Mál nr. 672/2012

Lykilorð
  • Neytendalán
  • Samningur
  • Vextir
  • Verðtrygging
  • Lán

 

Miðvikudaginn 24. apríl 2013.

Nr. 672/2012.

 

Lýsing hf.

(Árni Ármann Árnason hrl.)

gegn

Bjarnþóri Erlendssyni

(Björn Þorri Viktorsson hrl.)

og gagnsök

 

Samningur. Lán. Neytendalán. Verðtrygging. Vextir.

Aðilar málsins gerðu með sér bílasamning þar sem B tók á leigu bifreið af L hf. Samkvæmt ákvæðum samningsins var L hf. eigandi bifreiðarinnar en eftir að eftirstöðvar samningsins væru greiddar gæfi félagið út afsal fyrir bifreiðinni til B. Krafa samkvæmt samningnum var endurreiknuð í kjölfar dóma Hæstaréttar um að óheimilt væri að binda lán í íslenskum krónum við gengi erlendra gjaldmiðla. Greiddi B kröfuna samkvæmt útreikningi L hf. en taldi hann rangan og höfðaði mál til innheimtu þess sem hann taldi sig hafa ofgreitt. B taldi L hf. hafa verið óheimilt að verðbæta þann hluta kröfunnar sem tilgreindur var í samningi aðila í íslenskum krónum auk þess sem honum hafi verið óheimilt að reikna breytilega vexti á þann hluta kröfunnar. Í dómi Hæstaréttar kom fram að óumdeilt væri að lög nr. 121/1994 um neytendalán ættu við um samning aðila. Ljóst væri að lögin gerðu ríkar kröfur til skýrleika lánssamninga af þeim toga sem um ræddi. Hvergi kæmi fram í samningnum að hann væri verðtryggður að því er varðaði þann lánshluta sem var í íslenskum krónum. Þá væri þess hvergi getið í samningnum hver væri grunnvísitala hans. Samningurinn hafi því ekki borið með sér að sá hluti hans sem tilgreindur var í íslenskum krónum hafi verið verðtryggður. Þá þótti ljóst að hvorki samningur aðila né greiðsluáætlun sem var hluti hans hafi með skýrum hætti borið með sér að vextir af umræddum lánshluta hafi átt að vera breytilegir. Var það niðurstaða Hæstaréttar að L hf. gæti ekki byggt kröfur sínar á hendur B á skilmálum sem ekki komu skýrt fram í samningi aðila. Var L hf. dæmt til að greiða B þá fjárhæð sem hann hafði ofgreitt. Féllst Hæstiréttur ekki á að B hefði fyrirgert rétti sínum til endurgreiðslu með tómlæti.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Eiríkur Tómasson, Greta Baldursdóttir og Þorgeir Örlygsson.

Aðaláfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 8. nóvember 2012 að fengnu áfrýjunarleyfi. Hann krefst aðallega sýknu af kröfu gagnáfrýjanda en til vara að krafan verði lækkuð. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Gagnáfrýjandi áfrýjaði fyrir sitt leyti 25. janúar 2013. Hann krefst þess að aðaláfrýjandi greiði sér 683.441 krónu með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 28. júní 2011 til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

I

Eins og rakið er í hinum áfrýjaða dómi gerðu aðilar málsins með sér svokallaðan bílasamning þar sem gagnáfrýjandi tók á leigu bifreiðina YF-214 af gerðinni Toyota Avensis af aðaláfrýjanda. Kom fram í texta samningsins að um væri að ræða kaupleigusamning en samningurinn var gerður til að fjármagna kaup gagnáfrýjanda á bifreiðinni af P. Samúelssyni hf. Leigutíminn var frá undirskrift samningsins 26. apríl 2006 til 5. maí 2013 og samkvæmt 8. gr. hans skyldi aðaláfrýjandi vera eigandi bifreiðarinnar en þegar eftirstöðvar samningsins hefðu verið greiddar skyldi hann gefa út afsal fyrir bifreiðinni til gagnáfrýjanda.

Í 4. gr. samningsins var samningsfjárhæðin 2.079.159 krónur sundurliðuð og kom þar fram að mánaðarleg leigugreiðsla með seðilgjaldi frá 5. júní 2006 til loka samningsins 5. maí 2013 væri 30.616 krónur. Þá sagði þar: „Samningur þessi er gengistryggður og eru allar fjárhæðir bundnar erlendum/innlendum myntum í eftirfarandi hlutföllum og taka mið af þeim á hverjum tíma: USD 15%, JPY 10%, EUR 20%, CHF 5%, ISK 50%. Gengi/vísitala gjaldmiðla miðast við útborgunardag samnings. Leigugjald tekur breytingum á gengi og vöxtum skv. 7. grein samnings þessa.“

Í 1. mgr. 7. gr. samningsins um vexti, verðtryggingu, gengistryggingu og stofngjald sagði: „Í fyrirsögn samningsins sem og í 4. gr. hans hér að framan kemur fram hvort hann er verðtryggður, óverðtryggður eða gengistryggður.“ Þá var í 2. til 4. mgr. nánar fjallað um vexti og útreikning leigugreiðslna eftir því hvort samningur væri óverðtryggður, verðtryggður eða gengistryggður.

Ágreiningslaust er með aðilum að með samningnum fylgdi greiðsluáætlun fyrir leigutímabilið sem var hluti samningsins. Í áætlun þessari voru vextir tilgreindir með eftirfarandi hætti: „Meðalvextir: USD 7,79%, JPY 2,88%, EUR 5,46%, CHF 4,02%, ISK 6,6“ og niðurstaðan sögð vera 6,07%.

Í kjölfar dóma Hæstaréttar um að óheimilt væri að binda lán í íslenskum krónum við gengi erlendra gjaldmiðla tilkynnti aðaláfrýjandi gagnáfrýjanda með bréfi 20. október 2010 að krafa samkvæmt samningi aðila hefði verið endurreiknuð. Óumdeilt er að gagnáfrýjandi gerði strax í kjölfar bréfsins athugasemdir við útreikning aðaláfrýjanda, meðal annars um verðtryggingu kröfunnar.

Fyrir liggur að gagnáfrýjandi hefur greitt kröfu aðaláfrýjanda samkvæmt áðurnefndum samningi á grundvelli útreikninga aðaláfrýjanda. Er ekki lengur ágreiningur með aðilum um þann hluta kröfunnar sem tilgreindur var í samningi aðila í erlendum myntum en gagnáfrýjandi telur að aðaláfrýjanda hafi verið óheimilt að verðbæta þann hluta kröfunnar sem tilgreindur var í samningi aðila í íslenskum krónum auk þess sem aðaláfrýjanda hafi verið óheimilt að reikna breytilega vexti á þann hluta kröfunnar. Hann hafi því ofgreitt aðaláfrýjanda sem þessu nemur og krefst endurgreiðslu í samræmi við það. Ekki er ágreiningur með aðilum um fjárhæð kröfu gagnáfrýjanda.

II

Ágreiningslaust er að samningur sá sem mál þetta snýst um er lánssamningur. Samkvæmt 1. gr. laga nr. 121/1994 um neytendalán taka þau til lánssamninga sem lánveitandi gerir í atvinnuskyni við neytendur. Er því óumdeilt að lögin eiga við um þann samning sem hér um ræðir.

Samkvæmt 5. gr. laganna skal lánssamningur vera skriflegur og fela í sér upplýsingar sem tilgreindar eru í 6. gr. þeirra. Þar er fjallað um þær upplýsingar sem lánveitanda ber að gefa neytanda við gerð lánssamnings. Samkvæmt 1. mgr. 6. gr. skal veita upplýsingar um höfuðstól, fjárhæð útborgunar, vexti, heildarlántökukostnað í krónum, árlega hlutfallstölu kostnaðar, heildarupphæð sem greiða skal, fjölda einstakra greiðslna, fjárhæð þeirra og gjalddaga, gildistíma samnings, skilyrði uppsagnar og heimild til að greiða fyrir lokagjalddaga. Ef breyta má lánskostnaði, afborgunum eða öðrum atriðum lánskjara á samningstímanum, skal lánveitandi samkvæmt 2. mgr. 6. gr. greina neytanda frá því við hvaða aðstæður breytingarnar geti orðið. Ef ekki er unnt að reikna út árlega hlutfallstölu kostnaðar skal lánveitandi þess í stað skýra neytanda frá því hverjir vextir eru, hvaða gjöld falli á lánið og við hvaða aðstæður breytingar geti orðið. Í 9. gr. laganna segir að þó í lögunum sé kveðið á um að neytandi skuli fá upplýsingar um vexti eða fjárhæðir þar sem vextir eru meðtaldir, sbr. 6. gr., komi það ekki í veg fyrir að aðilar geti samið um að vextir séu að nokkru eða öllu leyti breytilegir. Skal þá greint frá vöxtum eins og þeir eru á þeim tíma sem upplýsingarnar eru gefnar, tilgreina skal með hvaða hætti vextirnir eru breytilegir og við hvaða aðstæður þeir breytast. Þá segir í 14. gr. laganna að séu vextir eða annar lántökukostnaður ekki tilgreindir í lánssamningi sé lánveitanda eigi heimilt að krefja neytanda um greiðslu þeirra. Af framangreindu er ljóst að lögin gera ríkar kröfur til skýrleika lánssamninga af þeim toga sem hér um ræðir. Í athugasemdum með frumvarpi því sem varð að lögum nr. 121/1994 kom fram að tilgangur þess væri meðal annars að bæta möguleika lántakanda til að bera saman mismunandi tilboð lánveitenda og gera honum auðveldara að meta hvort hann vildi taka lánið.

