi stefnandi að fullu staðið við þær skyldur sem á hann hafi verið lagðar skv. lögum nr. 75/1985 skólaárin 2011-2014. Stefndi hins vegar hafi tekið sér það vald að fella niður greiðslur sínar á kennslukostnaði til náms í framhaldsstigi, þrátt fyrir að engin breyting hafi verið gerð á lögum nr. 75/1985 sem heimili honum þá framkvæmd. Skýring stefnda sé sú að ríkissjóður hafi tekið að sér þessar skyldur. Það sé hins vegar rangt.

                Ríkissjóður hafi ekki tekið að sér þessar skyldur með samkomulagi aðila frá árinu 2011. Það samkomulag sé milli ríkisins og Sambands ísl. sveitarfélaga. Tónlistarskólar eins og stefnandi hafi og eiga enga aðild átt að því samkomulagi. Það geti því ekki breytt lögbundnum réttindum þeirra. Eins og fram komi í 2. gr. samkomulagsins taki ríkissjóður að sér að veita árlega 520 milljónum króna til Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga vegna kennslukostnaðar við tónlistarskóla. Þannig sé fjárframlagið ekki bundið við áætlaðan kennslukostnað eftir nemendafjölda eða launum kennara og skólastjórnenda, heldur sé það ákveðin föst fjárhæð. Þannig taki ríkið í raun ekki að sér skyldur sveitarfélaganna, heldur veiti þeim styrk til þess að geta staðið við skyldur þeirra skv. lögum nr. 75/1985. Ef það sé skoðun Sambands íslenskra sveitarfélaga og stefnda að ríkið hafi ekki staðið við samkomulagið, þá sé það þeirra að krefja ríkið um aukin framlög eins og reyndar hafi verið gert. Það breyti hins vegar ekki lögbundnum skyldum stefnda.

                Af 6. gr. samkomulagsins megi glöggt sjá að aðilar þess hafi haft í hyggju að endurskoða það og festa það frekar í sessi þannig að náð yrði þeim markmiðum sem glöggt megi sjá að stefnt hafi verið að með gerð þess. Að sú vinna hafi hins vegar ekki verið unnin sem skyldi eigi ekki að losa stefnda undan lögbundnum skyldum hans, né eigi það að leiða til þess að réttindi nemenda lögum samkvæmt falli niður.

                Þá hafi það verið skilningur bæði fyrrverandi og núverandi menntamálaráðherra að samkomulagið ætti að tryggja sveitarfélögum viðbótarframlag til málaflokksins, en væri ekki yfirtaka á þeim skyldum sem hafi hvílt á stefnda og öðrum sveitarfélögum.

                Einnig verði að hafa í huga að ekki hafi verið hreyft við tekjustofnun sveitarfélaga frá því að þau hafi tekið yfir greiðsluskyldu á kennslukostnaði tónlistarskóla. Styðji þessi staðreynd enn frekar við þá skyldu sem hvíli á stefnda.

                Kópavogsbær og Ísafjörður hafi séð um að greiða launakostnað einkarekinna tónlistarskóla. Reykjavíkurborg sé eina sveitarfélagið sem fellt hafi niður greiðslur sínar eftir samkomulagið frá maí 2011.

                Þá sé því einnig haldið fram að áratuga hefðbundin framkvæmd á lögum nr. 75/1985 um fjárhagslegan stuðning við tónlistarskóla þar sem stefndi hafi athugasemdarlaust greitt framlög til kennslukostnaðar vegna hljóðfæraleiks á framhaldsstigi og eins við söngnám á mið- og framhaldsstigi segi í raun allt um þær skyldur sem á stefnda hvíli. Þannig hafi greiðsluskylda stefnda miðast við fjölda nemenda og þann launakostnað kennara og skólastjórnenda sem rekja megi til kjarasamninga stéttarfélaga þeirra. Engin breyting hafi orðið á þessu af hálfu stefnanda skólaárin 2011-2014. Þannig hafi skólinn samviskusamlega sent upplýsingar um fjölda nemenda og sent inn önnur gögn um rekstrar-  og launakostnað skólans. Hann hafi þannig haft réttmætar væntingar til þess að viðhaldið yrði þessari fyrri framkvæmd. Stefnda beri því samkvæmt þessu að greiða skuld sína við stefnanda.

