Print

Mál nr. 195/1999

Lykilorð
  • Stjórnarskrá
  • Eignarréttur
  • Lífeyrissjóður
  • Sératkvæði

Fimmtudaginn 9

 

Fimmtudaginn 9. desember 1999.

Nr. 195/1999.

Kjartan Ásmundsson

(Aðalsteinn E. Jónasson hrl.)

Lilja Jónasdóttir hdl.)

gegn

Lífeyrissjóði sjómanna

(Sigurður G. Guðjónsson hrl.)

og til vara gegn

Lífeyrissjóði sjómanna og

íslenska ríkinu

(Jón G. Tómasson hrl.)

 

Stjórnarskrá. Eignarréttur. Lífeyrissjóður. Sératkvæði.

Stýrimaðurinn K varð fyrir slysi við sjómennsku árið 1978 og var metinn til 100% örorku til fyrri starfa, en varanleg almenn örorka hans var metin 25%. Hann fékk greiddar örorku- og barnalífeyrisbætur úr L frá 1979. Með lögum nr. 44/1992 var ákvæðum laga nr. 49/1974 um Lífeyrissjóð sjómanna breytt á þann veg, að ekki var lengur tekið mið af hæfni sjóðfélaga til fyrri starfa við grundvöll örorkumats, heldur var byggt á hæfni til almennra starfa. Varð almenn örorka að vera 35% eða meiri til þess að sjóðfélagi ætti rétt á örorkulífeyri. Áður en þessar breytingar tóku gildi, voru lög nr. 49/1974 hins vegar felld úr gildi með lögum nr. 94/1994 og samsvarandi ákvæði um örorku- og barnalífeyri sett í reglugerð L. Þar sem trúnaðarlæknir L mat örorkutap K til almennra starfa minna en 35% átti hann ekki rétt á lífeyri úr sjóðnum og féllu allar greiðslur til hans niður frá og með 1. júlí 1997. K hélt því fram, að þessi skerðing réttinda hans gengi gegn ákvæðum stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 og mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Talið var, að lífeyrisréttur sá, sem K hafði áunnið sér, nyti verndar 72. gr. stjórnarskrárinnar og yrði hann ekki af honum tekinn nema með skýlausri lagaheimild. Vísað var til þess, að mikill hallarekstur hefði verið á L og hefði stjórn sjóðsins óskað eftir því, að gerðar yrðu breytingar á lögum um hann til þess að mæta þessum mikla halla. Væri því ljóst, að málefnalegar forsendur hefðu legið að baki þeim skerðingum lífeyrisréttinda, sem lög nr. 44/1992 hefðu haft í för för með sér. Þótt lög nr. 94/1994 hefðu ekki verið gild lagaheimild um breytingar á áður áunnum réttindum K, breytti það því ekki, að réttarstaða K hefði þegar verið ákveðin með lögum nr. 44/1992. Talið var, að sú skerðing, sem fólst í lögum nr. 44/1992 hefði verið almenn þar sem hún tók á sambærilegan hátt til allra, sem nutu eða gátu notið örorkulífeyris, en fimm ára aðlögunarfrestur gilti jafnt um alla sjóðfélaga. Hefði jafnræðis verið gætt um alla þá, sem sambærilegir gætu talist. Var því staðfest niðurstaða héraðsdóms um að sýkna L og Í af kröfum K vegna skerðingar lífeyrisréttinda hans.

 

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Pétur Kr. Hafstein, Guðrún Erlends-dóttir, Haraldur Henrysson, Hjörtur Torfason og Hrafn Bragason.

Áfrýjandi skaut máli þessu til Hæstaréttar með stefnu 15. maí 1999. Hann krefst þess aðallega, að viðurkenndur verði réttur sinn gagnvart aðalstefnda til óskerts örorku- og barnalífeyris frá 1. júlí 1997 í samræmi við ákvæði laga nr. 49/1974 um Lífeyrissjóð sjómanna eins og þau voru fram að gildistöku laga nr. 44/1992. Ennfremur krefst hann þess, að aðalstefndi verði dæmdur til að greiða sér 1.551.048 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 1. júlí 1997, eins og nánar er kveðið á um í héraðsdómsstefnu. Fyrsta varakrafa áfrýjanda er samhljóða aðalkröfu að því frátöldu, að mánaðarleg fjárhæð örorku- og barnalífeyris taki mið af þeim breytingum á fjárhæð þess lífeyris, sem gildistaka 8. gr., 9. gr. og 12. gr. laga nr. 45/1999 um Lífeyrissjóð sjómanna hefur í för með sér frá og með 1. júlí 1999 og 1. janúar 2000. Önnur varakrafa áfrýjanda er sú, að aðal- og varastefndi verði dæmdir til að greiða in solidum 12.637.600 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga frá 1. júlí 1997 til greiðsludags. Þriðja varakrafa áfrýjanda er, að aðal- og varastefndi verði dæmdir til að greiða in solidum 11.970.300 krónur með sömu vöxtum og að framan greinir. Í öllum tilvikum krefst áfrýjandi málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Aðalstefndi og varastefndu krefjast staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

I.

Eins og fram kemur í héraðsdómi útskrifaðist áfrýjandi sem stýrimaður árið 1968 og stundaði sjómennsku upp frá því þar til hann varð fyrir slysi 18. desember 1978. Hann var þá metinn til 100% örorku til fyrri starfa af trúnaðarlækni aðalstefnda og hætti sjómennsku. Varanleg almenn örorka hans var metin 25%. Áfrýjandi fékk greiddar örorku- og barnalífeyrisbætur frá árinu 1979 samkvæmt 13. gr. og 3. mgr. 15. gr. laga nr. 49/1974.

 Með lögum nr. 44/1992, 5. gr. og 8. gr., var framangreindum ákvæðum laga nr. 49/1974 breytt á þann veg, að ekki var lengur tekið mið af hæfni sjóðfélaga til fyrri starfa við grundvöll örorkumats, heldur var byggt á hæfni til almennra starfa. Fyrstu fimm árin eftir orkutapið skyldi þó miða við vanhæfni sjóðfélaga til að gegna fyrra starfi. Varð örorka að vera 35% eða meiri til þess að sjóðfélagi ætti rétt á örorkulífeyri. Samkvæmt ákvæði til bráðabirgða í lögum nr. 44/1992 skyldi fyrstu fimm árin eftir gildistöku laganna miða örorkumat örorkulífeyrisþega, sem nutu bóta vegna orkutaps fyrir gildistöku laganna, við vanhæfni sjóðfélaga til þess að gegna því starfi, sem hann hafði gegnt og aðild hans að sjóðnum var tengd, en eftir það skyldi miða við vanhæfni til almennra starfa. Samkvæmt því áttu hinar nýju reglur að taka gildi gagnvart áfrýjanda 1. júlí 1997. Áður en til þess kom voru lög nr. 49/1974 með síðari breytingum felld úr gildi með lögum nr. 94/1994. Öll efnisákvæði um örorku- og barnalífeyri voru felld úr lögunum og sett í reglugerð um Lífeyrissjóð sjómanna, sem tók gildi 1. september 1994. 

Þar sem trúnaðarlæknir aðalstefnda mat orkutap áfrýjanda til almennra starfa minna en 35%, átti hann ekki rétt á lífeyri úr sjóðnum samkvæmt 5. gr. laga nr. 44/1992 og 11. gr. reglugerðar frá 1. september 1994. Allar greiðslur til áfrýjanda féllu niður frá og með 1. júlí 1997.

Áfrýjandi heldur því fram, að sú ákvörðun aðalstefnda að svipta hann lífeyrisgreiðslum hafi ekki stuðst við gilda lagaheimild. Ekki sé rétt að túlka bráðabirgðaákvæði laga nr. 44/1992 með þeim hætti, að því hafi verið ætlað að afnema þegar áunnin og virk réttindi áfrýjanda. Slíkt brjóti í bága við 65. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944, sbr. 3. gr. stjórnarskipunarlaga nr. 97/1995, og 14. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994.

II.

Lífeyrisréttur sá, sem áfrýjandi hafði áunnið sér samkvæmt lögum nr. 49/1974 naut verndar þágildandi 67. gr. stjórnarskrárinnar, nú 72. gr., sbr. 10. gr. stjórnarskipunarlaga nr. 97/1995. Þau réttindi urðu ekki af honum tekin nema með skýlausri lagaheimild í samræmi við ofangreint stjórnarskrárákvæði. Ekki verður talið, að í 8. gr. laga nr. 49/1974 hafi falist heimild fyrir stjórn aðalstefnda til skerðingar bótaákvæðanna, en það varð aðeins gert með skýlausu lagaákvæði. Ekki verður heldur á það fallist, að í orðalagi 1. mgr. 13. gr. laga nr. 49/1974 hafi falist, að sjóðfélagi ætti ekki skýlausan rétt til þess, að örorkumat væri miðað við hæfni hans til að stunda fyrra starf.

Gögn málsins sýna, að mikill hallarekstur var á sjóðnum og við árslok 1989 vantaði rúma 20 milljarða króna til þess að höfuðstóll sjóðsins ásamt verðmæti væntanlegra iðgjalda nægði fyrir skuldbindingum hans, ef reiknað var með 3% ársávöxtun. Til þess að mæta þessum mikla halla óskaði stjórn sjóðsins eftir því, að gerðar yrðu breytingar á lögum um sjóðinn. Það er ljóst, að málefnalegar forsendur lágu að baki þeim skerðingum lífeyrisréttinda, sem lög nr. 44/1992 höfðu í för með sér. Þótt þau lög hefðu verið felld úr gildi með lögum nr. 94/1994, breytir það því ekki, að réttarstaða áfrýjanda var þegar ákveðin með lögum nr. 44/1992. Tekið er undir með héraðsdómi, að lög nr. 94/1994 voru ekki gild lagaheimild um breytingar á réttindum, sem sjóðfélagi hafði áunnið sér í gildistíð eldri laga.

 Sú skerðing, sem fólst í lögum nr. 44/1992 var almenn þar sem hún tók á sambærilegan hátt til allra, sem nutu eða gátu notið örorkulífeyris, en fimm ára aðlögunarfrestur gilti jafnt um alla sjóðfélaga, eins og að framan greinir. Hefur jafnræðis verið gætt um þá, sem sambærilegir geta talist, og er héraðsdómur staðfestur um aðalkröfu og fyrstu varakröfu áfrýjanda. Þá ber með vísan til forsendna héraðsdóms að staðfesta niðurstöðu hans um aðra og þriðju varakröfu áfrýjanda og um niðurfellingu málskostnaðar.