III

 Samkvæmt gögnum málsins notaði aðaláfrýjandi eitt og sama formið fyrir  gengistryggða, verðtryggða og óverðtryggða lánssamninga. Í 1. mgr. 7. gr. samnings aðila sagði að í fyrirsögn hans og í 4. gr. kæmi fram hverrar tegundar samningurinn væri. Í fyrirsögninni stóð að um væri að ræða gengistryggðan samning og í 4. gr. að hann væri gengistryggður. Hvergi kom fram að samningurinn væri verðtryggður að því er varðaði þann lánshluta sem var í íslenskum krónum. Í 3. mgr. 7. gr. sem átti við um verðtryggða samninga sagði að leigan væri bundin vísitölu neysluverðs. Skyldi vísitöluálagið miðast við breytingu frá vísitölu neysluverðs sem væri grunnvísitala samkvæmt 4. gr. samningsins til þeirrar vísitölu sem í gildi væri á hverjum gjalddaga. Aldrei skyldi þó miða við vísitölu sem væri lægri en grunnvísitalan. Hvorki í 4. gr. né í öðrum ákvæðum samningsins var þess getið hver væri grunnvísitala hans.

Samkvæmt þessu bar samningur aðila ekki með sér að sá hluti lánsins sem tilgreindur var í íslenskum krónum hafi verið verðtryggður. Skilmálar samningsins voru staðlaðir og samdir af aðaláfrýjanda án aðkomu gagnáfrýjanda. Hafi samningur aðila átt að vera verðtryggður eins og aðaláfrýjandi heldur fram hefði þurft að taka það fram með skýrum hætti. Verður aðaláfrýjandi að bera hallann af því að það var ekki gert.

 

IV

Samkvæmt samningi aðila voru ákvæði um vexti mismunandi eftir því hvort um var að ræða gengistryggðan, verðtryggðan eða óverðtryggðan samning. Sagði í 2.  mgr. 7. gr. að væri samningurinn óverðtryggður væru vextir tilgreindir í 4. gr. hans og í 3. mgr. 7. gr. sagði að væri samningurinn verðtryggður væru vextir við upphaf samnings tilgreindir í 4. gr. hans. Þar voru vextir hins vegar ekki tilgreindir. Í 4. mgr. 7. gr. samningsins sagði að aðaláfrýjanda væri heimilt að endurreikna hina gengistryggðu leigu samkvæmt breytingum sem yrðu á LIBOR-vöxtum þeirra erlendu gjaldmiðla sem leigan væri greidd í. Ekki er því haldið fram að þetta ákvæði samningsins eigi við um ágreining aðila.

Aðaláfrýjandi byggir á því að honum hafi verið rétt að reikna með svokölluðum breytilegum vöxtum hvað varðar þann hluta lánsins sem var í íslenskum krónum. Þeir vextir hafi á samningsdegi verið 6,6% og tekið síðan breytingum á samningstímanum. Gagnáfrýjandi byggir hins vegar á því að um 6,6% fasta vexti hafi verið að ræða.

Í samningi aðila var hvergi tilgreint hverjir væru þeir vextir sem greiða bæri af þeim hluta lánsins sem var í íslenskum krónum. Með hliðsjón af því að ekki var um að ræða verðtryggðan samning gat aðaláfrýjandi ekki byggt á 3. mgr. 7. gr. samningsins um vexti, auk þess sem vextir við upphaf samningsins voru ekki greindir í 4. gr. hans. Óumdeilt er sem fyrr greinir að greiðsluáætlun sú sem aðilar rituðu undir sama dag og þeir undirrituðu samninginn var hluti hans. Eins og að framan er rakið voru vextir þar tilgreindir sem meðalvextir allra þeirra mynta sem samningurinn saman stóð af, samtals 6,07%, og að vextir af íslenskum krónum væru 6,6%. Samkvæmt þessu er ljóst að hvorki samningur aðila né greiðsluáætlunin bar með sér með skýrum hætti að vextir af umræddum lánshluta hafi átt að vera breytilegir. Engu skiptir í þessu sambandi þótt í greiðsluáætluninni segði að hún væri samkvæmt núgildandi vöxtum og gjaldskrá aðaláfrýjanda, enda er gjaldskráin frá þeim tíma ekki meðal gagna málsins. Hafi vextir átt að vera breytilegir hefði þurft að taka það fram með skýrum og ótvíræðum hætti hvernig þeir hefðu átt að breytast, sbr. 9. gr. laga nr. 121/1994.

V

Að öllu því virtu sem áður hefur verið rakið getur aðaláfrýjandi ekki byggt kröfu sína á hendur gagnáfrýjanda á skilmálum sem ekki komu skýrt fram í samningi þeirra. Af því leiðir að gagnáfrýjandi hefur með greiðslu lánsins ofgreitt sem nemur fjárhæð verðbóta og vaxta umfram 6,6% en óumdeilt er að sú fjárhæð er 683.551 króna. Samkvæmt 5. mgr. 18. gr. laga nr. 38/2001 ber aðaláfrýjanda að endurgreiða gagnáfrýjanda þessa fjárhæð, enda verður ekki fallist á að gagnáfrýjandi hafi fyrirgert rétti til endurgreiðslu með tómlæti sínu eins og fram kemur í forsendum hins áfrýjaða dóms. Verður krafa gagnáfrýjanda því tekin til greina eins og segir í dómsorði.

Með hliðsjón af niðurstöðu málsins verður aðaláfrýjandi dæmdur til að greiða gagnáfrýjanda málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti sem ákveðst í einu lagi eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Aðaláfrýjandi, Lýsing hf., greiði gagnáfrýjanda, Bjarnþóri Erlendssyni, 683.441 krónu með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 28. júní 2011 til greiðsludags.

Aðaláfrýjandi greiði gagnáfrýjanda 2.500.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 26. júlí 2012.

   Mál þetta, sem dómtekið var 13. júní sl., er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af Bjarnþóri Erlendssyni, Reyrengi 3, Reykjavík, á hendur Lýsingu hf., Ármúla 3, Reykjavík, með stefnu birtri 24. júní 2011.

   Stefnandi gerir aðallega þá dómkröfu að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda skuld að fjárhæð 683.551 kr., auk dráttarvaxta samkvæmt III. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, sbr. 1. mgr. 6. gr. sömu laga, af stefnufjárhæðinni, frá 28. júní til greiðsludags. Þá er krafist vaxtavaxta samkvæmt 12. gr. sömu laga er leggist við höfuðstól á 12 mánaða fresti.

   Loks krefst stefnandi málskostnaðar að skaðlausu að mati réttarins samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi auk virðisaukaskatts af málskostnaði.

   Stefndi gerir aðallega þá kröfu að hann verði sýknaður af kröfum stefnanda og að stefnandi verði dæmdur til að greiða honum málskostnað samkvæmt mati dómsins.

   Með úrskurði héraðsdóms dagsettum 22. mars sl. var kröfu stefnda um frávísun málsins hafnað.

   Málavextir

   Þann 26. apríl 2006 gerðu aðilar málsins með sér „bílasamning“ nr. 70014789-70014793. Þar er stefndi tilgreindur sem leigusali og stefnandi sem leigutaki. Í samningnum segir að aðilar geri með sér kaupleigusamning þar sem hið leigða er bifreiðin YF-214, af tegundinni Toyota Avensis, kaupverð bifreiðarinnar sé 2.363.080 kr. og við undirritun hafi stefnandi greitt 362.000 kr. af kaupverðinu. Stofngjald samningsins var 75.041 kr. og vextir frá útborgun 3.038 kr. Samningsfjárhæð nam því 2.079.159 kr. Samningurinn átti að vera til 84 mánaða og greiðslur samkvæmt honum 30.616 kr. á mánuði. Í samningnum segir að hann sé gengistryggður og „eru allar fjárhæðir bundnar í erlendum/innlendum myntum í eftirfarandi hlutföllum og taka mið af þeim á hverjum tíma: USD 15%, JPY 10%, EUR 20%, CHF 5% og ISK 50%“.