                Því sé haldið fram að hin áratuga langa framkvæmd aðila á lögum nr. 75/1985 sýni í raun og sanni að stefndi hafi litið svo á að hann bæri skyldu til að greiða þennan kennslukostnað til stefnanda. Hann geti nú ekki þegar honum hentar snúið við þeirri framkvæmd. Það sé brot á skyldum hans skv. lögunum. Samkomulagið frá maí 2011, sem stefnandi hafi enga aðild átt að, breyti þessu ekki.

                Þá sé því haldið fram að stefndi geti ekki einhliða sett reglur um þessa framkvæmd. Stefndi hafi sett sér reglur um þjónustusamninga Reykjavíkurborgar við tónlistarskóla. Þær reglur séu settar einhliða og við gerð þeirra hafi ekki verið gætt að réttindum og skyldum aðila skv. lögum nr. 75/1985 um fjárhagslegan stuðning við tónlistarskóla. Þannig hafi þær reglur ekkert gildi að því marki sem þær samrýmist ekki lögunum og heldur ekki að því marki sem þær gangi gegn áratuga hefð á framkvæmd þeirra laga og séu andstæðar stjórnsýslureglum. 

                Stefndi sé stjórnvald og verði því út frá skráðum sem óskráðum reglum stjórnsýsluréttar að haga gjörðum sínum þannig að þær samrýmist góðum stjórnsýsluháttum. Þannig hafi sú einhliða framsetning á samningum, sem stefnandi hafi þurft að rita undir, í raun verið brot á ákvæðum 20.gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Einnig hafi stefnandi haft andmælarétt þegar stefndi tók þá einhliða ákvörðun að fella niður stóran hluta framlags síns til hans þvert á lög og reglur og þvert á áratuga framkvæmd. Sá réttur hafi ekki verið virtur. Þá hafi stefnandi átt þann rétt að stefndi rökstyddi þá ákvörðun.

                Þá sé 8. gr. reglna um þjónustusamninga stefnda í andstöðu við skyldur stefnda skv. lögum nr. 75/1985. Þannig geti stefndi ekki skorið niður framlög sín lögum samkvæmt og komið þeim yfir á ríkið. Slíkar einhliða ákvarðanir bindi á engan hátt stefnanda.

                Samkvæmt 8.gr. laga nr. 75/1985 þá eigi aðilar að gera með sér samkomulag um kennslu og starfsmannahald fyrir 1. júlí ár hvert. Einhliða reglur stefnda komi ekki í stað samkomulags. Þá segi einnig í 10. gr. sömu laga að aðilar skuli gera með sér samkomulag um greiðslur til tónlistarskóla. Einhliða reglur sem fari í bága við lögin séu þannig brot á þessum reglum og hafi því ekkert gildi. Stefndi geti því ekki byggt á þeim né öðrum einhliða settum reglum.

                Því sé haldið fram að samningur sá sem gerður hafi verið milli aðila máls þessa 5. september 2012 falli hér undir. Samningurinn hafi verið saminn af stefnda og réttur til stefnanda með þeim orðum að þetta væri í raun það eina sem kæmi til greina og að skólinn fengi enga fjármuni nema að hann ritaði undir þann samning. Hafa verði í huga að samningurinn sé gerður eftir að skólaárið sé hafið og staða stefnanda því mjög erfið, enda kennsla hafin og nemendur búnir að innrita sig og hefja nám við skólann. Þannig hafi stefndi ekki staðið við þau tímamörk sem honum séu gefin í 8. gr. laga nr. 75/1985 þar sem segi að samkomulag um rekstur skóla skuli gert fyrir 1. júlí ár hvert.

                Öll framangreind sjónarmið eigi við um samninga sem gerðir hafi verið við stefnda eftir maí 2011.

                Þá hafi stefnandi andmælt þessari framkvæmd m.a. með því að ræða við Ragnar Þorsteinsson, sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs stefnda. Einnig hafi innanríkisráðherra verið send bréf vegna þessa. Þá hafi skólastjórar annarra tónlistarskóla einnig sent frá sér mótmæli.

