Print

Mál nr. 395/2000

Lykilorð
  • Bifreið
  • Líkamstjón
  • Örorka
  • Miskabætur
  • Lögmannsþóknun
  • Stjórnarskrá
  • Aðfinnslur
  • Sératkvæði

Fimmtudaginn 15

 

Fimmtudaginn 15. mars 2001.

Nr. 395/2000.

Jón Sigurðsson

(Jón Steinar Gunnlaugsson hrl.)

gegn

Sjóvá-Almennum tryggingum hf.

(Ólafur Axelsson hrl.)

og gagnsök

 

Bifreiðir. Líkamstjón. Örorka. Miskabætur. Lögmannsþóknun. Stjórnarskrá. Aðfinnslur. Sératkvæði.

 

J er læknir og starfaði sem sérfræðingur við svæfingadeild Landspítalans er hann slasaðist í bílslysi. Leiddu áverkar til lömunar í fótum og bol upp undir axlir og mikillar lömunar í handleggjum. Varanleg örorka J var metin 100%, en varanlegur miski 90%. Við greiðslu skaðabóta frá S gerði J þrjá fyrirvara. Í fyrsta lagi taldi hann ákvæði 3. mgr. 7. gr. laga nr. 50/1993 um hámark viðmiðunartekna brjóta í bága við stjórnarskrárvarin réttindi sín, í öðru lagi hefði ekki verið greidd viðbót vegna varanlegs miska samkvæmt heimild í 1. mgr. 4. gr. nefndra laga og í þriðja lagi hefði lögmannsþóknun ekki verið greidd í samræmi við gjaldskrá lögmanns J. Krafðist hann greiðslu þess, sem vantaði á bótagreiðslur í samræmi við ofangreinda fyrirvara. Hæstiréttur komst að þeirri niðurstöðu að mat löggjafans, sem kemur fram í 3. mgr. 7. gr. laga nr. 50/1993, væri ekki ómálefnalegt. Það nái á sama veg til allra, sem eins stendur á um og fara yfir það tekjumark, sem það miðast við og verði ekki talið brjóta gegn 65. gr. stjórnarskrárinnar. Hvað greiðslu vegna varanlegs miska varðaði byggði J á því að um miska hans giltu sérstök sjónarmið, enda hefði stöðu hans og högum verið raskað svo um munaði. Hæstiréttur féllst á að réttlætanlegt væri að hækka bætur hans vegna þessa þar sem hinn metni 90% varanlegi miski næði ekki að bæta miska hans að fullu. Voru bæturnar hækkaðar um 35%. Þá var, með vísan til dómaframkvæmdar og forsendna málsins, fallist á að miða málflutningsþóknun lögmanns J við gjaldskrá hans að undanskildu 30% álagi, sem krafist var samkvæmt reikningi lögmannsins. Héraðsdómari sætti aðfinnslum fyrir reifun á málsástæðum og lagarökum, auk þess sem í niðurstöðukafla þótti skorta á að skýr afstaða væri tekin til málsástæðna og lagaraka.

 

                                                         Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Guðrún Erlendsdóttir, Haraldur Henrysson, Hrafn Bragason og Pétur Kr. Hafstein.

Aðaláfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 24. október 2000. Krefst hann þess að gagnáfrýjandi verði dæmdur til greiðslu eftirstöðva örorkubóta, miskabóta og lögmannsþóknunar að fjárhæð 5.850.860 krónur, með 2% ársvöxtum af 5.174.079 krónum frá 21. desember 1998 til 1. maí 1999, en með 4.5% ársvöxtum af sömu fjárhæð frá þeim degi til 17. janúar 2000, en með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 af sömu fjárhæð frá þeim degi til 4. febrúar 2000, en af 5.850.860 krónum frá þeim degi til greiðsludags. Þá er krafist málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.  

Gagnáfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 13. desember 2000 og krefst þess að verða sýknaður af öllum kröfum aðaláfrýjanda. Jafnframt er krafist málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

I.

Aðaláfrýjandi, sem er læknir að mennt og starfaði sem sérfræðingur við svæfingadeild Landspítalans, slasaðist í bílslysi á Reykjanesbraut 21. desember 1998 eins og nánar er lýst í héraðsdómi. Hlaut hann hálsbrot og misgengi á milli tveggja hálsliða þannig að mæna eyðilagðist fyrir neðan svæðið. Er hann með öllu lamaður í fótum og bol upp undir axlir og mikil lömun er í handleggjum. Samkvæmt örorkumati Jónasar Hallgrímssonar læknis 4. nóvember 1999 er um varanlega lömun að ræða og ekki von um frekari bata þannig að hún minnki. Við mat á varanlegum miska, sem læknirinn taldi 90%, vísaði hann til þess að aðaláfrýjandi væri háður mikilli aðstoð til flestra athafna daglegs lífs, en slysið hefði ekki valdið neinni andlegri skerðingu. Læknirinn mat varanlega örorku vegna slyssins 100%. Vera megi að aðaláfrýjandi geti sinnt einhverjum störfum þar sem læknismenntun hans og starfsreynsla nýtist, en til þess þurfi dýran tæknibúnað og mikla aðstoð annarra með miklum tilkostnaði.

Aðilar málsins voru sammála um að leggja matsniðurstöður læknisins til grundvallar samningum um skaða- og miskabætur til aðaláfrýjanda. Var gerður samningur um bótagreiðslur til hans og greitt samkvæmt honum 4. febrúar 2000. Nam greidd bótafjárhæð samtals 46.229.239 krónum. Jafnframt gerði lögmaður aðaláfrýjanda fyrirvara í þremur liðum varðandi eftirfarandi ágreiningsefni:

Í fyrsta lagi taldi hann ákvæði 3. mgr. 7. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 um hámark tekjuviðmiðunar síðustu 12 mánuði fyrir slys brjóta í bága við stjórnarskrárvarin réttindi aðaláfrýjanda, en við útreikning örorkubóta var tekjuviðmiðun þessi lægri en raunverulegar tekjur hans síðustu 12 mánuði fyrir slysið.

Í öðru lagi hefði ekki verið greidd viðbót vegna varanlegs miska samkvæmt heimild í 1. mgr. 4. gr. skaðabótalaga.

Að lokum hefði gagnáfrýjandi ekki greitt lögmannsþóknun í samræmi við gjaldskrá lögmanns aðaláfrýjanda.

Í málinu sækir aðaláfrýjandi gagnáfrýjanda um greiðslur þess, sem hann telur að á hafi vantað bótagreiðslur í samræmi við ofangreinda fyrirvara.

II.

Er slys aðaláfrýjanda varð giltu skaðabótalög nr. 50/1993 með breytingum, sem gerðar voru með lögum nr. 42/1996. Samkvæmt 1. mgr. 5. gr. laganna átti sá, sem varð fyrir líkamstjóni, er olli varanlegri skerðingu á getu til að afla vinnutekna, rétt á bótum fyrir varanlega örorku. Samkvæmt 3. mgr. sömu greinar skyldi örorka reiknast í hundraðshlutum (örorkustigum). Eftir 6. gr. skyldi meta bætur til fjárhæðar sem nam tíföldum árslaunum tjónþola, sbr. 7. gr., margfölduðum með örorkustigi. Í 1. mgr. 7. gr. sagði að árslaun skyldu teljast heildarvinnutekjur tjónþola á næstliðnu ári fyrir þann dag er tjón varð. Samkvæmt 3. mgr. greinarinnar skyldi ekki miða við hærri árslaun en 4.500.000 krónur. Sú fjárhæð skyldi breytast í hlutfalli við breytingar á lánskjaravísitölu, eins og nánar var mælt fyrir um í 15. gr. laganna.