   Með bréfi dagsettu 20. október 2010 tilkynnti stefndi stefnanda að samningurinn hefði verið endurreiknaður í samræmi við dóma Hæstaréttar í málum nr. 153/2010 og 471/2010. Þar segir að eftirstöðvar samningsins séu 1.376.360 kr., áætluð mánaðargreiðsla sé 48.888 kr. og að fjöldi mánaða sem er eftir af samningi sé 31.

   Stefnandi telur að útreikningur stefnda sé rangur og hann eigi raunverulega inni hjá stefnda en ekki öfugt og höfðaði hann mál þetta til innheimtu þess sem hann telur sig hafa ofgreitt.

   Upphafleg dómkrafa stefnanda var sú að stefndi yrði dæmdur til að greiða honum 1.092.997 kr. ásamt dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001, sbr. 1. mgr. 6. gr. sömu laga, af stefnufjárhæðinni, frá 28. júní til greiðsludags.

   Með bókun stefnanda sem lögð var fram þann 13. júní sl. var dómkrafan lækkuð. Í bókuninni segir að með bókun stefnda í þinghaldi þann 23. apríl sl. hafi stefnandi litið svo á að stefndi hafi fallist á kröfu stefnanda varðandi gengistryggða hluta samningsins. Stefndi hafi þó áréttað að hann hafi greitt stefnanda með fyrirvara. Hafi lögmenn aðila komist að samkomulagi um að málið verði í framhaldi rekið eingöngu um ISK (íslenska) hluta lánsins, hvort stefndi hafi mátt krefja stefnanda um breytilega vexti og verðbætur af þeim hluta lánsins.

   Loks lýsti stefnandi því yfir í bókuninni að hann félli frá varakröfu sinni í málinu.

   Með bókun 13. júní sl. féll stefndi frá gagnkröfu til skuldajafnaðar er hann hafði sett fram í greinargerð.

   Málsástæður og lagarök stefnanda

   Stefnandi byggir hluta stefnukröfu sinnar á því að stefnda sé og hafi verið óheimilt að krefja hann um breytilega vexti en stefndi hafi hækkað vextina umtalsvert frá því samningurinn var gerður. Þá byggir stefnandi á því að stefnda hafi verið óheimilt að krefja hann um verðbætur frá samningsdegi og út samningstímann og einnig að stefnda sé óheimilt að endurreikna íslenska hluta lánasamningsins eins og stefndi gerði með endurútreikningi þann 21. október 2010 en í endurútreikningi stefnda er öll fjárhæð samningsins endurreiknuð í samræmi við dóm Hæstaréttar í máli nr. 471/2010, þrátt fyrir að 50% hennar hafi verið í íslenskum krónum og byggist ekki á LIBOR-vöxtum.

   Stefnandi byggir á því að með samningnum hafi stefndi brotið gegn 5. gr., 6. gr. og 9. gr. laga um neytendalán nr. 121/1994 með því annars vegar að tilgreina ekki í samningi að vextir af íslenskum hluta lánsins væru breytilegir og þá við hvaða aðstæður þeir vextir gætu breyst og hins vegar að tilgreina ekki í samningnum hvort íslenski hluti lánsins væri verðtryggður eða óverðtryggður. Lítur stefnandi svo á með vísan til aðalkröfu og að samningurinn skuli bera þá föstu vexti sem um var samið, 6,6%, og að vextir samningsins séu óverðtryggðir.

   Samningurinn ber yfirskriftina „Bílasamningur Lýsingar“ en vinstra megin á skjalinu kemur fram að um gengistryggðan samning sé að ræða. Í 4. gr. samningsins er kveðið á um leigugrunn og leigugjald. Þar er fjallað um vexti, verðtyggingu og aðra þætti en þar kemur fram að samningurinn sé gengistryggður og að allar fjárhæðir séu bundnar erlendum/innlendum myntum. Þá komi fram að gengisvísitala/vísitala miðist við útborgunardag samnings og að leigugjald taki breytingum á gengi og vöxtum samkvæmt 7. gr. samningsins.

   Í 1. mgr. 7. gr. samningsins segir að í fyrirsögn samningsins sem og í 4. gr. hans komi fram hvort hann sé verðtryggður, óverðtryggður eða gengistryggður. Í 3. mgr. 7. gr. segir svo jafnframt að sé samningurinn verðtryggður séu ,,vextir við upphaf samnings tilgreindir í 4. gr.“ en í ákvæði 4. gr. er aftur vísað til 7. gr. samningsins. Er því í raun ekki að finna í samningnum vexti fyrir íslenskan hluta lánsins. Í 4. mgr. 7. gr. er kveðið á um að stefnda sé heimilt að endurreikna leigu samkvæmt breytingum sem verða á LIBOR-vöxtum þeirra erlendu gjaldmiðla sem leigan er greidd í.

   Ágreiningslaust sé að afborganir af helmingi lánsins, hinum íslenska hluta samningsins, miðuðust ávallt við íslenskar krónur. Stefndi hafi frá upphafi innheimt þann hluta samningsins með verðbótum og breytilegum vöxtum. Þá sé einnig óumdeilt að vextir samningsins í upphafi voru 6,6% en þeir vextir koma fram á greiðsluáætlun með samningnum en greiðsluáætlun þessi sé hluti samningsins.

   Eins og áður segir byggir stefnandi fjárkröfu sína á þeim grundvelli að stefnda hafi verið óheimilt að innheimta breytilega vexti af samningnum. Byggir hann þær röksemdir sínar m.a. á niðurstöðu áfrýjunarnefndar neytendamála í máli nr. 10/2010. Þar hafi áfrýjunarnefndin komist að þeirri niðurstöðu að ákvæði 3. töluliðs 6. gr. og 9. gr. laga nr. 121/1994 verði að skýra svo að tilgreining vaxta skuli vera í lánssamningnum sjálfum og að lögskýringargögn styðji þá niðurstöðu. Þá vísaði áfrýjunarnefndin til fyrri úrskurðar í máli nr. 6/2009 þar sem komist var að þeirri niðurstöðu að brotið hefði verið gegn 9. gr. með því að tilgreina ekki í lánssamningi þau atriði sem þar er mælt fyrir um.

   Þá skoðaði áfrýjunarnefndin hvort sú tilgreining sem sett er fram í samningnum uppfylli kröfur 9. gr., m.a. hvort í samningnum sé tilgreint ,,með hvaða hætti vextirnir eru breytilegir og við hvaða aðstæður þeir breytast“ í samræmi við ákvæði 9. gr. laganna. Benti nefndin á að tilgangur frumvarps til laga nr. 121/1994 hafi m.a. verið að bæta möguleika neytenda til að bera saman mismunandi tilboð lánveitenda og þar með gera honum auðveldara að meta hvort hann vilji taka lánið. Vandséð er hvernig ná mætti fram þeim tilgangi nema 9. gr. laganna væri skýrð á þann hátt að lánveitanda væri skylt að upplýsa neytanda um allar breytur sem áhrif hafa til hækkunar eða lækkunar á hlutfalli vaxtanna. Gera verði þá kröfu til lánveitanda að hann tilgreini, þannig að ekki sé neinum vafa undirorpið, hverjar þær aðstæður séu sem leitt geti til breytinga á vöxtunum svo að neytandinn geti gert sér grein fyrir hvernig vextirnir séu breytilegir og við hvaða aðstæður þeir geti breyst. Einungis þannig verði gagnsæi lánskjaranna tryggt. Með m.a. þessum rökstuðningi hafnaði nefndin kæru stefnda og staðfesti niðurstöðu neytendastofu um að stefndi hefði brotið gegn ákvæðum 3. töluliðs 1. mgr. 6. gr. og 9. gr. laga um neytendalán.

   Stefnandi byggir á þeim málsástæðum sem koma fram í úrskurði áfrýjunarnefndar neytendamála, enda telur hann að sú umfjöllun standist fyllilega á við skilning sinn á lögum nr. 121/1994, enda sé nefndin skipuð sérfræðingum á sviði neytendamála. Ekki megi heldur gleyma því að stefndi samdi umræddan samning og hafi honum láðst að setja inn fullnægjandi upplýsingar í samræmi við umrædd lög verði hann að bera hallann af því. Telur stefnandi því, með hliðsjón af aðal- og varakröfu sinni, að stefnda hafi verið óheimilt að breyta þeim vöxtum sem komu fram á greiðsluáætlun samningsins.