Rétt þykir að fella niður málskostnað fyrir Hæstarétti.

                                                            D ó m s o r ð :

Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.

Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.

 

Sératkvæði

Hjartar Torfasonar

Ég er sammála forsendum og niðurstöðu annarra dómenda um sýknu stefnda Lífeyrissjóðs sjómanna af aðalkröfu áfrýjanda og fyrstu varakröfu hans.

Síðari varakröfur áfrýjanda á hendur báðum stefndu eru nokkuð annars eðlis, en þær eru einnig nokkuð vanreifaðar að mínu mati, bæði að því er varðar greiningu orsaka að þeim halla á lífeyrissjóðnum, sem um ræðir í málinu, og einnig tekjumissi áfrýjanda vegna örorku sinnar og þær viðmiðunartekjur eða laun, sem helst mætti hafa til hliðsjónar um raunverulegt tjón hans. Hefði ég kosið, að kröfunum yrði vísað frá dómi. Þar sem aðrir dómendur telja það ekki eiga við, greiði ég atkvæði með þeim um efni málsins, og er þá sammála niðurstöðu þeirra að öllu leyti.

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 12. maí 1999.

I.

Mál þetta, sem dómtekið var fimmtudaginn 15. apríl sl., er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af Kjartani Ásmundssyni, kt. 230549-2149, Rekagranda 7, Reykjavík, með stefnu birtri 16. september 1998  aðallega á hendur Lífeyrissjóði sjómanna, kt. 460673-1220, Þverholti 14, Reykjavík en til vara og þrautavara, á hendur aðalstefnda og íslenzka ríkinu.

 

Endanlegar dómkröfur stefnanda eru þær aðallega, að viðurkenndur verði réttur hans gagnvart stefnda til óskerts örorku- og barnalífeyris frá 1. júlí 1997 í samræmi við ákvæði laga nr. 49/1974, eins og þau voru fram að gildistöku laga nr. 44/1992.  Enn fremur er þess krafizt, að aðalstefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda kr. 1.551.048 ásamt dráttarvöxtum skv. III. kafla l. nr. 25/1987 af kr. 109.872 frá 1. júlí 1997 til 1. ágúst s.á., en af kr. 219.744 frá þeim degi til 1. september s.á., en af kr. 329.616 frá þeim degi til 1. október s.á., en af kr. 439.488 frá þeim degi til 1. nóvember s.á., en af kr. 549.360 frá þeim degi til 1. desember s.á., en af kr. 659.232 frá þeim degi til 1. janúar 1998, en af kr. 769.104 frá þeim degi til 1. febrúar s.á., en af kr. 878.976 frá þeim degi til 1. marz s.á., en af kr. 988.848 frá þeim degi til 1. apríl s.á., en af kr. 1.082.548 frá þeim degi til 1. maí s.á., en af kr. 1.176.248 frá þeim degi til 1. júní s.á., rn af kr. 1.269.948 frá þeim degi til 1. júlí s.á., en af kr. 1.363.648 frá þeim degi til 1. ágúst s.á., en af kr. 1.457.348 frá þeim degi til 1. september s.á., en af kr. 1.551.048 frá þeim degi til greiðsludags, og leggist dráttarvextir við höfuðstól kröfunnar einu sinni á ári, í fyrsta sinn þann 1. júlí 1998.

 

Fyrsta varakrafa stefnanda er sú, að viðurkenndur verði réttur hans gagnvart stefnda til óskerts örorku- og barnalífeyris frá 1. júlí 1997 í samræmi við ákvæði laga nr. 49/1974, eins og þau voru fram að gildistöku laga nr. 44/1992, að því frátöldu að mánaðarleg fjárhæð örorku- og barnalífeyris taki mið af þeim breytingum á fjárhæð örorku- og barnalífeyris, sem gildistaka 8., 9. og 12. gr. l. nr. 45/1999 hefur í för með sér frá og með 1. júlí 1999 og 1. janúar 2000.  Enn fremur er þess krafizt, að aðalstefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda kr. 1.551.048 ásamt dráttarvöxtum skv. III. kafla l. nr. 25/1987 af kr. 109.872 frá 1. júlí 1997 til 1. ágúst s.á., en af kr. 219.744 frá þeim degi til 1. september s.á., en af kr. 329.616 frá þeim degi til 1. október s.á., en af kr. 439.488 frá þeim degi til 1. nóvember s.á., en af kr. 549.360 frá þeim degi til 1. desember s.á., en af kr. 659.232 frá þeim degi til 1. janúar 1998, en af kr. 769.104 frá þeim degi til 1. febrúar s.á., en af kr. 878.976 frá þeim degi til 1. marz s.á., en af kr. 988.848 frá þeim degi til 1. apríl s.á., en af kr. 1.082.548 frá þeim degi til 1. maí s.á., en af kr. 1.176.248 frá þeim degi til 1. júní s.á., en af kr. 1.269.948 frá þeim degi til 1. júlí s.á., en af kr. 1.363.648 frá þeim degi til 1. ágúst s.á., en af kr. 1.457.348 frá þeim degi til 1. september s.á., en af kr. 1.551.048 frá þeim degi til greiðsludags, og leggist dráttarvextir við höfuðstól kröfunnar einu sinni á ári, í fyrsta sinn þann 1. júlí 1998.

 

Önnur varakrafa stefnanda eru sú, að stefndi, Lífeyrissjóður sjómanna, og varastefndi, íslenzka ríkið, verði dæmdir in solidum til að greiða stefnanda kr. 12.637.600 með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla l. nr. 25/1987 frá 1. júlí 1997 til greiðsludags, og leggist dráttarvextir við höfuðstól kröfunnar einu sinni á ári, í fyrsta sinn þann 1. júlí 1998.

 

Þriðja varakrafa stefnanda er sú, að aðalstefndi, Lífeyrissjóður sjómanna og varastefndi, íslenzka ríkið, verði dæmdir in solidum til að greiða stefnanda kr. 11.970.300 með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla l. nr. 25/1987 frá 1. júlí 1997 til greiðsludags, og leggist dráttarvextir við höfuðstól kröfunnar einu sinni á ári, í fyrsta sinn þann 1. júlí 1998.

 

Dómkröfur stefnda, Lífeyrissjóðs sjómanna, eru þær, að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda og tildæmdur málskostnaður úr hendi hans að mati dómsins auk virðisaukaskatts.

 

Dómkröfur varastefnda, íslenzka ríkisins, eru þær, að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda og tildæmdur málskostnaður úr hendi hans að mati dómsins.

 

II.

Málavextir:

Málavextir eru þeir, að stefnandi, sem útskrifaðist sem stýrimaður árið 1968 og stundaði sjómennsku upp frá því, varð fyrir slysi þann 18. desember 1978, er hann fékk allt að 200 kg þungan stein á hægri fót, er hann var við vinnu um borð í togaranum Sléttvaki EA-304.  Hlaut hann við það opið brot á ökkla, sem hafði þær afleiðingar, að hann var metinn til 100% örorku til fyrri starfa af trúnaðarlækni stefnda, Lífeyrissjóðs sjómanna, og hætti hann sjómennsku af þeim sökum.  Varanleg almenn örorka hans var hins vegar metin 25%.

Frá árinu 1979 fékk stefnandi greiddar örorku- og barnalífeyrisbætur úr lífeyrissjóði sjómanna, sem tóku mið af því, að hann væri 100% öryrki til fyrri starfa.  Byggðust þær greiðslur á reglum laga nr. 49/1974 um Lífeyrissjóð sjómanna, einkum 13. gr. og 3. mgr. 15. gr.  Með 5. gr. laga nr. 44/1992 um breytingu á fyrrgreindum lögum var 1. mgr. 13. gr. laganna breytt þannig, að við grundvöll örorkumats var ekki lengur tekið mið af hæfni sjóðfélaga til fyrri starfa, heldur byggt á hæfni til almennra starfa, að undanskildum fyrstu fimm árum eftir orkutap.  Með stoð í bráðabirgðaákvæði laganna átti breytingin ekki að taka gildi gagnvart stefnanda fyrr en 1. júlí 1997.  Áður en til þess kom, voru lögin hins vegar felld úr gildi með setningu laga nr. 91/1994, sem tóku gildi 1. september 1994.  Voru öll ákvæði, sem lutu að grundvelli örorku- og barnalífeyris felld úr lögunum og sett inn í reglugerð um Lífeyrissjóð sjómanna, sem gildi tók sama dag, sbr. gr. 11.3 og 13.3 í reglugerðinni. 

Stefnandi kveðst ekki hafa fengið tilkynningu um ofangreindar breytingar fyrr en í lok árs 1996, og hafi hann í kjölfar þess mótmælt fyrirhuguðum aðgerðum gegn sér.

Snúast deilur aðila aðallega um lögmæti þess að fella niður greiðslur ofangreindra bóta, en til vara um skaðabætur vegna þeirra aðgerða.

 

 

Málsástæður stefnanda:

1.  Aðild.

Eins og fram komi varði hluti kröfugerðar stefnanda barnalífeyri.  Með dómi Hæstaréttar frá árinu 1993 á blaðsíðu 758 komist Hæstiréttur að þeirri niðurstöðu, að forsjáraðili væri réttur aðili kröfu vegna barnalífeyris.  Af þeim sökum sé ljóst, að stefnandi máls þessa sé réttur aðili þessa hluta kröfugerðarinnar.

 

2. Málsástæður aðalkröfu.

Aðalkröfu sína kveðst stefnandi byggja á því aðallega, að sú ákvörðun stefnda að fella niður greiðslu örorku- og barnalífeyrisbóta skorti lagastoð og sé því ólögmæt.  Verði ekki fallizt á það, sé á því byggt, að þau ákvæði laga nr. 44/1992, sem leiddu til þess, að stefnandi var sviptur rétti til  örorku- og barnalífeyrisgreiðslna, stangist á við 65. gr. og 72. gr. stjórnarskrárinnar nr. 33/1944, með síðari breytingum.  Afleiðingin sé sú, að umrædd ákvæði laga nr. 44/1992 séu ekki gild réttarheimild.