                Stefndi Reykjavíkurborg hafi borið því við að íslenska ríkið hafi tekið að sér þær skyldur sem á sveitarfélögum hvíli skv. lögum nr. 75/1985 og vísað um það til samkomulagsins frá maí 2011. Ef það yrði niðurstaða þessa máls gæti hún því skipt réttargæslustefnda verulegu máli. Því sé íslenska ríkinu stefnt til réttargæslu í máli þessu með vísan til 21. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála en engar kröfur séu gerðar á hendur því.

                Þar sem sakarefni málsins hefur verið skipt er hér til úrlausnar hvort greiðsluskylda hvíli á stefnda en ekki hverrar fjárhæðar hugsanlega krafa stefnanda sé. Nægir því hér að vísa til þess að í stefnu er frá því greint að stefndi eigi inneign hjá stefnanda að fjárhæð 7.542.621 króna vegna skólaársins 2011/2012, en stefndi skuldi stefnanda 20.250.316 krónur vegna skólaársins 2012/2013 og 28.452.530 krónur vegna skólaársins 2013/2014. Sé skuld stefnda við stefnanda samtals að fjárhæð 41.160.225 krónur. Í stefnu er gerð nokkur grein fyrir forsendum framangreindra fjárhæða en ekki þykir ástæða til að rekja það nánar hér, utan að vísa til þess að stefnandi telur að um sé að ræða ógreiddan launakostnað við kennslu í hljóðfæraleik á framhaldsstigi og söngnám á mið- og framhaldsstigi.

                Stefnandi kveðst um málskostnaðarkröfu sína á hendur stefnda vísa til 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

III

                Stefndi kveðst krefjast sýkn af dómkröfum stefnanda og mótmæla öllum málsástæðum hans og lagarökum. Stefndi byggi sýknukröfu sína á því að ekki sé til staðar greiðsluskylda af hans hálfu og því sé um ólögvarða kröfu að ræða.

                Vísar stefndi til þess að stefnandi haldi því fram í stefnu að greiðsluskylda stefnda, sem sveitarfélags, sé bundin í lögum nr. 75/1985 um fjárhagslegan stuðning sveitarfélaga við tónlistarskóla. Einnig að áratuga hefð og framkvæmd á fyrrnefndum lögum leiði það af sér að stefnda hafi borið að greiða umræddan launakostnað stefnanda sem fallið hafi til við kennslu hljóðfæraleiks á framhaldsstigi og söngnáms á mið- og framhaldsstigi á umkröfðu tímabili. Þá geti stefndi ekki sett sér einhliða reglur um framkvæmd þessa.

                Kveður stefndi að um opinberan fjárstuðning við almenna tónlistarskóla sé fjallað í lögum nr. 75/1985. Í lögunum sé mælt fyrir um að sveitarfélög skuli greiða laun skólastjóra og kennara í tónlistarskólum, sem reknir séu samkvæmt þeim, hvort sem þeir séu reknir af sveitarfélagi eða öðrum aðilum, sbr. 7. og 10. gr. laganna.

                Samkvæmt 78. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. 16. gr. stjórnskipunarlaga nr. 97/1995, sbr. og 1. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011 ráði sveitarfélög sjálf málefnum sínum og hafi sjálfsforræði á eigin tekjustofnum. Sjálfsstjórn sveitarfélaga birtist í lögákveðnum verkefnum, sem og heimild þeirra til að ákveða nánar hvernig úrlausn verkefna verði háttað. Hvorki í lögum nr. 75/1985 um fjárhagslegan stuðning við tónlistarskóla né aðalnámsskrá tónlistarskóla, sbr. auglýsingu menntamálaráðuneytisins frá 31. maí 2000 sé lögð skylda á sveitarfélög að bjóða upp á tónlistarnám. Sé því ljóst að tónlistarfræðsla sé ekki meðal skylduverkefna sveitarfélaga.