   Stefnandi telur að sömu sjónarmið komi til skoðunar varðandi heimild stefnda til að innheimta verðbætur af samningnum eins og hann hafi verið verðtryggður, líkt og hann hefur gert frá upphafi. Þannig er ljóst að samkvæmt 2. mgr. 6. gr. laga nr. 121/1994 skuli greina frá því í samningi við hvaða aðstæður breytingar gætu orðið ef heimilt væri að breyta lánskostnaði, afborgunum eða öðrum atriðum lánskjara.

   Hvergi kemur fram í samningnum sjálfum né heldur í greiðsluáætlun, sem er hluti samningsins, að samningurinn sé verðtryggður. Ákvæði 7. gr. hafi að geyma staðlaða skilmála sem taka til óverðtryggðra, verðtryggðra og gengistryggðra vaxta slíkra samninga og verður því að líta svo á að ákvæði 7. gr. gefi þar að leiðandi enga vísbendingu um hvað eigi við um samninginn, enda sé í ákvæðinu vísað til þess sem komi fram í fyrirsögn hans og 4. gr. hvort samningurinn sé gengistryggður, verðtryggður eða óverðtryggður.

   Í framangreindum úrskurði áfrýjunarnefndar neytendamála staðfesti nefndin þá niðurstöðu Neytendastofu að kæranda í því máli (stefndi) væri óheimilt að krefja lántaka um greiðslu verðbóta með vísan til 2. mgr. 6. gr. laganna. Hafi það talist brot af hálfu stefnda að taka ekki fram að íslenski hluti lánsins hafi átt að vera verðtryggður.

   Í rökstuðningi kæranda (stefnda) komi fram að mistök hafi verið gerð við samningu lánasamningsins en stefnandi taldi að slíkar mótbárur væru haldlitlar. Verði að líta til þess að stefndi er fjármálafyrirtæki, háð opinberu eftirliti og leyfum, eitt stærsta fjármögnunarfyrirtæki landsins varðandi bílasamninga og með sérfrótt starfsfólk. Hafi stefndi gert mistök verði hann að bera hallann af því en ekki neytandi (stefnandi) í þessu máli.

   Þá byggir stefnandi einnig á 14. gr. laga um neytendalán en þar kemur fram að ef vextir eða annar lántökukostnaður er ekki tilgreindir í samningi lánveitanda við neytanda sé lánveitanda óheimilt að krefja neytanda um greiðslu þeirra. Ljóst sé að verðbætur teljast ávallt til lántökukostnaðar í þessu samhengi í samræmi við 4. gr. laganna, enda hljóti verðbætur að vera kostnaður sem neytandi þarf að greiða í svipuðu ljósi og vextir samningsins. Eins og áður segir er hvergi getið um að íslenski hluti samningsins skuli vera verðtryggður og að auki er hvergi minnst á grunnvísitölu samningsins að öðru leyti en kemur fram í stöðluðu ákvæði 7. gr. samningsins.

   Hafa verði í huga að lög nr. 121/1994 byggjast á neytendaréttartilskipun EES-réttar nr. 87/102/EBE. Samkvæmt 3. gr. laga nr. 2/1993 um Evrópska efnahagssvæðið er sérstaklega tekið fram að skýra skuli lög og reglur að svo miklu leyti sem við á, til samræmis við EES-samninginn og þær reglur sem á honum byggja. Dómafordæmi Evrópudómstólsins eru skýr um þetta atriði m.a. varðandi samninga sem ekki kveða á um vexti, en þar hefur dómstóllinn talið að lánveitanda sé óheimilt að krefja neytanda um vexti hafi þeir ekki verið tilgreindir í samningi. Þá verður að líta til þess að lög nr. 121/2004 eru sérlög er varða neytendur og ganga slík lög framar almennum lögum samkvæmt almennum lögskýringarreglum.

   Að öðru leyti er vísað til kröfu stefnanda hér að framan en þar kemur fram sundurliðun á íslenskum og erlendum hluta kröfunnar og með hvaða hætti sú krafa er fundin út.

   Stefnandi byggir dómkröfur sínar á stjórnarskrá lýðveldisins Íslands nr. 33/1944, sérstaklega 72. gr., lögum um neytendalán nr. 121/1994, sérstaklega, 5., 6., 9. og 14. gr., lögum um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga nr. 7/2936, sérstaklega 32., 35. og 36. gr., lögum um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001, lögum nr. 151/2010 um breytingu á lögum um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001, lögum nr. 150/2007 um fyrningu kröfuréttinda, lögum nr. 2/1993 um Evrópska efnahagssvæðið, tilskipun 87/102/EB um samræmingu á lögum og stjórnvaldsfyrirmælum aðildarríkjanna varðandi neytendalán og meginreglum samninga- og kröfuréttar m.a. um efndir samninga, gildi greiðslukvittana og lok kröfuréttinda.

   Krafan um málskostnað styðst við 1. mgr. 130. gr. laga 91/1991 um meðferð einkamála. Þá styðst krafa um virðisaukaskatt af málflutningsþóknun við lög nr. 50/1988. Stefnandi er ekki virðisaukaskattskyldur og ber honum því nauðsyn til að fá dóm fyrir skatti þessum úr hendi stefnda.

   Málsástæður og lagarök stefnda

   Stefndi krefst sýknu af kröfu stefnanda.

   Upphafleg aðalkrafa stefnanda virðist vera þannig samsett að reiknaður er mismunur á eftirstöðvum samnings aðila samkvæmt endurútreikningi Lýsingar hf. frá 21. október 2010 og eftirstöðvum samnings samkvæmt endurútreikningi GK endurskoðunar ehf. m.v. sömu dagsetningu. Við þann mismun sem fæst er bætt við þeim greiðslum sem stefnandi hefur greitt til stefnda eftir endurútreikning samningsins fram til 21. júní 2011 en dregnar eru frá þær greiðslur sem stefnandi telur að hann hefði átt að greiða á sama tímabili auk vaxta á meintar ofgreiðslur stefnanda.

   Í stefnu málsins eru fjölmargar málsástæður settar fram til stuðnings aðalkröfu stefnanda. Lúta þessar málsástæður m.a. á því að endurútreikningur stefnda sé rangur eða hann sé óskuldbindandi þar sem hann byggi á lögum sem gangi m.a. í berhögg við stjórnarskrá og tilteknar meginreglur laga. Jafnframt byggir hluti stefnukröfunnar á því að stefnda hafi verið óheimilt að krefja stefnanda um breytilega vexti og verðbætur af íslenska hluta samnings aðila. Stefndi telur ekki hjá því komist að svara þessum málsástæðum lið fyrir lið til þess að rökstyðja sýknukröfu sína.

   Stefnandi grundvallar kröfur sínar á því að stefnda hafi verið óheimilt að breyta þeim vöxtum af íslenska hluta samningsins sem komu fram á greiðsluáætlun sem er hluti samnings aðila. Stefndi telur ekki hjá því komist að rekja ítarlega á hverju heimildir hans til innheimtu breytilegra vaxta af íslenska hluta samningsins grundvallast:

   Í greiðsluáætlun sem er hluti samningsins kemur fram að vextir hafi við gerð samningsins verið 6,6% og gætti stefndi því að ákvæði 1. tl. 1. mgr. 6. gr. laga um neytendalán sem kveður á um að við gerð lánssamnings skuli lánveitandi gefa upplýsingar um vexti.