 

2.1. Lagaheimild skorti

Í fyrsta lagi sé á því byggt, að sú ákvörðun stefnda að fella niður greiðslur til stefnanda frá og með 1. júlí 1997 hafi ekki lagastoð og standist því ekki efnisskilyrði 72. gr. stjórnarskrárinnar nr. 33/1944.

Hæstiréttur hafi staðfest með dómi sínum í máli Svavars Benediktssonar á hendur stefnda, nr. 368/1997, að áunnin lífeyrisréttindi njóti verndar 72. gr. stjórnarskrárinnar nr. 33/1944.  Sé það í samræmi við fyrri dómaframkvæmd Hæstaréttar, álit umboðsmanns Alþingis og skoðanir innlendra sem erlendra fræðimanna.  Sú breyting á grundvelli örorkumats, sem sett hafi verið fram með setningu laga nr. 44/1994, hafi leitt til þess, að stefnandi glataði rétti til greiðslu örorku- og barnalífeyrisbóta, sem hann hafði áunnið sér með reglubundnum greiðslum af vinnutekjum sínum til lífeyrissjóðs stefnda á árunum 1969 til 1981.  Réttindi þessi teljist óumdeilanlega til eignaréttinda, sem njóti verndar 72. gr. stjórnarskrárinnar nr. 33/1944 og verði þar af leiðandi ekki tekin af stefnanda, nema fullnægt sé skilyrðum þessa stjórnar­skrár­ávæðis.  Samkvæmt 72. gr. stjórnarskrárinnar verði enginn skyldaður til að láta af hendi eign sína, nema lagaheimild liggi slíkri aðgerð til grundvallar.  Sé þetta eitt af þremur meginskilyrðum 72. gr. stjórnarskrárinnar.  Sú spurning vakni, við hvaða lagaheimild umrædd ákvörðun stefnda styðjist.  Sé litið til bréfaskipta stefnda, sem liggi fyrir í málinu, einkum bréfs stefnda dags. 13. júní 1998 á dskj. nr. 14, sé ljóst, að stefndi telji lagaheimildina vera að finna í þeim breytingum, sem gerðar voru á lögum nr. 49/1974 með setningu laga nr. 44/1992.  Af hálfu stefnanda sé á því byggt, að þessi afstaða stefnda fái ekki staðizt. 

Lög nr. 49/1974 hafi verið felld niður þann 1. september 1994 með setningu laga nr. 94/1994 og reglugerðar, sem sett var með stoð í þeim.  Þetta hafi gerzt um það bil 2 árum eftir að lög nr. 44/1992 voru sett.  Þær breytingar, sem gerðar voru með lögum nr. 44/1992, hafi átt að koma til framkvæmda gagnvart stefnanda þann 1. júlí 1997, tæpum þremur árum eftir að lög nr. 94/1994 tóku gildi.  Breytingarnar hafi þannig átt að koma til framkvæmda, eftir að lögin, sem kváðu á um breytingarnar höfðu verið felld úr gildi.  Lög nr. 94/1994 hafi ekki að geyma nein efnisleg ákvæði um það, hvernig fara skuli með örorku- og barnalífeyrisgreiðslur, sem átti að takmarka eða eftir atvikum afnema (eins og í tilviki stefnanda) frá og með 1. júlí 1997.  Reglugerð lífeyrissjóðs stefnda, sem sett hafi verið með stoð í síðastnefndum lögum, hafi heldur ekki að geyma nein ákvæði um þetta.  Það eina, sem segi í reglugerðinni, sé, að þeir, sem hafi áunnið sér réttindi í tíð eldri laga, skuli halda þeim réttindum (með einni undantekningu sem ekki verði rakin hér), sjá grein 20.2.  Í reglugerðinni segi ekkert um það, hvernig fara skuli með þær reglur eldri laga, sem kváðu á um skerðingu eða afnám lífeyrisréttinda, en voru ekki komnar til framkvæmda við gildistöku laga nr. 94/1994 og reglugerðarinnar.  Í raun myndi það ekki skipta máli, þótt reglugerðin hefði að geyma ákvæði um þetta, því hún hafi ekki lagagildi.  Ef ætlunin hefði verið sú að láta breytingarnar koma til framkvæmda gagnvart stefnanda, þrátt fyrir að lögin, sem kváðu á um breytingarnar, hefðu verið felld úr gildi, hefði þurft að segja það með skýrum og ótvíræðum hætti í lögum nr. 94/1994.  Það hafi hins vegar ekki verið gert, eins og fyrr segi.  Í þessu sambandi verði að hafa í huga, að með fyrrgreindum reglum laga nr. 44/1992 hafi verið takmörkuð og í sumum tilvikum (eins og í tilviki stefnanda) afnumin stjórnarskrárvarin réttindi.  Sé það viðurkennd lögskýringarregla, að í þeim tilvikum, þar sem verið sé að takmarka, eða eftir atvikum afnema, stjórnarskrárvarin réttindi, verði að túlka allan vafa, sem kunni að koma upp um stjórnskipulegt gildi réttarheimildar, borgurunum í hag.  Niðurstaðan af þessari umfjöllun sé því sú, að ákvörðunin um að afnema umræddar greiðslur til stefnanda, styðjist ekki við lagaheimild og stangist því á við fyrrgreint grundvallarskilyrði 72. gr. stjórnarskrárinnar nr. 33/1944.  Sú ákvörðun að svipta stefnanda rétti til umræddra greiðslna frá og með 1. júlí 1997 hafi því verið ólögmæt.  Af þeim sökum beri að taka aðalkröfu stefnanda til greina og viðurkenna rétt hans til þess að fá óskertar örorku- og barnalífeyrisgreiðslur á grundvelli laga nr. 49/1974, eins og þau voru fram að setningu laga nr. 44/1992.

 

2.2. Brot á jafnræðisreglu

Í öðru lagi sé á því byggt, að ákvæði 5. gr. og 8. gr.  laga nr. 44/1992, sem fólu í sér breytingu á 1. mgr. 13. gr. og 3. mgr. 15. gr. laga nr. 49/1974 og bráðabirgðaákvæði laga nr. 44/1992, þar sem breytingarnar voru gerðar afturvirkar, sem og önnur ákvæði laga nr. 44/1992, sem hafi í för með sér skerðingu á greiðslu örorku- og barnalífeyris, stangist á við jafnræðisreglu stjórnskipunar Íslands, sem hafi verið lögfest með ákvæði 65. gr. stjórnar­skrárinnar nr. 33/1944, sbr. og 14. gr. laga nr. 62/1994 um mannréttindasáttmála Evrópu.  Tilgangurinn með setningu laga nr. 44/1992 muni hafa verið að bregðast við fjárhagsvanda stefnda, en stefndi hafi ákveðið, í gegnum fyrrgreinda lagasetningu, að bregðast við honum með því að skerða greiðslur til örorku- og barnalífeyrisþega.  Ljóst sé, að með þessu hafi stefndi verið að velja út takmarkaðan hóp manna, sem áttu aðild að lífeyrissjóði stefnda, og skerða (afnema í tilviki stefnanda) greiðslur til þeirra.  Sé á því byggt af hálfu stefnanda, að þessi aðferð stefnda til að stuðla að bættri fjárhagslegri stöðu sinni, standist ekki reglur stjórnskipunar Íslands og mannréttindasáttmála Evrópu.  Afleiðingin sé sú, að fyrrgreind ákvæði laga nr. 44/1992 séu ekki gild réttarheimild og beri því að virða þau að vettugi að þessu leyti.  Af þeim sökum beri að taka aðalkröfu stefnanda til greina og viðurkenna rétt hans til óskerts örorku- og barnalífeyris á grundvelli laga nr. 49/1974, eins og þau lög voru fram til gildistöku laga nr. 44/1992. 

 

2.3. Skilyrði um almenningsheill ekki fullnægt

Samkvæmt 72. gr. stjórnarskrárinnar nr. 33/1944 megi ekki skylda neinn til að láta af hendi eign sína, nema almenningsheill krefji.

Eins og fyrr segi hafi lög nr. 44/1992, sem kváðu á um margumræddar takmarkanir á lífeyrisréttindum, verið sett fyrir tilstuðlan stefnda vegna fjárhagslegra erfiðleika lífeyrissjóðsins.  Lífeyriséttindi einstaklinga hafi þannig verið takmörkuð og eftir atvikum afnumin vegna hallareksturs stefnda.  Af hálfu stefnanda sé á því byggt, að fjárhagslegir erfiðleikar af þessu tagi geti aldrei verið þess eðlis, að skilyrðinu um almenningsþörf verði talið fullnægt.  Fræðimenn hafi til dæmis talið, að fjárþörf ríkis eða sveitarfélags sé ekki fullnægjandi að þessu leyti.  Að mati stefnanda sé ótvírætt, að þegar einstakir lífeyrissjóðir eigi í hlut, sé enn frekar ástæða til að hafna því, að skilyrðinu um almenningsheill sé fullnægt.

Því sé sérstaklega mótmælt, að löggjafarvaldið hafi um það fullnaðar­úrskurðarvald, hvort skilyrðinu um almenningsheill sé fullnægt.  Þegar um bersýnilega misbeitingu sé að ræða, eins og í því máli sem hér sé verið að fjalla um, hafi dómstólar heimild til þess að endurskoða mat löggjafans.

Stefndi hljóti sjálfur að bera ábyrgð á hallarekstri sínum, en telji hann ríkisvaldið bera ábyrgð á honum, vegna ýmissa kvaða, sem hafi verið sett sjóðnum á herðar með lögum, verður stefndi að snúa sér að ríkinu og krefjast leiðréttingar, í stað þess að svipta eða eftir atvikum takmarka eignaréttindi einstaklinga.

 

3. Málsástæður vara- og þrautavarakröfu.

Eins og fyrr segi hafi sú breyting á grundvelli örorkumats, sem sett hafi verið fram með setningu laga nr. 44/1992, leitt til þess, að stefnandi glataði rétti til greiðslu örorku- og barnalífeyrisbóta, sem hann hafði áunnið sér með vinnu sinni og fjárframlögum.  Réttindi þessi teljast til eignaréttinda, sem njóti verndar 72. gr. stjórnarskrárinnar og verði þar af leiðandi ekki tekin af stefnanda, nema fullnægt sé skilyrðum þessa stjórnarskrárákvæðis.