                Í 1. mgr. 7. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011 sé að finna almennt ákvæði um að sveitarfélög skuli annast þau verkefni sem þeim séu falin að lögum. Í 3. mgr. 7. gr. sé á hinn bóginn kveðið á um sjálfsákvörðunarrétt sveitarfélaga til að sinna ólögmæltum verkefnum. Sé mat á forgangsröðun slíkra verkefna alfarið í höndum viðkomandi sveitarstjórnar.

                Um skyldur sveitarfélaga til að veita tónlistarskólum fjárhagslegan stuðning og umfang stuðningsins fari eftir lögum nr. 75/1985. Lögin geri meðal annars ráð fyrir því að tónlistarskóli þurfi samþykki sveitarstjórnar til stofnunar og að sveitastjórn taki sérstaka afstöðu til þess hvort hún fallist á greiðslur til skólans úr sveitarsjóði, sbr. 5. tl. 1. gr. og 1. mgr. 3. gr. laganna. Lögin geri einnig ráð fyrir því að tónlistarskólar sendi sveitarstjórn áætlun fyrir næsta fjárhagsár og að sveitarstjórn skuli taka afstöðu til áætlunar skólans og gera samkomulag við skólastjórn um kennslu og starfsmannahald, sbr. 8. gr. laganna. Samkvæmt 10. gr. laganna sé eins og áður segir gert ráð fyrir að tónlistarskólar fái greiddan úr sveitarsjóði launakostnað kennara og skólastjóra í samræmi við rekstraráætlun og breytingar á launatöxtum. Af framangreindu sé ljóst að lög nr. 75/1985 geri ráð fyrir aðkomu sveitarfélaga á öllum stigum, þ.e. stofnun tónlistarskóla, áætlunargerðar skólanna og hvert umfang fjárframlags skuli vera.

                Með hliðsjón af því að sveitarfélög þurfi að gera ráð fyrir útgjöldum sínum í fjárhagsáætlunum, sbr. 62. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011, sé ljóst að það standist ekki að þau hafi ekkert um það að segja hver kostnaður þeirra verði af tónlistarkennslu. Lög nr. 75/1985 geri enda, eins og áður segi, ráð fyrir aðkomu sveitarfélaga á öllum stigum, sbr. 5. tl. 1. gr., 1. mgr. 3. gr. og 8. gr. laganna. Greiðsla stefnda til tónlistarskóla markist af rekstraráætlun sem sveitarfélög hafi samþykkt, þ.e. áætluðu og umsömdu kennslumagni og greiðist mánaðarlega samkvæmt reglum um þjónustusamninga og úthlutun fjármuna stefnda við tónlistarskóla, sbr. lög nr. 75/1985 og aðalnámsskrá tónlistarskóla, sbr. auglýsingu menntamálaráðuneytisins frá 31. maí 2000.

                Af framangreindu megi ráða að ákveði sveitarfélag að koma að rekstri tónlistarskóla sé því ekki skylt að fjármagna tónlistarkennslu allra þeirra sem tónlistarskólinn ákveði að veita kennslu.   Sé sveitarfélögum þannig heimilt að setja tiltekin viðmið þegar komi að greiðslu kennslukostnaðar tónlistarskóla. Í því geti meðal annars falist að sveitarfélag ákveði að greiða ekki kennslukostnað nemenda utan þess sveitarfélags og nemenda á tilteknum aldri en komi til fjármagn annars staðar frá sé tónlistarskólum í sjálfsvald sett að sinna slíkri kennslu enda beri þeir fulla ábyrgð á því að slík kennsla rúmist innan fjárveitinga skólans, hvort sem þær stafi frá sveitarfélagi eða öðrum styrktaraðilum. Hafi stefndi til að mynda miðað við að framlög hans til stefnanda og annarra tónlistarskóla séu einungis vegna nemenda með lögheimili í Reykjavík.