   Í 9. gr. s.l. kemur fram að aðilar geti samið um að vextir séu breytilegir og skuli þá greint frá vöxtum eins og þeir eru á þeim tíma sem upplýsingarnar eru gefnar, tilgreint skal með hvaða hætti vextirnir eru breytilegir og við hvaða aðstæður þeir breytist. Stefndi telur sig hafa gætt að þessu, sbr. eftirfarandi rökstuðning:

   Í 2.–3. mgr. 7. gr. bílasamnings aðila eru eftirfarandi ákvæði um vexti af óverðtryggðum og verðtryggðum bílasamningum:

    „Ef samningurinn er óverðtryggður eru vextir við upphaf samnings tilgreindir í 4. gr. Leigugreiðslur eru þá óverðtryggðar. Lýsingu er heimilt að endurreikna vaxtahluta þeirra sbr. meðfylgjandi greiðsluáætlun skv. gjaldskrá stefnda á hverjum tíma. Á útgáfudegi leigureiknings skulu vextirnir endurskoðaðir og gilda þá fyrir það tímabil sem reikningurinn hljóðar á. Leigugreiðslur taka því breytingum á leigutímanum í samræmi við það.“

   “Ef samningurinn er verðtryggður eru vextir við upphaf samnings tilgreindir í 4. gr. Leigan er þá skv. sömu grein bundin vísitölu neysluverðs og skal þá á hverjum gjalddaga leigu eða lokagreiðslu bera vísitöluálag. Vísitöluálagið skal miðast við breytingu frá vísitölu neysluverðs sem er grunnvísitala samnings þessa skv. 4. gr. til þeirrar vísitölu sem í gildi á hverjum gjalddaga. Aldrei skal þó miða við vísitölu sem er lægri en grunnvísitala samnings þessa.“

   Í 2. mgr. 7. gr. hér að framan má sjá að þar kemur skýrt fram að vextir óverðtryggðra lána eru breytilegir. Hvað verðtryggða vexti samkvæmt 3. mgr. varðar er ekki um jafn skýr breytingaákvæði vaxta að ræða. Þar eru tilgreindir „vextir við upphaf samnings“ sem vísar til þess að vextir séu breytilegir en ekki fastir. Í greiðsluáætlun bílasamningsins frá 26. apríl 2006 kemur fram að vextir í upphafi á íslenska hluta samningsins voru 6,6%. Neðst í greiðsluáætluninni kemur skýrt fram að áætlunin sé samkvæmt núgildandi vöxtum og gjaldskrá stefnda sem gefur til kynna að vextir séu breytilegir. Þess skal getið að stefnandi ritaði undir þetta ákvæði sérstaklega. Sé litið á gjaldskránna kemur þar fram að vextir eru breytilegir.

   Á greiðsluáætluninni sem er hluti samningsins kemur jafnframt fram að allur kostnaður og gjöld fylgi gjaldskrá stefnda. Gjaldskrá stefnda er aðgengileg og má m.a. finna í starfsstöð félagsins og á heimasíðu félagsins, www.lysing.is. Í gjaldskránni er tekið skýrt fram að vextir kunni að breytast, verði breytingar á lánskjörum stefnda. Upplýsingar úr gjaldskrá stefnda um verðtryggða og óverðtryggða vexti eru notaðar af aðilum sem hyggjast fjárfesta í ökutækjum, þegar þeir vega og meta með samanburði við gjaldskrár hjá öðrum fjármálafyrirtækjum hvernig hagstæðast er að fjármagna kaupin.

   Til þess að undirbyggja þá málsástæðu sína að stefnda hafi verið óheimilt að innheimta breytilega vexti af íslenska hluta samningsins, vísar stefnandi til sjónarmiða í niðurstöðu áfrýjunarnefndar neytendamála í máli nr. 10/2010 um að stefndi hafi ekki gert nægjanlega grein fyrir því í samningsformum sínum með hvaða hætti vextir væru breytilegir og við hvaða aðstæður þeir gætu breyst.

   Sem svör við þessu vísar stefndi enn og aftur í gjaldskrá sína en þar kemur fram að vextir kunni að breytast verði breytingar á lánskjörum stefnda. Með þessu orðalagi er uppfyllt það ákvæði 9. gr. laga um neytendalán sem fjallar um að ef vextir eru breytilegir þá skuli greint frá vöxtum eins og þeir eru á þeim tíma sem upplýsingarnar eru gefnar, tilgreint með hvaða hætti þeir séu breytilegir og við hvaða aðstæður þeir breytast. Hvorki í fyrrgreindu lagaákvæði, lögskýringargögnum, né í reglugerð um neytendalán nr. 377/1993 er kveðið á um hversu miklar kröfur eru gerðar í þessu sambandi og telur stefndi því að ekki sé unnt að fallast á kröfur stefnanda um að vaxtabreytingarheimild stefnda falli niður og miðað verði við fasta óverðtryggða vexti sem séu 6,6%.

   Hvað tilvísun stefnanda til áðurgreindrar niðurstöðu áfrýjunarnefndar neytendamála varðar, þá skal á það bent að stefndi er ósammála niðurstöðunni og telur hana ekkert fordæmisgildi hafa í þessu máli. Grundvallast það á því að þar sem áfrýjunarnefndina skorti lagaheimild til þess að fjalla um þann lánssamning, sem málið var sprottið af, á grundvelli vaxtalaga, þá skorti hana jafnframt heimild til þess að fjalla um það hvernig lánssamningur væri reiknaður upp. Af þessum sökum var ekki leyst úr einkaréttarlegum ágreiningi aðila varðandi lánssamninginn í málinu, heldur var eingöngu til endurskoðunar sú ákvörðun Neytendastofu að banna notkun tiltekinna samningsskilmála, sem nú þegar hafa verið teknir úr notkun.

   Af því sem hér að framan hefur verið rakið telur stefndi að stefnanda hafi mátt vera það ljóst að vextir af íslenska hluta samningsins væru breytilegir og að tilgreint hafi verið af hálfu stefnda á hvern hátt og við hvaða aðstæður vextir gætu breyst. Í ljósi alls framangreinds er enginn grundvöllur til þess að fallast á þá kröfu stefnanda að kaupleigusamningur aðila verði reiknaður upp á þann hátt að íslenski hluti samningsins beri fasta óverðtryggða 6,6% vexti eins og framlagðir endurútreikningar stefnanda geri ráð fyrir.

   Stefnandi byggir á því að stefnda hafi verið óheimilt að krefja hann um verðbætur af íslenska hluta samningsins frá gildistöku hans.

   Sem svar við þessari málstæðu bendir stefndi á að ákvæði samningsins taki af allan vafa um að honum sé heimilt að verðtryggja íslenska hluta samningsins og þar með innheimta verðbætur. Í því sambandi vísar hann til 7. gr. samnings aðila þar sem fjallað er um „verðtryggða og óverðtryggða“ samninga. Þar er m.a. vísað til 4. gr. samningsins en í þeirri grein kemur fram að gengi/vísitala gjaldmiðla miðist við útborgunardag samnings. Gengisviðmiðið á þá við erlenda gjaldmiðla en tilgreining á vísitölu í 4. gr. samningsins á við íslenskar krónur. Í þessu sambandi vísar stefndi til 13. gr. vaxtalaga en þar er fjallað um verðtryggingu sparifjár og lánsfjár og kemur þar fram að með verðtryggingu sé átt við breytingu í hlutfalli við innlenda verðvísitölu.

   Það var forsenda af hálfu stefnda við samningsgerðina að vextir væru samkvæmt gjaldskrá Lýsingar hf. sem er í takt við markaðsvexti á hverjum tíma og mátti stefnanda vera þessi forsenda ljós. Við mat á túlkun samninga út frá forsendukenningum telja fræðimenn að einkum þurfi að horfa til þriggja þátta sem eru: a) forsendan þarf að hafa verið veruleg og jafnframt ákvörðunarástæða, b) viðsemjandinn þarf að hafa þekkt forsenduna og c) sanngirnismat með hliðsjón af skiptingu áhættu. Stefndi byggir á því forsendan hafi verið ákvörðunarástæða af hans hálfu fyrir að ganga til samningsgerðarinnar. Verðtryggingin hafði úrslitaáhrif á samning aðila um vaxtakjör. Sést það vel á þeirri staðreynd að mun hærri vextir voru í boði á þeim samningum hjá stefnda sem ekki voru verðtryggðir, eins og sjá má af framlagðri gjaldskrá stefnda.

   Til samanburðar má nefna að almennir vextir af nýjum óverðtryggðum útlánum hjá lánastofnunum, þ.e. lægstu vextir án álags, sem seðlabankinn birtir samkvæmt 10. gr. vaxtalaga nr. 38/2001, voru í apríl 2006 12,5%. Byggt er á því að stefnanda hafi mátt vera það ljóst við samningsgerðina að stefndi væri ekki að lána fjármuni langt undir lægstu vöxtum sem seðlabankinn birtir á grundvelli 10. gr. vaxtalaga. Í þessu sambandi er bent á að fjármálafyrirtæki eins og stefndi reka sig á jákvæðum vaxtamun og þóknunum. Það hefði því aldrei hvarflað að stefnda að lána langt undir tilgreindum vöxtum seðlabankans enda hefði það aðeins verið ávísun á gríðarlegt tap í rekstri félagsins.