Þegar aðilar málsins sömdu um greiðslur með framangreindum hætti í janúar árið 2000 nam hámarksviðmiðunarfjárhæð skv. 3. mgr. 7. gr. skaðabótalaganna 5.252.850 krónum. Ágreiningslaust var hins vegar að aðaláfrýjandi hafði frá upphafi til loka slysársins haft 5.704.766 krónur í tekjur. Telur hann sig eiga rétt til bóta, sem miðist við þá fjárhæð. Nemur mismunur vegna þessa 3.073.029 krónum og er ekki tölulegur ágreiningur um þann útreikning.

Aðaláfrýjandi byggir kröfu sína um greiðslu þessarar fjárhæðar á því að aflahæfi hans teljist til eignarréttinda, sem njóti verndar 72. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944, sbr. 10. gr. stjórnskipunarlaga nr. 97/1995. Réttur hans til fullra skaðabóta úr hendi bótaskylds aðila fyrir missi starfsorku njóti þar með þessarar verndar. Löggjafanum sé óheimilt að skerða þessi réttindi hans, en með ákvæði 3. mgr. 7. gr. um hámark launaviðmiðunar séu þau í raun skert. Leggi hann til grundvallar, að meginaðferð laganna við ákvörðun fullra bóta fyrir missi starfsorku, þ.e. tíföldun árslauna margfölduð með örorkustigi, sbr. 1. mgr. 6. gr., feli í sér fullar bætur. Þetta þýði að áfrýjanda sé mismunað með ólögmætum hætti. Honum sé ekki bætt allt fjártjónið, þó að aðrir tjónþolar, sem ekki ná viðmiðuninni, fái allt tjón sitt bætt.

Í athugasemdum, sem fylgdu með frumvarpi til skaðabótalaga nr. 50/1993, sagði að rök fyrir því að takmarka bætur við tiltekið hámark væru tvíþætt. Annars vegar þótti eðlilegt að menn með óvenjuháar tekjur bæru sjálfir það tjón sem stafaði af missi þess hluta teknanna sem færu að miklum mun fram úr því sem venjulegt er meðal tekjuhárra manna. Menn með miklar tekjur geti auðveldlega keypt vátryggingar sem tryggi þeim bætur fyrir tjón er þeir kunni að verða fyrir vegna þessarar takmörkunar. Hin rökin séu þau að leggja verði til grundvallar að því fylgi almennt talsverður ávinningur að almannatryggingabætur og aðrar greiðslur frá þriðja manni verði ekki dregnar frá bótakröfu.

Fram hefur komið í málinu að ákvæði 3. mgr. 7. gr. skaðabótalaganna á sér hliðstæðu í dönsku skaðabótalögunum.

Af hálfu gagnáfrýjanda hefur verið vísað til ofangreindra sjónarmiða löggjafans og lögð áhersla á að í þessu felist mat hans, sem sé málefnalegt og geti dómstólar ekki haggað því. Af hans hálfu er og vísað til þess að aðaláfrýjandi hafi átt rétt á ýmis konar greiðslum og bótum frá öðrum aðilum, sem komi til viðbótar þeim fjárhæðum, er hann fái í skaðabætur frá gagnáfrýjanda. Vísar hann meðal annars til þess að sem ríkisstarfsmaður hafi aðaláfrýjandi átt rétt á slysatryggingu vegna 90% miska, er nam tæpum 6,5 milljónum króna, og einnig hafi hann átt rétt til örorkulífeyris úr lífeyrissjóði. Þá vísar hann til hóptryggingar lækna samkvæmt samningi Læknafélags Reykjavíkur og tiltekins líftryggingafélags. Í greinargerð í héraði var af hálfu gagnáfrýjanda skorað á aðaláfrýjanda að leggja fram upplýsingar um rétt hans til annarra greiðslna og bóta en skaðabóta vegna slyssins. Af hálfu aðaláfrýjanda var ekki orðið við þessari áskorun þar sem hann taldi umrædd gögn ekki hafa þýðingu við úrlausn málsins.

Í dómi Hæstaréttar 22. maí 1998, H.1998.1976, sagði að í aflahæfi manna væru fólgin eignarréttindi, sem nytu verndar 72. gr. stjórnarskrárinnar. Hins vegar væri ótvírætt að löggjafinn hefði heimild til að setja reglur um það, hvernig ákvarða skuli bætur þegar aflahæfi manna er skert, enda sé það markmið slíkra reglna að fullar bætur komi fyrir. Í dómi þessum var fjallað um stjórnskipulegt gildi 5.–7. gr. skaðabótalaga, eins og þau voru við setningu þeirra 1993, en hámarksákvæði 3. mgr. 7. gr. kom þar ekki sérstaklega til skoðunar. Sagði í dóminum að ekki yrði annað séð en að ofangreind ákvæði hefðu stuðst við málefnaleg sjónarmið og ekki falið í sér mismunun. Yrði að öllu athuguðu að telja að ekki hafi verið sýnt fram á það í málinu að lögin hafi ekki getað þjónað því markmiði að tryggja fullar bætur og í þeim fælist skýrt og ótvírætt mat löggjafans, sem við svo búið yrði ekki haggað af dómstólum.

Ljóst er að í 3. mgr. 7. gr. skaðabótalaga um bætur vegna varanlegrar örorku felst í raun ákvörðun um hámarksviðmiðun á þeim forsendum, sem fram koma í athugasemdum með frumvarpi til laganna og áður hafa verið raktar. Viðurkennt er að þrátt fyrir ákvæði 72. gr. stjórnarskrárinnar getur löggjafinn mælt fyrir um ýmis konar takmarkanir á eignarrétti og eignaskerðingar án þess að til bóta komi, enda byggist þær á almennum efnislegum ástæðum og jafnræðis sé gætt. Hafa ber í huga að tæpast er unnt að meta aflahæfi einstaklings sem fasta og óumbreytanlega stærð og hlýtur löggjafinn að hafa nokkurt svigrúm er hann mælir fyrir um bætur vegna skerðingar þess. Þá er í sjálfu sér ekki óeðlilegt að við setningu reglna um skaðabætur sé í megindráttum miðað við almenna mælikvarða. Er þá meðal annars litið til þess að mikilvægt er að hinir bótaskyldu geti varist bótakröfum með vátryggingum og skipta iðgjöld af slíkum tryggingum máli. Verður að telja að það sé ekki ómálefnalegt að gera ráð fyrir því að þeir, sem í einhverjum mæli falla utan almennra mælikvarða, svo sem vegna hærri tekna, tryggi sig sérstaklega að því leyti. Hér skiptir og máli að samkvæmt 5. gr. laga nr. 50/1993 átti ekki að draga frá skaðabótakröfum greiðslur, sem tjónþoli kynni að fá frá þriðja manni vegna líkamstjóns, svo sem greiðslur úr almannatryggingum, lífeyrissjóði eða vátryggingafélagi. Líta verður svo á að þessi regla laganna hafi ekki síst verið tjónþolum í stöðu aðaláfrýjanda til hags og til þess fallin að þeir fengju hlut sinn enn frekar leiðréttan þrátt fyrir það að af hálfu löggjafans hafi í upphafi einnig verið vísað til þess að lágur margfeldisstuðull samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laganna, sem reyndar var hækkaður með lögum nr. 42/1996 úr 7,5 í 10, ætti meðal annars rót sína að rekja til hennar.