                Með samkomulaginu um eflingu tónlistarnáms frá 13. maí 2011 hafi íslenska ríkið tekið á sig skyldu um að greiða árlegt framlag til Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga sem ætlað hafi verið að standa straum af kennslukostnaði í tónlistarskólum vegna hljóðfæranáms á framhaldsstigi og söngnáms á mið- og framhaldsstigi og tengdum kostnaði. Lögum nr. 75/1985 hafi í kjölfarið verið breytt til bráðabirgða framangreindu til staðfestingar. Hvorki samkomulagið né bráðabirgðaákvæðið hafi breytt nokkru um skyldur stefnda samkvæmt lögum nr. 75/1985 og því að tónlistarfræðsla sé ekki meðal skylduverkefna sveitarfélaga. Með samkomulaginu hafi verið tryggðir fjármunir vegna nemenda á eldri stigum tónlistarnáms. Stefnda hafi því verið gefið visst svigrúm til þess að forgangsraða þeim fjármunum sem hann hafi lagt í tónlistarfræðslu á þann hátt að leggja áherslu á tónlistarnám yngri nemenda. Í þessu sambandi verði að hafna því að stefnandi eigi kröfu á óbreyttum fjármunum úr hendi stefnda til nemenda á eldri stigum tónlistarnáms og að stefnda sé skylt að greiða einhvern tilbúinn mismun.

                Í samræmi við efni og þær áherslur sem fram komi í ofangreindu samkomulagi við ríkið hafi aðilar undirritað þjónustusamning 5. september 2012. Feli samningurinn í sér að stefndi hafi lækkað árlegt framlag sitt til stefnanda þar sem meðal annars hafi verið fallið frá framlagi vegna kostnaðar við hljóðfæranám á framhaldsstigi og söngnám á mið- og framhaldstigi. Sé stefndi með því að forgangsraða verkefnum og þeim takmörkuðu fjármunum sem til staðar séu í umræddum málaflokki á þann hátt að tryggja yngri nemendum aðgang að og kennslu í tónlistarskóla. Byggist sú ákvörðun bæði á faglegum og fjárhagslegum forsendum enda sé ekki um að ræða að lögskyld þjónusta skerðist við það. Fráleitt verði að ætla að ákvæði 7., 10. og 11. gr. laga nr. 75/1985 skuli túlkuð með þeim hætti að ákveði sveitarfélag á annað borð að koma að rekstri tónlistarskóla sé því skylt að fjármagna tónlistarkennslu allra þeirra sem tónlistarskólinn ákveði að veita kennslu og um leið sé því óheimilt að setja viðmiðanir í þeim efnum. Slík lagatúlkun myndi leiða til þess að sveitarfélögum væri í raun ómögulegt að takmarka fjárveitingu sína til tónlistarstarfsins með nokkrum hætti án þess að hætta einfaldlega allri aðkomu að rekstri tónlistarskóla. 

                Með hliðsjón af framangreindu megi því með engu móti sjá að stefndi hafi brotið gegn ákvæðum laga nr. 75/1985 um fjárhagslegan stuðning við tónlistarskóla. Sé málsástæðu stefnanda þess efnis mótmælt sem rangri og ósannaðri.

                Stefndi mótmæli því jafnframt sem röngu og ósönnuðu, að ætluð áratuga framkvæmd aðila á lögum nr. 75/1985 sýni að stefndi hafi litið svo á að honum bæri skylda til að greiða umkrafinn kennslukostnað til stefnanda. Stefndi hafi síðustu 30 ár farið eftir ákvæðum laga nr. 75/1985 þegar framlög hafi verið greidd til stefnanda og annarra tónlistarskóla. Sýni fyrri ágreiningsmál í tengslum við framkvæmd laganna svo ekki verði um villst að stefndi hafi hvorki talið tónlistarfræðslu vera meðal skylduverkefna sveitarfélaga né að honum hafi borið skylda til að greiða umkrafinn kennslukostnað. Skuli í þessu sambandi meðal annars vísað til álits félagsmálaráðuneytisins, dags. 12. maí 2006 og álits umboðsmanns Alþingis í málum nr. 4650/2006 og 4729/2006.

                Þá mótmæli stefndi því sem röngu að stefndi geti ekki einhliða sett reglur um framkvæmdina á því hvernig framlögum til stefnanda og annarra tónlistarskóla skuli háttað samkvæmt lögum nr. 75/1985. Vísi stefnandi þarna til reglna um þjónustusamninga stefnda við tónlistarskóla. Reglurnar séu settar í samræmi við ákvæði laga nr. 75/1985 og meginreglur stjórnsýsluréttar um málefnaleg sjónarmið og jafnræði um úthlutun fjármuna úr sameiginlegum sjóðum borgarbúa.