   Hvað forsendur varðar er í öðru lagi á því byggt að stefnandi hafi þekkt forsenduna hvað varðar verðbótaþáttinn og vitað að hún hafi verið ákvörðunarástæða fyrir vaxtakjörum af íslenska hluta samningsins. Verður að telja að góður og gegn maður hafi fyllilega gert sér grein fyrir því að verðtrygging bílasamningsins var forsenda þeirra vaxtakjara sem í boði voru. Í þessu sambandi er einnig ítrekað að stefnandi ritaði undir ákvæði í greiðsluáætlun þar sem fram kemur að vextir séu samkvæmt þágildandi gjaldskrá stefnda og að allur kostnaður og gjöld fylgi gjaldskránni. Í gjaldskránni sjálfri var síðan að finna ákvæði þar sem fram kemur að lán í íslenskum krónum til 60 mánaða eða lengri tíma séu ávallt verðtryggð. Samningur sá sem er til umfjöllunar í dómsmáli þessu er til 84 mánaða og er því íslenski hluti hans verðtryggður. Í gjaldskránni kemur einnig skýrt fram að mismunandi vextir séu á verðtryggðum og óverðtryggðum samningum. Vextirnir af óverðtryggðu samningunum eru eðlilega hærri sem skýrist af því að ákveðið samspil er á milli vaxta og grunns verðtryggingar sem öllum aðilum mátti vera ljóst. Ef horfa ætti fram hjá verðtryggingu í samningnum yrði að reikna samninginn upp með óverðtryggðum vöxtum og vísast um þetta til eftirfarandi sjónarmiða sem koma fram í niðurstöðu dóms Hæstaréttar Íslands í máli nr. 471/2010, en þar segir:

„...eftir að ákvæði í samningnum um gengistryggingu hefur verið metið ógilt eru skuldbindingar gagnáfrýjanda við aðaláfrýjanda að öllu leyti í íslenskum krónum og algjörlega óháðar þeirri tengingu við japönsk yen og svissneska franka, sem aðilarnir gengu út frá við gerð samningsins. Þegar virt er að ákvæðið um gengistryggingu í samningi aðilanna er ógilt og bein og órjúfanleg tengsl eru samkvæmt framansögðu milli þess ákvæðis og fyrirmæla þar um vexti er hvorki unnt að styðjast við þau fyrirmæli óbreytt eftir orðanna hljóðan né gefa þeim með skýringu annað inntak, enda liggur fyrir í málinu að á millibankamarkaði í London hafa aldrei verið skráðir LIBOR vextir af lánum í íslenskum krónum. Vegna þessa er óhjákvæmilegt að ógildi ákvæðisins um gengistryggingu leiði til þess að líta verði með öllu fram hjá ákvæðum samningsins um vaxtahæð.“

   Samningur aðila þessa máls hefur ávallt verið reiknaður upp með vísitölu neysluverðs og ef greiðsluseðlar samningsins eru skoðaðir má sjá að verðbótaþáttur er tilgreindur nákvæmlega þannig að ekki verði um villst. Samkvæmt upplýsingum frá stefnda gerði stefnandi fyrst athugasemdir við það að íslenski hluti samningsins væri reiknaður upp með verðtryggingu í október árið 2010 en þá hafði hann greitt af samningnum í rétt um fjögur og hálft ár og móttekið greiðsluseðla þar sem nákvæmlega var gerð grein fyrir fjárhæð verðbótaþáttarins. Þetta tómlæti bendir til þess að stefnandi hafi gert sér grein fyrir verðbótaþættinum og sætt sig við hann.

   Í greiðsluáætlun, sem er hluti samnings aðila frá 26. apríl 2006 kom fram að vextir af íslenska hluta samningsins voru í upphafi 6,6% en það bar saman við verðtryggða vexti félagsins á þeim tíma. Stefnanda mátti vera ljóst að um verðtryggða vexti væri að ræða enda voru þeir í samræmi við aðra verðtryggða vexti á lánamarkaðnum sem og verðtryggða vexti samkvæmt gjaldskrá stefnda á þessum tíma.

   Hvað forsendur varðar er í þriðja lagi byggt á því að það sé sanngjarnt og eðlilegt með hliðsjón af skiptingu áhættu að verðtrygging sé reiknuð á íslenska hluta samnings aðila. Önnur niðurstaða leiðir til þess að gæðum verður mjög misskipt á milli aðila samningssambandsins. Í því sambandi vísar stefndi til dóms Hæstaréttar í máli nr. 498/1991 frá 6. október 1992 í málinu Almenna verkfræðistofan hf. gegn Iðnlánasjóði, Ábyrgð hf. og Verslunarsjóði. Í málinu var deilt um það hvort heimilt væri að reikna verðtryggingu á skuldabréf eða ekki. Dómurinn komst að þeirri niðurstöðu að engir lögvarðir hagsmunir hefðu raskast við það að nafnskráning fórst fyrir og að varnaraðilar myndu stórlega hagnast á kostnað sóknaraðila miðað við upphaflegan tilgang skuldara. Á grundvelli þessara forsendna komst dómurinn að þeirri niðurstöðu, eins og sérstaklega stóð á í þessu máli, að vanræksla á nafnskráningu bréfanna yrði ekki talin hagga við verðtryggingu þeirra. Kröfum sóknaraðila um verðtryggingu skuldbindinganna voru því teknar til greina.

   Eins og fram hefur komið var verðtrygging íslenska hluta samningsins forsenda þess að stefndi gat boðið jafn lága vexti og raun varð á og ef verðtrygging íslenska hlutans yrði felld niður þá myndi það leiða til þess að stefnandi fengi fjármögnun á kjörum sem engum öðrum stóð til boða, á kostnað stefnda. Þá yrði um óeðlilegan hagnað stefnanda að ræða sem færi þvert gegn sanngirnissjónarmiðum.

   Að öllu framangreindu virtu er ljóst að stefnanda mátti vera ljóst við samningsgerðina hverslags skuldbindingu hann væri að gangast undir og hver lántökukostnaðurinn yrði. Af þeim sökum er á því byggt að stefnda sé heimilt að innheimta verðbætur og verðtryggða breytilega vexti af íslenska hluta samningsins.

   Vísað er til ákvæða laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2011, einkum 18. og 12. gr. til stuðnings lögmæti endurútreiknings stefnda. Þá er vísað til laga nr. 121/1994 um neytendalán varðandi heimild stefnda til þess að innheimta verðbætur og breytilega vexti af íslenska hluta samnings aðila. Krafa um málskostnað byggir á ákvæðum XXI. kafla laga 91/1991.

   Niðurstaða

   Í máli þessu er deilt um samning milli aðila dagsettan 26. apríl 2006 sem ber heitið „Bílasamningur Lýsingar“ og er með númerið 70014789-70014793 en í yfirskrift hans kemur fram að um sé að ræða „gengistryggðan“ samning.

   Stefnandi gerir þá kröfu að stefndi endurgreiði honum verðbætur og vexti sem hann telur sig hafa ofgreitt vegna íslenska hluta samningsins, sbr. 5. mgr. 18. gr. laga nr. 38/2001. Upphafleg dómkrafa stefnanda er þannig fundin út að litið var til þess að samkvæmt endurútreikningi stefnda hafi gjaldfallnar greiðslur frá upphafi og til 21. október 2010 verið 1.376.360 kr. Frá þeirri fjárhæð eru dregið sem nemur endurútreikningi GK endurskoðunar f.h. stefnanda 466.245 kr. og verður niðurstaðan þá 910.115 kr. sem stefnandi hefur greitt umfram það sem honum bar samkvæmt hans útreikningi miðað við stöðu lánsins 21. október 2010. Síðan er dregið frá þeirri fjárhæð 128.992 kr. sem eru greiðslur samkvæmt endurútreikningi stefnanda frá 5. nóvember 2010 til 5. júní 2011 auk vaxta 2.264 kr. en ofan á fjárhæðina bætast 310.890 kr. vegna þeirra afborgana sem stefnandi raunverulega greiddi á þessu sama tímabili auk vaxta að fjárhæð 3.248 kr. Niðurstaða upphaflegrar stefnukröfu var því 1.092.997 kr. Eftir framlagningu stefnanda á bókun við upphaf aðalmeðferðar var dómkrafan lækkuð sem nam innborgun stefnda eða um 409.446 kr. og er nú samtals 683.551 kr. Sú fjárhæð sundurliðast þannig að 591.769 kr. eru vegna greiddra verðbóta á þann hluta lánsins sem tilgreindur er í íslenskum krónum og 91.782 kr. eru vegna mismunar á föstum 6,6% vöxtum og breytilegum vöxtum samkvæmt útreikningi stefnda á sama hluta lánsins.