Að framangreindum atriðum virtum þykir ekki unnt að telja mat löggjafans, sem skýrt kemur fram í margnefndu ákvæði, ómálefnalegt. Það nær á sama veg til allra, sem eins stendur á um og fara yfir það tekjumark, sem það miðast við, og verður það ekki talið brjóta gegn 65. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. 3. gr. stjórnskipunarlaga nr. 97/1995. Að þessu athuguðu verður krafa aðaláfrýjanda, sem á því er byggð, að 3. mgr. 7. gr. skaðabótalaga brjóti í bága við stjórnarskrárvarin réttindi hans, ekki tekin til greina.

III.

Í 1. mgr. 4. gr. skaðabótalaga, eins og hún var á umræddum tíma, sagði að við ákvörðun fjárhæðar bóta fyrir varanlegan miska skyldi litið til þess hvers eðlis og hversu miklar afleiðingar tjóns séu frá læknisfræðilegu sjónarmiði, svo og til erfiðleika sem það valdi í lífi tjónþola. Varanlegur miski skuli metinn til stiga og miða skuli við ástand tjónþola eins það sé þegar ekki sé að vænta frekari bata. Sagði síðan orðrétt í ákvæðinu: „Þegar miski er metinn alger (100%) skulu bætur vera 4.000.000 kr. Við lægra miskastig lækkar fjárhæð þessi í réttu hlutfalli. Þegar sérstaklega stendur á er heimilt að ákveða hærri bætur, þó ekki meiri en 6.000.000 kr.“ Samkvæmt 3. mgr. 10. gr. laganna skyldi örorkunefnd semja töflur um miskastig.

Viðmiðunarfjárhæð vegna 100% varanlegs miska var samkvæmt 15. gr. skaðabótalaga komin í 4.669.000 krónur, þegar gagnáfrýjandi greiddi aðaláfrýjanda bætur, svo sem áður er lýst. Nam greiðsla vegna hins 90% varanlega miska því 4.202.100 krónum. Gerir aðaláfrýjandi kröfu um 50% hækkun þessarar fjárhæðar, eða sem nemur 2.101.050 krónum, á þeim forsendum að aðstæður hans falli undir heimildarákvæði greinarinnar um hækkun bóta. Er ekki tölulegur ágreiningur um þennan útreikning.

Af hálfu aðaláfrýjanda er bent á, að mat á varanlegum miska samkvæmt 1. mgr. 4. gr. laganna feli fyrst og fremst í sér mat á afleiðingum tjóns frá læknisfræðilegu sjónarmiði og sé slíkt mat gert eftir töflum um miskastig. Hækkunarheimildin eigi sýnilega að þjóna þeim tilgangi að gefa svigrúm til hækkunar þegar fyrir hendi séu atvik, sem bendi til þess að meiri miski hafi orðið en mældur sé með læknisfræðilegu örorkumati. Ljóst sé að um slíkt geti verið að ræða, þó að „töflumatið“ nái ekki 100%.

Gagnáfrýjandi byggir á því að greiddar hafi verið fullar bætur miðað við 90% varanlegan miska samkvæmt mati, sem ekki sé deilt um. Ákvæði um heimild til hækkunar þegar sérstaklega standi á, hafi einungis gilt eftir að fjögurra milljón króna markinu vegna 100% örorku hafi verið náð.

Í athugasemdum með frumvarpi til skaðabótalaga sagði að í undantekningartilvikum kynni fjárhæð bóta eftir fjögurra milljón króna markinu að þykja ófullnægjandi, einkum þegar tjónþoli hefði orðið fyrir margvíslegum líkamsspjöllum, t.d. bæði orðið fyrir mikilli sköddun á útlimum og misst sjón á báðum augum. Heimildin til að ákveða hærri bætur, þegar sérstaklega standi á, sé sett í því skyni að unnt verði að veita hærri bætur í slíkum tilvikum.

Þegar 4. gr. skaðabótalaga var breytt með lögum nr. 37/1999 var í 2. mgr. sett fram tafla um bætur eftir aldri tjónþola á tjónsdegi fyrir algeran, 100 stiga, miska. Í 3. mgr. segir að við lægra miskastig lækki fjárhæðir þessar í réttu hlutfalli. Þegar sérstaklega standi á sé heimilt að ákveða hærri bætur, allt að 50% hærri en samkvæmt töflunni. Í athugasemdum með frumvarpi til þessara laga segir að ekki sé áskilið að varanlegur miski tjónþola nái tilteknu lágmarki til þess að þessari heimild megi beita.

Þegar litið er til orðalags upphaflegs ákvæðis 1. mgr. 4. gr. skaðabótalaga og breytinga á því þykir ekki óyggjandi að það beri að túlka á þann hátt, sem gagnáfrýjandi heldur fram. Þykja efnisrök og styðja það að hækkunarheimild ákvæðisins sé ekki bundin við algeran miska heldur megi beita henni við lægra miskastig. Verður ákvæðið því túlkað aðaláfrýjanda í hag að þessu leyti. Ber þá að taka til úrlausnar, hvort sérstakar aðstæður séu fyrir hendi, sem réttlæti hærri bætur til hans vegna varanlegs miska.

Af hálfu aðaláfrýjanda er á því byggt að um miska hans gildi sérstök sjónarmið. Um sé að ræða lækni, sem var við góða heilsu fyrir slysið, og hafi stöðu hans og högum verið raskað svo að um munar. Hann verði bundinn við hjólastól það sem eftir sé ævinnar. Þurfi hann hjálp við fjölmargar athafnir daglegs lífs, svo sem að klæða sig og hátta, komast í og úr hjólastól, ýta sér áfram, komast yfir þröskulda og í gegnum þröngar dyr, komast á baðherbergi og athafna sig þar, borða, beita fingrum, t.d. við að fletta blöðum og bókum, vinna við tölvu og margt fleira. Auk margs annars hafi möguleikum til að njóta frístunda verið spillt. Vart sé unnt að hugsa sér alvarlegri miska.

Með hliðsjón af því hve aðaláfrýjandi er háður aðstoð annarra við helstu athafnir daglegs lífs, ber að fallast á að hinn metni 90% varanlegi miski nái ekki að bæta miska hans að fullu. Að því virtu þykir réttlætanlegt að hækka bætur til hans vegna þessa, en eftir atvikum og með hliðsjón af fyrrgreindum skýringum löggjafans í athugasemdum með frumvarpi til skaðabótalaga, þykir eðlilegt að þær verði hækkaðar um 35%. Samkvæmt því verða þessar bætur hækkaðar frá greiðslu gagnáfrýjanda sem nemur 1.470.735 krónum.

IV.

Við uppgjör aðila 4. febrúar 2000 greiddi gagnáfrýjandi aðaláfrýjanda 800.000 krónur auk virðisaukaskatts vegna lögmannskostnaðar hans. Reikningur lögmanns aðaláfrýjanda til hans hljóðaði hins vegar upp á 1.343.599 krónur auk virðisaukaskatts og krefst aðaláfrýjandi þess að gagnáfrýjandi greiði mismuninn, sem að teknu tilliti til virðisaukaskatts nemur 676.781 krónu.