                Í greinargerð sinni styður stefndi sýknukröfu sína einnig við að fjárhæð stefnukröfu sé ósönnuð. Vísar hann m.a. til þess að gögn málsins og málatilbúnaður sýni ekki eða sanni réttmæti þeirrar fjárkröfu stefnanda sem hann geri í málinu. Þar sem sakarefni málsins var skipt þykir ekki ástæða til að gera hér nánari grein fyrir röksemdum stefnda að þessu leyti.

                Stefndi kveðst byggja málatilbúnað sinn á lögum nr. 91/1991 um meðferð einkamála, lögum nr. 75/1985 um fjárhagslegan stuðning við tónlistarskóla, sveitarstjórnalögum nr. 138/2011, stjórnsýslulögum nr. 37/1993 og meginreglum einkamálaréttarfars um sönnun og sönnunarbyrði. Málskostnaðarkrafa byggi á 130. gr., sbr. 129. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

IV

                Við upphaf aðalmeðferðar málsins lagði stefnandi fram dómskjal nr. 45 sem eru „Reglur um þjónustusamninga Reykjavíkurborgar við tónlistarskóla“ en þetta skjal er ekki samhljóða skjali með sama heiti sem stefnandi lagði fram sem dómskjal nr. 11. Kom fram í skýrslugjöf að reglurnar á dómskjali nr. 45 hafi legið fyrir við undirritun samnings stefnanda og stefnda 5. september 2012. Kom einnig fram við skýrslugjöf að starfsmaður stefnda sendi tölvupóst til stefnanda nokkrum dögum eftir undirritun samningsins þar sem frá því var greint að ekki hefði legið fyrir rétt eintak umræddra reglna við undirritun samningsins.

                Lögmaður stefnda mótmælti því að stefnandi gæti við upphaf aðalmeðferðar komið að nýjum málsástæðum um að reglurnar sem liggi fyrir á dómskjali nr. 11 hafi ekki verið þær sem vísað sé til í umræddum samningi aðila. Af hálfu stefnanda var því mótmælt að í þessu fælust nýjar málsástæður.

                Það er mat dómsins að framangreindar röksemdir stefnanda hefðu þurft að koma fram í stefnu málsins til þess að um þær yrði með réttu fjallað. Eru þær því of seint fram komnar og komast að þeim sökum ekki að við úrlausn málsins.

                Ekki er um það deilt í máli þessu að stefnandi er meðal þeirra tónlistarskóla sem stefndi hefur styrkt með fjárframlögum um árabil á grundvelli laga nr. 75/1985. Liggur því fyrir að stefnandi uppfyllti skilyrði framangreindra laga til að fá fjárframlög frá stefnda. Eins og nánar er rakið hér fyrr í dómnum gerði íslenska ríkið samning við samband íslenskra sveitarfélaga 13. maí 2011 um stuðning þess fyrrnefnda við sveitarfélög til að halda uppi kennslu í hljóðfæraleik á framhaldsstigi og kennslu í söng á mið- og framhaldsstigi.

                Í kjölfar þessa tók stefndi ákvörðun um að veita ekki fjármunum til stefnanda vegna kennslu í hljóðfæraleik á framhaldsstigi og kennslu í söng á mið- og framhaldsstigi umfram þá fjármuni sem næmi framlagi ríkisins samkvæmt framangreindum samningi. Mun stefndi hafa tekið við greiðslum vegna þessa úr jöfnunarsjóði sveitarfélaga og ráðstafað þeim m.a. til stefnanda. Þær greiðslur hafa hins vegar að mati stefnanda ekki nægt til að standa undir þeim rekstrakostnaði sem hann telur að stefnda beri að greiða vegna kennslu á framangreindum skólastigum. Krefst hann þess í þessum þætti málsins að viðurkennd verði greiðsluskylda stefnda á þeim nánar tilgreinda kostnaði stefnanda sem ekki fæst að fullu greiddur vegna þessa.