   Málsaðilar eru sammála um fjárhæð þeirrar kröfu sem eftir stendur og sundurliðun hennar. Einnig eru þeir sammála um að greiðsluáætlun dagsett 26. apríl 2006 sem undirrituð var af báðum málsaðilum sé hluti samnings aðila, og að ágreiningur þeirra afmarkast við það hvort stefnda hafi verið heimilt að reikna verðbætur og innheimta breytilega vexti sem í upphafi hafi verið 6.6%, á íslenska hluta lánsins. Ágreiningslaust er með aðilum að afborganir af íslenska hlutanum hafi ávallt miðast við íslenskar krónur og að stefndi hafi frá upphafi innheimt greiðslur vegna þess hluta samningsins með verðbótum og vöxtum.

   Stefnandi byggir á því að stefnda hafi verið óheimilt að krefja hann um verðbætur frá samningsdegi og út samningstímann þar sem hvergi í samningnum komi fram að hann eigi að vera verðtryggður. Ákvæði 7. gr. samningsins hafi að geyma staðlaða skilmála og hvorki það ákvæði, 4. gr. samningsins, né heldur greiðsluáætlun gefi vísbendingu um það hvort íslenski hluti lánsins skuli verðtryggður eða ekki.

   Þá byggir stefnandi á því að í úrskurði áfrýjunarnefndar í neytendamálum nr. 10/2010 hafi það orðið niðurstaða nefndarinnar að brotið hafi verið gegn 5. gr. og 2. mgr. 6. gr. laga nr. 121/1994 með því að tilgreina ekki með fullnægjandi hætti að íslenski hluti lánsins væri verðtryggður. Segir þar að áréttað skuli að þótt samningsskilmálar teljist brot á reglum opinbers réttar, sem aftur geti leitt til þess að notkun þeirra sé bönnuð, felist ekki sjálfkrafa í þeirri ákvörðun úrlausn um einstaka þætti hins einkaréttarlega samningssambands aðila. Úrlausn þess hvaða réttaráhrif þau mistök eigi að hafa ráðist að almennum túlkunarreglum samningaréttar og engin afstaða sé tekin til þess hvernig haga eigi uppgjöri aðila.

   Stefndi byggir á því að ákvæði samningsins taki af allan vafa um að honum sé heimilt að verðtryggja íslenska hluta samningsins og vísar hvað þetta varðar til 7., sbr. 4. gr. samningsins og 13. gr. vaxtalaga. Í 4. gr. komi fram að gengi/vísitala gjaldmiðla miðist við útborgunardag samningsins og eigi gengisviðmiðið þá við um erlenda gjaldmiðla en tilgreining á vísitölu við íslenska hlutann. Í 13. gr. vaxtalaga sé fjallað um verðtryggingu sparifjár og lánsfjár og kemur þar fram að með verðtryggingu sé átt við breytingu í hlutfalli við innlenda verðvísitölu.

   Einnig byggir stefndi á því að í gjaldskrá stefnda komi fram að lán í íslenskum krónum til 60 mánaða eða lengri tíma, eins og sá sem hér um ræðir, séu alltaf verðtryggð. Loks vísar stefndi til þess að í greiðsluseðlum til stefnanda hafi verðbótaþáttur alltaf verið tilgreindur, vextir í greiðsluáætlun báru með sér að lánið væri verðtryggt og sanngjarnt sé og eðlilegt með hliðsjón af skiptingu áhættu að verðtrygging sé reiknuð á íslenska hluta samningsins og leiði önnur niðurstaða til þess að gæðum verði mjög misskipt á milli aðila.

   Af hálfu dómarans er á því byggt að málsaðilar séu sammála um að greiðsluáætlun sé hluti samningsins. Þar má sjá yfirlit yfir ætlaðar afborganir, sundurliðaðar í afborgun og vexti. Ekki er þar að sjá upplýsingar um hvaða vísitölu miðað er við né heldur hvort verðbætur séu hluti af greiðslum. Þar er vísað til þess að greiðsluáætlunin sé samkvæmt núgildandi vöxtum og gjaldskrá stefnda og miði við verðbólguspá.

   Samkvæmt 14., sbr. 13. gr. laga nr. 38/2001 er heimilt að verðtryggja lánsfé í íslenskum krónum, sé grundvöllur verðtryggingarinnar vísitala neysluverðs sem Hagstofa Íslands reiknar en þó er í lánssamningi heimilt að miða við hlutabréfavísitölu, erlenda eða innlenda eða safn slíkra vísitala.

   Lög um neytendalán nr. 121/1994 gera þá kröfu að lánssamningur skuli gerður skriflega og fela í sér upplýsingar um allan þann kostnað sem hlýst af lántöku, sbr. 6.-8. gr. laganna. Í 12. gr. laganna segir að heimili lánssamningur verðtryggingu skal reikna út árlega hlutfallstölu miðað við þá forsendu að verðlag verði óbreytt til loka lánstímans.

   Í 4. gr. samnings aðila segir: „Gengi/vísitala gjaldmiðla miðast við útborgunardag samnings.“ Í ákvæðinu segir jafnframt að samningurinn sé gengistryggður og að allar fjárhæðir væru bundnar erlendum/innlendum myntum, sem nánar voru tilgreindar auk innbyrðis hlutfalla þeirra og taki hann mið að þeim á hverjum tíma. Í 1. mgr. 7. gr. er vísað í ofangreinda 4. gr. og segir að þar komi fram hvort samningurinn sé verðtryggður eða ekki. Í 2. og 3. mgr. 7. gr. er svo að finna ákvæði er varða vexti annars vegar miðað við að samningurinn sé verðtryggður og hins vegar miðað við að hann sé ekki verðtryggður. Í 3. mgr. 7. gr. segir að sé samningur verðtryggður þá sé leigan bundin vísitölu neysluverðs og skal á hverjum gjaldaga leigu eða lokagreiðslu bera vísitöluálag.

   Af hálfu dómarans er fallist á það með stefnda að stefnandi gat ekki átt von á því að hann fengi vaxtakjör sem væri betri en gengur og gerist. Ekki hefur hins vegar verið í ljós leitt að stefndi hafi við samningsgerðina komið því á framfæri við stefnanda að verðtrygging væri forsenda þeirra vaxtakjara sem honum stóð til boða.

   Stefndi benti einnig á að í gjaldskrá hans komi fram að samningar til lengri tíma en 60 mánaða beri verðtryggða vexti. Það er mat dómarans að slíkt ákvæði í gjaldskrá geti ekki réttlætt innheimtu verðtryggingar séu engin ákvæði í samningi aðila eða greiðsluáætlun sem benda til þess að slíkt hafi verið ætlunin.

   Þá byggði stefndi á því að stefnanda hafi mátt vera ljóst að íslenski hluti lánsins væri verðtryggður þar sem það hafi komið fram á greiðsluseðlum en stefnandi hafi verið búinn að greiða af láninu í yfir fjögur ár áður en hann kom fram með athugasemdir vegna verðtryggingarinnar og hafi því sýnt af sér tómlæti.

   Eins og á stendur verður ekki fallist á það af hálfu dómarans að stefndi hafi sýnt af sér tómlæti með því að mótmæla ekki verðtryggingu lánsins fyrr en vegna dóma sem fallið hafa vegna gengistryggðra lána var lánið endurreiknað, upphaflega að frumkvæði stefnda.

   Hvað varðar tilvísun stefnanda til úrskurðar áfrýjunarnefndarinnar þá er því hafnað að niðurstaða nefndarinnar hafi fordæmisgildi fyrir dómstóla en það úrlausnarefni sem þar var til umfjöllunar varðaði ekki einkaréttarlegar kröfur milli samningsaðila.

   Það er álit dómarans að í samningi aðila komi ekki nægilega skýrt fram að um sé að ræða verðtryggðan samning að því er varðar íslenska hluta hans og er sú niðurstaða byggð á orðalagi samningsins. Áðurnefnd 4. gr. verður ekki skilin á annan hátt en að þar sé eingöngu verið að ræða um tengingu við gengi gjaldmiðla. Þrátt fyrir að helmingur lánsins sé bundin við íslenskar krónur þá verður ekki talið að tilvísun í ákvæðinu til vísitölu sé nægileg til þess að talið verði að íslenski hlutinn sé verðtryggður. Stefndi er sérfróður aðili andstætt stefnanda og verður að telja að hann verði að bera hallann af því þegar skilmálar sem samdir eru einhliða af honum eru óskýrir

   Eftir ofangreindu er stefndi dæmdur til að endurgreiða stefnanda þær verðbætur sem hann innheimti á grundvelli samningsins til 5. júní 2011, samtals 591.769 kr., auk vaxta eins og nánar greinir í dómsorði.