Samkvæmt 72. gr. stjórnarskrárinnar verði enginn skyldaður til að láta af hendi eign sína nema (i) almenningsþörf krefji, (ii) lagaheimild liggi slíkri aðgerð til grundvallar og (iii) fullar bætur komi fyrir.  Nú þegar hafi verið fjallað um skilyrði (i) og (ii).  Fari svo, að dómur komist að þeirri niðurstöðu, að síðastnefndum tveimur skilyrðum stjórnarskrárinnar hafi verið fullnægt, sé á því byggt af hálfu stefnanda, að stefndi, fyrir atbeina varastefnda, geti ekki svipt stefnanda þessum réttindum, án þess að þurfa að greiða honum fullar bætur fyrir.

Krafan á hendur stefnda sé á því byggð, að hann hafi, með saknæmum og ólögmætum hætti, tekið ákvörðun um að breyta reglum sjóðsins, sem leiddi til þess, að stefnandi var sviptur rétti til örorku- og barnalífeyrisbóta.  Sé á því byggt, að hann beri skaðabótaábyrgð á þessari ákvörðun á grundvelli sakarreglunnar.

Krafan á hendur varastefnda byggi á því, að ákvæði laga nr. 44/1992 hafi brotið gegn ákvæðum 65. gr. og 72. gr. stjórnarskrárinnar nr. 33/1944, ásamt síðari breytingum.  Eins og fyrr segi, feli fyrrgreind ákvæði laga nr. 44/1992 í sér mismunun gagnvart einstökum lífeyris­þegum og stangist á við ákvæði 65. gr. stjórnarskrárinnar nr. 33/1944.  Á sama hátt hafi skilyrðinu um almenningsþörf í 72. gr. stjórnarskrárinnar ekki verið fullnægt fyrir setningu þessara laga (sem og öðrum skilyrðum þessa ákvæðis).  Að öðru leyti sé vísað í þessu sambandi til fyrri umfjöllunar um 65. gr. og 72. gr. stjórnarskrárinnar.  Sé á því byggt af hálfu stefnanda, að varastefndi beri skaðabótaábyrgð á því tjóni, sem stefnandi hafi orðið fyrir vegna setningu laga nr. 44/1992 á grundvelli sakarreglunnar.  Verði ekki fallizt á, að varastefndi beri bótaábyrgð á grundvelli sakarreglunnar, sé á því byggt, að hann beri bótaábyrgð á hlutlægum grundvelli.

Verði nú vikið nánar að grundvelli bótakröfunnar.

Ljóst sé, að ef reglunum um grundvöll örorkumats hefði ekki verið breytt, hefði stefnandi máls þessa fengið áframhaldandi örorkulífeyrisgreiðslur fram til 65 ára aldurs.  Á sama hátt sé ljóst, að stefnandi hefði haldið áfram að fá greiddan barnalífeyri, allt fram til þess að börn hans næðu 18 ára aldri.  Stefnandi hafi fengið Jón Erling Þorláksson tryggingafræðing, til að reikna út höfuðstólsverðmæti örorku- og barnalífeyrisgreiðslna pr. 1. júlí 1997, sem sé sá dagur, sem greiðslurnar voru felldar niður, miðað við þessar forsendur.  Niðurstaðan hafi verið sú, að höfuðstólsverðmæti þessara greiðslna væri samtals kr. 12.637.600,-, ef miðað sé við 3,5% framtíðarvexti, en kr. 11.970.300,-, sé miðað við 4,5% framtíðarvexti.  Þrautavarakrafan taki mið af síðastnefndum framtíðarvöxtum, verði ekki fallist á, að miða beri við 3,5% framtíðarvexti.  Að öðru leyti byggi þrautavarakrafan á sömu málsástæðum.

Eins og sjá megi af bréfi lögmanns stefnda, dags. 13. júní 1998, á dskj. nr. 14, fallist stefndi á, að lífeyrisréttindi njóti verndar eignaréttarákvæðis stjórnarskrárinnar.  Á hinn bóginn byggi stefndi á því, að stjórn sjóðsins sé heimilt að skerða réttindi sjóðfélaga, þegar slíkt sé byggt á efnislegum forsendum.  Á þetta geti stefnandi alls ekki fallizt, að því er varðar það mál, sem hér sé til umfjöllunar.

Af hálfu stefnanda sé á því byggt, að svigrúm stefndu til breytinga á þeim reglum, sem gildi um lífeyrisgreiðslur, takmarkist eðli máls samkvæmt við þær heimildir, sem sé að finna í reglum sjóðsins á þeim tíma, sem viðkomandi lífeyrisþegi hafi áunnið sér réttindi í sjóðnum.  Ljóst sé, að heimild stefndu til að takmarka, eða eftir atvikum fella niður, rétt til lífeyris­greiðslna, verði að byggjast á skýlausum heimildum.  Af hálfu stefnanda sé á því byggt, að í lögum nr. 49/1974 hafi ekki verið að finna neina heimild til þess að breyta grundvelli örorkulífeyrisgreiðslna á þann hátt, sem gert hafi verið með lögum nr. 44/1992.  Stefndi hafi á hinn bóginn í þessu sambandi vísað til 7. gr. reglugerðar sjóðsins, sem tók gildi þann 1. september 1994, og haldið því fram, að þar sé að finna almenna heimild sjóðsins til að takmarka lífeyrissjóðsréttindi, en sambærilegt ákvæði sé að finna í 8. gr. laga nr. 49/1974.  Í 8. gr. laga nr. 49/1974 sé mælt fyrir um, að reglulega skuli tryggingafræðingur gera úttekt á fjárhag stefnda og gera tillögur til aðgerða, ef nauðsynlegt sé að efla hann fjárhagslega.  Sé því sérstaklega mótmælt, að stefndu hafi haft heimild, með stoð í þessu ákvæði, til að framkvæma fyrrgreindar breytingar, og að í þessu ákvæði felist almennur fyrirvari gagnvart lífeyrisþegum um hugsanlegar breytingar þeim í óhag.  Ljóst sé, að tilgangurinn með 8. gr. laga nr. 49/1974 hafi verið að stuðla að því að koma í veg fyrir hallarekstur sjóðsins og tryggja, að gripið yrði til einhverra aðgerða nægilega snemma til að fyrirbyggja, eða eftir atvikum komast fyrir, ótryggan fjárhag sjóðsins.  Þær aðgerðir, sem sjóðurinn geti gripið til, verði að sjálfsögðu að felast í öðru en að takmarka eða afnema áunnin réttindi lífeyrisþega.  Slíkar aðgerðir verði að takmarkast við annars konar úrræði.  Hafi slíkar aðgerðir í för með sér takmörkun eða afnám lífeyrisréttinda, verði þær að takmarkast við þá einstaklinga, sem gerist aðilar að sjóðnum í kjölfar slíkra breytinga[.1] .  Stefnandi byggi á því, að það hefði þurft að taka það beinlínis fram í 8. gr. laga nr. 49/1974, ef stefndu hefði átt að vera heimilt að takmarka eða afnema lífeyrisréttindi í því skyni að rétta af hallarekstur.  Þar sem það sé ekki gert, sé ótvírætt, að óheimilt hafi verið að viðhafa þessar skerðingar, án greiðslu fullra bóta.

Í tengslum við umfjöllun þessa sé rétt að vekja athygli á 9. gr. laga nr. 49/1974, en þar segi berum orðum, að sjóðfélagar beri ekki ábyrgð á skuldbindingum sjóðsins nema með iðgjöldum sínum.  Þetta feli í sér skýrt loforð af hálfu sjóðsins um, að sjóðfélagar eigi ekki að þurfa að þola takmörkun eða afnám á réttindum sínum, vegna bágrar fjárhagsstöðu sjóðsins.  Ef lífeyrisþegar ættu að þurfa að þola slíka takmörkun eða afnám réttinda, væru þeir í raun að taka á sig ábyrgð á skuldbindingum sjóðsins.

Í stjórnskipunarrétti Íslands og eignarétti sé viðurkennt, að vissar skerðingar á eignaréttindum séu þess eðlis, að þær hafi ekki í för með sér bótaskyldu.  Stefnandi byggi á hinn bóginn á því, að ótvírætt sé, að sú skerðing (afnám í þessu tilviki), sem fólst í setningu laga nr. 44/1992 og leiddi til þess, að hann glataði alfarið rétti til greiðslu örorku- og barnalífeyris, verði aldrei talin vera almenn skerðing eignaréttar, sem hann þurfi að þola bótalaust.  Í þessu sambandi sé vakin athygli á því, að skerðingin, eða öllu heldur afnám réttindanna, sé ekki almenn, heldur bitni hún á þröngum hópi lífeyrisþega.  Skerðingin styðjist ekki heldur við almennar málefnalegar ástæður, en í því sambandi sé meðal annars vísað til þess, sem fyrr sagði um skilyrði 72. gr. stjórnarskrárinnar nr. 33/1944 um almenningsþörf.  Fjárhagsvandi lífeyrissjóðs verði aldrei talinn réttlæta skerðingu og afnám lífeyrisréttinda.  Leita verði annarra leiða til að rétta af fjárhag lífeyrissjóða.

 

Kröfugerð:

Kröfugerð stefnanda sundurliðist svo:

 

Aðalkrafa:

Örorkulífeyrir, kr. 61.356 pr. mánuð

frá 1.7.97 til 1.9.98 (61.356,- x 15).

 

kr.      920.340

Barnalífeyrir, 3 börn, kr. 48.516 pr. mánuð, (kr. 16.172,-x3) í 9 mánuði (þá varð eitt barn 18 ára).

 

kr.      436.644

Barnalífeyrir, 2 börn, kr. 32.344 pr.

mánuð í 6 mánuði.

 

kr.      194.064

Samtals

kr.   1.551.048

 

Varakrafa:

Höfuðstólsverðmæti, þegar gert sé ráð fyrir kr. 61.356 pr. mánuð í lífeyri fyrir stefnanda fram til 65 ára aldurs.