Framangreindur reikningur lögmanns aðaláfrýjanda er byggður á gjaldskrá lögmannsins með 30% álagi. Í gjaldstofni eru innifaldir áfallnir vextir frá slysdegi til uppgjörsdags. Af hálfu gagnáfrýjanda var fjárhæðin lækkuð umfram það sem verið hefði án 30% álags, en samkvæmt skýringu lögmanns hans við munnlegan málflutning fyrir Hæstarétti var það gert þar sem um óvenjuháa kröfu hefði verið að ræða.

Með vísan til dóms Hæstaréttar 26. október 1995, H.1995.2456, og þeirra forsendna, sem þar koma fram, þykir rétt að málflutningsþóknun lögmanns aðaláfrýjanda miðist við gjaldskrá hans án 30% álags. Hins vegar þykir verða að miða við þann gjaldstofn, sem lögmaðurinn reiknaði út frá, enda hefur gagnáfrýjandi ekki mótmælt honum sérstaklega. Samkvæmt þessu ber gagnáfrýjanda að greiða honum til viðbótar vegna þessa liðar 233.538 krónur auk virðisaukaskatts, eða samtals 290.755 krónur.

V.

Samkvæmt framansögðu verður gagnáfrýjandi dæmdur til að greiða aðaláfrýjanda samtals 1.761.490 krónur (1.470.735 + 290.755). Ekki verður tekin til greina krafa aðaláfrýjanda um vexti samkvæmt lögum nr. 37/1999, sem tóku gildi 1. maí 1999, en þau taka einungis til tjóns, sem rakið verður til bótaskylds atviks eftir gildistöku þeirra, sbr. 15. gr. laganna. Er nánar kveðið á um vexti í dómsorði.

Dæma ber gagnáfrýjanda til að greiða aðaláfrýjanda málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði segir.

Reifun héraðsdómara á málsástæðum og lagarökum aðila er eingöngu fólgin í því að taka upp orðrétta kafla úr greinargerðum lögmanna þeirra. Í niðurstöðukafla dómsins skortir á að skýrt sé tekin afstaða til málsástæðna og lagaraka. Er þetta andstætt e. og f. liðum 1. mgr. 114. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Verður að finna að þessu en ekki þykir alveg næg ástæða til að ómerkja héraðsdóm af þessum sökum.

                                                         D ó m s o r ð:

Gagnáfrýjandi, Sjóvá-Almennar tryggingar hf., greiði aðaláfrýjanda, Jóni Sigurðssyni, 1.761.490 krónur með 2% ársvöxtum af 1.470.735 krónum frá 21. desember 1998 til 17. janúar 2000, en með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 af sömu fjárhæð frá þeim degi til 4. febrúar 2000, en af 1.761.490 krónum frá þeim degi til greiðsludags.

Gagnáfrýjandi greiði aðaláfrýjanda samtals 600.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.

 

Sératkvæði

Guðrúnar Erlendsdóttur

Ég er sammála meirihluta dómenda um allt annað en bætur fyrir varanlegan miska.

Samkvæmt 1. mgr. 4. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 er hámark miskabóta, þegar miski er metinn alger, (100%) 4.000.000 krónur, og við lægra miskastig lækkar sú fjárhæð í réttu hlutfalli. Þegar sérstaklega stendur á er heimilt að ákveða hærri bætur, þó ekki meiri en 6.000.000 krónur. Ég er sammála meiri hluta dómenda um það, að hækkunarheimild ákvæðisins sé ekki bundin við algeran miska, heldur megi beita henni við lægra miskastig. Með vísan til þess, sem í atkvæði meirihluta dómenda segir um miska aðaláfrýjanda, er vart unnt að hugsa sér alvarlegri miska en þann, sem hér um ræðir. Tel ég því rétt að hækka miskabætur um 50%, sem er það hlutfall sem mest er unnt að fara fram úr hámarksmiskabótum samkvæmt 1. mgr. 4. gr. skaðabótalaga.

Niðurstaða mín er því sú, að gagnáfrýjandi verði dæmdur til að greiða aðaláfrýjanda 2.391.805 krónur með 2% ársvöxtum af 2.101.050 krónum frá 21. desember 1998 til 17. janúar 2000, en með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 af sömu fjárhæð frá þeim degi til 4. febrúar 2000, en af 2.391.805 krónum frá þeim degi til greiðsludags.

                                                             

Sératkvæði

Péturs Kr. Hafstein

Ég er sammála meirihluta dómenda um lögmannsþóknun, vexti og aðfinnslur um héraðsdóm. Um kröfu aðaláfrýjanda um bætur fyrir varanlega örorku og varanlegan miska er afstaða mín hins vegar þessi:

Ótvírætt er, að í aflahæfi manna eru fólgin eignarréttindi, sem njóta verndar eignarréttarákvæðis 72. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. 10. gr. stjórnskipunarlaga nr. 97/1995. Hæstiréttur hefur slegið því föstu, að svo sé, og má þar til dæmis nefna þrjá dóma réttarins á árinu 1998, bls. 1976, 2002 og 2233 í dómasafni. Bótaskylda skerðingu aflahæfis ber því að bæta fullu verði, eftir því sem kostur er.

 Einn helsti tilgangur skaðabótalaga nr. 50/1993 með síðari breytingum er sá, að tjónþoli fái almennt, auk hæfilegra miskabóta, fullar bætur fyrir raunverulegt fjártjón, sem hlýst af völdum líkamsmeiðsla. Kemur þetta skýrlega fram í athugasemdum með frumvarpi til laganna. Hæstiréttur hefur í dómum sínum lagt þessa meginreglu til grundvallar, en hún er í samræmi við skýrar dómvenjur fram að gildistöku skaðabótalaga. Um það bera framangreindir þrír dómar réttarins á árinu 1998 glöggan vott, en þar segir berum orðum, að löggjafinn hafi svigrúm til að setja reglur um ákvörðun bóta, þegar aflahæfi manna er skert, „enda sé það markmið slíkra reglna, að fullar bætur komi fyrir,”  Dómana verður að mínu áliti að skýra þannig, að þessu svigrúmi löggjafans séu settar þær skorður, að fullar bætur fáist fyrir líkamstjón, eftir því sem föng eru á. Það er svo verkefni dómstóla að kveða á um það, hvort sú hafi orðið raunin, þegar ágreiningur um það er fyrir þá lagður. Ber þá að leysa úr málum á grundvelli allra fáanlegra gagna, er varða tjónþolann sjálfan, og í samræmi við megintilgang skaðabótalaga um fullar bætur.

Í 6. gr. skaðabótalaga er við það miðað, að árslaun tjónþola séu meðal þeirra þátta, sem lagðir verða til grundvallar, þegar ákveðnar eru bætur vegna varanlegrar örorku. Í 1. mgr. 7. gr. sagði, áður en ákvæðinu var breytt með 6. gr. laga nr. 37/1999, að árslaun teldust vera heildarvinnutekjur tjónþola á næstliðnu ári fyrir þann dag, er tjón varð. Til þessa ákvæðis ber að líta við úrlausn um bótakröfu aðaláfrýjanda, sbr. 1. mgr. 15. gr. laga nr. 37/1999. Í 3. mgr. 7. gr. skaðabótalaga segir hins vegar, að ekki skuli miða við hærri árslaun en 4.500.000 krónur, og var því ákvæði ekki breytt 1999. Samkvæmt 1. mgr. 15. gr. laganna tekur fjárhæðin breytingum í hlutfalli við breytingar á lánskjaravístölu.