   Stefnandi byggir á því að stefnda sé og hafi verið óheimilt að krefja hann um breytilega vexti af þeim hluta lánsins sem tilgreindur er í íslenskum krónum og þar með óheimilt að krefja hann um aðra vexti en þá sem koma fram í greiðsluáætlun samningsins sem hafi verið 6,6%.

   Þetta byggi hann m.a. á niðurstöðu áfrýjunarnefndar neytendamála í áðurnefndu máli nr. 10/2010 en þar komst nefndin að þeirri niðurstöðu að ákvæði 3. tl. 6. gr. og 9. gr. laga nr. 121/1994 verði að skýra svo að tilgreining vaxta skuli vera í lánasamningnum sjálfum og að lögskýringargögn styðji þá niðurstöðu. Jafnframt hafi nefndin vísað til fyrri úrskurðar í máli nr. 6/2009 þar sem hún komst að þeirri niðurstöðu að brotið hafi verið gegn áðurnefndri 9. gr. með því að tilgreina ekki í lánssamningi þau atriði sem þar er mælt fyrir um.

   Af hálfu stefnda er kröfu stefnanda alfarið hafnað og vísar hann í gjaldskrá sína en þar kemur fram að vextir kunni að breytast verði breytingar á lánskjörum stefnda. Með þessu sé uppfyllt það ákvæði 9. gr. laga um neytendalán að ef vextir eru breytilegir þá skuli greint frá vöxtum eins og þeir eru á þeim tíma sem upplýsingarnar eru gefnar, tilgreint með hvaða hætti þeir séu breytilegir og við hvaða aðstæður þeir breytast. Hvergi sé kveðið á um það hversu miklar kröfur séu gerðar í þessu sambandi og því telji stefndi að ekki sé unnt að fallast á kröfu stefnanda um að vaxtabreytingaheimild stefnda falli niður og miðað verði við fasta óverðtryggða vexti sem séu 6,6%.

   Þessu til stuðnings vísar stefndi einnig í 2. og 3. mgr. 7. gr. samningsins sem varðar annars vegar verðtryggða samninga og hins vegar óverðtryggða. Telur stefndi að skýrt komi fram í 2. mgr. að vextir óverðtryggðra lána séu breytilegir og sé þar vísað til greiðsluáætlunar samkvæmt gjaldskrá stefnda á hverjum tíma og til þess að þar kemur fram að endurskoðun miðist við það tímabil sem hver reikningur tekur til.

   Af hálfu dómarans tekið undir það með stefnda hvað varðar vísun stefnanda til niðurstöðu nefndarinnar að hún hafi ekki fordæmisgildi hvað varðar úrlausnarefni málsins eins og áður hefur verið rakið.

   Samkvæmt 3., sbr. 4. gr. laga nr. 38/2001 geta aðilar samið um vaxtakjör en reglur laganna taka við sé hundraðshluti þeirra eða vaxtaviðmiðum ekki tiltekin í samningi. Í greiðsluáætlun sem aðilar eru sammála um að telja vera hluta af samningnum eru vextir á íslenska hlutann eða ISK tilgreindir sem 6,6%.

   Í 4. gr. samningsins segir einungis um vexti að vextir frá útborgun samnings séu 3.038 kr. Í 2. mgr. 7. gr. segir hvað varðar vexti af óverðtryggðu láni að stefnda sé heimilt „að endurreikna vaxtahluta þeirra, sbr. meðfylgjandi greiðsluáætlun, samkvæmt gjaldskrá stefnda á hverjum tíma. Á útgáfudegi leigureiknings skulu vextirnir endurskoðaðir og gilda þeir fyrir það tímabil sem reikningurinn hljóðar á. Leigugreiðslu taki því breytingum á leigutímanum í samræmi við það.“

   Það er mat dómarans að ákvæði í gjaldskrá um breytilega vexti eigi einungis við sé tekið fram í samningi eða eftir atvikum greiðsluáætlun að vextir séu breytilegir. Eins og rakið hefur verið kemur fram í 2. mgr. 7. gr. samningsins að á útgáfudegi leigureiknings skulu vextirnir endurskoðaðir fyrir það tímabil sem reikningurinn tekur til og af því má ráða að ætlunin sé sú að þeir séu breytilegir. Í gjaldskrá stefnda er það rakið að breytingar á lánskjörum stefnda kunni að hafa áhrif á vexti og í gjaldskránna er vísað í greiðsluáætlun sem málsaðilar eru sammála um að sé hluti samnings aðila. Það er mat dómarans að þar með sé fram komin nægileg tilvísun til þess með hvaða hætti vextir séu breytilegir.

   Stefndi telur að ef horfa eigi fram hjá verðtryggingu verði að reikna samninginn upp með óverðtryggðum vöxtum og vísaði hann hvað þetta varðar til sjónarmiða sem komu fram í niðurstöðu dóms Hæstaréttar Íslands í máli nr. 471/2010. Í nefndum dómi taldi rétturinn að bein og órjúfanleg tengsl væru á milli ákvæða samningsins um gengistryggingu og fyrirmæla um vexti en í því tilviki var um að ræða samning sem bundinn var gengi JPY (50%) og CHF (50%) og var umsamið um að LIBOR-vextir væru greiddir af fjárhæðinni. Varð það niðurstaða réttarins að miða bæri við vexti samkvæmt 4., sbr. 3. gr. laga nr. 38/2001.

   Af hálfu dómarans er því hafnað að hægt sé að líta til ofangreinds dóms sem fordæmis hvað þetta varðar. Annars vegar vegna þess að í 2. og 3. mgr. 7. gr. eru ákvæði um vexti af kröfum í íslenskum krónum en í nefndum dómi voru ekki önnur vaxtaákvæði en þau sem voru talin órjúfanlega tengd gengistryggingunni og því ekki hægt að byggja á þeim og hins vegar þá var í ofangreindum dómi um að ræða ólögmæta gengistryggingu en ekki ágreining um innihald samningsins.

   Með hliðsjón af því sem rakið hefur verið er hafnað kröfu stefnanda um að stefnda verði gert að greiða honum mismun fastra 6,6% vaxta og þeirra breytilegu vaxta sem stefnandi hefur greitt, eða 91.782 kr. auk vaxta.

   Það er því niðurstaða dómarans að stefnda beri að greiða stefnanda 591.769 kr. auk vaxta eins og í dómsorði greinir. Af hálfu stefnanda er jafnframt krafist vaxtavaxta, sbr. 12. gr. laga nr. 38/2001. Samkvæmt ákvæðinu skal, ef vaxtatímabil er lengra en 12 mánuðir án þess að vextirnir séu greiddir, leggja þá við höfuðstól og reikna nýja vexti af samanlagðri fjárhæð. Er því ekki ástæða til að kveða á um höfuðstólsfærslu vaxta í dómsorði.

   Stefnandi krefst þess að við ákvörðun málskostnaðar verði tekið tillit til þess að hann greiddi GK-endurskoðun 351.400 kr. vegna endurútreiknings kröfu þeirrar sem málsókn þessi er byggð á. Með hliðsjón af niðurstöðu málsins er það niðurstaða dómarans með vísan til g-liðar 1. mgr. 129. gr. laga nr. 91/1991 að stefnda beri að endurgreiða stefnanda þennan kostnað. Hvað varðar annan málskostnað þá ber stefnda auk ofangreinds að greiða stefnanda tvo þriðju hluta af málskostnaði hans og telst sá hluti hæfilega ákveðinn 800.000 kr. og hefur þá verið tekið tillit til virðisaukaskatts.

   Vegna anna dómara hefur uppkvaðning dregist fram yfir frest samkvæmt 1. mgr. 115. gr. laga nr. 91/1991. Aðilar málsins og dómari töldu að ekki væri vegna þess þörf á að flytja málið að nýju.

   Af hálfu stefnanda flutti málið Bragi Dór Hafþórsson hdl. og af hálfu stefnda flutti málið Ólafur Hvanndal Ólafsson hdl.

   Sigríður Elsa Kjartansdóttir, settur héraðsdómari, kvað upp dóminn.

D Ó M S O R Ð

   Stefndi, Lýsing ehf., greiði stefnanda, Bjarnþóri Erlendssyni, 591.769 kr., ásamt dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla laga nr. 38/2001, sbr. 1. mgr. 6. gr. sömu laga, frá 28. júní 2011, til greiðsludags.

   Stefndi greiði stefnanda 1.151.400 kr. í málskostnað.