 

 

kr.   9.373.300

Höfuðstólsverðmæti barnalífeyris miðað við sömu forsendur, fram til 18 ára aldurs barnanna: Kristinn kr. 136.100 Anna Margrét kr.   1.469.600 Ásmundur

 

 

 

kr.   1.658.600

Samtals

kr. 12.637.600

 

Þrautavarakrafa:

Höfuðstólsverðmæti, þegar gert sé ráð fyrir kr. 61.356 pr. mánuð í lífeyri fyrir stefnanda fram til 65 ára aldurs. kr. 8.816.400 Höfuðstólsverðmæti barnalífeyris miðað við sömu forsendur, fram til 18 ára aldurs barnanna: Kristinn kr. 136.100 Anna Margrét kr.   1.424.500 Ásmundur

 

 

 

 

 

 

 

kr.   1.593.300

Samtals

kr. 11.970.300

 

Vara- og þrautavarakrafa taki alfarið mið af útreikningum Jóns Erlings Þorlákssonar á dskj. nr. 16.  Eins og fyrr segi, sé eini munurinn á vara- og þrautavarakröfu sá, að þrautavarakrafa taki mið af 4,5% framtíðarvöxtum, en varakrafa 3,5%.

 

Lagarök:

Kröfur stefnanda styðjist við reglur stjórnarskrárinnar nr. 33/1944 með síðari breytingum, einkum 65. gr. og 72. gr. hennar, svo og við ólögfestar reglur stjórnskipunar- og eignaréttar. 

Þá sé einnig stuðzt við alþjóðasáttmála, sem íslenska ríkið hafi gerzt aðili að, svo sem Alþjóðasamning um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi og mannréttindasáttmáa Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994.

Bótakrafan á hendur stefnda og varastefnda sé byggð á sakarreglunni.

Vísað sé til eldri laga um lífeyrissjóð stefnda nr. 49/1974.

Kröfur um dráttarvexti og vaxtavexti styðji stefnandi við reglur III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987.

Kröfur um málskostnað styðji stefnandi við XXI. kafla laga nr. 91/1991, einkum 1. mgr. 130. gr.

 

Málsástæður stefnda, Lífeyrissjóðs sjómanna:

Sýknukrafa af aðalkröfu:

Í upphafi sé nauðsynlegt að gera nokkra grein fyrir stefnda, Lífeyrissjóði sjómanna.   Grundvöllur Lífeyrissjóðs sjómanna hafi verið lagður með lögum nr. 49/1958 um Lífeyrissjóð togarasjómanna.   Á þessum lögum hafi verið ýmsar breytingar gerðar í gegnum tíðina, svo sem með lögum nr. 78/1962, þegar heiti sjóðsins var breytt í Lífeyrissjóð togarasjómanna og undirmanna á farskipum, en núverandi heiti hafi sjóðurinn hlotið með lögum nr. 78/1970, sem breytt var með lögum nr. 49/1974, 48/1981, 78/1985 og 44/1992, sem felld hafi verið úr gildi með lögum nr. 94/1994.   En hin síðastgreindu lög gildi nú um sjóðinn, ásamt reglugerð, staðfestri af fjármálaráðherra, frá 1. september 1994.

Með setningu laga nr. 49/1958 um Lífeyrissjóð togarsjómanna hafi verið komið á lögbundnum lífeyrissjóði fyrir togarasjómenn, sem þó hafi lotið, varðandi kjör sín að öðru leyti, kjarasamningum aðila hins frjálsa vinnumarkaðar.   Á þessum tíma hafi verið fyrir í landinu lögboðnir lífeyrissjóðir ríkisstarfsmanna, en starfsmenn á almennum vinnumarkaði hafi samið í kjarasamningum við atvinnurekendur um stofnun lífeyrissjóða.   Með lagasetningunni hafi stjórnvöld viljað hvetja menn til að gera sjómennsku að ævistarfi, en á þessum tíma hafi gengið treglega að manna íslenska togaraflotann íslenskum sjómönnum, sbr. Alþt. 1957 A, þskj. 501.   Ríkisvaldið hafi þó ekki tekizt á hendur neina almenna ábyrgð á rekstri sjóðsins, heldur hafi hann verið byggður upp með iðgjöldum sjóðfélaga og mótframlagi vinnuveitenda.

Lög nr. 49/1958 um Lífeyrissjóð togarasjómanna og síðari heildarlög nr. 49/1974, hafi í öllum aðalatriðum verið sambærileg við lög um lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins.   Í lögum þessum hafi m.a. verið kveðið á um, hvert skipulag sjóðsins skyldi vera, sbr. 1. gr., iðjöld sjóðfélaga og mótframlag vinnuveitanda, sbr. 9. gr., réttindi sjóðfélaga til elli-, örorku-, maka- og barnalífeyris, sbr. 10. til 15. gr.   Lögin hafi jafnframt lagt þá skyldu á stjórn sjóðsins að láta tryggingafræðing rannsaka fjárhag hans eigi sjaldnar en fimmta hvert ár og gera tillögur til úrbóta varðandi fjárhaginn, væri hann ótraustur, sbr. 8. gr.  Hafi sagt efnislega í athugasemdum um 8. gr. frumvarps til laga um lífeyrissjóð togarasjómanna, að nauðsynlegt væri að láta sérfróða aðila fylgjast með fjárhagsgrundvelli lífeyrissjóðsins sem oftast.   Slík endurskoðun væri aðeins á færi sérmenntaðs tryggingafræðings og því væri stjórn sjóðsins nokkuð bundin af tillögum hans um þessi efni, sbr. Alþingistíðindi 1957 A, nr. 501 bls. 892.

8. gr. laga um Lífeyrissjóð sjómanna hafi því falið í sér almennan fyrirvara um, að sjóðfélagar kynnu að þurfa að þola skerðingu réttinda sinna í sjóðnum, reyndist fjárhagur hans við úttekt neikvæður miðað við þær skuldbindingar, sem á sjóðnum hvíldu gagnvart sjóðfélögum.

Í gegnum tíðina hafi réttindi sjóðfélaga á ýmsan hátt verið rýmkuð, þegar það hafi verið mat sjóðsstjórnar og tryggingafræðinga, að slíkt væri unnt.  Megi í því sambandi benda á lög nr. 49/1974, sem rýmkuðu rétt sjóðfélaga til töku ellilífeyris.   Þá hafi ríkisvaldið jafnframt veitt sjóðfélögum aukin réttindi í sjóðnum, án þess að leita til sjóðstjórnar eða láta gera úttekt á fjárhagslegri þýðingu slíks fyrir sjóðinn, sbr. lög nr. 48/1981, sem fólu í sér verulega rýmkun á ellilífeyrisrétti sjóðfélaga.   Ríkisvaldið hafi þó hvorki lagt sjóðnum til fjármuni til að mæta þessum auknu skuldbindingum sjóðsins gagnvart sjóðfélögum hans, né heldur hafi verið lögð sú kvöð á sjóðsaðila, að þeir ykju framlög sín til sjóðsins.

Til að mæta sífellt auknum halla á Lífeyrissjóði sjómanna og að undangengnum úttektum við árslok 1986 og 1989 hafi stjórn sjóðsins óskað eftir því við Alþingi, 115. löggjafarþing, að gerðar yrðu nokkrar breytingar á lögum um sjóðinn í því skyni að sporna við sífellt auknum hallarekstri, sbr. Alþingistíðindi 18. hefti 1991-1992, þingskjöl, bls. 4673-4676.   Við árslok 1989 hafi vantað 36.165 millj. á, að höfuðstóll sjóðsins, ásamt verðmæti væntanlegra iðgjalda, nægði fyrir skuldbindingum sjóðsins, ef reiknað var með 2% ársvöxtum, en 20.410.958 millj., ef miðað var við 3% ársávöxtun.   Tryggingafræðingurinn hafi talið rétt að miða við 3% ársávöxtun, en hafi jafnframt sagt í áliti sínu:

"..., en tel á hinn bóginn óraunhæft að reikna með hærri vöxtum, þegar litið er áratugi fram í tímann, og er þá átt við ávöxtun umfram hækkun grundvallarlauna."

Orsakir þessa halla hafi tryggingafræðingurinn sagt vera annars vegar rýrnun eigna á undanförnum áratugum og hins vegar misvægi milli bótaákvæða og fjárhagsgrundvallar.  Hann hafi þó talið ljóst, að vægi fyrrnefnda þáttarins færi mjög minnkandi, og bendi niðurstaða uppgjörs 1989 til, að hann hafi ekki lengur verulega hlutfallslega þýðingu fyrir stöðu sjóðsins.

Meðal þeirra réttinda, sem lagt hafi verið til í frumvarpinu, að skert yrðu, hafi verið örorku- og barnalífeyrir, samkvæmt 1. mgr. 13. og 3. mgr. 15. gr. laga nr. 49/1974, sem hafi hljóðað svo:

 

1.             mgr. 13. gr.

“Hver sjóðfélagi, sem greitt hefur iðgjöld til sjóðsins undanfarin 3 almanaksár og a.m.k. 6 mánuði á undanfarandi 12 mánuðum, á rétt á örorkulífeyri, ef hann verður fyrir orkutapi, er tryggingayfirlæknir metur 35% eða meira.   Örorkumat þetta skal aðallega miðað við vanhæfi sjóðfélaga til að gegna starfi því, er hann hefur gegnt og aðild hans að sjóðnum er tengd…......”

 

2.             mgr. 15. gr.

"Sama rétt öðlast börn og kjörbörn þeirra sjóðfélaga, er njóta örorkulífeyris úr sjóðnum, þó svo, að barnalífeyrir úr þessum sjóði skal vera jafnmargir hundraðshlutar af fullum barnalífeyri og orkutap þeirra er metið."

 

Frumvarpið hafi orðið að lögum nr. 44/1992 og hafi 5. og 8 gr. þess, sem fólu í sér breytingu á 1. mgr. 13. og 3. mgr. 15. gr. laga nr. 49/1974, hljóðað svo:

 

5. gr.

"Hver sjóðfélagi, sem greitt hefur iðgjöld til sjóðsins undanfarin þrjú almanaksár og a.m.k. sex mánuði á undanfarandi tólf mánuðum, á rétt á örorkulífeyri ef hann verður fyrir orkutapi, er tryggingayfirlæknir metur 35% eða meira.   Örorkumat þetta skal miðað við vanhæfi sjóðfélaga til almennra starfa.   Fyrstu fimm árin eftir orkutapið skal þó miða við vanhæfi sjóðfélaga til að gegna starfi því, er hann hefur gegnt og aðild hans að sjóðnum er tengd....."

 

8. gr.