Í málinu liggja fyrir upplýsingar um tekjur aðaláfrýjanda á næstliðnu ári fyrir slysdag og er óumdeilt, að 3.073.029 krónur skortir á, að hann hafi fengið tjón sitt vegna varanlegrar örorku að fullu bætt miðað við þær tekjur. Þegar um stjórnarskrárvarin réttindi er að ræða á borð við aflahæfi eru það ekki haldbær og málefnaleg rök af hálfu löggjafans fyrir ákveðnum hámarksbótum tiltekins hóps manna að segja, svo sem gert var í athugasemdum með frumvarpi til skaðabótalaga, að tekjuháir menn geti auðveldlega keypt sér vátryggingar eða einfaldlega borið umframtjón sitt sjálfir. Þá eru það heldur ekki frambærileg rök fyrir skerðingu stjórnarskrárvarinna réttinda þessa tiltekna hóps umfram aðra, að því fylgi almennt talsverður ávinningur, að almannatryggingabætur og aðrar greiðslur frá þriðja manni verði ekki dregnar frá bótakröfu. Þessi rök áttu við um alla tjónþola og voru fremur til réttlætingar á lágum margföldunarstuðli laganna, en með lögum nr. 37/1999 var frádráttur frá bótum vegna varanlegrar örorku aukinn til muna samhliða hækkun á margföldunarstuðli.

Það er ljóst, að 3. mgr. 7. gr. skaðabótalaga, sem nú er 4. mgr. 7. gr., sbr. 6. gr. laga nr. 37/1999, leiðir til þess, að ákveðinn hópur tjónþola, sem að mörgu leyti getur staðið misjafnlega á fyrir, fær ekki tjón sitt vegna varanlegrar örorku að fullu bætt í samræmi við tilgang laganna. Sá hópur situr því ekki við sama borð og aðrir tjónþolar, þegar kostað er kapps um það með skaðabótalögum, eins og dómstólar höfðu áður reynt við mótun ólögfestra meginreglna skaðabótaréttar, að gera tjónþola sem líkast því setta fjárhagslega, að ekkert tjón hefði borið að höndum.  Þetta lagaákvæði brýtur þannig að mínum dómi í bága við 65. gr. og 72. gr. stjórnarskrárinnar um jafnrétti og friðhelgi eignarréttar og ætti ekki að beita við ákvörðun bóta til aðaláfrýjanda.

Ég er sammála rökstuðningi meirihluta dómara í III. kafla atkvæðisins um bætur vegna varanlegs miska að öðru leyti en því, að ég tel rétt að hækka bæturnar um 50%. Líkamsmeiðsl aðaláfrýjanda eru svo sérstök og afleiðingar þeirra svo geigvænlegar, að engin efni eru til annars en að fullnýta hækkunarheimild 1. mgr. 4. gr. skaðabótalaga og dæma gagnáfrýjanda til að greiða honum 2.101.050 krónur til viðbótar við fyrri greiðslu vegna varanlegs miska.

Niðurstaða mín er þá sú, að gagnáfrýjandi verði dæmdur til að greiða aðaláfrýjanda 5.464.834 krónur með 2% ársvöxtum af 5.174.079 krónum frá 21. desember 1998 til 17. janúar 2000 en með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 af sömu fjárhæð frá þeim degi til 4. febrúar 2000 en af 5.464.834 krónum frá þeim degi til greiðsludags. Þá er hæfilegt, að gagnáfrýjandi greiði aðaláfrýjanda samtals 1.000.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.

                                                                   

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 18. september 2000.

Mál þetta, sem dómtekið var 25. ágúst sl., er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af Jóni Steinari Gunnlaugssyni hrl. f.h. Jóns Sigurðssonar læknis, kt. 220947-3439, Brekkubyggð 24, Garðabæ, á hendur Sjóvá-Almennum tryggingum hf., kt. 701288-1739, Kringlunni 5, Reykjavík, með stefnu sem birt var 8. mars sl.

Dómkröfur stefnanda eru að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda „eftirstöðvar örorkubóta, miskabóta og lögmannsþóknunar" að fjárhæð 5.850.860 krónur með 2% ársvöxtum af 5.174.079 krónum frá 21. desember 1998 til l. maí 1999, en með 4,5% ársvöxtum af sömu fjárhæð frá þeim degi til 17. janúar 2000, en með dráttarvöxtum skv. III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 af sömu fjárhæð frá þeim degi til 4. febrúar 2000, en af 5.850.860 krónum frá þeim degi til greiðsludags.  Þá krefst stefnandi málskostnaðar að skaðlausu úr hendi stefnda.

Dómkröfur stefnda eru aðallega að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda og honum tildæmdur málskostnaður að mati réttarins að viðbættum virðisaukaskatti.  Til vara krefst stefndi þess að krafa stefnanda verði lækkuð og að hvor aðili beri sinn kostnað af málinu.

I.

 Aðdragandi þessa máls er sá að stefnandi varð fyrir alvarlegu bílslysi á Keflavíkurvegi sunnan Kúagerðis 21. desember 1998.  Stefnandi hafði komið akandi á bifreið sinni ND-424 í átt til Reykjavíkur, þegar ökumaður bifreiðarinnar TM-871, sem á eftir kom, reyndi framúrakstur en missti stjórn á bifreið sinni, þannig að bifreið hans lenti á bifreið stefnanda með þeim afleiðingum að báðar bifreiðarnar ultu á veginum og lentu síðan utan vegar.  Í slysinu hálsbrotnaði stefnandi og hlaut fleiri áverka á höfði með þeim afleiðingum að hann lamaðist á fótum og að mestu leyti í handleggjum og höndum.

Stefnandi fól Jóni Steinari Gunnlaugssyni hrl. umboð 15. mars 1999 til að annast bótamál sitt gegn stefnda, Sjóvá-Almennum tryggingum hf., sem var hvort tveggja í senn vátryggjandi þeirrar bifreiðar sem slysinu olli, TM-871, og bifreiðar stefnanda, ND-424.  Samkvæmt samkomulagi við stefnda var óskað eftir örorku- og miskamati hjá Jónasi Hallgrímssyni lækni.  Í matsgerð hans 4. nóvember 1999 mat hann varanlega örorku stefnanda vegna slyssins 100% en varanlegan miska 90%.  Varð samkomulag milli aðila að leggja þessar matsniðurstöður til grundvallar samningum sínum um skaða- og miskabætur til handa stefnanda.  Kröfubréf lögmannsins er dagsett 17. desember 1999 en svarbréf stefnda 21. janúar 2000. Leiddi þetta til samnings um bótagreiðslur til stefnanda í janúar 2000 og var frá honum gengið með greiðslu að fjárhæð 46.229.239 krónur 4. febrúar 2000.  Við uppgjörið náðist ekki samkomulag um alla þætti málsins.  Var lokið greiðslu á því sem samkomulag var um, en síðan gerði lögmaður stefnanda fyrirvara um frekari kröfugerð á hendur stefnda varðandi þrjú tiltekin ágreiningsefni.  Voru fyrirvararnir skráðir á blað, og kvittaði stefndi fyrir móttöku þeirra við uppgjörið 4. febrúar 2000.  Með málssókn þessari kveðst stefnandi sækja stefnda um það sem hann telur að á vanti að fullnægjandi bætur hafi verið greiddar.

II.