                Í 8. gr. laga nr. 75/1985 er mælt fyrir um skyldu tónlistarskóla í stöðu stefnanda til að senda áætlun um kennslu á næsta fjárhagsári til viðkomandi sveitarstjórnar fyrir nánar tilgreint tímamark. Greinir í 2. mgr. sama lagaákvæðis að sveitarstjórn skuli taka afstöðu til áætlunar skólans og gera samkomulag við skólastjórn um kennslu og starfsmannahald fyrir 1. júlí ár hvert. Í 10. gr. sömu laga er mælt fyrir um að tónlistarskólar í stöðu stefnanda skuli fá greiddan úr sveitarsjóði launakostnað kennara og skólastjórnenda í samræmi við rekstraráætlun og þær breytingar sem verði á launatöxtum samkvæmt nánar greindum forsendum.

                Deiluefni máls þessa lýtur að því hvort stefnda hafi verið heimilt að binda fjárframlag sitt til kennslu í hljóðfæraleik á framhaldsstigi og kennslu í söng á mið- og framhaldsstigi við fjárframlag íslenska ríkisins í gegn um jöfnunarsjóð sveitarfélaga. Fallist er á með stefnanda að sú ákvörðun fjárframlags sem stefndi viðhafði með því að binda það við fjárhæð þeirrar greiðslu sem íslenska ríkið hafði fallist á að styrkja sveitarfélagið um vegna umræddrar kennslu geti vart talist í samræmi við áðurrakin fyrirmæli laga nr. 75/1985. Er enda óupplýst í málinu hvaða tengsl sú fjárhæð hefur við rekstraráætlun stefnanda eða rekstrarforsendur en tilvitnuð lagaákvæði fela í sér skyldu stefnda til að styðjast við þau gögn er hann tekur ákvörðun um fjárstuðning við stefnanda.

                Á hinn bóginn er stefndi sveitarfélag sem ræður sjálft málefnum sínum og ráðstafar fjármunum sínum í samræmi við fjárhagsáætlanir hvers árs. Er fallist á með stefnda að ekki verði séð að lög leggi honum á herðar skyldu til að veita fjármunum til tónlistarskóla, þó hann hafi gert það um árabil. Þá verður ekki fallist á með stefnanda að í máli þessu séu uppi þær aðstæður að stefndi geti talist hafa bakað sér skyldu til stuðnings við stefnanda til framtíðar með samningum eða að réttarvenja hafi skapast sem skyldaði stefnda til slíkra framlaga. Ræðst framlag stefnda til tónlistarskóla því af ákvörðun hans frá ári til árs eða eftir atvikum með samningum til lengri tíma.

                Eins og að framan er rakið er það mat dómsins að ákvörðun stefnda um fjárhæð þess framlags sem hann leggur til kennslu í hljóðfæraleik á framhaldsstigi og kennslu í söng á mið- og framhaldsstigi hafi ekki að fullu verið tekin í samræmi við þau viðmið sem kveðið er á um í 8. og 10. gr. laga nr. 75/1985. Á hinn bóginn liggur ekki fyrir að stefndi hafi fallist á að greiða þá fjárhæð sem stefnandi krefst eða að á honum hvíli lagaskylda til þess. Það er því ekki efni til að dómurinn fallist á að viðurkenna að slík greiðsluskylda sé fyrir hendi. Verður sýknukrafa stefnda því tekin til greina þegar af þeim ástæðum sem að framan hafa verið raktar.

                Eins og mál þetta er vaxið þykir rétt að hver aðili beri sinn kostnað af rekstri þess.

                Af hálfu stefnanda flutti málið Guðni Ásþór Haraldsson hrl. og af hálfu stefnda Kristbjörg Stephensen hrl. og af hálfu réttargæslustefnda Einar K. Hallvarðsson hrl.

                Halldór Björnsson héraðsdómari kveður upp dóm þennan að gættu ákvæði 1. mgr. 115. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála en dómsuppsaga hefur dregist vegna veikinda dómara.

D Ó M S O R Ð:

                Stefndi, Reykjavíkurborg, er sýknaður af kröfum stefnanda, Tónlistarskólans í Reykjavík í máli þessu.

                Málskostnaður fellur niður.