"Sama rétt öðlast börn og kjörbörn þeirra sjóðfélaga er njóta örorkulífeyris úr sjóðnum vegna 100% örorku.   Við ákvörðun lífeyrisfjárhæðar sjóðsins skal þó ávallt reikna með að örorka samkvæmt almannatryggingalögum sé 75%.   Sé örorka metin lægri en 100% skal barnalífeyrir sjóðsins vera hlutfallslega lægri."

 

Lög nr. 44/1992 hafi verið birt í A-deild stjórnartíðinda 1. júní 1992 og verið frá og með þeim tíma bindandi fyrir stefnanda, eins og aðra sjóðfélaga, sbr. lög nr. 64/1943, um birtingu laga og stjórnvaldserinda.   Stefndi hafi því ekki þurft að senda stefnanda sérstaka tilkynningu um breytingu á bótarétti hans úr sjóðnum, eins og látið sé liggja að á bls. 2 í stefnu á dskj. nr. 1.

Stefnandi hafi, að eigin sögn, ekki gert athugasemdir við skerðingu réttinda sinna með lögum nr. 44/1992 fyrr en með bréfi lögmanns dags. 3. mars 1997, þ.e. tæpum fimm árum eftir að honum var kunnugt um reglu 5. og 8. gr. laga nr. 44/1992.   Krafa stefnanda til óskerts örorku- og barnalífeyris á grundvelli 13. og 15. gr. laga nr. 49/1974 sé því fyrnd, sbr. 3. gr. laga nr. 14/1905 um fyrningu skulda og annarra kröfuréttinda.

Sú málsástæða stefnanda á bls. 2 í stefnu á dskj. nr. 1, að skerðing réttinda hans hafi ekki haft lagastoð, sé röng.  Réttindin hafi verið skert með lögum nr. 44/1992.   Breyti engu fyrir niðurstöðu þessa máls, þó að Alþingi hafi, að frumkvæði stjórnar Lífeyrissjóðs sjómanna, sett sjóðnum ný heildarlög nr. 94/1994, sem fellt hafi úr gildi lög nr. 49/1974 með síðari breytingum.   Stefnandi hafi notið réttinda sinna til 1. júlí 1997, eins og hann hafi átt rétt til samkvæmt bráðabirgðarákvæði laga nr. 44/1992.   Stefnandi getur ekki sótt neinn stuðning fyrir kröfum sínum í þessu máli til máls Svavars Benediktssonar gegn Lífeyrissjóði sjómanna og íslenska ríkinu, þar sem þau séu ekki sambærileg á neinn hátt nema þann, að bæði varði rétt til lífeyris úr Lífeyrissjóði sjómanna.

Því sé alfarið hafnað, að stefnandi geti byggt einhvern rétt í máli þessu á eignaréttar- og/eða jafnræðisákvæði stjórnarskrárinnar.   Sé í því sambandi bent á eftirfarandi:

Með setningu laga nr. 44/1992 hafi stjórn Lífeyrissjóðs sjómanna m.a. verið að reyna að sporna við gífurlegum halla, sem var á sjóðnum og jafnframt að samræma örorku- og barnalífeyrisréttindi sjóðfélaga í Lífeyrissjóði sjómanna við almennt gildandi reglur starfsgreina lífeyrissjóða hér á landi.

Viðurkennt sé í fyrsta lagi, að lífeyrissjóðir verði ekki, á grundvelli stjórnarskrárákvæða, skyldaðir til að standa undir skuldbindingum, sem þeir eigi ekki fyrir, og í annan stað, að stjórnum lífeyrissjóða sé bæði rétt og skylt að skerða lífeyrisréttindi sjóðfélaga við þær aðstæður.  Þessi sjónarmið endurspeglist nú glögglega í 21. til 24. gr. sbr. 39. gr. laga nr. 129/1997 um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.

Eins og að framan sé rakið, hafi hallinn á Lífeyrissjóði sjómanna um áramót 1989/1990 ekki verið undir 20 milljörðum, samkvæmt úttekt Guðjóns Hansen tryggingafræðings.  Orsök þessa halla hafi verið misvægi milli bótaákvæða og fjárhagsgrundvallar.   Í almennum athugasemdum við frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 49/1974, 18. hefti 1991-1992, Alþingistíðindi, þingskjöl, bls. 4675, segi nánar um þetta:

"Þær breytingar, sem í þessu frumvarpi eru lagðar til á bótarétti sjóðfélaga, miða aðallega að því að draga úr útgjöldum sjóðsins.   Þetta á við um breytingu á ákvæði um örorkulífeyri, en á honum hefur orðið gífurleg aukning á síðustu árum, svo og barnalífeyri til örorkulífeyrisþega."

 

Um 5.og 8. gr. frumvarpsins segi síðan í sama hefti Alþingistíðinda bls. 4676:

 

Um 5. gr.

"Sjóðfélagi, sem metinn er óvinnufær til sjós, nýtur samkvæmt núgildandi lögum örorkulífeyris ótímabundið nema bætur séu felldar vegna tekna fyrir önnur störf.   Sjóðfélagi, sem nýtur örorkubóta frá sjóðnum, getur verið vinnufær til margra starfa í landi og haldið örorkubótum frá sjóðnum óskertum.   Hér er lagt til að fyrstu fimm árin eftir að sjóðfélagi verður óvinnufær sé eingöngu miðað við vinnugetu til sjós, en eftir þann tíma verði matið almennt.   Þetta þýðir að margir sjóðfélagar mundu eiga rétt á örorkulífeyri í fimm ár en ekki lengur.   Með þessari breytingu gæti orðið um verulega lækkun á útgreiddum örorkubótum frá sjóðnum að ræða.   Rétt er að geta þess að þessi breyting er í samræmi við reglugerð sjóða innan Sambands almennra lífeyrissjóða."

 

Um 8. gr.

"Samkvæmt gildandi lögum er fjárhæð barnalífeyris til barna örorkulífeyrisþega breytileg þar sem í lögunum segir að samanlagður lífeyrir frá sjóðnum og almannatryggingum skuli vera 1 1/2 barnalífeyrir almannatrygginga.   Fjárhæð barnalífeyris frá sjóðnum fer eftir því hvort sjóðfélagi nýtur barnalífeyris frá almannatryggingum eða ekki.   Hér er lagt til að barnalífeyrir frá sjóðnum verði alltaf 1/2 barnalífeyrir almannatrygginga.   Það bæði dregur úr útgjöldum sjóðsins og auðveldar framkvæmd ákvæðisins þar sem oft liggur ekki fyrir þegar sjóðurinn úrskurðar barnalífeyri hvort réttur sé einnig á slíkum lífeyri frá Tryggingastofnun.   Sú breyting, sem hér er lögð til, er einnig í samræmi við reglugerð SAL."

 

Með þessum breytingum á reglum um lífeyri hafi fyrst og fremst verið stefnt að því að draga úr hallarekstri sjóðsins.   Að mati sjóðstjórnar hafi verið eðlilegast að byrja á örorkulífeyri og sníða reglur sjóðsins með skýrum og ótvíræðum hætti að skaðabótaeðli örorkulífeyris, þannig að hann ætti aðeins að koma til, ef sjóðfélagi yrði fyrir raunverulegum tekjumissi 5 árum eftir orkuskerðingu; réttur til örorkulífeyris lyti m.ö.o. almennum skaðabótasjónarmiðum, s.s. þeirri grundvallarreglu skaðabótaréttar, að tjónþoli eigi að fá fullar bætur en ekki meir.   En hjá Lífeyrissjóði sjómanna hafði komið í ljós, að nokkur fjöldi fyrrum sjómanna, sem greitt höfðu iðgjöld til sjóðsins, en töldust ekki geta stundað sjómennsku lengur vegna örorku, hafi notið örorkubóta úr sjóðnum, þrátt fyrir að þeir væru í fullu starfi í landi.

Stefnandi sé fullfær til vinnu í landi og hafi ekki orðið fyrir neinum tekjumissi vegna örorku sinnar.   Megi því fullyrða, að hann hafi ekki átt að njóta örorkubóta sökum þessa, sbr. 1. mgr. 13. gr. laga nr. 49/1974 in fine.   Þess megi geta hér, að stefnandi hafi ekki greitt til Lífeyrissjóðs sjómanna iðgjöld frá árinu 1981.   Réttindi hans í sjóðnum reiknuð í stigum séu 15.464, en örorkurbætur hans fyrir skerðinguna hafi miðazt við 69.675 stig.   Örorkubætur stefnanda hafi þannig að mestu byggzt á hóptryggingareðli Lífeyrissjóðs sjómanna.   Þegar slíkur sjóður sé með liðlega 20 milljarða halla, eins og reyndin hafi verið með Lífeyrissjóð sjómanna um áramót 1989/1990, sé í raun óskiljanlegt, hvernig einstakir sjóðfélagar telji sig geta átt einhvern stjórnarskrárverndaðan rétt til óskertra lífeyrisgreiðslna, sem aðeins geti aukið á halla sjóðsins og rýrt eða gert að engu réttindi annarra sjóðfélaga.

Þegar rekstrarhalli hafði verið staðreyndur á Lífeyrissjóði sjómanna með lögboðnum aðferðum, hafi sjóðstjórninni fyrst borið að draga úr eða stöðva útgjöld, eins og greiðslu örorkubóta til þeirra, sem ekki hafa orðið fyrir neinum tekjumissi vegna orkuskerðingar, þar sem þeir hafi sannanlega getað gegnt öðru starfi en sjómannsstarfinu.

Félagar í Lífeyrissjóði sjómanna hafi heldur ekki átt skilyrðislausan rétt til að örorkumat þeirra byggðist aðeins á getu þeirra til að gegna sjómannsstarfi, heldur skyldi matið miðast við það aðallega, eins og sagði í 1. mgr. 13. gr.

Eins og mál þetta sé lagt upp af hálfu stefnanda virðist hann líta á örorku­bæturnar sem miskabætur, þar sem hann geti ekki lengur stundað þá vinnu, sem hann menntaði sig til.   Þetta sé alrangt.   Örorkubætur frá Lífeyrissjóði sjómanna hafi ávallt verið hugsaðar sem skaðabætur sökum tekjumissis vegna orkutaps.

Skerðing örorkuréttar sjóðfélaga í Lífeyrissjóði sjómanna hafi, samkvæmt framansögðu, byggzt á efnahagslegum og málefnalegum forsendum og rúmist því innan þeirra marka, sem almennt hafi verið talin heimila skerðingar, þegar lífeyrissjóðir eigi hlut að máli.