Málssókn stefnanda er byggð á þremur tilteknum ágreiningsatriðum við stefnda svo sem áður sagði.  Stefnandi gerir með eftirfarandi hætti grein fyrir lagasjónarmiðum sínum:

l.  Í fyrsta lagi var gerður fyrirvari vegna ákvæðis 3. mgr. 7. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 (SKL) um að ekki skuli við útreikning örorkubóta samkvæmt lögunum miða við hærri árslaun en kr. 4.500.000,-.  Við samningsgerðina í janúar 2000 var þessi hámarksfjárhæð vegna ákvæðis 1. mgr. 15. gr. laganna, komin í kr. 5.252.850,-.  Vildi stefndi ekki miða örorkubætur til stefnanda við hærri fjárhæð, þó að fyrir lægi, að hann hefði aflað sér nokkru hærri tekna árið fyrir slysdag.  Frá upphafi til loka slysársins hafði hann haft kr. 5.704.766,- í tekjur.  Er samkomulag milli aðila um að telja þetta heildarvinnutekjur hans „á næstliðnu ári fyrir þann dag er tjón varð", eins og komist er að orði í 1. mgr. 7. gr. SKL, þar sem á slysdegi var komið mjög nærri árslokum.  Fyrirvari stefnanda var um frekari kröfugerð á hendur stefnda „vegna þess að tekjuviðmiðun við útreikning örorkubóta er lægri en raunveruleg tekjuöflun Jóns síðustu 12 mánuði fyrir slys.  Telur hann m.a. ákvæði skaðabótalaga um hámark þessarar viðmiðunar ekki standast stjórnarskrárvarin réttindi sín. "

Krafa stefnanda af þessu tilefni nemur kr. 3.073.029,-.  Tíföld árslaun stefnanda (sjá 1. mgr. 6. gr. SKL, sbr. l. gr. laga nr. 42/1996) nema kr. 57.047.660,-.  Frá þeirri fjárhæð dragast 32% eða kr. 18.255.251,- vegna aldurs stefnanda á slysdegi samkvæmt 1. mgr. 9. gr. SKL.  Heildarbætur til hans samkvæmt þessu miðað við 100% örorku ættu þá að nema kr. 38.792.409,- í stað kr. 35.719.380,- sem stefndi greiddi (þ.e. kr. 52.528.500,- að frádregnum kr. 16.809.120,- vegna aldurs).  Mismunurinn nemur kr. 3.073.029,- og er krafist greiðslu á honum.

Til stuðnings sjónarmiðum stefnanda um þennan kröfulið er á það bent, að aflahæfi hans telst til eignarréttinda, sem njóta verndar 72. gr. stjórnarskrárinnar.  Réttur hans til fullra skaðabóta úr hendi bótaskylds aðila fyrir missi starfsorku nýtur þar með þessarar verndar.  Í þessu felst, að löggjafanum er óheimilt að skerða þessi réttindi stefnanda.  Með ákvæðinu um hámark launaviðmiðunar telur stefnandi, að réttindin hafi verið skert þannig að ekki fái staðist.  Við athugun á þessu verður lagt til grundvallar, að meginaðferð laganna um ákvörðun fullra bóta fyrir missi starfsorku, þ.e.a.s. tíföldun árslauna margfölduð með örorkustigi, sbr. l. mgr. 6. gr., feli í sér fullar bætur.  Þetta þýðir, að með ákvæðinu um hámarkslaunaviðmiðun er stefnanda mismunað með ólögmætum hætti.  Honum er ekki bætt allt fjártjónið, þó að aðrir tjónþolar, sem ekki ná þessari viðmiðun fái allt tjón sitt bætt.  Í þessu felst mismunun sem stefnandi telur að hann þurfi ekki að sæta samkvæmt íslenskum stjórnskipunarlögum.

2.  Í öðru lagi var gerður fyrirvari vegna bóta fyrir varanlegan miska.  Stefndi vildi ekki greiða hærri bætur fyrir varanlegan miska heldur en nam 90% af viðmiðunarfjárhæð 4. gr. SKL, sem orðin var kr. 4.669.000,- í janúar 2000, eða kr. 4.202.100,-.  Af hálfu stefnanda var talið, að beita ætti niðurlagsákvæði 1. mgr. 4. gr. SKL og hækka þessa fjárhæð um 50%.  Hljóðaði hinn skriflegi fyrirvari stefnanda um frekari kröfugerð „vegna þess að ekki er greidd viðbót vegna varanlegs miska með heimild í l. mgr. 4. gr. skaðabótalaga, en félagið hefur ekki fallist á sjónarmið hans um að sú heimild sé til staðar, þótt miskastig nái ekki 100% ".

Krafa stefnanda af þessu tilefni nemur kr. 2.101.050,- eða 50% af þeirri fjárhæð sem stefndi var tilbúinn að greiða vegna varanlegs miska.

Af hálfu stefnanda er mótmælt þeirri afstöðu, sem fram kom hjá stefnda, að heimildin til að ákveða hærri bætur, heldur en leiddi af viðmiðunarfjárhæð 4. gr., væri bundin við þau tilvik að varanlegur miski hefði verið metinn 100%.  Er til þess vísað, að orðalag ákvæðisins bendir ekki til þessarar takmörkunar á gildi þess, auk þess sem engin skynsamleg rök virðast vera fyrir slíkri takmörkun.  Bent skal á, að mat á varanlegum miska samkvæmt 4. gr. felur fyrst og fremst í sér mat á afleiðingum tjóns frá læknisfræðilegu sjónarmiði.  Er slíkt mat gert eftir töflum um miskastig sbr. 3. mgr. 10. gr. SKL.  Í raun er hér um að ræða svonefnt læknisfræðilegt örorkumat eða töflumat, eins og að jafnaði var notað við ákvörðun örorkubóta fyrir gildistöku SKL.  Hækkunarheimildin er til staðar „þegar sérstaklega stendur á".  Hún hefur sýnilega þeim tilgangi að þjóna, að veita heimild til hækkunar, þegar í máli eru atvik, sem benda til þess að meiri miski hafi orðið heldur en mældur sé með læknisfræðilegu örorkumati.  Ljóst er að um slíkt getur verið að ræða, þó að „töflumatið" nái ekki 100%.

Í tilviki stefnanda eru alveg sérstök sjónarmið á ferðinni um miska hans.  Um er að ræða lækni sem var við góða heilsu fyrir slysið.  Stöðu hans og högum hefur verið raskað svo um munar.  Hann verður bundinn hjólastól það sem eftir er ævinnar.  Hann þarf hjálp við fjölmargar athafnir daglegs lífs, t.d. að klæða sig og hátta, komast í og úr hjólastólnum, ýta sér áfram, komast yfir þröskulda og í gegnum þröngar dyr, komast á baðherbergi og athafna sig þar, borða, beita fingrum t.d. við að fletta blöðum og bókum, vinna við tölvu og margt fleira.  Möguleikum til að njóta frístunda hefur verið umturnað.  Margt fleira mætti nefna.  Vart er unnt að hugsa sér alvarlegri miska, heldur en þann sem hér um ræðir.  Sé einhvern tíma tilefni til að nýta heimildina til hækkunar bóta fyrir varanlegan miska frá „töflumiska" hlýtur það að vera í tilviki sem þessu.  Er þess krafist, að hækkunin verði 50%, sem er sama hlutfall og mest er unnt að fara fram úr hámarksmiskabótum samkvæmt ákvæði 1. mgr. 4. gr. SKL.