Með skerðingunni hafi ekki heldur verið farið gegn jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar.  Þvert á móti hafi skerðing verið gerð til þess að tryggja öllum sjóðfélögum í Lífeyrissjóði sjómanna greiðslur úr sjóðnum, þegar réttur þeirra til greiðslu yrði virkur, hvort heldur væri sakir elli, örorku eða missis framfæranda.   Árið 1992 hafi réttur til örorku verið skertur, réttur til makalífeyris rýmkaður.   Árið 1994 hafi réttur til ellilífeyris úr sjóðnum á aldursbilinu 60-65 ára verið skertur.   Allt hafi þetta, ásamt hagstæðri ávöxtun á sjóðnum, gert það að verkum, að halli Lífeyrissjóðs sjómanna hafi verið kominn niður í liðlega sjö milljaðra við úttekt í árslok 1996, sem svaraði til 13% munar milli eignarliða og lífeyrisskuldbindinga.    Staða Lífeyrissjóðs sjómanna hafi ekki breytzt að þessu leyti, og fullnægi hann því ekki ákvæðum 2. mgr. 39. gr. laga nr. 129/1997.

Málshöfðun stefnanda miði að því, að tryggja honum sérréttindi.   Sérréttindi sem hann kjósi að láta sjóðfélaga sína í Lífeyrissjóði sjómanna að mestu standa undir.

 

Málsástæður og lagarök varðandi sýknu af vara- og þrautavarakröfu:

Stefndi kveðst ekki skilja vara- og þrautavarakröfu stefnanda.   Kröfur þessar gangi lengra en aðalkrafan og séu því í andstöðu við hana.  Aðalkrafan gangi út á viðurkenningu á rétti stefnanda til óskerts örorku- og barnalífeyris frá 1. júlí 1997 til samræmis við ákvæði laga nr. 49/1974 og dóms fyrir örorku- og barnalífeyri, sem hafi verið gjaldfallinn, en ógreiddur frá 1. júlí 1997 allt til 1. september 1998, en mál þetta hafi verið þingfest 17. september 1998.

Verði aðalkrafan tekin til greina feli það í sér, að stefnandi eignist kröfu um greiðslu örorku- og barnalífeyris, samkvæmt þeim reglum sem lög nr. 49/1974 höfðu að geyma varðandi þennan lífeyri.   Stefnandi verður þá að sæta öllum sömu takmörkunum og aðrir sjóðfélagar í því sambandi, t.d. þeim að missa rétt til örorkulífeyris, sé ekki um neinn tekjumissi að ræða hjá honum, sbr. 1. mgr. 13. gr. in fine.  Niðurstaða í þessa veru byggist væntanlega á því, að ekki hafi verið um heimilaða skerðingu á eignarétti stefnanda að ræða af hálfu stefnda.  Fyrra réttarástand haldist m.ö.o óbreytt.   Stefnandi öðlist engan skaðabótarétt af þessu tilefni, enda fæli slíkt í sér, að stefnandi öðlaðist meiri rétt á hendur stefnda en hann hafi átt fyrir lagabreytinguna, sem hann telji ólögmæta.

Stefnda sé, líkt og meðstefnda, algjörlega fyrirmunað að skilja þá röksemdafærslu stefnanda, að ákvörðun um breytingu á reglum Lífeyrissjóðs sjómanna hafi verið tekin með ólögmætum og saknæmum hætti.

Fyrir löglega skipaðri stjórn Lífeyrissjóðs sjómanna hafi verið lögð úttekt Guðjóns Hansen tryggingafræðings, pr. 31. desember 1989, dags. 15. marz 1991, sem sýndi liðlega 20 milljarða króna halla á sjóðnum.   Þessi úttekt hafi verið gerð á grundvelli lagaskyldu, og stjórn sjóðsins hafi borið að fara eftir tillögum tryggingafræðingsins varðandi úrbætur, sbr. 8. gr. laga nr. 49/1974.  Til að koma fram nauðsynlegum úrbótum, hafi stjórnin orðið að leggja fyrir Alþingi með atbeina fjármálaráðherra frumvarp til breytinga á lögum um lífeyrissjóðinn.   Stefnandi hafi ekki sýnt fram á, að stjórn stefnda, fjármálaráðherra og alþingismenn, hafi ekki staðið að breytingum þessum á réttan hátt.

Málsástæður stefnanda fyrir vara- og þrautavarakröfu á bls. 5-7 í stefnu séu hrein fjarstæða, enda séu þær ekki í samræmi við almennt viðurkennd sjónarmið um heimild og skyldu stjórna lífeyrissjóða til að breyta réttindum sjóðfélaga, draga úr þeim eða auka þau, til samræmis við fjárhagsstöðu viðkomandi sjóða hverju sinni.  Þá taki málsástæður stefnanda ekkert mið af eðli og tilgangi samtryggingarsjóða eins og Lífeyrissjóðs sjómanna.   Öllum hugleiðingum lögmanns stefnanda á bls. 5-7 í stefnu á dskj. nr. 1 sé mótmælt.

Stefndi mótmæli fjárhæð vara- og þrautavarakrafna sem algjörlega órökstuddum.   Þá sé upphafstíma dráttarvaxta mótmælt, þar sem kröfur þessar hafi fyrst verið kynntar fyrir stefnda með stefnu birtri 16. september 1998.

Stefndi bendi og á, að kröfur þessar séu fyrndar, hafi þær á annað borð einhvern tímann orðið til.

Stefndi taki að öðru leyti undir sjónarmið meðstefnda í greinargerð hans vegna vara- og þrautavarakrafna.

 

Lagarök fyrir málskostnaðarkröfu:

Krafa um málskostnað sé byggð á ákvæðum XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

 

Málsástæður varastefnda, íslenzka ríkisins:

Stefndi kveður stefnanda ekki skýra með hvaða hætti lagasetning á Alþingi geti verið með saknæmum og ólögmætum hætti þannig, að skilyrðum sakarreglunnar sé fullnægt.

     Með lögum nr. 44/1992, um breytingu á lögum nr. 49/1974 um Lífeyrissjóð sjó-manna hafi verið gerðar nokkrar breytingar á lífeyrisákvæðum laganna, þ.á m. á reglum um örorkulífeyri og barnalífeyri.  Breytingarnar á örorkulífeyrinum hafi gengið út á, að fyrstu 5 árin sé örorkumatið miðað við getu sjóðfélaga til að sinna sjómannsstörfum, en eftir það sé matið miðað við getu til að sinna almennum störfum.  Með breytingum á reglum um barnalífeyri hafi barnalífeyrir orðið helmingur af barnalífeyri almannatrygginga og þannig óháður því, hvort sjóðfélagi nyti barnalífeyris úr almannatryggingum eða ekki.  Þessar breytingar hafi verið í samræmi við breytingar, sem áður höfðu verið gerðar hjá mörgum öðrum lífeyrissjóðum, þ.á m.  lífeyrissjóðum innan Sambands almennra lífeyrissjóða.  Samkvæmt bráðabirgða­ákvæði með lögunum skyldu örorkulífeyrisþegar njóta bóta fyrstu 5 árin eftir gildistöku laganna miðað við vanhæfi til sjómannsstarfa, en eftir það skyldi matið verða almennt.  Jafnframt hafi verið veittur 5 ára aðlögunartími vegna breytinga á barnalífeyrinum.   Þetta ákvæði hafi, í tilviki stefnanda, þýtt, að greiðslur til örorkulífeyrisþega féllu niður, þar sem þeir uppfylltu ekki lengur þau skilyrði, sem urðu að vera fyrir hendi, til að eiga rétt á örorkulífeyri.

     Í athugasemdum með frumvarpinu, þegar það var lagt fyrir Alþingi á 115. lög-gjafarþingi 1991 - 1992 (þskj. 754) segi m.a., að frumvarpið sé samið að tilhlutan stjórnar Lífeyrissjóðs sjómanna.  Samkvæmt tryggingafræðilegri úttekt, sem gerð hafi verið miðað við stöðu í árslok 1989, hafi verið mikill halli á lífeyrissjóðnum og breytingar þær, sem fólust í frumvarpinu, miði aðallega að því að draga úr útgjöldum sjóðsins.  Eigi þetta við um breytingu á ákvæði um örorkulífeyri, en á greiðslu örorku-lífeyris hafi orðið gífurleg aukning á síðustu árum, svo og á greiðslu barnalífeyris.  Í athugasemdunum sé einnig bent á, að eftir gildandi reglum geti sjóðfélagi, sem njóti örorkubóta frá lífeyrissjóðnum, verið vinnufær til margra starfa í landi og haldið örorkubótunum frá sjóðnum óskertum.  Því sé lagt til með frumvarpinu, að í stað þess að miða eingöngu við vinnugetu til sjós, eins og verið hafi samkvæmt eldri lögum, verði framvegis miðað við vinnugetu til sjós fyrstu 5 árin eftir að sjóðfélagi verði óvinnufær, en eftir þann tíma verði matið almennt.  Þetta þýði, að margir sjóðfélagar muni eiga rétt á örorkulífeyri í 5 ár, en ekki lengur.  Verði þannig um verulega lækkun á útgreiddum örorkubótum frá sjóðnum að ræða í framtíðinni.  Bent sé á, að breyting þessi sé í samræmi við reglugerð sjóða innan Sambands almennra lífeyrissjóða.