3.  Í þriðja lagi var gerður fyrirvari „vegna þess að ekki er greidd lögmannsþóknun í samræmi við gjaldskrá lögmanns hans Jóns Steinars Gunnlaugssonar hrl. ".  Stefndi vildi ekki greiða kostnað þann sem stefnandi hafði af þjónustu lögmanns síns í málinu.  Samkvæmt gjaldskrá lögmanns stefnanda nam þóknun hans, miðað við þær bætur sem stefndi samþykkti að greiða, kr. 1.343.599,- auk virðisaukaskatts kr. 329.182, ­eða samtals kr. 1.672.781,-.  Stefndi greiddi vegna þessa kostnaðar aðeins kr. 800.000,- auk virðisaukaskatts kr. 196.000,- eða samtals kr. 996.000,-.  Mismunurinn nemur kr. 676.781,- og er hans krafist í málinu. Af hálfu stefnda kom ekki fram hvernig sú fjárhæð væri fundin, sem hann greiddi, heldur aðeins að honum þætti innheimtuþóknunin, sem krafist var, há.

Krafa stefnanda um þennan kostnað byggist á því, að stefnda beri skv. l. gr. SKL skylda til að bæta honum allt fjártjón sem af slysi hefur hlotist.  Til þess heyri þóknun sem hann þurfti að greiða lögmanni sínum fyrir að annast málið fyrir sína hönd gagnvart stefnda.  Fullt tilefni er til að ráða sér lögmann til að annast um mál af því tagi sem hér um ræðir.  Bendir stefnandi á að gjaldskráin sem lögmaður hans starfi eftir sé í samræmi við sambærilegar gjaldskrár annarra lögmanna á Íslandi, sem flestar hverjar séu að stofni til byggðar á gjaldskrá Lögmannafélags Íslands, sem gefin var út af félaginu allt þar til fyrir nokkrum árum.  Það hafi því ekki svo vitað sé verið unnt að kaupa þessa þjónustu lægra verði annars staðar.  Þar að auki sé lögmannsþjónusta af því tagi sem hér um ræðir svo persónuleg, að játa verði tjónþola rétti til að velja sér þann lögmann, sem hann helst kjósi sjálfur.  Aðalatriðið sé að kostnaðurinn við þetta sé ákveðinn á þann hátt sem tíðkast á þessu sviði á Íslandi og hljóti stefndi að verða að halda sér skaðlausum af honum.

Stefnukrafan nemur samanlögðum þessum þremur fjárhæðum eða kr. 5.850.860,-.  Vaxta er krafist skv. 16. gr. SKL af tveimur fyrri kröfuliðunum fram til 17. janúar 2000 en þá var einn mánuður liðinn frá því kröfubréf var sent, sjá hér 3. mgr. 9. gr. vaxtalaga nr. 25/1987.  Frá gildistöku 12. gr. laga nr. 37/1999, þar sem gerð var breyting á 16. gr. SKL, l. maí 1999, er krafist 4,5% ársvaxta eins og þar er kveðið á um.  Krafist er dráttarvaxta af þessum sömu kröfuliðum frá 17. janúar 2000 en allri stefnufjárhæðinni frá 4. febrúar 2000, en þann dag greiddi stefndi þær bætur sem hann var tilbúinn að greiða og tók við fyrirvara um eftirstöðvarnar.

III.

Af hálfu stefnda er talið að fullnaðaruppgjör hafi farið fram vegna afleiðinga af slysi stefnanda eins og þær eru metnar í matsgerð Jónasar Hallgrímssonar og hafi stefndi uppfyllt greiðsluskyldu sína.  Bætur hafi verið reiknaðar og greiddar í samræmi við ákvæði skaðabótalaga nr. 50/1993 (SKL), sbr. lög nr. 42/1996 og almennar reglur skaðabótaréttarins.  Í greinargerð stefnda segir um ágreining aðila þetta:

l.  Bætur fyrir varanlega örorku.  Útreikningur bóta vegna 100% varanlegrar örorku nam kr. 35.719.380.  Tífalt hámark árslauna samkvæmt 3. mgr. 7. gr. SKL miðað við vísitölu janúarmánaðar 2000 eða kr. 5.252.850 en að frádregnum 32% vegna aldurs stefnanda á slysdegi sbr. 9. gr. SKL.  Óumdeilt er að útreikningur félagsins er í fullu samræmi við ákvæði skaðabótalaga.  Samkvæmt því hefur stefndi að fullu staðið skil á lögboðnum bótum fyrir varanlega örorku.

Í almennum athugasemdum sem fylgdu frumvarpi til skaðabótalaga segir að rök fyrir hámarksfjárhæð árslauna í 3. mgr. 7. gr. séu tvíþætt.  Annars vegar þau að eðlilegt þyki að menn með óvenjuháar tekjur beri sjálfir það tjón sem stafi af missi þess hluta teknanna sem fari að miklum mun fram úr því sem venjulegt er meðal tekjuhárra manna.  Tekjumiklir menn geti auðveldlega keypt vátryggingar sem tryggja þeim bætur fyrir tjón er þeir kunna að verða fyrir vegna þessarar takmörkunar.  Hin rökin fyrir takmörkun bótafjárhæðar séu þau að leggja verður til grundvallar að því fylgi almennt talsverður ávinningur að almannatryggingabætur og aðrar greiðslur frá þriðja manni verði ekki dregnar frá bótakröfu.

Á því er byggt af hálfu stefnda að lög nr. 50/1993 séu gild að stjórnskipunarrétti og 3. mgr. 7. gr. laganna sé bindandi réttarheimild.  Löggjafinn hafi ótvíræða heimild til að setja reglur um ákvörðun bóta vegna skerðingar á tekjuöflunarhæfi.  Í lögum á sviði bótaréttar megi finna ákvæði sem kveða á um hámark bóta og jafnframt ákvæði um lækkunarheimildir dómstóla sbr. t.d. 24. gr. SKL.  Ákvæði 3. mgr. 7. gr. styðst við málefnaleg sjónarmið og gildir ákvæðið um alla tjónþola sem eins stendur á um og jafnt hvort sem um ákvörðun árslauna fer eftir 1. eða 2. mgr. 7. gr.

Tekjuháir einstaklingar eiga almennt ríkari bótarétt gagnvart þriðja manni og njóta því í ríkara mæli þess að bætur eru ekki dregnar frá.  Stefnandi var þegar slysið varð starfandi læknir og ríkisstarfsmaður og nýtur samkvæmt því réttar til örorkubóta úr slysatryggingu ríkisstarfsmanna og stéttarfélags síns.  Bótafjárhæð slysatryggingar ríkisstarfsmanna vegna 90% miska (læknisfræðilegrar örorku) nam í desember 1998 kr. 6.411.015, sbr. reglur nr. 31/1990.  Þá er réttur til örorkulífeyris úr lífeyrissjóði ...  Er á því byggt að stefnandi hafi þegar fengið fjártjón sitt að fullu bætt.

2.  Bætur fyrir varanlegan miska.  Á því er byggt að greiddar hafi verið fullar bætur að fjárhæð kr. 4.202.101 fyrir 90% miska en ekki er ágreiningur um miskamat.  Ákvæði um að heimild sé til að ákveða hærri bætur þegar sérstaklega standi á eða allt að 6.000.000 kr. gildi um hækkun eftir að 4.000.000 kr. markinu vegna 100% örorku sé náð.  Sú niðurstaða er í samræmi við orðalag ákvæðisins og athugasemdir um 4. gr. í greinargerð með frumvarpi til skaðabótalaga.  Þar segir að í undantekningartilvikum kunni fjárhæð bóta eftir að 4.000.000 kr. markinu er náð að þykja ófullnægjandi.

3.  Bætur vegna lögmannsþóknunar.  Við bótauppgjör voru stefnanda greiddar bætur kr. 800.000 án VSK vegna nauðsynlegrar lögmannsaðstoðar.  Á því er byggt að ekki hvíli á stefnda frekari greiðsluskylda samkvæmt þessum kröfulið.

Á því er byggt að stefnda sé óskylt að greiða bætur samkvæmt gjaldskrá lögmanns stefnanda án tillits til vinnuframlags hans og að samningar stefnanda við lögmanninn geti ekki leitt til ríkari greiðsluskyldu stefnda en leiði af reglum skaðabótaréttar um bótaákvarðanir og að teknu tilliti til skyldu tjónþola að takmarka tjón sitt.

Þá er á því byggt að fjárhæð reiknings fyrir lögmannsþóknun að fjárhæð kr. 1.343.599 (án VSK) sé í þessu máli umfram hæfilegt endurgjald lögmanns í skilningi 24. gr. laga um lögmenn nr. 77/1998.  Aldrei var ágreiningur um bótaskyldu, gagnaöflun umfangslítil og einföld og sama gilti um útreikning bóta.  Ljóst er af þessu að vinnuframlag og verk lögmannsins í málinu var ekki tímafrekt.

Að lokum skal vísað til þess að samkvæmt meginreglum skaðabótaréttarins gildir einstaklingsbundið mat við bótaákvörðun ...

Varakröfu sína rökstyður stefndi með eftirgreindum hætti:

Í varakröfu um kröfulækkun felst krafa um að eingöngu verði ákvarðaðar viðbótarbætur vegna lögmannsþóknunar og að sá kröfuliður verði verulega lækkaður.  Sýknað verði af öðrum kröfuliðum.  Samkvæmt reikningi lögmanns stefnanda er lögmannsþóknun reiknuð samkvæmt gjaldskrá að viðbættu 30% álagi.  Samkvæmt viðurkenndri uppgjörsvenju sem ekki sætir ágreiningi er hámark þeirrar lögmannsþóknunar sem vátryggingafélag greiðir þóknun án álags.  Að öðru leyti er vísað til sjónarmiða sem rakin eru varðandi þennan kröfulið í aðalkröfu stefnda sem í meginatriðum eiga við um varakröfu.

Um vaxtakröfu stefnanda segir stefndi:

Með lögum nr. 32/1999 urðu breytingar á skaðabótalögum m.a. ákvæði 16. gr. um vexti sem hækkuðu í 4,5%.  Í 15. gr. breytingalaganna kemur skýrt fram að lögin gildi eingöngu um slys sem verða eftir gildistökuna 1. maí 1999.  Samkvæmt því er mótmælt kröfu stefnanda um 4,5% vexti frá 1. maí 1999.

IV.

Niðurstaða:

Ekki er deilt um að stefndi hefur greitt stefnanda bætur vegna varanlegrar örorku stefnanda í samræmi við ákvæði skaðabótalaga.  Stefnandi heldur því hins vegar fram að ákvæði 3. mgr. 7. gr. skaðabótalaga um hámark tekjuviðmiðunar sé brot á friðhelgi eignarréttarins skv. 1. mgr. 72. gr. stjórnarskrárinnar og beri stefnda að greiða honum bætur án hámarkslaunaviðmiðunar.

Álykta verður að löggjafinn hafi heimild, sbr. 2. gr. stjórnarskrárinnar, til að setja lög um takmörk bótafjárhæðar.  Hér er ekki um skerðingu á eignarrétti að tefla heldur almennt ákvæði um hámark bóta sem nær til allra, sem hafa hærri árslaun en 4.500.000 krónur á næstliðnu ári fyrir þann dag er tjón varð - með breytingum til hækkunar eða lækkunar þeirra árslauna, sbr. ákvæði 15. gr. laganna.

Í öðru lagi byggir stefnandi kröfu á því að hækka beri bætur fyrir varanlegan miska um 50% á grundvelli heimildar í 1. mgr. 4. gr. skaðabótalaga um hækkun bóta eins og þar segir.

Í athugasemdum við 4. gr. skaðabótalaga segir m.a.: „Í undantekningar-tilvikum kann fjárhæð bóta eftir 4.000.000 kr. markinu að þykja ófullnægjandi, einkum þegar tjónþoli hefur orðið fyrir margvíslegum líkamsspjöllum, t.d. bæði orðið fyrir mikilli sköddun á útlimum og misst sjón á báðum augum. Heimild í næstsíðasta málslið 1. mgr. til að ákveða hærri bætur, þegar sérstaklega stendur á, er sett í því skyni að unnt verði að veita hærri bætur í slíkum tilvikum." Samkomulag var með aðilum að óska eftir örorku- og miskamati hjá Jónasi Hallgrímssyni lækni.  Mat hann varanlega örorku stefnanda vegna slyssins 100% en varanlegan miska 90%.  Samkomulag varð um að leggja þessar matsniðurstöður til grundvallar samningi um skaða- og miskabætur til handa stefnanda. Verður því fallist á með stefnda að miskabætur hans til stefnanda séu réttar.  

Í þriðja lagi er ágreiningur um bætur til handa stefnanda vegna lögmanns-þóknunar lögmanns hans fyrir að annast málið fyrir hann gagnvart stefnda.  

Óumdeilt er að umkrafin fjárhæð er í samræmi við gjaldskrá lögmannsins.  Hins vegar er á því byggt af hálfu stefnda að krafan sé óhæfilega há miðað við vinnuframlag lögmannsins og brjóti þannig í bága við ákvæði 1. mgr. 24. gr. laga um lögmenn nr. 77/1998.

Þegar lögmaður annast mál fyrir umjóðanda sinn þar sem bótafjárhæð skiptir tugum milljóna, svo sem hér um ræðir, verður hæfilegt endurgjald fyrir störf lögmannsins ekki einvörðungu miðað við þann tíma sem lögmaðurinn ver til verksins og fyrirhöfn hans í því sambandi.  Einnig verður að líta til þeirrar ábyrgðar er óhjákvæmilega fylgir starfi lögmanns þegar um slíka fjárhæð fyrir hönd tjónþola er fjallað.  Verður þannig að telja að lögmæta ástæðu skorti fyrir stefnda til að lækka bótafjárhæð til stefnanda samkvæmt þessum kröfulið.

Samkvæmt framangreindu verður stefndi dæmdur til að greiða stefnanda 676.781 krónu með dráttarvöxtum skv. III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 4. febrúar 2000 til greiðsludags.

Rétt þykir að stefndi greiði stefnanda 180.000 krónur í málskostnað og er þar með talinn virðisaukaskattur.

Páll Þorsteinsson héraðsdómari kveður upp dóminn.

Dómsorð:

Stefndi, Sjóvá-Almennar tryggingar hf., greiði stefnanda, Jóni Sigurðssyni, 676.781 krónu með dráttarvöxtum skv. III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 af sömu fjárhæð frá 4. febrúar 2000 til greiðsludags.

Stefndi greiði stefnanda 180.000 krónur alls í málskostnað.