     Varastefndi telji, að þessi breyting sé rökrétt afleiðing af fjárhagsstöðu sjóðsins á þeim tíma, sem hún var gerð.  Ákvörðunin taki til allra, sem eins standi á um, og sé tekin á hlutlægum og málefnalegum grundvelli og brjóti hvorki gegn ákvæðum stjórnarskrárinnar um vernd eignaréttinda né reglum íslenzkrar  stjórnskipunar um jafnræði.  Lagabreytingin sé gerð að tilhlutan stjórnar lífeyrissjóðsins, þar sem eigi sæti fulltrúar atvinnurekenda og launþega, þ.á m. launþegasamtaka, sem stefnandi hafi átt aðild að.  Tilgangur reglna um örorkulífeyri hjá lífeyrissjóðnum sé sá að greiða þeim framfærslueyri, sem hafi að einhverju leyti skert aflahæfi.  Í mörgum tilvikum skipti það ekki máli, hvort matið miði við vanhæfi til að gegna viðkomandi starfi eða almennum störfum.  Í þeim tilvikum, þar sem þetta skipti máli, fá sjóðfélagar ákveðinn tíma til að laga sig að breyttum aðstæðum og geti þannig, t.d. með endur-menntun, þjálfað sig til nýrra starfa.  Þeir, sem komnir hafi verið á örorkulífeyri, þegar umrædd breyting var gerð, hafi fengið sömu tækifæri og þeir, sem hófu töku lífeyris eftir gildistöku laganna, til að laga sig að breyttum aðstæðum. Breytingin hafi byggzt á málefnalegum sjónarmiðum og náð jafnt til allra sjóðfélaga, og hafi hún verið í samræmi við þá þróun, sem orðið hafði hjá lífeyrissjóðum, og byggzt þannig á mati á því, hvað væri eðlileg og sanngjörn skipting á réttindum milli sjóðfélaga innbyrðis, maka þeirra og barna.

     Af hálfu varastefnda sé því einnig haldið fram, að verði niðurstaðan sú, að laga-heimild skorti fyrir þeim breytingum, sem gerðar voru á lífeyrisgreiðslum til stefnanda og hann eigi rétt til frekari eða hærri greiðslna úr lífeyrissjóðnum en inntar hafi verið af hendi, skorti öll skilyrði til að flytja slíka greiðsluskyldu yfir á íslenska ríkið. Réttur sjóðfélaga til lífeyrisgreiðslna sé á hendur lífeyrissjóðnum, en ekki á hendur ríkissjóði, sbr. nú 2. gr.  reglugerðar um Lífeyrissjóð sjómanna.  Sama gildi um þann grundvöll, sem lífeyrisréttindi séu reiknuð út frá, og um fjárhæð lífeyrisins, sbr. 9., 11. og 13. gr. reglugerðarinnar.  Dómkröfum stefnanda sé þannig ranglega beint gegn ríkissjóði, og beri því einnig af þeirri ástæðu að sýkna íslenska ríkið af kröfum stefnanda, sbr. 2. mgr. 16.  gr. laga um meðferð einkamála.

     Stefndi vísi í þessu sambandi til dóms Hæstaréttar í málinu nr. 368/1997 frá 28. maí 1998.

 

IV.

Forsendur og niðurstaða:

Ekki er ágreiningur um aðild stefnanda að málinu.

Stefnandi byggir á því aðallega, að ákvörðun stefnda um að fella niður greiðslu örorku- og barnalífeyris, skorti lagastoð og standist því ekki efnisskilyrði 72. gr. stjórnarskrárinnar.

Fallast má á það með stefnanda, að umdeildur lífeyrisréttur teljist til eignaréttinda, sem nýtur verndar 72. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. 10. gr. stjórnskipunarlaga nr. 97/1995. 

Stefnandi byggir lífeyrisrétt sinn á 13. gr. og 3. mgr. 15. gr. l. nr. 49/1974.  Samkvæmt 1. mgr. 13. gr. skyldi örorkumat samkvæmt greininni "aðallega miðað við vanhæfni sjóðfélaga til að gegna starfi því, er hann hefur gegnt og aðild hans að sjóðnum er tengd."  Örorkumat undir 35% gaf ekki rétt til örorkulífeyris.  Enn fremur er gert ráð fyrir skerðingu á bótum eða niðurfellingu, haldi bótaþegi fullum launum fyrir starf það, er hann gegndi eða hafi tekjur fyrir annað starf, sem veitir lífeyrissjóðsréttindi.

Með 5. gr. l. nr. 44/1992 var framangreindu bótaákvæði breytt á þann veg, að nú skyldi miða örorkumatið við vanhæfni sjóðfélaga til almennra starfa.  Fyrstu fimm árin eftir orkutapið skyldi þó miða við vanhæfni til að gegna starfi því, er sjóðfélagi hafði gegnt og aðild hans að sjóðnum var tengd.  Tilefni þess, að breyting þessi var gerð, var gífurlegur halli á rekstri lífeyrissjóðsins, svo sem fram kemur í úttektum tryggingafræðinga á stöðu sjóðsins, sem framkvæmdar voru í samræmi við ákvæði 8. gr. l. nr. 49/1974.  Samkvæmt lokamálslið 3. mgr. 8. gr. er tryggingafræðingi þeim, sem reiknar út fjárhag sjóðsins, boðið að gera tillögur til sjóðstjórnar um aðgerðir til eflingar sjóðnum, telji hann fjárhag sjóðsins svo ótryggan, að ekki megi við svo búið standa.  Verður að telja, að í ákvæði þessu felist heimild til að gera allar þær ráðstafanir, sem nauðsynlegar eru til að sjóðurinn megi standa undir sér, þ.á m. að skerða bótaákvæði, svo framarlega sem jafnræðissjónarmiða sé gætt.

Það lá fyrir, að sjóðurinn gat ekki staðið undir sér að óbreyttu og stefndi í óefni.  Áframhaldandi hallarekstur hefði leitt til þess, að hann hefði orðið ófær um að standa undir skuldbindingum sínum gagnvart sjóðfélögum og ljóst, að brýnt var að grípa til aðgerða.  Verður ekki annað séð, en að umdeild breyting hafi stuðzt við málefnaleg sjónarmið og ekki falið í sér mismunun, enda um rúman aðlögunartíma að ræða fyrir bótaþega að endurhæfa sig til annarra starfa.  Þá má og líta til þess, að samkvæmt orðalagi 1. mgr. 13. gr. l. nr. 44/1974 átti sjóðfélagi ekki skýlausan rétt til þess, að örorkumat væri eingöngu miðað við hæfni hans til að stunda fyrra starf, en þar segir, að matið skuli miðast við það "aðallega", svo sem að framan greinir.  Er því ekki fallizt á þá málsástæðu stefnanda, að skerðing á bótaákvæði 13. gr. l. nr. 44/1974 hafi ekki átt stoð í lögum eða að sú lagasetning brjóti gegn 72. gr. stjórnarskrárinnar.

Umdeild lög nr. 49/1992 voru felld úr gildi með lögum nr. 94/1994, sem gildi tóku 1. september 1994, áður en skerðing bóta skv. eldri lögunum var orðin virk gagnvart stefnanda máls þessa.  Hin nýju lög höfðu ekki að geyma efnisleg ákvæði um lífeyrisréttindi sjóðfélaga, heldur vísuðu til reglugerðar um þau atriði.  Þau lög eru því ekki gild lagaheimild um breytingar á réttindum, sem sjóðfélagi hafði áunnið sér í gildistíð eldri laga.  Fer því um réttindi stefnanda samkvæmt lögum nr. 44/1974 með áorðnum breytingum, sbr. l. nr. 49/1992.  Er ekki fallizt á þá túlkun, sem sýnist koma fram í málatilbúnaði stefnanda, að með lögum nr. 94/1994 hafi skerðingarákvæði l. nr. 49/1992 fallið úr gildi, en eldri ákvæði l. nr. 44/1974 haldið gildi sínu.  Aðalkröfu og fyrstu varakröfu stefnanda er því hafnað.

Önnur og þriðja varakrafa stefnanda eru bótakröfur á hendur aðalstefnda og varastefnda in solidum.  Byggir stefnandi á því hvað varðar aðalstefnda, að hann hafi, með saknæmum og ólögmætum hætti, tekið ákvörðun um að breyta reglum sjóðsins, með áðurgreindum afleiðingum fyrir stefnanda. 

Með vísan til þess, sem að framan er rakið, er ekki fallizt á, að skilyrðum sakarreglunnar sé fullnægt vegna setningar umdeildra laga og er þessari málsástæðu stefnanda hafnað.

Varakrafa stefnanda á hendur varastefnda er byggð á því, að ákvæði l. nr. 44/1992 hafi brotið gegn ákvæðum 65. og 72. gr. stjórnarskrárinnar ásamt síðari breytingum og beri varastefndi skaðabótaábyrgð á tjóni stefnanda af þeim sökum á grundvelli sakarreglunnar, en til vara á hlutlægum grundvelli.

Með vísan til þess sem að framan er rakið, er ekki fallizt á, að skilyrðum sakarreglunnar sé fullnægt vegna setningar umdeildra laga, og er þessari málsástæðu á hendur þessum stefnda hafnað.

Svo sem að framan er rakið er fallizt á með stefnda, að heimild til að takmarka lífeyrissjóðsréttindi sjóðfélaga hafi verið að finna í 8. gr. l. nr. 49/1974.  Líta verður til þess, að aðgerðir sjóðstjórnar, sem leiddu til setningar laga nr. 44/1992, voru gerðar með hagsmuni sjóðfélaga í huga, jafnt sem sjóðsins sjálfs, enda hefði áframhaldandi hallarekstur sjóðsins komið niður á greiðslugetu hans til sjóðfélaga og hugsanlega getað leitt til gjaldþrots sjóðsins.  Má vera ljóst, að í því tilviki hefði ekki verið um frekari greiðslur til sjóðfélaga að ræða.  Hefur ekki verið sýnt fram á, að aðgerðirnar hafi verið óþarfar eða að unnt hefði verið að rétta af fjárhaginn á annan og kostnaðarminni hátt fyrir sjóðfélaga.  Er jafnframt ljóst, að aðgerðirnar myndu ekki ná tilgangi sínum, ættu bætur að koma fyrir skerðingar á lífeyrisgreiðslum.  Er ekki talið, að eignaréttarákvæði stjórnarskrárinnar girði fyrir það, að löggjafinn hafi heimild til að setja um það reglur í samráði við sjóðsstjórn, hvernig ákvarða skuli lífeyri svo unnt verði að uppfylla þau markmið, sem felast í greiðslum lífeyris, þ.e. tryggja afkomu sjóðfélaga, sem hafa skert aflahæfi vegna örorku.  Bótasjónarmiðum stefnanda er því alfarið hafnað.

Eftir atvikum þykir rétt, að aðilar beri hver sinn kostnað af málinu.

Sigríður Ólafsdóttir héraðsdómari kvað upp dóminn.

 

D Ó M S O R Ð :

Stefndu, Lífeyrissjóður sjómanna og íslenzka ríkið, skulu vera sýkn af kröfum stefnanda í máli þessu.

Málskostnaður fellur niður.

 

 


 [.1]